Hæstiréttur íslands
Mál nr. 410/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 14. nóvember 2000. |
|
Nr. 410/2000. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Sigurður Gísli Gíslason fulltrúi) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. Laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Ú R S K U R Ð U R
Ár 2000, fimmtudaginn 9. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Kristjönu Jónsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. nóvember 2000, kl. 16.00.
[ . . . ]
Verið er að rannsaka ætluð brot kærða gegn fíkniefnalöggjöfinni sem gætu varðað hann fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ef þau sönnuðust. Kærði vildi í fyrstu ekki kannast við aðild sína að málinu, en hefur gert það nú. Með hliðasjóna af rannsóknargögnum þykir sýnt að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærði sitji áfram í gæsluvarðhaldi svo að hann geti ekki torveldað rannsókn málsins. Teljast skilyrði a liðar 103. gr. því uppfyllt í máli þessu.
Fram hefur komið að fjárveitingar til yfirvinnu starfsmanna fíkniefnadeildar lögreglunnar séu uppurnar og hafi það væntanlega áhrif á rannsókn þeirra mála sem eru í gangi hjá deildinni. Hins vegar verður ekki fullyrt að þessi staðreynd hafi haft áhrif á rannsókn þessa máls.
Með því að skilyrði a liðar 103. gr teljast uppfyllt ber að taka kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 23. nóvember nk. til greina.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði X sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. nóvember 2000, kl. 16.00.