Hæstiréttur íslands
Mál nr. 444/2012
Lykilorð
- Dómari
- Vanhæfi
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 21. febrúar 2013. |
|
Nr. 444/2012.
|
Sigurður Skjaldberg (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Vífilfelli hf. og Aroni Arnbjörnssyni (Kristín Edwald hrl.) |
Dómarar. Vanhæfi. Ómerking héraðsdóms.
Með vísan til f. liðar, sbr. d. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný, þar sem dómsformaður í héraði var mægður einum þriggja yfirmatsmanna að öðrum lið til hliðar og því vanhæfur til að fara með málið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2012. Hann beinir kröfu sinni aðallega að stefndu Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Vífilfelli hf. og krefst þess aðallega að þeim verði óskipt gert að greiða sér 2.942.027 krónur með 4,5% ársvöxtum af 227.790 krónum frá 15. júlí 2001 til 22. nóvember 2008 og með sömu vöxtum af 2.942.027 krónum frá þeim degi til 18. janúar 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 2.576.712 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu.
Til vara beinir áfrýjandi sömu aðalkröfu með sömu vöxtum og áður greinir að stefndu Aroni Arnbjörnssyni og Vífilfelli hf. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er dómari vanhæfur til að fara með mál ef svo stendur á sem þar segir í stafliðum a. til g. Í málinu liggur fyrir yfirmatsgerð 22. nóvember 2008, sem lögð er til grundvallar kröfu áfrýjanda um skaðabætur úr hendi stefndu. Dómsformaður í héraði tengist einum þriggja yfirmatsmanna, Páli Sigurðssyni prófessor, samkvæmt f. lið fyrrnefndrar lagagreinar, sbr. d. lið hennar, en dómsformaður er mægður yfirmatsmanninum að öðrum lið til hliðar. Með því að dómsformaður var samkvæmt þessu vanhæfur til að fara með málið verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.