Hæstiréttur íslands

Mál nr. 110/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gögn
  • Verjandi


Miðvikudaginn 17

 

Miðvikudaginn 17. mars 2004.

Nr. 110/2004.

Ríkislögreglustjóri

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gögn. Verjandi.

R fór fram á að héraðsdómari tæki skýrslu af X og framlengdi jafnframt í þrjár vikur frest hans til að synja verjanda X um aðgang að rannsóknargögnum varðandi opinbert mál sem beindist að X, sbr. b. lið 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Héraðsdómari féllst á kröfu R og voru X og aðrir sakborningar í málinu leiddir fyrir dómara til að gefa skýrslu. X kærði ákvörðun héraðsdómara um framlengingu frestsins. Í Hæstarétti var tekið fram að R hefði haft nægt ráðrúm til að fara fram á frekari skýrslutöku yfir sakborningum fyrir dómi. Nægði R ekki að vísa til þess að hann myndi leiða hina grunuðu fyrir dóm til skýrslugjafar um leið og mikilvæg gögn lægju fyrir. Var kröfu R um framlengingu frestsins því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2004, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að framlengdur yrði í þrjár vikur frestur hans til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum varðandi rannsókn opinbers máls, sem beinist að honum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um framlengingu frests til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að rannsóknargögnum málsins.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði rannsakar sóknaraðili aðild varnaraðila og tveggja annarra manna að ætluðum fíkniefnabrotum og ýmsum nánar tilteknum brotum gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 vegna fundar á líki erlends karlmanns í höfninni í N 11. febrúar 2004. Hefur varnaraðili ásamt áðurnefndum mönnum setið í gæsluvarðhaldi frá 21. sama mánaðar, sbr. dóma Hæstaréttar 25. febrúar 2004 í máli nr. 84/2004 og 9. mars sama árs í máli nr. 103/2004, en með dómi í síðargreindu máli var varnaraðila gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til 24. mars næstkomandi. Sóknaraðili fór fram á að héraðsdómari tæki skýrslu af varnaraðila og framlengdi jafnframt í þrjár vikur frest sóknaraðila til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum er málið varða. Féllst héraðsdómur í hinum kærða úrskurði á kröfur sóknaraðila. Í framhaldi af uppkvaðningu úrskurðarins var í sama þinghaldi bókað að fram færi „skýrslutaka fyrir dómi“ yfir varnaraðila. Hann var þó ekki yfirheyrður um sakarefnið en látið við það sitja að bera undir hann skýrslu hans fyrir lögreglu frá deginum áður og hljóðritaða skýrslu hans 4. mars 2004. Fram er komið að hinir sakborningarnir voru leiddir fyrir dóm til skýrslutöku sama dag og varnaraðili.

Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999, skal verjandi fá jafnskjótt og unnt er endurrit af öllum skjölum er mál varða. Frá þessari meginreglu er sú undantekning í 2. málslið ákvæðisins að lögregla getur neitað að veita verjanda aðgang að skjölum eða öðrum gögnum í allt að eina viku frá því að þau urðu til eða komust í vörslu hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Ennfremur er dómara heimilt samkvæmt b. lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, að framlengja frest samkvæmt 1. mgr. 43. gr. sömu laga í allt að þrjár vikur svo unnt verði að ljúka því að taka skýrslur innan frestsins af sakborningi eða vitnum fyrir dómi telji lögregla slíka skýrslutöku nauðsynlega til að upplýsa mál áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða gögnum þess. Eins og áður var getið hefur varnaraðili og áðurnefndir tveir menn verið leiddir fyrir dóm til að gefa skýrslu. Heldur sóknaraðili því fram að skýrslutökum sé hvergi nærri lokið en beðið sé eftir mikilvægum gögnum sem skipti miklu fyrir framhald rannsóknarinnar auk þess sem ósamræmis gæti milli framburða hinna grunuðu manna.

Sóknaraðili hefur leitt varnaraðila og aðra sakborninga í málinu fyrir dómara til að gefa skýrslu í samræmi við b. lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991. Hefur sóknaraðili haft nægt ráðrúm til að fara fram á frekari skýrslutöku yfir þeim fyrir dómi. Nægir sóknaraðila ekki að vísa til þess að hann muni leiða hina grunuðu fyrir dóm til skýrslugjafar um leið og mikilvæg gögn liggi fyrir. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila um framlengingu frests í þrjár vikur til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að rannsóknargögnum málsins.

Það athugast að samkvæmt málsgögnum óskaði verjandi varnaraðila með bréfi 27. febrúar 2004 til sóknaraðila eftir aðgangi að öllum lögregluskýrslum og öðrum skjölum er málið varða. Því bréfi mun ekki hafa verið svarað og ítrekaði verjandi kröfu sína með bókun fyrir dómi 3. mars 2004. Samkvæmt upplýsingum frá sóknaraðila og verjanda varnaraðila hefur verjandinn fengið aðgang að þeim gögnum málsins sem eru eldri en þriggja vikna gömul. Í ljósi þess að sóknaraðili krafðist þess ekki þegar beiðni verjandans kom fram að skýrsla yrði tekin fyrir dómi af varnaraðila samkvæmt b. lið 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991 og þá jafnframt að dómari framlengdi frest samkvæmt 1. mgr. 43. gr. sömu laga í samræmi við fyrrnefnt ákvæði, bar sóknaraðila að verða við kröfu verjandans og afhenda honum þau gögn sem voru eldri en vikugömul.

Dómsorð:

 Hafnað er kröfu sóknaraðila, ríkislögreglustjóra, um að verjanda varnaraðila, X, verði um þriggja vikna skeið synjað um aðgang að rannsóknargögnum opinbers máls, sem beinist að honum.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2004.

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að framlengdur verði í þrjár vikur frestur sem lögregla hefur til að synja verjanda kærða X um aðgang að gögnum máls [...].

Í framlagðri kröfu segir að  upphaf málsins megi rekja til þess að miðviku­daginn 11. febrúar sl. hafi kafarar, sem voru við störf í höfninni í N, fundið  lík af karlmanni, sem augljóslega hafði verið varpað í höfnina með viðfestum sökkum. [...]

 [...]

Með hliðsjón af því sem að ofan sé rakið kveðst ríkislögreglustjóri ítreka þá ósk sína að skýrslur verði teknar af sakborningum fyrir dómi áður en gögn málsins verði afhent og þá kröfu sína að framlengdur verði í þrjár vikur sá frestur sem lögregla hefur til að synja verjanda kærða X um aðgang að gögnum málsins.

Rannsókn beinist að ætluðum brotum gegn 124. gr., 173. gr.a, 211. gr. og/eða 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Engu skiptir þótt krafa lögreglu sé komin fram eftir að upphaflegur frestur samkvæmt 43. gr. laga nr. 19/1991 rann út en verjandi hefur enn ekki fengið aðgang að gögnum málsins.

Með hliðsjón af því hve mál þetta er umfangsmikið er fallist á kröfu ríkislögreglustjóra um að frestur samkvæmt 43. gr. laga nr. 19/1991 til að veita verjanda kærða X aðgang að gögnum málsins verði samkvæmt síðari málslið b-liðar 1. mgr. 74. gr. a sömu laga framlengdur í allt að þrjár vikur svo unnt verði að ljúka skýrslutöku fyrir dómi.

Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Framlengdur er í þrjár vikur frestur sem lögregla hefur til að synja verjanda kærða, X um aðgang að rannsóknargögnum máls [...].