Hæstiréttur íslands
Mál nr. 68/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 24. september 2015. |
|
Nr. 68/2015.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Brynjari Mar Lárussyni (Jónas Þór Jónasson hrl.) |
Líkamsárás. Skaðabætur.
B var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa tekið A kverkataki og skallað hann í andlitið með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að B hefði tvisvar sinnum áður hlotið skilorðbundinn fangelsisdóm fyrir brot gegn sama lagaákvæði. Þá hefði árás hans verið háskaleg og ófyrirleitin. Var refsing B ákveðin fangelsi í fjóra mánuði auk þess sem honum var gert að greiða A 264.276 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. janúar 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að refsing hans verði látin niður falla en til vara að hún verði milduð. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi.
Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um kröfu sína, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Brynjar Mar Lárusson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 388.852 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Jónasar Þórs Jónassonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. nóvember 2014.
Mál þetta, sem var dómtekið 24. f.m., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 21. júlí 2014, á hendur Brynjari Mar Lárussyni, kt. [...], [...] í [...].
Ákærða er gefin að sök líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 „með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 31. ágúst 2013, tekið A, kt. [...], kverkataki og skallað hann í andlitið þar sem þeir voru staddir í samkomuhúsinu í Sandgerði, Norðurgötu 18, með þeim afleiðingum að A hlaut roða á hálsi og nefbrot á báðum nefbeinum.“
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá krefst A þess að ákærða verði gert að greiða honum 522.206 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 414.276 krónum frá 1. september 2013 til 2. febrúar 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 522.206 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu ákærða er þess krafist að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa.
I
Í þinghaldi í málinu 7. október sl. viðurkenndi ákærði að hafa, aðfaranótt laugardagsins 31. ágúst 2013 í samkomuhúsinu í Sandgerði, tekið A, brotaþola í máli þessu, kverkataki og skallað hann í andlitið. Hann hafnaði því á hinn bóginn að þessi árás hans hafi haft þær afleiðingar sem í ákæru greinir. Hefur ákærði í því sambandi vísað til þess að fyrir liggur að brotaþoli leitaði ekki til læknis fyrr en mánudaginn 2. september 2013, en við skoðun sem hann gekkst undir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þann dag kom í ljós að hann væri nefbrotinn. Í millitíðinni, það er að kvöldi laugardagsins 31. ágúst, hafi hann aftur á móti lent í áflogum og hljóti að hafa fengið áverkana í þeim, enda háttsemi ákærða þess eðlis, svo sem síðar greinir, að hún hafi ekki getað orsakað nefbrot. Í ljósi þessa gengur málsvörn ákærða út á það að hann hafi einungis gerst sekur um minni háttar líkamsárás í umrætt sinn og með því að brotaþoli hafi ögrað honum séu full efni til þess að honum verði ekki gerð refsing í málinu, en í öllu falli geti með hliðsjón af þessu ekki komið til þess að hann verði látinn sæta fangelsisrefsingu.
Fyrir liggur að dansleik í samkomuhúsinu í Sandgerði var að ljúka þegar ákærði á að hafa veist að brotaþola með þeim hætti sem í ákæru greinir. Þeir voru þá staddir í anddyri samkomuhússins og voru báðir ölvaðir. Er fram komið að brotaþoli var eitthvað að þrátta við dyraverði og að ákærði hafi farið að skipta sér af því.
Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins lýsti ákærði verknaði sínum með þeim orðum að hann hafi ýtt höfði sínu í andlit brotaþola og gaf með því og eftirfarandi lýsingu í skyn að það væri ofsögum sagt að hann hefði skallað brotaþola í andlitið. Þannig hafi hann ekki reigt höfuð sitt eða sett með öðrum hætti kraft í þessa höfuðhreyfingu. Engu að síður hafi blætt úr brotaþola eftir þetta. Áður en til þessa kom hafi ákærði blandað sér í samskipti brotaþola og dyravarðar með því að segja við þann fyrrnefnda að „hætta þessu bulli“. Hann og brotaþoli hefðu í kjölfarið byrjað að munnhöggvast og tekið hvor í annan og ákærði þá „farið í hálsinn“ á brotaþola. Þeir hefðu verið skildir að en farið að rífast aftur þegar brotaþoli hafi að nýju tekið til við að þrátta við dyravörðinn. Þeim samskiptum hafi lokið með fyrrgreindum hætti og þeir þá staðið andspænis hvor öðrum og þannig að höfuð þeirra snertust. Skýrði ákærði svo frá að honum hafi fundist brotaþoli hafa í frammi ógnandi tilburði gagnvart sér. Báðir hefðu verið með hendur í vösum meðan á þessu stóð.
Fyrir dómi skýrði brotaþoli, A, svo frá að hann hafi verið að ræða ákveðin mál við dyravörð samkomuhússins þegar ákærði hafi komið og tekið hann kverkataki. Þeim hafi fljótlega verið stíað í sundur, einhver hafi komið þarna að og dregið ákærða í burtu. Stuttu seinna hafi ákærði birst aftur og haft uppi fúkyrði í garð brotaþola, sem hafi svarað fyrir sig enda verið orðinn pirraður á ákærða. Kvaðst brotaþoli hafa staðið upp við vegg með báðar hendur í vösum og ákærði komið alveg upp að honum. Hafi brotaþoli hallað höfði sínu fram, en hann er talsvert stærri en ákærði. Þeir hefðu staðið andspænis hvor öðrum og einungis 20-30 cm verið á milli þeirra. Allt í einu hafi ákærði skallað hann af miklum krafti í andlitið. Blætt hafi úr nefi brotaþola í 45 til 60 mínútur eftir að hann varð fyrir þessu höggi frá ákærða og læknisrannsókn leitt í ljós að hann væri nefbrotinn, svo sem hann hafi fljótlega grunað. Hann hafi reynt að rétta brotið á laugardeginum með því að þrýsta á nefið með teskeið, en strax látið af þeim tilraunum vegna sársauka. Fram kom hjá brotaþola að hann hafi reynt að komast á sjúkrahús á laugardeginum en ekki tekist að útvega sér far til Keflavíkur. Hafnaði brotaþoli því að hann hafi mögulega hlotið þennan áverka að kvöldi umrædds laugardags. Hann hafi verið tekinn hálstaki á dansleik sem hann var á í samkomuhúsinu í Sandgerði þetta kvöld en ekki fengið högg á andlitið.
Á meðal gagna málsins er vottorð F, læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, þar sem meðal annars kemur fram að við skoðun sem brotaþoli gekkst undir mánudaginn 2. september 2013 hafi „sést smá roði á hálsinum báðum megin þar sem hálstakið var“. Tölvusneiðmynd hafi sýnt brot á báðum nefbeinum. F gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og staðfesti vottorð sitt.
Vitnið C starfaði sem dyravörður á umræddum dansleik. Í vitnisburði hans fyrir dómi kom fram að þá er umrætt atvik átti sér stað hafi lögreglan verið búin að biðja um að húsið yrði tæmt. Brotaþoli hafi verið að jagast í vitninu um að fá að skreppa aðeins út en koma svo inn aftur. Ákærði hafi farið að skipta sér af og beðið brotaþola um að hætta þessu. Í kjölfarið hafi brotaþoli rifið í ákærða, beygt sig yfir hann og sett höfuð sitt að höfði hans. Var það mat vitnisins að þessi framkoma brotaþola í garð ákærða hafi verið ögrandi. Kvaðst vitnið hafa litið undan þegar hér var komið sögu og þegar það næst beindi sjónum sínum að brotaþola hafi hann verið búinn að grípa fyrir andlitið og hendur hans verið blóðugar.
Samkvæmt vitnisburði D fyrir dómi var hann staddur í anddyri samkomuhússins og á leiðinni út ásamt samferðafólki sínu þegar þau samskipti ákærða og brotaþola sem hér eru til umfjöllunar áttu sér stað. Mjög stutt hafi verið á milli hans og þeirra, eða u.þ.b. tveir metrar. Hann hafi þó ekki heyrt hvað þeim fór í milli. Allan tímann hafi brotaþoli verið með hendur í vösum eða fyrir aftan bak. Ákærði hafi gengið að honum, tekið hann hálstaki og síðan skallað hann í andlitið. Það hafi fossblætt úr andliti brotaþola eftir þetta. Brotaþoli hafi ekkert gert til að verja sig. Aðspurður kvaðst D ekki muna hvort eitthvert hlé hafi orðið á atlögu ákærða eftir hálstakið eða hvort þetta hafi gerst í einni samfellu. Þá hafnaði hann þeirri lýsingu ákærða á atvikinu að hann hafi einungis ýtt höfði sínu í andlit brotaþola. Ákærði hafi skallað brotaþola af miklu afli í andlitið. Vel geti verið að brotaþoli hafi í þessum samskiptum þeirra sett höfuð sitt að höfði ákærða en hann hafi ekkert verið að skalla ákærða og í reynd ekki snert hann.
Í vitnisburði sínum skýrði E lögreglumaður, sem kom á vettvang í samkomuhúsinu, svo frá að ákærði hafi þar tjáð vitninu að hann hefði skallað brotaþola. Brotaþoli hafi verið blóðugur í andliti. Ekki hafi verið unnt að slá því föstu að brotaþoli væri nefbrotinn, en það hafi þó allt eins verið mögulegt.
II
Svo sem fram er komið leiddi læknisskoðun, sem A gekkst undir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mánudaginn 2. september 2013, meðal annars í ljós að hann væri nefbrotinn. Samkvæmt skýrslu lögreglumanns, sem kom á vettvang í samkomuhúsinu í Sandgerði aðfaranótt laugardagsins 31. ágúst 2013, skýrði A svo frá að hann hefði verið tekinn hálstaki og skallaður í andlitið. Í skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi hefur hann borið á sama veg um atvik í umrætt sinn og að blætt hafi úr nefi hans eftir höggið sem ákærði hafi veitt honum. Fær framburður hans ótvíræða stoð í greinargóðum og trúverðugum vitnisburði D, sem áður er rakinn, en samkvæmt honum var um þungt högg að ræða. Þá er þessi lýsing á atvikum á engan hátt í andstöðu við vætti vitnisins C. Loks er þess að geta að enda þótt ákærði hafi hafnað því að hann hafi veitt A þá áverka sem í ákæru greinir hefur hann borið á þann veg að blætt hafi úr A eftir samskipti þeirra. Er með þessu sannað að ákærði hafi skallað A í andlitið og að sá verknaður hans hafi ótvírætt verið til þess fallinn að valda nefbroti. Við sakarmat er loks til þess að líta að ekkert er fram komið í málinu sem rennir stoðum undir þá málsvörn ákærða að A hafi hlotið þann áverka að kvöldi laugardagsins, en samkvæmt framburði A var hann þá tekinn hálstaki af manni sem átti í orðaskaki við félaga hans. Með vísan til þessa er að mati dómsins komin fram nægileg sönnun fyrir því að ákærði hafi, aðfaranótt laugardagsins 31. ágúst 2013, skallað A í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði, svo og að hafa áður en það gerðist tekið hann hálstaki, en með tilliti til framburðar brotaþola um það hvernig að honum var veist síðar þennan sama dag þykir varhugavert að telja í ljós leitt að atlaga ákærða hafi haft aðrar afleiðingar í för með sér. Með háttsemi sinni braut ákærði gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III
Ákærði er 29 ára. Hann hefur tvisvar sinnum hlotið skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir brot gegn því lagaákvæði sem hann er sakfelldur fyrir í þessu máli, fyrst 19. september 2003 og að nýju 14. mars 2008. Árás hans var háskaleg og ófyrirleitin. Þá telst ekki fram komið að atvik hafi verið með þeim hætti að ákvæði 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga geti átt hér við. Þykir refsing ákærða að þessu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Með hliðsjón af sakaferli hans eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.
A á rétt til miskabóta úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja þær hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Krafa um greiðslu á sjúkrakostnaði að fjárhæð 14.276 krónur styðst við framlögð gögn og verður því tekin til greina. Þá þykir málskostnaðarkröfu, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, í hóf stillt, en hún nemur að teknu tilliti til virðisaukaskatts 107.930 krónum. Verður því á hana fallist.
Samkvæmt framansögðu verður ákærða gert að greiða A 264.276 krónur í skaðabætur og 107.930 krónur í málskostnað. Um vexti af tildæmdum skaðabótum fer svo sem í dómsorði greinir.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins samkvæmt yfirliti sækjanda um hann og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri kvað upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Brynjar Mar Lárusson, sæti fangelsi í fjóra mánuði.
Ákærði greiði A 264.276 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. september 2013 til 2. febrúar 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og 107.930 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði 198.250 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jónasar Þórs Jónassonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.