Hæstiréttur íslands

Mál nr. 263/1998


Lykilorð

  • Lax- og silungsveiði
  • Veiðifélag
  • Atkvæðisréttur
  • Lögbýli
  • Fasteignamat
  • Aðfinnslur


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999.

Nr. 263/1998.

Dánarbú Jakobs Jónssonar og

Þorleifur Jónsson

(Magnús Thoroddsen hrl.)

gegn

Þóri Guðmundssyni

Maríu Guðmundsdóttur

Daníel Jóni Guðmundssyni

Ásdísi Guðmundsdóttur

Auði Guðmundsdóttur

Hreiðari Vilhjálmssyni og

Magnúsi Jóhannessyni

(Karl Axelsson hrl.)

og til réttargæslu

Kolbeini Kristinssyni

Sigurjóni Helgasyni

Jóni Jónssyni og

íslenska ríkinu

Lax- og silungsveiði. Veiðifélag. Atkvæðisréttur. Lögbýli. Fasteignamat. Aðfinnslur.

Jörðin Litli-Langidalur var frá árinu 1932 talin til tveggja matshluta í fasteignamati, Litla-Langadal fremri og Litla-Langadal ytri. Í fasteignamati árið 1970 var jörðin þó metin sem einn hluti en því mati var breytt með millimati ári síðar. Eigandi Litla-Langadals, J, afsalaði bróður sínum Þ, Litla-Langadal fremri 1984. Veiðifélag hafði verið stofnað árið 1970 í kjölfar gildistöku laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Í veiðifélaginu reis upp ágreiningur um það hvort líta bæri á Litla-Langadal sem eitt eða tvö lögbýli og þar með hvort jörðinni bæri eitt eða tvö atkvæði í veiðifélaginu. Að virtri löggjöf um landbúnaðarmálefni þar sem hugtakið lögbýli var skilgreint var ekki talið að fasteignamat jarðar leiddi umsvifalaust til þess að litið yrði á hana sem lögbýli. Verðmat í fasteignamati væri aðeins einn þáttur þess að jörð yrði talin lögbýli í merkingu ábúðarlaga og laga um lax- og silungsveiði. Ekkert þótti fram komið um að Litli-Langidalur fremri hefði eftir 1941 fullnægt skilyrðum ábúðarlaga til þess að teljast lögbýli. A.m.k. hefðu J og Þ ekki sýnt fram á að svo hefði verið við stofnun veiðifélagsins árið 1970. Hefði Litli-Langidalur þannig verið eitt lögbýli, bæði í reynd og samkvæmt því fasteignamati, sem þá gilti. Tekið var fram að reglur um atkvæðisrétt í veiðifélagi væru ófrávíkjanlegar og engu skipti hvort félagar hefðu samþykkt aðra skipan á atkvæðisrétti. Þá þóttu málshöfðunarfrestir samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og jarðalögum ekki koma til álita við úrlausn málsins. Var niðurstaða héraðsdóms um að jörðinni Litla-Langadal bæri aðeins  eitt atkvæði staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 24. júní 1998. Þeir krefjast þess, að viðurkennt verði með dómi, að eyðijarðirnar Litli-Langidalur ytri og Litli-Langidalur fremri á Skógarströnd í Dalabyggð fari með sitt hvort atkvæðið í Veiðifélagi Stóra-Langadalsár og Setbergsár, hvort heldur er í félaginu sjálfu eða Setbergsárdeild þess. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Áfrýjandinn Jakob Jónsson lést 15. desember 1998 og hefur dánarbú hans tekið við aðild málsins.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Á hendur réttargæslustefndu eru engar kröfur gerðar og þeir gera engar kröfur.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð vottorð Hagstofu Íslands um lögheimili Jakobs og Þorleifs Jónssona frá árinu 1980 að telja og fasteignamat útihúss á jörðinni Litla-Langadal frá 20. ágúst 1969.

                                                    I.

Málavextir eru að mestu raktir í héraðsdómi en þar er sá galli á, að þeim er lýst af hendi hvors aðila um sig en ekki í samfelldu máli samkvæmt d-lið 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fram er komið, að Jón Bergmann Jónsson, faðir Jakobs heitins, áfrýjanda Þorleifs og réttargæslustefnda Jóns, eignaðist jörðina Litla-Langadal í Skógarstrandarhreppi með tveimur afsölum 1928 og 1941, hálfa jörð í hvort skipti. Hann afsalaði sonum sínum Jakobi og Jóni allri jörðinni 15. september 1952. Sá síðarnefndi afsalaði Jakobi bróður sínum hálfri jörðinni 30. desember 1953. Jakob afsalaði Þorleifi bróður sínum Litla-Langadal fremri 10. febrúar 1984, landi, útihúsum og helmingi veiðiréttinda, en íbúðarhúsi var ekki til að dreifa. Við þinglýsingu afsalsins 16. mars 1984 gerði sýslumaður þá athugasemd, að jörðin Litli-Langidalur fremri væri ekki til í þinglýsingarbókum embættisins og væri hinu afsalaða þinglýst sem eign afsalshafa úr jörðinni Litla-Langadal.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var Litli-Langidalur talin ein jörð, en skrásetning jarða í Skógarstrandarhreppi fór fram í september árið 1702. Svo var einnig í Nýrri jarðabók fyrir Ísland 1861 og enn í fasteignamatsbók 1922. Í fasteignamati 1. apríl 1932 var jörðinni hins vegar skipt í tvo matshluta, Litla-Langadal fremri og ytri. Var það gert að beiðni Jóns Bergmanns, sem þá átti hálfa jörðina, eins og að framan greinir, og mun hafa óttast stofnun veðskulda meðeiganda síns. Stóð svo í fasteignamati fram til ársins 1966, en þá var Litli-Langidalur fremri talinn hjáleiga Litla-Langadals. Í fasteignamati 1970 var jörðin metin sem einn matshluti, Litli-Langidalur. Verður ekki séð, að það mat hafi sætt kæru samkvæmt 2. mgr. 15. gr. þágildandi laga nr. 28/1963 um fasteignamat og fasteignaskráningu. Hins vegar fór að hvatningu Jakobs Jónssonar fram svonefnt millimat á jarðeigninni 20. apríl 1971 á grundvelli II. kafla laganna og voru matshlutar þá aftur taldir tveir á sama veg og áður. Ekki er annað fram komið en að Jakob hafi setið jörðina Litla-Langadal sem óskipta eignarjörð sína  frá 1953 og fram til 1979 að minnsta kosti, en óskýrt er af gögnum málsins og málflutningi, hvort búsetu var hætt þá eða á árinu 1986, tveimur árum eftir söluna til Þorleifs. Samkvæmt búsetuvottorðum Hagstofunnar átti Jakob lögheimili á jörðinni Litla-Langadal 1980 og 1983 til 1986 og Þorleifur átti lögheimili þar 1980 til 1986.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir Veiðifélagi Stóra-Langadalsár á Skógarströnd, sbr. samþykkt nr. 187/1950, og Veiðifélagi Stóra-Langadalsár og Setbergsár, sem stofnað var til 10. nóvember 1970 í kjölfar nýrra laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970. Drög að samþykktum fyrir veiðifélagið voru samþykkt á stofnfundinum en ekki staðfest af landbúnaðarráðherra fyrr en 30. janúar 1975 og gefin út sem samþykkt nr. 36/1975. Þar eru Litli-Langidalur ytri og Litli-Langidalur fremri taldar meðal þeirra jarða, er félagið nái til. Á stofnfundinum hafði aðeins verið gert ráð fyrir Litla-Langadal en á aðalfundi í veiðifélaginu 24. apríl 1971 var bókað, að þau mistök hefðu þá orðið, að ekki hefði verið tekið fram, að jörðin Litli-Langidalur væri tvö lögbýli samkvæmt fasteignamati. Var samþykkt samhljóða, “að ofangreind jörð verði með einu atkvæði hvor fyrir sig.”

II.

 Í 1. gr. vatnalaga nr. 15/1923 er landareign skilgreind svo í merkingu laganna, að þar sé átt við land lögbýlis og lóð og lönd innan takmarka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða. Í XIII. kafla laganna voru almenn ákvæði um veiði í vötnum og var hún að meginstefnu bundin við landareignir. Samkvæmt 2. mgr. 123. gr. var öllum heimil veiði í vötnum í afréttum og almenningum og öðrum lendum utan landareigna lögbýla, enda gæti enginn sannað einstaklingsréttar heimild til þeirra.

Þessi kafli vatnalaganna var felldur úr gildi með fyrstu lögunum um lax- og silungsveiði nr. 61/1932. Í IX. kafla þeirra laga var fjallað um veiðifélög. Í 2. mgr. 59. gr. laganna sagði, að kveðja skyldi til fundar ábúendur allra jarða á fyrirhuguðu félagssvæði, ef  stofna ætti félag við vatn eða vötn, sem veiði væri í. Um atkvæðisrétt á slíkum fundi sagði í 2. mgr. 60. gr., að hann hefðu allir þeir, sem til fundar skyldi boða samkvæmt 59. gr. Í næstu lögum um lax- og silungsveiði nr. 112/1941 voru sams konar ákvæði í 2. mgr. 60. gr. og 2. mgr. 61. gr. Enn sagði í 2. mgr. 65. gr. næstu laga um lax- og silungsveiði nr. 53/1957, að kveðja skyldi ábúendur jarða til fundar um stofnun veiðifélags. Í 2. mgr. 66. gr. var svo kveðið á, að á slíkum fundi og öðrum færi þannig um atkvæðisrétt, að ábúandi hvers lögbýlis, sem metið væri til verðs í gildandi fasteignamati, skyldi hafa eitt atkvæði. Ef maður byggi á fleiri en einni jörð, hefði hann eitt atkvæði. Hið sama gilti um eigendur eyðijarða. Væru ábúendur lögbýlis og eigendur eyðijarðar fleiri en einn, skyldu þeir gera með sér skriflegan samning um það, hver færi með atkvæðisrétt jarðarinnar. Í núgildandi 2. mgr. 48. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970 er samhljóða ákvæði um atkvæðisrétt á fundum í veiðifélagi með einni breytingu, sem gerð hafði verið með lögum nr. 38/1970, er tóku gildi 27. maí 1970, um breytingu á lögum nr. 53/1957, en meginmál breytingarlaganna var fellt inn í síðargreindu lögin og þau gefin út sem lög nr. 76/1970. Breytingin fólst í því, að atkvæðisréttur ábúanda skyldi miðast við lögbýli, sem metið væri til verðs í gildandi fasteignamati “við gildistöku laga þessara.” Í greinargerð með frumvarpi til breytingarlaganna var þetta ákvæði skýrt svo, að það ætti að girða fyrir, að lögbýlum væri skipt í þeim tilgangi að afla atkvæðisréttar í veiðifélögum.  

Af framansögðu er ljóst, að skipan veiðimála hér á landi hefur um langan aldur verið tengd ábúð á lögbýlum. Af því leiðir, að við skýringu ákvæða um atkvæðisrétt í veiðifélögum samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði verður að líta til löggjafar um landbúnaðarmálefni, þar sem hugtakið lögbýli er skilgreint.

III.

Í lögum nr. 1/1884 um bygging, ábúð og úttekt jarða var fjallað um jarðir en lögbýli ekki nefnd. Jarðir voru ekki skilgreindar sérstaklega en þó var tiltekið í 3. gr., að í byggingarbréfi skyldi greina landamerki jarða og geta þeirra ítaka, er hún ætti í annarra manna lönd. Í 1. gr. ábúðarlaga nr. 87/1933 sagði, að jörð nefndist í lögum þessum hvert það býli, heimajörð eða hjáleiga utan kaupstaða eða kauptúna, sem metið væri sérstaklega til verðs samkvæmt fasteignamati, enda framfleytti býlið 9 kúgildum í minnsta lagi eða landverð þess að fasteignamati væri 1000 krónur hið minnsta. Sömu skilgreiningu á jörð var að finna í 1. gr. ábúðarlaga nr. 8/1951. Í 1. gr. ábúðarlaga nr. 36/1961, sem í gildi voru við gildistöku núgildandi laga um lax- og silungsveiði, var skilgreiningin nokkuð önnur en áður hafði verið. Þar sagði meðal annars, að jörð eða lögbýli nefndist í lögum þessum land utan skipulagssvæða kaupstaða eða kauptúna með ákveðnum þinglýstum landamerkjum eða með ákveðnum tún- og engjamerkjum, ef um hjáleigu eða býli væri að ræða, er hefði sameiginlegt beitiland með annarri jörð eða jörðum. Ennfremur yrði býlið að hafa það landrými eða búrekstraraðstöðu, að það framfleytti minnst 10 kúgildum. Auk þess skyldi vera á landinu nauðsynlegur húsakostur. Jörð, sem farin væri í eyði og öll hús á henni fallin eða rifin, teldist þó eftir sem áður jörð eða lögbýli, þar til liðin væru 25 ár frá því, að hún fór síðast í eyði. Í þessum lögum kom fyrst fram áskilnaður um nauðsynlegan húsakost en ekki var minnst á fasteignamat. Í 1. gr. núgildandi ábúðarlaga nr. 64/1976 er sama skilgreining á jörð eða lögbýli og í fyrri lögum að því undanskildu, að ekki er gerð krafa um þinglýsingu landamerkja, og áskilnaður um verðmat í fasteignamati er að nýju tekinn upp. Þá er fellt niður það tímamark, er eyðijarðir geti talist lögbýli.

Samkvæmt framansögðu er það nú hugtaksatriði við skilgreiningu lögbýlis, að jörð sé nýtileg til landbúnaðarnota og framfærslu að tilteknu marki, sé verðmetin í fasteignamati, með tilgreind og ákveðin merki og nauðsynlegan húsakost.

IV.

 Með lögum um fasteignamat nr. 22/1915, er námu úr gildi tilskipun 1. apríl 1861 um löggildingu nýrrar jarðabókar fyrir Ísland, var kveðið svo á í 1. gr., að allar jarðeignir, lóðir og hús á landinu skyldi meta til peningaverðs tíunda hvert ár. Í 4. gr. laganna sagði, að við matið skyldi hver jörð, sem hefði sérstök bæjarhús og afskipt tún og engi, metin út af fyrir sig, hvort sem jörðin hefði áður talist lögbýli eða hjáleiga. Með lögum nr. 41/1931 um breyting á lögum nr. 22/1915 var ákveðið, að nýtt fasteignamat skyldi gert. Skyldi fasteignamatsbók um það gilda frá 1. apríl 1932. Við þetta mat var jörðin Litli-Langidalur fyrst metin sem tveir matshlutar, eins og áður var nefnt. Sambærilegt ákvæði og í 4. gr. laga nr. 22/1915 var að finna í 4. gr. laga nr. 3/1938 um fasteignamat. Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 28/1963 um fasteignamat og fasteignaskráningu, sem í gildi voru við gildistöku núgildandi laga um lax- og silungsveiði, var enn ákvæði með svipuðu sniði. Þar sagði, að við matið skyldi hver jörð, sem hefði sérstök bæjarhús og afskipt tún og engi, metin sér til verðs, hvort sem hún teldist lögbýli eða eigi og hvort sem hún væri býli byggt úr landi annarrar jarðar eða eigi. Í 2. gr. núgildandi laga nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna segir, að fasteign samkvæmt lögunum teljist annaðhvort vera land, þ.e. hver sá skiki lands sem vegna sérgreinds eignar- eða afnotaréttar, hagnýtingar, auðkenna eða landamerkja getur talist sjálfstæð eind, eða mannvirki, þ.e. hvert það mannvirki sem gert hefur verið í landi eða á eða verið við það tengt, með hliðsjón af þeim rétti til lands sem mannvirkinu fylgir.

Af þeim lögum, sem gilt hafa um ábúð jarða og fasteignamat og skráningu fasteigna á þessari öld er ljóst, að fasteignamat jarðar leiðir ekki umsvifalaust til þess, að litið verði á hana sem lögbýli. Verðmat í fasteignamati er einungis einn þáttur þess, að jörð verði talin lögbýli í merkingu ábúðarlaga og laga um lax- og silungsveiði, og hefur þess þó ekki alltaf verið krafist samkvæmt fyrrgreindu lögunum, eins og áður er fram komið.

V.

Af gögnum málsins verður ráðið, að í reynd hafi lengstum verið litið á jörðina Litla-Langadal sem eina jörð og eitt lögbýli, að minnsta kosti frá 1941, er Jón Bergmann Jónsson eignaðist alla jörðina, og fram til 1984, er Jakob Jónsson seldi áfrýjanda Þorleifi bróður sínum hluta hennar. Í afsalinu til Jóns Bergmanns 1941 er talað um hálfa jörðina og aftur í afsali 1953, er réttargæslustefndi Jón Jónsson seldi Jakobi bróður sínum sinn eignarhluta. Engin gögn liggja fyrir um það, að jörðinni hafi nokkru sinni verið skipt með lögformlegum hætti utan þess, að hún er fyrst skráð sem tveir matshlutar í fasteignamati 1932. Á Litla-Langadal fremri hefur ekki verið nothæft íbúðarhús um áratugaskeið, en í fyrirliggjandi fasteignabókum frá 1932 og 1938 er tilgreint, að torfbær sé á þessum matshluta jarðarinnar. Engin gögn benda til þess, að nokkur hafi átt lögheimili á þessum hluta sérstaklega, eftir að Jón Bergmann varð eigandi allrar jarðarinnar. Ekkert er fram komið um það, að Litli-Langidalur fremri hafi eftir 1941 fullnægt skilyrðum ábúðarlaga til að teljast lögbýli, svo sem um merki, búrekstraraðstöðu og húsakost. Áfrýjendur hafa að minnsta kosti ekki sýnt fram á, að svo hafi verið í gildistíð ábúðarlaga nr. 36/1961, sem voru í gildi við stofnun Veiðifélags Stóra-Langadalsár og Setbergsár 10. nóvember 1970

Við gildistöku núgildandi laga um lax- og silungsveiði á árinu 1970 var jörðin Litli-Langidalur þannig eitt lögbýli bæði í reynd og samkvæmt því fasteignamati, sem þá gilti. Í 104. gr. laga nr. 76/1970, sbr. nú lög nr. 63/1994, er sagt, að veiðifélag, sem löglega hefur verið stofnað til eftir eldri lögum, skuli haldast, en breyta skuli samþykktum þess samkvæmt 1. og 2. mgr. 49. gr. laganna. Þar segir meðal annars, að í samþykkt félags skuli vera ákvæði um félagssvæði, þar sem taldar skuli allar þær jarðir, sem eru á félagssvæðinu. Þessi tilgreining kemur fram í samþykkt nr. 36/1975 fyrir Veiðifélag Stóra-Langadalsár og Setbergsár, þar sem jarðirnar Litli-Langidalur ytri og Litli-Langidalur fremri eru nefndar meðal jarða, sem félagið nái til. Þetta segir þó ekkert um atkvæðisrétt í veiðifélagi, en fyrirmæli um hann eru lögbundin í 2. mgr. 48. gr. laga nr. 76/1970. Samkvæmt því ákvæði fer ábúandi hvers lögbýlis með eitt atkvæði og fær hann ekki aukið atkvæðamagn, þótt hann búi á fleiri en einni jörð. Kemur þá heldur ekki til álita, að atkvæðisrétturinn aukist við það, að ein eða fleiri þessara jarða fari í eyði. Ákvæði lax- og silungsveiðilaga um atkvæðisrétt eru ófrávíkjanleg og skiptir þá engu, hvort félagar í veiðifélagi hafi áður samþykkt, að einhver þeirra skyldi njóta betri réttar en áskilinn er í lögunum.

Samkvæmt öllu framansögðu voru engin skilyrði til þess að lögum á árinu 1970 eða síðar, að ábúandi lögbýlisins Litli-Langidalur færi með tvö atkvæði í Veiðifélagi Stóra-Langadalsár og Setbergsár. Síðari ráðstöfun Jakobs Jónssonar á hluta jarðarinnar til áfrýjanda Þorleifs gat engu breytt um þetta og ekki fengið honum sérstakan atkvæðisrétt í hendur. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um efni málsins. Af því leiðir, að málshöfðunarfrestir samkvæmt 53. gr. laga nr. 76/1970 og 33. gr. jarðalaga nr. 65/1976 koma ekki til álita við úrlausn málsins.

Með hliðsjón af afstöðu aðalfundar í veiðifélaginu 24. apríl 1971 til atkvæðisréttar vegna Litla-Langadals og þess langa tíma, er síðan leið fram að höfðun þessa máls, þykir rétt að láta málskostnað í héraði falla niður. Áfrýjendur skulu greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Það athugast, að héraðsdómari tók ekki með skýrum hætti afstöðu til málsástæðna áfrýjenda, er lutu að málshöfðunarfrestum. Úrlausn héraðsdómara verður þó skilin á þann veg, að þeir hafi ekki þótt standa rekstri málsins í vegi.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Áfrýjendur, dánarbú Jakobs Jónssonar og Þorleifur Jónsson, greiði óskipt stefndu, Þóri Guðmundssyni, Maríu Guðmundsdóttur, Daníel Jóni Guðmundssyni, Ásdísi Guðmundsdóttur, Auði Guðmundsdóttur, Hreiðari Vilhjálmssyni og Magnúsi Jóhannessyni, samtals 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. apríl sl., er höfðað með stefnu þingfestri 26. júní 1997 og sakaukastefnu þingfestri 18. september 1997 af Þóri Guðmundssyni, Brekkubæ 33, Reykjavík, Maríu Guðmundsdóttur, Gunnlaugsgötu 8, Borgarnesi, Daníel Jóni Guðmundssyni, Silfurgötu 34, Stykkishólmi, Ásdísi Guðmundsdóttur, Sogavegi 196, Reykjavík, Auði Guðmundsdóttur, Hraunbæ 188, Reykjavík, Hreiðari Vilhjálmssyni, Narfeyri, Skógarstrandarhreppi, Snæfellsnessýslu og Magnúsi Jónhannessyni, Ytra-Leiti, Skógarstrandarhreppi, Snæfellsnessýslu gegn Jakobi Jónssyni og Þorleifi Jónssyni, báðum til heimilis að Skúlagötu 40a, Reykjavík.

Þá er stefnt til réttargæslu Kolbeini Kristinssyni, Haukabrekku, Skógarstrandarhreppi, Snæfellsnessýslu, Gyðu Ólöfu Guðmundsdóttur, sama stað Sigurjóni Helgasyni, Stóra Langadal, Skógarstrandarhreppi, Snæfellsnessýslu, Jóni Jónssyni, Setbergi, Skógarstrandarhreppi, Snæfellsnessýslu og íslenska ríkinu.

Dómkröfur.

Stefnendur gera þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að fyrir jörðina Litla-Langadal, Skógarstrandarhreppi, Snæfellsnessýslu sé farið með eitt atkvæði í Veiðifélagi Stóra-Langadalsár og Setbergsár, hvort heldur er í félaginu sjálfu eða Setbergsárdeild þess.

Þá gera stefnendur þá kröfu að stefndu greiði stefnendum málskostnað að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu.

Af hálfu stefndu, Jakobs Jónssonar og Þorleifs Jónssonar, eru gerðar þær kröfur að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnenda og krefjast þeir jafnframt málskostnaðar in solidum úr þeirra hendi, þar með talinn 24,5% virðisaukaskattur á málflutningsþóknun skv. lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 með síðari breytingum, þar eð stefndu eru ekki virðisaukaskattskyldir en þurfa að greiða lögmanni sínum virðisaukaskatt á málflutningsþóknun, sbr. framlagðan málskostnaðarreikning.

Réttargæslustefndi, Jón Jónsson, styður kröfur stefndu og tekur undir málsástæður þeirra hér á eftir. Hann krefst málskostnaðar úr hendi stefnenda á sama veg og stefndu.

Málsástæður og lagarök

Stefnendur lýsa málavöxtum svo að málsaðilar séu félagar í Veiðifélagi Stóra-Langadalsár og Setbergsár í Skógar­strandar­hreppi í Snæfellsnessýslu, sem starfi í tveimur deildum, annars vegar Setbergsárdeild og hins vegar Stóra-Langadalsárdeild, sbr. 4. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Stóra-Langadalsár og Setbergsár, nr. 36/1975. Setbergsá og Stóra-Langadalsá mætist í ármótum og eigi sameiginlegan ós sem kallist Ósá.

Í Setbergsárdeild séu eftirtaldar jarðir og sé hlutur þeirra, samkvæmt nýjustu arðskrá frá 27. maí 1991, eftirfarandi: Ós (stefnendurnir séu Þórir Guðmundsson, María Guðmundsdóttir, Daníel Jón Guðmundsson, Ásdís Guðmundsdóttir og Auður Guðmundsdóttir eigendur) 281 eining, Narfeyri (stefnandinn Heiðar Vilhjálmsson eigandi), 75 einingar, Klungurbrekka (stefnandinn Maganús Jóhannesson eigandi), 319 einingar, Setberg (ríkisjörð í ábúð réttargæslustefnda Jóns Jónssonar), 125 einingar og Litli-Langidalur (stefndi Jakob Jónsson eigandi), 200 einingar eða samtals 1000 einingar.

Í Stóra-Langadalsárdeild séu eftirtaldar jarðir og sé hlutur þeirra eftirfarandi: Ós, 75 einingar, Klungurbrekka, 74 einingar, Haukabrekka (eign réttargæslustefnda Kolbeins Kristinssonar), 288 einingar, Ytra-Leiti (stefnandinn Magnús Jóhannesson eigandi), 73 einingar, Narfeyri, 86 einingar og Stóri-Langidalur og Klettaholt (eign réttargæslustefnda Sigurjóns Helgasonar), 404 einingar eða samtals 1000 einingar.

Ágreiningur sá sem hér sé stefnt út af snúist um atkvæðisrétt innan veiðifélagsins og þá fyrst og fremst innan Setbergsárdeildar þess. Stefnendur, eigendur jarðanna Óss, Narfeyrar og Klungurbrekku, mótmæli þeim skilningi stefndu að jörðin Litli-Langidalur fari með tvö atkvæði í veiðifélaginu og krefjist viðurkenningardóms þar að lútandi.

Um forsögu málsins sé eftirfarandi að segja: Samkvæmt veðmálabókum Snæfellsnessýslu hafi Jón Bergmann Jónsson eignast helming jarðarinnar Litla-Langadals þann 23. maí 1928. Þann 8. september 1941 hafi sami Jón svo eignast hinn helming jarðarinnar. Hafi Jón verið faðir stefndu og réttargæslustefnda Jóns Jónssonar. Með afsali 15. september 1952 hafi nefndur Jón síðan afsalað allri jörðinni til sona sinna, Jakobs og Jóns. Í árslok 1953 hafi stefndi Jakob Jónsson síðan einn orðið löglegur eigandi jarðarinnar Litla-Langadals, er bróðir hans og þá meðeigandi að jörðinni, réttargæslustefndi Jón Jónsson, hafi afsalað sínum hluta jarðarinnar til Jakobs með afsali 30. desember 1953. Í þeim afsölum sem þessi eigendaskipti varði sé einungis getið um jörðina Litla-Langadal en hún ekki sérgreind í Litla-Langadal ytri og fremri.

Samkvæmt gildandi fasteignamati 1970 hafi jörðin Litli-Langidalur verið skráð sem ein fasteign og sé eigandi hennar og ábúandi, samkvæmt matinu, stefndi Jakob Jónsson.

Eftir setningu nýrra veiðilaga árið 1970 hafi verið stofnað sérstaklega til Veiðifélags Stóra-Langadalsár og Setbergsár, en áður hafi verið starfrækt veiðifélag Stóra-Langadalsár, sbr. samþykkt nr. 187/1950. Á fyrsta fundi sameiginlega veiðifélagsins þann 10. nóvember 1970 hafi verið lögð fram drög að samþykktum fyrir veiðifélagið og þær samþykktar. Hvorki þar né í fundargerðinni sé gert ráð fyrir jörðinni Litla-Langadal öðruvísi en sem einu lögbýli undir einu heiti. Þann 20. apríl 1971 hafi millimatsmenn Skógarstrandarhrepps hins vegar staðfest breytingu á fasteignamati jarðarinnar. Í bréfi matsmanna segi m.a. að stefndi Jakob Jónsson, eigandi Litla-Langadals, hafi hvatt þá til þess að „... gera þá breytingu á hinu nýja mati á jörðinni Litla-Langadal (ytri) að hluti af matsverði þeirrar jarðar færðist á jörðina Litla-Langadal (fremri) sem ekki er tekin með sem sér jörð af því fasteignamati sem nú þegar tekur gildi.“

Niðurstaða matsmanna hafi orðið sú að Litli-Langidalur yrði metinn á 605.000 kr. og Litli-Langidalur fremri á 325.000 kr.

Á fundi í veiðifélaginu skömmu síðar, eða þann 24. apríl 1971, hafi verið bókuð athugasemd þess efnis að jörðin Litli-Langidalur sé tvö lögbýli og eigi því rétt á tveimur atkvæðum í stjórn veiðifélagsins. Sé bókað að aðrir fundarmenn hafi á það fallist og næstu árin virðist hafa verið farið með tvö atkvæði fyrir jörðina Litla-Langadal á fundum veiðifélagsins.

Á árinu 1972 hafi verið samþykkt að deildarskipta félaginu, þ.e. í Setbergsárdeild annars vegar en Stóra-Langadalsárdeild hins vegar. Hins vegar hafi ekki verið gengið formlega frá deildarskiptingu og samþykktum fyrir veiðifélagið fyrr en síðar og þær staðfestar af landbúnaðarráðherra árið 1975. Séu það gildandi samþykktir veiðifélagsins. Þar eru tilgreindar allar þær jarðir sem hlut eigi í ánum en ekki hvaða jarðir eigi hlut í hvorri deild, þótt fram komi í arðskrám hver hlutur hverrar jarðar raunverulega sé, í hvorri á.

Ágreiningur hafi þó fljótlega komið upp um atkvæðisrétt Litla-Langadals og á aðalfundi veiðifélagsins þann 16. júní 1982 hafi stefnandinn Þórir Guðmundsson gert athugasemd við skiptingu atkvæða innan veiðifélagsins og hafi lagt fram gögn þess efnis að skv. þinglýsingabók væri jörðin Litli-Langidalur eingöngu til sem ein jörð og eitt lögbýli og eigandi hennar væri einn og sami aðilinn, stefndi Jakob Jónsson. Hafi Þórir óskað eftir því að fundurinn tæki afstöðu til málsins. Það hafi hins vegar ekki verið gert, að ósk formanns veiðifélagsins.

Með bréfi dags. 9. ágúst 1982 hafi aðstandendur jarðanna Óss, Narfeyrar og Klungurbrekku óskað eftir því við Veiðimálanefnd að hún úrskurðaði um hvort jörðinni Litla-Langadal bæri eitt eða tvö atkvæði á fundum félagsins. Erindinu hafi verið svarað með bréfi 19. desember 1983. Í bréfi Veiðimálanefndar segi m.a. að „ágreiningur um atkvæðisrétt snýst því um hvort önnur jörðin sé eyðijörð eða að báðar jarðirnar séu eyðijarðir“ og vitni þar til bréfs Landnáms ríkisins frá 1. september 1982. Niðurstaða Veiðimálanefndar hafi orðið sú að eiganda Litla-Langadals ytri og fremri, sem væri einn og sami maðurinn, stefndi Jakob Jónsson, bæri eitt atkvæði á fundum veiðifélagsins. Í bréfinu hafi hins vegar verið tekið fram að hvorki Veiðimálanefnd né veiðimálastjóri hefðu dómsvald í þessum efnum.

Landbúnaðarráðuneytið hafi skráð bústofn í Skógarstrandarhreppi fardagaárið 1983-1984. Þar hafi Litli-Langidalur fremri og ytri verið sagðir í eyði frá 1979 og í eigu stefnda Jakobs Jónssonar. Bústofn Litla-Langadals fremri hafi enginn verið en samkvæmt upplýsingum Jakobs sjálfs hafi hann nytjað jörðina og átt þar lögheimili. Samkvæmt tilvitnuðu bréfi Landnáms ríkisins frá 1. september 1982 muni íbúðarhús hins vegar aldrei hafa verið byggt á Litla-Langadal fremri og því enginn getað átt þar lögheimili. Um Litla-Langadal ytri sé haft eftir Jakobi að stefndi Þorleifur Jónsson, bróðir hans, nytji jörðina og telji Jakob að Þorleifur eigi þar lögheimili.

Þann 10. febrúar 1984 hafi stefndi Jakob Jónsson afsalað stefnda, Þorleifi, bróður sínum, svokölluðum Litla-Langadal fremri. Í umræddu afsali séu eignir Litla-Langadals fremri taldar vera lönd og útihús. Afsalinu hafi verið þinglýst hjá sýslumanni Snæfells- og Hnappadals­sýslu, þann 16. mars 1984 og hafi sýslumaðurinn skráð á afsalið eftirfarandi athugasemd: „Jörðin Litli-Langidalur fremri (undirstrikum sýslumanns) ekki til í þinglýsingarbókum embættisins. Afsalsgjafi þinglýstur eigandi að Litla-Langadal, Skógarstrandarhreppi og eiga tilgreindar áhvílandi veðskuldir við jörðina Litla-Langadal. Hinu afsalaða er þinglýst sem eign afsalshafa úr jörðinni Litla-Langadal, Skógarstrandarhreppi.“

Aðstandendur Óss, Narfeyrar og Klungurbrekku hafi í framhaldinu ritað Jarðarnefnd Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu bréf, dags. 30. maí 1994, og hafi óskað eftir að hún tæki afstöðu til framangreindrar ráðstöfunar. Jarðanefndin hafi svarað með bréfi dags. 4. júlí 1984 og hafi talið að ekki hefði verið farið að lögum við umrædda sölu. Jarðanefnd myndi ekki samþykkja þessa ráðstöfun á umræddum hluta jarðarinnar, enda ekki verið beðin um samþykki fyrir henni. Þá sé í þessu sambandi rétt að benda á að samkvæmt þinglýsingarvottorði, útgefnu af sýslumanninum í Stykkishólmi þann 4. desember 1996, megi sjá að Litli-Langidalur sé einungis til sem ein jörð og eigandi hennar samkvæmt vottorðinu, stefndi Jakob Jónsson.

Í arðskrám frá 1982 og 1991 sé jörðinni Litla-Langadal ekki skipt í tvo hluta, heldur fái jörðin greiðslu sem ein heild í Setbergsárdeild veiðifélagsins. Þó sé þar talað um Litla-Langadal ytri og fremri. Sýnist ástæður þess einfaldlega vera þær að slík skipting sé ekki möguleg þar sem jörðinni hafi aldrei verið skipt og engin landamerki því til.

Á aðalfundi veiðifélagsins þann 18. júní 1989 og framhaldsaðalfundi þann 24. júlí 1989 hafi verið lögð fram tillaga um að hætta deildarskiptingu félagsins. Ekki hafi náðst tilskilinn meirihluti (2/3 hlutar greiddra atkvæða) fyrir þeirri tillögu og sé veiðifélagið því enn deildarskipt.

Eftir standi því að Veiðifélag Stóra-Langadalsár og Setbergsár í Skógarstrandar­hreppi sé enn deildarskipt veiðifélag og deili aðilar um það hvort Litla-Langadal beri eitt eða tvö atkvæði á fundum félagsins sjálfs, svo og í Setbergsárdeild þess. Vegna þessa ósættis hafi Setbergsárdeild veiðifélagsins verið nánast óstarfhæf í áratug. Atkvæðagreiðsla á fundum félagsins standi alltaf á jöfnu, þar sem réttargæslustefndi, Jón Jónsson, ábúandi á Setbergi sé bróðir stefndu og skipi sér í sveit með þeim í deilumáli þessu. Fundir hafi ekki verið haldnir í mörg ár, ræktunarstarf í ánni hafi fallið niður, veiði hafi minnkað svo mikið í ánni frá því sem var fyrir 10 árum að nokkur undanfarin ár hafi reynst erfitt að fá tilboð í útleigu árinnar o.s.frv.

Með bréfi, dags. 25. september 1996, hafi stefnendur máls þessa óskað eftir áliti Karls Axelssonar lögmanns á framangreindu álitaefni. Í álitsgerð, dags. 22. október 1996, hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að jörðin Litli-Langidalur færi einungis með eitt atkvæði í veiðifélaginu. Með bréfi, dags. 29. október 1996, hafi stefnendur kynnt stefndu, Jakobi og Þorleifi Jónssonum, niðurstöðu álitsgerðarinnar. Með bréfi lögmanns stefndu, dags. 14. nóvember 1996, hafi stefnendum verið tilkynnt að ekki sé fallist á niðurstöðu framangreindrar álitsgerðar. Hafi síðan gengið á nokkrum bréfaskiptum með aðilum, síðast bréfi lögmanns stefndu, dags. 12. febrúar 1997, þar sem sú fyrri afstaða sé enn ítrekuð, að jörðinni Litla-Langadal beri tvö atkvæði í veiðifélaginu.

Sé af þessu ljóst að nauðsyn hafi borið til að höfða mál þetta til að leysa úr umræddum réttarágreiningi.

Stefndu lýsa málavöxtum svo að með afsali undirrituðu 23. maí 1928 hafi Jón Bergmann Jónsson, faðir stefndu, eignast helming jarðarinnar Litla-Langadals í Skógarstrandarhreppi. Hinn 8. september 1941 hafi sá sami Jón Bergmann eignast hinn helming jarðarinnar. Jón Bergmann hafi, meðan hann var eigandi helmings jarðarinnar, óskað eftir því að jörðinni yrði skipt og hún metin sem tvær jarðir í fasteignamati, þar sem honum hafi ekki litist á hvernig meðeigandi hans hafi stofnað til veðskulda á jörðinni. Hafi þetta verið gert og í fasteignamatinu, er tók gildi 1. apríl 1932, (N.B. lögin um lax- og silungsveiði nr. 61/1932 tóku gildi 1. janúar 1933), sé jörðin metin í tvennu lagi sem Litli-Langidalur fremri (7) og Litli-Langidalur ytri (8), sbr. dskj. nr. 33, bls. 2.

Á sama veg hafi jarðirnar verið metnar í fasteignabók 1942, 1973 og 1993-94, og sé svo enn. Stefndu hafi aldrei beðið um að jarðirnar yrðu sameinaðar og séu þær metnar í einu lagi. Matsmenn á vegum Fasteignamats ríkisins hafi enga heimild til þess að meta jarðirnar í einu lagi af sjálfsdáðum.

Með afsali 15. september 1952 hafi Jón Bergmann afsalað allri upphaflegu jörðinni, Litla-Langadal, til sona sinna, þeirra Jakobs og Jóns. Jón hafi síðan selt Jakobi sinn hluta með afsali útgefnu 30. desember 1953.

Á aðalfundi í Veiðifélagi Stóru-Langadalsár og Setbergsár, sem haldinn hafi verið 24. apríl 1971, sé bókað undir 2. tl., sbr. dskj. nr. 9: „Sú mistök urðu á síðasta aðalfundi að ekki var tekið fram að jörðin Litli-Langidalur eru tvö lögbýli í núverandi mati. Var þessu breytt og samþykkt samhljóða að ofangreind jörð verði með einu atkvæði hvor fyrir sig.“

Hinn 24. janúar 1975 hafi landbúnaðarráðherra staðfest samþykktir fyrir Veiðifélag Stóru-Langadalsár og Setbergsár. Í 2. gr. samþykktanna séu taldar upp þær jarðir er eigi land að ánum, alls 10 jarðir, þar á meðal Litli-Langidalur ytri og Litli-Langidalur fremri. Í samræmi við þetta hafi þessi lögbýli farið með sitt atkvæðið hvort í veiðifélaginu, eins og aðrar jarðir sem upp séu taldar í 2. gr. samþykktanna.

Með afsali undirrituðu 10. febrúar 1984 hafi stefndi Jakob selt stefnda Þorleifi jörðina Litla-Langadal fremri til fullrar eignar og umráða. Þetta hafi Jakob tilkynnt stjórn veiðifélagsins með bréfi dags. 23. maí 1984 og jafnframt að hér eftir færi Þorleifur með atkvæði í veiðifélaginu fyrir þá jörð, en Jakob áfram með atkvæði fyrir Litla-Langadal ytri.

Framangreindu afsali til Þorleifs hafi verið þinglýst hjá sýslumanni Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu hinn 16. mars 1984 með eftirfarandi athugasemd: „Jörðin Litli-Langidalur Fremri ekki til í þinglýsingarbókum embættisins. Afsalsgjafi þinglýstur eigandi að Litla-Langadal, Skógarstrandarhreppi og eiga tilgreindar áhvílandi veðskuldir við jörðina Litla-Langadal. Hinu afsalaða er þinglýst sem eign afsalshafa úr jörðinni Litla-Langadal, Skógarstrandarhreppi.“

Málsástæður stefnenda og lagarök

Stefnendur kveða viðurkenningarkröfu sína byggða á því, í fyrsta lagi, að þann 25. júní 1970 hafi eldri lög um lax- og silungsveiði nr. 53/1957 verið sameinuð breytingarlögum nr. 38/1970 og endurútgefin sem lög nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Í kjölfar þessa hafi orðið til nýtt sameinað veiðifélag um Stóra-Langadalsá og Setbergsá. Í 2. mgr. 48. gr. laga nr. 76/1970, sbr. 65. gr. laga nr. 38/1970, segi svo um atkvæðisrétt eigenda og/eða ábúenda einstakra jarða á fundum veiðifélags:

Ábúandi hvers lögbýlis, sem metið er til verðs í gildandi fasteignamati við gildistöku laga þessara, skal hafa eitt atkvæði. Nú býr maður á fleiri en einni jörð og hefur hann þá eitt atkvæði. Nú er jörð í eyði og hefur eigandi hennar eitt atkvæði. Nú eru ábúendur lögbýlis eða eigendur eyðijarðar fleiri en einn og skulu þeir gera með sér skriflegan samning um hver fari með atkvæðisrétt jarðarinnar. Fela má öðrum að fara með atkvæði enda sé umboð skriflegt og eigi eldra en þriggja mánaða og þess getið í fundabók.

Með lögtöku þessa ákvæðis hafi sú breyting orðið frá sambærilegu ákvæði í 66. gr. eldri laga nr. 53/1957 að miðað sé við gildandi fasteignamat við gildistöku laganna. Við gildistöku breytingalaganna í maí 1970, hafi því verið komið í veg fyrir þann möguleika að hægt væri að skipta jörðunum upp í þeim tilgangi að öðlast aukinn atkvæðisrétt í veiðifélagi. Við gildistöku laganna sé ótvírætt að Jakob Jónsson var einn eigandi og ábúandi jarðarinnar Litla-Langadals, sem samkvæmt fasteignamati á þeim tíma var metin til verðs sem eitt lögbýli, og hafi raunar verið frá því fyrir gildistöku lax- og silungsveiðilaganna frá 1957, sbr. fyrrnefndar upplýsingar úr veðmálabók. Samkvæmt skýru og fortakslausu orðalagi 2. mgr. 48. gr. laganna beri að miða ákvörðun um atkvæðisrétt einstakra jarða við stöðu mála við gildistöku laganna. Samkvæmt því og þegar af þeirri ástæðu sé það ótvírætt að jörðin Litli-Langidalur í heild, þ.m.t. fremri og ytri, kjósi menn að viðhafa slíka skiptingu, hafi frá þeim tíma borið eitt atkvæði við allar ákvarðanatökur innan veiðifélagsins, sbr. 2. mgr. 48. gr. lax-og silungs­veiðilaganna. Staðfesting matsmanna Skógarstrandarhrepps frá 20. apríl 1971 um breytingu á aðalmati jarðarinnar Litla-Langadals, samkvæmt II. kafla l. nr. 28/1963 um fasteignamat og fasteignaskráningu, hafi farið fram eftir gildistöku laganna og hafi því samkvæmt framangreindu enga þýðingu í málinu. Þá skuli sérstaklega tekið fram að viljayfirlýsingar annarra félagsmanna eða fundarsamþykktir veiðifélagsins fyrir öðru og auknu atkvæðavægi einstakra jarða, eigenda þeirra eða ábúenda hafi auðvitað enga þýðingu, enda sé regla 2. mgr. 48. gr. fortakslaus og ófrávíkjanleg, einkum með vísan til þess að um skylduaðildarfélag sé að ræða. Sé því alveg ljóst að meirihluti, einfaldur eða aukinn, geti ekki ákveðið aðra skipan mála en fortakslaus lagaákvæði geri ráð fyrir.

Verði hins vegar talið, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 48. gr., að túlkun atkvæðavægis einstakra jarða samkvæmt 2. mgr. 48. gr. sé heimil og unnt að líta til breytinga á fasteignamati sem orðið hafi eftir gildistöku lax- og silungsveiðilaganna, þá byggja stefnendur viðurkenningarkröfu sína í öðru lagi á því að Litli-Langidalur hvorki sé né hafi verið tvö lögbýli í lagalegum skilningi eftir 1970. Þannig verði ekki fram hjá því litið að landi jarðarinnar hafi aldrei verið skipt, a.m.k. ekki með lögformlegum hætti, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976 með síðari breytingum, og uppfyllir því t.d. ekki áskilnað 1. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 um það hvaða fasteignir teljist lögbýli. Þá sé Litli-Langidalur skráð sem ein jörð í þinglýsingarbók og sé sérstaklega minnst á fyrrnefnda þinglýsingarathugasemd sýslumannsins í Stykkishólmi á afsal fyrir Litla-Langadal fremri, dags. 16. mars 1984, og samþykkt Jarðanefndar Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu vegna sölu á svokölluðum Litla-Langadal fremri, sbr. afsal 10. febrúar 1984. Einhliða skráningar í jarðarskrár og fasteignabók, eftir atvikum fasteignamat, séu án þýðingar, enda ljóst að þar sé ekki um neina hlutlæga úttekt að ræða, enda að meira eða minna leyti byggt á einhliða upplýsingum viðkomandi eigenda. Komi þetta raunar skýrast fram varðandi breytingu þá sem gerð hafi verið árið 1971 á fasteignamati frá 1970 yfir jörðina Litla-Langadal, þar sem breytingin sé beinlínis gerð að beiðni og samkvæmt fyrirmælum eigandans sjálfs. Leiði þessi atriði öll til þeirrar ótvíræðu niðurstöðu að Litli-Langidalur skoðist eftir sem áður ein fasteign og eitt lögbýli í lagalegum skilningi, þ.m.t. á grundvelli 2. mgr. 48. gr. laga nr. 76/1970 og að eigandi/eigendur jarðarinnar eða ábúandi skuli fara með eitt atkvæði innan veiðifélagsins. Styðji sanngirnissjónarmið þess utan þá niðurstöðu, enda í hæsta máta óeðlilegt að jarðeigandi geti sjálfur nánast pantað breytingu á gildandi fasteignamati í því augamiði að skapa sér aukinn rétt innan viðkomandi veiðifélags. Sé og ástæða til að benda á að samkvæmt arðskrá sé hlutur Litla-Langadals 20% í Setbergsárdeild veiðifélagsins.

Loks byggir viðurkenningarkrafa stefnenda á því í þriðja lagi, að þótt svo að viðurkennt væri að jörðin Litli-Langidalur skiptist eftir allt saman í tvö lögbýli, þá yrði niðurstaðan eftir sem áður sú sama, þar sem löglegur eigandi beggja jarða sé einn og sami maðurinn, Jakob Jónsson. Lögformleg og lögleg eigendaskipti að þeim hluta jarðarinnar sem kallaður sé Litli-Langidalur fremri hafa ekki farið fram, hvað sem líði afsalinu frá 10. febrúar 1984, og vísist í því sambandi til fyrrnefndrar skráningar í þinglýsingarbók og afstöðu Jarðanefndar Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu frá 4. júlí 1984. Þá sé ljóst eð ekki sé um að ræða lögformlega ábúð annars aðila á Litla-Langadal fremri, enda hafi jörðin, samkvæmt upplýsingum stefnda Jakobs, verið í eyði frá árinu 1979 a.m.k. Enn fremur vísist hér um til niðurstöðu Veiðimálanefndar, sbr. bréf hennar frá 19. desember 1983, en engin lögformleg breyting hafi orðið á skiptingu, eignarhaldi, ábúð eða nytjun jarðarinnar frá þeim tíma. Eftir standi því að eigandi Litla-Langadals eigi lögvarinn rétt til eins atkvæðis á fundum veiðifélagsins í skilningi 2. mgr. 48. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði.

Dómkröfur í máli þessu beinist eðli málsins samkvæmt gegn stefnda Jakobi Jónssyni, eiganda jarðarinnar Litla-Langadals. Þá sé Þorleifi Jónssyni stefnt vegna fyrrnefnds afsals Jakobs til hans frá 10. febrúar 1984, sem geri það nauðsynlegt að binda hann við dóm í málinu.

Þá sé stefnt til réttargæslu öllum jarðeigendum og ábúendum annarra jarða í Veiðifélagi Stóra-Langadalsár og Setbergsár en á hendur þeim séu ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur.

Stefnendur vísa til ákvæða laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970, einkum 2. mgr. 48. gr. þeirra.

Þá vísa stefnendur til ábúðarlaga nr. 64/1976, einkum skilgreiningar 1. mgr. 1. gr. laganna.

Um málskostnað er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr.

Málsástæður stefnda og lagarök

Af hálfu stefndu er á því byggt að jarðirnar Litli-Langidalur, fremri og ytri, hafi verið sérmetnar sem tvær sjálfstæðar jarðir frá því í fasteignamatinu 1932 er gildi tók 1. apríl 1932. Samkvæmt ákvæðum 59. gr., sbr. 60. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61, 23. júní 1932, er tóku gildi 1. janúar 1933, fylgi eitt atkvæði hverri jörð. Samsvarandi ákvæði hafi verið í síðari lögum um lax- og silungsveiði nr. 112/1941, 60. gr. og 61. gr., nr. 53/1957, 65. gr. og 66. gr. og nr. 76/1970, með síðari breytingum, 47. gr. og 48. gr.

Fasteignamatið frá 1970, þar sem jörðin var metin í einu lagi, hafi verið rangt og í algeru ósamræmi við fyrri fasteignamöt allar götur frá 1932. Enda hafi þetta mat verið kært til millimatsmanna er fært hafi matið til fyrra horfs hinn 20. apríl 1971. Það sé því rangt þegar því sé haldið fram í stefnu að Litli-Langidalur hafi fyrst verið metinn í fasteignamati sem tvær jarðir eftir gildistöku laga um lax- og silungsveiði nr. 38/1970, sbr. lög nr. 76/1970. Enda hafi það verið samþykkt samhljóða á aðalfundi veiðifélagsins hinn 24. apríl 1971 að jarðirnar (lögbýlin) hefðu sitt atkvæðið hvor.

Þá beri að undirstrika að í Samþykktum Veiðifélags Stóru-Langadalsár og Setbergsár, 2. gr., eru báðar jarðirnar Litli-Langidalur, fremri og ytri, taldar upp og hafi þannig haft tvö atkvæði í veiðifélaginu, bæði í orði (samkvæmt samþykktunum) og á borði (í reynd).

Fyrir rétti stefndu til tveggja atkvæða í veiðifélaginu liggi því bæði fyrir samhljóða samþykki allra veiðiréttareigenda í félaginu svo og samþykktir veiðifélagsins, er ráðherra hafi staðfest 30. janúar 1975. Síðan séu liðin rúm 22 ár en frestur til þess að skjóta máli til dómstóla til vefengingar félagsstofnunar sé sex mánuðir frá staðfestingu samþykktar, sbr. 53. gr. laga nr. 76/1975. Mál þetta sé því allt of seint höfðað.

Jarðir stefndu séu eru nú báðar komnar komnar í eyði, en breyti engu um atkvæðisrétt þeirra, sbr. 2. tl. 48. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði með síðari breytingum, sem veiti eiganda eyðijarðar eitt atkvæði í veiðifélagi.

Í þessu sambandi sé rétt að vekja athygli á bréfi landsnámsstjóra frá 1. september 1982 varðandi nefndar jarðir, sbr. dskj. nr. 14. Þar sé þess getið í 1. tl. bréfsins að báðar jarðirnar séu á jarðaskrá og flokkist því sem tvö lögbýli og að þær séu sérmetnar í fasteignamati. Báðar jarðirnar séu taldar í eyði frá fardögum 1979 og teljast því eyðijarðir frá þeim tíma.

Leggja beri áherslu á að það sem skipti máli um atkvæðisréttinn sé hvort jörðin sé metin til verðs í gildandi fasteignamati, sbr. 2. tl. 48. gr. lax- og silungsveiðilaganna, en ekki hvernig hún sé skráð í þinglýsingarbók. Athugasemd sýslumannsins í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu frá 16. mars 1984, er skráð hafi verið á afsal til stefnda Þorleifs fyrir Litla-Langadal fremri, hafi því ekkert gildi við úrlausn þessa máls, enda athugasemdin bersýnilega gerð út af áhvílandi veðskuldum og engu öðru.

Varðandi bréf jarðanefndar Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu frá 4. júlí 1984 út af sölu Litla-Langadals fremri til stefnda Þorleifs, sbr. dskj. nr. 19, beri að undirstrika að hér hafi verið eigandi jarðarinnar, Jakob Jónsson, að selja bróður sínum, sbr. 1. tl. 35. gr. jarðalaga nr. 65, 31 maí 1976. Hafi verið álitið að fasteignaréttindum þessum hafi verið ráðstafað andstætt fyrirmælum jarðalaganna um forkaupsrétt, hafi borið, samkvæmt 33. gr. laganna, að höfða mál innan 6 mánaða frá því að forkaupsréttarhafi hafi fengið vitneskju um misfelluna og málinu fram haldið með hæfilegum hraða. Nú séu liðin meira en 13 ár frá því að afsalinu hafi verið þinglýst. Málshöfðunarfresturinn sé því löngu liðinn og ummæli jarðarnefndarinnar í framangreindu bréfi hafi ekkert gildi í þessu máli.

Að endingu sé því haldið fram að 1. gr. ábúðarlaga nr. 64, 31 maí 1976 eigi ekki við í þessu máli þar sem Litla-Langadal hafi verið skipt löngu áður en þau lög hafi tekið gildi. Í lögunum nr. 61/1932 sé engin skilgreining á jörð eða lögbýli. Slík skilgreining komi fyrst inn í lax- og silungsveiðilögin nr. 38/1970 er birt hafi verið 27. maí 1970 og skyldu þegar öðlast gildi skv. 65. gr. laganna.

Auk þeirra lagaákvæða sem vitnað sé til hér að framan er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi kröfu um málskostnað.

Niðurstaða

Fyrir liggur, sbr. það sem rakið er hér að framan, að meðan Jón Bergmann var eigandi helmings jarðarinnar Litla-Langadals, óskaði hann eftir því að jörðinni yrði skipt og hún metin sem tvær jarðir í fasteignamati. Samkvæmt framlögðum ljósritum úr fasteignabókum 1932 og 1942 er jörðin Litli-Langidalur metin í tvennu lagi sem Litli-Langidalur fremri og Litli-Langidalur ytri. Þá er fram komið að Jón Bergmann afsalaði allri jörðinni til sona sinna Jakobs og Jóns. Með afsali 30. des 1953 afsalar síðan Jón til Jakobs eignarrétti að hálfri jörðinni Litla-Langadal. Samkvæmt því verður að telja að á þessum tíma hafi verið litið á jörðina sem eitt lögbýli. Í fasteignamati árið 1966 er jörðin metin sem ein heild og eigandi hennar einn, Jakob Jónsson.   Svo er einnig samkvæmt vottorði Fasteignamats ríkisins 1970. Ekki liggur fyrir að athugasemdir hafi verið gerðar við þetta af hálfu eiganda jarðarinnar á þessum tíma.

Eftir setningu laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði var haldinn fundur í Veiðifélagi Stóra-Langadalsár og Setbergsár þar sem samþykktir veiðifélagsins voru til umfjöllunar. Af samþykktum og fundargerð þessa fundar verður ekki annað ráðið en að jörðin Litli-Langidalur sé eitt lögbýli.

Í 2. mgr. 48. gr. laga nr. 76/1970 segir m.a. að ábúandi hvers lögbýlis, sem metið er til verðs í gildandi fasteignamati við gildistöku laga þessara, skuli hafa eitt atkvæði í veiðifélagi. Telja verður ákvæði 2. mgr. 48. gr. afdráttarlaust varðandi það að miða beri við gildandi fasteignamat við gildistöku laganna. Ekki hefur verið sýnt fram á annað en að við gildistöku laganna hafi Jakob Jónsson verið einn eigandi og ábúandi jarðarinnar Litla-Langadals sem, samkvæmt fasteignamati á þeim tíma, var metin til verðs sem eitt lögbýli og hafði reyndar verið metin þannig fyrir þann tíma, sbr. það sem áður er rakið. Ber því þegar af þessum sökum að taka til greina kröfu stefnenda um að viðurkennt verði að fyrir jörðina Litla-Langadal, Skógarstrandarhreppi, Snæfellsnessýslu, sé farið með eitt atkvæði í Veiðifélagi Stóra-Langadalsár og Setbergsár, hvort heldur er í félaginu sjálfu eða Setbergsárdeild þess. Samþykkt aðalfundar, hinn 24. apríl 1971, í Veiðifélagi Stóra-Langadalsár og Setbergsár um að jörðin skuli fara með tvö atkvæði í félaginu þykir ekki skipta máli í þessu sambandi.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefndu að greiða stefnendum málskostnað sem ákveðst 350.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Jörðin Litli-Langidalur, Skógarstrandarhreppi, Snæfellsnessýslu, fer með eitt atkvæði í Veiðifélagi Stóra-Langadalsár og Setbergsár, hvort heldur er í félaginu sjálfu eða Setbergsárdeild þess.

Stefndu, Jakob Jónsson og Þorleifur Jónsson, greiði stefnendum, Þóri Guðmunds­syni, Maríu Guðmundsdóttur, Daníel Jóni Guðmundssyni, Ásdísi Guðmundsdóttur, Auði Guðmundsdóttur, Hreiðari Vilhjálmssyni og Magnúsi Jóhannessyni 350.000 krónur í málskostnað.