Hæstiréttur íslands

Mál nr. 333/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Laun


Þriðjudaginn 21. júní 2011.

Nr. 333/2011.

Landsbanki Íslands hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Steinþóri Gunnarssyni

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð. Laun.

L hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hluti kröfu S var viðurkenndur sem almenn krafa við slitameðferð L hf. S mun hafa verið ráðinn til starfa hjá L hf. í apríl 2003 en skriflegur ráðningarsamningur var gerður við hann 12. maí sama ár og gegndi hann starfi forstöðumanns verðbréfamiðlunar þar til honum var sagt upp 24. október 2008. S lýsti kröfu við slit L hf. og krafðist annars vegar greiðslu sem hann taldi stafa af kaupréttarsamningi milli aðila 21. apríl 2003 og hins vegar krafðist hann kaupauka samkvæmt tveimur ódagsettum samningum. Hvað varðar þann hluta kröfu S sem stafaði af kaupréttarsamningnum sagði í dómi Hæstaréttar að samkvæmt skýru orðalagi samningsins væri efni hans það að veita S rétt á að kaupa hlutabréf gegn tilteknu gjaldi. Hann kvæði þannig á um hlutabréfaviðskipti en ekki peningagreiðslu frá L hf. til S. Taldi Hæstiréttur að S hefði ekki sýnt fram á að venja hefði skapast á annan veg við nýtingu kaupréttar en þann er samningur S gerði ráð fyrir. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar hafnaði Hæstiréttur þessum hluta kröfunnar. Hvað varðaði þann hluta kröfu S sem stafaði af kaupaukasamningum aðila bar L hf. fyrir sig að S hefði ekki tilkynnt skriflega að hann óskaði eftir að nýta rétt sinn til kaupauka. S hélt því fram að hann hefði ítrekað tilkynnt munnlega um nýtingu hans. Í dómi Hæstaréttar sagði að S hefði ekki beint skriflegri yfirlýsingu til L hf. um að hann óskaði eftir að nýta kaupaukann svo sem honum bar að gera samkvæmt samningum aðila og engin skýring væri komin fram á því hvers vegna hann lét það undir höfuð leggjast. Engu að síður væri í ljós leitt að S hefði munnlega borið upp við L hf. ósk um að nýta kaupaukann á því 90 daga tímabili eftir 1. desember 2007 sem máli skipti. Hvaða dag það var væri á hinn bóginn ósannað. Samkvæmt samningum aðila skyldi ákveða virði kaupauka S miðað við gengi hlutabréfa á tilteknum degi þegar ósk starfsmanns lægi fyrir. Viðmiðun við gengi hlutabréfa 3. desember 2007 hefði ekki stoð og ekki væri heldur í ljós leitt að miða bæri við gengi hlutabréfa einhvern annan tiltekinn dag öðrum fremur. S hefði ekki virt ákvæði samninganna um skriflega og sannanlega tilkynningu og væri því ekki unnt að ákveða virði kaupaukans miðað við tiltekið gengi hlutabréfa í L hf. Hafnaði Hæstiréttur því einnig þessum hluta kröfu hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson  og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2011 þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 295.735.849 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. desember 2007 til 22. apríl 2008, var viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 17. maí 2011. Varnaraðili krefst þess aðallega að krafa hans samkvæmt kröfulýsingu 7. október 2009, annars vegar að höfuðstól 51.045.000 krónur, að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. desember 2007 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 19.312.225 krónur og hins vegar að höfuðstól 295.735.849 krónur að viðbættum dráttarvöxtum frá 3. desember 2007 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 111.887.891 króna verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Til vara krefst varnaraðili þess að framangreindri kröfu verði skipað í flokk almennra krafna samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

I

Varnaraðili mun hafa verið ráðinn til starfa hjá sóknaraðila í apríl 2003, en skriflegur ráðningarsamningur var gerður við hann 12. maí sama ár. Gegndi hann starfi forstöðumanns verðbréfamiðlunar þar til skilanefnd, sem þá hafði tekið við stjórn bankans, sagði honum upp starfi 24. október 2008. Voru honum greidd laun til loka umsamins uppsagnafrests sem var 6 mánuðir.

Sóknaraðila var skipuð slitastjórn 29. apríl 2009 sem gaf út innköllun til kröfuhafa degi síðar. Varnaraðili lýsti kröfu, sem hann kveður leiða af umsömdum starfskjörum hjá sóknaraðila, en sé af tvennum toga. Í fyrsta lagi krefst hann greiðslu, sem stafi af samningi milli aðilanna um kauprétt varnaraðila á hlutabréfum í sóknaraðila, en sá hluti kröfunnar nemur 51.045.000 krónum með nánar tilgreindum vöxtum. Í annan stað krefst hann kaupauka, sem einnig leiði af samningum aðilanna, en sá hluti kröfunnar nemur 295.735.849 krónum auk vaxta. Þá var þess krafist að allri kröfunni verði við slit sóknaraðila skipað í réttindaröð sem forgangskröfu samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Í hinum kærða úrskurði var hafnað þeim hluta kröfunnar, sem stafar af kaupréttarsamningi, en fallist á þann hluta, sem rakinn er til samninga um kaupauka og var honum skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Báðir málsaðilar krefjast endurskoðunar hins kærða úrskurðar eins og að framan greinir.

II

Í úrskurði héraðsdóms eru tekin upp orðrétt þau ákvæði kaupréttarsamnings aðilanna 21. apríl 2003, sem hér reynir á. Var komist að þeirri niðurstöðu að samkvæmt þeim hafi varnaraðili öðlast rétt til að kaupa ákveðinn fjölda hluta í sóknaraðila á tilteknu gengi og að sá réttur hafi fyrst orðið virkur 1. desember 2006 og síðan aftur á sama tímamarki á árunum 2007 og 2008. Sóknaraðili hafi einungis verið skuldbundinn til að afhenda varnaraðila hlutabréf gegn greiðslu, en af samningnum yrði ekki ráðið að varnaraðili ætti beina fjárkröfu á hendur sóknaraðila. Þá var einnig byggt á skýrslu Atla Atlasonar fyrir dómi, en hann var áður framkvæmdastjóri starfsmannasviðs sóknaraðila og kom fram fyrir hans hönd gagnvart varnaraðila og fleiri starfsmönnum við framkvæmd samninga um kauprétt og kaupauka.

Varnaraðili telur skipta máli að kveðið hafi verið á um kaupréttinn í ráðningarsamningi hans, en í 6. gr. samningsins segi að samhliða honum muni sóknaraðili gera kaupréttarsamning við varnaraðila um rétt til að kaupa 7.500.000 hluti nafnverðs á næstu 5 árum, sem nánar verði útfært í þeim samningi. Í kæru til Hæstaréttar leggur varnaraðili áherslu á hvernig staðið hafi verið að uppgjöri þess hluta kaupréttarins, sem varð virkur 1. desember 2006, en þá hafi hann getað leyst 60% kaupréttarins til sín í 90 daga. Hann hafi tilkynnt sóknaraðila um nýtingu kaupréttarins 27. febrúar 2007 og mánuði síðar verið gengið frá uppgjöri. Í þeim áfanga hafi kauprétturinn tekið til 4.500.000 hluta á genginu 3,12 að teknu tilliti til arðs, sem varnaraðili hafði notið á þeim tíma sem hann vann sér inn kaupréttinn, og kaupverð hlutanna verið 14.040.000 krónur. Varnaraðili hafi falið sóknaraðila að selja alla hlutina og söluverð orðið 143.100.000 krónur. Þá fjárhæð hafi sóknaraðili greitt inn á bankareikning varnaraðila að frádregnum áðurnefndum 14.040.000 krónum. Þessi aðferð skýri þann rétt, sem í kaupréttinum hafi falist, en sama aðferð hafi verið viðhöfð gagnvart fleiri starfsmönnum sóknaraðila, sem innleystu kauprétt sinn á sama tíma. Við úrlausn um þann hluta kröfu varnaraðila, sem reistur sé á kaupréttarsamningi, beri að leggja þessa skýringu á honum til grundvallar.

Sóknaraðili mótmælir að venja hafi myndast fyrir því að hann gerði kauprétti almennt upp með peningagreiðslu til kaupréttarhafa, sem svarað hafi til mismunar á grunnverði hluta samkvæmt kaupréttarsamningum og gangverði þeirra í kauphöll við nýtingu kaupréttarins. Enga stoð sé heldur að finna fyrir þeirri aðferð í samningi aðila. Varnaraðili hafi sérstaklega óskað þess við sóknaraðila að hann hefði milligöngu um að þau hlutabréf, sem sá fyrrnefndi eignaðist í mars 2007, yrðu seld. Sú framkvæmd hafi verið óháð kauprétti varnaraðila, enda ráði kaupréttarhafi sjálfur eðli máls samkvæmt hvort hann eigi áfram þau hlutabréf, sem hann kaupi á grundvelli kaupréttar, eða selji þau á almennum markaði. Sóknaraðili vísar jafnframt til skýrslu Atla Atlasonar fyrir dómi, en af framburði hans verði ráðið að uppgjör kaupréttar hafi almennt farið fram með hlutabréfaviðskiptum í samræmi við efni kaupréttarsamninga en ekki með afhendingu peninga frá sóknaraðila.

Samkvæmt skýru orðalagi áðurnefnds kaupréttarsamnings málsaðila er efni hans það að veita varnaraðila rétt á að kaupa hlutabréf gegn tilteknu gjaldi. Hann kveður þannig á um hlutabréfaviðskipti en ekki peningagreiðslu frá sóknaraðila til varnaraðila, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 5. apríl 2011 í máli nr. 122/2011. Í tilkynningu varnaraðila um nýtingu kaupréttar 27. febrúar 2007 óskaði hann þess að hlutabréfin yrðu færð á VS-reikning hans hjá sóknaraðila. Jafnframt liggur fyrir beiðni hans 30. mars 2007 um að sóknaraðili hefði milligöngu um hlutabréfaviðskipti vegna nýtingar kaupréttar, en hlutabréf sem skuli selja, séu á VS-reikningi varnaraðila hjá sóknaraðila. Sá fyrrnefndi hefur ekki sýnt fram á að venja hafi skapast á annan veg, sem úrslit málsins eigi að ráðast af, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er hafnað þeim hluta kröfu varnaraðila, sem reistur er á kaupréttarsamningi aðilanna.

III

Annar hluti kröfu varnaraðila er reistur á tveimur ódagsettum samningum um kaupauka, sem gerðir voru á stöðluðu formi þar sem varnaraðili var nefndur „starfsmaður“. Í öðrum þeirra segir í 2. gr. að réttur til kaupauka sé miðaður við ávöxtun starfsmanns af 5.000.000 hlutum í sóknaraðila miðað við upphafsverð 4,12 krónur á hlut og gengi hlutabréfa í félaginu 23. apríl 2003, en í hinum er miðað við ávöxtun starfsmanna af 15.000.000 hlutum í sóknaraðila og upphafsverð 7 krónur á hlut og gengi hlutabréfa 11. febrúar 2004. Í fyrrnefnda samningnum segir jafnframt að 1. desember 2006 sé starfsmanni heimilt að óska eftir að fá 60% af kaupaukarétti sínum greiddan með reiðufé og hefði hann 90 daga til að tilkynna félaginu á sannanlegan hátt um nýtingu kaupaukans, en ella teldist heimildin fallin niður. Að öðru leyti verði kaupaukarétturinn virkur á sama tímamarki 2007 og 2008, 20% í hvort sinn. Þá skuli við útreikning á kaupaukarétti starfsmanns miðað við gengi hlutabréfa í sóknaraðila þann dag sem starfsmaður tilkynnti um nýtingu kaupaukans og hafi sóknaraðili allt að 10 virka daga til að ganga frá greiðslu frá því skrifleg beiðni starfsmanns um hana lægi fyrir. Samhljóða ákvæði eru í hinum kaupaukasamningnum að því undanskildu að miðað var við að starfsmanni væri fyrst heimilt að nýta rétt sinn 1. desember 2007, en að öðru leyti 2008 og 2009.

Sóknaraðili ber meðal annars fyrir sig að varnaraðili hafi ekki tilkynnt skriflega að hann óskaði eftir að nýta rétt sinn til kaupauka. Sá réttur hafi því fallið niður að liðnum 90 dögum frá því að hann gat fyrst lýst kröfu sinni 1. desember 2007. Í 1. gr. samninganna sé áréttað að öll skilyrði þurfi að vera uppfyllt af hálfu starfsmanns til þess að honum sé heimilt að fá greiddan kaupaukann. Í samningunum sé gerð ákveðin formkrafa um skriflega tilkynningu starfsmanns sem hann hafi ekki hirt um. Það hljóti að leiða til þeirrar niðurstöðu að réttur hans hafi þar með fallið niður.

Í skýrslu varnaraðila fyrir dómi gat hann þess að hann hefði tilkynnt munnlega um nýtingu kaupaukans og að það hafi „verið 1. desember alveg 100% og síðan sko í óteljandi samtölum þar á eftir við Atla Atlason.“ Sá síðastnefndi kannaðist við að varnaraðili hefði óskað þess að innleysa kaupauka og að þeir hafi átt ítrekuð samskipti af því tilefni og vegna þessa réttar varnaraðila. Sóknaraðili hafi á hinn bóginn viljað fresta framkvæmd þessara samninga. Varnaraðili hafi fyrst borið þetta upp í samtali í nóvember 2007 og ítrekað ósk sína í nokkrum samtölum eftir það, en dagsetningar þessara samtala gæti hann ekki munað. Þá kveðst vitnið hafa í byrjun árs 2009 reiknað út fyrir varnaraðila virði kaupaukans að gefnum ákveðnum forsendum og miðað við gengi hlutabréfa 3. desember 2007, en það hafi verið fyrsti dagurinn sem unnt hafi verið að nýta kaupaukann.

Varnaraðili beindi ekki skriflegri yfirlýsingu til sóknaraðila um að hann óskaði eftir að nýta kaupaukann svo sem honum bar að gera samkvæmt samningum aðila og engin skýring er fram komin á því hvers vegna hann lét það undir höfuð leggjast. Að því virtu, sem að framan greinir, er eigi að síður í ljós leitt að hann hafi munnlega borið upp við sóknaraðila ósk um að nýta kaupaukann á því 90 daga tímabili eftir 1. desember 2007, sem máli skiptir. Hvaða dag það var er á hinn bóginn ósannað og varnaraðili hafði ekki heimild til að gera slíka kröfu í nóvember 2007. Samkvæmt samningum aðila skyldi ákveða virði kaupauka varnaraðila miðað við gengi hlutabréfa á tilteknum degi þegar skrifleg ósk starfsmanns lægi fyrir. Á því þriggja mánaða tímabili, sem um ræðir, var gengi hlutabréfa í sóknaraðila ekki stöðugt og fór lækkandi. Verður fallist á með sóknaraðila að viðmiðun varnaraðila við gengi hlutabréfa 3. desember 2007 hafi ekki stoð og er heldur ekki í ljós leitt að miða beri við gengi hlutabréfa í sóknaraðila einhvern annan tiltekinn dag á um ræddu tímabili öðrum fremur. Áður var þess getið að samkvæmt 1. gr. samninganna um kaupauka hafi öll skilyrði þeirra þurft að vera uppfyllt svo starfsmanni væri heimilt að nýta rétt samkvæmt þeim. Varnaraðili virti ekki ákvæði þeirra um skriflega og sannanlega tilkynningu og er því ekki unnt að ákveða virði kaupaukans miðað við tiltekið gengi hlutabréfa í sóknaraðila. Samkvæmt öllu framansögðu verður hafnað þeim lið í kröfu hans, sem hann leiðir af samningum aðilanna um rétt til kaupauka.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

 Hafnað er viðurkenningu á kröfu varnaraðila, Steinþórs Gunnarssonar, að fjárhæð 51.045.000 krónur og 295.735.849 krónur ásamt vöxtum við slit sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 12. apríl sl., var þingfest 28. júní 2010.

Sóknaraðili er Steinþór Gunnarsson, Bollagörðum 14, Seltjarnarnesi.

Varnaraðili er Landsbanki Íslands, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfur hans annars vegar að fjárhæð 51.045.000 krónur að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. desember 2007 til 22. apríl 2008 að fjárhæð 19.312.225 krónur og hins vegar að höfuðstól 295.735.849 krónur að viðbættum dráttarvöxtum frá 3. desember 2007 til 22. apríl 2008 að fjárhæð 111.887.891 króna verði samþykktar sem forgangskröfur í slitabú varnaraðila samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Til vara er þess krafist að framangreindar kröfur verði samþykktar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

Málsatvik

Hinn 7. október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði, vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. til að taka yfir starfsemi Landsbanka Íslands hf.

Skipaði Fjármálaeftirlitið þá skilanefnd til að taka við stjórn bankans. Því næst var Nýi Landsbankinn hf. stofnaður (nú NBI hf.) og voru innlendar inneignir Landsbanka Íslands hf. sem og helstu eignir hans sem tengdust innlendri starfsemi hans fluttar yfir til nýja bankans.

Lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki tóku gildi 22. apríl 2009. Hinn 29. apríl 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn fyrir varnaraðila samkvæmt skriflegri beiðni skilanefndar. Slitastjórn gaf út innköllun til kröfuhafa 30. apríl 2009, sem birtist í Lögbirtingablaði sama dag. Sóknaraðili lýsti annars vegar kröfu að höfuðstólsfjárhæð 295.735.849 krónur, sbr. kröfu nr. 1299 í kröfuskrá og hins vegar kröfu að höfuðstólsfjárhæð 51.045.000, sbr. kröfu nr. 1369 í kröfuskrá. Í kröfulýsingu var um rétthæð krafnanna vísað til 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Slitastjórn varnaraðila hafnaði framangreindum kröfum sóknaraðila. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar krafnanna með bréfi frá 19. febrúar 2010 og var haldinn fundur 20. apríl 2010 vegna ágreinings um afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar krafna sóknaraðila. Ekki tókst að jafna ágreining á fundinum og ákvað því slitastjórn, í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. beina ágreiningsefninu til dómsins eftir ákvæðum 171. gr. laganna.

Krafa sóknaraðila byggir á kaupaukasamningum og kaupréttarsamningi milli aðila, en sóknaraðili gegndi starfi forstöðumanns verðbréfamiðlunar hjá varnaraðila. Samkvæmt 3. gr. ráðningarsamnings sem gerður var við sóknaraðila 12. maí 2003, skyldu föst mánaðarlaun hans vera 950.000 krónur, en auk þess skyldi kaupauki greiddur mánaðarlega. Grunnur að kaupauka voru heildartekjur sviðsins að frádregnum föstum kostnaði. Í 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings segir: Myndaður er sameiginlegur kaupaukapottur þar sem lagt er 10% af heildartekjum að frádregnum föstum kostnaði. Úthlutað er úr þeim kaupaukapotti af forstöðumanni verðbréfamiðlunar, starfsmannastjóra og framkvæmdastjóra Verðbréfasviðs.  Hámark kaupauka skal nema tvöföldum árslaunum, þannig að heildarlaun geta numið að hámarki þreföldum árslaunum. Í 6. gr. ráðningarsamnings aðila segir: Bankinn mun samhliða þessum samningi gera kaupréttarsamning við starfsmanninn um rétt til að kaupa 7.500.000.- hluti nafnverðs á næstu 5 árum skv. nánari útfærslu í sérstökum kaupréttarsamningi.

Hinn 23. apríl 2003 og 11. febrúar 2004 voru gerðir kaupaukasamningar við sóknaraðila. Samkvæmt samningnum frá 23. apríl 2003 hafði sóknaraðili hinn 1. desember 2007,  heimild til þess að óska eftir að fá 20% af kaupaukarétti sínum greidd með reiðufé frá Landsbanka Íslands, en samkvæmt samningnum frá 11. febrúar 2004 hafði sóknaraðili heimild til þess að óska eftir að fá 60% af kaupaukarétti sínum greidd með reiðufé. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. kaupaukasamninganna skal starfsmaður sem hyggst nýta sér réttindi samkvæmt samningnum tilkynna félaginu um að hann óski eftir að fá greiddan kaupaukarétt sinn. Á þeim degi er starfsmaður hafi heimild til nýtingar kaupaukaréttar hafi hann 90 daga til þess að tilkynna félaginu á sannanlegan hátt um nýtingu kaupaukaréttar. Tilkynni starfsmaður ekki um nýtingu kaupaukaréttar innan 90 daga frestsins telst heimild til nýtingar á kaupaukarétti fallin niður.

Í kaupréttarsamningi aðila frá 21. apríl 2003 segir í 1. gr: Félagið skuldbindur sig til þess að afhenda starfsmanni kauprétt til þess að kaupa þau hlutabréf sem honum standa til boða og koma fram í 2. gr. samningsins á því verði er fram koma í 2. gr. samningsins. Þá segir í 2. gr. samningsins: Heildarkaupréttur samkvæmt samningi þessum eru 7.500.000 hlutir í Landsbanka Íslands og ákvarðast kaupverð samkvæmt samningnum 4,12 pr. hlut, miðað við dagsetningu samningsins…

Í 4. mgr. 2. gr. samningsins segir: Þann 1. desember 2006, þegar heildarkaupréttur samkvæmt samningi þessum er orðinn áunninn, er starfsmanni heimilt að nýta sér 60% af kauprétti sínum. Það sem eftir er af áunnum kauprétti skal starfsmanni vera heimilt að nýta sér 1. desember 2007 og 1. desember 2008 og er heimil nýting 20% af heildarkauprétti í hvort sinn. Starfsmaður nýtir sér kauprétt sinn með því að tilkynna félaginu um hve mikinn kauprétt hann vill nýta. Á þeim degi er starfsmaður hefur heimild til nýtingar kaupréttar hefur hann 90 daga til þess að tilkynna félaginu á sannanlegan hátt um nýtingu þess kaupréttar sem hann hefur áunnið sér og hann má nýta. Með tilkynningum um nýtingu kaupréttar skal fylgja full greiðsla fyrir þau hlutabréf sem starfsmaður vill kaupa. Starfsmanni er heimilt að greiða innlausnarverðið með peningum, með veðskuldabréfi til 3ja ára, með reiborvöxtum að viðbættum 1% vöxtum, eða með hlutabréfum sem kaupréttur samkvæmt samningi þessum hefur tekið til… Tilkynni starfsmaður ekki um nýtingu kaupréttar innan 90 daga frestsins telst heimild til nýtingar á kauprétti fallin niður og áunninn kaupréttur sem nemur sömu fjárhæð telst einnig fallinn niður…

Með tilkynningu til varnaraðila dagsettri 27. febrúar 2007 tilkynnti sóknaraðili um nýtingu áunnins kaupréttar síns vegna desember 2006 til febrúar 2007, að 4.500.000 hlutum í Landsbanka Íslands á kaupverðinu 4,12 pr. hlut, að teknu tilliti til lækkunar vegna útgreidds arðs varnaraðila um 0,01 kr. pr. hlut.

 Atli Atlason framkvæmdastjóri starfsmannasviðs, staðfesti með undirritun sinni móttöku þessarar tilkynningar. Í tilkynningunni var þess óskað að hlutabréf yrðu færð á VS reikning sóknaraðila í Landsbanka Íslands á innlausnardegi og skuldbatt sóknaraðili sig til þess að greiða kaupverð bréfanna sama dag. Í tilkynningu þessari segir að áritun framkvæmdastjóra starfsmannastjóra starfsmannasviðs á afrit bréfsins teljist fullnægjandi sönnun um tilkynningu um nýtingu kaupréttar samkvæmt 2. gr. tilvitnaðs kaupréttarsamnings. Ekki liggur fyrir samsvarandi skrifleg tilkynning vegna heimildar til nýtingar áunnins kaupréttar 1. desember 2007.

Ágreiningur málsins lýtur m.a. að því hvort sóknaraðili eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila. Þá er því haldið fram af hálfu varnaraðila að kröfu sóknaraðila hafi ekki verið rétt lýst, þar sem með kröfulýsingu hans hafi ekki fylgt kaupréttarsamningur frá 21. apríl 2003, sem hann byggir hluta kröfu sinnar á.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur sóknaraðili sjálfur og Atli Atlason fyrrum framkvæmdastjóri starfsmannasviðs.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að kaupréttar- og kaupaukasamningur hans og varnaraðila, hafi verið hluti af ráðningarsamningi hans og varnaraðila. Saman myndi þessir samningar rammann um laun og önnur launakjör sóknaraðila, ásamt kjarasamningi bankamanna. Launin hafi verið föst mánaðarlaun, árangurstengdir árlegir kaupaukar, auk skilyrtra kauprétta og kaupauka. Sóknaraðili hafi með vinnu sinni í þágu varnaraðila að fullu efnt samningsskyldur sínar samkvæmt kaupréttar- og kaupaukasamningunum gagnvart varnaraðila. Varnaraðili hafi hins vegar aðeins að hluta til staðið við skuldbindingar sínar. Eigi sóknaraðili því lögvarða kröfu á hendur varnaraðila um efndir ráðningarsamningsins. Sú krafa sé um greiðslu peninga sem svari til verðmætis kaupréttar og kaupauka, sem sóknaraðili hafi unnið sér inn og átt að greiða í desember 2007. Skilyrtu kaupréttirnir og kaupaukarnir hafi verið bundnir gengi hluta í varnaraðila og verið hluti launa sóknaraðila. Hinn 1. desember 2006 hafi sóknaraðili þegar unnið sér inn kauprétt að 7.500.000 hlutum í varnaraðila. Hafi hann leyst til sín 60% þeirra 27. febrúar 2007 og hafi verið gengið frá uppgjöri í mars og apríl 2007. Sóknaraðili hafi mátt leysa til sín 20% hlutanna eða 1,5 milljónir hluta 1. desember 2007. Sóknaraðili hafi átt rétt á reiðufjárgreiðslu, kaupauka, 1. desember 2007 samkvæmt tveimur samningum þar um. Kauprétturinn og kaupaukinn hafi verið skilyrt loforð varnaraðila til sóknaraðila um greiðslu fyrir vinnu sóknaraðila í þágu varnaraðila. Óumdeilt sé að sóknaraðili hafi tilkynnt Atla Atlasyni með hefðbundnum hætti að hann nýtti sér kaupréttinn og kaupaukann og hafi hann óskað eftir uppgjöri á honum. Þá sé óumdeilt að varnaraðili hafði gert upp kauprétti sóknaraðila með peningagreiðslu, sem svaraði til mismunar á grunnverði hluta samkvæmt kaupréttarsamningum og gangverði þeirra í kauphöll við nýtingu kaupréttarins. Mismunur grunnverðs og gangverðs hafi myndað tekjuskattskyldan kaupauka hjá sóknaraðila. Við uppgjör kaupaukans hafi varnaraðili dregið staðgreiðslu, tryggingargjald og lífeyrisframlag af kaupaukanum og skilað afdregnum fjárhæðum til innheimtumanns ríkissjóðs og viðkomandi lífeyrissjóðs. Umsaminn kaupréttur hafi því falið í sér lögvarða fjárkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Uppgjör kaupréttar af hálfu varnaraðila hafi falið í sér launagreiðslu í skilningi vinnu- og skattaréttar. Kaupréttarkrafan sé því í raun fjárkrafa, krafa um greiðslu reiðufjár líkt og kröfurnar samkvæmt kaupsamningum sóknaraðila, enda viðmiðin þau sömu.  Hugtakið laun í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 verði að skýra rúmri lögskýringu og í samræmi við það sem almennt tíðkist um skýringu hugtaksins laun í íslenskum rétti. Launahugtak gjaldþrotaréttar ráðist því af túlkun hugtaksins í vinnu- og skattarétti. Sé greiðsla vinnuveitanda til starfsmanns tekjuskattskyld samkvæmt lögum um tekjuskatt verði að telja hana til launa í merkingu 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Ekkert komi fram í lögskýringargögnum með gjaldþrotalögum sem bendi til þess að launahugtak gjaldþrotalaga skuli skýra þrengra eða með öðrum hætti en tíðkanlegt hafi verið. Telji varnaraðili kaupréttarkröfu sóknaraðila ekki laun, sé hún ,,annað endurgjald“ fyrir vinnu í þjónustu varnaraðila og því forgangskrafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Uppgjör varnaraðila við sóknaraðila vegna vinnu sóknaraðila í hans þágu frá maí 2003 til loka október 2008 eigi að fara fram í samræmi við samninga aðila og á þann hátt sem varnaraðili hafi viðhaft og venjuhelgaður sé í lögskiptum aðilanna. 

Með vísan til framangreinds beri að viðurkenna lýstar kröfur sóknaraðila sem forgangskröfu í slitabúi varnaraðila, þar sem þær falli undir hugtakið laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu slitabúsins sbr. 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti og fleira og ákvæði laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eins og þeim lögum hafi verið breytt með lögum nr. 125/2008, 129/2008 og 44/2009.

Sóknaraðili hefur fallið frá þeim málsástæðum sem lúta að gildi neyðarlaganna nr. 125/2008.

Verði kröfur sóknaraðila ekki viðurkenndar sem forgangskröfur krefst hann þess að þær verði viðurkenndar sem almennar kröfur.

Sóknaraðili kveður kröfur sínar byggja á útreikningum Atla Atlasonar fyrrum framkvæmdastjóra starfsmannasviðs varnaraðila. Samkvæmt útreikningi hans hafi verðmæti kaupréttar sóknaraðila verið 51.045.000 krónur, hinn 3. desember 2007. Dráttarvextir séu reiknaðir frá gjalddaga 3. desember 2007 til 22. apríl 2009, sem sé frestdagur við slit sóknaraðila. Fjárhæð dráttarvaxta á þessu tímabili sé 19.312.225 krónur.

Samkvæmt útreikningum varnaraðila sé verðmæti kaupauka sóknaraðila 295.735.849 krónur hinn 3. desember 2007. Dráttarvextir séu reiknaðir frá gjalddaga 3. desember  2007 til 22. apríl 2009. Fjárhæð dráttarvaxta sé 111.887.891 króna.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi tilkynnt þáverandi starfsmannastjóra Landsbanka Íslands hf., Atla Atlasyni, um nýtingu kaupréttar í desember 2007 og/ eða að slík tilkynning hafi verið í samræmi við þær kröfur sem fram komi í 5. mgr. 2. gr. kaupréttarsamnings aðila frá 21. apríl 2003.

Þá mótmælir varnaraðili því að sóknaraðili hafi hinn 1. desember 2007 átt rétt til að fá greiðslu kaupauka í reiðufé 295.735.849 krónur á grundvelli kaupaukasamnings aðila frá 23. apríl 2003 og 11. febrúar 2004. Hið rétta sé að sóknaraðili hafi á framangreindu tímamarki haft heimild til að óska eftir að fá annars vegar 20% af kaupaukarétti sínum greidd með reiðufé frá Landsbanka Íslands hf. vegna samningsins frá 23. apríl 2003 og hins vegar 60% af kaupaukarétti sínum vegna samningsins frá 11. febrúar 2004. Þannig hafi sóknaraðili þurft að nýta sér áunnin réttindi samkvæmt samningnum með því að tilkynna Landsbanka Íslands hf. um nýtingu kaupaukaréttarins en frá 1. desember 2007 hafi sóknaraðili haft 90 daga til þess að beina tilkynningu þess efnis til bankans. Þá sé vakin athygli á að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samningsins hafi engin skylda hvílt á sóknaraðila til þess að nýta kaupaukarétt sinn, heldur hafi einungis verið um rétt hans að ræða. Hafi sóknaraðili því ekki átt rétt til að fá greiðslu kaupauka samkvæmt samningunum fyrr en slík tilkynning hefði verið send Landsbanka Íslands hf. Í 7. mgr. 2. gr. samninganna sé gerð krafa um að tilkynning um nýtingu kaupaukaréttar skuli vera skrifleg. Af gögnum málsins verði ekki séð að sóknaraðili hafi óskað eftir nýtingu kaupaukaréttar með þeim hætti sem samningarnir kveði á um. Sé því þannig mótmælt að sóknaraðili hafi átt að fá greiðslu kaupauka í reiðufé hinn 1. desember 2007.

Þá sé meintum útreikningum fyrrverandi starfsmannastjóra Landsbanka Íslands hf. á meintu verðmæti kaupréttar og kaupaukaréttar sóknaraðila mótmælt. Skjölin séu óundirrituð, ódagsett og án allra forsendna sem slitastjórn kynni að geta stuðst við til að staðreyna réttmæti fjárhæðanna.

Einnig sé því mótmælt að Landsbanki Íslands hf. hafi almennt gert upp kauprétti með því að leysa hluti kaupréttarhafa til sín gegn greiðslu reiðufjár sem svaraði til mismunar á gangverði hlutanna annars vegar og grunnverði þeirra á uppgjörsdegi hins vegar. Í kaupréttarsamningum aðila hafi komið skýrt fram með hvaða hætti unnt væri að nýta umsaminn kauprétt og hvernig viðsemjanda bæri að greiða fyrir þau hlutabréf sem þeir hafi viljað kaupa á grundvelli samninganna. Í tilviki sóknaraðila sé að finna ákvæði um uppgjör áunnins og nýtanlegs kaupréttar í 5. mgr. 2. gr. samningsins. Komi þar skýrt fram að með tilkynningu starfsmanns um nýtingu kaupréttar skuli fylgja full greiðsla fyrir þau hlutabréf sem hann vilji kaupa og að heimilt sé að greiða innlausnarverð með peningum, með veðskuldabréfi til þriggja ára eða með hlutabréfum sem kaupréttur samkvæmt samningnum taki til. Sé því þannig mótmælt að sóknaraðili hafi átt fjárkröfu á hendur varnaraðila á grundvelli kaupréttarsamnings aðila.

Þá er því mótmælt að meint frestun varnaraðila á að ganga til uppgjörs við sóknaraðila á grundvelli kaupréttar- og kaupaukasamninga aðila hafi nokkra þýðingu varðandi kröfur sóknaraðila. Um tvíhliða samninga sé að ræða og engar heimildir sé að finna í samningunum fyrir einhliða frestun á uppgjöri. Hafi sóknaraðili talið að varnaraðili hafi vanefnt samningana að einverju leyti, hafi honum verið í lófa lagið að gera kröfur á hendur varnaraðila um uppgjör þeirra í kjölfar meintra tilkynninga um nýtingu réttinda á grundvelli samninganna.

Að lokum sé vakin athygli á að frestdagur hafi verið 15. nóvember 2008, sbr. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis með lögum nr. 129/2008 og III. bráðabirgðaákvæði með lögum nr. 44/2009.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili eigi ekki fjárkröfur á hendur sér. Sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu á grundvelli kaupréttarsamnings aðila frá 21. apríl 2003, innan kröfulýsingarfrests. Samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 skuli sá sem vill halda uppi kröfu á hendur þrotabúi og geti ekki fylgt henni eftir samkvæmt 116. gr., lýsa henni fyrir skiptastjóra. Í kröfulýsingu skuli kröfur tilteknar svo skýrt sem verða megi svo og þær málsástæður sem kröfuhafi byggi rétt sinn á. Þá skuli þau gögn fylgja kröfulýsingu sem krafa er studd við, sbr. 3. mgr. 117. gr. laganna.

Í kröfulýsingu sóknaraðila hafi verið gerð krafa að fjárhæð 51.045.000 krónur á grundvelli kaupréttarsamninga aðila frá 11. febrúar 2004 og 1. apríl 2005. Kröfunni hafi verið hafnað, þar sem af efni kaupréttarsamninganna sem lagðir voru fram með kröfulýsingu sóknaraðila, hafi mátt ráða að sóknarðaðila hafi fyrst verið heimilt hinn 1. desember 2008 að nýta 60% af kaupréttinum. Kröfur á grundvelli þeirra samninga sem lagðir voru fram með kröfulýsingu sóknaraðila voru ekki á gjalddaga 1. desember 2007.

Krafa sóknaraðila á grundvelli kaupréttarsamnings frá 21. apríl 2003, hafi því fyrst komið fram í greinargerð sóknaraðila í héraði. Þá hafi sá kaupréttarsamningur fyrst verið lagður fram. Hafi því krafa sóknaraðila á grundvelli þess kaupréttarsamnings því ekki borist fyrir lok kröfulýsingarfrests. Hafi slitastjórn varnaraðila því ekki vísað ágreiningi um afstöðu til kröfu sóknaraðila á grundvelli samningsins frá 21. apríl 2003, til Héraðsdóms Reykjavíkur. Hér sé því um nýja kröfu að ræða af hálfu sóknaraðila. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að krafan sé of seint fram komin og falli hún því niður gagnvart varnaraðila, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991.

Verði talið að krafa á grundvelli kaupréttarsamnings aðila komist að í máli þessu, er því mótmælt að sóknaraðili hafi eignast lögvarða kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli samningsins.

Samkvæmt samningnum hafi varnaraðili skuldbundið sig til að afhenda sóknaraðila kauprétt til þess að kaupa hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. Nánar tiltekið hafi verið um að ræða 7.500.000 hluti og hafi kaupverð samkvæmt samningnum verið 4,12 pr. hlut. Hinn 1. desember 2007 hafi sóknaraðila verið heimilt að nýta sér 20% af kaupréttinum eða 1.500.000 hluti, sbr. 4. mgr. 2. gr. samningsins. Frá 1. desember 2007 hafi sóknaraðili haft 90 daga til að tilkynna varnaraðila á sannanlegan hátt um nýtingu þess kaupréttar sem hann hafði áunnið sér og mátt nýta, sbr. 5. mgr. 2. gr. samningsins. Því er mótmælt að óumdeilt sé að sóknaraðili hafi tilkynnt varnaraðila um nýtingu kaupréttar og óskað eftir uppgjöri hans með sannanlegum hætti eins og áskilið sé í nefndu ákvæði samningsins.

Hér beri einnig að líta til þess að jafnvel þótt sóknaraðili hafi tilkynnt um nýtingu kaupréttar innan framangreindra tímamarka hafi það eitt og sér ekki verið nægjanlegt til þess að uppgjör á grundvelli samningsins gæti farið fram. Eins og ráða megi af ýmsum ákvæðum samningsins hafi falist í honum skylda varnaraðila til að afhenda sóknaraðila tiltekinn fjölda hluta í Landsbanka Íslands hf. gegn fyrir fram umsömdu gagngjaldi af hálfu sóknaraðila. Þannig segi m.a. í inngangsorðum samningsins:

,,Undirritun bankastjóra skuldbindur félagið til þess að afhenda hlutabréf í stað útgefins kaupréttar þegar starfsmaður getur krafist þess samkvæmt samningnum.“

Framangreint sé áréttað í 1. mgr. 1. gr. samningsins. Þá hvíli frumkvæðisskylda varðandi tilkynningu um nýtingu kaupréttar og greiðslu á sóknaraðila, en um það sé fjallað í 5. mgr. 2. gr. samningsins, þar sem m.a .segi:  ,,Með tilkynningu um nýtingu kaupréttar skal fylgja full greiðsla fyrir þau hlutabréf sem starfsmaður vill kaupa. Starfsmanni er heimilt að greiða innlausnarverðið með peningum, með veðskuldabréfi til 3ja ára, með reiborvöxtum að viðbættum 1% vöxtum eða með hlutabréfum sem kaupréttur samkvæmt samningi þessum hefur tekið til.“

Varnaraðili bendir á að af framlögðum gögnum verði ekki séð að sóknaraðili hafi óskað eftir nýtingu áunnins og nýtanlegs kaupréttar með sannanlegri tilkynningu til Landsbanka Íslands hf. sem og með því að bjóða fram fulla greiðslu fyrir hlutabréfin innan 90 daga frá 1. desember 2007. Þvert gegn skýru orðalagi kaupréttarsamningsins virðist sóknaraðili byggja á því að venja hafi verið að Landsbanki Íslands hf. hafi almennt gert upp kauprétti með peningagreiðslum til kaupréttarhafa sem svaraði til mismunar á grunnverði hluta samkvæmt kaupréttarsamningunum og gangverði þeirra í kauphöll við nýtingu kaupréttarins. Varnaraðili mótmælir því að slík venja hafi skapast í þessum efnum og kveður enga heimild fyrir slíku uppgjöri að finna í samningi aðila eins og að framan greini, sbr. 5. mgr. 2. gr. samningsins.

Með vísan til þess sem að framan greini mótmælir varnaraðili því að krafa sóknaraðila geti sem slík talist til fjárkröfu, enda hafi varnaraðili aðeins verið skuldbundinn til þess að afhenda sóknaraðila hlutabréf samkvæmt samningnum að fenginni ósk um nýtingu og greiðslu fyrir kaupréttinn. Þar sem sóknaraðili hafi ekki boðið fram greiðslu fyrir hlutabréf,  hafi hlutirnir aldrei verið afhentir.  Engin skylda hafi hvílt á varnaraðila að afhenda verðmæti samningsins í formi peninga. Það hvort sóknaraðili kæmi til með að selja hlutabréfin á almennum markaði og/eða til Landsbanka Íslands hf., í kjölfar afhendingar varnaraðila á hlutabréfum til sóknaraðila samkvæmt samningnum sé varnaraðila með öllu óviðkomandi og hafi ekkert með kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila að gera. Fái framangreint stoð í tilkynningu sóknaraðila um nýtingu kaupréttar dags. 27. febrúar 2007, þ.e. vegna áunnins og nýtanlegs kaupréttar 1. desember 2006. Þar sé miðað við að varnaraðili afhendi hlutabréf á grundvelli samningsins gegn greiðslu umsamins gagngjalds, en í tilkynningunni segi: ,,Um það er samkomulag milli undirritaðs og bankans að bankinn hafi svigrúm, þó ekki lengur til en til 30. mars nk., til að uppfylla samningsskyldur um afhendingu hlutabréfa sem kaupréttur er nýttur að… Þess er óskað að hlutabréfin verði færð á VS-reikninga starfsmanns í Landsbankanum á innlausnardegi. Starfsmaður skuldbindur sig til að greiða kaupverð bréfanna sama dag…“

Enga sambærilega tilkynningu sé að finna í gögnum málsins vegna áunnins og nýtanlegs kaupréttar sóknaraðila 1. desember 2007. Með vísan til alls framangreinds er því mótmælt að sóknaraðili hafi eignast lögvarða kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli kaupréttarsamnings frá 21. apríl 2003, enda hafi skylda Landsbanka Íslands hf. ekki verið önnur gagnvart sóknaraðila en að afhenda honum hlutabréf gegn greiðslu.

Varðandi kröfu sóknaraðila um kaupauka byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi ekki eignast lögvarða fjárkröfu á hendur varnaraðila á grundvelli samninga aðila frá 23. apríl 2003 og 11. febrúar 2004 og beri því að hafna kröfu sóknaraðila að höfuðstólsfjárhæð 295.735.849 krónur, sem eigi rót að rekja til framangreindra kaupaukasamninga.

Eins og að framan greini hafi sóknaraðili hinn 1. desember 2007 haft heimild til þess að óska eftir að fá annars vegar 20% af kaupaukarétti sínum greiddan með reiðufé frá Landsbanka Íslands hf. á grundvelli samningsins frá 23. apríl 2003 og hins vegar 60% af kaupaukarétti sínum samkvæmt samningnum frá 11. febrúar 2004. Hinn 1. desember 2007 hafi sóknaraðili þurft að nýta sér áunnin réttindi samkvæmt samningunum með því að tilkynna varnaraðila um nýtingu kaupaukaréttarins. Frá 1. desember 2007 hafi sóknaraðili haft 90 daga til þess að beina slíkri tilkynningu að bankanum. Engin skylda hafi hvílt á sóknaraðila að nýta sér  kaupaukarétt sinn, heldur hafi einungis verið um rétt hans að ræða, sbr. 1. mgr. 1. gr. samninganna. Ákvæði um tilkynningu um nýtingu réttinda samkvæmt samningunum sé að finna í 5. mgr. 2. gr. samninganna. Af 7. mgr. 2. gr. samningsins megi ráða að með sannanlegri tilkynningu í skilningi 5. mgr. 2. gr. samningsins sé átt við og gerð krafa um að tilkynningin sé skrifleg, sbr. eftirfarandi:

,,Þegar kaupaukaréttur er nýttur skal, við útreikning á kaupaukarétti starfsmanns, miðað við gengi hlutabréfa í félaginu þann dag sem starfsmaður tilkynnir félaginu um nýtingu, en félagið skal hafa allt að 10 virka daga til að ganga frá greiðslu kaupauka frá því að beiðni um útgreiðslu liggur fyrir skriflega frá starfsmanni.“

Sóknaraðili hafi hvorki hinn 1. desember 2007, né síðar, sent skriflega tilkynningu til varnaraðila þar sem óskað hafi verið eftir útgreiðslu kaupaukaréttar. Eðli málsins samkvæmt hafi því aldrei komið til útgreiðslu áunnins og nýtanlegs kaupauka hinn 1. desember 2007, samkvæmt samningum aðila frá 23. apríl 2003 og 11. febrúar 2004. Er því þannig mótmælt sem fram komi í greinargerð sóknaraðila að óumdeilt sé að sóknaraðili hafi tilkynnt starfsmannastjóra varnaraðila með hefðbundnum hætti að hann nýtti sér kaupaukann og óskaði eftir uppgjöri. Það sé með öllu ósannað að sóknaraðili hafi tilkynnt um nýtingu kaupaukaréttarins með sannanlegum hætti, þ.e. skriflega í samræmi við efni samningsins. Greiðsluskylda af hálfu varnaraðila hafi því ekki stofnast á grundvelli samninga aðila um kaupauka.

Verði fallist á að fjárkrafa hafi stofnast á hendur varnaraðila er þess krafist að kröfu sóknaraðila um stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. verði hafnað.

Byggir varnaraðili á því að launahugtak gjaldþrotaréttar, og þar með forgangsréttur samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé bundið við að gagngjald í formi vinnu hafi verið innt af hendi og að launagreiðslur séu í beinum tengslum við slíkt gagngjald. Varnaraðili telji að krafa sóknaraðila á grundvelli kaupréttar- og kaupaukasamninga aðila uppfylli ekki framangreint skilyrði. Þannig sé rétturinn ekki afleiðing af beinu vinnuframlagi sem innt hafi verið af hendi í þágu bankans. Þá sé bent á að í 3. gr. ráðningarsamnings sóknaraðila frá 12. maí 2003,  komi fram að fyrir öll laun sem fylgi starfsskyldum sóknaraðila hjá varnaraðila greiðist 950.000 krónur á mánuði og að í greiðslum þessum séu allar greiðslur vegna starfa sóknaraðila hjá varnaraðila. Hvergi sé vikið að því í nefndum ráðningarsamningi að kaupréttur og /eða réttur til kaupauka í þeirri mynd sem hann birtist í samningum aðila séu hluti launakjara sóknaraðila hjá varnaraðila. Í 6. gr. samningsins sé að finna ákvæði um kauprétt, þar sem fram komi að bankinn muni samhliða ráðningarsamningnum gera kaupréttarsamning við sóknaraðila um rétt til að kaupa 7.500.000 hluti nafnverðs á næstu 5 árum. Af ráðningarsamningi sóknaraðila megi því ráða að réttur sóknaraðila til kaupréttar hafi ekki verið í neinum tengslum við launakjör sóknaraðila fyrir vinnu í þágu bankans.

Það að í kaupréttar- og kaupaukasamningum komi fram að samningarnir séu hluti af ráðningarsamningi við sóknaraðila geri það ekki að verkum að réttur á grundvelli samninganna teljist þegar af þeirri ástæðu til launa í skilningi vinnu- og gjaldþrotaréttar. Í kaupréttarsamningi frá 21. apríl 2003 hafi aðeins falist heimild til handa sóknaraðila til þess að innleysa hlutabréf sem hann hafði kauprétt á, þ.e. um rétt sóknaraðila var að ræða en ekki skyldu, sbr. 1. mgr. 7. gr. samningsins. Jafnframt hafi engin skylda hvílt á sóknaraðila að nýta sér kaupaukarétt sinn samkvæmt samningunum frá 23. apríl 2003 og 11. febrúar 2004, heldur hafi einungis verið um rétt hans að ræða, sbr. 1 mgr. 1. gr. samninganna. Þá sé ljóst að sóknaraðili hefði ekki nýtt sér kaupréttinn ef gengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. hefði verið undir umsömdu kaupverði samkvæmt samningnum enda hefði þá meint launakrafa sóknaraðila verið einskis virði.sama skapi sé ljóst að sóknaraðili hefði ekki nýtt sér rétt sinn til kaupauka ef gengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hefði verið undir viðmiðunargengi samkvæmt samningunum. Hafi virði kaupréttarins og kaupaukaréttarins og þar af leiðandi krafa sóknaraðila verið háð árangri og afkomu Landsbanka Íslands hf., en hafi ekki grundvallast á sérstöku vinnuframlagi af hálfu sóknaraðila í þágu bankans.

Því er mótmælt að skýra beri hugtakið laun og/ eða ,,annað endurgjald“ í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112 gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. rúmri lögskýringu. Með ákvæðinu sé vissum kröfum skipað framar öðrum í réttindaröð, en með því sé vikið frá meginreglu gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa. Varnaraðili telur að ákvæðið verði því ekki skýrt á rýmri veg en leiði af orðanna hljóðan. Þegar fjallað sé um laun og annað endurgjald samkvæmt ákvæðinu þurfi greiðsla eða réttindi að eiga rætur að rekja til vinnu þess kröfuhafa sem forgangs krefjist. Geti hvorki réttur sóknaraðila til að eignast hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á fyrir fram ákveðnum kjörum, né réttur sóknaraðila til kaupauka sem háður er gengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf., uppfyllt skilyrði ákvæðisins að þessu leyti.

 Verði fallist á að sóknaraðili eigi lögvarðar fjárkröfur á hendur varnaraðila er ekki gerður ágreiningur um að kröfunum verði skipað í flokk almennra krafna, en fjárhæð krafnanna er mótmælt. Þau skjöl sem útreikningar byggjast á, séu óundirrituð, ódagsett og án allra forsendna. Því sé varnaraðila ómögulegt að staðreyna réttmæti fjárhæðanna og þar með þá útreikninga sem byggt er á. Þá er dráttarvaxtakröfu sóknaraðila frá 3. desember 2007 mótmælt. Því er mótmælt að meintar kröfur sóknaraðila hafi verið á gjalddaga 3. desember 2007. Frumkvæðisskylda varðandi nýtingu réttar samkvæmt kaupréttarsamningum og kaupaukaréttarsamningum sóknaraðila hafi hvílt á honum sjálfum og verði ekki ráðið af gögnum málsins hvort eða þá hvenær tilkynningar um nýtingu réttarins hafi verið sendar Landsbanka Íslands. Sé því mótmælt að kröfurnar hafi verið á gjalddaga 3. desember 2007 og því ekki unnt að fallast á að kröfurnar beri dráttarvexti frá þeim degi.

Niðurstaða

Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að kröfur hans, annars vegar krafa að fjárhæð 51.045.000 krónur á grundvelli kaupréttarsamnings hans og varnaraðila, og hins vegar krafa að fjárhæð 295.735.849 krónur á grundvelli kaupaukasamnings aðila, auk dráttarvaxta, verði viðurkenndar sem forgangskröfur í bú varnaraðila. Til vara er þess krafist að kröfurnar verði samþykktar sem almennar kröfur við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að kröfu á grundvelli kaupréttarsamnings aðila frá 21. apríl 2003, hafi ekki verið lýst innan kröfulýsingarfrests og komist því krafa á grundvelli þess samnings ekki að við slitameðferð varnaraðila. 

Jafnvel þótt kaupréttarsamningur frá 21. apríl 2003, hafi ekki verið lagður fram með kröfulýsingu og þannig ekki verið gætt 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, er ljóst af gögnum málsins að sá samningur var lagður fram með greinargerð sóknaraðila. Fjárhæð kröfu sóknaraðila er í greinargerð tilgreind sú sama og lýst var með kröfulýsingu hans. Verður að ætla sóknaraðila það svigrúm að koma að þeim gögnum sem hann styður málatilbúnað sinn við, við framlagningu greinargerðar, sbr. 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991. Er því ekki fallist á að krafa sóknaraðila sé of seint fram komin og falli niður gagnvart varnaraðila, sbr. 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991.

Eins og greinir í 5. mgr. 2. gr. kaupréttarsamnings aðila frá 21. apríl 2003 nýtir starfsmaður sér kauprétt sinn með því að tilkynna bankanum um hve mikinn kauprétt hann vilji nýta. Með tilkynningu um nýtingu kaupréttar skal, samkvæmt ákvæðum samningsins, fylgja full greiðsla fyrir þau hlutabréf sem starfsmaður vill kaupa og er starfsmanni heimilt að greiða innlausnarverð með peningum, með veðskuldabréfi til þriggja ára með reiborvöxtum að viðbættum 1% vöxtum, eða með hlutabréfum sem kaupréttur samkvæmt samningnum hefur tekið til.

Samkvæmt ákvæðum kaupréttarsamningsins verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi eignast rétt til þess að kaupa ákveðinn fjölda hlutabréfa á ákveðnu gengi og gegn ákveðnu endurgjaldi á ákveðnu tímamarki. Varnaraðili var því einungis skuldbundinn til þess að afhenda sóknaraðila hlutabréf gegn greiðslu frá sóknaraðila. Af kaupréttarsamningnum sjálfum og vætti Atla Atlasonar fyrrum framkvæmdastjóra starfsmannasviðs varnaraðila, verður skýrlega ráðið að um hlutabréfaviðskipti var að ræða. Hvorki er kveðið svo á um í kaupréttarsamningi þessum né ráðningarsamningi sóknaraðila að sóknaraðili eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila vegna ákvæða í kaupréttarsamningnum. Með hliðsjón af framangreindu er ekki í ljós leitt að sóknaraðili hafi, á grundvelli framangreinds kaupréttarsamnings eignast fjárkröfu á hendur varnaraðila og er því kröfu á grundvelli framangreinds kaupréttarsamnings, að fjárhæð 51.045.000 krónur hafnað.

Verður þá næst fjallað um kröfu sóknaraðila til þess að   295.735.849 króna kröfu sína á hendur varnaraðila viðurkennda sem forgangskröfu við slitameðferð varnaraðila, en til vara viðurkennda sem almenna kröfu.

Þessi hluti kröfu sóknaraðila byggir á tveimur kaupaukasamningum, annars vegar frá 23. apríl 2003, en á grundvelli hans hafði sóknaraðili heimild 1. desember 2007,  til þess að óska eftir að fá 20% af kaupaaukarétti sínum greidd með reiðufé frá varnaraðila. Samkvæmt samningnum frá 11. febrúar 2004 hafði hann heimild til þess, einnig 1. desember 2007, að óska eftir að fá greidd 60% af kaupaukarétti sínum í reiðufé frá varnaraðila.

Samkvæmt 5. mgr. 2. gr. beggja ofangreindra samninga nýtir starfsmaður sér réttindi sín samkvæmt samningnum með því að tilkynna félaginu um að hann óski eftir að fá greiddan kaupaukarétt sinn. Á þeim degi er starfsmaður hefur heimild til nýtingar kaupaukaréttar hefur hann 90 daga til þess að tilkynna félaginu á sannanlegan hátt um nýtingu kaupaukaréttar. Tilkynni starfsmaður ekki um nýtingu kaupaukaréttar innan 90 daga frestsins telst heimild til nýtingar á kaupaukarétti fallin niður.

Í gögnum málsins liggur ekki fyrir skrifleg tilkynning sóknaraðila um nýtingu kaupaukaréttar síns í samræmi við tilgreind ákvæði samninganna. Hins vegar kom fram í vitnisburði Atla Atlasonar, framkvæmdastjóra starfsmannasviðs varnaraðila fyrir dómi, að sóknaraðili hefði tilkynnt um það í lok nóvember 2007 að hann óskaði eftir að nýta sér kaupaukarétt sinn. Hann hafi síðar margítrekað þá ósk sína.

Jafnvel þótt ekki liggi fyrir skrifleg tilkynning frá sóknaraðila um nýtingu kaupaukaréttar síns, telst fram komið með vætti framangreinds Atla að sóknaraðili hafi á sannanlegan hátt tilkynnt um nýtingu þessara réttinda sinna, í samræmi við ákvæði kaupaukasamninganna, innan þess frests sem greinir í samningunum.

 Vitnið Atli staðfesti einnig fyrir dómi að hann hefði útbúið skjal það sem ber yfirskriftina ,,útreikningur kaupaukagreiðslu samkvæmt samningi um kaupauka sem greiðist sem laun“ vegna sóknaraðila. Skjali þessu hefur varnaraðili mótmælt á þeim grundvelli að skjalið sé óundirritað, ódagsett og án allra forsendna. Í skjalinu eru ákveðnar forsendur tilteknar. Þannig er greint frá upphaflegu nafnverði til viðmiðunar, því sem áunnið var í desember 2007, tiltekið er upphaflegt viðmiðunargengi, gengi á greiðsludegi, gengi 3. desember 2007, gengismunur, heildarverð og lækkun vegna 6% greiðslu í lífeyrissjóð. Verður því að telja að í skjalinu séu forsendur útreiknings nægilega tilgreindar  og eins og að framan er rakið hefur vitnið Atli staðfest að hafa útbúið skjal þetta, og kvað það hafa verið gert eftir áramótin 2009. Af hálfu varnaraðila hefur ekki verið bent á hvað það er í útreikningum sem fram komi í skjali þessu, sem ekki fái staðist. Verður því við niðurstöðu málsins byggt á útreikningum sem fram koma þar.

Krafa sóknaraðila er aðallega um viðurkenningu forgangsréttar kröfu að fjárhæð 295.735.849 krónur við slitameðferð varnaraðila á grundvelli framangreindra kaupaukasamninga.

 Í inngangi samninga þessara segir m.a: Þau réttindi sem starfsmaður öðlast samkvæmt samningi þessum eru einungis réttindi til greiðslu peninga frá félaginu samkvæmt tengingum við ávöxtun hlutabréfa í félaginu, sem samningur þessi kveður á um. Þá segir í 2. gr. samninganna: Heildarréttur til kaupauka samkvæmt samningi þessum er miðaður við ávöxtun starfsmanns af … hlutum í félaginu miðað við gengi bréfa félagsins …

Af framangreindu verður ráðið að réttur sóknaraðila til kaupauka grundvallaðist á ávöxtun hans á hlutum í varnaraðila, miðað við gengi hlutabréfanna á tilteknum degi. 

Samkvæmt 1. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Með þessu ákvæði er vikið frá meginreglu gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa og vissum kröfum skipað framar öðrum í réttindaröð. Ákvæðið verður ekki skýrt á rýmri veg en samkvæmt orðanna hljóðan. Þarf því réttur sem grundvallaður er á ákvæði þessu, til forgangs vegna launa eða annars endurgjalds fyrir vinnu, að eiga rót sína að rekja til vinnuframlags af hálfu þess sem rétt sinn sækir á grundvelli ákvæðisins. Eins og greinir í kaupaukasamningum aðila voru réttindi sóknaraðila samkvæmt samningnum háð afkomu og árangri varnaraðila, með tengingu við ávöxtun hluta í varnaraðila, en eiga ekki rót sína að rekja til beins vinnuframlags af hálfu sóknaraðila. Breytir hér engu að tiltekið er í 5. gr. samningsins að allar greiðslur samkvæmt samningnum teljist launagreiðslur í skilningi tekjuskattslaga, enda snýr mál þetta að túlkun á launahugtaki laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Verður því ekki fallist á að krafa sóknaraðila vegna kaupaukaréttargreiðslna njóti forgangs á grundvelli 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.

Krafa sóknaraðila verður hins vegar viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila, enda telur dómurinn að fullnægt hafi verið ákvæðum samninganna um tilkynningu nýtingu kaupaukaréttar og einnig að fyrir liggi nægjanlegar forsendur útreiknings kröfu sóknaraðila.

Krafan er því samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 295.735.849 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. desember 2007 til 22. apríl 2008, í samræmi við þá dráttarvaxtakröfu sóknaraðila sem fram kemur í  dómkröfukafla greinargerðar hans.

 Í ljósi atvika málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal hvor aðila greiða sinn kostnað af málinu.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Sigurður G. Guðjónsson hrl. og af hálfu varnaraðila flutti málið Sölvi Davíðsson hdl.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Krafa sóknaraðila, Steinþórs Gunnarssonar, er samþykkt sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að fjárhæð 295.735.849 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. desember 2007 til 22. apríl 2008.

Málskostnaður fellur niður.