Hæstiréttur íslands

Mál nr. 180/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
  • Samlagsaðild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Kröfugerð
  • Aðfinnslur


                                     

Þriðjudaginn 16. apríl 2013.

Nr. 180/2013.

Ingibjörg Pálsdóttir og

Fossatún ehf.

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Veiðifélagi Grímsár og Tunguár og

(Karl Axelsson hrl.)

Veiðifélaginu Hreggnasa ehf.

(Eiríkur Gunnsteinsson hrl.)

Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta. Samlagsaðild. Lögvarðir hagsmunir. Kröfugerð. Aðfinnslur.

I og F ehf. kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem máli þeirra gegn Veiðifélaginu G og V ehf. var vísað frá dómi. Í málinu kröfðust I og F ehf. þess aðallega að leigusamningur sem Veiðifélagið G hafði gert við V ehf. um leigu á veiðihúsi yrði dæmdur ógildur. Starfsemi V ehf. utan veiðitímabils var í beinni samkeppni við rekstur þann sem stundaður var af F ehf. og héldu I og F ehf. því fram að útleigan ylli þeim tekjumissi og færi í bága við lögbundinn tilgang Veiðifélagsins G. Talið var að ósamræmi væri milli aðalkröfu I og F ehf. og málatilbúnaði þeirra og að samhengi aðalkröfunnar við sakarefni málsins væri ekki svo ljóst sem áskilið væri í e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa þeirri kröfu frá dómi því staðfest. Hins vegar þótti varakrafa I og F ehf., um að viðurkennt yrði að Veiðifélaginu G yrði óheimilt að selja veiðihúsið á leigu til almenns gisti- og veitingareksturs á ákveðnu tímabili, nægjanlega ljós og afmörkuð til að dómur yrði á hana lagður. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi hvað varðaði varakröfuna og lagt fyrir héraðsdóm að taka hana til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir. 

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 27. febrúar 2013 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Sóknaraðilinn Ingibjörg er eigandi jarðarinnar Fossatúns í Borgarbyggð og jafnframt eigandi sóknaraðilans Fossatúns ehf., sem rekur ferðaþjónustu á jörðinni. Veiðiréttur í Grímsá fylgir jörðinni og vegna eignarhalds á henni á sóknaraðilinn Ingibjörg skylduaðild að varnaraðilanum Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, sbr. fyrri málsliður 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

Með samningi 1. mars 2007 tók varnaraðilinn Veiðifélagið Hreggnasi ehf. á leigu allan veiðirétt í Grímsá og Tunguá á félagssvæði varnaraðilans Veiðifélags Grímsár og Tunguár. Leigutíminn var veiðitímabil áranna 2008 til 2012, en veiðitímabilið er frá 22. júní til 24. september. Sömu aðilar gerðu samning 22. apríl 2009 um leigu á veiðihúsinu á Fossási út veiðitímann árið 2012. Fjárhæð leigunnar var 419.000 krónur á mánuði fyrir júlí, ágúst og september en 180.000 krónur aðra mánuði og átti leigan að taka breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs. Með samningi 6. nóvember 2009 voru gerðar nokkrar breytingar á fyrrgreindum leigusamningi um veiðina frá 1. mars 2007, en tekið var fram að fyrri samningur 22. apríl 2009 um leigu á veiðihúsinu héldist óbreyttur. Með samningi 2. febrúar 2012 var leiga á veiðihúsinu framlengd frá 1. apríl það ár til ársloka 2014.

Varnaraðilinn Veiðifélagið Hreggnasi ehf. hefur rekið gisti- og veitingaþjónustu í veiðihúsinu utan veiðitímabilsins. Á grundvelli skylduaðildar sóknaraðilans Ingibjargar að veiðifélaginu telja sóknaraðilar sig ekki þurfa að sæta því að verða fyrir tekjumissi í rekstri sínum vegna þeirrar þjónustu sem stendur til boða í veiðihúsinu á þeim tíma. Er tilgangur málshöfðunar þeirra á hendur varnaraðilum að fá úr þessu skorið og reisa þeir málatilbúnað sinn á því að leiga á veiðihúsinu fyrir þann rekstur samrýmist ekki lögbundnu hlutverki varnaraðilans Veiðifélags Grímsár og Tunguár, sbr. síðari málsliður 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006.

II

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði gerðu sóknaraðilar breytingar á kröfugerð sinni 24. janúar 2013. Í henni fólst að í aðalkröfu var vísað til samnings 2. febrúar 2012 í stað fyrri samnings 22. apríl 2009. Jafnframt var tekið fram að hvor sóknaraðili um sig gerði þá aðal- og varakröfu sem höfð er uppi í málinu. Af hálfu beggja varnaraðila var því lýst yfir að ekki væru gerðar athugasemdir við breytta kröfugerð sóknaraðila.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er fleiri en einum heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Kröfur sóknaraðila, sem eru samhljóða, hefði hvor þeirra getað haft uppi sjálfstætt og án aðildar hins, en kröfurnar eiga rót sína að rekja til þeirrar aðstöðu að varnaraðilinn Veiðifélagið Hreggnasi ehf. rekur gisti- og veitingaþjónustu í veiðihúsinu á Fossási á grundvelli leigusamnings við varnaraðilann Veiðifélag Grímsár og Tunguár. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum til að sóknaraðilar geti nýtt sér það réttarfarshagræði sem felst í samlagsaðild.

Eins og áður er rakið reisa sóknaraðilar málatilbúnað sinn á því að leiga á veiðihúsinu fyrir gisti- og veitingaþjónustu utan veiðitímabilsins samrýmist ekki lögbundnu hlutverki varnaraðilans Veiðifélags Grímsár og Tunguár. Aðalkrafa sóknaraðila er ekki bundin við þessa ráðstöfun á veiðihúsinu heldur felst í henni að samningur varnaraðila um leigu hússins verði í heild sinni dæmdur ógildur, þar með talið leiga hússins á veiðitímabilinu, sem aðilar deila ekki um að falli að hlutverki veiðifélagsins. Samkvæmt þessu er slíkt ósamræmi milli aðalkröfu sóknaraðila og málatilbúnaðar þeirra að öðru leyti að samhengi aðalkröfunnar við sakarefni málsins er ekki svo ljóst sem áskilið er í e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa þessari kröfu frá dómi.

Með varakröfu sóknaraðila er krafist viðurkenningar á því að varnaraðilanum Veiðifélagi Grímsár og Tunguár sé óheimilt að selja veiðihús félagsins á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar, utan skilgreinds veiðitímabils samkvæmt lögum nr. 61/2006, hvort heldur sem er til varnaraðilans Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. eða annarra. Þessi kröfugerð er nægjanlega ljós og afmörkuð til að dómur verði á hana lagður. Þá verður heldur ekki á það fallist með varnaraðilum að sóknaraðilar hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfunni, en við úrlausn um efnishlið málsins ber að fjalla um varnir byggðar á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verður felld úr gildi sú niðurstaða héraðsdóms að vísa varakröfu sóknaraðila frá dómi.

Ákvörðun málskostnaðar í héraði bíður efnisdóms í málinu. Eftir úrslitum málsins verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af meðferð þess fyrir Hæstarétti.

Mál þetta var flutt í héraði um frávísunarkröfu varnaraðila 5. júní 2012. Málið var síðan endurupptekið 24. janúar 2013 og flutt aftur um frávísunarkröfu varnaraðila 13. febrúar sama ár. Hinn kærði úrskurður var síðan kveðinn upp 27. sama mánaðar eins og áður greinir. Þessi dráttur á meðferð málsins er aðfinnsluverður.

Það athugast að eftir að sóknaraðilar lögðu fram sameiginlega greinargerð fyrir Hæstarétt bárust réttinum svonefndar viðbótar athugasemdir varnaraðila. Fyrir þessum skriflega málflutningi er engin lagaheimild og er hann aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Staðfest er sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að vísa frá dómi aðalkröfu sóknaraðila, Ingibjargar Pálsdóttur og Fossatúns ehf.

Lagt er fyrir héraðsdóm að taka til efnismeðferðar varakröfu sóknaraðila.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 27. febrúar 2013.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnanda hinn 14. febrúar sl. er höfðað  með stefnu birtri 1. febrúar og 16. febrúar 2012.

Stefnandi er Ingibjörg Pálsdóttir, Fossatúni, Borgarbyggð og Fossatún ehf., Fossatúni, Borgarbyggð.

Stefndu eru Veiðifélag Grímsár og Tunguár, Hvannatúni, Hvanneyri og Veiðifélaginu Hreggnasa ehf., Malarási 14, Reykjavík.

Í stefnu eru þær kröfur gerðar aðallega að leigusamningur stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár við stefnda, Veiðifélagið Hreggnasa ehf., dagsettur 22. apríl 2009, um leigu á veiðihúsi Veiðifélags Grímsár og Tunguár að Fossási í Borgarbyggð, og 9. gr. tímabundinnar breytingar, dagsettrar 6. nóvember 2009, á leigusamningi stefndu um veiðirétt á félagssvæði veiðifélagsins, frá 1. mars 2007, verði dæmd ógild.

Dómkröfur stefnenda til vara eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, sé óheimilt að selja veiðihús félagsins að Fossási í Borgarbyggð á leigu, til almenns gisti- og veitingarekstrar, utan skilgreinds veiðitímabils skv. lax- og silungsveiðilögum nr. 61/2006, hvorki til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., né til annarra.

Jafnframt er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnendum in solidum málskostnað.

Með bókun í þinghaldi 24. janúar sl. var kröfugerð breytt og eru dómkröfur stefnanda hvors um sig nú þær, aðallega, að leigusamningur stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár við stefnda, Veiðifélagið Hreggnasa ehf., dagsettur 2. febrúar 2012, um leigu á veiðihúsi Veiðifélags Tunguár og Fossár að Fossási í Borgarbyggð verði dæmdur ógildur.

Dómkröfur stefnenda hvors um sig, til vara eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, sé óheimilt að selja veiðihús félagsins að Fossá í Borgarbyggð á leigu, til almenns gisti- og veitingarekstrar, utan skilgreinda veiðitímabils skv. lax- og silungsveiðilögum nr. 61/2006, hvorki til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., né til annarra.

Loks krefjast stefnendur málskostnaðar in solidum úr hendi stefndu.

Stefndi Veiðifélag Grímsár og Tunguár krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnenda.

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

Stefndi Hreggnasi ehf. krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnenda.

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

Krafa stefndu um frávísun málsins er til úrlausnar hér.

Stefnandi, Ingibjörg Pálsdóttir, er þinglýstur eigandi jarðarinnar Fossatúns í Borgarbyggð og rekur þar ferðaþjónustu.  Stefnandi, Ingibjörg, kveðst vera, sem þinglýstur eigandi jarðarinnar Fossatúns í Borgarbyggð, skylduaðili að stefnda, Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, og hafa sem slík lögvarða hagsmuni af því að dómkröfur nái fram að ganga. Stefnandi, Ingibjörg sé einnig eini eigandi og stjórnarformaður stefnanda, Fossatúns ehf., rekstrarfélags ferðaþjónustu í Fossatúni.  Fossatún ehf. hafi einnig lögvarða hagsmuni þar sem útleiga stefnda, Veiðifélags Grímsár og Tunguár, á veiðihúsinu að Fossási, og rekstur sá er stefndi, Veiðifélagið Hreggnasi ehf., starfræki í veiðihúsinu, hafi neikvæð áhrif á afkomu af sambærilegum rekstri stefnanda, Fossatúns ehf. Stefndi, Veiðifélag Grímsár og Tunguár, sem stefnandi sé skyldugur til aðildar að, skv. lax- og silungsveiðilögum, sé eigandi veiðihússins að Fossási.  Stefndi, Veiðifélag Grímsár og Tunguár, sem leigusali, hafi frá 1. mars 2007 leigt stefnda, Veiðifélaginu Hreggnasa ehf., sem leigutaka, allan veiðirétt á félagssvæði Veiðifélags Grímsár og Tunguár.  Þá hafi stefndi, Veiðifélag Grímsár og Tunguár, sem leigusali, leigt stefnda, Veiðifélaginu Hreggnasa ehf., veiðihús félagsins að Fossási í Borgarbyggð frá 22. apríl 2009 og nú síðast gert leigusamning dagsettan 2. febrúar 2012 við meðstefnda. Stefndi, Veiðifélagið Hreggnasi ehf. sé leigutaki veiðihúss stefnda, Veiðifélags Grímsár og Tunguár, og ef dómkröfur stefnenda um að þessum stefnda sé óheimilt að selja veiðihús sitt á leigu til almenns gisti- og veitingarrekstrar utan veiðitímabils skv. lax- og silungsveiðilögum verði viðurkennd verði stefndu, Veiðifélag Grímsár og Tunguár og Hreggnasi ehf., að sæta ógildingu leigusamnings þeirra um leigu á fyrrgreindu veiðihúsi, dagsettum 2. febrúar 2012.

Stefndi Veiðifélag Grímsár og Tunguár sem krefst þess að máli þessu verði vísað frá dómi byggir aðalkröfu sína um frávísun málsins í fyrsta lagi á því að annmarkar séu á kröfugerð stefnenda. Ekki sé rökstutt í stefnu að skilyrði fyrir samlagsaðild til sóknar séu uppfyllt hvorki varðandi aðalkröfu né varakröfu. Ekki sé vikið að því á hvaða grunni eitt mál verði rekið um hagsmuni hvors stefnanda um sig. Í öllu falli sé sýnt að varakrafa uppfylli ekki þann áskilnað 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að kröfur eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Um sé að ræða almenna viðurkenningarkröfu og hún eigi þannig ekki rætur að ræða til atviks eða löggernings. Stefnandi Ingibjörg sé aðilai að stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár en stefnandi Fossatún ekki. Ekki sé afmarkað í stefnu á hvaða málsástæðum hvor stefnandi um sig byggi og virðast þeir því byggja á sömu málsástæðum enda þótt það eigi augljóslega ekki við þar sem aðstaða þeirra sé gerólík. Samhengi krafna við málsástæður sé í sjálfu sér óljóst en það sé andstætt meginreglum réttarfars sem og e lið 80. gr. laga nr. 91/1991. Engin gangskör sé síðan gerð að því að skýra samlagsaðild stefndu til varnar. Að öllu þessu virtu sé kröfugerð stefnenda haldin slíkum annmörkum að þegar af þeirri ástæðu beri að vísa máli þessu í heild frá dómi.

Í öðru lagi er byggt á því bæði um aðal- og varakröfu  stefnenda að ekki sé sýnt fram á að lögvarðir hagsmunir þeirra af því að dómkröfur í sjálfu sér nái fram að ganga. Það sé grundvallarstaðreynd málsins að útleiga veiðihússins að Fossási allan ársins hring hafi engin áhrif til eða frá um stöðu stefnanda Ingibjargar Pálsdóttur sem félagsmanns í stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár aðra en þá að hún fái árlega greiddan hærri arð í samræmi við arðskrá félagsins en ella væri. Engin fjárhagsleg áhætta sé fólgin í því fyrir stefnda Veiðifélag Grímsár og Tunguár að leigja veiðihúsið út á heilsársgrundvelli. Félagið leigi eignina út hafi enga starfsemi og taki við greiðslum. Erfitt sé að sjá að stefnandi Ingibjörg hafi fjárhagslega hagsmuni af því að kröfur hennar nái fram að ganga. Þá sé útilokað að sjá hvaða aðild og þar með hvaða lögvarða hagsmuni stefnandi Fossatún ehf. geti átt að máli sem varði innbyrðis stöðu félaga í stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár og þá aðstöðu sem leiði af skylduaðild að félaginu en á því sé málsókn þessa stefnanda að mestum hluta reist. Færa megi að því gild rök að um lögspurningu sé að ræða, í raun sé verið að spyrja um skýringu á lax- og silungsveiðilögum án þess að niðurstaða hafi raunhæft gildi fyrir stefnanda Ingibjörgu hvað þá stefnanda Fossatún ehf. sem ekki sé félagsmaður. Þannig fáist ekki með nokkru móti séð að úrlausn um aðalkröfu varnaraðila veiti úrlausn um réttindi þeirra enda lúti hún að ógildingu leigusamnings þar sem ekki sé kveðið á um starfsemi leigutaka. Þá sé varakrafa stefnenda svo víðtæk og ónákvæm að úrlausn um hana hafi enga þýðingu.

Í þriðja laga gangi aðalkrafa of langt miðað við þau markmið sem búi að baki málssókn þessari. Krafist sé ógildingar í heild á leigusamningi um veiðihús og veiðirétt en markmiðið með málssókninni sé það eitt að fá úrlausn um hvort leiga á húsinu utan lögbundins veiðitíma og til nánar afmarkaðrar starfsemi sé lögmæt. Kröfugerðin gangi hins vegar miklu lengra eins og fyrr segir og leiði til þess að umræddur samningur yrði einnig felldur úr gildi á þeim tíma sem veitt er. Myndi þessi niðurstaða leiða til fjárhagslegs tjóns fyrir stefnda Veiðifélag Grímsár og Tunguár umfram þær tekjur sem aflað er með leigu utan veiðitíma. Beri því ótvírætt að vísa varakröfu stefnenda frá dómi á þessum grundvelli. Þessu til viðbótar uppfylli aðalkrafa stefnenda ekki áskilnað meginreglur réttarfars um skýra og ljósa kröfugerð, sbr. d lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð í samræmi við aðalkröfu sitt og sér myndi ekki leiða til málaloka um ágreiningsefnið enda lúti hún einungis að því að tiltekinn samningur yrði ógildur. Hvað varakröfu stefnenda varði sé frávísunarkrafa stefnda  því studd að kröfugerðin sé alltof víðtæk og ónákvæm til að dómur verði felldur á hana. Svo dæmi sé tekið megi spyrja hvað átt sé við með orðalaginu "almenns gisti- og veitingarekstrar"? Þá megi spyrja hvernig dómsorð í samræmi við varakröfu mundi horfa við gisti- og veitingarekstri sem til komi eftir skilgreint veiðitímabil en tengist þeirri starfsemi ótvírætt. Ekki sé hægt að útiloka að leigt sé í slíkum tilgangi. Þá sé nauðsynlegt að minna á að í samningi aðila um útleigu veiðihússins sé ekkert um það fjallað í hvaða tilgangi húsið sé leigt meðstefnda eða skilgreint hvers eðlis þau afnot, sem meðstefndi sem leigutaki kjósi að hafa af veiðihúsinu, skuli vera. Þessir annmarkar á varakröfu stefnenda dragi jafnframt fram hina augljósa meinbugi á málatilbúnaði þeirra. Enn megi spyrja hver staðan væri ef húsið væri leigt á veturna til búsetu eða til að stunda þar annan og óskyldan atvinnurekstur, t.d. undir sambýli fyrir fatlaða, rekstur leikskóla eða hugsanlega sértækan gisti- og veitingarekstur. Það sé fráleitur skilningur að sú tilhögun gangi með einhverjum hætti gegn ákvæðum laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 eða þeim takmörkunum sem skylduaðildin að stefnda setji. Auk annars sé það því þannig að dómur í samræmi við varakröfu stefnenda myndi ekki binda endi á ágreining aðila um inntak skylduaðildarinnar og heimildir stefnda heldur þvert á móti auka þá óvissu sem stefnendur telja vera um heimildir í þá veru.

Loks er bent á að varakrafa stefnenda sé algjörlega vanreifuð svo sem ráða megi af einkar fátæklegum málatilbúnaði henni til stuðnings í stefnu. Virðist stefnendur í raun ekki styðja hana neinum öðrum eða sjálfstæðum málsástæðum en aðalkrafa þeirra sé reist á þó svo augljóst megi vera að um mismunandi efnislegan grundvöll sé að ræða sem að sjálfsögðu þurfi þá að reifa í samræmi við meginreglur réttarfars þar að lútandi. Þessi tilhögun kröfugerðar standi því svo ekki í vegi að verði önnur hvor dómkrafa stefnenda talinn tæk til efnismeðferðar verði hinni kröfunni vísað frá dómi verði fallist á að um framangreinda formannmarka sé að ræða í öðru hvoru tilvikinu en ekki hinu.

Af hálfu stefnda Hreggnasa ehf. er tekið undir það sem hér að framan er rakið um rök meðstefnda fyrir frávísun málsins og þrátt fyrir breytta kröfugerð stefnenda standi krafa um ógildingu á samningi stefndu frá 2. febrúar 2012. Gangi krafa þessi mun lengra en efni standi til. Feli kröfugerðin í sér ógildingu samnings innan veiðitímabils og gangi þannig allt of langt. Varakrafa sé óljós og hafi ekkert skýrst. Geri stefnendur varakröfu um að viðurkennt verði með dómi að stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár sé óheimilt að selja veiðihúsið á leigu, til almenns gisti-og veitingarekstrar, utan skilgreinds veiðitímabils skv. lax-og silungsveiðilögum, hvorki til stefnda né annarra. Að mati stefnda sé þessi krafa svo óljós og almennt orðuð að hún geti ekki undir nokkrum kringumstæðum talist dómtæk. Ekki sé með nokkru móti reynt að skilgreina nánar hvað felist í almennum gisti-og veitingarekstri og geti stefndi einungis giskað á hvað hér sé átt við.

Stefndi styður frávísunarkröfu sína einnig við að stefnan sé það löng að jaðri við skriflegan málflutning sem sé í andstöðu við íslenskar réttarfarsreglur. Þá sé mikið um endurtekningar og málatilbúnaður ekki jafn glöggur og skýr og áskilið sé í lögum um meðferð einkamála. Erfitt sé að gera sér grein fyrir hvernig sumar málsástæður, t.a.m. þær sem byggja á hlutverki veiðifélaga skv. lögum um lax-og silungsveiði nr. 61/2006, snúi að stefnda. Sú málsástæða stefnenda að starfsemi stefnda brjóti í bága við samkeppnislög sé illa rökstudd. Hvergi sé vísað til ákvæða samkeppnislaga eða meginreglna samkeppnisréttar svo varpa megi ljósi á það í hverju brot stefnda eigi að felast. Sé stefnda ómögulegt að taka til varna á þessum grundvelli.

Af hálfu stefnenda segir að ágreiningsefni málsins og tilefni málssóknarinnar sé sú staðreynd að stefndi Veiðifélag Grímsár og Tunguár leigi meðstefnda Hreggnasa ehf. veiðihús til gisti- og veitingahúsastarfsemi allan ársins hring. Telji stefnendur að rekstur veiðifélags eigi einmitt að snúast um veiði, lax- og silungsveiði eins og lög um það efni geri ráð fyrir. Hafi félagið farið langt út fyrir það enda þótt það standi ekki að rekstri í eigin nafni heldur sé reksturinn í höndum stefnda Hreggnasa ehf. Tilgangurinn með rekstri þessa veiðihúss eigi ekki að vera sá að reka samkeppnisrekstur í ferðaþjónustu við m.a. þá félagsmenn í stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár sem reki ferðaþjónustu heldur hljóti hann að vera sá að selja gistingu til veiðimanna á veiðitímabilinu. Málið varði gríðarlega hagsmuni fyrir báða stefnendur. Stefnandi Ingibjörg sé skylduaðili að félaginu og beri á því ótakmarkaða fjárhagslega ábyrgð og stefnandi Fossatún ehf. reki ferðaþjónustu sem lendi í beinni samkeppni við veiðihúsið. Úrlausnarefni þessa máls sé einungis að fjalla um þær tilteknu aðstæður sem séu fyrir hendi í reynd. Aðalkrafan sé að samningur stefndu frá 2. febrúar 2012 verði ógiltur og varakrafan sé neikvæð viðurkenningarkrafa og lúti að því að tiltekin háttsemi sé óheimil. Í stefnu sé fjallað um hvernig málið höfði við hvorum stefnanda um sig. Stefnanda Ingibjörgu sem skyldaðila að hinu stefnda veiðifélagi og stefnanda Fossatúni ehf. sem rekstraraðila ferðaþjónustu í Fossatúni sem sé í næsta nágrenni við veiðihús hins stefnda veiðifélags. Samlagsaðild til sóknar sé alveg skýr. Hvor aðili um sig geti gert þessar kröfur. Það varði ekki réttarspjöllum þótt ekki sé vísað sérstaklegar  til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, stefnendur hafi ekki getað gert ráð fyrir því að aðild yrði mótmælt. Aðalkrafa stefnenda lúti að sama löggerningi í skilningi 19. gr. fyrrnefndra laga og varakrafa lúti að sömu aðstöðu í skilningi greinarinnar þ.e.a.s. heimild stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár til samningsgerðar á þessu veiðihúsi meðal annars til stefnda Hreggnasa ehf. Hér sé fyrir hendi það viðvarandi ástand að húsið hafi verið leigt með þessum hætti. Þá sé samlagsaðild til varnar. Um aðalkröfu telji stefnendur að krafa um ógildingu samnings tveggja aðila hljóti að beinast að báðum aðilum og því sé augljós samaðild með þeim. Væri enda fráleitt að fara einungis í mál við veiðifélagið og stefndi Hreggnasi ehf. fengi ekki að láta málið til sín taka. Sama sé að segja um varakröfuna að hún beinist að sjálfsögðu að báðum stefndu og sé viðurkenningarkrafa um að háttsemi sé óheimil.. Málsástæðum beggja stefnanda um sig sé víða gerð skil í stefnu, sérstaklega hvað varðar samkeppnissjónarmið en það sé auðvitað stefnandi Fossatún ehf. sem standi að samkeppnisrekstrinum en auðvitað sé einnig útskýrt í stefnu að stefnandi Ingibjörg Pálsdóttir sé eigandi Fossatúns ehf. en formsins vegna sé það Fossatún ehf. sem byggi á þessum sjónarmiðum. Um sjónarmið varðandi skylduaðild að hinu stefnda veiðifélagi sé það auðvitað stefnandi Ingibjörg sem byggi fyrst og fremst á þeim. Í grunninn snúist málið um það að báðir stefnendur byggi á því að samningurinn sé í andstöðu við nánar tilgreind lagaákvæði. Álitaefnið sé skýrt og afmarkað. Annað hvort haldi samningurinn gildi sínu eða verði felldur úr gildi og fráleitt að veiðifélagið geti að svo búnu gert samning við annan aðila. Þá segir að stefnandi Ingibjörg hafi af því augljósa hagsmuni að fá leyst úr því hvort starfsemi þessa félags sem hún á skylduaðild að sé í samræmi við lög. Um stefnanda Fossatún ehf. og aðild þess að því er varðar innbyrðis stöðu í félaginu séu það fyrst og fremst atriði er varði aðild sem sé efnisatriði máls.

NIÐURSTAÐA

Í leigusamningi aðila frá 2. febrúar 2012 segir að stefndi Veiðifélag Grímsár og Tunguár leigi stefnda Hreggnasa ehf. veiðihús sitt á Fossási frá og með 1. apríl 2012 til 31. desember 2014.

Í stefnu eru þær kröfur gerðar aðallega að framangreindur leigusamningur verði dæmdur ógildur.

Í málatilbúnaði stefnenda kemur fram að meginmarkmið málssóknar þeirra sé að fá umræddan leigusamning um veiðihús ógiltan þar sem starfsemi stefnda Hreggnasa ehf. sé í beinni samkeppni við rekstur þann er stundaður er af stefnanda Fossatúni ehf. og valdi þeim aðila tjóni auk þess að stefnandi Ingibjörg telur hann fara í bága við lögbundinn tilgang hins stefnda veiðifélags. Verði kröfugerð stefnenda tekin til greina óbreytt myndi dómur leiða til þess að stefnda Hreggnasa ehf. væri ekki kleift að nýta veiðihúsið á Fossási á veiðitíma en stefnendur byggja á því sem staðreynd að í gildi sé samningur með stefnendum sem leigi stefnda Hreggnasa ehf. veiðirétt á félagssvæði stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár. Ekki verður málatilbúnaður stefnenda skilinn svo að þeir telji ráðstöfun hins stefnda veiðifélags á veiðitímabili andstæðan lögum og gengur kröfugerð þeirrar of langt miðað við markmið það sem býr að baki henni. Þá verður ekki fram hjá því litið að samningur um veiðirétt Hreggnasa ehf. frá 22 apríl 2009 með breytingu frá 6. nóvember 2009 gilti út árið 2012 og ekki liggja fyrir gögn um framlengingu hans í máli þessu. Af þessum ástæðum verður ekki hjá því komist að vísa aðalkröfu stefnenda frá dómi.

Varakrafa stefnenda er um að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, sé óheimilt að selja veiðihús félagsins að Fossási í Borgarbyggð á leigu, til almenns gisti- og veitingarekstrar, utan skilgreinds veiðitímabils skv. lax- og silungsveiðilögum nr. 61/2006, hvorki til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., né til annarra. Krafa þessi er ónákvæm og ekki nægjanlega afmörkuð auk þess sem sérstakur rökstuðningur fyrir henni í stefnu er rýr og uppfyllir þessi kröfugerð ekki skilyrði d liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður þessari kröfu stefnenda einnig vísað frá dómi.

Samkvæmt framansögðu verður máli þessu vísað frá dómi í heild sinni og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála verða stefnendur dæmdir in solidum til að greiða hvorum stefnda um sig 700.000 krónur í málskostnað þ.m.t. virðisaukaskattur.

Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnendur Ingibjörg Pálsdóttir og Fossatún ehf. greiði in solidum stefndu Veiðifélagi Grímsár og Tunguár og Hreggnasa ehf. 700.000 krónur í málskostnað hvorum um sig.