Hæstiréttur íslands

Mál nr. 573/2016

A (Þuríður Kristín Halldórsdóttir hdl.)
gegn
Barnaverndarnefnd B (Edda Björk Andradóttir hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun barns
  • Gjafsókn

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að sonur A skyldi vistaðir utan heimilis í allt að fjóra mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. ágúst 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 19. og 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 22. júlí 2016, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sonur sóknaraðila, C, skyldi vistaður utan heimilis sóknaraðila í allt að fjóra mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í hinum kærða úrskurði segir að sóknaraðili hafi síðast mætt til fíkniefnamælingar 8. febrúar 2016, en fram er komið að hann hafi jafnframt gert það 26. júní 2016. Mældust ekki fíkniefni í sýnum, teknum úr sóknaraðila. Ekki mun hafa tekist að boða sóknaraðila til slíkra mælinga á tímabilinu frá 8. febrúar 2016 og til 9. júní sama ár er varnaraðili tók þá ákvörðun sem mál þetta lýtur að. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 22. júlí 2016

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15. júlí sl., barst dóminum 23. júní 2016, með kröfu sóknaraðila, dags. 22. sama mánaðar. Sóknaraðili er barnaverndarnefnd B, en varnaraðilar eru D, [...], [...], og A, [...], [...].

Sóknaraðili krefst þess að úrskurðað verði að drengurinn C, sem lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna, D og A, varnaraðila máls þessa, verði áfram vistaður utan heimilis í allt að tólf mánuði, frá 29. júní  2016 til 29. júní 2017, á grundvelli 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002. Af hálfu sóknaraðila  er ekki krafist málskostnaðar.

Varnaraðilinn D krefst  þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að barnið verði þegar í stað afhent varnaraðila. Til vara krefst hún þess að vistun barnsins verði ákveðin um skemmri tíma. Þá krefst hún lögmannsþóknunar, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, sbr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Varnaraðilinn A krefst þess einnig að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Jafnframt krefst hann málskostnaðar samkvæmt framlagðri tímaskýrslu, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

II.

Mál þetta varðar son varnaraðilanna, C, sem fæddur er [...], en þau eiga einnig saman drenginn E, fæddan [...]. Varnaraðilarnir, sem fara sameiginlega með forræði drengjanna, slitu sambúð sinni um tíma veturinn 2014 til 2015. Þau hófu sambúð á ný um skeið, en hafa nú á ný slitið samvistum. Drengurinn C dvelst nú á heimili á vegum sóknaraðila, en hefur lögheimili hjá móður sinni, en E mun nú dvelja hjá móður sinni eftir að hafa dvalið hjá föður í [...] síðastliðinn vetur og sótt þar skóla.

Samkvæmt gögnum hefur mál drengjanna verið í stöðugri vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum frá því á síðari hluta árs 2014, þegar ítrekaðar tilkynningar fóru að berast sóknaraðila um vanrækslu á umsjón og eftirliti drengjanna, vímuefnaneyslu varnaraðila, heimilisofbeldi og óvissu um hæfni foreldranna til að annast drengina. Kemur fram í greinargerð sóknaraðila að starfsmenn barnaverndarnefndarinnar hafi frá upphafi reynt að fylgjast náið með aðstæðum drengjanna og liðsinna varnaraðilum við að sinna uppeldisskyldum sínum gagnvart þeim, en erfiðlega hafi gengið að fá þau í viðtal. Þegar loks náðist í þau hefði móðirin viðurkennt fíkniefnaneyslu en sagst vera hætt neyslu. Faðirinn viðurkenndi einnig neyslu kannabis, sem hann sagði hjálpa sér að glíma við þunglyndi. Samþykktu þau að vera í samstarfi við sóknaraðila til að bæta hag barnanna og undirrituðu hvort fyrir sig áætlun um meðferð málsins samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Markmið áætlananna var að tryggja öryggi drengjanna á tímabilinu, styðja sóknaraðila við að búa sonum þeirra tryggar uppeldisaðstæður í framtíðinni, ganga úr skugga um að varnaraðilar væru edrú og styðja þá í að viðhalda „edrúmennsku“, auk þess að ganga úr skugga um að börnin væru ekki skilin eftir í umsjá óhæfs einstaklings. Í áætlun móður drengjanna voru jafnframt rakin hlutverk barnaverndaryfirvalda og hennar við að framfylgja áætluninni, s.s. möguleiki á sálfræðiþjónustu fyrir sóknaraðila og stuðningsfjölskyldu fyrir drengina, greiðsla fyrir mötuneyti og dægradvöl fyrir eldri drenginn, regluleg viðtöl hjá ráðgjafa barnaverndarnefndar, fyrirvaralaus fíkniefnapróf og að tilsjónarmaður kæmi á heimilið einu sinni í viku, en einu sinni til tvisvar sinnum á tímabilinu yrðu óvæntar heimsóknir. Jafnframt skuldbatt móðir sig til að halda sig frá allri neyslu vímuefna, vinna að markmiðum áætlunarinnar í samstarfi við varnaraðila, mæta í tíma hjá sálfræðingi og í viðtöl hjá ráðgjafa, taka á móti heimsóknum tilsjónaraðila með jákvæðum hætti og nýta þjónustu stuðningsfjölskyldu. Faðir drengjanna samþykkti sambærileg stuðningsúrræði auk skipunar persónulegs ráðgjafa. Faðir drengjanna samþykkti ekki að hafa tilsjónaraðila og því var það úrræði ekki haft með í áætlun hans.

Sóknaraðili hélt áfram að boða varnaraðila í viðtöl til að fylgjast með gangi mála. Í viðtali við móður 27. janúar 2015 tók hún fram að hún fengi enga hjálp frá föður og að hún væri búin að glíma við mikla vanlíðan. Hún sagðist þó vera að taka sig á og væri staðráðin í að hugsa vel um drengina og sig sjálfa. Þá hafi faðir drengjanna einnig komið í viðtal. Í tengslum við könnun málsins óskaði sóknaraðili eftir upplýsingum, m.a. frá lögreglustjóranum á [...] og Heilsugæslunni á [...]. Bárust upplýsingar frá lögreglu 19. febrúar 2015, þar sem lýst var afskiptum lögreglunnar af drengjunum og varnaraðilum frá árinu 2008. Þar er meðal annars rakið að faðir drengjanna hafi þrisvar frá 10. nóvember 2014 til 20. janúar 2015 verið handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá hafi hann verið handtekinn í lok september 2014 fyrir að áreita ferðamann. Í október s.á. hafi faðir lent í bílveltu ásamt bróður sínum og hafi fundist sprautunálar, kannabis og töfluspjald merkt Sobril í og við bifreiðina. Í nóvember 2014 hafi verið gerð húsleit á heimili móðurömmu drengjanna, sem þá voru í heimsókn hjá henni, og kannabisefni í eigu móðurbróður drengjanna haldlagt. Einnig hafi verið tilkynnt um heimilisofbeldi og hafi það verið tilkynnt til sóknaraðila í nóvember 2014. Loks er greint frá því að móðir hafi 19. desember 2014 verið stöðvuð við akstur bifreiðar og þá viðurkennt neyslu á kannabisefnum. Til viðbótar framangreindu bárust þær upplýsingar frá lögreglustjóranum á [...] 15. september 2015 að faðirinn hefði verið ákærður fyrir að aka undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna hinn 9. apríl það ár, ásamt ákæru fyrir framleiðslu og ræktun á kannabisplöntum á árinu 2014.

Hinn 13. mars 2015 náðist í móður drengjanna símleiðis og var hún beðin um að koma í viðtal, sem hún gerði ásamt föður drengjanna þann sama dag. Sóknaraðilar neituðu bæði að hafa neytt fíkniefna. Móðirin var þá beðin um að gefa þvagsýni svo hægt yrði að kanna hvort einhver fíkniefni mældust í því. Féllst hún á að gefa þvagsýni í ToxCup fíkniefnapróf og mældist það jákvætt fyrir THC (kannabisefni). Viðurkenndi hún þá að hafa nýlega notað kannabisefni þrátt fyrir fullyrðingar um annað stuttu áður. Faðirinn neitaði hins vegar að gefa þvagsýni. Í viðtalinu var undirrituð ný áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga þar sem varnaraðilum voru boðin ýmis stuðningsúrræði.

Hinn 20. mars 2015 bárust sóknaraðila að nýju upplýsingar um að varnaraðilar væru bæði í neyslu kannabisefna. Upplýsti tilkynnandi m.a. að faðir drengjanna væri í daglegri neyslu kannabisefna. Þá hafði tilkynnandi jafnframt áhyggjur af því að móðir væri í neyslu. Einnig greindi tilsjónaraðili frá því að móðir hefði síðustu vikuna í mars viðurkennt að hún hefði notað kannabisefni helgina áður. Í ljósi þessara upplýsinga reyndi sóknaraðili að fá varnaraðila aftur í viðtal og kom móðirin í viðtal 30. sama mánaðar. Hinn 10. apríl sama ár samþykkti móðirin nýja áætlun um meðferð málsins, þar sem hún samþykkti meðal annars að fara í meðferð. Hinn 31. mars óskaði faðir drengjanna eftir viðtali við ráðgjafa og sagðist vilja vera í fullri samvinnu við sóknaraðila. Viðurkenndi hann neyslu fíkniefna, en sagðist vera búinn að vera edrú í nokkrar vikur. Faðir gaf þvagsýni og mældust engin fíkniefni í því.

Móðirin fór í tíu daga áfengis- og fíkniefnameðferð á Vogi 17. apríl 2015 og fór faðirinn með umsjón drengjanna á meðan. Hún ákvað hins vegar að fara ekki í framhaldsmeðferð á Vík, þrátt fyrir ráðleggingar varnaraðila. Hinn 20. apríl sama mánaðar var gerð sérstök áætlun um meðferð máls fyrir föður. Lögð var áhersla á „edrúmennsku“ og viðeigandi umönnun drengjanna. Þá greiddi sóknaraðili fyrir sálfræðiaðstoð og HAM-námskeið fyrir hann, ásamt því að útvega honum persónulegan ráðgjafa. Sóknaraðila bárust upplýsingar um það nokkrum vikum síðar að hann mætti illa á námskeiðið og væri að missa íbúðina sem hann bjó í með drengina.

Af gögnum málsins má sjá að næstu mánuði gekk erfiðlega að ná sambandi við sóknaraðila og fá upplýsingar um búsetu og aðbúnað drengjanna. Í tilkynningu 8. júní 2015 fékk sóknaraðili þær upplýsingar að faðir væri búsettur í [...] hjá móður sinni, ásamt drengjunum. Í tilkynningunni var tekið fram að hann væri í neyslu og líklegt að faðir beitti móður líkamlegu ofbeldi. Í tilkynningunni var jafnframt upplýst að fjölskyldan ætlaði flytja til [...] 19. júní sama mánaðar, en sóknaraðili hafði engar upplýsingar fengið um slíkar fyrirætlanir frá varnaraðilum. Þegar loks náðist í föður drengjanna 10. júní var hann upplýstur um tilkynningarnar sem hefðu borist. Neitaði hann því að vera í neyslu og sagði jafnframt að þau ætluðu að búa í [...] um veturinn og væru að leita sér að íbúð þar.

Hinn 19. júní 2015 bárust tvær tilkynningar til sóknaraðila undir nafnleynd um harða neyslu beggja varnaraðila og vanrækslu þeirra á drengjunum. Samkvæmt tilkynningunum voru báðir varnaraðilar í mjög óstöðugu ástandi. Annar tilkynnandinn efaðist um geðheilsu föður drengjanna og sagði hann farinn að sýna einkenni geðveilu. Hinn tilkynnandinn tók fram að móðir drengjanna væri búin að vera í harðri neyslu síðustu vikur. Hún hefði viðurkennt neyslu sína fyrir ættingjum sínum og sagt að hún ætlaði að flytja með drengina til [...] og búa þar í tjaldi. Tilkynnandi tók fram að fjölskyldan byggi hjá ömmu drengjanna í [...] og að hún þyrði ekki að fara neitt þar sem hún hefði áhyggjur af drengjunum.

Móðir drengjanna fluttist til [...] 19. júní 2015. Næstu daga kveðst sóknaraðili ítrekað hafa reynt að ná í varnaraðila til að ræða um vinnslu barnaverndarmáls drengjanna en ekki hafi náðst í þau. Hinn 6. júlí 2015 fékk sóknaraðili þær upplýsingar að faðir drengjanna væri farinn með báða drengina út til [...] en myndi koma með þá til baka. Tilkynnandi óttaðist að ekki yrði af því.

Hinn 14. júlí 2015 barst sóknaraðila tilkynning frá lögreglustjóranum á [...] um að faðir drengjanna hefði 3. júlí 2015 verið stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna með eldri drenginn í framsætinu. Hann neitaði að láta í té þvagsýni til fíkniefnaprófunar og var vakthafandi læknir fenginn til að taka úr honum blóð til fíkniefnaskimunar. Við rannsókn sýnis mældust 3,2 ng/ml af tetrahýdrókannabínól (kannabisefni).

Í ljósi framkominna upplýsinga óskaði sóknaraðili eftir aðstoð barnaverndar í [...] með bréfi, dags. 16. júlí 2015, til að afla upplýsinga um aðsetur og aðstæður drengjanna. Samhliða því var ítrekað reynt að ná sambandi við varnaraðila, án árangurs. Hinn 6. ágúst 2015 fengust þær upplýsingar í símtali við móður drengjanna að eldri drengurinn væri hjá henni í [...] og sá yngri hefði farið til Íslands með föður sínum. Í símtalinu tók hún fram að faðir ætlaði að fara með yngri drenginn aftur út til [...] á næstu dögum.

Þegar ljóst var að drengurinn væri kominn til landsins í stuttan tíma og í umsjá föður síns ákvað sóknaraðili í ljósi forsögu málsins að halda teymisfund 6. ágúst 2015 um mál hans. Var þar ákveðið að taka drenginn úr umsjá föður síns og vista hann á heimili á vegum sóknaraðila á meðan frekari könnun færi fram. Ekki fékkst samþykki föður fyrir aðgerðinni. Í samræmi við 2. mgr. 31. gr. barnaverndarlaga var málið tekið til meðferðar og úrskurðar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga á fundi sóknaraðila 17. ágúst 2015. Varnaraðilar kærðu þann úrskurð til héraðsdóms. Meðan á meðferð málsins stóð fyrir dómi leitaði móðir drengsins eftir sáttaviðræðum við sóknaraðila um tímabundna vistun drengsins utan heimilis meðan frekari athugun á aðstæðum varnaraðila færi fram. Var kæran dregin til baka eftir að aðilar komust að samkomulagi um tímabundna vistun drengsins utan heimilis til 4. janúar 2016 og umgengni. Þar kom meðal annars fram að markmið áætlunarinnar væri að skapa drengnum tryggar og stöðugar aðstæður, þar sem hann fengi tækifæri til að dafna og þroskast á eðlilegan hátt. Þar sagði jafnframt að hlutverk barnaverndaryfirvalda væri að sjá drengnum fyrir tímabundnu fósturheimili og kanna aðstæður varnaraðila með tilliti til þess hvort þau gætu fengið drenginn í sína umsjá á ný að vistunartímanum liðnum. Við mat á aðstæðum yrðu húsnæðis- og fjárhagsmál varnaraðila skoðuð og gengið úr skugga um að foreldranarnir væru „edrú“. Var og tekið fram að faðirinn ætti rétt á umgengni við drenginn eina helgi í mánuði og myndi sóknaraðili þá greiða fyrir hann flugfargjald. Áður en umgengni hæfist myndi faðir gefa þvagsýni til fíkniefnamælingar. Ef engin fíkniefni mældust í þvagi fengi faðir umgengni við drenginn frá föstudegi til sunnudags. Ef hins vegar fíkniefni mældust í þvagi myndi umgengnin fara fram undir eftirliti. Samkvæmt samkomulaginu var hlutverk foreldra meðal annars að vinna að markmiði áætlunarinnar og halda sig frá allri neyslu fíkniefna. Ekki var mælt sérstaklega fyrir um umgengni móður í áætluninni þar sem gert var ráð fyrir að hún yrði í [...] fram að jólum. Hún óskaði hins vegar eftir áframhaldandi Skype-viðtölum við drenginn tvisvar sinnum í viku, sem fallist var á. Enn fremur var tekið fram að ef samningurinn yrði rofinn yrði áætlunin þegar tekin til endurskoðunar. Umgengni varnaraðila og annarra nákominna væri að öðru leyti eftir samkomulagi hverju sinni, þ.e. að ef óskað yrði eftir frekari umgengni yrði reynt að koma til móts við þær óskir þeirra. Þá var rætt um að varnaraðilar gætu fengið drenginn til sín yfir jólin ef þeir héldu sig frá allri neyslu fíkniefna. Stuttu eftir að samningurinn var gerður ákvað móðir drengsins hins vegar að flytja aftur til Íslands með eldri bróður hans. Varnaraðilar tóku þá aftur saman og bjuggu um skeið í [...] heima hjá ömmu drengsins. Umgengni þeirra við drenginn átti sér stað í nokkur skipti í október og gekk hún vel samkvæmt upplýsingum frá vistforeldrum.

Hinn 29. október 2015 barst sóknaraðila tilkynning undir nafnleynd um að sóknaraðilar væru í fíkniefnaneyslu og hefðu verið að reykja kannabis á meðan þau voru með syni sína á [...]. Í framhaldi af móttöku tilkynningarinnar var haldinn teymisfundur hjá starfsmönnum varnaraðila og ákveðið að hefja könnun málsins.

Hinn 10. nóvember 2015 óskaði móðirin eftir að pantað yrði flug til [...] fyrir hana, föðurinn og eldri drenginn 20. til 22. nóvember. Af hálfu sóknaraðila var ekki fallist á að greiða kostnaðinn fyrir þau öll þrjú, þar sem eingöngu hefði verið samið um að greiða kostnað fyrir föður, en boðist til að greiða fyrir þau eldsneytiskostnað ef þau vildu koma akandi. Varnaraðilar svöruðu ekki tölvupóstinum og því varð ekkert af umgengninni.

Starfsmaður sóknaraðila sendi tölvubréf til móðurinnar 2. desember 2015 þar sem hún var beðin um að hafa samband þar sem fresta þyrfti umgengi komandi helgi. Bauðst starfsmaðurinn til að finna annan tíma fyrir þau og lengja tímann til að bæta þeim þetta upp. Ekkert svar barst við tölvubréfinu fyrir helgina, en í kjölfarið,  hinn 10. desember 2015, barst sóknaraðila svo tilkynning frá lögmanni varnaraðila um riftun samnings um tímabundna vistun drengsins utan heimilis, þar sem ekki hefði verið staðið við samkomulag um umgengni. Var jafnframt gerð krafa um að varnaraðilar fengju drenginn þegar afhentan til sín.

Hinn 15. desember 2015 var fyrirhugaður fundur hjá sóknaraðila og voru varnaraðilar upplýstir um að riftunaryfirlýsingin yrði tekin fyrir á fundinum, ef það væri þeirra vilji. Starfsmenn sóknaraðila lögðu til að varnaraðilar legðu fram á fundinum beiðni um umgengni yfir jólin, auk þess sem þeim var ráðlagt að fara í fíkniefnapróf í [...] til að sýna fram á að þau væru ekki í neyslu. Ef staðfesting þess lægi fyrir á fundinum væru góðar líkur á að beiðni um umgengni yfir jólin yrði samþykkt og myndi sóknaraðili greiða fyrir bensín ef þau vildu sækja drenginn. Á fundinum 15. desember 2015 mat sóknaraðili það svo, í ljósi þess að varnaraðilar hefðu rift samkomulagi um vistun drengsins, fyrirliggjandi gagna og að teknu tilliti til athugasemda og krafna lögmanns varnaraðila, að nauðsynlegt væri að kyrrsetja drenginn á þeim stað sem hann dvaldist í allt að tvo mánuði, á meðan frekari könnun á aðstæðum varnaraðila færi fram. Þar sem samþykki varnaraðila skorti var málið tekið til úrskurðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Í úrskurðarorðum var jafnframt mælt fyrir um það skilyrði að niðurstöður úr fíkniefnamælingu varnaraðila lægju fyrir áður en ákvörðun væri tekin um hvort úrskurði um kyrrsetningu yrði aflétt. Þá lyti umgengni varnaraðila við barnið sömu skilyrðum.

Í framhaldi af úrskurði sóknaraðila fóru varnaraðilar í fíkniefnaprufu á heilsugæslunni á [...] 17. desember 2015. Gáfu þau þvagsýni í ToxCup og mældist móðir jákvæð fyrir THC (kannabisefni), en hjá föðurnum var línan fyrir THC dauf. Varnaraðilum var tilkynnt niðurstaðan og vildi faðirinn láta endurtaka mælinguna og fá blóðprufu þar sem hann taldi þessa mælingu óáreiðanlega. Samþykkt var að þau færu aftur í próf og mældust þau þá bæði neikvæð. Jafnframt var tekið fram af hálfu þess læknis sem prófin tók að sýnin sem varnaraðilar gáfu hefðu verið útþynnt sökum mikillar vatnsdrykkju. Á grundvelli niðurstöðunnar var varnaraðilum heimiluð umgengi frá föstudegi til sunnudags.

Hinn 21. desember krafðist lögmaður varnaraðila þess að nýju að foreldrarnir fengju drenginn til sín því engin efni hefðu mælst í þeim og það hafi alltaf verið nefnt ástæða vistunar utan heimilis. Í kjölfar þessu samþykktu þau bæði að fara í fíkniefnamælingu. Voru niðurstöður mælingarinnar þær að þau mældust bæði jákvæð fyrir THC (kannabis). Einnig mældist faðirinn jákvæður fyrir OPI (morfínskyld lyf). Ákveðið var að senda þvagið til frekari rannsókna hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands og samkvæmt niðurstöðum þeirrar rannsóknar reyndist móðirin hafa verið með 80 ng/ml tetrahýdrókannabínólsýru (kannabis) í þvagi, en engin efni voru mælanleg í þvagi föður. Í framhaldi af þessari niðurstöðu var haldinn teymisfundur hjá starfsmönnum sóknaraðila og tekin ákvörðun um að úrskurðurinn frá 15. desember stæði og barnið skyldi vera kyrrt á þeim stað sem það dvaldist og yrði ekki afhent varnaraðilum í umgengni án eftirlits. Málið yrði aftur tekið fyrir á fundi sóknaraðila í byrjun janúar 2016.

Í drögum að áætlun um meðferð máls frá 22. desember sl. er ráðgert að varnaraðilar fái umgengni við drenginn aðra hverja helgi út vistunartímann og að eldsneytiskostnaður verði greiddur vegna ferða þeirra á milli [...] og [...] vegna umgengninnar. Jafnframt eru umgengnisdagar tilgreindir og fyrirkomulag umgengninnar. Var þannig gert ráð fyrir umgengni helgina 9.-10. janúar 2016. Varnaraðilar tilkynntu hins vegar að þau kæmust ekki þá daga. Kveðst sóknaraðili þá hafa óskað eftir upplýsingum um hvaða tími hentaði þeim fyrir umgengni en engin svör hafi borist. Einnig er í drögunum mælt fyrir um þau skilyrði sem varnaraðilar þurfi að fullnægja á vistunartímanum til að geta fengið drenginn í umsjá sína að nýju.

Varnaraðilar kærðu framangreindan úrskurð sóknaraðila til héraðsdóms 23. desember 2015. Við skýrslutöku fyrir dómi 18. janúar 2016 viðurkenndu báðir varnaraðilar að hafa síðast neytt fíkniefna þremur mánuðum áður. Úrskurður var kveðinn upp í málinu 22. janúar 2016, þar sem kröfu þeirra um að hinn kærði úrskurður yrði felldur úr gildi, var hafnað.

Hinn 7. janúar 2016 var málið enn tekið fyrir á fundi sóknaraðila. Lögmaður varnaraðila var viðstaddur fundinn í gegnum síma og liggur bókun lögmannsins fyrir í málinu og athugasemdir varnaraðila vegna áætlunarinnar. Þá liggur fyrir bókun sóknaraðila um að hafna kröfu varnaraðila um að kyrrsetningunni verði aflétt og lagt fyrir starfsmenn að ganga frá áætlun um meðferð máls samkvæmt umræðum á fundinum. Voru varnaraðilar upplýstir um þetta með tölvubréfi sóknaraðila sama dag, og send ný drög að áætlun um meðferð máls 11. sama mánaðar. Var þar óskað eftir athugasemdum þeirra en engin svör bárust. Drögin voru að nýju send varnaraðilum 19. s.m. og tekið fram að ef engin svör kæmu fyrir 21. s.m. yrði litið svo á að varnaraðilar höfnuðu samvinnu við sóknaraðila. Í kjölfarið bárust athugasemdir frá lögmanni varnaraðila og þess krafist að teknar yrðu blóðprufur í stað þvagprufa, sem starfsmenn sóknaraðila töldu sér ekki fært að verða við. Þar sem ekki náðist samkomulag um áætlunina taldi sóknaraðili nauðsynlegt að gera einhliða áætlun um meðferð málsins. Lá hún endanlega fyrir 28. janúar 2016 og var hún tilkynnt varnaraðilum með tölvubréfi þann sama dag. Kom þar meðal annars fram að áður en vistunartímanum lyki yrðu aðstæður varnaraðila skoðaðar vel og lagt mat á hvort þau teldust hæf til að sinna foreldraskyldum sínum. Þá þyrftu varnaraðilar að sýna fram á að þau væru ekki í neyslu fíkniefna. Sóknaraðili myndi jafnframt sjá til þess að varnaraðilar fengju umgengni við drenginn aðra hverja helgi á tilgreindum dögum og taka þátt í eldsneytiskostnaði þeirra við að komast á milli [...] og [...]. Einnig myndi sóknaraðili tryggja að varnaraðilar gætu farið í fíkniefnamælingu fyrirvaralaust. Í áætluninni kom fram hvers sóknaraðili krefðist af varnaraðilum, nánar tiltekið að þau sýndu fram á að þau væru ekki í fíkniefnaneyslu, að þau mættu í boðaðar fíkniefnamælingar, að þau tryggðu afkomu sína, að þau tryggðu að uppeldisaðstæður á heimili fjölskyldunnar fullnægðu þörfum barnsins og að þau ræktu umgengni við barnið á þeim dögum sem taldir voru upp í áætluninni og legðu sig fram við að hún gengi vel og væri ánægjuleg fyrir drenginn. Gert var ráð fyrir að áætlunin myndi gilda til 15. febrúar 2016 og að hún og árangur hennar yrðu endurskoðuð fyrir þann tíma.

Með bréfi, dags. 18. janúar 2016, óskuðu starfsmenn sóknaraðila eftir liðsinni barnaverndarnefndar F við að kanna aðstæður á heimili varnaraðila, en sóknaraðili kveður treglega hafa gengið að fá upplýsingar frá barnavernd F um meðferð máls eldri drengsins og aðstæður fjölskyldunnar. Hinn 29. janúar 2016 voru varnaraðilar boðaðir í fyrirvaralausa fíkniefnamælingu á heilsugæslunni í [...]. Gáfu varnaraðilar bæði þvagsýni í ToxCup og mældist móðirin jákvæð fyrir THC (kannabisefni), en ekkert mældist hjá föðurnum.

Varnaraðilar voru boðaðir í óundirbúna fíkniefnamælingu 8. febrúar 2016. Móðirin neitaði að fara í mælinguna en faðirinn mætti og mældust engin efni í þvagi hans. Þennan sama dag bárust niðurstöður úr magngreiningu á sýni móðurinnar frá 29. janúar s.á. og var niðurstaðan sú að fíkniefni í þvagi móðurinnar hefðu mælst undir viðmiðunarmörkum.

Hinn 11. febrúar 2016, sama dag og málið var tekið fyrir á fundi sóknaraðila, barst sóknaraðila svar frá barnaverndarnefnd F, dags. 8. s.m. Þar kom fram að ekki hefði farið fram ítarleg könnun á aðstæðum fjölskyldunnar þar sem erfiðlega hefði gengið að ná samstarfi við varnaraðila. Þau hefðu þó mætt í viðtöl, einu sinni bæði, og móðirin einu sinni ein. Í viðtölunum hefði komið fram að fjölskyldan hefði búið hjá móðurömmunni en væri nú flutt í sumarbústað í [...]. Varnaraðilar hefðu bæði sagst vera í vinnu. Móðirin hefði nýlega sýnt meiri samstarfsvilja og til stæði að starfsmenn barnaverndar færu á heimili fjölskyldunnar 10. febrúar. Þá kom fram að samkvæmt umsögn frá skóla, dags. 16. desember 2015, væri ekki ástæða til að ætla að aðbúnaði eldri drengsins væri ábótavant það sem af væri vetri. Á fundinum 11. febrúar kom og fram að sóknaraðila hefðu borist munnlegar upplýsingar frá barnaverndarnefnd F um að umræddu sumarbústaður liti vel út. Var það niðurstaða sóknaraðila á fundinum að umrædd gögn bentu til þess að aðstæður hefðu batnað á heimili barnsins. Væru því ekki forsendur til að gera kröfu um frekari vistun drengsins utan heimilis. Í framhaldi fundarins hafði starfsmaður sóknaraðila samband við lögmann varnaraðila og upplýsti hann um niðurstöðuna og tjáði honum að varnaraðilar gætu sótt drenginn, en þeir yrðu þó að hafa samband við sóknaraðila til að skipuleggja afhendinguna. Varnaraðilar höfðu samband við sóknaraðila með tölvubréfi 12. febrúar 2016 og tilkynntu að móðirin væri að leggja af stað [...] til að ná í drenginn. Þar sem vinnureglur sóknaraðila komu í veg fyrir að hægt væri að afhenda barnið þá var það sameiginleg niðurstaða aðila að faðirinn kæmi til [...] á mánudeginum 15. febrúar til að sækja drenginn. Það gekk hins vegar ekki eftir og hafa varnaraðilar tiltekið að ástæða þess hafi verið bilun í bíl föður. Var þá úr að móðirin kæmi [...] seinni partinn daginn eftir, þriðjudaginn 16. febrúar. Umrætt flug var hins vegar fellt niður vegna ófærðar.

Hinn 16. febrúar 2016 var haldinn fundur hjá sóknaraðila vegna framkominna tilkynninga, sem voru í fyrstu sendar inn undir nafnleynd. Tilkynnendurnir, sem voru föðuramma drengsins, föðursystir og  fjölskylduvinur föðurfjölskyldunnar, ákváðu síðar að tilkynningarnar skyldu vera undir nafni. Í tilkynningum þessum kom meðal annars fram að heimili varnaraðila væri óviðunandi fyrir börn. Þar væri ekki heitt vatn og engin þvottavél, auk þess sem ljóst væri að varnaraðilar gætu misst húsnæðið hvenær sem er. Þá kom og fram í tilkynningu föðursysturinnar að um ítrekað ofbeldi hefði verið að ræða milli varnaraðila, sem eldri drengurinn hefði orðið vitni að, og að báðir synir þeirra hefðu orðið fyrir ofbeldi af hálfu móðurinnar. Niðurstaða fundar sóknaraðila var sú að óska eftir samstarfi við varnaraðila um vistun utan heimilis í allt að tvo mánuði á meðan frekari könnun á tilkynningunum færi fram. Var það mat sóknaraðila að ef slíkt samþykki fengist ekki yrði nauðsynlegt að kyrrsetja drenginn með neyðarráðstöfun hjá fósturforeldrunum, sbr. 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 27. gr. sömu laga. Varnaraðilar samþykktu ekki vistun drengsins utan heimilis og taldi sóknaraðili því nauðsynlegt að beita neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga, sbr. a-lið 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Málið var á ný tekið fyrir á fundi sóknaraðila 29. febrúar 2016 og komst nefndin að þeirri niðurstöðu, í úrskurði uppkveðnum þann dag, að nauðsynlegt væri að kyrrsetja drenginn á þeim stað sem hann dvaldist, í allt að tvo mánuði frá 29. febrúar að telja, á meðan frekari könnun á aðstæðum varnaraðila færi fram. Þá samþykkti nefndin og á fundinum að gert yrði foreldrahæfnismat á varnaraðilum. Eftir að sóknaraðili hafði boðið varnaraðilum að velja á milli tveggja hæfra úttektarmanna til að gera foreldrahæfnismatið var niðurstaðan sú að G sálfræðingur skyldi taka verkefnið að sér.

Sóknaraðili sendi varnaraðilum og lögmanni þeirra drög að áætlun um meðferð málsins út vistunartímann hinn 10. mars 2016 og óskaði eftir samþykki eða athugasemdum þeirra við áætluninni. Var ítrekun send með tölvubréfi 15. mars s.m. Engin svör bárust og töldu starfsmenn sóknaraðila sig því tilneydda til að gera einhliða áætlun um meðferð málsins, dags. 31. s.m. Í áætluninni var m.a. gert ráð fyrir að sóknaraðili myndi sjá drengnum fyrir tímabundnu fósturheimili á meðan úrskurður sóknaraðila frá 29. febrúar 2016 væri í gildi. Sóknaraðili skyldi sjá til þess að varnaraðilar fengju umgengni við drenginn aðra hverja helgi og taka þátt í eldsneytiskostnaði varnaraðila við að komast á milli [...] og [...]. Einnig myndi sóknaraðili tryggja að varnaraðilar gætu farið í fíkniefnamælingu fyrirvaralaust. Í áætluninni kemur einnig fram til hvers sóknaraðili ætlast af varnaraðilum, þ.e. að varnaraðilar sýni fram á að þeir séu ekki í fíkniefnaneyslu, að þeir mæti í boðaðar fíkniefnamælingar, að varnaraðilar tryggi afkomu sína, að þeir tryggi að uppeldisaðstæður á heimili þeirra fullnægi þörfum barnsins og að varnaraðilar ræki umgengni við drenginn á þeim dögum sem taldir eru upp í áætluninni.

Í samræmi við úrskurð sóknaraðila frá 29. febrúar sl. fór sóknaraðili fram á aðstoð barnaverndarnefndar F í tengslum við frekari könnun á aðstæðum varnaraðila, sbr. beiðni, dags. 1. apríl sl. Svar barst frá nefndinni 18. apríl sl. þar sem engar athugasemdir voru gerðar við bústað varnaraðila.

Varnaraðilar kærðu framangreindan úrskurð sóknaraðila til Héraðsdóms [...], sem staðfesti hann með úrskurði 30. mars sl. Varnaraðilar kærðu þann úrskurð jafnframt til Hæstaréttar, sem vísaði málinu frá þar sem kærufrestur væri liðinn.

Mál drengsins var enn tekið fyrir á fundi sóknaraðila 25. apríl 2016. Á fundinum var ákveðið að leggja fram kröfu fyrir héraðsdóm um úrskurð um áframhaldandi vistun drengsins til tveggja mánaða í þeim tilgangi að ljúka foreldrahæfnismati og framkvæma frekari könnun á aðstæðum varnaraðila, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga. Var krafan lögð fram í Héraðsdómi Vesturlands 28. s.m. Með tilliti til þess að von væri á framangreindri matsgerð sálfræðingsins var aðalmeðferð málsins frestað með samþykki aðila. Í kjölfar þess að matið lá fyrir hinn 27. maí s.á. féllu varnaraðilar frá andmælum við kröfum sóknaraðila og var málið því tekið til úrskurðar. Með úrskurði, uppkveðnum 13. júní s.á., var krafa sóknaraðila tekin til greina og sóknaraðila þannig heimilað að vista drenginn utan heimilis til 29. s.m. Stuttu áður, eða 8. s.m., hafði móðirin undirritað áætlun um meðferð máls þar sem fram kom að foreldrar fengju tiltekna umgengni, eða 11.-12. og 25.-26. júní, og ef foreldrar væru í góðri samvinnu við sóknaraðila yrði umgengni þeirra aukin og færi þá ekki fram undir eftirliti.

Í framangreindu foreldrahæfismati, dags. 27. maí 2016, kemur meðal annars fram að varnaraðilar eigi bæði flókna uppvaxtar- og félagssögu þar sem tilfinningalegir erfiðleikar, hegðunar- og aðlögunarvandi hafi einkennt þroska- og tengslasögu. Þau hafi bæði glímt við neysluvanda, sem sé meginástæða forsjármálsins. Samband þeirra síðastliðin níu ár hafi einkennst af óstöðugleika varðandi búsetu og afkomu þar sem þau hafi ítrekað slitið sambandi, en bæði eigi þau slitrótta vinnu- og skólasögu. Þá hafi samvinna þeirra við barnavernd gengið brösuglega. Í niðurstöðu matsins eru raktir nokkuð ítarlega styrkleikar og veikleikar varnaraðila beggja. Telur sálfræðingurinn báða varnaraðila í töluverðri meðferðarþörf hvað andlega þætti varði. Þá bendir hann á að þau virðist lítið hafa tekið á vímuefnavanda sínum og viðhorf þeirra til neyslu séu þess eðlis að hætta á bakslagi sé töluverð. Var niðurstaðan sú, með tilliti til forsögu málsins og þáverandi stöðu varnaraðila, að ekki væri raunhæft að gera áætlanir um að rjúfa fósturvistun drengsins C, en áhersla yrði lögð á að styðja foreldrana í að leita sér sálfræðiaðstoðar með það að markmiði að ná tilfinningalegum stöðugleika og fyrirbyggja hrösun í neyslu. Þá væri áhersla lögð á samvinnu barnaverndar og foreldra í því að tryggja reglulega umgengni við drenginn.

Á fundi sóknaraðila 9. júní var samþykkt að gera kröfu um vistun drengsins utan heimilis í allt að tólf mánuði, eða til 9. júní 2017. Taldi nefndin, að teknu tilliti til forsögu málsins og niðurstöðu foreldrahæfnismatsins, að hagsmunum barnsins væri best gætt með tólf mánaða fóstri þess. Taldi nefndin einnig nauðsynlegt að styðja foreldrana í uppeldishlutverki sínu á tímabilinu svo drengurinn gæti snúið heim. Það fæli m.a. í sér að foreldrar yrðu til samvinnu við sóknaraðila með það að markmiði að þau yrðu hæfari til að sinna uppeldisskyldum sínum. Lýtur mál þetta að umræddri kröfu.

Varnaraðilar gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Einnig gáfu skýrslu þær H, varaformaður sóknaraðila, I og J, starfsmenn sóknaraðila, auk K og L. Loks kom G sálfræðingur fyrir dóminn og staðfesti og skýrði nánar matsgerð sína.

III.

Sóknaraðili vísar til þess að allt frá því mál drengsins hafi fyrst komið til meðferðar haustið 2014 hafi borist ítrekaðar tilkynningar um vímuefnaneyslu varnaraðila, sem gögn málsins, meðal annars upplýsingar frá lögreglu og fíkniefnapróf, staðfesti, svo og tilkynningar um vanrækslu og sinnuleysi varnaraðila gagnvart drengjunum. Sóknaraðili hafi frá upphafi reynt að beita öllum þeim úrræðum sem á valdi hans séu til að skapa drengnum það öryggi og þær aðstæður sem hann eigi skýlausan rétt á og séu honum fyrir bestu. Fjölmargar áætlanir hafi verið gerðar, ýmist með eða án samþykkis varnaraðila, í samræmi við ákvæði 23. gr. barnaverndarlaga, og hafi þær allar miðað að því að varnaraðilar taki á vandamálum sínum þannig að þeim sé kleift að annast uppeldi drengsins og búa honum viðunandi og stöðugar uppeldisaðstæður. Þá hafi varnaraðilum verið boðin þau meðferðarúrræði og stuðningsúrræði sem möguleg hafi verið hverju sinni. Þannig hafi ávallt verið leitast við að beita eins vægum úrræðum gagnvart varnaraðilum og unnt hafi verið. Af forsögu og gögnum málsins megi hins vegar sjá að áætlanir sem sóknaraðili hafi gert í samráði við varnaraðila hafi ekki skilað árangri og varnaraðilar hafi ekki getað staðið við þær eða ekki viljað samþykkja þær. Þá hafi úrvinnsla tilkynninga og könnun máls, þ. á m. vinna við foreldrahæfnismat, fíkniefnamælingar og staðfesting á upplýsingum, gengið seint fyrir sig, þar sem erfiðlega hafi gengið að ná sambandi við varnaraðila og fá þau til samstarfs um málefni drengsins.

Ráða megi af foreldrahæfnismati G sálfræðings að hagsmunum drengsins sé best mætt með áframhaldandi tímabundinni fósturvistun, en að regluleg umgengni við foreldra og eldri bróður verði tryggð. Í matinu komi fram að mikill óstöðugleiki einkenni enn líf foreldranna, þau séu án atvinnu og glími bæði við húsnæðis- og fjárhagsvanda. Þau hafi slitið samvistum og móðir drengsins hafi fyrirætlanir um að flytja úr landi. Faðirinn sé óvinnufær vegna heilsubrests og að hann þurfi á meðferð að halda hvað varði líkamlega uppbyggingu, auk þess sem foreldrarnir þurfi báðir á sálfræðimeðferð að halda vegna andlegra erfiðleika. Þá segi í forsjárhæfnismatinu að móðirin virðist hvorki telja neyslu fíkniefna skaðlega né athugaverða. Faðirinn hafi lýst sambærilegu viðhorfi til neyslu kannabisefna og telji hann að neysla þeirra sé réttlætanleg og ekki vandamál. Hvorugt þeirra hafi tekið markvisst á vímuefnavanda sínum, að öðru leyti en því að hafa haldið bindindi til nokkurra mánaða. Auk þess sé hætta á bakslagi töluverð. Að framangreindu virtu sé það niðurstaða sálfræðingsins að hagsmunum drengsins sé ekki best mætt við þau uppeldisskilyrði sem foreldrar hans geti veitt honum. Sé í matinu og tiltekið að mikilvægt sé að foreldrarnir verði studdir í því að leita sér sálfræðiaðstoðar, með það að markmiði að ná tilfinningalegum stöðugleika og fyrirbyggja hrösun í neyslu. Auk þess sé mikilvægt að leggja áherslu á samvinnu barnaverndar og foreldra til þess að tryggja reglulega umgengni við drenginn. Sóknaraðili bendi á að aðstæður varnaraðila hafi lítið breyst frá því foreldrahæfnismatið var unnið.

Móðirin hafi skrifað undir áætlun um meðferð máls hinn 8. júní sl., en ekki hafi náðst í föður til að kanna afstöðu hans til áætlunarinnar. Í áætluninni hafi verið til þess ætlast af varnaraðilum að þau sýndu fram á að þau væru ekki í fíkniefnaneyslu, að þau mættu í boðaðar fíkniefnamælingar, að þau tryggðu afkomu sína og væru hæf til að ala önn fyrir barni, að þau tryggðu að uppeldisaðstæður á heimili fjölskyldunnar fullnægðu þörfum barnsins og að þau legðu sig fram við að sinna umgengni við barnið á þeim dögum sem taldir hafi verið upp í áætluninni. Með áætluninni hafi sérstaklega verið stefnt að því að auka umgengni varnaraðila við drenginn að gildistíma hennar loknum og  sérstaklega tekið fram að ef varnaraðilar gætu ekki svarað síma bæri þeim að hringja til baka í sóknaraðila. Þetta hafi ekki gengið eftir. Ekki hafi náðist í varnaraðila símleiðis til að boða þau í fíkniefnamælingar á tímabilinu 17. mars-21. júní, og þau hafi ekki hringt til baka. Allt til 21. júní hafi engin fíkniefnamæling farið fram á gildistíma áætlunarinnar. Þann dag hefði móðirin mætt í fíkniefnamælingu og hafi sú prufa þar af leiðandi verið sú fyrsta sem hún hefði mætt í síðan 17. mars. Faðirinn hefði þó ekki mætt í prufu síðan 8. febrúar. Með tölvupósti móðurinnar til starfsmanns varnaraðila 14. júní sl. hafi hún tilkynnt sóknaraðila að til stæði að hún færi til [...] þegar hún hefði fengið drenginn. Hafi móðirin sinnt umgengni í samræmi við áætlun í júnímánuði.

Af gögnum málsins megi ráða að foreldrarnir hafi í langan tíma sýnt af sér verulegt sinnuleysi varðandi umgengni og tengslamyndun við drenginn á vistunartímanum. Þeir hafi ekki sinnt umgengni við hann í samræmi við meðferðaráætlanir og brugðist seint við flestum fyrirspurnum frá sóknaraðila, m.a. um tillögur að tíma fyrir umgengni sem hentaði þeim. Í þau skipti sem varnaraðilar hafi ekki komist hafi þeim verið boðinn annar tími eða þau beðin um að koma með tillögur að tíma sem hentaði þeim, en illa hafi gengið að ná í varnaraðila til að fá upplýsingar um það hvort og þá hvenær þau hygðust rækja umgengni við drenginn hverju sinni. Þá hafi þau ekki alltaf staðið við þann tíma sem þau hafi óskað eftir. Varnaraðilar hafa einnig nýtt illa Skype-símtöl við drenginn sem þeim hafi staðið til boða tvisvar í viku.

Faðirinn hafi síðast mætt í fíkniefnamælingu 8. febrúar s.l. en móðirin 21. júní sl. Hafi þau bæði mælst neikvæð, en endanleg niðurstaða úr blóð- og þvagprufum sem teknar hafi verið hjá móður fyrrgreindan dag liggi þó ekki fyrir. Frá 17. mars hafi verið reynt að boða varnaraðila í sex fíkniefnamælingar. Ekki hafi náðst í þau til að mæta í óundirbúnar fíkniefnamælingar 21. mars, 28. apríl, 9. maí, 29. maí, 30. maí og 14. júní sl., þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir starfsmanns sóknaraðila, og hafi almennt reynst mjög erfitt að ná í þau. Þá sé í forsjárhæfnismati sérstaklega vísað til þess að viðhorf varnaraðila til fíkniefnaneyslu sé áhyggjuefni þar sem þau virðist ekki telja að neysla kannabisefna sé í öllum tilvikum óæskileg. 

Eftir að niðurstaða foreldrahæfnismatsins hafi legið fyrir hafi móðirin mótmælt staðhæfingum í matinu þess efnis að hún hygðist flytja til [...] og haldið því fram að um sögusagnir væri að ræða. Sóknaraðili hafi af því tilefni leitað til G sálfræðings hinn 6. júní sl. með fyrirspurn um það hvort hann teldi að mótmæli móðurinnar gætu haft áhrif á niðurstöðu matsins. Í svari G hinn 9. júní sl. hafi komið fram að móðirin hefði rætt við hann í síma 5. maí sl. og lýst fyrir honum áformum sínum um flutninga erlendis. Þar af leiðandi væri ljóst að ekki væru um sögusagnir að ræða heldur upplýsingar sem móðirin hefði sjálf veitt. Ljóst væri að óstöðugleiki móðurinnar héldi áfram og því væri það áfram mat hans að hagsmunum drengsins væri best borgið í tímabundnu fóstri utan heimilis. 

Fyrir liggi að líf varnaraðila hafi einkennst af óstöðugleika og rótleysi í alllangan tíma. Bæði móðirin og faðir hafa flutt margsinnis síðan sóknaraðili fékk málið til meðferðar, á haustmánuðum 2014, og nú sé hvorugt þeirra með fasta atvinnu. Því liggi ekki fyrir hvernig þau hyggist tryggja afkomu sína og ala önn fyrir drengnum. Auk þess liggi ekki fyrir hvar móðirin hyggist búa með drenginn, en hún hafi lýst því yfir að hún hyggist ekki búa á [...], þar sem hún hafi dvalist upp á síðkastið, heldur flytja til [...].

Með vísan til alls þessa, forsögu og gagna málsins að öðru leyti, og að virtum hagsmunum barnsins, telji sóknaraðili ekki liggja fyrir, eins og málið standi, að varnaraðilar geti veitt drengnum viðunandi uppeldisaðstæður og þann stöðugleika sem hann eigi rétt á og þarfnist. Ekki séu því fyrir hendi forsendur til að fallast á að varnaraðilar geti tekið við drengnum að nýju, að svo stöddu. Telji sóknaraðili því nauðsynlegt að gera kröfu um að drengurinn verði vistaður utan heimilis í allt að tólf mánuði og sé sú krafa í samræmi við niðurstöðu foreldrahæfnismats G sálfræðings. Ljóst sé að niðurstaða matsins skipti grundvallarmáli hvað varði hæfni varnaraðila til þess að sinna skyldum sínum sem foreldrar drengsins. Auk þess hafi mikla þýðingu að varnaraðilar hafi ítrekað vanrækt að mæta í þær fíkniefnamælingar sem þau hafi verið boðuð í síðan matið var gert og hafi þau því ekki sýnt fram á að þau séu hætt allri neyslu vímuefna. Aukinheldur hafi varnaraðilar hvorki útvegað sér atvinnu né öruggt húsnæði fyrir sig og drengina, og allar fyrirætlanir um slíkt í reynd breyst á örskömmum tíma. Fyrrgreind atriði hljóti að teljast ófrávíkjanleg skilyrði fyrir því að varnaraðilar teljist hæfir til þess að sjá um drenginn.  Rétt er hins vegar að taka fram að móðirin hafi nú í júní sýnt vilja til samvinnu við barnavernd og nú síðustu daga hafi hún uppfyllt skilyrði áætlunar þeirrar sem hún skrifaði undir hinn 8. júní sl. með því að fara í fíkniefnamælingu. Sé þetta jákvæð þróun að mati sóknaraðila.

Ein af meginreglum barnaverndarlaga sé sú að barn eigi rétt á viðeigandi umönnun og vernd í samræmi við aldur sinn og þroska, sbr. 1. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga. Þá sé eitt af meginmarkmiðum barnaverndarlaga að tryggja skuli barni viðunandi uppeldisaðstæður og stöðugleika. Að mati sóknaraðila bendi gögn og forsaga málsins til þess að eins og stendur séu varnaraðilar ekki færir um að veita drengnum þær aðstæður og stöðugleika sem hann eigi rétt á lögum samkvæmt og niðurstaða foreldrahæfnismatsins frá 27. maí 2016 vegi þungt í því samhengi. Því sé brýnt að drengurinn verði vistaður á heimili á vegum sóknaraðila í 12 mánuði. Á þeim tíma gefist varnaraðilum tækifæri til að sýna fram á að þeir hafi hætt allri neyslu vímuefna, leita sér sálfræðiaðstoðar, með það að markmiði að ná tilfinningalegum stöðuleika og útvega sér atvinnu og húsnæði svo þau geti sinnt foreldraskyldum sínum. Varnaraðilum beri auk þess að sinna umgengni og tengslamyndun við drenginn, eins og krafa sé gerð um í meðferðaráætlun sóknaraðila.

Í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga segi að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi. Þessi regla komi einnig fram í 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Samkvæmt ákvæðinu skuli það sem barni sé fyrir bestu hafa forgang þegar meðal annars félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varði börn. Þótt mikilvægt sé að varðveita tengsl barnsins við foreldra og nánustu vandamenn, eins og ráðið verði af ákvæðum barnaverndarlaga og samningsins, verði þeir hagsmunir að víkja fyrir brýnum hagsmunum barnsins sjálfs fari þetta tvennt ekki saman. Sóknaraðili telji, með vísan til framangreinds, svo og gagna og forsögu málsins að öðru leyti, að aðstæður séu með þeim hætti í þessu máli að nauðsynlegt sé að vista drenginn áfram utan heimilis í 12 mánuði og að önnur úrræði séu ekki fær til að ná því markmiði að tryggja drengnum stöðugar og viðunandi uppeldisaðstæður með vægara úrræði, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV.

Varnaraðilinn A vísar til þess að varnaraðilarnir séu nú ekki í sambúð.  Sjálfur búi hann nú og hafi atvinnu hjá móður sinni í [...] og hafi svo verið um talsverðan tíma. Hann hafi aðstoðað hana við að lagfæra húsnæðið og breyta því [...], [...] en hann vinni nú við þá þjónustu.  Hann hafi því bæði húsnæði og atvinnu.

Varnaraðilinn hafi ekki verið í neyslu síðastliðna tíu mánuði. Hann hafi farið í þær fíkniefnamælingar sem náðst hafi að boða hann í, en áhersla sé lögð á að boðað hafi verið í fíkniefnamælingar með mjög skömmum fyrirvara og þá hringt ítrekað á stuttum tíma, t.d. í hálftíma. Á þeim tíma hafi ekki alltaf náðst í hann, enda hafi hann verið við vinnu, auk þess sem hann hafi í samvinnu við barnavernd í F unnið að því að byggja sig upp andlega og líkamlega með heilsurækt, sundi og viðtölum við félagsráðgjafa. Þær fíkniefnamælingar sem hann hafi farið í á þessu ári hafi allar verið neikvæðar og ekki hafi fundist hjá honum nein merki um fíkniefnaneyslu. Þannig hafi hann nýlega farið í fíkniefnamælingu, sem verið hafi neikvæð, sbr. niðurstöðu þeirrar mælingar, dags. 11. júlí sl. Þá komi fram í fyrirliggjandi matsgerð G sálfræðings að á matstímanum hafi hvorki komið fram vísbendingar um vímuefnaneyslu né merki um haldvillur eða geðrofseinkenni. Megi af þessu ráða að engar þær aðstæður sé nú til staðar sem útiloki að drengurinn komi aftur til föður síns.

Móðir varnaraðilans hafi sent inn tilkynningar vegna áhyggna hennar af umönnun drengjanna. Ljóst sé að rekja megi þær fyrst og fremst til óstöðuguleika móður drengsins þó þær hafi verið túlkaðar svo að hún hefði haft áhyggjur af drengjunum í umsjá beggja foreldra. Hún treysti syni sínum vel til þess að hugsa um báða drengina, sbr. fyrirliggjandi yfirlýsingu hennar, þar sem hún staðfesti að hún telji son sinn færan um að sinna þörfum drengsins.

Gagnrýnt hafi verið að varnaraðilinn hafi ekki sinnt umgengni við son sinn í vistun utan heimilis, en hafa beri í huga að drengurinn sé vistaður fjarri föður sínum og landfræðilega og veðurfarslega hafi oft verið erfitt með samgöngur, auk þess sem faðirinn hafi ekki bílpróf. Á fósturheimilinu sé drengurinn einn með fósturforeldrum og fari ekki í leikskóla. Verði það að teljast ámælisvert þar sem sem talið sé mikilvægt fyrir þroska barna að vera í leikskóla. Varnaraðilar hafi verið komin með pláss á leikskóla fyrir drenginn í [...] í febrúar, sem ekki hafi verið unnt að nýta vegna vistunarinnar.  Fái varnaraðili drenginn í sína umsjá muni hann koma drengnum á leikskóla í [...].

Ljóst sé að varnaraðilar hafi verið samvinnuþýðir við starfsmenn barnaverndar F, eins og fyrirliggjandi yfirlýsing þar um staðfesti, og umsjónarkennari eldri sonar þeirra, sem sé í umsjá föður, hafi staðfest að drengurinn sé alltaf snyrtilegur til fara og klæddur eftir veðri. Hann komi á réttum tíma í skólann, ástundun hans þar sé góð, hann lesi heima á hverjum degi og skili heimanámi. Hafi könnun í barnaverndarmáli, sem þar hafi hafist vegna tilkynningar frá sóknaraðila, verið lokið án athugasemda.

Það sé meginregla barnaverndarlaga að ekki skuli grípa til íþyngjandi aðgerða nema brýn nauðsyn sé til og hafi þurft að grípa til slíkra aðgerða eigi þær ekki að standa lengur en þörf krefji. Einnig sé það meginregla í barnaverndarlögum að aðstoða eigi foreldra til að vera sjálf með börn sín með samvinnu og samstarfi. Með lengri vistun utan heimilis séu tengsl barnsins við foreldra og bróður rofin enn frekar en þegar sé orðið, sem verði að teljast mjög varhugavert og ekki í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga. Undarlegt verði að telja að unnt sé að loka barnaverndarmáli í einu umdæmi en vista barn sömu aðila utan heimilis í öðru umdæmi. Það sé einnig meginregla við úrlausn barnaverndarmála að barn skuli vera þar sem hagsmunum þess sé best borgið. Telja verði að betra sé fyrir barn að alast upp hjá fjölskyldu sinni en vandalausum, auk þess sem drengurinn muni verða í leikskóla, komi hann í umsjá föður, en drengurinn hafi ekki verið í leikskóla á vistunartímanum.

V.

Varnaraðilinn D bendir á að á fundi sóknaraðila 11. febrúar sl., er tekin hafi verið ákvörðun um að ljúka vistun barnsins utan heimilis, hafi legið fyrir fundinum gögn um bættar aðstæður varnaraðila, bæði á heimili foreldra og hjá þeim persónulega. Hafi m.a. verið um að ræða munnlegar upplýsingar frá barnaverndarnefnd F og svarbréf sömu nefndar um að húsnæði varnaraðila væri í góðu ástandi og að engar athugasemdir væru gerðar vegna þess. Einnig hafi verið lögð fram á fundinum jákvæð umsögn Grunnskólans í [...] um eldri dreng varnaraðila.

Ljóst sé að sóknaraðili hafi leitast við að draga upp neikvæða mynd af móður, og einnig föður barnsins, á þann veg að hún hefði ekki haft samband við starfsmenn nefndarinnar til að skipuleggja afhendingu barnsins fyrr en daginn eftir að henni hefði verið tilkynnt um að vistun þess skyldi ljúka. Hið rétta sé að móðirin hefði að morgni 12. febrúar sl. verið búin að ræða við vistunaraðila um að hún myndi sækja barnið þann dag. Einnig hefði hún haft samband með tölvupósti við starfsmenn sóknaraðila um að hún hygðist sækja barnið.  Þar sem vinnureglur hefðu komið í veg fyrir að hægt væri að afhenda drenginn hefði orðið úr að samþykkt væri að faðirinn kæmi að sækja hann mánudaginn 15. febrúar sl.  Þar sem bíll föðurins hefði bilað, þegar hann ætlaði að fara af stað, hefði orðið úr að pantað hefði verið flug á þriðjudeginum 16. febrúar, en ekkert flug hefði verið laust daginn áður. Flugið sem pantað hefði verið hefði svo fallið niður vegna ófærðar. Sé því ekki með neinum hætti hægt að draga upp þá mynd af varnaraðilum að þau hafi ekki sýnt nægjanlega ábyrgð eða tilhlökkun að fá drenginn aftur á heimili sitt eftir vistun utan heimilis í marga mánuði. Þvert á móti hafi þau, allt frá því að ákvörðun sóknaraðila lá fyrir, leitast við að komast [...] til að sækja drenginn, en þau hafi á þeim tíma búið í [...]

Varnaraðilinn kveðst mótmæla þeim vinnubrögðum sóknaraðila að hann skyldi byggja ákvörðun sína 16. febrúar sl. á gróusögum einstaklinga sem hvorki þá, fyrr né síðar, hafi haft upplýsingar um varnaraðila sem geti haft áhrif, hvað þá úrslitaáhrif, á niðurstöðu nefndarinnar um áframhaldandi vistun barnsins utan heimilis.

Varnaraðili bendi á, vegna staðhæfinga sóknaraðila um að erfiðlega hafi gengið að fá varnaraðila í fíkniefnapróf, að varnaraðili hafi margsinnis fullyrt við starfsmenn barnaverndaryfirvalda að hún hafi hætt allri neyslu frá síðustu áramótum. Verði að telja eðlilegt að varnaraðili hafi um tíma ekki verið reiðubúin að veita fulla samvinnu, enda reið og bitur vegna málsmeðferðar sóknaraðila og aðskilnaðar við son sinn. Í þessu sambandi sé rétt að geta þess að allar mælingar eftir 2015 staðfesti að varnaraðili sé með öllu hætt neyslu kannabisefna. Þá skuli sérstaklega tekið fram að hún hafi aldrei neytt annarra vímuefna en kannabisefna og sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til þess að sú fullyrðing sé ekki rétt. Verði að átelja að sóknaraðili reyni að sverta enn frekar mannorð varnaraðila og gefa í skyn, án nokkurra gagna, að hún hafi verið í neyslu á amfetamíni eða öðrum sterkum efnum.

Mótmælt sé og þeirri staðhæfingu sóknaraðila að varnaraðili hafi vanrækt umgengni við son sinn og ekki mætt í nokkur skipti. Í þessu sambandi beri að vekja sérstaka athygli á því að varnaraðili hafi verið atvinnulaus meirihluta þessa tímabils og með lítið fjárhagslegt bolmagn til að greiða fyrir bensín [...]. Hafi hún eftir fremsta megni reynt að hitta son sinn og hafi hún nú óskað eftir því við sóknaraðila að fá að hitta drenginn oftar og án eftirlits. Sé því ekki rétt að varnaraðili hafi takmarkaðan áhuga á því að hitta son sinn, enda sé hún búin að berjast fyrir dómstólum frá því haustið 2015 til að endurheimta hann úr höndum sóknaraðila. 

Athyglisvert sé að sóknaraðili leitist við það í greinargerð sinna að draga fram alla þá neikvæðu þætt í fari varnaraðila sem fram komi í matsgerð G sálfræðings. Í matsgerðinni komi hins vegar fram að varnaraðilar hafi báðir mikla greind og á öllum prófum sem gerð hafi verið varðandi andlega og félagslega stöðu þeirra hafi varnaraðilinn D reynst jákvæð í öllum niðurstöðum. Fyrir liggi því að hún eigi ekki við neina geðræna erfiðleika að stríða en hafi fyrst og fremst þörf fyrir að sækja sálfræðiaðstoð vegna erfiðra uppvaxtarskilyrða. Engu að síður sé það mat sálfræðingsins að forsjárhæfni hennar sé skert. Verði að andmæla þessari niðurstöðu harðlega, enda sé hún byggð á röngum forsendum. Frá því á árinu 2015 hafi stöðugleiki ríkt í lífi varnaraðila. Hún hafi búið í sumarhúsi rétt við [...], sem í alla staði hafi verið fullnægjandi fyrir fjölskylduna. Hún hafi haft tekjur af starfi í [...] í [...] og þiggi nú atvinnuleysisbætur. Hún sé nú komin með fasta búsetu og eigi hátt í eina milljón króna í banka.  Sá óstöðugleiki sem lýst sé í matsgerðinni sé því ekki fyrir hendi og afar gagnrýnivert að barnaverndaryfirvöld skuli ætla að byggja fósturráðstöfun á þessum sjónarmiðum. Varnaraðili hafi nú allt sem barnaverndarnefnd hafi um langan tíma gagnrýnt að hún hefði ekki, þ.e. stöðugleika, fjárhagslega getu til að sinna börnum sínum og íbúð fyrir sig og börn sín í [...]. Þá hafi hún verið í langan tíma án vímuefna. Sé niðurstaða sálfræðingsins því hvorki í samræmi við niðurstöður þeirra prófa sem lögð hafi verið fyrir varnaraðila, og lýst sé í matsgerðinni, né staðreyndir málsins. Varnaraðili hafi lýst sig reiðubúna til samvinnu við sóknaraðila, að því marki sem nefndin óski eftir. Loks liggi fyrir að varnaraðili njóti fulls stuðnings systur sinnar, sem starfi við [...]. Systirin sé ógift, barnlaus og fjárhagslega sjálfstæð og hafi veitt varnaraðila öflugan stuðning. Hafi hún lýst því yfir að hún muni gera hvaðeina til aðstoðar varnaraðila að því er varði börn hennar.

Á því sé byggt að verulegir gallar séu á þeirri málsmeðferð sóknaraðila sem búi að baki kröfu um vistun barnsins utan heimilis í allt að tólf mánuði og því beri að hafna henni. Sé hvað það varði vísað til 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga, þar sem fram komi að óheimilt sé að beita úrræði eins og vistun utan heimilis nema vægari úrræði hafi verið reynd án árangurs. Í því efni sé m.a. vísað til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ljóst sé að móðir barnsins hafi í öllu farið eftir þeim kröfum sem gerðar hafi verið til hennar af hálfu sóknaraðila. Þá hafi önnur úrræði en vistun utan heimilis ekki verið full reynd, svo sem öflugur stuðningur við móður í uppeldishlutverkinu eða ríkt eftirlit með heimili. Loks hafi félagsmálayfirvöld vanrækt að veita varnaraðila þann fjárhagslega stuðning sem hún hafi verið í brýnni þörf fyrir í langan tíma. Vísist í því sambandi m.a. til laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, þar sem sérstaklega sé mælt fyrir um ríkar skyldur sveitarfélaga til að tryggja afkomu íbúa ef vandi steðjar að, og félagsmálasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 3/1976, en þar séu lagðar ríkar skyldur á herðar stjórnvöldum að tryggja hagsmuni fjölskyldna og stuðla að því að þær geti búið saman en sé ekki sundrað vegna fjárhagsmálefna eða tímabundinna erfiðleika. Með vísan til framangreinds, og einnig með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komi í 2. og 4. gr. barnaverndarlaga, sé þess því krafist að dómurinn hafni kröfu sóknaraðila um að drengurinn C verði vistaður utan heimilis og því fjarri fjölskyldu sinni í allt að 12 mánuði.

VI.

Krafa sóknaraðila lýtur að því að drengurinn C verði áfram vistaður utan heimilis á vegum sóknaraðila í tólf mánuði, allt til 29. júní 2017. Krafan styðst við 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2001, en þar kemur fram að ef barnaverndarnefnd telji nauðsynlegt að ráðstöfun samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. 27. gr. laganna standi lengur en þar sé kveðið á um skuli nefndin gera kröfu um það fyrir héraðsdómi. Heimilt sé með úrskurði dómara að vista barn í allt að tólf mánuði í senn frá þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp.

Fyrir liggur að varnaraðilarnir, foreldrar drengsins, hafa nú slitið samvistum. Býr faðirinn í [...] en móðirin mun nú búsett í [...]. Eldri sonurinn, E, dvaldi síðastliðinn vetur hjá foreldrum sínum og síðan föður í [...], og gekk þar í skóla, en fram kom hjá móðurinni fyrir dómi að hann byggi nú hjá henni. C hefur hins vegar, allt frá því hann var vistaður utan heimilis, búið á heimili í umdæmi sóknaraðila.

Sóknaraðili hefur haft málefni drengsins til skoðunar frá því í september 2014 vegna tilkynninga um að varnaraðilar vanræktu drenginn og vegna fíkniefnaneyslu þeirra. Í ágúst 2015 var drengurinn tekinn úr umsjá föður með ráðstöfun á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. laganna, og vistaður á vegum sóknaraðila í tvo mánuði á grundvelli úrskurðar sóknaraðila frá 17. ágúst 2015. Ástæða þess að gripið var til ráðstöfunarinnar þá var fíkniefnaneysla föður. Hinn 16. október 2015 undirrituðu varnaraðilar áætlun um meðferð máls, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga, þar sem kveðið var á um vistun drengsins utan heimilis til 4. janúar 2016, en þau riftu þeim samningi 10. desember 2015. Með úrskurði sóknaraðila 15. desember sl. var kveðið á um áframhaldandi vistun drengsins utan heimilis í tvo mánuði, eða til 15. febrúar 2016, og var sá úrskurður staðfestur með úrskurði Héraðsdóms [...] 22. janúar 2016. Sóknarnaraðili ákvað á fundi sínum 11. febrúar sl. að drengurinn yrði afhentur varnaraðilum á ný. Áður en drengurinn var afhentur bárust sóknaraðila nýjar upplýsingar. Á grundvelli þeirra var tekin ákvörðun um neyðarvistun drengsins 17. febrúar 2016 og úrskurður sóknaraðila um kyrrsetningu drengsins var kveðinn upp 29. febrúar 2016. Var sá úrskurður staðfestur með úrskurði héraðsdóms 30. mars sl. Á fundi sóknaraðila 25. apríl 2016 var ákveðið að leggja fram kröfu fyrir dómi um úrskurð um áframhaldandi vistun drengsins til tveggja mánaða í þeim tilgangi að ljúka foreldrahæfnismati og framkvæma frekari könnun á aðstæðum varnaraðila, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga. Var krafan lögð fram hér fyrir dómi 28. s.m. Með tilliti til þess að von væri á matsgerð sálfræðings um foreldrahæfismat var aðalmeðferð málsins frestað með samþykki aðila. Í kjölfar þess að matið lá fyrir hinn 27. maí s.á. féllu varnaraðilar frá andmælum við kröfum sóknaraðila og var málið því tekið til úrskurðar. Með úrskurði, uppkveðnum 13. júní s.á., var krafa sóknaraðila tekin til greina og sóknaraðila þannig heimilað að vista drenginn utan heimilis til 29. s.m. Á fundi sóknaraðila 9. júní var samþykkt að gera kröfu um vistun drengsins utan heimilis í allt að tólf mánuði og lýtur mál þetta að þeirri kröfu.

Eins og fram kemur í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2002 skal í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Í 7. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Eins og að framan hefur verið rakið hafa málefni drengsins vegna vistunar hans utan heimilis varnaraðila verið ítrekað til umfjöllunar hjá dómstólum á fáum mánuðum. Hafa dómstólar við fyrri úrlausnir staðfest að nauðsyn hafi borið til að vista drenginn utan heimilis varnaraðila. Í því felst einnig að mati dómsins að fallist hefur verið á að vægari úrræði hafi ekki reynst fullnægjandi, sbr. 23. og 24. gr. laga nr. 80/2002. Verður ekki annað ráðið af gögnum en að hag drengsins sé vel komið í núverandi vistun.

Svo sem áður hefur verið rakið komst G sálfræðingur að þeirri niðurstöðu í mati sínu á foreldrahæfni varnaraðila að í ljósi forsögu og núverandi stöðu væri það mat hans að hagsmunum drengsins C væri best mætt með áframhaldandi tímabundinni fósturvistun, en að regluleg umgengni við foreldra og eldri bróðurinn, væri tryggð. Kemur fram í matinu að til grundvallar því áliti leggi hann aðallega þá staðreynd að mikill óstöðugleiki sé enn til staðar í lífi foreldranna. Þau hafi slitið sambúð, séu án atvinnu, glími við húsnæðis- og fjárhagsvanda og móðirin sé líklega á leiðinni úr landi. Báðir teljist foreldrarnir í talverðri meðferðarþörf hvað andlega þætti varði og faðir einnig hvað varði líkamlega uppbyggingu. Þá virðist þau lítið hafa tekið á vímuefnavanda sínum með markvissum hætti að öðru leyti en því að hafa haldið bindindi til nokkurra mánaða. Viðhorf þeirra til neyslu séu óneitanlega þess eðlis að hætta á bakslagi sé töluverð. Aðstæður föður séu talsvert betri en móður, en hann njóti stuðnings móður sinnar þar sem hann búi í [...]. Þar virðist eldri drengnum, E, líða vel og þrífist hann vel, bæði í skóla og á heimili, sem og í samskiptum við föðurömmu sína. Þá sé samband hans við móður einnig gott. Samkvæmt því sé ekki lagt til að rjúfa fósturvistun C, en áhersla hins vegar lögð á að styðja foreldrana í að leita sér sálfræðiaðstoðar með það markmið að ná tilfinningalegum stöðugleika og fyrirbyggja hrösun í neyslu. Þá sé áhersla lögð á samvinnu barnaverndarnefndar og foreldra í því að tryggja reglulega umgengni við drenginn.

Eins og tiltekið er í fyrrgreindri matsgerð hafa báðir foreldrarnir glímt við fíkniefnavanda, sem virðist hafa verið meginástæðan, auk sinnuleysis gagnvart drengjunum, fyrir því að drengurinn C var vistaður utan heimilis foreldranna. Fyrir liggur að allt frá því að mál drengsins kom til meðferðar hjá sóknaraðila haustið 2014 og þar til í febrúar 2016 bárust sóknaraðila ítrekaðar tilkynningar um það að varnaraðilar neyttu vímuefna. Ekki er um það deilt, og að hluta staðfest með fíkniefnaprófum, að foreldrarnir hafi bæði neytt fíkniefna, aðallega kannabisefna, nokkur síðustu ár. Þau lýstu því fyrir matsmanni og eins í skýrslum sínum fyrir dómi að þau væru bæði hætt slíkri neyslu og væru nú alfarið á móti henni. Sagðist móðirin vera byrjuð að sækja AA-fundi, frá því í maí sl., og faðirinn sagðist hafa hug á að gera það einnig. Kvaðst hann hafa hætt neyslu haustið 2015 en móðirin í desember s.á. Sýni úr föður mældist síðast jákvætt fyrir fíkniefnum í júlí 2015 en sýni úr móður í desember sama ár. Ekki náðist hins vegar í varnaraðilana til að mæta í sex óundirbúnar fíkniefnamælingar á tímabilinu mars til júní 2016. Faðirinn mætti síðast í fíkniefnamælingu 8. febrúar sl. en móðirin hinn 21. júní sl. og reyndust þær mælingar báðar neikvæðar. 

Eins og áður segir var það niðurstaða matsmanns að varnaraðilarnir hefðu lítið tekið á vímuefnavanda sínum með markvissum hætti að öðru leyti en því að hafa haldið bindindi til nokkurra mánaða. Þá væru viðhorf þeirra til neyslu þess eðlis að hætta á bakslagi væri töluverð. Þau mótmæltu þessu hins vegar bæði fyrir dómi og kváðust hafa fullan vilja til að fylgja eftir bindindi sínu og andlegri- og líkamlegri endurhæfingu sinni að öðru leyti með aðstoð sérfræðinga. Þá kvað faðirinn það misskilning matsmanns að hann væri ósammála gildandi fíkniefnalöggjöf.

Af málsgögnum, þar á meðal skýrslum starfsmanna sóknaraðila, verður ráðið að nokkuð hafi skort á samvinnu foreldranna við starfsmenn sóknaraðila í því skyni að fylgja eftir meðferðaráætlunum, er lutu meðal annars að bindindi þeirra og umgengni við drenginn C. Hins vegar verður og ráðið af framburði starfsmannanna og öðrum gögnum að þau samskipti hafi fremur farið batnandi síðustu mánuði.

Ljóst er að samhliða tilfinningalegum óstöðugleika og fíkniefnaneyslu hefur óstöðugleiki í búsetumálum og óvissa um atvinnu og fjárhagslega afkomu einkennt samband foreldranna undanfarin ár, en í niðurstöðum framangreinds foreldrahæfismats var meðal annars horft til þeirrar stöðu. Móðirin hefur hins vegar í kjölfar matsins lagt fram í málinu ótímabundinn húsaleigusamning, dags. 11. júlí sl., um þriggja herbergja íbúð í [...] og staðfestingu á allnokkurri peningainneign í banka. Þá staðfesti systir móður í skýrslu sinni fyrir dómi að hún myndi aðstoða varnaraðilann af fremsta megni með uppeldi drengsins C fengi hún drenginn til sín. Loks kom fram hjá móðurinni í skýrslu hennar fyrir dómi að hún væri á leið í atvinnuviðtal og teldi góðar líkur á að hún yrði ráðin í það starf. Faðirinn kvaðst hafa tryggt húsnæði hjá móður sinni og myndi aðstoða hana við [...].

Þegar til alls framangreinds er litið er það niðurstaða dómsins að óvarlegt sé á þessu stigi, og ekki í samræmi við það sem drengnum C sé fyrir bestu, að taka hann nú þegar úr þeirri vistun sem hann nú eru í og færa til varnaraðila. Verður að telja að enn sé ekki komin reynsla á það hvernig varnaraðilum vegnar við að festa rætur á sama stað, ná tökum á fíkniefnavanda sínum og öðrum þeim vanda sem sýnt þykir að þau eigi við að glíma, eins og sjá má af gögnum málsins. Á hinn bóginn er það mat dómsins að varnaraðilar eigi að hafa alla burði til að tryggja til framtíðar aðstæður sínar þannig að drengurinn geti flutt á heimili annars hvors þeirra að nýju, en að gera verði þá kröfu til þeirra að þau sýni það í verki að þau hafi getu og vilja til að bæta og breyta þeim aðstæðum sem leiddu til afskipta barnaverndaryfirvalda. Verður hér og að hafa í huga að í matsgerð kemur fram að brýnt sé að varnaraðilar gangist við þeim vanda sem lengi hafi fylgt þeim og leiti sér sálfræðiaðstoðar með það að markmiði að ná tilfinningalegum stöðugleika og fyrirbyggja hrösun í neyslu. Þykir rétt að gefa varnaraðilum svigrúm til að sýna fram á að þau ætli sér að láta verk fylgja orðum í þessu sambandi, en varhugavert er að mati dómsins að drengurinn C fari til þeirra fyrr en meiri reynsla er komin á þau góðu áform sem þau hafa lýst í samtölum við matsmann og í skýrslum sínum fyrir dómi.

Með vísan til alls framangreinds er fallist á með sóknaraðila að lagaskilyrði séu til þess að drengurinn C verði áfram vistaður utan heimilis varnaraðila, en að svo stöddu, og með vísan til niðurstöðu fyrrgreinds foreldrahæfismats, þykir ekki ástæða til að marka þeirri vistun lengri tíma en allt til 22. nóvember 2016.

Af hálfu sóknaraðila er ekki krafist málskostnaðar. Varnaraðilum var veitt gjafsókn til reksturs máls, sbr. 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga. Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist því úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun Þuríðar K. Halldórsdóttur hdl., lögmanns varnaraðilans A, sem þykir hæfilega ákveðin 650.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og málflutningsþóknun Þuríðar B. Sigurjónsdóttur hdl., lögmanns varnaraðilans D, sem þykir hæfilega ákveðin 950.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Úrskurð þennan kveður upp Ásgeir Magnússon  dómstjóri.

Úrskurðarorð:

Drengurinn, A, kt. [...], skal vistaður utan heimilis varnaraðila, D og A, allt til 22. nóvember 2016.

Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun Þuríðar K. Halldórsdóttur hdl., lögmanns varnaraðilans A, sem þykir hæfilega ákveðin 650.000 krónur, og málflutningsþóknun Þuríðar B. Sigurjónsdóttur hdl., lögmanns varnaraðilans D, sem þykir hæfilega ákveðin 950.000 krónur.