Hæstiréttur íslands
Mál nr. 209/2004
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Gjöf
|
|
Fimmtudaginn 2. desember 2004. |
|
Nr. 209/2004. |
Sveinn B. Steingrímsson (Jón Magnússon hrl.) gegn þrotabúi Jóns Bjargmundssonar (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Gjöf.
J gaf út fjögur samhljóða skuldabréf og var sumarhús hans sett að veði til tryggingar skuldinni, án lóðarréttinda. J og eigandi lóðarinnar felldu úr gildi leigusamning sinn um lóðina og var gerður nýr leigusamningur við þrjú börn J. Bú J var tekið til gjaldþrotaskipta nokkrum mánuðum síðar. Skiptastjóri í þrotabúi J seldi börnum hans sumarhúsið og var að mestu leyti greitt fyrir húsið með yfirtöku skulda samkvæmt fyrrnefndum skuldabréfum. Áður hafði S fengið bréfin í hendur frá J. Þrotabúið taldi að um gjöf hefði verið að ræða og krafðist aðallega riftunar gjafarinnar fyrir dómi og greiðslu tiltekinnar fjárhæðar, sem S hafði fengið greidda fyrir bréfin. Var ekki talið að skiptastjóri hefði, með kaupsamningi um sumarhúsið, afsalað þrotabúinu rétti til að rifta afhendingu veðskuldabréfanna til S og væri kröfunni því réttilega beint að honum. Þá var fallist á með þrotabúinu að meta yrði afhendingu veðskuldabréfanna sem gjöf. Afhending bréfanna átti sér stað innan sex mánaða fyrir frestdag og var óumdeilt að ráðstöfunin hafi komið S að notum. Var fallist á kröfu þrotabúsins um riftun gjafarinnar og greiðslu umræddrar fjárhæðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. maí 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að krafa stefnda um greiðslu verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málið á rætur að rekja til þess að Jón Bjargmundsson gaf út fjögur samhljóða skuldabréf og var hvert þeirra að fjárhæð 750.000 krónur. Báru skuldabréfin útgáfudaginn 15. febrúar 2001. Til tryggingar skuldinni var sett að veði með fyrsta veðrétti sumarhús á lóð nr. 35 í landi Kiðjabergs í Grímsnesi, en tekið var fram að því fylgdu engin lóðarréttindi. Voru skuldabréfin afhent sýslumanninum á Selfossi til þinglýsingar 10. apríl 2001 og voru þau innfærð í lausafjárbók sama dag. Lóð undir sumarhúsið hafði Jón tekið á leigu árið 1990 til 70 ára af Meistarafélagi húsasmiða. Í sameiginlegri yfirlýsingu Jóns og félagsins 28. mars 2001 var greint frá því að samkomulag hefði tekist milli þeirra um að „ógilda“ samninginn. Sama dag gerði félagið nýjan leigusamning um lóðina við þrjú nafngreind börn Jóns Bjargmundssonar. Leigutími var 70 ár frá undirritun þess samnings að telja.
Bú Jóns Bjargmundssonar var tekið til gjaldþrotaskipta 12. september 2001. Skiptastjóri í þrotabúinu ritaði 25. mars 2002 undir kaupsamning og afsal fyrir sumarhúsinu, en kaupendur voru fyrrgreindir nýir leigutakar að lóðinni, sem húsið stóð á. Umsamið kaupverð var 5.000.000 krónur, en af því bar þá þegar að greiða 500.000 krónur með peningum. Að öðru leyti skyldu kaupendur greiða fyrir húsið með því að taka að sér skuld samkvæmt fyrrnefndum veðskuldabréfum, sem var sögð nema 4.474.452 krónum með áföllnum vöxtum og kostnaði, og áfallin fasteignagjöld, vátryggingariðgjöld og lóðarleigu, sem ekki var þó greint nánar frá.
Í málinu er óumdeilt að áfrýjandi hafi fengið áðurgreind veðskuldabréf í hendur frá Jóni Bjargmundssyni. Heldur áfrýjandi því fram að það hafi gerst fyrir kaup og hann greitt Jóni fyrir þau 2.700.000 krónur. Stefndi vefengir að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir þau. Höfðaði hann málið 24. september 2002 og krafðist þess aðallega að rift yrði gjöf þrotamanns til áfrýjanda á veðskuldabréfunum, til vara að rift yrði veðsetningu samkvæmt bréfunum, en til þrautavara að rift yrði greiðslu skuldar, sem innt hafi verið af hendi með þeim. Í öllum tilvikum krafðist stefndi þess jafnframt að áfrýjanda yrði gert að greiða sér 4.474.452 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Var aðalkrafa stefnda tekin til greina í héraðsdómi. Málavextir og málsástæður aðilanna eru nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi, svo og í dómi Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 256/2003, þar sem úrskurður um frávísun málsins var felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka það til efnismeðferðar.
II.
Áfrýjandi ber meðal annars fyrir sig að með því að selja sumarhúsið, sem greitt var fyrir að hluta með yfirtöku áðurnefndra veðskulda, hafi skiptastjóri skuldbundið stefnda með þeim hætti að ekki sé unnt síðar að breyta þessari gerð með höfðun máls í nafni hans. Skiptastjóri hafi gert gildan löggerning, sem hann hafi haft fulla heimild til að gera samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hafi búið með því glatað rétti til að bera fram mótbárur gegn rétti áfrýjanda yfir veðskuldabréfunum. Einnig heldur áfrýjandi því fram að rifta hefði þurft sölu á sumarhúsinu til þess að stefndi gæti átt aðild að málinu. Með því að stefndi hafi ráðstafað húsinu með þessu móti eigi hann ekki kröfurétt á hendur áfrýjanda og sé ekki réttur aðili að málinu. Varðandi þessar varnir áfrýjanda er til þess að líta að í málinu er ekki krafist að ráðstöfun skiptastjórans á sumarhúsinu verði ógilt og þarf ekki að leita slíkrar ógildingar til þess að mál þetta megi höfða, enda hefur skiptastjórinn ekki afsalað stefnda með þessum gerningi rétti til að rifta afhendingu veðskuldabréfanna til áfrýjanda og er kröfunni réttilega beint að honum. Að þessu virtu verður ekki fallist á varnir áfrýjanda, sem að þessu lúta.
Aðalkrafa stefnda er á því reist að áfrýjandi hafi fengið veðskuldabréfin, sem um ræðir í málinu, án þess að nokkurt endurgjald hafi komið á móti. Sá síðarnefndi ber sem áður segir fyrir sig að hann hafi greitt Jóni Bjargmundssyni 2.700.000 krónur fyrir bréfin. Sú fullyrðing er studd við kvittun, sem dagsett er 20. apríl 2001, svo og framburð Jóns fyrir dómi. Kvittunin var ekki lögð fram í málinu fyrr en við aðalmeðferð þess 3. mars 2004 og þar með löngu eftir að brýnt tilefni var til að gera það. Veðskuldabréfin voru afhent áfrýjanda í beinu framhaldi af því að árangurslaus kyrrsetning var gerð hjá Jóni 5. apríl 2001 og er engin skýring fram komin á því hvað Jón hafi gert við fé, sem haldið er fram að hann hafi fengið frá áfrýjanda. Þá verður í engu byggt á framburði Jóns um þetta efni. Að þessu virtu og öðru, sem um þetta greinir í héraðsdómi, verður fallist á með stefnda að leggja verði til grundvallar að ekkert hafi komið fyrir veðskuldabréfin og að afhendingu þeirra verði að meta sem gjöf til áfrýjanda. Frestdagur við skipti á þrotabúinu var 17. ágúst 2001 og fór afhending bréfanna því fram innan sex mánaða fyrir frestdag, sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.
Þáverandi lögmaður áfrýjanda beindi áskorun til Jóns Bjargmundssonar 25. febrúar 2002 um að hann greiddi skuld sína samkvæmt veðskuldabréfunum. Nam krafan að samanlögðum höfuðstól þeirra, vöxtum og innheimtukostnaði 4.474.452 krónum. Miðar stefndi við þá fjárhæð í kröfugerð sinni í málinu. Í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar er staðhæft að bréfin hafi fengist greidd í samræmi við greiðsluáskorunina. Er því óumdeilt að hin riftanlega ráðstöfun hafi komið áfrýjanda að notum sem svari þessari fjárhæð, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Fjárhæð dómkröfu stefnda var ekki mótmælt sérstaklega fyrir héraðsdómi og eru mótmæli nú fyrir Hæstarétti við tilteknum liðum hennar of seint fram komin.
Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest, þar á meðal um málskostnað, enda var héraðsdómi ekki gagnáfrýjað af hálfu stefnda. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sveinn B. Steingrímsson, greiði stefnda, þrotabúi Jóns Bjargmundssonar, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2004.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 3. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þrotabúi Jóns Bjargmundssonar, kt. 050149-3829, Kirkjutorgi 4, Reykjavík, með stefnu birtri 24. september 2002 á hendur Sveini B. Steingrímssyni, kt. 271236-4769, Kaplaskjólsvegi 63, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að rift verði með dómi gjöf til stefnda í formi afhendingar Jóns Bjargmundssonar, kt. 050149-3829, til stefnda á fjórum veðskuldabréfum, hverju um sig að fjárhæð kr. 750.000, með útgáfudegi 15. febrúar 2001, samtals öll fjögur að nafnverði kr. 3.000.000. Hvert bréfanna er til fjögurra ára með gjalddaga á 6 mánaða fresti, þeim fyrsta 15. ágúst 2001. Hvert bréfanna er tryggt samhliða hinum, með l. veðrétti í sumarhúsi, án lóðaréttinda, á lóð nr. 35 í landi Kiðjabergs, fastanr. 220-7709. Þinglýsinganúmer skuldabréfanna eru B367, B368, B369 og B370, og eru þau færð í lausafjárbók sýslumannsins á Selfossi. Þá krefst stefnandi þess, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 4.474.452, auk dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. marz 2002 til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins ásamt virðisaukaskatti. Til vara gerir stefnandi þær kröfur, að rift verði með dómi veðsetningu á eignarhluta Jóns Bjargmundssonar, kt. 0501493829, í sumarhúsi, staðsettu á lóð nr. 35, merktri 169851, í landi Kiðjabergs í Árnessýslu, fastanúmer 220-7709, með fjórum veðskuldabréfum, hverju um sig að fjárhæð kr. 750.000, með útgáfudegi 15. febrúar 2001, samtals öll fjögur að nafnverði kr. 3.000.000. Hvert bréfanna er til fjögurra ára, með gjalddaga á 6 mánaða fresti, þeim fyrsta 15. ágúst 2001. Hvert bréfanna er tryggt samhliða hinum, með l. veðrétti í eigninni. Þinglýsingarnúmer skuldabréfanna eru B367, B368, B369 og B370, og eru þau færð í lausafjárbók sýslumannsins á Selfossi. Þá krefst stefnandi þess, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 4.474.452, auk dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. marz 2002 til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins ásamt virðisaukaskatti.
Í aðal- og varakröfu gerir stefnandi kröfu um aðra lægri fjárhæð.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara, að dómkröfurnar verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti.
II.
Málavextir:
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 12. september 2001, var bú Jóns Bjargmundssonar, kt. 050149-3829, tekið til gjaldþrotaskipta. Í framhaldi af því var Sigurður Georgsson hrl. skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Frestdagur við skiptin var 17. ágúst 2001, og rann kröfulýsingafrestur út 18. febrúar 2002. Lýstar kröfur í þrotabúið voru samtals að fjárhæð kr. 77.860.798. Fyrsti skiptafundur var haldinn 16. apríl 2002.
Í skýrslu þrotamanns við gjaldþrotaskiptin kom fram, að eignir hans voru 50 % eignarhluti í yfirveðsettri fasteign við Bogahlíð í Reykjavík og sumarbústaður án lóðarréttinda í Kiðjabergslandi. Fram kom við skýrslutökuna, að þrotamaður teldi, að á sumarbústaðnum hvíldi veð, sem þinglýst væri í lausafjárbók sýslumannsins á Selfossi.
Við skoðun skiptastjóra kom í ljós, að þann 10. apríl 2001 hafði fjórum veðskuldabréfum, útg. af Jóni Bjargmundssyni, hverju um sig að fjárhæð kr. 750.000 að nafnverði, eða samtals að fjárhæð kr. 3.000.000 að nafnverði, verið þinglýst á 1. veðrétt umrædds sumarbústaðar, og að þinglýsingin hafði verið færð inn í lausafjárbók sýslumannsins á Selfossi. Skuldabréfin eru dagsett 15. febrúar 2001. Tekið var fram, í skuldabréfunum, að húsinu fylgdu engin lóðarréttindi. Voru bréfin afhent stefnda, Sveini Steingrímssyni, en ágreiningur er um, hvort gjald hafi komið fyrir.
Samkvæmt gögnum málsins hafði Jón Bjargmundsson tekið áðurnefnda lóð í landi Kiðjabergs á leigu til 70 ára af Meistarafélagi húsasmiða með samningi, dags. 19. júlí 1990. Í sameiginlegri yfirlýsingu Jóns og félagsins, dags. 28. marz 2001, segir, að samkomulag hafi tekizt milli þeirra um að ógilda þann samning. Sama dag tóku börn Jóns, Rakel Björg Jónsdóttir, Bjargmundur Jónsson og Steingrímur Már Jónsson, við lóðarréttindunum samkvæmt samningi við félagið.
Stefnandi kveður skuldheimtumenn hafa sótt mjög hart að þrotamanni fyrri part ársins 2001, og hafi sumarbústaðurinn, ásamt fleiri eignum þrotamanns, verið kyrrsettur að kröfu Húsasmiðjunnar hf. þann 5. apríl 2001. Sama dag hafi verið gert fjárnám í sumarbústaðnum að kröfu Járnbendingar ehf. Ekki hafi verið unnt að þinglýsa þessum skjölum, þar sem þrotamaður hafi ekki lengur reynzt vera þinglýstur eigandi lóðarinnar, sem sumarbústaðurinn stóð á.
Þann 25. marz 2002 ritaði skiptastjóri þrotabúsins undir kaupsamning og afsal fyrir sumarhúsinu til áðurgreindra barna þrotamanns. Kaupverðið var kr. 5.000.000 og skyldi greiðast þannig: Kr. 500.000 með peningum og kr. 4.474.452 með yfirtöku á framangreindum fjórum veðskuldabréfum, miðað við stöðu þeirra bréfa samkvæmt greiðsluáskorun Helgu Leifsdóttur hdl., dags. 25. feb. 2002. Að auki skyldu þau taka að sér að greiða áfallin fasteignagjöld, vátryggingariðgjöld og lóðarleigu, sem ekki var þó greint nánar frá.
Á skiptafundi 19. september 2002 var ákveðið, að kröfu Húsasmiðjunnar hf., að höfða mál til riftunar á umræddum ráðstöfunum þrotamanns. Jafnframt var ákveðið, að Sigurbirni Þorbergssyni hdl. yrði falið að reka mál þetta af hálfu þrotabúsins.
Með úrskurði héraðsdóms, dags. 3. júní 2003, var málinu vísað frá dómi að kröfu stefnda.
Með dómi Hæstaréttar, dags. 1. september s.á., var úrskurðinum hrundið og lagt fyrir dómara að taka málið til efnismeðferðar.
III.
Málsástæður stefnanda:
Aðalkrafa:
Stefnandi kveður kröfu um riftun á gjafagerningi til stefnda byggða á ákvæði l. mgr. 130. gr. l. nr. 21/1991, sbr. 140. gr. 1. nr. 21/1991. Byggt sé á því, að um riftanlegan gjafagerning sé að ræða, enda komi hvergi fram, að nokkur verðmæti hafi komið í stað veðskuldabréfanna til þrotamanns. Ekki komi fram á bankareikningum þrotamanns, að verðmæti hafi komið í stað skuldabréfanna. Þrotamaður hafi ekki lýst því, hvað hann hafi fengið fyrir bréfin í skýrslutökum hjá skiptastjóra, eða gert grein fyrir ráðstöfun meintra verðmæta. Sé á því byggt, að um málamyndagerning sé að ræða, sem leitt hafi til skerðingar á eignamassa þrotabúsins til tjóns fyrir kröfuhafa. Sé á því byggt, að stefndi hafi auðgazt við móttöku umræddra fjögurra skuldabréfa, þar sem ekki verði séð, að hann hafi látið nokkur verðmæti af hendi rakna til þrotamanns, en stefndi beri sönnunarbyrði um það atriði. Sé á því byggt, að þar sem eignamassi þrotamanns hafi skerzt og stefndi auðgazt að sama skapi við löggerning þennan, sé í ljós leiddur gjafatilgangur þrotamanns með ráðstöfun þessari. Sé því öllum efnislegum skilyrðum 1. mgr. 131. gr. l. nr. 21/1991 fullnægt.
Byggt sé á því, að formlegt skilyrði 1. mgr. 131. gr. l. nr. 21/1991 um, að riftanleg ráðstöfun hafi farið fram innan 6 mánaða fyrir frestdag sé uppfyllt. Samkvæmt 140. gr. l. nr. 21/1991 beri að miða upphafstímamark við þinglýsingu eða aðra tryggingarráðstöfun, sem hindri, að betri réttur fáist með fullnustugerð. Frestdagur við skiptin hafi verið 17. ágúst 2001, en skuldabréfin hafi verið afhent til þinglýsingar þann 10. apríl 2001. Afhending skuldabréfanna til þinglýsingar marki fyrsta mögulega viðmið, og sé það innan 6 mánaða frests 131. gr. 1. nr. 21/1991.
Einnig sé sérstaklega á því byggt, að útgáfudagsetning bréfanna standist ekki skoðun og sé röng, enda beri efni bréfsins það með sér. Þessi aðstaða styðji enn frekar, að um hreinan málamyndagerning sé að ræða, sem sé riftanlegur. Skuldabréfin séu öll fjögur dagsett 15. febrúar 2001. Þrotamaður hafi skilað inn lóðarréttindum sínum 28. marz 2001. Á skuldabréfunum segi, að hinn veðsetti sumarbústaður sé án lóðarleiguréttinda. Hann hafi hins vegar verið á árituðum útgáfudegi skuldabréfsins með full lóðarleiguréttindi. Þessi staða leiði líkum að því, að dagsetningin á umræddum veðskuldabréfum sé röng og til málamynda.
Krafa um greiðslu á kr. 4.474.452 byggi á því, að hin riftanlega ráðstöfun hafi komið stefnda að notum sem svari þessari fjárhæð. Eins samsvari þessi fjárhæð fjártjóni þrotabúsins, þar sem veðskuldabréfin hafi verið yfirtekin af kaupendum sumarhússins miðað við, að staða þeirra væri þessi tiltekna stefnufjárhæð. Fjárkrafan byggi á reglu 142. gr. 1. nr. 21/1991.
Varakrafa:
Krafa um riftun á veðrétti byggi á 2. málslið 1. mgr. 137 gr. l. nr. 21/1991, þar sem segi að rifta megi veðrétti, ef slíkum réttindum sé ekki þinglýst, eða þau séu ekki tryggð á annan hátt gegn fullnustugerðum án ástæðulauss dráttar, eftir að skuldin varð til og ekki fyrr en á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Skuldabréfin séu öll dagsett 15. febrúar 2001. Þeim hafi ekki verið þinglýst fyrr en 10. apríl 2001. Frestdagur sé 17. ágúst 2001. Þinglýsingin eigi sér því stað innan 6 mánaða fyrir frestdag. Raunar hafi réttarverndar gagnvart þriðja manni aldrei verið aflað, þar sem bréfunum hafi verið þinglýst á röngu varnarþingi eftir lögbundinn þriggja vikna frest, sbr. 47. og 48. gr. 1. nr. 39/1978, og sé sérstaklega á því byggt.
Ástæðulaus dráttur hafi orðið á þinglýsingunni, þar sem tveir mánuðir liðu frá dags. útgáfu bréfanna til þinglýsingardags, en þinglýsingalög geri ráð fyrir, að sjálfsvörsluveði í lausafé sé þinglýst innan þriggja vikna frá útgáfudegi. Efnislegum og formlegum riftunarskilyrðum 1. mgr. 137 gr. 1. nr. 21/1991 sé því fullnægt. Riftunarreglan sé hlutlæg og nægi að sýna fram á, að formleg skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins séu til staðar. Þá beri einnig að líta til þess, að öll umgjörð og frágangur þessa máls beri með sér, að um málamyndagerning sé að ræða.
Krafa um greiðslu á kr. 4.474.452 byggir á því, að hin riftanlega ráðstöfun hafi komið stefnda að notum sem svari þessari fjárhæð. Eins samsvarar þessi fjárhæð fjártjóni þrotabúsins, þar sem veðskuldabréfin hafi verið yfirtekin af kaupendum sumarhússins miðað við að staða þeirra væri þessi tiltekna stefnufjárhæð. Fjárkrafan byggi á reglu 142. gr. 1. nr. 21/1991.
Stefnandi vísar til ákvæða 131., 134., 137., 140., 141. og 142. gr. l. nr. 21/1991. Varðandi kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um varnarþing er vísað til 31. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um málskostnað er studd við 130. gr. sömu laga.
Málsástæður stefnda:
2.1. Sýknukrafa:
Stefndi kveður sameiginlegar málsástæður sínar gegn aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu stefnanda og kröfu sína um sýknu vera reistar á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, þ.e. sýknukrafa vegna aðildarskorts. Aðildarskorturinn eigi sér einkum rætur í tvennu.
2.1.1.
Það fyrra sé, að skiptastjóri stefnanda hafi selt sumarhús þann 25. marz 2002 og hafi þá verið kunnugt um skuldabréf stefnda, en hafi engum andmælum hreyft við þeim. Verði að telja, að með löggerningi hafi skiptastjóri bundið stefnanda gagnvart stefnda og glatað rétti sínum til þess að bera fram mótbárur gegn honum. Þessi löggerningur komi síðar til en útgáfa veðskuldabréfanna og þinglýsing þeirra. Stefnandi geti eðli málsins samkvæmt ekki verið aðili að máli gegn stefnda, eins og þetta mál sé úr garði gert, nema áðurnefndri sölu skiptastjóra yrði fyrst rift. Heimild til málshöfðunar eigi sér stoð í dskj. nr. 5, sem sé vægast sagt óljóst orðað og taki ekki á þeim atriðum, sem hér að framan hafi verið um fjallað.
2.1.2.
Með sama hætti eigi stefnandi enga aðild að því, hvort skuldabréf stefnda eigi eða hefðu átt réttarvernd gegn þriðja manni eða þriðju mönnum, sem ekki séu aðilar að málinu.
2.2.
Verði nú vikið að einstökum dómkröfum og málsástæðum stefnanda.
2.2.1. Aðalkrafa um riftun gjafar og fjárkrafa:
Kröfu sína reisi stefnandi á l. mgr. 131. gr. gjþl., sbr. 140. gr. sömu laga. Með vísan til dskj. nr. 32 hafi ekki verið um gjöf að ræða. Þurfi þá ekki frekar að huga að málsástæðum stefnanda undir aðalkröfu, 1. og 2. mgr. þar, bls. 3 í stefnu.
Hins vegar byggi stefnandi í stefnu í 3. mgr. sérstaklega á útgáfudagsetningu bréfanna og í 4. mgr. á sömu bls. víki stefnandi að 48. gr. l. nr. 39/1979. Þá sé í l. mgr. á bls. 4 rætt um þinglýsingarumdæmi og í 2. mgr. sömu bls. um tilgreiningu fastanúmers. Lögmaður stefnda skilji ekki samþættingu á þessum málsástæðum við málsástæður um riftun gjafar. Verði því á móti fram teflt, að hér um eigi stefnandi enga aðild, sbr. 2.1.1. og 2.1.2. Að öðru leyti sé vísað til varakröfu stefnda síðar.
2.2.2. Varakrafa stefnanda um riftun á veðrétti og fjárkrafa:
Þessum kröfum og málsástæðum sé mótmælt og auk þess vísað til þess, sem segi í 2.1.1. og 2.1.2. hér að framan. Ef veðrétti yrði rift, væri ekkert hald í veðskuldabréfum stefnda og tapaði hann þá þeim fjármunum, sem hann hafi varið til kaupa á veðskuldabréfunum og þyrfti að auki að greiða andvirðið. Niðurstaðan yrði stórlega ósanngjörn, svo að ekki sé meira sagt. Sjá og nánar í 3. hér á eftir.
2.3.4.
Þá sé ex tuto öllum málsástæðum stefnanda mótmælt og gerður áskilnaður um að mega rökstyðja þau mótmæli nánar við aðalmeðferð, ef til hennar komi.
3. Varakrafa:
Verði ekki fallizt á framangreindar málsástæður stefnda sé krafizt til vara lækkunar á dómkröfum. Vísað sé til þess, sem segi í 2.2.2. að ofan og einkum sé byggt á ákvæðum 145. gr. laga nr. 21/1991.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Aðalkrafa stefnanda lýtur að riftun á meintri gjöf fjögurra veðskuldabréfa og endurgreiðslu andvirðis þeirra.
Skiptastjóri þrotabúsins, Sigurður Georgsson hrl., gaf skýrslu fyrir dómi og enn fremur Jón Bjargmundsson byggingameistari, Hilmar Viktorsson viðskiptafræðingur og Eyvindur G. Gunnarsson lögfræðingur.
Stefndi, Sveinn, mætti ekki til skýrslugjafar, þrátt fyrir að það hefði verið boðað í fyrra þinghaldi, og bar lögmaður hans þau boð frá honum, að hann teldi sig ekki þurfa að mæta fyrir dómi, og myndi hann ekki gera það.
Það liggur fyrir, að Jón Bjargmundsson afhenti stefnda umdeild skuldabréf, og er kröfunni þannig réttilega beint að honum, en ekki er fallizt á, að þrotabúið hafi glatað rétti með því að selja sumarhúsið þann 25.03. 2002, þrátt fyrir að hafa vitað um skuldabréfin.
Af hálfu stefnanda er á því byggt, að um málamyndagerning hafi verið að ræða, þannig að þrotamaður hafi ekki fengið greiðslu fyrir bréfin, svo sem hann heldur fram, og verðmæti bréfanna hafi nýtzt stefnda á kostnað þrotabúsins. Stendur ágreiningur aðila um það.
Þrotamaður, Jón Bjargmundsson, bar fyrir dómi, að hann hafi selt bréfin, og hafi Hilmar Viktorsson viðskiptafræðingur séð um söluna fyrir hann. Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega, hver hefði keypt bréfin, hann héti sennilega Sveinn. Hann kvaðst hafa verið kominn í algera neyð og vantað peninga og hefði hann fengið greiddar kr. 2.700.000 í peningum fyrir bréfin, sem Hilmar Viktorsson hefði afhent honum. Peningarnir hefðu farið í að greiða ýmsar skuldir, sem hvíldu á heimilinu. Hann staðfesti, að kvittun fyrir greiðslu bréfanna, sem fyrst var lögð fram við aðalmeðferð málsins, væri rétt og kannaðist við nafnritun sína undir hana. Hann kvaðst telja, að hann hefði sjálfur greitt fyrir þinglýsingu bréfanna og látið einhvern, sem hann mundi ekki hver var, fá peningana, og sá hefði séð um þinglýsinguna. Hann kvað Hilmar Viktorsson vera kunningja sinn, en þeir hefðu spilað saman fótbolta fram eftir aldri. Auk þess að aðstoða hann við að finna kaupanda að bréfunum, hefði Hilmar aðstoðað hann við fjármál á þessum tíma, en hann hefði einnig fengið lögfræðing sér til aðstoðar.
Hilmar Viktorsson skýrði svo frá m.a., að hann væri systursonur kaupanda bréfanna, Sveins Steingrímssonar. Hann kvað Jón Bjargmundsson og Svein ekkert hafa þekkzt. Hann kvað tengsl sín og Jóns Bjargmundssonar ekki vera mikil, þeir hefðu spilað saman fótbolta í gamla daga, og Jón hefði leitað til hans með þessi bréf. Hann kvaðst hafa fyllt út kvittunina á dskj. nr. 36.
Í málsskjölum, sem lögð voru fram á fyrri stigum málsins, eru engin gögn, sem sýna fram á eða gera sennilegt, að greiðsla hafi komið fyrir hin umdeildu skuldabréf, svo sem færslur á bankareikningi þrotamanns, eða úttektir af bankareikningi stefnda. Kvittunin á dskj. nr. 36 var fyrst lögð fram við aðalmeðferð, og hefur stefnandi mótmælt henni sem rangri. Stefndi hefur neitað að koma fyrir dóm til skýrslugjafar, og var því ekki unnt að spyrja hann út í hin meintu viðskipti.
Því er haldið fram af hálfu stefnanda, að útgáfudagsetning skuldabréfanna sé röng, en bréfin eru dags. 15. febrúar 2001. Í texta bréfanna segir, að hinn veðsetti sumarbústaður sé án lóðarréttinda. Samkvæmt dskj. nr. 21, sem ber yfirskriftina “samningsslit”, er leigusamningur milli þrotamanns og Meistarafélags húsasmiða frá árinu 1990 fyrst ógiltur 28. marz 2001. Samkvæmt því voru lóðarréttindi enn fylgjandi bústaðnum á árituðum útgáfudegi bréfanna. Sama dag gerir Meistarafélag húsasmiða lóðarleigusamning við börn Jóns. Þremur dögum áður kaupa þau sumarbústaðinn af þrotabúinu án lóðarréttinda, en í þeim kaupsamningi/afsali segir, að kaupendur hafi gert leigusamning um lóðina við landeiganda. Skiptastjóri þrotabúsins skýrði svo frá, að hann teldi ólíklegt, að hann hefði sett það ákvæði inn í kaupsamninginn, nema það hefði legið fyrir við kaupin. Samkvæmt dagsetningu á lóðarsamningnum er hins vegar ljóst, að sá samningur getur ekki hafa legið fyrir við kaupin, og hlýtur yfirlýsingin því að vera byggð á fullyrðingum kaupendanna.
Skiptastjóri skýrði enn fremur svo frá, að hann hefði aldrei séð kvittunina á dskj. nr. 36 fyrr en í þinghaldinu, og kvaðst hann aldrei hafa talað við kaupanda bréfanna og aldrei hafa staðreynt, að stefndi hefði í raun greitt peninga til þrotabúsins.
Af framangreindu verður óhjákvæmilega ráðið, að líkur séu á, að dagsetning skuldabréfanna sé ekki rétt, þar sem lóðarsamningur var í gildi milli þrotamanns og Meistarafélags húsasmiða á þeim tíma samkvæmt gögnum málsins, sem ekki hafa verið hrakin. Rennir þetta stoðum undir þá fullyrðingu stefnanda, að skuldabréfin hafi verið málamyndagerningar. Þá hafa engin gögn komið fram í málinu sem styðja það eða gera líklegt, að greiðsla hafi í einhverri mynd komið fyrir skuldabréfin, fyrr en umrædd kvittun á dskj. nr. 36 var lögð fram við aðalmeðferð málsins. Hafa þannig hvorki verið lögð fram bankayfirlit þrotamanns, sem gætu staðfest það, né bankayfirlit stefnda, sem heldur því fram, að hann hafi greitt fyrir bréfin. Þá hefur stefndi neitað, þrátt fyrir áskoranir þar um, að mæta fyrir dóminum til skýrslugjafar. Vitnið Hilmar er náskyldur stefnda, og kunningi þrotamanns, auk þess sem hann hefur aðstoðað báða við fjármál þeirra, og verður að skoða framburð hans í ljósi þess. Þá verður ekki, gegn andmælum stefnanda, byggt á sönnunargildi umdeildrar kvittunar, enda verður að telja með ólíkindum, að kvittunin hafi ekki verið lögð fram fyrr, hafi hún verið til staðar, en málið var þingfest í október 2002, og hefur engin skýring verið gefin á því. Fyrir liggur, að bréfin voru afhent til þinglýsingar 10. apríl 2001, og því innan 6 mánaða fyrir frestdag. Þá er ósannað, að verðmæti bréfanna hafi ekki komið stefnda að notum, og ber stefndi hallann af þeim sönnunarskorti. Ber því, með vísan til 1. mgr. 131., sbr. 140. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, sbr. og 142. gr. s.l., að taka aðalkröfu stefnanda til greina, en haldbær rök hafa ekki verið höfð uppi gegn fjárhæð dómkröfunnar. Þá dæmast dráttarvextir eins og krafizt er, en sérstök andmæli hafa ekki komið fram gegn vaxtakröfu stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Rift er afhendingu Jóns Bjargmundssonar, kt. 050149-3829, til stefnda, Sveins B. Steingrímssonar, á fjórum veðskuldabréfum, hverju um sig að fjárhæð kr. 750.000, með útgáfudegi 15. febrúar 2001, hverju um sig til fjögurra ára, með gjalddaga á 6 mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. ágúst 2001, tryggðum samhliða hinum með l. veðrétti í sumarhúsi án lóðaréttinda á lóð nr. 35 í landi Kiðjabergs, fastanr. 220-7709, með þinglýsinganúmerum B367, B368, B369 og B370, innfærðum í lausafjárbók sýslumannsins á Selfossi.
Stefndi, Sveinn B. Steingrímsson, greiði stefnanda, þb. Jóns Bjargmundssonar, kr. 4.474.452, auk dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. marz 2002 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.