Hæstiréttur íslands

Mál nr. 558/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


Fimmtudaginn 30. september 2010.

Nr. 558/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanna.

Úrskurður héraðsdóms, sem staðfesti ákvörðun dómsmálaráðherra um að X skyldi framseldur til Póllands, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. september 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2010, sem birtur var varnaraðila 22. september 2010, þar sem staðfest var ákvörðun dómsmálaráðherra 2. júlí 2010 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með héraðsdómi að brot þau sem varnaraðili er grunaður um að hafa framið í Póllandi gætu varðað fangelsi í meira en eitt ár samkvæmt íslenskum lögum og því séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Þá eru ekki efni til að hnekkt verði mati dómsmála- og mannréttindaráðherra á því hvort skilyrði 7. gr. laganna séu uppfyllt. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 180.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2010.

Með bréfi ríkissaksóknara, dags. 10. ágúst 2010, var skotið til dómsins ágreiningi um framsal varnaraðila, X, kt [...], til Póllands. 

Dómsmálaráðherra barst beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila.  Að fenginni umsögn ríkissaksóknara var felldur úrskurður um beiðnina 2. júlí 2010 og fallist á framsalsbeiðnina.  Varnaraðila var birt þessi niðurstaða 14. júlí sl.  Óskaði hann þá þegar eftir því að málinu yrði skotið til dómsins. 

Ákæruvaldið krefst þess að ákvörðun um framsal varnaraðila verði staðfest.

Varnaraðili krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Beiðni um framsal var gefin út af héraðssaksóknara í [...] hinn 7. apríl 2010.  Beiðninni fylgdi þýðing á ensku.  Þar er því fyrst lýst að varnaraðili sé undir grun um tvö fjársvikabrot.  Brotunum er nánar lýst svo í bréfi ríkissaksóknara til dómsins:

1  Að hafa 30. janúar [2008], í auðgunarskyni, blekkt A til að gera við sig lánasamning og þannig með ólögmætum hætti vakið með A þá hugmynd að varnaraðili gæti endurgreitt lánið sem var að fjárhæð 30.000 PLN.  Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 278. gr. pólskra hegningarlaga. 

2.  Að hafa þann 28. apríl [2008], einnig í auðgunarskyni, selt A bifreið af gerðinni Skoda Octavia, með fastanúmerið [...] fyrir 22.000 PLN en varnaraðili leyndi þeirri staðreynd að bifreiðin var í raun í eigu [...]banka.  Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 278. gr. pólskra hegningarlaga. 

Lýsingin í fyrri liðnum er ekki að öllu leyti sambærileg við lýsinguna í enskri þýðingu á bréfi héraðssaksóknarans.  Í bréfinu segir að brot gegn greindu ákvæði varði allt að átta ára fangelsi.

Fram kemur í gögnum er fylgdu beiðninni að út hefur verið gefið svokallað Wanted letter í Póllandi.  Héraðsdómur í [...] hafnaði hinn 4. maí 2009 kröfu saksóknara um tímabundið varðhald varnaraðila.  Áfrýjunardómstóll í [...] felldi þann úrskurð úr gildi 30. mars 2010 og ákvað að varnaraðila skyldi haldið í gæslu í 14 daga frá þeim tíma er hann yrði handtekinn. 

Fram kemur í gögnum málsins að varnaraðili kom til landsins 2. maí 2008.  Hann er í vinnu hér og eiga hann og sambýliskona hans unga dóttur. 

Varnaraðili kannaðist hjá lögreglu við að ofangreind sakarefni ættu við sig.  Hann bar fram ýmsar skýringar, sem ekki er ástæða til að rekja. 

Í greinargerð varnaraðila er bent á að hann hafi ekki leynt flutningi sínum til Íslands.  Þegar hann flutti hafi engin mál á hendur honum verið til rannsóknar.  Þá segir að þau tvö mál sem fjallað sé um í framsalsbeiðni varði lántöku frá tilgreindum aðila og síðan sölu bifreiðar til hans.  Varnaraðili hafi ekki haft ásetning til að valda tjóni.  Segir hann að hann hafi reglulega sent peninga til Póllands og nú hafi umrædd skuld verið greidd að fullu. 

Varnaraðili byggir á því að ekki sé krafist framsals á grundvelli dóms.  Ekki hafi verið gefin út ákæra og varnaraðili hafi gert upp fjárhagslega hlið málanna.  Þó að hann hafi ekki getað endurgreitt lánið í byrjun, sé það ekki refsivert athæfi að íslenskum lögum.  Hann hafi ekki beitt neinum blekkingum og hafi verið í góðri trú um að hann gæti endurgreitt lánið. 

Um sölu bifreiðarinnar segir varnaraðili að verðmætið, sem þeir hafi verið sammála um að meta 22.000 PLN, hafi átt að ganga upp í áðurgreint lán.  Varnaraðili kveðst ekki hafa fengið féð í hendur sjálfur.  Tekur hann fram að bankinn hafi fengið bílinn afhentan og skuldin hafi verið greidd. 

Varnaraðili telur að hagsmunir pólskra yfirvalda af framsali séu litlir.  Sé litið til mannúðarsjónarmiða vegi hagsmunir sínir mun þyngra.  Framsal myndi raska hag fjölskyldunnar verulega.  Bendir hann sérstaklega á afstöðu héraðsdóms í [...], sem hafi synjað kröfu um gæsluvarðhald.  Fram komi í úrskurði dómsins að refsing yrði að öllum líkindum skilorðsbundin, enda hafi varnaraðili ekki áður gerst brotlegur við refsilög. 

Niðurstaða

Grunur beinist að varnaraðila um að hafa framið tvö brot gegn pólskum hegningarlögum.  Eins og meintum brotum hans er lýst í gögnum málsins myndu þau varða refsingu samkvæmt íslenskum hegningarlögum, 248. gr.  Brot gegn 248. gr. varðar fangelsi allt að sex árum. 

Íslenskir dómstólar eiga ekki mat að öðru leyti um alvarleika brota varnaraðila eða hversu þungri refsingu megi búast við.  Þannig eru uppfyllt öll skilyrði fyrir framsali varnaraðila.  Þá er ekki sýnt fram á að sérstök mannúðarsjónarmið mæli gegn framsali.  Áfrýjunardómstóll hefur mælt fyrir um varðhald varnaraðila vegna rannsóknar málsins, en úrskurður héraðsdóms sem varnaraðili vísar til, hefur verið felldur úr gildi. 

Verður því að staðfesta ákvörðun um framsal varnaraðila.  Þóknun réttargæslumanns er ákveðin með virðisaukaskatti 200.000 krónur.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 2. júlí 2010 um að framselja varnaraðila, X, kt. [...], til Póllands, er staðfest. 

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.