Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-199

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Guðmundi Helgasyni (Andrés Már Magnússon lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamsárás
  • Neyðarvörn
  • Einkaréttarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 30. júní 2021 leitar Guðmundur Helgason leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 7. maí sama ár í málinu nr. 21/2020: Ákæruvaldið gegn Guðmundi Helgasyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en dómurinn mun ekki hafa verið birtur fyrir ákærða. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

3. Með framangreindum dómi Landsréttar var staðfestur dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að brotaþola og slegið hann í andlitið með þeim afleiðingum að hann tvíbrotnaði á kjálka. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin með hliðsjón af 3. mgr. 218. gr. c. almennra hegningarlaga fangelsi í tvo mánuði en fullnustu frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða brotaþola bætur.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt í málinu. Vísar leyfisbeiðandi til þess að málið hafi almenna þýðingu um það hvort ósjálfráð viðbrögð við árás feli í sér lögmæta neyðarvörn samkvæmt 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Túlkun Landsréttar á reglum um neyðarvörn samræmist ekki dómaframkvæmd Hæstaréttar um sambærileg tilvik. Auk þess hafi rannsókn málsins verið ábótavant en í dómi Landsréttar hafi ekkert verið fjallað um það atriði.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að leyfisbeiðni lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. fyrrgreindrar lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, brotaþola og nafngreindra vitna, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.