Hæstiréttur íslands
Mál nr. 612/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Skýrslugjöf
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Brotaþoli A skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2017, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að brotaþoli A komi fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gefi vitnaskýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Brotaþolinn krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Hvorki sóknaraðili né varnaraðili hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 27. september 2017
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag, er höfðað með ákærum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefnum 23. maí og 28. júní 2017, á hendur X, kennitala [...],[...], Reykjavík, fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, og fyrir hegningarlagabrot og brot á barnaverndarlögum með því að hafa á árunum 2012-2016, á heimilum hennar að [...],[...],[...] og [...], endurtekið beitt börn sín, A, fædd árið [...], B, fæddur [...] og C, fæddur [...], ofbeldi, andlegum og líkamlegum refsingum, ógnað þeim og sýnt þeim vanvirðandi háttsemi, yfirgang og ruddalegt athæfi eins og nánar er lýst að neðan:
Gagnvart A, með því að hafa í nokkur skipti slegið A á rassinn og bakið með belti, slegið hana með flötum lófa í andlitið og líkama, snúið upp á eyru hennar, tekið í hár hennar og slegið höfði hennar utan í vegg, stigið ofan á maga hennar, sparkað í maga hennar og í eitt skipti slegið hana í líkamann með leikfangagítar þannig að gítarinn brotnaði og slegið hana með moppu í andlitið. Af framangreindu hlaut A áverka í andliti, á báðum fótleggjum og báðum handleggjum.
Gagnvart B, með því að hafa í nokkur skipti slegið hann á rassinn, lærin og bakið með belti, snúið upp á eyru hans, slegið hann með flötum lófa í andlitið, slegið hann í líkamann með höndunum og slegið hann með penna í höfuðið. Af framangreindu hlaut B áverka á báðum handleggjum, báðum lærum og á báðum fótleggjum.
Gagnvart C, með því að hafa í nokkur skipti slegið hann á rassinn, lærin og bakið með belti, slegið hann með flötum lófa í andlitið og í líkama og slegið hann með penna í höfuðið. Af framangreindu hlaut C áverka á báðum handleggjum, baki, rassi, báðum lærum og báðum fótleggjum.
Teljast brot þessi að varða við 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. b. hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 98. gr. og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Þá eru í ákærunni tilgreindar einkaréttarkröfur brotaþola.
Aðalmeðferð málsins mun fara fram 3. október nk. Á vitnalista sem sendur var dómurum og málflytjendum var ekki að finna nöfn brotaþola. Verjandi ákærðu krafðist þess að brotaþolinn A kæmi fyrir dóm við aðalmeðferðina, þótt hún hefði þegar gefið skýrslu fyrir dómi, til þess að svara spurningum, um áverka á líkama hennar, sem hefðu ekki áður komið fram og bera undir hana ljósmyndir af áverkunum. Tók hann fram að ákærða væri tilbúin til þess að víkja úr dómsal á meðan. Réttargæslumaður brotaþola andmælti kröfunni og krafðist úrskurðar um hana. Sækjandi tók undir með réttargæslumanni. Var málflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna í dag og hún að því loknu tekin til úrskurðar.
Réttargæslumaður brotaþola vísaði til þess að brotaþolinn A hefði gefið skýrslu fyrir dómi undir rannsókn málsins og til þess að hún væri í mjög erfiðri stöðu gagnvart ákærðu. Það yrði henni afar þungbært að koma aftur fyrir dóminn.
Við rannsókn málsins var tekin skýrsla af brotaþolanum A fyrir dómi með heimild í c-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Skýrslutakan fór fram í Barnahúsi 14. júlí 2016.
Samkvæmt 111. gr. laga nr. 88/2008 skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Dómara er þó heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða önnur vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað skv. 59. og 106. gr. laganna. Þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst eða dómari telur annars ástæðu til. Ef um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 15 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til.
Brotaþolinn A er fædd [...] og hefur því náð [...] ára aldri. Hún er því ekki undanþegin vitnaskyldu vegna aldurs, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 skulu skýrslugjafar, sem gefið hafa skýrslu áður en mál var höfðað, koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðila krefst þess eða ef dómari telur annars ástæðu til. Verjandi ákærðu hefur krafist þess að brotaþolinn komi að nýju fyrir dóminn til þess að svara tilteknum spurningum. Þar sem ekkert hefur komið fram um að brotaþolinn eigi þess ekki kost að koma fyrir dóminn í skilningi ákvæðisins og undantekning 3. málsliðar 2. mgr. 111. gr. á ekki við, verður að fallast á kröfu verjandans um að brotaþolinn A komi aftur fyrir dóm við aðalmeðferð málsins.
Til þess er hins vegar að líta að brotaþolinn getur skorast undan því að gefa skýrslu með vísan til b-liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 og þess að verjandi hefur lýst því að fallist verði á að ákærði víki úr dómsal meðan skýrslutakan fer fram.
Samkvæmt framangreindu ber A að koma fyrir dóm við aðalmeðferð málsins.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Fallist er á kröfu ákærðu, X, um að A komi fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gefi vitnaskýrslu.