Hæstiréttur íslands
Mál nr. 173/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 14. maí 2004. |
|
Nr. 173/2004. |
Jón Ágúst Jóhannsson Sigríður Sveinsdóttir og Jón Jóhannsson ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Holtabúinu ehf. Gunnari Andrési Jóhannssyni og Sigurði Garðari Jóhannssyni (Magnús Thoroddsen hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var máli J, S og J ehf. vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. apríl 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. apríl 2004 um frávísun máls sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar gagnkærðu 26. apríl 2004 og krefjast staðfestingar úrskurðar héraðsdóms, en þó þannig að dæmdur málskostnaður í héraði verði verulega hækkaður. Einnig krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Staðfest er sú niðurstaða héraðsdóms að vísa beri málinu sjálfkrafa frá dómi á grundvelli e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Sóknaraðilar greiði varnaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Úrskurður héraðsdóms er staðfestur um annað en málskostnað.
Sóknaraðilar, Jón Ágúst Jóhannsson, Sigríður Sveinsdóttir og Jón Jóhannsson ehf., greiði varnaraðilum, Holtabúinu ehf., Gunnari Andrési Jóhannssyni og Sigurði Garðari Jóhannssyni, samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. apríl 2004.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. mars sl. er höfðað með stefnu birtri 27. maí 2003.
Stefnendur eru Jón Ágúst Jóhannsson, kt. [...], og Sigríður Sveinsdóttir, kt [...], bæði persónulega og fyrir hönd Jóns Jóhannssonar ehf., kt. [...], öll Ásmundarstöðum, Ásahreppi, Rangárvallasýslu.
Stefndu eru Holtabúið ehf., kt. [...], Árbæ, Holta- og Landsveit, Rangárvallasýslu, Gunnar Andrés Jóhannsson, kt. [...], sama stað og Sigurður Garðar Jóhannsson, kt. [...], Hegranesi 22, Garðabæ. Er Gunnari Andrési og Sigurði Garðari stefnt persónulega og fyrir hönd Holtabúsins ehf.
Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnendum 494.344.342 krónur, ásamt skaðabótavöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. febrúar 1992 til 17. janúar 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnendum 209.339.191 krónu ásamt skaðabótavöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. febrúar 1992 til 17. janúar 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. janúar 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Til þrautavara að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnendum 126.312.858 krónur ásamt skaðabótavöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. febrúar 1992 til 17. janúar 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. janúar 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins krefjast stefnendur þess að málið verði tekið til efnislegrar úrlausnar og þeim verði dæmdur málskosnaður.
Stefndu krefjast aðallega að málinu verði vísað frá dómi.
Til vara sýknu af öllum kröfum stefnenda.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar in solidum úr hendi stefnenda samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Í þessum þætti málsins er fjallað um frávísunarkröfu.
Mál milli sömu aðila og um sama sakarefni, mál E-13/2001, var áður höfðað með stefnu birtri 1. og 2. desember 2000. Með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2002 var því máli vísað sjálfkrafa frá dómi á þeirri forsendu að málatilbúnaður stefnenda væri ekki fullnægjandi þar sem hann bryti í bága við meginreglur einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 24. janúar 2003.
Stefndu krefjast frávísunar á þeirri forsendu að stefnendur hafi í öndverðu ekki búið mál sitt þannig úr garði að það samræmdist meginreglum einkamálalaga um skýran og glöggan málatilbúnað. Málið nú sé höfðað á grundvelli nákvæmlega sömu gagna og hið fyrra, að því undanskildu að tekin hafi verið út tvö skjöl. Í málinu sé mikið af gögnum sem hafi „að geyma efni, sem litlu ljósi geta varpað á málsgrundvöll stefnenda,“ eins og það sé orðað í frávísunarúrskurðinum frá 11. desember 2002. Telur stefndi að grunnrök reglnanna um res judicata eigi því að leiða til frávísunar þessa máls. Einnig er frávísunarkrafan á því byggð að stefnan hafi að geyma skriflegan málflutning og brjóti það í bága við meginreglu 1. mgr. 101. gr. og 3. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 um munnlegan flutning máls.
Af hálfu stefnenda er mótmælt frávísunarkröfu stefndu. Telja þeir framangreindar málsástæður stefndu fyrir frávísunarkröfunni stangast á. Stefndu rökstyðji ekki í hverju vanreifun málsins sé fólgin. Í fyrra málinu hafi ekki verið fjallað um efnisatriði og eigi res judicata áhrif því ekki við, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991. Málatilbúnaður hafi verið lagfærður, þó málið sé byggt á nánast sömu gögnum og fyrra mál sé það ekki vanreifað nú. Því er hafnað að um skriflegan málflutning sé að ræða. Lögðu stefnendur áherslu á að kjarni málsins væri sá, að þeir hefðu orðið fyrir órétti og ættu kröfu til efnislegrar meðferðar málsins.
Niðurstaða.
Í efnisþætti málsins er deilt um eignaskipti og uppgjör vegna slita á sameinginlegum rekstri í nafni tilgreindra hlutafélaga. Deilt er um það hvort gert hafi verið bindandi samkomulag um eignaskiptin 5. desember 1990 og hvort uppgjöri hafi verið endanlega og löglega lokið. Stefnendur telja sig hafa verið beittir svikum og krefjast skaðabóta vegna tjóns sem þeir hafi orðið fyrir.
Deilt er um mjög mikla hagsmuni og flókin viðskiptaferli. Með tilliti til þessa og umfangs málsins er sérstaklega mikilvægt að í stefnu sé gerð glögg og skýr grein fyrir kröfugerð og þeim málsástæðum, lagarökum og málsatvikum sem kröfugerð er byggð á. Stefna í málinu er 31 blaðsíða. Við lestur hennar er hægt að átta sig á meginatriðum umkvörtunarefnis stefnenda, en framsetning er ruglingsleg. Málsástæður að baki kröfugerðar og lögfræðileg rök eru óljós og ruglingsleg þar sem þau blandast málsatvikum á ýmsum stöðum. Gerir þetta framsetningu ómarkvissa. Er nánast ógerlegt að átta sig á megináherslum þeirra málsástæðna sem byggt er á. Á þetta jafnt við um aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu og ekki er skýrt hvernig greint er þar á milli.
Máli þessu var áður vísað frá dómi á svipuðum forsendum og hefur stefnendum ekki tekist að lagfæra málatilbúnað sinn svo fullnægjandi sé. Þykir hann enn brjóta í bága við meginreglur einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Ekki er fallist á það með stefndu að formgalli á málinu sé með þeim hætti að dómur í fyrra málinu hafi hér res judicata áhrif, né heldur á þau rök að vísa beri málinu frá á þeirri forsendu að um skriflegan málflutning sé að ræða, jafnvel þó taka megi undir að nánast sé það svo. Hins vegar þykir ekki verða hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi á grundvelli e- liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt þessum úrslitum skulu stefnendur greiða stefndu 100.000 krónur í málskostnað svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Hjördís Hákonardótti dómstjóri kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Jón Ágúst Jóhannsson, Sigríður Sveinsdóttir og Jón Jóhannsson ehf., greiði í sameiningu stefndu, Holtabúinu ehf., Gunnari Andrési Jóhannssyni og Sigurði Garðari Jóhannssyni, hverjum fyrir sig samtals 100.000 krónur í málskostnað.