Hæstiréttur íslands

Mál nr. 246/2015


Lykilorð

  • Ómerking héraðsdóms
  • Dómur


                                     

Fimmtudaginn 21. janúar 2016.

Nr. 246/2015.

Þörungaverksmiðjan hf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Þorgeiri og Ellerti hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

og gagnsök

 

Ómerking héraðsdóms. Dómur.

Þ hf. og ÞE hf. deildu um uppgjör verksamnings þeirra á milli um endursmíði og endurbyggingu skips. Talið var að héraðsdómur væri haldinn þeim annmörkum að þar væri takmörkuð grein gerð fyrir efnisatriðum yfirmats- og álitsgerðar sem lágu fyrir í málinu, auk þess sem efni undirmatsgerðar var í engu rakið. Þrátt fyrir þetta væri í dóminum í mörgum tilvikum vísað til þess eins að yfirmatsmenn hefðu samþykkt tilgreinda reikninga og að mati þeirra hefði ekki verið hnekkt eða beinlínis vísað til niðurstöðu yfirmats- eða álitsgerðar án sérstaks rökstuðnings, auk þess sem niðurstaða dómsins væri í sumum tilvikum með öllu órökstudd. Skorti þannig á að tekin væri rökstudd afstaða til krafna og málsástæðna aðila. Þá þótti rökstuðningur fyrir niðurstöðu dómsins um riftunarkröfu sem lá fyrir í málinu með öllu ófullnægjandi. Uppfyllti héraðsdómur því ekki þær kröfur sem gerðar yrðu til rökstuðnings fyrir niðurstöðu dóms um sönnunar- og lagaatriði, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var dómurinn ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2015. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 33.192.194 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 6. ágúst 2010 til greiðsludags, allt að frádregnum 4.983.076 krónum miðað við 16. mars 2014. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 9. júní 2015. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 49.533.667 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 25. júní 2010 til greiðsludags. Jafnframt krefst hann þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 13.791.904 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. fyrrgreindra laga frá 6. ágúst 2010 til 18. nóvember 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst gagnáfrýjandi hærri málskostnaðar en honum var dæmdur í héraði auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var málsaðilum gefinn kostur á að tjá sig munnlega fyrir Hæstarétti um forsendur hins áfrýjaða dóms, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. sömu laga.

I

Með héraðsdómsstefnu 11. júní 2011 krafðist gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjandi greiddi sér 87.423.084 krónur ásamt tilteknum vöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 25. júní 2010 til greiðsludags. Þá krafðist hann þess með stefnu til héraðsdóms 15. september sama ár að aðaláfrýjandi greiddi sér 26.616.533 krónur með tilteknum vöxtum frá 6. ágúst 2010 til greiðsludags. Loks krafðist aðaláfrýjandi þess í héraðsdómsstefnu 26. október 2011 að gagnáfrýjandi greiddi sér 135.826.631 krónu ásamt vöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 6. ágúst 2010 til greiðsludags. Málin voru sameinuð í þinghaldi 16. apríl 2012 samkvæmt heimild í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 og dæmd í einu lagi.

Í stefnunni frá 11. júní 2011 var krafa gagnáfrýjanda sundurliðuð samkvæmt 34 reikningum, en í stefnunni 15. september sama ár var í fyrsta lagi krafist bóta vegna ólögmætrar riftunar aðaláfrýjanda á verksamningi aðila, í öðru lagi var krafist bóta vegna galla í útboðslýsingu, breytinga sem aðaláfrýjandi hafi gert á aðalverkinu, viðbótarverka á verktíma og seinkunar sem hafi orðið á afhendingu teikninga og búnaðar og í þriðja lagi var krafist bóta vegna aukinnar vinnu sem tilteknir starfsmenn gagnáfrýjanda hafi þurft að inna af hendi vegna hinnar ólögmætu riftunar. Í fyrrnefndri stefnu aðaláfrýjanda var krafist greiðslu tiltekinna fjárhæða vegna ofgreiðslu samningsverks eftir verksamningi og ofgreiðslu reikninga vegna aukaverka. Þá var krafist greiðslu vegna ofgreiðslna fyrir suðuvinnu, viðgerðar hliðarfærslusleða, kostnaðar vegna dráttar skipsins til Akureyrar, aukalegrar aðstoðar tryggingarfélags, vinnu Slippsins á Akureyri, útgáfu bankaábyrgðar og dagsekta vegna seinkunar verkloka.

Í þinghaldi 11. desember 2014 lækkaði gagnáfrýjandi höfuðstól kröfu sinnar samkvæmt fyrsttöldu stefnunni niður í 56.546.298 krónur og kröfu samkvæmt héraðsdómsstefnunni frá 15. september 2011 niður í 21.695.085 krónur. Þá lækkaði aðaláfrýjandi í sama þinghaldi kröfu sína um 2.000.000 krónur.

Engin grein er gerð fyrir hinni breyttu kröfugerð í héraðsdómi og á hverju hún var reist.

II

Í málinu liggur fyrir álitsgerð Frímanns Sturlusonar skipatæknifræðings 31. ágúst 2010 um „verkstöðu og kostnað á samningsverki“ miðað við 12. ágúst 2010. Undir rekstri málsins fékk aðaláfrýjandi dómkvadda menn til að leggja mat á útboðsverk og breytingar á því, vinnu tengda flutningi skips þess, sem um ræðir í málinu, til Akureyrar og lok endurbyggingar þess á Akureyri. Gagnáfrýjandi lagði síðan fyrir matsmennina viðbótarspurningar í 25 liðum og skiluðu þeir mati sínu í júní 2013. Í framhaldi af því aflaði gagnáfrýjandi yfirmatsgerðar þar sem mat var lagt á þau atriði sem undirmatsgerð tók til og lá mat þeirra fyrir í mars 2014.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms kemur fram að dómurinn leggi „niðurstöður yfirmatsgerðar að mestu leyti til grundvallar í niðurstöðum sínum. Einnig er litið til undirmats og álitsgerðar Frímanns Sturlusonar (Navis) þegar ekki liggur fyrir niðurstaða í viðkomandi tilviki í yfirmati ef umrædd möt fjalla um slík tilvik.“ Í dóminum er afar takmörkuð grein gerð fyrir efnisatriðum í yfirmatsgerðinni og álitsgerð Frímanns Sturlusonar. Þá er í engu rakið efni undirmatsgerðar. Þrátt fyrir þetta er í dóminum í mörgum tilvikum vísað til þess eins að yfirmatsmenn hafi samþykkt tilgreinda reikninga gagnáfrýjanda og að mati þeirra hafi ekki verið hnekkt eða beinlínis vísað til niðurstöðu yfirmatsgerðar eða fyrrgreindrar álitsgerðar án sérstaks rökstuðnings auk þess sem niðurstaðan er í sumum tilvikum með öllu órökstudd. Skortir þannig mjög á að tekin sé rökstudd afstaða til krafna og málsástæðna aðila. Rökstuðningur fyrir niðurstöðu dómsins um riftunarkröfu aðaláfrýjanda er með öllu ófullnægjandi, en látið er við það sitja að vísa í örstuttu máli til þess sem fram kemur í yfirmatsgerð og álitsgerð Frímanns Sturlusonar. Samkvæmt öllu framansögðu uppfyllir héraðsdómur ekki þær kröfur sem gerðar eru til rökstuðnings fyrir niðurstöðu dóms um sönnunar- og lagaatriði eftir f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

Vegna þessa annmarka á hinum áfrýjaða dómi er óhjákvæmilegt að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                           

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 9. janúar 2015.

Með stefnu þingfestri 21. júní 2011 höfðaði Þorgeir og Ellert hf. Bakkatúni 26 á Akranesi mál á hendur Þörungaverksmiðjunni hf., Reykhólum í Reykhólahreppi. Með stefnu birtri 16. september 2011 höfðaði Þorgeir og Ellert hf. annað mál á hendur Þörungaverksmiðjunni hf. Loks höfðaði Þörungaverksmiðjan hf. mál á hendur Þorgeir & Ellert hf. með stefnu birtri 27. október 2011. Í þinghaldi 16. apríl 2012 voru málin sameinuð í eitt mál og það síðan flutt og dómtekið 13. desember sl.

Í dómi þessu verður til einföldunar heitið stefnandi notað um Þorgeir og Ellert hf. en stefndi um Þörungaverksmiðjuna hf.

Í fyrstnefnda málinu eru kröfur stefnanda þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 56.546.298 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af kr. 1.177.000 frá 25. júní 2010 til 20. júlí 2010. af kr. 3.869.738 frá þeim degi til 22. júlí 2010, af kr. 11.303.227 frá þeim degi til 11. ágúst 2010, af kr. 18.805.177 frá þeim degi til 1. sept. 2010, af kr. 20.592.177 frá þeim degi til 3. september 2010, af kr. 2.5.269.465 frá þeim degi til 20. september 2010, af kr. 28.252.203 frá þeim degi til 21. september 2010, af kr. 33.775.780 frá þeim degi til 23. september 2010, af kr. 50.273.670 frá, þeim degi til 20. október 2010, af kr. 52.993.710 frá þeim degi til 20. nóvember, af kr. 55.817.562 frá þeim degi til 28. nóvember 2010, af kr. 56.546.298 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi krefst þess til vara að kröfur stefnanda á hendur stefnda verði stórlega lækkaðar.

Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Í öðru málinu gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 21.695.085,- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 6. ágúst 2010 til 18. nóvember 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi krefst þess til vara að kröfur stefnanda á hendur stefnda verði stórlega lækkaðar.

Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda

Í þriðja málinu sem er gagnsakarmál krefst gagnstefnandi, sem hér er nefndur stefndi, sbr. það sem að framan segir um tilgreiningu málsaðila, þess að viðurkennd verði riftun hans á verksamningi við stefnanda, dags. 20. nóvember 2009, sem lýst var yfir 6. ágúst 2010.

Stefndi gerir jafnframt kröfu um að stefnandi verði dæmdur til greiðslu kr. 135.826.631,- með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 37.026.373 frá 6. ágúst 2010 til 17. september 2010, en með dráttarvöxtum af kr. 38.426.373 frá þeim degi til 28. október 2010, en með dráttarvöxtum af kr. 39.026.373,- frá þeim degi til 13. desember 2010, en með dráttarvöxtum af kr. 52.026.373,- frá þeim degi til 12. janúar 2011, en með dráttarvöxtum af kr. 52.326.373,- frá þeim degi til 14. janúar 2011, en með dráttarvöxtum af kr. 59.126.373,- frá þeim degi til 26. apríl 2011, en með dráttarvöxtum af kr. 59.519.373,- frá þeim degi til 16. maí 2011, en með dráttarvöxtum af kr. 61.588.703,- frá þeim degi til 1. júní 2011, en með dráttarvöxtum af kr. 62.168.703,- frá þeim degi til 31. ágúst 2011, en með dráttarvöxtum af kr. 135.826.631,- frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda. 

Stefnandi krefst þess að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í þessum hluta málsins og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda.

MÁLSATVIK

Stefndi Þörungaverksmiðjan hf. er eigandi skipsins Fossár ÞH-362, en hann fékk afsal fyrir skipinu 30. september 2009. Kaupverð skipsins var 600.000 bandaríkjadalir en um er að ræða kúfiskveiðiskip.

Með verksamningi 20. nóvember 2009 tók stefnandi að sér að endursmíða skipið, en tilgangurinn var að breyta því í þangflutningaskip. Til grundvallar verksamningum lágu útboðsgögn með nánari lýsingu á einstökum verkþáttum. Umsamin verklaun voru 108.857.000 krónur, en til frádráttar komu 11.551.493 krónur þar sem stefndi óskaði eftir að tiltekin verk yrðu ekki unnin, auk þess sem ákveðið tæki var fellt úr tilboðinu. Að teknu tilliti til þessa námu verklaun 97.305.507 krónum, en þau átti að greiða með fimm jöfnum greiðslum á nánar tilgreindum gjalddögum með lokagreiðslu við verklok. Um viðbótarverk var tekið fram að gerðarþola væri óheimilt að undirbúa eða framkvæma viðbótarverk nema fyrir lægi skriflegt samþykki gerðarbeiðanda. Samkvæmt samningnum hófst verkið við undirritun hans, en verktími átti að vera 26 vikur frá því upphafsgreiðsla barst inn á verkið. Sú greiðsla var innt af hendi 30. nóvember 2009 og átti því verkinu að ljúka 30. maí 2010. Í samningnum var tekið fram að verktími væri háður því að gagnstefnandi stæði tímalega skil á öllum teikningum og þeim búnaði sem hann átti að útvega. Þá var tekið fram að viðbótarverk gætu haft áhrif á verktíma. Ef dráttur yrði á afhendingu skipsins átti að greiða í dagsektir 0,5% af heildarverðmæti samningsins en hámark sekta gat numið 10% af samningsfjárhæðinni. Um eignarrétt sagði í samningnum að stefndi eignaðist allt efni, hluti, vélar og tæki um leið og þau yrðu til eða þeirra væri aflað til verksins jafnóðum og verkinu miðaði áfram og stefndi stæði skil á greiðslum. 

Stefnandi hóf vinnu við verkið í samræmi við samning aðila. Þegar verkið var hafið komu í ljós ætlaðir gallar á skipinu sem óskað var eftir að yrðu skoðaðir af dómkvöddum matsmanni. Af þeim sökum var vinnu verkþátta sem snertu þann hluta skipsins sem talinn var haldin leyndum galla frestað að ósk stefnda. Meðan unnið var að verkinu greiddi stefndi 87.209.700 krónur upp í verklaun. Einnig voru unnin umfangsmikil verk sem féllu ekki undir útboðslýsingu og verksamning aðila, en stefndi hefur greitt 17.677.256 krónur vegna viðbótarverka.

Á vormánuðum og um sumarið 2010 voru haldnir fundir með fyrirsvarsmönnum aðila þar sem fjallað var um fyrirhuguð verklok, auk þess sem reynt var að leysa ágreining aðila um uppgjör þeirra á milli. Af hálfu stefnda hefur komið fram að hann hafi lagt ríka áherslu á að verkinu yrði lokið sem fyrst þar sem skipið átti að leysa af hólmi annað skip, en haffærniskírteini þess átti að renna út  30. júlí 2010. Með undanþágu frá Siglingastofnun fékkst skírteinið framlengt til 1. október sama ár.

Með tölvupósti 22. júlí 2010 staðfesti framkvæmdastjóri stefnanda að öll vinna við umbeðin reikningsverk hefði verið stöðvuð sökum þess að ekki hefði verið staðið við fyrirheit um greiðslu. Einnig kom fram að síðustu reikningar vegna þessara verka hefðu verið ritaðir þann dag og að unnið yrði eftir upphaflegu tilboði að því marki sem óunnin aukaverk hömluðu ekki framkvæmdum. Þessu erindi svaraði framkvæmdastjóri stefnda með tölvubréfi 23. sama mánaðar, en þar var því meðal annars haldið fram að reikningar vegna viðbótarverka væru ekki studdir fullnægjandi gögnum. Með bréfi lögmanns stefnda sama dag voru einnig gerðar athugasemdir við drátt á verkinu. Jafnframt var áréttað að ágreiningur væri um viðbótarverk, en þar fyrir utan var vefengt að þessi verk hefðu að öllu leyti verið unnin.

Á fundi fyrirsvarsmanna stefnanda og stefnda þann 29. júlí 2010 lýsti fyrirsvarsmaður stefnda yfir riftun á verksamningi aðila við fyrirsvarsmann stefnanda og krafðist þess að allri vinnu yrði hætt við skipið. Með bréfi lögmanns stefnda dags. 4. ágúst 2010 var þetta ítrekað og krafist að allri vinnu við skipið yrði hætt þegar í stað og lýsti lögmaðurinn yfir riftun samningsins með tölvuskeyti tveimur dögum síðar. Stefnandi mótmælti riftuninni og benti á að þrátt fyrir að verkið væri komið sjö vikur fram yfir upphaflega umsaminn verktíma væri það eingöngu vegna atriða er vörðuðu stefnda sjálfan.

Hinn 12. ágúst 2010 hóf Frímann Sturluson, skipaverkfræðingur hjá NAVÍS, skoðun á skipinu fyrir stefnda. Sú skoðun átti eingöngu að taka til samningsverksins skv. verksamningi aðila og aukaverka á föstu verði en ekki til viðbótarverka gegn tímagjaldi. 

Með bréfi dagsettu 17. ágúst 2010 krafðist lögmaður stefnda þess að stefndi afhenti stefnanda skipið gegn afhendingu á bankaábyrgð fyrir umdeildum viðgerðarkostnaði.

Hinn 18. ágúst 2010 bauð stefndi fram bankaábyrgð að fjárhæð kr. 100.000.000,- og óskaði eftir staðfestingu á því að skipið yrði afhent gegn afhendingu slíkrar bankaábyrgðar. Lögmaður stefnanda lýsti því yfir með tölvupósti daginn eftir að stefndi teldi skilyrði 2. mgr. 200. gr. siglingalaga nr. 34/1985 ekki vera uppfyllt með framlagningu slíkrar ábyrgðar, þar sem stefnandi hefði ekki reynt að sýna fram á hver tölulegur ágreiningur aðila væri.

Hinn 27. ágúst 2010 sendi lögmaður stefnanda lögmanni stefnda bréf þar sem krafa um afhendingu skipsins var ítrekuð. Með bréfinu fylgdi afrit af bankaábyrgð útgefinni af Arion banka hf., að fjárhæð kr. 100.000.000.

Hinn 31. ágúst 2010, skilaði Frímann Sturluson af sér skýrslu um mat á verkstöðu og  kostnaði á samningsverkinu miðað við dagsetninguna 12. ágúst 2010. Stefnandi hefur gert verulegar athugasemdir við skýrsluna sem unnin var af Frímanni að beiðni stefnda. Í skýrslu Frímanns kemur fram að stefnandi hefði getað skilað skipinu á tilsettum tíma hefðu aukaverk ekki komið til. Jafnframt er staðfest í skýrslu Frímanns að útboðslýsing hafi verið ónákvæm, þ.e. „verulegar breytingar verða á verkinu eftir að það hefst“ (3.c) og að „aukaverkin hafa tvímælalaust veruleg áhrif á verktímann“ (3.d).

Í framhaldinu ítrekaði stefndi kröfu sína um að fá skipið afhent en stefnandi neitaði að afhenda honum skipið vegna hinnar óuppgerðu skuldar og vísaði í því sambandi til haldsréttar síns í skipinu. Stefndi fór í kjölfarið fram á að fá skipið tekið úr vörslum stefnanda með beinni aðfarargerð. Undir rekstri aðfararmálsins lagði stefnandi fram viðbótarbankaábyrgð útgefna af MP banka hf. að fjárhæð kr. 35.000.000,-.

Sökum þess að stefnandi hafði lagt fram bankaábyrgð að fjárhæð kr. 135.000.000,- heimilaði Héraðsdómur Vesturlands, þann 27. september 2010, stefnanda að láta taka skipið með beinni aðfarargerð úr vörslum stefnda.

Hinn 30. september 2010 sendi stefnandi innsetningarbeiðni til embættis sýslumannsins á Akranesi.

Stefndi taldi strax við móttöku innsetningarbeiðninnar að hún væri ekki í samræmi við  úrskurðarorð Héraðsdóms Vesturlands. Stefndi tók því til varna við fyrirtöku innsetningarbeiðninnar og fór svo að sýslumaður hafnaði framkvæmd innsetningar þann 13. október 2010. Með málskoti dags. 15. október 2010 skaut stefnandi framangreindri ákvörðun sýslumanns til Héraðsdóms Vesturlands en sá hluti málsins var ekki fluttur munnlega, þar sem aðilar gerðu með sér samkomulag þann 8. nóvember 2010. Í samkomulaginu fólst að stefndi myndi klára vinnu við skipið og enduruppbyggingu á hliðarfærsluvagni gegn greiðslu svo unnt væri að sjósetja skipið.

Hinn 11. desember 2010 gerðu aðilar með sér samkomulag sem fólst í því að 9. gr. samningsins frá 8. nóvember 2010 var breytt. Auk stefnanda og stefnda voru einnig undirverktakar stefnda, Straumnes hf. og Rúdólf B. Jósefsson slf. aðilar að samkomulaginu. Samkomulagið skilgreindi verklok undirverktakanna, uppgjör á reikningsverkum þessara aðila og skilgreiningu/afslátt vegna óunninnar vinnu þeirra í skipinu hvað varðar verk á föstu gjaldi. Samkomulagið gekk eftir og var skipið sjósett og flutt úr skipasmíðastöð stefnda til Slippsins á Akureyri ehf. 13. desember s.á. en að sögn stefnda þá tók hið síðargreinda félag að sér ljúka verkinu á 4-6 vikum. Vinnu við verkið lauk hins vegar ekki fyrr en um miðjan maí 2011 eða u.þ.b. 20 vikum eftir að vinna hófst og er þetta fjórum sinnum lengri tími en stefndi hafði áætlað. Heildarverktíminn við breytingar á skipinu á Akranesi og Akureyri varð því 53 vikur sem stefnandi kveður skýrast af því að stefndi fór í mun meiri breytingar á skipinu, eftir að verktíminn hófst, en upphafleg útboðsgögn gerðu ráð fyrir.

Hinn 16. apríl 2012 voru þeir Stefán Sigurðsson og Ólafur Friðriksson dómkvaddir að beiðni stefnda til þess að leggja mat á eftirfarandi:

1. Útboðsverk og breytingar á því

2. Reikninga vegna tilboðsverka á föstu gjaldi

3. Reikninga fyrir vinnu á tímagjaldi (reikningsverk)

4. Vinnu tengda flutningi skipsins til Akureyrar

5. Lok endurbyggingar skipsins á Akureyri.

 Í framangreindu þinghaldi óskaði lögmaður matsþola þ.e. stefnanda eftir því að fá að koma að frekari matsspurningum en greinir í matsbeiðni og þá sem matsbeiðandi án þess að til þyrfti að koma ný dómkvaðning. Matsmenn myndu þá gera aðra matsgerð um þessa liði á kostnað matsbeiðanda í þeim þætti. Af hálfu matsbeiðanda voru engar athugasemdir við þetta.

  Með bréfi dagsettu 7. júní 2013 barst mat matsmanna á þeim atriðum sem stefndi óskaði eftir og í matsgerð þeirra frá 20 júní 2013 er svar þeirra við 25 spurningum stefnanda.

Í þinghaldi 16. janúar 2014 voru Daníel Gísli Friðriksson, Grímur Sveinbjörn Sigurðsson og Páll Ragnar Sigurðsson dómkvaddir að ósk stefnanda til þess að meta með yfirmati þau fimm atriði er stefndi beiddist mats á og greinir í undirmati frá 7. júní 2013.

Í samantekt yfirmatsmanna sem er hluti matsgerðar þeirra segir:

• Við skipasmíðar er mikilvægt að vandað sé til verka. Oftast er kostnaður mjög hár og því borgar sig að undirbúningur sé eins góður og hægt er. Aukaverk eru oftast dýrari en tilboðsverk og er því reynt að hafa verklýsingu nákvæma.

• Þetta verk leið að vissu leiti fyrir það að samningurinn gerði ekki ráð fyrir að greiðsla fyrir tilboðsverk væri í takt við framgangs verksins. Reikningsútskriftir eru ekki auðskiljanlegar þegar verkþættir breytast og bætast við.

• Aðilum málsins var fyrirmunað að koma sér saman um að gerð yrði sameiginleg úttekt af óháðum aðila sem báðir skuldsettu sig að sætta sig við. Þar með varð alltaf óvissa um hve langt hin mismunandi verk voru komin þegar leiðir skildu.

• Veruleg verðmæti fóru forgörðum þegar ákveðið var að færa skipið í aðra skipasmíðastöð.

• Spurt er um verktíma í matsspurningunum. Hægt er í mörgum tilfellum að áætla hve margar klukkustundir fari í ákveðin verk en það er háð afkastagetu og tækjabúnaði hver áhrifin verða á heildarverktíma. Afkastagetan er háð því hver staða annarra verka er á hverjum tíma.

• Þessi yfirmatsgerð er unnin í framhaldi af matsgerðum sem dagsettar eru í júní 2013.Fyrri matsgerðin svarar 5 spurningum sem lögmaður verkaupa lagði fram en sú síðari 25 viðbótarmatsspurningum sem lögmaður verkkaupa lagði fram. Lögmaður verksala lagði síðan fram beiðni um yfirmat þar sem beðið er um sjálfstætt mat við áðurtöldum spurningum.

• Hverri spurningu fyrir sig er svarað hér eins og beðið er um, en sömu atriði geta komið fram oftar en einu sinni.

• Varðandi verktíma: Í matsspurningunum er oft spurt um áhrif verktíma í einstökum viðbótarverkum en til að svara því hver heildartöf þessara verka varð fer eftir aðstæðum, tækjum og mannafla á hverjum tíma.

• Varðandi seina afhendingu á tækjum og búnaði: Greinilegt er að verkið tafðist verulega vegna þess hve teikningar sem verkaupi átti að leggja til bárust seint.hafi verið að fjárhæð           i er dir við þett.

rnnigum ..

A

Um mál 1

Krafa stefnanda byggist á því að stefndi hafi vanefnt að greiða reikninga vegna unninnar vinnu við skipið Fossá ÞH-362. Um er að ræða verk sem stefndi óskaði eftir að yrðu framkvæmd og honum ber að greiða fyrir á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins um greiðslu fjárskuldbindinga. Þrátt fyrir að stefndi hafi rift versamningi  beri honum, samt sem áður, að greiða stefnanda fyrir unnin verk samkvæmt samningi. Stefnandi hafi margoft lýst því yfir við stefnda að riftunin hafi verið ólögmæt enda hafi hún komið í kjölfar þess að stefnandi hætti vinnu við viðbótarverkin sökum þess að hann fékk ekki greiðslur fyrir þau á umsömdum gjalddögum. Engin fyrirfram aðvörun um riftunina hafi komið frá stefnanda eins og venja sé þegar um meintar tafir á verki er að ræða en í slíkum tilvikum sé venja að gefa viðbótarfrest að viðlagðri riftun. Riftunin hafi því í alla staði verið ólögmæt.

Skuld stefnda við stefnanda komi til vegna margvíslegra þátta sem lýst sé í neðangreindri töflu. Í töflunni séu innborganir/kreditreikningar dregnar frá til einföldunar sem sé annar háttur en hafður sé á í stefnukröfunni sjálfri en þar sé dómkrafan sett fram sérstaklega án innborgana en síðan er gerð grein fyrir öllum innborgunum í endann.

Reikningar vegna leiðréttinga á magntölum og viðbótar-

verka sem fólu í sér frávik frá verksamningi (kafli 5.2.2):                       kr. 16.497.890,-

Reikningar vegna tilboðsverka sem unnin voru á föstu

gjaldi (kafli 5.2.3):                                                                                            kr. 10.465.950,-

Reikningar vegna viðbótarverka sem unnin voru á tíma-

gjaldi (kafli 5.2.4):                                                                                            kr. 14.803.515,-

Reikningar vegna eftirstöðva á verksamningi aðila og

vegna stöðugjalda á grundvelli verksamnings aðila

(kafli 5.2.5):                                                                                                       kr.  5.523.577,-

Reikningar vegna stöðu- og geymslugjalda fyrir Fossá

eftir riftun á verksamningi aðila (kafli 5.2.6)                                                              kr.   9.255.366,-

Samtals:                                                                                                                             kr. 60.868.366,-

Við þetta bætist vextir og kostnaður eins og lýst sé í dómkröfu. Á dómskjali nr. 32 megi sjá hvernig krafan uppreiknuð með vöxtum standi í bókhaldi stefnanda hinn 1. júní 2011.

Hér á eftir eru raktar skýringar stefnanda á framangreindum liðum.

5.2.2.     Reikningar vegna leiðréttinga á magntölum og viðbótarverka sem fólu í sér frávik frá verksamningi

Reikningar í þessum kafla kveður stefnandi vera vegna leiðréttinga á magntölum og viðbótarverka vegna frávika frá verksamningi. Reikningar skv. þessum kafla hafi allir verið gefnir út 3. sept. 2010 og verið án virðisaukaskatts.

Stefnandi telur að upplýsingar í útboðsgögnum og verklýsingu hafi verið ófullnægjandi miðað við umfang verksins og forsendur fyrir tilboðsverði stefnanda hafi þar af leiðandi brostið. Eftirlitsmaður stefnda hafi viðurkennt að stefnda hafi verið ljóst frá upphafi að verklýsingin væri ekki endanleg og nákvæm lýsing á verkinu. Stefnda hafi einnig mátt vera ljóst að þörf væri á meira magni af stáli o.fl. en gert var ráð fyrir í útboðsgögnum, þar sem hönnunargögn og teikningar sem stefndi hafi látið stefnanda í té hafi hreinlega gert ráð fyrir því. Stefnandi hafi unnið verkið samkvæmt fyrirmælum stefnda og því farið eftir hönnunargögnum og teikningum stefnda þrátt fyrir að þessi gögn hafi falið í sér frávik frá verklýsingu í útboðsgögnum. Stefnandi telur enn fremur að frávik frá upphaflegri verklýsingu hafi verið meiri en við hafi mátt búast við upphaf verksins og verði stefndi því að bera hallann af óskýrri verklýsingu í útboðsgögnum hvað þetta varði enda allar breytingar framkvæmdar á ábyrgð stefnda sem verkkaupa í samningnum. Í ljósi ofangreinds telur stefnandi að stefnda beri að greiða útgefna reikninga vegna þessa.  

Reikningarnir séu eftirfarandi: 

Reikningur R27462 er dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 983.000,-. Reikningurinn sé vegna kostnaðar stefnanda við viðbótar frárifsþyngdir og vinnu vegna aukins umfangs verksins. Í kafla 2.01. og 2.02. í útboðslýsingu sé áætlað að frárifsþyngd sé 35 tonn af stáli. Raunveruleg frárifsþyngd hafi reynst vera 65,5 tonn.

Reikningur R27488 er dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 3.698.750,-. Reikningurinn sé vegna kostnaðar stefnanda við viðbótar styrkingar vegna þilfarskrana og vinnu vegna aukins umfangs verksins vegna verulegrar stækkunar kranans. Í kafla 6.00. í útboðslýsingu sé áætlað stálmagn 1.5 tonn. Raunverulegt stálmagn hafi verið 2.5 tonn. Þá hafi staðsetningu kranans verið breytt að beiðni stefnda en það hafi kostað töluverða vinnu sem ekki hefði verið gert ráð fyrir.

Reikningur R27519 er dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 454.900,-. Reikningurinn sé vegna færslu stýrisvélar. Í kafla 4.00. í útboðslýsingu hafi verið gert ráð fyrir 400 mm færslu. Síðar hafi komið í ljós að þörf hafi verið á 250 mm færslu til viðbótar. Af þeim sökum hafi verið nauðsynlegt að ráðast í hönnunarvinnu og í framhaldinu þurft að útbúa skot inn í skutgeymi.

Reikningur R27526 er dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 419.500,-. Reikningurinn sé vegna kostnaðar og vinnu stefnanda við lengingu hælstykkis sem komið hafi til vegna viðbótarfærslu á stýrisvél.

Reikningur R27527 er dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 2.639.200,-. Reikningurinn sé vegna aukins kostnaðar og vinnu stefnanda við brúarsmíði vegna breytinga stefnda á verklýsingu.

Reikningur R27528 er dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 237.000,-. Reikningurinn sé vegna aukins kostnaðar og vinnu stefnanda við uppgang til brúar vegna breytinga stefnda á verklýsingu.

Reikningur R27533 er dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 562.800,-. Reikningurinn sé vegna aukins kostnaðar og vinnu stefnanda vegna breytinga stefnda á verklýsingu en stefndi hafi keypt nýja ljósavél í skipið á verktímanum en vélin hafi átt að dæla sjó í botngeyma skipsins. Vegna breytingarinnar hafi þurft viðbótar öndun á botngeymana og því hafi fjórum öndunarrörum verið komið fyrir.

Reikningur R27530 er dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 2.305.200,-. Reikningurinn sé vegna kostnaðar og vinnu stefnanda við viðbótar sandblástur á 204 m² svæði.

Reikningur R27531 er dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 5.197.540,-. Reikningurinn sé vegna undirbúningskostnaðar vegna viðbótarverka.

               Samtals séu kröfur vegna þessa kafla 16.497.890 krónur.

5.2.3      Reikningar vegna tilboðsverka sem unnin voru á föstu gjaldi

Reikningar í þessum kafla séu byggðir á verkum sem stefndi hafi óskað eftir að stefnandi ynni á föstu gjaldi samkvæmt fyrirfram ákveðnu tilboði. Ekki sé stefnt vegna vinnu við viðbótarverk á föstu gjaldi sem ekki hafi verið lokið þegar skipið var flutt úr skipasmíðastöð stefnanda.

Hvað reikninga fyrir viðbótarverk varði vísist til  1. mgr. 6. gr. verksamnings aðila en þar segi:

Verksala er óheimilt að undirbúa eða framkvæma viðbótarverk nema fyrir liggi skriflega samþykkt frá verkkaupa. Verkkaupi skal greiða fyrir undirbúning viðbótarverka sem hann hefur óskað eftir jafnvel þó ekki verði af framkvæmdum vegna ástæðna sem varða verkkaupa.

Framangreindur háttur hafi verið viðhafður í samskiptum aðila þessa máls en í hvert skipti sem stefnandi hafi gert stefnda grein fyrir því að þörf væri á framkvæmd viðbótarverks, hafi viðkomandi verki verið gefið heiti og verknúmer og aflað skriflegs samþykkis frá stefnda fyrir framkvæmd verksins.

Stefndi haldi því fram að fyrirtækinu beri ekki skylda til að greiða framangreinda reikninga þar sem þeir eigi að falla undir verksamninginn en ekki teljast viðbótarverk. Framangreindri röksemd sé haldið fram þrátt fyrir að fyrirsvarsmenn stefnda hafi samþykkt þessi verk sérstaklega sem aukaverk gegn föstu gjaldi eins og skýrt komi fram á dómskjali nr. 29, kafla 5.2.3. Eins og fylgiskjalið beri með sér hafi þessi verk ýmist verið samþykkt af Birni Samúelssyni, eftirlitsmanni stefnda á verkstað, Bjarna Ásmundssyni eftirlitsverkfræðingi stefna eða Atla Georg Árnasyni, framkvæmdastjóra stefnda. 

Stefndi hafi haldið því fram í málinu að Björn Samúelsson, eftirlitsmaður hans á verkstað,  hafi ekki haft umboð til að samþykkja reikninga vegna aukaverka. Um það vísist m.a. til  undirritaðrar verkfundargerðar aðila máls þessa frá 29. júlí 2010. Þessi röksemd stefnda standist ekki vegna þess að í útboðslýsingunni sé beinlínis tekið fram að eftirlitsmaðurinn hafi þetta umboð. Ákvæði þriggja fyrstu málsgreina greinarinnar um þetta séu eftirfarandi:

1.11 Supervision

An authorized representative on owner´s account is to be assigned to supervise and inspect all work carried out by the contractor.

The representative is to have free access to all contractors and his subcontractor´s workshops and working areas, during all working hours and at any time when the work is in progress.

The authorized representative (the owner´s superintendent) is the only person who is authorized to take any decision regarding changes in plans, ordering spare parts or in other respect change the terms of the specification. This also covers decisions, regarding any „extra works“ taken on location after the vessels arrival. There are under no circumstances allowed to start any extra works without written acceptance from the owner´s representative.”

Ýmislegt bendi til þess að stefnda hafi strax við samningsgerðina verið kunnugt um að þörf væri á framkvæmd margra viðbótarverka og að áætlaður verktími gæti því aldrei staðist. Í því sambandi vísar stefnandi til bréfs verkfræðiráðgjafa stefnda til starfsmanns stefnanda, dags. 7. mars 2010.

Við vissum alltaf, og höfum talað um það alveg frá byrjun, að verklýsingin var ekki, gat ekki og átti ekki vera nein endanleg lýsing á verkinu eða umfangi þess. Við vissum semsagt allan[n] tímann að það myndu koma fullt af aukaverkum þegar verk væri hafið og það færi að koma í ljós hvert ástandið á skipinu í raun væri.

„...það er fullt af hlutum sem enn eru að koma inn og ekki voru í lýsingu og mun verða það eitthvað áfram.“

Það er meðvituð ákvörðun að setja austurlagnir ekki inn í lýsinguna frekar en aðrar lagnir í vélarúmi. Það var eingöngu vegna þess að við töldum að þær breytingar sem þyrfti að gera væru minniháttar og það væri hægt að vinna þau verk út í reikning. Við bjuggumst samsagt alls ekki við því að þetta yrði jafn umfangsmikið og raun ber.“

Hér beri að taka fram að hluti af vinnu vegna þessara verka hafi verið bakfærð með reikningi R27525 í samræmi við samkomulag aðila frá 11. desember 2010. Hin bakfærðu verk séu vegna vinnu undirverktaka stefnanda en þessari vinnu hafi ekki verið lokið þegar stefndi rifti verksamningi aðila.

Þá reikninga sem falli undir þennan lið megi finna í kafla 5.2.3 á dskj. nr. 29 en um sé að ræða eftirtalda reikninga: 

Reikningur R27457 (áður R25864) er dagsettur 15. júní 2010, með gjalddaga 25. júní s.á., að fjárhæð kr. 866.000,-. Reikningurinn sé vegna tilboðsverks nr. T2123 sem snúið hafi að vinnu við síðukjöl. Nánari útlistun á verkinu og reikningnum megi sjá á dskj. nr. 29, kafli 5.2.3.

Reikningur R27459 (áður R25865) er dagsettur 15. júní 2010, með gjalddaga 25. júní s.á., að fjárhæð kr. 63.000,-. Reikningurinn sé vegna tilboðsverks nr. T2124 sem snúið hafi að lækkun lestarþils. Nánari útlistun á verkinu og reikningnum megi sjá á dskj. nr. 29, kafli 5.2.3.

Reikningur R27461 (áður R25866) er dagsettur 15. júní 2010, með gjalddaga 25. júní s.á., að fjárhæð kr. 248.000,-. Reikningurinn sé vegna tilboðsverks nr. T2125 sem snúið hafi að því að fjarlægja eldri ristar fyrir bógskrúfu og smíði á nýjum. Nánari útlistun á verkinu og reikningnum megi sjá á dskj. nr. 29, kafli 5.2.3.

Reikningur R27470 (áður R26038) er dagsettur 22. júlí 2010, með gjalddaga 11. ágúst s.á., að fjárhæð kr. 7.501.950,-. Reikningurinn sé vegna tilboðsverks nr. T2131 sem snúið hafi að sandblæstri og málun á 504 m² svæði, aukalega við það sem verklýsingin hafi kveðið á um. Rétt sé að benda á að gefinn hafi verið 50% afsláttur af verkinu en raunkostnaður verksins hafi verið kr. 15.003.900,-. Nánari útlistun á verkinu og reikningnum megi sjá á dskj. nr. 29, kafli 5.2.3.

Reikningur R27468 (áður R26845) er dagsettur 1. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 1.787.000,-. Reikningurinn sé vegna tilboðsverks nr. T2190 sem snúið hafi að því að fjarlægja ballest úr stefni. Nánari útlistun á verkinu og reikningnum megi  sjá á dskj. nr. 29, kafli 5.2.3.

               Samtals séu kröfur vegna þessa kafla 10.465.950 krónur

5.2.4.      Reikningar vegna viðbótarverka sem voru unnin á tímagjaldi

Reikningar þessir byggi á umbeðnum viðbótarverkum. Verkin hafi verið unnin á tímagjaldi stefnanda og stefnda verið kunnugt um það. Eftirlitsmaður stefnda á verkstað hafi samþykkt skriflega hvert og eitt viðbótarverk áður en vinna við það hófst, sbr. dskj. nr. 29, kafli 5.2.4. Um sjónarmið um framkvæmd ákvörðunar samþykkis vegna viðbótarverka vísist til lýsingar á því í kafla 5.2.3 hér að framan.

Um sé að ræða eftirfarandi reikninga sem finna megi í kafla 5.2.4 á dskj. nr. 29:

Reikningur R27485 er dagsettur 20. júlí 2010, og er krafist vegna þessa liðar 3.50.022 króna en frá honum eru dregnar vegna trésmíði -357.284 krónur.

Reikningur R27486 (áður R26040) er dagsettur 22. júlí 2010, með gjalddaga 22. júlí s.á., að fjárhæð kr. 11.277.751,-. Reikningurinn sé vegna reikningsverks B776.09.10 (verknr. 26369, 26498, 26638, 26646, 26655, 26689, 26875, 26911, 26912, 26930, 26963 , 26966, 26980, 27023, 27025, 27038, 27056, 27068, 27075, 27076, 27096, 27104, 27123, 27171, 27182, 27184, 27188 , 27190, 27192, 27198, 27202, 27234, 27243, 27274, 27285, 27286, 27300, 27362, 27394, 27395, 27396, 27397, 27398, 27399, 27400, 27401, 27402, 27403, 27404). Verkin hafi snúið m.a. að vinnu við vökvakerfi skipsins, viðgerð á rafmagnstöflu, loftræstingu á íbúðum, vinnu við púströr o.fl. Nánari útlistun á verkinu og reikningnum má sjá á dskj. nr. 29, kafli 5.2.4. Frá eru dregnar -3.821.327 krónur vegna rafmagns og trésmíði.

Reikningur R27487 frá 22. júlí 2010 að fjárhæð -122.935 krónur vegna hliðarskrúfu.

Reikningur R27535 er dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 4.677.288,-. Reikningurinn sé vegna kaupa stefnanda á efni að beiðni stefnda, vegna reikningsverka sem stefnandi hafi verið byrjaður á þegar stefndi rifti samningi aðila, sjá nánar dskj. nr. 29, kafli 5.2.4. Efnið hafi verið geymt í skipinu og því afhent þegar skipið var sjósett og flutt úr skipasmíðastöð stefnanda hinn 13. desember 2010.

Samtals séu kröfur vegna þessa kafla 14.803.577 krónur.

5.2.5.      Reikningar vegna eftirstöðva á verksamningi aðila og vegna stöðugjalda á grundvelli verksamnings aðila.

Skuld stefnda við stefnanda skv. þessum hluta stefnunnar sé tvíþætt; Í fyrsta lagi sé hún samkvæmt útgefnum reikningi vegna eftirstöðva á verksamningi aðila en stefndi hafi átt eftir að greiða um 20% af heildarfjárhæð verksamningsins þegar samningnum var rift. Í öðru lagi sé skuldin samkvæmt útgefnum reikningi vegna stöðugjalda sem kveðið sé á um í verksamningi aðila. Um sé að ræða eftirfarandi reikninga sem finna megi í dskj. nr. 29, kafli 5.2.5.

Reikningur v/R27476 frá 21. september 21020 að fjárhæð 4.333.727 krónur  sé vegna nettólokagreiðslu fyrir verk stefnanda.

Reikningur R27500 er dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga 23. september s.á., að fjárhæð kr. 1.189.850,-. Um sé að ræða reikning vegna stöðugjalda í samræmi við viðauka við verksamning aðila fyrir 53 daga á kr. 22.450,- dagurinn, á tímabilinu frá áætluðum verklokum hinn 6. júní 2010 og fram að riftunardegi 29. júlí s.á., sjá dskj. nr. 29, kafli 5.2.5.

Samtals séu kröfur vegna þessa kafla 5.523.577 krónur

5.2.6. Reikningar vegna stöðu- og geymslugjalda fyrir Fossá ÞH 362 eftir riftun á verksamningi aðila.

Skuld stefnda við stefnanda samkvæmt þessum hluta stefnunnar sé samkvæmt útgefnum reikningum stefnanda vegna stöðu- og geymslugjalda fyrir Fossá ÞH 362 frá deginum eftir að samningi aðila var rift 29. júlí 2010, og til 8. nóvember s.á. er aðilar gerðu með sér samning um að stefnandi myndi klára vinnu svo mögulegt væri að sjósetja skipið. Stöðu- og geymslugjöldin eigi sér stoð í gjaldskrá stefnanda en samkvæmt gjaldskránni séu gjöldin kr. 90.688,- á dag. Um sé að ræða eftirfarandi reikninga sem finna megi í kafla E. í dskj. nr. 29:

Reikningur R27509 er dagsettur 31. ágúst 2010 með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 2.982.738,-. Reikningurinn sé fyrir stöðu- og geymslugjöld í 33 daga, frá 30. júlí 2010 til 31. ágúst s.á.

Reikningur R27510 er dagsettur 30. september 2010 með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 2.720.040,-. Reikningurinn sé fyrir stöðu- og geymslugjöld í 30 daga, frá 1. september 2010 til 30. september s.á.

Reikningur R27511 er dagsettur 31. október 2010 með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 2.823.852,-. Reikningurinn sé fyrir stöðu- og geymslugjöld í 31 dag, frá 1. október 2010 til 31. október s.á.

Reikningur R27512 er dagsettur 8. nóvember 2010 með gjalddaga sama dag, að fjárhæð kr. 728.736,-. Reikningurinn sé fyrir stöðu- og geymslugjöld í 8 daga, frá 1. nóvember 2010 til 8. nóvember s.á.

Samtals séu kröfur vegna þessa kafla 9.255.366 krónur og heildarkrafa án vaxta 56.546.298 krónur.

Dráttarvaxtakröfu sína styður stefnandi við 1. og 2. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafist er dráttarvaxta af skuldinni frá gjalddaga sérhvers reiknings en gjalddagarnir koma fram á reikningum stefnanda sem sendir voru stefnda.

Stefndi byggir á því að riftun verksamnings hans við stefnanda hafi verið lögmæt. Samkvæmt meginreglum kröfuréttar sé það aðalskylda verktaka samkvæmt verksamningi að skila tilteknu verki á tilskilinn eða fullnægjandi hátt og á réttum tíma. Í þessu sambandi byggir stefnandi á 1. mgr. 22. gr. kpl. um greiðsludrátt og 1. mgr. 30. gr. kpl. um galla, en þar er mælt fyrir um heimildir kaupanda til að krefjast riftunar og skaðabóta, sbr. einnig 27. gr., 3. mgr. 34. gr. og 40. gr. kpl. Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi verulega vanefnt skyldur sínar samkvæmt verksamningi og valdið stefnda tjóni með háttsemi sinni og því hafi verið nauðsynlegt fyrir stefnda að rifta samningnum við stefnanda, enda hafi stefnandi ekki fullnægt skyldum sínum um árangur verksins. Byggir stefndi lögmæti riftunarinnar á meginreglum verktakaréttarins og undirstöðurökum kaupalaga, sem beita má um vanefndir verksamninga. Að öðru leyti vísar stefndi til almennra vanefndareglna kröfuréttar og til hliðsjónar til gr. 25 í ÍST 30, sérstaklega undirmálsgreina 25.7.4 og 25.7.5.

Ljóst hafi verið að markmiðið var að breyta skipinu Fossá sem skyldi taka við af MB Karlsey, en haffærisskírteini MB Karlseyjar hafi átt að renna út 30. júlí 2010. Veruleg forsenda hafi því verið að verkinu væri skilað á réttum tíma, en verklok samkvæmt verksamningi skyldu vera 31. maí 2010 að viðbættri einni viku þar til dagsektir féllu á. Stefnandi hafi fyrst gefið í skyn í mars 2010 að verklokum kynni að seinka, en ekki tilkynnt stefnda um það formlega fyrr en u.þ.b. viku áður en verklok áttu að vera.

Óumdeilt sé að verklok hafi dregist fram úr þeim tíma sem tilgreindur var í verksamningi aðila. Þrátt fyrir að samþykktur hafi verið viðbótarfrestur til 6. ágúst 2010 hafi engu að síður verið ljóst af verkfundum aðila í júní og júlí þ. á. að verklok yrðu ekki fyrir það tímamark og hafi fyrirhuguð verklokadagsetning breyst frá viku til viku.

Þegar stefndi rifti verksamningi aðila þann 6. ágúst 2010 hafi verulegum hluta vinnu við skipið enn verið ólokið og stefnandi hefði lýst því yfir að hann gæti ekki klárað verkið fyrir þann tíma sem hafi verið stefnda nauðsynlegur, en stefnandi hafi ítrekað einhliða seinkað verklokum um viku í senn. Þá hafði stefnandi ítrekað lýst því yfir að vinna við verkið yrði stöðvuð ef ekki yrðu greiddir reikningar sem stefndi hefði gert verulegar athugasemdir við og ítrekað óskað frekari skýringa vegna og undirliggjandi gagna. Hafi stefnda því verið bæði nauðsynlegt og rétt að rifta verksamningnum, krefjast afhendingar skipsins og fela öðrum, hæfari aðila að ljúka verkinu, bæði vegna þeirra vanefnda sem þegar höfðu orðið að verkinu og þeirra frekari vanefnda sem voru fyrirsjáanlegar í ljósi framangreinds.

Ágreiningur milli aðila hafi verið um útgefna reikninga stefnanda vegna aukaverka sem hann hafi talið stefnda hafa pantað. Hafi stefndi ítrekað óskað eftir undirliggjandi gögnum til stuðnings og skýringar reikningunum, en reikningarnir hafi voru upphaflega verið gefnir út vegna mikils fjölda meintra aukaverka á tímagjaldi, án þess þó að nokkrar skýringar hafi fylgt um umfang verksins, hvaða vinna hefði verið unnin og hvenær hún hefði verið samþykkt.

Verulegur hluti þeirra meintu aukaverka sem stefnandi hefði gefið út reikninga fyrir hafi fallið undir útboðsverkið, auk þess sem stefndi hafi gert athugasemdir við fjárhæðir efniskaupa og tímaskráningar starfsmanna stefnanda, auk þess sem þau hefðu ekki verið réttilega samþykkt af stefnda. Þó hafi reikningar stefnanda enn verið illskiljanlegir þar sem verklýsingar hafi aðeins verið í formi stikkorða og erfitt að ráða í hvaða vinnu væri um að ræða hverju sinni. Þá hafi ítrekað verið rukkað fyrir vinnu sem þegar hefðu verið gerðir reikningar fyrir.

Í samskiptum aðila hafi verkfræðiráðgjafi stefnda gert ítarlegar athugasemdir við útgefna reikninga. Stefnandi hafi skrifað út enn frekari reikninga sem einungis hafi byggt á undirritun eftirlitsmanns stefnda, þrátt fyrir að ítrekað hefði verið af stefnda að slík undirritun gæti ekki talist fullnægjandi samþykki fyrir greiðslu á aukaverki og að staðfest hefði verið af stefnanda að ekki yrði ráðist í aukaverk án slíks samþykkis. Auk mikils fjölda meintra aukaverka í tímavinnu hafi þar m.a. verið um að ræða reikninga vegna vinnu við sandblástur og að fjarlægja ballest úr kili, en óskað hefði verið eftir hvorugu verkinu þrátt fyrir að um þau hefði verið rætt á verkfundum.

Í þessu sambandi ítrekar stefndi að, burtséð frá niðurstöðu um lögmæti riftunar að öðru leiti, þá ber stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að þau verk sem hann gaf út reikninga fyrir hafi ekki fallið innan útboðsverksins, að skýrt samþykki stefnda hafi legið fyrir um að ráðast mætti í verkin og að fyrir þau yrði greitt og að lokum að verkin hafi raunverulega verið innt af hendi. Fyrrgreind atriði séu ekki sönnuð í málinu, en engin gögn liggi fyrir sem styðji fullyrðingar stefnda um þau verk sem gefnir hafa verið út reikningar fyrir falli ekki undir útboðsverkið.

Stefnandi hafi ítrekað hótað að stöðva vinnu við verkið þar til hinir umdeildu reikningar hefðu verið greiddir og sé það eitt og sér nægur grundvöllur til riftunar verksamnings aðila, enda hafi kröfur stefnanda að þessu leyti og hótanir um verkstöðvun verið í engu samræmi við verksamning aðila.

Stefndi byggir ennfremur á því að framkvæmd riftunarinnar hafi verið með öllu forsvaranleg, en því er mótmælt að enginn viðbótarfrestur eða viðvörun um riftunina hafi verið veittur. Í þessu sambandi bendir stefndi á að þrátt fyrir að stefnanda hafi verið veittur 9 vikna viðbótarfrestur til að ljúka við verkið hafi stefndi ekki getað gefið nein skýr svör um hvenær verklok gætu orðið og stefnandi hafi ítrekað leitast einhliða við að seinka verklokum.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. kpl. sé verkkaupa heimilt að rifta samningi að loknum viðbótarfresti. Viðbótarfrestur vegna verksins hafi verið veittur til 6. ágúst 2010, en riftun verksamnings aðila hafi farið fram sama dag. Þannig hafi stefnda verið heimilt að rifta verksamningi aðila samkvæmt skýrri lagaheimild, enda verkinu ekki lokið.

Stefndi byggir enn fremur á því að honum hafi verið heimilt að rifta verksamningnum vegna verulegra vanefnda á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins. Í þessu sambandi bendir stefndi enn á að verulegur dráttur var orðinn á verklokum og þrátt fyrir að skorað hefði verið á stefnanda að tilgreina endanlega verklokadagsetningu og ljúka verkinu á tilsettum tíma þráaðist stefnandi þannig enn við og hótaði verkstöðvunum ef hinir umdeildu reikningar, sem stefndi taldi algjörlega óforsvaranlega, yrðu ekki greiddir. Var stefnda því sá einn kostur nauðugur að rifta verksamningnum til að gæta hagsmuna sinna.

Stefnandi byggir jafnframt á því að sá mikli dráttur sem varð á verklokum hafi ekki verið til kominn vegna atriða sem vörðuðu hann og að í öllu falli hefði stefnanda borið að haga vinnu sinni og samskiptum á þann hátt að stefnda mætti vera ljóst að verklokum kynni að seinka vegna slíkra atriða.

Þá er því mótmælt að af ákvæðum verksamnings aðila um verktíma megi ætla að stefndi hafi strax við samningsgerðina gert sér grein fyrir því að áætlaður verktími væri óraunhæfur, en ákvæði á borð við tilvísað samningsákvæði í stefnu sé að finna í nánast öllum verksamningum og sé ákvæðið keimlíkt gr. 16 í ÍST 30.

Þá mótmælir stefndi einnig þeirri fullyrðingu að skýrsla Frímanns Sturlusonar staðfesti að stefnanda hefði verið kleift að skila skipinu á tilsettum tíma hefðu aukaverk ekki komið til. Fram komi í skýrslu Frímanns að fyrrgreind athugasemd byggi á gögnum frá stefnanda sjálfum, en stefndi mótmælir því að þau geti haft nokkuð sönnunargildi.

Stefndi bendir á að samkvæmt 7. gr. verksamnings aðila sé tekið fram að þegar samið sé um viðbótarverk skuli jafnframt semja um hvort verkið hafi áhrif á verktíma. Stefndi hafi hins vegar ekki tilkynnt stefnanda um áhrif á verktíma áður en hafin var vinna við nokkurt aukaverk. Stefndi bendir ennfremur á að samkvæmt meginreglum verktakaréttar, sem hafa verið teknar saman í ÍST 30, skuli gera sérstakar kröfur um breytingar á umfangi verks og kröfur um framlengingu verktíma. Sé hér til hliðsjónar m.a. vísað til greina 16.1., 24.2.0 og 24.2.1 í ÍST 30.

Stefndi byggir á því að það hvíli á verktaka að sanna að breytingarkröfur verkkaupa hafi raunverulega leitt til tafa, ef hann vilji bera þetta atriði fyrir sig. Verktaki verði að bera fram formlega kröfu um frestun á verkskilum, þar sem fresturinn framlengist ekki sjálfkrafa. Stefnandi hafi ekki fyrr en við lok upphaflegs verktíma óskað eftir frestun á verkskilum vegna aukaverka eða breytinga á verkinu þá hafi verklok samkvæmt verksamningnum verið óbreytt, enda geti verktaki með tómlæti sínu firrt sig rétti til framlengingar skilafrests.

Þá bendir stefndi á að þær breytingar frá útboðsgögnum sem ákveðnar hafi verið í upphafi verks og þeir verkliðir sem felldir hafi verið út síðar haft í för með sér verulega einföldun á heildarverkinu og styttingu verktíma.

Varðandi meintar pantanir aukaverka og reikningsgerð fyrir þeim byggir stefndi á því að verulegur hluti þeirra reikninga sem stefnandi gaf út hafi verið með öllu óforsvaranlegur. Reikningar stefnanda hafi byggt á aukaverkum sem átt hafi að vera samþykkt af eftirlitsmanni stefnda á verkstað, Birni Samúelssyni.

Samkvæmt ákvæðum verksamnings aðila skyldi stefnanda óheimilt að hefja vinnu við aukaverk án þess að fyrir lægi skriflegt samþykki stefnda. Í því sambandi hafi stefnanda mátt vera ljóst að undirritun eftirlitsmanns stefnda, vélstjórans Björns Samúelssonar, á fyrrgreinda lista, sem innihéldu mjög takmarkaða verklýsingu, gjarnan einungis eina setningu eða jafnvel eitt orð, og ekkert fast verð eða verðbil, gæti ekki skoðast sem fullnægjandi samþykki stefnda á því að ráðast skyldi í. Þá hafi stefnanda enn fremur vera ljóst að fyrrgreindur Björn Samúelsson gegndi engri slíkri stöðu hjá stefnda að hann gæti skuldbundið hann fjárhagslega og fullyrðingum um hið gagnstæða mótmælt.

Í þessu sambandi er bent á að eftir að þörfin á aukaverki hefði verið metin hafi stefnandi gert tilboð í verkið á föstu verði. Tilboðið hafi síðan verið borið undir framkvæmdastjóra og verkfræðiráðgjafa stefnda sem ýmist hafi fallist á á eða hafnað tilboðinu. Í þeim tilvikum kvittaði eftirlitsmaður stefnda gjarnan upp á tilboðið fyrir hönd stefnda eftir að það hafði verið samþykkt af framkvæmdastjóra og verkfræðiráðgjafa stefnda.

Stefndi telur algjörlega óforsvaranlegt að stefnandi hafi einhliða ætlað sér að falla frá þessu samþykkisferli og hafi ráðist í fjölda aukaverka án nokkurs annars samþykkis en undirritunar eftirlitsmanns stefnda á umrædda lista, þrátt fyrir að orðalag  greinar 1.11 í útboðsgögnunum geri ráð fyrir aðkomu eftirlitsmannsins við pöntun aukaverka. Þá hafi aldrei nein verðtilboð verið gefin og stefnandi hafi því í raun ætlað sér óútfylltan tékka með undirritun eftirlitsmannsins.

Því er mótmælt að afhending teikninga hafi haft áhrif til seinkunar verklokatíma, en stefndi telur jafnframt að sönnunarbyrði um slíkt hvíli á stefnanda. Þessu til stuðnings bendir stefndi til hliðsjónar á ákvæði greinar 21.3 í ÍST 30 þar sem fram kemur að verktaki beri sönnunarbyrðina fyrir því að afhending búnaðar og teikninga hafi leitt til tjóns fyrir hann. Stefnandi hefur hins vegar að engu leiti útlistað hvaða teikningar hafi verið um að ræða sem hafi verið afhentar of seint og hvernig þær hafi haft áhrif á framgang verksins. Fullyrðingar stefnanda um að afhending teikninga hafi haft áhrif til seinkunar verklokatíma séu því algjörlega ósannaðar.

Þá bendir stefndi sérstaklega á að þar sem um hafi verið að ræða breytingar á skipinu, frekar en nýsmíði, hafi verið fullnægjandi að notast við upprunalegar teikningar sem voru um borð í skipinu þar sem ekki þurfti samþykki Lloyd‘s fyrir breytingum. Þannig hafi einungis þurft takmarkað magn teikninga frá stefnda og alls ekki fyrir allri þeirri vinnu sem tengdist verkinu.

Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um að afhending búnaðar hafi haft áhrif til þess að seinka verklokum, enda hafi í öllum tilfellum verið hægt að vinna í kringum þann búnað sem hafði ekki þegar verið afhentur. Þá byggir stefndi jafnframt á því að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna seinnar afhendingar búnaðar úr hendi verktaka. Samkvæmt grein 24.3 í ÍST 30 skal verktaki tafarlaust senda verkkaupa rökstudda tilkynningu telji hann sig eiga rétt til framlengingar verktíma vegna seinnar afhendingar búnaðar. Stefnandi hafi hins vegar engar athugasemdir gert við fyrirhugaðan afhendingartíma búnaðar á venjulegum verktíma og ekki lýst yfir að hann teldi sig eiga rétt til framlengingar fyrr en 28. maí 2010 eða þremur dögum fyrir umsamin verklok. Þá hafi stefnandi að engu leiti gert grein fyrir því hvaða búnaður hann telji að hafi verið afhentur of seint og hvernig afhendingin hafi haft áhrif á verkið til seinkunar verkloka. Allar fullyrðingar stefnanda að þessu leiti séu því ósannaðar.

Því er mótmælt að dráttur á verkinu hafi að verulegu leiti orsakast af hinum leyndu göllum sem upp komu í skipinu. Hinir leyndu gallar hafi einungis átt við um afmarkaðan þátt verksins og hefði stefnanda átt að vera auðvelt að haga verkinu þannig að ekki hlytist af seinkun.

Þar sem einungis var óskað eftir því að takmörkuðu svæði skipsins væri haldið í upprunalegu horfi þannig að dómkvaddur matsmaður gæti lagt mat á upphaflega byggingu þess telur stefndi að hinir leyndu gallar hafi ekki verið til þess fallnir að seinka verkinu eins og stefnandi hefur haldið fram í samskiptum aðila. Stefnandi hafi aldrei óskað eftir viðbótartíma vegna hinna leyndu galla og því ekki haldið fram að þeir hefðu seinkað verkinu fyrr en eftir að upphaflegum verktíma var þegar lokið.

Í ljósi alls framangreinds telur stefnandi ljóst að um hafi verið að ræða verulegar vanefndir af hálfu stefnanda, bæði orðnar og fyrirsjáanlegar. Fyrrgreindar vanefndir hafi ekki einungis lotið að greiðsludrætti heldur einnig óforsvaranlegri reikningsgerð stefnanda. Riftun stefnda á verksamningi aðila og aukaverkum tengdum honum hafi því verið lögmæt.

Burtséð frá lögmæti riftunar stefnda sé ljóst að stefndi eigi verulegar kröfur á hendur stefnanda vegna ofgreiðslu. Kemur því ekki til greiðslu á umkröfðum fjárhæðum stefnanda, hvort sem fallist verður á lögmæti riftunarinnar eða ekki, enda eigi stefndi gagnkröfu til skuldajafnaðar sem sé hærri en stefnukrafa stefnanda, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála svo sem fram kemur í máli 3.

Stefndi byggir á sömu málsástæðum eins og þeim er lýst að framan varðandi réttmæti riftunar. Þá byggir stefndi á því að þar sem verksamninginum hafi verið rift eigi stefnandi einungis rétt á greiðslu fyrir verkið að því marki sem því var lokið þegar samningnum var rift. Meginregla við riftun er að hvor aðili um sig eigi kröfu á endurheimtu greiðslu sinnar. Við riftun verksamninga geti riftun, eðli málsins samkvæmt, einungis tekið til þess hluta verksins, sem ólokið er.

Stefnandi hafi uppi fjárkröfur vegna ótal reikninga sem hann hafi gefið út. Af hálfu stefnda sé fjárkröfunum harðlega mótmælt, m.a. með vísan til sjónarmiða sem hafi verið færð fram hér að framan og burtséð frá niðurstöðu um lögmæti riftunar. Sérstaklega sé ítrekað að fjárhæð reikninganna sé mótmælt í hverju tilviki, enda telur stefndi tímaskráningu og efnisnotkun verulega óeðlilega.

Þá mótmælir stefndi kröfum um dráttarvexti, enda hafi reikningarnir ekki verið í slíkum búningi að hægt væri að ætlast til þess að stefndi samþykkti og greiddi þá athugasemdalaust, auk þess sem fyrir liggi að reikningar hafi í sumum tilvikum verið gefnir út án þess að umrædd vinna hefði þegar verið innt af hendi. Þá ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að reikningarnir hafi borist til stefnanda fyrir gjalddaga, en því er mótmælt að svo hafi verið, sérstaklega hvað varðar reikninga í kafla 5.2.6 í stefnu.

Stefndi telur rétt að vekja athygli á því að hann telur einhliða ráðstöfun stefnda á greiddum virðisaukaskatti inn á umdeildar kröfur stefnanda óheimilar og áskilur hann sér rétt til að krefja þær fjárhæðir frá stefnanda í öðru máli ef nauðsyn ber til.

Til viðbótar við þau sjónarmið sem hér að framan greinir hefur stefndi mótmælt hverjum reikningi fyrir sig og gert sérstakar athugasemdir við hvern þeirra en ekki þykir nauðsyn á að rekja þessa þætti frekar hér.

Varakrafa stefnda um lækkun dómkröfu byggir á öllum sömu sjónarmiðum og aðalkrafa.

B

Mál 2

Stefnukrafa er kr. 21.616.533,- og er sú fjárhæð samsett af eftirfarandi bótaliðum sem lýst er í neðangreindri töflu:

a) Efndabótakrafa vega ólögmætrar riftunar:                                           kr. 10.380.370,-

b) Bótakrafa vegna galla í útboðslýsingu, breytinga sem

stefndi gerði á aðalverkinu og viðbótarverkum á verktíma

og seinkunar sem varð á afhendingu teikninga og búnaðar:   kr.   3.251.275,-

c) Bótakrafa vegna aukinnar vinnu sem framkvæmdastjóri,

bókari, tæknifræðingur og verkstjórar stefnanda þurftu að

inna af hendi vegna hinnar ólögmætu riftunar:                          kr.  8.063.440,-

Samtals:                                                                                                             kr. 21.695.085,-

Til viðbótar við framangreinda fjárhæð bætist vextir eins krafist er í kafla um kröfugerð.

Stefnandi telur sig eiga rétt á bótum úr hendi stefnda vegna alls þess tjóns sem stefndi hafi bakað honum með ólögmætri og fyrirvaralausri riftun á verksamningi aðila frá 20. nóvember 2009 og samningum um vinnu við ýmis viðbótarverk ýmist á föstu gjaldi eða í tímavinnu. Stefnandi hafi strax frá móttöku riftunaryfirlýsingar mótmælt henni harðlega. Í því sambandi hafi stefnandi bent á að ekkert tilefni hafi verið til riftunar auk þess sem engin aðvörun um riftun hafi verið send áður en til beitingu riftunar kom.

Í riftunaryfirlýsingu stefnda frá 6. ágúst 2010 sé riftunin rökstudd með því að stefnandi hafi vanefnt samning sinn við stefnda sem hafi lýst sér í hægum framgangi verks og „vafasamri“ reikningagerð. Þessu er mótmælt af stefnanda og bent á að þó svo að á riftunardegi hafi verkið verið komið sjö vikur fram yfir upphaflega umsamin verktíma, þá hafi það eingöngu verið vegna atriða er vörðuðu stefnda sjálfan, s.s. vegna óska hans um frestun á verki vegna matsmáls við Ísfélag Vestmannaeyja hf., vegna þess að teikningar og búnaður skiluðu sér ekki frá stefnda á réttum tíma, vegna gríðarlegs magns af viðbótarverkum sem stefndi krafðist þess að farið yrði í og vegna greiðsludráttar af hálfu stefnda á reikningum vegna viðbótarverka. Hvað málsástæðu stefnda um reikningagerð stefnanda varðar, sé henni mótmælt sem rangri og bent á að útgefnir reikningar stefnanda eru allir í samræmi við samninga aðila, beiðnir stefnda um vinnu við viðbótarverk og raunverulega tímaskráningu og efnisnotkun stefnanda.

Fyrsti liður kröfu stefnanda er krafa um efndabætur að fjárhæð kr. 10.380.370,-. Krafan byggi á því að þar sem stefndi hafi rift verksamningi aðila og samningum um viðbótarverk með fyrirvaralausum og ólögmætum hætti, beri honum að greiða stefnanda bætur sem geri stefnanda eins settan og ef hann hefði fengið fullar efndir samninganna, þ.e. fengið að ljúka vinnu við aðalverkið sem og umbeðin viðbótarverk á föstu gjaldi og á tímagjaldi. Sé orsakasamband á milli þessa tjóns sem krafa hans byggir á og vanefndum stefnda, þ.e. hinnar ólögmætu fyrirvaralausu riftunar. Jafnframt telur stefnandi að það tjón sem hann krefur stefnda um undir þessum lið, sé sennileg afleiðing vafnefndar stefnda.  Stefnandi telur að hann sjálfur eigi enga sök á tjóni sínu enda hafi hann ekkert gert sem heimilað hafi stefnda að rifta samningum aðila fyrirvaralaust.

Í fyrsta lagi sé gerð krafa um efndabætur að fjárhæð kr. 1.733.491,- vegna þess tjóns sem stefnandi hafi beðið í kjölfar hinnar ólögmætu fyrirvaralausu riftunar stefnda á verksamningi aðila. Tjón stefnanda felist í því að hann hafi ekki getað lokið vinnu við aðalverkið en þegar stefndi rifti verksamningnum var eftir vinna sem stefnandi telur að sé að virði kr. 4.333.727,- að meðtöldum efniskostnaði. Þar sem meðalframlegð stefnda af verkinu (útseldri vinnu og sölu á efni) sé 40%, þá sé gerð krafa um efndabætur sem jafngildi 40% af þeim verkliðum (efni og vinnu) sem eftir hafi verið af aðalverkinu þegar samningi um það var rift (kr. 4.333.727 x 0,4 =  kr. 1.733.491,-).

Í öðru lagi er gerð krafa um efndabætur að fjárhæð kr. 8.646.879,- vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir í kjölfar hinnar ólögmætu fyrirvaralausu riftunar stefnda á samningum um viðbótarverk á tímagjaldi. Tjón stefnanda felist í því að hann hafi ekki getað lokið við vinnu við viðbótarverk á tímagjaldi en þegar stefndi hafi rift samningum sínum við stefnanda hafi verið eftir vinna sem stefnandi telur að sé að virði kr. 21.617.198,- að meðtöldum efniskostnaði. Þar sem meðalframlegð stefnda af verkinu (útseldri vinnu og sölu á efni) sé 40%, sé gerð krafa um efndabætur sem jafngildi 40% af þeim verkliðum (efni og vinnu) sem eftir hafi verið þegar verkinu var rift (kr. 21.617.198 x 0,4 = kr. 8.646.879.

Þá sé gerð bótakrafa vegna galla í útboðslýsingu, breytinga sem stefndi gerði á aðalverkinu og viðbótarverkum á verktíma og seinkunar sem varð á afhendingu teikninga og búnaðar að fjárhæð kr. 3.251.275,- vegna galla í útboðslýsingu, breytinga sem stefndi gerði á aðalverkinu og viðbótarverkum á verktíma og seinkunar sem varð á afhendingu teikninga og búnaðar. Krafan sé tvíþætt og byggi í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni að fjárhæð kr. 2.819.475,- vegna þess hversu seint teikningar af skipinu skiluðu sér til hans. Í öðru lagi byggi krafan á því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni að fjárhæð kr. 431.800,- vegna þess að tiltekin búnaður vegna krana skipsins skilaði sér ýmist seint eða aldrei.

Þegar stefnandi fjarlægði loftklæðingu úr skipinu varð hann þess áskynja að við smíði skipsins erlendis höfðu burðarbitar skipsins víða verið skornir í sundur svo unnt væri að koma fyrir loftræstistokkum, niðurfallsrörum o.fl.  Þegar framkvæmdastjóra stefnda var tilkynnt um þetta fyrirskipaði hann að klæðningarvinna yrði stöðvuð þar til dómkvaddur matsmaður hefði skoðað þennan frágang. Sú ákvörðun stefnda hafi leitt til þess að margra vikna töf varð á innréttingarvinnu auk þess að hafa margvísleg óþægindi og kostnaðarauka í för með sér fyrir stefnanda. Stefnandi telur að tjón sitt af framangreindu sé varlega metið kr. 421.800,- eða 5% af tilboði stefnanda í verkið (8.436.000 x 0,05 = kr. 421.800,-).

Þá sé gerð krafa um bætur vegna aukinnar vinnu sem framkvæmdastjóri, bókari, tæknifræðingur og verkstjórar stefnanda hafi þurft að inna af hendi vegnar hinnar ólögmætu fyrirvaralausu riftunar stefnda á verksamningi aðila og er þessi liður samtals að fjárhæð kr. 8.063.440,-.

Krafan byggi á kostnaði stefnda vegna aukinnar vinnu verkstjóra sem hann ætlar að nemi 970.600 krónum, aukinni vinnu tæknifræðings sem hann ætlar 2.467.500 krónur, aukinni vinnu bókara sem hann ætlar 2.467.500 krónur og aukinnar vinnu framkvæmdastjóra stefnanda sem hann ætlar 2.157.840.

Framangreint bótakrafa sé á því byggð að hin ólögmæta fyrirvaralausa riftun stefnda hafi leitt til aukins kostnaðar fyrir stefnanda og stefnda beri að bæta stefnanda allt tjóns vegna þess á grundvelli almennra reglna skaðabóta- og verktakaréttar. Þessi aukni kostnaður stefnanda felst í því að hann hefur þurft að kaupa aukna vinnu af bókara sínum vegna framangreinds, auk þess sem starfsmenn hans hafa þurft að verja miklum tíma í að gæta hagsmuna félagsins í kjölfar riftunar í stað þess að selja út vinnu eins og stefnandi gerir út á.

Hvað bótakröfur stefnanda varðar er vísað til bótareglna verktakaréttar, almennu skaðabótareglunnar og reglna um bótaábyrgð innan samninga. Sérstaklega er vísað í reglur verktakaréttar um stofnun viðbótarkrafna verktaka vegna aukins umfangs verks og umbeðinna viðbótarverka. Þá er vísað til reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og reglur um ólögmæta riftun.

Þess er krafist að tjón stefnanda að fjárhæð kr. 21.695.085,- beri vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er stefndi rifti verksamningi aðila og samningum um viðbótarverk, þ.e. 6. ágúst 2010. Ennfremur er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 að liðnum mánuði frá þingfestingardegi máls þessa, þ.e. 18. nóvember 2011, en þá verður liðinn mánuður frá því stefnandi lagði sannanlega fyrir stefnda þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki er gerð krafa um virðisaukaskatt á málskostnað, sbr. lög nr. 50/1998, þar sem stefnandi er virðisaukaskattskyldur.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu aðallega á því að riftun verksamnings hans við stefnanda, dags. 20. nóvember 2009, og aukaverka tengdra honum hafi verið lögmæt vegna verulegra vanefnda stefnanda. Stefnandi eigi því engan rétt til bóta vegna riftunarinnar. Um málsástæður stefnda vísast til umfjöllunar í hluta A þar sem fjallað er um mál 1.

Burtséð frá niðurstöðu dóms um lögmæti riftunar gerir stefndi athugasemdir við einstaka liði fjárkrafna stefnanda sem sundurliðaðir eru í kafla 4.2. í stefnu. Í öllum tilvikum séu fjárhæðir og verktímar einhliða áætlaðir af stefnanda eða undirverktökum hans og er því mótmælt að þær tölur geti haft nokkuð sönnunargildi í málinu.

Þá séu bótakröfur stefnanda með öllu ósannaðar, bæði hvað varðar bótagrundvöll og tilvist og umfang tjóns. Þannig skorti í öllum tilvikum verulega á að sýnt sé fram á að hin meinta háttsemi stefnda hafi verið ólögmæt eða saknæm, en hvorttveggja sé skilyrði skaðabóta. Þá sé ekki í neinu tilfelli leitast við að sýna fram á eða einangra raunverulegt tjón stefnanda vegna meintrar bótaskyldrar háttsemi stefnda, heldur einungis stuðst við „áætlaða meðalframlegð“ eða „varlega áætlaðar“ tölur. Stefndi byggir á því að skaðabótakrafa geti ekki grundvallast á slíkum forsendum, enda sé það meginregla að tjónþoli verði að sanna tilvist og umfang tjóns síns.

Stefnanda hefði jafnframt í öllum tilvikum borið að tilkynna stefnda um að hann teldi meinta háttsemi hans skaðabótaskylda og að hún væri til þess fallin að valda honum tjóni. Engri slíkri tilkynningu var hins vegar beint að stefnda og er það fyrst rúmum tveimur árum eftir að verksamningi aðila var rift að bótakrafa stefnanda kemur fram. Stefndi telur því hverjar slíkar skaðabótakröfur fallnar niður vegna tómlætis hefðu þær nokkurn tímann verið til staðar. Þá bendir stefndi einnig á að hvað sem öðru líði hefði stefnanda í öllum tilvikum borið skylda til að takmarka hið meinta tjón sitt vegna hinnar meintu háttsemi stefnda.

Til viðbótar við þau almennu sjónarmið varðandi kröfur stefnanda m.t.t. lögmætis riftunarinnar og almennra annmarka á bótakröfum gerir stefndi jafnframt athugasemdir við einstaka liði kröfugerðar stefnanda.

Stefnandi krefjist þess að fá greidd 40% af meintri óunninni vinnu við aðalverk og viðbótarverk. Stefndi telur kröfu þessa með öllu ósannaða, bæði hvað varðar bótagrundvöll og tilvist og umfang tjóns. Bótakrefjandi beri sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði skaðabóta séu uppfyllt, auk þess að sanna þurfi fjárhæð tjóns, ekki sé með nokkru móti reynt að sanna að umræddir liðir hafi valdið honum tjóni á nokkurn hátt, heldur sé krafan reiknuð út með þeim hætti að tekin séu saman verk sem stefnandi telur að stefndi hafi viljað láta vinna en hafi ekki verið unnin vegna riftunar verksamningsins. Síðan sé hlutdeild stefnanda í umræddum verkum reiknuð sem hlutfall af meðalframlegð stefnanda í verkinu. Ekki sé að finna neinar röksemdir eða gögn sem styðji útreikning þessarar meðalframlegðar og sé í besta falli um að ræða áætlun af hálfu stefnanda. Þessum útreikningum stefnanda hvað varðar meðalframlegð er mótmælt sem ósönnuðum, auk þess sem 40% álag ofan á kostnað og efni sé verulega hærra en almennt tíðkist í verktakaviðskiptum. Þá sé ekki sýnt fram á að sú ákvörðun stefnda að láta ekki vinna umrædd verk hafi verið saknæm og ólögmæt eða til þess fallin að valda stefnanda tjóni.

Til viðbótar við framangreint, gerir stefnandi sérstakar athugasemdir við einstaka kröfuliði sem ekki þykir nauðsyn á að rekja frekar hér.

Stefndi mótmælir kröfum um efndabætur vegna óunninnar vinnu við viðbótarverk á tímagjaldi á þeim grundvelli að aldrei hafi verið til staðar bindandi samningur milli aðila um vinnu umræddra viðbótarverka sem geti verið grundvöllur efndabóta.

Efndabótarkrafa stefnanda vegna þessa kröfuliðar byggi alfarið á undirritun eftirlitsmanns stefnda á margumrædda lista, en á listunum sé ekki að finna neinar upplýsingar um fyrirhugaðan tímafjölda, efniskostnað eða annað sem veitt gæti nokkra vísbendingu um umfang verkanna. Stefndi telur að undirritun eftirlitsmanns stefnda ein og sér, án samþykkis framkvæmdastjóra eða verkfræðiráðgjafa, geti ekki skoðast sem óútfylltur tékki til stefnanda um að vinna óljós viðbótarverk fyrir ótilgreinda fjárhæð og sé ekki skuldbindandi fyrir stefnda sem endanlegt samþykki á aukaverkunum.

Þá hafi stefnanda mátt vera ljóst að stefndi taldi undirritanir eftirlitsmannsins á listana ekki skuldbindandi, enda hafi sú afstaða verið ítrekuð í tölvupóstsamskiptum aðila 7. júní 2010 og síðast staðfest á fundi aðila 29. júlí 2010. Þannig hafi stefnanda í öllu falli mátt vera ljóst eftir fyrrgreind tölvupóstsamskipti þann 7. júní 2010 að stefndi taldi undirritun eftirlitsmannsins eina og sér ekki nægja sem skriflegt samþykki fyrir aukaverkum.

Í ljósi alls ofangreinds telur stefndi að stefnandi eigi engan rétt til efndabóta vegna riftunar verksamnings aðila, burtséð frá niðurstöðu um lögmæti hennar.

Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi nokkurn rétt til bóta vegna galla í útboðslýsingu enda sé bótagrundvöllur ekki til staðar auk þess sem fjárhæð skaðabóta sé ósönnuð. Þannig sé ekki leitast við að sanna á nokkurn hátt að hin meinta bótaskylda háttsemi stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt, en það sé skilyrði skaðabóta.

Þá er því haldið fram að stefnandi hafi orðið fyrir verulegum aukakostnaði vegna þessara liða, án þess að í nokkru sé leitast við að gera grein fyrir slíkum kostnaði. Allt tjón stefnanda vegna þessa kröfuliðar er sagt „varlega áætlað“, án þess að reynt sé með nokkru móti að slá því föstu að sanna það hvert hið eiginlega tjón er. Telja verði að skaðabótakrafa geti aldrei byggt á „varlega áætluðum“ tölum, heldur verði bótakrefjandi ávallt að sanna tjónið sitt.

Þá bendir stefndi einnig á að í öllu falli hefði stefnanda í öllum tilvikum borið skylda til að takmarka hið meinta tjón sitt vegna hinnar meintu háttsemi stefnda, t.d. með því móti að beina kröftum sínum að öðrum verkefnum meðan á meintum töfum stóð en ljóst er af gögnum málsins að umtalsverðri annarri vinnu en þeirri sem skaðabótakröfur stefnanda byggja á var ólokið við riftun verksamningsins.

Stefndi mótmælir umræddri kröfu og telur hana ósannaða með öllu. Vísast að öðru leyti til almennra málsástæðna fremst í kafla IV að framan.

Til viðbótar við framangreind sjónarmið gerir stefndi athugasemdir við einstaka kröfuliði vegna skaðabóta sem ekki þykir nauðsyn á að rekja hér.

Þá er því mótmælt að stefnandi eigi rétt til skaðabóta vegna tímabundinnar stöðvunar klæðningarvinnu.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um bætur vegna aukinnar vinnu starfsmanna stefnanda og telur hana raunar með ólíkindum og algjörlega fordæmalausa. Þannig virðist krafan byggja á því að starfsmenn stefnanda selji vinnu sína út sem verktakar til hans í stað þess að störf þeirra er viðkoma starfsemi stefnanda teljist eðlilegur hluti starfa þeirra. Stefndi eigi þannig að bera ábyrgð á þeirri vinnu sem starfsmenn stefnanda eiga að hafa innt af hendi innanhúss vegna lögskipta aðila. Sá kostnaður innan fyrirtækis sem fer í samskipti starfsmanna þess við aðra lögaðila eða einstaklinga og hugsanleg málaferli í kjölfar þeirra sé eðlilegur rekstrarkostnaður innan fyrirtækis, sem eigi sér stað á vinnutíma starfsmannanna. Krafa stefnanda sé því í raun sú að stefndi greiði launakostnað stefnanda á nokkurra mánaða tímabili. Stefndi mótmælir því að svo geti verið, enda beri stefndi enga ábyrgð á því hvernig starfsmenn stefnanda hagi vinnu sinni. Stefndi bendir á að í dómaframkvæmd hafi ekki einu sinni verið litið svo á að hægt væri að krefjast málskostnaðar vegna vinnu lögmanns innanhúss í tengslum við málaferli, hvað þá annarra starfsmanna.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi að einhverju leyti kröfur á hendur stefnda byggir stefndi á því að hann eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar sem sé hærri en stefnukrafa stefnanda, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi byggir  á því að þar sem verksamninginum hafi verið rift eigi stefnandi einungis rétt á greiðslu fyrir verkið að því marki sem því var lokið þegar samningnum var rift. Meginregla við riftun sé að hvor aðili um sig eigi kröfu á endurheimtu greiðslu sinnar. Við riftun verksamninga getur riftun, eðli málsins samkvæmt, einungis tekið til þess hluta verksins, sem ólokið er.

Stefndi telur sig hafa greitt til stefnda of háa fjárhæð miðað við hve miklu af vinnu við verksamninginn var lokið þegar til riftunar kom, og eigi því rétt á endurgreiðslu þess sem ofgreitt var. Kröfugerð stefnda byggir á hinu upphaflega heildarverði verksamningsins, að frádregnum þeim breytingum sem gerðar voru á honum. Þannig hafði stefndi greitt kr. 87.209.700,- af samningsverkinu, eða 89,5% þegar tekið er tillit til niðurfellinganna sem áður var lýst.

Varakrafa stefnda um lækkun dómkröfu byggir á öllum sömu sjónarmiðum og aðalkrafa.

Um lagarök er vísað til 22. gr., 25. gr., 27. gr. 30. gr., 34. gr. og 40. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, auk meginreglna fyrrgreindra laga um lausafjárkaup, meginreglna verktakaréttar, þ.á m. undirstöðuraka staðalsins ÍST 30:2003, og meginreglna samninga- og kröfuréttar, sérstaklega um vanefndaúrræði og riftun. Þá er vísað til meginreglna kröfuréttar um skaðabætur innan samninga. Um heimild til skuldajafnaðar vísast til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkaamála.

Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

C

Mál 3

Kröfur stefnda byggja á því að háttsemi stefnanda við framkvæmd verksamnings aðila hafi verið með öllu óforsvaranleg og riftun stefnda á verksamningnum hafi verið lögmæt vegna verulegra vanefnda. Stefndi byggir á því að framgangur verksins hafi verið í engu samræmi við ákvæði verksamnings aðila, þá sérstaklega hvað varðar framkvæmd verksins, tímasetningu verkloka og fyrirkomulag aukaverka. Stefndi byggir einnig á því að hann eigi rétt til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem ofgreidd hafi verið vegna aðalverksins. Greiðslur vegna aðalverksins hafi numið 89,5% af heildarverkinu, en stefndi telur ljóst að mun minni hluta þeirrar vinnu hafi verið lokið við riftun verksamningsins. Jafnframt byggir stefndi á því að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnanda vegna tjóns sem hann hafi sannanlega orðið fyrir þegar honum hafi verið nauðsynlegt að leita til annars aðila um að ljúka verkinu í kjölfar riftunarinnar, með tilheyrandi kostnaði. Þá byggir stefndi á því að hann eigi rétt til skaðabóta vegna þess kostnaðar sem honum hafi reynst nauðsynlegt að leggja út í þar sem stefndi hafi meinað honum um að njóta lögformlegra réttinda sinna til varslna á skipinu Fossá.

Í þessu sambandi byggir stefndi aðallega á ákvæðum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup auk meginreglna kaupa- og verktakaréttar. Verði kaupalög ekki talin eiga við beinlínis um lögskipti aðila þá er byggt á að beita eigi þeim með lögjöfnun eða eftir atvikum með vísan til undirstöðuraka þeirra. Þá byggir stefndi jafnframt til hliðsjónar á ákvæðum ÍST 30 staðalsins um almenn útboð og samningsskilmála með verkframkvæmdum (hér eftir vísað til sem „ÍST 30“), sem tekið hafi saman meginreglur verktakaréttar að verulegu leyti, en stefndi telur staðalinn til leiðbeiningar um eðlilega verkframkvæmd. Þótt ÍST 30 verði, sem slíkur, ekki talinn gilda beint í lögskiptum aðila, þá hafi hann að geyma undirstöðureglur verktakaréttarins sem líta skuli til við mat á réttarstöðu aðila í verktakarétti.

Stefndi byggir kröfu sína um viðurkenningu á lögmæti riftunar verksamnings aðila á því að um verulegar vanefndir af hálfu stefnanda hafi verið að ræða. Þannig hafi verklokum seinkað fram úr öllu hófi, auk þess sem framkvæmd verksins og reikningsgerð stefnanda hafi verið með öllu óforsvaranleg.

Stefnandi hafi vanefnt aðalskyldu sína um að skila verkinu á tíma í réttu ástandi, reikningsgerð hafi ekki verið forsvaranleg, framkvæmd riftunar hafi verið forsvaranleg, dráttur  á verklokum hafi ekki verið vegna atriða er vörðuðu stefnda, stefnandi hafi ekki óskað eftir viðbótarfresti vegna aukaverka, meint aukaverk hefðu ekki verið samþykkt réttilega, afhending teikninga hafi ekki haft áhrif á verklokatíma, afhending búnaðar hafi ekki haft áhrif á verklokatíma og leyndir gallar hefðu ekki haft áhrif á verklokatíma. Má um þessi atriði vísa til umfjöllunar í máli 1 sem rakin er í kafla A hér að framan.

Varðandi kröfu sína um endurgreiðslu vegna ofgreiðslu byggir stefndi á sömu málsástæðum eins og þeim er lýst í kröfu um viðurkenningu á riftun, eftir því sem við eigi. Þá byggir stefndi á því að þar sem verksamninginum hafi verið rift eigi stefnandi einungis rétt á greiðslu fyrir verkið að því marki sem því hafi verið lokið þegar samningnum var rift. Meginregla við riftun sé að hvor aðili um sig eigi kröfu á endurheimtu greiðslu sinnar. Við riftun verksamninga geti riftun, eðli málsins samkvæmt, einungis tekið til þess hluta verksins, sem ólokið sé. Stefndi byggir einnig á því að þær upphæðir sem stefnandi rukkaði fyrir vinnu við undirbúning við að gera skipið sjóklárt hafi verið langt umfram það sem eðlilegt geti talist og þær séu raunar þess eðlis að stefndi hefði aldrei átt að bera þann kostnað. Kröfur stefnda um endurgreiðslu vegna ofgreiðslna til stefnda eru sem hér segir:

Stefndi telur sig hafa greitt til stefnda of háa fjárhæð miðað við hve miklu af vinnu við verksamninginn var lokið þegar til riftunar kom, og eigi því rétt á endurgreiðslu þess sem ofgreitt var. Kröfugerð stefnda byggir á hinu upphaflega heildarverði verksamningsins, að frádregnum þeim breytingum sem gerðar voru á honum. Þannig hefði stefndi greitt kr. 87.209.700,- af samningsverkinu, eða 89,5% þegar tekið er tillit til niðurfellinganna sem áður var lýst.

Af skoðunum Frímanns Sturlusonar og Guðmundar Péturssonar, auk athugasemda verkfræðiráðgjafa stefnda, Bjarna Ásmundssonar, megi hins vegar ráða að mikil vinna hafi verið eftir þegar stefndi fékk skipið loks afhent og einungis hafi  verið búið að ljúka um 65% verksins. Mismunurinn á 89,5% heildarverksins, kr. 87.209.700,-, og 65% heildarverksins, kr. 63.248.580,- sé kr. 23.836.480,-. Stefndi byggir á því að hann eigi rétt til þessa mismunar, kr. 23.836.480,- úr hendi stefnanda, enda eigi stefnandi ekki rétt til greiðslu umfram þá vinnu sem hafi sannanlega verið innt af hendi.

Þá hafði stefndi greitt reikninga merkta R24810 og R25050 með fyrirvara um endanlegt samþykki verkfræðiráðgjafa stefnda. Þeir reikningar hafa hins vegar enn ekki verið samþykktir og telji stefndi sig því eiga rétt til endurgreiðslu vegna þeirra sem nemi kr. 3.483.842,-. Krafa stefnda að þessu leyti fái stoð í verkstöðuúttekt Guðmundar Péturssonar en þar séu gerðar athugasemdir við ýmsa verkliði á umræddum reikningum.

Krafa stefnda um endurgreiðsla vegna suðuvinnu á skrokk sé vegna kostnaðar sem stafi af háttsemi stefnanda, það sé meginregla verktakaréttar að verktaki skuli bæta verkkaupa allt það tjón sem hinn síðarnefndi hafi orðið fyrir vegna skiladráttar verktaka.

Skipið hafi ekki verið í slíku ástandi að hægt væri að sjósetja það með öruggum hætti þegar réttindi stefnda til varslna yfir því hefðu verið staðfest með dómi Hæstaréttar í máli 568/2010. Stefnandi hafi ekki heimilað stefnda að láta þriðja aðila framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á skipinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir stefnda þar um. Þess í stað hafi stefnandi krafist þess að hann sjálfur myndi framkvæma viðgerðirnar á því verði sem hann setti upp vegna þess, þrátt fyrir að upplýsingar stefnda bentu til þess að uppsett verð stefnanda væri miklum mun hærra en markaðsverð. Hafi farið svo að aðilar hafi gert með sér samning 8. nóvember 2010 um nauðsynlega suðuvinnu sem stefnandi skyldi framkvæma þannig að hægt yrði að sjósetja skipið og flytja það af athafnasvæði stefnanda. Vegna suðuvinnunnar hafi stefndi greitt kr. 8.000.000,-, en þó með fyrirvara um réttmæti og fjárhæð greiðslunnar, enda talið verkið rúmast innan útboðsverksins og bæri honum því ekki sérstaklega að greiða fyrir það, auk þess sem uppsett fjárhæð stefnanda væri óeðlilega há fyrir vinnuna. Lokagreiðsla vegna suðuvinnunnar hafi farið fram 13. desember 2010.

Stefndi byggir kröfu sína um endurgreiðslu aðallega á því að fyrrgreind suðuvinna hafi fallið undir verksamning aðila og ætti því ekki að greiða sérstaklega fyrir þá vinnu, enda ljóst að loka hefði þurft skipinu áður en verkinu yrði lokið. Þá byggir stefndi jafnframt á því að suðuvinnan hafi einungis komið til sem sérstakt verk, en ekki sem hluti af útboðsverkinu vegna riftunar samningsins í kjölfar vanefnda stefnanda. Kostnaðurinn sé því einungis til kominn vegna vanefndanna og beri stefnanda að endurgreiða hann til stefnda.

Ef talið verði hins vegar að umrædd suðuvinna hafi fallið utan verksamnings aðila, þá byggir stefndi á því að greiðslan hafi verið langt yfir raunkostnaði við umrædda suðuvinnu sem tilgreind er í 1. gr. samningsins og sé krafist endurgreiðslu á því sem ofgreitt var.        

Stefndi byggir á því um endurgreiðslu vegna viðgerðar hliðarfærsluvagns að hér sé um að ræða tjón sem stefnandi sé skaðabótaskyldur fyrir, enda hefði stefndi aldrei orðið fyrir þessum kostnaði ef ekki hefði komið til háttsemi stefnanda.

Stefndi byggir á því að honum hafi ekki borið nein skylda til greiðslu til stefnanda vegna vinnu við endurbyggingu hliðarfærsluvagnsins, enda sé þar um að ræða viðgerð á búnaði stefnanda, en ástand hliðarfærsluvagnsins hafi verið stefnda óviðkomandi að öðru leyti en að hann var nauðsynlegur til flutnings skipsins úr slipp stefnanda og í skipalyftu. Viðgerð stefnanda á hliðarfærsluvagninum, einmitt á þeim tíma sem um ræðir, hafi einungis verið í því skyni að hamla flutningi skipsins frá athafnasvæði hans.

Um rétt stefnda til skaðabóta úr hendi stefnanda byggir stefndi á meginreglum verktakaréttar og reglum kpl. um skaðabætur við riftun vegna greiðsludráttar og galla. Tjón stefnda hafi verið í beinum tengslum við vanefndir stefnanda, en stefnda hafi verið nauðsynlegt að leggja í verulegan kostnað til þess að hægt væri að ljúka viðgerðum skipsins á Akureyri.

Stefndi byggir á því að stefnandi beri bótaábyrgð á tjóni hans skv. 27. og 40. gr. kpl. sem beita megi um verksamninga, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að afhendingardráttur og gallar á verkinu hafi orðið vegna hindrunar sem hann hafi ekki fengið ráðið við. Þá byggir stefndi jafnframt á meginreglum verktakaréttar og undirstöðurökum greina 25.7.4 og 25.7.5 í ÍST 30 þar sem kveðið er á um að verktaki skuli greiða bætur vegna kostnaðarauka sem leiði af því að verkið sé unnið af öðrum og fyrir annað tjón sem verktaki verður fyrir vegna vanefnda verktaka, auk þess sem verkkaupi geti krafist bóta umfram sannanlegan kostnaðarauka ef vanefndir stafi af vísvitandi eða grófri vanrækslu verktaka.

Tjón stefnda sem leitt hafi af riftun hans á verksamningi aðila vegna vanefnda stefnanda sé margvíslegt og lúti það m.a. að vinnu við sjóklárningu skipsins áður en það var fært af athafnasvæði stefnanda, flutning skipsins til Akureyrar, aukinnar aðkomu fulltrúa Lloyd´s á Íslandi og kostnaði við að láta ljúka verkinu á Akureyri.

Um skaðabætur vegna kostnaðar við drátt skipsins frá Akranesi til Akureyrar kveðst stefndi byggja á reikningi útgefnum af Landhelgisgæslunni, dags. 10. janúar 2011 að fjárhæð kr. 6.800.000,- vegna flutnings skipsins Fossár frá Akranesi til Akureyrar þar sem ljúka hafi átt eftirstöðvum verksins en reikningurinn var greiddur þann 14. janúar 2011. Krafa vegna þessa liðar sé skaðabótakrafa enda um að ræða kostnað sem sé tilkominn vegna verulegra vanefnda stefnanda á verksamningi aðila og stefndi hefði ekki orðið fyrir nema vegna skaðabótaskyldrar háttsemi stefnanda.

Stefndi krefst skaðabóta vegna kostnaðar við aukalega aðstoð frá Lloyd´s á Íslandi og byggir um þetta á auknum kostnaði sem stefndi hafi orðið fyrir vegna aðkomu fulltrúa Lloyd‘s á Íslandi við flutning skipsins af athafnasvæði stefnanda, skv. reikningi Lloyd‘s, dags. 10. maí 2011, „vegna vinnu Páls Kristinssonar á tímabilinu 04.11.2010-31.01.2011“, en reikningurinn hafi verið greiddur 16. maí 2011.

                Þá krefst stefndi skaðabóta vegna kostnaðar við að fá þriðja aðila til að ljúka verkinu, honum hafi reynst nauðsynlegt að fá Slippinn á Akureyri, til að ljúka verkinu eftir að verksamningi hans við stefnanda var rift. Kostnaður stefnda vegna þessa hafi verið verulegur, enda ástand skipsins mjög slæmt við komu til Akureyrar.

Þrátt fyrir að hluti kostnaðar vegna verkloka á Akureyri hafi verið tilkominn vegna atriða sem féllu utan útboðslýsingar og stefnandi hafði ekki tekist á hendur að vinna, hafi meginhluti kostnaðarins vegna vinnu sem hefði átt að vinnast af stefnanda samkvæmt útboðslýsingu og aukaverka sem stefnandi hefði tekið að sér. Þá sé verulegur hluti kostnaðarins við vinnuna á Akureyri vegna ástands skipsins við komuna þangað. Krafa stefnda vegna þessa liðar sundurliðast með eftirfarandi hætti:

1) Verkþ.sem hefðu átt að tilheyra upphaflega tilboðinu                         kr. 35.912.835,-

2) Verk sem hefðu ekki þurft að koma til nema vegna flutnings            kr.   3.621.415,-

3) Verk sem voru afl. af því sem var gert á Akranesi án samþ.              kr. 34.141.678,-

Samtals vegna þessa kröfuliðar:                                                                   kr. 73.675.938,-

Stefndi telur ljóst að hér sé um að ræða tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna háttsemi stefnanda, enda sé kostnaðurinn eingöngu tilkomin vegna vanefnda stefnanda.

                Þá gerir stefndi kröfu um skaðabætur vegna kostnaðar við útgáfu bankaábyrgða til handa stefnda en stefnandi hafi neitað að afhenda stefnda skipið eftir að verksamningi aðila var rift. Hafi stefnda reynst nauðsynlegt að leggja fram bankaábyrgðir að fjárhæð annars vegar kr. 100.000.000,- frá Arion banka hf. og hins vegar kr. 35.000.000,- hjá MP banka hf. Kostnaðurinn við útgáfu bankaábyrgðanna sé annars vegar kr. 1.873.000,- vegna ábyrgðarinnar frá Arion banka hf., en kr. 1.400.000,- vegna útgáfu ábyrgðarinnar frá MP banka hf.

Stefndi byggir á því að hér sé um að ræða kostnað sem hann hefði ekki orðið fyrir nema vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnanda.

Samkvæmt verksamningi aðila reiknist sekt sem nem 0,5% af heildarverðmæti samningsins fyrir hvern virkan vinnudag sem afhendingin dregst, verði seinkun á afhendingu umfram eina viku, skv. 3. gr. og 7. gr. Hámark slíkrar greiðslu skuli þó vera 10,0% af heildarverðmæti samningsins.

Veruleg seinkun hafi orðið á verklokum áður en verksamningi aðila var rift og hafi stefndi lýst því yfir við stefnanda að hann áskildi sér rétt til dagsekta vegna seinkunarinnar.

Miðað við að heildarfjárhæð samningsins sé kr. 97.060.507,- séu hámarksdagsektir því 10% af þeirri fjárhæð eða kr. 9.706.051,-. Dagsektir reiknist frá 6. júní og til þess dags sem samningnum var rift, hinn 6. ágúst, og sé því um að ræða 45 virka daga sem leiði til hámarksdagsekta að fjárhæð kr. 9.706.051,- fram til þess tíma er verksamningnum var rift.

Sundurliðun á kröfum stefnanda er eftirfarandi:

1.            Ofgreiðsla samningsverks samkvæmt verksamningi                 kr.   23.836.480,-

2.            Ofgreiðsla reikn. vegna aukaverka gr. með fyrirvara                kr.     3.483.842,-

3.            Ofgreiðsla vegna suðuvinnu á skrokk                                                          kr.     8.000.000,-

4.            Ofgreiðsla vegna viðgerðar hliðarfærslusleða                              kr.     5.000.000,-

5.            Kostnaður vegna dráttar skipsins til Akureyrar                           kr.     6.800.000,-

6.            Kostnaður vegna aukalegrar aðstoðar Lloyd‘s á Íslandi          kr.     2.069.330,-

7.            Kostnaður vegna vinnu Slippsins á Akureyri                                              kr.   73.675.928,-

8.            Kostnaður vegna útgáfu bankaábyrgða                                      kr.     3.273.000,-

9.            Dagsektir vegna seinkunar verkloka                                                             kr.     9.706.051,-

Samtals fjárhæð kröfu:                                                                   kr. 135.826.631,-

Krafa stefnda um dráttarvexti byggir á því að krafist sé dráttarvaxta vegna liðar 1, 2 og 9 frá riftunardegi 6. ágúst 2010. Þá að viðbættum liðum 3 og 4 frá 13. desember 2010, en þá var lokagreiðsla vegna þessara liða innt af hendi. Þá að viðbættum liðum 5 og 6 frá 14. janúar og 16. apríl en þá voru reikningar Landhelgisgæslunnar og Lloyd‘s greiddir. Þá að viðbættum lið 7 frá 31. ágúst 2011, en þá voru síðustu reikningar vegna vinnu Slippsins á Akureyri greiddir. Dráttarvaxta vegna liðs 8 er síðan krafist frá 28. október 2010, 12. janúar 2011, 26. apríl 2011 og 1. júní 2011 þegar greiðslur vegna bankaábyrgðar Arion banka hf. fóru fram og 17. september 2010 þegar greiðsla kostnaðar vegna bankaábyrgðar MP banka hf. fór fram.

Um lagarök er, auk ofangreindra lagaákvæða vísað til meginreglna kaupalaga og meginreglna samninga- og kröfuréttar, sérstaklega um vanefndaúrræði, riftun og rétt til skaðabóta. Vaxtakrafa stefnanda byggir á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Krafa stefnanda um að ekki verði fallist á kröfu stefnda um riftun á verksamningi aðila máls þessa og að stefnandi verið jafnframt sýknaður af öllum fjárkröfum  stefnda byggist á því að tafir á verkinu verði alfarið að skrifast á reikning stefnda í máli þessu og að ekki hafi verið um neinar vanefndir að ræða af hálfu stefnanda. Stefnandi fullyrðir að hann hafi að öllu leyti staðið við verksamning aðila sem gerður var í framhaldi af útboðslýsingu verksins.

Stefndi hafi ekki lagt fram nein marktæk sönnunargögn málsástæðum sínum til stuðnings.

Almennt sé það skilyrði fyrir riftun að gagnaðili hafi vanefnt samning verulega. Í þessu tilviki sé ekki um neinar vanefndir af hálfu stefnanda að ræða og því hafi riftun sú sem lýst var yfir af hálfu stefnda verið ólögmæt. Vísar stefnandi til máls 2 þar sem farið er fram á bætur vegna hinnar ólögmætu riftunar.

Stefnandi mótmælir einnig öllum fjárkröfum stefnanda sem röngum og ósönnuðum.

Hann ber fyrir sig að útboðslýsing stefnda hafi reynst algjörlega ófullnægjandi þegar á reyndi, stefndi hafi ekki staðið við afhendingar á teikningum vegna tilboðsverks á réttum tíma sem orðið hafi til þess að verkinu seinkaði.

Allan verktímann hafi stefnandi stöðugt verið að gera breytingar á samningsverkinu sem kallað hafi á nýjar teikningar sem borist hafi seint og illa til stefnanda. Í þessu sambandi megi nefna að ákveðið hafi verið í byrjun júní 2010 (eftir tillögu Páls hjá Lloyd´s) að láta teikna allt vélarrúmið í þrívíddar-teikniforriti  til að sjá hvernig hægt væri að koma öllum rörakerfunum fyrir. Ástæðan fyrir þessu hafi verið sú að stefndi hefði keypt mikið af nýjum búnaði inn í vélarúm skipsins og nauðsynlegt verið að endurskipuleggja það. 

Stefndi hafi ekki staðið við afhendingar á búnaði vegna aðalverks á réttum tíma sem orðið hafi til þess að verkinu seinkaði. Í 3. gr. verksamningsins komi fram að verktími væri háður því að stefndi stæði tímanlega skil á öllum búnaði sem hann útvegaði. Stefndi hafi ekki staðið við að afhenda búnað á réttum tíma og vanefnt þannig verksamninginn.

Verulegar tafir hafi orðið á samningsverkinu vegna þess að stefndi hafi talið að leyndir gallar  væru í skipinu eftir að skipið var tekið í slipp, í vélarrúmi, vistarverum og á burðarvirki skipsins.

Á verktímanum hafi stefndi óskað eftir því að unnin yrðu 13 aukaverk á föstu verði sem orðið hafi til þess að samningsverkinu seinkaði.

Á verktímanum hafi stefndi óskað eftir því að unnin yrðu 152 aukaverk á tímagjaldi sem haft hafi veruleg áhrif á verktímann.

Um tafir vegna aukaverka á föstu verði eigi allt það sama við er segi um tafir vegna aukaverka á tímagjaldi. Til viðbótar við það fullyrðir stefnandi að beiðni stefnda um 152 aukaverk á tímagjaldi til viðbótar hafi haft veruleg áhrif á verktíma í tilboðsverkinu.

Stefndi hafi  ekki staðið við afhendingu á teikningum vegna aukaverka á réttum tíma og það tafið verkið. Þá hafi hann ekki staðið við afhendingu búnaðar vegna aukaverka á réttum tíma og hafið það tafið það verkið. Hann hafi ekki greitt reikninga vegna aukaverka á réttum tíma og veruleg vanskil hafi myndast vegna þeirra. Stefnandi hafi á verktímanum þurft að leggja mikla vinnu í það með stefnda að skilgreina öll þau aukaverk sem þurft hafi að vinna og hefðu ýmist vantað inn í útboðslýsingu eða komið til vegna þess að stefnandi hafi breytt verkinu verulega eftir að verktíminn hófst. Stefndi hafi sett á vinnustöðvun sem komið hafi í veg fyrir að stefndi gæti unnið í verkinu á samningstímanum og 22. júlí 2010 hafi stefnandi lýst því yfir að hann myndi ekki vinna meira í aukaverkum fyrr en stefndi gerði upp vanskil vegna þeirra. Viku seinna eða 29. júlí 2010 hafi fyrirsvarsmaður stefnda lýst yfir riftun á verksamningi aðila við fyrirsvarsmann stefnanda og krafist þess að allri vinnu yrði hætt við skipið. Verklýsingar í útboðslýsingu hafi verið rangar og hafi það tafið verkið.

Þá koma fram af hálfu stefnanda andsvör við fullyrðingum stefnda um riftun stefnda sem er að finna í máli 2 og ekki þykir nauðsyn á að rekja frekar hér.

Stefnandi mótmælir því að stefndi eigi rétt til endurgreiðslu vegna ofgreiðslu við útboðsverk. Er fjallað um þetta álitaefni í máli 1 í kafla A og vísast til þess sem þar segir.

Stefnandi hafnar kröfu stefnda um að reikningar hafi verið greiddir með fyrirvara enda hafi stefndi ekki haft fyrir því að sýna fram á í hverju sá fyrirvari fólst. Umræddir reikningar séu fyrir verk sem hafi verið umbeðin af stefnanda og sannanlega unnin og á því eigi stefndi enga kröfu um endurgreiðslu á þessum reikningum. Einnig hafnar stefnandi því alfarið að stefndi eigi nokkra kröfu til endurgreiðslu vegna suðuvinnu á skrokk enda sú vinna ekki hluti af verksamningi aðila. Þegar stefndi hefði rift verksamningi aðila á ólögmætan hátt hafi komið upp sú staða að hann hafi getað fengið skipið afhent gegn afhendingu bankaábyrgða að fjárhæð kr. 135.000.000,- sem hann hafi framvísað. Ástand skipsins á þessum tíma hafi hins vegar verið þannig að ekki hafi verið hægt að sjósetja skipið nema með því að gera það sjóklárt. Í þeim tilgangi hafi aðilar gert með sér samkomulag um suðuvinnu á skrokk. Stefndi hafi framkvæmt verkið á réttan hátt og fengið greiddar kr. 8.000.000,- frá stefnanda sem ekki séu afturkræfar enda ekki hluti verksamnings aðila.

Um endurgreiðslu vegna viðgerðar á hliðarfærsluvagni segir stefnandi að þegar stefndi hefði rift verksamningi aðila hafi komið upp sú staða að ekki hafi verið  hægt að ná skipinu út úr skipasmíðastöðinni á þessum tíma nema með viðgerð á hliðarfærsluvagni en viðgerðir og endurbætur hafi staðið yfir á honum hjá stefnanda á þessum tíma.  Sé þessu lýst nákvæmlega í 5. gr. í samningi aðila frá 8. nóv. 2010. Fram komi í samningnum að stefndi hafi verið tilbúinn að greiða kr. 3.000.000,- gegn því að stefnandi myndi flýta viðgerð- og enduruppbyggingunni á hliðarfærsluvagninum. Þessi greiðsla hafi ekki verið innt af hendi af stefnda með neinum fyrirvara um réttmæti hennar heldur hafi stefndi áskilið sér rétt til þess í 2. mgr. 6. gr. samningsins að fá endurskoðun á fjárhæð greiðslunnar og yrði hún talin of há áskildi stefnandi sér rétt til endurgreiðslu þess sem umfram væri.

Stefnandi telur sýnt fram á það að riftun stefnda hafi verið ólögmæt og því eigi stefndi ekki rétt á neinum skaðabótum úr hendi stefnanda vegna reikningsverksins.

Stefnandi hafnar því alfarið að honum beri að greiða reikning vegna flutning skipsins til Akureyrar enda um ólögmæta riftun að ræða og verði stefndi að bera allan kostnað sem af því hlýst.

Stefnandi hafnar því alfarið að honum beri að greiða reikning vegna kostnaðar við aukalega aðstoð frá Lloyd´s á Íslandi enda hafi vinnan komið til vegna þess að stefndi hafi rift samningi sínum á ólögmætan hátt og því séu skilyrði skaðabótaskyldu ekki fyrir hendi.

Stefnandi hafnar því alfarið að honum beri að greiða skaðabætur vegna kostnaðar við að fá þriðja aðila til að ljúka verkinu enda um ólögmæta riftun að ræða og verði stefndi að bera allan kostnað sem af því hlýst.

Stefnandi hafnar því alfarið að honum beri að greiða skaðabætur vegna kostnaðar við útgáfu bankaábyrgða til handa stefnanda enda um ólögmæta riftun að ræða og verði stefndi að bera allan kostnað sem af því hlýst.

Stefnandi hafnar því alfarið að honum beri að greiða dagsektir enda um ólögmæta riftun að ræða.

Stefnandi mótmælir kröfu um dráttarvexti og telur engan grundvöll fyrir henni. Stefnandi hafi ekki verið krafinn um greiðslu á stefnukröfu málsins fyrr en við þingfestingu máls þessa 1. nóvember 2011.

Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

NIÐURSTAÐA.

Hér er um að ræða þrjú mál sem sprottin eru af samskiptum aðila við endursmíði á Fossá ÞH362 samkvæmt verksamningi dags 20.11.2009 og sameinuð voru í eitt mál sem hér er dæmt.

Í máli 1 krefst stefnandi greiðslu reikninga vegna verksins að upphæð kr. 56.546.298.-

Í máli 2 krefst stefndi greiðslu á ýmsum bótaliðum er leiddu af riftunar samnings þann 06.08.2010 samtals að upphæð kr. 21.695.085.-

Í máli 3 sem eru gagnkröfur stefnda krefst stefnandi sýknu af öllum bótakröfum stefnanda og stefndi krefst þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu á kr. 133.826.631.- sem sé ýmis kostnaður sem hlotist hafi af riftun upphaflegs samnings og seinkunar vegna þess.

Þá krefjast báðir aðilar greiðslu á málskostnaði.

Fyrir liggur yfirmatsgerð þriggja dómkvaddra matsmanna og undirmatsgerð tveggja dómkvaddir matsmanna auk álitsgerðar Frímanns Sturlusonar hjá Navis en stefndi óskaði eftir því áliti.

Þetta eru allt heilstæð möt sem taka til allra meginþátta verksins.  Þá liggja einnig fyrir möt á afmörkuðum þáttum í málinu sem ýmist er óskað eftir af stefnanda eða stefnda.

Dómurinn leggur niðurstöður yfirmatsgerðar að mestu leyti til grundvallar í niðurstöðum sínum.  Einnig er litið til undirmats og álitsgerðar Frímanns Sturlusonar (Navis) þegar ekki liggur fyrir niðurstaða í viðkomandi tilviki í yfirmati ef umrædd möt fjalla um slík tilvik.

Í yfirmatsgerð segir m.a. eftirfarandi:

„Strax á fyrstu mánuðum var ljóst að aukaverk vegna verksins yrðu umfangsmikil og langt umfram það sem eðlilegt gat talist“ og einnig:  „Greinilegt var að verkið tafðist verulega vegna þess hve teikningar sem verkkaupi átti að leggja til bárust seint“.

Samkvæmt mati yfirmatsmanna á töfum vegna þessa má reikna með um 24 vikna framlengingu hefði þurft á upphaflega verktíma vegna þessa. Í samningi stefnanda og stefnda er reiknað með 26 vikna verktíma.  Með öðrum orðum hefði verktíminn u.þ.b. tvöfaldast vegna þessa, og verkskil ekki verið í lok maí 2010 heldur í lok nóvember 2010. Enn fremur kemur fram í álitsgerð Frímanns Sturlusonar að hann telji að stefnandi hefði klárað verkið á tilsettum tíma ef aukaverk og breytingar hefðu ekki komið til.

Verður hér því lagt til grundvallar að lengingu verktíma megi í meginatriðum leita til atvika er varða stefnda og telur dómurinn að riftun samnings í byrjun ágúst 2010 hafi verið ólögmæt og kostnaður vegna þessa í gagnkröfu stefnda (mál 3) eigi ekki rétt á sér.

Verður nú fjallað um hin einstöku mál.

A

Um mál 1

Í kafla 5.2.2. í stefnu eru kröfur vegna magnaukningar og fráviks frá verksamningi.

R-27462               Krafa kr.               983.000.-

R-27488               Krafa kr.               3.698.750.-

R-27519               Krafa kr.               454.900.-

R-27526               Krafa kr.               419.500.-

R-27527               Krafa kr.               2.639.200.-

R-27528               Krafa kr.               237.000.-

R-27533               Krafa kr.               562.800.-

R-27530               Krafa kr.               2.305.200.-

R-27531               Krafa kr.               5.197.540.-

5.2.2.     Samtals er krafa stefnanda í þessum lið stefnu að fjárhæð 16.497.890 krónur.

Um reikning R-27462 er það að segja að hann byggir á magnaukningu í frárifi.  Ekki er sýnt fram á annað magn í fyrirliggjandi mötum og dómurinn telur magnaukningu eðlilega vegna hinna miklu breytinga er urðu á verkinu frá útboðsgögnum og verður þessi kröfuliður tekinn til greina.       

Um reikning R-27488 sem er vegna viðbótarstyrkingar vegna þilfarskrana er þess að geta að þessi liður er samþykktur af yfirmatsmönnum og því mati hefur ekki verið hnekkt og er hann því tekinn til greina. Sama máli gegnir um R-27519 færslu stýrisvélar og R-27526 – Lengingu hælstykkis.

Um reikning R-27527 – Brúarsmíði vegna breytinga og R-27528 – Uppgangur til brúar vegna breytinga er á því að byggja að yfirmatsmenn hafa hafnað þessum liðum og hefur því mati þeirra ekki verið hnekkt og þeim því hafnað.

Um reikning R-27533 – Viðbótar öndunarrör er þess að geta að áliti Frímanns Sturlusonar verði þessi liður tekin til greina með 250.000 krónum og tekur dómurinn undir það og verður hann því tekinn til greina með þeirri fjárhæð.

Um reikning R-27530 – Viðbótar sandblástur er þess að geta að þessi liður er samþykktur af yfirmatsmönnum og því mati hefur ekki verið hnekkt og er hann því tekinn til greina.

Um reikning R-27531 – Undirbúningskostnaður vegna viðbótarverka lítur dómurinn svo á að hér sé um að ræða stjórnunarkostnað stefnanda sem hann eigi sjálfur að bera og er þessum kröfulið hafnað.

Niðurstaða um kafla 5.2.2. er því sú að kröfur stefnanda verða teknar til greina með 8.111.350 krónum.

Í kafla 5.2.3. í stefnu er krafa um greiðslur fyrir tilboðsverk á föstu verði.

Sundurliðast þessi krafa þannig:

R-27457               Krafa kr.               866.000.-

R-27459               Krafa kr.               63.000.-

R-27461               Krafa kr.               248.000.-

R-27470               Krafa kr.               7.501.950.-

R-27468               Krafa kr.               1.787.000.-

5.2.3.     Samtals krafa kr.                10.465.950.-

Um reikninga R27457 – Vinna við síðukjöl, 866.000 kr. nr. R-27459 – Lækkun lestarþils 63.000 krónur og R-27461 – Rist fyrir bógskrúfa 248.000 krónur telur dómurinn að fyrir liggi samþykki stefnda og eru þeir teknir til greina.

Um reikning R-27470 – Sandblástur og málun kemur fram í yfirmati að þessi liður sé samþykktur að hluta og engin efni til að hverfa frá því mati og verður þessi liður tekinn til greina með 3.672.500 krónum.

Reikningur R-27468 –Fjarlægja ballest úr stefni 1.787.000 krónur er samþykktur af yfirmatsmönnum og verður það mat þeirra lagt til grundvallar hér og þessi liður því tekinn til greina.

Niðurstaða um kafla 5.2.3. er því sú að kröfur stefnanda verða teknar til greina með 6.636.500 krónum.

Í kafla 5.2.4. í stefnu eru reikningar vegna viðbótarverka á tímagjaldi.

Sundurliðast þessi krafa þannig:

R-27485               Krafa kr.               3.050.022.-

R-27485               Krafa kr.               ÷ 357.285.-

R-27486               Krafa kr.               11.277.751.-

R-27486               Krafa kr.               ÷ 3.721.327.-

R-27487               Krafa kr.               ÷ 122.935.-

R27535 Krafa kr.               4.677.288.-

5.2.4.     Samtals kröfur    14.803.515.-

Um reikning R-27485 – Ýmis viðbótarverk 3.050.022 er þess að geta að hann er samþykktur af yfirmatsmönnum og verður það mat þeirra lagt til grundvallar hér og þessi liður því tekinn til greina.

Reikningur R-27485 – kredit vegna trésmíði ÷ 357.284 krónur er felldur út með breyttri kröfugerð hinn 11. desember sl. og kemur það til lækkunar upphaflegri kröfugerð.

Reikningur R-27486 – Ýmis viðbótarverk. 11.277.751 króna verður tekinn til greina með 8.636.182 krónum með vísan til yfirmats sem ekki hefur verið hnekkt.

Þá voru felldir út í endanlegri kröfugerð reikningur nr. R-27486 ÷3.721.327 og R-27487 ÷122.935 eða samtals ÷ 3.844.262 krónur.

R-27535 – Reikninga vegna efnis sem flutt var til Akureyrar í gámum samkvæmt vitnisburði Björns Samúelssonar eftirlitsmanns verkkaupa að frádregnum reikningi R27461 og R27495  koma út 4.677.288 og að frádregnum 47.165  verður þessi liður samþykktur  4.630.123 kr.

Niðurstaða um kafla 5.2.4. er því sú að kröfur stefnanda verða teknar til greina með 12.114.780 krónum.

Í kafla 5.2.5. í stefnu eru reikningar vegna eftirstöðva verksamnings og vegna stöðugjalda.

R-27476               Krafa                     kr. 4.333.727.-

R-27500               Krafa                     kr. 1.189.850.-

Samtals kröfur                                   kr. 5.523.577.-

Um reikning R-27476 – Vegna eftirstöðva verksamnings er þess að geta að yfirmatsmenn mátu að ólokið væri kr. 15.150.000 af kr. 97.305.507 verksamningi og eftirstöðvar samnings því 82.155.507 kr.    

Stefndi hafði greitt inn á samninginn 87.209.700 kr. Hafði stefndi því greitt umfram samning í aðalverki samkvæmt athugun dómsins þannig að lækka ber þennan lið um ÷ 5.054.193 kr.

Hvað reikning R27500 –vegna stöðugjalda kr. 1.189.850 verðar verður fallist á hann.

Niðurstaða um kafla 5.2.5. er sú að lækka ber heildarkröfu stefnanda um 3.864.343 krónur.

Í kafla 5.2.6. í stefnu eru reikningar vegna stöðu og geymslugjalda.

R-27509               Krafa kr.               2.982.738.-

R-27510               Krafa kr.               2.720.040.-

R-27511               Krafa kr.               2.823.852.-

R-27512               Krafa kr.               728.736.-

5.2.5.     Samtals kröfur kr.              9.255.366.-

Samkvæmt ofangreindum reikningum eru stöðugjöld rúmlega 90.000 kr. á dag en  samkvæmt verksamningi aðila eru stöðugjöld 22.450. kr. á dag og telur dómurinn rétt að miða við þá upphæð.

R-27509 – 27512 alls 102 dagar á 22.450 =               2.289.900 kr.

Verður þessi liður því tekinn til greina með 2.289.900 krónum.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða dómsins í máli 1 eftirfarandi:

Kafli 5.2.2. Magnaukning og frávik, 8.111.350 kr.

Kafli 5.2.3. Tilboðsverk á föstu verði 6.636.500 kr.

Kafli 5.2.4. Viðbótarverk á tímagjaldi, 12.114.780 kr.

Kafli 5.2.5. Eftirstöðvar verksamning og stöðugjald, ÷ 3.864.343 kr.

Kafli 5.2.6. Stöðugjöld og geymslugjald, 2.289.900 kr.

Kröfur í þessum hluta málsins sem stefnda verður gert að greiða stefnanda nema samtals 25.288.873 kr.

B

Mál 2

Eins og áður segir er bótakrafa stefnanda í máli 2. kr. 21.737.085.- krafa þessi er þannig sundurliðuð.

a)            Endurbótakrafa vegna ólögmætra riftunar 10.380.370 kr.

b)            Bótakrafa vegna galla í útboðslýsingu, breytinga ofl. 3.251.275 kr.

c)            Bótakrafa vegna aukinnar vinnu yfirmanna stefnanda  8.063.440 kr.

Samtals eru kröfur stefnanda 21.695.085 krónur.

a)     Endurbótakrafa vegna ólögmætra riftunar. 

Það er mat yfirmatsmanna að eftirstöðvar samnings séu kr. 15.150.000.- og verður á því byggt hér enda ekki gögnum fyrir að fara sem hnekkja því mati.

Yfirmatsmenn telja að ætluð framlegð vegna tilboðsverks sé 10-15% og telur dómurinn að miða beri við 12,5%.

a)1         Dómurinn reiknar því framlegðarmissi aðalverks: 12,5% x 15.150.000= 1.893.750 kr.

a)2         Endurbætur vegna aukaverka á tilboðsverði, þetta var krafa vegna eftirstöðvar samnings stefnda við Runólf B. Jósefsson sem stefnandi felldi út úr málinu  og því ekki efni til að fjalla frekar um það.

a)3         Þá er í þessum lið efndabætur vegna viðbótaverk á tímagjaldi sem beðið hafði verið um en ekki unnin   

Yfirmatsmenn telja vafasamt að fara fram á bætur fyrir viðbótaverk sem beðið hafði verið um en ekki unnin. Tekur dómurinn undir það sjónarmið og er þessum lið því hafnað.

Krafa í a lið er því tekin til greina með 1.893.750 krónum.

b)            Bótakrafa vegna galla í útboðslýsingu, breytinga ofl. 

Að mati yfirmatsmanna hefur stefnandi sannanlega orðið fyrir tjóni vegna þessara atriða, en taka ekki afstöðu til tjónsins vegna ákvæðis í grein 11 í samningi aðila. 

Dómurinn tekur undir álit yfirmatsmanna um tjón stefnda og telur bótakröfur stefnanda vegna þessa sanngjarna, þar eð allt skipulag vinnu raskaðist verulega vegna þessa og er fallist á þennan kröfulið sem nemur 3.251.275 krónum.

c)            Bótakrafa vegna aukinnar vinnu stjórnenda stefnda. 

Yfirmatsmenn gera ekki athugasemd við tíma eða kostnað sem nefnd er í þessari kröfu en telur það verksvið dómstóla hvort umrædd krafa eigi rétt á sér.

Dómurinn álitur að umrædd krafa eigi ekki rétt á sér þar sem þessi kostnaður sé stjórnarkostnaður stefnanda og eigi að vera innifalinn í gjaldtöku hans á einstökum reikningum er þessum kröfulið því hafnað.

Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins í máli 2 eftirfarandi:

               Liður a) Endurbótakrafa vegna ólögmætra riftunar, 1.893.750 kr.

               Liður b) Bótakröfur vegna galla í útboðslýsingu ofl. 3.251.275 kr.

               Liður c) Bótakröfum vegna aukinnar vinnu stjórnenda er hafnað

Kröfur í þessum hluta málsins sem stefnda verður gert að greiða stefnanda nema samtals 5.145.025 kr.

C

Mál 3

Eins og áður segir er bótakrafa stefnda í máli 3. kr. 133.826.631.-

krafa þessi sundurliðast þannig.

1.            Ofgreiðsla samningsverks samkvæmt verksamningi                 23.836.480 kr.

2.            Ofgreiðsla reikning vegna aukaverka gr. með fyrirvara            3.483.842 kr.

3.            Ofgreiðsla vegna suðuvinnu á skrokk                                           8.000.000 kr.

4.            Ofgreiðsla vegna hliðarfærslusleða                                                3.000.000 kr.

5.            Kostnaður vegna dráttar skips til Akureyrar                                6.800.000 kr.

6.            Kostnaður vegna aukalegrar aðstoðar Loyds á Íslandi            2.069.330 kr.

7.            Kostnaður vegna vinnu Slippsins á Akureyri                                              73.675.928 kr.

8.            Kostnaður vegna útgáfu bankaábyrgðar                                     3.273.000 kr.

9.            Dagsektir vegna seinkunnar verkloka                                                          9.706.051 kr.

               Mál 3 samtals kröfur stefnda                                                         133.826.631 kr.

Eins og áður  segir þá styðst dómurinn að mestu við niðurstöður yfirmatsgerðar í niðurstöðum sínum, en þar meta yfirmatsmenn meðal annars að verktími hefði u.þ.b. átt að tvöfaldast vegna aukaverka, breytinga og skorts á teikningum sem stefndi átti að standa skil á. 

Þá er einnig rétt að árétta þá niðurstöðu Frímanns Sturlusonar (Navis) í álitsgerð hans að hann telur að stefnandi hefði lokið verkinu á tilsettum tíma ef breytingar og viðbótarverk hefðu ekki komið til.

Þá telja yfirmatsmenn að verkbeiðnir vegna aukaverka undirritaðar af eftirlitsmanni Stefnda Birni Samúelssyni séu bindandi fyrir stefnda og gerð þeirra sé a.m.k. jafn góð og tíðkast í sambærilegum verkum.

Þetta kom einnig fram í vætti undirmatsmannsins Stefáns Sigurðssonar en hann er framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur og því reyndur á þessu sviði.

Af ofangreindum ástæðum var riftun á samningi stefnanda og stefnda ólögmæt að mati dómsins svo sem áður segir.

Um einstaka þætti í kröfugerð stefnda er eftirfarandi að segja.

Liður 1   Ofgreiðsla samningsverks.

Þessi liður er afgreiddur í máli 1, kafla 5.2.5. í samræmi við yfirmatsgerð.  Því ekki ofgreitt hér og þessum kröfulið því hafnað.

Liður 2                  Ofgreiðsla reikninga greidda með fyrirvara.

Þessi liður er afgreiddur í máli 1 í samræmi við niðurstöður í yfirmatsgerð, því ekki ofgreitt hér og þessum kröfulið hafnað.               

Liður 3                  Ofgreiðsla vegna suðuvinnu á skrokk.

Liður þessi er tilkominn vegna samnings sem stefndi og stefnandi gerðu með sér 8. nóvember 2010 um að gera skipið sjóklárt eftir hina ólögmætu riftun í byrjun ágúst 2010.  Samningur um þetta atriði milli aðila liggur fyrir og dómurinn telur stefnda bundinn af honum og er kröfulið þessum hafnað.

Liður 4                  Ofgreiðsla vegna hliðarfærslusleða.

Stefnandi og stefndi gerðu með sér samkomulag dagsett 8. nóvember 2010.  Enda þótt þetta sé búnaður stefnanda segir í yfirmati að sá samningur skuli standa og telur dómurinn engin efni til að hnekkja þeirri niðurstöðu.  Rétt er þó að taka fram að stefnandi lækkaði samningsupphæðina úr 5.000.000 kr. í 3.000.000 kr.  

Niðurstaða dómsins er því sú að krafan er ekki samþykkt     

Liðir 5-9 til            Allir liðirnir eru vegna ólögmætrar riftunar á samningi stefnda og stefnanda frá 20. nóvember 2009.  Verður því kröfuliðum þessum hafnað.

Í liðum 1 og 2 er að hluta til tekið tillit til þeirra krafna í máli 1, en að öðru leiti eru kröfuliðum stefnda hafnað og þeir ekki teknir til greina í þessum þætti málsins.        

D

Samkvæmt öllu framasögðu er heildarniðurstaða í málum 1, 2, og 3 sem hér segir.

Mál 1     Stefndi greiði stefnanda    25.288.873 kr.

Mál 2     Stefndi greiði stefnanda    5.145.025 kr.

Mál 3     Stefnandi greiði stefnda    0 kr.

Samtals greiði stefndi Þörungaverksmiðjan hf. stefnanda Þorgeiri og Ellert hf. Því 30.433.898 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi Þörungaverksmiðjan hf. dæmd til að greiða stefnanda Þorgeir og Ellert hf. 18.000.000 króna í málskostnað.

Allan Vagn Magnússon dómstjóri, Sævar Birgisson skipatæknifræðingur og Vífill Oddsson verkfræðingur kveða upp þennan dóm.

DÓMSORÐ

Stefndi Þörungaverksmiðjan hf. greiði stefnanda Þorgeiri og Ellert hf. 30.433.898 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af  25.288.873 krónum frá 21. júní 2011 en af 30.433.898 krónum frá 18. nóvember 2011 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 18.000.000 króna í málskostnað.