Print

Mál nr. 525/2015

Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
X (Daníel Isebarn Ágústsson hrl., Sigurður Örn Hilmarsson hdl. 3. prófmál), Y (Andri Árnason hrl.), Z (Guðmundur Ágústsson hrl., Guðmundur Siemsen hdl. 2. prófmál), Z (Páll Rúnar M. Kristjánsson hrl., Víðir Smári Petersen hdl. 1. prófmál) og Æ (Óttar Pálsson hrl.)
Lykilorð
  • Umboðssvik
  • Fjármálafyrirtæki
  • Ásetningur
Reifun

Ákærðu voru í málinu borin sökum um umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í störfum sínum hjá sparisjóðnum A hf., Y sem forstjóri og X, Z, Þ og Æ sem stjórnarmenn, misnotað aðstöðu sína og stefnt fé hans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga, er þau 30. september 2008 í sameiningu veittu B hf. peningamarkaðslán að fjárhæð 2.000.000.000 krónur til eins mánaðar, án trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins og án þess að meta greiðslugetu og eignastöðu lánþegans í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins. Fyrir lá að leitað var heimildar stjórnar A hf. til lánsins fyrrnefndan dag þar sem lánveitingin fór umfram heimild Y sem forstjóra samkvæmt reglna félagsins um lánveitingar og ábyrgðir. Með skírskotun til framburðar ákærðu var lagt til grundvallar að árshlutauppgjör B hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008 hefði legið fyrir á stjórnarfundinum, það verið rætt þar og að niðurstaða þess, sem hefði sýnt afar sterk eiginfjárstaða félagsins með endurfjármögnun tryggð fram í desember 2009, hefði verið meginforsenda lánsins. Samkvæmt þessu og að virtri framkvæmd peningamarkaðslána hjá A hf. var talið ósannað af hálfu ákæruvaldsins, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að X, Z, Þ og Æ hefðu af ásetningi misnotað aðstöðu sína umrætt sinn og þannig gerst brotleg við 249. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefði X hvorki haft heimild til að skuldbinda A hf. við þær aðstæður sem hefðu verið uppi né tekið formlega þátt í ákvörðun stjórnarinnar um lánveitinguna. Að þessu virtu voru ákærðu sýknuð af sakargiftum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júlí 2015. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að ákærðu verði sakfelld samkvæmt ákæru og þau dæmd til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

Ákærðu X, Z og Æ krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærðu Y og Þ krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en til vara að þau verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa.

I

Með bréfi 23. október 2012 beindi Fjármálaeftirlitið með vísan til 1. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara og 112. gr. d. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki kæru á hendur A hf. og stjórnarmönnum hans, A, ákærðu X, Z, Þ og Æ, svo og forstjóra sparisjóðsins, ákærða Y, vegna gruns um meiri háttar brot gegn þágildandi 1. og 3. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 varðandi takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum fjármálastofnana. Þá voru stjórnarmennirnir I og J talin hafa komið að málinu, en þau sátu sinn síðasta stjórnarfund 25. febrúar 2008 og í framhaldi af því tóku ákærðu Þ og Æ sæti í stjórninni.

Í kærunni kom fram að grunur léki á að forstjóri og stjórnarmenn sparisjóðsins hefðu stofnað fé sparisjóðsins í hættu og stuðlað að falli hans með því að láta hann taka á sig áhættuskuldbindingar vegna B hf. og fjárhagslega tengdra aðila umfram þau 25% mörk af eiginfjárgrunni sparisjóðsins, sem kveðið væri á um í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002, á tímabilinu frá 30. desember 2007 til 30. mars 2008 og frá 30. september 2008 til ársloka sama ár. Hafi ætluð brot falist í því að sparisjóðurinn hefði ekki skilgreint réttilega B hf. og C ehf. sem fjárhagslega tengda aðila í skilningi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 þegar sparisjóðurinn gekkst í sjálfskuldarábyrgðir fyrir C ehf. og veitti B hf. lán, en áhættuskuldbindingar þessar hafi að samanlagðri fjárhæð verið umfram 25% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Hafi ákvarðanir um lán og veittar ábyrgðir verið teknar af forstjóra og stjórnarmönnum sparisjóðsins á hverjum tíma. Þá taldi Fjármálaeftirlitið að forstjóri og stjórnarmenn sparisjóðsins hafi látið hjá líða á árinu 2008 að tilkynna því án tafar í samræmi við þágildandi 3. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 að áhættuskuldbindingar sparisjóðsins hafi farið yfir þau mörk sem kveðið væri á um í 1. mgr. 30. gr. laganna. Jafnframt hafi forstjóri sparisjóðsins borið ábyrgð á að Fjármálaeftirlitinu hafi verið sendar rangar og villandi skýrslur um stórar áhættuskuldbindingar miðað við 31. desember 2007 og 31. október 2008 og þannig gerst brotlegur við 2. mgr. 112. gr. b. sömu laga.

Um atvik máls sagði að sparisjóðurinn hafi 30. desember 2007 tekið á sig sjálfskuldarábyrgðir fyrir skuldum C ehf. gagnvart helstu lánardrottnum félagsins. Hafi sjálfskuldarábyrgðirnar verið samtals að fjárhæð 6.300.000.000 krónur og því numið einar og sér um 35% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins í árslok 2007. Í lok september 2008 hafi B hf. óskað eftir 30 daga skammtímaláni (peningamarkaðsláni) hjá sparisjóðnum án tryggingar og hafi stjórn sparisjóðsins samþykkt lánsumsóknina eftir að A, forstjóri B hf. og stjórnarformaður sparisjóðsins, hafi vikið af fundi. Kæmi fram í fundargerðum stjórnar að heildaráhætta sparisjóðsins vegna B hf. fyrir lánveitingu væri 500.000.000 krónur og næmi eftir lánveitingu 20% af CAD eigin fé hans.

Í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers ehf., sem gerð hafi verið að beiðni bráðabirgðastjórnar sparisjóðsins, komi meðal annars fram að samanlögð áhættuskuldbinding sparisjóðsins vegna B hf. í gegnum lánveitingar, hlutabréfaeign, bæði beina og óbeina, kaupum á skráðum skuldabréfum og afleiðuviðskiptum, hafi verið yfir lögboðnu 25% hámarki eftir fyrrgreinda lánveitingu í september 2008. Bæri heildarstöðu áhættuskuldbindinga sparisjóðsins vegna B hf. samkvæmt útreikningum PricewaterhouseCoopers ehf. og þeim fjárhæðum, sem tilgreindar væru í fundargerð stjórnar sparisjóðsins, því ekki saman.

Þá sagði í kæru Fjármálaeftirlitsins að C ehf. hafi verið stofnað af nokkrum sparisjóðum í lok árs 2006 í þeim tilgangi að halda utan um eignarhluti þeirra í B hf. Upphaflega hafi A hf. lagt umræddu fjárfestingarfélagi til 1.400.000.000 krónur í eiginfjárframlag, sem nýtt hafi verið til að kaupa hlutabréf í B hf. af H hf. og síðar hafi stærsti hluti þess hlutafjár, sem sparisjóðurinn átti í B hf., verið færður yfir til C ehf. Af 22.300.000.000 krónum í eignum C ehf. hafi 20.000.000.000 krónur, eða um 90% eignanna, verið hlutabréf í B hf. Teldi Fjármálaeftirlitið að ljóst mætti vera að beint samhengi hafi verið á milli verðþróunar á hlutabréfum í B hf. og afkomu C ehf. Tengsl félaganna væri því augljóst dæmi um fjárhagslega tengda aðila í skilningi b. liðar 2. gr. reglna nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum með því að ef B hf. lenti í fjárhagserfiðleikum myndi C ehf. lenda í greiðsluerfiðleikum.

Í kærunni kom fram að A hf. hafi átt 48,4% hlutafjár í C ehf., sem aftur hafi átt 8,94% hlutafjár í B hf. Sparisjóðurinn hafi einnig átt beinan eignarhlut í B hf. í gegnum H hf. Hafi markaðsvirði þessa samanlagða hlutar numið um 16.500.000.000 krónum í árslok 2007. Á sama tíma hafi eigið fé sparisjóðsins verið 27.800.000.000 krónur og fjárhagsleg afkoma hans því verið afar viðkvæm fyrir breytingum á gengi hlutabréfa í B hf.

Í lok árs 2007 hafi verð hlutabréfa í B hf. farið að falla og veðhlutfall lánanna, sem C ehf. hafði tekið, lækkað en lánin hafi í árslok 2007 numið um 17.400.000.000 krónum og öll verið á gjalddaga á árinu 2008. Hafi það endað með því að hinn 30. desember 2007 hafi sparisjóðurinn tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á lánum C ehf. hjá Glitni banka hf., D hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf., samtals að fjárhæð 6.300.000.000 krónur, sem hafi numið 35% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Ábyrgðaryfirlýsingarnar hafi verið undirritaðar af forstjóra sparisjóðsins þótt hann hafi ekki haft heimild til að skuldbinda sparisjóðinn um hærri fjárhæð en sem nam 10% af eigin fé hans samkvæmt grein 1.8. reglna hans um lánveitingar og ábyrgðir. Hafi stjórn sparisjóðsins ekki veitt forstjóranum heimild til að gefa umræddar ábyrgðaryfirlýsingar fyrr en á stjórnarfundi 23. janúar 2008 eða rúmum þremur vikum eftir að þær voru undirritaðar. Í raun hafi þó hvorki forstjóri né stjórn haft heimild til að veita svo háar ábyrgðir, þar sem í 4. mgr. greinar 1.2. fyrrgreindra reglna hafi verið mælt fyrir um að heildarskuldbinding einstakra viðskiptavina eða fjárhagslega tengdra aðila skyldi ekki vera hærri en 20% af eigin fé samkvæmt næstliðnu endurskoðuðu uppgjöri „[A hf.] heildarinnar.“ Þar að auki væri um að ræða brot á 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002, sem kvæði á um að áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna mætti ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis.

Þá kom fram í kærunni að sjálfskuldarábyrgð vegna láns D hf. til C ehf. hafi verið felld niður í febrúar 2008, en ábyrgðir vegna láns Glitnis banka hf. og Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. hafi verið endurnýjaðar fram eftir árinu. Síðasta endurnýjunin hafi verið gerð með áritun stjórnar sparisjóðsins í júní 2008, samtals að fjárhæð 2.100.000.000 krónur. Hafi ábyrgðaryfirlýsingin vegna láns Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. gilt til 15. október 2008 og vegna láns Glitnis banka hf. til 30. desember sama ár. Fyrrgreindar sjálfskuldarábyrgðir hafi því enn verið í gildi er stjórn sparisjóðsins samþykkti 30. september 2008 að veita B hf. 2.000.000.000 króna skammtímalán, en þá hafi ábyrgðir og lánveitingar vegna B hf. og fjárhagslega tengdra aðila verið komnar í 34% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.

Um tengsl sparisjóðsins og B hf. sagði í kærunni að hinn fyrrnefndi hafi verið stór hluthafi í félaginu, bæði í beinni eign, sem hafi numið 3% hlutafjár, og gegnum 48,4% hlut sinn í C ehf., þar sem ákærði Y, forstjóri sparisjóðsins, hafi verið stjórnarformaður. C ehf. hafi átt 8,94% hlutafjár í B hf. á fyrri hluta árs 2008, en þar að auki hafi sparisjóðurinn átt óbeint í B hf. í gegnum eignarhlut sinn í H hf., sem átt hafi 2,84% hlutafjár í B hf.

B hf. hafi í árslok 2007 verið fimmti stærsti hluthafi sparisjóðsins í gegnum 100% eignarhald sitt á dótturfélaginu F hf., sem átt hafi 4,26% hlutafjár, en jafnframt hafi B hf. haft áhrif í gegnum eignarhald sitt á D hf., sem átt hafi 4,48% hlutafjár í sparisjóðnum. Þá hafi A, annar forstjóra B hf. og stjórnarformaður sparisjóðsins, átt beina eignarhluti bæði í B hf. og sparisjóðnum. Ákærði Y, forstjóri sparisjóðsins, hafi verið stjórnarmaður í B hf. og jafnframt hluthafi í félaginu, auk þess sem hann hafi átt eignarhlut í sparisjóðnum, sem numið hafi 1,12% hlutfjár. Hann hafi jafnframt sem fyrr segir verið stjórnarformaður C ehf., sem átt hafi 8,94% hlutafjár í B hf.

Af hálfu Fjármálaeftirlitsins var talið að þau brot, sem rakin voru í kærunni, væru meiri háttar að því leyti að heildarlánveitingar sparisjóðsins til B hf. og ábyrgðir hans vegna fjárfestingar í hlutabréfum þess félags hafi, þegar mest var, numið samtals um 6.900.000.000 krónum og þar með hafi skuldbindingarnar numið verulegum fjárhæðum í skilningi 112. gr. d. laga nr. 161/2002. Hlutfall áhættuskuldbindinganna hafi auk þess samanlagt verið komið upp í 34% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins í lok september 2008 eða langt umfram það hlutfall sem leyfilegt hafi verið. Þar að auki hafi B hf. verið veitt stórt lán án trygginga í sama mánuði þegar eigið fé sparisjóðsins hafi farið hríðlækkandi og hann glímt við mikinn lausafjárvanda. Lánveitingin hafi verið samþykkt á stjórnarfundi 30. september 2008, daginn eftir að Seðlabanki Íslands hafi kunngert að hann ætlaði að taka yfir 75% af hlutfé Glitnis banka hf. Hafi sparisjóðurinn, eins og önnur fjármálafyrirtæki hér á landi á þessum tíma, átt í verulegum lausafjárerfiðleikum og illa horft um fjármögnun hans. Stjórnendum sparisjóðsins hafi mátt vera ljóst að fjárhagsstaða B hf. yrði fyrirsjáanlega mjög erfið í nánustu framtíð, þar sem félagið hafi verið eigandi að 23% eignarhlut í D hf. Jafnvel þótt ekki hafi verið fyrirsjáanlegt á þessu tímamarki að D hf. myndi falla, eins og raunin hafi orðið níu dögum síðar, hafi þó mátt reikna með að rekstur íslensku viðskiptabankanna yrði mun erfiðari eftir yfirtöku Glitnis banka hf. og markaðsvirði þeirra myndi því lækka. Hafi það meðal annars komið fram í því að matsfyrirtækið Standard & Poor‘s hafi lækkað lánshæfismat ríkissjóðs samdægurs hinn 29. september 2008 og matsfyrirtækið Fitch Ratings hafi lækkað lánshæfismat allra íslensku viðskiptabankanna degi síðar. Teldi Fjármálaeftirlitið þannig að lánið, til viðbótar við ábyrgðirnar, hafi verið veitt með sérstaklega vítaverðum hætti við aðstæður sem aukið hafi mjög á saknæmi brotsins, sem talið var varða við 1. og 4. mgr. 30. gr., sbr. áður 3. mgr. sömu greinar laga nr. 161/2002.

II

Með framhaldskæru Fjármálaeftirlitsins 19. febrúar 2013 til embættis sérstaks saksóknara vegna áframhaldandi rannsóknar á áhættuskuldbindingum, sem A hf. hafi tekið á sig vegna B hf. og fjárhagslega tengdra aðila, var háttsemi þáverandi forstjóra og stjórnarmanna sparisjóðsins talin geta varðað við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að mati Fjármálaeftirlitsins væru þau viðskipti, sem væru til umfjöllunar í kærunni, tengd þeirri háttsemi sem lýst væri í fyrrgreindri kæru þess 23. október 2012. Þeim stjórnendum og stjórnarmönnum sparisjóðsins, sem tóku ákvarðanir um ábyrgðir og lánveitingar til B hf. og tengdra félaga er hafi orðið þess valdandi að áhættuskuldbindingarnar jukust verulega, hafi mátt vera ljóst að þeir hafi ekki aðeins verið að brjóta gegn 30. gr. laga nr. 161/2002, heldur einnig verið að „fara langt út fyrir það umboð“ sem þeir hafi haft samkvæmt lánareglum sparisjóðsins. Jafnframt hafi stjórnendum og stjórnarmönnum hlotið að vera ljóst þegar umræddar ákvarðanir voru teknar að þeim fylgdi umtalsverð fjártjónshætta fyrir sparisjóðinn og hluthafa hans.

Í framhaldskærunni kom fram að lausafjárstaða sparisjóðsins hafi um nokkurt skeið verið erfið, vanskil hafi farið vaxandi og erfiðara verið að fjármagna hann vegna erfiðleika á fjármálamörkuðum. Hafi því mátt ætla að stjórn sparisjóðsins myndi leggja aðaláherslu á að minnka hlutdeildina í B hf. frekar en að leggja stöðugt meira hlutafé í C ehf. til að halda félaginu á floti. Sparisjóðurinn hafi átt í vaxandi lausafjárerfiðleikum eftir því sem leið á árið 2008 og sú staða versnað enn eftir að hann lagði C ehf. til 3.400.000.000 krónur í aukið hlutafé í mars 2008. Hinn 1. apríl sama ár hafi verið tilkynnt að sparisjóðurinn hafi tekið víkjandi lán að fjárhæð 5.000.000.000 krónur til tíu ára hjá D hf. Hafi tilgangurinn með láninu verið að renna styrkari stoðum undir eiginfjárgrunn sparisjóðsins. Þetta hafi þó ekki dugað til og í maí 2008 hafi sú staða komið upp að sparisjóðurinn hafi ekki getað mætt „greiðslu vaxtagjalddaga“ frá Deutsche Bank og Fortis Bank. Engu að síður hafi sparisjóðurinn haldið áfram að halda C ehf. uppi með auknum hlutafjárframlögum í júní og júlí 2008, samtals að fjárhæð tæplega 1.900.000.000 krónur.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 30. apríl 2008 hafi verið lagt fram bréf frá forstjóra D hf., þar sem óskað hafi verið eftir viðræðum um sameiningu bankans og sparisjóðsins, og hafi stjórn hins síðarnefnda samþykkt að ganga til þeirra viðræðna. Hafi sameiningarviðræðurnar gengið nokkuð hratt fyrir sig og samrunaáætlun verið samþykkt á stjórnarfundi sparisjóðsins 1. júlí 2008. Jafnframt hafi stjórn sparisjóðsins þá verið gerð grein fyrir samningi C ehf. um sölu á hlutabréfaeign félagsins í B hf. til D hf., sem háður hafi verið því skilyrði að sameiningin gengi eftir.

Upplýst hafi verið á stjórnarfundi sparisjóðsins 30. júlí 2008 að tap af rekstri hans á 2. ársfjórðungi þess árs hafi numið 5.000.000.000 krónum og tap á fyrstu sex mánuðum því orðið samanlagt 13.500.000.000 krónur, svo og að aðgengi að lausu fé væri erfiðara en áður. Sameiningin við D hf. hafi verið samþykkt á hluthafafundi í sparisjóðnum 6. ágúst 2008. Sérstakur aukafundur hafi verið haldinn 25. september sama ár til að fara yfir tillögu að bréfi til Samkeppniseftirlitsins, þar sem áhersla hafi verið lögð á að samruninn yrði samþykktur sem fyrst og án skilyrða, auk þess sem raktar hafi verið „helstu ástæður sem liggja að baki þeim lausafjárskorti sem farið er að gæta í starfsemi“ sparisjóðsins. Samkeppniseftirlitið hafi samþykkt samrunann degi síðar, en þar segði berum orðum að óhjákvæmilegt væri að samþykkja hann, þar sem fyrir lægi að rekstrargrundvöllur sparisjóðsins sem sjálfstæðs fjármálafyrirtækis væri brostinn. Þegar Samkeppniseftirlitið samþykkti samrunann hafi samþykki Fjármálaeftirlitsins ekki legið fyrir. D hf. hafi 15. september 2008 sent Fjármálaeftirlitinu bréf, þar sem óskað hafi verið eftir heimild til handa bankanum til að fara með virkan eignarhlut í dótturfélögum sparisjóðsins, þar á meðal I hf. og H hf., en ekki hafi verið tekin afstaða til þess erindis áður en bankinn féll í október 2008. Hafi stöðu sparisjóðsins verið háttað samkvæmt framansögðu þegar stjórn hans kom saman til fundar að morgni 30. september 2008 og samþykkti lánveitingu þá sem um ræðir í málinu.

III

Í málinu liggur fyrir að F hf. lánaði B hf. 4.000.000.000 krónur 18. september 2008 í formi peningamarkaðsláns. Bar lánið 18,30% ársvexti og var gjalddagi þess 22. sama mánaðar. Lánið var framlengt á gjalddaga til 29. september 2008 með 18,25% ársvöxtum og aftur þann dag til 30. sama mánaðar með sömu vöxtum. Þann dag veitti F hf. A hf. peningamarkaðslán að fjárhæð 2.000.000.000 krónur með 18,50% ársvöxtum og sama dag veitti sparisjóðurinn B hf. sams konar lán að sömu fjárhæð með 18,75% ársvöxtum. Hinn 30. september 2008 klukkan 15.39 tilkynnti starfsmaður B hf. starfsmanni sparisjóðsins að F hf. hefði millifært 2.000.000.000 krónur til sparisjóðsins og þremur mínútum síðar tilkynnti starfsmaður B hf. öðrum starfsmanni félagsins að millifærðar hefðu verið af hálfu þess 4.000.000.000 krónur ásamt vöxtum inn á reikning F hf.

Af gögnum málsins verður ráðið að undirbúningur lánveitingarinnar hafi hafist 29. september 2008. Samkvæmt endurriti af hljóðrituðu símtali þann dag úr síma C, framkvæmdastjóra A hf., í síma K í fjárstýringu hans, sem hófst klukkan 13.33, sagði C í upphafi: „Það er smá lúppa í gangi hérna“ og K: „OK.“ Þá sagði C: „[F hf.], vill leggja inn hjá okkur 3 milljarða“ og K: „Ok, það er ... tek því fagnandi.“ Í framhaldinu sagði C: „Við þurfum að lána [B hf.] það út aftur ... er einhver vandi við það að lána þeim 3 milljarða?“ og svaraði K því neitandi. C spurði þá: „Það eru engin mörk eða neitt svoleiðis sem við erum að kljást við neitt í því?“ og svaraði K: „Leyfðu mér aðeins bara ... það er þá bara spurning um sko hvaða heimildir [Y] hefur án þess að fá kvittun stjórnar“ og því svaraði C: „Já er ... millibankinn undir sama hatti og ... bara eðlilegt venjulegt útlán.“ Þá sagði K: „Jáá ... ég meina þetta er ekki ... sem sagt [B hf.] er ekki aðili að millibankamarkaði og ekki ... skilgreint sem fjármálafyrirtæki þannig að“. Síðar í símtalinu spurði C: „En værum við þá að horfa á of stórar áhættuskuldbindingar líka í því eða?“ Sagði K þá: „Þú ert að tala um yfir ... ertu að tala yfir mánaðamótin síðan?“ Því svaraði C játandi. K sagði síðan að hann myndi halda að af því að B hf. væri ekki banki og ekki fjármálafyrirtæki undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins þá hlyti þetta að flokkast undir stórar skuldbindingar og um væri að ræða 3.000.000.000 krónur. Sagði C að það gengi ekki og bað K hann um að kanna þetta og hringja í sig.

Í hljóðrituðu símtali milli sömu manna úr síma C, sem hófst klukkan 14.06 sama dag, spurði C K: „Erum við með lán til þeirra í dag ... frá ykkur?“ og svaraði K: „Já ... það er fjárstýringin á einn hvað fimm hundruð milljóna króna pappír eða floater.“ Spurði C þá hvort það væri til langs tíma og svaraði K því til að það væri til janúar 2009 og þetta væri „í safninu fjárstýring“. C spurði þá hvort þetta væri skuldabréf og svaraði K: „Já þetta er skuldabréf ... þetta er bara floating raibor skuldabréf sem var keypt hérna góðærið sumarið 2007.“

C hringdi aftur í K sama dag samkvæmt hljóðrituðu símtali, sem hófst klukkan 15.42. Í símtalinu sagði C að það þyrfti að afgreiða „þetta [B hf.] mál“ og spurði K hver niðurstaðan væri í því. Svaraði C spurningunni svo: „Tveir milljarðar ... það er bara spurningin hvernig við formum þetta og hvað þúst hvað tíminn er ... þúst þeir segja bara þið ákveðið þetta allt saman bara sko.“ Sagði K þá að það væri ekki hægt að gera það neitt öðruvísi og sagði C þá: „Nei þeir vilja, þeir þurfa að ná þessu yfir“ og K: „Yfir mánaðamótin?“ og C: „Já, þannig að það þarf að vera minimal vika.“ Þá sagði K: „Ok, þannig að það kemur tveir inn frá [F hf.] og tveir út?“ og C: „Já og þeir út.“

Mínútu síðar hringdi L, starfsmaður í fjárstýringu sparisjóðsins, í fyrrgreindan C. Sagði C: „[F hf.] ætlar að leggja inn hjá okkur tvo ... og við ætlum að lána [B hf.] þá út í viku ... eða bara eins og okkur hentar ... Hann biður okkur bara um að koma með allt spekkið í þetta ... þarf einhverja pappírsgerninga í þessu eða getum við bara lánað þeim?“ Svaraði L því til að hann gæti lánað þeim þetta og myndi hann skrá þetta „inn í kerfið hérna og svo framvegis“ og myndi hann fá ráðstöfunarreikning og kennitölu og „eitthvað svona bara.“ Spurði C þá hvort hann gæti talað við M og L á móti: „Er þetta [M] hjá [B hf.]?“ og svaraði C því játandi. Kvaðst L ætla að tala við „[M]“ og sagði C eftir að hafa gefið upp símanúmer hans: „Hann bara bíður á millifærslutakkanum.“ L spurði þá hvort lána mætti „þeim þetta“ og hvort búið væri að „redda því ... upp á þú veist, sko [Y] hefur bara leyfi upp á þrettán hundruð milljónir?“ C svaraði: „Já þetta verður tekið fyrir á stjórnarfundi á morgun, þannig að þetta þarf í rauninni að fara í gegn á morgun ... sko stjórnarfundurinn er hálf tíu í fyrramálið, þetta verður samþykkt þar sko, en ég held að sko að ... að það þarf að bíða stjórnarsamþykktar.“ Svaraði L því játandi „eins og ég skil reglurnar“. Sagði C þá: „Heyrðu, það er nú svo sem ekkert ... að skilja ... Þetta, það verður að vera.“ Sagði C síðan L að hringja í „[M]“ og segja honum „vextina og allt þetta ... og það þarf bara að matcha þetta og við séum með einhverja premíu í þessu og eitthvað svoleiðis.“ L spurði þá hvað F hf. ætlaði að lána „okkur“ og svaraði C: „Já bara, ég held þetta sem þeir séu bara í einhverjum standandi sko, en hann sagði ... þið bara ákveðið þetta og hérna og látið mig vita.“ Spurði L þá: „Við ákveðum báða enda bara?“ og svaraði C því játandi og að L ætti að segja tengiliðnum hjá B hf. að ekki yrði „farið lengra en tveir milljarðar út af reglum stjórnar ... Förum ekki upp fyrir 20% það er sem sagt stjórnar reglan.“

Degi síðar klukkan 11.39 sendi C fyrrnefndum K og L tölvupóst, en um efni hans sagði: „Það er komið samþykki fyrir [B hf.]láni“, þar sem sagði: „Þið græjið þetta við [M] er það ekki?“ Tíu mínútum síðar hringdi C í K og kvað M hjá B hf. ætla leggja „inn á okkur tvo milljarða frá [F hf.].“ Spurði K þá: „Erum við ekki að gera neinn samning við [F hf.]?“ og svaraði C: „Jú, það er einhver innlánssamningur við [F hf.] ... þú kannski bara hringir í hann, svo lánum við honum í 30 daga, tvo milljarða, [B hf.].“

IV

Samkvæmt óundirritaðri og ódagsettri lánsbeiðni B hf., sem lögð var fram á fundi stjórnar A hf. 30. september 2008 og bar yfirskriftina „[B hf.]“, óskaði félagið eftir „skammtíma láni án sérstakra trygginga (money market) í formi 30 daga víxils. Slík lán hafa áður verið veitt en fjárhæðin nú fer umfram heimildir forstjóra og því þarf samþykki stjórnar fyrir slíku láni. Um er að ræða 2 milljarða í 30 daga en við það hækkar áhætta af viðskiptum við [B hf.] úr 0,5 ma í 2,5 ma kr. sem er 20% af CAD hlutfalli [A hf.]. Eigið fé [B hf.] pr. 30.6.2008 nam 2.284 millj. Evra en tap af rekstri á fyrri hluta ársins nam 82 millj. Evra. Þótt frekara tap hafi orðið á rekstri síðan er staða fyrirtækisins sögð traust og aðgangur að lausu fé standi fyllilega undir þörfum til afborgana af lánum félagsins allt þetta ár og fram á næsta ár.“

Þá liggur fyrir í málinu óundirritað bréf 30. september 2008 á bréfsefni A hf., þar sem óskað var eftir heimild stjórnar sparisjóðsins til lánveitingar að fjárhæð 2.000.000.000 krónur til B hf. Væri lánveitingin til 30 daga og áhætta gagnvart B hf. væri þá 2.489.850.000 krónur „eða um 20% af áætluð CAD eigið fé þann 30. september.“

Lánsbeiðnin var tekin fyrir á fundi stjórnar sparisjóðsins, sem hófst klukkan 9.30 áðurnefndan dag. Á fundinum voru mættir stjórnarformaðurinn, A, og hinir ákærðu stjórnarmenn. Að auki sátu fundinn ákærði Y, forstjóri sparisjóðsins, og framkvæmdastjórarnir B og C, svo og nafngreindur fundarritari.

Í fundargerð sagði í upphafi að nokkrar umræður hafi orðið um „efnahagsmálin og atburði síðustu daga.“ Væri ljóst að ástandið á fjármálamarkaði væri „mjög alvarlegt og staðan sú erfiðasta sem uppi hefur verið um áratugi.“ Undir liðnum „Mánaðaskýrsla“ sagði að forstjóri hafi lagt fram skýrslu fyrir septembermánuð. Fram hafi komið að lausafjárskortur undanfarinna vikna væri orðinn fyrirtækinu dýr, en uppistaða fjármögnunar undanfarið hafi verið lán frá „[D hf.]“, þar sem aðrar leiðir hafi ekki reynst færar. Tap hafi orðið af rekstri samstæðunnar frá 1. júlí til 31. ágúst 2008, sem næmi 1.800.000.000 krónum, en hreinar vaxtatekjur liðu fyrir mjög óhagstæða fjármögnun. Þá hafi heildarvanskil hækkað um 3,4% milli mánaða og hafi vanskil aukist um 23,6% á 12 mánaða tímabili. Á hinn bóginn væri ekki útlit fyrir nein stór áföll vegna útlána. Undir liðnum „[B hf.]“ sagði: „Áður en þessi liður var tekinn til umfjöllunar vék [A] af fundi. Óskað var eftir heimild stjórnar til lánveitingar til [B hf.] að upphæð 2 ma.kr. í 30 daga. Áhætta vegna [B hf.] er þá tæplega 2,5 ma.kr., sem er 20% af CAD hlutfalli. Þetta var samþykkt.“

V

Í 2. mgr. 17. gr. samþykkta fyrir A hf. var kveðið á um að stjórn félagsins skyldi setja sér starfsreglur þar sem nánar væri kveðið á um framkvæmd starfa stjórnarinnar, þar á meðal um heimildir hennar til að taka ákvarðanir um einstök viðskipti. Þá sagði í 18. gr. samþykktanna að framkvæmdastjóri og félagsstjórn færu saman með stjórn félagsins. Framkvæmdastjóri annaðist daglegan rekstur þess, sem tæki ekki til ráðstafana sem væru óvenjulegar eða mikilsháttar.

Samkvæmt grein 1.2. reglna, sem stjórn sparisjóðsins hafði sett sér um lánveitingar og ábyrgðir, skyldu lánveitingar á hverjum tíma miða að því að markmiðum hans um arðsaman rekstur, sterka eiginfjárstöðu og góða lausafjárstöðu væri náð. Þá skyldi byggja útlánaábyrgðir á faglegum viðskiptalegum forsendum. Skyldu lánveitingar taka mið af fjárhagsstöðu, greiðslugetu og viðskiptasögu viðkomandi. Að jafnaði skyldi afla skattframtala, ársreikninga, greiðslumata, rekstrar- og greiðsluáætlana og/eða annarra fjárhagslegra upplýsinga frá viðskiptavinum. Þá sagði í grein 1.4. að áður en lánveiting væri ákveðin skyldi afla nauðsynlegra upplýsinga um fjárhag viðskiptavinar og meta greiðslugetu hans. Hjá lögaðila skyldi að jafnaði afla ársreikninga, árshlutauppgjöra, rekstrar- og greiðsluáætlana, skattframtala og annarra upplýsinga í samræmi við eðli viðskipta. Þess skyldi og gætt að eiginfjárstaða viðskiptavinar væri viðunandi og að stjórn og framtíðarhorfur teldust góðar. Jafnframt sagði í grein 1.5. að kröfur sparisjóðsins til trygginga ættu að taka mið af fjárhagslegum styrk viðskiptavinar og tímalengd lánveitingar. Lán sem ekki væru veitt með aðstoð lánsmatskerfis skyldu veitt gegn ásættanlegum tryggingum, en lánveitingar sem ekki væru tryggðar með veði skyldu almennt ekki vera til lengri tíma en fimm ára. Þá sagði í grein 2.5. að við hverja lánveitingu skyldi lagt mat á rekstur, efnahag og greiðslugetu rekstraraðila, svo og tryggingarstöðu.

Um lánsheimildir forstjóra sparisjóðsins sagði í grein 1.8. að hann hefði heimild til að lána allt að 10% af eigin fé „[A hf.] heildarinnar“ eins og það væri skilgreint samkvæmt reglum um framkvæmd starfa stjórnar og forstjóra. Þá sagði að ef skuldbindingin væri yfir 10% af CAD eigin fé „[A hf.] heildarinnar“ þyrfti að leita samþykkis stjórnar á fyrirgreiðslunni. Þó mætti heildarskuldbinding eins aðila eða fjárhagslega tengdra aðila ekki fara yfir 25%, sbr. reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Í grein 5.8. kom fram að stjórnin tæki ákvarðanir um lán ef heildarskuldbinding væri umfram 10% af CAD eigin fé sparisjóðsins, en heildarskuldbinding mætti þó aldrei fara yfir 25% af eigin fé hans samkvæmt áðurgreindum reglum Fjármálaeftirlitsins.

VI

Í máli þessu er ákærðu gefið að sök að hafa 30. september 2008, ákærðu X, Z, Þ og Æ sem stjórnarmönnum A hf. og ákærða Y sem forstjóra sparisjóðsins, misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga, er þau í sameiningu veittu B hf. peningamarkaðslán að fjárhæð 2.000.000.000 krónur með gjalddaga 31. október 2008, án trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins og án þess að meta greiðslugetu og eignastöðu lánþegans í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins.

Óumdeilt er að leitað var heimildar stjórnar sparisjóðsins til lánveitingarinnar 30. september 2008, þar sem lánið fór umfram heimild forstjóra samkvæmt grein 1.8. reglna félagsins um lánveitingar og ábyrgðir. Voru hinir ákærðu stjórnarmenn því í aðstöðu til að veita heimild til lánsins, öndvert við ákærða Y.

Í reglum sparisjóðsins um lánveitingar og ábyrgðir var ekki að finna sérstök ákvæði um peningamarkaðslán. Af gögnum málsins verður ráðið að þetta lánsform hafi verið notað af fjárstýringu sparisjóðsins við lausafjárstýringu hans, en almennt tíðkuðust slík lán fyrst og fremst milli fjármálafyrirtækja og voru notuð við lausafjárstýringu þeirra og ætluð til skamms tíma. Það sem greindi þessi lán frá öðrum tegundum útlána var meðal annars að lítil skjalavinnsla var að baki þeim og voru þau almennt veitt án nokkurra trygginga. Ástæða þessa var ekki síst sú að lánsformið var ætlað fyrir trausta aðila á borð við fjármálafyrirtæki og eftir atvikum stærri rekstrarfélög með gott lánshæfismat og lánveiting reist á því að viðkomandi lántaki hefði fjárhagslegan styrk til að standa undir endurgreiðslu lánsins.

Vitnið G, regluvörður og forstöðumaður áhættustýringar A hf. á þeim tíma sem lánið var veitt, skýrði svo frá fyrir dómi að á bak við B hf. hafi verið eignasafn, sem hafi verið mjög dreift. Þá hafi félagið verið skráð á markaði og hægt að fylgjast reglulega með því. Félagið hafi verið skoðað mjög vel og vel fylgst með því. Í tilviki félagsins, eins og annarra öflugra og traustra fyrirtækja, hafi verið búið að samþykkja fyrirfram að veita mætti þeim lán, en innan sparisjóðsins hafi verið tölvukerfi sem hélt utan um slík lán. Hafi trygging fyrir endurgreiðslu lána til traustra fyrirtækja verið hin góða eiginfjárstaða þeirra.

Fram er komið í málinu að sparisjóðurinn hafði á árinu 2008, áður en kom til þeirrar lánveitingar er mál þetta tekur til, veitt B hf. peningamarkaðslán allt að 1.500.000.000 krónum, sem voru endurgreidd, þar á meðal lán 10. september það ár að fjárhæð 1.000.000.000 krónur, sem endurgreitt var 17. sama mánaðar.

Sem fyrr greinir hafði stjórn sparisjóðsins, í samræmi við samþykktir hans, sett sér reglur um lánveitingar og ábyrgðir. Enda þótt þar hafi ekki verið sérstaklega kveðið á um peningamarkaðslán var stjórn hans bundin af reglunum við veitingu slíks láns og bar eðli máls samkvæmt að fara eftir þeim varúðarsjónarmiðum er þar greinir, þar á meðal hvort þörf væri trygginga miðað við fjárhagslegan styrk lánþega og lánstíma.

Við mat á því hvort hinir ákærðu stjórnarmenn sparisjóðsins hafi misnotað aðstöðu sína til lánveitingarinnar verður að líta til aðstæðna á þeim tíma sem hún fór fram. Lánið var veitt á viðsjárverðum tímum á fjármálamörkuðum þar sem lausafjárskortur var ríkjandi og verður ekki fallist á með héraðsdómi að yfirlýsingar stjórnvalda 29. september 2008 hafi gefið sérstakt tilefni til þess að auka tiltrú á því að unnt yrði að ná stöðugleika á íslenskum fjármálamarkaði. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft að B hf. birti árshlutauppgjör 31. júlí 2008 fyrir fyrstu sex mánuði þess árs. Uppgjörið var í evrum og kom þar fram að heildareignir félagsins 30. júní 2008 hafi numið að jafnvirði um 868.000.000.000 krónum og þær lækkað um 13,6% frá áramótum. Eigið fé hafi verið að jafnvirði um 286.000.000.000 krónur og hafi lækkað um 3,6% frá áramótum. Heildarskuldir hafi lækkað um að jafnvirði 123.000.000.000 krónur eða 17,7% frá áramótum. Handbært fé hafi verið að jafnvirði 38.000.000.000 krónur og tryggt lausafé verið til að mæta endurfjármögnun til desember 2009. Þá hafi eiginfjárhlutfall verið 37% að meðtöldum víkjandi skuldabréfum.

Ákærðu ber saman um að áðurnefnt árshlutauppgjör hafi legið fyrir á stjórnarfundinum 30. september 2008, það verið rætt þar og niðurstaða þess, sem hinir ákærðu stjórnarmenn máttu treysta að gæfi rétta mynd af stöðu félagsins, verið meginforsenda lánsins. Hefur héraðsdómur lagt þennan framburð ákærðu til grundvallar niðurstöðu í málinu. Engin efni eru til að vefengja mat héraðsdóms á munnlegum framburði ákærða eða vitna þannig að leiði til ómerkingar héraðsdóms, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar, nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gefi skýrslu þar fyrir dómi.

Ásetningur er saknæmisskilyrði eftir 249. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt árshlutauppgjörinu var eiginfjárstaða B hf. afar sterk þremur mánuðum áður en umrætt lán var veitt til eins mánaðar og endurfjármögnun tryggð fram í desember 2009. Að framangreindu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, er ósannað af hálfu ákæruvaldsins, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að hinir ákærðu stjórnarmenn hafi af ásetningi misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum með því að veita B hf. lán það sem hér um ræðir og þannig gerst brotlegir við 249. gr. almennra hegningarlaga. Verður því niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu þeirra staðfest. Þá verður ákærði Y sýknaður af sakargiftum með vísan til forsendna héraðsdóms. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Andra Árnasonar, Daníels Isebarn Ágústssonar, Guðmundar Ágústssonar, Páls Rúnars M. Kristjánssonar og Óttars Pálssonar, 3.720.000 krónur til hvers um sig.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. júní sl., er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara útgefinni 2. október 2014 á hendur ákærðu, Y, kt. [...], [...], [...], X, kt. [...], [...], [...], Z, kt. [...], [...], [...], Þ, kt. [...], [...], [...]og Æ, kt. [...], [...], [...], „fyrir umboðssvik, ákærða Y sem þáverandi forstjóra A hf., kt. [...] og ákærðu X, Z, Þ og Æ sem þáverandi stjórnarmönnum í sama sparisjóði, með því að hafa 30. september 2008, misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu, með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga, er þau í sameiningu veittu hlutafélaginu B, tveggja milljarða króna peningamarkaðslán með gjalddaga 31. október 2008, án trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins og án þess að meta greiðslugetu og eignastöðu lánþegans í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins.

Lánið var framlengt fjórum sinnum og var síðasti gjalddagi þess 16. mars 2009. Það var ekki greitt til baka og verður að telja það sparisjóðnum að fullu eða að verulegu leyti glatað.

Brot ákærðu varðar við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

                Ákærðu krefjast þess að þau verði sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins og að kostnaður af málinu verði greiddur úr ríkissjóði.

I

Upphaf máls þessa er kæra fjármálaeftirlitsins, dagsett 23. október 2012, til embættis sérstaks saksóknara á hendur öllum ákærðu og þremur öðrum mönnum vegna gruns um brot gegn þágildandi 1. og 3. mgr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161, 2002 varðandi takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum fjármálastofnana. Segir í kærunni að fjármálaeftirlitið telji „að grunur leiki á að forstjóri og stjórnarmenn [A hf.] og eftir atvikum aðrir aðilar sem kunna að eiga hlut að máli, hafi stofnað fé sparisjóðsins í hættu og stuðlað að falli hans, með því að láta sparisjóðinn taka á sig áhættuskuldbindingar vegna [A hf.] og fjárhagslega tengdra aðila umfram þau 25% mörk af eiginfjárgrunni sparisjóðsins sem kveðið er um í 1. mgr. 30. gr. [laga um fjármálafyrirtæki], á tímabilinu frá 30. desember 2007 og fram til 30. mars 2008 og frá 30. september 2008 og fram til ársloka 2008. Umrædd meint brot fólust í því að [A hf.] skilgreindi ekki réttilega [B hf.] (hér eftir B hf.) og [C ehf.] (hér eftir [C ehf.]) sem fjárhagslega tengda aðila í skilningi 2. mgr. 30. gr. [laga um fjármálafyrirtæki], þegar sparisjóðurinn gekkst í sjálfsskuldarábyrgðir fyrir [C ehf.] og veitti [B hf.] lán, en áhættuskuldbindingar þessar voru að samanlagðri fjárhæð umfram 25% af eiginfjárgrunni. Ákvarðanir um lán og veittar ábyrgðir voru teknar af forstjóra og stjórnarmönnum [A hf.] á hverjum tíma. [/] Einnig telur Fjármálaeftirlitið að forstjóri og stjórnarmenn [A hf.] og eftir atvikum aðrir aðilar sem kunna að eiga hlut að máli, hafi látið hjá líða á árinu 2008 að tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar í samræmi við 3. mgr. 30. gr. þágildandi [laga um fjármálafyrirtæki], sbr. 4 mgr. 30 gr. núgildandi [laga um fjármálafyrirtæki], að áhættuskuldbindingar bankans hafi farið yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. 30. gr. [laganna]. Jafnframt bar forstjóri [A hf.] og eftir atvikum aðrir aðilar sem kunna að eiga hlut að máli, ábyrgð á að Fjármálaeftirlitinu voru sendar rangar og villandi skýrslur um stórar áhættuskuldbindingar miðað við 31. desember 2007 og 31. október 2008 og þannig gerst brotlegir við 2. mgr. 112. gr. b. [laga um fjármálafyrirtæki].“

                Fjármálaeftirlitið vísaði svo með bréfi til embættis sérstaks saksóknara, dagsettu 19. febrúar 2013, til framhaldsrannsóknar máli varðandi „áhættuskuldbindingar“ sem A hf. tók á sig á árunum 2007 og 2008 vegna hlutafélagsins B hf. og „fjárhagslega tengdra aðila“ vegna gruns um að forstjóri sparisjóðsins og stjórnarmenn (ákærðu og þrír aðrir) kynnu að hafa gerst sekir um umboðssvik og brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga með því að veita sjálfsskuldarábyrgðir og lán umfram það sem heimilt væri í reglum sjóðsins um lán og ábyrgðir.

Um það sakarefni, sem hér er til meðferðar, segir sérstaklega í kærunni, að slepptum neðanmálsgreinum: „Eins og að framan hefur verið lýst voru aðstæður á fjármálamörkuðum viðsjárverðar og rekstur [A hf.] erfiður, m.a. vegna lausafjárskorts, þegar á stjórnarfundi þann 30. september 2008 er lögð fram tillaga um að veita [B hf.] 2 milljarða kr. lán til viðbótar við aðrar áhættuskuldbindingar sparisjóðsins vegna þess félags á þeim tíma. [/] Lánsbeiðnin sem lögð var fyrir stjórnarfund [A hf.] 30. september 2008 hljóðar þannig: „[B hf.] óskar eftir skammtíma láni án sérstakra trygginga (money market) í formi 30 daga víxils. Slík lán hafa áður verið veitt en fjárhæðin nú fer umfram heimildir forstjóra og því þarf samþykki stjórnar fyrir slíku láni. Um er að ræða 2 milljarða í 30 daga en við það hækkar áhætta af viðskiptum við [B hf.] úr 0,5 ma. ISK í 2,5 ma. ISK sem er 20% af CAD hlutfalli [A hf.]. [/] Eigið fé [B hf.] pr. 30.6.2008 nam 2.284 millj. evra en tap af rekstri á fyrri hluta ársins nam 82 millj. evra. Þótt frekara tap hafi orðið á rekstri síðan er staða fyrirtækisins sögð traust og aðgangur að lausu fé standi fyllilega undir þörfum til afborgana af lánum félagsins allt þetta ár og fram á næsta ár.“ [/] Fjármálaeftirlitið telur verulega annmarka á því hvernig lánsbeiðni þessi hefur verið úr garði gerð og þær forsendur sem lagðar eru henni til grundvallar. [/] Í fyrsta lagi vekur Fjármálaeftirlitið athygli á að óskað er eftir „láni án sérstakra trygginga“ sem verður að teljast vítavert með tilliti til aðstæðna. [/] Í öðru lagi segir að við lánveitinguna „hækkar áhætta af viðskiptum við [B hf.] úr 0,5 ma. ISK í 2,5 ma. ISK“. Ákvörðunin ber því með sér að hafa byggt á þeirri forsendu að áhættuskuldbindingarnar fælust einungis í umræddu láni og eign sparisjóðsins í skuldabréfum [B hf.], „[B hf.] 07 2“, en ekki hafi verið gert ráð fyrir ábyrgðum sparisjóðsins vegna lána [C hf.], sem sömu stjórnarmenn höfðu undirritað þremur mánuðum áður, á stjórnarfundi þann 25. júní. Stjórnarmönnum [A hf.] hlaut því að vera ljóst að þessi forsenda var röng. [/] Í þriðja lagi segir að „Eigið fé [B hf.] pr. 30.6.2008 nam 2.284 millj. evra...“, sem væntanlega hefur átt að sýna hversu traust staða fyrirtækisins var sem lántakanda. Ef stjórnarmenn hefðu kynnt sér forsendur þessa mats á eigin fé og haft til hliðsjónar verðþróun á [D hf.] og [E], sem voru stærstu eignir [B hf.], hefði blasað við nokkuð önnur mynd. Í árshlutaskýrslu [B hf.] fyrir janúar til júní 2008, sem framangreind tala um eigið fé virðist byggja á, má lesa eftirfarandi: „Frá 1. janúar 2007 hafa [E] og [D hf.] verið hlutdeildarfélög [B hf.]. [B hf.] er stærsti hluthafinn í báðum þessum félögum en eignarhluturinn í [D hf.] er 24,75% og í [E] 19,98%. Hlutdeildarfélögin eru kjölfestueignir til langs tíma í kjarnastarfsemi [B hf.], sem er fjármálaþjónusta. [/] Hlutdeildarfélög í fjármálaþjónustu eru færð með hlutdeildaraðferð í reikningum félagsins og hafa skammtímasveiflur í verði hlutabréfa þeirra ekki áhrif á bókfært virði þeirra. Í sveiflum á markaði getur því markaðsvirði hlutdeildarfélaga orðið umtalsvert meira eða minna en bókfært virði. Við lok annars ársfjórðungs 2008 var markaðsvirði hlutdeildarfélaga 1.347 milljónum evra lægra en bókfært virði þeirra.“ [/] Með því að nota svonefnda hlutdeildaraðferð við uppgjör efnahagsreiknings [B hf.] í stað gangvirðisaðferðar, þar sem eignir eru metnar á markaðsvirði á hverjum tíma, var því í raun verið að meta eignir félagsins um 1.347 milljónum evra hærra eða sem svarar til 167 milljarða kr. á þeim tíma. Ef stærstu eignir [B hf.], þ.e. [D hf.] og [E], hefðu verið metnar á markaðsvirði, hefði eigið fé [B hf.] verið 937 milljónir evra eða aðeins 41% af því sem miðað var við í lánsbeiðninni til [A hf.] þann 30. september 2008. Þar að auki hefðu stjórnarmenn [A hf.] átt að horfa til þess að verðmæti þessara eigna [B hf.] hafði farið lækkandi frá miðju ári, hlutabréf [D hf.] höfðu til dæmis lækkað um 10% og hlutabréf [E] höfðu fallið hratt síðustu daga, eftir að verðinu hafði verið haldið uppi um skeið með kaupum [E] á eigin bréfum. [A hf.] verðbréf beittu samskonar aðferðafræði við útreikning á „raunverulegu“ eigin fé [B hf.] í minnisblaði sem lagt var stjórn [C hf.], þar sem Y var stjórnarformaður, í byrjun árs 2008. Þar kom fram að miðað við markaðsgengi [D hf.] og [A hf.] á þeim tíma, var eigið fé [B hf.] 1.351 milljón evra. Uppfærsla á þessu verðmati miðað við markaðsvirði þessara félaga í lok september 2008 hefði gefið þá niðurstöðu að „raunverulegt“ eigið fé [B hf.] hefði lækkað um 500 milljónir evra frá upphafi árs, og næmi um 854 milljónum evra. [/] Ennfremur hefðu stjórnarmenn [A hf.] við mat sitt á fjárhagslegri stöðu [B hf.] getað horft til þess að inni í eiginfjárútreikningum [B hf.] á miðju ári 2008 var viðskiptavild að verðmæti 341 milljónir evra, en miðað við þær rekstrarhorfur og efnahagsaðstæður sem voru í lok septembermánaðar 2008 hefði mátt gera ráð fyrir rýrnun á virði hennar.  „Raunverulegt“ eigið fé [B hf.] þann 30. september hefur því varla verið nema þriðjungur þess sem stjórnarmenn [A hf.] byggðu ákvörðun sína á.“

                Með bréfi fjármálaeftirlitsins fylgdu fjölmörg gögn sem orðið hafa hluti af rannsókn málsins, fundargerðir, ársreikningar, margvíslegar skýrslur, bréf, tölvuskeyti, lánasamningar og fleira. Þá var í rannsókn málsins hjá embætti sérstaks saksóknara aflað margvíslegra viðbótargagna, svo sem tölvuskeyta, reikningsyfirlita, fundargerða stjórnar sparisjóðsins ásamt framlögðum fylgiskjölum, fundargerða lánanefndar sjóðsins, fundargerða endurskoðunarnefndar sjóðsins og upplýsinga um lánasamninga, hljóðritaðra símtala o. fl. Loks voru teknar skýrslur af ákærðu og vitnum og hófust þær yfirheyrslur í júlí 2013.

II

Meðal þeirra gagna sem ákæruvaldið hefur lagt fram eru útlánareglur [A hf.]. Útlánareglur sparisjóðsins eru hluti af „Lánahandbók [A hf.] sparisjóðs“ sem er meðal gagna málsins. Í handbókinni er að finna safn af reglum um útlán úr sparisjóðnum, sem í gildi voru á þeim tíma sem málið varðar og stjórn sparisjóðsins hafði sett um lánveitingar og ábyrgðir, um ákvörðun um lán, um lán í íslenskri mynt, um myntlán, um útlánaheimildir, um útlánaferil, skipulag og verkaskiptingu um skjalafrágang og sitthvað fleira. Skulu hér tilfærð þau ákvæði í reglunum sem þýðingu hafa fyrir málið:

1.2. Markmið lánveitinga, lánastefna

Lánveitingar og veittar ábyrgðir skulu ávallt vera í samræmi við þá megin stefnu [A hf.] að vera traust, faglegt og framsækið fjármálafyrirtæki, sem veiti viðskiptavinum sínum víðtæka, lipra og umfram allt, trausta þjónustu á sviði bankastarfsemi og tengdrar fjármálastarfsemi. Lánveitingar skulu á hverjum tíma miða að því að markmiðum [A hf.] um arðsaman rekstur, sterka eiginfjárstöðu og góða lausafjárstöðu sé náð. Þess skal ávallt gætt að ákvarðanir um lánveitingar og ábyrgðir brjóti ekki í bága við lög og reglur sem [A hf.] ber að starfa eftir.

Í samskiptum við viðskiptavini er lögð áhersla á að starfsmenn [A hf.] hafi sjálfstæði til ákvarðanatöku sem miðar að því að þjónusta viðskiptavini fljótt og vel, án þess að vísa þurfi þeim frá einum aðila til annars. Skipulag lánamála skal því miða að því að gera þetta mögulegt.

Útlánaákvarðanir skal byggja á faglegum viðskiptalegum forsendum.

Lánveitingar og önnur fyrirgreiðsla til viðskiptavina skal taka mið af fjárhagsstöðu, greiðslugetu og viðskiptasögu viðkomandi. Að jafnaði skal afla skattframtala, ársreikninga, greiðslumata, rekstrar- og greiðsluáætlana og/eða annarra fjárhagslegra upplýsinga frá viðskiptavinum, og úr þeim skal unnið á skipulegan hátt og þær upplýsingar geymdar á aðgengilegu formi.

....

1.4. Fjárhagslegar upplýsingar

Áður en lánveiting er ákveðin, skal afla nauðsynlegra upplýsinga um fjárhag viðskiptavinar og meta greiðslugetu hans. Hjá lögaðila skal að jafnaði afla ársreikninga, árshlutauppgjöra, rekstrar- og greiðsluáætlana, skattframtala og annarra upplýsinga í samræmi við eðli viðskipta. Þess skal gætt að eiginfjárstaða viðskiptavinar sé viðunandi og að stjórn og framtíðarhorfur teljist góðar.

 

1.5. Tryggingar

Kröfur [A hf.] til trygginga eiga að taka mið af fjárhagslegum styrk viðskiptavinar og tímalengd lánveitingar. Að jafnaði skulu teknar tryggingar fyrir lánveitingum í auðseljanlegum eignum. Veð skuli þegar það á við, ná til rekstrareininga í heild sinni.

Lán sem ekki eru veitt með aðstoð lánsmatskerfis, skulu veitt með ásættanlegum tryggingum. Lánveitingar sem ekki eru tryggðar með veði, skulu almennt ekki vera til lengri tíma en fimm ára. Veðsettar eignir á að meta sem næst markaðsvirði og reikna upp áhvílandi skuldir. Gæta ber fyllstu varúðar varðandi veðhlutfall og miða við aðstæður í hverju tilviki.

Sérstaklega skal gæta að tryggingum þegar um er að ræða stöðutöku, t.d. í hlutabréfum og afleiðum, nema í hlut eigi fjárhagslega mjög sterk fyrirtæki.

....

1.7. Skipulag lánastarfseminnar

Sparisjóðsstjórn hefur eftirlit með lánamálum [A hf.] og ber ábyrgð á þeim....

....

1.8. Lánaheimildir

....

Þó má heildarskuldbinding eins aðila eða fjárhagslegra tengdra aðila ekki fara yfir 25% [af CAD], sbr. reglur fjármálaeftirlitsins nr. 531, 2003, um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum.

....

2.5. Lánveitingar til fyrirtækja

Við hverja lánveitingu skal mat lagt á rekstur, efnahag og greiðslugetu rekstraraðila, svo og tryggingastöðu. Stöðva skal allar lánveitingar til viðskiptavinar eftir að vanskil hans hafa verið send til lögfræðiinnheimtu. Undantekningu má gera ef ný lánveiting rennur til úrlausnar vanskila eða vantryggðra lána. Lögaðilar, sem eru undir stjórn eða í eigu einstaklinga, sem skráðir eru með skiptalok, gjaldþrotameðferð, árangurslaust fjárnám í vanskilaskrá, eða eru með afskrift og/eða mál í lögfræðiinnheimtu, eru hvorki lánshæfir né gildir sem ábyrgðarmenn. Þetta gildir þó ekki ef gjaldþrotameðferð hefur verið dregin til baka. Lánanefnd [A hf.] sparisjóðs getur vikið frá þessari reglu, enda liggi fyrir rökstuðningur fyrir slíkri ákvörðun og tryggingar vegna lánafyrirgreiðslunnar séu mjög traustar.

....

3.1. Almennt

Taka skal saman yfirlit um tryggingastöðu við [A hf.] við hverja lánveitingu og athuga hvort þörf er á að bæta tryggingar vegna veittra lána og ábyrgða.

....

3.3. Lán án sérstakra trygginga til fyrirtækja

Skilyrði fyrir lánum án trygginga til fyrirtækja er að útibú kanni til hlítar að rekstur fyrirtækis sé í góðu lagi og nær það einnig til stjórnenda fyrirtækisins. Miðað skal við að fyrirtæki sem eru með lánveitingar án trygginga sendi reglulega inn upplýsingar um rekstur félagsins, þar af þarf endurskoðað ársuppgjör félagsins að vera undirritað af löggiltum endurskoðanda hjá þeim fyrirtækjum sem eru með heildarfyrirgreiðslu umfram 1% af CAD eigin fé [A hf.] heildarinnar.

Ef heildarskuldbinding ótryggðra lána fer umfram 10 milljónir kr., skal Lánanefnd [A hf.] sparisjóðs fjalla um mál.

Til að tryggja sem besta þjónustu við fyrirtæki, skulu traust fyrirtæki hafa lánamörk skv. tillögu útibússtjóra eða þjónustustjóra. Þessi lánamörk skulu endurskoðast árlega þegar [A hf.] hefur fengið endurskoðaðan ársreikning fyrirtækisins. Ef ársreikningur fyrirtækis berst ekki innan tilsetts tíma, getur Lánanefndin farið fram á að útlánaviðskipti fyrirtækisins verði endurmetin m.t.t. lánafyrirgreiðslu og trygginga.

Fyrirtæki sem eru í hótel- og veitingarekstri, fiskeldi, kvikmynda- og ljósvakastarfsemi, snyrtistofur, þvottahús, heilsuræktir, sólbaðsstofur, sportvöruverslanir og sprotafyrirtæki á hugbúnaðarsviði skulu ekki fá fyrirgreiðslu án trygginga, nema með sérstöku samþykki Lánanefndar.

Nota skal eftir því sem við á og um er samið, ýmis ákvæði í skuldaskjölum sem varða gjaldfellingarheimildir til [A hf.], t.d. ákvæði um eigið fé, eiginfjárhlutfall, hagnað, rýrnun trygginga, eigendaskipti að fyrirtæki eða tryggingaandlagi, o.fl.

Þegar við á skal setja í skuldaskjöl ákvæði um að fyrirtæki megi ekki taka ákvarðanir um verulegar breytingar á rekstrarforsendum er varða nýjar fjárfestingar og lántökur án samþykkis [A hf.] eða ákvæði um að breytingar á eignarhaldi eða aðrar sambærilegar aðgerðir sem takmarka getu fyrirtækisins til að efna skuldbindingar gagnvart [A hf.].

Allar undanþágur frá þessari reglu skal leggja fyrir Lánanefnd [A hf.] sparisjóðs.

....

5.8. Stjórn [A hf.]

Sparisjóðsstjórn hefur eftirlit með lánamálum [A hf.] og ber ábyrgð á þeim.

Stjórnin tekur ákvarðanir um lán ef heildarskuldbinding látakanda er umfram 10% af CAD eigin fé [A hf.]. Heildarskuldbinding viðskiptavinar má þó aldrei fara yfir 25% af eigin fé [A hf.], skv. reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar.

Lánveitinguna ber að færa í gerðarbók stjórnar.“

III

Fundargerð stjórnar sparisjóðsins sem vitnað er til í kærubréfi Fjármálaeftirlitsins er svohljóðandi: „Ár 2008, þriðjudagurinn 30. september, kl. 9:30, var haldinn stjórnarfundur í [A hf.] [/] Á fundinum voru mættir stjórnarmennirnir [A, Z, X, Þ] og [Æ]. Að auki sátu fundinn [Y], forstjóri, framkvæmdastjórarnir [B og C og D], fundarritari. [/] Þetta gerðist: Nokkrar umræður voru um efnahagsmálin og atburði síðustu daga. Ljóst er að ástandið á fjármálamarkaði er mjög alvarlegt og staðan sú erfiðasta sem uppi hefur verið um áratugi. [/] 1. Fundagerðir tveggja síðustu funda: Fundargerðir 30. og 31. fundar voru samþykktar og undirritaðar. [/] 2. Mánaðarskýrsla: Forstjóri lagði fram mánaðarskýrslu septembermánaðar. Fram kom að lausafjárskortur undanfarinna vikna væri orðinn fyrirtækinu dýr, en uppstaða fjármögnunar undanfarið hefur verið lán hjá [D hf.], þar sem aðrar leiðir hafa ekki reynst færar. [/] Tap varð af rekstri samstæðunnar frá 1. júlí til 31. ágúst 2008, sem nemur 1,8 ma kr., en hreinar vaxtatekjur líða fyrir mjög óhagstæða fjármögnun. Rekstrarkostnaður er á áætlun. Kostnaðarlækkun vegna fækkunar starfsmanna skilar sér ekki inn í uppgjörið nú, en kemur inn í uppgjörið á síðasta ársfjórðungi. [/] Heildarvanskil hækkuðu um 3,4% milli mánaða og hafa vanskil hækkað um 23,6% á 12 mánaða tímabili. [/] 3. Útlánaskýrsla: Forstjóri fór yfir útlánaskýrslu til stjórnar. Í henni voru lögð fram yfirlit yfir stærstu lánþega [A hf.] og stærstu vanskilaaðila. Ekki er útlit fyrir að neinum stórum áföllum vegna útlána. [/] 4. Skýrsla innri endurskoðunar: F, innri endurskoðandi [A hf.], kom inn á fundinn til að greina frá þeim athugunum og úttektum sem hann hefur gert fyrri hluta ársins 2008. Fram kom hjá að hann hafi ekki gert neinar stórvægilegar athugasemdir í kjölfar þessara athugana. [/]  5. Lánamál. [A hf.] Factoring: Stjórnin staðfesti tillögu lánanefndar um hækkun lánamarka [A hf.] Factoring úr 2,0 ma kr í 2,4 ma kr. [/] [B hf.]: Áður en þessi liður var tekinn til umfjöllunar vék [A] af fundi. Óskað var eftir heimild stjórnar til lánveitingar til [B hf.] að upphæð 2 ma kr í 30 daga. Áhætta vegna [B hf.] er þá tæplega 2,5 ma.kr, sem er 20% af CAD hlutfalli. Þetta var samþykkt. [/] Nauðasamningar:  Lögð var fyrir stjórn tillaga að nauðasamningum vegna þriggja aðila sem allir eru starfsmenn samstæðunnar. Tillagan er um heildarniðurfærslu uppá 150 millj kr. Þetta var samþykkt. [/] 6. Sameiningarmál: samþykki Samkeppniseftirlitsins; Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt sameiningu [A hf.] og [D hf.]. Í álitsgerð eftirlitsins um sameininguna kemur fram að samruninn sé samþykktur á grundvelli þess að sýnt sé að [A hf.] myndi að öðrum kosti hverfa af markaðnum sem sjálfstæður keppinautur og að engin önnur ráð séu því tiltæk en að samþykkja samrunann. [/] Fjármálaeftirlitið hefur enn ekki skilað niðurstöðu sinni um málið. Boðað verður til stjórnarfundar strax í kjölfar niðurstöðu eftirlitsins. [/] Forstjóri lýsti sig ósáttan við þann þátt álitsgerðar Samkeppniseftirlitsins sem snýr að fjárhagslegri stöðu [A hf.]. Ljóst er að Samkeppniseftirlitið styðst ekki við gögn frá [A hf.] þegar þessi afstaða er mótuð og áskildi hann sér rétt til að skila greinargerð um málið. [/] aðgerðaráætlun: Lögð voru fram drög að aðgerðaráætlun sem færi í gang strax í kjölfar þess ef Fjármálaeftirlitið gefur samþykki sitt á samrunanum. [/] 7. Önnur mál [/] Engin önnur mál voru tekin fyrir undir þessum lið.“

Fram er komið að stjórnarmönnum hafi ekki verið kunnugt um lánsumsókn B hf. fyrir fundinn.

Í málinu hafa verið lagðar fram tvær árshlutaskýrslur B hf. fyrir 1. janúar til 30. júní 2008 og 1. janúar til 30. september 2008. Verður vikið að efni þessara gagna og aðkomu stjórnarinnar að þeim síðar.

IV

Í málinu liggja fyrir reglur A hf. frá 31. ágúst 2007 „um framkvæmd starfa stjórnar og forstjóra“ sem settar voru á grundvelli 54. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161, 2002, samþykkta A hf. og leiðbeinandi tilmæla fjármálaeftirlitsins. Í 10. gr. reglnanna segir að halda skuli fundargerðir um alla stjórnarfundi þar sem fram komi „nöfn viðstaddra stjórnarmanna, dagskrá og þær ákvarðanir sem teknar eru á fundi stjórnar“. Í 14. gr. reglnanna segir að félagsstjórn skuli hafa aðgang að öllum gögnum sem félagið varða og nauðsynleg eru vegna stjórnar- og eftirlitsskyldu sinnar. Þá segir að óheimilt sé að fara með slík gögn eða afrit þeirra út af starfstöð félagsins. Ennfremur segir í 23. gr. reglnanna að upplýsingar skuli aðeins gefnar stjórnarmönnum á stjórnarfundum. Skuli fyrirspurnir stjórnarmanna bornar upp á fundunum, kynntar öllum stjórnarmönnum og um þær bókað í fundargerð ásamt svörum við þeim. Loks segir í greininni að stjórnarmönnum sé óheimilt að hafa samband við starfsmenn félagsins til þess að afla upplýsinga.

V

Óumdeilt er að á fyrrgreindum stjórnarfundi sparisjóðsins 30. september 2008 var samþykkt að veita B hf. skammtímalán í formi peningamarkaðsláns að fjárhæð 2 milljarðar króna, með gjalddaga 31. október sama ár. Þá liggur fyrir í málinu að ákærði Y átti hlut í B hf. og sat í stjórn þess félags og að A, stjórnarformaður A hf., var forstjóri félagsins. Þá liggur fyrir að jafnhliða greiðslu lánsins til B hf. voru lagðir inn í sparisjóðinn tveir milljarðar króna í formi peningamarkaðsláns frá F hf., sem var að öllu leyti í eigu B hf. Ákærðu segjast hvorki hafa vitað um þessa greiðslu né að hún tengdist láni sparisjóðsins til B hf. C hefur hins vegar sagt að ákærða Y hafi verið kunnugt um hana og að samband væri á milli þessarar greiðslu og lánsins til B hf. Símtöl sem lögð hafa verið fram í málinu og vitnisburðir benda sterklega til þess að tengsl hafi verið milli greiðslunnar frá F hf. og þessa láns. Hefur komið fram hjá einu vitninu að ástæðan fyrir þessum tengslum hafi verið sú að B hf. hafi,vegna 104. gr. laga um hlutafélög nr. 2, 1995 verið óheimilt að taka milliliðalaust lán hjá dótturfélagi.

Í fyrrgreindum lánareglum er ekki að finna sérstök ákvæði um svo nefnd peningamarkaðslán en ráða má af framburðum ákærðu og vitna að tíðkanlegt var að A hf. tæki þátt í viðskiptum með slík lán, bæði sem lántaki og lánveitandi. Auk þess að vera þátttakandi í viðskiptum með peningamarkaðslán í íslenskum krónum á millibankamarkaði, liggur fyrir að A hf. veitti slík lán til stærri fyrirtækja og stofnana sem talin voru sérstaklega traust. Er upplýst að meðal aðila sem nutu þessara kjara voru skráð fyrirtæki eins og B hf. og G hf., einnig lífeyrissjóðir, Íbúðalánasjóður og fleiri stofnanir. Lán þessi voru veitt til skamms tíma, yfir nótt eða til fáeinna daga, en í sumum tilvikum til lengri tíma, svo sem 15 eða 30 daga. Var afgreiðsla slíkra lána hjá lausafjárstýringu A hf.  Þá er komið fram að ekki hafi tíðkast að veita slík lán gegn sérstakri tryggingu enda hafi fremur verið litið á veitingu peningamarkaðsláns sem tímabundna ráðstöfun lausafjár bankans en eiginlega lánveitingu sem ekki var á verksviði lausafjárstýringar. Liggur þannig fyrir að veiting peningamarkaðslána kom ekki til kasta lánanefndar A hf.

Samkvæmt framburði vitna fyrir dómi voru peningamarkaðslán almennt ekki hærri en svo að einstakir starfsmenn gátu samþykkt þau eða þá að slík samþykkt var á valdi forstjóra og framkvæmdastjóra samkvæmt grein 5.10 í lánareglum sparisjóðsins. Í því tilviki sem hér um ræðir var lánsfjárhæðin yfir þeim mörkum sem sett eru með ákvæðinu, þ.e. hámarkshlutfallinu 10 % af CAD eigin fé sparisjóðsins. Liggur fyrir að þetta var ástæðan fyrir því að lánsumsókninni var vísað til sjóðsstjórnarinnar.

VI

Meðal gagna málsins er svofelld fréttatilkynning forsætisráðuneytisins, 29. september 2008, um samkomulag um að ríkissjóður leggi Glitni til nýtt hlutafé: „Gert hefur verið samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands og helstu eigenda Glitnis banka hf. að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið um að ríkissjóður leggi bankanum til nýtt hlutafé. Þetta er gert með hliðsjón af þröngri lausafjárstöðu Glitnis og einstaklega erfiðum aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um þessar mundir. Ríkissjóður mun með milligöngu Seðlabanka Íslands leggja Glitni til hlutafjárframlag að jafnvirði 600 milljóna evra (eða um 84 ma.kr.) og með því verða eigandi að 75% hlut í Glitni. Boðað verður til hluthafafundar í Glitni svo fljótt sem samþykktir leyfa þar sem tillaga þar að lútandi verður lögð fram til samþykktar. Fjármálaeftirlitið metur eiginfjárstöðu og eignasafn Glitnis traust. Eiginfjárhlutfall Glitnis verður 14,5% eftir þessa aðgerð. Rekstur bankans verður með eðlilegum hætti. Ríkissjóður stefnir ekki að því að eiga eignarhlutinn í bankanum til langframa. Tilgangurinn með þessari aðgerð er að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu.“

Þá er einnig komið fram í málinu að formaður stjórnar Seðlabanka Íslands sagði af þessu tilefni sama dag að þegar „þessum ólgusjó“ linnti myndi bankinn standa sig vel og þá væri gert ráð fyrir því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn og að hagnaður yrði „af öllu saman“ fyrir ríkið og þar með skattborgarana.

VII

Niðurstaða dómsins

Í málinu liggur fyrir að samhliða því sem B hf. óskaði eftir peningamarkaðsláni hjá A hf. bauð F hf., dótturfélag B hf., sparisjóðnum að láni sömu fjárhæð til sama tíma. Telur dómurinn fram komið að umrædd lán voru tengd saman með þeim hætti að téð fjármagn var í reynd flutt frá F hf. til móðurfélagsins, B hf., fyrir milligöngu A hf. Þótt lausafjárstaða A hf. héldist óbreytt með þessum hætti er engu að síður ljóst að áhætta A hf. gagnvart B hf. jókst. Sökum tengslanna milli lánanna tveggja er ljóst að í láni A hf. til B hf. fólst ekki venjuleg skammtímaráðstöfun fjárstýringar A hf. á umframfé sjóðsins til aðila á millibankamarkaði eða fyrirtækis í sambærilegri stöðu heldur varð henni öllu fremur lýst sem þætti í „lúppu“ eða „snúningi“, svo vísað sé til orðalags í samskiptum þeirra starfsmanna sem komu að málinu.

Þótt vikið sé að tengslum lánanna tveggja í röksemdum með ákærunni, sbr. d-lið 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008, er engu að síður ljóst að ekki er um að ræða sjálfstætt sakaratriði í ákæru. Að því marki sem sannað telst að ákærðu hafi verið kunnugt um tengsl lánanna getur þessi þáttur málsins því einungis haft þýðingu við nánara mat á þeirri háttsemi sem þeim er gefin að sök. Í því samhengi skortir hins vegar verulega á að ákæruvaldið hafi rökstutt hvaða nánari þýðingu hugsanleg vitneskja ákærðu um tengsl lánanna eigi að hafa fyrir ákæruefnið.

Við munnlegan flutning málsins kom fram af hálfu ákæruvaldsins að haustið 2008 hafi A hf. átt í alvarlegum vandræðum með lausafé og ákærðu verið þetta vel ljóst. Hefur í þessu sambandi verið vísað til fyrrgreindrar bókunar frá stjórnarfundinum 30. september 2008 en einnig annarra gagna um takmarkaðan aðgang sparisjóðsins að lausafé, meðal annars vegna afstöðu Seðlabanka Íslands. Í málinu liggur ekki fyrir hvernig inn- og útstreymi fjár úr lausafjárstýringu A hf. var háttað á umræddum tíma og verður því ekkert fullyrt um það að hve miklu leyti fjárstýringin veitti skammtímalán til annarra fyrirtækja, innan og utan millibankamarkaðar, eða til hvaða tíma slík lán voru veitt. Þá liggur ekkert fyrir um lausafjárstöðu sparisjóðsins 30. september 2008 að öðru leyti en því að fyrir liggur að nægt lausafé var til þeirrar lánveitingar til B hf. sem lýst er í ákæru.

Þótt á það verði fallist að ákærðu hafi, sem stjórnarmönnum og forstjóra, borið að hafa yfirsýn yfir þann lausafjárvanda sem sparisjóðurinn glímdi við haustið 2008 verður ákæran ekki skilin á þá leið að ákærðu sé gefið að sök að hafa rýrt lausafjárstöðu sparisjóðsins óhóflega þegar þau samþykktu téða lánveitingu. Getur þetta atriði því einungis komið til skoðunar að því marki sem það hefur þýðingu við mat á þeirri háttsemi sem ákærðu er gefin að sök í ákæru, svo sem hvort umrædd staða sparisjóðsins gaf tilefni til þess að óska eftir sérstakri tryggingu fyrir endurgreiðslu lánsins.

Samkvæmt framangreindu verður að skilja ákæru málsins svo að hún takmarkist við það að ákærðu sé gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína sem stjórnarmenn og forstjóri A hf. með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga með því, annars vegar, að meta ekki greiðslugetu og eignastöðu B hf. í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins og, hins vegar, með því að veita félaginu umrætt lán án trygginga. Með þessu hafi fé sparisjóðsins verið stefnt í verulega hættu og hafi ákærðu mátt þetta vera ljóst þannig að jafnað verði til ásetnings til umboðssvika samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga. Þótt framangreind tvö efnisatriði ákærunnar tengist þykir engu að síður rétt að fjalla um hvort þeirra með sjálfstæðum hætti og reifa framburði ákærðu og vitna þar að lútandi.

A

Um það sakaratriði að ákærðu hafi ekki lagt mat á greiðslugetu og eignastöðu B hf. er í röksemdum ákæruvaldsins vitnað til reglna sparisjóðsins um lánveitingar og ábyrgðir með svofelldum hætti: „Í grein 1.4 segir að áður en lánveiting sé ákveðin skuli afla nauðsynlegra upplýsinga um fjárhag viðskiptavinarins og meta greiðslugetu hans. Hjá lögaðila skuli að jafnaði afla ársreikninga, árshlutareikninga, rekstrar- og greiðsluáætlana, skattframtala og annarra upplýsinga í samræmi við eðli viðskipta.“.... „Í grein 2.5 kemur svo fram að við lánveitingar til fyrirtækja skuli leggja mat á rekstur, efnahag og greiðslugetu rekstraraðila svo og tryggingastöðu.“

Ákærði Y hefur borið fyrir dómi að fram hafi komið á stjórnarfundinum 30. september að eigið fé B hf. væri 300 milljarðar og lausafjárstaða þess væri sterk. Hafi og allar upplýsingar um félagið legið frammi vegna skráningar þess í kauphöllinni. Nefnir hann í því samhengi 6 mánaða uppgjör þess sem birst hafi 31. júlí 2008 hjá Kauphöllinni og í fjölmiðlum. Þá tekur hann fram að stjórnendunum A hf. hafi jafnframt verið kunnugt um þróun félagsins frá þeim tíma. Hafi verið farið eins vandlega yfir málið og hægt var að gera og stjórnarmenn margs spurt í því efni. Um grein 1.4. í lánareglunum tekur ákærði fram að hún sé hugsuð vegna lána í útibúakerfinu til fyrirtækja sem ekki séu skráð í kauphöll og í þeim tilvikum sé nauðsynlegt að afla þar greindra upplýsinga. Þessar upplýsingar hafi allar legið fyrir vegna skráningar B hf. í kauphöll. Segir hann að í sparisjóðnum hafi náið og skipulega verið fylgst með greiðslugetu og stöðu félagsins og menn þekkt þessi atriði vel.

Ákærði X hefur borið að fyrir fundinum hafi legið árshlutauppgjör B hf., annað hvort í pappírsformi eða því hafi verið varpað á skjá. Muni hann að uppgjörið hafi verið rætt á fundinum. Þá hafi stjórnarmenn spurt hvort peningar væru til fyrir láninu og þeim verið tjáð að svo væri. Þá hafi verið spurt hvort lánið væri innan CAD-hlutfalls. Þá hafi verið rætt um greiðslustöðu og lausafjárstöðu B hf. og fram hafi komið að mjög vel horfði í þeim efnum næstu níu mánuði. Hafi þannig allt verið rætt sem máli skipti. Ekkert hafi verið rætt um hvaðan peningar fyrir láninu hefðu komið og kveðst hann ekki hafa vitað að F hf. hefði lagt inn fyrir því. Áhersla hafi verið lögð á það af hálfu fjárstýringar A hf. að um skammtímalán væri að ræða sem hentaði fjárstýringu sjóðsins afar vel, enda hafi fjárstýringin legið með fé sem þurft hafi „að láta vinna“. Upplýsingaflæði til stjórnar A hf. hafi almennt verið mjög gott og sama megi segja um alla skjalavörslu í því sambandi. Sjálfur hafi hann frétt af lánsumsókninni rétt fyrir fundinn. Hann kveður A hafa setið fundinn framan af og veitt upplýsingar viðvíkjandi láninu, áður en hann dró sig í hlé.

Ákærði Z hefur skýrt frá því að stjórnarmenn hafi þekkt mjög vel til B hf. enda hafi það félag sífellt verið til umfjöllunar á stjórnarfundum A hf. og verið stór hluti af eignasafni félagsins. Kveðst hann hafa vitað hvernig lánasamningar B hf. voru upp byggðir og hafa þekkt eignir þess. Hafi komið fram í samtölum við stjórnarmenn í B hf. að félagið stæði mjög vel. Minni hann að ákærði Y og C hafi sameiginlega talað fyrir láninu og stjórnarmenn hafi einnig spurt út í þetta mál. Hafi stjórnin gaumgæft þessa lánveitingu mjög og farið vel yfir greiðslugetu og eignastöðu B hf. Hann kveðst ekki hafa vitað hvers vegna B hf. þurfti þetta lán en menn hafi álitið það vera hluta af daglegri fjárstýringu félagsins. Hann kveðst ekki áður hafa fengið lán af þessu tagi til meðferðar í stjórn, enda hafi það verið að nokkru leyti óvenjulegt. Hann segir að þær upplýsingar sem stjórninni voru veittar um hag B hf., árshlutauppgjörið, hafi verið betri en þær sem fengist hefðu úr skattframtali eða ársreikningi sem hefðu sýnt stöðu félagsins í árslok 2007. Fyrir utan að það hafi verið kynnt á fundinum segir hann að það hafi verið kynnt fyrir stjórninni áður, þ.e. þegar það kom fram.

Ákærða Þ kveðst muna mjög vel eftir stjórnarfundinum sem um ræðir í málinu. Kveðst hún hafa spurt út í málið, þar á meðal tryggingu fyrir láninu og það hafi aðrir stjórnarmenn einnig gert. Hafi komið fram að efnahagsreikningur B hf. væri nægileg trygging fyrir láninu. Hafi einnig verið skýrt fyrir fundarmönnum hvernig peningamarkaðslán virkuðu. Hafi verið upplýst að CAD-hlutfallið væri í lagi og sagt að stjórnin hefði heimild til þess að veita þetta lán án sérstakrar tryggingar. Þá hafi sex mánaða uppgjöri B hf. verið varpað upp á skjá og farið yfir þær tölur, sem hana minni að hún hafi áður verið búin að kynna sér. Hún kveðst þó ekki hafa sett sig inn í reikningsskilaaðferðir. Hún segir C aðallega hafa gert stjórninni grein fyrir málinu en ákærði Y svarað spurningum að lokinni greinargerð C, enda hafi ákærði þekkt B hf. vel. Kveðst hún jafnframt álíta að stjórnin hafi haft betri upplýsingar um B hf. en búast hefði mátt við um óskráð fyrirtæki. Hún segir að tap hafi verið á rekstri félagsins síðustu mánuðina fyrir fundinn. Að því er varðar greiðslumat á B hf. segir hún sparisjóðinn hafa fylgst reglulega með afkomu félagsins þannig að byggt hafi verið á traustum upplýsingum um það þegar ákveðið var að lána félaginu. Um hafi verið að ræða stórt lán en það hafi þó verið til skamms tíma. Hún segir hafa komið fram á fundinum að fjárstýring sparisjóðsins hafi haft handbært fé til þess að lána B hf. Ákærða segir stjórnina hafa verið upplýsta á þessum fundi um allar þær fjárhagsstærðir sem nauðsynlegt var að vita um áður en ákvörðun um lánið var tekin.

Ákærða Æ hefur skýrt frá því að stjórnendur sparisjóðsins hafi tekið til máls á fundinum og svarað því sem til þeirra var beint. Hún kveðst ekki muna vel eftir einstökum atriðum, enda sé langt um liðið frá fundinum. Hún kveðst hafa þekkt lítillega til B hf. áður en hún tók sæti í stjórn sparisjóðsins hálfu ári fyrir þennan fund en í stjórninni hafi jafnframt verið þekking á félaginu fyrir þennan fund og hálfs árs uppgjör B hf. hafi legið fyrir á fundinum. Hafi stjórnin haft greinargóðar og nákvæmar upplýsingar um hag félagsins og betri en almennt lágu fyrir um félög sem fengu lán hjá sparisjóðnum.

C, framkvæmdastjóri fjármálasviðs A hf. á þeim tíma sem hér skiptir máli, hefur greint frá því að hann hafi vegna þess starfa síns setið flesta stjórnarfundi. Hann kveðst ekki muna eftir þeim umræðum sem urðu á fundinum en kveðst álíta að hann hafi ekki komið á fundinn til þess að kynna lánveitinguna. Þá kveðst hann ekki muna hvort innlán F hf. hafi komið þar til tals. Hann segir stjórnendur sparisjóðsins hafa þekkt mjög vel til stöðu B hf. á þessum tíma, bæði af þeim uppgjörum sem félagið sendi frá sér og einnig hafi þeir reglulega framkvæmt eigin útreikninga á félaginu og virði eigna þess, enda hafi flest þau félög, sem B hf. átti í, verið skráð í Kauphöllinni.

                A var formaður stjórnar A hf. og jafnframt forstjóri B hf. á þeim tíma sem um ræðir og kveðst hafa átt hlut í báðum fyrirtækjunum. Hann hefur greint frá því að flæði upplýsinga til stjórnarinnar hafi verið mjög gott á þeim tíma sem hér skiptir máli. Hann segir lánveitinguna til B hf. hafa verið rædda á fundinum en hann vikið frá þegar kom að ákvörðun um hana. Hann telur ekki ólíklegt að hann hafi svarað einhverjum spurningum manna um lánsbeiðnina en kveðst ekki hafa kynnt hana fyrir stjórninni. Þá muni hann ekki eftir umræðum í einstökum atriðum.

                B, þáverandi framkvæmdastjóri sparisjóðasviðs A hf., segir lánsbeiðnina hafa verið kynnta á fundinum en hann muni ekki eftir einstökum atriðum í þeirri kynningu. Minni hann að C og Y hafi staðið fyrir henni og einhverjar spurningar hafi verið bornar fram. Þá hafi verið skjalleg gögn um beiðnina á fundinum og einnig hafi verið miðlað upplýsingum með myndvarpa, líklega rekstrarupplýsingum og uppgjöri.

G, áður framkvæmdastjóri áhættustýringar A hf. og regluvörður þar, segir starfsmenn sparisjóðsins hafa fylgst vel með B hf. á þeim tíma sem hér skiptir máli og tvímælalaust betur en öðrum fyrirtækjum sem voru í viðskiptum við sparisjóðinn. Hafi þannig ekki einasta verið fylgst með markaðsvirði eignasafns félagsins heldur hafi fyrirtækið sjálft verið rannsakað þar sem markaðurinn endurspegli ekki alltaf eignina í fyrirtækinu. Kveðst hann hafa tekið reglulega saman skýrslur um það hvort sparisjóðurinn væri innan þeirra marka sem sett höfðu verið um fjárfestingar.

                Eins og fram er komið var B hf. skráð hjá Kauphöll Íslands. Samkvæmt 57. og 58. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108, 2007 ber útgefendum verðbréfa að birta opinberlega ársreikninga sína og árshlutareikninga. Þá segir í 1. mgr. 122. gr. laganna, sem í gildi var á þeim tíma sem hér um ræðir, að útgefanda fjármálagerninga, sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF), beri að tilkynna þegar í stað allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar eða markaðstorgs fjármálagerninga (MTF) þar sem fjármálagerningar hans hafa verið teknir til viðskipta. Skipulegur verðbréfamarkaður eða markaðstorg fjármálagerninga (MTF) skuli miðla innherjaupplýsingum í upplýsingakerfi sínu og teljist upplýsingarnar opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan. Samkvæmt 120. gr. laganna er hér átt við upplýsingar sem varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði sem eru líkleg til þess að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna.

B

Um það sakaratriði að téð lán hafi verið veitt án tryggingar er í röksemdum ákæruvaldsins vísað til reglna sparisjóðsins um lánveitingar og ábyrgðir með svofelldum hætti: „Grein 1.5 fjallar um tryggingar. Kemur þar fram að lán sem ekki séu veitt með aðstoð lánsmatskerfis skuli veitt gegn ásættanlegum tryggingum“... „Í þriðja kafla lánahandbókarinnar er fjallað sérstaklega um lán í íslenskri mynt. Segir þar í grein 3.1 að taka skuli saman tryggingastöðu við A hf. við hverja lánveitingu og athuga hvort þörf er á að bæta tryggingar vegna veittra lána og ábyrgða.“

Í málinu liggur árshlutaskýrsla B hf. fyrir tímabilið frá 1. janúar til 30. júní 2008 sem var staðfest af stjórn félagsins 31. júlí 2008 og birt í kauphöll sama dag. Árshlutauppgjörið var áritað af endurskoðanda félagsins, Deloitte hf., með svokallaðri könnunaráritun. Þar kom fram að tap var af rekstri félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2008 að fjárhæð 82.200.000 evrur. Heildareignir félagsins 30. júní 2008 voru 6.924.700.000 evrur og eigið fé félagsins var á sama tíma 2.284.200.000 evrur. Þá var handbært fé félagsins 30. júní 2008 var 303.400.000 evrur. Samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu sem birt var í kauphöll var eiginfjárhlutfall félagsins að teknu tilliti til víkjandi skuldabréfs 37%. Í fréttatilkynningunni kom auk þess fram að félagið ætti tryggt lausafé til að mæta endurfjármögnun fram til desember 2009. Félagið færði eignarhluti sína í D hf. og E samkvæmt svokallaðri hlutdeildaraðferð sem gerði það að verkum að eignarhlutur B hf. í fyrrgreindum félögum var 30. júní 2008 metinn 1.347.200.000 evrum meiri í árshlutauppgjöri félagsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins en markaðsverð eignanna samkvæmt skráðu gengi í kauphöll sagði til um.

Þá er í málinu árshlutaskýrsla B hf. fyrir tímabilið frá 1. janúar til 30. september 2008 sem var staðfest af stjórn 27. nóvember 2008 og birt í kauphöll sama dag. Árshlutauppgjörið var áritað af endurskoðanda félagsins, Deloitte hf., með svokallaðri könnunaráritun. Endurskoðandi félagsins gerir fyrirvara í áritun sinni vegna atburða sem áttu sér stað eftir lokadag reikningsskilanna. Tap var af rekstri félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins 2008 nam 170.000.000 evrum. Heildareignir félagsins 30. september 2008 voru 6.275.900.000 evrur og eigið fé félagsins var á sama tíma 1.987.300.000 evrur. Loks var handbært fé 30. september 2008 287.600.000 evrur. Samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu sem birt var í kauphöll var eiginfjárhlutfall félagsins að teknu tilliti til víkjandi skuldabréfs 36%. Eins og áður þá færði félagið eignarhluti sína í D hf. og E samkvæmt svokallaðri hlutdeildaraðferð sem gerði það að verkum að eignarhlutur B hf. í fyrrgreindum félögum var 30. september 2008 metinn 1.245.900.000 evrum meiri í árshlutauppgjöri félagsins fyrir fyrstu níu mánuði ársins en markaðsverð eignanna samkvæmt skráðu gengi í kauphöll sagði til um.

Ákærði Y hefur borið fyrir dómi að hefur skýrt frá því fyrir dómi að fjárstýringardeild fyrirtækja, eins og sparisjóðurinn, haldi utan um fjármögnun fyrirtækisins. Oft sé til fé umfram daglegar þarfir en einnig skorti fé tímabundið. Sé þá leitað á millibankamarkað eða markað með laust fé, enda sá markaður ekki bundinn við banka eina. Þeir sem þátt tóku í þessum markaði hafi verið sveitarfélög, ríkisstofnanir, Landsvirkjun, Íbúðalánasjóður og stór fyrirtæki eins og G hf. og B hf. Hafi A hf. tekið ríkan þátt í þessum markaði í mörg ár. Menn hafi þar skipst á tölvuskeytum og leitað að eða boðið fram peninga til skamms tíma. Hafi hlutirnir gerst hratt á þessum markaði, enda menn þekkt vel til hver hjá öðrum. Hafi lánsumsókn B hf. borið að með þessum hætti, en félagið hafi verið aðili að þessum markaði og fengið áður slík lán hjá sparisjóðnum, 500 milljónir og 1½ milljarð, án sérstakra trygginga. Hafi þau lán greiðst með skilum. Lánið 30. september 2008 hafi verið hefðbundið peningamarkaðslán að öðru leyti en því sem tók til fjárhæðarinnar. Hann segir peningamarkaðslán hafa verið til skamms tíma og ekki verið teknar tryggingar og í þessu tilfelli hafi ekki verið tekin trygging vegna þess hve fjárhagsstaða B hf. var sterk, með eigið fé um 300 milljarða króna og lausafjárstaða þess hafi verið svo sterk að dygði félaginu í nærri heilt ár. Hafi félagið verið eitt öflugasta fyrirtæki landsins á þessum tíma. Um peningamarkaðslán hafi gilt sömu sjónarmið, venjur og siðir og um venjuleg útlán, enda að því miðað að lánin greiddust. Hafi öll sjónarmið um varúð verið þau sömu um þessi lán og venjuleg útlán og einnig áttu þessi lán að skila hagnaði fyrir lánveitandann. Ákærði segir C, yfirmaður fjármálasviðs A hf., hafa sent lánsbeiðnina til ritara ákærða fyrir fundinn.

Ákærði segir að á þessum tíma hafi ýmislegt gerst á fjármálamörkuðum bæði erlendis og hér sem ekki voru fordæmi fyrir. Þannig hafi ríkissjóður og seðlabankinn verið búnir að yfirtaka Glitni banka og áður haft afskipti af Landsbankanum og þessir atburðir haft áhrif á alla fjármálastarfsemi hér og erlendis. Ákærði segir að heimilt hafi verið að lána án sérstakra trygginga og vísar til dæmis í grein 3.3. í útlánareglunum um það. Hann segir að í sparisjóðnum hafi skipulega verið tekið saman yfirlit um tryggingastöðu sparisjóðsins varðandi öll lán úr sjóðnum í samræmi við grein 3.1 í lánareglunum og yfirliti um það komið til stjórnarinnar. Um árshlutaskýrslu B hf. janúar – júní 2008, sem lá fyrir stjórninni, segir ákærði að þar komi fram þau aðalatriði sem horft sé til þegar staða lántaka er metin: eigið fé, rekstrarafkoma og greiðslugeta. Um hlutdeildaraðferð í reikningum B hf. segir ákærði aðspurður að sú uppgjörsaðferð hafi ekki haft áhrif á mat manna á félaginu. Reikningshald félagsins hafi verið í föstum skorðum og sætt ytri og innri endurskoðun óskyldra aðila. Sé þessi uppgjörsaðferð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Hafi þeim í sparisjóðnum verið kunnugt um að þarna hefði orðið breyting á miðað við fyrri tvo ársfjórðunga. Hafi þessi munur skýrst af lækkandi hlutabréfaverði og B hf. hafi ekki dregið dul á hann heldur þvert á móti vakið athygli á honum í skýrslunni. Markaðsvirði fyrirtækisins hafi einnig tekið mið af þessu og það lækkað meira í verði en undirliggjandi eignir gáfu tilefni til. Hann segist hafa fylgst með rekstrinum eftir 30. júní og hafi orðið framhald á taprekstri félagsins. Aftur á móti hafi fjöldi fyrirtækja gengið vel, þar með talin fyrirtæki í eigu B hf., þótt hlutabréf hafi farið lækkandi. Ákærði segist aðspurður almennt ekki hafa fylgst með einstökum peningamarkaðslánum og þá enn síður stjórn sparisjóðsins, enda rík hefð fyrir því að stjórnir útlánastofnana hafi almennt ekki haft aðgang að upplýsingum um einstaka viðskiptamenn. Hafi C, yfirmaður fjármálasviðs A hf., sent lánsbeiðnina til ritara ákærða. Spurður um hlutabréfeign sína í A hf. og B hf. kveðst ákærði hafa átt tífalt meira í sparisjóðnum en hann átti í B hf.

Ákærði X, sem auk þess að sitja í stjórn sparisjóðsins, stýrði einu af útibúunum, kveður heimilt hafa verið að veita peningamarkaðslán án trygginga eins og sérstaklega sé fjallað um í grein 3.3 í lánareglunum. Þetta tiltekna lán hafi verið hentugt skammtímalán og greiðslu- og lausafjárstaða B hf. hafi verið mjög jákvæð næstu níu mánuðina. Hafi eigið fé félagsins verið 37%, sem þyki gott, jafnvel í góðæri. Ákærði bendir á það að erlendar eignir B hf. hafi hækkað í verði vegna gengislækkunar krónunnar. Þá hafi menn rætt efnahagsmál og nokkurrar bjartsýni hafi gætt vegna orða forsætisráðherra sem skilin hafi verið svo að staða bankanna hefði verið styrkt og efnahagslífið þar með. Þá hafi verið stefnt að sameiningu við D hf. sem hafi lofað mjög góðu og loks hafi fréttir af því að H hefði fjárfest í D hf. verið taldar lofa góðu um efnahagslífið í heild. Hafi menn litið svo á að botninum væri náð í efnahagslægðinni, að nú sæi til lands og horfur fremur bjartar. Ákærði segir rekstur sparisjóðsins hafa verið þröngan um þetta leyti vegna skorts á lausafé og aðhalds. Þannig hafi lánið til B hf. komið sér vel á þessum tíma enda brýnt að koma fé í ávöxtun og gott að geta lánað það út í einn mánuð. Hefðu peningarnir legið inni í sparisjóðnum í stað þess að lána þá út hefði A hf. eðlilega orðið fyrir tapi. Hann segist aðspurður ekki hafa séð fyrir sér þennan dag hrun á fjármálamörkuðum sem reið yfir skömmu síðar og allt hafi bent til þess að B hf. yrði gjaldfær á gjalddaga lánsins. Hafi hann fyrst og fremst verið að gæta hagsmuna A hf. þegar lánið var veitt. Hafi hann ekki átt hlut í B hf. og enga persónulegra hagsmuni undir láninu. Aftur á móti hafi hann átt hlut í sparisjóðnum.

Ákærði Z kveður B hf. hafa fjármagnað sig að miklu leyti á peningamarkaði, eins og mörg önnur fyrirtæki geri. Engar sérstakar tryggingar hafi verið settar fyrir þessu láni enda hafi það verið í samræmi við öll önnur peningamarkaðslán hérlendis og í samræmi við það sem tíðkaðist á alþjóðlegum peningamarkaði. Hann segir eigið fé félagsins hafa verið 300 milljarðar en þennan tiltekna dag hafi eigið fé verið metið 93 milljarðar á markaði, sem þeir í sparisjóðnum álitu vera of lágt mat.  Miðað við hlutdeildaraðferðina megi segja að lánið hafi þennan dag numið um 3% af eigin fé B hf. Þá hafi þetta lán verið með gjalddaga langt á undan mörgum öðrum lánum úr sjóðnum. Staða B hf. hafi oft verið til umræðu í sparisjóðnum, enda stór hluti af eignum sparisjóðsins. Þá kvaðst hann hafa verið í sambandi á þessum tíma við ráðamenn í félaginu sem hafi fullyrt að staða félagsins og fjármögnun væri einstaklega góð. Sjálfur hafi hann einnig þekkt til eigna þess og haft mikið álit á félaginu.

Ýmsar blikur hafi verið á lofti í fjármálum frá því árslok 2007 en menn hafi talið að yfirvöld væru að bæta stöðuna og almennt hafi menn álitið að B hf. hefði tekist mjög vel að undirbúa sig fyrir erfiðleikana. Glitnir hafði þá átt í vandræðum en þau vandræði hefðu verið leyst og ríkið gert ráðstafanir til þess að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu og fjármögnun bankanna í framtíðinni. Hafi það verið sérstaklega rætt í stjórninni hvort skynsamlegt væri að veita lánið með hliðsjón af öllu þessu. Hefðu starfsmenn bankans fullyrt að svo væri, þeir C og Y. Hann segir að meðbyr hafi verið í innlánum til sjóðsins vegna almenns trausts sem hann naut, andstætt því sem komið hafði á daginn með Glitni. Hafi þeim verið sagt, stjórnarmönnunum, að lánið til B hf., sem hafi verið stórt, væri góð leið til þess að ávaxta fé sparisjóðsins. Hafi upplýsingarnar sem voru veittar á fundinum bent til þess að staða B hf. væri mjög sterk samkvæmt sex mánaða uppgjörinu og nýjustu upplýsingum. Þá væri félagið án alls vafa fjármagnað til langs tíma, 76 vikna, eftir því sem kom fram í kauphöllinni. Upplýsingar af þessu tagi séu mjög verðmyndandi og ekkert hefði komið fram fyrir fundinn sem breytti því. Hefði B hf. verið einn besti lánveitandi sem völ var á á þessum tíma. Síðan hafi orðið ótrúlegar hamfarir, hrun D hf., setning neyðarlaganna, sem hann kveðst ekki hafa séð fyrir, og hafi þær sópað öllu á brott. Að því er varðar sérstakar tryggingar við slíkar aðstæður, efnahagshrun, verði að hafa í huga að oft séu þær til einskis. Litið hafi verið svo á að markaðshæfar eignir B hf. sem hafi verið eigið fé í alþjóðlegum, skráðum fyrirtækjum gerði sérstakar tryggingar óþarfar. Hann segir að þegar stjórnin tók ákvörðun um lánið hafi verið höfð hliðsjón af því sem vitað var um ástand á fjármálamörkuðum, sem fundargerðin vitnar til. Þá segir hann aðspurður að stjórnin hafi ekki verið í aðstöðu til þess að kanna hvort þær upplýsingar sem hún fékk frá stjórnendum sparisjóðsins væru réttar. Reyndar sé engin ástæða til þess að ætla annað en að þeir hafi einnig álitið þær réttar.

Ákærði segir að rekstur sparisjóðsins á þessum tíma hafi ekki verið arðbær og lánið hafi verið kynnt þannig að það myndi skapa arð, að sparisjóðurinn væri með nægilega sterka eiginfjárstöðu og að lausafjárstaðan leyfði lánveitinguna. Þá hafi menn haft í huga að lánveitingin var til skamms tíma og á góðum vöxtum en erfitt hafi verið á þessum tíma að ávaxta fé á viðunandi kjörum, „að ná sér í vaxtamun“.

Ákærða Þ hefur sagt að á fundinum, sem hafi verið daginn eftir fall Glitnis, hafi komið fram sú skoðun að með þessu áfalli væri botninum náð. Hún tekur fram að viðskiptalífið sveiflist ævinlega og engin vegur sé til þess að meta það á hverjum tíma hversu mikið. Erfiðleikar í efnahagslífinu hafi verið ræddir á fundinum en nýlegar fréttir um kaup H á D hf. hafi aukið mönnum traust á fjármálakerfinu. Hafi hún sannfærst um að D hf. væri sterkasti banki landsins og þar með stæði B hf. sterkt að vígi enda átti félagið stóran hlut í bankanum. Hafi B hf. jafnframt verið talið eitt af traustustu fyrirtækjum landsins. Kveðst hún hafa spurt út í málið, þar með sérstaka tryggingu fyrir láninu en því verið svarað að nægileg trygging lægi í efnahagsreikningi B hf. og það hafi verið skýrt á greinargóðan hátt. Kveðst hún hafa verið sömu skoðunar út frá reynslu sinni í viðskiptum. Þá hefði A upplýst að lausafjárstaða félagsins væri góð í næstu níu mánuði. Engin afkomuviðvörun hafði borist um B hf., sem hefði verið skráð félag í Kauphöll Íslands, frá því að uppgjörið hafði verið birt og fram að stjórnarfundinum. Ennfremur hafi verið upplýst að CAD-hlutfallið væri „í lagi“. Kveðst hún hafa litið á þessa lánsumsókn sem tekjumöguleika sem óverjandi hefði verið að nýta ekki. Hún kveðst ekki hafa vitað hvaðan féð var komið sem lánað var út til B hf. en eins og málið hafi horft við stjórninni hafi verið um það að ræða að skylt var að koma fjármagni í ávöxtun, heiðarlega og reglum samkvæmt. Hún segir sparisjóðinn hafa verið rekinn með tapi á þessum tíma og lánveitingin hafi verið til þess að afla tekna og í samræmi við þau markmið sem sparisjóðurinn hafði sett sér. Þá hefði legið fyrir að sams konar lán hefðu verið veitt B hf. fyrr á árinu og greiðst með skilum. Spyrja megi í hvaða stöðu sparisjóðurinn verið ef ekki hefði verið reynt að afla sér tekna á þessum tíma. Enginn hefði hins vegar getað séð fyrir þá atburði sem urðu skömmu seinna.

Ákærða Æ segir B hf. hafa verið stórt og öflugt félag með dreifða áhættu og mjög fjölbreytta starfsemi. Þá hafi og lánið verið með eðlilegum vaxtakjörum. Viðskipti D hf. við H hefðu verið kynnt viku áður en þessi fundur var og það aukið mönnum mjög trú á bankanum. Þá hafi stjórnvöld komið Glitni til bjargar. Seðlabankinn lánað D hf. marga milljarða viku eftir lán A hf. til B hf. þannig að almennt hafi menn haft trú á styrk bankans og að hann gæti staðist áföllin. Töldu menn að botninum væri náð. Stjórnin hafi ekki séð fyrir fall fjármálakerfisins, né heldur fall D hf. Það sem fellt hafi D hf. hafi verið bresku hryðjuverkalögin, sem engin leið hafi verið að sjá fyrir. Ákærða kveðst hafa litið svo á að heimilt væri að lána svo mikið fé sem hér um ræðir án sérstakra trygginga og það þótt til lengri tíma væri. Ákærða vekur athygli á uppgjöri B hf. 30. september 2008, sama dag og fundurinn var haldinn, unnið í nóvember 2008 og yfirfarið af endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte sem ekki hafi gert athugasemdir við stöðuna 30. september. Þar komi fram að eigið fé B hf. hafi 30. júní verið 286 milljarðar hafði hækkað í 290 milljarða 30. september, en eiginfjárhlutfall hefði lækkað úr 37% í 36%. Engar efaraddir hafi komið fram á fundinum um stöðu B hf., en það hafi þá verið eitt stærsta félag landsins, öflugt og með dreifða starfsemi. Félagið hafi verið skráð í Kauphöllinni og þaðan hafi engar vísbendingar borist um að neitt væri athugavert við hag þess. Hafi öll gögn sem kynnt voru á fundinum um B hf. borið með sér að félagið væri sterkt. Þá hafi komið fram eftir á að hluthafar B hf. hafi metið verðmæti hlutabréfa í félagsins daginn fyrir fundinn í stjórn sparisjóðsins vera 93 milljarða. Hefði þannig mikið þurft að ganga á til þess að þessir 2 milljarðar fengjust ekki greiddir á gjalddaga 30 dögum síðar. Aðspurð segir ákærða ekki hafa vitað hvaðan féð kom sem B hf. fékk að láni. Hún segir útlánareglurnar sem settar voru af stjórn sjóðsins ekki hafa tekið til peningamarkaðslána. Stjórnin sé æðsta vald í málefnum sparisjóðsins á milli hluthafafunda og geti vikið frá lánareglum sjóðsins.

C hefur borið að á stjórnarfundinum hafi hafi það legið fyrir að staða félagsins hafi þá verið metin mjög sterk vegna stöðu eignanna og árshlutareikningsins þar sem fram hafi komið að félagið ætti gríðarmikið eigið fé og jafnframt laust fé til þess að mæta skuldbindingum sínum fram til ársloka 2009. Hafi félagið verið með traustustu lántökum á þessum tíma. Hann kvað bréf B hf. hafa lækkað í verði fram að fundinum en tekur fram að þá hafi engin leið verið til þess að gera ráð fyrir kreppunni sem reið yfir skömmu síðar og leiddi til falls félagsins. Hann segir að það hafi ekki verið talið heppilegt að liggja inni með peninga í sparisjóðnum heldur hafi verið lagt kapp á það að lána þá út til þess að þeir bæru vexti.

G, áður starfsmaður áhættustýringar A hf., segist hafa álitið B hf. vera gott fyrirtæki og mönnum hafi fundist áhættulaust að lána því fé. Lánið sem veitt var 30. september hafi þannig aðeins numið 0,7% af eigin fé B hf. Fjármálahrunið hafi hins vegar breytt öllu.

A, stjórnarformaður A hf. á þeim tíma sem um ræðir og jafnframt forstjóri B hf., segir að fjárhagur B hf. hafi staðið traustum fótum á þessum tíma. Hafi bókfært eigið fé félagsins verið 2 til 2,3 milljarðar evra en tap hafi verið mánuðina á undan. Þrátt fyrir það hafi hann metið stöðu félagsins mjög trausta. Þá segir Samkvæmt níu mánaða uppgjöri félagsins síðar þennan umrædda dag hafði eigið fé lækkað um 300 milljónir evra, þannig að eigið fé B hf. hafi verið um 2 milljarðar evra. Aðspurður um þrönga lausafjárstöðu sparisjóðsins á þessum tíma svarar hann því að menn hafi reynt að bæta hana en það þýði ekki að útlánum yrði hætt enda hafi inn- og útlán verið grunnrekstur sparisjóðsins.

C

Að virtu því sem nú hefur verið rakið telur dómurinn sannað að fyrir stjórnarfundinum 30. september 2008 hafi legið síðasta árshlutauppgjör B hf. og hafi á fundinum verið farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu sem skiptu máli um lánshæfi fyrirtækisins. Fyrir liggur að B hf. var fyrirtæki sem skráð var á markað og bar upplýsingaskyldu sem slíkt. Þá liggur einnig fyrir að B hf. hafði fyrr á sama ári fengið peningamarkaðslán hjá A hf. og þannig verið metið hæft til að eiga í slíkum viðskiptum við sparisjóðinn. Að síðustu lá fyrir að innan sparisjóðsins var fyrir hendi veruleg þekking á málefnum fyrirtækisins og þróun þess. Höfðu hinir ákærðu stjórnarmenn því réttmæta ástæðu til að ætla að þær upplýsingar sem starfsmenn sparisjóðsins veittu þeim væru fullnægjandi og traustar.

Samkvæmt framangreindu er ekkert komið fram í málinu sem styður það ákæruatriði að hinir ákærðu stjórnarmenn hafi látið hjá líða að afla upplýsinga um greiðslugetu og eignastöðu B hf. eða kynna sér slíkar upplýsingar. Þvert á móti bendir það sem rakið hefur verið til hins gagnstæða og þá þess að stjórnin hafi byggt ákvörðun sína á nýjustu upplýsingum um félagið sem tiltækar voru. Þótt fyrir liggi að markaðsvirði B hf. hafði lækkað umtalsvert mánuðina á undan er það einnig álit dómsins að stjórnin hafi engu að síður mátt ætla að fyrirliggjandi upplýsingar væru í meginatriðum áreiðanlegar.

D

Í ákæru kemur ekki fram hvers vegna ákærðu hafi verið óheimilt að lána B hf. án trygginga og mætti jafnvel skilja ákæruna svo að útlánareglur A hf. hafi fortakslaust bannað slík lán. Með hliðsjón af því að svo er ekki hefði með réttu átt að víkja að þessu atriði í ákærunni sjálfri eða a.m.k. í röksemdum með ákærunni. Að virtum málatilbúnaði ákæruvaldsins verður ákæran engu að síður skilin á þá leið að við þær aðstæður sem verið hafi uppi 30. september 2008, þ.á m. að virtum fyrirliggjandi upplýsingum um B hf. og stöðu sparisjóðsins, hafi ákærðu borið, samkvæmt útlánareglum sparisjóðsins, að hlutast til um að veittar væru tryggingar vegna lánveitingarinnar. Með hliðsjón af því að ekki verður talið að vörnum ákærðu hafi verið áfátt vegna óskýrleika í ákærunni um þetta atriði verður þessi skilningur á ákærunni lagður til grundvallar úrlausn málsins að þessu leyti.

Af hálfu ákærðu hefur verið dregið í efa að útlánareglur A hf. hafi yfirhöfuð gilt um ákvarðanir stjórnar um útlán. Framburður þeirra sem komu fyrir dóm var nokkuð á reiki um hvort litið hafi verið svo á að útlánareglurnar giltu um peningamarkaðslán og þá hvort reglurnar hafi gilt fullum fetum um slík lán. Samkvæmt grein 1.1. í útlánareglum taka reglurnar til lána, ábyrgða og hvers kyns samninga sem hafa útlánagildi. Í málinu liggur fyrir að talið var nauðsynlegt að fá samþykki stjórnar fyrir umræddu peningamarkaðsláni þar sem lánveitingin færi umfram heimildir forstjóra. Verður sú málsmeðferð innan sparisjóðsins ekki skilin á aðra leið en að grein 1.8. í útlánareglum um lánaheimildir hafi verið talin gilda um veitingu peningamarkaðslánsins. Bendir þetta eindregið til þess að lánareglurnar hafi gilt um peningamarkaðslán, a.m.k. þær meginreglur sem þar komu fram. Fær sú niðurstaða einnig stoð í framburði þeirra starfsmanna lausafjárstýringar A hf. sem komu fyrir dóminn. Samkvæmt þessu verður að hafna fullyrðingum um að lánareglur sparisjóðsins hafi alls ekki gilt um veitingu þess láns sem hér um ræðir. Á hinn bóginn er ljóst að reglurnar eru ekki sniðnar að þessari tegund útlána og gátu því einungis veitt takmarkaða leiðbeiningar um meðferð þeirra.

Lánareglur A hf. bera með sér að að þær voru fyrst og fremst ætlaðar stjórnendum og öðrum starfsmönnum sparisjóðsins til þess að fara eftir við lánveitingar til einstaklinga og fyrirtækja. Voru þær voru settar af stjórninni, sem fór með æðsta vald um lánveitingar og bar á þeim ábyrgð, sbr. meðal annars greinar 1.7 og 5.8. í útlánareglum. Er einnig af þessum sökum ljóst að útlánareglurnar gátu aðeins veitt stjórninni mjög almennar leiðbeiningar við ákvörðun hennar 30. september 2008. Hvað sem þessu líður telur dómurinn hafið yfir vafa að stjórn sparisjóðsins hafi verið skylt að gæta þeirra meginsjónarmiða sem fram komu í reglunum, þ.e. að lánið væri veitt á faglegum og viðskiptalegum forsendum að fengnum áreiðanlegum upplýsingum um fjárhagsstöðu, greiðslugetu og viðskiptasögu lántakans. Einnig leiddi af þessum reglum að stjórninni bar að gæta þess að áhætta af lánveitingunni væri ekki óhæfileg með hliðsjón af greiðslugetu og tryggingum sem settar væru.

Svo sem áður greinir segir í grein 1.5. í lánareglum sparisjóðsins að kröfur sparisjóðsins til trygginga fyrir láni skuli taka mið af fjárhagslegum styrk viðskiptavinar og tímalengd lánveitingar. Eins og fram kemur í greinum 1.7. og 5.8. hafði sparisjóðsstjórn eftirlit með lánamálum A hf. og bar á þeim ábyrgð. Í greinum 5.8. segir ennfremur stjórnin skuli ákveða hvort veita skuli lán um lán þegar svo stendur á að heildarskuldbinding lántakanda er umfram 10% af CAD-hlutfalli eigin fjár sjóðsins. Af þessum ákvæðum reglnanna er ljóst að stjórn sparisjóðsins hafði formlega heimild til að lána traustum fyrirtækjum fé án trygginga.

Með ákvörðun hinna ákærðu stjórnarmanna var B hf. veitt peningamarkaðslán í 30 daga. Þann tíma verður að telja langan þegar um er að ræða ráðstöfun af þessari tegund. Jafnframt lá fyrir að lánið nam svo verulegri fjárhæð að samþykki stjórnar var nauðsynlegt, en mjög sjaldgæft var að stjórn fjallaði um einstakar lánveitingar með þessum hætti. Þá hafði gerningurinn það í för með sér að áhætta A hf. gagnvart B hf. nam 20% af CAD-hlutfalli eigin fjár sparisjóðsins en þó innan við 25% af CAD-hlutfalli, sbr. grein 1.8. í lánareglum og 3. gr. þágildandi reglna fjármálaeftirlitsins nr. 216, 2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Þótt telja verði ósannað að hinum ákærðu stjórnarmönnum hafi verið kunnugt um tengsl lánveitingarinnar við peningamarkaðslán F hf. til A hf., var þannig augljóslega um að ræða ákvörðun sem var umfram venjulega ráðstöfun lausafjár sparisjóðsins. Þótt einnig sé ljóst að einstök peningamarkaðslán verða, út af fyrir sig, ekki veitt gegn tryggingum er þess einnig að gæta að tryggingar geta staðið að baki peningamarkaðslánaviðskiptum, t.d. tryggingarbréf sem ætlað er að tryggja hvers kyns skuldbindingar lánþega við lánveitandann. Veiting trygginga af hálfu B hf. vegna peningamarkaðsviðskipta við sparisjóðinn var því einn þeirra kosta sem stjórnin gat tekið afstöðu til í því skyni að minnka áhættu sparisjóðsins. Engu að síður lá fyrir að ekki var tíðkanlegt að krefjast trygginga vegna einstakra peningamarkaðslána og engar hugmyndir um tryggingar af hálfu B hf. munu hafa komið fram af hálfu starfsmanna sparisjóðsins á stjórnarfundinum 30. september 2008.

E

Eins og áður hefur komið fram voru verulegir erfiðleikar og óvissa á erlendum og innlendum fjármálamörkuðum á þeim tíma sem hér ræðir og var því ástæða til að gæta varkárni við ákvörðun um veitingu láns sem nam verulegri fjárhæð af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Á hitt er að líta að aðgerðir og yfirlýsingar yfirvalda 29. september 2008 gáfu nokkurt tilefni til þess að auka tiltrú á því að unnt yrði að ná stöðugleika á íslenskum fjármálamarkaði. Þrátt fyrir blikur á lofti verður þannig ekki talið að ákærðu hafi mátt sjá fyrir það hrun á fjármálamörkuðum sem varð stuttu síðar.

Ekki verður fram hjá því litið að öllum ákvörðunum um viðskipti fylgir, eðli málsins samkvæmt, nokkur áhætta, jafnvel peningamarkaðslánum sem veitt eru sterkum fyrirtækjum til stutts tíma. Svo sem áður greinir var stjórn A hf. við ákvörðun sína innan formlegra heimilda sinna samkvæmt útlánareglum og B hf. var meðal þeirra fyrirtækja sem almennt var metið hæft til að fá peningamarkaðslán hjá sparisjóðnum. Þá hafði fyrirtækið fyrr á árinu fengið slík lán svo að nam umtalsverðum fjárhæðum, líkt og áður greinir. Fyrirliggjandi upplýsingar úr uppgjörum B hf., sem áður hefur verið gerð grein fyrir, bentu til þess að félagið stæði styrkum fótum og greiðslugeta þess til skamms tíma væri hafin yfir vafa. Þannig var eigið fé félagsins samkvæmt 6 mánaða uppgjörinu 2.284.200.000 evrur og eiginfjárhlutfall að teknu tilliti til víkjandi fjármögnunar 37%. Einnig var handbært fé félagsins á sama tíma 303.400.000 evrur sem átti, samkvæmt tilkynningu frá félaginu, að tryggja endurfjármögnunarþörf þess fram í desember 2009 og gera því kleift að standa við skuldbindingar sínar, a.m.k. fram til þess tíma.

Að þessu öllu athuguðu telur dómurinn ekki unnt að líta svo á að aðstæður hafi verið þannig hinn 30. september 2008 að ákærðu X, Z, Þ og Æ hafi bersýnilega borið að kalla eftir sérstökum tryggingum af hálfu B hf. þannig að þau teljist hafa farið út fyrir heimildir sínar og þar með misnotað aðstöðu sína með því að samþykkja umrætt lán með þeim hætti sem gert var. Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að ekkert styðji það ákæruatriði að hinir ákærðu stjórnarmenn hafi látið hjá líða að afla upplýsinga um greiðslugetu og eignastöðu B hf. eða kynna sér slíkar upplýsingar. Verða þessi ákærðu því sýknuð af ákærunni.

F

Ákærði Y, sem ekki átti sæti í stjórn A hf., sætir engu að síður ákæru fyrir að hafa tekið þátt í umræddri lánveitingu með sama hætti og hinir ákærðu stjórnarmenn. Í ákærunni er ákærði Y þannig hvorki sakaður um að hafa vanrækt upplýsingaskyldu sína gagnvart stjórn A hf. við undirbúning ákvörðunar hennar um veitingu lánsins né um að hafa með öðrum hætti misnotað sér aðstöðu sína sem forstjóri A hf. í þágu hagsmuna B hf. sem hann gegndi einnig trúnaðarstörfum fyrir. Hvað sem líður vitneskju þessa ákærða um tengsl umræddrar lánveitingarinnar við peningamarkaðslán F hf. til A hf. verður ekki fram hjá því horft að ákærði Y hvorki hafði heimild til þess að skuldbinda A hf. við þær aðstæður sem voru uppi, né tók hann formlega þátt í ákvörðun stjórnarinnar um lánveitinguna. Þegar af þessari ástæðu verður hann ekki sakfelldur fyrir þá ákvörðun stjórnar sem áður greinir. Verður af þessari ástæðu að sýkna ákærða Y.

G

Með hliðsjón af framangreindum lyktum málsins ber, samkvæmt 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála, að leggja allan sakarkostnað á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun og kostnað verjenda ákærðu, að meðtöldum virðisaukaskatti,  Andra Árnasonar hrl., verjanda ákærða Y, 7.203.966 krónur, Daníels Ísebarn Ágústssonar hrl., verjanda ákærða X, 6.132.885 krónur, Guðmundar Ágústssonar hrl., verjanda ákærða Z, 4.092.000 krónur, Páls Rúnars M. Kristjánssonar hdl., verjanda ákærðu Þ, 9.176.310 krónur, og Óttars Pálssonar hrl., verjanda ákærðu Æ, 6.060.797 krónur.

                Pétur Guðgeirsson héraðsdómari er sammála niðurstöðu dómsins um sýknu og ákvörðun sakarkostnaðar en er ósammála tilteknum ályktunum sem fram koma í forsendum hans, svo sem nánar er gerð grein fyrir í meðfylgjandi séráliti hans.  

                Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt Skúla Magnússyni héraðsdómara og Arnari Má Jóhannessyni löggiltum endurskoðanda.

DÓMSORÐ:

Ákærðu, Y, X, Z, Þ og Æ, eru sýkn af ákæru í máli þessu.

                Málsvarnarlaun og kostnaður verjenda ákærðu, Andra Árnasonar hrl., verjanda ákærða Y, 7.203.966 krónur, Daníels Ísebarn Ágústssonar hrl., verjanda ákærða X, 6.132.885 krónur, Guðmundar Ágústssonar hrl., verjanda ákærða Z, 4.092.000 krónur, Páls Rúnars M. Kristjánssonar hdl., verjanda ákærðu Þ, 9.176.310 krónur, og Óttars Pálssonar hrl., verjanda ákærðu Æ, 6.060.797 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Sérálit Péturs Guðgeirssonar héraðsdómara.

Ég álít að stjórn sparisjóðsins geti, eðli málsins samkvæmt, ekki talist hafa verið formlega bundin af reglum sem hún setti starfsmönnum sjóðsins til þess að fara eftir við regluleg útlán, enda heyrðu mikils háttar ákvarðanir undir stjórnina þegar heimildum starfsmannanna sleppti. Stjórnin hlaut þó að verða að gæta þeirra þeirra meginsjónarmiða sem reglurnar byggðu á, í þessu tilviki að lánið til B hf. væri veitt á faglegum og viðskiptalegum forsendum og að fengnum áreiðanlegum upplýsingum um fjárhagsstöðu, greiðslugetu og viðskiptasögu lántakans og loks þess að áhætta af lánveitingunni væri ekki óhæfileg. 

Skilja verður ákæruna svo, að hún takmarkist við það að ákærðu hafi misnotað aðstöðu sína sem stjórnarmenn og forstjóri A hf. með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga í eftirgreindum tveimur atriðum: við það að meta ekki greiðslugetu og eignastöðu félagsins og við það að veita B hf. umrætt lán án trygginga, hvort tveggja í andstöðu við útlánareglur sparisjóðsins, og þannig stefnt fé sparisjóðsins í verulega hættu með lánveitingunni til B hf.

Tengsl milli innláns frá F hf. og lánsins til B hf., sem vikið er að í röksemdum með ákærunni og talsvert hefur verið fjallað um í málsmeðferðinni, útheimta ekki sérstaka umfjöllun í dóminum og hafa ekki þýðingu fyrir niðurstöðuna, ekki frekar en það hvort ákærðu teljast vera ákærð fyrir brot í sambandi við lausafjárstöðu sparisjóðsins.

Loks álít ég að taka beri fram í dóminum að þar sem brot teljast hafa verið framin í hvorugu ofangreindra atriða komi ekki til álita hvort ákærði Y gat stöðu sinnar vegna talist meðábyrgur stjórninni fyrir lánveitingunni.

Að öðru leyti er ég sammála meirihluta dómsins.