Hæstiréttur íslands

Mál nr. 348/1999


Lykilorð

  • Hlutafélag


           

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000.

Nr. 348/1999.

Neyðarlínan hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

Öryggisþjónustunni hf.

(Karl Axelsson hrl.)

             

Hlutafélög.

Öryggisþjónustufyrirtækið Ö gerðist hluthafi í hlutafélaginu N, en hlutverk N var að sinna samræmdri neyðarsímsvörun. Samkvæmt samþykktum N áttu hluthafar að vera aðilar að rekstri vaktmiðstöðvar félagsins. Ö seldi hlutafé sitt ári síðar. Ágreiningur reis um skyldu Ö til að inna af hendi árlegt rekstrarframlag til vaktmiðstöðvar N samkvæmt gjaldskrá, en vaktmiðstöðin hafði þá enn ekki tekið til starfa. Talið var að Ö hefði aldrei samþykkt að reiða fram slíkt framlag án þess að fá fyrir það neina þjónustu. Væri fyrrgreint ákvæði í samþykktum félagsins ekki nægileg heimild fyrir N til að leggja slíka kvöð á hluthafa. Var skuldajafnaðarkröfu N, sem reist var á þessum grunni, því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. september 1999 og krefst sýknu af kröfu stefnda. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Neyðarlínan hf. var stofnuð 26. september 1995. Starfsemi félagsins hófst að nokkru í ársbyrjun 1996, en að öðru leyti ekki fyrr en ári síðar. Stefndi lýsti því yfir í bréfi 7. janúar 1997 að hann vildi selja hlut sinn í félaginu. Lýtur deila málsaðila að því, hvort áfrýjandi geti krafið stefnda um greiðslu á reikningi frá 13. janúar 1997 fyrir „Árlegt rekstrarframlag eigenda – öryggisfyrirtækja ... Þjónusta” vegna ársins 1996, að fjárhæð 2.121.689 krónur auk virðisaukaskatts. Vill áfrýjandi láta þá fjárhæð koma til skuldajafnaðar kröfu stefnda um andvirði hlutabréfa sinna í áfrýjanda, sem sá síðarnefndi keypti 12. febrúar 1997 fyrir 1.000.000 krónur.

Af gögnum málsins verður ráðið að þegar um það leyti, sem áfrýjandi var stofnaður, voru uppi ráðagerðir um að þeir, sem ættu hlut í félaginu, yrðu að standa því skil á árlegu rekstrarframlagi. Í 7. gr. verksamnings áfrýjanda við dóms- og kirkjumálaráðuneytið 2. október 1995 kom fram að þetta árlega framlag hluthafa yrði 5.000.000 krónur og ætti að vera til greiðslu fyrir þjónustu neyðarvaktstöðvar áfrýjanda ásamt viðbótarþjónustugjöldum, sem yrðu alls fyrir hvern þeirra um 2.000.000 krónur. Af bréfi stefnda 28. september 1995 til hluthafa í áfrýjanda, þar sem staðfest var að hann vildi ganga í raðir þeirra, er ljóst að honum var þá fullkunnugt um þessa fyrirætlan, enda lýsti hann þar yfir að hann gerði athugasemd um fjárhæð árlega rekstrarframlagsins, en myndi fallast á niðurstöðu samkeppnisstofnunar um hana. Í framhaldi af ákvörðun samkeppnisráðs var gerður viðauki 20. desember 1995 við fyrrnefndan verksamning áfrýjanda og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, þar sem árlegt rekstrarframlag var lækkað í 2.000.000 krónur til samræmis við niðurstöðu samkeppnisráðs. Um þessar fyrirætlanir er í raun ekki deilt í málinu, heldur hitt, hvort stefnda sé skylt að greiða framlag vegna ársins 1996 án þess að áfrýjandi hafi þá veitt honum neina þjónustu með neyðarsímsvörun í vaktstöð.

Af gögnum málsins er ljóst, að ráðgert var að árlegt rekstrarframlag fæli í sér fasta greiðslu fyrir þjónustu vaktstöðvar áfrýjanda, en hún yrði til viðbótar gjöldum, sem yrðu ákveðin eftir sérstökum reglum með tilliti til notkunar hvers hluthafa á þjónustu. Í 1. mgr. 24. gr. samþykkta áfrýjanda segir aðeins að hluthafar skuli vera aðilar að rekstri vaktmiðstöðvar félagsins. Fallist er á með héraðsdómi, að þetta ákvæði feli ekki í sér næga heimild fyrir félagið til að leggja kvöð á hluthafa um að greiða því rekstarframlög án þess að þjónusta þess kæmi þar á móti. Verður í þeim efnum að líta til þess að ákvæði í félagssamþykktum, sem ætlað er að leggja skuldbindingar á hluthafa gagnvart félaginu, þurfa að vera skýr og ótvíræð. Fær ætlað tómlæti stefnda ekki breytt þessari niðurstöðu, enda hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að stefndi hafi nokkru sinni fallist á að honum bæri að greiða hin umdeildu framlög án þess að þjónusta fengist að neinu leyti í staðinn. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Neyðarlínan hf., greiði stefnda, Öryggisþjónustunni hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 1999.

1.Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 3. febrúar 1999 og dómtekið 2. þ.m.

Stefnandi er Öryggisþjónustan hf., kt. 670193-2419, Malarhöfða 2, Reykjavík.

Stefndi er Neyðarlínan hf., kt. 511095-2559, Grandagarði 14, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til greiðslu á 1.000.000 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 26. apríl 1997 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

 

2.Samkvæmt 1. gr. laga nr. 25/1995 um samræmda neyðarsímsvörun skyldi ríkisstjórnin eigi síðar en 31. desember 1995 koma upp samræmdri neyðarsímsvörun fyrir Ísland til að sinna viðtöku tilkynninga um fólk og eignir í neyð og beiðnum um aðstoð lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og sjúkraflutningaliðs og aðra neyðaraðstoð. Samkvæmt 3. gr. laganna skyldi koma upp vaktstöð eða vaktstöðvum til að sinna viðtöku og úrvinnslu tilkynninga sem berast um hið samræmda neyðarsímanúmer 112. Dómsmálaráðherra var jafnframt heimilað að semja við opinberar stofnanir, sveitarfélög og einkaaðila um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í slíkum rekstri. Í 4. gr. segir að kostnaður við uppbyggingu og rekstur vaktstöðvar eða vaktstöðva, að því marki sem hann sé ekki greiddur af tekjum fyrir selda þjónustu skv. 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr., greiðist að hálfu af ríkissjóði og hálfu af sveitarfélögunum. Í 2. mgr. 3. gr. segir að rekstraraðila vaktstöðvar sé heimilt að semja við þá aðila, sem sinni neyðarþjónustu, um að vaktstöðin sinni boðun, upplýsinga- og fjarskiptaþjónustu í þágu neyðarþjónustuaðila. Sama gildi um vöktun aðvörunarkerfa. Samningar um slíka þjónustu séu háðir samþykki dómsmálaráðherra. Í 2. mgr. 4. gr. segir að óski aðili, sem sinni neyðarþjónustu, eftir að vaktstöð sinni boðun eða annarri þjónustu í hans þágu skuli greitt fyrir þá þjónustu samkvæmt sérstökum samningi.

Að loknu útboði Ríkiskaupa í mars 1995 í umboði dómsmálaráðuneytisins ákvað ráðuneytið sem verkkaupi að ganga til samninga við Securitas hf., Slysavarnafélag Íslands, Slökkviliðið í Reykjavík, Vara hf. og Sívaka hf. um uppbyggingu og rekstur neyðarvaktstöðvar að uppfylltum m.a. eftirtöldum skilyrðum: a) Framangreindir aðilar stofni hlutafélag um reksturinn. Tryggt verði að hlutafé stofnenda félagsins skiptist jafnt á milli þeirra og að í samþykktum félagsins verði ákvæði um að dómsmálaráðherra verði að samþykkja hvers kyns aðilaskipti á hlutabréfum.  b) Öryggisþjónustunni hf. og Póst- og símamálastofnun verði þegar í stað gefinn kostur á að gerast hluthafi í félaginu frá upphafi til jafns við aðra hluthafa. Einnig skuli þessum aðilum eða öðrum, sem ráðuneytið mæli með, gefinn kostur á að ganga inn í félagið með hlutafjáraukningu, enda taki þessir aðilar um það ákvörðun og tilkynni dómsmálaráðuneytinu og hlutafélaginu þá ákvörðun innan sex mánaða frá stofnun hlutafélagsins. Þessir aðilar taki þátt í rekstri stöðvarinnar með sömu réttindum og skyldum og aðrir hluthafar og með sama árlega framlagi og ofangreind fyrirtæki, eða 5 milljónum króna. c) Fleiri aðilar geti fengið keypta þjónustu líkt og Slökkvilið Reykjavíkur og ofangreind öryggisfyrirtæki enda greiði þeir fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskrá sem dómsmálaráðherra samþykki. Þessir aðilar verði einungis kaupendur að þjónustu en hafi ekki áhrif á rekstur félagsins. d) Eftir stofnun hlutafélagsins verði gerður sérstakur samningur a.m.k. til átta ára milli ráðuneytisins og þess á grundvelli útboðsgagna. e) Vegna eðlis þeirrar starfsemi, sem væntanlegt hlutafélag komi til með að sinna, óskar dómsmálaráðuneytið eftir að fá send drög að samþykktum fyrir félagið. Ráðuneytið áskilur sér jafnframt rétt til að gera athugasemdir við drögin, enda sé það forsenda þess að endanlegt samkomulag geti tekist að efni samþykktanna falli að þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með lögum um samræmda neyðarsímsvörun.

Neyðarlínan hf. var stofnuð 26. september 1995. Samkvæmt stofnsamningi og samþykktum er tilgangur félagsins rekstur stjórnstöðvar vegna samræmdrar neyðarsímsvörunar, almenn svörun neyðarboða, skipulagning viðbragða frá hverskonar öryggiskerfum og skyldur rekstur. Á hluthafafundi 8. júlí 1996 var samþykkt að breyta samþykktum félagsins á þann veg að fram er tekið að það skuli ekki starfa við aðra öryggisþjónustu, sem einkaaðilar annist, en þá sem hér var greind. Hlutafé var í upphafi 6.000.000 króna og skiptist jafnt milli þessara aðila: Reykjavíkurborgar v/Slökkviliðs Reykjavíkur, Securitas hf., Slysavarnarfélags Íslands, Vara hf., Pósts og síma og Öryggisþjónustunnar Sívaka hf. Jafnframt var ákveðið að stjórn félagsins skyldi hafa heimild til þess að hækka hlutafé þess í allt að 7.000.000 króna með útgáfu nýrra hluta og gilti heimildin til 31. janúar 1996.

Samkvæmt 8. gr. samþykkta stefnda ber hluthafi ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins fram yfir hlut sinn í því og samkvæmt 1. mgr. 24. gr. samþykktanna skulu hluthafar vera aðilar að rekstri vaktmiðstöðvar félagsins. Er nánar kveðið á um þetta í 2. – 4. mgr. 24. gr. samþykktanna. Hluthafar skyldu leggja fram nauðsynlegan tækjabúnað til afnota fyrir vaktmiðstöðina til þess að halda uppi fjarskiptum, vöktun og neyðarviðbrögðum á starfssviði hvers hluthafa. Tækjabúnaðurinn skal vera eign hluthafa sem ber að taka hann til sín þegar hann hættir þátttöku í rekstrinum. Allt viðhald og endurnýjun þessa búnaðar skal vera á ábyrgð og kostnað eiganda. Þá haldi hluthafar uppi viðbragðskerfi hver á sínu starfssviði. Samkvæmt 25. gr. samþykkta stefnda er fyrirtækjum og stofnunum heimilt að gera þjónustusamninga við félagið um þátttöku í vaktmiðstöðinni án þess að gerast hluthafar. Utanfélagsmenn, sem óska eftir því að gera slíka þjónustusamninga, skulu uppfylla öll sömu skilyrði og hluthafar um tækjaframlög, þjónustugjöld, viðbragðskerfi, gæðakröfur, trúnaðarskyldu o.þ.h.  Þá segir í téðri grein að þjónustugjöld til vaktmiðstöðvarinnar skuli vera jöfn á hverja viðbragðseiningu sem njóti þjónustu stöðvarinnar og gildi það einnig um þátttöku hluthafa í vaktmiðstöðinni.

Með bréfi Öryggisþjónustunnar hf. 28. september 1995 til Slysavarnarfélags Íslands, Póst- og símamálastofnunar, Securitas hf., Vara hf. og Sívaka hf. er staðfest að fyrirtækið vilji taka þátt í rekstri Stjórnstöðvar Íslands en áskilji sér rétt til þess að hafa áhrif á hvernig samningur fyrirtækjanna verði. Tekið er fram að Öryggisþjónustan hf. hafi gert athugasemdir um 5.000.000 króna árlega greiðslu öryggisfyrirtækjanna og telji það ekki standast samkeppnislög. Lýst er fögnuði yfir því að samningurinn verði borinn undir Samkeppnisstofnun og muni fyrirtækið fallast á niðurstöðu hennar.

Álit Samkeppnisráðs nr. 10/1995 er um samning dóms- og kirkjumála­ráðuneytis og Neyðarlínunnar hf. um fyrirkomulag á rekstri neyðarvaktstöðvar. Þar segir að þ. 3. október 1995 hafi borist svohljóðandi erindi frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu: “Hjálagt sendist Samkeppnisstofnun til umsagnar samningur dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Neyðarlínunnar hf. um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í rekstri neyðarvaktstöðvar í samræmi við 3. gr. laga nr. 25/1995. Jafnframt sendast til umsagnar samþykktir Neyðarlínunnar hf.” Þá greinir frá því að Samkeppnisstofnun hafi borist bréf, dags. 15. september 1995, frá samstarfshópi öryggisþjónustufyrirtækja. Þar sé mótmælt ætluðu misrétti, sem samningur dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Neyðarlínunnar hf. um neyðarvaktstöð feli í sér, og snúi mótmælin fyrst og fremst að því rekstrarframlagi sem hvert fyrirtæki þurfi að greiða til stöðvarinnar samkvæmt samningnum án tillits til umfangs starfsemi þess. Í niðurstöðukafla segir að fyrirtækin, sem komi að rekstri hlutafélagsins, muni leggja niður eigin vaktstöðvar og muni stjórnstöð Neyðarlínunnar hf. yfirtaka þau verkefni sem sinnt sé af vaktstöðvum þeirra. Hvert fyrirtæki eða stofnun muni leggja fram þann tækjabúnað til afnota fyrir stjórnstöð Neyðarlínunnar hf. sem nauðsynlegur verði til þess að halda uppi fjarskiptum, vöktun og neyðarviðbrögðum á starfssviði hvers og eins. Samhliða símsvörun fyrir samræmda neyðarsímanúmerið 112 verði Neyðarlínunni hf. síðan heimilt að sinna öðrum verkefnum, svo sem vöktun aðvörunarkerfa hjá viðskiptavinum eigenda fyrirtækisins og þeirra öryggisþjónustufyrirtækja sem samið hafi við Neyðarlínuna hf. um slíka vöktun. Þannig muni fyrirtækin algerlega sameinast um eina stjórnstöð og við það telji þau sig spara allt að fimm milljónum króna á ári hvert um sig. Meginniðurstaða Samkeppnisráðs var svohljóðandi: „Að árleg greiðsla þeirra einkaaðila, sem vilja reka öryggisþjónustu sína í tengslum við hina sameiginlegu neyðarvaktstöð, verði að hámarki 1 – 2 millj. kr. Þau fyrirtæki, sem annast öryggisþjónustu og gera samninga við Neyðarlínuna hf. um vaktþjónustu, greiði að öðru leyti fyrir þá þjónustu, sem þau njóta, samkvæmt þjónustugjaldskrá sem taki mið af umfangi þeirrar þjónustu sem fyrirtækin njóta.“

Þann 2. október 1995 gerðu stefndi, sem verksali, og dóms- og kirkjumálaráðuneytið, sem verktaki, verksamning um samræmda neyðarsímsvörun og rekstur neyðarvaktstöðvar. Breytingar og viðaukar voru gerðir við samninginn með samningi 20. desember 1995.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. verksamningsins, sbr. 1. gr. viðaukans, skyldi stefnanda verða gefinn kostur á að gerast hluthafi í félaginu með hlutafjáraukningu, enda tæki fyrirtækið um það ákvörðun fyrir lok janúarmánaðar 1996 og tæki þátt í rekstri stöðvarinnar með sama árlega fasta framlagi og samkvæmt sömu þjónustugjaldskrá og önnur öryggisfyrirtæki. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samningsins, sbr. 2. gr. viðaukans, lá fyrir að stefndi myndi semja við Póst og síma, Slökkviliðið í Reykjavík, Securitas hf., Vara hf., Sívaka hf. og Slysavarnarfélag Íslands um að yfirtaka verkefni sem þá var sinnt eða fyrirhugað að yrði sinnt af vakt- og stjórnstöðvum þessara aðila. Póstur og sími, Slökkviliðið í Reykjavík og Slysavarnarfélag Íslands myndu greiða fyrir þjónustu neyðarvaktstöðvar með árlegu rekstrarframlagi, fimm milljónum króna án virðisaukaskatts, hver aðili. Þá var í 4. mgr. 7. gr. samningsins, sbr. 2. gr. viðaukans, ákveðið að öryggisfyrirtækin Securitas hf., Vari hf. og Sívaki hf. myndu greiða fyrir þjónustu neyðarvaktstöðvar með föstu árlegu rekstrarframlagi, 2 milljónum króna án virðisaukaskatts, hver aðili og auk þess þjónustugjöld samkvæmt gjaldskrá sem dómsmálaráðuneytið hafði samþykkt og var hluti samningsins. Verkefni yrðu ekki yfirtekin af Slysavarnarfélagi Íslands né heldur skyldi félagið greiða árlegt fimm milljóna króna framlag fyrr en frá og með 1. janúar 1997. Í 5. mgr. 7. gr. samningsins, sbr. 2. gr. viðaukans, féllst stefndi á að aðrir aðilar gætu notið sambærilegrar þjónustu frá vaktstöðinni enda myndu þeir greiða sama árlega fastagjald til rekstrarins og ofangreind öryggisfyrirtæki auk þjónustugjalda samkvæmt sömu þjónustugjaldskrá og þau. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. samningsins ráðast árlegar greiðslur til verktaka annars vegar af rekstrarkostnaði og hins vegar af tekjum fyrir selda þjónustu samkvæmt 7. gr. sem komi til lækkunar á samningsbundnum greiðslum frá verkkaupa.

Í 6. gr. viðaukans segir að verkkaupa sé ljóst að Neyðarlínan „hefur starfsemi sína 1. janúar nk. með bráðabirgðaaðstöðu og búnað… Þá er það sameiginlegur skilningur aðila að verklýsingar komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en neyðarvaktstöðin hefur að fullu tekið til starfa sem verður eigi síðar en 1. júlí 1996. Áætlað er að taka hluta af búnaði neyðarvaktstöðvarinnar í notkun þann 1. mars 1996.“

Stefnandi gerðist hluthafi í stefnda og greiddi helming hlutafjárins, 500.000 krónur, 29. janúar 1996 og afganginn 29. mars s.á. Forsvarsmenn stefnanda sátu stjórnarfundi sem áheyrnarfulltrúar.

Fram er komið að rekstur vaktmiðstöðvar stefnda hafi ekki hafist fyrr en um áramótin 1996/1997, þ.e. 6 – 9 mánuðum á eftir áætlun, og hafi stefnandi aldrei notið neinnar þjónustu stefnda. Í stefnu greinir frá því að áður en rekstur vaktstöðvarinnar hófst hafi forsvarsmenn stefnanda hafið máls á því að þeir hefðu ekki áhuga á þátttöku í vaktmiðstöðinni.

Í málinu liggur frammi gjaldskrá stefnda vegna öryggisfyrirtækja frá 22. október 1996. Þar er annars vegar kveðið á um stofnframlag fyrirtækjanna Securitas, Vara, Sívaka og stefnanda, tvær milljónir króna frá hverju þeirra, og hins vegar greiðslur eftir fjölda tenginga.

Í bréfi stefnanda til stefnda, dags. 7. janúar 1997, segir að hann telji öryggi viðskiptavina sinna betur borgið utan Neyðarlínunnar hf. og hafi ákveðið að kaupa ekki þjónustu af fyrirtækinu. Var stjórn stefnda eða öðrum hluthöfum jafnframt boðinn hlutur stefnanda í félaginu til kaups. Með reikningi, dags. 13. janúar 1997, var stefnandi krafinn um „árlegt rekstrarframlag eigenda – öryggisfyrirtækja“, 2.641.503 krónur að meðtalinni vísitöluhækkun og virðisaukaskatti. Með bréfi stefnda til stefnanda, dags. 12. febrúar 1997, var honum tilkynnt að stefndi og hluthafarnir Slysavarnarfélag Íslands, Reykjavíkurborg fyrir Slökkviliðið í Reykjavík, Póstur og sími hf., Securitas hf. og Vari hf. hefðu áhuga á að nýta sér forkaupsrátt að hlutum hans í hinu stefnda hlutafélagi. Á fundi 26. febrúar 1997 varð samkomulag um að stefndi og hluthafarnir Slysavarnarfélag Íslands, Reykjavíkurborg fyrir Slökkviliðið í Reykjavík, Póstur og sími hf., Securitas hf. og Vari hf. keyptu hlut stefnanda á genginu einn í samræmi við samþykkt stjórnar frá 11. febrúar. Gengið skyldi frá samningi innan tveggja mánaða um greiðslu á hlutafénu. Með bréfi stefnda, dags. 4. apríl 1997, var stefnanda tilkynnt að kaupin á hlutafénu hefðu verið færð yfir á viðskiptareikning stefnanda hjá stefnda. Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf 14. apríl 1997. Þar var eindregið mótmælt annars vegar kröfu stefnda um greiðslu árlegs rekstrarframlags eigenda og hins vegar þeirri málsmeðferð að færa kaupverð hlutafjár stefnanda í viðskiptareikning hans hjá stefnda. Um síðargreint atriði var vísað til þess, með skírskotun til bréfs frá 12. febrúar 1997 og samkomulags frá 26. s.m., að stefndi væri aðeins einn af sex kaupendum hlutafjárins og hefðu 166.666 krónur komið á hvern aðila um sig. Viðskipti stefnanda og einstakra hluthafa væru viðskiptum hans og stefnda óviðkomandi. Hlutust af þessu mikil bréfaskipti og var því jafnan haldið fram af hálfu stefnda að hann hefði keypt bréfin á löglegan hátt og að hluthafarnir ættu þar ekki hlut að.

Lögmaður stefnanda sendi stefnda innheimtubréf 27. nóvember 1998 vegna vanskila á greiðslu hlutafjár að höfuðstól 1.000.000 króna. Krafan var sögð styðjast við bókun um kaup hlutafjárins dags. 24. (svo) febrúar 1997 og dráttarvaxta krafist frá 24. júlí 1997.

 

3.Málsástæður stefnanda.

Stefnandi kveður rekstur vaktmiðstöðvar stefnda ekki hafa hafist fyrr en um áramótin 1996/1997, sex til níu mánuðum á eftir áætlun, og hafi hann aldrei notið neinnar þjónustu stefnda. Áður en rekstur vaktmiðstöðvarinnar hófst hafi forsvarsmenn stefnanda hafið máls á því að þeir hefðu ekki áhuga á þátttöku í henni.

Fallist er á að stefndi hafi keypt hlutabréf stefnanda á löglegan hátt. Stefnandi telur hins vegar að stefndi hafi ekki efnt skyldu sína til greiðslu kaupverðs hlutafjárins og hafi sér engin skylda borið til greiðslu reikningsins dags. 13. janúar 1997. Eftir standi því krafa stefnanda á hendur stefnda um greiðslu hlutafjárins samkvæmt samningi frá 26. febrúar 1997 en hluturinn hafi verið seldur fyrir eina milljón króna.

Engum samningi sé fyrir að fara milli stefnda og stefnanda sem leitt geti til skyldu stefnanda til greiðslu reikningsins frá 13. janúar 1997.

Engin ákvæði í samþykktum stefnda leiði til þeirrar skyldu stefnanda að greiða stefnda fyrir þjónustu sem ekki sé veitt. Í 4. mgr. 25. gr. samþykkta stefnda sé gert ráð fyrir því að þjónustugjöld komi aðeins til greiðslu fyrir veitta þjónustu. Í samþykktunum sé ekki að finna nein ákvæði um skyldu hluthafa til að leggja fé til almenns rekstrar stefnda umfram það sem felist í greiðslu hlutafjárins. Jafnvel þótt dómurinn teldi að lesa mætti út úr samþykktunum skyldu af þessu tagi er á því byggt að slík ákvæði brytu gegn ákvæðum hlutafélagalaga nr. 2/1995 og einkum vísað til 94., 95. og 21. gr

Stefnandi hafi aldrei verið aðili að verksamningnum við dóms- og kirkjumálaráðuneytið dags. 2. október 1995, sbr. viðauka dags. 20. desember 1995, og aldrei gengist undir neinar skuldbindingar samkvæmt honum. Auk framangreinds er bent á að verksamningurinn og viðauki við hann feli ekki efnislega í sér skyldu til greiðslu rekstrarframlags þegar enginn rekstur fari fram. Þetta sé augljóst af öllu orðalagi samningsins enda sé þar talað um þjónustu neyðarvaktstöðvar. Bent er á þá forsendu samningsins að rekstur vaktstöðvarinnar hefjist í mars 1996. Enn fremur er vísað til þess að samningurinn gerði ráð fyrir að Slysavarnarfélag Íslands greiddi aðeins þjónustugjald frá þeim tíma sem það gerðist aðili að rekstrinum. Vilji svo ólíklega til að dómurinn telji samninginn fela efnislega í sér skyldu til greiðslu rekstrarframlags sé vísað til þess að samningurinn bryti með því í bága við samþykktir stefnda og bindi hann því ekki og þaðan af síður hluthafa hans.

Dráttarvaxtakrafa stefnanda miðast við samkomulag aðila dags. 24. febrúar 1997 um kaup hlutafjárins en samkvæmt því hafi samningum um greiðslu hlutafjárins átt að vera lokið innan tveggja mánaða.

 

4.Málsástæður stefnda.

Krafa um sýknu er fyrst og fremst reist á því að með því að gerast hluthafi í Neyðarlínunni hf. hafi stefnandi tekist á hendur öll réttindi og skyldur sem samþykktir hlutafélagsins leggja á hluthafa. Í 24. gr. samþykkta félagsins er skýrlega tekið fram að hluthöfum sé skylt að vera aðilar að rekstri vaktmiðstöðvarinnar. Gagnstætt því sem kemur fram í 25. gr. samþykktanna er ekki gert ráð fyrir því að koma þurfi til sérstakur samningur á milli hluthafans og félagsins heldur er út frá því gengið að með því að gerast hluthafi í félaginu undirgangist hluthafinn þessa kvöð. Með þessu hafi stefnandi tekið á sig skuldbindingu um að greiða fast árlegt framlag til stefnda án tillits til þess hvort hann nýtti sér þjónustu félagsins eða ekki. Þegar hið stefnda félag keypti umdeildan hlut af stefnanda, hafi stefnanda verið ljóst að hann skuldaði stefnda árlegt rekstarframlag sbr. reikning á dómskjali nr. 12 að fjárhæð 2.121.689 krónur. Með því að lýsa yfir skuldajöfnun á kröfu um sölu á kaupverði hlutarins og skuld samkvæmt framangreindum reikningi hefur stefnda félag að fullu staðið skil á kaupverði hlutarins.

Stefndi kveður ekki vera deilt um það í málinu að félagið hafi sett sér sérstaka gjaldskrá. Með þeirri ákvörðun hafi félagið með lögmætum hætti ákveðið fjárhæð þeirrar skuldbindingar sem á hluthöfum hvíli samkvæmt samþykktum þess.

Um hlutafélög sem og önnur félög gildi meginreglan um félagafrelsi skv. 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Hluthöfum sé því heimilt að semja um leikreglur sín á milli með þeim hætti sem þeir vilji að því tilskyldu að þær stangist ekki á við ófrávíkjanleg lagaákvæði. Þessi kvöð brjóti ekki í bága við ákvæði laga um hlutafélög nr. 2/1995 heldur geri lögin beinlínis ráð fyrir því að aðrar skyldur en að greiða hlutafé geti fylgt hlutum. Megi sem dæmi um þetta nefna ákvæði 4. tl. 4. mgr. 27. gr. þeirra laga.

Samkvæmt dómafordæmum og viðurkenndum kenningum í hlutafélagarétti verði aðili sem ætli að gerast hluthafi í félagi að kynna sér samþykktir hlutafélags til þess að ganga úr skugga um þau réttindi og skyldur sem fylgi hlutum. Stefnanda hafi sem góðum og gegnum kaupanda að hlutafé borið að kynna sér efni samþykkta félagsins og þar með fá vitneskju um þá skuldbindingu sem fylgdi hlutnum. Hafi stefnandi vanrækt þetta verði hann að bera hallann af þeirri vanrækslu.

Þá er á því byggt að stefnanda hafi verið eða mátt vera kunnugt um hvaða skuldbindingar hann var að takast á hendur er hann gerðist hluthafi þar sem honum var kunnugt um efni samningsins við dóms- og kirkjumála­ráðuneytið um fjárhæðir hins fasta árlega framlags. Komi þetta t.d. skýrlega fram í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 11. júlí 1995, minnispunktum af fundi þann 30. september 1995, bréfi stefnanda 28. september 1995 og áliti Samkeppnisráðs.

Einnig komi fram í bréfi stefnanda til stefnda dags. 7. janúar 1997 á dómskjali nr. 11 að honum sé kunnugt um þá kvöð að hluthöfum sé skylt að vera þátttakendur í rekstri vaktmiðstöðvarinnar.

Þá sé ljóst að sem þátttakanda á stjórnarfundum hjá stefnda hafi stefnanda hlotið að vera kunnugt um þá skuldbindingu sem hann tókst á hendur. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við þessar reglur eða skyldur og verði því að telja að hann hafi með tómlæti sínu, allt frá því að hann gerðist hluthafi og fram til þess tíma sem hann andmælti fyrst gjaldtökunni, samþykkt þessa skyldu í verki.

Þá er á því byggt að með staðfestingu á þátttöku í félaginu og þeim ummælum að stefnandi mundi lúta ákvörðun Samkeppnisstofnunar um árlegt fastaframlag, í bréfi dags. 28. september 1998, hafi komist á samningur milli stefnda og stefnanda um að hann mundi greiða hið árlega fastaframlag ef Samkeppnisstofnun féllist á slíka greiðslu. Þá jafngildi athafnaleysi stefnanda, þegar hann hafði fullar upplýsingar um að sérhver hluthafi þyrfti að greiða fastaframlag til rekstursins, því að hann hafi með þegjandi samþykki samþykkt að samningur hafi komist á.

Að endingu er á því byggt að um sé að ræða lögmælta greiðsluskyldu sem stefnandi hefur tekist á hendur með því að gerast þátttakandi í rekstri Neyðarlínunnar hf.

Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt að því er varðar upphafstíma þar sem hann hafi ekki viljað viðurkenna fyrr en með innheimtubréfi, dags. 27. nóvember 1998, að stefndi væri réttur aðili til þess að greiða kaupverð hlutafjárins. Því sé ekki eðlilegt að dæma dráttarvexti á kröfuna fyrr en í fyrsta lagi einum mánuði eftir framangreint kröfubréf. Eðlilegast sé þó að dæma ekki vexti fyrr en við dómsuppsögu verði einhver hluti kröfunnar viðurkenndur.

 

5.Aðila greinir ekki á um skyldu stefnda að standa stefnanda skil á kaupverði hlutar hans í hinu stefnda hlutafélagi en krafa um það var ekki sett fram fyrr en 27. nóvember 1998. Megin ágreiningur aðila lýtur að skyldu stefnanda til greiðslu reiknings sem yfirlýsing stefnda um skuldajöfnun var reist á.

Stefnandi hætti við þátttöku í rekstri stefnda um það bil, um áramót 1996/1997, er rekstur vaktmiðstöðvar fyrir öryggisþjónustufyrirtækin hófst og naut hann aldrei þeirrar þjónustu sem að var stefnt með aðild hans.

Heimild til að krefja stefnanda um fast árlegt framlag til stefnda án tillits til þess hvort honum hafi verið veitt þjónusta eða a. m. k. staðið hún til boða verður ekki fundin í samþykktum stefnda.

Ákvæði verksamnings dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og stefnda um fastar greiðslur hluthafa eru augljóslega við það miðuð að á móti komi þjónusta sem þeim gefist kostur á að færa sér í nyt. Þegar af þeirri ástæðu verður greiðsluskylda stefnanda ekki reist á verksamningnum. Þá verður réttur stefnda ekki reistur á aðgreiningu þjónustugjaldskrár hans á svonefndum stofnframlögum og greiðslum eftir fjölda tenginga.

Eigi verður séð að stefnandi hafi tekið á sig hina umdeildu kvöð, þ.e. til greiðslu rekstrarframlags þegar enginn rekstur fer fram. Þá er ekki fallist á að hann hafi samþykkt hana með þegjandi samþykki eða tómlæti. Í framlögðum fundargerðum er ekkert að finna um þetta ágreiningsefni að því undanskyldu sem ráðið verður af fundargerð 30. stjórnarfundar 22. október 1996. Þar segir að framkvæmdastjóri hafi lagt fram yfirlit yfir reksturinn fyrstu níu mánuði ársins og komi fram, þegar gengið sé út frá greiðslum frá öryggisfyrirtækjunum fyrir allt árið, að hallinn á árinu verði um 1,5 millj. króna. Stofnkostnaður sé kominn í um 25 millj. króna. Segir í fundargerðinni að umræður hafi orðið um árleg framlög öryggisfyrirtækjanna og verið samþykkt að fá lögfræðilegt álit á málinu.

Ekki eru færð fram rök fyrir því að um sé að ræða lögmælta greiðsluskyldu sem stefnandi hafi tekist á hendur með því að gerast þátttakandi í rekstri Neyðarlínunnar hf.

Samkvæmt framangreindu er ekki fallist á að stefnda hafi verið heimil skuldajöfnun og ber að dæma hann til að greiða stefnanda 1.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. desember 1998 til greiðsludags. Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem er ákveðinn 250.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Neyðarlínan hf., greiði stefnanda, Öryggisþjónustunni hf., 1.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. desember 1998 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.