Hæstiréttur íslands

Mál nr. 244/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                         

Þriðjudaginn 24. ágúst 1999.

Nr. 244/1999.

Ellert Ólafsson

(Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

gegn

Vélorku hf.

(Jónatan Sveinsson hrl.)

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Talið var að E brysti heimild til kæru úrskurðar héraðsdómara um að hafna kröfu hans um að vísað yrði frá dómi gagnsök sem V hafði höfðað í máli E gegn V.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að vísað yrði frá dómi gagnsök, sem varnaraðili hefur höfðað í máli sóknaraðila gegn honum. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 28. gr., 143. gr., 144. gr. og 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að gagnsök varnaraðila verði vísað frá héraðsdómi. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Samkvæmt j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 má kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um að máli sé vísað frá dómi. Tekur þetta jafnframt til gagnsakar. Hins vegar er hvorki í þessum staflið né í öðrum fyrirmælum greinarinnar heimilað að kæra til Hæstaréttar úrskurð, þar sem kröfu um frávísun máls er hafnað, en í henni eru kæruheimildir í einkamálum tæmandi taldar. Brestur því heimild til þessa málskots og verður fallist á kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Ellert Ólafsson, greiði varnaraðila, Vélorku hf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.