Hæstiréttur íslands
Mál nr. 5/2011
Lykilorð
- Þjófnaður
- Lögreglurannsókn
|
|
Þriðjudaginn 21. júní 2011. |
|
Nr. 5/2011. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari) gegn X(Hilmar Gunnlaugsson hrl.) |
Þjófnaður. Lögreglurannsókn.
X var sakfelldur fyrir innbrot og þjófnað með því að hafa brotist inn á umráðasvæði A ehf. og stolið þaðan verkfærum og öðrum munum, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvo mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt báðum ákærum og refsing verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Verði ekki fallist á þetta krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Að þessu frágengnu krefst hann þess að sér verði ekki gert að sæta refsingu en ella mildunar á refsingu.
I
Kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi reisir ákærði á því að tilgreining í ákæru 15. janúar 2010 á tíma ætlaðra brota ákærða sé ekki nægilega glögg. Þá telur hann að lögreglurannsókn hafi verið ófullnægjandi og ekki uppfyllt þær kröfur sem fram koma í 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að því er snertir ákæru 7. maí 2010 vísar ákærði til þess að ekki liggi fyrir skýrsla hjá lögreglu af honum sem uppfylli kröfur laga um yfirheyrslu sakaðs manns.
Tilgreining í ákæru 15. janúar 2010 á tímabili brota markast af því hvenær komið var með umræddan geymslugám á athafnasvæði A ehf. á [...] og nær til þess tímamarks er starfsmenn fyrirtækisins urðu þess áskynja að farið hefði verið í gáminn og hlutum stolið. Upptalning muna í ákærunni réðst af því sem fannst í skemmu að [...], [...], þar sem ákærði bjó. Verður ekki fallist á með ákærða að annmarkar séu á að haga ákæru á þennan hátt og verður ekki talið að þetta hafi valdið honum erfiðleikum við vörnina. Að því er snertir ætlaða annmarka á lögreglurannsókn er þess að gæta að niðurstaða málsins ræðst af sönnunarfærslu fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Skýrslur lögreglu eru meðal sönnunargagna málsins. Hugsanlegir annmarkar á þeim koma til athugunar við mat á sönnunargildi þeirra en valda ekki frávísun málsins frá dómi. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á kröfu ákærða um frávísun málsins frá héraðsdómi.
II
Kröfuna um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins reisir ákærði á því að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður, þar sem niðurstaða hafi að verulegu leyti ráðist af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008. Þetta ákvæði laganna felur í sér heimild til að hafa dóm fjölskipaðan og víkja með því frá meginreglu 2. mgr. sömu greinar um að einn dómari skipi dóm í hverju máli. Ekki eru efni til að telja að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé röng, svo einhverju skipti fyrir úrslit málsins, þannig að tilefni sé til að ómerkja héraðsdóm á grundvelli 3. mgr. 208. gr. framangreindra laga. Verður kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms hafnað.
III
Fallist verður á með ákærða að ekki sé sannað í málinu að hann hafi klippt sundur hengilás á geymslugámi þeim sem munir voru fjarlægðir úr. Þá er bersýnilega röng tilgreining ákæru á verðmæti þeirra muna sem ákærði er sakaður um að hafa stolið úr gáminum, enda er tekið fram berum orðum í verðmati því sem liggur til grundvallar fjárhæðinni í ákæru, að fjárhæðin feli í sér verð á nýjum hlutum „og því ljóst að raunverðgildi hlutanna er eitthvað minna eða allt að 50%.“ Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. lið ákæru 15. janúar 2010. Þá verður með vísan til forsendna einnig staðfest niðurstaða dómsins um að sýkna ákærða af broti því sem getur í II. lið sömu ákæru.
IV
Með ákæru 7. maí 2010 er ákærða gefið að sök að hafa stolið 6 ljóskösturum af tveimur tilgreindum bifreiðum síðari hluta janúarmánaðar 2010. Ákærði neitaði að tjá sig um þessi ætluðu brot fyrir dómi. Svo sem fram kemur í forsendum hins áfrýjaða dóms er sakfelling ákærða fyrir þessi brot að verulegu leyti byggð á lögregluskýrslu sem liggur fyrir í málinu á myndskeiði, þar sem hann hafi játað brotin. Er sagt að skýrsla hans um þetta hafi verið gefin við rannsókn á öðru sakarefni. Upptaka af fyrri hluta yfirheyrslunnar er sögð hafa glatast. Fyrir dómi spurði verjandi ákærða lögreglumann, sem annaðist yfirheyrsluna, hvort hann kannaðist við að hafa sagt það sem fram kæmi á þeim hluta myndskeiði sem fyrir liggur: „Við ætlum að eyða þeirri upptöku, hún verður í rauninni ekki til“. Kvaðst lögreglumaðurinn hafa sagt þetta.
Í málinu liggur ekki fyrir að gætt hafi verið ákvæða í 2. mgr. 63. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 62. gr. og 1. mgr. 28. gr. laga nr. 88/2008 við yfirheyrslu þá sem á er byggt í hinum áfrýjaða dómi. Leiðir þetta til þess að umrædd skýrsla hefur ekki gildi við sönnunarfærslu ákæruvalds um sakargiftir þessarar ákæru. Ekki verður talið að önnur sönnunargögn sem fyrir liggja um þetta dugi til þess að telja þessar sakir ákærða sannaðar. Verður hann því sýknaður af sakargiftum ákærunnar 7. maí 2010.
V
Þrátt fyrir þá breytingu á sakfellingu ákærða sem gerð er í þessum dómi eru ekki efni til að breyta refsiákvörðun héraðsdóms. Verður héraðsdómur því staðfestur og ákærði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti í dómsorði sem og ferðakostnað verjandans 35.360 krónur.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 391.073 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 22. nóvember 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. október sl., er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á Eskifirði. Þeirri fyrri útgefinni 15. janúar 2010, en þeirri síðari útgefinni 7. maí sama ár, báðum á hendur X, kt. [...], nú til heimilis að [...], [...]. Málin voru sameinuð í þinghaldi 1. júní sl.
Í hinu fyrra ákæruskjali er málið höfðað á hendur ákærða fyrir innbrot og þjófnað á [...] á tímabilinu frá nóvember 2008 til 1. ágúst 2009, með því í fyrsta lagi að hafa „brotist inn á afgirt athafnasvæði fyrirtækisins A ehf., kt. [...], við [...], í nokkur skipti, meðal annars með því að klippa sundur hengilás á geymslugámi og stolið þaðan eftirtöldum verkfærum og öðrum munum samtals að verðmæti um kr. 1.903.980, sem fundust við leit lögreglu í skemmu á heimili ákærða að [...], [...]:
[1] 13 stk. borum,
[2] 200 stk. veggskrúfum,
[3] 40 stk. gipstöppum,
[4] 103 stk. múrboltum,
[5] 4. stk. rafmagnsklóm,
[6] innstungu,
[7] súrefnismæli,
[8] síu (tegund Fleetguard FF259),
[9] vatnssíu (tegund US Filter Model UVBR-120-2),
[10] borvél (tegund Hilti TE56),
[11] borvél (tegund DeWalt DW570),
[12] loftslípirokk (tegund Atlas Copco GTG640),
[13] juðara (tegund Multi Master MSXE),
[14] 9 stk. loftljósum,
[15] 4. stk. 33 tommu jeppadekkjum á álfelgum (tegund Cooper),
[16] 2. stk. afturljósum á bíl (tegund Hella S-83),
[17] 2 stk. framlengingarsnúrum, 15 og 22ja mera löngum,
[18] olíudælu með sveif,
[19] 2. stk. vírklippum (tegund Apriol 750 og Apriol 900),
[20] kraftmagnara (tegund Sencor model SCA300),
[21] kraftmagnara (tegund Vortec VX4175).“
Í öðru lagi að hafa þann 1. ágúst 2009, „stolið eldsneytisgeymi að verðmæti kr. 35.000, úr bát í eigu B og C, sem lá bundinn við bryggju í smábátahöfninni á [...], en eldsneytisgeymirinn fannst við leit lögreglu á sama stað og ofan greinir.“
Í síðara ákæruskjali er mál höfðað á hendur ákærða fyrir þjófnað á [...] síðari hluta janúarmánaðar 2010. Er ákærða þar í fyrsta lagi gefið að sök að hafa „stolið 4 ljóskösturum og stórri krómgrind, að andvirði kr. 91.488, af bifreiðinni [...], í eigu D, en í umráðum E ehf., kt. [...], þar sem hún stóð við [...], með því að skrúfa kastarana lausa af bifreiðinni og klippa á rafmagnsleiðslur.“
Þá er ákærða í öðru lagi gefið að sök að hafa „stolið 2 ljóskösturum af tegundinni Bosch, að andvirði ca. kr. 34.000, af bifreiðinni [...], í eigu F ehf., kt. [...], þar sem hún stóð við steypustöðina, [...], nokkru vestan við kauptúnið, með því að skrúfa kastarana lausa af bifreiðinni og klippa á rafmagnsleiðslur.“
Háttsemi sem greind er í báðum ákæruskjölum er þar talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga og þess þar krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Vegna fyrri ákæru krefst ákærði aðallega sýknu, en til vara krefst hann sýknu af síðari lið ákærunnar og vegna þess hluta fyrri liðar ákærunnar er varðar þjófnað á borvél, tegund Hilti TE56, borvél, tegund Atlas Copco GTG640, juðara, tegund Multi Master MSXE, 9 stk. loftljósum, 4 stk. 33 tommu jeppadekkjum á álfelgum, tegund Cooper, 2 stk. framlengingarsnúrum 15 og 22 metra löngum, 2 stk. víraklippum, tegund Apriol 750 og Apriol 900, kraftmagnara, tegund Sencor, model SCA 300 og kraftmagnara, tegund Vortec VX 4175.
Þá krefst hann þess að háttsemi, sem kynni að verða sakfellt fyrir yrði heimfærð undir gripdeild, sbr. 245. gr. almennra hegningarlaga eða eignaspjöll, sbr. 257. gr. almennra hegningarlaga.
Vegna síðari ákæru krefst ákærði aðallega sýknu en til vara að háttsemi hans yrði talin eignaspjöll skv. 257. gr. almennra hegningarlaga.
Verði ákærði sakfelldur þá er þess aðallega krafist að refsing hans verði látin niður falla, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og brot hans aðeins talin varða sektum.
Þá er þess aðallega krafist að sakarkostnaður verði allur lagður á ríkissjóð, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, en til vara að ríkissjóður verði látinn bera hluta kostnaðar.
I
Ákærði skilaði greinargerð og var hún lögð fram í dómi 16. febrúar 2010. Var það áður en síðari ákæra í máli þessu kom fram og varðar greinargerðin því ekki það sakarefni. Kemur fram í greinargerðinni að ákærði hafi neitað sök, en í lögregluskýrslu hafi hann upplýst að hann hefði fengið að taka muni sem nefndir séu í ákæru, aðra en þá sem taldir séu upp í varakröfu hans. Á því sé byggt að háttsemi ákærða varði ekki refsingu og að á ákæruvaldinu hvíli sönnunarbyrði um öll skilyrði þess að háttsemi ákærða verði talin varða refsingu.
Þá hluti sem ákærði hafi upplýst að hafa tekið, hafi hann mátt taka, eða í öllu falli mátt ætla að hann hefði heimild til að taka, með hliðsjón af aðstæðum öllum, þ.m.t. persónulegum aðstæðum ákærða, sbr. framlögð greiningargögn. Enginn auðgunartilgangur hafi legið að baki brotum ákærða eða ásetningur um að spilla eigum annars aðila. Vísað sé til viðurkenndra reglna refsiréttarins um staðreyndavillu, þ.e. að enginn ásetningur hafi staðið til þjófnaðar eða annarra hegningarlagabrota. Rannsókn málsins hafi ekki snúið að persónulegum aðstæðum ákærða, s.s. þýðingu þroskahamlana hans varðandi möguleika hans til að gera sér grein fyrir aðstæðum og varðandi hvort refsing þjóni tilgangi o.fl.
Þá er í greinargerð vísað til almennra refsilækkunarsjónarmiða hegningarlaga.
Meðal gagna sem fylgdu greinargerð ákærða er niðurstaða athugunar á ákærða hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins dags. 21. janúar 2002 og kemur þar fram að X sé 14 ára piltur sem komið hafi í þverfaglega athugun á Greiningarstöð vegna [...]. Tekið er fram að hann njóti töluverðrar sérkennslu í 8. bekk og sé í lyfjameðferð vegna [...]. Hann er sagður með [...].
Þá lagði ákærði fram bréf nafngreinds sálfræðing frá árinu 2000. Kemur þar fram að sálfræðingurinn hafi lagt fyrir ákærða greindarpróf Wechslers fyrir börn. Sé heildarniðurstaða prófsins að um [...] sé að ræða, þ.e. að greindarvísitala mælist undir [...] fyrir prófið í heild. Mikill misstyrkur sé á milli verklegra og munnlegra prófþátta þar sem verklegir þætti komi lakar út en munnlegir, grv. munnl. 75, grv. verkl. 58. Jafnframt sé um mikinn innbyrðis misstyrk að ræða milli einstakra undirprófa bæði á munnlegum og verklegum hlutum prófsins. Styrkleiki komi aðallega fram á prófþættinum orðaforða en miklir veikleikar á almennum skilningi, rökhugsun og formskyni. Niðurstaða er sögð að [...] sem kalli á viðeigandi ráðstafanir.
Þá lagði ákærði einnig fram hluta niðurstöðu taugasálfræðilegrar athugunar nafngreinds sálfræðings og sérfræðings í klínískri taugasálfræði og fötlunum sem dagsett er 17. ágúst 2000. Kemur þar fram að á greindarprófi Wechslers handa börnum, sé árangur á munnlegum þáttum í meðallagi í skilningi og orðskilningi en um tveimur staðalfrávikum undir meðallegi í þekkingu, reikningi, líkingum og talnaröðum. Munnleg greindarvísitala [...] hafi litla merkingu vegna þess mikla munar sem fram komi milli undirþátta munnlegs hluta. Árangur á verklegum þáttum greindarprófs hafi verið í meðallagi í ófullgerðum myndum, myndaröðum og hlutaröðum en liðlega tveimur staðalfrávikum undir meðalagi í litaflötum og talnatáknum. Aftur megi segja að verkleg greindarvísitala [...] hafi litla merkingu vegna þess munar sem komi fram milli þátt verklegs hluta. Heildartala greindar hafi mælst [...] og beri að taka henni með sama fyrirvara.
Af hálfu ákæruvalds var lögð fyrir dóminn beiðni um geðrannsókn og að dómkvaddur yrði sérfræðingur til þess verks. Var í beiðninni óskað eftir að við rannsóknina yrði litið til þeirra atriða sem gætti í 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga og um það fjallað hvort einhver þau sjónarmið sem til er vísað í nefndum lagagreinum ættu við um ákærða þannig að hann hefði annaðhvort verið ófær um að stjórna gerðum sínum, eða ástand hans sé þannig að andlegir annmarkar ákærða kunni að vera þannig að ætla megi að refsing myndi ekki bera árangur. Um ástæðu beiðninnar var til þess vísað að verjandi hans hafi lagt fram gögn í málinu, sem bendi til að verjandinn telji að sjónarmið af þessu tagi kunni að eiga við um ákærða.
Af hálfu verjanda ákærða var bókað í þinghaldi 23. febrúar 2010 að vegna geðrannsóknar ákærða sem ákæruvaldið hafi farið fram á sé óskað eftir því að matsmaður taki sérstaklega til skoðunar hæfni ákærða til að leggja rétt mat á aðstæður á grundvelli daglegra samskipta við aðra einstaklinga og hvort ákærði hafi forsögu um ranghugmyndir í kjölfar daglegra samskipta við aðra einstaklinga eða hvort séu líkur á slíku vegna skertrar hæfni hans til að leggja rétt mat á aðstæður.
Til starfans var dómkvaddur Sigmundur Sigfússon geðlæknir og er matsgerð hans dagsett 15. júní 2010. Í upphafi greinargerðar geðlæknisins kemur fram að niðurstöður greinargerðarinnar takmarkist af þrennu. Í fyrsta lagi þá hafi aðeins verið um eitt viðtal við geðlækni að ræða, í öðru lagi hefði verið æskilegt að sálfræðingur hefði metið ákveðna þætti greindar og geðheilsu ákærða og í þriðja lagi að læknirinn hafi ekki fundið þau gögn málsins sem honum hafi verið send þegar hann hafi unnið að hreinritun greinargerðar sinnar, þ.e.a.s. afrit af lögregluskýrslu og ákæru.
Í greinargerð læknisins kemur fram að hann hafi kynnt sér sjúkrasögu ákærða, en ekki þykir ástæða til eð rekja það nánar hér, en í þeirri greinargerð koma fram að nokkru þau hin sömu atriði og rakin eru hér að framan.
Kemur fram í greinargerðinni að í viðtali við geðlækni 30. apríl 2010 hafi ákærði virst jákvæður gagnvart verkefninu og hafi svarað öllum spurningum rökrétt og nokkuð skilmerkilega. Hann hafi sjálfur sagst vera [...]. Hafi hann sagst hafa náð prófum með því að lesið hafi verið fyrir hann. Þá kemur fram að ákærði hafi haft góðan orðaforða og hafi verið vel máli farinn. Lund hafi virst eðlileg og engin tregða í tali né ytri merki depurðar. Engar truflanir hafi verið á hugsun eða látbragði sem bent gætu til geðrofs. Greind og ályktunarhæfni hafi í fljótu bragði virst í allgóðu lagi. Það hafi helst verið að ákærði gerði sér ekki grein fyrir hlutverki geðlæknis í dómsmáli hans. Hann hafi skýrt ætluð brot sín með því að hann hafi haldið að hann hefði haft leyfi til að taka þau tæki og vélarhluta sem hann hafi fjarlægt af starfssvæði fyrirtækis á [...]. Hafi mátt skilja á honum að hann hefði verið í góðri trú þar sem starfsmaður fyrirtækisins sem hann hafi nafngreint hafi bent honum á hlutina og leyft honum að taka þá. Geðlæknir hafi bent honum á að í fyrirliggjandi lögregluskýrslum hafi viðkomandi starfsmaður borið á móti því að þetta væri rétt og hafi ákærði tjáð það að hann skyldi ekki hvað manninum gengi til með þessu. Hafi ákærði engar reiðitilfinningar sýnt í garð þessa manns. Hann hafi látið í ljósi þá skoðun að einstaklingur í lögreglunni vildi hann burtu úr byggðarlaginu. Í lok viðtalsins hafi ákærði sagst vera fús til að koma til mats hjá sálfræðingi á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Hafi honum verið gefinn kostur á að hitta sálfræðinginn einhvern næstu föstudaga þegar það hentaði honum. Ekkert hafi heyrst frá ákærða eftir viðtalið 30. apríl og hafi því engin sálfræðirannsókn verið framkvæmd.
Í niðurstöðu segir:
„Um er að ræða 23 ára gamlan karlmann sem haldinn er [...] sem hefur hamlað honum mjög í námi. Ennfremur hefur hann frá barnæsku verið meðhöndlaður vegna [...], upphaflega hjá barnageðlækni á [...]. Hann hefur verið ákærður fyrir þjófnað á [...] og að ósk verjanda hans kom hann til mats hjá geðlækni hinn 30. apríl 2010. Í viðtalinu kom ekkert það fram sem benti til þess að X skildi ekki eðli brota þeirra sem hann er kærður fyrir og hugsanlegar afleiðingar þeirra. Hvorki komi fram einkenni geðlægðar eða geðrofs sem hamlað gætu innsæi hans og skilningi.“
Sigmundur Sigfússon gaf skýrslu fyrir dómi, staðfesti framangreinda greinargerð sína og svaraði spurningum um efni hennar. Borið var undir lækninn þar sem segi í skýrslunni að mátt hafi skilja á ákærða að hann hefði verið í góðri trú að það hefði verið starfsmaður fyrirtækisins sem bent hafi honum á hlutina og leyft honum að taka þá. Kvað hann að ákærði hefði tjáð honum þetta og þetta virtist vera hans sannleikur. Þá var borið undir lækninn að við þinghald hefði verið bókað að sérstaklega skyldi fjallað um ákveðna þætti sem síðan sé ekki tekin afstaða til og læknirinn spurður hver hann telji að sé möguleiki ákærða miðað við hans [...], að gera sér grein fyrir og átta sig rétt á aðstæðum. Kvað læknirinn að þetta hafi verið svona klínískt mat hjá honum og hann hafi hitt ákærða einu sinni. Hann segi að ákærði hefði þurft að fá sálfræðimat. Hafi ákærði sagst vera fús til að undirgangast það, en hafi síðan ekki komið til þess. Þetta sé því mat læknisins eftir eitt viðtal og takmarkist náttúrulega af því. Hann hafi ekki fundið í við klínískt mat í þessu viðtali að greindarskerðing ákærða væri slík og þvílík að hann gerði sér ekki grein fyrir sakarefninu. Ákærði hafi síðan gert honum grein fyrir sinni hlið mála. Auðvitað sé þetta afskaplega takmörkuð rannsókn. Hún byggi á einu samtali, en læknirinn tók þó fram að hann hefði langa reynslu af að meta greindarfar fólks. Honum hafi ekki fundist greindarskerðing ákærða svo mikil að hann áttaði sig ekki á eðli málsins.
II
Málsatvik og aðdragandi máls varðandi ákæru 15. janúar 2010, bæði að því er varðar rannsókn og sönnunarfærslu verður hér fyrst rakinn.
Í gögnum málsins kemur fram að þann 3. mars 2009 hafi lögreglu borist tilkynning um að brotist hefði verið inn í gám við athafnasvæði A ehf. á [...] og þaðan stolið nokkru magni verkfæra. Þjófnaðurinn hafi verið framinn einhvern tíma á tímabilinu frá byrjun nóvember 2008 til ofangreinds dags. Eru í skýrslu, sem gerð var í tilefni af þessu, myndir af umræddum gámi og sést þar m.a. að lás á honum hefur verið skorinn eða klipptur í sundur og má einnig sjá á myndinni að ryð er í sárinu. Segir í skýrslunni að lögregla hafi farið á staðinn eftir beiðni G fyrirsvarsmanns A ehf. og hafi lögreglumaður hitt G á athafnasvæði félagsins. G hafi vísað lögreglu á gám sem læstur hafi verið með tveimur meðalstórum hengilásum, sem hafi verið klipptir í sundur. Er skráð í skýrsluna að G hafi sagt að fyrirtækið hefði keypt ýmisleg verkfæri og annað af H sem verið hafi á [...]. Þessir hlutir hafi verið fluttir til [...] í gámum í byrjun nóvember 2008 og hafi gámarnir staðið þar síðan. Kemur fram að G hafi opnað gáminn og hafi vísað lögreglu á stóra gula verkfærakistu á hjólum og hafi sagt að hún hefði verið full af verkfærum, svo sem eins og fastalyklum, stórum toppum ætluðum til vinnuvélaviðgerða, átakssköftum, loftlyklum og öðrum rándýrum verkfærum. Hafi G sagt að hann áætlaði tjónið á að minnsta kosti milljón krónur. Skráir lögreglumaðurinn það að greinilega hafi verið farið inn í gáminn og rótað fremst í honum. Í skýrslunni er einnig mynd tekin inn í gáminn þar sem sjá má verkfærakistu þá sem fyrr var nefnd. Vísaði G lögreglu á nafngreindan mann sem ætti að vita hvaða verkfæri hefðu nákvæmlega farið inn í gáminn. Skráð er í skýrsluna að lögregla hafi rætt við viðkomandi mann og hafi hann staðfest að hann hefði verið á [...] þegar tínt hafi verið inn í umræddan gám. Er eftir honum haft að hann hafi séð mikið af allskonar verkfærum í kistum í gámnum. Þetta hafi verið ýmiskonar loftverkfæri, rafmagnsverkfæri, afdráttarklær af öllum stærðum og gerðum, fastalyklar og toppar, átakssköft og hvað eina. Er haft eftir honum að hann hafi sagt G að þarna væru örugglega verkfæri fyrir vel á aðra milljón. Þá kvað hann að gámurinn hefði farið niður á [...] einhvern tíma á fyrstu dögunum í nóvember 2008. Þá er frá því greint að snjór hafi verið yfir öllu þegar lögregla kom á staðinn og engin för hafi verið að sjá við gáminn eða í honum. Þá kemur fram að klippisárin á lásunum hafi verið ryðguð og af því dregin sú ályktun að einhver tími sé liðinn síðan þeir hafi verið klipptir.
Þá liggur fyrir í málinu útprentun úr dagbók lögreglu þar sem kemur m.a. fram að þann 22. júlí 2009 hafi verið tilkynnt um að brotist hafi verið inn á athafnasvæði A ehf. og það sagt hafa verið gert með því að klippa á hengilás sem lokað hafi portinu. Er um það bókað að engu hafi verið stolið. Þá er bókað að 5. ágúst 2009 hafi I frá A haft samband við lögreglu og tilkynnt að eitt og annað sé horfið eftir að farið hafi verið inn á svæðið. Bókað er að lögreglumaður fari og ræði við starfsmenn. Kemur einnig fram í skýrslunni að J starfsmaður A ehf. hafi sagt I hafa tekið eftir því þegar hann hafi komið úr fríi að það hafi vantað nokkur stykki af 35 tommu nagladekkjum og allavega fjórar álfelgur ásamt einhverju fleiru sem J hafi ekki verið klár á hvað hafi verið. Er þá bókað að J hafi verið beðinn að ræða við I og taka saman greinargóðan lista yfir það sem væri horfið og koma listanum til lögreglu, ef þeir vildu fá gerða lögregluskýrslu fyrir tryggingafélagið. Ekki liggur fyrir í málinu listi af því tagi sem hér var vísað til og kom reyndar fram í skýrslu J fyrir dómi að hann hefði ekki gert slíkan lista. Formleg refsikæra vegna framangreindra innbrota var lögð fram af hálfu A ehf. þann 16. september 2009.
Varðandi ákærulið II í umræddri ákæru liggur fyrir skráning í dagbók lögreglu 1. ágúst 2010 en þá er sagt að B hafi hringt um Neyðarlínu og tilkynnt að rauðum plast Mercury bensíntank með mæli, slöngu og dælu hafi verið stolið úr báti hans sl. nótt, þar sem báturinn hafi legið í smábátahöfninni á [...]. Upplýsti B að C ætti með honum bátinn. Hann kvaðst engan hafa grunaðan um verknaðinn. Formleg refsikæra var lögð fram vegna málsins 16. september 2009.
Fram hefur komið í málinu að ákærði var búsettur að [...], [...], að því er virðist frá því um miðjan maí mánuð 2009 og var það enn þegar húsleit var gerð þar með hans heimild 28. ágúst 2010. Þar bjó ákærði ásamt kærustu sinni, K. Þá bjuggu þar einnig foreldrar K. L, faðir K er eigandi hússins. Húsakynni eru þannig að í öðrum enda hússins er íbúð á tveimur hæðum, með eitthvað um 8 herbergjum og bjó fólkið þar. Í hinum enda hússins er skemma, þar sem inni eru ýmis verkfæri og aðstaða er til bílaviðgerða. Gegnt mun vera milli íbúðar- og skemmuhluta hússins. Við meðferð málsins kom fram að M bjó einnig þarna eitthvað um mánaðar skeið með leyfi L, líklega í júlímánuði. Hann bjó ekki lengur á staðnum þegar húsleit fór fram.
Í málinu hefur komið fram að þrír starfsmenn A ehf., I verkstjóri, J og þriðji maðurinn N, hafi átt leið framhjá fyrrnefndri skemmu og séð að hún hafi verið opin og ákærði þar. Þeir hafi litið inn og rætt við ákærða og hafi þá séð einhverja hluti sem þeir hafi kannast við að væru í eigu A ehf. og væru meðal þess sem horfið hefði í innbrotum í fyrirtækið. Eftir að þeir hafi yfirgefið staðinn hafi þeir haft samband við lögreglu. Sömu starfsmenn hafi farið á staðinn með lögreglu og verið þar við húsleit.
Í skýrslu um húsleit 28. ágúst 2010 sem er meðal gagna málsins er gerð grein fyrir því að lögregla hafi fengið ábendingu um að á umræddum stað væri hugsanlega geymt þýfi úr innbrotum á athafnasvæði A ehf. þann 22. júlí 2009. Farið hafi verið á staðinn og rætt við einn af íbúum hússins, ákærða í máli þessu, og honum hafi verið gerð grein fyrir grunsemdum lögreglu. Hann hafi heimilað leit á staðnum og hafi verið viðstaddur hana. Leitin hafi verið framkvæmd þannig að starfsmenn A hafi leitað staðinn með lögreglu og hafi bent á hluti sem tilheyrt hafi fyrirtækinu. Ákærði hafi engar athugasemdir gert við að þeir munir sem teknir hafi verið yrðu fjarlægðir.
Þá er gerð grein fyrir hvaða munir hafi þannig fundist og hvar í húsnæðinu eins og nánar verður rakið hér í framhaldi. Við þá greinargerð verður einnig vísað til skjals, nr. IV-5 sem ber með sér að vera útbúið af Bjarna Sveini Sveinssyni lögreglumanni og geymir ljósmyndir af vettvangi húsleitarinnar. Skjalið eru tölusettar sjö blaðsíður og eru á hverri blaðsíðu tvær myndir ásamt myndatextum. Þá eru í flestum tilvikum teiknaðar örvar inn á myndirnar sem benda á þá muni sem um ræðir. Verður hér á eftir vísað til blaðsíðutals í nefndu skjali og hvort um efri eða neðri mynd á blaðsíðunni er að ræða.
Í kassa í geymsluherbergi við inngang (sjá efri ljósmynd bls. 2).
Nánar tilgreindir 13 borar sem taldir eru upp í ákæru, veggskrúfur, gifstappar, múrboltar, rafmagnsklær, innstunga, Atlas Copco loftslípirokkur, Elga súrefnismælir og Fleetguard sía FF259. Samsvarar þetta liðum eitt til átta í upptalningu í ákæru, en loftslípirokkurinn er talinn upp 12 í röðinni. Af framangreindri ljósmynd af vettvangi, sem og af framburði ákærða og vitna má ráða að allir þessir hlutir hafi verið saman í umræddum kassa.
Á vinnuborði við suðurvegg (sjá neðri ljósmynd bls. 2)
Tvær nánar tilgreindar borvélar og einn juðari, en tæki þessu eru greind í ákæru nr. 10, 11 og 13. Á ljósmyndinni eru örvar sem benda á umrædd tæki, þar sem þau liggja meðal fjölda annarra hluta á borði upp við vegg.
Í verkfæraskáp á austurvegg (sjá efri ljósmynd á bls. 3)
Tvö Hella S-83 afturljós, en þessi ljós eru talin upp nr. 16 í ákæru. Á ljósmyndinni eru örvar sem benda á umrædd ljós.
Í rekka í norðvestur horni (sjá neðri ljósmynd á bls. 3, báðar ljósmyndir á bls. 4 og efri mynd á bls. 5).
Vatnssía, nr. 9 í ákæru, en sjá má hana á neðri mynd á bls. 4.
9 stk. flúrljós/loftljós, nr. 14 í ákæru og 2 stk, framlengingarsnúrur, 15 og 22 metra langar, nr. 17 í ákæru. Á neðri mynd á bls. 3 má sjá í þessa muni og eru þeir auðkenndir með örvum.
Þá má sjá 4 stk. 33 tommu dekk á alfelgum, nr. 15 í ákæru, á efri mynd á bls. 4. Er dekkjunum staflað þar upp á rekka uppi við loft og eru að mestu leyti í hvarfi við önnur dekk sem einnig er þar staflað upp. Ör bendir á dekkin. Þá má sjá sömu dekk þegar þau hafa verið tekin niður úr rekkanum á efri mynd á bls. 5.
Á tanki við útihurð (sjá neðri mynd á bls. 5). Olíudæla með sveif.
Hangandi á suðurvegg (sjá efri mynd á bls. 6) tvennar vírklippur, nr. 19 í ákæru.
Í gangi, magnari Sencor, nr. 20 í ákæru, sjá mynd bls. 7 og í þvottaherbergi magnari Vortec, nr. 21 í ákæru, sjá neðri mynd bls. 6. Hvorir tveggja þessara muna fundust í íbúðarrými á efri hæð.
Fram kemur í skýrslum að leit hafi hafist klukkan 16:45 og henni hafi lokið réttri klukkustund síðar.
Þá er meðal gagna málsins ráðstöfunarskýrsla þar sem fram kemur að allir framangreindir munir hafi verið afhentir eiganda 14. september 2009.
Varðandi ákærulið II sem varðar bensínbrúsa við utanborðsmótor er sá brúsi ekki meðal þeirra muna sem haldlagðir voru við fyrrnefnda húsleit. Hins vegar kemur fram í lok endursagnar af skýrslu ákærða fyrir lögreglu 1. september 2009 að hann sé spurður um tvo bensínbrúsa við utanborðsmótora sem lögregla hafi séð á heimili hans og eftir ákærða bókað að hann hafi ekkert sagst vita hvaðan þessir brúsar kæmu og hann hafi samþykkt að afhenda lögreglu brúsana. Bókað er að svona brúsum hafi verið stolið stuttu áður á [...]. Þá liggur fyrir munaskýrsla þar sem fram kemur að haldlagður hafi verið eldsneytistankur við utanborðsvél, Quicksilver og það sagt hafa verið gert 1. september 2009 klukkan 19:20. Leit hafi verið samþykkt af ákærða og viðstaddur hafi verið Bjarni Sveinn Sveinsson lögreglumaður en Óskar Þór Guðmundsson varðstjóri hafi stjórnað leitinni. Einnig er í málinu ráðstöfunarskýrsla þar sem fram kemur að umræddur brúsi hafi verið afhentur C 16. september 2010.
Í málinu liggur fyrir skýrsla um verðmat þeirra muna sem haldlagðir voru við rannsókn málsins og síðar afhentir eigendum, sbr. það sem að framan greinir. Þykir ekki ástæða til að tilgreina hið ætlaða verðmat hvers einstaks hlutar en heildarfjárhæð matsins er 1.938.980 krónur. Er tekið fram að þetta sé „verð á nýjum hlutum og því ljóst að raunverðgildi hlutanna [sé] eitthvað minna eða allt að 50%.“
III
Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst ákærði þekkja J starfsmann A ehf. Bar ákærði að þegar hann hafi farið inn á athafnasvæði A hafi það verið með samþykki J. Þá kom fram hjá ákærða að M hafi ávallt verið með honum. Þá kvað hann að J hafi sagt honum að best væri að þeir kæmu eftir lokun. Hann kvaðst aldrei hafa klippt á lása til að fara þarna inn. Hann hafi einfaldlega opnað hliðið og ekið inn í portið. Þá nefndi ákærði að hann hefði talið að þetta væri drasl, en hann hefði vanist því að á ruslahaugum mættu menn koma og taka það sem þeim þætti nýtilegt. Kvaðst ákærði aldrei hafa farið þarna inn á næturnar. Þá var borið undir ákærða að hann hafi verið spurður út í ákveðna hluti sem fundist hafi á heimili hans í skýrslu fyrir lögreglu. Fyrst hafi hann verið spurður að því að fundist hafi í kassa í geymsluherbergi ákveðnir hlutir, það hafi verið borar, veggskrúfur, gipstappar, múrboltar, rafmagnsklær, innstunga, slípirokkur, súrefnismælir og sía. Hann staðfesti að hann hefði tekið þennan kassa, eins og hann hafi lýst í skýrslu hjá lögreglu. Þá var borið undir ákærða að í skýrslu sem tekin hafi verið af honum hjá lögreglu þá hafi verið talað um hluti sem hafi verið á vinnuborði við suðurvegg, Hilti höggborvél, Dewalt borvél og Multi master juðari og hann spurður hvort hann muni eftir þessu. Kvað ákærði að hann rámi eitthvað í þetta drasl þegar það hafi verið tekið. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með þetta dót og neitaði því að það hafi verið þarna á hans vegum. Hann telji að M hafi tekið þetta og kvaðst ekki vita hvort hann hefði verið einn á ferð. Kvað hann að M hefði tekið töluvert af dóti til að eiga sjálfur. Þá var borið undir ákærða að í verkfæraskáp á austurvegg þar hafi fundist tvö afturljós, Hella og hann spurður hvort hann viti af hverju þetta hafi verið tilkomið. Kvað ákærði að þessi ljós hafi ekki verið frá A, hann hafi átt þau sjálfur. Kvað hann þau vera af kerru sem hann eigi. Þá var borið undir hann að haft sé eftir honum í skýrslu hjá lögreglu að hann hafi tekið þetta af vagni sem staðið hafi við A. Kvað ákærði það ekki rétt, en gat aðspurður ekki gefið skýringu á því af hverju hann hafi sagt þetta við lögregluna. Kvað hann að þegar hann yrði visst stressaður og væri ekki á lyfjunum sínum þá segði hann bara eitthvað út í loftið. Þá var borið undir hann að í rekka í norðvesturhorni hafi fundist vatnssía, loftflúrljós, dekk á álfelgum og framlengingarsnúrur og hann spurður hvort hann gæti sagt hvernig þetta væri tilkomið. Kvaðst ákærði hafa tekið vatnssíuna inn á svæði A, en flúrljósin hafi verið eitthvað á vegum M. Þegar borið var undir hann varðandi jeppadekkin, 33 tommu á álfelgum kvaðst hann ekki hafa tekið þau. Það væri M. Þá var borið undir hann að á tanki við útihurð hafi fundist olíudæla með sveif og hann spurður hvort hann myndi hvernig hún hafi verið komin þarna. Kvaðst ákærði ekki muna það. Borið var undir ákærða að eftir honum væri haft í skýrslu hjá lögreglu að hann hefði tekið þessa dælu í fyrstu ferðinni í [...]. Kvað ákærði að hann myndi þetta ekki en þetta gæti verið möguleiki. Þá var borið undir hann að hangandi á suðurvegg segist lögreglumenn hafa fundið tvær vírklippur og hann beðinn að segja frá þeim. Kvaðst ákærði hafa átt aðrar klippurnar, en hinar hafi hann tekið í portinu. Nánar aðspurður kvað hann klippurnar sem hann hafi átt hafi komið með þeim frá [...]. Þá var borið undir hann að á gangi og í þvottaherbergi á efri hæð hafi fundist tveir magnarar, kraftmagnarar í bíl og hann beðinn að segja frá þessu. Kvað ákærði að hann og K, kærasta hans, hafi farið á rúntinn með J og hann hafi látið þau fá þessa magnara. Þá var borið undir hann að J neiti því að hafa gefið ákærða þessa magnara og kvað ákærði að það hefði hann samt gert. Borið var undir ákærða að haft hafi verið eftir honum hjá lögreglu að M hafi gefið honum annan magnarann. Kvað ákærði að það hafi bara verið einhver steypa, en J hafi gefið honum báða magnarana. Aðspurður um af hverju hann hafi ekki sagt það við lögregluna, kvað ákærði að eins og hann hafi þegar sagt hafi hann verið orðinn svo stressaður og taugveiklaður og í einhverju rugli út af þessu, lyfjalaus og vitlaus að hann hafi bara sagt einhverja þvælu, en J hafi gefið honum þessa tvo magnara.
Þá var borinn undir ákærða annar liður ákærunnar, varðandi þjófnað á eldsneytisgeymi úr bát úr smábátahöfninni á [...]. Ákærði kannaðist ekkert við þetta. Kvaðst hins vegar hafa veitt umræddum tanki athygli og hafa vísað lögreglu á hann þegar um hafi verið spurt. Kvaðst hann hafa séð tankinn í skottinu á bíl sem M eigi. Þá var borið undir hann hvort annað fólk hafi haft aðgang að hans heimili til að geyma þar hluti. Kvað ákærði að M hafi búið heima hjá honum í einn og hálfan mánuð að því er hann taldi. Hann hafi verið með 100% aðgang að skúrnum á þeim tíma. Svo hafi hinir og þessir verið með aðgang að skúrnum í gegn um tengdapabba hans. Þá var borið undir ákærða að við húsleitina hafi hlutirnir verið dregnir þarna fram á gólf og ákærði hafi bara sagt þeim að taka hlutina og hann beðinn að skýra það og hvers vegna hann hafi enga athugasemd gert við það að hlutirnir væru teknir í ljósi þess að hann hafi talið sig eiga einhverja þeirra. Kvað ákærði að hver maður hefði bara gert það þegar hann fengi svona heimsókn yfir sig. Aðspurður um það hvort það hafi ekki verið vegna þess að hann hafi talið að hlutirnir hafi átt heima í A, kvað hann meirihlutann, eða það sem hann hafi talið sig hafa haft leyfi til að taka hafi verið úr A. Ákærði staðfesti að hann hefði heimilað lögreglu leit í húsnæðinu, enda hafi hann ekki talið sig hafa neitt að fela. Strákarnir hafi komið þarna rétt áður um daginn og hafi labbað inn. Kvaðst hann hafa verið að skipta um dekk þegar þeir hafi komið og labbað þarna hring. Aðspurður um það hvort þeir hafi spurt hann út í einhverja hluti sem þeir hafi séð kvað hann þá ekki hafa gert það. Þeir hafi bara spjallað eitthvað við hann á góðu nótunum og svo hafi þeir bara farið. Svo hafi lögreglan komið með þeim. Nánar spurður um hvernig hann hafi komist yfir tvo magnara kvað ákærði að J hafi ekki komið með þetta til hans. Þau hafi verið á rúntinum og J hafi gefið honum og K þessa magnara. K hafi verið með honum þegar þau hafi fengið þá. Þá kvað ákærði að hann hefði stundum fengið leyfi hjá J til að taka hluti að degi til. Hann hafi t.d. fengið „bobbing“ og windsor „blokk“ en það síðarnefnda séu vélarhlutur. Ákærði kvað M hafa verið með í för þegar þetta hafi verið. Hann hafi talið að hann væri að taka hluti með leyfi J.
K, kærasta ákærða, gaf skýrslu fyrir dómi. Kvað hún að ákærði hefði flutt á [...] í byrjun maí 2009, en hafi áður búið á [...]. Hún kvaðst þekkja J starfsmann A. Hann hefði komið tvisvar inn í húsið heima hjá henni og ákærða. Aðspurð hvort hún vissi til þess að hann hafi verið í einhverjum bílaviðgeðum í bílskúrnum kvað hún að hann hefði bara verið eitthvað að hjálpa ákærða í bílskúrnum. Þá var borið undir hana að ákærði hafi játað að hafa tekið nokkra muni frá A, en aðra muni kannist hann ekkert við og hún spurð hvort hún hafi vitneskju um að hann hafi tekið einhverja muni frá A og komið með í bílskúrinn. Kvað hún að hann hafi komið með eitthvað af dóti, einver dekk og eitthvað svoleiðis. Það hafi ekki verið mikið sem hann hafi komið með. Það hafi bar verið nokkrir hlutir. Aðspurð um hvort ákærði hafi gefið einhverjar skýringar af hverju hann væri að koma með þetta dót kvað hún að hann hafi sagt að J, hafi gefið sér leyfi til að ná í þetta eftir lokun. Kvaðst hún hafa trúað því þar sem hún hafi heyrt J segja þetta einu sinni. Það hafi verið niðri á svæði A. Þá hafi verið þarna hún og ákærði, J og O þáverandi kærastan hans J. Aðspurð hvað það hafi verið sem hann hafi fengið leyfi til að taka kvað hún að hann hafi bara mátt taka það sem hann hafi viljað. Aðspurð um það hvort hún viti eitthvað um magnara sem fundist hafi inni í íbúðinni kvað hún að J hafi gefið ákærða þá og kvaðst hún hafa farið með ákærða til J að ná í þá. Kvað hún að ákærði hefði hringt í hana og hafi sagt henni að koma og hann og J hafi komið með þessa magnara og hafi sett þá í bílinn hjá henni. Það hafi verið labbað með þetta út úr íbúð J en ekki af athafnasvæði A. Hún kvaðst ekki vita hvort þessir magnarar hafi verið nothæfir. Aðspurð um það hvort hún teldi að einhver hefði farið með ákærða að ná í dót í A. Kvaðst hún aldrei hafa farið með honum, M hafi alltaf farið með honum og pabbi hennar einu sinni eða tvisvar.
L gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið er faðir kærustu ákærða og eigandi hússins að [...], þar sem ákærði bjó og bjó þar einnig sjálfur ásamt eiginkonu sinni og syni á umræddum tíma. Aðspurður um það hvenær þau hafi flutt þarna inn kvað hann sig hafa fengið skemmuna 1. maí 2009. Kvaðst hann minna það að ákærði og K dóttir vitnisins hafi flutt þarna inn á bilinu 10. til 14. maí en hann sjálfur fljótlega eftir það, síðan hafi kona hans og sonur ekki komið fyrr en eitthvað hafi verið liðið á júní. Aðspurður um það hvort fleira fólk hafi búið þarna á einhverjum tíma kvað hann að á tímabili hafi hann hýst þarna tvo félaga sína, annar hafi verið M vinur ákærða en einnig annar nafngreindur maður sem hafi búið hjá honum um tveggja mánaða skeið. Borið var undir hann að M sjálfur hefði sagst hafa búið þarna í júlímánuði og kvað L að það gæti passað. Aðspurður um hvort hann hefði verið viðstaddur húsleitina kvaðst hann ekki hafa verið það. Þá var borið undir hann að við húsleitina hafi verið starfsmenn A og hafi bent á einhverja hluti sem þeir hafi þekkt að hafi komið frá því fyrirtæki. Var hann spurður um hvort hann hafi vitað um þessa hluti og kvaðst hann hafa vitað um þá og hvaðan þeir hafi verið komnir. Kvað hann að ákærði hefði sagt honum það að fyrra bragði að þetta væri dót sem að hann hefði fengið leyfi fyrir að taka þarna og það leyfi hafi hann fengið hjá J sem sé starfsmaður A. Aðspurður um hvort honum hafi fundist það eðlileg skýring kvað hann að miðað við að ákærði hafi verið eldsnöggur að skreppa og sækja þetta þá hafi ekki verið eins og hann hefði þurft að leita mikið eftir því. Aðspurður um hvað hann meini með eldsnöggur kvað hann að ákærði hafi vitað hvar hlutirnir hafi verið þannig að hann geti ekki ímyndað sér annað en að hann hafi gengið eftir því sem honum hafi verið vísað til. Aðspurður um hvort þetta hafi verið oft sem hann hafi skotist þarna kvað hann að það hefði ekki verið oft. Þetta hafi verið tvær ferðir sem hann hafi farið og hann hafi verið eitthvað innan við tvo tíma að þessu haldi hann. Síðan hafi hann seinna meir, komið með einhverja tvo magnara sem hann hafi skroppið og náð í en þetta hafi verið stuttu áður en húsleitin hafi átt sér stað. Þetta hafi verið einhverntíman milli sjö og átta að kvöldi. Aðspurður um hverjir hafi átt verkfæri og annað dót sem verið hafi inni í umræddri skemmu kvaðst hann hafa átt þau persónulega að langstærstum hluta, ákærði hafi einnig átt eitthvað töluvert af verkfærum þarna líka. Aðspurður um það hvaða starfsemi hafi farið þarna fram kvað hann það enga starfsemi hafa verið þetta hafi bara verið til heimabrúks, eins og hver annar bílskúr. Aðspurður um það hvort hann viti til að einhver hafi farið með ákærða til að ná í þetta dót kvað hann að sér sé ekki kunnugt um að svo hafi verið. Þá var borið undir L hvort hann hafi átt eitthvað af þeim hlutum sem [A]menn hafi bent á og hafi verið teknir úr skemmunni. Kvað hann að svo hafi ekki verið. Hann telji sig hafa verið búinn að fullvissa sig um að svo væri ekki. Hann staðfesti að hann hafi veitt því athygli að J hafi verið að sníglast þarna hjá þeim þannig að honum hafi fundist að hefðu þeir hlutir sem ákærði hefði komið með verið illa fengnir hefði J getað gert athugasemdir við það þá. Aðspurður hvort hann vissi til að J hafi verið inni í bílskúrnum kvaðst hann ekki geta fullyrt það að hann hafi komið inn í bílskúrinn en hann hafi komið þarna á bílnum sínum og hafi verið fyrir utan að spjalla við þá. Þá var borið undir hann að hann segi í skýrslu að þarna hafi komið starfsmaður frá A og umgengist þessa muni með það sannfærandi hætti að hann hafi keypt það að þetta væri ekki illa fengið og hann spurður hvort hann gæti skýrt þetta. Kvaðst hann ekki geta sagt að J hafi umgengist þessa muni í þeim skilningi að hann hafi verið að handfjatla þá eða stumra yfir hlutunum. Þetta hafi hins vegar verið þarna rétt innan við dyrnar og hefði verið sýnilegt alveg utan af götu. Hann hafi talið að J hefði haft fullan möguleika á að gera athugasemdir við það. Aðspurður hvort ákærði hafi verið eitthvað að reyna að hylja þessa muni kvað hann að það hefði hann ekki gert á nokkurn hátt. Þá var borið undir hann að hann hafi verið spurður að því í skýrslu hvort M hafi tekið þátt í þessu og hann hafi sagt að þeir hafi verið eins og síamstvíburar og hann spurður hvort hann viti til þess að M hafi komið með einhverja muni þarna inn. Kvaðst L ekki geta fullyrt neitt um það. Hann hafi ekki komið með þetta inn með ákærða en hins vegar reikni hann með að honum hafi átt að vera fullkunnugt um það þegar ákærði hafi ætlað að fara í þessar ferðir. Hann vilji gefa sér það að M viti allt um tilurðina á þessu og meira heldur en hann. Hann kvaðst hafa orðið vitni að því þegar ákærði hafi komið til baka og ákærði hafi þá verið einn. Hann hafi hjálpað honum að tína þetta út úr bílnum. Kvaðst vitnið ekki hafa verið viðstaddur húsleitina en hann hafi verið stöðvaður af lögreglu í [...] á leið norður og hafi þá verið tilkynnt að það væri verið að framkvæma leitina. Staðfesti vitnið það að við skýrslugjöf hjá lögreglu þá hafi honum verið sýndur listi yfir þá muni sem fjarlægðir hafi verið við húsleitina og að hann hafi ekki átt neitt af þeim munum. Þá staðfesti hann að þeir munir hafi samræmst því sem hann hafi samkvæmt því sem að framan er rakið séð ákærða koma með í skemmuna. Hann tók þó fram að honum hafi fundist þetta þvílíkar verðleysur að það hafi komið honum á óvart að menn skyldu kalla til húsleitar vegna þeirra. Þetta hafi bara verið drasl. Það hafi verið þarna einhver flúrljós sem kannski hafi mátt segja að einhver peningur hafi verið í en annars hafi þetta verið meira og minna bara ónýtt drasl. Hann svo sem þekki ekki endurvinnsluverðskrár en hann telji að menn hafi nú hlotið að vera að leita eftir einhverjum verðmætari hlutum en þessu. Þá var borið undir hann að meðal þessara muna hafi verið fjögur 33 tommu jeppadekk á álfelgum og hvort hann myndi eftir því kvaðst hann ekki muna eftir þeim og taldi að það hefði ekki verið á þessum lista sem honum hafi verið kynntur í þessari skýrslutöku. Kvaðst hann ekki minnast þess að það hafi verið eitthvað bílatengt heldur bara verkfæri og svoleiðis. Þá var borið undir hann að í skýrslu sé haft eftir honum að hann hafi sagt drengjunum að fara að hægja ferðina í þessu, og hann spurður hvað hann hafi átt við með þessu. Kvaðst hann ekki muna neitt eftir þessu. Kvaðst hann ekki muna eftir að það hafi verið neitt bílatengt í þessu, en hann sé kannski bara farinn að vera gamall og gleyminn.
M gaf skýrslu fyrir dómi. Bornar voru undir hann skýrslur sem hann gaf hjá lögreglu og kannaðist hann við að hafa gefið þær skýrslur. Hann kvaðst hafa verið kunningi ákærða og hafi kynnst honum í apríl/maí árið 2009 þegar þeir hafi verið að vinna saman hjá P á [...]. Hann hafi þá búið á [...], en ákærði í skemmunni að [...]. Hann hafi síðan einnig búið í skemmunni, í júlímánuði að því er hann taldi, en hafi verið fluttur út þegar húsleit fór fram, en hafi átt eftir að sækja dótið sitt í herbergi er hann hafi haft til umráða. Hann kvaðst hafa átt eitthvað tengt bílnum sínum í skemmunni. Hann kvað ekkert af því dóti sem hafi verið tekið þarna hafa verið í sinni eigu. Þá var borið undir hann hvort hann hafi oft komið á [...] með ákærða og kvaðst hann hafi litið með ákærða í kaffi til J. Aðspurður um það hvort hann hafi einhverntíman farið inn á þetta svæði að kvöldi til með ákærða til að taka einhverja hluti kvaðst hann ekki hafa gert það. Aðspurður um það hvort þeim hafi einhverntíman verið leyft að taka einhverja hluti þarna kvað hann að svo ekki hafa verið, utan að hann kannaðist við járnbobbing sem þeim hafi verið leyft að taka. Ákærði hafi spurt J hvort möguleiki væri að fá bobbinginn og hann hafi leyft það. Aðspurður um það hvort hann hafi vitað til þess að það væri hægt að komast inn á þetta svæði þarna við A utan vinnutíma kvaðst hann ekki hafa vitað til þess. Þá var borið undir hann að hann segi í skýrslu hjá lögreglu að hann hafi orðið var við það þegar hann hafi komið fram úr á morgnana að það hafi verið komnir hlutir inn í skemmuna sem ekki hafi verið þar daginn áður. Ákærði hafi gefið þá skýringu að hann hafi keypt þetta af einhverjum fyrir einhvern pening. Aðspurður kvaðst hann kannast við að ákærði hafi verið þarna með eitthvað af dekkjum. Hann kvaðst ekki muna eftir neinu sérstöku. Sérstaklega aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir kraftmögnurum í bíla. Aðspurður um það hvort J hafi heimilað þeim að taka eitthvað annað en þennan bobbing kvað hann J ekki hafa gert það. Hann kvaðst aðspurður ekki vita til þess að ákærði hafi farið þarna inn á svæðið til að taka einverja hluti og neitaði því á ákærði hefði rætt það eitthvað við hann. Aðspurður um það hvort hann hafi kannast við bensíntanka sem notaðir hafi verið við utanborðsmótora að þeir hafi verið þarna í skemmunni kvaðst hann ekki muna það. Kvaðst hann ekki hafa átt svoleiðis þarna. Aðspurður um það hvort hann viti hvaða hlutir þetta hafi verið sam lögregla hafi tekið þarna, kvað hann það hafa verið eitthvað af dekkjum og hann muni ekki hvað það var sem verið hafi annað. Þá var borið undir hann að hann hafi sagt í skýrslu hjá lögreglu að það eina sem hann hafi átt þarna hafi verið vélarhlíf og drifskaft úr bílnum hans, auk þess að það hafi verið dót í herberginu hans. Kvað hann þetta rétt eftir sér haft. Aðspurður um það hvort J hafi einhverntíman komið að Hafnargötu 3 kvað hann að hann hefði stundum kíkt við en hann kvaðst ekki muna hvort hann hafi komið einhverntíman inn í vélaskemmuna. Hann kvaðst aðspurður kannast við að J hafi komið þarna með bílinn sinn til að pússa kertin eða eitthvað. Hann kvaðst aðspurður ekki vita til þess að J hafi gefið ákærða kraftmagnara.
Þá gaf skýrslu fyrir dómi Óskar Þór Guðmundsson lögregluvarðstjóri. Kvaðst hann ekki hafa komið að rannsókn þjófnaða úr A ehf. fyrr en kom að húsleit sem framkvæmd hafi verið 28. ágúst 2009. Staðfesti hann skýrslur sem hann gerði og liggja fyrir í málinu varðandi leitina sem og framburðarskýrslur sem teknar voru á rannsóknarstigi, af ákærða, 1. september, af M sem vitni sama dag og svo aftur 2. sama mánaðar, en þá var skýrsla tekin af honum sem sakborningi, af tengdaföður ákærða L 10. september og af J 11. september. Allar eru skýrslurnar teknar á árinu 2009. Óskar undirritar einnig haldlagningarskýrslur, afhendingarskýrslur muna og loks yfirlitsskýrslu um málið sem dagsett er 23. nóvember 2009. Kvað Óskar að aðdragandi húsleitar hafi verið sá að tilkynning hafi borist sama dag frá starfsmanni A ehf. að hann hefði séð hluta af þýfi sem stolið hafi verið frá félaginu í skemmu á [...]. Kvaðst Óskar hafa verið stjórnandi á vettvangi við leitina. Kvað hann leitina hafa farið þannig fram að þeir hafi hitt fyrir einn af íbúum hússins, ákærða, og hann hafi boðið þeim að koma og skoða. Þetta hafi verið mjög sérhæft þetta dót sem leitað hafi verið að. Þetta hafi verið mikið af verkfærum og dóti sem hafði verið tekið frá A. Það hafi verið með þeim þarna starfsmenn frá A til að aðstoða þá við að bera kennsl á þessa hluti og það hafi verið leitað í öllu húsinu og mest af þýfinu hafi fundist í þeim hluta af húsinu sem sé nánast eins og verkstæði. Eitthvað smávægilegt hafi verið í íbúðarálmunni. Aðspurður um hvernig ákærði hafi brugðist við þegar þeir hafi bent á þessa tilteknu hluti kvaðst hann minna að ákærði hefði ekki kannast við að eiga neinn þátt í því að hlutirnir væru þarna komnir. Hann hafi bent á einhvern annan félaga sinn með það, M. Ákærði hafi ekki gert athugasemdir við það að hlutirnir væru teknir og hafi frekar kvatt til þess og hafi sagst ekki vilja hafa þýfi í sínum húsum. Aðspurður um hvort þessir hlutir sem taldir hafi verið í eigu annarra aðila hafi verið afhentir þeim strax kvað hann það ekki hafa verið gert strax. Fyrst hafi þetta verið sett í geymslu en síðar hafi þeir verið afhentir. Aðspurður um bensíntanka sem fundist hafi þarna og tilheyri þjófnaði úr trillubát á [...]. Kvað hann þetta hafa verið tvo bensíntanka og ekki hafi fundist eigandi annars þeirra en eigandi hins brúsans hafi fundist og hafi brúsinn verið afhentur eigandanum. Aðspurður um hvar umræddir brúsar hafi fundist í húsnæðinu kvaðst hann muna að þeir hafi verið við suðurvegginn í þessu rými sem sé svona hálfgert verkstæði. Þar hafi þeir verið í einhverri hrúgu af alls konar dóti. Ákærði hafi við hvorugan brúsann kannast. Þetta séu sérframleiddir brúsar til notkunar við utanborðsmótora. Aðspurður um það hvort það hafi verið rannsakað hvenær ákærði hafi flutt á [...] kvað hann það ekki hafa verið skoðað en þeir hafi verið búnir að vera í samskiptum við ákærða í töluverðan tíma áður en [A]málið hafi komið upp þannig að þeir hafi vitað að hann hafi verið búinn að vera á [...] í talsverðan tíma. Borið var undir hann að það komi fram að innbrot í gám hafi átt sér stað í mars 2009 og þá sé sagt að lásinn sem hafi verið klippt á hafi verið ryðgaður og innbrot þannig sennilega átt sér stað löngu fyrr. Kvaðst Óskar ekki vita hvernig þetta hafi verið rannsakað enda hafi hann ekki komið að rannsókninni fyrr en við húsleitina.
Bjarni Sveinn Sveinsson lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi. Hann staðfesti að hann hefði fengið tilkynningu um að þýfi úr innbrotum í A væri að finna í umræddri skemmu og að hann hefði tekið þátt í húsleit sem þar hefði verið framkvæmd. Hann kvaðst ekki hafa komið að þessu máli á fyrri stigum. Hann var beðinn um að lýsa hvernig þetta svæði A sé og kvað hann að svæðið væri afgirt með hárri girðingu með læstu hliði. Kvað hann að girðingin væri lokuð en það sæist inn í gegn um hliðið. Ef menn fari á bíl inn í girðinguna þá sjáist þeir illa. Hann kvaðst hafa farið þarna með Óskari Þór lögregluvarðstjóra, ásamt þremur mönnum frá A. Þeir hafi bankað þarna hjá ákærða í skemmunni og hafi sagt honum erindið, að hann væri grunaður um að vera með þýfi þarna í skemmunni. Hann hafi ekkert sagst hafa að fela og hafi boðið þeim inn og hafi leyft þeim að leita. Fyrst hafi þeir farið þarna um með mönnunum frá A og þeir hafi bent á þessa muni. Þeir hafi farið að tína þarna fram á gólfið dekk og ýmislegt annað, sem að þeir hafi talið sig eiga og svo hafi verið farið inn í íbúðarhúsnæðið og þar hafi fundist tveir magnarar, en ákærði hafi ekkert þóst eiga í þessu. Þetta væri ekkert á hans vegum, ekkert af því sem bent hafi verið á. Hann hafi haldið því fram að einhver félagi hans hefði fengið að geyma þetta þarna. Aðspurður um það hvort ákærði hafi gert einhverjar athugasemdir við það að þetta yrði tekið, kvað hann svo ekki hafa verið. Ákærði hafi bera endilega viljað að þeir færu bara með þetta. Taka þetta helvítis drasl eins og hann hafi sagt. Hann hafi sagst ekki vilja sjá þetta inni í húsinu. Aðspurður um það hver hafi tekið myndir og hafi listað upp dótið kvað hann að Óskar varðstjóri hafi gert það. Hann staðfesti að hafa gert skýrslu í málinu.
J gaf skýrslu fyrir dómi, en hann er og var á þessum tíma starfsmaður A ehf. Hann kvaðst hafa kynnst ákærða um það bil í júní 2009. Ákærði og annar félagi hans, M hafi farið að líta við hjá honum í kaffi í vinnunni hjá honum og eins heima. Svo kvaðst hann hafa farið að taka eftir ýmsu misjöfnu þegar frá hafi liðið. Hann kvað aðspurður um svæði A að þetta væri brotajárnsvinnslusvæði og þar sé tekið við brotajárni og spilliefnum. A eigi þarna alls konar dót. Þarna séu dekk, bílhræ og einnig munir sem starfsmenn geymi persónulega og eigi. Fullt af dekkjum, bæði ónýt, en einnig dekk sem fyrirtækið eigi undir bíla sína. Þarna séu utan við svæðið gámar sem séu fullir af alls konar tækjum og tólum, nýtilegum sem tilheyri A og séu í geymslu. Þarna sé gámur með loftljósum og alls konar nýtilegu dóti. Aðspurður um það hvort megnið af þessu sé þannig til komið að A hafi keypt þetta frá H, kvað hann það rétt. Aðspurður um gáma með verkfærum í kvað hann hafa verið þarna slíka gáma en verkfærunum hefði verið stolið að því er hann haldi. Aðspurður um það hvort það hafi verið nákvæmlega upplistað hvað hafi verið til á þessu svæði kvað hann það hafa verið hluti sem þeir þekki í sjón. Þeir hlutir sem fundist hafi heima hjá ákærða hafi verið hlutir sem þeir hafi þekkt í sjón og hafi verið með undir höndum. Þá var borið undir hann að það hefði verið búið að stela þessu nokkru áður og hann spurður hvort hann og vinnufélagar hans hafi getað gert lögreglu nákvæmlega grein fyrir því sem hafi verið tekið. Kvaðst hann geta greint nákvæmlega frá nokkrum hlutum. Hann kvaðst nánar aðspurður um hvort til hafi verið listar um nákvæmt innihald gáma ekki hafa hugmynd um það. Hann kvað að þeir hafi vitað að hluta til hvað hafi verið tekið en þegar þeir hafi farið að skoða þá hafi þeir séð að þarna hjá ákærða hafi verið miklu meira sem þeir hafi þekkt úr sínum hirslum. Hann staðfesti að hann hefði verið einn af þeim starfsmönnum A ehf. sem hafi verið viðstaddur húsleitina. Aðspurður um hvort væri einhver vafi í hans huga um að þeir hlutir sem þeir hafi sagt að væru í eigu A ehf. væru það kvað hann engan vafa leika á því í sínum huga. Þetta hafi verið hlutir sem hann hafi kannast við. Þá var borið undir hann að það komi fram í gögnum málsins að hann hafi áður komið inn í þessa skemmu eða þennan bílskúr og kvaðst hann einu sinni áður hafa komið þarna inn. Þá hafi hann verið með bílinn sinn. Kvaðst hann ekki hafa tekið eftir neinum hlutum þá. Aðspurður um það hvort hlutirnir gætu hafa verið þarna kvað hann það jafnvel geta hafa verið. Aðspurður um af hverju þeir hafi farið þarna og hvort það hafi verið af því þeir hafi haft einhverjar hugmyndir um að einhverjir hlutir hafi verið hjá ákærða. Játaði hann því og sagði að þeir hafi talið sig vita það. Þeir hefðu verið búnir að heyra ýmislegt og svo hafi ýmislegt komið uppá sem hafi fengið þá til að gruna þetta. Þeir hafi verið að fara í verslunarmiðstöðina sem sé þarna stutt frá og hafi farið að tala um þetta. Þeir hafi séð að hurðin hafi verið opin og þeir hafi ákveðið að kíkja aðeins inn og þarna hafi þeir bara séð svart á hvítu hvað hafi verið. Þeir hafi grunað hann um þjófnað á t.d. miklu af dekkjum frá þeim og þar af leiðandi dekkjum undan vinnubíl A sem hafi verið glæný, míkróskorin og negld jeppadekk á álfelgum. Kvað hann það hafa verið dekkin sem hafi fundist við húsleitina. Það sé alveg klárt að það hafi verið dekkin undan Patrol vinnubíl A. Þá var borið undir hann að ákærði hefði gefið þær skýringar að hann hafi heimilað honum að fara þarna og taka hluti og kvað hann það vera ósatt. Var þá borið undir hann hvort ákærði hefði getað misskilið þetta eitthvað. Kvaðst hann hafa brýnt fyrir ákærða, en ákærði hafi einhverntíman talað um það að hann vantaði eitthvað smíðaefni, að fara þá og tala við yfirmann á svæðinu. Skildist honum að ákærði hafi gert það og ekkert litist á verðin á hlutunum. Aðspurður um hvort ákærði hafi spurt hvort hann mætti taka hluti kvað hann að ákærði hefði minnst á að hann vantaði hluti, til dæmis eins og smíðaefni til að smíða rekka inni í skemmunni hjá sér. Kvað J að þegar ákærði hafi komið í portið til hans hafi hann iðulega verið með M félaga sínum og hafi þeir fengið sér kaffi hjá honum og hafi verið að spjalla um daginn og veginn. Hafi hann talið þá vera félaga. Svo hafi þeir verið að skoða sig um í portinu. Aðspurður um það hvort það hefði verið á einhvern óeðlilegan hátt kvað hann að þeir hefðu bara spurt margra spurninga og það hafi verið eitt sem hafi vakið grun þegar hlutir hafi farið að hverfa, t.d. eins og hlutir sem J hafi átt prívat og persónulega og hluti sem A hafi átt. Hann kvað ákærða hafa sýnt dekkjum mikinn áhuga bæði ónýtum dekkjum sem verið hafi inni í haug og heilum dekkjum sem þarna séu. Hann hafi veitt því athygli stundum er hann hafi komið í vinnuna að búið hafi verið að hrófla við dekkjum sem ákærði hafi verið búinn að spyrja um. A eigi einhvern lager af jeppadekkjum á bakvið sem ákærði hafi rekið augun í og hafi „kommentað á“ og þar hafi meðal annars verið þau jeppadekk sem fundist hafi við húsleitina. Þá var borið undir hann að fundist hafi við húsleitina tvær stórar víraklippur. Kvað hann geta verið að N og I hinir starfsmennirnir sem verið hafi þarna hafi kannast við þetta. Hann þekki ekki verkfærin alveg út í þaula. Kvaðst hann þó muna eftir því að þeir hafi átt slatta af klippum. Aðspurður um það hvernig aðgengi sé að svæði A kvað hann þetta vera lokað port. Það sé lokað með ca. fjögurra metra háum stálveggjum allan hringinn, en hliðið sé stórt rimlahlið. Hliðið sé alltaf læst og hann hafi hringt í lögreglu einn morguninn þegar búið hafi verið að klippa lásinn. Þarna hafi verið bolti sem farið hafi í gegn um slagbrandinn, sem virki sem löm, og hann hafi margoft verið skrúfaður úr, þar til þeir hafi soðið hann fastan. Það hafi s.s. verið hægt að komast inn með þessum hætti. Þetta sé hins vegar lokað vinnusvæði. Þá var borið undir hann að í skýrslu sé hann spurður út í nánar tilgreinda hluti og hvort hann gæti staðfest skýrsluna og kvaðst hann gera það og staðfesti að hann hefði gefið hana eftir bestu vitund. Aðspurður um það hvort hann hefði gefið M leyfi til að taka muni þarna á [...] kvaðst hann ekki hafa gert það. Hann vildi taka fram að hann hefði engum gefið leyfi til að fara inn á svæðið og taka hluti, utan að ákærði hefði einu sinni fengið leyfi til að tak bobbing sem smíða hafi átt úr grill. Þá kvað hann að mikið af þeim hlutum sem teknir hafi verið við húsleitina hafi verið í gámum sem komið hafi frá [...] og hlutirnir séu auðþekkjanlegir á þeim grundvelli að þarna séu innstungur sem að sé bara eitt kerfi á og það sé kerfið sem verið hafi á [...]. Rafmagnsverkfærin séu þannig og svo séu þarna ýmis naglabox og skrúftappar og drasl, sem auðvelt sé að þekkja. Þá var borið undir hann að þarna hefðu fundist tveir kraftmagnarar og kvaðst hann hafa átt þá báða persónulega og þeir hafi verið inni á vinnusvæði A í geymslugám sem farið hafi verið í. Þeir hafi síðan fundist við húsleitina. Þá voru bornar undir vitnið myndir sem teknar voru á vettvangi við húsleit. Kvaðst hann kannast við það dót sem sjá mátti í kassa, þar væru tappar frá A, loftslípirokkur o.fl, eins kvaðst hann þekkja þau þrjú rafmagnsverkfæri sem legið hafi á vinnuborði að þau hafi komið úr gámi á vinnusvæði A. Þá kvaðst hann þekkja af mynd af opinni skúffu að það hafi verið tvö afturljós aftan af vagni hjá A. Þá þekkti hann loftjós, flúrljós, þetta hefði komið út úr einum gámi hjá A. Vatnssía sé með [...]klóm og hún hafi verið inni í þeirra gámum. Þarna hafi þeir fundið dekkin af Patrolnum og það megi sjá mynd af þeim. Olíudælu á tanki við útidyr kannaðist hann við að væri frá A. Vírklippur á suðurvegg kvað hann geta passað, ekki að hann kannist alveg nákvæmlega við verkfærin, en þá geti verið að strákarnir hafi borið kennsl á þau frekar. Svo kvaðst hann þekkja að þeir tveir magnarar sem séu á myndunum séu í hans eigu. Hann kvaðst þekkja þá af því að það hafi verið skrifað á þá. Hann hafi skrifað inn á magnarann hvað virkaði og hvað ekki og svo hafi hann hreinsað pólana á þeim. Aðspurður um hvað hann teldi sig hafa komið oft heim til ákærða kvaðst hann hafa komið nokkrum sinnum á planið þarna fyrir utan og spjallað en einu sinni hafi hann komið inn. Kvaðst hann þá hafa komið bæði inn í verkstæðishlutann og eins hafi hann labbað aðeins inn í íbúðina. Hann hafi verið í þeim erindum að hreinsa upp kerti í bíl. Hann kvaðst ekki muna hvenær þetta hafi verið en það hafi verið um svipað leyti. Verkið hafi tekið um ca. 45 mínútur. Þá var borið undir hann að í skýrslu komi fram að Bára Kolbrún Pétursdóttir hafi hringt í hann og staðfesti hann það. Hann kvað hana hafa hringt og hafa sagt, eins og hann myndi það núna, að ákærði hafi verið að grobba sig við hana að hann væri búinn að fá helling af dekkjum og hann hafi verið búinn að taka þessi dekk frá A. Þá var borið undir hann að það kæmi fram í lögregluskýrslu að honum hefði verið falið að vinna lista. Kvaðst hann aðspurður ekki hafa unnið listann. Nánar aðspurður um hvernig það hefði orðið ljóst að það hefði verið stolið dekkjum frá A kvað hann að það hafi bara vantað þessi dekk. Aðspurður um hver hefði tekið eftir því kvað hann það hafa verið þeir, aðallega I, verkstjóri þeirra. Þeir hafi tekið eftir því að ýmislegt hafi verið horfið.
I gaf skýrslu fyrir dómi, en hann er yfirmaður á svæði A á [...]. Af honum var ekki tekin formleg skýrsla við rannsókn lögreglu en hann staðfesti að hann hefði verið viðstaddur húsleit sem fór fram og áður er fjallað um. Beðinn um að lýsa leitinni kvað hann að þeir hafi mætt þarna, hann og J og pólverji sem einnig hafi verið starfsmaður. Þeir hafi séð þarna dót inni hjá ákærða og hafi hringt í lögreglu og hafi fengið lögreglufylgd nánast samstundis, eða eftir um það bil hálftíma. Það hafi komið þarna Óskar og Bjarni lögreglumenn og þeir hafi bankað upp á og labbað inn og þar hafi þeir séð eitt og annað sem A hafi átt. Aðspurður um það hvort hann væri öruggur á því að þessir hlutir sem þeir hafi bent á hafi allir verið teknir frá þeim. Hann kvaðst öruggur á því. Það hafi verið númer á nánast öllum kössum, verkfærum í kistum, litlum hlutum, sem verið hafi frá þeim. Þá hafi verið dekk og hann eigi myndir af þessum dekkjum. Ljós sem verið hafi þarna og passi við þau ljós sem þeir eigi og hafi horfið, en þau hafi verið við hliðina á eins ljósum sem hafi verið brotin og hafi ekki verið tekin. Þá var borið undir hann hvort rafmagnsklær á þessum tækjum hafi verið öðruvísi en venjulegt sé kvað hann það hafa verið bláar klær sem nánast eingöngu hafi verið notaðar uppi í [...], sem þeir hafi verið búnir að taka í notkun hjá A líka. Þá var hann inntur eftir samskiptum sínum við ákærða fyrir þennan tíma. Kvaðst I hafa verið að vinna á [...] undanfarin tvö ár. Aðspurður um hvort hann muni eftir ákærða þarna og kvaðst hann muna eftir að ákærði hafi komið þarna tvisvar þrisvar sinnum svo hann viti til og hafi labbað þarna um svæði. Hann hafi eflaust komið oftar án þess að hann vissi til, en I sé oft á ferðinni og því ekki alltaf á vinnusvæðinu. Aðspurður um það hvort hann hefði gefið ákærða eitthvað leyfi til að taka þarna einhverja hluti kvaðst hann ekki hafa gert það. Það fái enginn leyfi til að taka neitt þarna. Það séu skýrar reglur hjá A. Það hafi reyndar komið fyrir að menn hafi fengið leyfi til að taka eitthvað þarna en hann hafi þá hringt í yfirmenn sína í Reykjavík. Hann kvað að það kæmi fyrir að menn borguðu fyrir slíkt en yfirleitt ekki. Það sé bara ef þeir selji eitthvað þá fari það í gegn um skrifstofuna og gefinn út reikningur. Aðspurður um hvernig aðgengi hafi verið að þessu svæði kvað hann það hafa verið lokað og læst. Það hafi einnig verið þarna gámar fyrir utan, sem auðvitað standi úti en séu læstir með lás og keðjum. Það hafi verið klippt á þetta. Það hafi verið klipptur lásinn í hliðinu inn í portið eina nóttina. Þegar hann hafi komið að þá hafi lásinn legið niðri og keðjan. Aðspurður um það hvort verið hafi leið til að komast inn um hliðið án þess að klippa á lásinn kvað hann að það væri hægt að príla yfir það. Nánar aðspurður um það hvort hann kannaðist við það að það hafi verið hægt að skrúfa eitthvað burt í slagbrandinum og opna þannig kvað hann það einu sinni hafa verið þannig, en það hafi verið búið að koma í veg fyrir það en það hafi verið áður en þetta hafi skeð. Það hafi reyndar líka verið þannig að ein rim í hliðinu hafi verið laus og það hafi verið hægt að komast þar inn. Hann kvaðst ekki muna hvenær hafi verið gert við þetta. Hann kvað að þeir hefðu oftar en einu sinni komið að klipptum lásum. Aðspurður um það hvort hann hafi orðið var við samskipti milli ákærða og starfsmanns A sem heiti J. Kvaðst hann ekki vita til þess að J hafi gefið ákærða leyfi til að taka hluti þarna. Kvaðst hann efast um að J hafi gert þetta. Nánar aðspurður um hvernig þeir hafi nánar auðkennt þá hluti sem taldir eru upp í ákæru, t.d. 13 bora. Kvað hann hafa verið númer á þeim nánast öllum, sem hafi verið búið tússa á þá. Þá kvað hann að rafmangshluti hafi mátt þekkja á rafmagnsklóm, sem notaðar hafi verið á [...] en hafi ekki verið komnar í almenna sölu. Þessir almennu hlutir hafi allt verið í sama kassanum og hafi legið allt saman. Loftljós hafi verið merkt með númerum sem tússuð hafi verið á þau. Þá var borið undir vitnið hvort þessir munir sem A hafi verið að kaupa, hvort þetta hafi ekki verið að stórum hluta munir sem sé verið að kaupa í endurvinnslu og kvað vitnið það vera nánast allt. Svo hafi A einnig keypt verkfæri. Aðspurður um það hvort hann viti hvernig hafi staðið til að ráðstafa þessum tækjum og dóti sem hafi verið keypt á [...]. Kvað hann þetta hafa átt allt að fara til [...] og hafi megnið af þessu verið farið þangað. Þá færi þetta í viðgerð og yfirhalningu og færi aftur í notkun hjá A. Aðspurður um það að það komi fram í skýrslu að J hafi verið falið að vinna lista yfir stolna muni og hvort hann kannaðist við það, kvaðst hann gera það og þeir hafi gert lista í sameiningu. Hann kvað að það hefði verið unninn listi og kvað að lögregla hlyti að hafa fengið þann lista, en kvaðst ekki viss um það. Aðspurður um það sem fundist hafi þarna í [...], [...], hvort þetta hafi allt verið frá A kvað hann svo vera en það hafi verið miklu meira sem vanti upp á. Þá kvað hann að töluvert áður líklega í nóvember 2008 þá hafi verið farið inn í gám og tekið mikið úr verkfæraskáp sem þar var og það hafi verið tilkynnt lögreglu og það hafi verið G sem það hafi gert og það hafi aldrei fundist. Þeir hafi bara bent á þá hluti sem þeir hafi verið öruggir um að tilheyrðu A.
G gaf skýrslu fyrir dómi, en hann er einn af fyrirsvarsmönnum A ehf. Kvað hann að þeir hafi orðið varir við að það hafi verið að fara inn í gáma hjá þeim og það hafi verið búið að klippa á lása á gámum og taka út verkfæri. Þetta hafi verið verkfæri og annað sem þeir hafi verið búnir að kaupa frá [...]. Svo hafi menn komist á snoðir um hver hafi verið að gramsa í gámunum og hvar dótið hafi verið niðurkomið og þá hafi þeir farið af stað með að hafa samband við lögregluna og biðja hana um aðstoð við að nálgast það. Hann hafi hringt í lögregluna á [...] og hafi beðið um aðstoð við að fara inn í þá aðstöðu sem viðkomandi hafi verið í. Þarna hafi þeir ekki náð einhverjum en ekki öllum þeim verkfærum sem horfið hafi frá þeim. Hann kvaðst ekki hafa verið viðstaddur húsleitina. Eftir að þjófnaðir hafi átt sér stað hafi hann verið á svæðinu í eitt skipti og þá hafi hann kallað til lögreglu því þá hafi verið farið í einn gám og klippt á lás og tekið mjög mikið af verkfærum úr verkfærakistu sem verið hafi í gámnum. Gámurinn hafi verið kirfilega læstur en það hafi bara verið klippt á lásinn. Kistan sjálf hafi ekki verið tekin en öll verkfæri hreinsuð úr henni. Aðspurður um það hvort hans starfsmenn hefði haft einhverja heimild til að ráðstafa hlutum sem verið hafi þarna á svæðinu hjá þeim kvað hann þá ekki hafa haft það. Ekki nema með leyfi til þess annaðhvort frá honum eða Q. Kvað hann þetta hafa verið umtalsvert magn af verkfærum sem hafi horfið og það hafi verið farið inn og klippt á lásinn í hliðinu í portinu líka á vinnusvæðinu og farið inn og inn í húsið hjá þeim. Kvaðst hann aðspurður hafa séð þá hluti sem teknir hafi verið við húsleitina eftir að þeir hafi komið aftur inn á svæði A. Kvaðst hann hafa kannast við að þetta hafi verið hlutir sem saknað hafi verið. Hins vegar sé alveg ljóst að það vanti eitthvað upp á að allt hafi skilað sér. Hann kvað að ekki hafi verið til nákvæmar skýrslur yfir hvað verið hafi í þessum gámum. Það hafi verið atgangur í því að koma hlutum ofan af [...] á þessum tíma og það hafi ekki verið gerð nákvæm skýrsla um hvað þetta hafi verið. Þetta byggi mikið á því hvað þeir hafi munað eftir að þeir hafi verið með af verkfærum þarna og hvað sé þekkt. Hann kvaðst geta fullyrt að A hafi ekki tekið við neinu til baka nema því sem upphaflega hafi komið frá fyrirtækinu. Þá tók hann fram að honum hafi heyrst á strákunum að þeir hefðu, ef þeir hafi verið í vafa, látið verkfæri í friði. Þeir hafi bara tekið það sem þeir hafi verið 100% vissir um. Lýsti hann því að þarna hefði verið um það að ræða að tekið hafi verið mikið magn af rándýrum verkfærum og þegar fyrst hafi verið kölluð til lögregla þá hafi verið horfin verkfæri fyrir mörg hundruð þúsund. Þetta hafi svo verið að gerast í fleiri skipti bæði á undan og eftir. Þegar menn séu að taka rándýr verkfæri þá sé það allt annars eðlis heldur en að taka bar einhvern lítinn járnhlut.
R gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hún hafa hringt í ákærða eitt sinn um kvöld og hafi ætlað að fá hann til að líta við hjá sér. Hann hafi hvíslað rosalega og verið rosalega laumulegur. Hafi hún spurt hann hvar hann væri og hvað hann væri að gera og þá hafi hann sagst vera inni á A að ná sér í dekk og eitthvað fleira. Þetta hafi verið það eina sem hann hafi sagt og svo hafi hann bara sagt bless. Hún kvaðst hafa látið J vita af þessu, en hún mundi ekki hvenær þetta hefði nákvæmlega verið.
C gaf skýrslu fyrir dómi. Hann staðfesti að hann eigi ásamt B bát í höfninni á [...] og úr honum hafi verið stolið eldsneytisgeymi. Hann staðfesti að lögregla hafi afhent þeim geyminn og var hann þess fullviss að um sama geymi hafi verið að ræða.
B gaf skýrslu fyrir dómi. Hann staðfesti að hann hefði komið í bát sinn að morgni 1. ágúst 2009 og hafi veitt því athygli að bensínbrúsi við utanborðsmótor var horfinn ásamt slöngu. Hann hafi tilkynnt hvarfið til lögreglu. Síðar hafi hann fengið brúsann til baka og staðfesti það að í hans huga væri ekki vafi á því að það hafi verið sami brúsinn sem hann fékk til baka.
S gaf skýrslu fyrir dómi, en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hennar sérstaklega.
Niðurstaða varðandi ákæru 15. janúar 2010
Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag á ákæruvaldinu. Segir í 1. mgr. 109. gr. sömu laga að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varði sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sönnunargögn.
Hér að framan eru rakin gögn sem ákærði hefur lagt fram um andlegt atgervi sitt og var í tilefni þeirra aflað álits geðlæknis á sakhæfi ákærða. Með vísan til greinargerðar geðlæknisins sem tekin er upp hér að framan er sjónamiðum ákærða um að andlegt atgervi hans sé þannig að hann hafi á einhvern hátt ekki gert sér grein fyrir gerðum sínum, hafnað.
Fyrir liggur í máli þessu að þegar starfsmenn A ehf. leituðu til lögreglu vegna þjófnaða af athafnasvæði þeirra og úr gámum sem voru við athafnasvæðið virðast ekki hafa verið gerðir nákvæmir listar yfir hverju hafi verið stolið og að jafnvel hafi það ekki verið starfsmönnunum að fullu ljóst hvað nákvæmlega hafi horfið og hvenær. Fyrir dóminn hafa hins vegar komið tveir starfsmenn fyrirtækisins, I verkstjóri og J almennur starfsmaður. Þeir voru ásamt þriðja starfsmanninum við húsleit lögreglu og bentu þar á muni sem þeir fullyrtu að væru í eigu fyrirtækisins. Báru þeir báðir fyrir dómi að aðeins hefði verið bent á muni sem þeir hafi verið fullvissir um að væru í eigu fyrirtækisins. Fyrirsvarsmaður félagsins G var ekki við húsleitina en kvaðst síðar hafa séð þessa hluti alla þegar þeim hafi verið skilað og hann geti staðfest að ekkert hafi verið þar sem ekki hafi tilheyrt fyrirtækinu. Þá kom fram í vitnisburði L, föður kærustu ákærða, að hann kannaðist við að allt það dót sem fjarlægt hefði verið hefði verið dót sem ákærði hefði verið að viða að sér og vissi til að ákærði hefði komið með í umrædda skemmu. Gat hann ekki fullyrt að einhver annar hefði verið með honum en hann kvað ákærða hafi verið einan þegar hann hafi komið úr þessum ferðum. Meðal annars kvaðst hann hafa verið þarna þegar ákærði hafi komið með tvo magnara. Kvað L að ákærði hafi alltaf gefið sömu skýringu að þetta hefði hann fengið í A ehf. með samþykki starfsmanna þar. M, félagi ákærða, kannaðist ekki við að neinir þessara hluta hafi verið þarna á hans vegum. M mun hafa búið í þessu húsi í júlímánuði 2009, en var fluttur út þegar húsleit var framkvæmd 28. ágúst. Á grundvelli þess sem hér að framan er rakið úr vitnisburði þeirra vitna sem hér eru nefnd er það mat dómsins að sannað sé að allir þeir hlutir sem nefndir eru í I. lið ákæru hafi verið eign A ehf. utan tveir kraftmagnarar.
J hefur haldið því fram hér fyrir dómi að hann eigi umrædda kraftmagnara og þeir hafi verið teknir af athafnasvæði A ehf. Þetta fær stoð í framburði L sem bar að ákærði hefði komið með þessa tvo magnara. Ákærði hefur sjálfur orðið margsaga um hvernig þessir magnarar hafi komist í hans eigu. Ef marka má framburð lögreglumannanna Óskars Þórs Guðmundssonar og Bjarna Sveins Sveinssonar kannaðist ákærði ekki við það þegar húsleit fór fram að hann ætti neitt af þeim hlutum sem [A]menn hafi bent á og hafi hann vísað á að félagi sinn ætti þetta. Við skýrslutöku hjá lögreglu bar hann að M hafi gefið sér annan kraftmagnarann en J hinn. Fyrir dómi bar ákærði að J hafi gefið sér báða magnarana og hafi það gerst þegar ákærði og kærasta hans K hafi verið á rúntinum. Staðfesti K þennan framburð ákærða og að ákærði og J hafi haldið á þessum mögnurum í bílinn til hennar. J hafnar þessu hins vegar og kveður þessa magnara í sinni eigu og hafa verið geymda á vinnusvæði A ehf. Að mati dómsins verður að líta til þess hvernig K tengist ákærða þegar trúverðugleiki framburðar hennar er metinn. Fullyrðingar ákærða sem ekki hefur verið samkvæmur sjálfum sér um hvernig hann komst yfir umrædda magnara, verða að teljast ótrúverðugar og verður ekki talið að framburður K nægi til að gera hann sennilegan. Er þetta í andstöðu við framburð vitnisins J, sem og frásögn L um að ákærði hafi komið einn með þessa magnara. Með vísan til framangreinds verður talið sannað að ákærði hafi tekið umrædda magnara en hafi ekki fengið þá gefins frá J eins og hann heldur fram.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa sótt suma þá hluti sem í ákæru greinir á athafnasvæði A ehf. en byggir á því að það hafi hann gert með leyfi starfsmanns félagsins, J. Þá hefur ákærði í framburði sínum borið félaga sinn M sökum og sagt að hann hafi alltaf verið með sér þegar hann hafi farið á athafnasvæði A ehf. og margir af þeim hlutum sem teknir hafi verið við húsleitina hafi verið í eigu M og ákærði ekki farið með í þær ferðir þar sem náð hafi verið í þá. Frásögn ákærða fær ekki stoð í framburði annarra vitna, utan kærustu sinnar K. M staðfestir ekki að J hafi gefið leyfi til að taka hluti frá A ehf. L sem varð vitni að því þegar ákærði kom með hluti úr A ehf. bar að ákærði hafi þá verið einn. Ákærði hefur kannast við að hafa sjálfur tekið nánar tilgreinda muni af svæði A ehf. en heldur því fram að M hafi tekið aðra muni. Þessu hefur M alfarið hafnað. Þá samræmist þetta ekki framburði L sem kvað ákærða hafa verið þann sem komið hafi með þá muni sem um ræðir. Framburður ákærða hefur eins og fyrr er minnst á verið óstöðugur. Gerði ákærði við húsleit engar athugasemdir við að munir væru fjárlægðir og að sögn lögreglumanna á vettvangi bar hann að félagi hans væri með þessa hluti en ekki hann. Þessari sögu breytti hann fyrir lögreglu og enn önnur útgáfa birtist í framburði hans fyrir dómi, um suma þá hluti sem í ákæru greinir. Er framburður hans án tengsla við það sem vitni bera og verður að teljast mjög ótrúverðugur. Eina vitnið sem ber að ákærði hafi haft leyfi J til að fara á [...] er K kærasta hans en eins og fyrr greinir verður að meta trúverðugleika framburðar hennar í ljósi þeirra nánu tengsla sem þau eru í.
Af öllu því sem að framan getur, auk fjölmargra annarra atriða sem hníga í sömu átt, er það mat dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi farið og fjarlægt alla þá hluti sem taldir eru upp í I. lið ákæru af svæði A ehf. Upplýst er að ákærði fór inn á lokað og afgirt vinnusvæði eftir lokun og fjarlægði þaðan muni. Er ekki unnt að fallast á þá viðbáru ákærða að hann hafi talið að þetta væri drasl. Þá eru engin efni til að fallast á með ákærða að honum hafi verið gefið leyfi til að fjarlægja muni af svæðinu og fær sú fullyrðing ákærða ekki stoð í framburði annarra vitna. Styður það ekki framburð hans í þessa veru þó L hafi borið að ákærði hafi gefið honum þá skýringu á því að hann væri að bera þetta dót þarna inn að hann hefði haft heimild starfsmanna A til þess. Er framburður K kærustu ákærða um að hún hafi heyrt J veita honum heimild til að taka muni á svæðinu ekki trúverðugur. Verður að telja að engin líkindi séu fyrir því að ákærði hafi fengið leyfi til að taka umrædda muni eins og hann heldur fram, en jafnframt þykir ljóst að jafnvel þótt slíkt „leyfi“ J teldist liggja fyrir þá verður ekki talið að ákærði hefði mátt líta svo á að það hafi veitt honum heimild til að taka muni í því magni sem reyndin varð. Þá verður ekki fallist á að ákærði hafi mátt treysta því að almennur starfsmaður fyrirtækisins A hafi haft heimild til að veita honum óheftan aðgang að athafnasvæði fyrirtækisins að eigin geðþótta. Verður að telja að þó flestir þeirra muna sem fundust í umræddri skemmu hafi verið notaðir þá verði ekki talið að þeir geti talist ónýtt drasl eins og ákærði hefur byggt á. Er þá t.d. að líta til þess að hjá ákærða fundust nýleg 33 tommu negld jeppadekk á felgum í eigu A. Fleiri en eitt vitni báru um að ákærði hefði náð sér í dekk í [...]. Kom þetta fram hjá R, K og hjá GuðM. Þá lýsti J því að ákærði hefði sýnt þeim dekkjum sem síðar hafi fundist hjá honum sérstakan áhuga. Þykir því ekki varhugavert að telja, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi komið með umrædd dekk í skemmuna að [...]. Er það mat dómsins að fyrir liggi með vísan til framburðar þeirra vitna sem að framan eru nefnd að sannað sé að allir þeir hlutir sem teknir voru úr umræddri skemmu hafi verið komnir þangað fyrir tilstilli ákærða og hafi komið af athafnasvæði A ehf. Þykir ekki hagga þessari niðurstöðu þó sýnt sé að innbrot í gám sem tilkynnt var í marsmánuði 2009 hafi líklega átt sér stað áður en ákærði flutti á [...]. Bendir framburður starfsmanna A til að þeir munir sem fundist hafi hjá ákærða hafi horfið frá fyrirtækinu í júlí 2009. Haldlausar eru röksemdir verjanda ákærða um að sú háttsemi hans að taka umrædda muni teljist eitthvað annað en þjófnaður í skilningi 244. gr. almennra hegningarlaga.
Með vísan til alls þess sem að framan er framan er rakið er það mat dómsins að komin sé fram lögfull sönnun þess að ákærði sé sekur um það athæfi sem honum er gefið að sök í I. lið ákæru 15. janúar 2010. Að mati dómsins hefur verjandi ákærða ekki fært fram haldbær rök fyrir því að heimfæra eigi háttsemi ákærða undir annað refsiákvæði en gert er í ákæruskjali.
Bensínbrúsi sá sem ákærða er gefið að sök að hafa stolið í II. lið ákæru fannst í umræddri skemmu. Höfðu lögreglumenn veitt honum athygli við húsleitina og afhenti ákærði brúsann í kjölfar skýrslutöku. Hann reyndist síðan vera brúsi sá sem stolið var í höfninni á [...]. L taldi að þessi brúsi hafi komið seinna í húsið en hinir hlutirnir. Þó fyrir liggi að þessi bensínbrúsi hafi verið í umræddri skemmu nægir það ekki til að sannað teljist að ákærði hafi stolið honum úr bát í [...] og verður hann því sýknaður af II. lið ákæru frá 15. janúar 2010.
IV
Eins og nánar greinir hér að framan er ákærða í síðari ákæru gefið að sök að hafa stolið samtals 6 ljóskösturum og krómgrind af tveimur vörubifreiðum og þetta er í ákæru sagt hafa átt sér stað síðari hluta janúar mánaðar 2010. Í frumskýrslu lögreglu 26. febrúar 2010 er frá því greint að 27. janúar sama ár hafi T verktaki tilkynnt um stuld á stórri krómaðri grind með fjórum ljóskösturum framan af einni af dráttarbifreiðum hans. Bifreiðin [...] standi utan við [...] þar sem fyrirtæki hans E ehf. sé með aðsetur. Þetta hafi verið tekið á tímabili frá 22. til 27. janúar. Grindin hafi verið tekin af í heilu lagi og hún sé það stór að ekki sé hægt að koma henni inn í venjulegan fólksbíl. Í skýrslunni segir að lögregla hafi farið á vettvang og hafi skoðað ummerki en ekkert á vettvangi hafi gefið til kynna hver hér hefði getað verið að verki. Um sé að ræða 4. stk. Hella Chromium ljóskastara með málmhúsi. Þá hafi starfsmenn Vegagerðarinnar tilkynnt 28. janúar kl. 18:25 að þeir hafi fundið stóra krómaða grind framan af vörubifreið í [...] á milli [...] og [...] en á henni hafi engir kastarar verið. Í ljós hafi komið að þarna hafi verið komin grindin framan af ofangreindri bifreið.
Þá er í annarri frumskýrslu greint frá að tilkynning hafi borist 28. janúar 2010 frá U hjá F ehf. um að búið væri að stela tveimur ljóskösturum framan af vörubifreiðinni [...]. Hann hafi sagst geyma bifreiðina við steypustöðina, vestan við þorpið á [...]. Hann gruni að þetta hafi verið um helgina á undan. Kemur fram í skýrslu að lögregla hafi farið á vettvang og hafi skoðað verksummerki en án þess að nokkuð hafi fundist sem skýrt gæti hver eða hverjir hefðu verið þarna að verki. Fengin hafi verið mynd af bifreiðinni með kösturunum. Um sé að ræða 2 stk. Bosch kastara með stöðuljósi í.
Í skýrslum sem liggja fyrir í þessum þætti málsins kemur fram að við rannsókn á þjófnaðarmáli sem lotið hafi að dekkjum og felgum sem talið var að stolið hefði verið á [...] hafi komið fram upplýsingar sem lotið hafi að ofangreindum ljóskösturum, en V hafi ásamt ákærða verið grunaður í því máli. V hafi afhent lögreglu sex ljóskastara sem hann hafi sagst hafa fengið hjá ákærða. Við yfirheyrslu af ákærða vegna fyrrnefnds dekkjamáls hafi komið fram að hann hefði stolið umræddum ljóskösturum í félagi við V og kemur fram að ákærði hafi lýst mjög nákvæmlega hvernig þeir hafi farið að þessu og frásögn hans hafi verið í samræmi við allt sem vitað hafi verið um málið. Fram kemur að V hafi ekki viðurkennt að hafa átt þátt í þjófnaði á umræddum ljóskösturum og hafi haldið sig við að ákærði hefði látið sig fá þá.
Í gögnum málsins liggur fyrir myndbandsupptaka af skýrslu af ákærða sem hann gaf sem grunaður maður í tengslum við annað sakarefni eins og vísað er til hér að framan. Kemur fram að fyrri skýrslutaka hafi byrjað klukkan 21:10 en hafi lokið klukkan 21:42 en þá hafi ákærði óskað eftir því að ráðfæra sig við verjanda. Kemur fram í skýrslunni að þá hafi uppgötvast að upptaka á yfirheyrslunni fram að því hafi misfarist af einhverjum ástæðum og það hafi ekki uppgötvast fyrr en hlé hafi verið gert í ofangreindum tilgangi. Eftir að ákærði hafði ráðfært sig við verjandann og varðstjóri hafði einnig rætt við verjandann var skýrslutöku fram haldið og var sá hluti skýrslunnar tekinn upp á myndband, sem liggur fyrir í málinu. Hefst sú yfirheyrsla klukkan 21:58 og lýkur klukkan 23:21. Í endursögn framburðar ákærða úr þeirri skýrslutöku kemur fram að ákærði lýsi því að eftir þá atburði sem skýrslutakan snérist um hafi hann og V farið af stað til að reyna að ná í ljóskastara. Þeir hafi farið á bláum [...] bíl sem sé í eigu ákærða. Þeir hefðu farið á [...] en þar hafi þeir ekki fundið neina kastara. Þá hafi ákærði sagst hafa munað eftir kösturum á [...]. Þeir hefðu þá farið þangað og tekið tvo kastara af grænum Man vörubíl og svo hefðu þeir tekið heila kastaragrind af hvítum Man vörubíl. Það hefðu þeir gert vegna þess að það hafi verið erfitt að losa kastarana sjálfa af. Ákærði hafi sagt að V hefði séð um vírana en hann sjálfur hefði séð um það að skrúfa grindina af. Þeir hefðu svo ekið með kastaragrindina í aftursæti bílsins og á meðan hefði V skrúfað ljóskastarana af. Þeir hefðu síðan ekið á [...] og þegar þeir hafi verið á [...] hefðu þeir kastað kastaragrindinni úr bílnum. Eftir það hefðu þeir farið rúnt á [...] áður en þeir hafi farið heim. Af skoðun sjálfrar myndbandsupptökunnar má sjá og heyra að þessi lýsing úr lögregluskýrslu er í samræmi við framburð ákærða, en þó ekki eins nákvæm. Þá kom t.d. fram hjá honum þegar hann var spurður hvort hann hefði getað komið krómgrindinni inn í bílinn að það hefði þurft að hafa dálítið fyrir því og enn sæist á bílnum hans að innan eftir þessa grind.
Við aðalmeðferð nýtti ákærði rétt sinn til að tjá sig ekki um framangreint sakarefni.
Teknar voru skýrslur af lögreglumönnunum Óskari Þór Guðmundssyni og Þór Þórðarsyni sem yfirheyrðu ákærða í umrætt sinn. Staðfestu þeir skýrslur sínar í málinu og það sem framan greinir um framvindu skýrslutökunnar. Báru þeir báðir að umrædd skýrsla hafi verið tekin til að spyrja um ætlaðan stuld á dekkjum og felgum á [...], en stuldur á ljóskösturum hefði ekki verið til rannsóknar. Þarna hafi ákærði að eigin frumkvæði hins vegar játað hlut sinn í því máli og lýst atburðarás með þeim hætti að samræmst hafi því sem þeir hafi vitað.
Einnig gaf skýrslu V, og staðfesti að hann hefði látið lögreglu hafa umrædda ljóskastara og hafi fengið þá hjá ákærða.
T gaf skýrslu fyrir dómi. Hann staðfesti að hann væri einn af forsvarsmönnum E ehf. og staðfesti að seinni hluta janúar 2010 hafi verið stolið fjórum ljóskösturum og krómgrind af bifreiðinni [...], sem sé í umráðum félagsins. Þá staðfesti hann að þetta hafi skilað sér með þeim hætti að grindin hafi fundist fyrst en síðar hafi lögreglan skilað ljóskösturunum. Þetta hafi allt verið hægt að nýta aftur, en grindin hafi reyndar verið aðeins skemmd en hún hafi verið nýtt. Hann kvað aðspurður að enginn vafi væri á því í hans huga að það hafi verið sömu kastarar sem hann hafi fengið til baka þar sem klippt hafi verið á snúrur og sárin hafi passað saman.
U gaf skýrslu fyrir dómi. Hann skýrði frá því að hann væri einn af forsvarsmönnum F ehf. og staðfesti það að stolið hefði verið tveimur ljóskösturum af bifreiðinni [...] sem sé í eigu félagsins og að þetta hafi átt sér stað síðari hluta janúar 2010. Hann staðfesti að kastararnir hafi verið afhentir honum aftur og að það væru örugglega að hans mati sömu kastarar. Þeir hafi verið óskemmdir og hafi verið settir á bifreiðina aftur, aðeins hafi verið skorið á kapla, sem hægt hafi verið að setja saman aftur.
Niðurstaða varðandi ákæru 7. maí 2010.
Ákærði kaus eins og að framan greinir að nýta sér rétt sinn til að tjá sig ekki um sakarefni samkvæmt þessari ákæru.
Í máli þessu liggur fyrir myndbandsupptaka þar sem ákærði játar sök sína og að hafa farið í félagi við annan mann og tekið umrædda sex kastara, fjóra þeirra áfasta við krómgrind sem síðan hafi verið hent á [...]. Lýsing ákærða á þessari atburðarás er í fullu samræmi við annað sem liggur fyrir um þetta, utan að hann taldi annan Man vörubílinn hafa verið grænan, en fyrir liggur að þeir voru báðir hvítir. Virðist annað í frásögn hans samræmast því sem fyrir liggur um nefnda kastara einkum hvar kastaragrindin fannst, en fleiri atriði styrkja frásögnina og verður í raun ekki séð að nokkurt atriði sem veigamikið gæti talist mæli gegn því að frásögn ákærða sé rétt, eins og hún birtist á nefndu myndbandi. Þeir tveir lögreglumenn sem komu að skýrslutökunni staðfestu hana fyrir dómi. Þá er ekkert í skýrslunni, sem að stórum hluta snérist um annað sakarefni, sem rýrir trúverðugleika frásagnar þeirra sem þar kemur fram, eða bendir til að ákærði hafi verið neyddur til frásagnar. Þá er ekki unnt að fallast á það með verjanda ákærða að ágallar séu á skýrslutökunni sem leiða eigi til þess að framhjá henni verið horft við sönnunarfærslu í málinu. Óumdeilt er að ákærði ráðfærði sig símleiðis við verjanda við skýrslutökuna, en að verjandinn átti ekki tök á að mæta. Þá kom fram að verjandinn hafi einnig rætt við annan þeirra lögreglumanna sem stjórnuðu yfirheyrslunni. Með vísan til þess sem að framan greinir er sannað að ákærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru 7. maí 2010. Ekki verður talið að verjandi ákærða hafi fært fram nein haldbær rök fyrir því að telja beri háttsemi ákærða eignaspjöll og heimfæra hana undir 257. gr. almennra hegningarlaga. Hefur ákærði gerst sekur um þjófnað og er háttsemi hans réttilega heimfærð undir 244. gr. almennra hegningarlaga eins og gert er í ákæruskjali.
V
Ákærði er 23 ára gamall. Samkvæmt sakavottorði hans hlaut hann dóm 11. desember 2009 fyrir að stela tveimur skotvopnum og vopnalagabrot með meðferð og handhöfn skotvopnanna án þess að hafa fengið útgefið byssuleyfi. Var ákvörðun refsingar hans frestað skilorðsbundið til tveggja ára.
Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga ber að taka framangreindan skilorðsdóm upp og dæma ákærða refsingu nú í einu lagi með hliðsjón af ákvæðum 78. gr. almennra hegningarlaga að því er varðar brot hans sem framin eru fyrir uppkvaðningu framangreinds dóms, en með hliðsjón af reglum 77. gr. sömu laga varðandi þau brot sem síðar eru framin. Með brotum sínum samkvæmt ákæru 7. maí 2010 rauf ákærði skilorð framangreinds dóms. Sá dómur hefur og ítrekunaráhrif á refsingu skv. ákæru 7. maí sl., sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga.
Við ákvörðun refsingar verður haft í huga að verðmæti þess sem stolið var hjá A ehf. verður ekki talið svo mikið sem í ákæruskjali greinir, en um var að ræða notaða hluti og óvíst um ástand þeirra, þó ekki sé unnt að fallast á þau sjónarmið ákærða að hlutirnir hafi ekki verðmæti. Ákærði hefur sjálfur haldið því fram að hann hafi framið brot sín í félagi við aðra, en slíkt er almennt til refsiþyngingar ef sýnt þykir, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Ekki þykir rétt að byggja á nefndri lagagrein til þyngingar refsingar ákærða í máli þessu. Með hliðsjón af öllu sem að framan er rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði er hér sakfelldur að mestu leyti samkvæmt báðum ákærum og eru að mati dómsins ekki efni til að skipta sakarkostnaði. Verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað að fjárhæð 429.766 krónur, en það er kostnaður vegna matsmanns 43.366 krónur og ferðakostnaður vitnis 9.900 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda sem þykja hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti 376.500 krónur.
Dómur þessi er kveðinn upp af Halldóri Björnssyni héraðsdómara í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum, mánudaginn 22. nóvember 2010 kl. 15:00, að gættu ákvæði 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómara.
Dómsorð:
Ákærði X sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði 429.766 krónur í sakarkostnað og eru þar meðtalin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Jóns Jónssonar hrl. sem þykja hæfilega ákveðin með virðisaukaskatti 376.500 krónur.