Hæstiréttur íslands

Mál nr. 554/2009


Lykilorð

  • Fasteign
  • Hefð


Fimmtudaginn 30. september 2010.

Nr. 554/2009.

Hofstorfan slf.

(Othar Örn Peterssen hrl.)

gegn

dánarbúi Guðbjargar Pálsdóttur,

Guðrúnu Pálsdóttur,

Sigrid Bjarnason og

Önnu Pálu Guðmundsdóttur

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

Fasteign. Hefð.

H, eigandi jarðarinnar Hofs, annars vegar og D, GP, SB og APG hins vegar, deildu um eignarland á landspildu í merkjum jarðarinnar Hofs. Eldri deila eigenda jarðanna Hofs og Þrastarstaða um sömu landspildu var leyst með landamerkjadómi Skagafjarðarsýslu 2. október 1920 en við svo búið afsalaði eigandi Hofs landspildunni úr jörðinni til eiganda Þrastastaða. Hvorki var fallist á að H teldist þinglýstur eigandi spildunnar á þeim grundvelli að heimildaskjöl vísuðu til landamerkjalýsingar sem þinglýst var 1882, né að ráðstöfun spildunnar hefði gengið til baka. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að H hefði ekki sýnt fram á að skurður í merkjum landspildunnar hefði verið grafinn til að koma á umráðum hennar og að girðingar spildunnar hefðu lengst af ekki verið fjárheldar. Að þessu virtu og þegar í heild væru metin þau not sem H, og þeir sem það leiddi rétt sinn frá, hefðu haft af landspildunni var ekki talið að H hefði tekist sönnun um óslitið eignarhald þess á landspildunni í 20 ár  í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Var héraðsdómur því staðfestur með vísan til forsendna hans og eignarréttur D, GP, SB og APG að landspildunni staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson og Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. október 2009. Hann krefst þess að viðurkenndur verði eignarréttur hans á landspildu sem afmörkuð er í afsali sem þinglesið var á manntalsþingi á Hofsósi 20. júní 1922 og ber þinglýsingarnúmerið 4824 og landnúmerið 214232. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í þessu máli er ekki til úrlausnar hvernig afmarka beri hið umþrætta land í merkjum jarðarinnar Hofs. Hér verður einvörðungu skorið úr um hverjum beri eignarréttur að því landi sem lýst er í kröfugerð áfrýjanda.

Af gögnum málsins verður ráðið að deila hafi verið á milli eigenda jarðanna Hofs og Þrastarstaða á Höfðaströnd um landamerki jarðanna. Úr ágreiningnum var leyst í landamerkjadómi Skagafjarðarsýslu 2. október 1920. Í framhaldi af niðurstöðu málsins keypti Páll Erlendsson, eigandi Þrastarstaða, landspildu úr jörðinni Hofi af Jóni Jónssyni. Í afsali 18. júní 1922 kemur fram að Jón afsalaði landspildu til Páls úr landi Hofs er takmarkaðist „ ... að norðan af Urriðalæk, að vestan af sýsluveginum að austan af Kýlalæk, að sunnan af beinni áframhaldslínu er sker sundur þrætulandið í flóanum milli Hofs og Þrastarstaða eins og getið er um í kaupsamningi dags. 19. ágúst 1921 á kr. 1.250,00“. Afsalið var fært í þinglýsingabók á blað Hofs með svofelldum hætti: „Landsspilda seld Páli Erlendss (undir Þrastastaði)“. „Sama landsspilda leyst úr veðböndum“. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var afsalsins ekki getið á blaði Þrastarstaða í þinglýsingabók og því var landspildan ekki seld með Þrastarstöðum þegar jörðin var seld á uppboði árið 1939. Skiptayfirlýsingu erfingja Páls um að spildan væri eign þeirra í jöfnum hlutföllum var þinglýst 29. febrúar 2008 og var spildan þá færð sem sérgreind eign. Með úrskurði héraðsdóms 11. júlí 2008 var hafnað kröfu áfrýjanda um að spildan yrði afmáð úr þinglýsingabók og bókinni breytt til þess horfs sem hún var í fyrir hina kærðu úrlausn. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 18. september 2008 í máli nr. 468/2008.

II

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hvorki fallist á með áfrýjanda að hann teljist þinglýstur eigandi spildunnar á þeim grundvelli að heimildarskjöl vísi í landamerkjalýsinguna sem þinglýst var 1882 né að ráðstöfun spildunnar hafi gengið til baka þannig að hann teljist eigandi hennar.

Áfrýjandi byggir kröfu sína á því til vara að áfrýjandi og fyrri eigendur jarðarinnar Hofs á Höfðaströnd hafi eignast landspilduna fyrir hefð. Því til sönnunar að áfrýjandi, og þeir sem hann leiðir rétt sinn frá, hafi haft óslitið eignarhald á landspildunni fullan hefðartíma, bendir áfrýjandi á að landspildan hafi í tvígang fylgt með við sölu á jörðinni Hofi, annars vegar 1981 og hins vegar 2003, auk þess sem jörðin hafi verið veðsett þannig að tæki einnig til landspildunnar. Þá hafi hún verið afmörkuð sem hluti af Hofi með girðingum og skurði. Hafi eigendur Hofs beitt hestum og nautgripum á umrædda landspildu. Þeir hafi einnig sáð lúpínu í hluta spildunnar. Þá hafi hún verið nýtt til torfristu í sex til sjö sumur. Ennfremur hafi eigendur Hofs nýtt námu sem er á landspildunni og haft af henni tekjur. Loks hafi áfrýjandi gert samning við Skagafjarðarveitur ehf. vegna heitavatnslagnar sem liggur um jörðina og sýni þetta umráð áfrýjanda yfir landspildunni.

Af hálfu stefndu er þessari málsástæðu áfrýjanda vísað á bug og því meðal annars haldið fram að áfrýjandi hafi ekki haft umráð eignarinnar í skilningi 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905. Í þessu sambandi er á því byggt að þar sem stefndu, og sá sem þau leiða rétti sinn frá, hafi ávallt haft þinglýsta eignarheimild fyrir landspildunni verði að gera strangar kröfur um eignarhald áfrýjanda.

Fyrir héraðsdómi gáfu vitni skýrslur um umráð og landnot á hinni umþrættu landspildu. Í skýrslu Dagmarar Ásdísar Þorvaldsdóttur, eiganda Þrastarstaða, kom fram að engar hömlur hefðu verið á því hvaða skepnur gátu farið inn á landið þangað til það var girt. Í skýrslu Sigurðar Steingrímssonar, ábúanda að Hofi 1972 til 1977, kom fram að hann hefði sett upp girðingu meðfram þjóðveginum, sennilega á árinu 1973, ásamt Lúðvíki Bjarnasyni og hefði Vegagerðin staðið straum af kostnaði. Í skýrslu Dagmarar Ásdísar kom einnig fram að girðingarnar hefðu ekki verið fjárheldar í langan tíma og hefði ástand þeirra lengi verið slæmt. Í meginatriðum staðfesti Þorvaldur Þórhallsson, fyrrum eigandi Þrastarstaða, þessa frásögn um ástand girðinganna í skýrslu sinni. Í skýrslu Jóhanns Friðgeirssonar, eiganda Hofs frá 1981 til 2002, kom fram að girðingarnar hefðu verið í niðurníðslu þegar hann keypti jörðina Hof 1981 og hefði hann síðar gert við þær. Girðingarnar hefðu ekki verið fjárheldar þannig að fé frá nágrannabæjum hans hefði í sjálfu sér haft aðgang að landspildunni. Eiginkona hans Elsa Stefánsdóttir, eigandi Hofs frá 1981 til 2002, skýrði frá á sömu lund. Við smölun hefði komið í ljós að fé var þar frá Þrastarstöðum, Engihlíð á meðan þar var fé, Vogum og jafnvel utan frá Bæ og Mýrarkoti. Dagmar Ásdís bar í skýrslu sinni að fé frá Þrastarstöðum hefði leitað niður á landspilduna.

Í skýrslu sinni bar Dagmar Ásdís að skurður sá sem áfrýjandi telur varða merki Hofs og Þrastarstaða sé ekki merkjaskurður heldur hafi hann verið grafinn í því skyni að ræsa fram land í Engihlíð, næsta bæ sunnan við Þrastarstaði. Skýrsla Þorvaldar var á sama veg. Í skýrslu Egils Bjarnasonar, fyrrverandi ráðunautar, sem mældi út fyrir skurðinum, kom einnig fram að skurðurinn hefði ekki verið merkjaskurður á milli Hofs og Þrastarstaða. Áréttaði hann að lega skurðarins hefði ráðist af landfræðilegum aðstæðum. 

Axel Þorsteinsson, bóndi á Litlu-Brekku frá 1953 til 1978, bar að á þeim árum hefði nánast engin nýting verið á landspildunni, einhver hrossabeit hefði þó verið frá Hofi. Sigurður Steingrímsson bar að landspildan hefði ekki verið notuð. Í skýrslu Jóhanns Friðgeirssonar kom fram að þar sem girðingin hefði ekki verið fjárheld hefði hann ekki nýtt landspilduna til fjárbeitar heldur eingöngu fyrir hross. Það hefði hann hins vegar að jafnaði ekki gert árið um kring heldur aðallega á vorin og nokkur haust þegar byrjað var að gefa hrossum úti. Aðspurður taldi hann að beit á svæðinu hefði ekki verið fullnýtt.

Jóhann Friðgeirsson kveðst hafa sáð lúpínu í þrjá hektara af landspildunni með fram girðingu upp með afleggjaranum í Þrastarstaði, heimreiðinni að Þrastarstöðum og út með girðingunni fram með Siglufjarðarvegi á árinu 1997. Í skýrslu Þorvaldar Þórhallssonar kom aftur á móti fram að sáð hefði verið í landsvæði sunnan hins umþrætta lands og hefði lúpínan síðan dreift sér nokkuð norður fyrir mörk þess. Dagmar Ásdís bar í meginatriðum á sömu leið.

Þá báru Þorvaldur og Dagmar Ásdís að torfrista hefði ekki farið fram á hinu umþrætta landi heldur í Illholti í landi Þrastarstaða. Á sama veg bar Axel Þorsteinsson sem kvaðst hafa unnið að torfristunni.

Jóhann Friðgeirsson kvaðst hafa selt efni úr malarnámu á landspildunni til Vegagerðarinnar þegar Siglufjarðarvegur var byggður upp. Gísli Felixson, sem vann hjá Vegagerðinni frá 1960 til 1998, bar að leitað hefði verið leyfis hjá eiganda Hofs þegar sótt hefði verið efni í malarnámuna. Efnið hefði verið notað í næsta nágrenni og því sjálfsagt ekki farið í hana á hverju ári. Meðal gagna málsins er aðeins ein greiðslukvittun 17. nóvember 1998 fyrir kaupum Vegagerðarinnar á möl frá Jóhanni Friðgeirssyni.

Ekki verður talið að leitt hafi verið í ljós af hálfu áfrýjanda að sá skurður, sem hann vísar til, hafi verið grafinn til að koma á umráðum hins umþrætta lands. Þá verður ráðið að girðingar spildunnar hafi lengst af ekki verið fjárheldar og að fé frá öðrum bæjum leitaði þangað, þannig að aðrir voru ekki útilokaðir frá ákveðnum nytjum að svæðinu. Að þessu virtu og þegar í heild eru metin þau not sem áfrýjandi, og þeir sem hann leiðir rétt sinn frá, höfðu af hinni umþrættu landspildu verður ekki talið að honum hafi tekist sönnun um það að hann hafi haft óslitið eignarhald á landspildunni í 20 ár í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi skal greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hofstorfan slf., greiði stefndu, dánarbúi Guðbjargar Pálsdóttur,  Guðrúnu Pálsdóttur, Sigrid Bjarnason og Önnu Pálu Guðmundsdóttur, samtals  500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 6. júlí 2009.

Mál þetta, sem var dómtekið 5. mars sl. en endurupptekið og dómtekið á ný 30. júní sl., er höfðað 27. ágúst 2008. Stefnandi er Hofstorfan slf., kt. 410703-3940, Miðstræti 7, Reykjavík. Stefndu eru db. Guðbjargar Pálsdóttur, kt. 020618-3539, en Guðbjörg var síðast til heimilis að Hjallaseli 55, Reykjavík, Guðrún Pálsdóttir, kt. 140837-2299, Sóleyjarrima 21, Reykjavík, Sigrid Bjarnason, kt. 010723-2489, Holtsbúð 87, Garðabæ, og Anna Pála Guðmundsdóttir, kt. 020923-2299, Sauðármýri 3, Sauðárkróki.

Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði eignarréttur sinn á landspildu, sem afmörkuð er í afsali sem þinglesið var á manntalsþingi á Hofsósi hinn 20. júní 1922 og ber þinglýsingarnúmerið 4824, skráð í Landsskrá fasteigna sem Hof land 214232, Skagafirði. Nánar tiltekið sé landspildan afmörkuð þannig í nefndu afsali:

„...landspildu af landi eignarjarðar minnar Hofi, er takmarkast að norðan af Urriðalæk, að vestan af sýsluveginum, að austan af Kýlalæk, að sunnan af beinni áframhaldslínu er sker sundur þrætulandið í flóanum milli Hofs og Þrastarstaða eins ...“

Þá er krafist málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndu krefjast þess að öllum kröfum stefnanda verði hafnað og málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Hinn 15. janúar 2009 úrskurðaði dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands vestra sig vanhæfan til að fara með málið. Dómstólaráð fól síðan undirrituðum dómara meðferð þess.

I.

Hinn 2. október 1920 gekk dómur í landamerkjadómi Skagafjarðarsýslu um landamerki milli eigenda jarðanna Hofs og Þrastarstaða á Höfðaströnd. Var þá dæmt að merkin skyldu vera frá merkjavörðu við enda merkigarðs milli Þrastarstaða og Litlu-Brekku, þar sem garðurinn endaði við Kílalæk. Síðan réði Kílalækur merkjunum allt að annarri merkjavörðu við sama læk hjá þúfu þeirri sem nú væri nefnd Grænuþúfa.

Hinn 18. júní 1922 gaf þáverandi eigandi Hofs, Jón Jónsson, út afsal til Páls Erlendssonar á Þrastarstöðum, þar sem hann afsalaði landspildu af landi Hofs, er takmarkaðist „...að norðan af Urriðalæk, að vestan af sýsluveginum, að austan af Kýlalæk, að sunnan af beinni áframhaldslínu er sker sundur þrætulandið í flóanum milli Hofs og Þrastarstaða eins og getið er um í kaupsamningi dags. 19. ágúst 1921 á kr. 1.250.“  Tekið er fram að kaupverð sé greitt.

Þetta afsal var fært í þinglýsingabók á blað Hofs, þannig: „Landsspilda seld Páli Erlendss (undir Þrastastaði).“ „Sama landsspilda leyst úr veðböndum.“ 

Afsalsins var ekki getið á blaði Þrastarstaða í þinglýsingabók. Árið 1939 eignaðist Ræktunarsjóður Íslands Þrastarstaði á uppboði, en seldi þá árið 1941 til Friðbjörns Jónssonar, sem sama ár seldi þá Jarðakaupasjóði ríkisins. Var þá tekið fram að jörðin væri seld með landamerkjum milli Hofs og Þrastarstaða eins og þau voru þinglesin 19. maí 1882.

Ekki liggur fyrir að Páll heitinn Erlendsson, sem lést árið 1966, hafi gert tilkall til spildunnar sem hann keypti af Jóni sem afmarkaðrar eignar eða leitast við það með einhverjum hætti að halda til haga réttindum sínum til hennar samkvæmt afsalinu og hennar var ekki að neinu getið er erfingjar skiptu árið 1991 óskiptu dánarbúi hans og ekkju hans. Með bréfi 3. október 2007 fóru erfingjarnir þess á leit við sýslumanninn á Sauðárkróki að hann hlutaðist til um að spildan yrði sérgreind í Landsskrá fasteigna. Sýslumaður féllst á það erindi og með ákvörðun þann 30. janúar 2008 tilkynnti hann að Fasteignamat ríkisins hefði skráð spilduna og á hana hefði verið þinglýst afsali Jóns Jónssonar til Páls Erlendssonar, svo og veðbandslausn. Hinn 29. febrúar 2008 var þinglýst skiptayfirlýsingu erfingja Páls, þar sem fram kemur að spildan sé eign þeirra í jöfnum hlutföllum.

Stefnandi kærði ákvörðun sýslumanns til héraðsdóms. Með úrskurði upp kveðnum 11. júlí 2008 var hafnað kröfu stefnanda um að spildan „Hof land 214232, Skaga­firði“ yrði afmáð úr þinglýsingabók og bókinni breytt til þess horfs sem hún var í fyrir hina kærðu úrlausn. Í úrskurðinum, sem staðfestur var með vísan til forsendna með dómi Hæstaréttar Íslands upp kveðnum 18. september 2008 í máli nr. 468/2008, segir að álíta verði að spildan hafi árið 1922 orðið að sjálfstæðri eign og að ekki hafi legið fyrir sýslumanni nein haldbær gögn um að það hefði breyst síðan.

Í stefnu er tekið fram að málið sé höfðað áður en nefndur hæstaréttardómur gekk, til að rjúfa óumdeilanlega 6 mánaða frest samkvæmt 4. gr. laga nr. 46/1905.

II.

Stefnandi fékk afsal fyrir Hof á Höfðaströnd 22. júlí 2003. Var þar tekið fram að eldra afsal seljanda hafi legið frammi við kaupsamningsgerð auk handskrifaðrar landa­merkja­lýsingar til glöggvunar fyrir kaupendur á fasteigninni og landamerkjum hennar. Í nefndu eldra afsali, sem er dagsett 21. desember 1982, frá börnum Jóns Jónssonar til Jóhanns Þ. Friðgeirssonar og Elsu Stefánsdóttur kemur fram að landamerki jarðarinnar séu eins og verið hafi samkvæmt landamerkjabréfi frá 1662, sem hafi verið þinglesið 18. maí 1882. Kveður stefnandi merkjalýsingu samkvæmt lögfestu frá 1882 því hafa verið grundvöll landamerkja við kaupin. Taki afsal stefnanda þannig til spildunnar sem deilt er um í þessu máli. Hafi hann verið í góðri trú um að landamerkin væru rétt, enda séu þetta þau merki sem kveðið sé á um í Landamerkjabók Skagafjarðarsýslu. Þá kveðst stefnandi byggja á því að spildan hafi gengið til baka til Hofs. Hafi jarðirnar Hof og Þrastarstaðir verið seldar með þeim landamerkjum að spildan tilheyri Hofi, t.d. er Friðbjörn Jónsson seldi Þrastarstaði til Jarðakaupasjóðs, þar sem hann hafi tekið fram að landamerki milli Hofs og Þrastarstaða skyldu vera eins og þau voru þinglesin árið 1882, sem sé sér­kennilegt nema það hafi átt að hafa einhverja sérstaka þýðingu; þá að spildan félli á ný undir Hof.

Þá kveðst stefnandi benda á að þótt dómur hafi gengið þess efnis að skrá ætti landspilduna sérstaklega í þinglýsingabók bendi öll gögn, svo og hátterni Páls heitins Erlendssonar, til þess að spildan hafi átt að falla undir Þrastarstaði. Sé bent á að í þinglýsingarmálinu hafi ekki verið skorið úr um efnisatvik að baki einstökum skjölum og hafi héraðsdómari talið með vísan til eðlis þinglýsingarmála að hann gæti ekki litið til allra sönnunargagna sem fyrir lægju. Þessu til stuðnings bendir stefnandi á í fyrsta lagi að í þinglýsingabók sé fært á blað Hofs að landspildan hafi verið seld undir Þrastarstaði og sýni það að hún hafi ekki átt að verða sjálfstæð eign. Í öðru lagi bendir hann á að Páll heitinn Erlendsson hafi átt Þrastarstaði til 1939, en þá var jörðin seld á uppboði. Meðan Páll lifði hafi hann aldrei gert neitt tilkall til spildunnar eða skipt sér af henni. Renni afskiptaleysi hans þannig stoðum undir það að rangt sé að spildan hafi á sínum tíma átt að færast sem sjálfstæð eign í þinglýsingabækur. Í þriðja lagi bendir stefnandi á að Páll hafi aldrei nýtt spilduna eða byggt hana öðrum, svo sem skylt hefði verið samkvæmt lögum nr. 1/1884 ef um sjálfstæða jörð hefði verið að ræða. Í fjórða lagi bendir hann á að aldrei hafi verið greidd lögboðin gjöld eða skattar af eigninni, en Páli hefði mátt vera ljóst að það bæri honum að gera ef hún ætti að vera sjálfstæð eign og óháð Þrastarstöðum. Í fimmta lagi bendir stefnandi á í þessu sambandi að tómlæti erfingja Páls heitins bendi eindregið til þess að þeir hafi aldrei talið spilduna hafa átt að færast sem sjálfstæð eign Páls. Hafi spildan ekki fylgt með er dánarbú Páls var tekið til skipta árið 1966. Sé það rangt sem tekið er fram í skiptayfirlýsingu þeirra frá árinu 2008 að spilda með landnúmer 214232 hafi fram til þessa verið skráð á Pál heitinn, því svo hafi ekki verið.

 Til vara byggir stefnandi á því að stefnandi og fyrri eigendur Hofs á Höfðaströnd hafi eignast spilduna fyrir hefð, sbr. lög um hefð nr. 46/1905, með síðari breytingum. Hafi þeir haft fullan yfirráðarétt yfir spildunni fullan hefðartíma, eða að minnsta kosti síðan Páll Erlendsson missti Þrastarstaði á uppboði árið 1939. Frá þeim tíma hafi stefnandi og fyrri eigendur Hofs farið með hana sem sína eign og útilokað yfirráð annarra yfir henni, haft af henni tekjur og gjöld og veðsett hana. Verði ekki fallist á að miða við þetta tímamark sé á því byggt að yfirráð hafi byrjað árið 1966 er Jón Jónsson lést, en ef ekki verði á það fallist eigi að miða við árið 1976 þegar Pálmi Jónsson og Sólveig Jónsdóttir eignuðust jörðina. Verði heldur ekki fallist á það sé byggt á að yfirráð hafi staðið frá 1982 er Jóhann Friðgeirsson og Elsa Stefánsdóttir eignuðust jörðina.

Þessu til stuðnings bendir stefnandi á það í fyrsta lagi að Þrastarstaðir og Hof hafi ávallt verið seld þannig að miðað sé við að landamerki séu með þeim hætti að spildan sé hluti af Hofi. Þannig sé vísað til landamerkjalýsingar sem var þinglýst 1882 við sölu á Þrastarstöðum 1941. Er Þrastarstaðir voru seldir Þorvaldi Þórhallssyni árið 1998 hafi í afsali verið vísað til landamerkjaskrár Skagafjarðarsýslu. Aldrei sé við sölu á Þrastarstöðum kveðið á um landspildu Páls og þá um merki hennar við Þrastarstaði, heldur ávallt um merki milli Þrastarstaða og Hofs. Við sölu á Hofi hafi jafnframt ávallt verið miðað við að spildan sé hluti af þeirri jörð, svo sem í afsali 1982 til Jóhanns Friðgeirssonar og Elsu Stefánsdóttur. Þá hafi við þau kaup verið gengið á landamerki með fulltrúa seljenda og Friðriki Péturssyni og Friðbirni Þórhallssyni, bróður Þorvaldar á Þrastarstöðum. Með sams konar hætti hafi verið gengið út frá því við sölu til stefnanda árið 2003 að spildan væri hluti Hofs.

Þá kveðst stefnandi telja að rétt hafi verið að miða við landamerki eins og þau voru þinglesin árið 1882, þar sem það séu þau merki sem kveðið var á um í Landa­merkja­skrá Skagafjarðar, en samkvæmt upplýsingum sýslumannsins á Sauðárkróki sé sú lög­festa eina skjalið sem hafi verið þinglýst á jörðina Hof fyrir utan landamerkjabréf frá árinu 1920, sem hafi verið mótmælt af eiganda Þrastarstaða.

Samkvæmt þessu sé ljóst að núverandi og fyrrverandi eigendur jarðarinnar hafi verið í góðri trú um að spildan væri hluti af Hofi. Hafi þeir heldur ekki getað vitað um að sjálfstæð spilda væri þarna, þar sem hún hafi ekki verið gerð að sérstakri eign í þinglýsingabókum fyrr en á árinu 2008.

Í öðru lagi byggir stefnandi á að upp úr árinu 1960 hafi Jón Jónsson á Hofi hlutast til um að grafinn hafi verið skurður, sem liggur austan/ofan Kílalækjar. Hafi hann átt að gilda sem landamerki og sé í samræmi við lögfestuna frá 1882. Hafi verið litið svo á af hálfu stefnanda og fyrri eigenda Hofs að landamerki Hofs og Þrastarstaða miðuðust við þennan skurð og landið sem er vestan við hann og nær yfir sýsluveginn sé hluti Hofs, en á því landi sé hin umþrætta spilda. Vísar stefnandi um þetta til yfirlýsinga Sigurðar J. Friðrikssonar, sem fæddist á Hofi og bjó þar til 1971 að árunum 1962-1963 undan­skildum, Jóhanns Friðgeirssonar og Elsu Stefánsdóttur og Axels Þorsteinssonar, áður bónda á Litlu-Brekku, sem raunar tekur ekki afstöðu til þess hvort skurðurinn hafi átt að vera landamerki milli Hofs og Þrastarstaða. Þá komi fram að svæðið fyrir vestan skurðinn, sem spildan sé á, hafi ávallt verið nefnt Hofsflói. Megi ráða af yfirlýsingu Axels að hvort sem miða eigi við skurðinn eða við Landamerkjadóm Skagafjarðarsýslu sé ljóst að spildan sé innan þeirra marka og hafi af öllum verið talin hluti af Hofi.

Í þriðja lagi tekur stefnandi fram að landeigendur hafi afmarkað landið með girðingum, þar sem þess sé þörf, en annars afmarkist það af Urriðalæk og nefndum skurði. Þá sé spildunni í raun skipt í tvennt, þar sem þjóðvegur skeri hana í sundur, en girt sé beggja vegna vegar, svo sem myndir sem frammi liggja í málinu sýni. Þannig hafi stefnandi og fyrri eigendur girt spilduna af og komið í veg fyrir not annarra af henni.

Í fjórða lagi vísar stefnandi til þess að eigendur Hofs hafi í gegnum tíðina eða að minnsta kosti frá 1939 nýtt umrætt landsvæði og haft af því tekjur án nokkurra athugasemda frá Páli Erlendssyni. Sé náma á spildunni rétt fyrir sunnan Urriðalæk, sem Vegagerðin hafi nýtt með leyfi eigenda Hofs, sbr. yfirlýsingu Gísla Felixsonar, starfsmanns hennar frá 1960-1998. Þá hafi Vegagerðin greitt Jóhanni Þór Friðgeirssyni fyrir efnistöku úr námunni. Fyrst hafi stefndu gert athugasemd við not eigenda Hofs af námunni 17. apríl 2008 og í framhaldinu hafi stefndu sett upp skilti á girðingu stefnanda um að öll efnistaka væri bönnuð. Þá sé önnur náma aðeins vestar (við Urriðalæk), sem hafi verið notuð af eigendum Hofs í gegnum tíðina.

Einnig kveður stefnandi liggja fyrir að við breytingar á eignarhaldi Þrastarstaða árið 1939 og samhliða því breytingar á landamerkjum milli jarðanna hafi Jón Jónsson á Hofi nýtt Hofsflóann, þ.e. svæðið milli þjóðvegar og landamerkjaskurðar, til torfristu í ein 6-7 sumur á árunum 1945 og selt torfið til einangrunar á húsum. Liggi fyrir yfirlýsingar tveggja manna um að hafa tekið þátt í torfristunni á vegum Jóns.

Þá kveður stefnandi það til marks um umráð spildunnar að Jóhann Friðgeirsson hafi, er hann átti Hof, sáð lúpínu í þann hluta hennar sem sé ofan þjóðvegar. Einnig hafi eigendur Hofs beitt skepnum á spilduna í gegnum tíðina, þ. á m. Jóhann Friðgeirsson, og aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við nýtingu hans á spildunni. Með þinglýstum samningi við Skagafjarðarveitur ehf. hafi stefnandi heimilað þeim að leggja heita­vatnslögn um land Hofs. Hafi lögnin m.a. verið lögð um hina umdeildu spildu, nánar tiltekið neðan þjóðvegar og innan girðingar. Sé þetta enn eitt dæmi um umráð stefnanda og að umráð annarra séu útilokuð nema með samþykki hans.

Stefnandi tekur einnig fram að ljóst sé að fyrri eigendur, þ.e. Jóhann Friðgeirsson og Elsa Stefánsdóttir, svo og stefnandi, hafi ætíð verið í góðri trú um að landspildan væri eign þeirra. Styðji yfirlýsingar staðkunnugra þetta einnig. Nefnir stefnandi yfirlýsingu Sigurðar J. Friðrikssonar sem bjó á Hofi til ársins 1971. Hafi stefnandi og fyrri eigendur Hofs nýtt svæðið án athugasemda og haft af því arð.

Stefnandi bendir á að í Jarða- og ábúendatali í Skagafjarðarsýslu komi fram að „að austan eigi Hof land til móts við Litlu-Brekku, Þrastarstaði, Hólakot og ...“ Sé þar hvergi getið sérstakrar spildu í eigu annarra en Hofs og Þrastarstaða. Sé þetta enn ein vísbending um að eigendur Hofs hafi alla tíð talið þetta svæði vera hluta Hofs og þeir verið grandlausir um rétt annarra. Einnig hafi jörðin verið veðsett miðað við landa­merkja­skrá Skagafjarðar, en samkvæmt henni sé lögfestan frá 1882 landamerki sem miða eigi við. Verði veðhafar að geta treyst því að landamerkjaskrár séu réttar og eigi þeir ekki að þurfa að leita annað. Enn fremur hafi stefnandi og fyrri eigendur Hofs ætíð greitt lögboðin gjöld af spildunni.

Einnig vísar stefnandi til þess að Páll heitinn Erlendsson hafi aldrei skipt sér af spildunni eða gert tilkall til hennar og aldrei leitað eftir að hún yrði skráð sem sjálfstæð eign í þinglýsingabók. Bendi þetta til að hann hafi aldrei talið að hann ætti spilduna. Sama sé að segja um ekkju hans, sem hafi lifað til ársins 1990. Hvorugt þeirra hafi hlutast til um afmörkun hennar, sbr. lög um landamerki o.fl. nr. 41/1919. Stefndu hafi ekki haft uppi tilkall fyrr en 3. október 2007 með bréfi til sýslumanns og ekki gert athugasemdir við not stefnanda og fyrri eigenda fyrr en árið 2008, er þinglýsingarmálið var þingfest.

Stefnandi vísar til nánar greindra ákvæða laga nr. 46/1905 um hefð, laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl., jarðalaga nr. 81/2004, þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001.

III.

Stefndu taka fram að börn Páls Erlendssonar hafi alla tíð haft vitneskju um að spildan hefði áfram verið eign föður þeirra eftir að hann flutti frá Þrastarstöðum. Þeim hafi hins vegar ekki verið kunnugt um þinglýst gögn um eignarhaldið fyrr en síðar. Meðal annars þess vegna hafi farist fyrir að spildan fylgdi með er dánarbú Páls hafi verið tekið til skipta árið 1966. Ragnar heitinn sonur hans, sem lést árið 1986, hafi haft hug á að koma málinu á hreint í upphafi 9. áratugar síðustu aldar, en ekki enst aldur til þess.

Stefndu hafi falið lögmannsstofu það um mitt ár 2007 að hafa milligöngu um að þau yrðu færð í þinglýsingabækur sem eigendur spildunnar.

Stefndu mótmæla því alveg sérstaklega að stefnandi sé þinglýstur eigandi spildunnar, enda séu þau þinglýstir eigendur hennar samkvæmt þinglýsingarvottorði. Vísan til eldri landamerkjabréfa hafi ekki þýðingu, þar sem spildan hafi verið seld frá Hofi eftir gerð þeirra. Í afsalsgerningum fyrir Hof frá árinu 1922 sé ekki að finna merkjalýsingar sem taki til hennar, en þótt svo væri væru þær marklausar og vikju fyrir eldri þinglýstum rétti annarra. Geti kaupandi aldrei eignast meiri rétt en seljandi átti, samkvæmt grundvallarreglu eignarréttar. Þá verði sá sem vill vefengja þinglýsta heimild að færa sönnur á staðhæfingar sínar. Hafi stefnandi ekki gert svo og verði því að hafna kröfum hans.

Þá sé byggt á því að í málatilbúnaði stefnanda sé að finna ósamrýmanlegar fullyrðingar um að landspildan hafi árið 1922 átt að falla undir Þrastarstaði, en sé nú með einhverjum óútskýrðum hætti á ný hluti af jörðinni Hofi. Beri að taka hér fram að núverandi eigendur Þrastarstaða hafi ekki gert kröfu um að vera taldir eigendur að spildu stefndu.

Stefndu taka fram að þótt endanlegur dómur sé genginn þess efnis að færa eigi spilduna sem sérstaka eign í þinglýsingabók sé nauðsynlegt að mótmæla sérstaklega þeim málatilbúnaði stefnanda, sem varðar það að hún hafi ekki átt að færast sem sérstök eign. Tómlæti eitt og sér leiði ekki til þess að eignarréttur falli niður ef fyrir liggi afdráttarlaus þinglýst gögn um eignarhaldið. Ábúðarlög nr. 1/1884 hafi fallið úr gildi 7 árum áður en Páll heitinn flutti frá Þrastarstöðum og einnig sé byggt á því að þau hafi mælt fyrir um skyldu til ábúðar á jörðum, en ekki minni landspildum. Jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar að Páll hafi brotið gegn ábúðarlögum geti það ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að eignarréttur hans hafi fallið niður, því síður að réttur fyrri eigenda raknaði við. Ósannað sé að Páll heitinn hafi aldrei greitt skatta og gjöld af spildunni, en eftir að hún var færð á nöfn stefndu hafi þau gert svo. Hafi Páll ekki greitt slík gjöld geti það ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að við rakni réttur fyrri eigenda.

Stefndu telja stefnanda ekki geta byggt á því að hann hafi eignast spilduna með hefð. Í fyrsta lagi sé stefnandi félag en ekki einstaklingur. Hvergi sé minnst á það í hefðarlögum að félag geti unnið eignarrétt fyrir hefð, enda skipti huglæg afstaða miklu máli um mat á því hvort hefð hafi unnist. Verði lög um hefð ekki skýrð rúmt um þetta, enda undantekningarlög.

Í öðru lagi hljóti fyrri eigendum Hofs að hafa verið kunnugt um eignarrétt Páls Erlendssonar og síðari afkomenda hans að spildunni. Ekki verði unnin hefð með umráðum sem hafi náðst með glæp eða óráðvandlegu athæfi. Hafi þetta verið túlkað svo, að bein vitneskja um eignarréttindi annarra komi í veg fyrir að hefð vinnist. Sama sé að segja um beina vitneskju um atvik, sem gefi hefðanda tilefni til frekari athugunar á réttarstöðu sinni eða annars aðila. Afsalið til Páls Erlendssonar hafi verið fært á síðu Hofs í afsals- og veðmálabókum. Síður í þeim bókum séu einnig nefndar þinglýsingarvottorð. Í málinu liggi frammi tvær síður fyrir Hof, önnur taki til þinglýstra skjala 1861-1935 og hin til þinglýstra skjala frá 1861-1986. Á báðum þessum síðum standi skýrlega: „... landspilda seld Páli Erlendssyni (undir Þrastarstaði)“

Jón Jónsson hafi búið á Hofi til ársins 1966, er hann lést. Eðli máls samkvæmt hafi honum verið kunnugt um spilduna sem hann seldi árið 1922. Sé útilokað að Jón hafi getað hefðað eignarrétt yfir spildunni. Frá árinu 1966 til 1976 hafi Hof verið í eigu ekkju Jóns. Verði að telja öruggt að henni hafi verið kunnugt um sölu spildunnar. Börn þeirra Jóns hafi síðan átt Hof til ársins 1982, er jörðin hafi verið seld Jóhanni Þór Friðgeirssyni og Elsu Stefánsdóttur. Að öllum líkindum hafi þá legið frammi þinglýsingarvottorð sem hafi borið með sér að spildunni hafi verið skipt út úr jörðinni árið 1922. Hefði sú tilgreining átt að gefa kaupendum tilefni til að athuga afsalið, sem hafi að geyma nákvæma lýsingu á merkjum spildunnar. Verði að telja með ólíkindum að Jóhann og Elsa hafi aldrei séð þinglýsingarvottorð fyrir jörðina í þau 20 ár sem þau áttu hana. Sé nær algild regla að við aðilaskipti á fasteignum liggi frammi þinglýsingarvottorð. Af þeirri ástæðu einni ætti að vera ljóst að allir eigendur Hofs hafi vitað um söluna árið 1922. Hafi þeim ekki verið kunnugt um nákvæm merki spildunnar sé ljóst að þeir hafi af ásettu ráði varðveitt ókunnugleika sinn um merkin.

Þá byggja stefndu á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga um 20 ára óslitið eignarhald. Til þess verði hefðandi að hafa svo víðtæk umráð eignar að þau bendi til eignarréttar. Þá sé það skilyrði að ekki hafi orðið hlé á umráðum hefðanda. Eigendur Hofs hafi aldrei haft spilduna í sínum umráðum. Þótt litið yrði svo á að þeir hafi einhvern tíma nýtt hana hafi þau not verið afar takmörkuð og stopul og geti ekki talist óslitin í skilningi 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga. Þar við bætist að frá árinu 1922 hafi Hof tvívegis verið í eyði, þ.e. 1971-1973 og 1977-1981.

Stefndu mótmæla því að eigendur Hofs hafi nýtt landið með þeim hætti sem stefnandi byggir á. Þeir hafi ekki verið í góðri trú við nýtingu námu, enda nýtingin ekki óslitin eða umfangsmikil. Liggi aðeins frammi einn reikningur frá Vegagerðinni, frá árinu 1998, og verði að álykta að Vegagerðin hafi ekki tekið efni úr henni eftir það. Þorvaldur Þórhallsson, bóndi á Þrastarstöðum, hafi talið að náman tilheyrði þeim, en ekki gert athugasemdir við nýtingu Vegagerðarinnar þar sem Þrastarstaðir hafi verið í eigu ríkisins. Fráleitt sé að nýting námunnar, sem stefndu telja að hafi verið óheimil, leiði til þess að stefnandi hafi unnið hefð á tugum hektara lands sunnan við hana og stefnandi byggi ekki á því að hann hafi fullnað 40 ára afnotahefð.

Þá telja stefndu að Jón Jónsson hafi rist torf austan Kílalækjar og að Jóhann Friðgeirsson hafi sáð lúpínunni sunnan spildunnar, þótt hún hafi á síðustu árum dreift sér norður í hana. Beitarafnot séu ósönnuð, enda nægi þau ekki ein og sér til að vinna eignarhefð á landi með útrýmandi hætti. Samkvæmt yfirlýsingu Þorvaldar Þórhallssonar hafi Þrastarstaðaflóinn (Hofsflóinn) og Hofskógurinn ætíð verið smalaður og beittur frá Þrastarstöðum. Sérstaklega hafi verið að því fundið þegar Jóhann Friðgeirsson hafi haft í hyggju að beita skepnum þarna.

Þá telja stefndu það enga þýðingu hafa að heimild var veitt til hitaveitulagnar um land Hofs og sé ekkert í samningi um hana sem bendi til að hann hafi varðað það land sem hér er til umfjöllunar.

Stefndu mótmæla því að stefnendur hafi afmarkað landið með girðingum. Það afmarkist að stórum hluta landfræðilega af Kílalæk og Urriðalæk. Vegagerðin hafi girt meðfram Siglufjarðarvegi, sem liggi í gegnum landið. Þá sé því mótmælt að affallsskurður í Þrastarstaðaflóa sé landamerkjaskurður milli Þrastarstaða og Hofs, sbr. landamerkjadóminn frá 2. október 1920, sem kveði á um að Kílalækur ráði merkjum, en síðan hafi Páll Erlendsson keypt landið vestan við hann, allt að sýsluveginum. Staðsetning affallsskurða ráðist af landfræðilegum aðstæðum.

Þá byggja stefndu á að veðsetningar Hofs hafi miðast við stærð jarðarinnar á hverjum tíma og ljóst hafi verið af afsals- og veðmálabókum hvaða spildum hafi verið skipt úr henni.

Að auki vísa stefndu hér til málsástæðna sinna hvað aðalkröfu varðar, sérstaklega um meint athafnaleysi og tómlæti Páls Erlendssonar og afkomenda hans.

IV.

Við meðferð málsins voru teknar skýrslur af fyrirsvarsmönnum stefnanda, Lilju Sigurlínu Pálmadóttur og Baltasar Kormáki Baltasarssyni. Þá gáfu skýrslur vitnin Jóhann Friðgeirsson, Elsa Stefánsdóttir, Gísli Felixson, Páll Ragnarsson, Friðrik Antonsson, Sigurður J. Friðriksson, Sigurður Steingrímsson, Bjarni Axelsson, Reynir Gíslason, Páll Pálsson, Axel Þorsteinsson, Þorvaldur Þórhallsson, Egill Bjarnason og Dagmar Ásdís Þorvaldsdóttir.  Einnig liggja frammi í málinu skriflegar yfirlýsingar margra þessara vitna, sem þau staðfestu fyrir dómi.

Verða nú rakin nokkur efnisatriði úr skýrslum aðila og vitna.

Stefnandi er samlagsfélag tveggja einkahlutafélaga, sem Lilja Sigurlína og Baltasar Kormákur stýra. Lilja Sigurlína kveður að við kaupin á Hofi hafi verið gengið á merki með Jóhanni Friðgeirssyni. Ekki hafi komið fram að nein óvissa hafi verið um merkin. Á árunum 2002-2003 hafi hún hitt Dagmar Ásdísi Þorvaldsdóttur, sem er eigandi Þrastarstaða, af tilviljun og hún hafi nefnt einhvers konar deilu. Er hún hafi verið í heimsókn á Þrastarstöðum hafi Þorvaldur Þórhallsson sýnt henni afsalið fyrir spildunni. Þetta hafi verið sumarið sem stefnandi keypti Hof, eða sumarið á eftir. Þorvaldur hafi talið að spildan ætti að tilheyra Þrastarstöðum. Hún hafi síðan falið lögmanni að annast það að fá þetta á hreint. Einnig hafi hún spurst fyrir í sinni fjölskyldu. Hafi frænka hennar, Sólveig Jónsdóttir, sagt sér að salan hefði gengið til baka. Eftir að lögmaður hafi kynnt Þorvaldi sína niðurstöðu hafi Þorvaldur hætt að eltast við þetta. Fyrir hálfu öðru ári hafi Páll Ragnarsson, sem er barnabarn Páls Erlendssonar, hringt til sín og sagt að hann ætlaði að láta leiðrétta þinglýsinguna.

Jóhann Friðgeirsson og Elsa Stefánsdóttir áttu Hof og bjuggu þar frá 1981-2002. Liggur frammi í málinu yfirlýsing frá þeim, dagsett 6. ágúst 2008, sem þau staðfestu fyrir dómi. Samkvæmt yfirlýsingunni og framburði Jóhanns var gengið á merki, er þau keyptu Hof af Pálma og Sólveigu Jónsbörnum, með þeim Friðbirni heitnum Þórhallssyni, bróður Þorvalds á Þrastarstöðum, sem hafi verið afar kunnugur, og Friðriki heitnum Péturssyni, bróðursyni Jóns heitins Jónssonar. Var miðað við landamerki samkvæmt landa­merkja­bréfi þinglesnu árið 1882. Kveður Jóhann hafa verið alveg ljóst fyrir sér að skurðurinn, sem stefnandi telur vera landamerkjaskurð, hafi ráðið merkjum Hofs og Þrastarstaða. Þeim Elsu hafi borist til eyrna nokkrum eða þó nokkuð mörgum árum seinna, frá kunningja þeirra, að e.t.v. væru landamerkin ekki alveg á hreinu. Hann hafi ekki tekið þetta alvarlega, en þó beðið Egil Bjarnason ráðunaut að athuga þetta. Hafi Egill sagt sér þó nokkru seinna að hann hefði ekkert fundið sem benti til þess að landamerkin væru ekki rétt. Aldrei hafi komið fram athugasemdir við nýtingu hans á þessu svæði. Jóhann hafi hresst upp á girðingu meðfram Siglufjarðarvegi og beitt hrossum á svæðið, fyrst árið 1982, tekið efni úr malarnámu og heimilað nágrönnum efnistöku úr henni, heimilað Vegagerðinni efnistöku er bundið slitlag var lagt á Siglufjarðarveg og fengið greitt fyrir. Svæðið hafi ekki verið fjárhelt. Hafi gengið þar fé frá nágrannabæjum. Nágrannar hafi jafnan beðið hann leyfis til að fara inn á svæðið til að athuga um fé. Lúpínu hafi hann sáð árið 1992 og fullyrðir að hann hafi sáð inn á svæðið sem deilt er um í þessu máli.

Jóhann kveður Þorbjörn heitinn Árnason lögmann hafa aðstoðað þau Elsu við kaupin og raunar hafi hann verið bæði seljendum og kaupendum til aðstoðar. Aðspurður kveðst hann telja nær víst að veðbókarvottorð hafi legið frammi við kaupin. Hann kvaðst aðspurður helst telja, er honum var sýnd færsla í þinglýsingabók um að spilda hefði verið seld Páli Erlendssyni, að hann væri að sjá þetta í fyrsta sinn.

Í skýrslu Elsu Stefánsdóttur kom fram að Ragnar Eiríksson í Gröf hafi nefnt að e.t.v. væri óvissa um landamerki. Egill Bjarnason hafi verið fenginn til að athuga þetta. Sér hafi skilist að óvissan lyti að því hvort skurður eða Kílalækur réði merkjum.

Í skýrslu Þorvalds Þórhallssonar kom fram að hann hafi unnið við torfristu á árunum 1944-1945. Torfið hafi verið rist langt austan Kílalækjar, með leyfi Friðbjörns bónda á Þrastarstöðum, en þurrkað vestan lækjarins á mónum við veginn. Hafi verið gerð brú yfir Kílalæk. Þetta svæði hafi ekki verið nýtt nema að því leyti að skepnur hafi gengið á því. Kveðst Þorvaldur hafa smalað það til að taka sínar kindur og aðrir hafi tekið sitt fé þaðan. Landið hafi ekki verið nýtt frá Hofi í þessu skyni, þar sem fé þaðan hafi gengið á afrétti. Jóhann Friðgeirsson hafi reynt að beita hrossum, þau hafi bara staðið þarna í hnút, en hann hafi verið að gefa þeim þarna stundum. Kveðst Þorvaldur hafa sagt Jóhanni að þarna væri Þrastarstaðaland, en hann hafi ekkert gert með það. Þá kveðst Þorvaldur hafa vitað að Páll hafi keypt þá spildu sem málið fjallar um. Hann hafi helst haldið að Páll ætti þetta. Hann hafi oft verið búinn að tala um þetta við Jóhann Friðgeirsson, en hann skellt skollaeyrum við því. Bóndi í Engihlíð og Jón á Hofi hafi fengið leyfi fyrir skurði. Alltaf hafi verið sagt að Kílalækur réði merkjum. Telur hann ótrúlegt að Friðbjörn bróðir sinn hafi sagt Jóhanni annað en að Þrastarstaðir ættu niður í Kílalæk.

Þorvaldur kveðst ekki muna hvenær hann fór að athuga um þetta málefni, en segir að það hafi verið mikið fyrr en árið 1990 sem hann sá á sýsluskrifstofunni að Páll Erlendsson hafði keypt spilduna. Hann kveðst aldrei hafa sýnt Jóhanni Friðgeirssyni afsalið fyrir henni, en farið að ræða þetta við Lilju Sigurlínu þegar hann skildi á henni að hún taldi stefnanda eiga land upp að skurðinum. Jóhann hafi hins vegar vel vitað að þarna væri þrætuland. Helst kveðst Þorvaldur hafa talið að spildan tilheyrði Þrastarstöðum, uns hann hafi séð að hún hefði aldrei verið sameinuð þeim.

Vitnið Páll Ragnarsson er sonarsonur Páls Erlendssonar. Í skýrslu hans kom fram að faðir hans hafi sagt honum að hann hafi rætt það við Pálma Jónsson og Jón Ásbergsson að þarna væri spilda sem Páll hefði keypt. Þessu hefði ekki verið tekið vel og hefði komið fram vilji um að spildan yrði gefin eftir. Faðir sinn hefði fengið lögmann til að athuga þetta mál í kringum 1980, en veikindi hefðu leitt til þess að ekki orðið úr frekari framgangi þá. Páll kveðst hafa nefnt þetta einu sinni við Jóhann Friðgeirsson, en hann hafi ekki haft áhuga á að ræða þetta við það tækifæri. Þetta hafi líklega verið í kringum aldamótin. Hann sé ekki alveg viss um að það hafi verið áður en stefnandi keypti Hof, en telji það þó fremur.

Aðspurður kvað Páll ættingja sína ekki hafa gert athugasemdir við nýtingu spildunnar í gegnum tíðina. Hafi hún verið nýtt af bændum þarna í kring.

Vitnið Dagmar Ásdís Þorvaldsdóttir, dóttir Þorvalds Þórhallssonar, eignaðist Þrastarstaði árið 2007. Hún var þar upp alin og kveðst hafa verið þar mest alla ævi. Hún kveðst oft hafa smalað það svæði sem deilt er um, kindur frá Þrastarstöðum leiti þarna niður eftir og fé frá öðrum bæjum hafi gengið á því áður en girt var meðfram veginum. Jóhann á Hofi hafi haft þarna hross, en öðrum skyldum hafi hann ekki gegnt við þetta land. Aðspurð kvaðst hún ekki vita til að eigendur Hofs hefðu gert athugasemd við að svæðið var nýtt með þessum hætti, það hefði frekar verið á hinn veginn, með þeim hætti að þau hefðu alltaf vitað að þessi partur hefði verið seldur til Páls Erlendssonar og fundist að það þyrfti að koma málum á hreint. Faðir hennar hafi ekki getað staðið fastur á því að hann ætti svæðið neðan (vestan) við Kílalæk. E.t.v. hafi ekki verið óeðlilegt að Jóhann beitti á það og þau hafi ekki sett girðingu við Kílalækinn. Faðir hennar hafi alltaf talið að svæðið milli skurðarins og Kílalækjar tilheyrði landi Þrastarstaða, en honum hafi ekki fundist hann geta staðið fastur á því að landið sem hann vissi að Páll Erlendsson hefði keypt þar neðan við ætti að tilheyra Þrastarstöðum. Áhyggjuefni föður hennar hafi ætíð lotið mest að því að það væri rengt að land Þrastarstaða næði niður að Kílalæk.

Nefndur skurður hafi verið grafinn vegna þess að Guðbrandur í Engihlíð, næsta bæ sunnan Þrastarstaða, hafi þurft að ræsa fram land til ræktunar. Hann hafi beðið um leyfi til að grafa skurð í Urriðalæk. Ætlunin hafi verið að grafa um Kílalæk, en ráðunautur, líklega Egill Bjarnason, hafi talið óheppilegt að grafa þar. Hafi faðir hennar leyft að skurðurinn yrði grafinn ofar (austar). Dagmar Ásdís kvaðst aðspurð telja að lúpínu hefði verið sáð í landi Hofs, a.m.k. að stórum hluta, þ.e. sunnan þess svæðis sem um er fjallað í málinu.

Spurð um malarnám tók Dagmar Ásdís fram að faðir hennar hafi hálft í hvoru talið að e.t.v. ætti hann það land sem Páll Erlendsson keypti. Þegar Vegagerðin tók efni hefðu Þrastarstaðir ennþá verið ríkisjörð og þegar af þeirri ástæðu hefði hann talið að Vegagerðin ætti rétt til að nota námuna án þess að hann leyfði.

Dagmar Ásdís kveður torf hafa verið rist við Illholt, sem er á geiranum milli skurðarins og Kílalækjar. Kveður hún föður sinn, sem á þeim tíma bjó með foreldrum sínum á næsta bæ, hafa sagt sér að leyfi hefði verið fengið hjá þáverandi eiganda Þrastarstaða, Friðbirni, til að rista torfið.

Dagmar Ásdís kveður föður sínum lengi hafa verið kunnugt um afsalið til Páls Erlendssonar. Nefndi hún í því sambandi að hann hafi verið vel málkunnugur Ragnari heitnum Pálssyni. Vitandi að þetta svæði neðan Kílalækjar væri líklega eign afkomenda Páls hafi hún einhvern tíma getið þess við Lilju að þessu þyrfti að koma á hreint.

Í skýrslu vitnisins Friðriks Antonssonar kom fram að hann vann ungur að árum við torfristu Jóns Jónssonar. Friðrik kveðst ekki vera vel kunnugur á þessu svæði, en  kveðst ekki hafa heyrt annað en að Jón ætti það land sem þessi starfsemi var stunduð á.

Í skýrslu Gísla Felixsonar, sem vann hjá Vegagerðinni frá 1960-1998, kom fram að aflað hefði verið leyfis hjá Jóni á Hofi til að nýta efni úr námu. Vegagerðin hafi greitt ábúanda á Hofi fyrir að girða meðfram veginum. Spurður hvort hann hefði heyrt að náman væri hugsanlega í landi Þrastarstaða sagði hann að menn hefðu heyrt ýmislegt, en hann hefði spurst fyrir hjá kunnugum mönnum og sér verið sagt að þetta væri í landi Hofs. Landamerki Hofs hafi verið við Urriðalæk. Spurður hvort Vegagerðin hafi gert könnun á skjölum kvaðst hann ekki geta sagt til um það, en efast um það.

Í skýrslu vitnisins Sigurðar Jóns Friðrikssonar, kemur fram að hann sé fæddur á Hofi árið 1945 og hafi búið þar til ársins 1971, að undanskildum árunum 1961-1963. Skurður, sem grafinn var um 1960 hafi átt að marka landamerki milli Hofs og Þrastar­staða eftir því sem best hafi verið vitað. Svokallaður Hofsflói, milli vegar og skurðarins hafi alltaf verið talinn tilheyra Hofi, enda nýttur af ábúendum þar, sem og svokallað Auga og Urriðalækur, sem markar norðurenda flóans, en skurðurinn liggi í beina línu í miðja svonefnda Langhóla. Kveðst hann hafa veitt í Auganu sem barn. Faðir sinn, Friðrik Pétursson, fæddur árið 1922, hafi alist upp á Hofi frá sex ára aldri og verið staðkunnugur. Samkvæmt hans frásögn hafi landamerki verið með framangreindum hætti.

Vitnið Bjarni Axelsson er fyrrverandi bóndi á Litlu-Brekku, fæddur þar og uppalinn. Litla-Brekka er austan þess svæðis sem deilt er um. Í skýrslu hans kom fram að Jóhann Friðgeirsson hafi beitt hrossum á svæðið og að ábúendur á Hofi hafi fengið Vegagerðina til að kosta girðingu meðfram veginum. Hann kveðst oft hafa fengið að taka möl úr námu með leyfi frá Hofi. Hann kveðst á að giska  fimm árum áður en hann hætti að búa, sem var árið 2002, hafa fengið vitneskju um það frá Þorvaldi á Þrastarstöðum að hugsanlega ættu afkomendur Páls Erlendssonar tilkall til spildu þarna.

Vitnið Sigurður Steingrímsson bjó á Hofi frá 1972-1977. Hann girti meðfram Siglufjarðarvegi og kveðst hafa fengið greitt fyrir það frá Vegagerðinni. Eftir því sem hann hafi vitað best hafi þetta verið samkomulag eigenda Hofs og Vegagerðarinnar. Sér hafi ætíð verið sagt að spildan sem deilt er um tilheyrði Hofi, þ.e. sér hafi verið sagt hvernig merki væru og hann hefði aldrei vitað um tilvist spildunnar. Þá nefndi hann að bóndi á Litlu-Brekku hefði nefnt við sig að hann ætti að kaupa Hof og selja sér síðan hluta af þessu svæði. Þá gat hann þess að Þorvaldur hafi sagt sér að þarna væru hættur og hann hafi hætt við áform um að setja hross á þetta svæði.

Í skýrslu vitnisins Reynis Gíslasonar, sem áður bjó í Bæ á Höfðaströnd,  kom fram að það hefði verið talið að Bær ætti land að Hofi. Var það þannig hans skilningur að það landsvæði sem deilt er um tilheyrði Hofi.

Í skýrslu vitnisins Egils Bjarnasonar, fyrrverandi ráðunautar, kom fram að skurður hafi verið landamerkjaskurður milli Litlu-Brekku og Hofs, en ekki verið viðurkenndur sem merkjaskurður hvað varðaði Þrastarstaði. Skurðurinn hefði ekki getað þjónað hlutverki sínu ef hann hefði verið grafinn um Kílalæk. Egill staðfesti að hann hefði mælt fyrir skurðinum.  Hann kveðst ekki geta munað hvort Jóhann Friðgeirsson hafi beðið hann að athuga heimildir um landamerki, en hafi svo verið hefði hann gert athugun á skrifstofu sýslumanns.

Í skýrslu vitnisins Páls Pálssonar veitustjóra kom fram að Páll Ragnarsson hefði gert athugasemd við það að samið var við eiganda Hofs  um heimild til hitaveitulagnar. Kveðst hann hafa sagt Páli að farið væri eftir þeim gögnum sem fyrir lægju, þ.e. einkum uppdrætti frá Fasteignamati ríkisins.

Vitnið Axel Þorsteinsson, fyrrum bóndi á Litlu-Brekku, kvað torfristu hafa verið austan við Kílalæk, vestan við stæði skurðarins sem síðar var grafinn. Hann kvaðst ekki vita hvort skurðurinn hefði átt að vera merki milli Þrastarstaða og Hofs. Kílalækur hefði markað að sínum skilningi merki Litlu-Brekku og Hofs, en er skurðurinn var grafinn hefði hann samþykkt að hann réði merkjum, enda haft hagsmuni af skurðinum og skipt litlu landræma sem hann lét af hendi með þessu. Kvaðst Axel aldrei hafa vitað annað en að það væri land Hofs sem þarna var markað gagnvart Litlu-Brekku.

V.

Við aðalmeðferð málsins var því hreyft að hugsanlega ætti að vísa málinu frá dómi vegna þess að eigandi Þrastarstaða á ekki aðild að því. Til þess er að líta að með framangreindum hæstaréttardómi var staðfest ákvörðun um að þinglýsa spildunni sem sérgreindri eign, með nánar greindum merkjum eins og dómkrafa stefnanda hljóðar um. Eigandi Þrastar­staða lét þennan þinglýsingarágreining ekki til sín taka og verður ályktað af framburði hennar fyrir dómi að af hennar hálfu sé ekki haldið uppi tilkalli til spildunnar, en það er skýr afstaða af hennar hálfu að merki Þrastarstaða liggi um Kílalæk. Í dómkröfum stefnanda eru merki spildunnar tilgreind um Kílalæk. Að þessu athuguðu þykir ekki ástæða til að vísa málinu frá dómi án kröfu.

VI.

Fyrir liggur að Páll Erlendsson keypti spildu úr Hofi árið 1922. Var afsali og veðbandslausn þinglýst 20. júní 1922. Afsalsins var getið á blaði Hofs í þinglýsingabók, svo og veðbandslausnar, en ekki á blaði Þrastarstaða. Ekki var stofnað til spildunnar í þinglýsingabók sem sérgreindrar eignar. Þrátt fyrir orðin „undir Þrastarstaði“ í þinglýsingabókinni liggur fyrir endanlegur dómur þess efnis að spildan var ekki sameinuð Þrastarstöðum og að hún skuli teljast sérgreind eign að óbreyttu.

Á það verður fallist að vísan til eldri landamerkjalýsingar Hofs í afsölum án tillits til ráðstöfunar spildunnar leiði ekki til þess að betri réttur annarra til hennar falli niður. Verður ekki fallist á það með stefnanda að hann teljist þinglýstur eigandi spildunnar á þeim grundvelli að heimildarskjöl vísi í landamerkjalýsinguna sem þinglýst var 1882.

Stefnandi telur að ráðstöfun spildunnar hafi gengið til baka. Að einu leyti vísar hann til þess að allt bendi til þess að hún hafi átt að sameinast Þrastarstöðum. Friðbjörn Jónsson hafi selt Þrastarstaði árið 1941 með athugasemd um landamerki milli Hofs og Þrastarstaða miðað við lýsinguna sem var þinglýst 1882. Sé þessi athugasemd sérkennileg nema hún hafi þá þýðingu að þarna sé að finna þá afstöðu að spildan hafi gengið til baka. Dómurinn telur hins vegar að þessi athugasemd verði ekki túlkuð svo rúmt, hver sem ástæða hennar kann að hafa verið.

Eins og málið liggur fyrir virðast seljandinn, Jón Jónsson og síðari rétthafar að Hofi, eigendur og ábúendur, aldrei hafa aðhafst með tilliti til þess að landspildunnar hefði verið ráðstafað undan Hofi. Hennar var aldrei getið í afsölum og raunar ekki heldur landamerkjadóms frá 1920. Þá hefur komið fram að fyrrverandi bændur á jörðunum Litlu-Brekku og Bæ, sem liggja að spildunni, virðast ekki hafa haft ávæning af öðru en að spildan tilheyrði Hofi. Hins vegar kveðst Þorvaldur á Þrastarstöðum lengi hafa vitað um afsalið til Páls Erlendssonar. Vegagerðin og Skagafjarðarveitur töldu einnig að eigendur Hofs væru réttur viðsemjandi þegar möl var tekin úr námu á spildunni og hitaveita lögð um hana. Lilja Sigurlína Pálmadóttir hefur eftir föðursystur sinni, Sólveigu Jónsdóttur, sem um tíma átti Hof ásamt Pálma bróður sínum, að ráðstöfun spildunnar hefði gengið til baka. Í þessu sambandi má geta skýrslu Páls Ragnarssonar, þar sem hann hefur eftir föður sínum að Jón Ásbergsson og Pálmi Jónsson hafi viljað að spildan yrði gefin eftir.

Af framangreindum atriðum verður ekki ályktað að sannað sé að ráðstöfunin hafi gengið til baka. Verður því ekki á þessa málsástæðu fallist.

Fyrir liggur endanlegur dómur sem byggir á því að spildan hafi aldrei verið sameinuð Þrastarstöðum. Verður ekki á því byggt að svo hafi nokkurn tíma verið gert. Verður því að miða við að hún hafi verið sérgreind eign frá því að til hennar var stofnað árið 1922. Hún var hins vegar ekki færð þannig í þinglýsingabók fyrr en árið 2008.

Stefnandi er félag, en fyrirsvar félaga hafa einstaklingar. Verða huglæg skilyrði sem lög um hefð nr. 46/1905 áskilja fyrir hefðarhaldi yfirfærð á fyrirsvarsmenn félaga eftir því sem við á. Verður ekki á kröfur stefndu fallist af þeirri ástæðu að stefnandi er félag.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. sömu laga verður hefð ekki unnin hafi maður náð umráðum eignar með glæp eða óráðvandlegu atferli. Sama er og ef hefðandi fær vitneskju um, áður en hefðin er fullnuð, að eignarhaldið sé þannig til komið. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laganna er hér átt við að handhafi hafi haft þann ásetning og verið sér þess meðvitandi að hann ranglega gjörði öðrum skaða með því að leggja hlutinn undir sig og ráða yfir honum.

Af sjálfu leiðir að Jón heitinn Jónsson gat ekki annað en beinlínis vitað, þ.e. verið sér þess meðvitandi að hann hafði ráðstafað hinni umdeildu spildu til Páls Erlendssonar. Að því marki sem kann að teljast sýnt að hann hafi farið með umráð hennar eða lagt hana undir sig, kynni það þó að skýrast af því að það hafi verið afstaða hans að ráðstöfunin hafi gengið til baka. Hér verður þó að miða við það að hann tryggði sér aldrei neina sönnun þess svo vitað sé. Því verður að miða við að Jón Jónsson hafi verið meðvitaður um betri rétt annarra er hann gerði ráðstafanir sem til álita koma við mat á því hvort spildan hafi verið í hefðarhaldi.

Hins vegar verður ekki lagt til grundvallar að síðari rétthafar að Hofi hafi haft beina vitneskju um slíkan rétt í skilningi hefðarlaga, þótt þeir hafi ekki kannað þinglýstar heimildir nægilega vel, sem meðal annars lýsir sér í því hvernig landamerkjum Hofs er lýst í heimildarskjölum án tillits til merkja spildunnar sem var getið á blaði jarðarinnar í þinglýsingabók að hefði verið seld undir Þrastarstaði og einnig án tillits til merkja samkvæmt landamerkjadómi frá 1920. Ráðstöfunum jarðarinnar án tillits til þessara marka verður samt ekki jafnað til beins eignarhalds á spildunni sem slíkri í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905.

Fyrir liggur að þinglýsingar spildunnar var ekki getið á blaði Þrastarstaða og henni var ekki þinglýst sem sérgreindri eign fyrr en árið 2008. Við þá aðstöðu varð ekki loku fyrir það skotið að eigendur Hofs að Jóni Jónssyni látnum, sem og hugsanlega aðrir, gætu eignast hana með hefð.

Skilyrði hefðar samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 er að hefðandi fari með eignarhald.  Verður hann samkvæmt því að fara í tilskilinn tíma með virk yfirráð eignar, sem verði jafnað til eignarréttar.

Samkvæmt framburði vitna gekk búfé frá nágrannabæjum á eigninni, sérstaklega áður en girt var meðfram veginum. Vegagerðin girti meðfram honum og réð til þess þáverandi ábúanda á Hofi, Sigurð Steingrímsson, sem bjó á Hofi frá 1972-1977. Kom fram í skýrslu Sigurðar að Vegagerðin hafi haft samráð við eigendur Hofs um að girða. Þrátt fyrir það verður að líta til þess að hér var um að ræða girðingu á vegum Vegagerðarinnar meðfram þjóðvegi. Verður þessi girðing því ekki metin sem virk yfirráð eigenda Hofs yfir spildunni.

Af skýrslum vitna verður ráðið að Vegagerðin aflaði leyfis eiganda Hofs til að taka möl úr námu syðst á spildunni. Liggur fyrir að hún greiddi honum fyrir malartöku árið 1998. Er þetta eina heimildin um tekjur af spildunni og er rétt að taka fram í því sambandi að ekki er sannað að Jón Jónsson hafi á sínum tíma rist torf annars staðar en austan hennar, en torfið þurrkaði hann á spildunni. Að öðru leyti er óljóst hversu umfangsmikil not eigendur Hofs hafa haft af þessari malarnámu, sjálfir, eða með endurgjaldslausri ráðstöfun til annarra, Vega­gerðarinnar þar á meðal.

Í skýrslu Jóhanns Friðgeirssonar kemur fram að hann beitti hestum á spilduna, hluta úr ári í einhver ár. Því verður ekki slegið föstu að Jóhann hafi sáð lúpínu á spilduna, en hugsanlega nær lúpínan þó aðeins norður fyrir suðurmörk hennar.

Þá liggur frammi uppdráttur sem sýnir að hitaveitulögn liggur um norðvesturhorn spildunnar. Var samið við stefnanda um heimild til lagnarinnar. Bendir það til eignarhalds stefnanda í skilningi hefðarlaga, en þessi ráðstöfun var gerð árið 2007. Ein og sér fullnægir hún því ekki skilyrði um hefðartíma.

Á það verður fallist að spildan hafi aldrei verið afgirt eða afmörkuð á þann hátt að metið verði til virkra yfirráða. Hefur ekki verið sýnt fram á að skurður fyrir austan Kílalæk hafi verið samþykktur sem landamerkjaskurður, nema hvað varðar Litlu-Brekku. Vitnið Axel Þorsteinsson kveðst hafa samið um það við Jón Jónsson, en hér að framan er komist að því að Jón hafi haft beina vitneskju um að hann hefði selt spilduna.

Svo sem eðlilegt var, þar sem spildan var ekki færð í þinglýsingabók sem sérgreind eign, var hún  aldrei skattlögð sérstaklega. Hefur það ekki áhrif á mat á því hvort hún hafi verið í hefðarhaldi.

Dómurinn telur að þessu virtu að stefnandi og fyrri eigendur Hofs hafi ekki tekið spilduna til slíkra nota eða tekið umráð hennar með þeim hætti að fallist verði á að hún hafi verið í hefðarhaldi.

Eins og hér hefur verið lýst var hin umdeilda spilda skilin frá landi jarðarinnar Hofs með afsali frá Jóni Jónssyni, sem var þinglýst árið 1922. Ósannað er að þessi ráðstöfun hafi gengið til baka. Mistök við færslu í þinglýsingabók, sem voru leiðrétt árið 2008, leiddu til þess að Páll Erlendsson, sem Jón Jónsson lýsti réttan eiganda samkvæmt afsalinu, var ekki skráður eigandi hennar í þinglýsingabók.  Hafði Páll og síðan erfingjar hans ekki uppi tilkall til hennar eða nein afskipti af henni svo sannað sé, fyrr en árið 2007. Niðurstaða dómsins er samt sem áður sú að meðan þetta ástand varði hafi eigendur Hofs, eftir að Jón Jónsson lést, ekki nýtt spilduna eða ráðstafað henni með þeim hætti að það verði metið 20 ára óslitið eignarhald í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905. Eftir þessu ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu. Eftir atvikum þess þykir hins vegar rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

DÓMSORÐ:

Stefndu, db. Guðbjargar Pálsdóttur, Guðrún Pálsdóttir, Sigrid Bjarnason og Anna Pála Guðmundsdóttir, eru sýkn af kröfum stefnanda, Hofstorfunar slf., í þessu máli.

Málskostnaður fellur niður.