Hæstiréttur íslands
Mál nr. 302/2005
Lykilorð
- Þjófnaður
- Akstur sviptur ökurétti
|
|
Fimmtudaginn 17. nóvember 2005. |
|
Nr. 302/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Sigurði Magnússyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Akstur án ökuréttar.
S voru gefin að sök tvö þjófnaðarbrot og að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. S átti talsverðan sakaferil að baki. Við ákvörðun refsingar var vísað til 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá var einnig höfð hliðsjón af 77. gr. laganna. S hafði ekki bætt fyrir brot sín og átti sér engar málsbætur. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. júní 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu ákærða.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin.
Ákærða eru í máli þessu gefin að sök tvö þjófnaðarbrot 29. júní og 5. júlí 2004 og að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti 27. desember sama ár. Ákærði hefur sex sinnum frá árinu 2000 hlotið refsingu fyrir réttindaleysi við akstur, en í tveimur tilvikanna var honum dæmdur hegningarauki. Hann hlaut síðast dóm 9. september 2004 fyrir sams konar brot auk ölvunar við akstur 20. febrúar sama ár og var þá dæmdur í fimm mánaða fangelsi. Ákærði gekkst undir tvær sáttir 22. október 2004 með greiðslu sektar vegna þjófnaðar. Þjófnaðarbrotin sem hér eru til umfjöllunar voru framin fyrir uppkvaðningu dómsins 9. september og áður en hann gekkst undir fyrrnefndar sáttir. Við ákvörðun refsingar hans er því vísað til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er einnig höfð hliðsjón af 77. gr. sömu laga. Ákærði hefur ekki bætt fyrir brot sín og hann á sér engar málsbætur. Með vísan til þess sem að framan greinir þykir refsing hans hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Ákærði, Sigurður Magnússon, greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 242.775 krónur, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, á báðum dómstigum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 8. febrúar sl. á hendur Sigurði Magnússyni, kt. 190763-3589, Hringbraut 119, Reykjavík, fyrir eftirgreind þjófnaðarbrot framin í versluninni Bræðurnir Ormsson, Lágmúla 8, Reykjavík á árinu 2004:
1. Miðvikudaginn 30. júní stolið fartölvu af gerðinni Vega + 755 að verðmæti 150.000 krónur.
2. Mánudaginn 5. júlí stolið fartölvu af gerðinni Vega + X901 að verðmæti 184.900 krónur.
Eru brot þessi talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gera Bræðurnir Ormsson ehf., kt. 711284-0799, kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 189.840 krónur.
Þann 14. mars sl. var sakamálið nr. 281/2005 á hendur ákærða sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök, með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 28. febrúar 2005, umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni LT-169, mánudaginn 27. desember 2004, sviptur ökurétti frá Sporhömrum í Reykjavík uns lögregla stöðvaði aksturinn skammt sunnan gatnamóta Gullinbrúar og Fjallkonuvegar.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Undir meðförum málsins gerði ákæruvald þá leiðréttingu á 1. tl. ákæru 8. febrúar 2005 að verknaður hafi átt sér stað þriðjudaginn 29. júní 2004, í stað miðvikudags 30. júní.
Verjandi ákærða krafðist þess að ákærða yrði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Einnig krafðist hann hæfilegrar þóknunar að mati dómsins.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sín en hafnað skaðabótakröfu.
Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í júlí 1963. Hann hefur talsverðan sakarferil sem hófst árið 1985. Hann hefur til ársins 1986 fjórum sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn 244. gr. laga nr. 19/1940. Ítrekunaráhrif þeirra brota eru nú fallin niður. Hann gekkst 22. október 2004 í tvígang undir sátt hjá lögreglustjóranum í Reykjavík vegna brota gegn 244. gr. laga nr. 19/1940. Þær refsiákvarðanir sem hér skipta máli að öðru leyti eru sátt vegna sviptingaraksturs 18. október 2000, sektardómur fyrir ölvunar- og sviptingarakstur 22. nóvember sama ár, sektardómur fyrir sviptingarakstur og hraðakstur 3. maí 2001, fangelsisdómur 3. október sama ár fyrir ölvunarakstur, sviptingarakstur og fleiri umferðarlagabrot, 3ja mánaða fangelsisdómur 18. desember 2004 vegna ölvunar- og sviptingaraksturs og loks 5 mánaða fangelsisdómur 9. september 2004 vegna samskonar brota. Brot ákærða samkvæmt ákæru 8. febrúar 2005 eru hegningarauki við fangelsisdóminn 9. september 2004 og síðari viðurlög. Ber í því efni að tiltaka refsingu samkvæmt 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Ákærði hefur margítrekað sætt refsingu fyrir akstur sviptur ökurétti. Með vísan til þess og þeirra verðmæta er hann hefur verið sakfelldur fyrir þjófnað á þykir refsing hans í þessu máli hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
Krafist hefur verið skaðabóta í málinu. Skaðabótakröfunni hefur ekki verið fylgt eftir við meðferð málsins og er hún vanreifuð. Verður skaðabótakröfu Bræðranna Ormsson ehf. því vísað frá dómi.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Sigurður Magnússon, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Skaðabótakröfu Bræðranna Ormsson ehf. er vísað frá dómi.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur.