Hæstiréttur íslands

Mál nr. 27/2005


Lykilorð

  • Börn
  • Kynferðisbrot


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. maí 2005.

Nr. 27/2005.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir

saksóknari)

gegn

Ágústi Fannari Ágústssyni

(Hreinn Pálsson hrl.

Sigurður B. Halldórsson hdl.)

 

Börn. Kynferðisbrot.

Á var sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því  að hafa haft samfarir við stúlkuna Y þegar hún var á 13. aldursári. Var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi og til að greiða Y 500.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. janúar 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu fyrir ákæruefni 1. töluliðar ákæru en þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð. Hvað bótakröfu varðar krefst hann þess aðallega að henni verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður og til þrautavara að hún verði lækkuð.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ágúst Fannar Ágústsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hreins Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. desember 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. október s.l. er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara útgefnu 18. febrúar 2004, á hendur Ágústi Fannari Ágústssyni, [kt.], Sunnuhlíð 5, Akureyri:

„fyrir kynferðisbrot framin á heimili ákærða, 2002, með því að hafa:

1.                         Föstudagskvöldið 20. desember eða þar um bil haft samræði við Y, fædda [...] 1990.

2.                         [...]

Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 40, 1992, sbr. nú lög nr. 40, 2003.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu A, [kt.], f.h. Y, er krafist skaðabóta að fjárhæð 1.000.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 38, 2001 frá 21. júní 2003.

[...].“

Af hálfu Árna Pálssonar hrl., sem skipaður var réttargæslumaður við aðalmeðferð málsins, voru bótakröfur samkvæmt ákæruskjali áréttaðar, en krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 1. janúar 2003 til þess tíma er mánuður var liðinn frá því að kröfurnar voru kynntar ákærða sbr. 9. gr., en síðan með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna.  Þá krafðist hann hæfilegra málsflutningslauna.

Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af sakargiftum, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist hans komi til frádráttar.

Af hálfu ákærða er þess krafist að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af þeim og til þrautavara að bótakröfurnar verði lækkaðar verulega.

I

Málsmeðferð og málavextir.

Samkvæmt rannsóknarskjölum barst embætti sýslumannsins á Akureyri kæruerindi frá Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar þann 12. febrúar 2003 vegna ætlaðs kynferðisbrots ákærða gegn stúlkunni Y, fæddri [...] 1990, að kveldi föstudagsins 20. desember 2002.

Af hálfu lögreglu hófst rannsókn málsins með skýrslutökum af vitnum, þ.á.m. af vinkonu nefndrar stúlku, B, fæddri [...] 1989.  Við þá skýrslugjöf, sem fulltrúi barnaverndarnefndar var viðstaddur, greindi stúlkan frá því að hún hefði sjálf haft kynmök við ákærða í lok desembermánaðar 2002.  Vegna þessa bar barnaverndarnefndin einnig fram kæruerindi á hendur ákærða þann 14. febrúar 2003 vegna ætlaðrar refsiverðar hegðunar gagnvart nefndri stúlku.

Við upphaf rannsóknar var ákærði handtekinn á heimili sínu að Sunnuhlíð 5 hér í bæ þann 14. febrúar 2003 og að kröfu lögreglustjóra var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra.  Hinn 15. febrúar 2003 gerði lögregla leit í híbýlum ákærða og lagði m.a. hald á hlífðardýnu og frottelak úr rúmi hans.  Áklæðin voru send ríkislögreglustjóra til rannsóknar þann 14. júlí 2003 en síðan til framhaldsrannsóknar til Rettsmedecinsk institutt við Háskólann í Osló í Noregi.  Meðfylgjandi voru lífsýni úr ákærða og nefndum stúlkum.  Niðurstaða rannsóknarinnar barst lögreglunni á Akureyri þann 18. desember 2003 og lá þá fyrir að engin lífsýni úr stúlkunum höfðu fundist í hinum haldlögðu gögnum.

Í febrúarmánuði 2003 var ákærði ítrekað yfirheyrður af lögreglu um kæruefnin.  Hann neitaði sakargiftum líkt og síðar fyrir dómi.  Ákærði var leystur úr gæsluvarðhaldi þann 20. febrúar nefnt ár.

Að beiðni sýslumannsembættisins á Akureyri voru teknar dómskýrslur af ofangreindum stúlkum hinn 18. febrúar 2003, en að auki var stúlkan Y skoðuð af barnalækni og kvensjúkdómalækni þann 19. mars.  Rituðu sérfræðingar vottorð um athuganir sínar, sem dagsett er 7. apríl s.á.

Ofangreind rannsóknargögn voru send ríkissaksóknara til ákvörðunar í byrjun árs 2004, er gaf út ákæruskjal á hendur ákærða þann 18. febrúar s.l.  Mál ákærða var þingfest fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 25. mars s.l., en á dómþingi þann 1. apríl s.á. var því beint til ákæruvalds, af hálfu dómsins, að afla gagna um þroska og heilbrigði ákærða, sbr. 71. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.  Var af því tilefni, þann 1. júní s.l. óskað eftir dómkvaðningu matsmanns, Ingþórs Bjarnasonar sálfræðings.  Var matsskýrsla sálfræðingsins lögð fyrir dóminn þann 20. september s.l., en einnig greinargerðir sérfræðings Barnahúss um margnefndrar stúlkur.

II

I. kafli ákæru.

Ákærði skýrði frá því við meðferð málsins að hann hefði haldið teiti á heimili sínu að Sunnuhlíð 5 hér í bæ föstudagskvöldið 20. desember 2002 og boðið til sín ungmennum , „sem voru 16 ára eða eitthvað svoleiðis ... og ég sagði þeim að bjóða fólki sem þau þekktu og því komu fleiri.“   Var það ætlan hans að um 15 ungmenni hefðu komið á heimilið umrætt kvöld, þ.á m. stúlkan Y.  Staðhæfði ákærði að hann hefði fyrst séð stúlkuna er hún kom á heimili hans og því ekki þekkt til hennar eða vitað um aldur hennar.  Ákærði kvaðst heldur ekki hafa kannað aldur gesta sinna umrætt kvöld, þ.á.m. ekki með því að leita í þjóðskrá á veraldarvefnum.

Ákærði skýrði frá því að nokkur fíflagangur hefði viðgengist í teitinu og kannaðist hann m.a. við að hafa tuskast við einn gestanna.  Hann kvaðst hafa neytt eigin áfengis, en neitaði því að hafa deilt því með gestum sínum.

Nánar aðspurður fyrir dómi kvaðst ákærði ekki hafa tekið eftir því hvenær eða hvernig stúlkan Y kom á heimili hans umrædd kvöld, en hins vegar veitt því eftirtekt er þau tóku tal saman að hún var eitthvað undir áhrifum áfengis.  Ákærði staðhæfði að hann hefði ekki verið „að spá“ í aldur stúlkunnar „enda var ég ekkert að spá í neina stelpu“.  Samskiptum sínum við Y í stofu heimilisins lýsti hann nánar þannig: „... Hún var eitthvað þarna að reyna að kyssa mig og ég kyssti hana þarna einu sinni á móti eða svo, það var svona að maður hélt í fíflagangi gert sko.“  Staðhæfði ákærði að stúlkan hefði eftir þetta átt frumkvæðið að því að þau fóru saman úr stofunni og inn í svefnherbergi hans;  „Hún vildi fá að ræða í næði ... hún bað mig um að koma inn í herbergið og tók í hendina á mér ... ég leiddi hana inn í herbergið“.

Ítrekað aðspurður fyrir dómi m.a. með hliðsjón af framburði vitna um að hann hefði að einhverju leyti borið Y til herbergisins svaraði ákærði með eftirfarandi hætti: „Það má vel vera að ég hafi lyft henni eitthvað upp þarna og fíflast eitthvað við hana“.

Ákærði kvaðst hafa dvalið einn með Y í svefnherberginu í um 10 mínútur, en treysti sér þó ekki til að fullyrða um það með vissu.  Vegna hita í herbergi kvaðst hann hafa afklæðst að ofanverðu, en minntist ekki hvort að stúlkan hefði einnig afklæðst fatnaði.  Á meðan á dvöl þeirra í herberginu stóð kvaðst ákærði hafa orðið var við að einhver fíflagangur var framan við herbergishurðina og af þeim sökum hulið skráargatið;  „Því mér fannst óþægilegt að fólk væri að kíkja inn“.

Fyrir dómi, líkt og við yfirheyrslur hjá lögreglu, neitaði ákærði sakarefni 1. kafla ákæruskjals og staðhæfði að ekkert hefði gerst á milli hans og Y í herberginu annað en það að hann hefði um stund hlýtt á frásögn hennar, m.a. af samskiptum hennar við pilta.  Um síðir kvaðst hann ekki hafa nennt að hlusta á orðræðu stúlkunnar og því farið út úr herberginu enda þurft að sinna öðrum gestum sínum.  Kvað hann stúlkuna nokkru síðar hafa komið inn í stofuna og enn síðar kvaðst hann hafa farið með henni í bifreið og þannig fylgt henni til síns heima.  Kvaðst ákærði þá hafa séð að stúlkan var enn eitthvað undir áhrifum áfengis en hins vegar ekki veitt því eftirtekt að hún væri á einhvern hátt óánægð.

Fyrir dómi ítrekaði ákærði að hann hefði ekki vitað eða gert sér grein fyrir aldri Y umrætt kvöld, en hins vegar heyrt ávæning af aldri hennar daginn eftir og ,,þá skoðað það eitthvað nánar“.  Eftir þetta kvaðst ákærði lítillega hafa haft samskipti við Y og nefndi að þau hefðu hist í tiltekinni íþróttamiðstöð, en einnig kvað hann hana hafa hringt nokkrum sinnum og beðið hann um akstur.  Loks kvaðst hann hafa hitt stúlkuna ásamt vinstúlku hennar, B, er þær komu á heimili hans um jólaleytið nefnt ár.

Fyrir dómi hafði ákærði ekki skýringar á ásökunum Y sbr. sakarefni 1. kafla, ekki frekar en á sakarefni 2. kafla ákærunnar, en vísaði til þess að á greindu tímabili hefðu fleiri stúlkur haft uppi svipaðar ásakanir í hans garð sem ekki hafi átt við rök að styðjast.  Þau mál hefðu og öll verið felld niður, en ákærði bar að stúlkurnar hefðu þekkst innbyrðis.

Stúlkan Y, fædd [...] 1990 greindi frá því við áðurgreinda dómsyfirheyrslu að föstudagskvöldið 20. desember 2002, um klukkan 21:00, hefði hún verið á heimleið úr afmælisboði er hún hitti piltinn C.  Kvaðst hún þrátt fyrir nokkra ógleði hafa ákveðið að þiggja boð hans um að líta við á heimili ákærða í stutta stund.  Hún kvaðst lítillega hafa þekkt til ákærða á þessum tíma, m.a. hitt hann í tiltekinni íþróttamiðstöð, en aldrei áður komið á heimili hans.

Í teitinu á heimili ákærða kvaðst Y hafa þekkt nokkra krakka og bar að þeir hefðu verið á aldursbilinu frá 13 til 16 ára.  Staðhæfði hún að við komu á heimilið hefði ákærði kastað á hana kveðju með fullu nafni en síðan þulið upp kennitölu hennar og heimilisfang, en einnig nefnt fullt nafn móður hennar.  Ennfremur kvað hún ákærða strax hafa lagt fyrir einn gestanna að ná í bjórdós handa henni og er hún hafi færst undan áfengisdrykkju kvað hún ákærða hafa haft á orði að hann myndi skýra móður hennar frá því að hún væri bæði að drekka og reykja.  Af þessum sökum kvaðst hún hafa látið undan ákærða og tekið við bjórdósinni en í framhaldi af því neytt frekara áfengis og orðið „svolítið full ... fékk bara svima og fór að hugsa óskýrt“.

Y skýrði frá því að nokkru eftir að hún kom á heimilið hefði ákærði ítrekað reynt að kyssa hana í stofusófanum og bar að þrátt fyrir undanfærslur hennar hefði honum tekist það um síðir.  Eftir um það bil 40 mínútna viðdvöl kvað hún ákærða hafa tekið sig í fangið og fært úr stofunni og yfir í svefnherbergið með þeim orðum að hann vildi kyssa hana meira.  Kvað hún ákærða hafa sett sig í rúmið en síðan dregið fyrir glugga og lokað fyrir herbergishurðina með einhvers konar slagbrandi.  Eftir það kvað hún ákærða hafa haldið áfram að kyssa sig og reynt að klæða úr bol en að lokum fært hana úr öllum fötum og afklæðst sjálfur.  Nánar lýsti hún viðbrögðum sínum og athöfnum ákærða með eftirfarandi hætti:  „Ég sagði bara nei, ég vil þetta ekki, en hann sagði jú þú verður að prófa, einhvern tímann verður þú að komast áfram í lífinu ... á endanum sagði ég bara ókey og svo fór hann að reyna að ná mér úr buxunum.  Þá fór ég að segja nei og reyndi að ýta honum frá mér.  Hann hélt samt alltaf áfram, hann talaði alltaf við mig, ég gat ekkert mótmælt.  Svo heyrðum við bankað á gluggann og heyrðum eitthvað í skráargatinu, þá fór hann og setti eitthvað fyrir skráargatið og svona.  Svo kom hann aftur og ég man bara að hann klæddi mig úr öllum fötunum og hafði mök við mig ... í kringum 10 mínútur ... hann bara lagði mig niður og lagðist sjálfur ofan á mig ... og svo man ég bara eftir miklum sársauka, þegar að meyjarhaftið rifnaði“.

Stúlkan staðhæfði að hún hefði ekki haft samfarir fyrir þennan tíma og bar að ákærði hefði látið af athæfinu er hún sagði honum að hætta og ýtti honum frá sér.  Hún kvað ekkert blóð hafa komið frá sér vegna athæfis ákærða.

Y ætlaði að hún hefði dvalið í herbergi ákærða í u.m.b. tvær klukkustundir, en bar að samvistum þeirra þar hefði lokið þannig; „Ég man ekkert meira fyrr en klukkan svona hálf tólf eða eitthvað, þá man ég að ég stóð upp og sagði honum að drullast til að skutla mér heim“.  Kvað hún flesta gestina hafa verið farna úr húsinu er hún kom aftur inn í stofuna, en minntist þess að hafa rætt við félaga sína, vitnin D og E og bar að sá fyrrnefndi hefði síðar haft orð á því að hann hefði kíkt eitthvað inn um skráargatið á herbergishurðinni og heyrt orðaskipti hennar og ákærða.

Eftir nefndan atburð kvaðst Y lítil samskipti hafa haft við ákærða, en þó hitt hann í tiltekinni íþróttamiðstöð, en að auki kvað hún hann hafa hringt í farsíma hennar til að spjalla og í eitt skipti kvaðst hún hafa farið með honum í ökuferð ásamt vinkonu sinni B.  Hún skýrði og frá því að um það bil þremur til fjórum dögum eftir nefndan atburð hefði hún farið aftur á heimili ákærða, í fylgd nefndrar vinkonu, en tók fram að hún hefði þá ekki verið búin að skýra henni frá verknaði hans, það hafi hún gert nokkrum dögum síðar.  Var það ætlan hennar að þetta hefði gerst síðla dags, um kl. 17:00, en fyrir á heimilinu kvað hún hafa verið félaga ákærða, vitnið F.  Hún kvaðst hafa staldrað stutt við og minntist þess að er hún fór hafi ákærði og B verið í svonefndri ,,störukeppni“.  Skömmu eftir þetta kvaðst hún hafa fregnað það frá vinkonunni að hún hefði rætt sakarefni þessa ákærukafla við starfsmann barnaverndarnefndar, en af þeim sökum kvaðst hún hafa orðið miður sín og grátið í kennslutíma hjá umsjónarkennara sínum.  Enn síðar kvaðst hún hafa heyrt frásögn B um að þann dag sem þær fóru í heimsóknina á heimili ákærða hefði hún sjálf haft mök við hann.

Vitnið D, fæddur 1988 skýrði frá því fyrir dómi að það hefði farið í umrætt í teiti á heimili ákærða og bar að þar hefðu verið um 10 til 15 krakkar á hans reki, þ.á.m. stúlkan Y.  Vitnið kvað lítið af áfengum drykkjum hafa verið á borðum og ekki kvaðst það hafa neytt slíkra drykkja umrætt kvöld.  Það var hins vegar álit vitnisins að ákærði hefði verið með greinileg ölvunarlæti og m.a. hjólað á reiðhjóli innandyra.

Vitnið skýrði frá því að nokkru eftir að það kom á heimili ákærða hefði það fylgst með því er ákærði tók Y í fangið og bar hana úr stofunni og inn í svefnherbergi og lokaði að sér.  Ekki minntist vitnið viðbragða stúlkunnar við athæfinu.  Kvaðst það lítið hafa vitað hvað gerðist í herberginu, en kannaðist þó við að hafa kíkt í gegnum skráargatið á herbergishurðinni í skamma stund og séð að ákærði var þar fullklæddur.  Vitnið kvað ákærða hafa sett eitthvað fyrir skráargatið, en eftir það kvaðst það hafa heyrt orðræðu Y og lýsti henni þannig; „Hættu eða eitthvað í þeirri meiningu, hún var aðeins að hrinda pínu frá sér, var kannski ekki alveg að þora“.  Vitnið kvaðst hafa heyrt ákærða svara stúlkunni með eftirfarandi orðum; „Maður verður nú að prufa þetta einhvern tímann“.  Ekki treysti vitnið sér til að lýsa útliti eða ástandi ákærða eða Y eftir að þau komu út úr herberginu.  Var það ætlan þess að Y hefði mjög fljótlega farið af heimilinu.

Fyrir dómi kvaðst vitnið hafa þekkt vel til Y og lét það álit í ljós að ekki hefði farið á milli mála hver aldur hennar var; „Maður sér það nú á henni, bara lítil og ung.“  Vitnið minntist þess ekki að ákærði hefði umrætt kvöld spurst fyrir um aldur Y eða þulið upp kennitölu hennar.

Vitnið G, fæddur 1988 kvaðst hafa farið í teiti á heimili ákærða skömmu fyrir jólin 2002 ásamt félögum sínum, þ.á m. C, H og nafngreindri stúlku.  Var það ætlan þess að um 15 til 20 gestir hefðu verið heimilinu.  Vitnið staðhæfði að gestirnir hefðu m.a. rætt um aldur hvers annars og ætlaði að ákærði hefði því mátt vita um aldur flestra gestanna fyrir utan aldur stúlkunnar Y.  Vísaði vitnið í því sambandi til umræðna um að hún væri eldri en hún raunverulega var.  Var frásögn vitnisins að þessu leyti í nokkurri andstöðu við skýrslu sem það gaf hjá lögreglu þann 18. febrúar 2003, en þar var bókað eftir því að ákærði hefði verið mjög ákafur að spyrjast fyrir um aldur og heiti allra gesta sinna.

Fyrir dómi kvaðst vitnið hafa séð ákærða ræða við Y í teitinu, en minntist þess ekki að hafa séð þau fara inn í herbergi, einungis heyrt af því síðar.  Vísaði vitnið til þess að það hefði verið mikið á flandri umrætt kvöld og m.a. farið út og inn úr húsinu.

Vitnið C, fæddur 1987 skýrði frá því fyrir dómi að það hefði farið ásamt félögum sínum í teiti á heimili ákærða í desembermánuði 2002.  Það kvaðst hafa þekkt vel til ákærða á þessum tíma, en lítil samskipti haft við hann eftir það.  Vitnið kvaðst einnig hafa kannast við stúlkuna Y og m.a. haft vitneskju um aldur hennar.  Kannaðist vitnið m.a. við að hafa hringt til stúlkunnar umrætt kvöld og boðið henni á heimili ákærða.  Vísaði vitnið til þess að þeir félagarnir hefðu „bara verið að reyna að fá einhvern í teitið og við hringdum bara og hún vildi koma“.  Vitnið kannaðist hins vegar ekki við að ákærði hefði rætt við það um Y og var það ætlan þess að hann hefði fyrst haft kynni af henni er hún kom á heimili hans umrætt kvöld.  Aðspurt kannaðist vitnið ekki við að PC tölva og þjóðskrá á veraldarvef hefðu komið við sögu í greint sinn eða að ákærði hefði haft á takteinum aldur gesta sinna og kennitölur.

Fyrir dómi kvaðst vitnið hafa séð ákærða og Y ræða saman í stofu heimilisins, en auk þess séð þau kyssast á gólfinu.  Þá kvaðst vitnið hafa veitt því eftirtekt er ákærði hélt á Y í fanginu inn í herbergi, en ekki séð annað en að stúlkan væri því hlynnt.  Vitnið kvaðst hafa haldið kyrru fyrir í stofunni og því ekki fylgst með gjörðum ákærða og Y í herberginu.  Vitnið kvað aðra gesti hins vegar hafa rætt það málefni og þá þannig að þau væru að hafa samfarir.  Var það ætlan vitnisins að ákærði og Y hefðu komið aftur í stofuna eftir um eins til tveggja klukkustunda fjarveru og lýsti það ástandi þeirra þannig: „... allt virtist vera í lagi ... þau voru bara svona venjuleg, nokkuð ánægð, eins og ekkert hafi skeð, ekkert svona svakalegt“.  Fyrir dómi var borin undir vitnið frásögn þess við skýrslugjöf hjá lögreglu 20. febrúar 2003 um að ákærði og Y hefðu verið sveitt er þau komu úr herberginu.  Ekki minntist vitnið nefndra orða en kvaðst ekki draga þau í efa.

Vitnið E, fæddur 1986 kvaðst fyrir dómi hafa þekkt vel til ákærða á árunum 2001 til 2002, en staðhæfði að samskipti þeirra hefðu verið lítil eftir það.  Vitnið kvaðst hafa þekkt til stúlkunnar Y, og bar að þau hefðu verið í sama vina- og kunningjahópi, þrátt fyrir að hún hefði verið nokkuð yngri, þ.e. 12 til 13 ára.  Lét vitnið það álit í ljós að útlit stúlkunnar hefði verið í samræmi við aldur hennar.

Fyrir dómi staðfesti vitnið að það hefði farið í teiti á heimili ákærða í desembermánuði 2002, en staldrað stutt við, u.þ.b. 30 mínútur.  Vitnið kvaðst hafa hitt „fullt af krökkum“ í teitinu og m.a. nefnda stúlku, Y.  Ekki minntist vitnið þess að hafa séð ákærða hafa afskipti af Y nefnt kvöld, en vísaði ítrekað til lélegs minnis um atvik máls.  Vegna þessa var vitninu kynnt efnisatriði úr skýrslu er það gaf hjá lögreglu 18. mars 2003 þar sem haft var eftir því að ákærði hefði rætt um málefni stúlkunnar, m.a. aldur hennar og lýst yfir áhuga á því að hafa við hana kynmök í herbergi sínu.  Vitnið ætlaði að væri rétt eftir sér haft í lögregluskýrslunni en teysti sér ekki til að staðfesta frásögnina.

Vitnið H, fæddur 1987 skýrði frá því fyrir dómi að það hefði verið í allgóðu vinfengi við ákærða á árinu 2002, en bar að engin samskipti hefðu verið með þeim síðustu misserin.

Vitnið kannaðist við að hafa verið í teiti á heimili ákærða í desembermánuði 2002 ásamt fleiri krökkum, þ.á.m. Y.  Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og bar við minnisleysi af þeim sökum.  Aðspurt minntist vitnið ekki samskipta ákærða og Y eða að ákærði hefði sýnt stúlkunni sérstakan áhuga.  Þá kannaðist vitnið ekki við að aldur stúlkunnar eða annarra gesta hafi verið til umræðu.

Vitnið I, fæddur 1990 staðfesti fyrir dómi að það hefði verið í teiti á heimili ákærða í desembermánuði 2002 ásamt fleiri krökkum þ.á.m. stúlkunni Y.  Ítrekað aðspurt kvaðst vitnið ekkert geta sagt um samskipti ákærða og Y umrætt kvöld.

Vitnið kannaðist við að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu þann 20. febrúar 2002 um málsatvik umrætt kvöld að viðstaddri móður sinni.  Í skýrslunni er m.a. haft eftir vitninu að það hafi farið á heimili ákærða ásamt vitninu D um kl. 22:00 og að stúlkan Y hefði komið þangað skömmu síðar.  Er haft eftir vitninu að ákærði hefði strax sýnt Y áhuga, sest hjá henni í sófa, spjallað og einu sinni kysst hana á munninn, en að ekkert hafi komið fram um að hann hefði vitað um aldur stúlkunnar.  Í skýrslunni er haft eftir vitninu að stúlkan hafi ekki tekið atlotum ákærða illa og þar á meðal ekki er hann tók hana upp og bar hana inn í herbergi og lokaði.  Ennfremur er haft eftir vitninu í skýrslunni að piltar í teitinu hafi reynt að kíkja inn um skráargat á herbergishurðinni, en ekkert séð.  Að lokum er haft eftir vitninu að eftir að Y og ákærði komu út úr herberginu hafi þau sest hjá hinum krökkunum í stofunni, en ákærði að lokum ekið Y til síns heima.

Fyrir dómi treysti vitnið sér ekki til að staðfesta efnisatriði lögregluskýrslunnar og lýsti sem fyrr yfir minnisleysi um atvik máls.

Vitnið A, móðir stúlkunnar Y, greindi frá því fyrir dómi, líkt og við skýrslugjöf hjá lögreglu þann 13. febrúar 2003, að um áramótin 2002/2003 hefði það veitt því eftirtekt að miklar andlegar breytingar urðu hjá stúlkunni.  Vitnið kvað stúlkuna hafa fengið viðeigandi aðstoð eftir að mál hennar komst til vitundar félagsmálayfirvalda í ársbyrjun 2003 og lýsti þeirri skoðun að líðan hennar hefði farið batnandi eftir þetta, ekki síst frá vori 2004.  Vitnið greindi frá því stúlkan hefði verið bráðþroska og um 11-12 ára aldur farið að umgangast sér eldri krakka.

Vitnið J, umsjónarkennari Y, skýrði frá því fyrir dómi að í febrúarmánuði 2003 hefði það verið kallað til vegna andlegs ójafnvægis stúlkunnar í skólanum.  Vitnið bar að stúlkan hefði hágrátið en um síðir kvaðst það hafa heyrt frásögn hennar um nauðgun.  Kvaðst vitnið hafa hugleitt það eftirá að viðvarandi eirðar- og áhugaleysi stúlkunnar hefði farið stigvaxandi á þessu tímabili, en áréttaði að fyrir þann tíma hefði hún einnig átt í umtalsverðum erfiðleikum, ekki síst félagslega.

Eins og áður var rakið liggja fyrir í málinu vottorð sérfræðinga vegna afskipta þeirra af stúlkunni Y á síðustu misserum.

Í skýrslu Þóru F. Fischer kvensjúkdómalæknis og Jóns R. Kristinssonar barnalæknis, sem dagsett er 7. apríl 2003, er greint frá því að stúlkan hafi verið skoðuð í Barnahúsi 9. mars sama ár, en síðan segir m.a.:

„[...].“

Þóra F. Fischer staðfesti vottorðið fyrir dómi, en leiðrétti ritvillu og bar að kynþroskastig stúlkunnar hefði verið IV-V samkvæmt stigum Tanners.  Vitnið bar að þetta væri hæsta kynþroskastigið og því hefði stúlkan verið mjög kynþroska miðað við aldur.  Vitnið áréttaði að ástand meyjarhaftsins hefði benti til íþrengingar í leggöng, líkt og hjá konum er hafa haft samfarir.  Vitnið bar að oftast kæmi fram blæðing við rof á meyjarhafti, þ.e. við fyrstu samfarir, en staðhæfði að það væri þó ekki algilt.

Í skýrslu Barnahúss, sem dagsett er 4. maí 2004, og undirrituð er af Rögnu Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa, er greint frá því að Y hafi verið í meðferð og greiningu á tímabilinu frá 27. febrúar til 26. maí 2003.  Í skýrslunni er lýst ástandi stúlkunnar, þ.á.m. einbeitingarleysi í námi, erfiðleikum í félagslegum samskiptum við jafnaldra og almennu óöryggi, er hún hafi tengt ætluðu kynferðisbroti.  Tekið er fram að stúlkan hafi uppfyllt greiningu um áfallaröskun og verið með einkenni þunglyndis.  Vegna þessa hafi henni verið vísað til barnageðlæknis.

II. kafli ákæru.

[...]

III

Í skýrslu dómkvadds matsmanns, Ingþórs Bjarnasonar, sálfræðings, sem dagsett er 10. september s.l. er greint frá persónulegum aðstæðum ákærða, þroska hans og andlegu heilbrigði.  Niðurstöðukafli skýrslunnar er svohljóðandi:

„Hér er um að ræða 21 árs gamlan mann sem ákærður er fyrir kynferðisbrot gagnvart tveimur ungum stúlkum.  Undirrituðum var falið að kanna þroska hans og andlegt heilbrigði.  Við prófun á greindarfari kemur í ljós að vitsmunaþroski er vel innan eðlilegra marka og engin merki að sjá um misþroska eða önnur einkenni sértækra erfiðleika í vitsmunastarfi.  Greinanlegt er þó mikið óþol og takmarkað mótlætisþol við úrvinnslu erfiðari viðfangsefna við prófun.  Niðurstöður greindarmatsins er í fullu samræmi við fyrri greiningu sálfræðings.  Persónuleikamatið DIP-Q sem byggt er á alþjóðlegum sjúkdómsgreiningarkerfum sýnir mörg einkenni margþættra persónuleikaraskana sem koma heim og saman við þá erfiðleika sem ákærði hefur átt við að stríða frá barnsaldri.  Ekki verður staðfest um geðsjúkdóm út frá þessu mati.  Ágúst Fannar var sem barn greindur með athyglisbrest og ofvirkni og í þrjú ár vistaður í sérskóla fyrir börn með hegðunarraskanir.  Hann hefur ítrekað komist í kast við lög og nýlega afplánað dóm vegna ýmissa brota, þ.m.t. líkamsárásir.  Í athugun kemur fram að hann hefur neytt hættulegra vímugjafa í 8 ár með hléum, stefnir nú á vímuefnameðferð í fyrsta sinn.

Í fari ákærða er að finna hegðunareinkenni og hugarfar sem að mati undirritaðs geta gert hann skaðlegan bæði sjálfum sér og umhverfi sínu, sbr. viðhorf hans til áhættuaksturs.  Hann virðist sýna mikið skilningsleysi gagnvart sjálfum sér en ásakar jafnframt aðra um það sem miður hefur farið, og sýnir mikla reiði í garð þeirra sem hann telur hafa beitt sig órétti.  Skilningur á eigin ábyrgð virðist takmarkaður.  Hann gerir sér þó einhverja grein fyrir því nú að hann þarf að ná tökum á hegðan sinni og hann þarf að leita sér hjálpar, en fram til þessa hefur sá skilningur ekki verið fyrir hendi.  Erfitt er að spá fyrir um meðferðarhorfur Ágústs Fannar.  Hann þarf nauðsynlega á geðlæknisfræðilegri eða sálfræðilegri meðferð að halda en það gæti reynst honum erfitt að sjá tilgang þess og einnig að meðtaka að hugsanlega eru ekki allir mótsnúnir honum og vilja koma honum til hjálpar.  Það er þó vissulega tilraunarinnar virði að hvetja hann til meðferðarvinnu og fá hann til að takast á við þá þætti í fari sínu sem hafa orðið honum fjötur um fót í samskiptum við annað fólk.“

Fyrir dómi staðfesti matsmaðurinn skýrslu sína.

Niðurstaða.

Ákærði hefur staðfastlega fyrir dómi, líkt og við skýrslugjöf hjá lögreglu, neitað allri sök í málinu.

Að virtum framburði vitna verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar í málinu þá frásögn ákærða að hann hafi fyrst haft eiginleg kynni af stúlkunum Y og B í desembermánuði 2002.

Sakarefni I. kafla ákæru.

Fyrir liggur í máli þessu að ákærði hélt hóf á heimili sínu föstudagskvöldið 20. desember 2002, að hann bauð til sín ungmennum á aldrinum 12 til 17 ára og að stúlkan Y fór í hófið að fyrirlagi félaga síns, vitnisins C.

Að mati dómsins er nægjanlega sannað með framburði Y og nefnds vitnis, að ákærði sýndi stúlkunni fljótlega áhuga eftir að hún kom á heimili hans, m.a. með blíðuhótum í stofunni.  Þá er einnig sannað með framburði stúlkunnar og áðurnefnds vitnis, sem einnig hefur stoð í frásögn vitnisins D, að ákærði tók hana í fangið í stofunni og bar hana inn í svefnherbergi sitt.  Fyrir liggur að ákærði lokaði hurðinni aftur og huldi skráargatið er hann varð var við umgang annarra gesta.

Að mati dómsins var framburður ákærða um ofangreind afskipti af stúlkunni reikull og ótrúverðugur, þ.á.m. um tildrög þess að hann fór með hana í herbergið og um að hún hafi átt þar frumkvæði.

Fyrir dómi lýsti Y ítarlega dvöl sinni með ákærða í herberginu, þ.á.m. orðaskiptum þeirra, og hefur frásögn hennar að því leyti nokkurn stuðning í framburði vitnisins D.  Ennfremur lýsti Y kynferðislegum afskiptum ákærða og líkamlegum sársauka sínum, en einnig áætluðum tíma sem hún dvaldi þar inni og hefur framburður hennar að því leyti stuðning í frásögn vitnisins C.

Er atvik máls gerðust var Y á þrettanda ári, en ákærði tvítugur.

Samkvæmt frásögn ákærða dvaldi hann einungis stutta stund með stúlkunni í herberginu, en afklæddust engu að síður að ofanverðu sökum hita, en hvarf síðan á braut m.a. vegna leiðinda.

Rannsókn lögreglu á haldlögðum munum leiddi ekkert sérstakt í ljós um saknæmt athæfi ákærða.  Í því sambandi er til þess að líta að samkvæmt frásögn Y kom ekkert blóð frá henni vegna ætlaðs athæfis ákærða og að málið kom fyrst til kasta lögreglu tæpum tveimur mánuðum eftir áðurgreindan atburð.

Samkvæmt frásögn stúlkunnar var hún andlega miður sín vegna athæfis ákærða.

Vitnisburður og vottorð meðferðaraðila og sérfræðilæknis styðja að áliti dómsins frásögn stúlkunnar um að alvarlegur atburður af því tagi sem hún hefur lýst hafi gerst í lífi hennar og að hún hafi af þeim sökum orðið fyrir andlegu áfalli.  Frásögn umsjónarkennara stúlkunnar og móður styðja frásögn hennar einnig að þessu leyti.

Að mati dómsins er frásögn Y um ofangreind samskipti hennar við ákærða trúverðug og nákvæm, en til þess er að líta að stúlkan var mjög ung að árum og reynslulaus í samskiptum sem þessum.

Það er álit dómsins, þegar framangreint er virt í heild, að ekki sé varhugavert að leggja framburð Y til grundvallar um að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi, sem lýst er í þessum kafla ákæruskjalsins.

Þegar litið er til mjög ungs aldurs stúlkunnar, framburðar hennar um að ákærði hefði, er hún kom á heimili hans, þulið upp kennitölu hennar og að virtum framburði vitna, sérstaklega E, um útlit stúlkunnar og loks vottorða sérfræðinga, sem að hennar málum komu, er það álit dómsins að ákærði, sem var nýorðinn tvítugur, hafi hlotið að hafa vitað að stúlkan var yngri en 14 ára er atvik máls gerðust að kveldi 20. desember 2002.

Að öllu framangreindu virtu er að áliti dómsins sannað að ákærði hafi brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 40, 2003, sbr. áður 1. málslið. 1. mgr. 202. gr. sbr. 10. gr. laga nr. 40, 1992.

Sakarefni II. kafla ákæru.

[...]

Ber því að sýkna ákærða af háttseminni og vísa bótakröfu samkvæmt þessum kafla frá dómi samkvæmt 3. mgr. 172. gr. sömu laga.

IV.

Samkvæmt framansögðu hefur ákærði gerst sekur um kynferðismök við barn yngra en 14 ára.  Með háttseminni braut ákærði áður greind ákvæði hegningarlaga, sem löggjafinn hefur sett til að veita æskufólki vernd með tilliti til kynferðislegrar hegðunar og er hún mörkuð við áður greindan aldur.  Verða þessi mörk ekki upphafin með samþykki barnsins.  Að áliti dómsins er brot ákærða alvarlegt og beindist gegn mikilvægum hagsmunum.

Er ákærði framdi brot sitt var hann tvítugur að aldri, en samkvæmt vottorði Sakaskrár ríkisins hefur hann fjórum sinnum hlotið refsingar. Í marsmánuði 2001 var hann dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnaðarbrot, en í sama mánuði hlaut hann einnig sekt hjá lögreglustjóra fyrir umferðarlagabrot.  Í septembermánuði s.á. var hann dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið til 3 ára, fyrir þjófnaðarbrot og var eldri skilorðsdómur dæmdur með.  Loks var ákærði í febrúarmánuði 2004 dæmdur í 5 mánaða fangelsi, en þar af voru 4 mánuðir skilorðsbundnir til 3 ára, fyrir húsbrot og líkamsárás, en með þeirri refsingu var eldri skilorðsdómur dæmdur upp.

Samkvæmt 60. gr. sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga ber að dæma upp skilorðsbundna hluta refsingarinnar sem ákærði hlaut í febrúarmánuði 2004 og ákveða refsingu í einu lagi fyrir þann hluta og brot það sem hann er nú sakfelldur fyrir.  Þykir refsing ákærða með vísan til þessa svo og 1. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi.  Ekki þykir fært að skilorðsbinda refsinguna.  Til frádráttar refsingunni komi 6 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.

Anna Guðný Júlíusdóttir hdl. og fyrrum réttargæslumaður stúlkunnar Y bar fram bótakröfu fyrir hönd móður hennar með bréfi rannsóknaraðila, dagsettu 11. júní 2003 og krafðist miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk dráttarvaxta skv. 9. gr. frá 21. júní 2003, sbr. 1. mgr. 6 gr. vaxtalaga nr. 38, 2001.  Lögmaðurinn krafðist og þóknunar m.a. með vísan til i-liðar 1. mgr. 44. gr. laga nr. 19, 1991, sbr. lög nr. 36, 1999.

Af hálfu rannsóknaraðila voru bótakröfurnar birtar ákærða 21. júní 2003.

Við lögreglurannsókn málsins greiddi sýslumaðurinn á Akureyri ofannefndum lögmanni þóknun fyrir vinnu sína við réttargæslustörfin og gerð bótakröfu, en einnig vegna sömu starfa vegna sakarefnis 2. kafla ákærunnar, samtals kr. 155.520 að meðtöldum virðisaukaskatti.

Fyrir aðalmeðferð málsins var Árni Pálsson hrl., skipaður réttargæslumaður.  Hann rökstuddi framangreindar bótakröfur fyrir dómi.

Ákærði andmælti kröfunni fyrir dómi líkt og lýst var hér að framan.

Stúlkan Y á rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna þeirrar háttsemi sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, en að mati dómsins hefur verið sýnt fram á, þ.á m. með sérfræðivottorðum að stúlkan hafi orðið fyrir sálrænum erfiðleikum vegna verknaðar ákærða.  Að þessu virtu verður ákærði dæmdur til að greiða miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar kr. 500.000 ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma ákærða til að greiða helming sakarkostnaðar, þ.m.t. helming réttargæslu- og málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Hreins Pálssonar hrl. kr. 300.000 og helming málflutningsþóknunar Árna Pálssonar hrl. réttargæslumanns kr. 50.000.  Helmingur sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragnheiður Harðardóttir saksóknari.

Dómsuppsaga í máli þessu hefur dregist nokkuð, m.a. vegna embættisanna dómsformanns, en endurflutningur þykir óþarfur, sbr. Hrd. nr. 448/2002.

Dóm þennan kveða upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari sem dómsformaður, Ásgeir Pétur Ásgeirsson settur dómstjóri og Kristinn Halldórsson settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Ágúst Fannar Ágústsson, skal sæta 12 mánaða fangelsi, en til frádráttar komi 6 daga gæsluvarðhald.

Ákærði greiði A, [kt.], vegna ólögráða dóttur sinnar, Y, kr. 500.000 í miskabætur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. júlí 2003 til greiðsludags.

Ákærði greiði helming sakarkostnaðar, þ.m.t. helming réttargæslu- og málsvarnarlauna skipaðs verjanda Hreins Pálssonar hrl. kr. 300.000 og helming málflutningsþóknunar Árna Pálssonar hrl. kr. 50.000 Helmingur sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.