Hæstiréttur íslands

Mál nr. 624/2011


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Ítrekun
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012.

Nr. 624/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Birki Árnasyni

(Sigurður Sigurjónsson hrl.

Torfi R. Sigurðsson hdl.)

(Jón Magnússon hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Ítrekun. Skaðabætur.

B var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa á útisalerni á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum með ofbeldi þröngvað A til samræðis og annarra kynferðismaka. Brot B þótti sannað og var hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að eldri dómur yfir B vegna nauðgunar hafði ítrekunaráhrif og að árás B hefði verið mjög gróf og ruddaleg og beinst að líkama A og kynfrelsi. Afleiðingar brotsins þóttu augljósar. Þá var litið til þess að brotavilji B hefði verið einbeittur, enda gat honum síst dulist að athafnir hans allar og háttsemi gagnvart A voru ekki með samþykki hennar. B var því dæmdur í 5 ára fangelsi og til að greiða A 1.500.000 krónur ásamt vöxtum í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. nóvember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð og fjárhæð kröfunnar lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 3.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða, heimfærslu brots hans til refsiákvæða og refsingu. Þá verður jafnframt staðfest niðurstaða dómsins um skaðabótaskyldu ákærða við brotaþola, en fjárhæð bóta henni til handa er hæfilega ákveðin 1.500.000 krónur og skulu þær bera vexti eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærði, Birkir Árnason, greiði A 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 888.540 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 20. október 2011.

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 1. september sl. á hendur Birki Árnasyni, [...] [...],[...], nú gæslufanga í fangelsinu Litla-Hrauni, „fyrir nauðgun með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 31. júlí 2011, á útisalerni á Þjóðhátíðarsvæði í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum, með ofbeldi þröngvað A, kt.[...], til samræðis og annarra kynferðismaka með því að ýta henni inn á salernið er hún var að koma þaðan út, farið inn fyrir klæðnað hennar og sett fingur í kynfæri hennar og er hún náði að komast út, elt hana skamman spöl, neytt hana með ofbeldi til að fara aftur inn á salernið, rifið niður um hana buxur og nærbuxur og haft við hana samræði.  Við atlöguna hlaut A mar, roða og eymsli víðsvegar um líkamann.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð kr. 3.000.000 ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. júlí 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að krafan var kynnt fyrir ákærða og dráttarvaxta eftir þann dag skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.  Þá er gerð krafa um þóknun við réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“

Mál þetta var þingfest 1. september sl. og kom ákærði þá fyrir dóm og neitaði sök.  Aðalmeðferð málsins var haldin á Selfossi 3. október 2011 og var málið dómtekið að loknum munnlegum málflutningi.  Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, frávísunar á framkominni bótakröfu og málsvarnarlauna úr ríkissjóði til handa skipuðum verjanda ákærða að mati dómsins, en til vara krefst ákærði þess að komi til sakfellingar verði ákærða dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og komi til frelsissviptingar þá komi til frádráttar gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt frá 2. ágúst sl, en í því tilfelli krefst ákærði lækkunar á bótakröfu.  Af hálfu bótakrefjanda gerir réttargæslumaður hennar, Helga Leifsdóttir, hdl., þær kröfur að bótakrafa nái fram að ganga og henni verði dæmd hæfileg þóknun samkvæmt framlögðum reikningi.

Málavextir.

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að um kl. 18:10, sunnudaginn 31. júlí 2011, hafi B, hjúkrunarfræðingur á Heilsugæslustöðinni í Vestmannaeyjum, haft samband við lögreglu og sagt stúlku hafa leitað til heilsugæslustöðvarinnar vegna ætlaðrar nauðgunar aðfaranótt sunnudagsins.  Hafi stúlkan óskað eftir því við hjúkrunarfræðinginn að lögregla kæmi til að tala við hana.  Lögregla fór á Heilsugæslustöðina og hitti þar fyrir brotaþola í málinu, A, [...].  Kvaðst brotaþoli dvelja í heimahúsi í Vestmannaeyjum ásamt fleira fólki henni tengdu, en Þjóðhátíð var haldin í Eyjum þessa helgi.  Kvaðst brotaþoli hafa verið ein á ferð á mótssvæðinu milli kl. 04:00 og 05:00 aðfaranótt sunnudagsins.  Hafi hún farið á útisalerni á miðju mótssvæðinu, en þegar hún hafi verið á leið út af salerninu hafi maður ráðist að henni og ýtt henni aftur inn á salernið.  Þar hafi hann reynt að þvinga hana til kynferðisathafna, en hún hafi náð að komast út af salerninu.  Hafi maðurinn þá elt hana skamman spöl og neytt hana með valdi til að fara aftur inn á salernið og hafi hann lokað dyrum salernisins á eftir þeim.  Þar hafi maðurinn rifið af henni fatnað og náð að hefja við hana kynmök, gegn hennar vilja og þrátt fyrir að hún hafi barist um til að verjast þessu.  Henni hafi síðan tekist að losa sig frá manninum og út af salerninu og farið yfir að veitingatjaldi sem var þar skammt frá.  Þar hafi staðið nokkrir gæslumenn og hafi hún beðið þá um aðstoð við að losna við áreiti frá manninum sem hafi elt hana að gæslumönnunum.  Gæslumennirnir hafi svo vísað manninum á brott og hún þá komist í hina áttina í burtu.  Ekki hafi hún sagt gæslumönnunum hvers kyns hafi verið.  Kvaðst brotaþoli ekki þekkja mann þennan en hún myndi líklega geta endurþekkt hann.  Taldi brotaþoli manninn vera milli tvítugs og þrítugs og væri hann hávaxinn og ljóshærður en mjög snöggklipptur.  Hann hafi verið klæddur í appelsínugular „pollabuxur“ og gráa lopapeysu.  Hún hafi sjálf verið klædd í gular „pollabuxur“ og dökka peysu.

Voru gerðar ráðstafanir til að brotaþoli kæmist á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota í Fossvogi og var hún fengin til að láta í bréfpoka þau föt sem hún hefði verið í um nóttina, einn poka fyrir hverja flík.  Kemur fram í frumskýrslu að brotaþoli hafi, samkvæmt upplýsingum vakthafandi læknis í Vestmannaeyjum, verið með áverka um líkamann, s.s á öxlum og fótum, en að ítarlegri læknisskoðun yrði gerð á Neyðarmóttöku.

Kemur fram í frumskýrslu að foreldrar brotaþola og unnusti hennar, C, hafi dvalið í heimahúsi í Vestmannaeyjum á sama tíma.  Þau hafi ekki verið vitni að atvikum að öðru leyti en því að brotaþoli hafi skýrt C frá atvikum síðdegis sama dag og hún kom á Heilsugæslustöðina.  

Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 1. ágúst 2011.  Þar lýsti hún því að hún hafi verið í Herjólfsdal og verið orðið áliðið nætur aðfaranótt sunnudagsins 31. júlí sl.  Ekki hafi brotaþoli verið mikið drukkin, en hún hafi um kvöldið drukkið úr litlum rósavínsbrúsa og á að giska þrjá bjóra.  Hún hafi verið með bróður sínum og vinum fyrr um kvöldið eða nóttina en verið orðin ein er þarna var komið sögu.  Þá hafi hún ætlað að fara á klósettið og svo heim, en þá hafi klukkan verið á að giska 05:00.  Þegar hún hafi verið búin á klósettinu, búin að girða upp um sig og verið á leið út af salerninu, hafi ákærði skyndilega komið og ýtt sér inn aftur og lokað salernisdyrunum.  Hafi ákærði snúið baki í dyrnar og þau snúið að hvort öðru.  Ákærði hafi haldið sér fastri, stungið hendi ofan í buxur hennar og dregið niður nærbuxur og íþróttabuxur sem hún hafi verið í innan undir regnbuxunum, og stungið fingri inn í leggöng hennar.  Henni hafi brugðið mikið við þetta og reiðst og sagt við hann „hvað ertu að gera“ og svo „ekki“ og hafi sér tekist að rífa sig lausa frá honum og hlaupa undir aðra höndina á honum, taka í læsinguna og hlaupa út af salerninu.  Hafi hún hlaupið upp á hól sem hafi verið skammt frá, u.þ.b. 6-7 metra, og hysjað upp um sig buxurnar á hlaupunum.  Þá hafi ákærði komið á eftir henni, tekið í handlegginn á henni og verið orðinn rosalega reiður og sagt við hana „þetta hefðir þú ekki átt að gera, þú hefðir betur sleppt þessu“.  Þá hafi hún verið orðin hrædd við hann.  Hafi svo ákærði dregið sig aftur inn á klósettið, náð niður um hana buxum, rétt ofan við hné, og náð að hafa við sig samfarir um leggöng í mjög stutta stund, á að giska 5-10 sekúndur.  Hann hafi snúið baki í salernisdyrnar og hún hafi snúið baki í hann og aðeins séð grænan vegginn.  Hafi ákærði haldið í hendurnar á sér, en þó finnist henni eins og hún hafi haft vinstri höndina lausa a.m.k. einhvern tíma.  Mjög lítil orðaskipti hafi átt sér stað inni á klósettinu.  Taldi brotaþoli að ákærða hefði ekki orðið sáðlát og að hann hefði ekki notað verju.  Kvaðst brotaþoli hafa barist um og hafi orðið slagsmál inni á klósettinu og hafi hún verið marin á fæti eftir þetta og eldrauð á handleggjum allt niður frá öxlum.  Henni hafi svo tekist á einhvern óskiljanlegan hátt að losa sig, sennilega með því að nota vinstri höndina, komist út af salerninu og hlaupið í burtu.  Hafi hún hlaupið að veitingatjaldi og þar í gegn og að nokkrum gæslumönnum og hafi ákærði hlaupið á eftir sér.  Hafi hún sagt þeim að ákærði væri búinn að vera að elta sig og hún þyrfti að losna undan honum.  Gæslumennirnir hafi passað sig og gætt þess að ákærði kæmist ekki að henni og þeir hafi beðið ákærða um að fara og hann hafi gert það.  Eftir það hafi hún hlaupið frá gæslumönnunum upp í hvítt tjald sem systir hennar hafi verið með í Herjólfsdal og þar hafi hún sest niður í smástund og hringt í D vin sinn.  Hún hafi talað við hann með hléum og brotnað oft niður og átt mjög erfitt með að tala.  Hún hafi verið í miklu áfalli en hann hafi hvatt sig til að fara út úr tjaldinu því hún væri ekki örugg þar ein á báti.  Hún hafi svo farið úr tjaldinu og verið með D í símanum á meðan og farið svo í „bekkjarbíl“ og komið svo heim.  Þá hafi hún, þegar heim var komið, hitt mágkonu sína, E.  E hafi verið að fara til vinnu sinnar á sjúkrahúsinu og spurt sig hvað væri að, en hún hafi ekki getað sagt henni það.  Svo hafi brotaþoli sest niður og reynt að róa sig og svo hafi hún lagst niður hjá unnusta sínum og hann hafi tekið utan um sig og hún hafi sofnað eftir það. 

Þau hafi svo vaknað um morguninn, á að giska um ellefu leytið, og þá hafi C séð að hún hefði reynt að hringja í sig um nóttina og spurt sig hvað hefði verið að.  Kvaðst brotaþoli hafa sagt unnusta sínum það, en þó ekki hvað hefði gerst inni á klósettinu fyrr en seinna um daginn.  Svo hafi brotaþoli talað við móður sína í símann og sagt henni hvað hefði gerst og móðir hennar hafi beðið sig um að fara upp á spítala, en hún hafi ekki haft kjark til þess og ekki séð í því neinn tilgang fyrr en hún hafi verið búin að segja unnusta sínum þetta, en þá hafi hann bara farið með sig beint upp á spítala og sagt að annað kæmi ekki til greina. 

Brotaþoli gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 15. ágúst 2011, en þar var borinn undir hana framburður ákærða hjá lögreglu og kannaðist hún ekki við lýsingu hans á atvikum, en nánari grein verður gerð fyrir framburði ákærða hjá lögreglu síðar.  Kom sérstaklega fram hjá henni að hún hefði aldrei hitt ákærða fyrr en hann hafi skyndilega komið og ýtt sér inn á salernið þegar hún hafi verið á leið út af því, sem og að það sem gerst hefði milli þeirra hefði ekki verið með hennar samþykki eða vilja.  Þá kom fram hjá brotaþola að hún væri búin að eiga mjög erfitt.   

Þar sem fram kom hjá brotaþola að hún hefði leitað ásjár hjá gæslumönnum í Herjólfsdal strax eftir ofanlýst atvik hafði lögregla samband við gæslumenn Þjóðhátíðar til að hafa upp á þeim gæslumönnum sem um væri að ræða.  Könnuðust gæslumennirnir F, G og H við atvikið.  Kemur fram í upplýsingaskýrslu að þeir hafi sagt lögreglu að brotaþoli hafi komið að þeim milli kl. 04:00 og 05:00 við veitingatjaldið umrædda nótt.  Hafi hún sagt við þá að hún væri hrædd við mann, sem hafi komið á eftir henni, og að hún vildi ekki vera með honum.  Hún hafi ekki gefið neitt frekar upp og ekki sagt neitt um það hvers vegna hún væri hrædd við hann.  Segir í skýrslunni að þeir hafi verið sammála um að brotaþoli hafi virst vera mjög hrædd við manninn og reynt að skýla sér fyrir honum með því að standa fyrir aftan gæslumennina.  Maðurinn hafi sagt við brotaþola: „Viltu lim?“ og hann hafi líka sagt að hún skyldi bara segja það ef hún vildi að hann færi og þá myndi hann fara.  Maðurinn hafi svo farið inn í veitingatjaldið og horfið sjónum og þá hafi brotaþoli látið sig hverfa á hlaupum.  Kemur fram í skýrslunni að maðurinn hafi verið um þrítugt í skærgulum pollabuxum, brúnni lopapeysu og með svartan bakpoka.  Hann hafi verið með ljóst mjög stutt hár og skeggbrodda, hýjung sem hafi verið frekar rauðleitur, um 180-185 sentimetrar, ekki feitur en þrekinn á að giska 85-90 kíló.  Hafi maðurinn virst vel í glasi en ekki ofurölvi og verið annað hvort með í vörinni eða með skúffu.  Samtal lögreglu við gæslumennina leiddi til þess að gæslumennirnir tóku eftir ákærða nóttina eftir, þ.e. aðfaranótt mánudagsins, tóku hann afsíðis og komu honum í hendur lögreglu.  Var ákærði handtekinn 1. ágúst 2011 kl. 02:45 og færður í klefa kl. 03:03 sömu nótt.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu mánudagskvöldið 1. ágúst sl.  Þar var honum kynnt sakarefnið að hann væri grunaður um að hafa nauðgað A aðfaranótt sunnudagsins 31. ágúst sl.  Neitaði ákærði sakargiftum og kvaðst ekki viss um hver „A“ væri.  Beðinn um að lýsa ferðum  sínum milli kl. 03:00 og 07:00 umrædda nótt kvaðst ákærði hafa verið á Þjóðhátíð.  Hann hafi verið í dalnum og hafi verið kominn niður á [...] klukkan sjö, átta eða hálfníu eða eitthvað.  Kvaðst ákærði hafa verið með I, J og mörgu öðru fólki.  Einhvern tíma hefði hann örugglega orðið viðskila við þá.  Kvaðst ákærði hafa komið til Vestmannaeyja aðfaranótt föstudagsins 29. júlí sl.  Aðspurður um hvernig hann hefði verið klæddur aðfaranótt sunnudagsins kvaðst ákærði sennilega hafa verið í snjóbrettabuxum, með rauða húfu og bleika hanska, í blárri peysu.  Nánar aðspurður um hverja hann hefði hitt á bilinu milli kl. 03:00 og 07:00 umrædda nótt kvaðst ákærði hafa verið að koma frá [...] og þaðan hafi hann farið með I og J, en hann myndi ekki nöfnin.  Kona I, sem hann myndi ekki nafn á, hafi verið líka og einhver K.  Hann hafi hitt mjög margt fólk.  Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið í einu sambandi við konu á umræddum tíma, en það hafi verið á kömrunum við hliðina á hvíta matartjaldinu í Herjólfsdal.  Það hafi verið einu samskipti sín við konu á Þjóðhátíðinni.  Hann myndi ekki 100% þær aðstæður sem hafi myndast en þau hafi verið fyrir utan kamarinn.  Þegar þau hafi verið komin inn á kamarinn hafi hann farið að kyssa hana og hún hafi „fílað“ það og farið með hendurnar ofan í brækurnar og tekið hann út og við það mjög skömmu seinna hafi hurðin [sic.] opnast og hann minni eins og tveir minni krakkar hafi verið þar og þá hafi hún orðið mjög svona „paranojuð“ öll og hlaupið út.  Hann hafi hysjað upp um sig og farið á eftir henni og þá hafi verið mikið um erfiði og hún hafi labbað hratt í burtu og verið „stygg svona“.  Aðeins seinna hafi hún ekki leyft sér að tala við sig.  Skömmu síðar í skýrslunni lýsir ákærði því að konan hafi haft við hann munnmök.  Hann hafi hysjað upp um sig þegar hann hafi komið út af kamrinum og farið fljótlega upp á [...] þar sem hann hafi gist hjá I.  Á leiðinni hafi hann hitt L vin sinn, þ.e. vitnið L, en ekki myndi hann hvort hann hafi hitt aðra.  Ekki mundi ákærði tímasetningu en þetta hafi verið mjög seint um kvöldið. Minni sitt um þetta kvöld sé ekki alveg það besta.

Aftur gaf ákærði skýrslu hjá lögreglu að morgni 2. ágúst sl.  Þá kvaðst hann ekki vera alveg hundrað prósent viss um í hvaða fötum hann hefði verið umrætt kvöld.  Aðspurður um hvers vegna hann hafi neitað því við lögreglu í Vestmannaeyjum að hann hefði þar samastað og farangur kvað ákærði að það hafi bara verið þegar sér hafi allt í einu verið sagt frá kærunni og það hafi bara verið þannig ástand á sér þá og hann hafi bara viljað fá lögfræðing og ráðfæra sig við hann.  Aðspurður um samskipti sín við brotaþola kvaðst ákærði hafa hitt hana í Herjólfsdal, mjög nálægt matartjaldinu, aðeins sunnan við „teknótjaldið“ og þau hafi farið að taka eftir hvort öðru í þrengslunum sem þarna hafi verið.  Þau hafi svo farið að spjalla saman og einhvern veginn hafi þau endað inni á kamrinum en hann viti ekki vel hvernig það hafi viljað til.  Hann hafi hins vegar upplifað samskipti þeirra algjörlega þannig að þau hafi ekki verið að óvilja hennar.  Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta lýst orðasamskiptum þeirra og ekki geta gert grein fyrir því hvernig þau hafi endað inni á kamrinum.  Það hafi ekkert rifrildi verið í gangi heldur hafi þetta spunnist einhvern veginn og dyrnar að kamrinum hafi opnast.  Inni á kamrinum hafi hann farið að kyssa hana og fara inn á hana og hún hafi farið inn á sig og hún hafi svo snúið sér við og hann hafi haldið utanum hana og hún hafi svo snúið sér við aftur og tekið í „drjólann“ á honum og sest niður fyrir framan hann og byrjað að hafa við sig munnmök.  Þá lýsti ákærði því að hann hafi farið með höndina í klofið á brotaþola innanklæða og reynt að æsa hana upp.  Ákærði kvað sér hafa staðið.  Eftir skamman tíma hafi hurðin [sic.] opnast, hann hafi litið til hliðar og séð að einhver hafi verið þar, byrjað að hysja upp um sig buxurnar og þá hafi brotaþoli stokkið út.  Það hafi bara verið eitthvað andlit og gæti hann ekkert sagt nánar um það.  Margt fólk hafi verið fyrir utan.  Hann hafi dröslast sjálfur strax út á eftir henni en misst samt sjónar á henni smá stund og séð hana aftur aðeins síðar, en þá hafi hún verið orðin smeyk við sig.  Þeirra samneyti hafi ekki verið mikið meira eftir þetta en hann hafi séð hana rétt hjá matartjaldinu og labbað til hennar til að tala við hana og hún hafi labbað frá honum og hann hafi verið þarna nokkra stund áður en hann hafi farið heim á leið og sagt „hæ“ og svona en ekki fengið neitt svar.  Ekki kvaðst ákærði geta sagt hvort hún hafi verið með einhverju fólki þarna en það hafi verið mjög mikið af fólki og á sama stað.  Nokkru eftir þetta hafi hann hitt L og farið heim á leið.  Ákærði taldi að hann hefði ekki verið eins klæddur og þegar hann var handtekinn, en hann hafi sennilega verið í sjóarabuxum og blárri peysu.  Buxurnar hafi verið með axlaböndum.  Brotaþoli hafi farið með hendurnar ofan í buxur hans, tekið niður um hann buxurnar niður undir rass og hafi buxurnar verið komnar þangað þegar dyrnar hafi verið opnaðar.  Ákærði bar að þau hefðu aðeins farið einu sinni inn á salernið og ekki mundi hann eftir þeim samskiptum við gæslumennina sem gæslumennirnir og brotaþoli lýstu.  Ekki kannaðist ákærði við að hafa haft samfarir við brotaþola.  Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og það væri ástæða þess að hann myndi atvikin ekki mjög skýrt, en hann hafi drukkið um 10 stóra bjóra á laugardeginum og aðfaranótt sunnudagsins, en ekki annað nema ef hann hafi fengið sopa hjá öðrum.  Á sunnudagskvöldinu hafi hann hins vegar drukkið landa og megnið af honum á lögreglustöð eftir að hann hafi verið færður í klefa.

Enn gaf ákærði skýrslu hjá lögreglu 5. ágúst sl. Aðspurður í þeirri skýrslu gat ákærði ekki skýrt það hvers vegna L myndi ekki eftir því að hafa hitt hann um nóttina áður en hann fór heim eða á leiðinni þangað.  Ákærði kvaðst muna það vel að hafa hitt L umrætt sinn, þeir hafi báðir verið mjög drukknir og hlæjandi og hafi báðir legið í jörðinni eftir að hafa verið að slást eða kljást.  Aðspurður kvað ákærði að það gæti verið að hann hefði verið í brúnni lopapeysu aðfaranótt sunnudagsins, en hann hafi verið í henni einhvern tíma en hún sé eign I félaga síns.  Ekki kvaðst ákærði geta skýrt  áverka á brotaþola, en hann hafi ekki verið eitthvað rífandi í hana dragandi hana inn á klósett.

Enn gaf ákærði skýrslu hjá lögreglu 16. ágúst sl.  Þar kvað ákærði það rangt hjá brotaþola að hún hafi ekki átt við hann munnmök.  Þá neitaði hann því aftur að áverkar á brotaþola væru eftir hann og ítrekaði að ekkert ofbeldi hafi verið milli þeirra.  Þá var ákærða kynnt bótakrafa brotaþola.

Vitnið I gaf skýrslu hjá lögreglu 2. ágúst 2011.  Vitnið býr að [...] í [...].  Vitnið kvaðst vera æskuvinur ákærða.  Hafi ákærði komið til Vestmannaeyja aðfaranótt 29. júlí sl. og hafi hann dvalið á heimili vitnisins.  Þeir hafi farið saman í Herjólfsdal að kvöldi 30. júlí sl. og hafi þeir fljótlega orðið viðskila og kvaðst hann ekki hafa hitt ákærða aðfaranótt 31. júlí sl.  Kvaðst vitnið hafa orðið þess vart þegar ákærði hafi komið heim upp úr hádegi 31. júlí sl. en ekkert rætt við hann fyrr en eftir að hann vaknaði.  Ekkert hafi komið til tals milli þeirra að ákærði hafi hitt konu um nóttina.  Kvaðst vitnið telja að ákærði hefði verið í lopapeysu og gallabuxum á laugardagskvöldinu, en var ekki viss.  Vitnið taldi að ákærði hefði þvegið af sér einhver föt á laugardeginum en engin á sunnudeginum.

Vitnið M gaf skýrslu hjá lögreglu 4. ágúst sl.  Vitnið er sambýliskona I.  Vitnið kannaðist við að ákærði væri æskuvinur sambýlismanns síns og að hann hafi komið til Eyja að morgni föstudagsins 29. júlí sl. um kl. 05:00 með Herjólfi.  Kvað vitnið ákærða hafa farið með sér og sambýlismanni sínum í Herjólfsdal að kvöldi 30. júlí sl. en þau hafi orðið viðskila við hann skömmu eftir flugeldasýninguna sem var á miðnætti sama kvöld.  Kvaðst vitnið hafa farið heim til sín um kl. 02:00 aðfaranótt sunnudagsins og hafi þá ákærði ekki verið kominn, en hún hafi orðið þess vör að hann hafi komið heim um kl. 14:00 á sunnudeginum.  Ekkert hafi hún heyrt ákærða tala um samskipti sín við konu umrædda nótt.  Kvað vitnið ákærða hafa verið í svörtum „joggingbuxum“ og svartri peysu, ekki lopapeysu, heldur eins og föðurland er gert úr, nær flísefni.  Hafi hún afhent lögreglu þessi föt.  Engin föt hafi ákærði þvegið af sér á sunnudeginum, enda sofið allan daginn.

Vitnið F gaf skýrslu hjá lögreglu 2. ágúst sl.  Kom fram hjá honum að hann hefði sinnt gæslustörfum á Þjóðhátíð umrædda nótt.  Kvaðst hann hafa verið staddur, ásamt öðrum gæslumönnum, við veitingatjaldið og svokallað „teknótjald“.  Þá hafi stúlka komið til þeirra og hún hafi verið í pollabuxum og bol og hafi sér þótt það skrítið.  Hann hafi skynjað að hún væri eitthvað hrædd við mann sem hafi verið þarna.  Hún hafi komið og horft á þá og hafi vitnið skynjað að hún væri eitthvað hrædd, en hún hafi ekki sagt hvað væri að.  Svo hafi komið þar strákur, mjög ölvaður, og hafi hann haldið um buxur sínar líkt og hann væri að halda um typpið á sér og hafi sagt, að því er vitnið minnti, „viltu lim?“.  Hafi vitnið haldið að strákurinn væri bara fullur að reyna við stúlkuna og bulla eitthvað í henni og hún væri bara hrædd við hann og vildi losna við hann.  Þá hafi vinur vitnisins verið í samskiptum við strákinn og rekið hann í burtu og svo hafi vinur vitnisins sagt við stúlkuna að strákurinn væri farinn og hún gæti hlaupið í burtu.  Vinur vitnisins hafi líka boðið stúlkunni að þeir myndu fylgja henni en svo hafi þeir séð hana hlaupa burtu og hafi þeir fylgst með henni og að strákurinn myndi ekki elta stúlkuna og svo hafi strákurinn horfið sjónum.  Kvöldið eftir hafi lögregla komið að spyrja þá um atvikið og þá hafi þetta rifjast upp og þeir hafi farið að leita að stráknum og hafi þeir fundið hann, en hann hafi þá verið klæddur í önnur föt.  Í fyrra skiptið hafi maðurinn verið klæddur í gular pollabuxur og brúna peysu og með tösku.  Taldi vitnið að maðurinn hafi ekki verið með höfuðfat, en vitnið hafi a.m.k. séð hár mannsins sem hafi verið krúnurakað og ljóst.  Maðurinn hafi verið á að giska 180 sentimetrar á hæð, með skeggbrodda 3-4 daga gamla, eins og með skúffu og á að giska um þrítugt.  Nánar aðspurður um stúlkuna bar vitnið að hafa skynjað að hún væri hrædd við manninn því hann hafi horft til hennar og þegar hann hafi komið nær þá hafi hún farið meira fyrir aftan þá þannig að maðurinn sæi hana ekki.  En hún hafi ekkert sagt og svo hlaupið í burtu þannig að hann hafi ekki áttað sig á aðstæðum.  

Vitnið G gaf lögreglu skýrslu við rannsókn málsins.  Kom fram hjá honum að hann hefði verið meðal gæslumanna á Þjóðhátíð umrætt kvöld.  Aðfaranótt sunnudagsins hafi hann verið staddur, ásamt F, við matartjaldið í Herjólfsdal og þá hafi komið stelpa til þeirra og verið voðalega mikið að fela sig þarna bak við þá.  Ekki hafi hún sagt neitt og hafi vitnið tekið eftir því að einhver strákur hafi verið að reyna að tala við hana og hún hafi verið fyrir aftan þá.  Strákurinn hafi sagt eitthvað sem vitnið hafi ekki heyrt og stelpan hafi sagt nei.  Strákurinn hafi farið burt og vitnið hafi spurt stúlkuna hvort hún vildi tala við strákinn eða vera eitthvað með honum og hafi hún neitað því og sagst ekki þekkja hann og hún vildi bara fara heim.  Vitnið hafi sagt stúlkunni að strákurinn væri farinn og hún hafi sagst bara vilja fara heim.  Vitnið hafi spurt stúlkuna hvort hún vildi fá fylgd heim en það hafi hún ekki viljað og hafi hún svo hlaupið í burtu.  Daginn eftir hafi lögregla komið að máli við þá og spurst fyrir um atvikið og hafi þeir leitað mannsins á sunnudagskvöldinu, fundið hann og tekið með sér og afhent hann lögreglu.  Lýsti vitnið stúlkunni svo að hún hafi verið lítil og ljóshærð með axlasítt hár í skærgulum pollabuxum og stuttermabol.  Stráknum lýsti vitnið svo að hann hefði verið ríflega 180 sentimetrar og ljóshærður með lítið hár og skeggbrodda.  Þá hafi hann verið að gera eitthvað sem benti til að hann vildi fá stúlkuna til að gera eitthvað við sig.  Hafi strákurinn haldið utanum eitthvað í klofinu á sér, hvort það hafi verið peysa eða eitthvað og hann hafi sagt eitthvað og hún hafi sagt nei og þá hafi strákurinn orðið hneykslaður og farið.  Var vitnið ekki í vafa um að þetta væri sami maður og þeir hefðu svo fundið á sunnudagskvöldinu og afhent lögreglu.

Vitnið D gaf lögreglu skýrslu við rannsókn málsins og skýrði frá því að brotaþoli hafi hringt í sig aðfaranótt sunnudagsins 31. júlí sl. og hafi það verið á að giska um 05:30 - 06:00.  Hafi hún verið grátandi í símanum og verið öll miður sín og átt erfitt með að tala.  Hafi skellst á og hafi verið um að ræða nokkur símtöl.  Hann hafi fengið mjög lítið upp úr henni en það hafi verið greinilegt að það hafi eitthvað mikið verið að og hún hafi verið eins og í taugaáfalli.  Hún hafi verið ein í hvítu tjaldi og hafi hann fengið hana til að fara þaðan því hún væri ekki örugg þar og hafi hún farið heim.  Þau hafi verið í símasamskiptum þennan morgun um eina og hálfa klukkustund og þeim hafi lokið þegar hún hafi verið að koma inn um dyrnar hjá tengdaföður sínum.  Ekki hafi brotaþoli getað sagt almennilega frá neinu en hafi bara verið ónýt manneskja þarna.  Þau hefðu heyrst í síma fyrr um kvöldið og þá hafi verið ógurlega gaman hjá henni, en svo þarna um morguninn hafi greinilega eitthvað mikið gerst og hann hafi séð það strax að hún þyrfti að komast til einhvers sem hún þekkti.  Ekkert hafi brotaþoli rætt við hann um það sem hafi komið fyrir hana, en þau séu mjög góðir vinir.

Vitnið E gaf lögreglu skýrslu við rannsókn málsins og bar um það að brotaþoli hafi gist heima hjá sér umrædda helgi, en vitnið er systir C þáverandi unnusta brotaþola.  Sunnudagsmorguninn 31. júlí sl. hafi vitnið vaknað um kl. 07:00 til að fara til vinnu sinnar á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum og hafi þá brotaþoli legið í sófa í sjónvarpsherbergi og verið grátandi og talað í síma.  Hafi vitnið spurt hvort eitthvað væri að og hafi brotaþoli svarað „það má eiginlega segja það“.  Hafi vitnið tekið það svo að eitthvað hafi komið upp á milli hennar og C en ekki hafi sig grunað að brotaþoli hafi orðið fyrir kynferðisbroti.  Þegar vitnið hafi farið til vinnu um kl. 07:45 hafi brotaþoli verið farin að sofa.

Vitnið L gaf lögreglu skýrslu við rannsókn málsins og kvaðst þekkja ákærða.  Hefði hann hitt hann í Herjólfsdal um Þjóðhátíð á sunnudagskvöldi og þá hafi ákærði verið daufur í dálkinn, en á laugardagskvöldinu hafi hann hitt ákærða um eða upp úr miðnætti, u.þ.b. milli miðnættis og kl. 02:00 og þá hafi ákærði verið voða hress og með hárkollu.  Að öðru leyti tengdist hann ekki ákærða neitt og hafi ekkert verið með honum á Þjóðhátíðinni.  

Vitnið N gaf lögreglu skýrslu við rannsókn málsins.  Hann kannaðist við ákærða og að hafa gist í sama húsi og hann á Þjóðhátíð og að hafa vísað lögreglu á farangur ákærða.  Kvaðst vitnið hafa hitt ákærða á laugardagskvöldinu og svo aftur á sunnudeginum.  Ekkert hafi vitnið verið með ákærða í Herjólfsdal þegar líða tók á aðfaranótt sunnudagsins.

Vitnið H kvaðst hafa verið við gæslustörf á Þjóðhátíð umrædda aðfaranótt sunnudagsins 31. júlí sl.  Þá hafi þessi stelpa komið upp að sér og ekki sagt neitt heldur bara staðið þar og virst vera niðurlút og eftir skamma stund hafi hún rifið í hönd hans og klipið aftanverðan upphandlegginn og þá hafi hún greinilega verið skelkuð og skíthrædd við manninn.  Hafi hún klipið fast og í gegnum úlpu sem vitnið hafi verið í.  Hafi þá verið kominn að hlið hennar maður og verið að segja við hana eitthvað á þeim nótum að ef hún vildi að hann færi þá skyldi hún bara segja það.  Hafi maðurinn verið þvoglumæltur.  Vitnið hafi sagt við manninn að það væri greinilegt að stúlkan vildi ekkert með hann hafa og hvort  hann vildi ekki bara koma sér í burtu.  Þá hafi maðurinn horft á sig í smástund og svo farið.  Þetta hafi verið um sexleytið um morguninn.  Maðurinn hafi verið á að giska ríflega 180 sentimetrar á hæð, í gulum pollabuxum, brúnni lopapeysu og með bakpoka.  Hafi pollabuxurnar ekki verið með axlaböndin uppi.  Hafi maðurinn verið snoðklipptur með skegg ámóta langt hárinu.  Vitnið hafi spurt stúlkuna hvort allt væri í lagi og hún hafi hrist höfuðið.  Stúlkan hafi verið í gulum buxum og hvítum stuttermabol.

Vitnið O, móðir brotaþola, gaf skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins.  Vitnið dvaldi í Vestmannaeyjum yfir Þjóðhátíðina, en gisti hjá  annarri dóttur sinni.  Hún hafi komið þangað heim um fjögurleytið aðfaranótt sunnudagsins og ekki hafa orðið vitni að því sem hafi komið fyrir brotaþola.  Kvaðst hún hafa hringt í dóttur sína, brotaþola í málinu, að morgni sunnudagsins 31. júlí sl.  Þá hafi brotaþoli verið öll dofin og skrítin í símann svo að vitnið hafi ákveðið að heyra í brotaþola aftur og þá hafi brotaþoli sagt vitninu að það hafi verið ráðist á sig, en vitnið hafi ekki fengið að heyra meira fyrr en síðar, eða um klukkan milli 11:00 og 13:00 þann sama dag.  Hafi brotaþoli átt erfitt með að tala um þetta en vitnið hafi spurt hvort hún vildi ekki fara til læknis og hafi brotaþoli neitað því og það jafnvel þótt systir hennar fylgdi henni.  Svo hafi brotaþoli sagt að það þyrfti eiginlega að fara með sig til læknis því hún segði alltaf nei sjálf.  Svo hafi kærastinn hennar farið með hana til læknis.  Kvað vitnið líðan brotaþola vera upp og ofan en oftast frekar slæma.

Vitnið C gaf skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins.  Vitnið var unnusti brotaþola á þeim tíma sem atvik gerðust.  Kvaðst vitnið hafa farið í Herjólfsdal ásamt brotaþola milli kl. 20:00 og 21:00 laugardagskvöldið 30. júlí sl.  Á að giska milli 24:00 og 01:00 um nóttina hafi þau orðið viðskila.  Þá hafi vitnið verið statt í Herjólfsdal og sent brotaþola SMS skilaboð um að hann ætlaði að fara heim.  Það hafi verið það síðasta sem vitnið hafi vitað af brotaþola þangað til hún hafi hringt í hann um nóttina grátandi en vitnið hafi þá ekki verið í ástandi til að tala við brotaþola.  Svo hafi vitnið vaknað daginn eftir með brotaþola við hliðina á sér, á að giska milli kl. 13:00 og 14:00.  Það hafi verið heima hjá föður vitnisins að [...] í [...].  Þá hafi brotaþoli verið eitthvað hálfsnöktandi og grátandi  þegar vitnið var alveg nývaknað og vitnið hafi spurt hvað væri að.  Hafi brotaþoli sagt að það hafi verið ráðist á sig inni í dal á klósettunum.  Hafi vitnið spurt hvort það væri allt í lagi með brotaþola og hafi hún játað því.  Brotaþola hafi greinilega ekki liðið vel.  Hafi þau svo legið í rúminu fram eftir degi þar til hún hafi sagt að hún héldi að hún ætti að fara á sjúkrahúsið að láta skoða sig, en þá hafi vitnið spurt hvort henni hafi verið nauðgað.  Brotaþoli hafi sagt já við því og þá hafi þau strax farið á spítalann og þá hafi klukkan verið milli 18:00 og 19:00 á sunnudeginum.

  Ákærði var færður til réttarlæknisfræðilegrar skoðunar sem var framkvæmd á lögreglustöðinni á Selfossi 1. ágúst sl. og var aflað lífsýna af honum til nánari greiningar.  Í lófa vinstri handar var skurður nálægt baugfingri og annar skurður á hægri þumli.  Skurðir þessir voru ekki taldir alveg nýir en sennilega yngri en tveggja til þriggja daga gamlir.  Voru sárin óhrein og var tekið úr þeim strok.  Að öðru leyti kom ekkert markvert fram við skoðun.  Þá var lagt hald á fatnað ákærða, þ.m.t. nærbuxur.

Brotaþoli var flutt á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota þar sem gerð var á henni skoðun aðfaranótt 2. ágúst sl.  Með brotaþola kom allur hennar fatnaður í sérstökum bréfpokum.  Er þar haft eftir brotaþola að hún hafi verið að skemmta sér á Þjóðhátíð og verið að koma út af klósetti þegar ókunnur maður hafi ýtt henni aftur inn á klósettið.  Henni hafi tekist að veita viðnám og opna og komast út.  Þá hafi hann hlaupið á eftir henni, verið reiður og dregið hana inn á klósettið aftur.  Hafi maðurinn haldið henni um axlir og slengt henni utan í vegg, hún hafi streist mjög á móti, en hann hafi haldið henni fastri, náð niður um hana buxum og nærbuxum og tekist að koma typpinu í leggöng.  Telji hún að hann hafi ekki haft sáðlát.  Hafi hún svo losnað frá manninum og hafi síðan hlaupið til gæslumanna, en ekki látið þá vita hvers kyns væri.  Gerandinn hafi elt hana að gæslumönnunum og verið mjög reiður.  Eftir þetta hafi hún farið heim, lagt sig og sagt svo kærastanum frá þessu og farið á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum.  Kemur fram að brotaþoli hafi kvartað um verki í öxlum, baki og síðu vinstra megin.  Segir að brotaþoli sé á blæðingum og hafi þær byrjað á sunnudag.  Þá er því lýst að brotaþoli hafi verið róleg og setið í hnipri.  Frásögn hennar hafi verið skýr en greinilega erfitt að segja frá atburðum.  Hún hafi verið stíf og vöðvar spenntir.  Er því lýst að ofan og aftantil á öxlum, beggja vegna hafi brotaþoli verið aum við þreifingu og haft mar og vöðvaeymsli.  Aftantil á upphandleggjum beggja vegna hafi verið roðasvæði eins og eftir núning eða eitthvað hafi nuddast við húðina.  Í síðu vinstra megin hafi brotaþoli haft eymsli yfir rifjum og þar hafi verið mar.  Á sköflungi vinstra megin hafi verið blámablettur/húðblæðing og á neðri hluta baks hafi verið eymsli við þreifingu og þar hafi brotaþoli haft vöðvaeymsli/mar.  Skoðun ytri kynfæra hafi verið eðlileg, sem og leggangaskoðun, skoðun endaþarms og þreifing innri líffæra.  Þá kemur fram að föt hennar hafi verið tekin, skafið undan nöglum, sýni tekin á bómullarpinna og glerplötur frá labia/leggöngum og leghálsi.  Segir að áverkar á brotaþola samrýmist lýsingu hennar á atburðum.

Við rannsókn tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fundust þekjufrumur í sýnum frá brotaþola, en engar sáðfrumur.  Í svokölluðum DNA pinnum, merktir „ytri barmar“, „vagina“ og „legháls“ fannst rauðleitt kám sem svaraði jákvætt við blóðprófi, en engin svörun kom fram við sæðisprófi.  Í þeim gögnum sem afhent hafi verið hafi ekki fundist nein lífsýni sem nothæf gætu talist til DNA kennslagreiningar.  Ekkert markvert fannst við rannsókn á fatnaði brotaþola.

Ekkert markvert fannst við skoðun á fatnaði ákærða og sýnum frá honum.  Kemur fram að tekin hafi verið strok til lífsýna úr framangreindum skurðum á höndum ákærða, sem og undan forhúð, en ekki hafi fundist lífsýni sem hægt væri að nota til DNA kennslagreiningar, þó ekki væri unnt að útiloka að í stroksýnum á pinnum í lífsýnaöskjunum, sem voru frá skurðum á höndum og undan forhúð, væri að finna slík sýni og þá mögulega nothæf sýni til kennslagreiningar.  Slík greining var ekki gerð.

Gerð var sakbending við rannsókn málsins þar sem ákærði stóð í röð ásamt 5 öðrum mönnum og valdi ákærði sér stað í röðinni, sem og bendingarnúmer.  Var sakbendingin tekin á myndband að viðstöddum verjanda ákærða og réttargæslumanni brotaþola.  Við sakbendinguna benti brotaþoli á ákærða sem þann mann sem hafi ráðist á sig umrætt sinn.  Kvaðst brotaþoli strax hafa þekkt ákærða á andlitsdráttum og hafa aldrei verið í vafa með það.

Í kjölfar komu brotaþola á Neyðarmóttöku var henni vísað í sálfræðilegt mat og áfallahjálp hjá sálfræðiþjónustu Neyðarmóttöku.  Liggur fyrir í rannsóknargögnum vottorð P sálfræðings vegna þess.  Kemur fram í vottorðinu að  brotaþoli hafi komið í 3 viðtöl hjá sálfræðingnum frá 5. ágúst sl. til 19. ágúst sl.  Í samantekt kemur fram að brotaþoli hafi sagst vera ólík sjálfri sér, tilfinningalega óstöðug, uppstökk og afar viðkvæm.  Hún gráti oft af litlu sem engu tilefni.  Hún treysti sér ekki til að vera ein á kvöldin og nóttunni.  Áform hennar um að flytja til Reykjavíkur hafi orðið að engu.  Þá séu einkenni og viðbrögð sem þessi algeng hjá þolendum kynferðisofbeldis og séu einnig algeng áfallastreitueinkenni.  Niðurstöður greiningarmats sýni að brotaþoli þjáist af áfallastreitueinkennum í kjölfar ætlaðrar nauðgunar.  Þyki ljóst að atburðurinn hafi haft víðtæk og alvarleg áhrif á hana.  Þau sálrænu einkenni sem brotaþoli upplifi í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem séu vel þekkt hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir.  Þá segir að niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvari vel frásögnum hennar í viðtölum.  Hún virðist ávallt hreinskilin, trúverðug og sjálfri sér samkvæm.

 Ákærða var birt skaðabótakrafa kæranda við skýrslutöku hjá lögreglu þann 16. ágúst sl. og hafnaði hann henni.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði bar um það fyrir dómi við aðalmeðferð að hafa komið gangandi í Herjólfsdal umrædda nótt og hafa þar hitt brotaþola á móti „teknótjaldinu“.  Ekki hafi þau hist neitt áður.  Þau hafi talað saman en ekki mundi ákærði um hvað þau hefðu talað.  Þau hafi síðan farið saman inn á kamar, en ekki mundi ákærði hvaða leið þau hefðu farið, beint eða ekki.  Þarna hafi verið fullt af fólki.  Við skýrslugjöf sína fyrir dóminum gat ákærði ekki upplýst til fulls inn á hvaða kamar þau hefðu farið, en þrír í lengri röð kamra kæmu til greina.  Á að giska 20-30 mínútur hafi liðið frá því þau hafi hist fyrst þangað til þau hafi verið komin inn á kamarinn.  Ákærði gat ekki upplýst hvernig það hafi viljað til að þau hafi farið inn á kamarinn, hvort annað þeirra hafi þurft að fara á klósett eða hvað.  Kamarinn hafi ekki verið læstur innan frá en þó hafi hann verið þannig útbúinn að hægt sé að loka honum innan frá.  Þau hafi svo verið að kyssast á kamrinum og brotaþoli hafi tekið axlaböndin af öxlunum á sjálfri sér og hann hafi farið inn á hana og hún hafi farið inn á hann.  Ekki mundi ákærði hvort þeirra hefði átt upptökin að kynferðislegum samskiptum þeirra, en minnti að þau hefðu ekki átt nein slík samskipti áður en inn á kamarinn var komið, nema e.t.v. einhverjir kossar sem ákærði mundi þó ekki. Hann hafi ekki girt niður um hana heldur farið með höndina inn fyrir buxurnar.  Hún hafi verið byrjuð að „rúnka“ honum og hann hafi verið að nudda á henni kynfærin utan við nærbuxur hennar til að „reyna að gera hana graða“.  Hann hafi ekki farið með fingur í kynfæri hennar.  Síðan hafi hún snúið sér við og farið með höndina ofan í buxurnar sínar, hugsanlega til að reyna að losa undirbuxurnar.  Hún hafi svo snúið sér við aftur og byrjað að „rúnka“ honum aftur.  Svo hafi hún sest niður fyrir framan hann og byrjað að hafa við hann munnmök.  Það hafi staðið stutt, kannski hálfa mínútu eða svo, en síðan hafi dyrnar opnast á kamrinum og hann hafi snúið sér við og séð einhvern þarna og hysjað upp um sig.  Brotaþoli hafi þá stokkið út, en ekki vissi ákærði hvers vegna hún hefði gert það og hún hafi ekki verið búin að gefa neitt til kynna að samskipti þeirra væru á einhvern hátt að hennar óvilja.  Enga skýringu hafði ákærði á því hvers vegna brotaþoli hafi ekki viljað meira og hafi hann orðið mjög hissa þegar hún hafi stokkið út af kamrinum.  Ekki mundi ákærði til þess að þau hefðu talað neitt inni á kamrinum.  Ákærði hafi farið út á eftir henni og talað við einhvern mann þarna fyrir utan.  Ákærði hafi ekki verið neitt hlaupandi á eftir brotaþola.  Það hafi verið einhver yngri stelpa, kannski 14-15 ára, sem hafi opnað, en hann hafi ekkert talað við hana.  Einhver önnur stelpa hafi verið með henni.  Ekkert hafi hann vitað erindi hennar.  Ákærði hafi séð á eftir brotaþola hvaða leið hún hafi farið og farið á eftir henni og misst aðeins sjónar á henni.  Síðan hafi hann aftur séð hana við matartjaldið og verið að reyna að tala við hana en hún hafi ekki leyft honum að tala við sig.  Við matartjaldið hafi verið gæslumenn en ekki mundi ákærði eftir neinum samskiptum  við þá.  Ekki mundi ákærði eftir að þeir hafi rekið sig í burtu.  Ekki kannaðist ákærði við að hafa gripið um kynfærin á sér við þetta tækifæri og kannaðist ekki heldur við að hafa viðhaft orðin „viltu lim?“.  Ekki neitaði ákærði því að hafa sagt þetta, en hann myndi ekki eftir því en benti á að hann hafi verið ölvaður, enda á Þjóðhátíð.  Hann hafi verið að reyna að tala við brotaþola en hún hafi ekki viljað tala við hann og verið orðin hrædd við hann, en ekki hafði ákærði neina hugmynd um af hverju sú hræðsla stafaði.  Hann hafi ekki verið búinn að vera að ýta henni neitt.  Ákærði hafi verið fyrir utan matartjaldið í smá tíma og farið svo út úr dalnum snögglega eftir það.  Þá hafi hann hitt kunningja sinn, L, og farið svo upp á [...] skipt um sokka og síðan hafi hann farið á stað sem heiti Prófasturinn að skemmta sér með öðru fólki.  Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa neina skýringu á því hvers vegna nefndur L myndi ekki eftir að þeir hafi hist, en líklega myndi hann það ekki eða væri að rugla saman dögum.  Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið klæddur í sjóbuxur og brúna ullarpeysu.  Við handtöku hafi hann verið í öðrum fötum.  Ákærði kannaðist við að þegar gæslumenn hafi tekið sig og farið með sig til lögreglu þá hafi þeir spurt sig um föt, farangur og dvalarstað.  Hafi hann þá ranglega svarað að hann hafi verið í þeim fötum sem hann hafi þá verið í, ekki með neinn farangur og ekki með neina gistingu.  Aðspurður um ástæður þess að skrökva til um þetta kvaðst ákærði hafa verið að reyna að fá út hvað þeir vildu sér.  Síðan hafi sér verið birt kæran og hann hafi þá strax óskað eftir lögfræðingi þegar sér hafi verið kynntur sá réttur af lögreglu.  Ekki hafi hann fengið að hitta lögfræðing fyrr en daginn eftir á Selfossi þegar hann hafi hitt verjanda sinn fyrsta sinn.  Síðan hafi verið farið með sig á lögreglustöð og hann settur í einangrun.  Ákærði hafi verið með „landa“ með sér í buxunum og hafi ekki verið gerð á sér leit áður en hann hafi verið settur í klefa og hafi hann því verið með áfengið með sér í klefanum.  Daginn eftir hafi uppgötvast að hann hafi verið með áfengi í klefanum og hafi það þá verið tekið.  Þar hafi hann verið þangað til daginn eftir en þá hafi verið farið með sig í einangrun á Selfossi.  Kannaðist ákærði við að hafa jafnframt ranglega borið um það í skýrslutöku hjá lögreglu 1. ágúst sl., eftir að sakarefnið hafi verið kynnt, í hvaða fötum hann hafi verið þegar hann hafi átt samskipti sín við brotaþola.  Hafi hann þá lýst sömu fötum og hann hafi verið í við handtöku.  Í þeirri skýrslutöku hafi hann ekki munað vel í hvaða fötum hann hafi verið og því bara ákveðið að halda sig við fyrri framburð um klæðnaðinn.  Hafi ákærði verið „ónýtur“ eftir einangrunarvistina og ruglað saman dögum.  Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa kært sig neitt um að segja lögreglu frá dvalarstað sínum í Vestmannaeyjum í upphafi og því hafi hann sagt rangt til um það.

Aðspurður kannaðist ákærði ekki við að hafa haft samfarir við brotaþola og kvaðst ekki skilja hvernig sú frásögn brotaþola væri tilkomin.  Um áverka á brotaþola kvaðst ákærði ekkert geta borið og neitaði því að þeir áverkar væru af sínum völdum.  Ekkert í þeirra samskiptum hefði getað valdið þeim.

Brotaþoli gaf skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hafi farið á klósettið í Herjólfsdal og þegar hún hafi verið búin og gengið út þá hafi ákærði komið gangandi á móti sér beint fyrir framan kamarinn þar sem hún hafi verið að ganga út um dyrnar.  Aldrei hafi hún séð hann áður.  Hann hafi ýtt sér inn á klósettið aftur og lokað og læst dyrunum.  Hún hafi í fyrstu ekki áttað sig á því hvað hann væri að gera, en haldið fyrst að þetta ætti að vera eitthvað „djók“.  Svo hafi hún áttað sig á hvað var að gerast þegar ákærði hafi byrjað að koma við hana.  Hún hafi sjálf farið upp á kamarinn þegar þau voru komin inn.  Þar hafi hún verið á hækjum sér.  Hann hafi náð innri buxum hennar niður, en farið inn fyrir pollabuxurnar.  Hann hafi farið með höndina ofan í pollabuxurnar hennar og náð að stinga fingri inn í leggöng hennar.  Þetta hafi tekið skamma stund.  Hún hafi náð að teygja sig í læsinguna á hurðinni og opna og náð að ýta honum í dyragættina.  Hún hafi svo náð að komast undir höndina á honum og sleppa út.  Hún hafi hlaupið í burtu en hann hafi náð sér við hól sem sé 5-6 metra frá kamrinum.  Hafi ákærði þá rifið í vinstri upphandlegg sinn og tekið í sig og dregið sig til og svo farið fyrir aftan sig og ýtt sér aftur að klósettunum og sagt „þetta hefðirðu ekki átt að gera“.  Hafi ákærði síðan ýtt sér aftur inn á klósett, en það hafi líklega ekki verið sama klósettið.  Það hafi verið fólk þarna en enginn hafi gert neitt.  Hafi ákærði verið rosalega reiður.  Brotaþoli kvaðst hafa verið svo frosin að sér hafi ekki tekist eða dottið til hugar að kalla á hjálp.  Ekki vissi vitnið hvort ákærði læsti dyrunum í seinna skiptið, en seinna skiptið muni hún ekki eins vel og fyrra skiptið þar sem hún hafi verið orðin svo hrædd.  Hún hafi snúið baki í ákærða í seinna skiptið.  Ákærði hafi haldið fast í upphandleggina á sér.  Hann hafi tekið axlaböndin á pollabuxunum hennar niður af öxlunum sitt hvorum megin og svo dregið hinar buxurnar og nærbuxurnar niður, u.þ.b. niður að hnjám.  Hún hafi snúið baki í hann allan tímann.   Hafi ákærði náð að stinga limnum inn í leggöng hennar í smá stund og hún hafi þá staðið hálf upprétt.  Hafi ákærði haldið í vinstri handlegg hennar allan tímann.  Aðspurð taldi brotaþoli að hún hafi frekar verið með hægri höndina lausa.  Ekki kvaðst vitnið gera sér vel grein fyrir hvernig sér hefði tekist að komast undan ákærða.  Fannst vitninu eins og sér hafi tekist að rífa í handfang sem hafi verið inni á kamrinum við að komast út.  Lítil orðaskipti hafi átt sér stað.  Í fyrstu hafi hún spurt hissa hvað hann væri að gera, en svo þegar hann hafi stungið hönd ofan í buxurnar hennar hafi hún sagt „ekki“.  Í fyrra skiptið hafi hún lítið viðnám þurft að veita enda hafi ákærði virst vera því óviðbúinn að hún myndi fara.  Þá hafi hún rosalega lítið þurft að berjast á móti honum.  En í seinna skiptið hafi hún barist mikið um og hafi verið svakaleg átök inni á klósettinu.  Hún hafi sparkað og barist um.  Hún hafi sennilega ekki náð að sparka í ákærða þar sem hún hafi snúið baki í hann.  Ákærði hafi hvorki slegið né sparkað, en fyrst og fremst haldið sér.  Brotaþoli gat ekki lýst því hvernig hún hafi komist út, en taldi að hún hlyti sjálf að hafa opnað dyrnar.  Hún hafi hysjað upp um sig innri buxur og nærbuxur á meðan hún komst út af klósettinu en verið að hysja upp um sig pollabuxurnar þegar hún hafi komið að gæslumönnunum.  Hún hafi hlaupið í áttina að og gegnum veitingatjöldin til að komast nær fólki og svo hafi hún séð gæslumennina og þá hafi hún hlaupið beint til þeirra.  Fyrst hafi hún ekki viljað blanda þeim í þetta en svo þegar hún hafi séð ákærða koma á eftir sér þá hafi hún áttað sig á því að það yrði hún samt að gera.  Hún hafi beðið einn gæslumannanna að passa sig fyrir ákærða.  Svo hafi ákærði komið og tveir gæslumenn hafi tekið á móti honum og milli þeirra hafi orðið orðaskipti og þeir hafi svo sagt honum að fara í burtu.  Ekki vissi brotaþoli hvort ákærði hafi verið að reyna að tala við sig þarna, en hún hafi gripið í höndina á einum gæslumannanna og haldið.  Ekki vissi brotaþoli hvort ákærði hafi haft uppi einhverja kynferðislega tilburði þegar hún var hjá gæslumönnunum.  Svo hafi ákærði farið og gæslumennirnir lofað að fylgjast með ákærða meðan hún myndi hlaupa í burtu.  Þá hafi hún hlaupið í hvítt tjald sem systir hennar hafi verið með í dalnum.  Þar hafi hún sest niður og hringt í kærasta sinn, tvisvar, þrisvar sinum.  Þá hafi kannski verið liðnar 15 mínútur frá því hún hafi komist undan ákærða í seinna skiptið.  Fyrst hafi hann ekki svarað en svo hafi hann verið svo þreyttur og hún grátandi og henni hafi fundist hún bara vera að trufla hann, þannig að hún hafi bara sagt honum að gleyma þessu og hafi svo skellt á hann.  Svo hafi hún hringt í vin sinn, D.  Þau hafi talað saman í einn til einn og hálfan klukkutíma með hléum.  Hún hafi bara setið þarna grátandi og í sjokki og vinur hennar hafi verið að reyna að tala við hana en hún hafi, einhverra hluta vegna, skellt á hann aftur og aftur.  Hann hafi hringt aftur og aftur og þannig hafi það gengið.  Hún hafi ekki þorað út, en D hafi hvatt hana til að fara úr tjaldinu því hún væri ekki örugg inni í tjaldinu.  Hún hafi lítið getað sagt honum hvað hafi gerst og verið í algjöru taugaáfalli.  Hann hafi náð að draga eitthvað upp úr sér, en hún hafi ekki sagt honum alla söguna.  Eftir að hún fór út úr hvíta tjaldinu hafi hún farið í „bekkjarbíl“ og farið með honum beint heim.  Í „bekkjarbílnum“ hafi hún hitt gamlan bekkjarbróður, en hún hafi nánast ekkert talað við hann.  Þegar hún hafi komið heim þá hafi hún hitt E mágkonu sína.  Hún hafi aðeins talað við hana, en ekki um þetta.  Hún hafi hugsað um að ræða við hana en ekki fengið sig til þess þar sem E hafi verið að fara í vinnu.  Fyrst hafi hún sagt frá þessu þegar hún talaði við móður sína um hádegið á sunnudeginum.  Þá hafi hún sagt móður sinni alla söguna.  Svo hafi hún sagt kærasta sínum frá þessu, fyrst bara að það hefði strákur ráðist á sig en svo seinna um daginn hafi hún sagt honum meira.  Eftir það hafi hún farið á heilsugæslustöðina á að giska milli kl. 17:30 og 18:30, en fyrst hafi hún farið og hitt son sinn sem hafi verið í pössun hjá foreldrum hennar.  Brotaþoli lýsti því að fyrstu vikuna á eftir hafi hún verið rosalega dofin og myndi varla eftir sér þá.  Síðan hafi hún leyft sér að opna á þetta og líðan hennar hafi verið upp og niður síðan.  Hún hafi grátið mikið fyrstu vikurnar. Eftir það hafi hún meira verið reið og pirruð, kvíðin og hrædd.  Aðspurð kvað brotaþoli ástæðu þess að í skýrslu um frásögn hennar á Neyðarmóttöku er ekki minnst á að ákærði hafi sett fingur í leggöng, vera þá að henni hafi fundist ekkert af þessu skipta máli þá, enda hafi hún haldið að lögregla myndi spyrja um það, en að það atriði væri ekki eitthvað sem skipti máli hjá Neyðarmóttökunni.  Hún hafi haldið að skoðun á Neyðarmóttöku væri aðallega til að kanna hvernig hún væri farin eftir þetta.  Vitnið kvað líðan sína í dag vera öðru vísi, voðalega viðkvæm en ekki samt eins og hafi verið.  Hún sé hjá sálfræðingi og telji sig þurfa þess áfram, en hún hafi haft mjög gott af sálfræðiviðtölunum.  Aðspurð kvaðst brotaþoli hafa drukkið áfengi um kvöldið, en hún hafi síðast drukkið um klukkan eitt um nóttina, en árásin hafi verið nokkrum tímum síðar.

Aðspurð sagði brotaþoli að eitthvað hafi verið af fólki þarna í kring a.m.k. í fyrra skiptið sem ákærði hafi ýtt sér inn á klósettið, en í seinna skiptið mundi hún ekki hvort þar hafi verið margt fólk.  Ekkert fólk hafi hins vegar skipt sér af þeim.  Hún hafi verið ein á ferð þegar hún hafi farið á klósettið.  Við skýrslugjöfina benti brotaþoli á mynd á þann kamar sem hún hafi farið inn á í fyrra skiptið, en ekki gat hún lýst hvaða kamar ákærði hefði farið með sig inn á í seinna skiptið.  Brotaþoli neitaði framburði ákærða um að hún hefði haft munnmök við ákærða á kamrinum.  Kom fram hjá brotaþola að í fyrra skiptið hafi þau verið á að giska 2-5 mínútur inni á kamrinum, en var ekki viss um seinna skiptið, en þó hafi það að líkindum staðið aðeins lengur en hið fyrra.  

Vitnið C kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi verið unnusti brotaþola þegar atvik málsins gerðust og hefðu þau þá verið saman í tæpa 3 mánuði.  Kvaðst vitnið hafa verið með brotaþola í Herjólfsdal laugardagskvöldið 30. júlí sl., en vitnið hafi farið heim milli kl. 02:00 og 03:00 vegna ölvunar.  Brotaþoli hafi hringt í sig um nóttina og minnti vitnið að brotaþoli hafi þá snökt í símann, en minni hans væri ekki gott þá nóttina vegna mikillar ölvunar.  Svo hafi vitnið vaknað við hlið brotaþola á sunnudagsmorgninum eða eftir hádegið, en tímasetning þess var vitninu óljós vegna ölvunar kvöldið áður.  Þau hafi aðeins talað saman þá og hún hafi verið grátandi.  Vitnið hafi snemma dags á sunnudeginum spurt brotaþola hvað væri að og hún hafi svarað því til að það hefði verið ráðist á sig.  Hann hafi ekki verið nógu skýr til að meðtaka það þá, en þegar liðið hafi á daginn þá hafi vitnið séð að brotaþoli hafi bara ekkert hætt að gráta.  Hafi hún verið snöktandi við hliðina á honum.  Hann hafi þá spurt hvort það hefði skeð eitthvað meira, en hún þá svarað því að sér hefði verið nauðgað.  Vitnið hafi þá beðið brotaþola að klæða sig og hafi farið með hana upp á sjúkrahús eða heilsugæslustöð.  Ekki hafi brotaþoli lýst fyrir sér hvernig nauðgunin hefði borið til eða verið, en vitnið minnti að brotaþoli hefði sagt að þetta hefði gerst hjá klósettunum.  Vitnið skýrði frá því að þau hefðu hætt fyrir nokkrum vikum að vera saman og hefðu þau engin samskipti haft eftir það.  Eftir atvikið hafi þau verið saman í 2-3 vikur en þá hafi samband þeirra verið búið.  Ekki kvaðst vitnið vita hvort sambandsslit þeirra mætti rekja til þessa atviks.  Brotaþoli hafi verið mjög lokuð eftir atvikið þann tíma sem samband þeirra hafi varað og hafi hún ekkert viljað ræða þetta neitt.  Vitnið hafi ekki mikið verið að spyrja út í þetta.  Hún hafi virst vera alveg miður sín og ólík sjálfri sér. 

Vitnið O, móðir brotaþola, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hefði heyrt í brotaþola í síma undir hádegi sunnudaginn 31. júlí sl.  Hafi vitnið hringt í brotaþola og hún ekki svarað, en brotaþoli hafi svo hringt í sig til baka.  Vitnið var að passa barn brotaþola.  Brotaþoli hafi verið voða skrítin í símann eins og ekki væri allt í lagi.  Hafi brotaþoli sagt að það hefði verið ráðist á sig.  Hafi lýsing á atburðinum smá komið.  Brotaþoli hafi sagt að hún hefði verið þvinguð inn á klósett og það hafi verið reynt að nauðga sér, en hún hafi náð að spyrna eitthvað á móti því.  Hafi brotaþoli verið dofin í símann og gengið erfiðlega að fá upp úr henni hvað hefði gerst.  Hafi brotaþoli hljómað eins og hún væri hrædd.  Ekki hafi brotaþoli lýst nánar í símann hvað hefði gerst, en eftir að þær hafi verið komnar heim daginn eftir hafi brotaþoli sagt sér nánar frá atvikinu.  Greinilegt hafi verið fyrst þegar brotaþoli hafi sagt sér frá þessu að eitthvað skelfilegt hafi gerst.  Hafi vitnið ekki áttað sig á því hversu alvarlega hafi verið brotið gegn dóttur hennar fyrr en fljótlega upp úr helginni.  Hafi brotaþoli ekki getað verið ein og hafi vitnið sofið hjá henni og haldið utan um hana.  Hafi brotaþoli ekki einu sinni þorað að fara ein á klósett.  Hafi vitnið aldrei séð brotaþola í þvílíku ástandi.  Líðan brotaþola sé ekki jafnslæm, en hún sé uppstökk og eigi í erfiðleikum með sálina sína.

Vitnið D, vinur brotaþola, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi verið á Akranesi umrædda nótt.  Hafi brotaþoli hringt í sig síðla nætur eða snemma morguns umrætt sinn.  Hafi hún verið grátandi í símanum.  Hafi hún sagst vera inni í hvítu tjaldi.  Hún hafi skellt á hann hvað eftir annað og hafi hann hringt jafnharðan til baka.  Þannig hafi gengið í um einn til einn og hálfan tíma þangað til hann hafi náð að koma brotaþola út úr hvíta tjaldinu og í „bekkjarbíl“.  Brotaþoli hafi verið hágrátandi í símann.  Hún hafi ekki sagt hvað hafi gerst en það hafi verið greinilegt að eitthvað mikið hafi komið fyrir.  Hann hafi líka reynt að hringja í fólk sem hann hafi vitað að væri í Eyjum til að fá einhvern til að hjálpa brotaþola, en sér hafi svo tekist að fá brotaþola til að koma sér í „bekkjarbíl“.  Við lok síðasta símtalsins um morguninn hafi brotaþoli verið komin heim til tengdaforeldra sinna.  Ekki hafi vitnið vitað neitt hvað hafi gerst fyrr en á sunnudeginum þegar brotaþoli hafi komið í bæinn.  Vitnið kvaðst hafa þekkt brotaþola í 4-5 ár og væru þau góðir vinir.  Vitnið kvað brotaþola hafa sagt sér hvað hafi gerst.  Brotaþola hafi liðið mjög illa síðan.  Hafi vitnið verið að reyna að draga brotaþola út til að reyna að fá hana til að hugsa um eitthvað annað.  Hafi hann aldrei vitað til þess að brotaþola liði svona illa eins og eftir þennan atburð. 

Vitnið F kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hefði verið við gæslustörf í Herjólfsdal umrædda nótt.  Hafi þeir verið 3 saman fyrir utan svokallað „teknótjald“ og hafi þá brotaþoli komið til þeirra og reynt að fela sig á bak við þá.  Stuttu seinna hafi ákærði komið og vitnið hafi skynjað að brotaþoli væri hrædd við ákærða en hún hafi aldrei sagt hvað væri að.  Þegar ákærði hafi nálgast þá hafi brotaþoli fært sig betur aftur fyrir þá gæslumennina.  Einn þeirra hafi talað við hana og sagt að þeir myndu reka ákærða burtu og hún gæti þá hlaupið burt á meðan.  Þeir hafi fylgst með þegar hún hafi hlaupið burt og gætt þess að ákærði færi ekki á eftir henni.  Ákærði hafi haldið í pollabuxur sínar líkt og hann héldi utan um typpið á sér og hafi sagt í áttina að brotaþola „viltu lim?“.  Eftir að lögregla hafi rætt við þá daginn eftir hafi þeir ákveðið  hafa augun hjá sér og svipast um eftir ákærða og hafi þeir fundið hann kvöldið eftir en hann hafi þá verið í öðrum fötum.  Fyrra kvöldið hafi ákærði verið í lopapeysu og pollabuxum, en kvöldið eftir í blárri peysu og gallabuxum minnti vitnið.  Ekki heyrði vitnið ákærða segja neitt annað en orðin „viltu lim“ og ekkert hafi brotaþoli talað við þá.  Vitnið endurþekkti ákærða í dómsalnum við skýrslugjöf sína.

Vitnið G gaf skýrslu við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hefði verið við gæslustörf í Herjólfsdal umrædda nótt.  Hafi hann verið við matartjaldið og þá hafi brotaþoli komið til þeirra og ekki sagt neitt en staðið fyrir aftan þá.  Ekki hafi verið margt fólk þar sem þeir hafi staðið.  Hafi vitnið þá tekið eftir því að ákærði hafi þá verið utan í henni eða verið að elta hana.  Hafi vitnið spurt brotaþola hvort hún væri með þessum strák og hafi hún neitað því en hún hafi þó ekkert talað meira við þá og ekkert sagt hvað væri að.  Vitnið hafi þó fundið á henni að hún væri hrædd við ákærða.  Síðan hafi ákærði labbað í burtu og hafi þá vitnið sagt brotaþola að hún gæti farið í burtu og ákærði myndi ekki sjá hvert hún færi.  Hafi vitnið boðist til að fylgja henni og hafi hún neitað því og hlaupið í burtu og hafi vitnið séð á eftir henni út úr dalnum.  Ákærði hafi verið að reyna að tala við brotaþola og komast á milli gæslumannanna sem hafi verið þrír, en brotaþoli hafi verið fyrir aftan þá.  Ekki hafi vitnið heyrt hvað ákærði hafi sagt, en hann hafi verið með einhverja svona takta og sveiflað einhverju fyrir framan sig, peysuermi eða einhverju eins og hann væri að halda um typpið á sér.  Vitnið þekkti klæðnað brotaþola á mynd í dómsalnum.  Vitnið benti á mynd við skýrslugjöf sína og skýrði hvar þeir gæslumennirnir hefðu verið.  Vitnið endurþekkti ákærða í dómsalnum.      

Vitnið H kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hefði verið við gæslustörf í Herjólfsdal umrædda nótt.  Hann hafi staðið ásamt tveimur öðrum gæslumönnum á milli „Tuborgtjaldsins“ og matartjaldsins og þá hafi brotaþoli komið og rifið í höndina á honum og hann hafi litið á hana og spurt hvort  eitthvað væri að og hún hafi ekki svarað og þá hafi komið maður með axlaböndin niðrum sig og hafi haldið smekknum á pollabuxunum fyrir framan sig með hægri hendinni og hafi hann sagt eitthvað sem vitnið hafi ekki heyrt.  Brotaþoli hafi ekki svarað manninum.  Svo hafi maðurinn sagt að ef hún vildi að hann færi þá skyldi hún bara segja það.  Vitnið hafi þá sagt við manninn að það væri nokkuð augljóst að hún vildi að hann færi.  Þá hafi maðurinn horft á sig skamma stund og svo gengið á brott.  Nokkuð hafi verið af fólki þarna.  Maðurinn hafi verið klæddur í gular pollabuxur og brúna ullarpeysu.  Brotaþoli hafi virst vera mjög hrædd og hafi verið stjörf og fært sig nær vitninu þegar maðurinn hafi nálgast hana.  Þá hafi vitnið áttað sig á því að maðurinn væri eitthvað að angra brotaþola.  Maðurinn væri ákærði og endurþekkti vitnið ákærða í dómsalnum.  Lögregla hafi svo verið að spyrjast fyrir um þetta atvik daginn eftir eða á sunnudagskvöldinu og hafi vitnið þá skýrt lögreglu frá atvikinu.  Hafi lögregla beðið um að vera látin vita ef gæslumennirnir rækjust á manninn aftur. 

Vitnið Q lögreglumaður gaf símaskýrslu  við aðalmeðferð og skýrði svo frá að hann hefði, ásamt öðrum lögreglumanni, hitt brotaþola á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum undir kvöld sunnudaginn 31. júlí sl.  Brotaþoli hafi verið þar með unnusta sínum og hjúkrunarfræðingi.  Vitnið hafi fengið frásögn brotaþola um að nóttina áður hafi hún verið í Herjólfsdal, orðið viðskila við félaga sína og farið á útikamar.  Í þann mund sem hún hafi verið að koma út af kamrinum hafi ráðist á hana maður og ýtt henni inn til að afklæða hana eða beita hana kynferðislegu ofbeldi.  Hún hafi sloppið út en hann hafi náð henni aftur og dregið hana inn á kamarinn aftur.  Vitnið hafi þá spurt hversu langt maðurinn hafi gengið og hvað hann hafi gert og þá hafi komið fram hjá henni skýrt að hann hafi „farið alla leið“ eins og hún hafi orðað það.  Kynfæri hans hafi farið í kynfæri hennar.  Ekki hafi verið um að ræða formlega skýrslutöku þannig að vitnið hafi látið þetta nægja að sinni.  Vitninu hafi fundist brotaþoli trúverðug.  Eftir að maðurinn hafi náð brotaþola inn á kamarinn aftur og beitt hana kynferðisofbeldi þá hafi hún sloppið frá honum án þess að vitnið hafi fengið nákvæma frásögn um það.  Hún hafi svo hlaupið að gæslumönnum sem hafi verið við veitingatjald og skýlt sér á bak við þá, en ekki sagt þeim hvers kyns væri.  Hún hafi aðeins sagst vera á flótta undan manni.  Maðurinn hafi svo komið skömmu síðar að gæslumönnunum og hafi þá átt sér stað einhver orðaskipti milli hans og gæslumannanna. Síðan hafi maðurinn farið og hún hafi þá eftir það komist burt úr Herjólfsdal.  Hafi brotaþoli lýst manninum þannig að hann hafi verið í gúmmípollabuxum, appelsínugulum eða gulum, og brúnni lopapeysu og verið snoðklipptur.  Vitnið hafi þá fengið annan lögreglumann til að hafa upp á gæslumönnunum sem höfðu orðaskiptin við manninn sem elti stúlkuna.  Vitnið hafi líka gert ráðstafanir til að brotaþoli kæmist upp á land og á Neyðarmóttöku.  Að morgni þegar vitnið hafi komið aftur til vinnu hafi verið kominn maður í fangageymslu sem gæslumenn hafi vísað á sem þann mann sem hafi verið að elta stúlkuna og hann hafi verið handtekinn grunaður um að vera sá maður.  Vitnið hafi fengið það hlutverk að fara með manninn upp á land og rúmri klukkustund áður en þeir skyldu fara frá Eyjum hafi vitnið talað við manninn í fangaklefanum til að spyrja hvort hann væri ekki með fatnað eða farangur eða tjald eða annað sem þyrfti að huga að.  Þá hafi maðurinn sagt með þjósti að hann væri ekki með neinn farangur eða neitt slíkt.  Þeir lögreglumennirnir hafi þá kannað á „facebook“ hverjir gætu verið vinir hans í Eyjum og það hafi leitt til þess að farangur mannsins hefði fundist hjá fólki í Vestmannaeyjum og hafi vitnið frétt þetta þegar hann hafi verið kominn um borð í Herjólf.  Hafi vitnið þá tekið við þessum fatnaði í svörtum ruslapoka án þess að skýra ákærða sérstaklega frá því að hann væri með fatnaðinn.  Þeir hafi svo haldið áfram til Selfoss.  Þar hafi aðrir lögreglumenn tekið við ákærða. 

Vitnið R læknir á Neyðarmóttöku  kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hefði gert réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola um verslunarmannahelgina.  Hafi brotaþoli verið í miklu áfalli, setið í hnipri og átt erfitt með að tjá sig um atburðinn, en konan hafi verið þessleg að hún væri ekki líkleg til að gera mikið úr hlutunum að ófyrirsynju.  Væri eftirminnilegt hversu miklu áfalli brotaþoli hafi verið í, en vitnið hefur starfað á Neyðarmóttöku frá árinu 1999 og enn lengur við fólk sem hefur orðið fyrir áföllum.  Frásögn brotaþola hafi verið skýr en hún hafi átt erfitt með að skýra frá.  Hafi tekið tíma að fá fram söguna og hafi brotaþola greinilega verið það erfitt að rifja þetta upp.  Lýsti vitnið því að áverkar hafi samræmst frásögn brotaþola.  Henni hafi verið skellt upp að vegg og hún hafi verið með áverka á öxlum og baki og aftan á báðum upphandleggjum og á síðu og sköflungi.  Við kvenskoðun hafi komið í ljós að brotaþoli hafi verið á blæðingum, en annað hafi ekki sést markvert.  Hafi komið fram að blæðingar hafi hafist á sunnudeginum.  Ekki mundi vitnið til þess að brotaþoli hafi getið þess að gerningsmaðurinn hafi sett fingur í kynfæri.  Ekki hafi verið leitað að sæði, enda ekki talið að sáðlát hafi orðið.  Myndir hafi verið teknar af áverkum.  Vitnið lýsti áverkum á brotaþola, ofan og aftan til á öxlum beggja vegna hafi verið mar og eymsli við þreifingu, á upphandleggjum hafi verið stórt roðasvæði sem geti hafa komið til þannig að eitthvað hafi þrýst og nuddast við handleggina, á síðu vinstra megin hafi verið þreifieymsli líklega vegna mars, og á sköflungi vinstra megin hafi verið komið fram bláleitt svæði, húðblæðing eða mar.  Á mjóbaki hafi verið eymsli við þreifingu.  Roði hafi fyrst og fremst verið á upphandleggjum, á sköflungi hafi verið mar, en annað hafi verið eymsli við þreifingu.  Allt hafi þetta samrýmst frásögn brotaþola og geti samrýmst því að henni hafi verið haldið upp að einhverju, eða haldið í hana, en brotaþoli hafi ekki lýst þessu nákvæmlega.  Engir áverkar hafi verið á framanverðum líkama brotaþola að frátöldu mari á sköflungi, sem samrýmist því að annað hvort hafi verið sparkað í brotaþola eða fóturinn hafi rekist í eitthvað.

Vitnið P sálfræðingur á Landspítalanum kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og staðfesti sálfræðivottorð sitt sem fyrir liggur í rannsóknargögnum.  Kom fram að vitnið hefði hitt brotaþola þrisvar sinnum.  Hafi vitnið lagt fyrir brotaþola svokallaða sjálfsmatskvarða.  Hafi brotaþoli lýst mikilli vanlíðan og verið döpur og leið og fundist hún vera ólík sjálfri sér.  Hafi brotaþoli lýst því að líðan sín og skap sveiflaðist mikið, hún hafi átt mjög erfitt með að sinna þriggja ára gömlu barni sínu.  Hafi brotaþoli upplifað mikið öryggisleysi og alls ekki þorað að vera ein.   Brotaþoli kvaðst sofa illa og vakna mikið á nóttunni, verið utan við sig og dofin og fengi grátköst af litlu tilefni.  Hafi brotaþoli haft áfallaeinkenni s.s. afbrigðilega matarlyst og haft svokallað „endurlit“ eða „flashback“ og hafi þá séð fyrir sér andlit mannsins og endurupplifað slagsmálin síendurtekið.  Hugsun hennar hafi virst skýr og rökræn og hafi hún verið einlæg í frásögn og hreinskilin með sína upplifun.  Verið algjörlega ýkjulaus.  Í þriðja viðtalinu 19. ágúst sl. hafi brotaþoli ekki enn verið farin að geta mætt til vinnu og hafi alls ekki treyst sér til þess.  Á sjálfsmatskvörðum hafi heildareinkunn gefið vísbendingu um mjög alvarlega áfallastreituröskun, og hafi brotaþoli sýnt margvísleg einkenni um það og falli meirihluti þeirra einkenna undir það sem kallað sé „ofurárvekni“, það er að vera viðbrigðin og eiga von á einhverri óvæntri ógn.  Hafi vitnið lagt fyrir brotaþola þunglyndis- og kvíðakvarða.  Hafi  þunglyndiskvarðinn gefið vísbendingar um fremur alvarleg þunglyndiseinkenni, og kvíðakvarðinn sýni miðlungs alvarleg einkenni um kvíða.  Niðurstöður sjálfsmatskvarða sýni þannig vísbendingar um mjög alvarlega áfallastreituröskun samkvæmt skilgreiningum greiningarviðmiða, miðlungseinkenni kvíða og fremur alvarleg einkenni þunglyndis.  Of snemmt sé hins vegar að slá fastri greiningu um áfallastreituröskun, sem ekki verði gert fyrr en lengra sé liðið frá atvikinu, en brotaþoli sýni þó öll merki slíkrar röskunar.  Einkenni sem brotaþoli gangist við séu í samræmi við mat vitnisins á ástandi brotaþola eftir viðtölin.  Niðurstaða vitnisins sé ekki aðeins byggð á sjálfsmatskvörðum heldur og einnig klínískri vinnu.  Ekki verði betur séð en að þau einkenni sem lýst er séu bein afleiðing af ætlaðri nauðgunarárás.  Brotaþoli hafi áður lent í andlegum vandræðum vegna fæðingarþunglyndis og eftir kynferðisbrot sem hún hafi orðið fyrir fyrir fjórum árum, en hún hafi verið búin að vinna úr því og hafi verið í góðu andlegu ástandi áður en framanlýstur atburður hafi gerst nú um síðastliðna verslunarmannahelgi.  Sú staðreynd að brotaþoli hafi ekki lýst atvikinu fyrir gæslumönnum, ekki fyrir vini sínum í síma skömmu síðar, og ekki í raun fyrr en liðið er fram á dag sé eðlileg að teknu tilliti til þess að brotaþoli sé fremur lokuð „týpa“ sem ekki tíundi hlutina í neinum ýkjum og hafi tilhneigingu til að forðast að lýsa í smáatriðum því slæma sem hafi gerst.  Þetta sé algengt hjá fórnarlömbum kynferðisbrota og þá sé brotaþoli lokuð.  Ekki sé óeðlilegt að frjósa í slíkum aðstæðum og berjast ekki um og kalla ekki á hjálp.  Það séu í raun venjulegri viðbrögð en að berjast um.

Vitnið S, hjúkrunarfræðingur á Neyðarmóttöku, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hafi verið viðstödd framanlýsta réttarlæknisfræðilega skoðun R læknis á brotaþola.  Lýsti vitnið ástandi brotaþola svo að við komu hefði henni liðið alveg rosalega illa og hafi hún varla getað talað við vitnið og átt mjög erfitt með að segja frá.  Hafi brotaþoli ekki getað horft framan í vitnið þegar hún sagði frá atburðinum og setið hokin.  Hafi vitnið þurft að spyrja brotaþola um atvikið þar sem hún hafi átt svo erfitt með að segja frá.  Fullt samhengi hafi verið í frásögn brotaþola, en tekið hafi mjög langan tíma að fá fram frásögnina.  Brotaþoli hafi virst vera trúverðug.  Hafi brotaþoli lýst því hvar hún fyndi til í líkamanum meðan hún var enn í fötum og hafi áverkar við skoðun  samrýmst því alveg.   Ekki hafi vitnið hitt brotaþola eftir þetta.

Vitnið E gaf símaskýrslu við aðalmeðferð.  Skýrði vitnið svo frá að brotaþoli hafi verið kærasta bróður vitnisins og gist á heimilinu um verslunarmannahelgina síðastliðna.  Hafi vitnið vaknað á sunnudagsmorgni til að fara í vinnu og þá hafi brotaþoli legið í sófa og verið að tala í síma og hafi hún verið grátandi.  Svo hafi brotaþoli komið fram og verið eins og hún þyrfti að segja vitninu eitthvað en hún hafi þó ekki sagt sér neitt.  Hafi vitnið spurt hvort eitthvað hafi komið fyrir og hafi þá brotaþoli svarað „já heldur betur“, en hún hafi ekki útskýrt það frekar og hafi vitnið haldið að brotaþoli og bróðir vitnisins hafi verið að rífast eða eitthvað komið upp á.  Hafi vitninu svo verið sagt frá þessu seinna um daginn þegar brotaþoli hafi komið á sjúkrahúsið.  Brotaþoli hafi virst í uppnámi og verið grátandi.  Kvaðst vitnið hafa séð að brotaþoli hefði verið að drekka.  Hafi vitnið ekki grunað hvers kyns væri.

Vitnið L gaf símaskýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð. Skýrði vitnið svo frá það hafi verið á Þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgina síðustu.  Kannaðist það við að hafa hitt ákærða á laugardagskvöldinu.  Þá hafi vitnið staðið í Brekkunni, beint fyrir framan stóra sviðið  og verið að hlusta á einhverja hljómsveit sem hafi verið að spila.  Þeir hafi staðið nokkrir vinirnir saman og vitnið hafi séð ákærða og þeir vinirnir hafi heilsað honum.  Ekki mundi vitnið hvað klukkan myndi hafa verið þá og geti vel hafa verið liðið fram á nótt og geti vel hafa verið komið fram undir morgun, en samkvæmt dagskrá hafi átt að vera tónleikar alveg fram undir klukkan 06:00 um morguninn.  Vitnið kvaðst hafa verið ölvað.  Ekki hafi vitnið hitt ákærða í annað sinn það kvöldið eða nóttina.  Vitnið hafi staðið í Brekkunni og verið að hlusta á tónlist og sér hafi sýnst ákærði vera að gera eitthvað svipað.  Þeir hafi spjallað eitthvað.  Vitnið kannaðist við frásögn ákærða af því að þeir hafi hlegið, en ekki að þeir hafi verið að slást eða kljást.  Ekki mundi vitnið eftir að hafa þá haft einhverja vitneskju um að lögregla leitaði ákærða.  Vitnið hafi líka hitt ákærða á svipuðum stað á sunnudagskvöldinu.              

Niðurstaða.

Ákærði hefur borið um það að hafa hitt brotaþola í fyrsta sinn í Herjólfsdal umrædda aðfaranótt sunnudagsins 31. júlí sl.  Hefur hann lýst því að þau hafi talað saman, en ekki gat hann gert neina grein fyrir hvað þau hefðu talað.  Innan skamms, á að giska 20-30 mínútna, hafi þau verið komin saman inn á kamar þar í dalnum.  Ekki gat þó ákærði gert neina grein fyrir því hvaða leið þau hefðu gengið á kamarinn, hvort þau hefðu farið rakleiðis þangað eftir fyrsta fund eða gengið aðrar leiðir.  Ekki gat ákærði heldur lýst því hvernig það hafi borið til eða t.a.m. hvort þeirra hefði átt að því frumkvæði að þau færu saman inn á kamarinn.  Hefur ákærði svo lýst því að eftir að þau hafi verið komin inn á kamarinn hafi þau byrjað að kyssast og brotaþoli hafi tekið axlaböndin á buxum hans út af öxlunum sitt hvorum megin.  Þau hafi ekkert talað saman inni á kamrinum.  Í framhaldinu hafi þau byrjað að snerta hvort annað innanklæða.  Ekki gat ákærði hins vegar upplýst hvort þeirra hefði átt upptökin að kynferðislegum samskiptum þeirra á milli.  Kvaðst ákærði hafa nuddað kynfæri brotaþola utan nærbuxna hennar, en hún hafi verið byrjuð að fróa honum.  Hafi svo brotaþoli snúið sér við og farið með höndina ofan í sínar eigin buxur, en aftur snúið sér við og farið aftur að fróa honum.  Hún hafi svo sest á kamarinn og byrjað að hafa við hann munnmök, en þau hafi staðið stutt, kannski svo sem hálfa mínútu.  Skyndilega hafi dyrnar á kamrinum opnast og þar hafi verið einhver, en ekki hefur ákærði getað lýst því vel hver það hafi verið og hafa lýsingar hans á því verið reikular, en hann hefur ýmist lýst því sem þar hafi verið tveir minni krakkar eða 14-15 ára stelpa og einhver með henni.  Hafi ákærði þá snúið sér við og hysjað upp um sig buxurnar.  Skyndilega hafi brotaþoli stokkið út af kamrinum og kvaðst ákærði enga skýringu hafa á því hvers vegna brotaþoli hefði svo skyndilega stokkið út enda hafi hún á engan veg gefið til kynna að samskipti þeirra væru gegn hennar vilja.  Hafi hann orðið mjög hissa á þessum viðbrögðum hennar.  Ákærði lýsti því að hann hefði farið á eftir brotaþola og hitt hana aftur við svokallað matartjald, en þar hafi jafnframt verið gæslumenn.  Ekki mundi ákærði eftir neinum samskiptum sem hann hefði átt við gæslumennina.  Hafi hann reynt að tala við brotaþola en hún hafi ekki viljað tala neitt við hann en hún hafi þá verið orðin hrædd eða smeyk við hann.  Ákærði kvaðst hins vegar enga hugmynd hafa um það af hverju sú hræðsla stafaði enda hafi hann ekki verið búinn að ýta henni neitt eins og hann komst að orði.  Lýsti ákærði því að eftir þetta hafi hann farið mjög fljótlega burt úr Herjólfsdal og á þeirri leið sinni hafi hann hitt L vin sinn og hafi þeir talað og hlegið saman og lent í jörðinni við að slást eða kljást. 

Brotaþoli lýsti fundum sínum og ákærða á annan veg en ákærði.  Kom fram hjá henni að hún hafi verið orðin ein og verið áliðið nætur.  Hún hafi farið á klósett og er hún hafi verið á leið aftur út af klósettinu hafi ákærði skyndilega komið og ýtt sér aftur inn á klósettið og lokað dyrum.  Aldrei hafi hún áður séð hann eða talað við hann.  Hún hafi fyrst ekki áttað sig á hvað væri að gerast, ekki fyrr en ákærði hafi byrjað að koma við hana þegar hún hafi verið á hækjum sér uppi á kamrinum.   Lýsti hún því að ákærði hefði farið með hönd sína inn fyrir pollabuxurnar hennar og dregið niður innri buxur og nærbuxur og náð að stinga fingri í leggöng hennar.  Lítil orðaskipti hafi átt sér stað, en fyrst hafi hún spurt hissa hvað hann væri að gera og svo þegar hann hafi stungið hönd ofan í buxurnar hennar hafi hún sagt „ekki“.  Eftir skamma stund hafi sér tekist að opna dyrnar að klósettinu og komast út.  Hún hafi lítið viðnám þurft að veita þar sem ákærði hafi ekki virst vera viðbúinn því að hún færi út af klósettinu.  Kvaðst brotaþoli hafa hlaupið burtu en ákærði hafi komið á eftir sér og náð sér 5-6 metrum frá þar sem hún hafi verið komin upp á hól sem þar hafi verið.  Ákærði hafi þá rifið í handlegginn á henni, verið „rosalega“ reiður og sagt eitthvað á þá leið að þetta hefði hún ekki átt að gera.  Hann hafi svo dregið hana af stað og ýtt henni aftur inn á klósett, en ekki var brotaþoli viss um hvort það hefði verið sama klósettið.  Brotaþoli var ekki viss um hvort ákærði hefði læst klósettdyrunum á eftir þeim, en seinna skiptið inni á klósettinu myndi hún verr en það fyrra því þá hefði hún verið orðin svo hrædd.  Kvað brotaþoli ákærða hafa staðið fyrir aftan sig og hafi hún snúið í hann baki.  Hann hafi haldið fast í upphandleggina á henni, tekist að leysa niður um hana buxur u.þ.b. niður að hnjám og tekist að stinga lim sínum inn í leggöng hennar í skamma stund.  Hafi ákærði haldið í vinstri upphandlegg hennar allan tímann, en á einhverjum tíma hafi hún haft aðra höndina lausa.  Mikil átök hafi verið inni á klósettinu og hafi hún barist um eins og hún hafi getað, en hún hafi líka reynt að sparka.  Hún hafi staðið hálfupprétt.  Svo hafi sér tekist einhvern veginn að losna og komast út en brotaþoli gat ekki lýst því að marki hvernig sér hefði tekist að losna og komast út, en taldi að hún hefði sjálf opnað dyrnar.  Á leið sinni út af klósettinu hafi hún hysjað upp um sig innri buxur og nærbuxur, en pollabuxurnar hafi hún hysjað upp um sig þegar hún hafi verið á hlaupum.  Hún hafi hlaupið til gæslumanna sem hafi verið þar skammt frá.  Hún hafi fyrst ekki viljað blanda þeim í þetta en þegar hún hafi séð að ákærði hafi komið á eftir henni hafi hún áttað sig á því að það yrði ekki umflúið.  Hafi hún haldið í handlegg eins af gæslumönnunum og beðið hann að passa sig fyrir ákærða, sem hafi svo komið og tveir af gæslumönnunum hafi tekið á móti honum og vísað honum burt.  Hafi ákærði svo farið en hún farið burt eftir það. Hafi hún hlaupið í hvítt tjald sem systir hennar hafi verið með í Herjólfsdal.  Þar hafi hún reynt að hringja í C kærasta sinn, en hann hafi ekki verið í ástandi til að tala við hana og hún hafi sagt honum að gleyma þessu.  Eftir það hafi hún hringt í vin sinn, D, og verið í sambandi við hann lengi, en það hafi þó verið mörg símtöl því hún hafi einhverra hluta vegna skellt á hann aftur og aftur.  Hún hafi ekki mikið getað talað og sagt frá en verið grátandi og í sjokki.  Hann hafi svo fengið hana til að fara út úr hvíta tjaldinu og fara með „bekkjarbíl“ niður í Vestmannaeyjabæ og hafi hún farið rakleiðis beint heim til E, systur unnusta síns, þar sem þau hafi gist þessa helgi.  Þar hafi hún hitt E sem hafi verið að tygja sig til vinnu.  Hafi E séð að eitthvað væri að og spurt um það, en hún hafi ekki fengið sig til að segja henni allt af létta.  Hún hafi svo fyrst sagt móður sinni frá þessu í síma um hádegisbil á sunnudeginum.  Svo hafi hún sagt C unnusta sínum þetta, fyrst bara að það hefði verið ráðist á sig og svo seinna um daginn að sér hefði verið nauðgað en hann hafi við svo búið farið með sig á sjúkrahúsið í Eyjum.  Brotaþoli lýsti því hvernig líðan hennar hefði verið eftir þetta og kvaðst hún hafa verið rosalega dofin fyrstu vikuna á eftir og myndi vart eftir sér þá.  Hún hafi grátið mikið fyrstu vikurnar en eftir það hafi hún verið meira reið og pirruð.  Hún hafi verið í viðtölum hjá sálfræðingi og hafi það gert sér mjög gott.

Vitnið C, sem var unnusti brotaþola á umræddum tíma, bar um það að brotaþoli hafi hringt í hann snöktandi umrædda nótt en hann hafi ekki þá verið í ástandi til að tala við hana vegna ölvunar.  Á sunnudagsmorgninum eða um hádegisbil hafi hann vaknað heima hjá systur sinni og þá hafi brotaþoli verið við hlið honum og hafi hún verið snöktandi eða grátandi.  Hafi hann spurt hana hvað væri að og hún hafi sagt að það hafi verið ráðist á sig.  Þegar liðið hafi á daginn hafi brotaþoli haldið áfram að vera snöktandi og ekki hætt að gráta og hafi hann aftur spurt hana og hún þá sagt honum að sér hefði verið nauðgað.  Hann hafi þá farið með hana á sjúkrahúsið í Eyjum.  Ekki hafi hún lýst þessu neitt fyrir sér en þó minnti vitnið að brotaþoli hafi talað um að þetta hafi gerst hjá klósettunum.  Eftir þetta hafi samband þeirra aðeins varað í 2-3 vikur, en þann tíma hafi brotaþoli virst vera alveg miður sín og mjög ólík sjálfri sér.

Vitnið O, móðir brotaþola, kvaðst hafa heyrt í brotaþola í síma undir hádegið umræddan sunnudag.  Hafi brotaþoli verið voða skrítin í símann eins og ekki væri allt í lagi.  Hafi brotaþoli sagt að það hafi verið ráðist á sig og hafi smám saman komið frá henni frásögn um að það hafi verið ráðist á sig og hún þvinguð inn á klósett og þar hafi verið reynt að nauðga sér, en hún hafi náð að spyrna eitthvað á móti þessu.  Brotaþoli hafi verið dofin í símann og átt erfitt með að segja frá þessu, eins og hún væri hrædd.  Eftir helgina hafi brotaþoli verið mjög miður sín og ekki þorað að vera ein.  Það hafi ekki verið fyrr en eftir helgina sem vitnið hafi áttað sig á því hversu alvarlega hefði verið brotið gegn dóttur sinni.  Brotaþoli hafi ekki getað verið ein og hafi vitnið verið hjá henni öllum stundum, en brotaþoli hafi ekki einu sinni getað farið ein á klósett.  Aldrei hafi vitnið séð brotaþola í þvílíku ástandi, en hún eigi ennþá erfitt og sé uppstökk og eigi í erfiðleikum með sálina sína.

Vitnið D, vinur brotaþola, skýrði frá því að brotaþoli hafi hringt í sig seint umrædda nótt, eða undir morgun, og verið grátandi í símann og mjög miður sín.  Hafi verið greinilegt að eitthvað mikið hafi komið fyrir, en hún hafi ekki sagt sér hvað væri að.  Hafi hún sagst vera inni í hvítu tjaldi og hafi símtölin verið mörg því hún hafi margsinnis skellt á hann og hann þá hringt jafnharðan til baka.  Hann hafi fengið hana til að fara út úr hvíta tjaldinu og fara með „bekkjarbíl“ niður í bæ þar sem hún hafi haft gistingu og hafi síðasta símtalinu ekki lokið fyrr en við komu hennar þangað.  Vitnið skýrði frá því að brotaþoli hafi svo ekki sagt sér frá hvað hafi komið fyrir hana fyrr en á sunnudeginum þegar brotaþoli hafi komið frá Vestmannaeyjum.  Kom fram hjá vitninu að hann hefði þekkt brotaþola í 4-5 ár og væru þau mjög góðir vinir.  Kvaðst vitnið aldrei hafa vitað til þess að brotaþola hafi liðið jafn illa og henni hafi liðið eftir þennan atburð.  Hafi hann verið að reyna að fá hana til að hugsa um eitthvað annað með því að fá hana til að koma með sér eitthvað út.

Vitnið F bar um það að hafa verið ásamt fleiri gæslumönnum í Herjólfsdal umrædda nótt og þá hafi brotaþoli komið til þeirra og reynt að fela sig bak við þá.  Ákærði hafi svo komið þar að og hafi þá brotaþoli fært sig betur aftur fyrir gæslumennina og hafi vitnið skynjað að brotaþoli væri hrædd við ákærða, en ekkert hafi hún sagt hvað væri að.  Ákærði hafi haldið í pollabuxurnar sínar, líkt og hann héldi um liminn á sér, og sagt í áttina að brotaþola „viltu lim?“.  Þeir hafi svo rekið ákærða burt og brotaþoli hafi svo farið burt eftir að ákærði hafi verið úr augsýn.  Vitnið hafi svo fundið ákærða aftur kvöldið áður og þá endurþekkti vitnið ákærða í dómsalnum.

Vitnið G sem einnig var við gæslustörf á Þjóðhátíð umrædda nótt skýrði frá því að hann hefði verið í Herjólfsdal ásamt fleiri gæslumönnum og hafi brotaþoli komið til þeirra og staðið fyrir aftan þá en ekkert sagt.  Ákærði hafi verið utan í henni og hafi hún sagt aðspurð að hún væri ekki með honum.  Vitnið hafi fundið á henni að hún væri hrædd við ákærða en ekkert hafi hún þó sagt hvað væri að.  Ákærði hafi verið að reyna að komast á milli þeirra gæslumannanna og tala við brotaþola en hún hafi verið fyrir aftan þá.  Ekki hafi vitnið heyrt hvað ákærði hafi sagt, en hann hafi verið með einhverja takta og haldið í eða sveiflað einhverju fyrir framan sig líkt og hann héldi um liminn á sér.  Ákærði hafi svo farið eftir þetta og hafi brotaþoli farið eftir það.  Hún hafi ekki þegið það að hann myndi fylgja henni.  Vitnið endurþekkti myndir af klæðnaði brotaþola í dómsalnum sem og ákærða sjálfan.

Vitnið H sem einnig var við gæslustörf í Herjólfsdal umrædda nótt skýrði frá því að hann hafi verið ásamt öðrum gæslumönnum og þá hafi brotaþoli komið til hans og rifið í höndina á honum en ekkert sagt.  Þá hafi ákærði komið og með axlaböndin á pollabuxunum sínum hangandi niður.  Hafi hann haldið smekknum á pollabuxunum fyrir framan með annarri hendi.  Hafi ákærði sagt eitthvað sem vitnið hafi ekki heyrt en brotaþoli hafi verið alveg stjörf og greinilega verið hrædd við ákærða.  Hafi vitnið áttað sig á því að ákærði væri eitthvað að angra brotaþola.  Hafi brotaþoli fært sig nær vitninu þegar ákærði hafi nálgast.  Ákærði hafi sagt að ef brotaþoli vildi að hann færi þá skyldi hún bara segja það og hann myndi þá fara.  Hafi vitnið sagt að það væri nokkuð ljóst að hún vildi það.  Í kjölfarið hafi ákærði haft sig á brott.  Vitnið endurþekkti ákærða í dómsalnum.

Vitnið Q lögreglumaður bar um það að hann hafi komið á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum undir kvöld sunnudaginn 31. júlí sl. ásamt öðrum lögreglumanni og hitt brotaþola þar.  Hafi hún sagt að hún hafi nóttina áður verið í Herjólfsdal og verið að fara út af útikamri þegar ákærði hafi ráðist á sig og ýtt sér inn á kamarinn aftur til að afklæða hana eða beita hana kynferðislegu ofbeldi.  Hún hafi sloppið út en hann hafi náð henni aftur og ýtt henni aftur inn á kamarinn.  Hafi brotaþoli aðspurð lýst því fyrir sér að ákærði hafi farið alla leið og hafi kynfæri hans farið inn í kynfæri hennar.  Vitnið kvaðst ekki hafa tekið formlega skýrslu en látið þessar upplýsingar nægja, en tók fram að honum hafi fundist brotaþoli trúverðug í frásögn sinni.  Hafi brotaþoli lýst því fyrir sér að hún hafi svo sloppið og leitað skjóls hjá gæslumönnum í Herjólfsdal.  Hafi ákærði komið þangað skömmu síðar og einhver orðaskipti hafi orðið milli hans og gæslumannanna en síðan hafi ákærði farið og hún þá komist burt.  Vitnið lýsti því að eftir að ákærði hafði verið handtekinn og skömmu áður en hann yrði fluttur upp á land til frekari rannsóknar á málinu hafi vitnið spurt ákærða hvort hann væri ekki með fatnað eða farangur sem þyrfti að flytja líka upp á land.  Hafi ákærði neitað því og sagst ekki vera með neitt nema fötin sem hann væri í, en eftir öðrum leiðum hafi lögreglumennirnir komist að því að það væri rangt og hafi þeir nálgast farangur hans á þeim stað sem ákærði hafi dvalið á í Eyjum.  

Vitnið R læknir á Neyðarmóttöku bar um það að hún hefði gert réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola um verslunarmannahelgina sl.  Staðfesti vitnið vottorð sitt um þá skoðun.  Kvað vitnið eftirminnilegt hversu miklu áfalli brotaþoli hafi verið í, en vitnið hefur margra ára starfsreynslu á Neyðarmóttöku og vegna starfa sinna við fólk sem hefur orðið fyrir ýmsum áföllum.  Brotaþoli hafi setið í hnipri og hafi greinilega verið í miklu áfalli og hafi átt erfitt með að tjá sig um atburðinn, en vitnið tók fram að brotaþoli hafi ekki verið þessleg að gera meira úr atvikinu en efni hafi staðið til.  Áverkar á brotaþola hafi samrýmst frásögn hennar og lýsti vitnið áverkum á brotaþola og var lýsing vitnisins í samræmi við rannsóknargögn málsins. Engir áverkar hafi verið á kynfærum brotaþola og hafi ekkert markvert komið fram við kvenskoðun, en brotaþoli hafi haft blæðingar sem hafi hafist á sunnudeginum.

Vitnið P sálfræðingur staðfesti sálfræðilegt vottorð sitt um brotaþola.  Bar vitnið að hún hefði hitt brotaþola þrisvar sinnum áður en hún ritaði vottorðið.  Vitnið bar að brotaþoli hafi lýst mikilli vanlíðan og verið döpur og leið og ólík sjálfri sér.  Hún hafi upplifað mikið öryggisleysi og alls ekki þorað að vera ein.  Vitnið  kvaðst hafa lagt fyrir brotaþola svo kallaða sjálfsmatskvarða og hafi niðurstöður sýnt vísbendingar um mjög alvarlega áfallastreituröskun, miðlungseinkenni kvíða og fremur alvarleg einkenni þunglyndis.   Hugsun brotaþola hafi virst vera skýr og rökræn og hún hafi verið einlæg í frásögn og hreinskilin.  Ekki sé enn unnt að slá fastri greiningu um áfallastreituröskun þar sem of snemmt sé liðið frá atvikinu.  Niðurstaða vitnisins byggi bæði á klínískri vinnu og sjálfsmatskvörðum.  Ekkert bendi til annars en að þau einkenni sem brotaþoli beri séu bein afleiðing ætlaðrar nauðgunar.  Brotaþoli hafi áður lent í andlegum áföllum en hafi unnið sig út úr þeim og hafi andlegt ástand hennar verið gott fyrir atburðinn.

Vitnið S, hjúkrunarfræðingur á Neyðarmóttöku, var viðstödd réttarlæknisfræðilega skoðun sem R læknir á Neyðarmóttöku gerði á brotaþola.  Lýsti vitnið ástandi brotaþola þannig að henni hefði liðið rosalega illa og hafi átt mjög erfitt með að segja frá.  Hafi brotaþoli vart getað talað við sig og ekki getað horft framan í sig þegar hún hafi lýst atburðinum.  Fullt samhengi hafi verið í frásögn brotaþola en tekið hafi langan tíma að fá fram frásögn hennar.  Fannst vitninu brotaþoli vera trúverðug.

Vitnið E, systir þáverandi unnusta brotaþola, lýsti því að hún hafi verið að tygja sig til vinnu sinnar sunnudagsmorguninn 31. júlí sl. og þá hafi brotaþoli legið í sófa og verið grátandi og verið að tala í síma.  Hafi brotaþoli verið eins og hún þyrfti að segja vitninu eitthvað en ekki hafi hún þó gert það.  Vitnið hafi spurt brotaþola hvort eitthvað væri að og hafi brotaþoli svarað „já heldur betur“ en vitninu hafi dottið í hug að brotaþoli og bróðir hennar hafi verið að rífast kvöldið áður eða eitthvað komið upp á.  Seinna um daginn hafi vitninu verið sagt hvað gerst hefði eftir að brotaþoli hafi komið á sjúkrahúsið.  Kvað vitnið brotaþola hafa verið grátandi og hafi hún virst vera í uppnámi.

Vitnið L bar fyrir dómi um að hann kannaðist við ákærða og væri það rétt að þeir hefðu hist á Þjóðhátíð.  Fyrst hafi fundum þeirra borið saman á laugardagskvöldinu eða aðfaranótt sunnudagsins og hafi það verið í brekkunni beint fyrir framan stóra sviðið.  Hafi þeir spjallað og hlegið, en ekki kannaðist vitnið við að þeir hefðu lent í jörðinni við að slást eða kljást eins og ákærði hefur borið.  Ekki kannaðist vitnið við að hafa hitt ákærða öðru sinni umrætt kvöld eða nótt.  Bar vitnið jafnframt um að hafa hitt ákærða á svipuðum slóðum kvöldið eftir.

Framburður ákærða um atvik milli hans og brotaþola er mjög á annan veg en framburður brotaþola.  Framburður ákærða fær ekki stoð í gögnum málsins eða  framburði annarra að því marki sem hann og brotaþola greinir á.  Framburður ákærða um það hvernig fundum þeirra bar saman er ekki trúverðugur að mati dómsins.  Hann hefur borið að þau hafi gengið saman um mótssvæðið í 20-30 mínútur áður en þau enduðu inni á margnefndum kamri, en ekkert hefur hann þó getað borið um það hvað þau töluðu eða spjölluðu um.  Ekki hefur ákærði getað sagt neitt til um það hvaða leið þau hafi gengið eftir að fundum þeirra bar fyrst saman og ekki heldur hvort þau gengu beint að kamrinum eða fóru aðrar leiðir.  Þá hefur ákærði ekki getað skýrt frá því á neinn hátt hvernig það bar til að þau fóru inn á kamarinn saman eins og hann hefur þó borið um.  Hefur ekkert komið fram hjá honum hver hafi verið tildrög þess að þau hafi farið þangað saman inn, hvort þau hafi farið þangað inn til að láta vel hvort að öðru eða hvort annað þeirra eða bæði hafi þurft að fara á klósett.  Það er mat dómsins að framburður ákærða um það hvernig fundum hans og brotaþola hafi borið saman og um aðdraganda þess að þau voru saman inni á kamrinum sé ótrúverðugur og rangur.  Verður miðað við að framburður brotaþola um þetta atriði sé réttur, en þess ber að geta að brotaþoli hefur að mati dómsins verið trúverðug í framburði sínum, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, en ekki hefur gætt hjá henni ónákvæmni eða tvísögli.  Um það sem gerðist inni á kamrinum gegnir sama máli.  Framburður ákærða um það sem þar gerðist inni þykir ekki trúverðugur, en hann hefur borið að afar skömmu eftir að þau hafi komið þangað inn hafi brotaþoli verið byrjuð að fróa honum og hafa við hann munnmök, án þess að hafa nokkru sinni hitt hann áður fyrr en um 20-30 mínútum áður.  Þá hefur ákærði ekki verið fyllilega nákvæmur eða sjálfum sér samkvæmur um það af hvers völdum þau hafi verið trufluð við þau atlot sem hann hefur borið um.  Hefur hann ýmist talað um unglinga eða minni krakka.  Þá hefur ákærði ekki getað skýrt þau viðbrögð brotaþola að hlaupa út af kamrinum eins og fætur toguðu strax og þau voru trufluð.  Framburður brotaþola um þennan hluta samskipta þeirra þykir hins vegar trúverðugur að mati dómsins og hefur brotaþoli verið sjálfri sér samkvæm um hann og einlæg í frásögn sinni.  Þykir engu breyta í þessu að brotaþoli hafi ekki skýrt frá því á Neyðarmóttöku að ákærði hafi stungið fingri í leggöng hennar umrætt sinn, en fyrir því hefur hún gefið eðlilegar skýringar að mati dómsins. 

Mikið ber á milli í framburði ákærða og brotaþola um það hvað gerðist eftir að brotaþoli hljóp út af kamrinum í hið fyrra sinni.  Ákærði hefur borið að hann hafi farið í humátt á eftir henni og hitt hana nálægt gæslumönnum og ætlað að tala við hana, en það hafi ekki gengið því hún hafi verið orðin hrædd við hann, en enga skýringu hefur hann þó getað gefið á því hvers vegna hún hefði átt að vera hrædd við hann.  Brotaþoli hefur hins vegar borið að ákærði hafi elt hana og náð henni, tekið í hana mjög reiður og dregið hana og ýtt henni aftur inn á kamar og þar með ofbeldi náð niður um hana buxum og þröngvað lim sínum inn í leggöng hennar skamma stund.  Henni hafi svo tekist að komast út og undan honum á hlaupum þar til hún hafi komist til gæslumannanna.  Framburður brotaþola um þetta er að mati dómsins trúverðugur en framburður ákærða ekki.  Ber þá að líta til þeirra áverka sem lýst hefur verið á brotaþola og borið hefur verið um í málinu.  Hefur komið fram að áverkar á brotaþola eru í fullu samræmi við atburðarásina eins og brotaþoli hefur lýst henni, en þess er hér að geta að atvik á klósettinu hið fyrra sinni voru mun síður til þess fallin að valda umræddum áverkum.  Hefur ákærði hins vegar engar skýringar getað gefið á þeim áverkum sem upplýst er að brotaþoli bar eftir þessa nótt.  Hefur hann aðeins sagt að þeir séu ekki af hans völdum, en ekkert hefur komið fram í málinu að brotaþoli hafi getað fengið áverkana við eitthvað annað og eru engar vísbendingar um það í neinum gögnum eða framburði í málinu.

Þá er óhjákvæmilegt við mat á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola að líta til annarra gagna og framburðar sem aðrir hafa gefið.  Um það ber öllum saman sem ýmist hittu brotaþola eftir atvikin eða töluðu við hana í síma, að hún hafi verið hrædd, miður sín, grátið, verið stjörf og að greinilegt hafi verið að eitthvað mikið hafi komið fyrir hana.  Gildir þetta um framburð þeirra D, gæslumannanna allra þriggja, O, C, E, sem og læknis og hjúkrunarfræðings á Neyðarmóttöku, sem og sálfræðingsins.  Hefur ekkert komið fram í málinu sem geti skýrt augljóst og mikið niðurbrot brotaþola annað en sú árás sem hún hefur borið um að hafa orðið fyrir af hálfu ákærða.

Þá ber við mat á trúverðugleika ákærða að líta til þess að upplýst er í málinu að hann skrökvaði að lögreglu strax á fyrstu stigum rannsóknarinnar þegar hann skýrði ranglega frá því að hann hefði engan dvalarstað í Eyjum og hefði engin föt meðferðis önnur en þau sem hann var þá klæddur í en það voru önnur föt en hann hafði verið í þegar ætlað brot hans var framið.  Verður ekki annað séð en að ákærði hafi reynt með þessu að afvegaleiða lögreglu við rannsókn málsins.  Er það svo að framburður ákærða er á skjön við framburð allra annarra í málinu sem mynda saman eina heild sem er í innbyrðis samræmi og í samræmi við gögn málsins öll. 

Framburður ákærða um að honum hafi lánast að hafa með sér áfengi í fangaklefa í Vestmannaeyjum getur ekki breytt þessu.  Niðurstaða málsins ræðst ekki af neinu sem gerðist þá á lögreglustöð í Vestmannaeyjum, en auk þess hefur ákærði borið að áfengið hafi seinna verið tekið af honum og getur hann því vart hafa orðið drukkinn af því sama áfengi.  Þá getur það ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins að ekki hafi verið freistað að finna DNA erfðaefni og gera kennslagreiningu á stroki í  pinna í sýni sem tekið var undan forhúð ákærða við réttarlæknisfræðilega skoðun sem gerð var á honum.  Kemur þar tvennt til.  Annars vegar að í rannsóknarskýrslu tæknideildar lögreglu kemur berlega fram að niðurstaðan af könnun á þeim sýnum, sem tekin voru af ákærða, væri sú að engin lífsýni hafi fundist sem nothæf væru til DNA kennslagreiningar, þó að ekki væri hægt að útiloka að í stroksýnum fyndust slík sýni, sem mögulega væri þá hægt að nota  til kennslagreiningar.  Þykir hafa verið langsótt að tefja rannsókn málsins, að teknu tilliti til málshraðareglu og þess að ákærði sætti gæsluvarðhaldi meðan á rannsókn stóð, til þess eins að freista þess að gera slíka rannsókn sem ólíklegt var að myndi nokkru skila.  Í annan stað var þegar stroksýnið var tekið liðinn all nokkur tími frá því atvik gerðust.  Þá ber að geta þess að þó að brotaþoli hafi verið á blæðingum þegar hún var skoðuð á Neyðarmóttöku aðfaranótt mánudagsins, þá kemur ekkert fram um að hún hafi verið á blæðingum þegar brotið var framið tæpum sólarhring áður, en í gögnum kemur aðeins fram að blæðingar hafi hafist á sunnudeginum.

Það er mat dómsins samkvæmt framansögðu að sannað sé og hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru og er þar rétt færð til refsiákvæðis.  Hefur hann unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði þrívegis áður sætt refsingu.  Við ákvörðun refsingar hans nú skiptir máli að þann 7. desember 2006 var ákærði dæmdur í Hæstarétti til að sæta fangelsi í 18 mánuði fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga en samkvæmt vottorðinu fékk ákærði reynslulausn af 180 daga eftirstöðvum refsingar innar skilorðsbundið í tvö ár, þann 19. janúar 2008.  Skilorðstími reynslulausnarinnar var liðinn þegar ákærði framdi það brot sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir.  Í 205 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem lögtekin var með 12. gr. laga nr. 61/2007 um breyting á almennum hegningarlögum, sem tók gildi við birtingu í A deild Stjórnartíðinda 3. apríl  2007, segir að Nú hefur sá sem sæta skal refsingu fyrir eitthvert þeirra kynferðisbrota sem að framan greinir áður verið dæmdur sekur um slíkt brot og má þá hækka refsingu svo að bætt sé við hana allt að helmingi hennar“.  Í 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir að Ítrekunaráhrif falla niður, ef liðið hafa 5 ár frá því að sökunautur hefur tekið út fyrri refsinguna, eða frá því að hún hefur fallið niður eða verið gefin upp, þangað til hann fremur síðara brotið. Hafi fyrri refsingin verið sektir, telst fresturinn þó frá þeim degi, er fullnaðardómur var upp kveðinn eða gengist var undir sektargreiðslu..  Ljóst er að nefndur 5 ára frestur byrjaði að líða 19. janúar 2008 þegar ákærði fékk reynslulausn af refsingu hins fyrri dóms.  Þá hafði ítrekunarheimild 205. gr. almennra hegningarlaga öðlast lagagildi, en það hafði hún hins vegar ekki gert við uppsögu hins fyrri dóms.  Það sem hér ræður þó mestu, að mati dómsins, er það að þá er ákærði framdi brot sitt nú var ítrekunarheimild 205 gr. almennra hegningarlaga gild að lögum.  Hefur því ákærði gerst sekur um ítrekað brot í skilningi greindra ákvæða og ber að ákveða honum refsingu í samræmi við það.

Ákærði þykir ekki eiga sér neinar málsbætur, en hann hefur gerst sekur um mjög grófa og ruddalega árás á brotaþola, líkama hennar og kynfrelsi.  Eru afleiðingar brots ákærða augljósar.  Er jafnframt óhjákvæmilegt að líta til hins einbeitta brotavilja ákærða sem birtist í þeirri háttsemi hans að draga brotaþola aftur með ofbeldi inn á kamarinn til að koma fram vilja sínum, eftir að hún hafði sloppið frá honum í hið fyrra sinni, en ákærða gat síst dulist það að athafnir hans allar og háttsemi gagnvart brotaþola voru ekki með hennar samþykki.  Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár.  Ber að draga frá refsingunni með fullri dagatölu það gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 2. ágúst 2011, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Brotaþoli rökstyður bótakröfu sína þannig að ákærði hafi nauðgað henni með hrottafengnum hætti með augljósum og alvarlegum afleiðingum fyrir brotaþola. 

Ákærði hefur gerst sekur um alvarlega meingerð gagnvart kæranda og á hún rétt á miskabótum af þeim sökum úr hendi hans með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Með hliðsjón af því hvernig ákærði hagaði atlögu sinni að brotaþola og réðist að henni í tvígang, en jafnframt með hliðsjón af augljósum og þungbærum afleiðingum árásarinnar fyrir brotaþola þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Þykja málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., hæfilega ákveðin 502.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur hdl. þykir hæfilega ákveðin 557.680 krónur að meðtöldum akstri og virðisaukaskatti.  Þá greiði ákærði annan sakarkostnað samkvæmt yfirliti, alls 652.412 krónur, en kostnaður vegna uppritunar á lögregluyfirheyrslum telst ekki til sakarkostnaðar sem dómfelldum manni ber að greiða.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari, flutti málið af hálfu ákæruvalds.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan, ásamt meðdómsmönnunum Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra og Kolbrúnu Sævarsdóttur settum héraðsdómara.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Birkir Árnason, sæti fangelsi í 5 ár.  Frá refsingunni dregst með fullri dagatölu gæsluvarðhald ákærða samfleytt frá 2. ágúst 2011.

Ákærði greiði A, [...] 1.200.000 krónur í miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. júlí 2011 til 16. september 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar, hrl., 502.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 557.680 krónur að meðtöldum akstri og virðisaukaskatti í þóknun til Helgu Leifsdóttur hdl., skipaðs réttargæslumanns brotaþola auk annars sakarkostnaðar, 652.412 krónur.