Hæstiréttur íslands
Mál nr. 245/2016
Lykilorð
- Hjón
- Fjárslit milli hjóna
- Samningur
- Ógilding samnings
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. janúar 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 9. mars 2016 og var áfrýjað öðru sinni 1. apríl sama ár. Áfrýjandi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en til vara að samningur sinn við stefnda um skilnaðarkjör frá 9. nóvember 2012, sem þau staðfestu fyrir sýslumanninum á [...] 14. sama mánaðar, verði felldur úr gildi að því er varðar fjárskipti þeirra. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi reisir kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að aðalmeðferð málsins í héraði hafi farið fram í þinghaldi 10. mars 2015, þar sem báðir aðilarnir hafi gefið skýrslu og þrjú vitni, málið hafi verið munnlega flutt og það dómtekið. Dómur hafi þó ekki verið felldur á málið í framhaldi af því, heldur hafi það verið flutt munnlega öðru sinni 14. október 2015 og hinn áfrýjaði dómur síðan kveðinn upp 23. sama mánaðar. Telur áfrýjandi að ekki hafi nægt að flytja málið munnlega að nýju, heldur hefði borið að „endurtaka aðalmeðferðina fyrst svo langur tími var liðinn“, svo sem segir í greinargerð hennar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal dómur kveðinn upp svo fljótt sem auðið er, en hafi mál verið munnlega flutt skuli það gert innan fjögurra vikna frá því að það er dómtekið. Verði því ekki komið við skuli málið flutt á ný nema dómari og aðilar telji það óþarft. Þegar af hljóðan orða þessa lagaákvæðis leiðir að með því er eingöngu áskilið að munnlegur málflutningur fari aftur fram við þessar aðstæður, en ekki að aðalmeðferð verði endurtekin í heild. Er það og í samræmi við áralanga dómaframkvæmd Hæstaréttar. Aðalkröfu áfrýjanda er því hafnað.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, K, greiði stefnda, M, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. október 2015.
Mál þetta, sem var dómtekið 14. þessa mánaðar að undangengnum endurteknum munnlegum málflutningi, var höfðað 15. nóvember 2013. Stefnandi er K, kt. [...], [...], [...]. Stefndi er M, kt. [...], [...], [...].
Stefnandi krefst þess að samningur um skilnaðarkjör vegna skilnaðar að borði og sæng, dagsettur 9. nóvember 2012 og staðfestur af sýslumanni 16. sama mánaðar, verði felldur úr gildi að öllu leyti varðandi fjárskipti aðila. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda og málskostnaðar.
I
Málsaðilar hófu samvistir árið 1974 og byrjuðu formlegan búskap að [...] í [...] árið 1979. Þau gengu í hjónaband [...] 1980 og bjuggu allan sinn sambúðartíma að [...]. Þau eiga tvö börn, fædd [...] og [...]. Þau sóttu um leyfi til skilnaðar að borði og sæng 14. nóvember 2012 og lögðu þá um leið fram skilnaðarsamning dagsettan 9. nóvember. Leyfi til skilnaðar að borði og sæng var gefið út 16. nóvember 2012.
Í samningnum, sem stefnandi krefst að verði ógiltur, segir að aðilar séu sammála um að miða verðmæti eigna við ,,neðangreindar fjárhæðir“ en í því felist ekki afstaða aðila til markaðsverðs þeirra við skiptin. Er síðan fyrst talin jörðin [...] í [...], 50% eignarhluti, sem löggiltur fasteignasali hafi metið á 64 milljónir króna. Greiðslumark jarðarinnar sé ekki innifalið, enda hafi það verið selt að tveimur þriðju hlutum og það sem eftir sé verði selt í nóvember eða apríl 2013. Þá er talin fasteignin [...], en fyrir liggi samþykkt kauptilboð þar sem söluverð sé 22.506.600 krónur. Af því hafi verið greiddar 14.000.000 króna. Eftirstöðvar, 8.506.600 krónur, beri að greiða í síðasta lagi 31. janúar 2013. Vélar og bústofn að [...] hafi verið metið á 21.600.000 krónur. Þá er getið tveggja bifreiða sem aðilar séu sammála um að ekki sé nauðsynlegt að meta til verðs. Inneignir á bankareikningum hafi 29. september 2012 verið 1.744.487 krónur. Auk þessa sé venjulegt innbú. Eignir séu því samtals metnar á 109.850.487 krónur. Þá eru skuldir sundurliðaðar og samtals sagðar vera 14.829.683 krónur. Síðan segir að samkomulag sé um að réttindi í lífeyrissjóðum komi ekki til skipta. Þá sé samkomulag um að eignir skiptist með síðargreindum hætti. Nettó eignir, samkvæmt þeim gögnum sem liggi til grundvallar, séu 95.020.804 krónur.
Síðan kemur fram að við skiptingu eigna hafi það sjónarmið verið haft til hliðsjónar að stefndi geti áfram búið að [...] og ekki þurfi að selja hlutdeild hans í jörðinni. Stefnandi fái í sinn hlut fasteignina [...] og stefndi greiði eftirstöðvar kaupverðsins. Stefnandi hafi þegar fengið greiddar 1.980.038 krónur. Þá greiði stefndi henni 8.000.000 króna vegna búshluta hennar. Greitt skuli með skuldabréfi til 10 ára með mánaðarlegum greiðslum fyrsta hvers mánaðar, í fyrsta sinn 1. nóvember 2012. Stefnandi fái í sinn hlut bifreiðina [...]. Í hlut stefnda komi aðrar eignir. Hann skuldbindi sig einnig gagnvart stefnanda til að selja ekki eignarhlut sinn í [...], [...], í 5 ár. Tekið er fram að aðilum hafi verið gerð grein fyrir því hvað felist í helmingaskiptareglu 103. gr. laga nr. 31/1993. Þá er tekið fram að stefndi taki að sér að greiða allar skuldir aðila samkvæmt framansögðu. Þau séu sammála um að telja fram saman til skatts vegna rekstrarársins 2012 og stefndi greiði einn alla álagða skatta vegna ársins 2012. Við gerð samningsins liggi fyrir að verulegir skattar muni koma til greiðslu á árinu 2013 vegna sölu á framleiðslurétti í mjólk. Loks er tekið fram að kostnað við lögmannsaðstoð greiði aðilar þannig að stefndi greiði tvo þriðju hluta en stefnandi einn þriðja.
Skjalið er dagsett 9. nóvember 2012, undirritað af aðilum og vottað af Árna Pálssyni hrl.
II
Stefnandi kveðst byggja á því að fjárskiptasamningur aðila sé bersýnilega ósanngjarn og beri því þegar af þeirri ástæðu að víkja honum til hliðar, með vísan til 2. mgr. 95 gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Hafi staða aðila verið ójöfn við gerð samningsins og ólík að öllu leyti. Stefndi hafi notið aðstoðar lögmanns í öllu ferlinu en stefnandi ekki og hafi hún verið beitt miklum þrýstingi, bæði af hálfu stefnda og barna þeirra. Þá séu ekki í samningnum tilgreindar allar eignir aðila sem hefðu átt að falla undir skiptin og samningurinn því ekki í samræmi við 99. gr. hjúskaparlaga. Þannig sé hvergi gerð grein fyrir fjármunum sem hafi fallið til við sölu á tveimur þriðju hlutum greiðslumarks í mjólk snemma árs 2012. Þá sé heldur hvergi getið um þann þriðjung greiðslumarks sem hafi staðið eftir þegar samningurinn hafi verið undirritaður og verið seldur í nóvember 2013. Ennfremur sé hvergi í samningnum bifreiðin [...], né hjólhýsið [...]. Fyrir liggi að verðmæti bifreiðarinnar og hjólhýsisins sé nokkuð og ekki að sjá að rök standi til að halda þeim utan skipta. Engu breyti að sérstaklega sé tekið fram í samningnum að aðilum hafi verið gerð grein fyrir helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Hafi það raunverulega gerst, sem stefnandi kveðst mótmæla sem slíku, verði að ætla að stefndi hafi vísvitandi haldið eignum utan skipta þegar hann hafi lagt upp samninginn og fengið stefnanda til að samþykkja hann. Ekkert bendi til þess í málinu að ekki hefði átt að fara eftir helmingaskiptareglunni við skiptin. Aðilar hafi verið í hjúskap óslitið í 32 ár og haft sameiginlegan fjárhag og atvinnu. Þá sé ekki getið um réttindi í lífeyrissjóðum og sé það verulega ósanngjarnt og alfarið í hag stefnda. Þá telur stefnandi að við samningsgerðina hafi ekki verið tekið tillit til þeirra framtíðartekna sem stefndi muni hafa af jörðinni og möguleikum hans til atvinnu miðað við möguleika stefnanda til tekjuöflunar. Þá byggir stefnandi á því að miðað við samninginn sjálfan, þótt litið verði fram hjá eignum sem hún telji að hafi verið haldið utan skipta, sé ljóst að hún hafi fengið 15.000.000 krónum, eða 30% minna í sinn hlut af nettóeign búsins en hún hefði átt að fá samkvæmt helmingaskiptareglunni. Þegar af þeirri ástæðu eigi að ógilda fjárskiptasamninginn í heild. Þá hafi það verið ósanngjarnt að skuldabréfið hafi verið óverðtryggt og vaxtalaust til svo langs tíma sem raun hafi verið, þar sem það hafi engan veginn þjónað hagsmunum stefnanda við skiptin. Þá hafi stefnandi ekki frumrit skuldabréfsins undir höndum og telji hún að það sé varðveitt hjá lögmanni stefnda.
Til vara kveðst stefnandi byggja á því að samningurinn hafi verið ósanngjarn í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, þegar horft sé til efnis hans, stöðu aðila og atvika við samningsgerð en einnig þegar horft sé til atriða sem síðar hafi komið til. Stefnandi vísi þannig til þess að efni samningsins hafi verið hagfellt stefnda, bæði sökum þess að þar hafi ekki komið til skipta ýmsar hjúskapareignir aðila né heldur allar eignir stefnda, s.s. lífeyrisréttindi hans og þess utan sé vikið verulega frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Til þrautavara sé á því byggt að stefndi hafi við gerð skilnaðarsamnings nýtt sér yfirburðastöðu sína og aflað sér með því hagsmuna þar sem bersýnilegur mismunur hafi verið á því endurgjaldi sem í staðinn hafi komið. Hafi stefndi fengið í sinn hlut eignir sem með réttu hefðu átt að falla undir skiptin og þannig aukið eignarhluta sinn á kostnað stefnanda. Stefnandi telji að stefndi hafi verið að öllu leyti grandvís um þá þætti samningsins sem ósanngjarnir teljist og því verði að telja að óheiðarlegt væri af stefnda að bera samninginn fyrir sig.
Stefnandi kveðst vísa til 14. kafla laga nr. 31/1993, sérstaklega 99. gr., 102. gr. og 103 gr. Krafa um ógildingu sé aðallega byggð á 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Til vara sé byggt á 36 gr. laga nr. 7/1936 og til þrautavara á 31. gr. og 33. gr. sömu laga. Einnig sé hvað þetta varðar vísað til skráðra og óskráðra meginreglna samningaréttar.
III
Stefndi kveðst byggja á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að samningur um fjárskipti hafi verið bersýnilega ósanngjarn gagnvart stefnanda þegar til hans hafi verið stofnað. Þrátt fyrir meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga um helmingaskipti við skilnað hafi hjón frelsi til að semja um önnur skiptahlutföll og séu mörg dæmi þess. Geri hjúskaparlög beinlínis ráð fyrir því að vikið sé frá reglu um helmingaskipti, sbr. m.a. heimild í 110. gr. þeirra.
Stefndi kveðst telja að stefnandi dragi ranga ályktun af efni skilnaðarsamningsins. Hún virðist álíta að það eitt að ekki sé skipt jafnt á milli hjóna, sem stefndi telji þó að ekki hafi verið raunin í þessu tilviki, þýði að samningur sé bersýnilega ósanngjarn og heimilt sé að víkja honum til hliðar á grundvelli 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga. Stefndi telji hinsvegar að skýra beri orð ákvæðisins þannig að mikil brögð þurfi að vera að misskiptingu eigna svo hægt sé að fallast á beitingu þess. Samningur aðila sé skýr. Við mat á efni hans verði þó ekki einungis litið til textans. Einnig beri að horfa til aðdraganda hans, markmiða og annarra atvika. Það hafi verið mikilvæg forsenda samningsaðila að ekki þyrfti að koma til sölu á eignarhluta stefnda í jörðinni [...] í [...]. Jörðin hafi áður verið í eigu stefnda og hann hafi byrjað þar búskap árið 1979 ásamt A bróður sínum. Þeir bræður hafi upp frá því átt jörðina í óskiptri sameign, svo og allt sem henni fylgi, þar á meðal húsakost. Stefndi kveðst halda því fram að stefnandi hafi í aðdraganda samningsins ítrekað látið í ljós þann vilja að stefndi þyrfti ekki við skilnaðinn að selja hlut sinn í jörðinni og gæti haldið áfram búskap. Þetta hafi komið fram í samtölum aðila, en einnig á fundum með lögmanni þeirra og börnum. Þá hafi verið horft til þess að um vorið 2012 hafi stefndi hætt mjólkurframleiðslu eftir 33 ár í slíkum rekstri. Við gerð samnings hafi tveir þriðju hlutar greiðslumarks mjólkur þegar verið seldir. Stefndi hafi haft í hyggju að byrja kálfaeldi til nautakjötsframleiðslu og hafi verið ljóst að undirbúningur þess myndi hafa nokkurn kostnað í för með sér, auk þess sem fyrirsjáanlegt hafi verið að hann myndi engar tekjur hafa fyrstu tvö árin. Einnig hafi verið við það miðað að dóttir aðila myndi liðsinna honum við reksturinn, en hún hafi búið ásamt fjölskyldu sinni í húsi sem hún hafi byggt í landi jarðarinnar.
Þá segir stefndi að aðdragandi skilnaðarins hafi verið nokkur. Þann 10. september 2012 hafi þau ákveðið að festa kaup á íbúð í fjórbýlishúsi sem hafi verið í byggingu við [...] á [...]. Kaupsamningur hafi verið gerður í nafni stefnanda og íbúðin ætluð henni til búsetu eftir skilnaðinn. Þann sama dag hafi aðilar leitað til Árna Pálssonar hrl. og beðið hann um að sjá um gerð skilnaðarsamnings. Stefndi kveðst byggja á því að sá samningur sem Árni hafi skjalfest og hafi verið undirritaður þann 9. nóvember 2012 hafi verið í samræmi við sameiginlegan vilja beggja. Hann kveðst mótmæla því að verðmöt og önnur gögn hafi verið komin frá sér. Lögmaðurinn hafi að beiðni aðila aflað nauðsynlegra gagna, mats á verði jarðar, bústofns og búvéla, upplýsinga um innistæður á bankareikningum og skuldir. Stefnanda hafi verið kunnugt um allar eignir aðila og forsendur samningsins. Þær hafi legið fyrir í áðurgreindum mötum og öðrum upplýsingum um eignir og skuldir. Þá hafi aðilar ítrekað rætt gerð samningsins hvort í sínu lagi við lögmanninn og á sameiginlegum fundi hjá honum um miðjan október 2012, en þann fund hafi börn þeirra setið einnig. Á þeim fundi hafi verið rætt um allar eigur aðila. Þar hafi legið fyrir upplýsingar um að stefndi hefði þann 7. maí 2012 fengið greiddar 20,4 milljónir króna fyrir tvo þriðju hluta greiðslumarks jarðarinnar. Einnig að fyrirhugað væri að selja það sem eftir væri síðar. Hefði verið ákveðið að þær eftirstöðvar yrðu nýttar til greiðslu lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi um íbúðina að [...], en þá lokagreiðslu hafi átt að greiða eigi síðar en 31. janúar 2013. Skiljanlega hafi ekki verið getið um verðmæti þess greiðslumarks sem var óselt enda hafi það ekki verið ljóst fyrr en hafi reynt á sölu þess á uppboðsmarkaði. Þann 5. febrúar 2013 hafi stefndi fengið greiddar 10.809.963 krónur fyrir sinn hluta í greiðslumarkinu og hafi því fé verið ráðstafað að mestu til greiðslu á framangreindri kaupsamningsskuldbindingu. Þá hafi einnig komið fram á fundinum að stefnandi hafi nokkrum mánuðum fyrr fengið fyrirframgreiddan arf frá móður sinni, um sjö milljónir króna, og jafnframt að hann væri með líftryggingu hjá nánar greindu fyrirtæki. Um hvort tveggja hafi stefnanda verið vel kunnugt. Þá hafi einnig verið rætt um að húsbíll aðila hefði verið seldur í júní sama ár, fyrir 11 milljónir króna en í staðinn keypt hjólhýsi fyrir 5.614.000 krónur. Á fundinum hafi legið fyrir upplýsingar um stöðu á bankareikningum, þ. á m. um færslur á reikningi stefnda í Arion banka. Greiðslur vegna arfs, sölu greiðslumarks, kaupa og sölu ökutækja hafi farið um þennan reikning. Því hafi ekki verið sérstök ástæða til að geta í samningnum um þá fjármuni sem til hafi fallið við sölu á greiðslumarki um vorið. Upplýsingar um það hafi komið fram á umræddum bankareikningi og staða hans verið andlag skiptanna. Þá hafi oft og á fundinum verið rætt um að sameiginlegt eignarhald stefnda og A bróður hans á jörðinni, þar á meðal íbúðarhúsi aðila, gerði að verkum að erfitt gæti verið að koma sölu þeirra eigna í kring. Lögmaður aðila hafi að beiðni þeirra aflað upplýsinga um skattaleg áhrif sölu eigna og hafi þær verið til hliðsjónar á fundinum. Á fundinum hafi verið komist að niðurstöðu um skilnaðarkjör og hafi lögmaðurinn gert samninginn í samræmi við það. Áður en til undirritunar hafi komið hafi lögmaðurinn sent aðilum samninginn í tölvupósti til kynningar, auk skuldabréfs og yfirlýsinga vegna fasteigna. Stefndi kveðst engum hótunum hafa beitt og kveðst staðhæfa að stefnandi hafi notið stuðnings barna aðila og hafi sonur þeirra verið móður sinni sérstaklega innan handar á fundinum í október 2012. Kjör á skuldabréfi hafi verið ákveðin á fundinum, án vaxta og verðtryggingar, af stefnanda til að koma í veg fyrir að lífeyristekjur hennar skertust vegna fjármagnstekna. Muni stefnandi sjálf hafa farið með skuldabréfið í Sparisjóð Höfðhverfinga, þar sem það sé væntanlega varðveitt. Stefnanda hafi engir afarkostir verið settir og stefndi kveðst mótmæla því að það hafi haft einhver áhrif að stefnandi hafi vegna slæmrar heilsu ekki getað staðið að samningsgerð. Þá hafi staða aðila ekki verið mjög ójöfn. Þau hafi bæði notið aðstoðar lögmanns sem hafi gætt hagsmuna beggja. Komi skýrt fram í samningnum að lögmaðurinn hafi gert þeim grein fyrir því hvað fælist í helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Þá séu lífeyrisréttindi stefnda ekki veruleg. Hann hafi greitt í lífeyrissjóð bænda og verði greitt í sjóðinn eins og hingað til muni greiddur lífeyrir til stefnda nema 67.107 krónum á mánuði við töku lífeyris við 67 ára aldur. Stefnandi hafi notið lífeyrisgreiðslna úr sama lífeyrissjóði um árabil og kveðst stefndi ætla að þær hafi verið um 82.000 krónur á mánuði árið 2012 ef marka megi skattframtal. Staðhæfing stefnanda um að ástæða hafi verið til að taka tillit til framtíðartekna stefnda af jörðinni [...] sé ekki studd neinum rökum og eigi enga stoð. Starfsgeta manna og aflahæfi komi ekki til skipta við hjónaskilnað. Stefndi sé nú skráður atvinnulaus og þiggi bætur sem slíkur. Bifreiðina [...] hafi stefndi keypt í júní 2013, þ.e.a.s. eftir viðmiðunardag skiptanna.
Þá kveðst stefndi mótmæla því að samningurinn hafi verið ósanngjarn í skilningi 36. gr. samningalaga. Hafi stefnandi gengið til hans af fúsum og frjálsum vilja. Samningsfrelsi gildi um þennan samning og það eitt að vikið sé frá meginreglu um helmingaskipti jafngildi því ekki sjálfkrafa að umsamin kjör séu ósanngjörn, sbr. 110. gr. hjúskaparlaga. Ekkert hafi verið til staðar við gerð samningsins eða síðar sem geri það að verkum að víkja eigi honum til hliðar. Stefnanda hafi verið allar forsendur samningsins ljósar, bæði hafi efni hans verið skýrt og það rætt ítarlega í aðdraganda undirritunar. Ekki sé rökstutt að neinu leyti að líta beri til atriða sem hafi komið til síðar, eftir gerð samningsins. Þá hafi stefndi ekki haft yfirburðastöðu við gerð samningsins. Bæði hafi notið aðstoðar lögmanns og kveðst stefndi fullyrða að stefnandi hafi ítrekað farið á fund lögmannsins, áður en til undirritunar hafi komið, til að ræða við hann um gerð samningsins. Gögn sem hafi legið til grundvallar hafi verið útveguð af lögmanninum og hafi hann gengið frá samningnum í samræmi við vilja beggja og bæði hafi greitt fyrir þjónustu hans. Staðhæfing stefnanda um að stefndi hafi stillt samningnum upp sé með öllu ósönn.
Þá kveðst stefndi hafna málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem hann virðist byggður á 31. gr. samningalaga, um að stefndi hafi í skjóli yfirburðastöðu sinnar gagnvart stefnanda aflað sér hagsmuna þar sem bersýnilegur munur hafi verið á þeim og endurgjaldi sem í staðinn hafi komið. Þá sé því alfarið hafnað að stefndi hafi fengið í sinn hlut eignir sem með réttu hefðu átt að falla undir skiptin og því að hann hafi verið grandvís.
Stefndi kveðst vísa til reglna um fjárskipti milli hjóna í 14. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993. Um heimild og skilyrði til að víkja frá samningi um skilnaðarkjör sé vísað til 2. mgr. 95 gr. laganna, um heimild til að undanþiggja verðmæti við skipti sé vísað til 102. gr. laganna, um helmingaskiptareglu sé vísað til 103. gr. laganna, um heimildir til að víkja frá þeirri reglu sé vísað til meginreglu íslensks réttar um samningsfrelsi, 104. gr. hjúskaparlaga og 110. gr. sömu laga. Þá sé vísað til meginreglna samningaréttar, m.a. um að gerða samninga skuli efna. Þá vísar stefnandi jafnframt í 31. gr., 33. gr., og 36. gr. laga nr. 7/1996.
IV
Aðilar gáfu skýrslur fyrir dómi. Þá gáfu skýrslur vitnin B og C, börn aðila, svo og Árni Pálsson hæstaréttarlögmaður.
Stefnandi lýsti því að hún hefði sætt miklum þvingunum af hálfu eiginmanns síns og barna þeirra og að hún hefði ekki verið í andlegu jafnvægi þegar samningurinn hefði verið gerður.
Stefndi lýsti því í skýrslu sinni að eftir að þau stefnandi hefðu ákveðið skilnað hefðu þau farið til fasteignasala. Þau hefðu fest kaup á íbúð handa stefnanda. Fasteignasalinn hefði bent á að lögmenn störfuðu í tengslum við fasteignasöluna. Hefði þannig komið til að þau hefðu leitað til Árna Pálssonar hrl. Hann hefði aflað upplýsinga og haldið fund með þeim. Stefndi lýsti því að hann hefði fengið fyrirframgreiddan arf árið 2012. Sér hefði þótt sanngjarnt að tekið væri tillit til þess við skiptin. Hefði þetta ráðið því að hann hefði fengið hjólhýsi í sinn hlut og hefði stefnandi samþykkt það. Líftrygging hans hefði verið rædd. Hann hefði ekki viljað samþykkja að uppsöfnuð réttindi hans hjá líftryggingarfélagi teldist til hjúskapareigna, en þó horft á það atriði frá þeim sjónarhóli að hjólhýsið hefði í sjálfu sér ekki nægt til að mæta arfinum að fullu. Að öðru leyti hefði verið leitast við að skipta til helminga, að teknu tilliti til þess hvað það hefði kostað að greiða skatt af söluhagnaði, hefði jörðin verið seld.
C lýsti atvikum svo að fundur hefði verið haldinn í október 2012, til að ræða samkomulag foreldra hans um skilnaðarkjör. Fundinn hefðu setið lögmaðurinn, foreldrarnir og þau B. Hann kvaðst ekki muna hver hefði beðið sig að koma á fundinn en hann hefði viljað vera móður sinni til halds og trausts. Hann minntist þess að rætt hefði verið um líftryggingu stefnda og stefndi gert munnlega grein fyrir verðmæti hennar. Ákveðið hefði verið að hún kæmi í hlut stefnda. Þá hefði verið rætt um hjólhýsið og samþykkt að það kæmi í hlut stefnda, þar sem það hefði þótt siðferðilega rétt að hann nyti þess að hafa fengið arf frá foreldrum sínum. Lögmaðurinn hefði gert grein fyrir helmingaskiptareglu og hefði verið alveg ljóst að vikið væri frá henni. Forsenda þess hefði verið loforð stefnanda um að stefndi gæti haldið áfram búskap. Miðað hefði verið við ímyndaða sölu jarðarinnar og að skipta til helminga miðað við að skattur drægist frá verðmæti hennar. Þá hefði verið rætt um að skuldabréf bæri ekki vexti, til að bætur til stefnanda skertust ekki vegna vaxtatekna. Það hefði verið skýrt og greinilegt hvað stefnandi hefði viljað.
Árni Pálsson hrl. bar að í byrjun hefði verið aflað mats á verðmæti eigna. Í fyrstu hefði stefndi rætt við hann, en síðan hefði stefnandi talað við sig. Hún hefði rætt um að ráða lögmann sérstaklega í sína þjónustu. Kvaðst Árni hafa verið því mjög fylgjandi, en af því hefði þó ekki orðið.
Grundvallarforsenda við skiptin hefði verið helmingaskipti. Hann hefði aflað áætlunar hjá endurskoðunarfyrirtæki um skattalega meðferð ef jörðin yrði seld. Litið hefði verið til þess við skiptinguna að stefndi bæri þá skattalegu áhættu. Stefnda hefði raunar þótt jörðin vera hátt metin til verðs og verið óhress með það. Þá kvaðst hann muna eftir að rætt hefði verið um hjólhýsið. Stefndi hefði fengið arf greiddan, skömmu fyrir skilnaðinn. Hann hefði sagt aðilum að arfurinn ætti að koma til skipta, en einhver sanngirnissjónarmið hefðu ráðið því að stefndi hefði fengið hjólhýsið. Hann kvaðst ekki minnast þess með vissu að líftrygging hefði verið rædd, en hún hefði að minnsta kosti verið kunn. Dóttir aðila hefði ekki haft sig í frammi á fundinum, en sonurinn verið virkur og verið að styðja móður sína. Fundurinn hefði staðið ansi lengi, að minnsta kosti tvær klukkustundir. Hvað varðaði skuldabréf sem stefndi gaf út, þá hefði upphaflega verið rætt um 7 milljónir að höfuðstól. Að beiðni stefnanda hefði hann sent fyrirspurn til Tryggingastofnunar ríkisins um áhrif fjármagnstekna. Að því gerðu hefði höfuðstóllinn verið hækkaður og samið um að skuldin bæri ekki vexti. Hann kvaðst ekki muna hvað hefði ráðið því hvernig aðilar skiptu lögmannskostnaði með sér, en þau hefðu samið um þetta svona. Meiri tími hefði farið í að ræða við stefnanda en stefnda, en þau hefðu samið um þetta á þennan veg.
Spurður hvers vegna sérstaklega væri tekið fram í skjalinu að gerð hefði verið grein fyrir reglum um helmingaskipti kvaðst hann hafa gert það vegna þess að skiptingin hefði orðið á þann veg sem þar sé lýst. Hann hefði margsagt stefnanda að hún ætti rétt til helmingaskipta.
B lýsti því að fundurinn hefði verið langur og ítarlegur. Móðir hennar hefði verið fyllilega hæf til að gæta hagsmuna sinna. Líftrygging hefði verið rædd og að hún kæmi í hlut föður hennar og einnig hjólhýsið, til að hann nyti þess að hafa fengið arf. Helmingaskiptaregla hefði verið rædd og lögmaðurinn verið skýr í máli um það að verið væri að víkja frá henni. Forsenda hefði verið að stefndi þyrfti ekki að bregða búi.
V
Samningur aðila um skiptingu eigna er rakinn í meginatriðum hér að framan. Kveðst stefnandi hafa fengið 32.486.638 krónur í sinn hlut, að því marki sem eignir hafi verið metnar til verðs. Heildareignir að frádregnum skuldum hafi samkvæmt forsendum samningsins numið 95.020.804 krónum. Hefði stefnandi því átt að fá 15.023.764 krónum meira í sinn hlut. Auk þessa hafi ekki verið tekið tillit til heildareigna, svo sem beri að gera samkvæmt 99. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að aðstöðumunur hafi verið með aðilum, hvorki með þeim hætti að lögmaðurinn hafi verið málsvari stefnda fremur en hennar, né öðrum hætti, svo sem að hún hafi verið ófær um það vegna veikinda að gæta hagsmuna sinna. Þá hefur ekki heldur verið sýnt fram á að hún hafi verið beitt þrýstingi eða hótunum af stefnda eða börnum þeirra. Verður niðurstaða ekki byggð á málsástæðum stefnanda að þessu lútandi.
Í 99. gr. laga nr. 31/1993 segir að skipti taki til heildareigna hvors hjóna, nema samningar um séreignir, reglur um lögmæltar séreignir eða fyrirmæli gefanda eða arfleiðanda leiði til annars, sbr. enn fremur reglur laganna um verðmæti sem séu undanþegin skiptum eða geti verið það að kröfu aðila.
Fram kemur í mati fasteignasala á jörðinni að greiðslumark sé ekki innifalið í því mati. Virðist þetta greiðslumark ekki hafa verið metið sérstaklega til verðs við skiptin. Það breytir þó ekki því að tilvist þess var augljóslega kunn. Engin stoð er fyrir þeirri staðhæfingu stefnanda að peningaeign hafi verið leynt með því að ekki hafi verið gerð grein fyrir fjármunum sem fengust fyrir þann hluta greiðslumarks sem hafði þegar verið seldur. Samkvæmt gögnum eignaðist stefndi bifreiðina [...], sem stefnandi telur hann hafa haldið utan skipta, þann 11. júní 2013, þ.e. eftir að leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng var gefið út, sem var gert þann 16. nóvember 2012. Um hjólhýsið, [...], var augljóslega fjallað á fundi aðila, sbr. skýrslur lögmanns, aðila og vitna sem raktar eru hér að framan.
Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993 getur maki krafist þess að ekki komi undir skipti réttindi í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóðum, svo og krafa til lífeyris eða líftryggingarfjár sem hefur ekki endurkaupsvirði.
Að þessu öllu gættu verður ekki á það fallist með stefnanda að skiptin hafi ekki tekið til heildareigna aðilanna.
Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993 er unnt að fella fjárskiptasamning vegna skilnaðar úr gildi að nokkru eða öllu með dómi, ef hann var bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma er til hans var stofnað. Samkvæmt 110. grein sömu laga er maka heimilt að gefa eftir af tilkalli sínu til eigna, enda sé eigi ástæða til að óttast að hann geti ekki fullnægt fjárskuldbindingum sem á honum hvíldu þá.
Við mat á því hvort samningurinn hafi verið bersýnilega ósanngjarn er til hans var stofnað, verður að líta til þess að það var forsenda við skiptin að ekki þyrfti að koma til sölu hlutdeildar stefnda í jörðinni [...]. Verður ekki annað séð en að stefnandi hafi samþykkt þessa forsendu, enda er hennar sérstaklega getið í samningnum. Gekkst stefndi undir kvöð um að selja ekki jörðina innan tiltekins tíma nema samþykki stefnanda kæmi til. Litið var til þess að ef til sölu hefði komið hefði þurft að greiða skatt af söluhagnaði og var aflað áætlunar um hann og hún höfð í huga við skiptin. Þá féllst stefnandi á það að sanngjarnt væri að stefndi nyti þess við skiptin að hann hafði nýlega fengið fyrirframgreiddan arf. Stefnandi fékk í sinn hlut fasteign, sem var einkum fjármögnuð með andvirði greiðslumarks eftir því sem næst verður komist og stefndi tókst á hendur ábyrgð greiðslu allra skulda og greiðslu skatta vegna tekjuársins 2012. Samið var um fjárhæð skuldabréfs sem stefndi gaf út til stefnanda og ákveðið að kröfu hennar að það bæri ekki vexti og verðbætur. Svo sem kemur fram í samningnum var stefnanda vandlega gerð grein fyrir reglu hjúskaparlaga um helmingaskipti.
Þegar þetta er virt í heild verður ekki fallist á að samningur aðila hafi bersýnilega verið ósanngjarn þegar til hans var stofnað. Verður hvorki fallist á að víkja beri honum til hliðar með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993, eða 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá verður heldur ekki fallist á að stefndi hafi haft yfirburðastöðu gagnvart stefnanda og nýtt sér hana með ólögmætum hætti, þannig að óheiðarlegt verði talið að bera samninginn fyrir sig.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Eftir þessum málsúrslitum verður stefnandi dæmd til að greiða honum 750.000 krónur í málskostnað.
Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, M, er sýknaður af kröfum stefnanda, K, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað.