Hæstiréttur íslands
Mál nr. 94/2009
Lykilorð
- Skaðabætur
- Óvígð sambúð
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 22. október 2009. |
|
Nr. 94/2009. |
Hafdís Perla Hafsteinsdóttir(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Sigurjóni Þórðarsyni og Guðfinnu Arngrímsdóttur (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Skaðabætur. Óvígð sambúð. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
Í málinu krafði HP, S og G um skaðabætur að fjárhæð 940.708 krónur og afhendingar á munum sem S og G hefðu fjarlægt af heimili hennar er hún var erlendis. Var þar um að ræða muni sem hún kvaðst hafa átt, muni sem foreldrar hennar hefðu átt en framselt henni heimild að, og muni sem hún hafi átt í sameign með H, fyrrverandi sambýlismanni sínum og syni S og G, en H lést af slysförum árið 2000. Í síðastgreindum tilvikum krafðist hún helmings af ætluðu andvirði munanna. Fallist var á það með HP að S og G hefðu brotið rétt á henni með því að brjóta upp lás á íbúðinni og fara inn í hana. Hins vegar var talið ósannað að S og G hefðu tekið í sínar vörslur muni þá sem hluti skaðabótakröfu HP tók til, auk muna sem HP krafðist afhendingar á. Þá var jafnframt talið að hjólbarðar og nánar tilgreind húsgögn og rafmagnstæki hefðu verið greidd af H og því í eigu dánarbús hans. Hins vegar viðurkenndu S og G að hafa tekið í misgripum rúmföt sem voru í eigu HP og voru þau dæmd til að greiða henni 12.400 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. febrúar 2009. Hún krefst þess að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða sér 940.708 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. ágúst 2000 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til 22. maí 2007 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún þess jafnframt að stefndu verði gert að afhenda sér kertastjaka, sykurstauk, stálskál, gullarmband, rauða möppu með persónulegum gögnum áfrýjanda og eldhúsborð úr gleri. Loks krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Krafa áfrýjanda um vexti fyrir tímabilið fram að 1. júlí 2001 er gerð með vísan til 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 án þess að vaxtahæð sé tilgreind. Heimild 14. gr. laganna til þess að hafa þennan hátt á kröfugerð um vexti náði ekki til vaxta samkvæmt 7. gr. þeirra. Verður því kröfu áfrýjanda um vexti fram að 1. júlí 2001, en þann dag tóku lög nr. 38/2001 gildi, vísað frá héraðsdómi.
I
Krafa áfrýjanda um að stefndu greiði henni 940.708 krónur auk vaxta er á því byggð á þau beri skaðabótaábyrgð gagnvart henni vegna tapaðs verðmætis muna sem stefndu hafi fjarlægt af heimili hennar að Heiðarholti 4 í Keflavík sumarið 2000 er hún var stödd erlendis. Er þar um að ræða muni sem hún kveðst hafa átt ein, muni sem foreldrar hennar hafi átt, en þeir hafi framselt henni heimild að, og muni sem hún hafi átt í sameign með fyrrverandi sambúðarmanni sínum, Hlyni Sigurjónssyni heitnum, syni stefndu. Í síðastnefnda tilvikinu krefst hún helmings af ætluðu andvirði munanna. Stefndu, sem voru einu erfingjar Hlyns, krefjast sýknu af kröfunni af ástæðum sem greinir í hinum áfrýjaða dómi en hafa ekki sérstaklega gert tölulegan ágreining um útreikning áfrýjanda á fjárhæð kröfunnar. Vísast til héraðsdóms um nánari lýsingu á atvikum sem að þessu lúta og málsástæðum aðila.
Í málflutningi sínum hefur áfrýjandi lagt áherslu á að stefndu hafi verið óheimilt að fara inn í íbúðina að Heiðarholti í fjarveru sinni og án sinnar vitundar og fjarlægja þaðan innanstokksmuni sem þau hafi talið að tilheyrðu syni þeirra. Stefndu hafa meðal annars réttlætt þessa gjörð með því að þau hafi sem einkaerfingjar Hlyns heitins átt íbúðina á móti áfrýjanda og innbúshluti sem í henni hafi verið. Fyrst eftir andlát Hlyns hafi verið fullt samkomulag um að þau hefðu sinn eigin lykil að íbúðinni og þar með óheftan aðgang að henni. Áfrýjandi hafi síðan skipt um lás til að hindra aðgang þeirra eftir að ágreiningur hafi verið kominn upp milli aðila. Telja þau að áfrýjandi hafi ekki búið á staðnum sumarið 2000 þar sem hún hafi sótt vinnu í Reykjavík og dvalið þar á heimili foreldra sinna. Hafi hún ekki flutt lögheimili sitt í íbúðina fyrr en eftir að stefndu fóru þar inn og fjarlægðu umrædda innbúsmuni. Fallist verður á með áfrýjanda að stefndu hafi brotið rétt á henni með því að fara inn í íbúðina að Heiðaholti með því að brjóta upp lás á íbúðinni enda verður íbúðin talin hafa verið í umráðum áfrýjanda á þessum tíma. Á hinn bóginn verður ekki fallist á með áfrýjanda að þetta hafi sjálfkrafa þau áhrif að stefndu verði að sanna að þau hafi ekki tekið ýmsa smáhluti sem áfrýjandi heldur fram að þau hafi tekið en þau kannast ekki við.
Í héraði var hafnað vörnum stefndu sem á því byggðust, að endanlegt uppgjör hefði farið fram milli aðila í tengslum við skiptingu á söluverði íbúðarinnar að Heiðarholti 4 og að kröfur áfrýjanda væru fallnar niður fyrir sakir tómlætis hennar við að halda þeim fram. Er fallist á þessar niðurstöður.
II
Stefndu voru í héraði sýknuð af kröfu áfrýjanda að öðru leyti en því að þau voru dæmd til að greiða henni 12.400 krónur vegna rúmfata sem þau viðurkenndu að hafa tekið úr íbúðinni en sannað þótti að áfrýjandi hefði keypt eftir andlát Hlyns. Talið var ósannað að stefndu hefðu tekið úr íbúðinni nokkra muni sem krafa áfrýjanda tekur til. Er þar um að ræða „grilláhöld, sex bjórglös og sex staup af gerðinni Ritzenhoff frá Casa, fjögur plastglös, sex viskustykki, sex bolla og hnífapör“. Hið sama á við um muni sem áfrýjandi kveðst hafa átt persónulega. Þykir mega staðfesta niðurstöðu dómsins að því er varðar kröfuliði áfrýjanda vegna þessara hluta.
Í öðrum tilvikum byggist niðurstaða dómsins á mati sönnunargagna í málinu um fjárframlög áfrýjanda og Hlyns heitins til kaupa á íbúðinni að Heiðarholti og til kaupa á innbúshlutum sem voru í íbúðinni og stefndu viðurkenndu að hafa fjarlægt þaðan. Við málflutning fyrir Hæstarétti hafa stefndu fallist á að áfrýjandi hafi með nýjum skjölum sýnt fram á að innlegg að fjárhæð 254.151,47 krónur 15. mars 1999 inn á reikning Hlyns hafi verið frá áfrýjanda komið. Jafnframt hafa þau fallist á að áfrýjandi hafi með nýju skjali sýnt fram á að 450.000 krónur sem Hlynur afhenti fasteignasala 30. apríl 1999 vegna kaupa á íbúðinni sé ekki að rekja til reiðufjár sem hann hafi fengið við tékkaskipti 15. apríl 1999 svo sem þau héldu fram í héraði og lýst er í hinum áfrýjaða dómi. Þrátt fyrir þetta mótmæla þau því að fé til þessarar greiðslu hafi komið frá áfrýjanda og telja óljóst hvaðan það hafi komið. Í héraðsdómi var talið að allar líkur stæðu til þess „að greiðsla á eftirstöðvum útborgunar í íbúðina hafi stafað frá Hlyni heitnum.“ Komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að áfrýjandi hefði greitt hluta af útborgun í íbúðinni. Að teknu tilliti til framangreinds málflutnings stefndu fyrir Hæstarétti en með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um aðra þætti sem þetta varða, verður talið að Hlynur heitinn teljist hafa lagt fram sýnu meira fé en áfrýjandi til greiðslu á útborguninni, þó að ekki verði fullyrt hverju þar hafi munað milli þeirra. Andvirði íbúðarinnar við sölu haustið 2000 var hins vegar skipt jafnt milli þeirra, svo sem grein er fyrir gerð í héraðsdómi. Þykir mega hafa hliðsjón af þessu, svo sem gert er í héraðsdóminum, þegar dæmt er um kröfu áfrýjanda um skaðabætur vegna húsmuna sem stefndu fjarlægðu úr íbúðinni að Heiðarholti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður úrlausn dómsins um kaup húsmuna í versluninni Casa, Raftækjaverslun Íslands hf., versluninni Einar Farestveit & Co. hf. og versluninni Exó staðfest. Þá verður á sama hátt staðfest úrlausn dómsins um tvo hjólbarða og Ilos gólflampa.
III
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er ósannað að stefndu hafi undir höndum kertastjaka, sykurstauk, stálskál, gullarmband og möppu með persónulegum gögnum áfrýjanda, sem áfrýjandi krefst afhendingar á. Við flutning málsins benti áfrýjandi á 77. gr., sbr. 73. gr., laga nr. 90/1989 um aðför og taldi að í þessum ákvæðum fælist heimild fyrir kröfugerð um afhendingu muna þó að ekki væri sýnt fram á að þeir væru í vörslum þess sem krafa beinist að. Á þetta verður ekki fallist. Verður kröfu áfrýjanda um að stefndu afhendi henni framangreinda muni vísað frá héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna kröfu áfrýjanda um að stefndu afhendi henni eldhúsborð úr gleri sem þau hafa viðurkennt að hafa tekið úr íbúðinni.
Kröfu áfrýjanda um miskabætur var í héraðsdómi vísað frá dómi. Sú úrlausn er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og stendur því óröskuð.
Að því slepptu sem að framan greinir um frávísun á kröfum áfrýjanda frá héraðsdómi verður fallist á kröfu stefndu um staðfestingu hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en um málskostnað. Talið verður að stefndu hafi með því að fara inn í íbúðina að Heiðarholti án samráðs við áfrýjanda og fjarlægja þaðan innbúsmuni, átt þátt í því að til þess ágreinings kom sem leiddi til þeirrar málssóknar áfrýjanda sem hér er til lykta leidd. Við ákvörðun málskostnaðar úr hendi áfrýjanda verður höfð hliðsjón af þessu og ákveðst hann í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Kröfu áfrýjanda, Hafdísar Perlu Hafsteinsdóttur, um vexti fram að 1. júlí 2001 er vísað frá héraðsdómi
Kröfu áfrýjanda, um afhendingu á kertastjaka, sykurstauk, stálskál, gullarmbandi og möppu með persónulegum gögnum áfrýjanda er vísað frá héraðsdómi.
Að öðru leyti er hinn áfrýjaði dómur óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi greiði stefndu, Guðfinnu Arngrímsdóttur og Sigurjóni Þórðarsyni, samtals 1.400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. desember 2008.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 22. október sl., er höfðað með áritun lögmanns stefndu á stefnu málsins hinn 22. maí 2007.
Stefnandi er Hafdís Perla Hafsteinsdóttir, kt. 150579-4309, Barðaströnd 16, Seltjarnarnesi.
Stefndu eru Sigurjón Þórðarson, kt. 050741-2739, og Guðfinna Arngrímsdóttir, kt. 090344-3669, bæði til heimilis að Hraunsvegi 6, Reykjanesbæ.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum 1.540.708 krónur með skaðabótavöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. ágúst 2000 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 til stefnubirtingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að afhenda stefnanda in solidum eftirtalda muni:
1. Kertastjaka fyrir sprittkerti á ljósmynd á dskj. nr. 79, bls. 1.
2. Sykurstauk á ljósmynd á dskj. nr. 79, bls. 7.
3. Stálskál á ljósmynd á dskj. nr. 79, bls. 7.
4. Gullarmband (Bismarck), sbr. dskj. nr. 69.
5. Rauða möppu með persónulegum gögnum stefnanda og merkta henni á ljósmynd á dskj. nr. 79, bls. 7.
6. Eldhúsborð úr gleri frá Ikea, sbr. ljósmynd á dskj. nr. 79, bls. 7.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndu krefjast þess aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Við aðalmeðferð málsins féll stefnandi frá því að krefjast afhendingar á svarfjólubláum borðlampa á þremur fótum, sbr. tölulið nr. 6 á bls. 1 í stefnu.
II.
Stefnandi kveðst hafa kynnst fyrrum sambýlismanni sínum, Hlyni heitnum Sigurjónssyni, í ágúst 1996. Sambúð þeirra hafi hafist í maí 1998 á heimili stefndu, foreldra Hlyns, að Hraunsvegi 6 í Njarðvík og hafi þau það sumar ruglað saman reitum sínum fjárhagslega eins og hjón væru. Hvað varðar fjárhagslega samstöðu þeirra vísar stefnandi til aðilaskýrslu sinnar í máli stefnanda á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., sem lögð hafi verið fram sem dskj. nr. 4 í þessu máli. Fjárhagsleg samstaða þeirra Hlyns hafi þegar verið orðin mikil í ársbyrjun 1998 og allt til andláts Hlyns. Kveðst stefnandi t.d. hafa lagt allt sparifé sitt, 98.000 krónur, í sameiginlegan sjóð þeirra hinn 15. apríl 1998. Um málavexti vísar stefnandi einnig nánar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli stefnanda gegn Tryggingamiðstöðinni 15. apríl 2005 á dskj. nr. 65, en hann hafi sönnunargildi í málinu samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Hinn 10. apríl 1999 hafi stefnandi og Hlynur fengið afhenta íbúð að Heiðarholti 4 í Keflavík og flutt inn í hana í lok maí sama ár. Hafi þau búið saman í íbúðinni þar til Hlynur heitinn lést hinn 15. jan. 2000 í umferðarslysi á Spáni. Til að gera langa sögu stutta hafi stefnandi farið til útlanda 16. júlí 2000 og þegar hún hafi komið heim aftur 2. ágúst 2000 hafi nánast verið búið að tæma íbúð hennar og hirða allt úr henni. Um frekari málavexti þessu tengda vísar stefnandi til lögregluskýrslna á dskj. nr. 9 og 32 og aðilaskýrslu stefnanda á dskj. nr. 3. Þá vísar stefnandi til dskj.nr. 76 um þá muni sem hafðir hafi verið á brott. Eins og gögnin beri með sér hafi stefndu verið ófáanleg til að skila þessum hlutum eða bæta þá. Stefnandi kveður það hafa aukið mjög á vanlíðan og miska stefnanda vegna andláts sambýlismanns síns.
Síðan innbrotið hafi átt sér stað hafi eftirmálin verið mikil þrautaganga. Í fyrsta lagi hafi sýslumaðurinn í Keflavík tregðast við að hafast að í málinu og í öðru lagi hafi hann ekki tekið í sínar vörslur þá muni sem teknir höfðu verið traustataki. Stefnandi kveður stefndu síðan hafa nýtt sér þessa muni átölulaust af hálfu yfirvalda. Stefnandi kveðst finna til mikillar niðurlægingar vegna eftirmálanna, þ.e. að yfirvöld hafi í reynd látið afskiptalaust að brotist hafi verið inn á heimili hennar og munir þar teknir og án þess að nokkur hafi verið saksóttur þrátt fyrir augljóst lögbrot. Svo mjög hafi þetta fengið á stefnanda að hún geti ekki kvatt þennan þátt lífs síns (innbrotið) nema að leita réttar síns áður. Reynt hafi verið af hálfu stefnanda að ná sáttum í málinu og lyktum án málshöfðunar en stefndu hafa ekki léð máls á að koma á nokkurn hátt til móts við stefnanda. Því eigi hún því ekki annarra kosta völ en að fá hlut sinn réttan fyrir dómstólum.
Stefndu mótmæla málavaxtalýsingu í stefnu og hinum fjölmörgu framlögðu aðilaskýrslum stefnanda, en stefndu telja lýsinguna villandi og einungis lýsa málsástæðum að litlu leyti. Þá mótmæla stefndu því að lýsing málsatvika í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. apríl 2005 í máli stefnanda og Tryggingamiðstöðvarinnar verði talin hafa sönnunargildi í máli þessu, einkum þar sem stefndu hafi ekki átt aðild að því máli og sakarefnið hafi ekki verið hið sama og í máli þessu.
Stefndu kveða málavexti vera þá að sonur þeirra, Hlynur Þór Sigurjónsson, hafi látist í umferðarslysi 15. janúar 2000. Hann hafi kynnst stefnanda sumarið 1996, en stefnandi hafi þá búið á Seltjarnarnesi. Þá um veturinn hafi Hlynur orðið tvítugur og hafi vinur hans, Atli Rúnar Hermannsson, gefið honum fjögur glös á fæti í afmælisgjöf, sjá dskj. nr. 82. Hlynur hafi á þeim tíma átt íbúð að Borgarvegi í Reykjanesbæ en ekki búið þar, heldur í foreldrahúsum að Hraunsvegi, einnig í Reykjanesbæ. Þegar Hlynur hafi keypt íbúðina að Borgarvegi árið 1995 hafi stefndu gefið honum m.a. pottasett, sjá dskj. 9, skjal 9, síðustu ljósmynd. Hlynur hafi starfað í vélsmiðju föður síns og auk þess stundað viðskipti með notaðar bifreiðar. Stefnandi hafi hins vegar stundað nám við Menntaskólann í Reykjavík, en fengið vinnu í Sparisjóði Keflavíkur sumarið 1998.
Stefndu kveða ekki rétt með farið í stefnu að stefnandi hafi lagt fé í sameiginlegan sjóð þeirra Hlyns í apríl 1998, enda hefðu þau ekki á þeim tíma veitt hvort öðru úttektarheimild á reikninga sína. Auk þess hafi þau aldrei stofnað neina sameiginlega reikninga, eins og stefnandi haldi fram m.a. í dskj. 4. Hið rétta sé að hinn 15. apríl 1998 hafi Hlynur fengið lán hjá stefnanda að fjárhæð 98.000 krónur, sem hann hafi endurgreitt með vöxtum 17. júlí sama ár, sjá dskj. 83. Hlynur hafi þá stofnað tékkareikning, sjá dskj. 84 og 85, bls. 1, sem hann hafi síðar veitt stefnanda heimild til úttektar á, sjá fskj. 2 með dskj. 4, sbr. dskj. 14, 1. tl., ásamt sparisjóðsbók sinni, en stefnandi hafi samt sem áður ekki lagt laun sín inn á fyrrgreindan tékkareikning fyrr en tæpu ári síðar, sumarið 1999, rúmum sex mánuðum áður en Hlynur lést, sjá dskj. 4. Að auki hafi Hlynur aldrei veitt stefnanda aukakort á kreditkortareikning sinn 89. Engin fjárhagsleg samstaða hafi því myndast með Hlyni og stefnanda á árinu 1998.
Sumarið 1998 hafi stefnandi dvalið virka daga að Hraunsvegi í boði Hlyns og stefndu, án þess að leggja nokkuð til reksturs þess heimilis eða taka þátt í heimilishaldi, en jafnan farið heim til sín á Seltjarnarnes um helgar, gjarnan með Hlyni. Stefndu kveða ágreining milli aðila um það hvenær Hlynur og stefnandi hafi stofnað til sambúðar en stefndu telji það ekki hafa gerst þá um sumarið heldur sumarið 1999. Haustið 1998 hafi stefnandi horfið aftur til náms síns í Reykjavík og hafi þá fækkað heimsóknum hennar í Reykjanesbæ. Hlynur hafi hins vegar dvalið áfram í foreldrahúsum um veturinn og stundaði fyrrgreind störf, auk afgreiðslustarfa í aukavinnu á veitingastað í Keflavík á kvöldin og um helgar og hlutastarfs við sölu ljósabúnaðar í verslun foreldra stefnanda. Hafi Hlynur stundað síðastnefnd sölustörf allt til ársloka 1999. Sem greiðslu fyrir þau störf hafi Hlynur meðal annars fengið í vinnulaun gólflampa, sjá dskj. 9, skjal 9, efst á bls. 3.
Haustið 1998 hafi Hlynur keypt sér bifreiðina NG150, nýjan VW Golf, sjá dskj. 90, á 1.523.614 krónur. Kaupverðið hafi hann greitt að fullu með víxli, sem hann hafi verið greiðandi að og stefndu útgefandi og ábekingur á, sjá dskj. 91. Hinn 15. apríl 1999 hafi Hlynur og stefnandi keypt saman íbúð að Heiðarholti í Reykjanesbæ, sjá dskj. 92. Samkvæmt kaupsamningi skyldi útborgun nema 1.811.885 krónum og kaupverðið að öðru leyti greiðast með yfirtöku áhvílandi skulda á eigninni. Hlynur hafi lagt einn út fyrir allri útborguninni með afhendingu fyrrnefndrar bifreiðar og greiðslu á 411.000 krónum í reiðufé, sem hann hafi greitt af eigin fé, sjá dskj. 88, bls. 1. Á þessum tíma hafi Hlynur einnig keypt fyrir eigið fé flesta þá hluti, sem stefnandi heldur fram að hún hafi átt sameiginlega með honum, sjá færslur á dskj. 86, bls. 4 og 5, nánar tiltekið:
1. Sófi, greiddur af Hlyni í tvennu lagi, 20. og 25. maí 1999, kaupverð 185.000 krónur.
2. Sófaborð og hilla (í stefnu nefnd „hillueining“), hvort tveggja keypt af Hlyni í Casa 30. apríl 1999, kaupverð samtals 222.300 krónur, sjá dskj. 93.
3. Ísskápur, Vestfrost, keyptur af Hlyni 26. apríl 1999, sjá dskj. 67, afhentur 27. apríl 1999, sjá dskj. 94, kaupverð 88.000 krónur.
Stefndu kveða stefnanda enga fjármuni hafa lagt til kaupa á framangreindum hlutum. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að hún flutti til Hlyns og hóf sambúð með honum, í júní 1999, sem hún hafi farið að leggja fé til sambúðarinnar. Hafi hún fram að því ekki enn greitt neitt upp í útborgunina í íbúðina að Heiðarholti, sem Hlynur hafi lagt út fyrir. Stefndu kveða stefnanda aldrei hafa flutt lögheimili í Reykjanesbæ, hvorki á Hraunsveg né í Heiðarholtið, á meðan á sambúð hennar og Hlyns stóð. Það hafi hún fyrst gert hinn 11. júlí 2000, eftir lát Hlyns, þegar kominn hafi verið upp ágreiningur sá, sem mál þetta fjalli um, sjá dskj. 9, skjal 22. Þá hafi stefnandi og Hlynur aldrei talið sameiginlega fram til skatts, jafnvel þótt stefnandi telji í stefnu að þau hafi ruglað saman reitum sínum sem hjón væru þegar árið 1998.
Stefndu kveða Hlyn og stefnanda hafa hafið sambúð sína að Heiðarholti að loknu stúdentsprófi hennar frá Menntaskólanum í Reykjavík hinn 3. júní 1999. Samhliða því hafi þau trúlofað sig og stefnandi hafið störf á ný í Sparisjóði Keflavíkur. Nokkru áður, í lok maí og byrjun júní, hafi Hlynur selt síðustu bifreiðarnar á meðan hann var á lífi. Á því rúma hálfa ári, sem sambúð stefnanda og Hlyns stóð, hafi þau notað sameiginlega fyrrnefndan tékkareikning hans. Hlynur hafi notað reikninginn sem launareikning sinn en ekki stefnandi. Hún hafi þess í stað millifært mánaðarlega að minnsta kosti hluta af vinnulaunum sínum inn á hann, sjá dskj. 95. Hins vegar hafi staðan á reikningnum farið úr því að vera inneign að fjárhæð 54.371 króna við upphaf sambúðarinnar í það að verða yfirdráttur að fjárhæð 200.946 krónur við lát Hlyns, sjá dskj. 86, bls. 5 og á dskj. 87, bls. 1. Þó hafi Hlynur gefið út skuldabréf nr. 1109-74-420702 hinn 5. október 1999, með veði í heimili stefnenda að Hraunsvegi, að fjárhæð 1.958.900 krónur, sjá dskj. 97, lagt andvirðið inn á tékkareikninginn og notað það meðal annars til að greiða niður greiðslukortaskuldir hans og stefnanda, auk hluta af yfirdrætti á umræddum tékkareikningi sem numið hafi 510.956 krónum, sjá dskj. 86, bls. 14. Umrætt skuldabréf hafi síðar verið greitt af erfingjum Hlyns, eins og áður hafi verið nefnt, sjá dskj. 8, eftir að stefnandi hafi neitað að taka þátt í greiðslu þess. Stórir útgjaldaliðir í versnandi fjárhagsstöðu Hlyns á umræddu tímabili hafi einmitt verið þeir hlutir, sem stefnandi haldi fram í stefnu að hún hafi átt sameiginlega með honum, sjá færslur á dskj. 86, bls. 4 og 5, nánar tiltekið:
1. Sjónvarp, ásamt fylgihlutum, frá Raftækjaverslun Íslands, kaupverð kr. 209.900, keypt af Hlyni 6. júlí 1999 með símgreiðslu af VISA-korti hans, sjá dskj. 96 og 89, en rétt sé að benda á að stefnandi hafi ekki haft aukakort á það greiðslukort.
2. Skenkur frá Casa, keyptur af Hlyni 20. desember 1999 með debetkorti af yfirdrætti á títtnefndum tékkareikningi, kaupverð kr. 60.000, sjá dskj. 86, bls. 17.
Hinn 6. desember hafi Hlynur átt sinn síðasta afmælisdag. Meðal afmælisgjafa þeirra sem hann hafi fengið hafi verið lítill borðlampi frá foreldrum stefnanda.
Þann 15. janúar 2000 hafi sá hörmulegi atburður sér stað að Hlynur Sigurjónsson lést í umferðarslysi á Spáni. Hafi lát hans orðið harmdauði jafnt stefndu og fjölskyldu þeirra sem stefnanda í máli þessu. Hafi stefnandi fengið mánaðarlangt frí frá starfi sínu hjá Sparisjóðnum í Keflavík, en komið aftur til starfa þar í febrúarmánuði. Stefnandi hafi búið hjá stefndu frá þeim tíma og þangað til í mars, er hún hafi flutt aftur í íbúðina að Heiðarholti og tilkynnt stefndu að hún hefði fengið starf í Reykjavík. Skipti á dánarbúi Hlyns hafi þá verið byrjuð, sjá dskj. 8, og verið falin Vilhjálmi Vilhjálmssyni hrl. Í kjölfarið hafi íbúðin verið sett á sölu. Nokkru síðar hafi borist tilboð í hana, sem stefnandi hafi samþykkt fyrst munnlega en neitað síðar að standa við, sjá dskj. 102 sbr. 9, skjal 17.
Þegar þess hafi verið farið á leit við stefnanda að hún léði samvinnu sína til þess að ganga frá skiptum á íbúðinni að Heiðarholti og þeim hlutum sem í henni voru, hafi stefnandi hafnað því alfarið, en ráðið sér þess í stað lögmann hinn 7. apríl 2000, sjá dskj. 9, skjal 5, skipt um læsingu á íbúðinni og haldið því næst í mánaðarlanga ferð til Ítalíu, sjá dskj. 9, skjal 6. Frá þeim tíma hafi samskipti málsaðila farið fram með milligöngu lögmanna að frumkvæði lögmanns stefndu, sjá dskj. 103. Eins og áður hafi verið rakið hafi staða dánarbúsins verið bág og stefndu greitt kostnað af íbúðinni og útistandandi skuldum eftir sambúð Hlyns og stefnanda. Hafi verið við svo búið í um tvo mánuði, þar til skiptum dánarbúsins hafi lokið 12. júlí 2000, sjá dskj. 9, skjal 6, án þess að tekist hefði að skipta íbúðinni eða innanstokksmunum.
Við dánarbússkiptin hafi stefndu eignast helming íbúðarinnar að Heiðarholti og aðrar eigur Hlyns. Á þessum tíma hafi ekki verið hægt að ná í stefnanda, enda hafi hún á ný lagt í ferðalag til Ítalíu. Þar sem fullreynt hafi verið að fá stefnanda til að ljúka skiptum eignarinnar og þeirra hluta sem í henni voru hafi stefndu talið að þeim væri nauðugur einn sá kostur að nýta umráðarétt sinn yfir fasteigninni, fara inn í íbúðina og fjarlægja þaðan þá hluti sem:
1. voru í láni frá systkinum Hlyns,
2. hluti sem ljóst hafi verið að Hlynur hafði flutt með sér í bú hans og stefnanda og
3. hluti sem keyptir hefðu verið fyrir þann yfirdrátt á tékkareikningi hans sem stefndu glímdu nú við að greiða niður.
Stefndu kveðast því hafa farið, ásamt börnum sínum og tengdabörnum, inn í íbúðina hinn 20. júlí 2000 og tekið myndir af þeim hlutum, sem þar hafi verið, en þá hafi verið búið að fjarlægja þaðan flesta persónulega muni Hlyns. Við inngöngu í íbúðina hafi lykill stefndu ekki lengur gengið að íbúðinni, þar sem stefnandi hafði skipt um lás á íbúðinni, án þess að hafa um það neitt samráð við meðeigendur sína að eigninni. Hafi því reynst nauðsynlegt að brjóta upp þann lás og skipta honum út fyrir annan. Í íbúðinni hafi svo gamli lásinn fundist, sem bæði stefndu og stefnandi höfðu lykla að og hafi hann því verið settur í skrána. Þennan dag hafi stefndu ekkert tekið af munum Hlyns úr íbúðinni heldur hafi þau einungis tekið nokkrar ljósmyndir af innanstokksmunum í íbúðinni og sé ein þeirra meðal þeirra ljósmynda sem lagðar hafi verið fram á dskj. nr. 104. Daginn eftir hafi stefndi Sigurjón snúið aftur í íbúðina ásamt börnum sínum og tengdabörnum og tekið í sínar vörslur þá hluti, sem fallið hafi undir ofannefnd skilyrði 1.-3, en þegar þau hafi tekið sæng Hlyns og kodda hafi fyrir vangá einnig fylgt með sængurver og koddaver, sem hafi síðar reynst vera meðal hluta, sem stefnandi hafði komið með í íbúðina.
Þegar stefnandi hafi komið úr síðari Ítalíuför sinni hafi hún enn reynst ófáanleg til að ganga frá skiptum á íbúð hennar og stefndu, en kosið þess í stað að þjófkenna stefndu og leita aðstoðar sýslumanns og síðar ríkissaksóknara, dómsmálaráðuneytis, umboðsmanns Alþingis og Persónuverndar, allt án þess að nokkurs staðar væri tekið undir sakaráburð hennar. Þessar ofsóknir stefnanda hafi staðið sleitulítið síðan, eins sjá megi af gögnum málsins. Stefndu hafi allan þann tíma kosið að elta ekki ólar við rakalausan áburð stefnanda, þar sem þau telji þann málflutning dæma sig sjálfan, svo sem á daginn hafi komið.
Hinn 12. september 2000, þegar stefndu höfðu borið nær allan kostnað af rekstri íbúðarinnar og áhvílandi skuldum í 8 mánuði, eða frá því að stefnandi hætti að leggja laun sín í það sem hún nefnir í stefnu sameiginlegan sjóð hennar og Hlyns, þ.e. á fyrrnefndan tékkareikning hans, hafi stefndu séð sig knúin til að senda stefnanda áskorun um að ganga tafarlaust til samninga um slit á sameign þeirra, sjá dskj. 11. Í svari lögmanns stefnanda, dags. 20. október 2000, sjá dskj. 98, sé stefndu gert tilboð þar sem sett hafi verið tvenns konar skilyrði fyrir því að stefnandi samþykkti loks sölu íbúðarinnar. Annars vegar, að nettósöluandvirði íbúðarinnar, 2.414.189 krónur, að frádregnum sölukostnaði, skiptist að jöfnu milli hennar og stefndu. Hins vegar er það í bréfi lögmannsins sögð forsenda fyrir samþykki stefnanda á sölu á íbúðinni að inn í uppgjör á söluandvirði hennar yrði ekki dregið uppgjör á eftirtöldum atriðum:
1. Taka stefndu á hlutum úr íbúðinni í meintri eigu stefnanda eða sameign hennar og Hlyns.
2. Hlutdeild í vátryggingabótum sem greiddar höfðu verið dánarbúi Hlyns.
3. Greiðsla kostnaðar vegna íbúðarinnar, þ.m.t. fasteignagjalda og afborgana af lánum.
Í gagntilboði stefndu, dags. 24. október 2000, sjá dskj. 99, komi fram að einungis væri gengið að fyrra skilyrði stefnanda, þ.e. að allt söluandvirði eignarinnar kæmi til skipta, án þess að hún tæki þátt í greiðslu lána vegna eignarinnar, svo sem fyrrnefnds veðskuldabréfs nr. 1109-74-420702, yfirdráttar af tékkareikningi Hlyns, sem stefnandi nefni þó í stefnu sameiginlegan sjóð þeirra, eða rekstrarkostnaðar af íbúðinni, einkum rafmagns-, hita- og símareikninga, það tæpa ár sem liðið hafi verið frá því að stefnandi hafi hætt að millifæra hluta launa sinna inn á tékkareikning Hlyns. Hins vegar hafi sérstaklega verið tekið fram í gagntilboðinu að ekki væri fallist á síðara skilyrði stefnanda fyrir sölunni, þ.e. að í uppgjörið yrðu ekki teknir þeir þrír þættir sem tilgreindir væru hér að framan.
Þrátt fyrir það hafi stefnandi loks samþykkt hið nýja kauptilboð fyrir sitt leyti hinn 8. nóvember 2000 og hafi verið skrifað undir kaupsamning um sölu á íbúðinni að Heiðarholti. Í kjölfarið hafi söluverð hennar verið gert upp með þeim hætti, sem boðað hafði verið í fyrrnefndu gagntilboði stefndu, dags. 24. október 2000 og úthlutað þann 10. nóvember annars vegar til stefnanda og hins vegar til stefndu. Hafi 1.150.463 krónur komið í hlut stefndu og sama fjárhæð í hlut stefnanda. Hafi stefndu því litið svo á að þar með hefði stefnandi gengið að umræddu gagntilboði.
Af þeirri ástæðu og þar sem eftirstandandi skuldir hafi numið töluvert hærri fjárhæð en samanlagt kaupverð fyrrgreinds lausafjár sem Hlynur hafði keypt, en stefnandi hafði áður talið til eignarréttinda yfir, auk þess sem framlag stefnanda hafi ekki einu sinni svarað til helmings þeirrar fjárhæðar sem Hlynur hafi lagt út sem útborgun fyrir eignarhluti þeirra beggja í fasteigninni að Heiðarholti, hafi stefndu talið ljóst að fullnaðaruppgjör hefði verið farið fram um umrædd fjárskipti, þar með taldar þær kröfur sem stefnandi hafði áður haft uppi vegna þeirra muna sem stefndu höfðu fært úr íbúðinni. Hafi stefndu því ekki átt von á að stefnandi myndi hafa uppi frekari kröfur vegna þeirra hluta. Annað hafi hins vegar komið í ljós, eins og að framan sé rakið og málatilbúnaður stefnanda nú beri með sér.
Það hafi svo fyrst verið nú í haust 2007, við samningu greinargerðar í málinu, að stefndu hafi farið yfir gömul gögn tengd fyrrgreindum atburðum árið 2000 og þá rekist á ljósmyndir þær, sem hafi verið lagðar fram á dómskjali nr. 104. Meðal þeirra sé mynd sem stefndu hafi fengið að gjöf frá stefnanda eftir lát Hlyns. Á myndinni megi greina hann sitjandi í sófa í íbúðinni að Heiðarholti, en fyrir aftan hann standi í gluggakistu lítill borðlampi. Þegar stefndu hafi skoðað þessa mynd hafi þau gert sér grein fyrir að þar kunni að vera kominn sá litli borðlampi sem Hlynur hafi fengið í afmælisgjöf frá foreldrum stefnanda. Því hafi þau ákveðið að fallast á þá kröfu stefnanda að fá þann lampa afhentan og hafa í dag afhent hann á skrifstofu lögmanns stefnanda. Allt sé hins vegar á huldu með afdrif þess litla borðlampa sem sé á fyrrnefndri ljósmynd.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi kveðst krefjast skaðabóta að fjárhæð 940.708 krónur og miskabóta að fjárhæð 600.000 krónur.
Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að afhenda henni eftirfarandi muni:
1. Kertastjaki fyrir sprittkerti, tvítugsafmælisgjöf frá vinkonu stefnanda, sjá ljósmynd á dskj. nr. 79, bls. 1.
2. Sykurstaukur, gjöf frá systur stefnanda, sjá ljósmynd á dskj. nr. 79, bls. 7.
3. Stálskál, gjöf frá systur stefnanda, sjá ljósmynd á dskj.nr. 79, bls. 7.
4. Gullarmband (bismarck), afmælis- og útskriftargjöf frá foreldrum stefnanda, sbr. dskj. nr. 69.
5. Rauð mappa með persónulegum gögnum stefnanda og merkt henni.
6. Eldhúsborðið úr gleri frá Ikea, keypt af stefnanda 25. október 1999, sjá ljósmynd á dskj. nr. 79, bls. 7.
Stefnandi kveður kröfu um afhendingu framangreindra muna byggjast á þeirri meginreglu eignaréttarins að ekki megi halda eignum frá eiganda þeirra. Vísar stefnandi m.a. til 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Þá muni, sem stefnandi krefjist ekki lengur afhendingar á, úr því sem komið sé, vilji hún fá bætta. Sundurliðar stefnandi kröfuna þannig:
Munir sem stefnandi kveðst eiga persónulega:
Tvö mjólkurglös (úr Casa), áætlað enduröflunarverð 3.000 krónur
Geisladiskar, áætlað enduröflunarverð 30.000 krónur
Blá skál á fæti, áætlað enduröflunarverð 3.000 krónur
Fjögur glös á fæti, tvítugsafmælisgjöf frá vinkonum,
sbr. dskj.nr. 66, áætlað enduröflunarverð 5.000 krónur
Diskar (6 stk), áætlað enduröflunarverð 6.000 krónur
Vatnsglös, áætlað enduröflunarverð 1.800 krónur
Eldhúsáhöld, áætlað enduröflunarverð 8.000 krónur
Skálar, áætlað enduröflunarverð 5.000 krónur
Bangsar, áætlað enduröflunarverð 4.000 krónur
Handklæði, áætlað enduröflunarverð 6.000 krónur
Fatnaður, áætlað enduröflunarverð 65.000 krónur
Munir, sem stefnandi kveður hafa verið í eigu foreldra sinna og þau hafi framselt henni allar eignarheimildir að og kröfur sem af töku eignanna séu sprottnar, sbr. dskj. nr. 80:
Rúmföt, gulmynstruð silkidamask frá Verinu, sjá ljósmynd
á dskj. nr. 79, bls. 13, verð skv. dskj. nr. 70, 24.800 krónur
Ilios gólflampi frá Ingo Maurer, sjá ljósmynd á dskj. nr. 79,
bls. 2 og 13, verð skv. dskj. nr. 75 133.358 krónur
Stefnandi kveður skaðabótakröfu sína byggjast á að því að stefnandi hafi orðið af eigum sínum vegna óheimillar töku stefndu er stefndu hafi farið inn á heimili hennar með ólögmætum hætti. Beri henni bætur fyrir það með vísan m.a. til almennu skaðabótareglunnar. Á því sé byggt að við aðstæður sem þessar eigi stefnandi rétt til að krefjast upphaflegs verðs munanna, markaðsverðs eða enduröflunarverðs, um það eigi hún val. Gildi í því efni svipuð sjónarmið og um eignarnám. Þó skuli ganga lengra til móts við kröfur tjónþola þegar taka eignanna sé með ólögmætum hætti þannig að víst sé að hann verði ekki vanhaldinn. Um þetta allt vísar stefnandi til meginreglna eigna- og skaðabótaréttar.
Munir, sem stefnandi kveður hafa verið í sameiginlegri eigu hennar og Hlyns:
Sófi, Pursit 210 í Alcantara frá Exó, (50% af heildarverðmæti),
sjá ljósmynd á dskj. nr. 79, bls. 1 og 13,
verð skv. dskj. nr. 73 132.500 krónur
Sófaborð, Ligne Roset Occasional Square frá Casa,
(50% af heildarverðmæti) sjá ljósmynd á dskj.nr. 79,
bls. 5 og 12, verð skv. dskj. nr. 74 49.500 krónur
Stór hillueining, Ligne Roset frá Casa,
(50% af heildarverðmæti), ljósmynd á dskj.nr. 79, bls. 2,
verð skv. dskj.nr. 74, 160.000 krónur
Skenkur, topphilla, Ligne Roset frá Casa,
(Top no7) (50% af heildarverðmæti), ljósmynd á dskj.nr. 79,
bls. 12 og 13, verð skv. dskj. nr. 74 90.000 krónur
Sjónvarp, sjónvarpsskápur og heimabíóhátalarar, Thosiba 33”,
frá Einari Farestveit (50% af heildarverðmæti), sbr. dskj. nr.68,
sjá ljósmynd á dskj. nr. 79, bls. 5 og 13,
áætlað markaðsvirði 125.000 krónur
Ísskápur, Vestfrost BKF355 stál, frá Raftækjaverslun Íslands
(50% af heildarverðmæti), sbr. dskj. nr. 67
og ljósmynd á dskj. nr. 79 bls. 12, áætlað markaðsvirði 50.000 krónur
Grilláhöld (50% af heildarverðmæti), sjá dskj. nr. 26, bls. 7,
áætlað markaðsvirði 1.500 krónur
Sex bjórglös og sex staup af gerðinni Ritzenhoff frá Casa
(50% af heildarverðmæti), sjá dskj. nr. 26, bls. 7-8,
áætlað enduröflunarverð 9.000 krónur
Plastglös 4 stk. (50% af heildarverðmæti),
áætlað enduröflunarverð 1.250 krónur
Viskustykki 6 stk. (50% af heildarverðmæti),
áætlað enduröflunarverð 2.000 krónur
Bollar 6 stk. (50% af heildarverðmæti), áætlað enduröflunarverð 3.000 krónur
Hnífapör (50% af heildarverðmæti), sjá dskj. nr. 26, bls. 8
áætlað enduröflunarverð 6.000 krónur
Hjólbarðar (50% af heildarverðmæti), áætlað enduröflunarverð 16.000 krónur
Samtals 940.708 krónur
Stefnandi kveðst byggja á sömu rökum og að framan um þá muni, sem hún hafi átt ein. Á því sé byggt að þegar munum sé haldið frá eiganda þeirra og neitað að afhenda þá sé honum sú leið tæk að krefjast skaðabóta í þeirra stað samkvæmt meginreglu skaðabótaréttarins og eignaréttarins, til vara að krefjast megi andvirðis þeirra sem leiðir til sömu niðurstöðu tölulega.
Verði bornar brigður á tölulegt mat á einstökum munum muni stefnandi láta dómkveðja matsmenn í því skyni að staðreyna verðmætið. Áskilið sé að framhaldsstefna eftir að matsgerð liggi fyrir, reynist áætlanir hafa verið of lágar.
Stefnandi kveðst vísa til almennu skaðabótareglunnar og kveðst byggja á því að bæta beri muni enduröflunarverði eða markaðsverði eftir því hvaða leið sá sem fyrir tjóni verður kjósi að fara. Beri við ákvörðun bóta að tryggja stefnanda fullar bætur, sérstaklega þegar um gróft réttarbrot sé að ræða eins og í þessu tilfelli.
Við mat á sönnun þurfi að gæta þess að sá sem fremji réttarbrot verði að bera öll sönnunarvandkvæði sem af því hljótist, m.a. ef deilt er um hvort einhverjir munir hafi verið teknir eða ekki. Verði að ætla að svo hafi verið þar til hið gagnstæða sannist. Sömuleiðis eigi sá sem tekur muni traustataki ekki að geta skapað sönnunarvandræði sem gagnaðili þurfi að bera heldur leggist þær byrðar á þann sem olli. Gildir þetta m.a. um mat á fjárhæðum.
Að því er kröfu um miskabætur varði kveðst stefnandi vísa til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en um þann miska sem stefnandi hafi orðið fyrir sé vísað til aðilaskýrslu hennar á dskj. nr. 3. Miskabótakrafan sé ákveðin með hliðsjón af dómaframkvæmd þótt stefnanda þyki fjárhæðin tilkomulítil miðað við þann miska sem hún hafi orðið fyrir vegna meingerðar stefndu.
Um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. Tekið verði tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.
Málsástæður stefndu:
Stefndu benda á að þau hafi þegar efnt þá dómkröfu stefnanda að fá afhentan borðlampa á þremur fótum, sbr. tölulið 6 á bls. 1 í stefnu.
Eins og að framan greini hafi aðilar gert með sér samkomulag 10. nóvember 2000 um uppgjör í tengslum við sölu á íbúðinni að Heiðarholti. Það samkomulag hafi verið gert á grundvelli gagntilboðs stefndu dags. 24. október 2000, sjá dskj. 99, við tilboði stefnanda dags. 20. október 2000, sjá dskj. 98. Með samþykkt gagntilboðsins hafi stefnandi fallið frá þeirri forsendu sinni fyrir að samþykkja íbúðarsöluna, að með uppgjöri söluandvirðis hennar yrðu ekki einnig gerðar upp kröfur vegna töku stefndu á hlutum úr íbúðinni í meintri eigu stefnanda eða sameign hennar og Hlyns. Í uppgjörinu hafi stefndu fallist á að taka á sig verulega auknar fjárhagslegar skyldur að kröfu stefnanda, svo sem af rekstri íbúðarinnar í tæpt ár og greiðslur á skuldabréfi. Með því að fallast á kröfur stefnanda að þessu leyti telji stefndu að fram hafi farið fullnaðaruppgjör þeirra á milli vegna þess innbús sem hafi verið í íbúðinni en hafði þá verið fjarlægt af þeirra hálfu og hafi þau með réttu mátt búast við að ekki yrðu hafðar uppi frekari kröfur vegna þessara hluta á ný síðar.
Stefndu kveðast hafna að öðru leyti málsástæðum stefnanda og byggja á því að málarekstur þessi sé með öllu tilhæfulaus, enda séu þeir hlutir sem tilteknir séu í stefnu ýmist:
A. hlutir sem Hlynur átti sjálfur og voru í íbúðinni:
i. Eldhúsáhöld, ofarlega á síðu 3 í stefnu, að því gefnu að hér sé átt við pottasett það sem fjallað sé um í upphafi málavaxtalýsingar stefndu;
ii. Fjögur glös á fæti, sama stað, að því gefnu að um sé að ræða þau glös sem stefndu fjarlægðu af Heiðarholti 21. júlí 2000, en þar sé um að ræða glös þau sem fjallað sé um á bls. 2 í greinargerð stefndu;
iii. Gólflampi, á miðri síðu 3 í stefnu, að því gefnu að átt sé við þann gólflampa sem fjallað sé um á bls. 2 í greinargerð stefndu;
iv. sófi, sófaborð, stór hillueining og ísskápur Vestfrost, neðst á síðu 3 í stefnu, að því gefnu að með stórri hillueiningu sé átt við þá hillu sem sé í upptalningu efst á bls. 3 í greinargerð stefndu;
B. hlutir sem Hlynur átti sjálfur og hafði keypt með yfirdrætti á bankareikningi sínum, sem síðar hafi verið greiddur að fullu af stefndu:
i. töluliður 7 á bls. 1 í stefnu;
ii. skenkur og sjónvarp, ásamt fylgihlutum, neðst á bls. 3 í stefnu;
C. hlutir sem stefndu hafa aldrei haft undir höndum og sé því þessum liðum í stefnunni mótmælt sem röngum:
i. töluliðir 1-6 á bls. 1 í stefnu;
ii. aðrir þeir hlutir sem taldir eru upp efst á bls. 3 í stefnu undir fyrirsögninni: “Munir sem stefnandi á persónulega”, þ.e. aðrir en þeir sem taldir eru upp í liðum A.i. og A.ii. hér að framan;
iii. aðrir þeir hlutir sem taldir eru upp neðst á bls. 3 og efst á bls. í stefnu undir fyrirsögninni: “Munir sem voru í sameiginlegri eigu stefnanda og Hlyns þegar hann lést”, þ.e. aðrir en þeir sem taldir eru upp í liðum A.i. og A.ii. hér að framan; eða
D. hlutur sem krafist er skaðabóta fyrir í stefnu en stefndu líta svo á að kröfur vegna þessa hlutar séu niður fallnar:
i. Rúmföt, gulmynstruð, á miðri síðu 3 í stefnu. Stefndu kveðast staðfesta að hafa af vangá tekið umræddan hlut og síðar hent honum, en allar smákröfur af þessu tagi telji stefndu að hafi allt að einu verið gerðar upp með framangreindu uppgjöri 10. nóvember 2000 og séu því fallnar niður. Verði ekki fallist á að þessi krafa sé fallin niður fyrir uppgjör telja stefndu að hún sé fallin niður fyrir tómlæti. Þá sé að auki sérstaklega mótmælt fjárhæð þessa hluta skaðabótakröfunnar, þar sem í dskj. nr. 70 komi fram að umrædd fjárhæð, 24.800 krónur, sé fyrir „2 sett rúmföt“, en einungis eitt sett hafi verið utan um sæng og kodda Hlyns þegar þau hafi verið endurheimt.
Stefndu byggja á að það sé margreynt, eins og málsgögn beri ítarlega með sér, að þau hafi ekki gerst sek um þau afbrot sem stefnandi beri á stefndu í máli þessu og liggi að stórum hluta til grundvallar dómkröfum stefnanda. Að auki hafi öll stig ákæruvalds í landinu margsinnis hafnað kærum stefnanda vegna slíkra brota stefndu. Þessar staðreyndir hafi allar legið fyrir allt frá árinu 2000 og hafi verið gerð ítarleg grein fyrir þeim þegar á árinu 2001, sbr. dskj. 24.
Þá byggja stefndu á því að kröfur stefnanda séu fallnar niður fyrir tómlæti, enda hafi liðið tæp fimm ár frá því að stefnandi hafði uppi kröfur sínar gagnvart stefndu vegna þeirra hluta sem mál þetta snýst um, sbr. dskj. 26, þar til þeim hafi verið haldið á lofti í aðdraganda máls þessa, sbr. dskj. 76. Þá telji stefndu að kröfur stefnanda séu allt að einu fyrndar, sbr. 4. gr. fyrningarlaga.
Samkvæmt íslenskum rétti sé ekki gagnkvæm framfærsluskylda milli sambúðarfólks. Sé þannig litið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og fari um fjármál þeirra eftir almennum reglum fjármunaréttarins. Sé það því meginregla að við slit óvígðrar sambúðar taki aðili þau verðmæti sem hann eigi og beri aðilar sönnunarbyrði fyrir annarri skipan mála. Byggi stefnandi enda kröfu sína um afhendingu muna, sbr. bls. 3 og 4 í stefnu, eingöngu á því að hún hafi átt beinan eignarrétt yfir viðkomandi munum á grundvelli hefðbundins eignarréttar, sbr. 72. gr. stj.skr. Með gögnum málsins séu hins vegar engar sönnur færðar á að stefnanda hafi stofnast slík eignarréttindi yfir umræddum hlutum. Beri hún því allan halla af þeim sönnunarskorti sínum, þ.e. bæði fyrir því að umrædd eignarréttindi séu til staðar og fjárhæð þess tjóns sem hún telji sig hafa orðið fyrir.
Jafnvel þótt litið væri til þess tímabils sem stefnda telji sig og Hlyn heitinn hafa „ruglað saman reitum sínum fjárhagslega“, þ.e. í það tæpa eina og hálfa ár sem liðið hafi frá júlí 1998 fram í janúar 2000, hafi framlag hennar inn á tékkareikning Hlyns, sem stefnandi nefni „sameiginlegan sjóð“ þeirra, einungis numið hluta af launum hennar síðasta hálfa árið, þ.e. alls kr. 736.500. Á sama tíma hafi framlag Hlyns heitins af vinnulaunum sínum numið tæplega þrefalt hærri upphæð, 1.988.235 krónum, fyrir utan framlag hans úr viðskiptum sínum með notaðar bifreiðar, sem numið hafi enn hærri fjárhæð. Stefnandi og Hlynur hafi keypt saman til helminga framangreinda íbúð að Heiðarholti og hafi Hlynur lagt út fyrir allri útborgun hennar, 1.811.885 krónur, en helmingur útborgunarinnar nemi 905.942 krónum, eða 169.442 krónum meira en sem numið hafi heildarframlagi stefnanda í „sameiginlegan sjóð“ þeirra á framangreindu tímabili. Verði því ekki séð að stefnandi hafi nokkurn tímann staðið full skil á þessari greiðslu, hvað þá tekið þátt í öðrum kaupum Hlyns, svo sem á því lausafé sem hún telji í stefnu að þau Hlynur hafi átt sameiginlega þegar hann lést, sbr. bls. 3 í stefnu.
Verði fallist á einhverjar fjárkröfur sé kröfu um upphafsdag dráttarvaxta mótmælt. Telji stefndu að ekki beri að dæma dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu. Mótmælt sé sérstaklega vaxtakröfu stefnanda, þar sem verðmæti flestra þeirra hluta sem myndi skaðabótakröfu stefnanda sé tiltekið sem „núverandi verð“, „kostar í dag“ o.þ.h. (sjá dskj. nr. 73, 74 og 75), „áætlað enduröflunarverð“ eða „áætlað markaðsvirði“, sbr. bls. 3 í stefnu, en vaxtakrafa af þessum fjárhæðum nær hins vegar allt frá 2. ágúst 2000.
Miskabótakröfu stefnanda sé alfarið mótmælt sem órökstuddri, enda með engum hætti gerð grein fyrir á hvaða forsendum hún sé byggð, í hverju meintur miski eigi að vera falinn eða hvaða meingerð stefndu sé átt við með stefnunni.
Til viðbótar framangreindum málsástæðum byggja stefndu málskostnaðarkröfur sínar á því að umfang málsins sé í engu samræmi við efni þess og að í málinu séu hafðar uppi tilefnislausar kröfur af hálfu stefnanda.
IV.
Eins og fram hefur komið var stefnandi í óskráðri sambúð með syni stefndu, Hlyni Sigurjónssyni, þegar hann lést af slysförum hinn 15. janúar 2000. Sameiginlegt heimili þeirra var að Heiðarholti í Reykjanesbæ, en þangað höfðu þau flutt í lok maí 1999. Við andlát Hlyns runnu eignir hans til dánarbús hans, en foreldrar Hlyns, stefndu í máli þessu, stóðu til erfða eftir hann. Við sambúðarlok bar í samræmi við dómaframkvæmd og í ljósri skammvinnrar sambúðar stefnanda og Hlyns heitins að skipta þeim eignum, sem þau eignuðust á sambúðartímanum, í réttu hlutfalli við fjárframlög hvors um sig.
Samkvæmt kaupsamningi, dagsettum 7. júní 1999, keyptu stefnandi og Hlynur heitinn íbúðina að Heiðarholti 4 í Reykjanesbæ og var eignarhluti hvors um sig skráður 50%. Íbúð þessi var seld hinn 8. nóvember 2000 og varð að samkomulagi milli aðila þessa máls að nettóandvirði eignarinnar skyldi skiptast að jöfnu milli stefnanda annars vegar og stefndu hins vegar, en gengið hafði verið frá einkaskiptum á dánarbúi Hlyns heitins hinn 12. júlí 2000.
Stefndu benda á að málsaðilar hafi gert með sér samkomulag hinn 10. nóvember 2000 um uppgjör í tengslum við sölu á íbúðinni að Heiðarholti, en það samkomulag hafi verið gert á grundvelli gagntilboðs stefndu, dags. 24. október 2000, við tilboði stefnanda, dags. 20. október 2000. Í síðastnefndu bréfi lögmanns stefnanda komi fram að stefnandi sé reiðubúinn að samþykkja kauptilboð, sem þá hafði nýlega borist í íbúðina, með því skilyrði að nettóandvirði íbúðarinnar að fjárhæð 2.414.189 krónur, að frádregnum sölukostnaði, skiptist að jöfnu milli hennar og stefndu. Í niðurlagi bréfsins kom og fram að stefnandi telji að stefndu hafi með ólögmætum hætti svipt hana vörslum á sameiginlegu innbúi hennar og Hlyns heitins, svo og muna, sem séu eign hennar og foreldra hennar. Af hálfu stefnanda sé það því forsenda fyrir samþykki hennar á sölu íbúðarinnar að ágreiningi vegna sameiginlegs innbús hennar og Hlyns, hlutdeildar hennar í vátryggingabótum og verðmætaaukningu í bifreiðaeign Hlyns, svo og uppgjöri vegna afborgana af lánum og greiðslu fasteignagjalda, verði á engan hátt blandað inn í uppgjör á söluandvirði íbúðarinnar.
Í svarbréfi lögmanns stefndu, dags. 24. október 2000, hafi verið fallist á það skilyrði stefnanda að nettósöluandvirði íbúðarinnar, að fjárhæð 2.468.404 krónur að frádregnum sölukostnaði, skyldi skiptast að jöfnu á milli stefnanda og stefndu. Í lok bréfsins hafi hins vegar verið áréttað að í þessari afstöðu stefndu fælist ekki samþykki á efni niðurlagsmálsgreinar bréfs lögmanns stefnanda frá 20. sama mánaðar.
Hinn 10. nóvember 2000 hafi nettósöluandvirði íbúðarinnar, þ.e. kaupverð að frádregnum áhvílandi veðlánum og sölukostnaði, verið greitt málsaðilum að jöfnu, og hafi 1.150.463 krónur komið í hlut stefnanda annars vegar og stefndu hins vegar. Með uppgjöri þessu hafi ekki verið tekið tillit til þeirra greiðslna, sem stefndu höfðu innt af hendi vegna fasteignagjalda og afborgana af áhvílandi veðlánum á íbúðinni frá andláti Hlyns til söludags. Stefndu hafi því tekið á sig verulegan kostnað af rekstri íbúðarinnar fram að sölu hennar og með því að fallast á kröfur stefnanda að þessu leyti telji stefndu að fram hafi farið fullnaðaruppgjör þeirra á milli vegna þess innbús, sem þau fjarlægðu úr íbúðinni að Heiðarholti.
Ekki er fallist á með stefndu að áðurgreint samkomulag um skiptingu á nettósöluandvirði íbúðarinnar hafi falið í sér endanlegt uppgjör á fjárskiptum málsaðila, enda er hvergi vikið að því beinum orðum í ofangreindum gögnum. Þá er ekki fallist á það með stefndu að kröfur stefnanda séu fallnar niður fyrir tómlæti eða fyrningu.
Eins og áður greinir bar við andlát Hlyns að skipta sameiginlegum eignum stefnanda og dánarbúsins í réttu hlutfalli við fjárframlög hvors um sig, þ.e. stefnanda og Hlyns heitins. Hér verður að hafa í huga að sambúð þeirra að Heiðarholti stóð aðeins í tæpa 8 mánuði, þ.e. frá því að þau fluttu í íbúðina í lok maí 1999 og þar til Hlynur lést um miðjan janúar 2000. Óumdeilt er að á þessum tíma keyptu þau íbúðina að Heiðarholti og talsvert af innbúsmunum.
Fram hefur komið að laun stefnanda og Hlyns heitins voru á árinu 1999 greidd inn á sameiginlegan reikning þeirra nr. 839 í Sparisjóði Keflavíkur. Samkvæmt framlögðu reikningsyfirliti námu útborguð laun Hlyns heitins á árinu 1999 1.554.000 krónum, en útborguð laun stefnanda námu á sama tíma 736.500 krónum. Útborguð laun Hlyns heitins voru því rúmlega helmingi hærri en útborguð laun stefnanda þetta ár.
Stefndu halda því fram að Hlynur heitinn hafi einnig haft verulegar tekjur af viðskiptum með notaða bíla. Af framlögðu reikningsyfirliti vegna reiknings nr. 839 má sjá talsvert af ótilgreindum inn- og útborgunum, sem renna stoðum undir þá fullyrðingu, en þessar færslur samrýmast í mörgum tilfellum einnig framlögðum gögnum um bílaviðskipti Hlyns.
Hinn 11. september 1998 má sjá að andvirði víxils að fjárhæð 1.532.385 krónur er lagt inn á reikninginn og sama dag eru millifærðar af reikningnum 1.540.000 krónur. Um er að ræða víxil á dskj. nr. 91, sem tekinn var til að fjármagna kaup á nýrri bifreið, NG-150, af gerðinni VW Golf.
Hinn 19. nóvember 1998 eru 254.715,07 krónur greiddar inn á reikninginn, en engin skýring er á þeirri greiðslu í gögnum málsins. Sama dag eru 380.000 krónur skuldfærðar á reikninginn og 260.000 krónur millifærðar aftur af reikningnum.
Samkvæmt ökutækjaskrá seldi Hlynur bifreið af gerðinni Chevrolet Corvette hinn 12. nóvember 1998. Samkvæmt skattframtali keypti hann bifreiðina erlendis á 1.300.000 krónur og seldi hana aftur á 2.090.000 krónur. Sama dag keypti Hlynur bifreið af gerðinni Ford Ranger á 1.000.000 króna samkvæmt skattframtali. Hinn 26. nóvember eru 670.000 krónur lagðar inn á reikning nr. 839 vegna Chevrolet Corvett bifreiðarinnar og sama dag eru 290.000 krónur teknar út af sama reikningi.
Hinn 18. janúar 1999 eru samtals 400.000 krónur greiddar inn á reikning nr. 839 og trompbók Hlyns nr. 425285. Engar skýringar er að finna á þessum færslum í ökutækjaskrá.
Hinn 28. janúar 1999 eru 300.000 krónur greiddar inn á reikning nr. 839, en samkvæmt ökutækjaskrá seldi Hlynur þann sama dag bifreið af gerðinni Skoda Forman LX.
Hinn 4. og 12. febrúar 1999 eru greiddar samtals 454.000 krónur inn á reikning nr. 839 og trompbókina, en hinn 11. sama mánaðar seldi Hlynur Ford Ranger bifreiðina á 980.000 krónur samkvæmt skattframtali. Daginn eftir eða 12. febrúar keypti hann bifreið af gerðinni Toyota Hilux og þann sama dag eru teknar út af reikningnum 474.210 krónur. Sömu bifreið seldi hann 31. maí sama ár. Hinn 15. febrúar 1999 var andvirði víxils að fjárhæð 285.188 krónur lagt inn á trompbókina.
Hinn 15. mars 1999 millifærði stefnandi 254.151 krónu af reikningi sínum og inn á trompbók Hlyns, sbr. dskj. nr. 109. Hinn 15. og 17. sama mánaðar eru samtals 434.310 krónur teknar út af bókinni, en þar mun vera um að ræða afborgun af víxli, sem tekinn var til að fjármagna kaup á VW Golfbifreið, og flutningskostnað vegna bifreiðarinnar LR-325, Eagle Talon. Hinn 31. mars 1999 greiddi stefnda, Guðfinna, 150.000 krónur inn á reikning nr. 839, en stefndu kveða að það hafi verið lán frá þeim vegna greiðslu á vörugjöldum af síðarnefndu bifreiðinni. Það lán hafi Hlynur heitinn greitt síðar af reiðufé því, sem hann fékk vegna bílaláns, sem hann tók út á sömu bifreið, samanber hér síðar.
Með kaupsamningi dags. 7. júní 1999 keyptu stefnandi og Hlynur heitinn íbúðina að Heiðarholti 4. Kaupverðið, 5.850.000 krónur, skyldi greiðast með yfirtöku áhvílandi veðskulda, með áðurnefndri Golf-bifreið, sem metin var á 1.400.000 krónur og með peningum, 411.885 krónur, sem greiða átti við undirritun kaupsamnings. Afhendingardagur íbúðarinnar er hins vegar tilgreindur 10. apríl sama ár. Samkvæmt ökutækjaskrá er Hlynur afskráður sem eigandi Golf-bifreiðarinnar þann sama dag.
Hinn 12. apríl 1999 tók Hlynur bílalán með veði í bifreiðinni LR-325, Eagle Talon, að fjárhæð 1.414.871 króna, sbr. dskj. nr. 162, en eins og áður greinir var umrædd bifreið flutt inn notuð og skráð á nafn Hlyns 31. mars 1999. Samkvæmt lánssamningnum var kaupverð bifreiðarinnar tilgreint 2.300.000 krónur, útborgun 950.000 krónur og eftirstöðvar 1.350.000 krónur. Hinn 15. apríl 1999 skipti Hlynur ávísun sömu fjárhæðar, þ.e. 1.350.000 krónur, í banka, sbr. dskj. nr. 163. Lagði hann 600.000 krónur inn á reikning nr. 839 og fékk 750.000 krónur greiddar út í peningum. Hinn 30. sama mánaðar greiddi Hlynur heitinn Jóni Gunnarssyni, fasteignasala, 450.000 krónur, en hann annaðist sölu á íbúðinni að Heiðarholti. Samkvæmt framburði vitnisins Jóns hér fyrir dómi kvað hann Hlyn hafa hringt í sig þennan dag og lýst áhuga á því að ganga strax frá greiðslu á eftirstöðvum útborgunar í íbúðinni, en hana hafði hann fengið afhenta 20 dögum áður. Skömmu síðar hafi Hlynur komið á fasteignasöluna með 450.000 krónur í reiðufé og þeir gengið saman í bankann og lagt umrædda fjárhæð inn á reikning Jóns. Þetta kemur og fram á dskj. nr. 88 og 161, en þar má sjá að 450.000 krónur eru fyrst millifærðar af reikningi Jóns í útibúi 1109 og lagðar inn á trompbók Hlyns í útibúi 1191 og skömmu síðar millifærðar þaðan og yfir á reikning Jóns. Vitnið sagði að ekki hefði verið gengið frá formlegri kvittun vegna greiðslunnar fyrr en við undirritun kaupsamnings hinn 7. júní sama ár. Umrædd kvittun, sbr. dskj. nr. 113, er að fjárhæð 411.885 krónur. Kvaðst vitnið halda að inni í 450.000 króna greiðslunni hefði einnig verið gert ráð fyrir þinglýsingar- og stimpilkostnaði.
Stefnandi heldur því fram að eftirstöðvar útborgunar í íbúðina hafi verið greiddar með fjárframlagi frá föður hennar að fjárhæð 400.000 krónur. Hefur stefnandi lagt fram yfirlit yfir peningamarkaðsreikning föður síns þar sem fram kemur að hinn 9. apríl 1999, eða daginn áður en íbúðin var afhent, hafi 812.407,27 krónur verið teknar út af reikningnum og hann eyðilagður. Faðir stefnanda, Hafsteinn Oddsson, bar hér fyrir dómi að hann hefði tekið þessa fjárhæð út og skipt henni á milli stefnanda og systur hennar. Á sömu lund hefur borið systir stefnanda, Hildur. Engin önnur gögn hafa verið lögð fram í málinu, sem rennt geta stoðum undir þessa frásögn, svo sem yfirlit yfir bankareikninga stefnanda og systur hennar. Við mat á trúverðugleika framangreindra vitna verður og að hafa í huga að þau eru tengd stefnanda nánum fjölskylduböndum. Með því að önnur gögn málsins renna engum stoðum undir framburð þessara vitna þykir ekki unnt að byggja á þeim í málinu.
Í ljósi trúverðugs framburðar vitnisins Jóns Gunnarssonar um að Hlynur heitinn hafi komið einn til hans og innt greiðsluna af hendi í reiðufé, sem einnig fær stuðning í framlögðum gögnum, og með hliðsjón af því að Hlynur heitinn hafði skömmu síðar fengið 750.000 krónur greiddar í reiðufé vegna sölu á bifreið, þykja allar líkur standa til þess að greiðsla á eftirstöðvum útborgunar í íbúðina hafi stafað frá Hlyni heitnum. Ósannað þykir því að stefnandi hafi greitt hluta af útborgun í íbúðinni.
Hinn 19. maí 1999 seldi Hlynur bifreiðina LR-325, Eagle Talon, á 1.950.000 krónur, sbr. dskj. nr. 164, og var kaupverðið greitt með yfirtöku áhvílandi láns og með bifreiðinni ZX-023 af gerðinni Dodge Neon sport, en sú bifreið var í eigu Hlyns þegar hann lést. Daginn eftir eða hinn 20. maí 1999 voru 359.000 krónur lagðar inn á reikning nr. 839 og þykir sýnt að þeir fjármunir hafi komið út úr þeim bílaviðskiptum, enda virðist bifreiðin ZX-023 hafa verið talsvert veðsett, sbr. dskj. nr. 151 og 164. Samkvæmt ökutækjaskrá var bifreiðin DI-233, Ford Mustang, skráð á nafn Hlyns hinn 30. maí 1999 og samkvæmt skattframtali var kaupverð þeirrar bifreiðar 1.980.000 krónur. Samkvæmt einkaskiptagerð á dskj. nr. 8 var verðmæti hennar talið 1.300.000 krónur, en á henni hvíldi veðlán að fjárhæð 912.000 krónur.
Hinn 9. júní 1999 voru 399.500 krónur teknar út af reikningi nr. 839, en enga skýringu er að finna á þeirri færslu með vísan til ökutækjaskrár. Hinn 16. september 1999 var bifreiðin JY-876, af gerðinni Mitsubishi 3000, hins vegar skráð á nafn Hlyns. Samkvæmt skattframtali var hún innflutt og kostnaðarverð hennar 1.350.000 krónur. Af framlögðum gögnum er ekki ljóst hvernig kaup á þeirri bifreið voru fjármögnuð. Fram hefur komið í málinu að sú bifreið var í eigu Hlyns þegar hann lést.
Á dskj. nr. 145 og 146 má sjá að stefnda, Guðfinna, greiddi hinn 16. september 1999 vörugjöld, nýskráningargjald og önnur gjöld vegna Mitsubishi-bifreiðarinnar að fjárhæð 308.129 krónur, en reikningur vegna þessara gjalda er á nafni Hlyns heitins. Þá kemur fram á dskj. nr. 148 að stefnandi tekur 180.000 krónur í reiðufé út af reikningi stefndu, Guðfinnu, hinn 26. ágúst 1999. Þessi lán frá stefndu nema því samtals 488.129 krónum.
Hinn 5. október 1999 gaf Hlynur út skuldabréf að fjárhæð 2.000.000 króna til Sparisjóðsins í Keflavík, sbr. dskj. nr. 97, sem tryggt var með veð í fasteign stefndu, Hraunsvegi 6. Andvirði skuldabréfsins, 1.958.000 krónur, var lagt inn á reikning nr. 839 hinn 11. október, en yfirdráttur á honum nam þá 560.730 krónum. Daginn eftir var færslan leiðrétt og 408.090 krónur millifærðar af reikningnum til greiðslu á eftirstöðvum annars bankaláns Hlyns, sbr. dskj. nr. 97. Sama dag eru teknar út af reikningnum 1.030.654 krónur, en ekki liggur fyrir hvað af þeirri greiðslu varð. Liggur beinast við að telja að um sé að ræða greiðslu á kaupverði Mitsubishi-bifreiðarinnar, en einnig virðast foreldrar Hlyns hafa lánað tæplega 500.000 krónur eins og að ofan greinir. Eftir þessar færslur hafði yfirdráttur á reikningnum lækkað í 49.774 krónur. Með umræddu skuldabréfi greiddi Hlynur heitinn því upp eldra bankalán og lækkaði yfirdrátt á reikningnum um rúmlega 500.000 krónur og greiddi að öllum líkindum kaupverð áðurgreindrar bifreiðar og/eða lán frá stefndu.
Eins og sjá má af framangreindu velti Hlynur heitinn umtalsverðum fjárhæðum á reikningum sínum vegna viðskipta með notaða bíla og losaði oft talsverða fjármuni, en stofnaði einnig til nokkurra skulda. Allar bifreiðirnar voru á nafni Hlyns, sem og lán, sem tekin voru eða yfirtekin vegna kaupa á þeim.
Stefnandi heldur því fram að 300.000 krónur, sem hún hafi lagt inn á trompbók Hlyns heitins hinn 2. júní 1998, sbr. kvittun á dskj. nr. 108, hafi stafað frá henni og um hafi verið að ræða fjárframlag frá foreldrum hennar. Á kvittuninni kemur ekki fram að umrædd fjárhæð hafi komið af reikningi stefnanda, heldur virðist stefnandi hafi lagt fjárhæðina inn í reiðufé. Samkvæmt afsali á dskj. nr. 129 seldi Hlynur heitinn Atla Má Gunnarssyni bifreið af gerðinni Nissan Sunny hinn 31. maí 1998. Þar kemur fram að kaupverðið hafi verið greitt með 300.000 krónum við undirritun samnings svo og með yfirtöku áhvílandi láns. Vitnið Atli Már Gunnarsson staðfesti í símaskýrslu að hafa keypt bifreið af tegundinni Nissan Sunny af Hlyni heitnum um hvítasunnuhelgi í lok maí 1998. Ekki hefði verið hægt að ganga frá greiðslu á bifreiðinni fyrr en á þriðjudeginum eftir hvítasunnuhelgina. Aðspurður sagðist hann muna vel eftir þessu því þetta hefði verið fyrsta bifreiðin sem hann keypti sér. Með vísan til framangreinds þykir sannað að 300.000 krónur, sem stefnandi lagði inn á trompbók Hlyns heitins 2. júní 1998, sem var þriðjudagur, sé að rekja til sölu á framangreindri bifreið.
Þá hefur stefnandi bent á framlag hennar að fjárhæð 68.000 krónur frá 6. janúar 2000, sbr. dskj. nr. 127, en þar kemur fram að sú fjárhæð ásamt úttekt af trompbók Hlyns heitins að fjárhæð 24.758 fór til greiðslu Visa-reiknings að fjárhæð 92.758 krónur. Einnig hefur stefnandi bent á innborgun að fjárhæð 80.000 krónur inn á reikning nr. 839 hinn 22. júní 2000, sbr. dskj. nr. 87, bls. 2, og kveður hana stafa frá sér. Á yfirlitinu kemur hins vegar ekki fram að umrædd innborgun stafi frá stefnanda og verður því að telja það ósannað.
Loks heldur stefnandi því fram að innborgun inn á trompbók Hlyns heitins hinn 15. mars 1999 að fjárhæð 254.151,47 krónur stafi frá henni, en fjárhæð þessi kom af reikningi á hennar nafni, sbr. dskj. nr. 109. Bar stefnandi um það hér fyrir dómi að um hefði verið að ræða áralangan sparnað hennar, þ.e. sumarvinnulaun, fermingargjafir og fleira. Var henni þá bent á að í stefnu og aðilaskýrslu hennar á dskj. nr. 4 kæmi fram að hinn 15. apríl 1998 hefði hún látið Hlyn fá 98.000 krónur, sem hefði verið allt sparifé hennar. Í aðilaskýrslunni kæmi jafnframt fram að þessum peningum hefði hún verið búin að safna frá því að hún var barn og að hluti af þessari fjárhæð hefði verið verið fermingargjafir. Breytti stefnandi þá fyrri framburði sínum og sagði að verið gæti að þetta væru laun hennar frá sumrinu 1998, en þau hefðu ekki verið lögð inn á sameiginlega reikninginn. Fyrr í skýrslunni hafði stefnandi hins vegar haldið því fram að laun hennar sumarið 1998 hefðu verið lögð inn á sameiginlega reikninginn, en eftir ábendingar frá lögmanni stefndu áttaði hún sig á því að svo hafði ekki verið. Í framhaldi af því hélt stefnandi því fram að laun hennar þetta sumar hefðu farið inn á trompbók Hlyns nr. 425285. Í ljósi alls framangreinds þykir framburður stefnanda um þetta atriði ótrúverðugur.
Í fyrrgreindri aðilaskýrslu á dskj. nr. 4 kemur fram að sumarlaun stefnanda hafi m.a. verið nýtt til bifreiðakaupa, en þar minnist stefnandi ekkert á áðurgreint framlag sitt að fjárhæð 254.151,47 krónur. Það virðist hún fyrst hafa gert við aðalmeðferð máls þessa. Stefnandi hefur ekki lagt fram yfirlit yfir reikninga sína nr. 5005 og 44077 við Sparisjóðinn í Keflavík, sbr. dskj. nr. 4, en stefnandi veitt Hlyni heitnum prókúru á þessa reikninga 31. júlí 1998. Þá er yfirlit yfir trompbók Hlyns árið 1998 ekki meðal gagna málsins. Óupplýst er því hvert laun stefnanda runnu sumarið 1998.
Vitnið Ásdís Ýr Jakobsdóttir starfsmaður Sparisjóðs Keflavíkur, kvaðst hafa rakið þessar færslu á 254.151,47 krónum af reikningi stefnanda og sagði að umrædd fjárhæð hefði upphaflega komið af reikningi nr. 1191-15-555555, sem stofnaður hefði verið 31. júlí 1998 og inn á hann lagðar 270.000 krónur. Sú bók hefði verið eyðilögð 19. nóvember 1998 og fjárhæðin lögð fyrst inn á reikning nr. 839 og þaðan inn á reikning stefnanda, sem stofnaður hefði verið þann sama dag. Sjá má og af yfirliti yfir reikning nr. 839 að hinn 19. nóvember 1998 voru 254.715,07 krónur millifærðar inn á reikninginn, en fjárhæðin, sem er upp á 0,7 aura, bendir til þess að hún hafi komið af reikningi, sem hafi verið eyðilagður. Sama dag voru 260.000 krónur millifærðar af reikningnum aftur. Samkvæmt framlögðum gögnum námu laun stefnanda sumarið 1998 samtals 262.831 krónu og var hluti þeirra greiddur út í lok ágúst. Ljóst þykir því að stefnandi hafði ekki handbærar 270.000 krónur í lok júlí þetta sumar. Með hliðsjón af framangreindu þykir ósannað að umrædd fjárhæð stafi frá henni. Í ljósi málsatvika þykja hins vegar allar líkur standa til þess að um hafi verið að ræða fjármuni úr bílaviðskiptum Hlyns heitins.
Óumdeilt er að á sambúðartímanum keyptu stefnandi og Hlynur heitinn sófa frá versluninni Exó, sófaborð, hillueiningu og skenk frá versluninni Casa, sjónvarpstæki frá versluninni Einari Farestveit og ísskáp af gerðinni Vestfrost frá Raftækjaverslun Íslands. Samanlagt kaupverð framangreindra húsmuna nam samkvæmt framlögðum gögnum um 800.000 krónum. Stefndu hafa viðurkennt að hafa tekið ofangreinda húsmuni í sínar vörslur í júlímánuði árið 2000, enda hafi þau talið þessa muni tilheyra dánarbúi Hlyns.
Kemur þá til athugunar hvernig kaupum á þessum húsmunum var háttað.
Hinn 30. apríl 1999 voru 222.300 krónur skuldfærðar á reikning nr. 839 vegna viðskipta við verslunina Casa. Samkvæmt reikningi á dskj. nr. 93 var þar um að ræða kaup á hillu og sófaborði í versluninni og er reikningurinn stílaður á nafn Hlyns heitins. Þá voru 60.000 krónur skuldfærðar á sama reikning 20. desember sama ár vegna viðskipta við sömu verslun, en þar mun vera um að ræða kaup á skenk eða svonefndri Top hillu. Samkvæmt posakvittun á dskj. nr. 136 greiddi Hlynur heitinn skenkinn með debetkorti sínu. Vitnið Sigurbjörg Ólafsdóttir afgreiðslumaður í versluninni og dóttir þáverandi verslunareiganda, kvaðst muna vel eftir þessum viðskiptum af þeirri ástæðu að hún hefði skömmu síðar séð minningargreinar í dagblöðum um Hlyn. Kvaðst hún muna eftir að hafa selt Hlyni heitnum þessa muni og að faðir hennar hefði ekið þeim heim til hans. Aðspurð sagðist hún aðeins muna eftir Hlyni heitnum í tengslum við þessi viðskipti, en ekki stefnanda. Þá liggur frammi í málinu pöntunarsamningur á umræddum skenk, dagsettur 6. september 1999, og er Hlynur heitinn tilgreindur þar sem kaupandi, en undir pöntunina ritar stefnandi í máli þessu.
Þá er reikningur, dags. 26. apríl 1999, vegna kaupa á Vestfrost-ísskáp frá Raftækjaverslun Íslands hf. stílaður á nafn Hlyns heitins, sbr. dskj. nr. 67. Á reikningnum kemur fram að ísskápurinn var staðgreiddur, en engin færsla er vegna þessara kaupa á framlögðum reikningsyfirlitum. Hér verður að hafa í huga að skömmu áður hafði Hlynur heitinn fengið talsverða fjárhæð greidda í reiðufé eins og áður greinir. Þá kemur fram á dskj. nr. 94 að flutningafyrirtækið Landflutningar sáu um flutning á ísskápnum til Reykjanesbæjar og er nóta þar að lútandi skráð á nafn Hlyns.
Einnig er reikningur vegna kaupa á sjónvarpstæki í versluninni Einari Farestveit & Co. hf., dags. 6. júlí 1999, sbr. dskj. nr. 96, stílaður á nafn Hlyns heitins og samkvæmt viðfestri posakvittun fór greiðslan fram með símgreiðslu af Visa-korti hans. Þetta kemur einnig fram á Visa-reikningi á nafni Hlyns á dskj. nr. 89. Framlögð reikningsyfirlit bera það ekki með sér að umræddur Visa-reikningur, sem er að fjárhæð 499.553 krónur hafi verið skuldfærður á reikning nr. 839 eða áðurgreinda trompbók Hlyns.
Enn fremur liggur fyrir að keyptur var sófi frá versluninni Exó á árinu 1999, en ekki kemur fram hvað dag þau kaup fóru fram. Með trúverðugum framburði vitnisins Ægis Más Kárasonar þykir sannað að Hlynur heitinn keypti sófann og annaðist greiðslu á honum.
Af framangreindu er ljóst að kaup á húsmunum úr versluninni Casa að verðmæti 222.300 krónur fóru fram í apríl 1999, en jafnframt var áðurgreindur ísskápur að verðmæti 88.000 krónur keyptur í þeim mánuði. Á þeim tíma var stefnandi að klára nám í menntaskóla og ekki hefur komið fram í málinu að hún hafi haft tekjur á þeim tíma. Þegar hin eiginlega sambúð stefnanda og Hlyns heitins hófst í lok maí 1999 var reikningur nr. 839 ekki yfirdreginn, enda hafði Hlynur heitinn lagt inn á hann 600.000 krónur um miðjan apríl. Ljóst er að stefnandi fékk ekki útborguð laun fyrr en í byrjun júlí 1999. Þá liggur það fyrir að sjónvarpstækið var keypt með Visagreiðslukorti Hlyns og ekki er að sjá af framlögðum gögnum að sá reikningur hafi verið greiddur af sameiginlega reikningnum. Þá var skenkur úr versluninni Casa að verðmæti 60.000 krónur keyptur í lok desember 1999 og skuldfærður í sameiginlega reikninginn, sem var þá þegar yfirdreginn um rúmlega 167.000 krónur og hafði yfirdrátturinn hækkað enn þegar Hlynur féll frá.
Sjá má af gögnum málsins að við andlát Hlyns nam yfirdráttur á reikningi nr. 839 tæpum 300.000 krónum. Óumdeilt er að stefndu tóku að sér greiðslu á þessum yfirdrætti, sem og afborganir af áhvílandi veðskuldum á íbúðinni, svo og annan rekstrarkostnað íbúðarinnar, þar til hún var seld í nóvember 2000. Jafnframt tóku þau að sér afborganir og greiðslu á eftirstöðvum skuldabréfs, sem Hlynur tók í október 1999 og gekk m.a. til greiðslu á yfirdrætti að fjárhæð rúmlega 560.000 krónur á sameiginlega reikningnum í október 1999, en samkvæmt skattframtali Hlyns árið 2000 námu eftirstöðvar skuldabréfsins í árslok 1999 1.948.453 krónum. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir að ljóst sé að stefnandi hafi ekki lagt fram fjármuni til greiðslu á útborgun í íbúðinni að Heiðarholti var nettósöluandvirði íbúðarinnar skipt að jöfnu á milli stefnanda annars vegar og stefndu í máli þessu.
Í ljósi alls ofangreinds eru stefndu sýknuð af bótakröfum stefnanda vegna þeirra húsmuna, sem að ofan greinir og stefndu hafa viðurkennt að hafa fjarlægt úr íbúðinni.
Stefndu kannast ekki við að hafa tekið í sínar vörslur grilláhöld, sex bjórglös og sex staup af gerðinni Ritzenhoff frá Casa, fjögur plastglös, sex viskustykki, sex bolla og hnífapör, sbr. upptalningu á bls. 3-4 í stefnu. Rannsókn lögreglu staðfesti ekki að þessir munir væru í vörslum stefndu, sbr. skýrslu lögreglu frá 10. ágúst 2000. Þykir því ósannað að stefndu hafi tekið þessa hluti í sínar vörslur og ber að sýkna stefndu af bótakröfu stefnanda vegna töku þeirra.
Stefndu hafa viðurkennt að hafa tekið tvo hjólbarða og framvísuðu þeim við rannsókn lögreglu á sínum tíma. Ljóst er að umræddir hjólbarðar tilheyrðu bifreiðum Hlyns og með vísan til alls ofangreinds verður ekki séð að stefnandi eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefndu vegna töku á þeim.
Stefndu kannast ekki við að hafa tekið í sínar vörslur muni, sem stefnandi kveðst hafa átt persónulega, sbr. upptalningu ofarlega á bls. 3 í stefnu, og rannsókn lögreglu leiddi ekki í ljós að þessir munir væru í vörslum stefndu. Þykir því ósannað að stefndu hafi tekið þessa hluti í sínar vörslur og ber að sýkna stefndu af bótakröfu stefnanda vegna töku þeirra.
Þá hefur stefnandi krafist skaðabóta vegna gulmynstraðra rúmfata úr silkidamaski og Ilios-gólflampa frá Ingo Maurer, sem verið hafi í eigu foreldra hennar, en stefnandi kveður að þau hafi framselt henni allar eignarheimildir að þessum munum, sbr. dskj. nr. 80.
Stefndu hafa viðurkennt að hafa tekið V-laga gólflampa, sem sé á mynd á dskj. nr. 79, bls. 5, úr íbúðinni í sínar vörslur og halda því fram að hann hafi verið í eigu Hlyns heitins. Hefur stefnda, Guðfinna, borið um það að lampinn hafi verið í íbúðinni að Heiðarholti í afmæli Hlyns hinn 6. desember 1999 og að Hlynur hafi tjáð þeim að hann hefði keypt hann. Síðar hafi hann sagt þeim að faðir stefnanda hefði greitt honum fyrir vinnuna í versluninni Rafmagni og að öll ljós í íbúðinni væru greidd. Sannað þykir með framburði vitnanna Hafsteins Oddssonar, Aðalsteins Hallbjörnssonar og Stefáns Odnegaard að Hlynur heitinn var við störf í verslun foreldra stefnanda, Rafmagni, fyrir jólin 1999. Hefur faðir stefnanda og borið um það að hafa greitt Hlyni fyrir vinnuna í reiðufé úr eigin vasa, en Hlynur hafi ekki verið á launaskrá hjá fyrirtækinu. Þá hefur vitnið, Aðalsteinn, borið um það að hafa séð umræddan lampa á heimili Hlyns og stefnanda áður en Hlynur lést. Með vísan til framangreinds þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að umræddur lampi hafi verið í eigu foreldra hennar. Ber því að sýkna stefndu af bótakröfum stefnanda vegna töku á lampanum.
Stefndu hafa borið um það að hafa tekið í sínar vörslur sæng og kodda Hlyns heitins. Stefnda, Guðfinna, kvaðst löngu síðar hafa áttað sig á því að utan um sængina og koddann voru rúmföt, sem hún kannaðist ekki við, þ.e.a.s. ekki hefði verið um að ræða rúmföt, sem Hlynur hefði haft með sér úr foreldrahúsum. Sagðist hún ekki vita hvað af þessum rúmfötum hefði orðið, en lengi hefðu þau verið geymd samanbrotin í kassa á geymslulofti. Faðir stefnanda, Hafsteinn Oddsson, hefur borið um það að hann og móðir stefnanda hafi komið með þessi rúmföt í íbúðina eftir fráfall Hlyns. Þessu hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefndu. Lagt hefur verið fram á dskj. nr. 70 ljósrit af staðfestingu frá versluninni Verinu um að Anna F. Reinhardsdóttir hafi hinn 3. mars 2000 keypt gulmynstrað rúmfatasett úr silkidamaski. Á sama skjali er einnig ljósrit af staðgreiðslunótu frá sömu verslun, dags. 3. mars 2000, vegna tveggja setta af rúmfötum á 24.800 krónur. Stefndu hafa mótmælt fjárhæð þessari með hliðsjón af því að aðeins eitt sett af rúmfötum hafi verið utan um sæng og kodda Hlyns. Í ljósi framangreinds þykir rétt að dæma stefndu til að greiða stefnanda 12.400 krónur vegna töku á umræddum rúmfötum. Fjárhæðin beri vexti eins og í dómsorði greinir.
Þá hefur stefnandi krafist afhendingar á munum nr. 1-5 og 7 á bls. 1 í stefnu.
Stefndu kannast ekki við að hafa tekið í sínar vörslur muni merkta nr. 1-4 á bls. 1 í stefnu, þ.e. kertastjaka fyrir sprittkerti, sykurstauk, stálskál og gullarmband. Rannsókn lögreglu staðfesti ekki að umræddir munir væru í vörslum stefndu. Þykir ósannað að stefndu hafi þessa muni í vörslum sínum og ber því að sýkna þau af kröfu stefnanda um afhendingu á þeim.
Stefndu hafa borið um það að stefnandi hafi eftir lát Hlyns komið með rauða möppu á heimili þeirra, en í henni hafi m.a. verið bókhald þeirra Hlyns og stefnanda. Síðar hafi stefnandi fjarlægt persónuleg gögn sín úr möppunni. Kváðust þau því ekki kannast við að hafa í vörslum sínum möppu með persónulegum gögnum stefnanda. Gegn andmælum stefndu þykir ósannað að þau hafi möppu með persónulegum gögnum stefnanda undir höndum og ber því að sýkna þau af kröfu stefnanda um afhendingu á henni.
Þá hafa stefndu viðurkennt að hafa tekið eldhúsborð úr gleri í sínar vörslur, en þetta borði hafi Hlynur og stefnandi keypt í Ikea í október 1999. Með vísan til allra málsatvika og þess sem áður greinir um fjárframlög stefnanda og Hlyns heitins til kaupa á húsmunum, svo og með vísan til uppgjörs á skuldum dánarbús Hlyns þykir bera að sýkna stefndu af kröfu stefnanda um afhendingu á umræddu eldhúsborði.
Krafa um miskabætur.
Loks krefst stefnandi þess að stefndu greiði henni miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur. Til stuðnings kröfunni er í stefnu vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá er vísað til aðilaskýrslu stefnanda á dskj. 3 um þann miska, sem stefnandi hafi orðið fyrir. Að öðru leyti er miskabótakrafan ekki rökstudd í stefnu. Í málavaxtalýsingu stefnu segir hins vegar að eftir innbrotið hafi eftirmálin verið mikil þrautaganga. Í fyrsta lagi hafi sýslumaðurinn í Keflavík tregðast við að hafast að í málinu og í öðru lagi hafi hann ekki tekið í vörslur sínar þá muni, sem teknir hefðu verið traustataki. Stefndu hafi síðan nýtt þessa hluti átölulaust af hálfu yfirvalda. Stefnandi hafi fundið til mikillar niðurlægingar vegna eftirmálanna, þ.e. að brotist hafi verið inn á heimili hennar, munir teknir þaðan og að yfirvöld hafi látið það í reynd afskiptalaust og ekki sótt viðkomandi til saka.
Í aðilaskýrslu stefnanda á dskj. nr. 3 eru atvik málsins rakin í grófum dráttum. Þar lýsir stefnandi aðkomu sinni að íbúðinni að Heiðarholti hinn 2. ágúst 2000 og því áfalli, sem hún hafi orðið fyrir við að sjá að stefndu höfðu nánast tæmt íbúðina. Þá lýsir stefnandi daglegum ferðum sínum á fund sýslumanns til að knýja á um að farið yrði að lögum og að hlutirnir yrðu teknir úr vörslum stefndu. Einnig lýsir stefnandi því að hún hafi alls staðar gengið á veggi í samskiptum sínum við opinbera aðila í kjölfar málsins og að henni hafi fundist hún vera lítilsvirt og niðurlægð í þeim samskiptum. Þessi samskipti við opinbera aðila hafi fyllt hana vonleysi og örvæntingu og markað hana djúpum sárum. Vegna baráttu sinnar fyrir því að réttlætið næði fram að ganga í málinu hafi hún auk þess misst vinnuna og hrökklast frá námi.
Í e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi málsástæður sem stefnandi byggi málsókn sína á, svo og önnur atvik sem greina þurfi til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skuli vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé.
Samkvæmt þessu verða að koma fram í stefnu fullyrðingar stefnanda um atvik sem hann telur veita sér umkrafða hagsmuni og frásögn af atvikum, sem að öðru leyti er þörf að greina frá vegna samhengis. Lýsing þessi í stefnu þarf þannig að nægja til að taka af tvímæli um hver sú krafa er, sem stefnandi hefur uppi í máli, enda telst sakarefni ekki afmarkað nægilega nema ljóst sé hvaða atburður eða atvik búi að baki kröfu og hvað felist nánar tiltekið í þeim atvikum, sem leiði til þess að krafan sé til.
Af lestri stefnunnar og aðilaskýrslu stefnanda verður ekki ráðið hvort ætlaðan miska stefnanda sé að rekja til þess atviks er stefndu fóru inn í íbúðina að Heiðarholti 4 að stefnanda fjarstaddri og fjarlægðu þaðan húsmuni, eða hvort hann sé að rekja til þeirrar lítilsvirðingar og niðurlægingar, sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir í samskiptum sínum við opinbera aðila, en á þeim samskiptum geta stefndu ekki borið ábyrgð. Þá er krafan ekki studd nægjanlegum gögnum, en í framlögðu vottorði Rudolfs Adolfssonar geðhjúkrunarfræðings kemur fram að eftir að stefndu tæmdu íbúðina að Heiðarholti 4 hafi stefnandi talað einu sinni við hjúkrunarfræðinginn í síma. Með vísan til alls framangreinds þykir krafa stefnanda um miskabætur úr hendi stefndu svo vanreifuð að ekki verði komist hjá því að vísa henni frá dómi.
Niðurstaða málsins er því sú að stefndu er gert að greiða stefnanda 12.400 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir, en eru sýknuð af kröfum stefnanda um afhendingu á kertastjaka fyrir sprittkerti, sykurstauk, stálskál, gullarmbandi, rauðri möppu með persónulegum gögnum stefnanda og eldhúsborði úr gleri frá Ikea. Þá er miskabótakröfu stefnanda vísað frá dómi.
Í samræmi við málsúrslit er stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað, sem í ljósi umfangs málsins þykir hæfilega ákveðinn að fjárhæð 1.620.000 krónur.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.
Dómsorð:
Stefndu, Guðfinna Arngrímsdóttir og Sigurjón Þórðarson, greiði stefnanda, Hafdísi Perlu Hafsteinsdóttur, 12.400 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. júní 2007 til greiðsludags.
Stefndu eru sýknuð af kröfu stefnanda um afhendingu á kertastjaka fyrir sprittkerti, sykurstauk, stálskál, gullarmbandi, rauðri möppu með persónulegum gögnum stefnanda og eldhúsborði úr gleri frá Ikea.
Kröfu stefnanda um miskabætur er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefndu 1.620.000 krónur í málskostnað.