Hæstiréttur íslands
Mál nr. 171/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Málshöfðunarfrestur
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Föstudaginn 8. maí 2009. |
|
|
Nr. 171/2009. |
Lögfræðistofa Guðmundar B. Ólafssonar ehf. (Guðmundur Birgir Ólafsson hrl.) gegn Argos ehf. (Lára Valgerður Júlíusdóttir hrl.) |
|
Kærumál. Fjárnám. Málshöfðunarfrestur. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Kveðinn var upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. mars 2008, þar sem meðal annars var mælt fyrir um að húsfélagið Eyjarslóð 9 í Reykjavík skyldi greiða M 2.593.308 krónur með tilgreindum dráttarvöxtum. M framseldi kröfu sína samkvæmt dóminum til L sem sendi beiðni til sýslumanns um aðför. Í beiðninni var L tilgreindur sem gerðarbeiðandi, en húsfélagið Eyjarslóð 9 gerðarþoli. Þess var getið í beiðninni að gerðarbeiðandi styddi heimild sína til að krefjast aðfarar hjá gerðarþola við framangreindan dóm og vísað til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 og 54. gr. laga nr. 26/1994. Fulltrúi sýslumanns beindi skriflegri boðun vegna fjárnáms til húsfélagsins Eyjarslóð 9 og var boðunin birt fyrir manni sem sagður var gjaldkeri þess. Ekki var mætt við fyrirtöku gerðarinnar af hálfu gerðarþolans. Að ábendingu gerðarbeiðanda var gert fjárnám fyrir kröfu hans í eignarhluta A í fasteigninni. Í málinu leitaði A úrlausnar dómstóla um ógildingu þessa fjárnáms. Samkvæmt þessu var fjárnám gert í eign varnaraðila án þess að hann ætti aðild að gerðinni eða fullnægt væri til þess skilyrðum 1. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1989. A var því í stöðu þriðja manns í skilningi 1. mgr. 92. gr. sömu laga, en sem slíkur var hann háður frestum samkvæmt þeirri lagagrein til að geta eftir reglum 15. kafla þeirra leitað úrlausnar dómstóla um gildi fjárnámsins gagnvart sér. Þegar A lét verða af þeirri málaleitan var frestur til þess samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laganna löngu liðinn. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að heimildar til að fá leyst úr ágreiningi um gildi fjárnáms í tengslum við nauðungarsölu verði að neyta í dómsmáli, sem rekið sé eftir ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, en ekki í máli samkvæmt 15. kafla laga nr. 90/1989. Samkvæmt þessu var málinu vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 19. ágúst 2008 í eign varnaraðila fyrir kröfu sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað og honum gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðar úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins var í Héraðsdómi Reykjavíkur kveðinn upp dómur 12. mars 2008, þar sem meðal annars var mælt fyrir um að húsfélagið Eyjarslóð 9 í Reykjavík skyldi greiða Makron ehf. 2.593.308 krónur með dráttarvöxtum frá 27. september 2007 til greiðsludags, en málskostnaður var ekki dæmdur. Með yfirlýsingu 20. júní 2008 framseldi Makron ehf. kröfu sína samkvæmt dóminum til sóknaraðila, sem gerði 16. júlí sama ár beiðni til sýslumannsins í Reykjavík um aðför. Í beiðninni var sóknaraðili tilgreindur sem gerðarbeiðandi, en húsfélagið Eyjarslóð 9 gerðarþoli og þess getið að fyrirsvarsmaður hans væri „Stefán Örn Stefánsson, Eyjaslóð 9 (AKRON Arkitektar)“. Fram kom að leitað væri fjárnáms til tryggingar kröfu að höfuðstól 2.593.308 krónur ásamt áföllnum dráttarvöxtum, 520.462 krónum, og nánar tilgreindum kostnaði, 17.680 krónum, eða alls 3.131.450 krónur. Þess var getið að heimildarskjal væri dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í fyrrgreindu máli, en um málavexti, rök og heimildir sagði eftirfarandi: „Gerðarbeiðandi styður heimild sína til að krefjast aðfarar hjá gerðarþola við framangreint heimildarskjal sbr. 1. mgr. 1. gr. aðfaralaga nr. 90/1989 og 54. gr. laga 26/1994. En dómkrafa Makron ehf. var framseld gerðarbeiðanda þann 20. júní 2008. Krafa þessi byggir á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í héraðsdómsmálinu E/4085/2007 sem kveðinn var upp þann 12. mars 2008.“ Loks var tiltekið að lögð væri fram beiðni um aðför, dómur og framsal dómkröfu. Fulltrúi sýslumanns beindi 30. júlí 2008 skriflegri boðun vegna fjárnáms til húsfélagsins Eyjarslóð 9, sem afrit af beiðni sóknaraðila fylgdi, og var boðunin birt 8. ágúst sama ár fyrir nafngreindum manni, sem sagður var gjaldkeri viðtakanda hennar. Í samræmi við þessa boðun tók fulltrúinn gerðina fyrir 19. ágúst 2008 og var þar mættur fyrirsvarsmaður sóknaraðila, en ekki var mætt af hálfu gerðarþolans. Um framkvæmd gerðarinnar var að öðru leyti eftirfarandi fært í gerðabók: „Skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 er fullnægt til að gerðin fari fram, þótt ekki sé mætt fyrir gerðarþola. Að ábendingu gerðarbeiðanda, er hér með gert fjárnám fyrir kröfum gerðarbeiðanda í eignarhluta gerðarþola í fasteigninni Eyjaslóð 9, 224-9416, Rvk.“ Samkvæmt gögnum málsins var þessi eignarhluti í fasteigninni Eyjarslóð 9 þinglýst eign varnaraðila, sem með svokallaðri kæru leitaði 20. janúar 2009 úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um ógildingu þessa fjárnáms. Við þeirri kröfu var orðið með hinum kærða úrskurði.
Með fjárnáminu, sem mál þetta varðar, leitaði sóknaraðili fullnustu á dómi, sem lagði skyldu á húsfélagið Eyjarslóð 9, og því til samræmis beindist beiðni hans að þeim lögaðila sem gerðarþola. Þótt sóknaraðili hefði að gættum niðurlagsorðum 2. mgr. 3. gr., sbr. síðari málslið 1. mgr. 7. gr. og 4. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/1989, einnig mátt freista þess að neyta heimildar samkvæmt 3. mgr. 54. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús til að beita dómi á hendur húsfélagi sem aðfararheimild gagnvart eiganda afmarkaðs hluta slíks húss sem gerðarþola, var sú leið ekki farin hér, heldur var fjárnám gert í eign varnaraðila án þess að hann ætti aðild að gerðinni eða fullnægt væri til þess skilyrðum 1. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1989. Varnaraðili var því í stöðu þriðja manns í skilningi 1. mgr. 92. gr. sömu laga, en sem slíkur var hann háður frestum samkvæmt þeirri lagagrein til að geta eftir reglum 15. kafla þeirra leitað úrlausnar dómstóla um gildi fjárnámsins gagnvart sér. Þegar varnaraðili lét verða af þeirri málaleitan 20. janúar 2009 var frestur til þess samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laganna löngu liðinn og var hvorki svo ástatt að bæði gerðarbeiðandi og gerðarþoli við fjárnámið hafi lýst sig sátta við að málið yrði allt að einu rekið á þennan hátt fyrir dómi né bar varnaraðili fyrir sig að afsakanlegt væri að það hafi ekki verið lagt fyrir dóm í tæka tíð, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Heimildar, sem einnig greinir þar, til að fá leyst úr ágreiningi um gildi fjárnáms í tengslum við nauðungarsölu verður að neyta í dómsmáli, sem rekið er eftir ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, en ekki í máli samkvæmt 15. kafla laga nr. 90/1989. Samkvæmt þessu er óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Ekki eru efni til annars en að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2009.
Mál þetta, sem barst dóminum með bréfi mótteknu 20. janúar 2009, var þingfest 6. febrúar sama ár og tekið til úrskurðar 5. mars sl.
Sóknaraðili, Argos ehf., kt. 500591-2189 með lögheimili að Eyjarslóð 9, Reykjavík, fyrirsvarsmaður Stefán Örn Stefánsson, kt. 140147-4519, til heimilis að Öldugötu 30, Reykjavík, gerir þær dómkröfur að fjárnám sem gert var þann 19. ágúst 2008 í aðfarargerð nr. 011-2008-10131 verði fellt úr gildi. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili, Lögfræðistofa Guðmundar B. Ólafssonar ehf., krefst þess að dómkröfum sóknaraðila verði hrundið.
Þá er þess krafist að nauðungarsala sem fyrirhuguð er dags. 5. mars 2009 samkvæmt beiðni um nauðungarsölu, dags. 29. október 2008, verði látin ná fram að ganga.
Loks krefst varnaraðili málskostnaðar.
I
Í bréfi sóknaraðila til dómsins kemur fram að hann kæri fjárnám sem gert var að kröfu varnaraðila, Lögfræðistofu Guðmundar B. Ólafssonar ehf., þann 19. ágúst 2008 hjá embætti Sýslumannsins í Reykjavík í aðfararmálinu 011-2008-10131. Kært sé samkvæmt heimild í 2. mgr. 92. gr. laga um aðför nr. 90/1989.
Með aðfararbeiðni móttekinni hjá Sýslumanninum í Reykjavík 16. júlí 2008 krafðist varnaraðili þess að fjárnám yrði gert hjá Húsfélaginu Eyjarslóð 9, Reykjavík. Fram kemur í aðfararbeiðninni að fyrirsvarsmaður félagsins sé Stefán Örn Stefánsson, Eyjarslóð 9 (AKRON Arkitektar).
Í aðfararbeiðninni kemur fram að gerðarbeiðandi styðji heimild sína til að krefjast aðfarar við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-4085/20007, sbr. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 og 54. gr. laga nr. 26/1994. En dómkrafan hafi verið framseld gerðarbeiðanda þann 20. júní 2008.
Samkvæmt endurriti fjárnámsgerðarinnar er gerðarþoli Húsfélagið Eyjarslóð 9, mhl. 02, Eyjarslóð 9, 101 Reykjavík, kt. 440302-3860.
Í endurriti úr gerðarbók Sýslumannsins í Reykjavík segir: Fyrir gerðarbeiðanda mætir Guðmundur B. Ólafsson hrl. Ekki er mætt fyrir hönd gerðarþola. Skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 er fullnægt til að gerðin fari fram, þótt ekki sé mætt fyrir gerðarþola. Að ábendingu gerðarbeiðanda, er hér með gert fjárnám fyrir kröfum gerðarbeiðanda í eignarhluta gerðarþola í fasteigninni Eyjarslóð 9, 224-9416, Rvk.
Fasteignin Eyjarslóð 9, 224-9416 er þinglesin eign sóknaraðila, Argos ehf.
II
Í kæru sóknaraðila kemur fram að með bréfi dagsettu 5. janúar 2009 hafi Sýslumaðurinn í Reykjavík tilkynnt sóknaraðila að embættinu hafi borist beiðni um nauðungarsölu á eigninni Eyjarslóð 9, 224-9416, Reykjavík, þinglýstri eign sóknaraðila. Jafnframt hafi verið tilkynnt að beiðnin verði tekin fyrir á skrifstofu embættisins þann 5. mars 2009 að undangenginni auglýsingu sem send verði til birtingar í Lögbirtingarblaði þann 22. janúar 2009.
Í beiðni varnaraðila til Sýslumannsins í Reykjavík um nauðungarsölu segi: „Gerðarþoli er einn eigenda að húseigninni Eyjarslóð 9, Reykjavík. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var húsfélagið að Eyjarslóð 9, Reykjavík, dæmt til að greiða Makron ehf., kr. 2.593.308 auk vaxta vegna þakviðgerðar. Makron framseldi síðan kröfuna til Lögfræðistofu Guðmundar B. Ólafssonar ehf. Húsfélagið stóð ekki við skuldbindingar sínar og gerði gerðarbeiðandi fjárnám í húseign gerðarþola til tryggingar skuld húsfélagsins.“
Meðfylgjandi beiðni varnaraðila um nauðungarsölu hafi verið endurrit úr gerðabók Sýslumannsins í Reykjavík frá 19. ágúst 2008 vegna aðfarargerðar 011-2008-10131 og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-4085/2007.
Skilyrðum 2. mgr. 92. gr. laga um aðför nr. 90/1989 sé fullnægt en samkvæmt því ákvæði er heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdóms um aðfarargerð eftir að liðnar eru átta vikur frá því aðfarargerð var lokið, ef krafa hefur komið fram af gerðarbeiðanda um nauðungarsölu eignar sem tekin hefur verið fjárnámi.
Kröfu sinni til stuðnings vísar sóknaraðili til þess að í aðfararbeiðni varnaraðila segi að gerðarbeiðandi styðji heimild sína til að krefjast aðfarar hjá gerðarþola við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4085/2007, sbr. 1. mgr. 1 gr. aðfararlaga nr. 90/1989 og 54. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Gerðarþoli sé sagður vera húsfélagið Eyjaslóð 9 og fyrirsvarsmaður er sagður vera Stefán Örn Stefánsson fyrir Akron arkitekta.
Í ofangreindum dómi hafði húsfélagið Eyjaslóð 9, Argos hf., Flugur listafélag ehf., Pótemkin hönnun ehf., Ímynd ehf. og Einar Sturla Möinichen stefnt Makroni ehf. fyrir dóm til riftunar á verksamningi um viðgerð á þaki Eyjaslóðar 9. Stefndi, Makron ehf., hafi gagnstefnt húsfélaginu Eyjaslóð 9 til greiðslu bóta vegna riftunar á verksamningnum og reikninga. Niðurstaða dómsins hafi verið sú að staðfest var riftun verksamningsins og ennfremur dæmt að húsfélagið Eyjaslóð 9 skyldi greiða Makroni ehf. kr. 2.593.308 auk vaxta.
Í 54. gr. laga um fjöleignarhús segi í 1. mgr. að ábyrgð eigenda út á við gagnvart kröfuhöfum húsfélags á sameiginlegum skyldum og skuldbindingum sé solidarisk. Í 2. mgr. ákvæðisins segi að ábyrgð eigenda sé einnig bein en þó skuli kröfuhafi, áður en hann beini kröfu sinni að einstökum eiganda, fyrst reyna að fá hana greidda af húsfélaginu. Fáist ekki, þrátt fyrir innheimtutilraunir, greiðsla frá því innan 30 daga frá því að þær hófust geti kröfuhafi leitað fullnustu fyrir allri kröfunni hjá eigendum, einum eða fleirum. Í 3. mgr. ákvæðisins segi að dómur á hendur húsfélagi sé aðfararhæfur gagnvart einstökum eigendum ef þeir hafi átt þess kost að gæta réttar síns og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við rekstur dómsmálsins.
Í dómi í málinu nr. E-4085/2007, sem lagður sé til grundvallar fjárnáminu, komi fram að Makron ehf. hafi höfðað sjálfstætt mál, nr. E-6384/2007, á hendur húsfélaginu Eyjarslóð til greiðslu bóta vegna riftunar og reikninga. Í þinghaldi í því máli hafi Makron ehf. óskað eftir að það mál yrði sameinað máli nr. E-4085/2007 og hafi dómari orðið við þeirri ósk með vísan til b-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991. Kröfunni hafi því ekki verið beint gegn sóknaraðila og því geti dómur á hendur húsfélaginu Eyjarslóð 9 ekki verið aðfararhæfur gagnvart sóknaraðila, sbr. ákvæði 3. mgr. 54.gr. laga nr. 26/1994. Þegar af þeirri ástæðu beri að fella niður hið kærða fjárnám. Þá komi hvergi fram í gögnum sem lögð hafi verið fyrir embætti Sýslumannsins í Reykjavík að reynt hafi verið að innheimta kröfuna hjá Húsfélaginu Eyjarslóð 9, eftir að dómur féll.
Dómur í máli nr. E-4085/2007 hafi fallið þann 12. mars 2008. Í málinu hafi verið gerð krafa um greiðslu skaðabóta úr hendi Makron ehf. en kröfunni verið vísað frá dómi. Í kjölfarið, eða þann 11. apríl 2008, hafi verið send beiðni um dómkvaðningu matsmanns til Héraðsdóms Reykjavíkur til að meta fjárhagslegt tjón eigenda fasteignarinnar nr. 9 við Eyjarslóð vegna vanefnda Makrons ehf. Matsgerð liggi nú fyrir en hún sé dagsett þann 17. nóvember 2008. Fjárnámið sem kært sé hafi verið gert á meðan beðið var niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns.
Krafan um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Varðandi varnarþing er vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991.
III
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að á grundvelli dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4085/2007 hafi verið gert fjárnám í eignarhluta Argos ehf. í fasteigninni Eyjarslóð 9, vegna skuldar húsfélagsins, á grundvelli 3. mgr. 54. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.
Við rekstur dómsmálsins hafi allir húseigendur og aðilar húsfélagsins komið fyrir dóm og gefið aðilaskýrslu. Öllum eigendum hafi því verið kunnugt um málið og kröfur á hendur húsfélaginu. Stefán Örn Stefánsson, forsvarsmaður Argos ehf., hafi í tvígang mætt við fyrirtöku málsins í héraðsdómi sem forsvarsmaður húsfélagsins. Stefán Örn hafi meðal annars gefið skýrslu fyrir dómi.
Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 sé ábyrgð eigenda gagnvart kröfuhöfum húsfélagsins á sameiginlegum skyldum og skuldbindingum persónuleg og séu allir eigendur ábyrgir einn fyrir alla og allir fyrir einn.
Í 3. mgr. 54. gr. laga nr. 26/1994 komi skýrt fram að dómur á hendur húsfélagi sé aðfararhæfur gagnvart einstökum eigendum. Skilyrði það er fram komi í framangreindu ákvæði sé að eigandi sá er aðför beinist gegn hafi átt þess kost að gæta réttar síns og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við rekstur dómsmálsins.
Með vísan til framangreinds verði að hafna alfarið málsástæðum sóknaraðila. Aðför hafi verið beint gegn forsvarsmanni húsfélagsins sem hafi verið fullkunnugt um málið og hafði tjáð sig um málið í skýrslutöku fyrir dómi. Við meðferð málsins hjá sýslumanni hafi ekki verið komið að neinum andmælum við gerðina sem gerðarþoli hafi sannarlega átt kost á. Samkvæmt 3. mgr. 54. gr. laga nr. 26/1994 sé beinlínis gert ráð fyrir að unnt sé að fara í aðför gagnvart sérhverjum aðila húsfélagsins sem er kunnugt um málsóknina og sé aðförin því fyllilega lögmæt.
IV.
Fyrir liggur að hið umdeilda fjárnám var gert hjá sóknaraðila á grundvelli dóms í málinu E-4085/2007: Húsfélagið Eyjarslóð 9, Argos ehf., Flugur listafélag ehf., Pótemkin hönnun ehf., Ímynd ehf. og Einar Sturla Möinichen gegn Makron ehf. og Makron ehf. gegn húsfélaginu Eyjarslóð 9, en með dóminum var m.a. aðalstefnandi, Húsfélagið Eyjarslóð 9, dæmt til að greiða gagnstefnanda, Makron ehf., 2.593.308 krónur.
Málið var upphaflega höfðað af Húsfélaginu Eyjarslóð 9 o.fl. gegn Makron ehf. Gerði stefnandi þær dómkröfur að staðfest verði riftun á verksamningi aðila um viðgerð á þaki Eyjarslóðar 9. Jafnframt var krafist skaðabóta að fjárhæð 5.125.617 kr.
Hinn 26. september höfðaði Makron ehf., sjálfstætt mál gegn húsfélaginu Eyjarslóð 9, mál nr. E-6384/2007, til greiðslu bóta vegna riftunar á verksamningi aðila og reikningum. Stefndi, Húsfélagið Eyjarslóð 9, krafðist aðallega sýknu af öllum kröfum Makrons ehf. en til vara skuldajafnaðar á 1.669.662 kr. og til þrautavara á 4.717.106 kr. gegn framangreindri skaðabótakröfu að fjárhæð 5.125.617 kr.
Í þinghaldi 12. nóvember 2007 varð dómari við ósk Makron ehf. að málið nr. E-6384/2007 yrði sameinað málinu nr. E-4085/2007.
Í 3. mgr. 54. gr. laga nr. 26/1994 er kveðið á um það að dómur á hendur húsfélagi sé aðfararhæfur gagnvart einstökum eigendum ef þeir hafi átt þess kost að gæta réttar síns og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við rekstur dómsmálsins.
Krafa sú sem fjárnámið fór fram vegna, þ.e. 2.593.308 kr., er sú fjárhæð sem gagnstefndi, Húsfélagið Eyjarslóð 9, var dæmdur til að greiða gagnstefnanda Makron ehf. í málinu nr. E-4085/2007. Kröfum í gagnsök var ekki beint að sóknaraðila heldur einungis Húsfélaginu Eyjarslóð 9. Gátu ekki aðrir en aðilar gagnsakarinnar haft uppi kröfur um það sakarefni enda forræði þess alfarið á þeirra hendi. Verður því ekki fallist á það með varnaraðila að sóknaraðili, Argos hf., sem var einn af aðalstefnendum málsins, hafi átt þess kost að gæta réttar síns varðandi þá kröfu og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við rekstur málsins.
Samkvæmt því er það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 3. mgr. 54. gr. laga nr. 26/1994 til að gera fjárnám fyrir dómkröfunni hjá sóknaraðila, sem einum af eigendum fasteignarinnar Eyjarslóð 9.
Verður því tekin til greina krafa sóknaraðila um að hið umþrætta fjárnám verði fellt úr gildi.
Eftir niðurstöðu málsins verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila 100.000 krónur í málskostnað.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Fjárnámsgerð Sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2008-10131, sem fram fór þann 19. ágúst 2008, er felld úr gildi.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 100.000 krónur í málskostnað.