Hæstiréttur íslands

Mál nr. 736/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómstóll
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Miðvikudaginn 11. desember 2013.

Nr. 736/2013.

Unnur Guðjónsdóttir

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

gegn

Icelandair ehf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

Kærumál. Dómstólar. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

U höfðaði mál á hendur I ehf. til viðurkenningar aðallega á því að uppsögn I ehf. á ráðningarsamningi málsaðila væri ógild en til vara að uppsögnin og framkvæmd hennar hafi verið ólögmæt. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá dómi með skírskotun til þess að U hefði ákveðið að bera ágreining málsaðila undir starfsráð I ehf. á grundvelli kjarasamnings og að með því að málsaðilar hefðu samið um að úr sakarefninu yrði leyst fyrir starfsráðinu ætti það ekki undir dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur taldi að virtum atvikum málsins og áskilnaði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar að ekki væri unnt að halda því fram að málsaðilar hefðu komið sér saman um að leggja ágreininginn undir úrskurð starfsráðs I ehf. Var því ekki talið að þeir hefðu með skýrum og ótvíræðum hætti samið um að sakarefni málsins yrði skilið undan lögsögu dómstóla. Hinn kærði úrskurður var því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málavextir eru raktir í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir var sóknaraðila, sem starfaði sem flugmaður, sagt upp störfum hjá varnaraðila með bréfi 30. júní 2011. Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) taldi að uppsögn sóknaraðila fæli í sér brot á starfsaldursreglum flugmanna varnaraðila þar sem ekki hafði verið leitað umsagnar starfsráðs, sbr. 11. gr. reglnanna, og krafðist þess með bréfi 26. júlí 2012 að starfsráð tæki málið til umfjöllunar og úrskurðaði uppsögnina ógilda. Starfsráð kvað upp úrskurð í málinu 24. ágúst 2012 og komst að þeirri niðurstöðu að varnaraðila hefði borið að leita umsagnar starfsráðs samkvæmt 11. gr. reglnanna en hafnaði kröfu FÍA um að uppsögn sóknaraðila væri ógild með vísan til þess að kæra væri of seint fram komin.

Starfsaldursreglur flugmanna varnaraðila eru hluti kjarasamnings FÍA og varnaraðila. Í 11. gr. reglnanna sem fjallar um misfellur í starfi segir að ef flugmaður vanrækir skyldur sínar eða gerist sekur um aðrar misfellur í starfi, eða stórfelldar ávirðingar utan starfs, svo stjórn eða forstjóri félagsins telji ástæðu til aðvörunar, starfsbanns um stundarsakir, stöðulækkunar eða uppsagnar geti hvor aðili fyrir sig, flugmaður (eða FÍA fyrir hans hönd) eða félagið skotið þeirri ákvörðun félagsins til umsagnar starfsráðs. Ekki er heimilt að segja flugmanni upp starfi fyrr en umsögn starfsráðs liggur fyrir, enda skal hún liggja fyrir innan tveggja vikna frá því að málið er afhent starfsráði.

Verkefni starfsráðs samkvæmt 1. mgr. 13. gr. reglnanna eru: a) Að gera starfsaldurslista og skera úr öllum ágreiningi sem kann að rísa út af starfsaldursreglunum eða röð á starfsaldurslista, b) Að veita umsagnir um þau atriði sem um er rætt í 11. gr. og c) Að úrskurða um önnur þau atriði, sem félagið og FÍA koma sér saman um að leggja undir úrskurð þess. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. eru úrskurðir starfsráðs endanlegir og bindandi fyrir báða aðila og verður ekki skotið til dómstóla. Þetta gildir þó ekki um umsagnir sem það gefur samkvæmt ákvæðum 11. gr.

Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá héraðsdómi á þeim forsendum að með því að aðilar hafi samið svo um að úr sakarefninu yrði leyst fyrir starfsráði yrðu þeir að hlíta úrskurði ráðsins, sbr. 2. mgr. 13. gr. starfsreglnanna.

Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að dómstólar hafi vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til, nema það sé skilið undan lögsögu þeirra eftir lögum, samningi, venju eða eðli máls. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Þessi regla um rétt manna til aðgangs að dómstólum útilokar þó ekki að þeir geti gert samninga um að tiltekinn ágreiningur verði ekki borinn undir dómstól en gera verður þá kröfu að slíkur samningur um afsal á réttinum sé skýr og ótvíræður.

Eins og rakið hefur verið krafðist sóknaraðili úrskurðar starfsráðs um gildi uppsagnar hennar þar sem varnaraðili hefði ekki farið að 11. gr. starfsreglnanna. Ekki var í kærunni tekið fram á hvaða staflið 1. mgr. 13. gr. starfsaldursreglnanna krafa sóknaraðila byggðist og þrátt fyrir að varnaraðili hafi í greinargerð sinni til starfsráðs mótmælt því að uppsögnin heyrði undir verksvið þess tók starfsráð ekki afstöðu til þess á hvaða ákvæði 1. mgr. 13. gr. það reisti aðkomu sína að málinu. Af orðalagi a. liðar ákvæðisins er óljóst hvaða atvik önnur en þau sem beinlínis lúta að svokölluðum starfsaldurslista falli þar undir. Þó sýnist ljóst miðað við það umsagnarferli sem gert er ráð fyrir í b. lið ákvæðisins varðandi atriði, sem 11. gr. starfsaldursreglnanna tekur til, að ágreiningur um uppsögn vegna misfella í starfi falli ekki undir úrskurðarvald starfsráðs samkvæmt a. lið ákvæðisins. Vegna þessa og óskýrleika í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir starfsráði verður við það að miða að krafa hans  hafi byggst á c. lið 1. mgr. 13. gr. reglnanna.

Eins og fram er komið byggði varnaraðili á því í greinargerð sinni til starfsráðs í tilefni af kæru sóknaraðila að uppsögn sóknaraðila heyrði ekki undir verksvið starfsráðs og í greinargerð sinni hér fyrir rétti kvaðst hann enga aðkomu hafa átt að þeirri ákvörðun sóknaraðila að leggja málið fyrir starfsráð. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að skilyrði c. liðar 1. mgr. 13. gr. starfsaldursreglnanna um að aðilar komi sér saman um að leggja ágreining undir úrskurð starfsráðs er ekki fullnægt. Verður því ekki fallist á að aðilar hafi samið með skýrum og ótvíræðum hætti um að sakarefni þessa máls verði skilið undan lögsögu dómstóla.

Samkvæmt því sem að framan greinir verður málinu ekki vísað frá héraðsdómi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Icelandair ehf., greiði sóknaraðila, Unni Guðjónsdóttur, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2013.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu, var höfðað af Unni Guðjónsdóttur, Tröllateig 16, Mosfellsbæ, á hendur Icelandair ehf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 4. febrúar 2013.

                Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi, að uppsögn ráðningarsamnings stefnanda og stefnda, hinn 30. júní 2011, sé ógild.  Til vara, að viðurkennt verði með dómi að uppsögnin og framkvæmd hennar hafi verið ólögmæt.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en úrskurður var kveðinn upp.

II

                Málavextir eru þeir, að stefnandi hóf störf hjá stefnda á árinu 1998, fyrst sem flugfreyja, en var fastráðin sem flugmaður 15. september 2006 eftir sex mánaða reynslutíma, og vann hún til 30. september það ár.  Hún kom aftur til starfa 15. mars 2007 og var þá ráðin til 30. september 2008.  Hún kom aftur til starfa 25. maí 2010 og starfaði til 21. ágúst 2010 og aftur 28. mars 2011 til 30. september 2011.  Stefnanda var sagt upp störfum með bréfum, dagsettum 29. og 30. júní 2011 og var ekki óskað eftir vinnuframlagi hennar á uppsagnarfresti.  Ástæða uppsagnarinnar var sögð sú, að hún stæðist ekki hæfniskröfur stefnda þrátt fyrir að hafa fengið mun meiri þjálfun af hálfu félagsins en almennt gerist um flugmenn þess, með tilheyrandi kostnaði. 

Stefnandi hafði sæti nr. 251 af 295 á starfsaldurslista flugmanna Flugleiða hf./Icelandair ehf., sem gilti frá 15. febrúar 2012 til 15. febrúar 2013.  Stefnandi kveður að á flugmannsferli sínum hjá stefnda hafi hún ætíð flogið farþegavélum félagsins.  Líkt og aðrir flugmenn sem ráðnir eru til stefnda séu yngstu flugmennirnir á framangreindum lista ráðnir yfir háannatíma í farþegaflugi frá vori fram á haust.  Stefnandi kveðst hafa staðist allar kröfur yfirvalda og einnig sérkröfur stefnda, sem gerðar séu til flugmanna og hafi hún fengið endurnýjaða tegundaráritun á vegum stefnda á Boeing 757 flugvélar alls fimm sinnum, 30. mars 2006, 30. júní 2006, 27. mars 2007, 4. október 2007 og 16. ágúst 2010.  Þess utan hafi hún útskrifast úr þjálfunarprógrammi með fullnægjandi hætti 22. júlí 2006, 19. júní 2007 og 16. ágúst 2010.

                Stefnandi var í fæðingarorlofi frá október 2007 og fram í júlí 2008 og kveðst þá hafa gert ráðstafanir til að koma aftur til vinnu og fá flugskírteini og tegundaráritanir endurnýjaðar.  Hún hafi orðið við sérstakri beiðni stefnda um að koma ekki til starfa, þar sem fyrir hafi legið uppsögn í hennar hópi, sem hafi átt að taka gildi í lok september 2008.  Stefnda hafi ekki þótt taka því að senda hana í kostnaðarsama þjálfun, þar sem ljóst hafi verið að starfstími það árið hefði einungis orðið u.þ.b. fimm vikur, auk þess sem stefndi hafi borið því við að eldsneytiskostnaður hefði hækkað verulega og því væri leitað allra leiða til að spara í rekstrinum.  Stefnandi hafi því fallist á að taka ekki sæti flugmanns og sleppa allri þjálfun það árið, gegn fullyrðingu stefnda um að tekið yrði tillit til þess við endurkomu og öll nauðsynleg þjálfun yrði þá í boði.

                Ekki hafi verið um að ræða neinar sumarráðningar hjá stefnda á árinu 2009 vegna samdráttar í flugi það árið.  Stefnandi hafi því verið með útrunnið flugskírteini þar sem hún hafi orðið við beiðni stefnda árið áður um að fara ekki í þjálfun, og hafi hún því haft litla möguleika á að sækja sér vinnu erlendis, eins og margir samstarfsmenn hennar hafi gert það árið.  Stefnandi kveður, að sérstaklega hafi verið um það samið, þegar hún hafi fallist á að sleppa þjálfun og flugmannsstörfum árið 2008, að hún fengi alla þá þjálfun sem nauðsynleg yrði þegar hún sneri aftur til starfa.  Stefnandi hafi komið aftur til starfa hjá stefnda á árinu 2010 frá miðju sumri og út ágúst það ár.  Stefnandi kveðst hafa staðist öll hæfnispróf hjá stefnda á þeim tíma.

                Hinn 21. ágúst 2010 var stefnandi flugmaður í kvöldflugi stefnda til Kaupmannahafnar.  Upp kom mótorbilun í vélinni í Kaupmannahöfn og fékkst ekki flugvirki til viðgerða fyrr en seint kvöldið eftir.  Stefnandi kveður að þar sem hún hafi átt frí og hefði gert ráðstafanir af því tilefni 23., 24. og 25. ágúst, hafi hún óskað eftir því að komast heim og fá lausn undan starfsskyldum og fá frí á áætluðum tíma.  Hafi hún leitað til áhafnavaktar með málið en ekki hafi verið orðið við óskum hennar, þrátt fyrir að þáverandi formaður FÍA hefði tjáð henni að hún ætti fullan rétt á slíku við þessar aðstæður.  Eftir að hafa talað við áhafnavaktina og óskað eftir því að leitað yrði leiða til að leysa hana undan starfsskyldum á frídögum hennar, hafi Hilmar B. Baldursson flugrekstrarstjóri hringt í hana og verið reiður vegna óska hennar.  Hafi stefnandi ítrekað í því samtali að hún myndi ekki yfirgefa flugstjórann við þessar aðstæður en jafnframt hafi hún óskað eftir því að kannaður yrði möguleiki á því að annar mannaði vélina fyrir hana.  Viðgerð vélarinnar reyndist tafsamari en áætlað var og flugu því bæði stefnandi og flugstjóri með farþegavél til Íslands 24. ágúst.

                Hinn 17. september 2010 hafi Hilmar Baldursson flugrekstrarstjóri kallað stefnanda á fund með Þorgeiri Haraldssyni yfirflugstjóra í tilefni af hópuppsögnum flugmanna þá um haustið.  Stefnandi kveður, að á fundinum hafi komið fram að flugrekstrarstjórinn væri afar óánægður með stefnanda vegna fyrrnefnds atviks, hann hafi talað um að nauðsynlegt væri að „stoppa stefnanda af“ sem flugmann og sagst naga sig í handarbökin yfir því að hafa ekki gert það fyrr.  Stefnandi kveðst hafa lokið þjálfunarprógrammi félagsins og útskrifast úr því með eðlilegum hætti 16. ágúst þá um sumarið.  Kveður hún svokallaða línuþjálfun hafa tekið lengri tíma en áður, þar sem hún hefði hvorki fengið þjálfun né flogið flugvél í tæp þrjú ár.  Stefnandi kveðst hafa mótmælt framkomnum ásökunum á fundinum en flugrekstrarstjórinn tekið því illa og beinlínis hótað stefnanda með því að erfitt yrði fyrir hana að koma aftur til starfa hjá félaginu.  Í lok fundarins hafi flugrekstrarstjórinn boðað að stefnanda yrði sent bréf í framhaldi fundarins.

                Stefnandi kveðst hafa látið formann FÍA vita af málinu og eftir að hún hefði móttekið áminningarbréf, dagsett 27. september 201, hinn 5. október 2010, hafi formaður FÍA svarað með bréfi, dagsettu 7. október 2010, þar sem áminningu vegna fyrrgreinds atviks í Kaupmannahöfn og samskipta við áhafnavaktina hafi verið mótmælt með formlegum hætti.  Stefnandi kveður Þorgeir Haraldsson yfirflugstjóra, sem ritað hafi áminningarbréfið að beiðni flugrekstrarstjóra, hafa móttekið bréfið og staðfest viðtöku mótmælanna hinn 11. október 2011, en engin svör hafi borist við því bréfi.

                Í framangreindu áminningarbréfi, dagsettu 27. september 2010, hafi þjálfun stefnanda verið rakin og tekið fram að stefnandi hafi fengið lítillega meiri þjálfun en gert hafi verið ráð fyrir.  Síðan segi: „að komi til endurkomu hjá þér síðar í starf flugmanns hjá Icelandair mun félagið ekki, ef á þarf að halda, bæta við aukaþjálfun þér til handa með öðrum hætti en því sem fram kemur í kafla 3.2.2 í þjálfunarhandbók félagsins þar sem fjallað er um „Handling og unsatisfactory proficiensy-Flight Crew““.  Stefnandi kveður þetta allt hafa gengið eftir þegar námskeið, þjálfun og undirbúningur hafi hafist í lok mars 2011.  Stefnandi hafi þá fengið vinnuskrá fyrir apríl og þar hafi komið fram að fyrsta flug hennar, FI 520, væri áætlað 18. apríl með flugstjóranum Hilmari B. Baldurssyni flugrekstrarstjóra.  Kveður stefnandi að þetta hafi valdið sér miklu hugarangri.

                Stefnandi kveður að í framhaldi af námskeiði hér heima hafi hún farið fjórar klukkustundir í flughermi í Kaupmannahöfn í apríl 2011, ásamt flugstjórum félagsins, sem einnig hafi verið að endurnýja réttindi sín.  Í þeirri þjálfun hafi stefnandi lítið fengið að fljúga sjálf, mun minna en hún hafi reiknað með.  Sá sem hafi annast þjálfunina hafi talið að stefnandi þyrfti meiri þjálfun fyrir prófið og hafi hann af því tilefni haft samband við Hilmar Baldursson, Þorgeir Haraldsson og Össur Brynjólfsson þjálfunarstjóra stefnda.  Eftir þann fund hafi síðan verið ákveðið að stefnandi fengi enga frekari þjálfun af hendi félagsins fyrir hæfnisprófið.  Ástæðu þess hafi þjálfarinn sagt vera fyrrgreint áminningarbréf frá 17. september 2010.

                Stefnandi kveðst hafa farið í prófið og útskrifast með LPC-réttindi þar sem hún hefði með fullnægjandi hætti uppfyllt kröfur um endurnýjun flugskírteinis, en ekki þær kröfur sem stefndi geri til OPC-prófs.

                Í kjölfar þessarar niðurstöðu fór stefnandi í endurtökupróf til Kaupmannahafnar hinn 5. maí 2011, án frekari þjálfunar af hendi stefnda.  Próf þetta annaðist Þórarinn Hjálmarsson flugstjóri Icelandair ehf. og í skýrslu hans til Þorgeirs Haraldssonar yfirflugstjóra kemur eftirfarandi fram: „Hér var um að ræða OPC nr. 2 þar sem fyrra hafði ekki gengið sem skyldi.  Sem fylgiskjal er LOFT prógrammið sent með til upplýsinga um hvað gert var í þessu OPC, sem var samið gagngert fyrir þetta próf.“  Síðan segir: „Niðurstaða mín eftir þetta OPC er að flugmannshæfileikar UGU eru ekki með þeim hætti að vogandi sé að hafa hana sem flugmann hjá þessu fyrirtæki.  Svo ég vitni í mína fyrri skýrslu þá er UGU góður félagi sem ætti alvarlega að skoða annað starf en að fljúga flugvél.“

                Stefnandi kveður, að eftir að þessi niðurstaða hafi legið fyrir hafi hún verið kölluð á fund yfirflugstjóra og þjálfunarstjóra hinn 12. maí 2011.  Hafi þar verið rædd staðan og sú staðreynd að ekki væri nein frekari þjálfun í boði.  Þar hafi henni verið ráðlagt að óska eftir launalausu leyfi hjá félaginu og fara ekki í annað endurtökupróf við svo búið.  Stefnandi kveðst hafa farið eftir þessum ráðleggingum og óskaði eftir slíku leyfi á fundinum.  Hinn 16. maí 2011 hafi svo Þorgeir Haraldsson yfirflugstjóri hringt í hana og tilkynnti henni að Hilmar Baldursson flugrekstrarstjóri hefði alfarið hafnað slíkum hugmyndum.

                Að kvöldi 16. maí 2011 skrifaði stefnandi tölvupóst til flugrekstrarstjóra og óskaði eftir því að þessi ákvörðun yrði endurskoðuð og henni veitt launalaust leyfi í a.m.k. 1-2 ár, þannig að henni gæfist kostur á að ná sér í meiri reynslu og verða þannig betur í stakk búin til að vinna fyrir stefnda í framtíðinni.  Í bréfinu tók hún einnig fram að samskipti sín við samstarfsfólk sitt og áhafnavakt hefðu ávallt verið góð og baðst jafnframt afsökunar á samskiptum í ágúst 2010, sem áður hefur verið lýst.

                Daginn eftir, eða hinn 17. maí 2011, kveðst stefnandi síðan hafa átt annan fund með yfirflugstjóra og þjálfunarstjóra og með henni hafi einnig mætt fulltrúi FÍA.  Stefnandi kveður, að á þeim fundi hafi yfirflugstjóri og þjálfunarstjóri lýst því yfir, að málið liti nú allt betur út, þar sem bréf stefnanda hefði borist flugrekstrarstjóra kvöldið áður og nú væri málið í raun í hans höndum og bíða þyrfti viðbragða hans.  Hafi þeir lýst mikilli ánægju með bréf stefnanda og efni þess.

                Með tölvuskeyti, dagsettu 21. maí 2011, staðfesti flugrekstrarstjóri móttöku beiðni stefnanda um launalaust leyfi.  Jafnframt sagðist hann ekki hafa komið að máli stefnanda þá um vorið en myndi fara yfir beiðnina með Þorgeiri og Hauki og hafa samband síðar í þeirri viku.

                Hinn 27. júní 2011 kveðst stefnandi hafa verið kölluð á fund flugrekstrarstjóra, yfirflugstjóra og staðgengils yfirflugstjóra og einnig hafi mætt á fundinn fulltrúi FÍA.  Stefnandi kveður flugrekstrarstjóra hafa byrjað fundinn á því að lýsa því að hann hefði ekki komið að málum stefnanda fyrr um vorið.  Á fundinum hafi stefnanda verið gert ljóst að henni yrði ekki veitt launalaust leyfi enda engin ástæða til þess.  Fulltrúi FÍA hafi þá spurt hvort ekki væri betra að stefnandi segði sjálf upp störfum og hafi flugrekstrarstjóri sagst ætla að skoða það og ráðfæra sig við starfsmannastjóra félagsins.  Stefnandi hafi sagt að hún skildi ekki þessa afstöðu flugrekstrarstjóra, enda hefði hún flogið fyrir félagið í þrjú ár og ávallt staðist öll próf félagsins.  Ekki væri sanngjarnt að líta til þess að línuþjálfun hefði orðið lítillega lengri árið 2010 en handbækur geri ráð fyrir, enda hafi stefnandi þá verið að mæta eftir nálega þriggja ára fjarveru frá flugi, m.a. af tillitssemi og samkvæmt óskum stefnda sjálfs á árinu 2008.  Aðspurður af fulltrúa FÍA hafi flugrekstrarstjóri tekið fram að hann gæti ekki veitt stefnanda nein meðmæli, en hann skyldi ekki standa í vegi hennar ef hún kysi að leita starfa annars staðar.

                Með tölvupósti síðar um daginn, hafi Hilmar Baldursson flugrekstrarstjóri sent stefnanda erindi þess efnis, að stefndi samþykkti að stefnandi segði upp störfum sínum hjá félaginu.  Ganga þyrfti frá málinu fyrir mánaðamót og hafi hann óskað eftir því að stefnandi léti hann vita hvort hún færi þessa leið.

                Í kjölfarið sendi stefnandi erindi til Svala Björgvinssonar starfsmannastjóra stefnda hinn 28. júní 2011, og kvartaði þar yfir framgöngu og framkomu flugrekstrarstjóra í sinn garð.  Lýsti hún þar einelti og ómálefnalegri framgöngu flugrekstrarstjórans í sinn garð, allt frá því í ágúst 2010.  Óskaði hún eftir því að starfsmannastjóri gripi til nauðsynlegra aðgerða, þar sem siðareglur og jafnréttisstefna félagsins taki skýrt á meintu óréttlæti, sem hún taldi sig vera beitta.

                Hinn 29. júní 2011 sendi stefnandi flugrekstrarstjóra svar við tölvupósti hans frá 27. júní og kvaðst þar aldrei hafa óskað eftir því að segja upp störfum sínum hjá félaginu.  Ósk hennar hefði alltaf verið sú að aðilar gætu leyst málin.

                Eins og að framan greinir var stefnanda, með bréfi flugrekstrarstjóra, formlega sagt upp störfum sama dag með samningsbundnum uppsagnarfresti og henni jafnframt tilkynnt að ekki yrði um endurráðningu að ræða.

                Með bréfi starfsmannastjóra stefnda, dagsettu 30. júní 2011, var henni einnig sagt upp störfum frá og með 1. júlí 2011.  Engar frekari ástæður voru tilgreindar í bréfinu, utan þess að vísað var til viðræðna stefnanda og flugrekstrarstjóra félagsins fyrr í mánuðinum í því sambandi.

                Í kjölfar þessa áttu sér stað viðræður fulltrúa FÍA við fyrirsvarsmenn stefnda, í því skyni að fá ákvörðun þessari breytt í launalaust leyfi.  Jafnframt fór stefnandi utan, lauk þar prófum til endurnýjunar á réttindum sínum og bætti því til viðbótar við sig réttindanámi á Boeing 737 flugvélar, en fram til þess hafði hún flogið Boeing 757 vélum stefnda.

                Stefnandi hefur jafnframt starfað sem flugmaður hjá flugfélagi í Bretlandi frá sumri 2012 og fram til nóvember 2012.  Stefnandi kveðst hafa staðist öll próf og réttindanám á þessum tíma og bætt verulega við reynslu sína sem flugmaður.  Hafi allt gengið að óskum í þeim störfum hennar og hafi hún verið beðin um að koma aftur til starfa hjá hinu breska flugfélagi.

                FÍA kærði uppsögn hennar til starfsráðs og krafðist þess að uppsögnin yrði úrskurðuð ógild.  Með úrskurði sínum, dagsettum 24. ágúst 2012, kvað meirihluti starfsráðs stefnda upp þann úrskurð, að ekki hefði verið rétt að uppsögn stefnanda staðið, þar sem ekki hefði verið óskað umsagnar starfsráðs í samræmi við 11. gr. starfsaldursreglna flugmanna stefnda, áður en uppsögnin fór fram.  Hins vegar varð niðurstaða starfsráðs sú að hafna kröfu FÍA, um að uppsögn stefnanda væri ógild, sem of seint fram kominni. 

                Stefnandi kærði fyrirhugaðan starfsaldurslista starfsráðs stefnda til starfsráðs með kæru, dagsettri 28. desember 2012.  Samkvæmt bókun á fundi starfsráðs var stefnda falið að tilkynna flugmönnum fyrirhugaðan lista í samræmi við ákvæði 14. gr. starfsaldursreglna, en stefnanda var ekki sendur sá listi.

                Með úrskurði starfsráðs, hinn 25. janúar 2013, ákvað meirihluti starfsráðs að hafna kröfu stefnanda. 

                Hinn 17. október sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar.  Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess að málinu verði vísað frá dómi og að honum verði úrskurðaður málskostnaður.  Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og ákvörðun málskostnaðar verði látin bíða efnisdóms.

III

                Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að hún eigi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um að uppsögn hennar sé ógild.  Fáist dómur um þessa kröfu sé ljóst að stefnandi verði ekki felld út af starfsaldurslista félagsins.  Með því fái hún haldið áunnum réttindum sínum hjá félaginu samkvæmt stöðu sinni á starfsaldurslistanum sem og samningsbundnum rétti til forgangs við endurráðningu til félagsins, að uppfylltum almennum hæfniskröfum á hverjum tíma.  Stefnandi telur að uppsögn hennar geti ekki talist gild, enda liggi fyrir og sé staðfest af starfsráði að ekki hafi verið farið að skýrum reglum 11. gr. starfsaldursreglna flugmanna stefnda í aðdraganda uppsagnarinnar.

                Í fyrsta lagi byggi stefnandi á því að þar sem ekki hafi verið farið að málsmeðferðarreglum 11. gr. starfsaldursreglna flugmanna og stefnda, þar sem umsagnar starfsráðs hafi ekki verið leitað áður en ráðist hafi verið í uppsögn, sé uppsögnin ógild.  Fortakslaus skylda hvíli á stefnda í þessu tilliti, en um sé að ræða samningsbundnar skyldur hvað þetta varði.  Stefnandi geri sjónarmið og niðurstöðu meirihluta starfsráðs að sínum hvað þetta varði, en þær komi fram í úrskurði starfsráðs frá 24. ágúst 2012.

                Stefnandi bendir í þessu sambandi á umsögn starfsráðs frá 22. desember 2000, sem sé að mörgu leyti áþekk því máli sem hér sé til úrlausnar.  Þar hugðist stefndi segja flugmanni upp störfum, þar sem hann, að áliti prófanda hjá félaginu, uppfyllti ekki hæfiskröfur til flugmanna félagsins.  Stefndi hafi þá leitað umsagnar starfsráðsins í tilefni af fyrirhugaðri uppsögn.  Eftir að starfsráðið hafi fengið mál flugmannsins til skoðunar, hafi verið fallið frá uppsögninni og sé flugmaðurinn nú á gildandi starfsaldurslista stefnda.  Á því mál sjáist hve mikilvægt sé að samningsbundið ferli við uppsögn flugmanna hjá stefnda sé virt, slíkt geti augljóslega haft þau áhrif að horfið sé alfarið frá fyrirhugaðri uppsögn.  Stefnandi hafi ekki notið samningsbundins réttar síns í aðdraganda uppsagnarinnar.  Hefði verið leitað umsagnar starfsráðsins sé allt eins líklegt að niðurstaða í máli stefnanda hefði orðið sú sama og í fyrrgreindu máli frá árinu 2000, en það mál sýni vel hve mikilvægt sé að vandað sé til ákvarðanatöku í samræmi við skýr ákvæði kjarasamnings.

                Stefnandi byggir einnig á því, að flugrekstrarstjóri stefnda hafi í reynd tekið ákvörðun um að segja sér upp störfum, en til þess sé hann ekki bær samkvæmt skipuriti félagsins eða starfsaldursreglum þess.  Slíkar ákvarðanir þurfi stjórn stefnda eða forstjóri að taka, samkvæmt skýrum ákvæðum 1. gr., sbr. og 11. gr. nefndra reglna.  Stefnandi telur að flugrekstrarstjórinn hafi efnislega tekið ákvörðun um þetta í kjölfar fundarins 17. september 2010, enda hafi hann þá sýnt sér afar óviðeigandi framkomu.  Bendir stefnandi á bréf yfirflugstjóra, dagsett 27. september 2010, í þessu sambandi, sérstaklega orðalagið „komi til endurkomu þinnar“.

                Endanlega uppsögn hafi stefnandi fengið með tölvupóstsendingu flugrekstrarstjórans, dagsettri 29. júní 2011, sem síðan hafi verið fylgt eftir með bréfi starfsmannastjóra daginn eftir.  Þar hafi ekki verið vísað til annarra ástæðna en þeirra sem fram hafi komið í samtölum stefnanda við flugrekstrarstjórann og aldrei vísað til umboðs forstjóra eða stjórnar félagsins í þessu sambandi eða að þeir aðilar hefðu á nokkru stigi komið að málinu þrátt fyrir skýr ákvæði þar að lútandi í starfsaldursreglunum.

                Stefnandi byggir og á því að hún hafi ekki notið sannmælis við þjálfun og próf vorið 2011.  Í raun hafi verið búið að taka ákvörðun um það af hálfu flugrekstrarstjóra að búa svo um hnútana að hún ætti litla sem enga möguleika á að standast kröfur fyrirtækisins í OPC-hluta prófanna, í þeim tilgangi að hægt yrði að nota það sem ástæðu uppsagnar.  Flugrekstrarstjóra stefnda hafi vitanlega átt að hafa verið það ljóst hvaða starfsaldurs- og uppsagnarreglur gildi í samskiptum við flugmenn stefnda og hvaða leiðir hafi þurft að fara í því augnamiði að ná fram réttum ástæðum fyrir uppsögn stefnanda.

                Samkvæmt skýrum samningsbundnum ákvæðum kjarasamnings skuldbindi stefndi sig til að veita flugmönnum sínum nauðsynlega þjálfun svo að þeir standist kröfur.  Þá veki stefnandi einnig athygli á því að hún hafi fallist á beiðni stefnda sumarið 2008 um að taka ekki sæti sitt að afloknu fæðingarorlofi, enda hafi legið fyrir að einungis yrði um u.þ.b. 5 vikna starfstíma að ræða það sumar.  Þá hafi því verið lofað af hálfu stefnda, að stefnandi fengi alla þá viðbótarþjálfun sem nauðsynleg yrði, en síðan hafi engar sumarráðningar orðið hjá stefnda sumarið 2009 og því hafi þjálfun stefnanda og starfstími sem flugmaður á tímabilinu frá hausti 2007 til vorsins 2010 í raun enginn verið.  Engum hafi því átt að koma það á óvart að stefnandi þyrfti aukna þjálfun vorið 2011, en líkt og áður sé rakið hafi flugrekstrarstjóri komið í veg fyrir að stefnandi fengi aðra þjálfun en fjögurra tíma þjálfun í flughermi í aðdraganda OPC-prófsins 2011.  Þá hafi umsjónarmaður prófsins reiknað með og leitað eftir viðbótarþjálfun en ekki fengið nokkra heimild til slíks, þar sem vísað hafi verið í bréf frá því sumarið áður.  Stefnandi hafi komið því strax á framfæri við þjálfunarflugstjóra að sér hafi fundist hún fá lítið að fljúga í flugherminum og flugstjórinn sem setið hafi með henni hafi fengið að fljúga mun meira.  Hún hafi verið í Pilot Monitorin mest allan tímann og fengið að æfa einungis eina lendingu, sem henni hafi þótt lítið eftir svo langa fjarveru.

                Stefnandi bendir og á, að fyrir liggi samkvæmt skýrslu Baldvins Birgissonar flugstjóra, dagsettri 13. apríl 2011, að honum hafi verið falið af yfirflugstjóra að kanna einhver tiltekin atriði umfram hefðbundið OPC#42 próf og að honum hafi verið ljóst hver staða Unnar hafi verið, eins og fram komi í bréfinu.  Þetta sé ekki hægt að skilja á annan veg en að prófandanum hafi verið falið að gera einhverjar viðbótarkröfur til starfa og getu stefnanda en almennt sé gert í prófum sem þessum, í ljósi þess hver staða hennar hafi verið.

                Einnig bendir stefnandi á ódagsetta skýrslu Þórarins Hjálmarssonar flugstjóra hjá stefnda vegna endurtökuprófs hinn 5. maí 2011.  Í skýrslunni komi einnig skýrt fram, að samið hafi verið sérstakt próf gagngert fyrir þetta OPC-tékk.  Í þessu prófi hafi margt verið sem virkað hafi sem augljósar tilraunir til að gera stefnanda erfitt um vik með að ná fullkomnum árangri.  Í fyrsta lagi hafi Þórarinn ítrekað bent stefnanda á að ekkert mætti klikka í prófinu, hann hafi fengið sérstök fyrirmæli um það.  Slík framkoma prófandans sé algjörlega á skjön við það sem almennt tíðkist í aðdraganda prófa í flughermi, enda segi í handbók þjálfunarstjóra að þeim beri að halda uppi jákvæðu andrúmslofti fyrir slík próf og meðan á þeim standi.  Þá hafi hann bannað öll samskipti og aðstoð á milli flugstjóra og flugmanns í prófinu, sem augljóslega standist enga skoðun, enda sé það samvinna þessara manna sem skipti mestu að sé góð og hnökralaus þegar á þurfi að halda.  Hafi flugmenn og flugrekendur víða um heim bent sérstaklega á að slík samvinna sé lykilþáttur í að halda uppi öryggi í flugi.  Þá hafi Þórarinn látið stefnanda undirrita skýrslu um prófið áður en hún fór í prófið, en slíkt hafi stefnandi aldrei þurft að gera áður í sambærilegum prófum hjá stefnda.

                Umsagnir Þórarins séu síðan afar digurbarkalegar er hann lýsi því að flugmannshæfileikar stefnanda séu ekki með þeim hætti að vogandi sé að hafa hana sem flugmann hjá stefnda og jafnframt að hún ætti alvarlega að skoða annað starf en að fljúga flugvélum.  Þessa fordæmalausu umsögn telur stefnandi í raun staðfesta það, að nefndur Þórarinn hafi verið að skila af sér efnislega þeirri niðurstöðu sem yfirmenn hans hefðu óskað eftir, enda sé engin fagleg þörf á að nálgast umsagnir með slíkum hætti, jafnvel þó að skýrsluritari hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi stæðist ekki kröfur í nefndu prófi.  Þetta sé enn augljósara í því samhengi að stefnandi hafi margsinnis fengið góðar umsagnir í línuþjálfun hjá viðkomandi þjálfunarstjóra á árunum 2006 og 2007 og sá hinn sami hafi áður farið með stefnanda í flughermiþjálfun og ekki gefið neina sérstaka skýrslu þess efnis, nema góðar og málefnalegar ábendingar eins og eðlilegt megi teljast.

                Allt framanritað verði að skoða í því ljósi að prófendur séu starfsmenn stefnda og undir boðvaldi flugrekstrarstjóra og yfirflugstjóra stefnda.  Framangreint telur stefnandi að hafi beinlínis verið fyrir þá lagt, þ.e. að hafa prófin erfið og útbúa þau sérstaklega í þeim tilgangi, veita ekki næga þjálfun og gera ýtrustu kröfur um fullkominn árangur við þær aðstæður.

                Órækustu sönnun þess að ekki hafi verið á hlutlægan hátt staðið að framangreindum prófunum telur stefnandi vera þá staðreynd að hún hafi lokið öflun réttinda á aðra flugvélartegund og starfað sem flugmaður hjá bresku flugfélagi við góðan orðstír fram í nóvember 2012.  Þá hafi stefnandi fengið góð ummæli hjá þjálfunarstjórum í Bretlandi, sem staðfesti beinlínis að mat Þórarins Hjálmarssonar þjálfunarstjóra og starfsmanns stefnda standist enga skoðun.

                Stefnandi bendir á að þótt í uppsagnarbréfi frá 30. júní 2011 sé stefnanda óskað alls hins besta í framtíðinni, hafi stefndi reynt að bregða fyrir hana fæti með því að láta hjá líða um nokkurra vikna skeið að svara einfaldri beiðni öryggisfyrirtækis í Bretlandi um staðfestingu á því að stefnandi hefði starfað hjá stefnda.  Telur stefnandi að þetta staðfesti persónulega óvild flugrekstrarstjóra í sinn garð í öllu þessu ferli og hafi hann látið þá afstöðu sína ráða för þegar stefnandi hafi leitað leiða á erlendri grundu til að bæta við réttindi sín og afla sér meiri starfsreynslu.

                Stefnandi byggir og á því, að hvað sem öðru líði hafi eins og á stóð ekki verið réttmætt að segja henni endanlega upp störfum.  Hún hafi átt rétt á því að taka sér launalaust leyfi, sem hún gæti þá nýtt til að auka við þjálfun sína og starfsreynslu.  Þau úrræði hefðu eins og á stóð nýst stefnda að fullu í þeim tilgangi að tryggja að allir stæðust innri reglur og kröfur fyrirtækisins, enda hefði stefnandi þá ekki fengið starf sitt aftur nema að sýna fram á að hún uppfyllti allar hæfiskröfur félagsins.  Engin þörf hafi verið á því eins og á stóð að svipta stefnanda öllum möguleikum á að halda áfram þeim starfsaldurstengdu réttindum sem hún hafði áunnið sér, en hún hafi sæti 251 á lista 295 flugmanna hjá stefnda.  Stefnandi byggi á því í þessu sambandi að hún hafi sjálf óskað eftir því að fá að greiða fyrir frekari þjálfun, en því hafi einnig verið hafnað. Ef raunveruleg ástæða uppsagnarinnar hefur verið sú að stefnandi hafi ekki staðist hæfiskröfur sem hún hafi margsinnis áður staðist hafi stefnda borið að gefa henni kost á að bæta þar úr fremur en að víkja henni endanlega frá störfum.

                Stefnandi byggir og á því að með afgreiðslu málsins hafi ekki verið gætt jafnræðis, þegar litið sé til þess hvernig hafi verið leyst úr málefnum annarra flugmanna hjá stefnda, sem ýmist hafi verið í sömu stöðu og hún eða átt við persónulega erfiðleika að glíma.  Stefnandi hafi því ekki fengið sambærileg tækifæri á að laga það sem á hafi vantað í hæfni og þjálfun með töku launalauss leyfis. 

                Þá hafi jafnréttislög nr. 10/2008 verið brotin, einkum ákvæði VI. kafla laganna, sem banni með skýrum hætti mismunun á grundvelli kynferðis.  Stefnandi bendir á í þessu sambandi að hún hafi farið í fæðingarorlof haustið 2007 og því ekki átt kost á nema fimm vikna flugi sumarið 2008, þ.e. eftir að fæðingarorlofinu lauk og haustuppsagnir tóku gildi.  Hún hafi samþykkt þá málaleitan stefnda að taka ekki sæti flugmanns það sumar, gegn loforði um að hún fengi alla þá viðbótarþjálfun sem hún þyrfti þegar hún kæmi á ný til starfa.  Efnahagsforsendur hafi síðan ráðið því að ekki hafi verið ráðið í sumarstörf hjá stefnda árið 2009 og því hafi þjálfun eðlilega orðið umfangsmeiri á árinu 2010 en ella hefði orðið.  Þrátt fyrir þetta hafi hún fengið áminningarbréf vegna lítillega aukinnar þjálfunartöku það ár og síðan hafi stefndi alfarið neitað henni um nokkra viðbótarþjálfun umfram fjórar klukkustundir í flughermi vorið 2011.  Þetta hafi augljóslega tálmað möguleika hennar þrátt fyrir loforð sem gefin hafi verið á árinu 2008.

                Stefnandi telur að stefndi hafi ekki gefið henni réttmætt og eðlilegt svigrúm til þjálfunar, sem nauðsyn hafi verið á vegna barneigna hennar á árinu 2008.  Hafa verði í huga hve alvarleg ákvörðun stefnda sé, enda sé flugmannsferill stefnanda nánast að engu orðinn, þar sem fjölskylda hennar búi hér á landi, börnin hennar gangi hér í skóla og maki hennar hafi hér vinnu.  Í ljósi þess að atvinnumöguleikar flugmanna hér á landi einskorðist nánast við stefnda, eða 95% starfa, sé nánast útilokað að fá starf sem flugmaður í millilandaflugi nema að flytjast búferlum með fjölskylduna til útlanda.  Öllum hafi því verið ljóst hve mikilvægt væri fyrir flugmenn að hafa skýrar og fortakslausar reglur til að styðjast við, enda liggi fyrir að flugnám sé dýrt og tímafrekt og auk þess byggist réttindi flugmanna og flugstjóra að verulegu leyti á starfsaldri þeirra.  Alþingi íslendinga hafi því staðfest starfsaldursreglur fyrir flugmenn stefnda árið 1959.  Grunnur starfsaldurslista þess sem nú sé í gildi hjá stefnda og flugmönnum hans hafi verið úrskurðaður af Alþingi og fengið gildi hinn 15. mars 1981.  Þetta ferli sýni einnig hve miklu þessi mál varða flugmenn hér á landi í ljósi fákeppni í starfsgreininni.

                Sú ákvörðun að leita ekki umsagnar starfsráðs í aðdraganda uppsagnarinnar, þrátt fyrir skýra skyldu í því efni, staðfesti í raun að flugrekstrarstjórinn og starfsmannastjórinn hafi vitað að þeir væru að brjóta rétt á stefnanda með því að segja henni upp störfum eins og á stóð.  Engin önnur skýring sé á því að þeir hafi ákveðið að leita ekki umsagnar starfsráðs en að þeir hafi ekki viljað leggja málið í mat þess fagráðs sem kjarasamningurinn geri skýrlega ráð fyrir, væntanlega af ótta við að þar kæmi strax í ljós að ákvörðunin stæðist ekki skoðun.  Stefndi hafi með engum hætti skýrt af hverju hann hafi ákveðið að fara á svig við skýr ákvæði kjarasamningsins í þessu efni.  Þvert á móti hafi starfsráðið í úrskurði sínum frá 24. ágúst 2012 beinlínis staðfest, að stefnda hafi borið að fara þá leið og einnig tínt til sögunnar dæmi um nákvæmlega sambærileg mál, sem stefndi hafi vísað til starfsráðs til umsagnar, áður en flugmanni hafi verið sagt upp.

                Stefnandi telur að sú ákvörðun meirihluta starfsráðs að hafna efnislegri ákvörðun um ógildi uppsagnarinnar með vísan til tómlætis fái ekki staðist.  Í því sambandi vísar hún til þeirrar málsmeðferðar sem að framan sé lýst, aðkomu fulltrúa FÍA að málinu og þeirra sjónarmiða sem borin hafi verið fram við úrlausn málsins fyrir starfsráði og bókunar fulltrúa FÍA við þann hluta úrskurðarorðsins.

                Stefnandi telur og að horfa beri til allra atvika málsins þegar metið sé hvort um tómlæti hafi verið að ræða.  Stefnandi hafi átt fárra kosta völ þegar hún hafi tekið ákvörðun um endurtökupróf í maí 2011, þrátt fyrir að fá ekki nægilega þjálfun.  Hún hafi strax leitað leiða til að fá að taka launalaust leyfi til að afla sér frekari reynslu og þjálfunar.  Fulltrúar FÍA hafi síðan átt í reglulegum viðræðum við stefnda um málið, en stefnandi hafi snúið sér að því að afla sér aukinna réttinda og starfsreynslu.  Þegar ljóst hafi verið að ekki yrði um endurráðningu að ræða á árinu 2011 og að ekki næðist samkomulag FÍA og stefnda um launalaust leyfi, hafi uppsögnin verið kærð til starfsráðs í júlí 2012.  Niðurstaða hafi legið fyrir í lok ágúst 2012.  Stefnandi hafi verið í Bretlandi við störf allt fram til nóvember 2012, en þá hafi þráðurinn enn á ný verið tekinn upp við stefnda og óskað eftir því að uppsögninni yrði breytt í launalaust leyfi.  Eftir að það mál hafi verið skoðað enn á ný í ljósi nýrra upplýsinga um aukin réttindi stefnanda, lúkningar prófanna og aukinnar starfsreynslu í flugi, hafi þeirri málaleitan verið hafnað, sbr. bréf starfsmannastjóra stefnda, dagsett 18. desember 2012.

                Fyrir liggi að stefnandi og fulltrúar hennar hafi verið í stöðugum og reglulegum samskiptum við fulltrúa stefnda, í þeim tilgangi að fá ákvörðuninni breytt með samkomulagi.  Þau mál hafi verið til skoðunar hjá stefnda og menn ekki slegið endanlega út af borðinu að samkomulag gæti náðst, fyrr en í desember 2012.   Fulltrúar stefnda hafi því ekki mátt líta svo á að stefnandi hygðist ekki aðhafast frekar í málinu á þessum tíma.

                Í greinargerð stefnda til starfsráðs, dagsettri 10. ágúst 2012, sé fullyrt að stefnandi hafi aldrei ölast fullnægjandi færni til þess að gegna starfi flugmanns hjá félaginu, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þjálfunar.  Þessi fullyrðing sé óskiljanleg að mati stefnanda, þar sem fyrir liggi að hún hafi lokið allri þjálfun og prófum árin 2006, 2007 og 2010.  Þá liggi einnig fyrir að stefnandi starfaði öll þessi ár hjá stefnda sem flugmaður. 

                Varakröfu sína um að uppsögnin og framkvæmd hennar hafi verið ólögmæt byggir stefnandi á sömu málsástæðum og aðalkröfu sína.  Slíka úrlausn eigi stefnandi, hvað sem öðru líði, rétt á að fá og komi sjónarmið um tómlæti ekki í veg fyrir það.

                Stefnandi telur það stjórnarskrárvarinn rétt sinn að fá úrlausn dómstóla í máli þessu og því beri að horfa alfarið fram hjá reglum um að úrskurðir starfsráðs séu endanlegir.  Slík grundvallarmannréttindi verði ekki tekin af þegnum landsins, allra síst þegar mikilsverðir hagsmunir eins og atvinnuréttindi eigi í hlut.  Alls ekki sé hægt að taka slíkan rétt af einstaklingi með ákvæði í kjarasamningi, enda liggi hér fyrir mat starfsráðsins sjálf um það, að stefndi hafi ekki farið að samningsbundnum skyldum sínum í aðdraganda uppsagnarinnar.  Stefnandi bendir á að stefndi hafi brotið gegn skýrum ákvæðum kjarasamningsins um verklag við uppsagnir, enda sé óumdeilt að stefndi hafi aldrei óskað eftir umsögn starfsráðsins um hina fyrirhugðu uppsögn stefnanda, eins og skýrt sé kveðið á um í 11. gr. starfsaldursreglna flugmanna stefnda.

                Um lagarök vísar stefnandi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, meginreglna íslensks vinnuréttar, kjarasamninga og starfsaldursreglna flugmanna og stefnda, jafnréttislaga nr. 10/2008 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV

                Stefndi byggir kröfu sína um frávísun málsins á því að starfsráð FÍA og Flugleiða hf./Icelandair ehf. hafi í úrskurði sínum hinn 24. ágúst 2012, hafnað kröfu FÍA um að uppsögn stefnanda sé ógild.  Sá úrskurður sé endanlegur og bindandi fyrir báða aðila og verði ekki skotið til dómstóla samkvæmt 2. mgr. 13. gr. starfsaldursreglna flugmanna Flugleiða hf./Icelandair ehf. sem séu hluti kjarasamnings FÍA og stefnda.  Á þeim grundvelli beri að vísa máli þessu frá dómi, þar sem það falli utan lögsögu dómsins að dæma um sakarefni málsins, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Stefndi hafnar því að stefnandi eigi stjórnarskrárvarinn rétt til að fá úrlausn dómstóla um ágreiningsefni málsins.  Það leiði af meginreglunni um frelsi til samningsgerðar að aðilar hafi heimild til að semja um að ágreiningsefni þeirra verið ekki borin undir dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 530/2002.  Stefndi bendir jafnframt á að stefnandi sé, samkvæmt 3. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, bundinn af löglega gerðum samningum FÍA sem sé það stéttarfélag sem stefnandi sé í. 

                Það hafi verið ákvörðun stefnanda að leggja ágreiningsefnið fyrir starfsráð í stað þess að vísa því tafarlaust til dómstóla og sé hún þar með bundin af 2. mgr. 13. gr. starfsaldursreglna flugmanna Flugleiða hf./Icelandair ehf.  Báðir aðilar hafi því haft lögmætar væntingar til þess að málinu væri endanlega lokið með úrskurði starfsráðs.

                Hvað varði ógildingarkröfu stefnanda sérstaklega sé þess að gæta að samkvæmt grundvallarreglum íslensks réttar sé vinnuveitanda ekki skylt að taka aftur í þjónustu sína starfsmann sem hann hafi ólöglega sagt upp.  Með öðrum orðum verði enginn dæmdur í starf sitt aftur.  Þá hafi stefnandi þegar verið felldur út af starfsaldurslista stefnda með úrskurði starfsráðs hinn 25. janúar 2013.  Sá úrskurður sé endanlegur og verði ekki skotið til dómstóla samkvæmt 2. mgr. 13. gr.  Stefnandi hafi því ekki lögmæta hagsmuni af því að fá dóm um ógildi uppsagnarinnar.

                Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, almennra reglna vinnuréttar um skyldur starfsmanna í ráðningarsambandi og uppsögn, til kjarasamnings FÍA og Icelandair, þjálfunarhandbókar stefnda, reglugerðar um einelti á vinnustöðum nr. 1000/2004, og reglugerðar um skírteini útgefin af Flugmálastjórn nr. 419/1999.  Þá vísar stefndi einnig til meginreglna samningaréttar.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Með málssókn þessari krefst stefnandi þess aðallega, að viðurkennt verði að uppsögn stefnda á ráðningarsamningi við stefnanda hinn 30. júní 2011 sé ógild, en til vara að viðurkennt verði að uppsögnin hafi verið ólögmæt.  Byggir stefnandi kröfur sínar á því, að ekki hafi verið gætt málsmeðferðarreglna í kjarasamningi aðila, að henni hafi ekki verið sagt upp af þar til bærum aðila, að ekki hafi verið uppfyllt samningsbundin ákvæði kjarasamnings um að veita henni nauðsynlega þjálfun, ekki hafi verið réttmætt að segja henni upp störfum og ekki hafi verið gætt jafnræðis við afgreiðslu málsins.  Þá byggir stefnandi á því að jafnréttislög nr. 10/2008 hafi verið brotin.

                Stefndi hefur krafist frávísunar á þeim grunni að úrskurði starfsráðs FÍA og Flugleiða hf./Icelandair ehf., þar sem sömu kröfu stefnanda var hafnað, verði ekki skotið til dómstóla, þar sem 2. mgr. 13. gr. starfsaldursreglna flugmanna Flugleiða hf./Icelandair ehf., sem er hluti kjarasamnings FÍA og stefnda, kveður á um að sá úrskurður eigi að vera bindandi og endanlegur.  Einnig krefst stefndi frávísunar á ógildingarkröfunni, sérstaklega, þar sem stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um gildi uppsagnarinnar.  Það sé grundvallarregla íslensks réttar að vinnuveitanda sé ekki skylt að taka starfsmann aftur í þjónustu sína, sem ólöglega hafi verið sagt upp störfum, og stefnanda hafi þegar, með úrskurði starfsráðs hinn 25. janúar sl., verið felld út af starfsaldurslista stefnda. 

                Fyrir liggur að FÍA kærði f.h. stefnanda til starfsráðs, hinn 26. júlí 2012, þá ákvörðun stefnda að segja stefnanda upp störfum.  Liggur fyrir að með úrskurði starfsráðsins hinn 24. ágúst 2012, var hafnað þeirri kröfu stefnanda um að uppsögnin væri ógild.  Hins vegar var í úrskurðarorði kveðið á um það að stefnda hefði borið að óska eftir umsögn starfsráðsins, samkvæmt 11. gr. fyrrgreindra starfsaldursreglna, áður en stefnanda var sagt upp störfum.  Í forsendum úrskurðarins kemur fram, að í 11. gr. fyrrgreindra starfsaldursreglna komi fram, að ekki sé heimilt að segja flugmanni upp starfi fyrr en umsögn starfsráðs liggi fyrir, enda skuli hún liggja fyrir innan tveggja vikna frá því að málið er afhent starfsráði.  Þrátt fyrir það geti Icelandair ehf. sagt flugmanni upp stöðu sinni jafnvel þótt starfsráð hafi komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðum 11. gr. hafi ekki verið fullnægt.  Hins vegar var talið að þegar um jafn alvarlega aðgerð væri að ræða sem endanleg uppsögn flugmanns væri, þyrfti að grípa til aðgerða svo fljótt sem auðið væri.  Talið var að þar sem þrettán mánuðir hefðu liðið frá því að uppsögnin tók gildi fram til þess að hún var kærð til starfsráðsins hefði stefnandi sýnt af sér slíkt tómlæti að ekki yrði fallist á að uppsögnin væri ógild.

                Í 13. gr. áðurnefndra starfsaldursreglna, sem er hluti af kjarasamningi FÍA og stefnda, kemur fram að verkefni ráðsins séu þau að gera starfsaldurslista og skera úr öllum ágreiningi, sem kunni að rísa út af starfsaldursreglunum eða röð á starfsaldurslista.  Þá skal starfsráðið veita umsagnir um þau atriði, sem um er rætt í 11. gr.  Einnig skal það úrskurða önnur þau atriði, sem félagið og FÍA koma sér saman um að leggja undir úrskurð þess.  Í 2. mgr. áðurnefndar greinar eru úrskurðir starfsráðs endanlegir og bindandi fyrir báða aðila og verður ekki skotið til dómstólanna.  Eftir hljóðan þessa ákvæðis tekur það m.a. til þess ágreiningsefnis sem mál þetta snýst um.  Réttur manna til aðgangs að dómstólunum í einkamálum, samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, útilokar ekki að þeir geti gert samninga um að tiltekin ágreiningur verði ekki borinn undir dómstólana, sbr. lög nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma.  Stefnandi ákvað að bera ágreininginn, sem mál þetta snýst um, undir starfsráð, á grundvelli kjarasamnings aðila.  Með því að aðilar hafa samið svo um að úr sakarefninu verði leyst fyrir starfsráði verða þeir að hlíta þeim úrskurði, samkvæmt áðurnefndri grein í kjarasamningi aðila.  Stefnandi hefur ekki sýnt fram á heimild sína til að víkjast undan þessari samningsbundnu skyldu, en stefndi heldur þessu ákvæði upp á stefnanda.  Á dómurinn því ekki úrlausnarvald um kröfu stefnanda, eins og hún er úr garði gerð.  Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 ber því þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfu stefnda og vísa málinu frá dómi.

                Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Málskostnaður fellur niður.