Hæstiréttur íslands
Mál nr. 441/2014
Lykilorð
- Samningur
- Forsenda
- Ábyrgð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2015. |
|
Nr. 441/2014.
|
Hafnarfjarðarkaupstaður (Kristín Edwald hrl.) gegn Hansen ehf. (Valgeir Kristinsson hrl.) og gagnsök |
Samningur. Forsenda. Ábyrgð. Skaðabætur.
Sumarið 2007 stóð H að umfangsmiklum framkvæmdum á svokölluðum Byggðasafnsreit í Hafnarfirði sem náði að hluta inn á lóð H ehf. Fyrirhuguð framkvæmd var kynnt fyrir H ehf. sem veitti samþykki sitt fyrir því að farið yrði inn á lóð hans. Ekki var gerður skriflegur samningur um framkvæmdirnar og fyrirkomulag þeirra. Árið 2013 höfðaði H ehf. mál gegn H til heimtu skaðabóta vegna skemmda á fasteign sinni sem hann taldi að mætti rekja til uppgraftar og vinnu því samfara á lóðinni. Í dómi héraðsdóms var H gert að greiða H ehf. 4.865.699 krónur í skaðabætur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að meta yrði samskipti aðila á þann veg að í reynd hefði komist á í millum þeirra munnlegur samningur um framkvæmd verksins og að leggja yrði til grundvallar að samþykki H ehf. við framkvæmdunum hefði verið bundið þeirri forsendu að hann yrði skaðlaus af þeim nema á annan veg væri samið. Ekki hefði komið fram að svo hefði verið gert. Af því leiddi að H hefði verið skylt að bæta tjón sem varð á fasteign H ehf. og gilti þá einu hvort það yrði rakið til H eða þeirra sem á hans vegum unnu. Talið var að H hefði ekki hnekkt niðurstöðu yfirmatsgerðar í málinu um að nauðsynlegt væri að byggja undirstöður undir fasteigninni og var sá kostnaðarliður því tekin til greina í Hæstarétti, en honum hafði verið hafnað í héraði. Var H gert að greiða H ehf. 5.415.699 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. júní 2014. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður falli niður.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 1. september 2014. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 7.175.373 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. júlí 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að ákvæði héraðsdóms um málskostnað verði staðfest og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Í hinum áfrýjaða dómi er lýst framkvæmdum þeim sem aðaláfrýjandi réðst í á svokölluðum Byggðasafnsreit í Hafnarfirði sumarið 2007 og hvernig ráðgert var að þær næðu inn á lóð gagnáfrýjanda. Jafnframt er þar rakið með hvaða hætti fyrirsvarsmenn aðaláfrýjanda komu á framfæri við gagnáfrýjanda ósk um heimild til framkvæmda á lóð hins síðarnefnda og samþykki hans við þeirri málaleitan. Ekki var gerður skriflegur samningur um framkvæmdirnar og fyrirkomulag þeirra, en meta verður samskipti aðila á þann veg að í reynd hafi komist á í millum þeirra munnlegur samningur um framkvæmd verksins. Að samkomulagi varð að aðaláfrýjandi kostaði að öllu leyti framkvæmdir á lóð gagnáfrýjanda og að hinn síðarnefndi eignaðist þær endurbætur sem við það urðu á lóðinni. Leggja verður til grundvallar að samþykki gagnáfrýjanda við framkvæmdunum hafi verið bundið þeirri forsendu að hann yrði skaðlaus af þeim nema á annan veg væri samið. Ekki er fram komið að svo hafi verið gert. Af því leiðir að tjón sem varð á fasteign gagnáfrýjanda við framkvæmdirnar var aðaláfrýjanda skylt að bæta og gildir þá einu hvort það verður rakið til aðaláfrýjanda sjálfs eða þeirra sem á hans vegum unnu.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að skemmdir þær sem urðu á heitavatnslögn þeirri sem liggur að húsi gagnáfrýjanda sé að rekja til verktaka sem starfaði á vegum aðaláfrýjanda að framkvæmdinni. Ber aðaláfrýjandi samkvæmt framansögðu ábyrgð á því tjóni gagnáfrýjanda sem af hlaust.
Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir matsgerðum þeim sem gagnáfrýjandi aflaði til sönnunar um orsakir tjóns síns og umfang þess. Samkvæmt undirmatsgerð nemur kostnaður við úrbætur 3.644.000 krónum. Héraðsdómur sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum reisti niðurstöður sínar á undirmatsgerð að öðru leyti en því að ekki var fallist á að nauðsynlegt væri að leggja nýjar neysluvatnslagnir og dró frá kostnað af þeim sökum sem var 360.000 krónur. Voru gagnáfrýjanda samkvæmt því dæmdar skaðabætur á grundvelli undirmatsgerðarinnar að fjárhæð 3.284.000 krónur. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þessa niðurstöðu um þá liði í dómkröfu gagnáfrýjanda sem studdir voru við undirmatsgerðina.
Yfirmatsmenn töldu að í undirmatsgerð hefði verið metið allt það tjón sem gagnáfrýjandi varð fyrir annað en tjón vegna sigs í gólfi. Töldu yfirmatsmenn að gera þyrfti endurbætur á undirstöðum í skriðrými til þess að lagfæra sigið sem fælist í því að lyfta undir burðarbita með vökvatjökkum og skjóta inn nýjum. Tillögur yfirmatsmanna um úrbætur voru sundurliðaðar í yfirmatsgerðinni og töldu þeir kostnað af þeim sökum nema 2.131.699 krónum. Héraðsdómur var sammála yfirmatsmönnum um að sig í gólfi væri að rekja til leka frá hitaveitulögninni og var sú niðurstaða að auki studd framburði vitna. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er sú niðurstaða staðfest.
Héraðsdómur féllst hins vegar ekki á með yfirmatsmönnum að byggja þyrfti undirstöður undir húsið þar sem engar slíkar væru þar fyrir. Kostnað vegna þessa, 550.000 krónur, dró héraðsdómur samkvæmt því frá þeim bótum sem hann ákvarðaði á grundvelli yfirmatsgerðarinnar. Rökstuðningur yfirmatsmanna hvað þetta atriði varðar er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Þegar litið er til þess sem segir í yfirmatsgerð um orsakir sigs í gólfinu þykir, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðaláfrýjandi ekki hafa hnekkt þeirri niðurstöðu hennar að nauðsynlegt sé að byggja undirstöður undir húsið og að kostnaður af þeim sökum nemi 550.000 krónum. Verður þessi kostnaðarliður því tekinn til greina. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um aðra kostnaðarliði.
Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 5.415.699 krónur með dráttarvöxtum eins og þeir voru ákvarðaðir í héraðsdómi. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Eftir framangreindum úrslitum verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Hafnarfjarðarkaupstaður, greiði gagnáfrýjanda, Hansen ehf., 5.415.699 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. júlí 2012 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. apríl 2014.
Mál þetta var þingfest 15. maí 2013 og tekið til dóms 6. mars sl. Stefnandi er Hansen ehf., Vesturgötu 4, Hafnarfirði, en stefndu eru Hafnarfjarðarbær, Strandgötu 6-8, Hafnarfirði, þrotabú Á og F flutninga ehf. og Vörður tryggingar hf., Borgartúni 25, Reykjavík. Til vara er stefnda Verði tryggingum hf. stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega gagnvart stefndu Hafnarfjarðarbæ og Verði tryggingum hf. að þeir verði in solidum dæmdir til greiðslu 8.624.272 króna auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. júlí 2012 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar. Til vara gerir stefnandi sömu kröfu gegn stefnda Hafnarfjarðarbæ og stefnda Verði tryggingum hf. að öðru leyti en því að í varakröfu er þess krafist að stefndi Vörður tryggingar greiði stefnufjárhæð með dráttarvöxtum frá 1. febrúar 2012.
Stefndi Hafnarfjarðarbær krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Undir rekstri málsins féll stefnandi frá kröfum á hendur stefnda þrotabúi Á og F flutninga ehf. en þrotabúið krefst málskostnaðar í málinu.
Stefndi Vörður tryggingar hf. krefst sýknu og málskostnaðar.
I
Málsatvik eru þau að stefndi Hafnarfjarðarbær bauð út á árinu 2007 verkið: Byggðasafnsreitur, endurgerð lóðar, 1. áfangi. Verktakinn Íslandsgarðar ehf. bauð í verkið og var gerður verksamningur við hann. Byggðasafnsreiturinn liggur að lóð stefnanda að Vesturgötu 4, Hafnarfirði, og taldi stefndi Hafnarfjarðarbær nauðsynlegt í tengslum við þessa framkvæmd að grafa upp skolplögn á lóð stefnanda, leggja nýja og lækka jarðveg við hús stefnanda. Íslandsgarðar ehf. önnuðust þá framkvæmd. Stefnandi heldur því fram að við þennan uppgröft og vinnu samfara honum hafi heitavatnslögn á lóð stefnanda skemmst með þeim afleiðingum að vatn lak undir hús stefnanda og olli skemmdum. Deila aðilar um hver beri ábyrgð á tjóni stefnanda. Verktakinn var með ábyrgðartryggingu hjá Verði tryggingum hf.
Nánari málavextir eru þeir að stefndi Hafnarfjarðarbær gerði verksamning við Íslandsgarða ehf. 24. maí 2007 (síðar Á og F flutningar ehf.), sem varð gjaldþrota 7. febrúar 2012, og fól verkið í sér endurgerð lóðar á svokölluðum byggðasafnsreit með jarðvegsskiptum, lagnavinnu, hlöðnum veggjum, hellulögn, gróðurbeðum o. fl. Framkvæmdir hófust vorið 2007 og var verkfræðistofan Strendingur ehf. eftirlitsaðili með verkinu. Framkvæmdin fól í sér töluverðan uppgröft á lóð stefnanda að Vesturgötu 4, Hafnarfirði.
Fyrirsvarsmaður stefnanda, Sigurður Óli Sigurðsson, sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að upphaf málsins hafi verið að hann fékk tilkynningu frá stefnda Hafnarfjarðarbæ um fyrirhugaðar framkvæmdir á byggðasafnsreit og að stefndi Hafnarfjarðarbær hefði áhuga á að framkvæmdirnar næðu inn á baklóð stefnanda að Vesturgötu 4, m.a. með hleðslu veggs á lóðarmörkum og með lagningu gangvegar milli lóða. Hann hafi jafnframt fengið sendar teikningar. Hann hafi hafnað hugmynd stefnda um grjótgarð og þá hafi komið fram nýjar hugmyndir um hleðsluvegg sem hann hafi samþykkt og jafnframt samþykkt að stefndi Hafnarfjarðarbær hæfi framkvæmdir á lóð hans. Sigurður Óli kvaðst hafa hitt Helgu Stefánsdóttur verkfræðing, hjá stefnda Hafnarfjarðarbæ, á verkstað sumarið 2007 þegar framkvæmdir voru hafnar. Hún hafi sagt honum að nauðsynlegt væri að lækka jarðveg við norðurhlið húss stefnanda og hann sagt henni að skólprör væru undir þessu svæði. Af því tilefni hafi verið boðað til fundar á skrifstofu stefnda Hafnarfjarðarbæjar 13. júlí 2007 þar sem saman voru komnir Pétur Vilberg Guðnason, verkfræðingur hjá eftirlitsaðila verksins, Helga Stefánsdóttir, Sigurður Óli, Runólfur Sveinsson verkfræðingur frá VSB verkfræðistofu og Jóhann Kristinsson verkfræðingur hjá eftirlitsaðila verksins. Í fundarboði er sagt að fundarefni verði heimæðar fyrir skolplögn frá húsi stefnanda. Segir stefnandi að á þessum fundi hafi verið farið yfir nauðsyn þess að grafa upp skolplögn sem hafi legið með öllum norðurgafli húss stefnanda og fyrir norðvestur-horn þess. Þá hafi einnig verið rætt um að lækka jarðveg við norðvestur-horn hússins.
Verktakinn Íslandsgarðar ehf. var fenginn til þess að grafa upp skolplögnina, færa hana og tengja við brunn sem verið var að setja niður nokkuð frá. Baklóð stefnanda var hellulögð og voru hellur fjarlægðar og jarðvegur grafinn upp. Sagði Sigurður Óli að öll baklóðin hafi verið grafin upp alveg frá norðaustur horni hússins.
Stefnandi heldur því fram að við þessa framkvæmd Íslandsgarða ehf. hafi aðalheitavatnslögn fyrir hús stefnanda að Vesturgötu 4, Hafnarfirði, skemmst. Skemmdin hafi orðið um 5 metra frá húsinu og um 1,70 metra frá hleðsluvegg sem verktakinn reisti. Skemmdin hafi verið á hlíf eða kápu, sem hafi verið utan um rörið, og lýst sér þannig eins og rörið hafi orðið fyrir hnjaski við mokstur gröfu. Lekans hafi orðið vart um 2-3 mánuðum síðar með þeim hætti að nokkur raki hafi myndast undir gólfi hússins að Vesturgötu 4. Stefnandi kveðst þá hafa fengið menn til þess að skoða skriðkjallara undir húsinu en engin skýring fengist á rakauppstreyminu. Gripið hafi verið til þess ráðs að setja loftun á útveggi skriðkjallarans og tengja lofthreinsibúnað við hann. Einnig hafi verið skipt út neysluvatnslögnum í kjallaranum og þær lagðar ofan gólfs. Þetta hafi verið gert í október 2009 en það hafi ekki verið fyrr en í ágúst 2010 sem ástæða fyrir lekanum hafi uppgötvast með þeim hætti að Sigurður Óli hafi gert sér grein fyrir að sökkull hússins var heitur og því líkur á að heitt vatn streymdi undir húsið.
Gert var við heitavatnsrörið 5. ágúst 2010. Viðstaddir uppgröftinn voru Ishmael R. David, starfsmaður stefnda Hafnarfjarðarbæjar, Arnór Einarsson, starfsmaður Orkuveitu Reykjavíkur, og Sigurður Óli. Í framlagðri yfirlýsingu og skýrslu sinni fyrir dómi sagði Arnór að skemmdin á heitavatnsrörinu hafi verið í um fimm metra fjarlægð frá húsgafli stefnanda. Honum hafi virst að grafið hafi verið í kápu rörsins sem sé úr plasti. Sé það gert ryðgi rörið fljótt og þá myndist gat á því með þeim afleiðingum að vatn eigi greiða leið út. Arnór taldi ljóst að átt hefði verið við lögnina eftir að Orkuveita Reykjavíkur lagði rörið á sínum tíma. Orkuveitan gangi ævinlega frá lögn þannig að settur sé sandur í kringum hana og gulur borði á sandinn. Við uppgröft hafi hann séð að þannig var ekki gengið frá lögninni, heldur grófur jarðvegur undir henni.
Magnús Guðmundsson pípulagningameistari var undirverktaki hjá Íslandsgörðum ehf. og lagði m.a. skolplögnina. Hann staðfesti yfirlýsingu sína fyrir dómi um að allt svæðið fyrir norðan hús stefnanda hafi verið uppgrafið er hann kom að sínu verki. Ragnar Jónsson, pípulagningameistari og starfsmaður Vatnsveitu Hafnarfjarðarbæjar, lagð rör inn í hús stefnanda vegna endurnýjunar á kaldavatnslögn. Hann sagði að allt svæðið fyrir aftan hús stefnanda hafi verið grafið upp alveg frá norðaustur horni þess, þ.á. m. á því svæði þar sem heitavatnslögnin var. Hann kvaðst hafa séð skemmd á heitavatnslögninni í um 3-5 metra fjarlægð frá húsi stefnanda. Hann hafi kallað til verkstjóra Íslandsgarða ehf. og sagt honum að gera þyrfti við þessa skemmd. Hann hafi gefið honum upp nafn Arnórs Einarssonar hjá Orkuveitu Reykjavíkur og símanúmer hans. Verkstjórinn hafi verið erlendur en virst skilja hann. Helga Stefánsdóttir verkfræðingur var fulltrúi stefnda Hafnarfjarðarbæjar við þessa framkvæmd. Hún sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hafi séð um útboð og samninga við verktakann. Hún hafi einnig séð um samskipti við verktakann sem hafi aðallega farið fram á verkfundum. Eftirlit hafi verið í höndum verkfræðistofunnar Strendings ehf. Hún sagði að verktakinn hafi lagt fram verkábyrgð í formi ábyrgðartryggingar en tryggingarmál verktakans hafi ekki verið sérstaklega kynnt fyrir fyrirsvarsmanni stefnanda.
Fyrir liggur í málinu að stefnandi nýtti sér aðstæður þegar búið var að grafa upp jarðveg við norðurgafl hússins og setti niður fituskilju við húsvegginn. Bað hann Hólmgeir Inga Guðnason, framkvæmdastjóra Íslandsgarða ehf., um að grafa frá húsinu í þessu skyni og greiddi honum fyrir með máltíð fyrir tvo á veitingahúsinu A. Hansen.
Stefnandi mun hafa sent stefnda Hafnarfjarðarbæ kröfubréf 5. september 2010 og var honum bent á tryggingarfélag stefnda Hafnarfjarðarbæjar. Tryggingarfélagið hafnaði kröfu stefnanda með bréfi 21. mars 2011 á þeirri forsendu að ósannað væri að tjón hefði orðið vegna framkvæmda sem stefndi Hafnarfjarðarbær bæri ábyrgð á. Jafnframt að frjáls ábyrgðartrygging taki ekki til skaðabótaábyrgðar sem sjálfstæður verktaki kunni að baka sér. Stefnandi sendi stefnda Hafnarfjarðarbæ skaðabótakröfu 4. júlí 2012 sem stefndi hafnaði með bréfi 10. sama mánaðar. Stefnandi mun einnig hafa sent stefnda Verði tryggingum hf. bréf vegna kröfu sinnar á hendur verktakanum. Þeirri kröfu var hafnað með bréfum 15. febrúar 2013 og 9. apríl 2013.
II
Stefnandi fékk Davíð Karl Andrésson húsasmíðameistara til þess að gera ástandskönnun þegar lekans varð vart og er skýrsla hans dagsett 24. ágúst 2010.
Stefnandi óskaði eftir mati dómkvadds matsmanns 13. maí 2011 og var Hjalti Sigmundsson, húsasmíðameistari og byggingartæknifræðingur, kvaddur til starfans. Eftirfarandi spurningar vor lagðar fyrir matsmann:
1. Að skoða og meta rakaskemmdir sem urðu vegna leka frá heitavatnsinntaki við austurgafl hússins að Vesturgötu 4, Hafnarfirði, er heitt vatn rann inn í grunninn í fyrstu og aðallega undir eldhúsgólf og í skriðkjallara þar sem veitingahúsið A Hansen er til húsa. Útskýra ástæður þess að vatn og raki hefur náð að komast í grunninn og undir húsið og valda skemmdum á því og skemmdum innanhúss.
2. Að leggja fram rökstuddar tillögur um hvað gera þurfi til að ráða bót á þeim skemmdum sem um getur í 1. tl. hér að ofan.
3. Að meta hvað það kostar að bæta úr meintum göllum.
4. Að matsmaður leggi fram rökstutt mat á því tjóni sem matsbeiðandi hefur þegar orðið fyrir vegna tjóns á lausafé og vegna kostnaðar við þrif og hreingerningar og kostnað við flutninga á innbúi og lausafé sem fylgir væntanlegum viðgerðum.
5. Hvert er tjón matsþola vegna vinnu og fyrir efni vegna framkvæmda og viðgerða sem matsbeiðandi hefur þegar innt af hendi?
6. Að leggja mat á orsakasamband skemmda á inntakslögn hitaveitu og tjóns matsbeiðanda.
Matsmaður telur að skemmdir hafi orðið á húsinu vegna raka sem rekja megi til leka á heimæð hitaveitu norðan við húsið. Heitt vatn hafi sigið frá lekri heimæðinni inn undir húsið og valdið því að hitastig og raki undir húsinu hefur hækkað og gufa stigið upp í húsinu. Það hafi valdið skemmdum á gólfum og hurðir skekkst þegar viðir þrútna og gólf og veggir ganga til vegna rakahreyfinga í viðnum. Greið leið sé fyrir vatn að síga í gegnum fyllingar og sökkul hússins sem er hlaðinn úr grjóti á malarkambi. Engin rakavörn sé í jarðvegi í skriðrými og gufi vatn því þar upp og geti óhindrað stigið upp í gólf. Matsmaður taldi sig ekki geta staðreynt að gólf í eldhúsi og hús að norðaustanverðu hafi sigið og skemmst vegna leka frá heimæð hitaveitu en telur það ólíklegt, enda hafi ekki verið vatnsstraumur í sandfyllingu undir gólfinu. Matsmaður getur ekki staðreynt að burðarvirki hússins hafi sigið vegna leka frá heimæð hitaveitu en telur það ólíklegt. Matsmaður telur að flísar og múrlögn á gólfi í lagnarými sé brotin vegna hreyfinga á gólfinu og að hreyfingarnar stafi af því að gólfið sé ekki nægilega stíft en ekki vegna skemmda sem rekja megi til leka á heimæð hitaveitu.
Matsmaður lagði fram rökstuddar tillögur um hvað gera þurfi til að ráða bót á þeim skemmdum sem um getur hér að framan.
Síðan lagði matsmaður mat á kostnað við að bæta úr göllum. Matsmaður metur hæfilegan kostnað við að bæta úr því sem gengið hefur úr lagi og rekja má til bilunar á heimæð hitaveitu. Matmaður metur ekki kostnað við endurbætur á gólfi í eldhúsi og hellulögn vestan við húsið þar sem hann telur að ekki sé hægt að rekja þessar skemmdir til áðurnefnds leka á heimæð hitaveitu. Ekki er metinn kostnaður við úrbætur sem matsmaður telur að gera þurfi og eru ótengdar leka á heimæð hitaveitu, s.s. að bæta loftræstingu skriðrýmis og rakavörn í botn skriðrýmis.
Metnar úrbætur felast í eftirfarandi: 1. Taka hurðir úr salernum og falda af hurð að borðsal. 2. Taka upp innréttingar og skilrúm á salernum og salernistæki. 3. Taka upp gólfefni, parket í anddyri og gangi, og flísar og plötur undir þeim á salernum. 4. Taka upp gólfborð sem eru undir gólfefni þannig að hægt sé að fjarlægja sag og pappa sem er á innskotsborðum. Taka niður þil undir stiga og borðsal á efri hæð til að komast að gólfi. 5. Setja niður vindpappa og steinullareinangrun. 6. Klæða gólf að nýju með gólfborðum sem áður voru tekin upp en bæta við eftir þörfum. 7. Ganga frá rakavarnarlagi á gólfborð og leggja gegnheilt eikarparket á anddyri og gang framan við salerni. Leggja rakavarðar plötur á gólf salerna og flísaleggja líkt og áður var. 8. Ganga frá salernisskálum, innréttingum og skilrúmum. 9. Setja hurðir í aftur. 10. Ganga frá þili undir stiga. 11. Mála veggi og loft. 12. Mála hurðarkarma og falda. 13. Endurnýja veggfóður á gangi við salerni.
Matsmaður lýsti þeim þáttum sem búið er að vinna en gat ekki staðfest að vinna, sem upplýst er að hafi þurft að inna af hendi, sé eðlileg eða ekki. Niðurstaða matsmanns kemur fram í sundurliðuðum kostnaðarliðum í matsgerð. Nemur matsfjárhæð 3.644.000 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti að fjárhæð 985.000 krónur.
Stefnandi féllst ekki á rök og sjónarmið matsmannsins að öllu leyti og óskað eftir yfirmatsgerð þann 11. janúar 2012. Þann 14. febrúar 2012 skipaði Héraðsdómur Reykjaness þá Sigurð Hafsteinsson, byggingartæknifræðing og húsasmíðameistara, og Heiðar Jónsson pípulagningarmeistara og byggingartæknifræðing sem yfirmatsmenn.
Yfirmatsmenn telja að sig á gólfi megi rekja til skemmda á inntakslögn hitaveitu. Við skoðun sjáist að sandur hefur hreyfst til undir gólfinu og talsvert bil myndast á milli fyllingar og steyptrar plötu. Það svæði, sem hafi sigið, sé um 15 fermetrar að stærð. Samkvæmt mælingu sé sig 35 mm þar sem það sé mest eða um 200-250 lítrar af sandi sem skriðið hefur undan plötunni. Sjá megi þennan sand vestan megin við hlaðna undirstöðu sem sé staðsett í skriðrými vestan við eldhúsið. Þannig megi ljóst vera að ekki þurfti mikið sandmagn að hreyfast til undir plötunni til þess að valda sigi. Samkvæmt öllum fyrirliggjandi gögnum hafi myndast umtalsverður raki undir gólfinu. Yfirmatsmenn telja yfirgnæfandi líkur á því að sig í undirstöðum hússins megi rekja til bilunar í hitaveitulögn. Varðandi gólf í frystiklefa, sem var settur upp vorið 2007, hafi gólf hans verið látið halla til þess að vatn gæti lekið út úr klefanum við hreinsun á honum. Þetta hafi Steinar Ágústsson, sem annaðist uppsetningu klefans, staðfest í yfirlýsingu til yfirmatsmanna. Nú sýni hins vegar mælingar yfirmatsmanna að gólf klefans halli í öfuga átt. Niðurstöður yfirmatsmanna eru studdar mælingum og ljósmyndum.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í undirmati hafi plan undir eldhúsi verið steypt 1995 og byrji ekki að síga fyrr en umræddur leki kom fram norðan við húsið árið 2007. Þess vegna álykta yfirmatsmenn að fyllingin hafi staðist það álag sem kom frá plötunni áður en raki og bleyta komst í fyllinguna. Yfirmatsmenn telja að ef ástand í fyllingu undir plötu hefði haldist óbreytt hefði platan ekki átt að síga undan þyngd frystis, enda þyngd frystis óveruleg.
Einnig kom í ljós við mælingar á gólfum á neðri og efri hæð að efri hæðin hefur sigið. Yfirmatsmenn telja að í undirmati hafi verið metið það tjón sem varð, annað en sig. Gera þurfi endurbætur við undirstöður á skriðrými til þess að lagfæra sig og felist þær endurbætur í því að lyfta undir burðarbita með vökvatjökkum og skjóta inn nýjum undirstöðum.
Yfirmatsmenn telja að framlagður reikningur pípulagningamanns sé vinna sem sannanlega hafi verið innt af hendi ásamt tilheyrandi efni. Varðandi vinnuframlag stefnanda vísuðu yfirmatsmenn til undirmats og voru sammála því.
Tillögur yfirmatsmanna um úrbætur eru sundurliðaðar í yfirmatsgerð og er niðurstaða þeirra að það kosti 2.131.699 krónur með virðisaukaskatti að bæta úr framangreindum göllum.
Í samræmi við þetta sundurliðar stefnandi dómkröfu sína með eftirfarandi hætti:
Samkvæmt undirmatsgerð 3.644.000 kr.
Samkvæmt yfirmatsgerð 2.131.699 kr.
Reikningur undirmatsmanns 857.793 kr.
Reikningur yfirmatsmanna 591.106 kr.
Reikningur fyrir sérfræðiaðstoð 141.188 kr.
Ferðakostnaður framkvæmdastjóra stefnanda 395.046 kr.
Eigin vinna framkvæmdarstjóra 722.880 kr.
Vinna blikksmiðs og framkvæmdastjóra stefnanda 140.560 kr.
Varðandi ferðakostnað að fjárhæð 395.046 krónur tekur stefnandi fram að framkvæmdastjóri stefnanda hafi dvalið í Kólumbíu á veturna en á Íslandi á sumrin frá árinu 2006 til 2011 og því þurft að gera sér sérstaka ferð til Íslands í nóvember 2010 til þess að sinna þessu máli. Varðandi eigin vinnu framkvæmdastjóra hafi hann þurft að leggja fram vinnu vegna tjónsins, alls 160 klst. á 3.600 krónur eða samtals 722.880 krónur. Vinna blikksmiðs og framkvæmdastjórans er í stefnu sögð nema 140.560 krónum.
III.
Krafa stefnanda gegn stefnda Hafnarfjarðarbæ er á því reist að stefndi hafi fengið heimild hjá stefnanda til að vinna við baklóð stefnanda á þeirri forsendu að stefndi Hafnarfjarðarbær myndi sjálfur vinna verkið eða aðilar sem hann tæki fulla ábyrgð á. Þannig hafi öll samskipti á verktíma verið við Helgu Stefánsdóttur, starfsmann á framkvæmdasviði Hafnarfjarðarbæjar, og hafi hún tekið allar ákvarðanir og stjórnað framkvæmdum. Stefnandi hafi ekki betur vitað en að þeir sem voru að störfum væru starfsmenn bæjarins eða aðilar á hans vegum. Því hafi stefndi Hafnarfjarðarbær borið fulla ábyrgð á verkinu og hugsanlegu tjóni gagnvart stefnanda og geti ekki vísað þeirri ábyrgð á aðra. Stefndi Hafnarfjarðarbær hafi ekki leitað samþykkis stefnanda til að láta óháðan verktaka vinna verkefnið inni á lóð stefnanda. Stjórnvöld geti ekki undanskilið sig ábyrgð á verkum sem þau láti verktaka framkvæma. Ábyrgð stefnda Hafnarfjarðarbæjar sé enn ríkari en ella vegna þess að starfsmaður bæjarins, Ragnar Jónsson, verkstjóri hjá Vatnsveitu Hafnarfjarðar, hafi staðfest að sumarið 2007, þegar hann var að vinna við að tengja rör inn í hús stefnanda, hafi hann séð skemmdina á hitaveiturörinu. Hann hafi hins vegar ekki tilkynnt það með tryggilegum hætti og ekki gengið eftir að viðgerð færi fram. Þessi vanræksla hafi haft bein áhrif á tjónið.
Á grundvelli 44. gr. 1. mgr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga geti tjónþoli krafist bóta beint hjá tryggingafélagi og því sé stefnda Verði tryggingum hf. stefnt í málinu.
Til vara sé félaginu stefnt til réttargæslu verði talið að stefnandi eigi ekki beina kröfu á tryggingafélagið.
Stefnandi telur að stefndu Hafnarfjarðarbær og Íslandsgarðar ehf. (síðar Á og F flutningar ehf.) hafi bakað sér skaðabótaábyrgð með því að valda tjóni á hitaveitulögn á lóð stefnanda en stefndi Hafnarfjarðarbær hafi fengið heimild stefnanda til að fara inn á lóðina til að færa holræsalögnina á lóð stefnanda. Stefnandi hafi ekki vitað það fyrr en haustið 2012 að stefndi hafði fengið verktakann Íslandsgarða ehf. til að annast verkið. Verktakinn Íslandsgarðar ehf. beri sjálfstæða skaðabótaábyrgð á tjóninu með því að beita eigin vinnutækjum á lóð stefnanda að beiðni stefnda Hafnarfjarðarbæjar. Stefnda Hafnarfjarðarbæ hafi borið skylda samkvæmt stjórnsýslulögum að upplýsa og fræða stefnanda um hver bæri ábyrgð á tjóninu. Það hafi stefndi Hafnarfjarðarbær hins vegar ekki gert og með því brugðist skyldu sinni. Þvert á móti hafi stefndi Hafnarfjarðarbær leitt stefnanda á villigötur með því að gefa upp rangar upplýsingar um verkið og framkvæmd þess. Stefnandi hafi því sent tjónatilkynningu til Sjóvár-Almennra tryggingar hf. samkvæmt leiðbeiningum stefnda en þær hafi reynst rangar. Húsbóndaábyrgð opinberra aðila sé mjög rík gagnvart tjónþolum þegar um verktöku sé að ræða og verktakasamningar upphefji hana ekki. Stefndi Hafnarfjarðarbær hafi ráðið verktaka til að færa frárennslislögnina og beri hann fulla ábyrgð á tjóni sem verktakinn olli. Stefnandi hafi veitt stefnda Hafnarfjarðarbæ einum samþykki til að grafa á lóðinni og hafi talið að starfsmenn stefnda myndu vinna verkið. Stefnandi hafi ekki haft afskipti af því hvort stefndi Hafnarfjarðarbær ynni verkið með eigin starfsmönnum eða réði aðra til verksins. Stefnandi hafi aldrei áttað sig á því að aðrir en starfsmenn stefnda kæmu að verkinu. Telja verði að stefndi Hafnarfjarðarbær hafi haft með höndum stjórn verksins með því að stjórna hvar uppgröfturinn fór fram, stjórna því hvað ætti að gera og fylgja því eftir með eigin eftirlitsaðila eins og komið hafi fram á fundinum 13. júlí 2007. Stefndi hafi ráðið verktaka á eigin ábyrgð. Hafnarfjarðarbær hafi haft eftirlitsskyldu á öllum verkþáttum og ráðið til sín eftirlitsaðilann Strending ehf. Telja verði að eftirliti hafi verið ábótavant en þar sé ekki við stefnanda að sakast.
Stefnandi byggir á meginreglu skaðabótaréttar og almennu skaðabótareglunni. Stefnandi eigi lögvarða kröfu á stefnda Hafnarfjarðarbæ vegna athafna og athafnaleysis stefnda. Krafan á tryggingarfélagið byggist á vátryggingarsamningi verktakans og tryggingarfélagsins. Byggt er á lögum um vátryggingarsamninga vegna stefnda Varðar tryggingar hf. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1.mgr. 130. gr., sbr. 129 gr., laga 91/1991.
IV
Stefndi Hafnarfjarðarbær mótmælir kröfum stefnanda svo og málsástæðum og lagarökum. Af hálfu stefnda er á því byggt að ekki hafi verið sýnt fram á skaðabótaábyrgð Hafnarfjarðarbæjar vegna tjóns stefnda. Vísað er til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að tjón stefnanda sé sennileg afleiðing ólögmætrar og saknæmrar athafnar eða athafnaleysis starfsmanna stefnda Hafnarfjarðarbæjar. Að auki hafi ekki verið sýnt fram á bein orsakatengsl milli framkvæmda við byggðasafnsreit og skemmda á hitaveitulögn.
Stefnandi vísi til þess að stefndi Hafnarfjarðarbær hafi fengið heimild hjá stefnanda til að vinna við baklóð stefnanda á þeirri forsendu að stefndi Hafnarfjarðarbær myndi sjálfur vinna verkið eða aðilar sem stefndi Hafnarfjarðarbær tæki fulla ábyrgð á. Þeirri fullyrðingu sé alfarið mótmælt en í 2. kafla útboðsskilmála vegna verksins sé kveðið á um að verktaki beri sjálfur ábyrgð og kostnað á því tjóni sem menn hans eða framkvæmd verksins kunni að valda þriðja aðila. Það sé því einfaldlega ekki rétt að bærinn hafi ætlað að taka á sig hlutlæga ábyrgð gagnvart verktakanum. Því er jafnframt mótmælt sérstaklega að Helga Stefánsdóttir, starfsmaður framkvæmdasviðs stefnda Hafnarfjarðarbæjar, hafi stjórnað framkvæmdum á verkstað. Framkvæmdir hafi alfarið verið í höndum verktaka og eina aðkoma Helgu að verkinu hafi verið að sitja fundi vegna framkvæmdarinnar og að fylgjast að öðru leyti með framgangi verksins. Öll verkstjórn og ábyrgð á verkinu hafi verið hjá verktaka. Starfsmenn stefnda Hafnarfjarðarbæjar hafi ekki haft boðvald yfir starfsmönnum verktaka, ekki valið þá starfsmenn sem fengnir voru til verksins, ekki skipulagt vinnu þeirra og ekki haft umsjón eða eftirlit með hvernig vinnu þeirra á verkstað var hagað. Eftirlitsaðili með verkinu, einnig sjálfstætt starfandi verktaki, Strendingur ehf., hafi komið að framkvæmdinni á þann hátt að hann sá um dagleg samskipti við verktaka. Eftirlitsaðilinn hafi heldur ekki haft með höndum verkstjórn eða stýringu á daglegum verkefnum verktakans eða einstakra starfsmanna á verkstað. Hans hlutverk hafi fyrst og fremst verið að fylgjast með framvindu verksins og að unnið væri samkvæmt útboðsgögnum og áætlun verktaka. Í þessu sambandi vísar stefndi Hafnarfjarðarbær sérstaklega til 17. kafla í íslensku staðli 30 er þá gilti.
Stefnandi fullyrði að hann hafi staðið í þeirri trú að þeir sem voru að störfum væru starfsmenn bæjarins eða aðilar á hans vegum. Stefndi Hafnarfjarðarbær vísar til þess að stefnandi hafi sjálfur samið við verktakann um ákveðið verk og að honum hafi mátt vera ljóst að þarna var um sjálfstætt starfandi verktaka að ræða, auk þess sem öll gögn bendi til þess að hann hafi verið meðvitaður um það. Þó sé rétt að taka fram að vanþekking hans í þeim efnum hafi ekki þýðingu gagnvart skaðabótaábyrgð stefnda Hafnarfjarðarbæjar.
Stefndi Hafnarfjarðarbær mótmælir því jafnframt að starfsmaður Vatnsveitu Hafnarfjarðarbæjar, Ragnar Jónsson, hafi sýnt af sér vanrækslu þegar hann að eigin sögn upplýsti og benti flokkstjóra á vegum verktakans, Íslandsgarða ehf., sérstaklega á skemmd á hitaveituröri á verkstað. Ragnar hafi hvorki haft umsjón né eftirlit með þessum framkvæmdum en séð skemmdina fyrir tilviljun þegar hann vann við að setja niður kaldavatnslögn við húsið.
Stefnandi byggi á því að stefndi Hafnarfjarðarbær, ásamt Íslandsgörðum ehf., hafi bakað sér skaðabótaábyrgð með því að valda tjóni á hitaveitulögn á lóð stefnanda. Stefndi Hafnarfjarðarbær mótmælir þessu sérstaklega og áréttar að ekki hafi verið sýnt fram á að starfsmenn bæjarins hafi valdið nokkurri skemmd á hitaveitulögninni eða getað komið í veg fyrir að tjónið hefði orðið. Það sé því ósannað með öllu að rekja megi tjónið til starfsmanna stefnda Hafnarfjarðarbæjar sem sé skilyrði þess að stefndi Hafnarfjarðarbær beri skaðabótaábyrgð. Raunar sé vafa undirorpið hvort skemmdin á hitaveitulögninni sé yfirhöfuð tilkomin vegna framkvæmdanna eða sé á ábyrgð starfsmanna Íslandsgarða ehf. og að því leyti hafi ekki verið sýnt fram á orsakatengsl milli framkvæmda og tjóns. Í því sambandi sé vert að hafa í huga að yfirgnæfandi líkur séu á að starfsmenn Íslandsgarða ehf. hafi í reynd verið að vinna fyrir stefnanda sjálfan vegna niðurlagningar á fituskilju og tengingar á heimæð í nágrenni þess svæðis, þar sem skemmdin var á lögninni, en að þeir hafi ekki verið að vinna fyrir stefnda Hafnarfjarðarbæ.
Stefnandi vísi jafnframt til þess að stefnda Hafnarfjarðarbæ hafi borið skylda til samkvæmt stjórnsýslulögum að upplýsa og fræða stefnanda þegar tjónið blasti við og leiðbeina honum í hvívetna hver bæri ábyrgð á tjóninu. Það sé hins vegar ekki stefnda Hafnarfjarðarbæjar að kveða úr um skaðabótaábyrgð annarra aðila. Margítrekað hafi komið fram í samtölum við stefnanda og lögmann hans og í niðurstöðu tryggingarfélags að sjálfstæður verktaki hafi unnið verkið. Samkvæmt kröfubréfum stefnanda og lögmanns hans, bæði til stefnda Hafnarfjarðarbæjar og Sjóvár-Almennra trygginga hf., komi berlega fram að stefnandi hafði upplýsingar um hvaða verktaki vann að verkinu, auk þess sem stefnandi sjálfur hafi verið í samskiptum við verktakann vegna niðurlagningar á fituskilju. Það sé því einfaldlega ekki rétt að þessar upplýsingar hafi ekki legið fyrir bæði við framkvæmd verksins og á síðari stigum.
Stefnandi byggi að auki á því að eftirliti með verkinu hafi verið áfátt og að stefndi Hafnarfjarðarbær beri ábyrgð á tjóni sem rekja megi til mistaka við eftirlit. Ekkert sé fram komið í gögnum máls um að eftirliti með verkinu hafi verið áfátt. Eins og fyrr segir þá hafi eftirlitið verið í höndum sjálfstæðs verktaka, Strendings ehf., og falist fyrst og fremst í því að vera í daglegum samskiptum við verktaka og að fylgjast með framvindu verksins. Eftirlitsaðili hafi enga verkstjórn haft á starfsmönnum verktaka og ekki staðið yfir þeim við vinnu sína. Eftirlitið hafi verið í samræmi við reglur og góðar venjur. Stefndi mótmælir því sérstaklega að einhver þau mistök hafi átt sér stað við eftirlitið sem leitt geti til bótaskyldu stefnda Hafnarfjarðarbæjar.
Ef niðurstaða dómsins verði, þrátt fyrir það sem hér hefur komið fram, að bótaskylda stefnda Hafnarfjarðarbæjar hafi stofnast, sé á því byggt að sýkna beri stefnda á grundvelli fyrningar með vísan til 9. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 en ljóst sé, miðað við gögn málsins, að forsvarsmaður stefnanda varð þess áskynja í febrúar 2008 að leki væri í húsnæðinu. Frá og með þeim tíma hafi honum borið að afla sér nauðsynlegra upplýsinga um orsök lekans og mögulegan tjónvald ef einhver væri. Það hafi hann hins vegar látið undir höfuð leggjast og það sé ekki fyrr en um tveimur og hálfu ári síðar sem orsök lekans verði kunn. Réttast sé því að miða fyrningartíma kröfunnar við febrúar 2008.
Varðandi varakröfu sína vísar stefndi Hafnarfjarðarbær til þess að óvíst sé hvert sé raunverulegt umfang tjóns stefnanda. Deildar meiningar séu um ástæður sigs á húsinu en undirmatsmaður álíti að það sé ólíklegt að gólf í eldhúsi og húsi að norðaustanverðu eða burðarvirki hússins hafi sigið og skemmst vegna lekans þar sem enginn vatnsstraumur hafi verið í sandfyllingu undir gólfinu auk þess sem frágangur og þjöppun undir gólfi hafi verið ófullnægjandi og telji matsmaður að gólfið hafi sigið áður en lekans varð vart. Yfirmatsmenn telji að í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga séu yfirgnæfandi líkur á því að sig í undirstöðum hússins megi rekja til bilunar í hitaveitulögn en slái því þó ekki föstu. Yfirmatsmenn meti kostnað við þennan þátt að fjárhæð 2.131.699 krónur. Sé þessum kostnaðarlið sérstaklega mótmælt þar sem matsmönnum beri ekki saman um ástæður sigsins og ályktun í yfirmati virðist fyrst og fremst byggjast á upplýsingum frá stefnanda sjálfum. Í þessu sambandi vísar stefndi Hafnarfjarðarbær jafnframt til þess að húsið að Vesturgötu 4, sem sé um 130 ára gamalt, standi á gömlum sjávarkambi. Á ýmsu hafi gengið í nágrenni þess frá upphafi, s.s. landfyllingar, hafnarstarfsemi, miklar byggingaframkvæmdir og jarðskjálftar. Ekkert liggi fyrir um ástand hússins áður en vatnslekinn var uppgötvaður en allt framangreint geti hafa haft áhrif á sigið. Varðandi aðra kostnaðarþætti sé áréttað að húsið sé gamalt og óljóst um ástand þess að innan fyrir vatnsleka, sem geti haft þýðingu við ákvörðun um skaðabætur auk þess sem ýmsir þættir varðandi frágang hússins hafi að öllum líkindum haft þau áhrif að tjón stefnanda hafi orðið mun meira en ef frágangur hefði verið betri. Engin rakavörn virðist hafa verið undir eða í kringum húsið og undirstöður og þjöppun efnis í grunni ófullnægjandi. Að endingu sé meintum kostnaði vegna vinnu eiganda mótmælt sérstaklega en engin haldbær gögn liggja til grundvallar þeim kostnaðarlið.
Varðandi lagarök vísar stefndi Hafnarfjarðarbær til almennra meginreglna skaðabótaréttarins, einkum meginreglunnar um vinnuveitendaábyrgð á grundvelli sakarreglunnar. Jafnframt er vísað til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, einkum 12. gr., svo og til 9. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á reglum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. laganna.
V
Stefndi Vörður tryggingar hf., tryggingarfélag Á og F flutningar ehf., byggir á því að með öllu sé ósönnuð sök stefnda þrotabús Á og F flutninga ehf. á meintu tjóni stefnanda. Það sé frumskylda stefnanda, eins og hann leggi mál sitt upp, að sanna hvaða verk það eru sem þessi stefndi eða starfsmenn á vegum hans eigi að hafa framkvæmt sem hafi valdið hinu meinta tjóni. Engin tilraun sé gerð til þess í stefnu eða með framlagningu gagna fyrir dómi. Alla grunnþætti sakarreglunnar skorti í þeim efnum. Engin gögn séu því til stuðnings að skemmdir á hlíf eða kápu utan um hitaveiturör hafi valdið tjóni hans og að þær skemmdir megi rekja til verka verktakans. Þar með séu orsakatengsl einnig ósönnuð. Ekkert liggi fyrir um hinar meintu skemmdir. Rörbútnum hafi verið fargað og eingöngu liggi fyrir ljósmynd af rörbút. Hvenær sú mynd var tekin og af hvaða tilefni sé ósannað.
Hvergi í matsniðurstöðum dómkvaddra matsmanna sér tekin afstaða til þess hvað hafi valdið þessari meintu bilun eða skemmdum, enda ekki eftir því óskað af stefnanda sem forræði hefur á sönnunarfærslu sinni. Orsakir meintrar bilunar eða skemmda séu því með öllu ósannaðar.
Ósannað sé með öllu hvort hinn meinta leka sé að rekja til bilunar eða einhvers konar framleiðslugalla eða hvort um skemmd hafi verið að ræða. Jafnvel þótt sannað þyki að rörbúturinn hafi verið skemmdur þá sé einnig ósannað að þær skemmdir séu tilkomnar vegna starfsmanna meðstefndu Á og F flutninga ehf. Án þess að slík ásökun sé studd nokkrum gögnum sé fullyrt í stefnu að verktakinn hafi skemmt hlíf eða kápu utan um heitavatnsrörið. Eingöngu sé vísað til þess að starfsmaður Orkuveitu Reykjavíkur hafi þremur árum síðar tekið eftir skemmdinni án þess að vita hver hafi valdið henni. Sá starfsmaður hafi talið, við uppgröft þremur árum síðar, að skemmdir á rörinu litu út fyrir að vera eftir moksturstæki. Slík staðhæfing nægi ekki til sönnunar um þau atvik sem stefnandi byggir bótaábyrgð sína á og ekki heldur til þess að sönnunarbyrði um þau atvik, sem stefnandi heldur fram, færist á einhvern hátt yfir til meðstefnda þb. Á og F flutninga ehf. í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars um sönnun. Einnig verði ekki byggt á óljósum frásögnum þriðja manns á því hvað starfsmaður Vatnsveitu Hafnarfjarðar eigi að hafa sagt við meinta starfsmenn stefnda um skemmda lögn árið 2007.
Þar sem engin tilraun sé gerð til þess að skýra eða sanna hvernig starfsmenn verktakans Á og F flutninga ehf. eigi að hafa skemmt hlífina utan um hitaveiturörið, t.d. við hvaða verk eða með hvaða tækjum, sé í raun vandkvæðum bundið að taka til varna með öðrum og nákvæmari hætti en að mótmæla öllum staðhæfingum stefnanda hvað þetta varðar sem augljóslega ósönnuðum og þar með bótaskyldu.
Sérstaklega er á því byggt af hálfu stefnda Varðar trygginga hf. að matsniðurstöður geti ekkert sönnunargildi haft gagnvart stefnda Verði tryggingum hf. við sönnun á meintri sök nefndar starfsmanna Á og F flutninga ehf.
Teljist tjón stefnanda sannað og orsakasamband fyrirliggjandi blasi allt að einu við að stefndi Vörður tryggingar hf. geti eingöngu borið ábyrgð á tjóni sem falli undir skilmála þeirra trygginga sem Á og F flutningar ehf. höfðu í gildi þegar hin meintu atvik áttu að hafa átt sér stað einhverntímann á árinu 2007. Um þær ábyrgðartryggingar hafi gilt skilmálar Varðar A-1. Þeir skilmálar undanþiggi sérstaklega tjón sem verði vegna jarðvinnu, sbr. grein 7.3. Ítrekað sé að stefndi Vörður tryggingar hf. telji sönnunargildi matsgerða ekkert gagnvart sér. Eigi það við um alla þætti málsins, meinta sök, meint fjártjón sem og meint orsakasamband milli skemmda á eigninni og hins meinta leka. Enda byggi stefndi Vörður tryggingar hf. sérstaklega á því að ósannað sé orsakasamband milli hins meinta leka og þess tjóns sem krafist sé bóta fyrir. Sér í lagi eigi það við varðandi sig á húsinu að Vesturgötu 4. Fjöldi annarra ástæðna geti verið fyrir því eins og rakið sé í matsgerð.
Stefndi Á og F flutningar ehf. hafi verið með frjálsa ábyrgðartrygginu og sérstaka ábyrgðartryggingu vegna skóflugröfu. Jarðvinna sé undanþegin í báðum tilvikum samkvæmt skilmálunum. Eingöngu Bobcatgrafa hafi verið tryggð með víðtækari skilmálum sem innihélt jarðvinnu. Af þeim sökum sé afar nauðsynlegt að stefnandi sanni nákvæmlega hvað eigi að hafa valdið hinum meintu skemmdum og hvernig það hafi gerst. Enda falli hið ósannaða skaðaverk fyrir utan skilmála þeirrar tryggingar sem í gildi var, nema ef hið meinta tjón hafi verið unnið með nefndri Bobcatgröfu en slík tæki búi sjaldnast yfir löngum armi til uppgraftrar. Hafi hinar meintu skemmdir t.d. verið unnar af starfsmönnum með verkfærum eða með annarri gröfu en nefndri Bobcatgröfu falli tjónið utan við skilmála tryggingar stefnda og beri því að sýkna.
Stefnandi hafi ekki heldur gert neinn reka að því að greina hvort lögnin hafi skaddast af annarra völdum. Til dæmis liggi fyrir að sjálfstæður verktaki, Magnús Guðmundsson, hafi unnið við pípulagnir vegna þessa verks. Ekkert liggi fyrir um hans þátt í atvikum sem enn auki á sönnunarskortinn. Þá sé ljóst að stefndi Vörður tryggingar hf. beri ekki bótaábyrgð á verkum sem Hólmar Ingi Guðmundsson, þáverandi fyrirsvarsmaður stefnda Á og F flutninga ehf., hafi tekið að sér að vinna persónulega og fengið sérstaklega greitt fyrir. Þá sé einnig óupplýst hvort hinar meintu skemmdir hafi ekki verið unnar af starfsmönnum stefnda Hafnarfjarðarbæjar sem einnig hafi haft starfsfólk á staðnum á meðan á verkinu stóð. Stefndi Vörður tryggingar hf. beri að sama skapi ekki ábyrgð á þeim.
Þá virðist sem stefnandi hafi lagt í framkvæmdir til að reyna að gera við hina meintu galla áður en matsmenn komu að verkinu. Hafi m.a. verið lokið við að bora loftgöt í sökkul eignarinnar. Einnig hafi hitalagnir í skriðrými verið fjarlægðar. Þá hafi einnig verið búið að eiga við hinar meintu skemmdir á heimaæð hitaveitu áður en matsmenn komu að verkinu. Hafi þeir því ekki getað metið hinar meintu skemmdir eða ástæður þeirra. Verði talið að matsniðurstöðurnar hafi engu að síður sönnunargildi gagnvart stefnda Verði tryggingum hf. sé einnig á því byggt að þær sanni ekki það fjártjón sem stefnandi krefst í málinu. Fyrst beri að nefna að matsspurningar til yfirmatsmanna séu afar leiðandi. Auk þess sem matsmenn séu ekki, hvorki yfirmatsmenn né matsmaður í undirmati, beðnir um að taka tillit til þess að húsið að Vesturgötu 4 er frá árinu 1900. Þá verði í öllu falli að horfa til þess að dómkrafa stefnanda byggist á viðgerðum þar sem skipt er út efnum, t.d. parketi, gólfplötu, einangrun o.s.frv. og nýtt sett í staðinn. Í því felst að stefnandi sé í raun að fá ný efni í stað þeirra sem fyrir voru. Slíkt verði ekki gert á kostnað stefnda Varðar trygginga hf. án þess að tekið sé tillit til þess að nýju var skipt út fyrir gamalt.
Stefnandi virðist færa matskostnað undir höfuðstól dómkröfu og láta þá kröfu bera dráttarvexti sem hluta dómkröfunnar. Engin heimild standi til þess og sé þessari aðferð mótmælt. Sama gildi því líka um reikning fyrir sérfræðiaðstoð. Engin tilraun sé gerð til að útskýra þann hluta dómkröfu stefnanda og sé henni mótmælt. Sama gildi um þann lið dómkröfu stefnanda er varði kostnað vegna farseðla að fjárhæð 395.046 krónur. Fyrst beri að nefna að ósannað sé að stefnandi málsins hafi greitt þennan kostnað. Framlögð skjöl málsins beri með sér að fyrirsvarsmaður stefnanda greiddi flugmiðann en ekki stefnandi. Þegar af þeirri ástæðu komi þessi liður ekki til skoðunar. Í öðru lagi sé það stefnda Verði tryggingum hf. óviðkomandi þó að fyrirsvarsmaður stefnanda kjósi að haga sínum málum þannig að hann reki fyrirtæki á Íslandi en búi í Kólumbíu lungann af árinu og kjósi að ferðast á milli landa. Að sama skapi er sérstaklega mótmælt þeim lið dómkröfunnar, að fjárhæð 772.880 krónur, sem kallaður sé eigin vinna stefnanda. Hér sé aftur nauðsynlegt að benda á að gögn málsins beri með sér að átt sé við vinnu fyrirsvarsmanns stefnanda. Hann verði ekki samsamaður stefnanda, lögaðilanum Hansen ehf., með þessum hætti. Þá sé þessum lið einnig sérstaklega mótmælt á þeim grundvelli að matsmenn hafi metið hann. Undirmatsmaður meti þenna lið sem 31.000 krónur og það sé staðfest í yfirmati. Sama gildi um lokalið í sundurliðun dómkröfu stefnanda að fjárhæð 140.560 krónur. Hann er einnig vanreifaður. Ef framkvæmdastjóri stefnanda og blikksmiður hafa unnið í þágu stefnanda vegna hins meinta tjóns sé það stefnanda að sýna fram á það með framlagningu reikninga. Ekkert slíkt sé til staðar. Krafan sé því í raun bæði ósönnuð og vanreifuð og mótmælt sem slíkri.
Þá sé skiptum á þrotabúi Á og F flutninga ehf. enn ólokið og stefnandi hafi ekki komið kröfu sinni að í búið þar sem henni hafi verið lýst löngu eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Stefnandi hafi því ekki takmarkað hið meinta tjón sitt á fullnægjandi hátt og í raun verði dómkrafa hans að taka tillit til þess sem hugsanlega fáist greitt úr nefndu þrotabúi.
Verði fallist á einhvern hluta bótakröfu stefnanda gagnvart stefnda Verði tryggingum hf. sé þess í öllu falli krafist að bótafjárhæðin verði lækkuð með hliðsjón af skilmálum stefnda Varðar trygginga hf. þar sem fram komi að eigin áhætta af hverju tjóni sé 10% tjónsfjárhæðar. Ávalt þurfi því að draga 10% af meintum bótum frá þeirri kröfu sem mögulegt sé að krefja stefnda Vörð tryggingar hf. um. Enda geti bótaábyrgð stefnda eingöngu tekið mið af þeim skilmálum sem um ábyrgðartrygginguna gilda. Sérstaklega eigi þetta við þar sem vátryggjandinn, stefndi Á og F flutningar hf., sé gjaldþrota.
Samkvæmt stefnu virðist stefnandi hafa uppgötvað einhvern leka strax haustið 2007. Jafnframt sé upplýst að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi búið í Kólumbíu á veturna allt frá árinu 2006. Einnig komi fram í stefnu að ástæða þess að uppruni lekans uppgvötaðist hafi verið sú að fyrirsvarsmaður stefnda fann í ágúst 2010 að sökkulgrjót var heitt og dró af því ályktanir. Hefði því svæðið í kringum lekann átt að vera snjólaust eða snjóléttara en annarsstaðar á veturna. Stefndi Vörður tryggingar hf. byggir á því að stefnanda hefði, í síðasta lagi veturinn 2008/2009 og í raun fyrr, mátt vera ljóst hver staðan var eða borið að afla sér slíkra upplýsinga, sbr. skilyrði 9. gr. laga nr. 14/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Á því er byggt að dvöl fyrirsvarsmanns stefnanda í Kólumbíu á vetrum leysi hann ekki undan þeirri ábyrgð. Stefna í málinu sé birt þann 8. maí 2013 og á þeim degi rofin fyrning en fyrsta tilkynning hafi borist stefnda nokkrum mánuðum áður eða í febrúar 2013. Stefndi Vörður tryggingar hf. byggir á því að ef dómurinn lítur svo á að bótaskylda hafi einhverntímann verið til staðar sé hún fyrnd með vísan til 9. gr. laga nr. 150/2007 sem tóku gildi þann 1. janúar 2008.
Stefndi Vörður tryggingsar hf. byggir jafnframt á því, verði ekki fallist á að krafan sé fyrnd, að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum gagnvart stefnda Verði tryggingum hf. með tómlæti. Atvik þessa máls eigi að hafa átt sér stað einhverntímann á árinu 2007. Áður en stefnandi hafi haft samband við þá sem hann taldi bera ábyrgð hafi hann sjálfur breytt aðstæðum. Tómlæti stefnanda hafi haft þær afleiðingar að stefnda Verði tryggingum hf. sé ómögulegt að kynna sér sjálfur hinar meintu skemmdir og meintar afleiðingar og taka til varna á þeim grunni, enda hafi stefnda fyrst verið kynnt málið þegar kröfulýsing í þrotabú meðstefnda barst stefnda í febrúar 2013. Þá höfðu matsmenn þegar lokið störfum og búið bæði að gera við og fjarlægja hina meintu skemmdu lögn sem og framkvæma umtalsverðar lagfæringar og viðbætur á fasteigninni. Stefnda Verði tryggingum hf. hafi því ekki gefist kostur á að kanna af eigin raun hið meinta tjón. Með því tómlæti sínu hafi stefnandi svipt stefnda möguleikanum á að halda uppi ítrustu efnislegu vörnum í málinu.
Stefndi Vörður tryggingar hf. mótmælir einnig dráttarvaxtakröfu stefnanda, enda virðist hún byggð á kröfubréfi sem sent var stefnda Hafnarfjarðarbæ þann 4. júlí 2012. Það bréf hafi ekki borist stefnda og því krafist að dráttarvextir verði aðeins dæmdir frá dómsuppsögu.
Um lagarök vísar stefndi Vörður tryggingar hf. til laga nr. 30/2007 um vátryggingasamninga sem og laga nr. 50/1993. Þá er vísað til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Fyrir dóminum gáfu skýrslur Sigurður Óli Sigurðsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, og vitnin Helga Stefánsdóttir, Magnús Guðmundsson, Arnór Einarsson, Pétur Vilberg Guðnason, Ragnar Jónsson, Hjalti Sigmundsson, Heiðar Jónsson, Unnur Arna Sigurðardóttir, Karl Víkingur Stefánsson, Jóhann Kristinsson og Hólmar Ingi Guðmundsson.
VI
Eins og að framan er rakið stóð stefndi Hafnarfjarðarbær að umfangsmiklum framkvæmdum á svokölluðum byggðasafnsreit við Vesturgötu í Hafnarfirði og náði framkvæmdin inn á baklóð stefnanda að Vesturgötu 4, Hafnarfirði. Stefndi Hafnarfjarðarbær stóð þannig að verkinu að það var boðið út og gerður var verksamningur við verktakann Íslandsgarða ehf. (síðar Á og F flutningar ehf.) sem varð gjaldþrota 7. febrúar 2012. Íslandsgarðar ehf. önnuðust uppgröft á lóð stefnanda og heldur stefnandi því fram að við þá framkvæmd hafi skemmst hlífðarkápa á heitavatnsröri, sem liggur inn í hús stefnanda, með þeim afleiðingum að vatn hafi lekið undir húsið og valdið tjóni. Íslandsgarðar ehf. höfðu tryggingu hjá stefnda Verði tryggingum hf. og er félaginu því stefnt í málinu.
Fyrirhuguð framkvæmd stefnda Hafnarfjarðarbæjar var kynnt fyrir stefnanda og veitti hann samþykki sitt fyrir því að farið yrði inn á hans lóð. Var m.a. hlaðinn veggur úr tilhöggnu grjóti á lóðarmörkum, gangvegur lagður milli lóðar stefnanda og nærliggjandi lóðar á byggðasafnsreitnum og lóð stefnanda síðan hellulögð. Þessar framkvæmdir voru stefnanda að kostnaðarlausu. Er verkið var hafið kom í ljós að lækka þurfti jarðveg við norðurgafl húss stefnanda og meðfram norðvesturhorni þess. Skolplögn var þar undir og var því nauðsyn á að taka hana upp, leggja hana að nýju og setja upp tvo brunna. Þetta leiddi til þess að grafa þurfti upp jarðveg á baklóð stefnanda norðan við hús hans og eins og áður sagði annaðist verktakinn Íslandsgarðar ehf. það verk.
Deilt er um í málinu í hversu miklum mæli og á hvað stóru svæði hafi verið grafið upp á baklóð stefnanda. Af hálfu stefndu er því haldið fram að það hafi takmarkast við skolprörið og byggingu veggjar á lóðinni en uppgröfturinn hafi ekki náð að heitavatnslögninni sem varð fyrir skemmdum. Með framburði Magnúsar Guðmundssonar pípulagningameistara og Ragnars Jónssonar, pípulagningameistara og starfsmanns Vatnsveitu Hafnarfjarðar, sem rakinn er hér að framan, þykir sannað að nánast öll lóð stefnanda norðan við húsið var grafin upp og þar á meðal svæði í kringum heitavatnsrörið. Því til stuðnings er einnig framburður vitnanna Unnar Örnu Sigurðardóttur og Karls Víkings Stefánssonar en þau sjá um veitingarekstur í húsinu. Vitnið Ragnar Jónsson sagðist hafa séð skemmd á hlífðarkápu heitavatnslagnarinnar er hann kom á verkstað í erindum vatnsveitunnar. Hafði þá verið grafið frá heitavatnsrörinu á kafla.
Ragnar vakti athygli verkstjóra hjá Íslandsgörðum ehf. á skemmdinni. Vitnið Arnór Einarsson, starfsmaður Orkuveitu Reykjavíkur, en heitavatnslögnin er á hennar ábyrgð og í hennar umsjón, var viðstaddur er lögnin var grafin upp í ágúst 2010 ásamt starfsmanni stefnda Hafnarfjarðarbæjar. Taldi hann ljóst að grafið hefði verið í lögnina og hún orðið fyrir hnjaski af þeim sökum. Þá fullyrti hann að gengið hefði verið frá lögninni með öðrum hætti en starfsmenn orkuveitunnar gerðu og því ljóst að átt hefði verið við hana eftir að orkuveitan lagði heitavatnslögnina á sínum tíma. Vitnið Ragnar Jónsson vakti athygli verkstjóra hjá Íslandsgörðum ehf. á skemmdinni og sagði honum að lagfæring þyrfti að fara fram. Gaf hann verkstjóranum upp nafn Arnórs og símanúmer. Fram hefur komið í málinu að skemmdin á kápu rörsins var í um 5 metra fjarlægð frá húsi stefnanda. Af framangreindum framburði virtum, sérstaklega framburði Ragnars Jónssonar, sem vakti athygli á skemmd á hlífðarkápu lagnarinnar á þeim stað þar sem leki kom síðar fram, er engum vafa undirorpið að heitavatnslögnin skemmdist er starfsmenn Íslandsgarða ehf. unnu við uppgröft á svæðinu, enda komu ekki aðrir að því verki.
Því er haldið fram af stefndu í greinargerðum þeirra að tjónið hefði eins getað orðið er Hólmgeir Ingi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Íslandsgarða ehf., gróf fyrir fituskilju að beiðni Sigurðar Óla Sigurðssonar, framkvæmdastjóra stefnanda. Við vettvangsgöngu upplýstist hins vegar að sá möguleiki er ekki fyrir hendi þar sem töluverð fjarlægð, um 4-5 metrar, er á milli fituskiljunnar og þess staðar þar sem heitavatnslögnin skemmdist.
Samkvæmt framansögðu er komin fram sönnun fyrir því að við verk Íslandsgarða ehf. á baklóð stefnanda hafi heitavatnslögn á húsi stefnanda skemmst með þeim afleiðingum að tjón hlaust af í húsi stefnanda.
Í málinu stefnir stefnandi stefnda Verði tryggingum hf. á grundvelli 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Stefnandi hefur rökstutt kröfu sína á hendur tryggingafélaginu með því að Íslandsgarðar ehf. hafi verið með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda Verði tryggingum hf. Samkvæmt gögnum málsins var aðeins ein grafa, af gerðinni Bocat, tryggð með skilmálum sem innihélt jarðvinnu. Í skýrslu fyrrverandi framkvæmdastjóra Íslandsgarða ehf., Hólmars Inga Guðmundssonar, kom fram að undirverktaki Íslandsgarða ehf. hafi annast uppgröft með eigin gröfu á því svæði sem hér er deilt um. Í málinu er því ekki upplýst hvaða tæki olli tjóni á heitavatnslögninni. Ber því að sýkna stefnda Vörð tryggingar hf. af kröfum stefnanda í málinu.
Varðandi ábyrgð stefnda Hafnarfjarðarbæjar ber að líta til þess að stefndi fór þess á leit við stefnanda að fá að fara inn á lóð stefnanda í tengslum við framkvæmdir stefnda á byggðasafnsreitnum. Eins og að framan er lýst voru framkvæmdirnar umfangsmiklar á lóð stefnanda og baklóð hans að mestur grafin upp. Þessar framkvæmdir voru greiddar af stefnda Hafnarfjarðarbæ að undanskilinni niðursetningu á fituskilju sem stefnandi greiddi sjálfur fyrir. Komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að skemmd hafi orðið á heitavatnslögninni af völdum verktakans Íslandsgarða ehf. og ennfremur að orsakasamband sé á milli þess og tjóns stefnanda. Fyrir liggur í málinu að stefndi Hafnarfjarðarbær kynnti stefnanda ekki sérstaklega að verkið yrði boðið út og ábyrgð verktakans var ekki rædd eða sú áhætta sem stefnandi hugsanlega tæki með því að heimila stefnda Hafnarfjarðarbæ framangreindar framkvæmdir. Tryggingar verktakans voru ekki kynntar stefnanda en í ljós hefur komið undir rekstri málsins að þeim var áfátt. Dagleg verkstjórn var í höndum verktakans og verkstjóri Íslandsgarða ehf. sinnti ekki ábendingu um að kalla til aðstoð frá Orkuveitu Reykjavíkur þegar honum var bent á að heitavatnsrörið hefði orðið fyrir skemmdum.
Það var á ábyrgð stefnda Hafnarfjarðarbæjar, sem sóttist eftir því að hefja framkvæmdir á lóð stefnanda, að búa svo um hnútana að ekki hlytist tjón af fyrir stefnanda, m.a. með því að semja við áreiðanlegan verktaka með ábyrga verkstjórn, verktaka sem væri í stakk búinn að greiða venjulegar tjónabætur sem á kynni að falla. Þetta lét stefndi Hafnarfjarðarbær undir höfuð leggjast og verður hann því gerður ábyrgur fyrir tjóni stefnanda.
Í málinu hefur verið lögð fram undirmatsgerð og yfirmatsgerð og er efni þeirra rakið hér að framan. Dómurinn er sammála undirmatsmanni um kostnaðarmat hans að undanskildu því atriði að leggja nýjar neysluvatnslagnir í stað þeirra sem áður voru í skriðrými. Tekur dómurinn undir sjónarmið undirmatsmanns að óþarfi hafi verið að leggja nýja lögn, heldur hefði verið nægjanlegt að þrýstiprófa þá lögn sem fyrir var vegna þess að sú lögn lak ekki. Koma því til frádráttar 360.000 krónur. Undirmatsgerð verður því tekin til greina með 3.284.000 krónum (3.644.000 360.000). Þá er dómurinn sammála yfirmatsmönnum um að sig á gólfi megi rekja til lekans. Tekur dómurinn undir rökstuðning yfirmatsmanna en framburður vitnanna Unna Örnu Sigurðardóttur og Karls Víkings Stefánssonar, sem hafa unnið í húsinu undanfarin ár, styðja niðurstöðu yfirmatsmanna um að gólf hafi sigið eftir að lekans varð vart. Hins vegar verður ekki fallist á niðurstöðu yfirmatsmanna um að byggja nýjar undirstöður undir húsið, að fjárhæð 550.000 krónur, þar sem engar undirstöður eru þar fyrir. Yfirmatsgerð verður því tekin til greina að fjárhæð 1.581.699 krónur (2.131.699-550.000).
Ekki er unnt að fallast á kröfur stefnanda vegna sérfræðiaðstoðar að fjárhæð 141.188 krónur eða kostnað framkvæmdastjóra stefnanda vegna ferðalaga að fjárhæð 395.046 krónur. Þá er krafa stefnanda vegna vinnu framkvæmdastjóra stefnanda og blikksmiðs ekki nægilega rökstudd og verður hún því ekki tekin til greina.
Kostnaður stefnanda vegna undirmats að fjárhæð 857.793 krónur og vegna yfirmats að fjárhæð 591.106 krónur telst til málskostnaðar og verður sá kostnaður tekinn til greina. Ekki er unnt að taka tillit til kostnaðar vegna viðbótaryfirmats þar sem sú matsgerð sneri ekki að stefnda Hafnarfjarðarbæ heldur einvörðungu að stefnda Verði tryggingum hf. sem hefur verið sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.
Niðurstaða málsins verður því sú að stefndi Hafnarfjarðarbær verður dæmdur til að greiða stefnanda 4.865.699 krónur (3.284.000+1.581.699) með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. júlí 2012 til greiðsludags.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi Hafnarfjarðarbær dæmdur til að greiða stefnanda 3.000.000 króna í málskostnað að viðbættum 1.448.899 krónum vegna útlagðs kostnaðar vegna matsgerða eða samtals 4.448.899 krónur. Ekki hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli þrotabús Á og F flutninga ehf. og stefnanda svo og milli stefnanda og stefnda Varðar tryggingar hf.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Kristni Eiríkssyni og Stanley Pálssyni verkfræðingum.
Dómsorð
Stefndi, Hafnarfjarðarbær, greiði stefnanda, Hansen ehf., 4.865.699 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. júlí 2012 til greiðsludags og 4.448.899 krónur í málskostnað.
Stefndi Vörður tryggingar hf. er sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.
Málskostnaður milli stefnanda og þrotabús Á og F flutninga ehf. fellur niður.
Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Varðar tryggingar hf. fellur niður.