Hæstiréttur íslands
Mál nr. 211/2004
Lykilorð
- Víxill
- Samvinnufélag
- Umboð
- Veðréttindi
|
|
Fimmtudaginn 18. nóvember 2004. |
|
Nr. 211/2004. |
Kaupfélag Árnesinga svf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Sparisjóði Mýrasýslu (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Víxilmál. Samvinnufélög. Umboð. Veðréttindi.
S höfðaði mál gegn K m.a. til greiðslu fjögurra víxla, útgefinna árið 2003 af þáverandi framkvæmdastjóra K. Studdi K sýknukröfu sína einkum með því að framkvæmdastjórinn hafi farið út fyrir umboð sitt, þar sem um óvenjulegar og meiriháttar ráðstafanir hafi verið að ræða og K hafi verið það ljóst. Var talið að framkvæmdastjóri K hafi með útgáfu víxlanna leitast við að tryggja hag K vegna skuldbindinga hans samkvæmt samningum um kaup K á Hótel Selfossi árið 2000. Var því fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að framkvæmdastjóri K hafi haft heimild til að gefa út hina umdeildu víxla, og greiðsluskylda K vegna þeirra því staðfest. Hafnað var kröfu S um staðfestingu veðréttar fyrir skuldinni í greiðslum frá greiðslumiðlun F. Þótt yfirlýsing K, sem fyrir lá í málinu, fæli í sér skýra viljayfirlýsingu af hans hálfu, var hún ekki samkvæmt efni sínu talin fela í sér að S hafi verið veitt veð eða önnur tryggingarréttindi í hinum umræddu greiðslum frá F.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí 2004 og krefst sýknu af kröfum stefnda. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar greinir höfðaði stefndi málið gegn áfrýjanda annars vegar til greiðslu fjögurra víxla útgefinna 11. apríl 2003 af þáverandi framkvæmdastjóra félagsins og samþykktra til greiðslu af Eignarhaldsfélaginu Brú hf. Hins vegar krefst hann staðfestingar veðréttar fyrir skuldinni í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu. Áfrýjandi styður sýknukröfu sína einkum með því að framkvæmdastjórinn, sem gaf út víxlana, hafi farið út fyrir umboð sitt þar sem um óvenjulegar og meiriháttar ráðstafanir hafi verið að ræða og stefnda hafi mátt vera það ljóst.
Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti reisti stefndi kröfur sínar meðal annars á því að framkvæmdastjóri áfrýjanda hafi haft prókúru, sbr. 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, og gefið fyrrnefnda víxla út í skjóli hennar. Áfrýjandi mótmælti þessu sem nýrri málsástæðu, sem ekki hafi verið borin fram í héraði og sé því of seint fram komin. Gögn málsins bera með sér að framkvæmdastjóranum hafi verið gefin prókúra á stjórnarfundi félagsins 14. maí 1999. Af þeim verður hins vegar ekki séð að stefndi hafi byggt á þessari málsástæðu í héraði og er hún því of seint fram borin í Hæstarétti samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994, og kemur því ekki til álita. Eftir stendur það ágreiningsefni hvort framkvæmdastjórinn hafi farið út fyrir umboð sitt í því starfi hjá áfrýjanda.
Áfrýjandi er samvinnufélag. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 22/1991 um samvinnufélög fer stjórn félagsins með málefni þess í samræmi við lög þessi og samþykktir félagsins og skal gæta þess að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í góðu horfi. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra og gerir við hann ráðningarsamning. Hann annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir ákvæðum samþykkta félagsins, stefnumótun félagsfunda og stjórnar og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Tekið er fram í ákvæðinu að hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Í starfssamningi, sem gerður var við framkvæmdastjórann 4. maí 1999, segir í 2. gr., sem fjallar um ábyrgðar- og starfssvið, að hann beri ábyrgð gagnvart stjórn á að starfsemi fyrirtækisins sé í samræmi við stefnu stjórnar, hefðir og landslög. Öll vandamál sem teljist meiri háttar og varði hag fyrirtækisins skuli hann leggja fyrir stjórn eða stjórnarformann áður en ákvörðun sé tekin. Jafnframt hafi framkvæmdastjóri umsjón með og stjórni starfsemi dótturfyrirtækja félagsins.
Með kaupsamningi 9. mars 2000 keypti áfrýjandi af Sveitarfélaginu Árborg fasteignina Eyravegi 2 á Selfossi og tók samningurinn jafnframt til reksturs Hótels Selfoss þar. Samkvæmt 4. gr. kaupsamningsins skuldbatt áfrýjandi sig til þess að standa að um 60 herbergja viðbyggingu við hótelið ásamt frágangi menningarsalar og skyldi þeim framkvæmdum lokið eigi síðar en 1. júní 2002. Tekið var fram í samningnum að áfrýjandi myndi stofna hlutafélag sem yfirtæki réttindi og skyldur kaupanda samkvæmt samningnum, og var það Eignarhaldsfélagið Brú hf., sem í skjölum málsins er talið til dótturfélaga áfrýjanda, og var framkvæmdastjóri áfrýjanda stjórnarformaður þess. Það félag leigði áfrýjanda húsnæðið og aðstöðu til að reka hótel og veitingastarfsemi með samningi 28. febrúar 2002.
Hinir umdeildu víxlar voru til framlengingar víxli að fjárhæð 30.000.000 krónur, sem upphaflega var gefinn út 30. apríl 2002 til greiðslu 25. júlí sama árs. Samkvæmt yfirliti um samþykktir stjórnarfunda áfrýjanda 1. júlí 1999 til 3. júní 2003 fjallaði stjórnin aðeins tvisvar um veitingu ábyrgða, 23. júní 2001 og 27. júní 2002, til félaga, sem hann átti hlut í. Verður ekki séð að stjórn áfrýjanda hafi á fundum sínum fjallað almennt um ábyrgðarveitingar vegna dótturfélaga sinna. Þrátt fyrir þetta rituðu stjórnarmenn án athugasemda undir ársreikninga félagsins 2001 og 2002, þar sem fram komu upplýsingar um ábyrgðarskuldbindingar sem samkvæmt gögnum málsins var ekki fjallað um í stjórninni. Við kaup víxilsins fékk stefndi ársreikning áfrýjanda fyrir rekstarárið 2001 til skoðunar og gat af honum gert sér grein fyrir stöðu áfrýjanda og þá áhættu sem hann tæki.
Þegar þetta er virt og haft í huga það sem að framan greinir um kaup áfrýjanda á Hótel Selfoss, viðbyggingu þess og leigu, verður að líta svo á að framkvæmdastjóri hans hafi með útgáfu víxlanna, sem um ræðir í máli þessu, leitast við að tryggja hag áfrýjanda vegna skuldbindinga hans samkvæmt samningum um hótelið við Eignarhaldsfélagið Brú hf. og Sveitarfélagið Árborg. Vegna þessa og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti, verður fallist á þá niðurstöðu dómsins að framkvæmdastjóri áfrýjanda hafi haft heimild til að gefa út hina umdeildu víxla fyrir hönd áfrýjanda, enda hafi þar ekki í þessu ljósi verið um óvenjulegar eða mikils háttar ráðstafanir að ræða. Verður héraðsdómur því staðfestur um greiðsluskyldu áfrýjanda.
II.
Síðari krafa stefnda lýtur að staðfestingu veðréttar í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. Hann vísar til tveggja skjala, sem dagsett voru á útgáfudegi víxlanna 11. apríl 2003. Annars vegar er um að ræða yfirlýsingu áfrýjanda og Flugleiða hf. sem „lýsa því hér með yfir að allar greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. til KÁ, frá og með 15.04.2003, munu fara inn á reikning 1103-05-403157 hjá Sparisjóði Mýrasýslu ...“. Hins vegar er um að ræða ávísun á greiðslur þar sem áfrýjandi gaf stefnda „fulla heimild til að ráðstafa til sín neðangreindum greiðslum út af reikningi KÁ hjá Sparisjóðnum“, og eru fjárhæðir víxlanna þar tilgreindar á gjalddögum þeirra. Stefndi telur að með fyrri yfirlýsingunni hafi áfrýjandi sett stefnda að veði tilgreindar fjárkröfur á hendur Flugleiðum hf., sbr. 45. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, og að réttarvernd veðsetningarinnar hafi verið tryggð með því að Flugleiðum hf. hafi verið gert kunnugt um hana og félagið ritað samþykki sitt á veðsetningarskjalið. Undir rekstri málsins í héraðsdómi kom fram af hálfu stefnda að LOGOS lögmannsþjónusta hafi tekið til varðveislu greiðslur frá Flugleiðum hf. handa áfrýjanda að fjárhæð samtals 45.205.934 krónur. Í þessari eða lægri fjárhæð krefst stefndi staðfestingar veðréttar fyrir höfuðstóli skuldarinnar auk dráttarvaxta og kostnaðar.
Þegar virt er framangreind yfirlýsing áfrýjanda og Flugleiða hf. 11. apríl 2003, sem einnig var undirrituð af stefnda, er ljóst að í henni er ekki tekið fram að um veðsamning sé að ræða og engin fjárkrafa er þar samkvæmt orðalagi hennar sett að veði, heldur lýsir áfrýjandi því yfir að allar greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. fari inn á tiltekinn reikning hjá stefnda og að ekki sé heimilt að gera breytingu þar á nema með samþykki stefnda. Þótt hér sé um skýra viljayfirlýsingu að ræða af hálfu áfrýjanda, sem geymir skuldbindingu hans sem ekki verður breytt nema með samþykki stefnda, felur hún samkvæmt efni sínu ekki í sér að stefnda hafi verið veitt veð eða önnur tryggingarréttindi í hinum umræddu greiðslum frá Flugleiðum hf. Er því fallist á með áfrýjanda að hér sé ekki um veðsamning að ræða og verður krafa stefnda um staðfestingu veðréttar ekki tekin til greina.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um greiðsluskyldu áfrýjanda, Kaupfélags Árnesinga svf., við stefnda, Sparisjóð Mýrasýslu.
Kröfu stefnda um staðfestingu veðréttar er hafnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 11. mars 2004.
Mál þetta var höfðað 25. nóvember 2003, þingfest 16. desember 2003 og dómtekið 19. febrúar 2004.
Stefnandi er Sparisjóður Mýrasýslu, kt. 610269-5409, Borgarbraut 14, Borgarnesi.
Stefndi er Kaupfélag Árnesinga svf., kt. 680169-5869, Austurvegi 3-5, Selfossi.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða skuld að fjárhæð 30.000.000 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 7.500.000 krónum frá 20. júní 2003 til 20. júlí 2003, af 15.000.000 króna frá 20. júlí 2003 til 20. ágúst 2003, af 22.500.000 krónum frá 20. ágúst 2003 til 20. september 2003 og af 30.000.000 króna frá 20. september 2003 til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun 23. júní 2003 að fjárhæð 4.482.800 krónur, sem dragast skuli frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. laga nr. 38/2001 er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.
Þess er einnig krafist, að staðfestur verði veðréttur stefnanda í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða, sem séu í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu og greiddar voru 24. júlí 2003, að fjárhæð 20.253.977 krónur, 22. ágúst 2003, að fjárhæð 26.718.056 krónur og 2. október 2003, að fjárhæð 23.292.057 krónur, fyrir höfuðstól skuldarinnar, dráttarvöxtum, málskostnaði og öllum öðrum kostnaði sem kunni að leiða af innheimtu kröfunnar eða lægri fjárhæð samkvæmt mati dómsins.
Loks krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar að skaðlausu.
Málsatvik:
Samkvæmt því er fram er komið í málinu eru málsatvik í aðalatriðum þau, að Jóhann Magnús Ólafsson, löggiltur fasteigna-, skipa- og fyrirtækjasali, hafði á fyrri hluta árs 2002 milligöngu um samskipti þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, Óla Rúnars Ástþórssonar og starfsmanns stefnanda Stefáns Sveinbjörnssonar. Fyrir dómi kvað Jóhann Magnús aðdragandi þeirra samskipta hafa verið þann, að framkvæmdastjóri stefnda hafi leitað til vitnisins um hvort því væri kunnugt um aðila er gæti útvegað fé til skammtímafjármögnunar í tengslum við rekstur hótels á Selfossi. Kvaðst vitnið í þeim efnum hafa bent framkvæmdastjóranum á nokkra aðila, þ.á m. stefnanda. Í framhaldi af því kvaðst vitnið hafa haft samband við Stefán Sveinbjörnsson og gert honum grein fyrir því að stefnda vantaði fjármagn tímabundið í tengslum við rekstur hótels, þar til langtímafjármögnun yrði komið á vegna starfseminnar. Fyrir liggur, að í framhaldi af þessu keypti stefnandi víxil, dagsettan 30. apríl 2002, til greiðslu 25. júlí sama ár, að fjárhæð 30.000.000 króna. Víxillinn er samþykktur til greiðslu af Eignarhaldsfélaginu Brú hf., kt. 600780-2430, en útgefinn af stefnda. Ekki liggja fyrir í málinu fullnægjandi gögn um inn á hvaða reikning greiðsla fyrir andvirði víxilsins rann. Síðar, eða í apríl 2003, var víxilskuldbinding stefnda framlengd með útgáfu fjögurra víxla, allra útgefinna 11. apríl 2003, til greiðslu 20. júní, 20. júlí, 20. ágúst og 20. september 2003. Greiðandi samkvæmt víxlunum er áfram Eignarhaldsfélagið Brú hf. og stefndi útgefandi. Hver víxill er að fjárhæð 7.500.000 krónur.
Með samningi 11. júní 2002 gerðu Flugleiðir hf. og dótturfélög félagsins, annars vegar, og stefndi hins vegar, með sér samning um aðild stefnda að greiðslumiðlun Flugleiða. Í ákvæðum samnings aðila um samningsforsendur kemur fram, að greiðslumiðlun Flugleiða sé deild innan Flugleiða hf. og sé hlutverk hennar að greiðslujafna þeim reikningum sem Flugleiðir hf. og dótturfélög félagsins eigi hvort á annað sem og aðrir lögaðilar sem aðild eigi að greiðslumiðluninni. Þá er tekið fram um skuldir stefnda við eitt dótturfélaga Flugleiða hf., Flugleiðahótel hf., og hvernig með uppgjör á þeim skuldum skuli fara. Í samningi aðila er vísað til fylgiskjals, sem ekki er meðal gagna málsins. Af samningi virðist þó mega álykta, að tiltekin viðskipti viðskiptamanna stefnda hafi, á grundvelli samningsins, farið um greiðslumiðlun Flugleiða, sem borið hafi að standa stefnda skil á þeim greiðslum mánaðarlega, að teknu tilliti til skulda stefnda samkvæmt samningnum.
Þann 11. apríl 2003, er framlenging á víxilskuldbindingu stefnda gagnvart stefnanda átti sér stað, var útbúin yfirlýsing, sem undir rita Óli Rúnar Ástþórsson, framkvæmdastjóri stefnda, Stefán Sveinbjörnsson fh. stefnanda og fulltrúi Flugleiða hf. Með yfirlýsingunni lýsa stefndi og Flugleiðir hf. því yfir, að allar greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. til stefnda, frá og með 15. apríl 2003, muni fara inn á tilgreindan reikning hjá stefnanda. Jafnframt er því lýst yfir, að ekki sé heimilt að gera breytingu þar á nema með samþykki stefnda og stefnanda. Samhliða er útbúin önnur yfirlýsing, sem ber yfirskriftina ,,ávísun á greiðslur”, þar sem stefndi gefur stefnanda fulla heimild til að ráðstafa til sín fjórum tilgreindum greiðslum út af reikningi stefnda hjá stefnanda. Er þar um að ræða þann reikning er greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða skyldu renna inn á samkvæmt fyrri yfirlýsingunni. Hinar tilgreindu greiðslur skyldu greiðast þannig:
,,1. þann 20.06.2003, kr. 7.500.000
2. þann 20.07.2003, kr. 7.500.000
3. þann 20.08.2003, kr. 7.500.000
4. þann 20.09.2003, kr. 7.500.000”
Því er jafnframt lýst yfir, að sé ekki næg innistæða á reikningnum fyrir allri greiðslu á gjalddaga, bætist hún við greiðslu næsta eða næstu gjalddaga, ásamt kostnaði, og þannig koll af kolli þar til greiðslan sé að fullu greidd stefnanda. Undir yfirlýsinguna rita Óli Rúnar Ástþórsson fh. stefnda og Stefán Sveinbjörnsson fh. stefnanda.
Annar víxilskuldara samkvæmt hinum framlengdu víxlum, Eignarhaldsfélagið Brú hf., var úrskurðaður gjaldþrota 1. september 2003. Sökum rekstrarerfiðleika var stefnda veitt heimild til greiðslustöðvunar 13. júlí 2003. Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður, var skipaður aðstoðarmaður skuldara við greiðslustöðvun. Þann 17. júlí 2003 ritaði Einar Gautur bréf til LOGOS lögmannsþjónustu, fh. Flugleiða hf., þar sem því er lýst yfir, að ofangreind yfirlýsing um ávísun á greiðslur stefnda til stefnanda sé markleysa og hún afturkölluð og gerð krafa um að allar greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða skuli framvegis berast stefnda. Sama dag ritar Gísli Kjartansson, fh. stefnanda, bréf til LOGOS lögmannsþjónustu, þar sem áréttað er um skuldbindingargildi yfirlýsingarinnar. Í framhaldi þessa áttu sér stað nokkur bréfaskipti milli stefnanda, stefnda og LOGOS lögmannsþjónustu. Með bréfi 26. september 2003 er því lýst yfir af hálfu LOGOS lögmannsþjónustu, að ákvörðun hafi verið tekin um að greiða hina umdeildu fjárhæð inn á vörslureikning á meðan aðilar málsins leysi úr því sín á milli hvor eigi tilkall til hinna umdeildu fjármuna frá greiðslumiðlun Flugleiða.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Kröfur sínar byggir stefnandi á fjórum víxlum, útgefnum 11. apríl 2003, hverjum að fjárhæð 7.500.000 krónur, með gjalddögum 20. júní, 20. júlí, 20. ágúst og 20. september 2003. Inn á skuldina hafi verið greidd innborgun 23. júní 2003, að fjárhæð 4.482.800 krónur. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál á hendur stefnda til greiðslu þeirra. Greiðandi og samþykkjandi umræddra víxla sé Eignarhaldsfélagið Brú hf., sem hafi verið úrskurðað gjaldþrota 1. september 2003, en stefndi hafi verið útgefandi víxlanna. Aðstoðarmaður stefnda við greiðslustöðvun hafi mótmælt því að Flugleiðir hf. stæðu stefnanda skil á greiðslum sem fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda, Óli Rúnar Ástþórsson og Flugleiðir hf. hafi gert samkomulag um að skyldu renna til stefnanda vegna umræddra víxla og stefndi hafi sett umræddar fjárkröfur á hendur Flugleiðum hf. að veði, sbr. 45. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Réttarvernd veðsetningarinnar sé tryggð með því að Flugleiðum hf. hafi verið gert kunnugt um hana og þeir ritað samþykki sitt á veðsetningarskjalið. Jafnframt því að veðsetja fjárkröfuna á hendur Flugleiðum hf. hafi stefndi ritað undir yfirlýsingu um að sömu fjárhæðir og víxlarnir væru skuli greiðast af reikningi stefnda til stefnanda á gjalddaga víxlanna. Stefndi hafi ekki staðið við þá samninga er gerðir hafi verið við stefnanda.
Þá kveður stefnandi stefnda byggja á því að fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnda hafi ekki verið heimilt að rita undir umrædda víxla og veðsetja fjárkröfurnar m.a. vegna þess að ráðstöfunin hafi verið óvenjuleg og mikilsháttar. Þeim skilningi mótmæli stefnandi alfarið. Stefndi hafi um árabil rekið umfangsmikla atvinnustarfsemi af ýmsu tagi, m.a. stórar verslanir, bensín- og veitingasölu. Útgáfa á fjórum víxlum, samtals, að fjárhæð 30.000.000 króna, geti ekki fallið utan daglegs verksviðs framkvæmdastjóra í tilfellum sem þessu, heldur falli sá gerningur beinlínis undir daglegan rekstur sem framkvæmdastjóri skuli annast, sbr. 3. mgr. 28. gr. og 32. gr. laga nr. 22/1991 um samvinnufélög.
Lögmaður Flugleiða hf. hafi lýst því yfir að greiðslur sem hafi átt að greiðast stefnanda á grundvelli áðurnefndra yfirlýsinga séu inni á fjárvörslureikningi hjá lögmanninum og verði þær greiddar í samræmi við niðurstöðu máls þessa. Af þeim sökum hafi ekki þótt ástæða til að stefna Flugleiðum hf. til réttargæslu í málinu.
Málsástæður og lagarök stefnda:
Stefndi kveður stefnda hafa gert samkomulag við sveitarfélagið Árborg 9. mars 2000 um kaup og kaupleigu fasteignarinnar að Eyrarvegi 2, Selfossi. Í samningi komi fram að stofnað yrði hlutafélag til að yfirtaka réttindi og skyldur samkvæmt samningnum. Í samræmi við þau áform hafi stjórn stefnda veitt framkvæmdastjóra heimild til að undirrita nauðsynleg skjöl varðandi stofnun Eignarhaldsfélagsins Brúar hf. og hafi það félag verið stofnað 12. júlí 2000. Framkvæmdastjóri stefnda hafi verið kosinn stjórnarformaður hins nýja félags og hafi stefndi átt yfir helming hlutafjár í félaginu sökum þess að ekki hafi tekist að útvega nægan fjölda fjárfesta til þátttöku í því. Þann 28. febrúar 2002 hafi verið undirritaður leigusamningur milli Eignarhaldsfélagsins Brúar hf. og stefnda, þar sem stefndi taki við rekstri hótelsins, þrátt fyrir að það væri áfram í eigu eignarhaldsfélagsins. Hafi stefndi rekið hótelið undir heitinu Hótel Selfoss. Í júní 2002 hafi verið undirritaður samningur um aðild Hótel Selfoss að greiðslumiðlun Flugleiða, enda hafi stefndi rekið svokölluð ,,Flugleiðahótel” og hafi vörumerkið ,,Icelandair” verið notað sem vörumerki hótelsins. Hafi stefndi, auk Hótel Selfoss, rekið ,,Flugleiðahótel” á Vík, Kirkjubæjarklaustri og Flúðum.
Stjórn stefnda hafi tekið ákvörðun á fundi 28. ágúst 2001 um að framkvæmdastjóri félagsins skyldi ekki hafa heimild til að stofna til ábyrgða gagnvart hlutdeildar- og dótturfélög félagsins. Við endurskoðun ársreikninga stefnda fyrir árið 2002 hafi komið fram athugasemdir við bókhald félagsins, og að gjaldfærðar hafi verið ýmsar viðskiptakröfur sem hlutdeildar- og dótturfélög hafi stofnað til, án þess að leitað hafi verið í öllum tilfellum til þess heimildar stjórnar stefnda. Þá hafi verið gjaldfærðar ábyrgðir vegna dóttur- og hlutdeildarfélaga, samtals að fjárhæð 102.400.000 krónur. Fram komi að ábyrgðarskuldbindingar stefnda hafi verið taldar nema 347.000.000 króna. Hafi verið vakin athygli á því að frekari ábyrgðir væru sennilega fyrir hendi, en ekki hafi þótt fyrir hendi fullnægjandi gögn um það á því stigi. Í bréfi framkvæmdastjóra félagsins og fjármálastjóra til endurskoðanda komi fram, að þeir telji ekki vera til staðar frekari ábyrgðir en fram komi í reikningum félagsins fyrir árið 2002. Það hafi ekki reynst raunin og séu víxlar þeir sem út af sé stefnt í þessu máli ekki á meðal þeirra ábyrgða sem fram komi í bókhaldi félagsins.
Ársreikningar stefnda fyrir árið 2002 hafi verið undirritaðir 3. júní 2003, en þeir hafi sýnt mikið rekstrartap félagsins og lækkun eigin fjár. Þrátt fyrir það hafi verið álitið að eigið fé stefnda væri enn jákvætt, en annað hafi komið á daginn. Frekari fjárskuldbindingar hafi komið í ljós, auk þess sem tapað hlutafé og viðskiptakröfur hafi ekki verið afskrifað. Virðist sem tap á fjárfestingum stefnda og dóttur- og hlutdeildarfélaga og viðskipti við þau hafi frá ársbyrjun 2001 numið um 1.300.000.000 krónum. Hafi stjórn stefnda sofnað á verðinum gagnvart þessari þróun. Fjármálaeftirlitið hafi 20. júní 2003 haft uppi þær athugasemdir gagnvart stefnda, að eiginfjárhlutfall félagsins væri komið niður fyrir 15% og því væri ekki lengur heimilt fyrir félagið að reka innlánsdeild.
Stefndi hafi haldið aðalfund félagsins 5. júní 2003, og hafi þá orðið breytingar í stjórn félagsins. Valur Oddsteinsson, fyrrum stjórnarmaður, hafi þá verið kosinn formaður stjórnar og Páll Zóphaníasson kosinn nýr í stjórn. Hafi hann verið gerður að varaformanni stjórnar. Í kjölfar fundar hins nýja stjórnarformanns og varaformanns með endurskoðendum félagsins, hafi framkvæmdastjóri og fjármálastjóri félagsins verið látnir hætta störfum. Eftir að farið hafi verið yfir rekstrarstöðu félagsins hafi verið ákveðið að óska eftir greiðslustöðvun fyrir félagið. Hafi hún verið veitt 13. júlí 2003 og aðstoðarmaður skuldara við greiðslustöðvun verið ráðinn. Í kjölfar þeirra atburða hafi fyrst komið í ljós víxilskuldbindingar stefnda gagnvart stefnanda, sem ágreiningur í þessu máli lúti að, auk yfirlýsinga um greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða. Stefndi hafi þegar gert ráðstafanir til að greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða rynnu til stefnda. Við því hafi verið brugðist af hálfu Flugleiða hf. með því að leggja greiðslur inn á vörslureikning.
Stefndi kveður stefnanda höfða mál sitt til greiðslu á víxlum og til staðfestingar á veðrétti, en málið sé ekki höfðað og rekið á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sé því í málinu af hálfu stefnda bæði fjallað um umboðsskort og heimildarskort umboðsmanns. Stefnandi byggi mál sitt á því einu að stöðuumboð framkvæmdastjóra hafi verið þess efnis, að hann hafi getað gefið út þá víxla sem stefnt sé útaf í málinu og að stefnandi hafi mátt treysta því að framkvæmdastjórinn hafi haft heimild til þeirra skuldbindinga.
Stefndi kveður alla löggerninga gerða í nafni stefnda þurfa að vera í samræmi við ófrávíkjanleg ákvæði laga. Samkvæmt ófrávíkjanlegu ákvæði 3. mgr. 28. gr. laga nr. 22/1991 taki framkvæmdastjóri yfir daglegan rekstur félags sem ekki taki til ráðstafana sem séu ,,óvenjulegar eða mikilsháttar”. Í 32. gr. laga nr. 22/1991 séu sérákvæði um umboð framkvæmdastjóra og í 34. gr. laganna sé lögfest sambærileg regla og í 1. mgr. 11. gr. samningalaga, nr. 7/1936. Af ákvæðum 74. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944 um félagafrelsi og almennum reglum félagaréttar leiði, að félagssamþykktir marki þær heimildir sem félag verði skuldbundið eftir og gangi þær framar frávíkjanlegum ákvæðum laga. Í því samhengi séu félagssamþykktir ígildi samnings milli félagsmanna. Í samþykktum stefnda, lið 16.1, sé fjallað almennt um umboð framkvæmdastjóra, en það sé efnislega í samræmi við lög um samvinnufélög. Í lið 16.2 komi fram, að ráðstafanir umfram hinn daglega rekstur geti framkvæmdastjóri ekki viðhaft nema samkvæmt sérstakri heimild frá stjórninni. Í því felist að hann verði að hafa sérstaka heimild til slíkra ráðstafana hvert sinn.
Tilgangur félags stefnda sé afmarkaður í lögum og félagssamþykktum. Í 2. gr. laga nr. 22/1991 sé tilgangurinn skilgreindur þannig að hann sé að útvega félagsmönnum og öðrum vörur og hvers kyns þjónustu til eigin þarfa. Sömuleiðis að vinna og selja afurðir sem félagsmenn framleiði í eigin atvinnurekstri. Í sama ákvæði sé heimilaður annar rekstur sem miði að því að efla hag félagsmanna. Þá sé samvinnufélögum heimilt að reka innlánsdeild sem taki við innlögnum frá félagsmönnum og viðskiptaaðilum til ávöxtunar sem rekstrarfé félagsins. Tilgangur stefnda sé markaður í 1. kafla samþykkta félagsins og verði hann ekki skýrður rýmra en ófrávíkjanleg lög um samvinnufélög heimili. Starfsemi og rekstur ,,Flugleiðahótels” falli ekki undir tilgang félagsins og sé því ekki hlut af atvinnu þess.
Á stjórn stefnda hvíli sérstök skylda að gæta að eiginfjárhlutfalli stefnda. Í 2. mgr. 2. gr. A, laga nr. 22/1991 komi fram, að eigið fé félags sem reki innlánsdeild megi ekki vera undir 100.000.000 króna og eiginfjárhlutfall ekki lægra en 15%. Áhrif dótturfélaga hafi talsverð áhrif á þetta mat þannig að til eigin fjár teljist ekki hver yrði óskráður eignarhluti í dótturfélögum og hlutdeildarfélögum, né heldur teljist kröfur á slík félög til heildareigna. Af því leiði að sé stofnað til ábyrgða við dótturfélög sem gjaldfalli, beri að draga þær kröfur frá eigin fé félagsins og geti það sett starfsemi innlánsdeilda í uppnám.
Við mat á heimildum framkvæmdastjóra og því hvaða ákvarðanir séu meiriháttar eða óvenjulegar verði að taka sérstakt tillit til takmarkana á heimildum stjórnar og skyldum stjórnar. Framkvæmdastjóra beri að gæta að því að stofna ekki til skuldbindinga sem þá eða síðar meir geti haft veruleg áhrif á eigið fé félags og eiginfjárhlutfall. Hann verði líka að sýna sérstaka varfærni þegar um sé að ræða starfsemi sem komin sé út fyrir hið raunverulega starfssvið kaupfélags. Það sé ljóst að starfsemi í kringum stofnun dóttur- og hlutdeildarfélaga og viðskipti við þau, hafi komið stefnda í þá stöðu að félagið eigi ekki fyrir skuldum. Við skoðun á því hvort ráðstafanir framkvæmdastjóra séu óvenjulegar eða meiriháttar megi benda á tiltekna þætti. Í fyrsta lagi sé það sérkennileg ráðstöfun að ætla að ,,byggja hótel á víxlum”. Það hafi viðsemjendur mátt sjá að væri ,,glórulaust tiltæki”. Samþykkjandi víxlanna, Eignarhaldsfélagið Brú hf., hafi engan annan tilgang haft en að eiga hótelbyggingu á Selfossi. Um það hljóti stefnanda að hafa verið kunnugt. Hafi hann átt að geta sagt sér það sjálfur, að hótelið myndi engum tekjum skila sem gætu á stuttum tíma greitt 30.000.000 króna víxilskuldbindingu. Í annan stað hafi stjórn stefnda tekið ákvörðun um að takmarka ábyrgð stefnda við það hlutafé sem í félagið hafi verið lagt með því að stofna eignarhaldsfélag um hótelið. Ákvörðun framkvæmdastjóra um að veita 30.000.000 króna ábyrgð sé ekki samþýðanleg þeirri stefnu sem stjórnin hafi markað með því að stofna eignarhaldsfélag um hótelið. Í þriðja lagi verði að hafa í huga við mat á ábyrgð upp á 30.000.000 króna, þá starfsemi kaupfélaga að selja vörur félagsmanna og útvega þeim vörur og þjónustu og varðveita fjármuni þeirra í rekstrinum. Ábyrgð vegna hótelrekstrar sé ósamþýðanleg því að reka innlánsdeild og það hafi viðsemjandi stefnda átt að geta sagt sér sjálfur. Hafi hann sýnt ótrúlega ,,glámskyggni” þegar hann hafi ,,gengið til leiks” með þessum hætti. Loks er bent á, að þegar framkvæmdastjórinn hafi gefið víxlana út fh. stefnda, hafi hann verið stjórnarformaður samþykkjandans. Hann hafi því verið vanhæfur til að gefa víxlana út og þegar af þeirri ástæðu hafi útgáfan ekki skuldbindingargildi.
Svo sem sjá megi af samþykkt stjórnarfundar stefnda 20. mars 2001 og yfirliti um samþykktir stjórnarfunda félagsins frá 1. júlí 1999 til 3. júní 2003 sé ljóst, að framkvæmdastjóri stefnda hafi ekki mátt veita neinar ábyrgðir vegna hlutdeilda- og dótturfélaga stefnda. Ljóst sé að stefnandi hafi ekki verið grandlaus um heimildarskort framkvæmdastjóra stefnda og hafi hann haft fullt tilefni til að kanna málið frekar áður en hann gekk til leiks. Sé á því byggt, að öll framangreind atriði um umboðsskort hafi átt að gefa stefnanda tilefni til frekari könnunar. Hafi hann látið það fyrirfarast og verði sjálfur að taka afleiðingum þeirra gerða. Í því efni verði að miða við að góður og gegn banki eða sparisjóður búi yfir sérþekkingu í fjármálastarfsemi og sérfræðiþekkingu á lögum um slíka starfsemi. Síðast en ekki síst sé bönkum eða sparisjóðum kunnugt um að það ,,sé ekki allt með felldu” þegar fara eigi að fjármagna hótelbyggingu með útgáfu víxla með ábyrgð samvinnufélags sem hafi allt annan tilgang og reki auk þess innlánsdeild.
Stefndi telur að hafna beri kröfu stefnanda um staðfestingu veðréttar. Sé það gert með vísan til þess í fyrsta lagi, að yfirlýsingar frá 11. apríl 2003 séu ekki veðsamningar. Yfirlýsing á dskj. nr. 7 fari bæði gegn lögum og samþykktum félagsins um að stjórn félags fari með forræði þess og fjárhag. Þá sé dskj. nr. 8 ekki veðsamningur heldur heimild til stefnanda um að ráðstafa greiðslum út af reikningi stefnda. Ávísunin hafi ekkert gildi þar sem hún tengist útgáfu víxla sem óheimilt hafi verið að stofna til, en sé að auki afturkallanleg eins og allar aðrar ávísanir sem ekki séu lýstar óafturkallanlegar.
Í öðru lagi falli yfirlýsingarnar á dskj. nr. 7 og 8 ekki undir nein ákvæði laga nr. 75/1997, en í 2. mgr. 2. gr. laganna komi fram að óheimilt sé að stofna til veðréttar nema með heimild í þeim lögum eða öðrum lögum. Því sé hafnað að 45. gr. laga nr. 75/1997 nái til yfirlýsinganna, en því haldi stefnandi fram. Viðskipti stefnanda við greiðslumiðlun Flugleiða séu umboðsviðskipti þar sem hinn raunverulegi aðili sé Flugleiðir hf. Vörslufé sem umboðsmaður varðveiti fyrir umbjóðanda sinn sé ekki fjárkrafa og falli ekki undir efnisatriði 45. gr. Skilyrði um að um nafngreindan skuldara sé að ræða sé ekki heldur fyrir að fara. Greiðslumiðlun Flugleiða sé ekki skuldari heldur taki við greiðslum frá ýmsum skuldurum sem séu aðilar að greiðslumiðluninni. Hún sé auk þess ekki lögpersóna. Ekki sé fyrir að fara sérstöku réttarsambandi í skilningi 45. gr. laga nr. 75/1997, heldur almennri yfirlýsingu um flestallar tekjur stefnda af hótelstarfsemi sinni. 46. gr. laga nr. 75/1997 geri ráð fyrir réttarvernd þegar skuldari fái tilkynningu um veðsetningu. Greiðslumiðlun Flugleiða sé ekki skuldari og tilkynning til miðlunarinnar hafi því enga merkingu. Þegar um sé að ræða almennar veðsetningar þurfi að fara að reglum 47. gr. laganna. Ekki sé byggt á því af hálfu stefnanda að ákvæðið eigi við í málinu.
Í þriðja lagi sé ráðstöfun allra tekna stefnda til skuldara fyrirtækis, sem hafi átt að vera búið að lýsa gjaldþrota, meiriháttar ráðstöfun. Falli hún ekki undir umboð framkvæmdastjóra.
Í fjórða lagi séu svo víðtækar veðsetningar, eins og haldið sé fram í málinu að hafi átt sér stað, eingöngu á færi stjórnar. Þegar helstu lög er gilda um umboð framkvæmdastjóra eða annarra sem þiggi umboð sitt frá stjórn, hafi verið sett, hafi veðsetningar af þessu tagi verið bannaðar.
Í fimmta lagi hafi komið skurðpunktur 13. júlí 2003, eftir að greiðslustöðvun stefnda hafi tekið gildi. Af ákvæðum II. þáttar laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. megi ráða, að öll verðmæti, sem verði til á greiðslustöðvunartímabili, komi almennum kröfuhöfum til góða. Það leiði af ákvæðum IV. kafla laganna, um réttaráhrif greiðslustöðvunar, sem sett séu gegn mismunun kröfuhafa. Sé fallist á skoðanir stefnanda leiði það til þess, að á greiðslustöðvunartímabili verði honum afhentar brúttótekjur allrar hótelstarfsemi stefnda, en almennir kröfuhafar eigi að borga launakostnað, húsaleigu, virðisaukaskatt og staðgreiðslu og ef það leiði til þess að ekki verði til fjármunir fyrir vörslusköttum, þurfi stjórn stefnda á greiðslustöðvunartímabili að sæta refsiábyrgð.
Vitnið Stefán Sveinbjörnsson bar fyrir dómi, að Jóhann Magnús Ólafsson hafi leitað til stefnanda, um mánaðarmótin apríl-maí 2002, og spurst fyrir um hvort stefnandi væri reiðubúinn að kaupa víxil að fjárhæð 30.000.000 króna, þar sem samþykkjandi væri Eignarhaldsfélagið Brú hf. og útgefandi stefndi. Engin viðskipti hafi áður verið á milli stefnanda og Eignarhaldsfélagsins Brúar hf. eða stefnda. Þegar upphaflegur víxill hafi verið keyptur hafi verið í gangi hótelbygging á Selfossi, þar sem ólokið hafi verið að ganga frá langtímafjármögnun verksins. Hafi víxillinn verið keyptur á þeim forsendum, sem eins konar ,,brúarlán”. Stefnandi hafi síðan verið í sambandi við Óla Rúnar Ástþórsson, framkvæmdastjóra stefnda, þar sem fram hafi komið að fjármögnun væri að ljúka. Það hafi gengið illa. Sú vinna hafi verið í gangi og af þeim ástæðum hafi víxillinn verið framlengdur. Stefnandi hafi síðan viljað fara að sjá fyrir endann á viðskiptunum og þá hafi verið gefnir út fjórir víxlar, en framkvæmdastjóri stefnda hafi talið stefnda ráða við greiðsluna í fjórum hlutum. Framkvæmdastjóri stefnda hafi boðið stefnanda veð í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða. Af hálfu stefnanda hafi verið litið svo á, að verið væri að taka veð í greiðslum hjá nafngreindum skuldara. Þegar um það væri að ræða að víxlar væru keyptir, þá væru gögn fengin frá rekstraraðilum, ársreikningar, áætlanir eða eitthvað slíkt, er sýndu fram á að greiðslugeta skuldara væri fyrir hendi. Að því er frágang skuldbindinga varðaði væri kannað, hvort framkvæmdastjóra hefði umboð til þeirra ráðstafana sem stofnað væri til. Samkvæmt þeim reikningum er stefnandi hafi skoðað hafi komið fram að velta stefnda hafi verið um 1.800.000.000 krónur. Aldrei hafi verið efast um umboð framkvæmdastjóri stefnda, sem hafði þá veltu, en talið hafi verið að slíkar ráðstafanir væru hluti af daglegri starfsemi félagsins. Forsenda fyrir kaupum á upphaflega víxlinum hafi verið bundin því að einn skuldara hafi verið stefndi.
Niðurstaða:
Fyrsti liður í dómkröfum stefnanda lýtur að greiðslu skuldar að fjárhæð 30.000.000 króna, ásamt tilgreindum vöxtum. Byggir kröfuliður þessi á fjórum víxlum, öllum útgefnum 11. apríl 2003, en undir þá víxla hefur stefndi ritað sem útgefandi víxlanna, án afsagnar. Víxlar eru samkvæmt efni sínu viðskiptabréf, en samkvæmt þeim reglum er um slík skjöl gilda, getur kröfuhafi takmarkað þær varnir er skuldari getur haft uppi gagnvart skuldbindingu sinni. Þær reglur gera þó ráð fyrir að kröfuhafaskipti þurfi að hafa orðið, því í réttarsambandi upphaflega kröfuhafans og skuldarans gilda reglur kröfuréttar um almennar kröfur. Í slíkum tilvikum getur skuldari því haft uppi mótbárur er tengjast tilurð kröfunnar, en í máli þessu ber stefndi aðallega fyrir sig að framkvæmdastjóri stefnda, Óli Rúnar Ástþórsson, hafi ekki haft heimild til að skuldbinda stefnda með þeim hætti er gert var. Þá hefur stefnandi ekki valið þann kost að reka málið á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991, heldur hagar málatilbúnaði sínum með þeim hætti að stefndi á þess kost að halda uppi vörnum á áðurgreindum forsendum. Í þessu ljósi verður í upphafi leyst úr því, hvort gild fjárskuldbinding hafi stofnast þegar framkvæmdastjóri stefnda ritaði undir hina umstefndu víxla 11. apríl 2003, en skuldbinding stefnda sem útgefanda víxlanna var varaskyldu og varð virk þar sem aðalskuldari samkvæmt víxlunum, Eignarhaldsfélagið Brú hf., varð gjaldþrota, sbr. 43. gr. víxillaga, nr. 93/1933.
Stefndi er samvinnufélag, stofnað 30. apríl 1938. Í ársreikning stefnda fyrir árið 2001 kemur fram að velta félagsins á árinu 2001 hafi verið 1.761.000.000 krónur. Tekið er fram að þrátt fyrir óviðunandi afkomu sé efnahagur félagsins traustur og sé eigið fé í árslok 706.000.000 króna. Félagið starfi í 29 deildum og nái félagssvæðið yfir Suðurlandskjördæmi. Í umfjöllun um breytingar og fjárfestingar er tekið fram, að á árinu 2001 hafi verið fjárfest í hlutabréfum, fasteignum, tækjum og búnaði fyrir liðlega 142.000.000 króna. Helstu fjárfestingar hafi verið í tengslum við samning félagsins við Flugleiðahótel hf. um kaup og yfirtöku á rekstri Flughótels, Hótels Flúða og Hótels Kirkjubæjarklausturs. Hlutur félagsins í Eignarhaldsfélaginu Bæ hf. hafi verið aukinn um 23.000.000 króna, í Hótel Flúðum um 38.000.000 króna, í Eignarhaldsfélaginu Brú hf. um 26.000.000 króna, auk fjárfestinga í minni hlutum í öðrum félögum. Þá hafi verið fjárfest í varanlegum rekstrarfjármunum að fjárhæð 47.000.000 króna og sé það að stærstum hluta búnaður tengdur samningum við Flugleiðahótel hf. og varanlegir rekstrarfjármunir á Búrekstrarsviði. Tekið er fram að samningur við Flugleiðahótel sé stefnumarkandi samningur sem miklar vonir séu bundnar við að auki arðsemi ferðaþjónustusviðs félagsins og gefi möguleika til vaxta enn frekar á því sviði. Er frá því greint, að miklar umbreytingar hafi orðið í rekstri stefnda á liðnum árum.
Stjórn samvinnufélags ræður framkvæmdastjóra, er annast daglegan rekstur félags, sbr. 2. og 3. mgr. 28. gr. laga nr. 22/1991, og skal framkvæmdastjóri fara eftir samþykktum félags, stefnumótunar félagsfunda og stjórnar og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Tekið er sérstaklega fram í 28. gr., að hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar. Heimildir framkvæmdastjóra í starfi skv. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 22/1991 taka að verulegu leyti mið af eðli starfa félaga og umfangi. Ekki verður fram hjá því litið, við mat á úrlausnarefni máls þessa, að stefndi hafði haslað sér viðurkenndan og kunnan völl sem ferðaþjónustuaðili, með vitund og vilja stjórnar. Af ummælum í tilvitnuðum ársreikningi stefnda fyrir árið 2001 má ráða, að félagið hafi stofnað sérstakt ferðaþjónustusvið í þeim tilgangi. Þegar þeir þættir eru hafðir í huga, sem og það er áður er sagt um starfsemi stefnda á árinu 2001, verður ekki talið, að útgáfa fjögurra víxla, hver að fjárhæð 7.500.000 krónur, í tengslum við hótelrekstur stefnda, teljist vera óvenjulegar ráðstafanir af hálfu stefnda. Velta stefnda var umtalsverð á hverju ári, og nam t.a.m. ríflega 1.700.000.000 krónum á árinu 2001, svo sem áður var getið. Þegar til þessa er horft, sem og eðli umsvifa stefnda á árinu 2001, verður framangreind víxilútgáfa ekki heldur talin til mikilsháttar ráðstöfunar í starfsemi stefnda. Skiptir í því efni einnig máli tillitið til viðsemjanda stefnda, sem og forms ábyrgðarinnar. Rekstur samvinnufélags af þeirri stærðargráðu er stefndi var á þessum tíma og verkefni, útheimta ákvarðanir sem taka að vissu leyti mið af þörfum viðskiptalífsins. Félagsform stefnda og samþykktir, að stofni frá árinu 1938, verður að skýra með breyttar aðstæður í huga að þessu leyti. Loks þykir stefnandi ekki með neinni háttsemi sinni hafa fyrirgert rétti sínum til kröfunnar, svo sem stefndi heldur fram í málinu. Í þessu ljósi verða kröfur stefnanda samkvæmt 1. kröfulið teknar til greina, en gjalddagar hinna umstefndu víxla eru komnir og þeir hafa ekki verið greiddir þrátt fyrir áskoranir stefnanda til stefnda þar um, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 93/1933. Er stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 30.000.000 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, af 7.500.000 krónum frá 20. júní 2003 til 20. júlí 2003, af 15.000.000 króna frá 20. júlí 2003 til 20. ágúst 2003, af 22.500.000 krónum frá 20. ágúst 2003 til 20. september 2003 og af 30.000.000 króna frá 20. september 2003 til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun 23. júní 2003 að fjárhæð 4.482.800 krónur, sem dragast skulu frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.
Krafist er vaxtavaxta skv. 12. gr. laga nr. 38/2001 er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Ekkert girðir fyrir að heimilt sé að dæma vexti í samræmi við kröfur stefnanda, og leggist því áfallnir dráttarvextir við höfuðstól skuldar og reiknist nýjir dráttarvextir af samanlagðri fjárhæð ef vanskil standa lengur en í 12 mánuði, skv. 12. gr. laga nr. 38/2001.
Samkvæmt 2. kröfulið stefnanda er krafist staðfestingar veðréttar í tilteknum greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða. Með dskj. nr. 54 gerði stefnandi breytingu á kröfugerð sinnu um staðfestingu veðréttarins, þar sem því er þá lýst að greiðslurnar séu í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu. Krafan lýtur að höfuðstól skuldarinnar, dráttarvöxtum, málskostnaði og öllum öðrum kostnaði sem kunni að leiða af innheimtu kröfunnar eða lægri fjárhæð samkvæmt mati dómsins. Með nefndu dómskjali eru tilgreindar þær greiðslur er um sé að ræða, en þær eru taldar greiddar 24. júlí 2003, að fjárhæð 20.253.977 krónur, 22. ágúst 2003, að fjárhæð 26.718.056 krónur og 2. október 2003, að fjárhæð 23.292.057 krónur.
Á dskj. nr. 55 lagði stefndi fram yfirlýsingu um að hann samþykkti breytta kröfugerð stefnanda þannig að staðfesting veðréttar gæti aðeins tekið til 7.500.000 króna hvert sinn og að veðréttur gæti ekki tekið til greiðslna sem gjaldféllu eftir að stefnda hefði verið veitt heimild til greiðslustöðvunar 13. júlí 2003, en ella ekki til þeirra verðmæta sem orðið hafi til eftir þann dag.
Veðréttindi teljast til óbeinna eignarréttinda. Þannig þrengja þau annan og víðtækari rétt, beinan eignarrétt. Stefnandi hefur ekki kosið að krefjast þess, að fá afhentar greiðslur í samræmi við yfirlýsingu á dskj. nr. 7, heldur einvörðungu, að staðfest verði óbein eignarréttindi yfir greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða.
Kröfuliður stefnanda um staðfestingu veðréttar byggir á yfirlýsingum á dskj. nr. 7 og 8, er áður hefur verið gerð grein fyrir. Er þar annars vegar um að ræða yfirlýsingu stefnanda, stefnda og Flugleiða hf. um að allar greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða, frá og með 15. apríl 2003, muni fara inn á reikning 1103-05-40357 hjá stefnanda, auk yfirlýsingar um að stefndi gefi stefnanda heimild til að ráðstafa til sín tilgreindum greiðslum út af reikningi nr. 1103-05-40357 er stefndi hafi hjá stefnanda. Stefnandi byggir á því að með yfirlýsingunum hafi honum verið veittur veðréttur í greiðslunum, sbr. 45. gr. laga nr. 75/1997, en stefndi heldur því fram að yfirlýsingarnar séu ekki veðsamningur, auk þess sem fleiri atriði koma fram í hans málstað er gera ráð fyrir að kröfum stefnanda beri að hafna að þessu leyti.
Til veðsamnings stofnast með gildu loforði. Loforðið verður þannig að fela í sér viljayfirlýsingu loforðsgjafa, er felur í sér skuldbindingargildi af hans hálfu, og er beint til loforðsmóttakanda fyrir tilstilli loforðsgjafans. Loforð um að tiltekin eign sé sett að veði til tryggingar skuld, stofnar þannig loforðsmóttakanda, veðhafa, til handa kröfu á hendur loforðsgjafanum, veðsalanum. Heimilt er að veðsetja fjárkröfur, sbr. 45. gr. laga nr. 75/1997.
Til úrlausnar er, hvort yfirlýsing á dskj. nr. 7 teljist fullnægja framangreindum skilyrðum til að til fullgilds veðsamnings hafi stofnast. Yfirlýsingin er hvergi nærri eins skýr og æskilegt væri, og ekki er tekið fram í henni að um veðsamning sé að ræða, né að tiltekin fjárkrafa sé sett að veði. Skjalið felur í sér yfirlýsingu stefnda um að allar greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða fari inn á tiltekinn reikning hjá stefnanda, og að ekki sé heimilt að gera breytingu á því nema með samþykki stefnanda. Ótvírætt er að hér er um viljayfirlýsingu að ræða af hálfu stefnda er felur í sér skuldbindingu af hans hálfu, þar sem ekki er heimilt að gera breytingu þar á nema með samþykki stefnanda. Í samræmi við þetta þykir unnt að líta svo á, að stefndi sé að gefa bindandi loforð sem veðsali um greiðslur til stefnanda sem veðhafa.
Samkvæmt 45. gr. laga nr. 75/1997 þarf fjárkrafa að vera á hendur nafngreindum skuldara. Samningur um aðild stefnda að greiðslumiðlun Flugleiða, frá 11. júní 2002, felur í sér að tilteknar greiðslur samkvæmt samningnum skuli greiðast stefnda. Tekið er fram að greiðslumiðlunin sé deild innan Flugleiða hf., en ekki sérstakur lögaðili. Kröfur á grundvelli samningsins verða því gerðar á hendur Flugleiðum hf. Að þessu leyti er ótvírætt, að Flugleiðir hf. eru skuldari gagnvart þeim fjárkröfum er stefndi á tilkall til samkvæmt samningi aðila. Bréfaskipti stefnanda, stefnda og Flugleiða hf. á dskj. 9 - 21 þykja auk þess bera þess vitni, að aðilar hafi einnig litið svo á. Er því fullnægt skilyrðum 45. gr. að um nafngreindan skuldara sé að ræða. Verður í samræmi við allt þetta talið, að með yfirlýsingunni 11. apríl 2003 á dskj. nr. 7, hafi stofnast til fullgilds veðsamnings. Með vísan til þess er áður er komið fram um fyrsta kröfulið stefnanda verður talið, að framkvæmdastjóri stefnda hafi mátt skuldbinda stefnda að þessu marki. Til að slíkur veðréttur njóti réttarverndar þarf skuldari að fá tilkynningu um veðsetninguna, sbr. 46. gr. laga nr. 75/1997. Því skilyrði laganna er fullnægt með því að undir yfirlýsinguna er ritað af hálfu Flugleiða hf.
Stefnda var veitt greiðslustöðvun 13. júlí 2003. Með lögum nr. 21/1991 er með ákvæðum um greiðslustöðvun í senn verið að veita skuldara sérstakt úrræði til að leitast við að koma nýrri skipan á fjármál sín og stuðla um leið að því að fyrr komi til gjaldþrotaskipta en áður, með því að greiðslustöðvun getur gefið tóm til að komast að raun um að tilgangslaust sé að verja frekari tíma í viðleitni til að komast hjá gjaldþrotaskiptum. Þannig girða ákvæði laganna ekki fyrir að eftir að greiðslustöðvun hafi verið veitt sé stofnað til skuldbindinga eða að eignum sé ráðstafað, en setja slíkum gerðum ákveðnar skorður. Ákvæðum laganna um réttaráhrif greiðslustöðvunar er þannig fyrst og fremst ætlað að veita skuldurum ákveðna réttarvernd gagnvart kröfuhöfum og veita þannig ákveðið svigrúm til reksturs í tiltekinn tíma.
Stefnandi hefur krafist þess að staðfestur verði veðréttur stefnanda í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða samkvæmt samningi, er gerður var fyrir þann tíma er stefnda var veitt greiðslustöðvun. Þar sem svo hagar til, og með vísan til áðurnefndra réttaráhrifa greiðslustöðvunar og þess, að með staðfestingu veðréttar er í raun eingöngu verið að kveða á um tiltekin réttindi yfir fjárkröfum þykir rétt, að taka kröfur stefnanda til greina að þessu leyti. Breytir því ekki þótt hluti greiðslna frá greiðslumiðlun Flugleiða hafi, á grundvelli veðsamnings aðila, fyrst orðið til eftir að stefnda var veitt greiðslustöðvun. Stefnandi hefur leitast við að skýra kröfugerð sína í þessum lið undir meðferð málsins. Í ljósi yfirlýsinga stefnda um breytta kröfugerð stefnanda þykir rétt, að tekið verði tillit til athugasemda stefnanda að þessu leyti, sbr. og 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til þessa er staðfestur veðréttur stefnanda í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða, sem eru í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu og greiddar voru 24. júlí 2003, að fjárhæð 20.253.977 krónur, 22. ágúst 2003, að fjárhæð 26.718.056 krónur og 2. október 2003, að fjárhæð 23.292.057 krónur, fyrir höfuðstól skuldarinnar, dráttarvöxtum, málskostnaði og öðrum kostnaði sem leiða kann af innheimtu kröfunnar.
Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað í máli þessu og þykir hann hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Það athugast, að greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi er áfátt, en þar gætir skriflegs málflutnings. Þá eru málsástæður þar raktar í löngu máli og ekki nægjanlega saman dregnar, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður, en af hálfu stefnda Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður.
Dóminn kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Kaupfélag Árnesinga svf., greiði stefnanda, Sparisjóði Mýrasýslu, 30.000.000 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, af 7.500.000 krónum frá 20. júní 2003 til 20. júlí 2003, af 15.000.000 króna frá 20. júlí 2003 til 20. ágúst 2003, af 22.500.000 krónum frá 20. ágúst 2003 til 20. september 2003 og af 30.000.000 króna frá 20. september 2003 til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun 23. júní 2003 að fjárhæð 4.482.800 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.
Staðfestur er veðréttur stefnanda í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða, sem eru í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu og greiddar voru 24. júlí 2003, að fjárhæð 20.253.977 krónur, 22. ágúst 2003, að fjárhæð 26.718.056 krónur og 2. október 2003, að fjárhæð 23.292.057 krónur, fyrir höfuðstól skuldarinnar, dráttarvöxtum, málskostnaði og öðrum kostnaði sem leiða kann af innheimtu kröfunnar.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.