Hæstiréttur íslands
Mál nr. 74/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 8. febrúar 2006. |
|
Nr. 74/2006. |
Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli(enginn) gegn X (Sigurður S. Júlíusson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. febrúar 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. febrúar 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Fallist er á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. febrúar 2006.
Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hefur krafist þess með skírskotun til a-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103 gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 að X, [kt.], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 17. febrúar 2006.
Kærða var í gær stöðvuð af tollvörðum á Keflavíkurflugvelli við hefðbundið tolleftirlit. Hún hafði skömmu áður komið til landsins frá París ásamt unnusta sínum, A. Við leit á sameiginlegum farangri þeirra fannst í farangurstösku, falið undir fóðri töskunnar, umtalsvert magn af amfetamíni. Við frumrannsókn tæknideildar lögreglu kom í ljós að um var að ræða um það bil 3,5 kíló af mjög hreinu og sterku amfetamíni. Lögreglan telur að efnið sé óvenju hreint og ætlar að götuverðmæti þess sé um það bil 30-60 milljónir króna.
Kærða hefur andmælt kröfu um gæsluvarðhald og segist ekki hafa vitað að til stæði innflutningur á fíkniefnum eða að fíkniefni væru falin í ferðatösku þeirra.
Kröfu sinni til stuðnings vísar sýslumaður til þess að rannsókn málsins sé á frumstigi og eftir sé að rannsaka hverjir kunni að tengjast þessum innflutningi. Verði kærðu veitt ótakmarkað frelsi megi ætla að hún muni spilla fyrir rannsókn málsins.
Rannsókn máls þessa er á frumstigi. Kærða er grunuð um brot samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Hún var í för með unnusta sínum sem hefur viðurkennt brotið. Í þágu rannsóknar málsins og með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 ber að fallast á framkomna kröfu og verður kærða úrskurðuð til að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 17. febrúar 2006.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærða, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 17. febrúar 2006.