Hæstiréttur íslands

Mál nr. 246/2013


Lykilorð

  • Samningur
  • Gagnsök
  • Sératkvæði


                                     

Fimmtudaginn 28. nóvember 2013.

Nr. 246/2013.

Sól og heilsa ehf.

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

Íslensk-bandaríska ehf.

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

og

Íslensk-bandaríska ehf.

gegn

Sól og heilsu ehf. og

Cecil Viðari Jensen

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

Samningur. Gagnsök. Sératkvæði.

Í ehf. höfðaði mál á hendur S ehf. og krafðist greiðslu eftirstöðva kaupverðs vegna fellihýsis og markisu, en málsaðila greindi á um hvort komist hefði á samningur milli S ehf. og Í ehf. um kaupin. S ehf. hélt því meðal annars fram að Í ehf. hefði beint kröfu sinni að röngum aðila, þar sem S ehf. hefði einungis ætlað sér að leigja fellihýsið af kaupanda þess, SP hf. Talið var að ekkert í gögnum málsins renndi stöðum undir að SP hf. hefði keypt fellihýsið af Í ehf. Þvert á móti yrði ráðið af aðdraganda viðskiptanna, greiðslu S ehf. til handa Í ehf., eftir að fyrirsvarsmaður S ehf. kom á starfsstöð Í ehf., skoðaði þar fellihýsið og fékk það afhent, og yfirlýsingar fyrirsvarsmanns S ehf., um að kaupandi greiddi virðisaukaskatt af kaupverði, að komist hefði á skuldbindandi samningur milli S ehf. og Í ehf. um kaup S ehf. á fellihýsinu. Var skráning fellihýsisins í ökutækjaskrá og reikningur, sem gefinn var út á hendur SP hf. fyrir greiðslu kaupverðs þess, engu talið breyta um það kröfuréttarsamband sem stofnast hefði milli Í ehf. og S ehf. Var S ehf. því gert að greiða Í ehf. eftirstöðvar kaupverðs vegna fellihýsisins og markisu.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. febrúar 2013. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 20. mars 2013 og áfrýjaði hann öðru sinni 11. apríl sama ár. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 24. júní 2013. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms en hefur fallið frá kröfu sinni á hendur stefnda, Cecil Viðari Jensen. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi, Cecil Viðar Jensen, krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Gagnáfrýjandi flytur inn og selur bifreiðar og önnur ökutæki. Óumdeilt er að fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda kom á starfsstöð gagnáfrýjanda, skoðaði þar fellihýsið BJ D73 og undirritaði kaupleigusamning við fjármögnunarfyrirtækið SP fjármögnun hf. 15. júlí 2011. Í kaupleigusamningnum er SP fjármögnun hf. sagt vera leigusali og aðaláfrýjandi leigutaki. Þar segir að leigusali og leigutaki hafi gert með sér samkomulag um afnotarétt eiganda að fellihýsinu og kaup leigutaka að því í lok leigutíma. Samningsverð er tilgreint 1.314.661 króna.

Aðaláfrýjandi greiddi gagnáfrýjanda 100.000 krónur og 294.398 krónur þegar hann fékk fellihýsið afhent. Í kjölfarið notaði hann fellihýsið sumarið 2011. Fyrir dómi bar fyrirsvarsmaður gagnáfrýjanda að fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda hafi komið á starfsstöð hans að ,,kaupa vöru“ og að gerður hafi verið munnlegur samningur um kaupin. Jafnframt kvað hann þann kaupleigusamning sem liggur frammi í málinu vera hefðbundinn á þann hátt að SP fjármögnun hf. sé skráð sem eigandi hins selda, en lántaki sleppi við að greiða þinglýsingagjöld og stimpilgjöld og lántaki sé umráðamaður hins selda. Hann kvað fyrirsvarsmann aðaláfrýjanda hafa sagst vera með fyrirtæki og viljað ,,nota virðisaukaskattinn“ þar sem hann ætlaði að ,,taka þetta inn í þennan rekstur sinn“. Spurður um ástæðu þess að í sölutilkynningu sé seljandi sagður vera Olíuverslunin eða Ellingsen, kvað hann gagnáfrýjanda hafa keypt lager af fellihýsum af Ellingsen og á þeim tíma er gagnáfrýjandi seldi ofangreint fellihýsi hafi ekki verið búið ,,að nafnbreyta [fellihýsinu] yfir“ á gagnáfrýjanda. Fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda hafi skilað fellihýsinu vegna meints galla og sé það nú á þjónustuverkstæði Ellingsen.

Gagnáfrýjandi gaf út reikning 15. júlí 2011 vegna sölu á fellihýsinu og markisu á hendur SP fjármögnun hf. og er kaupverð hins selda tilgreint 1.649.900 krónur með virðisaukaskatti. Sama dag var SP fjármögnun hf. skráð sem eigandi fellihýsisins í ökutækjaskrá og aðaláfrýjandi sem umráðamaður þess. Á reikninginn er handskrifað að kaupandi greiði virðisaukaskatt 335.239 krónur 5. október 2011. Þar undir er nafn fyrirsvarsmanns aðaláfrýjanda ritað eigin hendi. Á reikningnum kemur jafnframt fram að umráðamaður hins keypta sé aðaláfrýjandi. Í gögnum málsins er að finna yfirlýsingu Landsbankans hf., 12. október 2012, sem SP fjármögnun hf. mun hafa sameinast, um að fyrrgreindur kaupleigusamningur hafi ekki verið undirritaður á fullnægjandi hátt, en hann hafi verið gerður á starfsstöð gagnáfrýjanda. Hann hafi ekki orðið ,,virkur“ og muni bankinn ,,ekki gera neinar kröfur vegna þessa samnings“. Sé aðeins  ,,beðið eftir niðurstöðu dómsmálsins varðandi það hver á að vera skráður eigandi BJD-73”.

II

Ágreiningur málsins snýst um hvort komist hafi á samningur milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda um kaup á ofangreindu fellihýsi og markisu, en aðaláfrýjandi heldur því fram að hann hafi einungis ætlað sér að leigja fellihýsið af SP fjármögnun hf., sem hafi verið kaupandi þess. Við mat á því hvort til kröfuréttarsambands milli SP fjármögnunar hf. og gagnáfrýjanda hafi stofnast, sem leitt geti til þess að gagnáfrýjandi hafi í máli þessu beint kröfu sinni um greiðslu kaupverðs að röngum aðila, ber að líta til þess að fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda kom á starfsstöð gagnáfrýjanda, skoðaði þar fellihýsi og fékk það afhent eftir að hafa  greitt gagnáfrýjanda 394.398 krónur. Óumdeilt er að engar greiðslur komu frá SP fjármögnun hf. vegna þessara viðskipta og aðaláfrýjandi skilaði fellihýsinu til gagnáfrýjanda vegna meints galla, en ekki til SP fjármögnunar hf. Þannig er ekkert í gögnum málsins sem rennir stoðum undir að SP fjármögnun hf. hafi keypt fellihýsið af gagnáfrýjanda. Þvert á móti verður ráðið af aðdraganda viðskiptanna, fyrrgreindri greiðslu aðaláfrýjanda og yfirlýsingu fyrirsvarsmanns hans um að kaupandi greiði virðisaukaskatt af kaupverði, að komist hafi á skuldbindandi samningur milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda um kaup þess fyrrnefnda á fellihýsinu. Breytir skráning í ökutækjaskrá og reikningur útgefinn á SP fjármögnun hf. fyrir greiðslu kaupverðs, engu um það kröfuréttarsamband sem stofnast hafði milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda. Liggur enda fyrir yfirlýsing Landsbankans hf. þess efnis að fyrrgreindur kaupleigusamningur hafi ekki orðið ,,virkur“ og muni SP fjármögnun hf. ,,ekki gera neinar kröfur vegna þessa samnings“.

Málsástæður til stuðnings því að aðaláfrýjandi hafi rift kaupunum eða þau fallið niður eru ekki studdar gögnum og eru því haldlausar.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Yfirlýsing gagnáfrýjanda um að fallið væri frá kröfum á hendur stefnda, Cecil Viðari Jensen, kom fyrst fram eftir að skilað hafði verið greinargerð af hans hálfu fyrir Hæstarétti. Verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Sól og heilsa ehf., greiði gagnáfrýjanda, Íslensk-bandaríska ehf. 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi greiði stefnda, Cecil Viðari Jensen 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar  hæstaréttardómara

Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda er gagnáfrýjandi innflytjandi og söluaðili bifreiða og annarra ökutækja hér á landi. Hinn 15. júlí 2011 kom fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda, Cecil Viðar Jensen, á starfstöð gagnáfrýjanda og undirritaði þar drög að kaupleigusamningi við fjármögnunarleigufyrirtækið SP fjármögnun hf. vegna fellihýsis með fastanúmerið BJ D73. Í drögunum var aðaláfrýjandi skráður leigutaki og SP fjármögnun hf. leigusali. Samningsverð var þar tilgreint 1.314.661 króna. Við undirritun samnings skyldi greiða 394.398 krónur í fyrstu leigugreiðslu en eftir það skyldi mánaðarlegt legugjald vera 14.692 krónur, verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs með fyrsta gjalddaga 1. september 2011 en hinn síðasta 1. ágúst 2018. Hinn 15. júlí 2011 gaf gagnáfrýjandi út reikning á hendur SP fjármögnun hf. fyrir sölu á framangreindu fellihýsi og markisu, samtals að fjárhæð 1.314.661 króna sem á lagðist virðisaukaskattur að fjárhæð 335.239 krónur. Á reikningnum kom fram að aðaláfrýjandi væri „umráðamaður“ hins selda. Þá var ritað: „Kaupandi greiðir VSK 335.239 þann 5. október 2011“ og fylgdi þessari áritun undirskrift Cecils Viðars. Með tilkynningu 15. júlí 2011 undirritaðri af hálfu gagnáfrýjanda, SP fjármögnunar hf. og Cecils Viðars til Umferðarstofu var SP fjármögnun hf. skráð eigandi fellihýsisins. Ekki verður ráðið að óumdeilt sé að aðaláfrýjandi og Cecil Viðar hafi greitt inn á kaupverðið eins og greinir í héraðsdómi. Greiðslur þær sem inntar voru af hendi, samtals 394.398 krónur, og gagnáfrýjandi tók við voru í samræmi við fjárhæð fyrstu leigugreiðslu samkvæmt drögum að kaupleigusamningnum. Þá hefur það ekki sérstaka þýðingu við úrlausn málsins að fyrirsvarsmenn aðaláfrýjanda gáfu ekki skýrslu í héraði eins og miðað er við í hinum áfrýjaða dómi.

Ágreiningur máls þessa snýst um hvort til gilds kaupsamnings hafi stofnast milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda um kaup á umræddu fellihýsi og markisu. Krefur gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda um greiðslu kaupverðs á grundvelli þess kaupsamnings sem stofnast hafi. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu stóð til af hálfu gagnáfrýjanda að SP fjármögnun hf. yrði eigandi fellihýsisins og markisunnar og myndi greiða kaupverðið, en SP fjármögnun hf. leigja svo tækin aðaláfrýjanda. Af því varð ekki þar sem af hálfu gagnáfrýjanda og SP fjármögnunar hf. er miðað við að ekki hafi verið ritað undir fjármögnunarleigusamninginn af hálfu aðaláfrýjanda með fullnægjandi hætti. Neitaði SP fjármögnun hf. að greiða gagnáfrýjanda kaupverðið þar sem ekki hafði stofnast til gilds kaupleigusamnings þess félags við aðaláfrýjanda. Sú staðreynd leiðir þó ekki til þess að gagnáfrýjandi, sem sá um skjalagerð og annaðist um framangreinda tilkynningu til Umferðarstofu, hafi sýnt fram á að kaupsamningur hafi komist á milli hans og aðaláfrýjanda þannig að þeim síðarnefnda beri að efna slíkan samning eftir því efni sem gagnáfrýjandi miðar við. Eins og málatilbúnaði gagnáfrýjanda er háttað tel ég því að sýkna beri aðaláfrýjanda af kröfu gagnáfrýjanda en fella eigi að síður niður málskostnað þeirra í millum á báðum dómstigum, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað til handa Cecil Viðari er ég sammála niðurstöðu meirihluta dómenda.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2012.

Mál þetta, sem var þingfest 14. desember 2011 og dómtekið 15. október 2012, var höfðað af Íslensk-bandaríska ehf., kt. 620498-3439, Þverholti 6, Mosfellsbæ, með birtingu stefnu 1. desember 2011 gegn Sól og heilsu ehf., kt. 450687-1629, Pósthólfi 228, Kópavogi, og Cecil V. Jensen, kt. 050842-3129, Lækjarhvammi 12, Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir, in solidum, til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 1.255.502, ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af kr. 920.263 frá 15.7.2011 til 05.10.2011, af kr. 1.255.502 frá 05.10.2011 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, allt gegn útgáfu afsals á BJD73 til stefnda.

Stefndu gera aðallega þá kröfu að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda. Til vara er gerð krafa um að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Málavextir:

Stefnandi kveðst flytja inn bíla, hjól og önnur ökutæki og annast umsýslu og sölu á slíkum vörum. Samkvæmt stefnanda gerðu stefnandi og stefndu, þann 15. júlí 2011, með sér samning um að stefndi Sól og heilsa ehf. keypti fellihýsið BJD73, sem er af gerðinni Coleman Fleetwood, ásamt markisu, af stefnanda. Kaupverð hafi verið 1.649.900 krónur. Um hafi samist að stefndi greiddi 100.000 krónur við samningsgerð og 294.398 krónur við afhendingu. Stefndi hafi átt að greiða virðisaukaskattshluta kaupverðsins til stefnanda, 335.239 krónur, þann 5. október 2011 en eftirstöðvarnar ætlaði stefndi að fjármagna með lántöku hjá SP-Fjármögnunarleigu, að fjárhæð 920.263 krónur. Hafi stefndi fengið lánsloforð frá SP-Fjármögnun hf., fyrir milligöngu stefnanda. Samið hafi verið um á milli stefndu og SP-Fjármögnunar að stefndu fjármögnuðu kaupin með kaupleigusamningi þannig að Sól og heilsa ehf. væri greiðandi en að sjálfskuldarábyrgð yrði hjá stefnda Cecil. Stefndi hafi fyllt út gögn frá SP-Fjármögnun hjá stefnanda en á ófullnægjandi hátt, þ.e.a.s. stefndi Cecil undirritaði samninginn sem ábyrgðarmaður en sem greiðandi og leigutaki hafi hann aðeins skrifað „Fyrir hönd sól og heilsu“. SP-Fjármögnun hf. hafi ekki talið þetta fullnægjandi og neitað að greiða umsamda fjárhæð út til stefnanda. Áður en mistökin komu í ljós hafi stefndu fengið fellihýsið afhent. Daginn eftir að stefndu fóru með fellihýsið kom í ljós að stefndi Sól og heilsa ehf. fengi ekki umrætt lán frá SP-Fjármögnun nema lagfæra undirritun sína. Stefndi Cecil hafi margsinnis ætlað að koma til stefnanda og lagfæra undirskriftina á samningnum en þegar á leið hafi hann borið göllum á hjólhýsinu við og neitað að undirrita tilætluð gögn. Stefndu hafi fengið fellihýsið afhent við samningsgerðina og séu með það í sínum vörslum og hafi notað það frá afhendingardegi. Fellihýsið hafi verið skráð hjá Umferðarstofu á nafn SP-Fjármögnunar hf. en stefndi Sól og heilsa ehf. sé skráður umráðamaður.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því að skuldbindandi munnlegur samningur hafi stofnast milli hans og stefndu, er varði kaup á fellihýsinu. Stefndi hafi greitt útborgun til stefnanda og undirritað samning milli stefnda og SP-Fjármögnunar hf. fyrir milligöngu stefnanda og fengið fellihýsið afhent í kjölfarið og notað það. Auk þess hafi hann fallist á að greiða stefnanda virðisaukaskattsgreiðslu vegna kaupanna síðar, eða 5. október 2011. Vegna ófullnægjandi undirskriftar stefndu hafi SP- Fjármögnun hf. neitað að greiða lánið til stefnanda. Þrátt fyrir ítrekanir hafi stefndu ekki fengist til að ganga frá undirritun sinni hjá stefnanda né SP-Fjármögnun hf.

Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóm fyrirsvarsmaður stefnanda auk tveggja starfsmanna stefnanda. Báru þeir allir að gerður hafi verið samningur um kaup stefndu á fellihýsinu af stefnanda og að stefndu hafi verið ljóst að ekki væri um leigusamning að ræða. Stefnandi hafi aldrei leigt út fellihýsi heldur einungis boðið þau til sölu. Stefnandi hafi keypt af Ellingsen fimmtíu fellihýsi og endurselt síðan. Ellingsen hafi í tengslum við þau viðskipti tekið að sér tveggja ára þjónustusamning vegna bilana og eða galla á fellihýsunum. Kvað stefnandi stefnda Cecil hafa kvartað yfir göllum eftir að ítrekað hafi verið reynt að fá hann til að ganga lögformlega frá undirskriftum og að lokum hafi stefndi Cecil komið með fellihýsið til stefnanda og stefnandi fylgt honum til Ellingsen í þeim tilgangi að kanna hvort um gallað eintak væri að ræða. Stefndi Cecil hafi þá sagt að stefnandi gæti hirt fellihýsið og hafi yfirgefið vettvang. Fellihýsið væri enn staðsett hjá Ellingsen en það væri þar á ábyrgð stefndu. Ekkert hafi komið fram um meinta galla á fellihýsinu og aldrei hafi neinum kröfum um riftun á kaupunum verið beint til stefnanda. Þá hafi stefndu ekki borið fyrir sig að um kaupleigu hafi verið að ræða fyrr en í greinargerð sinni fyrir dóminum.

                Stefnandi kveðst mótmæla öllum málsástæðum sem fram komi í greinargerð stefndu. Þá kveður stefnandi að samningssamband á milli stefndu og SP-fjármögnunar hafi aldrei komist á. Stefndi Cecil hafi komið til stefnanda, óskað eftir kaupum á nýju fellihýsi, greitt inn á kaupverðið og óskað eftir því að skrá stefnda Sól og heilsu ehf. sem kaupanda þar sem hann ætlaði að nýta sér virðisaukaskattinn sem innskatt í rekstri félags síns. Því hafi hann óskað eftir því að greiða þá fjárhæð sem nam virðisaukaskattinum síðar eða á þeim tíma er stefnandi átti að skila til ríkisins skattinum. Það hafi stefnandi samþykkt, enda hafi stefndi Cecil kvittað undir það á reikninginn með eigin undirritun. Segir stefnandi að hafi verið um leigu að ræða þá greiddist ekki virðisaukaskattur af kaupverðinu. Kvað hann tilganginn með fyrirkomulagi stefndu og SP-Fjármögnunar hf. vera sniðganga á stimpil- og lántökugjöldum, en það væri stefnanda óviðkomandi. Þetta væri þekkt fyrirkomulag, enda væri niðurstaða kaupleigusamningsins sú að leigjandi eignaðist tækið í lok leigutímans. Hins vegar gerði SP-fjármögnun hf. þá kröfu að vera skráður eigandi tækisins á lánstímanum en kaupandi sé skráður umráðamaður hjá Umferðarstofu. Það fyrirkomulag sé stefnanda óviðkomandi.

Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Jafnframt vísar hann til ákvæða laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málavextir, málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu kveða atvik vera með þeim hætti að sumarið 2011 hafi SP-Fjármögnun hf. keypt eða ætlað að kaupa fellihýsið BDJ73 af stefnanda. Umsamið kaupverð hafi verið kr. 1.649.900. Stefnandi hafi gefið út reikning til SP-Fjármögnunar hf. vegna kaupanna. Stefndi Sól og heilsa ehf. hafi haft hug á að taka fellihýsið á leigu af SP-Fjármögnun og eignast það í lok leigutímans. Í því skyni hafi verið útbúin drög að kaupleigusamningi milli SP-Fjármögnunar hf. og stefnda Sólar og heilsu ehf. Skýrlega hafi komið fram í drögunum að SP-Fjármögnun hf. væri leigusali fellihýsisins og stefndi Sól og heilsa ehf. leigutaki. Samkvæmt umræddum drögum að samningi skyldi stefndi Sól og heilsa ehf. greiða fyrirfram ákveðna leigufjárhæð við undirritun samnings og nam sú fjárhæð 394.398 krónum. Gert hafi verið ráð fyrir því að stefndi Sól og heilsa ehf. myndi greiða virðisaukaskattshlutann af söluverði fellihýsisins. Þá hafi verið gert ráð fyrir að stefndi Sól og heilsa ehf. myndi greiða SP-Fjármögnun hf. jafnar mánaðarlegar leigugreiðslur sem svaraði til þess sem eftir stæði af verði fellihýsisins samkvæmt samkomulagi SP-Fjármögnunar hf. og stefnanda um kaup á því. Enn fremur hafi verið gert ráð fyrir í samningsdrögum að stefndi Sól og heilsa ehf. myndi kaupa fellihýsið af SP-Fjármögnun hf., með fyrirfram ákveðinni lokagreiðslu. Þá hafi enn fremur verið fyrirhugað að stefndi Cecil myndi gangast í sjálfskuldarábyrgð samkvæmt samningnum. Samkvæmt samkomulagi Sólar og heilsu ehf. og SP-Fjármögnunar hf. hafi hið fyrrnefnda félag greitt 394.398 krónur til stefnanda. Í kjölfarið hafi stefndi Sól og heilsa ehf. fengið fellihýsið afhent til umráða og afnota. Eftir afhendinguna hafi fljótlega orðið ljóst að fellihýsið hafi verið haldið ýmsum göllum. Verulegum vandkvæðum hafi verið bundið að loka dyrum fellihýsisins, útdraganlegt svefnrými fellihýsisins hafi verið meingallað og hafi nærri illa farið þegar rýmið hafi dottið niður og kona sem þar var hafi fallið út úr fellihýsinu. Fellihýsinu hafi því verið skilað til stefnanda eftir að hafa verið notað tvisvar sinnum og stefnandi síðan haft það í umráðum sínum. Stefnandi hafi gert þá kröfu að skrifað yrði undir drögin að samningi stefndu Sólar og heilsu ehf. og SP-Fjármögnunar hf. Stefndi hafi hins vegar neitað því þar sem hann hafi ekki haft hug á því að leigja fellihýsið lengur. Hafi stefnda Sól og heilsa ehf. litið svo á að lögskiptum þess og SP-Fjármögnunar hf. væri þar með lokið.

Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að þau séu ekki réttir aðilar málsins, og það leiði til aðildarskorts. Aldrei hafi staðið til að stefndi Sól og heilsa ehf. keypti fellihýsið af stefnanda heldur hafi það verið SP-Fjármögnun hf. sem hafi keypt það eða ætlað að kaupa það. Í samræmi við það hafi stefnandi gefið út reikning á SP-fjármögnun hf. fyrir andvirði fellihýsisins. Ef talið verði að stefnandi eigi yfirhöfuð einhverja kröfu vegna þessara lögskipta sé ljóst að sú krafa sé á hendur SP-Fjármögnun hf. en hvorugum stefndu, enda sé ekkert kaupsamningssamband milli þeirra og stefnanda. Þá sé því enn fremur mótmælt sem röngu að stefnandi hafi lánað stefnda Sól og heilsu ehf. hluta kaupverðsins, enda liggi ekkert fyrir um slíkt lán. Rétt sé að taka fram að stefnda Sól og heilsa ehf. hafi vissulega fengið fellihýsið afhent. Það hafi hins vegar staðið stefnanda nær að gæta hagsmuna sinna í þessum efnum og afhenda ekki fellihýsið fyrr en greiðsla frá kaupanda, SP-Fjármögnun hf., hafi borist. Verði og að hafa í huga að stefnandi sé þaulkunnugur viðskiptum af þessu tagi og verði sjálfur að bera ábyrgð á þeim mistökum, sem kunna að hafa átt sér stað við afhendingu hýsisins eða skjalagerð tengdum sölu þess til SP-Fjármögnunar hf. Stefndu geti í öllu falli ekki borið ábyrgð á athöfnum stefnanda að þessu leyti, enda hafi engin skylda hvílt á þeim til að gæta hagsmuna hans. Hafi það aldrei verið ætlun stefndu að hafa umráð fellihýsisins án þess að greiða fyrir afnotin. Megi í öllu falli ljóst vera að stefnandi geti ekki beint kröfum sínum að stefnda Cecil Viðari, enda hafi það verið Sól og heilsa ehf. sem hafi ætlað að taka fellihýsið á leigu af SP-Fjármögnun hf. en ekki stefndi Cecil Viðar. Hins vegar hafi staðið til að stefndi Cecil Viðar tæki á sig sjálfskuldarábyrgð á efndum stefnda Sólar og heilsu ehf. samkvæmt hugsanlegum kaupleigusamningi. Til þeirrar skuldbindingar hafi hins vegar aldrei stofnast. Á stefndi Cecil Viðar því án alls efa enga aðild að máli þessu og verði því að sýkna hann af kröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Í öðru lagi byggja stefndu sýknukröfu sína á því að ekki hafi stofnast til fullgildandi samnings. Það hafi verið SP-Fjármögnun hf. sem hafi tekið að sér að kaupa fellihýsið af stefnanda en hvorugt stefndu. Enginn kaupsamningur hafi verið gerður milli stefnda Sólar og heilsu ehf. og stefnanda, enda hafi stefndi Sól og heilsa ehf. aldrei ætlað sér að kaupa fellihýsið af stefnanda. Þá benda stefndu á að ekki hafi heldur stofnast til kaupleigusamnings um fellihýsið svo sem þó hafi staðið til. Eins og áður sé rakið hafi komið til greina að stefndi Sól og heilsa ehf. tæki fellihýsið á leigu af SP-Fjármögnun hf. samkvæmt drögum að kaupleigusamningi þar um. Hafi þá jafnframt verið fyrirhugað að stefndi Cecil Viðar myndi ábyrgjast efndir stefnda Sólar og heilsu ehf. samkvæmt hugsanlegum samningi. Hins vegar hafi samningsdrögin aldrei verið réttilega undirrituð af hálfu stefnda Sólar og heilsu ehf. og því hafi aldrei stofnast til samnings félagsins og SP-Fjármögnunar hf.

Stefndu byggja sýknukröfu sína jafnframt á því að hvað sem líði fyrri lögskiptum aðila hafi fellihýsinu nú verið skilað aftur til stefnanda, enda hafi það verið haldið verulegum göllum. Sé stefnandi því eins settur og hann hafi verið í upphafi. Verði því í öllu falli að líta svo á að kaupunum hafi verið rift og þau gengið til baka, sbr. hér 39., sbr. 64., gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.

Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á að sýkna beri stefndu af öllum kröfum stefnanda, gera stefndu þá kröfu að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Vísa þau í þeim efnum til þeirra málsástæðna sem fram hafa komið.

Stefndu vísa máli sínu til stuðnings til almennra meginreglna íslensks samninga- og kröfuréttar. Þá vísa stefndu til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 16. gr. laganna. Stefndu vísa einnig til laga um þinglýsingu nr. 39/1978 og til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 39. og 64. gr. laganna. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 en um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Niðurstöður.

Ekki er ágreiningur um það að stefndu hafi fengið umrætt fellihýsi afhent hjá stefnanda.

                Ágreiningur aðila snýst um það hvort til skuldbindandi kaupsamnings hafi stofnast milli stefnanda og stefndu varðandi kaup á fellihýsinu.

                Stefnandi krefst þess að fá kaupverð fellihýsisins greitt úr hendi stefndu á grundvelli munnlegs samnings þeirra um kaup stefndu á fellihýsinu.           

                Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að engu samningssambandi sé til að dreifa milli þeirra og stefnanda og að kröfum stefnanda sé ranglega beint að stefndu. Til hafi staðið að stefndu leigðu fellihýsið af SP-Fjármögnun hf. með svokölluðum kaupleigusamningi, en til þess samnings hafi þó aldrei löglega stofnast eins og gögn í málinu bera með sér.              Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu Októ Þorgrímsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, Garðar Már Garðarsson og Sigurður Valgeir Óskarsson, starfsmenn stefnanda. Hvorki stefndi Cecil né fyrirsvarsmaður Sólar og heilsu ehf., komu fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins.

                Í málinu liggur fyrir reikningur frá stefnanda stílaður á SP Fjármögnun hf., vegna Coleman Sedona BJD73 að fjárhæð 1.266.932 krónur og markisu að fjárhæð 47.729 krónur, samtals 1.314.661 króna auk virðisaukaskatts, 335.239 krónur, allt samtals 1.649.900 krónur. Inn á reikninginn er handritað: „Kaupandi greiði vsk 335.239 þann 5. október 2011.“ Stefndi Cecil V. Jensen undirritar eigin hendi undir þessa áletrun. Er reikningurinn dagsettur 15. júlí 2011. Umráðamaður er tilgreindur á reikninginn stefndi Sól og heilsa ehf. Þá liggur fyrir afrit kaupleigusamnings, staðlaður frá SP-Fjármögnun, þar sem fellihýsið er tilgreint, leigutími sagður vera 84 mánuðir, leiga greidd við undirskrift, 394.398 krónur, og leigugjald mánaðarlega, 14.692 krónur. Fyrsti gjalddagi er 1. september 2011 og er kaupverð í lok samningstímans 27.608 krónur. Þá segir að sérstakt stofngjald, 11.504 krónur, greiðist með fyrstu leigugreiðslu. Í reit sem ætlaður er fyrir undirskrift lántakanda er ritað „Fyrir hönd Sól og heilsu“ og í reit sem ætlaður er fyrir undirritun sjálfskuldarábyrgðaraðila er ritað „Cecil V. Jensen“.  Þá liggur fyrir staðfesting frá Umferðarstofu þar sem eigandi er skráður SP Fjármögnun hf. og umráðamaður Sól og heilsa ehf. Innheimtuviðvörun, dagsett 11. október 2011, liggur fyrir og innheimtubréf, dagsett 21. október 2011.

                Stefndu krefjast sýknu í fyrsta lagi á grundvelli aðildarskorts. Því mótmælir stefnandi.

                Fallast má á það með stefndu að ekki hafi stofnast til gilds samnings milli þeirra og SP-fjármögnunar hf. þar sem undirritun samningsins var ábótavant. Þá er ekkert í málinu sem styður að stefndi Cecil hafi einnig ætlað að vera kaupandi að fellihýsinu, heldur sýna gögn málsins að eingöngu stefndi Sól og heilsa ehf. hafi átt að vera kaupandi að því. Aðkoma stefnda Cecils persónulega er að samningi milli hans og SP-Fjármögnunar ehf. en ekki að samningi um kaupin á fellihýsinu. Verður stefndi Cecil því sýknaður af kröfum stefnanda.

                Breytir það þó engu um lögskipti milli stefnanda og stefnda Sólar og heilsu ehf. Lögskipti þeirra fólu í sér að stofnað var til munnlegs samnings um að stefndi Sól og heilsa ehf. keypti fellihýsið af stefnanda á þar til greindu kaupverði. Stefnandi hafði einungis milligöngu um að koma á samningssambandi milli SP-Fjármögnunar hf. og stefndu um fjármögnun kaupverðsins. Verður ekki séð að ágalli á þeirri samningsgerð leiði til þess að enginn gildur samningur hafi stofnast milli stefnanda og stefnda Sólar og heilsu ehf. um kaup á fellihýsinu, enda stefnanda algerlega óviðkomandi hvernig stefndu hugðust fjármagna kaupin og ábyrgðin í þeim efnum algjörlega á herðum stefndu. Ljóst er að Cecil V. Jensen kom til stefnanda, samdi um kaup og skilmála á fellihýsinu  og fékk síðan fellihýsið afhent í kjölfarið til notkunar. Óumdeilt er af hálfu beggja aðila að umsamið kaupverð var 1.649.900 krónur. Þá er einnig óumdeilt að stefndu greiddu innborgun á kaupverðið að fjárhæð 100.000 krónur og við afhendingu fellihýsisins 294.398 krónur. Stefndu hafa hvorki greitt til stefnanda né SP-Fjármögnunar mismun á kaupverðinu en ekki er ágreiningur um þá fjárhæð.    Ekki verður tekið undir þá málsástæðu stefnda að samningssamband hans hafi átt að vera við SP-Fjármögnun hf. enda er ljóst af gögnum málsins og óumdeilt að stefndu komu á starfsstöð stefnanda, greiddu inn á kaupverðið og undirrituðu skjöl sem áttu að veita stefndu lánsfé fyrir eftirstöðvum kaupverðsins, en sú fjárhæð átti að  ganga til stefnanda sem fullnaðargreiðsla fyrir utan greiðsluna sem átti að greiða 5. október 2011. Stefndu héldu fram í greinargerð sinni að samningssambandið hafi átt að vera á milli þeirra og SP-Fjármögnunar hf. og að SP-Fjármögnun hf. hafi ætlað að kaupa fellihýsið af stefnanda og endurleigja það síðan til stefnanda Sólar og heilsu ehf. Ekkert í gögnum málsins bendir til að svo hafi verið og gegn mótmælum stefnanda eru þær fullyrðingar ósannaðar. Stefndu komu ekki fyrir dóminn og hefur málsatvikum sem stefnandi hefur haldið fram ekki verið hnekkt. Bera stefndu hallann af því. Verður stefndi Sól og heilsa ehf. því ekki sýknaður vegna aðildarskorts.

                Stefndu bera fyrir sig að fellihýsið hafi verið gallað og að stefnandi hafi tekið við því. Stefnandi staðfesti fyrir dóminum að stefndu hafi komið með hjólhýsið á starfsstöð stefnanda en stefnandi hafi fylgt stefndu með það til Ellingsen sem sá um viðgerðarþjónustu fyrir stefnanda. Þar hafi stefndi Cecil gengið í burtu og sagt þá geta átt fellihýsið. Stefndu hafa ekki lagt fram nein gögn um galla eða sýnt fram á að svo hafi verið. Þvert á móti liggja fyrir gögn frá þjónustuveri Ellingsen sem staðfesta að þær skemmdir, sem á fellihýsinu voru, stöfuðu af rangri notkun. Verður, gegn mótmælum stefnanda, þessari málsástæðu stefndu hafnað.

                Stefndu byggja á því að kaupin hafi gengið til baka þar sem fellihýsinu hafi verið skilað. Verður að taka undir með stefnanda að þó svo að stefndu hafi skilið fellihýsið eftir hjá þjónustuaðila stefnanda, þá hafi stefndu ekki sýnt fram á að kaupunum hafi verið rift eða kaupin gengið til baka. Verður því ekki tekið undir þá málsástæðu stefndu.

                Af öllu framangreindu verður að telja að til fullgilds samnings hafi stofnast milli stefnanda og stefnda Sólar og heilsu ehf. um kaup á fellihýsinu. Verða dómkröfur stefnanda því teknar til greina eins og nánar greinir í dómsorði. Stefndu fengu hjólhýsið afhent þann 15. júlí 2011 og reikningur gerður sama dag en samkomulag var um að stefndu greiddu því sem næmi virðisaukaskattinum, 335.239 krónur, þann 5. október 2011. Verður  stefndi, Sól og heilsa ehf.  því dæmdur til að greiða dráttarvexti frá þeim tíma þrátt fyrir að reikningurinn hafi verið ritaður á SP-Fjármögnun hf. að beiðni stefndu. 

                Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu verður hið stefnda félag Sól og heilsa ehf. dæmt til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Málskostnaður skal að öðru leyti falla niður.

                Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður dóm þennan upp.

Dómsorð.

                Stefndi Cecil V. Jensen er sýkn í máli þessu.

                Stefndi Sól og heilsa ehf., kt. 450687-1629, skal greiða stefnanda, Íslensk- bandaríska ehf., kt. 620498-3439, 1.255.502 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 920.263 krónum frá 15. júlí 2011 til 5. október 2011 en af 1.255.502 krónum frá þeim degi til greiðsludags gegn útgáfu afsals á BJD73 til stefnda Sólar og heilsu ehf.

                Stefndi Sól og heilsa ehf. greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.

                Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Cecil V. Jensen fellur niður.