Hæstiréttur íslands
Mál nr. 357/2002
Lykilorð
- Skuldamál
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 20. mars 2003. |
|
Nr. 357/2002. |
Guðráður Óttar Sigurðsson(Brynjar Níelsson hrl.) gegn Desirée Dísu Ferhunde Anderiman (Ingólfur Hjartarson hrl.) og gagnsök |
Skuldamál. Fyrning.
G stefndi D til greiðslu á skuld vegna margháttaðs framlags síns og endurbóta á fasteign sem D keypti ásamt I á árinu 1992, en G taldi sig hafa keypt eignina að hálfu til móts við D. Var sá hluti kröfu G, sem reistur var á vinnuframlagi hans, fallinn niður fyrir fyrningu, en D gert að greiða honum þá liði kröfunnar sem voru sannaðir með framburði vitna og skjallegum sönnunargögnum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 24. maí 2002, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 10. júlí sama árs. Hann áfrýjaði öðru sinni 6. ágúst 2002 með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi verði dæmd til að greiða sér 2.902.415 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. júní 1997 til 1. júlí 2001, en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og vertryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmd til að greiða sér 1.050.000 krónur með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 14. október 2002. Hún krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem verði felldur niður, og að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað fyrir Hæstarétti.
I.
Svo sem rakið er í héraðsdómi er deila málsaðila sprottin af kaupum á íbúðarhúsi á jörðinni Skeggjastöðum í Mosfellsbæ á árinu 1992 ásamt bílskúr, hesthúsi, fjórum skemmum og um þriggja hektara landspildu. Samkvæmt kaupsamningi, sem dagsettur er 22. desember 1992, voru gagnáfrýjandi og Ingvar Grétarsson kaupendur og kaupverðið 9.100.000 krónur. Af málatilbúnaði aðilanna verður engu að síður ráðið að kaupin hafi í raun verið ráðin í september 1992 og óumdeilt er að seljandinn, Hagkaup h/f, afhenti kaupendum þá eignirnar. Átti gagnáfrýjandi frumkvæði að því að þær voru keyptar og vakti aðaláfrýjandi áhuga Ingvars á því að taka þátt í kaupunum, en þeir voru kunningjar.
Á þeim tíma, sem hér um ræðir, var náið samband með málsaðilum og bjuggu þau saman á Skeggjastöðum á árinu 1993 frá janúar fram á sumar eða haust þegar slitnaði upp úr sambandi þeirra. Flutti aðaláfrýjandi þá úr íbúð í húsinu, sem þau höfðu búið í. Á sama tíma bjuggu í annarri íbúð í húsinu áðurnefndur Ingvar og kona hans, Vigdís Þórisdóttir.
Þegar kaupin voru gerð var íbúðarhúsið í slæmu ástandi og þarfnaðist endurbóta. Réðust málsaðilar ásamt Ingvari og Vigdísi fljótlega eftir afhendingu eignanna í viðgerðir á íbúðarhúsinu auk þess sem nokkuð var unnið við útihúsin. Kveðst aðaláfrýjandi hafa unnið mikið við þær sjálfur ásamt Ingvari, sem sé trésmiður. Hafi aðaláfrýjandi jafnframt lagt út fyrir efni og öðrum kostnaði í tengslum við framkvæmdirnar og að auki innt af hendi í þrjú skipti greiðslur samkvæmt kaupsamningi til seljanda eignanna. Vinnu annarra manna við viðgerðirnar kveðst hann í nokkrum tilvikum hafa greitt með svokallaðri skiptivinnu, en sjálfur sé hann rafvirki og hafi getað greitt þeim með vinnu við raflagnir. Kveðst aðaláfrýjandi hafa tekið þátt í framkvæmdunum fram á mitt ár 1993. Samkomulag hafi verið með þeim fjórum, sem að þessu stóðu, um að hvert þeirra skyldi eiga fjórðung í eignunum, en af hagkvæmnisástæðum hafi málsaðilar ákveðið að hans nafn kæmi ekki fram í kaupsamningnum.
Gagnáfrýjandi mótmælir því að nokkurt samkomulag hafi verið gert um að aðaláfrýjandi skyldi eiga í nefndum fasteignum með henni og Ingvari. Taki kaupsamningurinn þar af öll tvímæli, en samkvæmt honum séu þau tvö síðastnefndu kaupendur. Hún viðurkennir hins vegar að aðaláfrýjandi hafi innt af hendi 200.000 króna kaupsamningsgreiðslu um haustið 1993, sem þó hafi verið gert í hennar óþökk. Þá hafi hann innt af hendi 100.000 120.000 krónur vegna efniskaupa. Kröfu hans hafi hún mætt með gagnkröfu og skuldajöfnuði vegna skemmda, sem aðaláfrýjandi hafi unnið á eignum hennar síðla hausts 1993 eftir að slitnaði upp úr sambandi þeirra.
Eftir þetta kom í ljós að ekki var lengur áhugi fyrir hendi hjá gagnáfrýjanda og Ingvari að eiga saman áðurnefndar fasteignir. Keypti gagnáfrýjandi hlut hans í þeim samkvæmt kaupsamningi 18. ágúst 1994 fyrir 5.309.329 krónur. Fékk hún afsal fyrir hinu keypta 14. mars 1995.
Aðaláfrýjandi heldur fram að gagnáfrýjandi skuldi sér vegna margháttaðs framlags hans við kaupin og endurbætur á eignunum. Verði ekki fallist á aðalkröfu hans, sem reist sé á samantekt hans um kostnað, beri að leggja til grundvallar verðmat að baki kaupverðinu í samningi gagnáfrýjanda og Ingvars, en nettóverðmæti helmings eignanna í þeim kaupum hafi verið 2.100.000 krónur. Eigi aðaláfrýjandi með réttu tilkall til fjórðungs af nettóverðmæti allra eignanna og taki fjárhæð varakröfu hans mið af því. Málavöxtum og málsástæðum aðilanna er að öðru leyti nánar lýst í héraðsdómi.
II.
Meðal málsskjala er ódagsettur listi, sem aðaláfrýjandi reisir kröfu sína að hluta á, og ber fyrirsögnina „Skeggjastaðir“. Leitast hann við að sýna fram á með honum hver sá kostnaður hafi verið, sem hann sjálfur, Ingvar og gagnáfrýjandi hafi hvert um sig haft af fasteignakaupunum, rekstri eignanna og viðgerðum á þeim á tímabilinu frá október 1992 til hausts 1993. Þessi samantekt um kostnað leiði í ljós að vinnuframlag hans og beinar greiðslur, sem þar komi fram, hafi samtals numið 1.706.735 krónum. Aðaláfrýjandi hefur einnig lagt fram annan ódagsettan lista, sem ber fyrirsögnina „Skeggjastaðir íbúð Óttar-Dísa“, þar sem einnig er talinn upp ýmis kostnaður, sem hann hafi haft af sömu ástæðum, samtals að fjárhæð 1.195.680 krónur. Alls nema þessar tvær fjárhæðir aðalkröfu hans í málinu.
Aðaláfrýjandi gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að fyrrnefndi listinn hafi verið færður jafnóðum og kostnaður vegna fasteignanna féll til. Hafi Vigdís annast þessa samantekt í samvinnu við hin þrjú, en með þessu hafi verið að því stefnt að á hreinu væri hvað aðaláfrýjandi, Ingvar og gagnáfrýjandi legðu hvert um sig fram vegna fasteignanna. Allir reikningar hafi verið færðir inn í möppu, sem þau áttu öll aðgang að, sem og listanum sjálfum. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við þetta. Við skýrslugjöf fyrir dómi lýstu bæði Ingvar og Vigdís þessu á sama veg og aðaláfrýjandi og töldu þær tölur vera réttar, sem kæmu fram á listanum um kostnað hvers og eins. Framburður gagnáfrýjanda um tilurð listans var ekki afdráttarlaus. Hins vegar neitaði hún eindregið að aðaláfrýjandi hefði greitt aðrar kaupsamningsgreiðslur en þá, sem var á gjalddaga í ágúst 1993 að fjárhæð 200.000 krónur. Ekki fengust svör við því hvaða aðra liði í kröfugerð aðaláfrýjanda hún viðurkenndi, samtals að fjárhæð 100.000 - 120.000 krónur, svo sem áður var getið.
Að því er varðar síðarnefnda listann er komið fram að hann varð ekki til jafnóðum og kostnaður féll til. Kvaðst Vigdís hafa fært hann eftir upplýsingum aðaláfrýjanda og taldi hún það hafa verið gert eftir að slitnaði upp úr sambandi málsaðila. Er það ekki vefengt af hálfu aðaláfrýjanda. Sá munur er jafnframt á þessum tveimur kostnaðaryfirlitum að margir liðir í hinu fyrrnefnda eru studdir kvittunum eða öðrum fylgiskjölum, en aðeins fáir liðir í hinu síðarnefnda eru studdir slíkum gögnum.
III.
Gagnáfrýjandi ber fyrir sig að hvað sem öðru líði sé krafa aðaláfrýjanda fyrnd. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að sá hluti kröfunnar, sem reistur er á vinnuframlagi aðaláfrýjanda, sé fallinn niður fyrir fyrningu, sbr. 1. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Verður jafnframt staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að aðra liði í kröfu aðaláfrýjanda beri að meta sem peningalán og að sá hluti kröfunnar sé ófyrndur, sbr. 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905.
Með framburði vitna og skjallegum sönnunargögnum hefur aðaláfrýjandi sannað réttmæti þeirra kröfuliða, sem fram koma í fyrrnefnda listanum, sem ber fyrirsögnina „Skeggjastaðir“. Það á þó ekki við um greiðslur hans fyrir rafmagn, samtals að fjárhæð 44.151 króna, en aðaláfrýjandi, sem bjó sjálfur á Skeggjastöðum á þessum tíma, hefur ekki sýnt fram á að þessar greiðslur tengist öðru en heimilisrekstri. Þá er tveimur liðum, samtals að fjárhæð 661.665 krónur, lýst svo að vegna galla í fasteignunum hafi seljandinn veitt afslátt af kaupverðinu, en kaupendur skyldu þá sjálfir bæta úr göllunum. Það hafi aðaláfrýjandi og Ingvar gert með vinnuframlagi sínu og efniskaupum og nemi hlutur hins fyrrnefnda þessari fjárhæð. Sá hluti þessara kröfuliða, sem er fyrir vinnuframlag er fyrndur, en með því að ekki er greint á milli efnis og vinnu verður ekki komist hjá að hafna þessum liðum. Krafa aðaláfrýjanda, sem reist er á þessum lista, verður samkvæmt þessu að öðru leyti tekin til greina með 1.000.919 krónum.
Listi með fyrirsögninni „Skeggjastaðir íbúð Óttar-Dísa“ var ekki gerður í samvinnu allra, sem hlut áttu að máli, jafnharðan og kostnaðurinn féll til og sá hluti kröfu aðaláfrýjanda, sem á honum er reistur, er ekki studdur gögnum nema að litlu leyti. Hefur aðaláfrýjanda ekki tekist sönnun um réttmæti þessa hluta kröfu sinnar nema að því er varðar nokkra liði. Verður samkvæmt því tekinn til greina kröfuliður fyrir múrverk samkvæmt tveimur reikningum, samtals að fjárhæð 120.000 krónur, en sannað er með framburði vitnis að aðaláfrýjandi greiddi fyrir verkið með peningum og skiptivinnu og má telja kröfu hans fyrir skiptivinnu til ígildis peningagreiðslu. Kröfuliður vegna greiðslu fyrir steypusögun er að hluta sannaður með reikningi að fjárhæð 35.000 krónur og kröfuliðir fyrir niðurrif á skemmum o. fl. að fjárhæð 42.000 krónur og fyrir efni í glugga að fjárhæð 18.200 krónur eru einnig sannaðir með framburði vitna og reikningum. Kröfuliðir samkvæmt þessum lista, sem teknir eru til greina, nema því alls 215.200 krónum.
Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða málsins sú að krafa aðaláfrýjanda er tekin til greina með samtals 1.216.119 krónum. Ber krafan dráttarvexti eins og krafist er. Sýknukrafa gagnáfrýjanda, sem studd er við skuldajöfnun, er ósönnuð með öllu og breyta ný skjöl, sem hún hefur lagt fyrir Hæstarétt, engu um það.
Gagnáfrýjandi skal greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Desirée Dísa Ferhunde Anderiman, greiði aðaláfrýjanda, Guðráði Óttari Sigurðssyni, 1.216.119 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. júní 1997 til 1. júlí 2001 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2002.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 18. janúar sl., var höfðað með stefnu birtri 8. júní 2001 og þingfestri 14. júní 2001. Stefnandi er Guðráður Óttar Sigurðsson, kt. 230761-5079, Veghúsastíg 9, Reykjavík. Stefnda er Dísa Anderiman, kt. 180562-6569, Freyjugötu 37, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega, að stefndu verði gert að greiða sér kr. 2.902.415,00, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, af þeirri fjárhæð frá 20.07.1994 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða kr. 1.050.000,00 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, af þeirri fjárhæð frá 20.07.1994 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða henni málskostnað með hliðsjón af gjaldskrá Lögfræðiþjónustunnar ehf. Málskostnaður beri virðisaukaskatt.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Með kaupsamningi dagsettum 22. desember 1992, keyptu stefnda og Ingvar Grétarsson 3. ha spildu úr landi Skeggjastaða, Mosfellsbæ og fasteignir af Hagkaup hf. Kaupverðið var 9.100.000 krónur. Skyldi Ingvar ásamt konu sinni, Vigdísi Þórisdóttur, eiga helming eignarinnar. Afsal fyrir eigninni var gefið út 13. september 1994 og er það undirritað f.h. kaupenda af Ingvari, Vigdísi og stefndu, Dísu Anderiman.
Stefnandi greinir svo frá að frá upphafi hafi staðið til að hann og stefnda ættu sinn fjórðunginn hvor á móti Ingvari og Vigdísi konu hans sem skyldu eiga hinn helminginn. Ástæða þess að einungis nöfn stefndu og Ingvars séu tilgreind á kaupsamningnum hafi verið sú að stefnandi hafi átt íbúð á þessum tíma og því hafi þótt hagstæðara út frá skattareglum og lánafyrirgreiðslu að hann væri ekki formlegur kaupandi að eigninni.
Í ágúst 1993 slitnaði upp úr sambandi stefnanda og stefndu. Í framhaldi af því varð það úr að stefnda keypti eignarhluta Ingvars og var kaupverðið 5.309.320,00 krónur samkvæmt kaupsamningi þeirra í milli sem dagsettur er 18. ágúst 1994. Sá samningur er undirritaður af Ingvari, Vigdísi, vegna samþykkis maka seljanda, og stefndu. Afsal var gefið út til stefndu 14. mars 1995 og er það undirritað af stefndu og Ingvari.
Unnið var að miklum endurbótum á húsnæðinu Skeggjastöðum frá því síðla hausts 1992 og fram eftir árinu 1993. Kveður stefnandi að hann hafi lagt bæði vinnu og peninga í þær endurbætur þar sem hann hafi keypt efni og greitt reikninga vegna reksturs eignarinnar. Þá hafi hann greitt nokkrar kaupsamningsgreiðslur. Þessa fjármuni hafi hann ekki fengið endurgreidda úr hendi stefndu þrátt fyrir að hann hafi ítrekað gengið eftir því. Stefnandi greinir svo frá að ágreiningur hafi verið um það með aðilum hvort stefnandi ætti kröfu um að fá allt það greitt sem hann hafði lagt til eignarinnar með vinnu, kaupum á efni og greiðslu reikninga vegna reksturs eignarinnar. Einnig hafi verið ágreiningur um það að hvað miklu leyti ætti að taka tillit til verðmætisaukningar eignarinnar en það var mat stefnanda að með vinnu sinni hefði hann aukið verðmæti hennar mikið auk þess sem hækkun hafði orðið á fasteignaverði á tímanum.
III
Aðalkröfu sína byggir stefnandi á því að hann hafi lagt fram fé til kaupanna á fasteigninni Skeggjastöðum, Mosfellsbæ, þ.e. greitt hluta kaupverðs beint til seljanda. Einnig hafi hann keypt efni vegna endurnýjunar og viðbóta á eigninni á sinn reikning auk þess sem seljandi hafi gefið afslátt vegna galla sem stefnandi og Ingvar lagfærðu. Hér sé um að ræða útlagt fé sem hann hafi lagt til eignarinnar en hafi ekki fengið greitt. Stefnda hafi því hagnast sem stefnufjárhæð aðalkröfu nemur. Aðalkrafan byggir því á því að um skuld sé að ræða.
Varakröfu sína byggir stefnandi á því verðmati sem fram kemur í kaupsamningi milli stefndu og Ingvars frá 20. júlí 1994. Þar sé nettóverðmæti helmings eignarinnar 2.100.000.- krónur, en fjórðungur hennar nemur fjárhæð varakröfu. Stefnandi hafi sannanlega verið eigandi að fjórðungi eignarinnar á þeim tíma og verði miðað við að nettóverðmæti hennar hafi verið 4.200.000.- krónur var eignarhluti stefnanda 1.050.000 krónur. Þegar samkomulag hafði náðst milli stefndu og Ingvars leit stefnandi svo á að stefnda væri reiðubúin til að greiða sama hlutfall vegna eignarhluta hans enda hafi það ítrekað verið gefið í skyn. Það yrði hins vegar að bíða þar til hún gæti selt aftur hluta eignarinnar þar sem hún hefði ekki handbært fé til að kaupa þá báða út á sama tíma.
Stefnandi mótmælir því að krafa hans sé fyrnd samkvæmt 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Um hafi verið að ræða lán úr hans hendi til stefnda sem lúti 10 ára fyrningarreglu 2. mgr. 4. gr. sömu laga.
Stefnandi styður kröfur sínar við almennar reglur samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Málskostnaðarkrafa byggir á l. mgr. 130.gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 129. gr. sömu laga.
IV
Stefnda hafnar því alfarið að stefnandi hafi verið meðeigandi að spildu úr landi Skeggjastaða, Mosfellsbæ. Hans sé hvorki getið á kaupsamningi né afsali þar um. Stefnda hafi aldrei talið að stefnandi ætti kröfu á hana vegna þessara viðskipta eða endurbóta á eigninni, hvað þá að hún hafi viðurkennt eitthvað í þá veru eins og haldið sé fram í stefnu. Þá komi hvergi fram í kaupsamningi og afsali varðandi kaup stefndu á eignarhlut Ingvars Grétarssonar í spildunni að stefnandi eigi einhverja kröfu á þau vegna eignarinnar.
Þótt stefnandi hafi undir höndum nótur sem kunni að tengjast Skeggjastöðum geta þær 8 árum síðar ekki verið grundvöllur endurkröfu, enda ekki sannað að viðkomandi úttektir tengist Skeggjastöðum eða að stefnandi hafi innt greiðslur af hendi. Telur stefnda einnig að þótt stefnandi kunni að hafa lagt einhverja fjármuni í eignina eða vinnuframlag hafi það strax verið gert upp, a.m.k. sá hlutur sem varði hana, en stefnandi var vinur Ingvars Grétarssonar, meðeiganda hennar. Við kaup þeirra Ingvars á eigninni hafi Ingvar fengið til afnota íbúð sem var mun betri en sú sem kom í hlut stefndu gegn því að hann aðstoðaði við að koma íbúð stefndu í betra horf. Stefnandi hafi dvalið skamman tíma að Skeggjastöðum, frá janúar 1993 til maí 1993.
Þá vísar stefnda til þess að þær kröfur sem stefnandi er að innheimta hafi að hans sögn stofnast á árunum 1992 og 1993 og átt að greiðast eigi síðar en árið 1994, samanber dráttarvaxtakröfu stefnanda. Ef talið verði að stefnandi hafi eignast einhverja kröfu á hendur stefndu vísar stefnda til þess að þær séu allar fyrndar þar sem meira en fjögur ár séu liðin frá gjalddaga þeirra Vísar hún þar um til 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905.
Stefnda vísar til almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar um stofnun kröfu. Svo og til 3. gr. laga nr. 14/1905 varðandi rökstuðning fyrir fyrningu. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnda er ekki virðisaukaskattskyld og þarf því að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.
V
Aðalkrafa stefnanda í máli þessu er endurkrafa á hendur stefndu vegna greiðslna sem hann kveðst hafa innt af hendi en ekki fengið greiddar. Kröfur stefnanda eru lítt skýrðar eða sundurgreindar í stefnu. Af gögnum málsins og því sem fram er komið verður þó ráðið að nánar tiltekið sé um að ræða kröfur vegna ýmiss útlagðs kostnaðar, þ. á m. efniskaupa til endurbóta húseignarinnar Skeggjastaða á árunum 1992-1993 auk krafna vegna vinnuframlags stefnanda við þær endurbætur. Þá lýtur krafa stefnanda einnig að kaupsamningsgreiðslum sem hann kveðst hafa innt af hendi vegna eignarinnar til seljanda.
Kröfur stefnanda stofnuðust síðla árs 1992 og fram eftir árinu 1993 eða á þeim tíma er endurbætur stóðu yfir á húseigninni Skeggjastöðum, Mosfellsbæ og á meðan stefnandi bjó þar. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. fyrningarlaga telst fyrningarfrestur frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Þykir eðlilegast með hliðsjón af atvikum máls að miða upphaf fyrningarfrests við lok ársins 1993.
Til stuðnings kröfum sínum hvað varðar vinnuframlag stefnanda við endurbætur fasteignarinnar hefur stefnandi haldið því fram að hann hafi ýmist unnið þessi verk sjálfur eða hann hafi greitt öðrum fyrir slíka vinnu ýmist í peningum eða „skiptivinnu” sem hann nefnir svo. Fyrir dóminn komu nokkur vitni sem bera að þau hafi unnið að endurbótum að Skeggjastöðum og fengið ýmist greitt í slíkri „skiptivinnu” eða í peningum. Samkvæmt 1. tl. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905 fyrnast kröfur vegna vinnu á fjórum árum.
Á þeim tíma sem liðinn er hefur engin tilraun verið gerð af hálfu stefnanda til að rjúfa fyrningu fyrr en mál þetta var höfðað. Samkvæmt þessu er krafa stefnanda um endurgjald fyrir vinnuframlag fallin niður fyrir fyrningu. Ber því að sýkna stefndu af þessum hluta aðalkröfu stefnanda.
Þá hefur stefnandi lagt fram afrit fjölmargra reikninga, yfirlit um hreyfingar á bankareikningi sínum, afrit af kvittunum fyrir ýmsar greiðslur auk fleiri gagna til stuðnings þeim hluta kröfu hans er varðar útlagðan kostnað vegna endurbóta fasteignarinnar. Af umræddum gögnum verður ekki með óyggjandi hætti ráðið að úttektir þessar varði stefndu utan þess að hún ritar nafn sitt undir tvær þeirra. Hér er um að ræða úttektir í Húsasmiðjunni hf. Önnur er dagsett 5. apríl 1993, 1.081 króna en hin er dagsett 28. maí 1993, 2.754 krónur.
Í máli þessu liggur frammi greiðsluseðill úr banka vegna 200.000 króna greiðslu sem stefnandi innti af hendi þann 16. ágúst 1993 og einnig kvittun frá seljanda fyrir greiðslu 200.000 króna.
Stefnda hefur mótmælt kröfum stefnanda að öðru leyti en því að fyrir dóminum viðurkenndi hún að er sambandi hennar við stefnanda lauk í ágúst 1993 hafi hún skuldað stefnanda 100.000-120.000 krónur vegna efniskaupa auk 200.000 króna kaupsamningsgreiðslu sem stefnandi greiddi í ágúst 1993 í hennar óþökk. Hafi hún á þeim tíma boðist til að greiða þessar fjárhæðir. Stefnandi hafi hins vegar valdið henni umtalsverðu tjóni með skemmdum á eigninni og hún hafi því talið ljóst að krafa hennar vegna þess tjóns myndi ganga á móti skuld sinni við stefnanda og vel það. Fullyrðingar stefndu um rétt sinn til skuldajafnaðar eru algjörlega órökstuddar og koma ekki til álita í máli þessu.
Verður að telja með hliðsjón af atvikum málsins og ofangreindri viðurkenningu stefndu fyrir dóminum að um lán hafi verið að ræða úr hendi stefnanda stefndu til handa. Um þessa kröfu stefnanda gildir því 10 ára fyrningarregla samkvæmt 2. tl. 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Var hún því ekki fyrnd er mál þetta var höfðað. Þá verður ekki talið að stefnandi hafi glatað rétti sínum vegna tómlætis, þar sem fram kom við meðferð málsins að stefnandi hafi á undangengnum árum reynt með aðstoð lögmanns að fá fé þetta endurgreitt úr hendi stefndu.
Samkvæmt framansögðu verður krafa stefnanda á hendur stefndu því tekin til greina með þeirri fjárhæð, sem stefnda hefur viðurkennt að skulda stefnanda, eða 320.000 krónum.
Dráttarvextir sem til hafa fallið fyrir 14. júní 1997 eru fyrndir samkvæmt 2. tl. 3. gr. fyrningarlaga og er við það miðað í dómsorði.
Varakrafa stefnanda byggir á því að hann eigi tilkall til verðmætis þess fjórðungshluta eignarinnar sem hann telur sig sannanlega hafa verið eiganda að. Miðað við að nettóverðmæti hennar hafi verið 4.200.000. krónur hafi eignarhluti stefnanda verið 1.050.000 krónur.
Í málinu liggur frammi upphaflegur kaupsamningur stefndu og Ingvars Grétarssonar um eignina sem undirritaður er af stefndu og Vigdísi Þórisdóttur f.h. Ingvars. Afsal til stefndu er undirritað af stefndu, Ingvari og Vigdísi. Nafn stefnanda kemur þar hvergi fyrir. Rök stefnanda fyrir því að nafn hans hafi ekki verið tilgreint á samningum eru ósannfærandi og verður hann að bera hallann af sönnunarskorti í þeim efnum. Ber því að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.
Eftir þessum málsúrslitum skal stefnandi greiða stefndu 100.000 krónur í málskostnað.
Fyrir hönd stefnanda flutti mál þetta Brynjar Níelsson hrl., en af hálfu stefndu Ingólfur Hjartarson, hrl.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Dísa Anderiman, greiði stefnanda, Guðráði Óttari Sigurðssyni, 320.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. júní 1997 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað.