Hæstiréttur íslands
Mál nr. 123/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Kröfugerð
|
Miðvikudaginn 19. febrúar 2014. |
|
|
Nr. 123/2014. |
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Snorri Sturluson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Kröfugerð.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laganna væri ekkert því til fyrirstöðu að ákærandi geti krafist þess í einu lagi að sakborningur verði úrskurðaður í gæsluvarðhald meðan á áfrýjunarfresti stendur og meðal mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti komi til þess að héraðsdómi yrði áfrýjað í tæka tíð. Að öðrum kosti félli gæsluvarðhaldið sjálfkrafa niður við lok lögboðins áfrýjunarfrests.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur í máli nr. S-[...]/2013 varir og eftir atvikum þangað til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, en þó ekki lengur en til föstudagsins 27. júní 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara „að á gæsluvarðhaldstímanum skuli varnaraðili njóta sömu reglna og gilda um afplánunarfanga.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili krafðist þess fyrir héraðsdómi að varnaraðila yrði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi „á meðan áfrýjunarfrestur í máli hans varir og eftir atvikum þangað til dómur gengur í máli hans fyrir Hæstarétti ... en þó ekki lengur en til föstudagsins 27. júní 2014, kl. 16.00.“ Var fallist á þessa kröfu sóknaraðila í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari, eftir kröfu ákæranda, úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti samkvæmt 199. gr. laganna stendur, svo og meðan mál er til meðferðar fyrir Hæstarétti uns dómur er þar upp kveðinn. Eftir orðanna hljóðan er ekkert því til fyrirstöðu að ákærandi geti krafist þess í einu lagi að sakborningur verði úrskurðaður í gæsluvarðhald meðan á áfrýjunarfresti stendur og meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti komi til þess að héraðsdómi verði áfrýjað í tæka tíð. Að öðrum kosti félli gæsluvarðhaldið sjálfkrafa niður við lok hins lögboðna áfrýjunarfrests, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. og 5. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008.
Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á með sóknaraðila að uppfyllt séu skilyrði til að úrskurða varnaraðila í gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 á þann veg sem í úrskurðarorði greinir. Verður úrskurðurinn því staðfestur.
Lagaskilyrði skortir til að kærumálskostnaður verði dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008, og er krafa varnaraðila þess efnis að ófyrirsynju.
Það athugist að í niðurstöðu hins kærða úrskurðar er komist svo að orði að varnaraðila verði „gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, í samræmi við kröfu [sóknaraðila], eins og nánar greinir í úrskurðarorði.“ Þessi ályktun héraðsdómara er sem fyrr greinir ekki í samræmi við kröfu sóknaraðila, auk þess sem hún er ekki sú sama og fram kemur í úrskurðarorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2014.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að, kt. [...], sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur í máli hans varir og eftir atvikum þangað til dómur gengur í máli hans fyrir Hæstarétti Íslands, en þó ekki lengur en til föstudagsins 27. júní 2014, kl. 16.00.
Í greinargerð ákæruvalds kemur fram að ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 22. ágúst sl. fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, samkvæmt úrskurði Héraðsdóm Reykjaness, nr. R-592/2013, en á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 4. september sl. og hafi síðast verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á þessum grundvelli 17. janúar sl. til dagsins í dag með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-14/2014. Hæstiréttur hafi fjallað um skilyrði gæsluvarðhalds ákærða og megi um það vísa til dóma Hæstaréttar í málum nr. 649/2013, 706/2013 og 819/2013.
Ríkssaksóknari hafi 2. október sl. gefið út ákæru á hendur X ásamt fjórum öðrum. Dómur í máli þeirra gekk í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og hafi ákærði verið sakfelldur og gerð fangelsisrefsing.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu sem hafi nr. S-[...]/2013, liggi fyrir og séu forsendur og niðurstaða dómsins grundvöllur kröfu þessarar um áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir ákærða og vísast til hans. Er byggt á því að ákærði hafi framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi auk 226. gr. sömu laga og að brotin séu þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þar sem skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, séu uppfyllt beri að verða við kröfu ákæruvaldsins.
Dómfelldi hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum í dag, þriggja ára og sex mánaða fangelsisdóm fyrir líkamsárás og frelsissviptingu. Dómfelldi hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 22. ágúst sl. vegna þeirra brota sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir að hluta.
Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfrestur stendur, sbr. 199. gr. sömu laga.
Með vísan til alvarleika brota þeirra sem dómfelldi hefur nú verið dæmdur fyrir krefjast almannahagsmunir þess að hann sæti varðhaldi. Verður honum með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga, sbr. 3. mgr. 97. gr. nr. 88/2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, í samræmi við kröfu ríkissaksóknara, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur í máli hans varir og eftir atvikum þangað til dómur gengur í máli hans fyrir Hæstarétti Íslands, en þó ekki lengur en til föstudagsins 27. júní 2014, kl. 16.00.