Hæstiréttur íslands
Mál nr. 452/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Faðerni
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 24. september 2013. |
|
Nr. 452/2013.
|
A (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn M (enginn) |
Kærumál. Börn. Faðerni. Frávísunarúrskurður staðfestur. Sératkvæði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem faðernismáli A á hendur M var vísað frá dómi, þar sem ekki var uppfyllt skilyrði 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júní 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 10. júní 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann þess að þóknun lögmanns hans vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili, sem er fæddur 1976, mál þetta til viðurkenningar á því að varnaraðili sé faðir sinn, en við þingfestingu sótti varnaraðili þing og samþykkti kröfu sóknaraðila. Fyrir liggur að annar nafngreindur maður gekkst fyrir sýslumanni við faðerni sóknaraðila 28. febrúar 1977 og hefur sú viðurkenning ekki verið felld úr gildi. Þá liggur og fyrir að á árinu 2003 var sóknaraðili ættleiddur af stjúpföður sínum og stendur sú ráðstöfun óhögguð. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 er það skilyrði fyrir höfðun faðernismáls að barn hafi ekki verið feðrað eða faðerni þess ákveðið eftir 2. mgr. 6. gr. laganna. Í ljósi þess, sem að framan segir, er þessu lagaskilyrði ekki fullnægt og verður því ekki komist hjá að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Um þóknun lögmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir, sbr. 11. gr. barnalaga.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun lögmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
I
Í hinum kærða úrskurði er vísað til 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 um það skilyrði málshöfðunar í faðernismáli að barn hafi ekki verið feðrað eða foreldri ákvarðað samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Sóknaraðili hafi á hinn bóginn verið feðraður samkvæmt viðurkenningu nafngreinds manns hjá sýslumanni á árinu 1977 og hafi þeirri viðurkenningu ekki verið hnekkt með dómi. Þá hafi með ættleiðingu á árinu 2003 fallið niður lagatengsl milli sóknaraðila og kynföður, sbr. 25. gr. laga nr. 130/1999 um ættleiðingar og breyti engu hvort kynfaðir á þeim tíma hafi verið óþekktur. Auk alls þessa verði ekki litið fram hjá því grundvallaratriði ættleiðingar að hún verði aldrei aftur tekin. Hafi sóknaraðili því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm fyrir kröfu sinni.
Eins og greinir í atkvæði meirihlutans hefur viðurkenning nafngreinds manns hjá sýslumanni 28. febrúar 1977 á faðerni sóknaraðila ekki verið felld úr gildi. Þá liggur fyrir að sóknaraðili var ættleiddur af stjúpföður sínum á árinu 2003. Telur meirihlutinn skorta lagaskilyrði samkvæmt framangreindri 1. mgr. 10. gr. barnalaga til að höfða barnfaðernismál.
II
Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 130/1999 öðlast kjörbarn við ættleiðingu sömu réttarstöðu gagnvart kjörforeldrum, ættmennum þeirra og þeim sem eru í kjörsifjum við þá eins og væri það eigið barn kjörforeldra, nema lög mæli annan veg. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barnsins við kynforeldra þess, önnur ættmenni og þá sem eru í kjörsifjum við þá, nema lög kveði öðruvísi á. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum er tíundað með dæmum úr hinum ýmsu lögum sú undirstöðuregla að sömu reglur skuli gilda um kjörbarn og eigið barn foreldra. Þá segir að óæskilegt sé að frá þessu sé vikið í lögum, nema alveg sérstaklega standi á, sbr. einkum þá staðreynd að blóðbönd eru ekki milli kjörbarns og kjörforeldra, sbr. og 10. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Einnig segir að lagastefnan sé sú að staða kjörbarns verði sem svipuðust stöðu eigin barns ættleiðenda. Verði þetta raunar enn sýnna ef fylgt verði þeirri stefnu frumvarpsins að afnema reglur um niðurfellingu ættleiðingar.
Af því sem að framan er rakið gilda ekki að öllu leyti sömu reglur um kjörbörn og önnur börn. Verður því ekki fallist á að ættleiðing sóknaraðila leiði til þess að hann skorti hagsmuni fyrir kröfu sinni. Eru þessir hagsmunir hans lögvarðir samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar sem felur í sér sjálfstæða reglu um almennan rétt manna til að bera mál sín undir dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar 18. desember 2000 í máli nr. 419/2000.
Sóknaraðili hefur á hinn bóginn ekki leitast við að fá þá framangreindu viðurkenningu frá 1977 um faðerni hans fellda úr gildi samkvæmt III. kafla barnalaga. Stendur sú yfirlýsing því óhögguð. Af þeim sökum fellst ég á með meirihluta dómenda að lagaskilyrði skorti samkvæmt 1. mgr. 10. gr. barnalaga til að höfða barnfaðernismál.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 10. júní 2013.
I.
Mál þetta, sem var þingfest 5. júní sl. og dómtekið samdægurs, var höfðað af A, kt. [...], til heimili að [...], með birtingu stefnu þann 29. maí sl., gegn M, kt. [...], til heimilis að [...].
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi, M, sé faðir stefnanda, A, sem fæddur er hinn [...] 1976.
Þá er þess krafist að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, svo og kostnaður vegna öflunar mannerfðafræðilegrar rannsóknar, að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
II.
Í stefnu er málsatvikum lýst sem svo að stefnandi hafi fæðst þann [...] 1976. Ekki hafi verið vitað hver hafi verið kynfaðir stefnanda, en hann hafi alist upp með móður sinni, K, kt. [...], og sambýlismanni hennar, B. Óvissa um faðerni stefnanda hafi valdið honum hugarangri allt frá því að hann komst til vits og ára. Árið 2003 hafi orðið svo úr að B ættleiddi stefnanda.
Árið 2012 hafi stefndi sett sig í samband við stefnanda og lýst því yfir að hann teldi sig vera kynföður stefnanda. Með þeim hafi tekist náin tengsl og hafi verið afráðið að gerð skyldi mannerfðafræðileg rannsókn til könnunar á faðerni stefnanda. Hafi rannsóknin leitt í ljós að líkurnar á því að stefndi sé faðir stefnanda væru 99%, og séu báðir málsaðilar afar sáttir við þessu niðurstöðu.
Kveður stefnandi þungu fargi af sér létt, en hann eigi ekki annars kostar völ en að höfða mál þetta til þess að fá skorið úr faðerni sínu með formlegum hætti.
Um lagarök vísar stefnandi til II. kafla barnalaga nr. 76/2006, sbr. 1. og 3. gr. laganna. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 9. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað byggist á 11. gr. sömu laga, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og um virðisaukaskatt vísast til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III.
Við þingfestingu málsins þann 5. júní sl. mætti stefndi sjálfur og samþykkti framkomnar kröfur stefnanda. Var málið þá tekið til dóms með vísan til 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í málinu liggur fyrir mannerfðafræðileg rannsókn og samkvæmt niðurstöðu hennar eru meira en 99% líkur fyrir því að stefndi sé faðir stefnanda. Samkvæmt 17. gr. barnalaga skal maður talinn faðir barns ef niðurstöður mannerfðafræðilegrar rannsókna benda eindregið til þess að hann sé faðir þess. Þá liggur í málinu frammi skjal með yfirskriftinni „Tilkynning um fæðingu“, er varðar stefnanda. Er þar C skráður faðir stefnanda, þó með þeirri athugasemd að samkvæmt niðurstöðu blóðrannsóknar þann 15. júní 1977, hafi nefndur C verið útilokaður frá því að vera faðir stefnanda. Segir þá „C telst þó áfram vera faðir A, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 87/1947, sbr. nú 1. mgr. 5. gr. laga nr. 20/199[2] enda hefur faðernisviðurkenningu hans ekki verið hnekkt með dómi, sbr. nú 53. gr. laga nr. 20/1992.“ Ennfremur liggur fyrir að stefnandi var ættleiddur af B með leyfisbréfi útgefnu þann 25. september 2003.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003, er það skilyrði höfðunar faðernismáls, að barn hafi ekki verið feðrað eða foreldri ákvarðað skv. 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt framlögðum gögnum máls þessa var stefnandi feðraður við fæðingu og liggur ekkert frammi í málinu sem bendir til þess að faðernisviðurkenningu þess manns hafi verið hnekkt með dómi. Ennfremur liggur fyrir að stefnandi er í dag skráður sonur B, sem ættleiddi hann árið 2003. Með ættleiðingu þeirri féllu niður lagatengsl stefnanda við blóðföður, sbr. 25. gr. laga nr. 130/1999 um ættleiðingar, og breytir þar engu um þó blóðfaðir hafi á þeim tíma verið óþekktur. Að öllu framansögðu virtu, er það mat dómsins að stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína. Þá verður ekki litið fram hjá því grundvallaratriði ættleiðingar, að hún verður aldrei aftur tekin og því óhjákvæmilegt að vísa frá dómi kröfu stefnanda um viðurkenningu á því að stefndi sé faðir hans.
Samkvæmt 11. gr. barnalaga nr. 76/2003, skal greiða úr ríkissjóði þóknun lögmanns stefnanda, svo og annan málskostnað stefnanda, þar með talið kostnað við öflun mannerfðafræðilegra rannsókna, sé barn stefnandi máls til feðrunar barns. Stefnandi máls þessa telst barn í skilningi áðurnefndrar greinar barnalaga og því skal málskostnaður stefnanda greiðast úr ríkissjóði, sem og kostnaður af mannerfðafræðilegri rannsókn er gerð var á aðilum málsins. Málskostnaður ákveðst 350.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp þennan dóm.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu stefnanda um viðurkenningu á því að stefndi sé faðir hans er vísað frá dómi.
Málskostnaður stefnanda sem er þóknun lögmanns stefnanda, 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, þá greiðist úr ríkissjóði, kostnaður vegna mannerfðafræðilegrar rannsóknar, 194.100 krónur.