Hæstiréttur íslands
Mál nr. 427/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Útburðargerð
|
|
Föstudaginn 12. júlí 2013. |
|
Nr. 427/2013. |
Jón Friðberg Hjartarson (sjálfur) gegn Gljúfraseli ehf. (Hannes Ragnarsson fyrirsvarsmaður) |
Kærumál. Aðför. Útburðargerð.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu J um að G ehf. yrði borið út úr tilteknum eignarhluta í fasteign í H. Framlögð gögn voru talin misvísandi um það hvor aðila væri eigandi umrædds eignarhluta og ekki styðja að J væri eigandi hans og umráð G ehf. væru því heimildarlaus.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2013 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili yrði borinn út úr fasteigninni að Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði, auðkennd 01-0204 í fasteignaskrá, með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina, auk þess sem varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili hefur sent réttinum greinargerð sem rituð er af fyrirsvarsmanni hans. Skilja verður málatilbúnað varnaraðila þannig að hann krefjist staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Auk þess hefur varnaraðili uppi skaðabótakröfur á hendur sóknaraðila „vegna afnotamissis af eign Gljúfrasels ehf. í eitt ár“ og „vegna óþæginda“ af málinu. Þær kröfur komast ekki að í máli um aðfararbeiðni sóknaraðila.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Ekki eru efni til að dæma kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2013.
Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. desember 2012, hefur sóknaraðili, Jón Friðberg Hjartarson, Fornastekk 11, Reykjavík, krafist dómsúrskurðar um að varnaraðili, Gljúfrasel ehf., en fyrirsvarsmaður þess er Hannes Ragnarsson, með lögheimili að Grýtubakka 28, Reykjavík, verði borinn út úr fasteigninni Hvaleyrarbraut 22, Hafnarfirði, merkt 01-0204 í fasteignaskrá, með fastanúmer 223-8848, með beinni aðfarargerð, ásamt öllu því sem honum tilheyrir og öllum sem finnast þar fyrir.
Varnaraðili sótti ekki þing, var honum þó löglega birt kvaðning til þinghalds með símskeyti.
Málið var þingfest og tekið til úrskurðar 15. mars 2013.
Málavextir, málsástæður og lagarök sóknaraðila
Í aðfararbeiðni kemur fram að sóknaraðili sé samkvæmt afsali útgefnu 28. júní 2012 skráður eigandi að umræddu húsnæði að Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði, eign nr. 01-0103 og 01-0204, samtals 169,8 fm. og auðkennd í þjóðskrá með fastanúmerið 223-8848. Varnaraðili sé samkvæmt afsali dagsettu 6. apríl 2011 skráður eigandi að skrifstofuhúsnæði á 3. hæð í sömu fasteign, eign nr. 01-0303 og 01-0304, hvor um sig 59,7 fm., auðkenndar í Þjóðskrá með fastanúmerin 230-1248 og 230-1249.
Skömmu eftir afhendingu eignarinnar hafi varnaraðili sett læsingu að sameiginlegum inngangi/rými að 2. og 3. hæð og rislofti, þinglýstri eign sóknaraðila, merktri 01-0204 samkvæmt Þjóðskrá og afsali, og meinað sóknaraðila aðgang að henni síðan 5. september 2012. Varnaraðili geri þetta á grundvelli eignaskiptayfirlýsingar sem hafi verið þinglýst í maí 2007. Í eignaskiptayfirlýsingunni hafi viðkomandi eign sóknaraðila, nr. 01-0204, verið skráð hluti af eign nr. 01-0303 að ósk þáverandi eiganda sem síðar hafi misst eignina á uppboði. Þessi breyting hafi því aldrei verið skráð hjá byggingarfulltrúa né Þjóðskrá og standi því óbreytt hjá þjóðskrá. Sóknaraðili greiði eftir sem áður fasteignagjöld og gjöld vegna hússjóðs, hita og rafmagns samkvæmt þjóðskrá og þinglýstu afsali.
Friðrik Friðriksson arkitekt, sem hafi gert umrædda eignaskiptayfirlýsingu, staðfesti það í bréfi, dags. 28. nóvember 2012, til skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, um leiðréttingu á nýrri skráningartöflu.
Sóknaraðili hafi ekki haft aðgang að sinni eign, þrátt fyrir óyggjandi eignarhald og skýlausan rétt til umráða yfir umræddri fasteign.
Um lagarök er vísað til 72. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Niðurstaða
Varnaraðili hélt ekki uppi vörnum gegn kröfum sóknaraðila. Því verður leyst úr málinu samkvæmt aðfararbeiðni sóknaraðila og þeim skjölum er hann lagði fram, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. einnig 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.
Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 skal héraðsdómari að jafnaði hafna aðfararbeiðni, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem heimilt er að afla. Sönnunarstaðan þarf þannig að vera slík, að framkomin gögn styðji að gerðarbeiðandi eigi þau réttindi sem heldur fram. Dómara ber að gæta þess af sjálfsdáðum að skilyrði þessara ákvæða séu uppfyllt þótt vörnum sé ekki haldið uppi, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 26. ágúst 2010 í máli nr. 465/2010.
Meðal gagna málsins eru afsöl bæði sóknaraðila og varnaraðila fyrir eignarhlutum sínum í fasteigninni að Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði. Í afsali sóknaraðila kemur fram að hið selda sé ,,Atvinnuhúsnæði við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði, eign merkt 01-0103, ásamt öllu sem fylgir og fylgja ber, þ.m.t. hlutdeild í sameign og lóðarréttindi.“ Fastanúmer eignarinnar er 223-8848. Vísað er til eignaskiptasamnings á skjali nr. 436-X-6043/2007. Í afsali varnaraðila kemur fram að hið selda sé ,,atvinnuhúsnæði (tveir matshlutar) á 3ju hæð hússins nr. 22 við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði, iðnaðarhúsnæði skráð í FMR 59,7 fm. og 59,7 fm. ásamt öllu því er eigninni fylgir og fylgja ber ...“. Eignin er auðkennd með fastanúmer 230-1248, matshluti 01-0303 og fastanúmer 230-1249, matshluti 01-0304. Vísað er til sömu eignaskiptayfirlýsingar og í afsali sóknaraðila.
Eignaskiptayfirlýsing sú, sem vísað er til í framangreindum afsölum, er meðal gagna málsins. Yfirlýsingin var unnin af Friðriki Friðrikssyni arkitekt. Eignarhluta með fastanúmerið 223-8848, eign sóknaraðila, er lýst svo að hann sé iðnaðarhúsnæði, matshluti 01-0103. Birt stærð sé 169,8 fm. og hlutfall í matshluta sé 7,89%. Eignin sé vinnusalur, skrifstofa, kaffiaðstaða og búningsaðstaða með snyrtingu, alls 150,6 fm. Eignin hafi sérafnotarétt af lóðinni fyrir framan innkeyrsludyr. Eignin eigi hlutdeild í sameign sumra Y3: 35,3469%. Eignarhluta varnaraðila með fastanúmerið 230-1248 er lýst svo að hann sé skrifstofuhúsnæði, matshluti 01-0303. Birt stærð sé 59,7 fm. og hlutfall í matshluta sé 1,89%. Eignin sé vinnusalur, skrifstofa, kaffiaðstaða og búningsaðstaða með snyrtingu, alls 59,7 fm. Á millipalli 0204 sé hreinsi- og ræstiaðstaða, alls 19,2 fm. Eignin eigi hlutdeild í sameign sumra Y1: 50%.
Í útprenti úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, sem ber með sér að vera prentað 9. nóvember 2011, kemur fram að rými 01-0204, auðkennt sem milliloft, 19,2 brúttó fm., fylgi með eignarhluta með fastanúmerið 223-8848, ásamt rými sem er auðkennt sem 01-0103, iðnaðarhúsnæði, og tveimur umferðarrýmum.
Meðal gagna málsins er bréf, dags. 28. nóvember 2012, ritað af Friðriki Friðrikssyni arkitekt til skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar. Þar segir að send sé inn ný skráningartafla til að leiðrétta ranga skráningu í skráningartöflu frá 22. júlí 2006 sem fylgi teikningum samþykktum 14. mars 2007. Einnig kemur m.a. fram að eignirnar 0103 og 0303 séu skráðar í nýrri skráningartöflu eins og þær hafi verið skráðar í skráningartöflu sem fylgi teikningum sem hafi verið samþykktar 14. mars 2007. Eignin 0103 hafi verið skráð með birta stærð 169,8 fm. og rýmið 0204 hafi tilheyrt eigninni, og eignin 0303 hafi verið skráð með birta stærð 59,7 fm. Í eignaskiptayfirlýsingu og skráningartöflu sem gerð hafi verið í maí 2007 hafi rými 0204, sem áður hafi fylgt eign 0103 verið fært yfir á eign 0303. Þessi breyting hafi aldrei verið skráð hjá byggingarfulltrúa og Þjóðskrá. Eignirnar 0103 og 0303 hafi verið seldar til dagsins í dag samkvæmt teikningum og skráningartöflu sem hafi verið samþykkt 14. mars 2007, þar sem rýmið 0204 fylgi eign 0103.
Í afsölum sóknaraðila og varnaraðila er ekki minnst á eignarhluta nr. 01-0204, sem krafa sóknaraðila lýtur að. Bæði afsölin vísa hinsvegar til eignaskiptayfirlýsingar þar sem skýrt kemur fram að þessi eignarhluti fylgi eign varnaraðila. Í fyrrnefndu bréfi Friðriks segir að þessi eignarhluti hafi verið færður frá eign sóknaraðila yfir á eign varnaraðila nr. 01-0303, en ástæðu þess er ekki getið. Sóknaraðili rekur í aðfararbeiðni að eignarhlutinn hafi verið skráður hluti af eign nr. 01-0303 að ósk þáverandi eiganda sem síðar hafi misst eignina á uppboði. Bæði í aðfararbeiðni sóknaraðila og bréfi Friðriks kemur fram að þessi breyting hafi aldrei verið skráð hjá byggingarfulltrúa og Þjóðskrá, og kemur það heim og saman við fyrrnefnt útprent úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Framlögð gögn eru þannig misvísandi um það hvor málsaðila sé eigandi eignarhluta nr. 01-0204 og styðja ekki að sóknaraðili sé eigandi eignarhlutans og að umráð varnaraðila yfir eignarhlutanum séu honum heimildarlaus. Er því óhjákvæmilegt að hafna kröfu sóknaraðila.
Ásbjörn Jónasson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfu sóknaraðila, Jóns Friðbergs Hjartarsonar, um að varnaraðili, Gljúfrasel ehf., verði borinn út úr fasteigninni Hvaleyrarbraut 22, Hafnarfirði, merkt 01-0204 í fasteignaskrá, með fastanúmer 223-8848, með beinni aðfarargerð, ásamt öllu því sem honum tilheyrir og öllum sem finnast þar fyrir, er hafnað.