Hæstiréttur íslands

Mál nr. 16/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
  • Lögveð
  • Stjórnarskrá


Föstudaginn 24

 

Föstudaginn 24. janúar 2003.

Nr. 16/2003.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Arnarbakka ehf. og

tollstjóranum í Reykjavík

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun Söluverðs. Lögveð. Stjórnarskrá.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var fallist á að í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 3/1987 um fjáröflun til vegagerðar, sbr. 14. gr. laga nr. 68/1996, væri að finna gilda lagastoð fyrir lögveðrétti varnaraðilans tollstjórans í Reykjavík í tiltekinni bifreið til tryggingar þungaskatti ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, sem deilt var um í málinu, svo og að sá lögveðréttur stæði í veðröð framar réttindum S samkvæmt veðskuldabréfi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. janúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2002, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 31. maí 2002 um að hafna mótmælum sóknaraðila gegn því að varnaraðilinn tollstjórinn í Reykjavík fengi greiddar 496.690 krónur af söluverði bifreiðarinnar KJ 013, áður eign varnaraðilans Arnarbakka ehf., samkvæmt frumvarpi sýslumanns 15. apríl 2002 til úthlutunar á söluverðinu. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að frumvarpi sýslumanns verði breytt á þann veg að varnaraðilinn tollstjórinn í Reykjavík fái ekkert í sinn hlut af söluverði bifreiðarinnar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili Arnarbakki ehf. hefur ekki látið málið til sín taka.

Varnaraðili tollstjórinn í Reykjavík krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að í 2. mgr. 11.  gr. laga nr. 3/1987 um fjáröflun til vegagerðar, sbr. 14. gr. laga nr. 68/1996, sé að finna gilda lagastoð fyrir lögveðrétti varnaraðilans tollstjórans í Reykjavík í bifreiðinni KJ 013 til tryggingar þungaskatti ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, sem deilt er um í málinu, svo og að sá lögveðréttur standi í veðröð framar réttindum sóknaraðila samkvæmt veðskuldabréfi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilanum tollstjóranum í Reykjavík kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en milli annarra málsaðila verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.


Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði varnaraðila tollstjóranum í Reykjavík 100.000 krónur í kærumálskostnað. Að öðru leyti fellur kærumálskostnaður niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2002.

             Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 15. júlí sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi í dag.

             Sóknaraðili er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni, Reykjavík.

             Varnaraðilar eru Arnarbakki ehf., kt. 580377-0179, Klöpp, Mosfellsbæ, og tollstjórinn í Reykjavík, Tryggvagötu 9, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að ákvörðun sýslumannsembættisins í Reykjavík, að hafna mótmælum sóknaraðilans gegn frumvarpi til úthlutunar söluverðs bifreiðarinnar KJ-013, verði felld úr gildi og sýslumanninum gert að breyta frumvarpinu á þann veg að stefndi, tollstjórinn í Reykjavík, fái ekki úthlutað af uppboðsandvirði bifreiðarinnar og að sá hluti sem úthlutaður var honum samkvæmt frumvarpinu verði úthlutað til sóknaraðila í samræmi við kröfu hans í veðröð.

Krafist er málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur varnaraðila, tollstjórans í Reykjavík, eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík þann 31. maí 2002, um að hafna mótmælum sóknaraðila gegn frumvarpi til úthlutunar söluverðs bifreiðarinnar KJ-013, verði staðfest og að frumvarp til úthlutunar söluverðs bifreiðarinnar frá 15. apríl 2002 verði staðfest þannig að varnaraðila, tollstjóranum í Reykjavík, verði úthlutað 496.690 kr. af söluverði hennar.

Þá krefst varnaraðili, tollstjórinn í Reykjavík, þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað eftir mati dómsins.

Af hálfu varnaraðilans Arnarbakka hf. hefur ekki verið sótt þing í málinu.

I

                Málsatvik

Þann 2. mars 2002 var bifreiðin KJ-013, sem er af gerðinni Mitsubishi Pajero árgerð 1997, seld á nauðungaruppboði af sýslumanninum í Reykjavík og seldist hún á kr. 1.200.000 kr.

                Á uppboðinu voru lagðar fram kröfulýsingar af hálfu sóknaraðila og varnaraðila tollstjóra. Lýsti varnaraðili tollstjóri kröfu að fjárhæð 496.690 kr. vegna þungaskattstímabila 1 og 2 á árinu 2000, 1 og 2 á árinu 2001 og 1 á árinu 2002, en sóknaraðili lýsti kröfu að fjárhæð 3.090.193 kr.

Sýslumaður úthlutaði söluverði bifreiðarinnar á grundvelli 1. mgr. 68. gr. laga nr. 90/1991 þann 26. mars 2002. Gerðar voru athugarsemdir við skilagrein sýslumanns sem gerði í framhaldi af því frumvarp til úthlutunar söluverðs. Frumvarpinu var mótmælt af sóknaraðila með bréfi til sýslumanns þann 26. apríl 2002 þar sem úthlutun til varnaraðila tollstjórans í Reykjavík var mótmælt. Boðaði sýslumaður til veðhafafundar sem haldinn var þann 31. maí 2002 þar sem mótmæli sóknaraðila voru tekin fyrir. Tollstjóri ítrekaði þar kröfur sínar og ákvað sýslumaður að frumvarp hans til úthlutunar á söluandvirði bifreiðarinnar stæði óbreytt. Lýsti sóknaraðili því þá yfir að ákvörðun sýslumanns yrði skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur.

             Með beiðni, dags. 10. júní 2002, óskaði sóknaraðili úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um gildi úthlutunarfrumvarps sýslumanns með skírskotun til 2. mgr. 68. gr., sbr. 51. og 73. gr. laga nr. 90/1991.

II

                Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að 11. gr. laga um fjáröflun til vegagerðar nr. 3/1987, þar sem mælt er fyrir um að þungaskattur njóti lögveðs, sé ekki fullnægjandi lagaheimild til umræddrar úthlutunar.

                Í fyrsta lagi sé lögveð til íslenska ríkisins brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Stefnandi kveður þá ákvörðun löggjafans að veita ríki og opinberum aðilum lögákveðin veðréttindi, lögveð, en ekki þegnunum, almennt vera ólögmæta mismunun og því andstæð jafnræðisreglunni. Þá byggir stefnandi einnig á því að ef skattkrafa rými út óbeinum eignarréttindum samnings- og aðfararveðhafa vegna síðari tíma álagningar skatts sé um að ræða brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar.

                Í öðru lagi sé túlkun og skýring sýslumanns á 11. gr. vegalaga nr. 3/1987 í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Veðréttur sóknaraðila byggist á veðskuldabréfi, útgefnu 15. febrúar 1999, sem þinglýst var 16. febrúar 1999, en á þeim tíma hafi veðsali ekki verið í skuld við ríkissjóð vegna þungaskatts á grundvelli 11. gr. vegalaga.

                Sóknaraðili kveður umþrætta kröfu tollstjóra vera vegna þungaskatts sem lagður hafi verið á bifreiðina vegna áranna 2000 – 2002, alllöngu eftir að veðréttindi sóknaraðila voru þinglesin á bifreiðina.  Í þessu sambandi byggir sóknaraðili á því að þótt viðurkennt yrði að lagaákvæði um lögveð væru samrýmanleg 72. gr. stjórnarskrár yrði að vera ótvírætt af slíku lagaákvæði að lögveðsréttindi gangi framar samningsveðum í viðkomandi eign. Í 11. gr. vegalaga sé aðeins mælt fyrir um að lögveð sé fyrir umræddum skatti. Ekki sé kveðið á um að lögveðréttindin gangi framar eldri samnings- eða aðfararveðum svo sem einnig tíðkist. Ljóst sé að lögveðréttindi 11. gr. séu forréttindi handa ríkissjóði. Lögveð sé í eðli sínu ráðstöfun í þágu lögveðshafa um að hann eigi tiltekin tryggingarréttindi fyrir tilteknum lögmæltum kröfum, eins og fyrir sé mælt í lögum. Ákvæðið sé íþyngjandi og beri því að túlka ákvæði um lögveð þröngt og skilja 11. gr. á þann veg að þungaskattur samkvæmt 11. gr. vegalaga fái stöðu í veðröð, án frekari aðgerða, frá og með þeim tíma sem skattur sé lagður á, að teknu tilliti til þeirra veðkrafna sem þá hafi verið þinglýst á bifreiðina. Þetta sé eðlilegur skilningur því ella væri þeim sem hygðust taka samnings- eða aðfararveð í viðkomandi bifreið algerlega ókleift að meta raunverulega veðstöðu á bifreiðinni. Síðari tíma álagning sem ryðji út óbeinum eignarréttindum af því tagi sem 11. gr. vegalaga geri samkvæmt skilningi tollstjóra og sýslumanns, sé því í reynd ólögmæt upptaka á óbeinum eignarréttindum sóknaraðila sem fari í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar.

                Í þriðja lagi mælir 11. gr. vegalaga ekki fyrir um að lögveð nái til vaxta eða kostnaðar, heldur einvörðungu til þungaskatts og álags. Þar af leiðandi skuli lækka úthlutun sýslumanns því sem nemi vöxtum og kostnaði.

III

                Málsástæður og lagarök varnaraðila

                Varnaraðili kveður 11. gr. vegalaga ekki vera í andstöðu við 65. gr. stjórnarskrár. Varnaraðili kveður að ekki sé hægt að beita 65. gr. þar sem lögveð og samningsveð séu ekki sambærileg. Alþekkt sé að kröfur hafi mismunandi stöðu að lögum við fullnustugerðir, t.d. við nauðungarsölu og við skipti. Varnaraðili kveður lögveð vera víða að finna í löggjöf, og sé farið eftir eðli kröfunnar hvort krafa hafi lögveð eða ekki. Þannig njóta sumar kröfur lögveðs án tillits til þess hvort ríki eða sveitarfélög séu kröfuhafar eða félög eða einstaklingar. Löggjafinn metur hvort eðli kröfunnar sé slíkt að rétt sé talið að hún njóti lögveðsréttar eða ekki. Því geti ekki verið um neina mismunun að ræða.

Varnaraðili kveður að í flestum tilvikum þar sem ríki eða sveitarfélögum sé veitt lögveð fyrir kröfu sé um að ræða kröfur sem ætlað sé að standa undir tiltekinni samneyslu í samfélaginu og nýtist þar með öllum þjóðfélagsþegnum. Þá sé skatturinn, sem veðandlagið er til tryggingar á, lagður á alla eigendur umræddra veðandlaga og þar með séu allir sem eins sé ástatt um hvað varðar eignarhald umræddra veðandlaga eins settir. Varðandi þungaskatt sé það mat löggjafans, sem engin tilefni séu til að hnekkja, að miklu skipti að tryggja skilvirka og örugga innheimtu gjaldsins sem renni til vegagerðar. Varnaraðili byggir einnig á því að 65. gr. stjórnarskrár nái ekki til ríkisins, sem aðila í þessu samhengi og innheimtu gjalda þess, enda byggir stjórnskipunin á því að ríkisvaldið njóti almennt annarrar stöðu en aðrir. Þá njóti sóknaraðili eða kröfur hans ekki réttar samkvæmt 65. gr. í máli þessu, enda sé greininni ætlað að vernda mannréttindi.

                Sóknaraðili hefði vel getað krafist frekari trygginga en veðs í umræddu ökutæki. Umrætt ákvæði um lögveð hafi að stofni til verið í íslenskum lögum frá og með lögum nr. 56/1921, um bifreiðaskatt, og ætti að hafa verið sóknaraðila vel kunnugt þar sem sóknaraðili hafi meðal annars atvinnu af lánveitingum vegna kaupa á dísilknúnum ökutækjum með veði í þeim. Varnaraðili bendir á að Hæstiréttur hafi í fjölmörgum dómsúrlausnum sínum, þar sem deilt sé um úthlutun uppboðsandvirðis, athugarsemdalaust talið úthlutun vegna lögveða heimila án bollalegginga um hvort viðkomandi lögveð standist jafnræðisreglu stjórnarskrár eða ekki.

                Varnaraðili mótmælir því að lögveðsheimildin sé andstæð 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í fyrsta lagi bendir varnaraðili á það að 72. gr. stjórnarskrár geti ekki helgað mönnum frekari eignarrétt en felist í heimildum þeirra, þ.e. þeim eignarrétti, beinum eða óbeinum, sem þeir eigi tilkall til. Þannig takmarkast veðréttur sóknaraðila við þær heimildir sem um hann gildi, meðal annars þá staðreynd að hann víki fyrir lögveðsrétti á grundvelli lagaheimildar. Þannig sé í engu um að ræða ólögmæta upptöku á óbeinum eignarréttindum sóknaraðila. Þá sé það inntakið í lögveðsrétti að lögveð gangi framar yngri eða eldri samningsveðum. Sóknaraðili hafi tekið veð í bifreiðinni fullkomlega meðvitaður um það að ef til vanskila þungaskatts kæmi væri lögveðsréttur á þeim gjöldum, dráttarvöxtum af þeim og kostnaði, er nyti forgangs, burtséð frá því hvort vanskilin væru eldri eða yngri en veðskuldin. Varnaraðili mótmælir því að um íþyngjandi ákvæði sé að ræða eða að skýra beri það þröngt á þann hátt sem sóknaraðili heldur fram.

                Almennt sé það talið heimilt að setja eignarréttinum takmörk með því að leggja á þjóðfélagsþegnana skatta og opinber gjöld eftir málefnalegum sjónarmiðum. Almenna löggjafanum sé þannig heimilt að leggja fégjald á tiltekna þjóðfélagshópa, svo fremi sem jafnræðis sé gætt, álagningin sé málefnaleg og eðlisrökrétt og sé ætlað að vera til fullnægingar þörfum þeirra þjóðfélagshópa sem álögunum sæti. Sóknaraðili hafi ekki mótmælt skattlagningunni sem slíkri heldur eingöngu lögveðsheimildinni. Sé það talið heimilt að skattleggja þjóðfélagsþegnana með framangreindum hætti sé það ekki meira inngrip í eignarétt þeirra að veita lögveð fyrir þeim sömu réttindum. Óbeinn eignarréttur sóknaraðila, sem hann leiði frá eiganda umrædds ökutækis sem selt var nauðungarsölu, geti aldrei orðið meiri en sá réttur sem eigandi ökutækisins átti sjálfur. Gagnvart öðrum veðhafa geti sóknaraðili ekki notið rýmri réttar á grundvelli veðréttinda sinna en sá sem hann leiðir þau frá. Kveður varnaraðili því að ekki geti verið um að ræða brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar gagnvart sóknaraðila þótt varnaraðila hafi verið veitt lögveð fyrir skattkröfu sinni í umræddu ökutæki sem mál þetta sé sprottið af. Lögveð varnaraðila byggi á fullgildri lagaheimild gagnvart 72. gr. stjórnarskrá sem engin tilefni séu til að hnekkja.

                Varnaraðili mótmælir því sérstaklega að túlkun og skýring sýslumannsins á 11. gr. laga nr. 3/1987 sé brot á stjórnarskrárvörðum óbeinum eignarréttindum sóknaraðila og því andstæð 72. gr. stjórnarskrárinnar. Það sé beinlínis innifalið í hugtaksskilgreiningu lögveðs að það gangi framar eldri sem yngri samningsveðum. Sé það ótvíræð meginregla að íslenskum kröfurétti um rétthæð lögveðs að það gangi fyrir yngri sem eldri samningsveðum og taki úthlutun söluveðs samkvæmt nauðungarsölulögum mið af því, sbr. meginreglu 1. mgr. 50. gr. þeirra. Feli réttur samkvæmt lögveði þetta einfaldlega í sér samkvæmt meginreglu kröfuréttar (eignarréttur) og venju samkvæmt. Breyti þá engu hvort þess sé getið í heimildarlögum eða ekki. Þá sé réttarvernd lögveðs ekki háð þinglýsingu, sbr. ákvæði þinglýsingarlaga. Þar að auki heldur varnaraðili því fram að lögveð hans sé eldra en veðréttur sóknaraðila enda hafi lögveðsrétturinn hvílt á bifreiðinni alla tíð til tryggingar þungaskattinum, en bifreiðin muni samkvæmt ökutækjaskrá hafa verið nýskráð hér á landi 15. febrúar 1999. Þannig hafi lögveðið alla tíð verið takmörkun á veðandlaginu og þar með veðrétti sóknaraðila.

                Varnaraðili bendir enn fremur á það að í upphafi þegar sambærilegt ákvæði kom inn í lög, 3. mgr. 4. gr. laga nr. 56/1921 um bifreiðaskatt, hafi verið tekið sérstaklega fram að veðið gengi fyrir öðrum veðum. Hafi ákvæðið haldist þannig óbreytt í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 84/1932 um bifreiðaskatt, 5. mgr. 4. gr. laga nr. 68/1949 um bifreiðaskatt, 6. mgr. 91. gr. vegalaga nr. 80/1973, 5. mgr. 10. gr. laga nr. 79/1974 og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 3/1987 um fjáröflun til vegagerðar allt til ársins 1996 þegar ákvæðinu var breytt með 14. gr. laga nr. 68/1996. Í frumvarpinu sem lagt var fram á 120. löggjafarþinginu um breytingu á lögum nr. 3/1987 hafi í upphafi ekki verið nein ráðagerð um breytingu á umræddu ákvæði 11. gr. um lögveðið. Í meðförum þingsins hafi ákvæðinu hins vegar breytt og hafi tilgangurinn verið sá að láta lögveðið ekki ná til viðurlaga þar sem töluverð gagnrýni hefði komið fram vegna þess. Af frumvarpinu megi sjá að önnur breyting hafi ekki verið fyrirhuguð á ákvæðinu þótt orðalagi hafi verið breytt og niður hafi fallið að veðið skyldi ganga framar öðrum veðum. Sú breyting skipti hins vegar ekki máli þar sem það sé innifalið í hugtaksskilgreiningu lögveðs eins og áður segir.

                Þá byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi meðal annars atvinnu af lánveitingum sem tryggð séu með veði í dísilknúnum ökutækjum. Sóknaraðila sé í lófa lagið að meta áhættutöku sína við lánveitingar sem tryggðar séu með slíku veði og áskilja sér hærra vaxtaálag þess vegna. Með því að leggja sérstakt vaxtaálag á umrædd lán tryggi sóknaraðili heildarhagsmuni sína við lánveitingar þessar og því verði hann ekki fyrir neinu tjóni í einstökum tilfellum þótt krafa hans skerðist sem nemi úthlutun upp í lögveð vegna þungskatts. Þá sé einnig sjálfgefið að sóknaraðili hljóti að taka mið af gjöldum eins og þungaskatti við mat á því hversu hátt hlutfall af kaupverði sé lánað vegna nýrra eða nýlegra bifreiða. Munu bílalán sóknaraðila ekki fara yfir 70% af kaupverði sem hljóti að taka mið af óvissuþáttum eins og afföllum og ekki síst hugsanlegum vanskilum á kröfum sem njóti lögveðsréttar.

                Af hálfu varnaraðila er því eindregið mótmælt að réttur samkvæmt lögveði til úthlutunar framar veðkröfu sóknaraðaðila taki ekki til dráttarvaxta og kostnaðar. Nái lögveðið og réttindi samkvæmt því, m.a. við úthlutun söluandvirðis, til dráttarvaxta og kostnaðar. Vísast til þess að það felst sjálfkrafa í 11. gr. laga nr. 3/1987 með því að um lögveðskröfu sé að ræða. Enn fremur vísast til skýlausra ákvæða 2. mgr. 6. gr. nauðungarsölulaga, meginreglna kröfuréttar, óumdeildrar venju svo og dómafordæma.

                Mótmælir varnaraðili því að lögveðskrafa hans fyrir þungaskatti, dráttarvöxtum og kostnaði verði skipað í veðröð frá og með þeim tíma sem þungaskattur hafi verið lagður á eða gjaldféll og þoki fyrir veðkröfu sóknaraðila við úthlutun. Beri því að hafna kröfum sóknaraðila í máli þessu.

IV

               Niðurstaða

                Úrlausn máls þessa á undir héraðsdómara samkvæmt 1. mgr. 73. gr., sbr. 1. mgr. 52. gr.  laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Sóknaraðili byggir á því að 11. gr. laga nr. um fjáröflun til vegagerðar nr. 3/1987, þar sem mælt er fyrir um að þungaskatti fylgi lögveð í viðkomandi ökutæki, sé ekki fullnægjandi lagaheimild til úthlutunar söluverðs vegna nauðungarsölu.  Telur sóknaraðili að lögveð til opinberra aðila feli í sér ólögmæta mismunun og sé því brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. 

              Viðurkennt er að löggjafanum sé  heimilt að mæla fyrir um lögveð í ákveðnum eignum til tryggingar kröfu þegar það telst vera þjóðfélagslega mikilvægt að hún innheimtist á tryggilegan hátt.  Er slík ákvæði víða að finna í löggjöf og er löng venja fyrir þeim.  Lögveðsheimild 2. mgr. 11. gr. vegalaga er eitt dæmi um það.  Þungaskattur er lagður á alla eigendur þeirra ökutækja, sem sú skattheimta tekur til samkvæmt 1. gr. vegalaga.  Þannig eru allir, sem eins er ásatt um og lögin taka til, jafnt settir.  Er því hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila að 11. gr. vegalaga brjóti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar.

             Lögveð það sem hér um ræðir er til tryggingar kröfu um þungaskatt sem stofnað var til á árunum 2000 til 2002, eftir að sóknaraðili öðlaðist veðrétt í veðandlaginu, og telur sóknaraðili forgang lögveðsins gagnvart óbeinum eignarréttindum samnings- og aðfararveðhafa brjóta gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar.

             Viðurkennt er að almennt sé heimilt að setja eignarréttinum takmörk með skattlagningu þjóðfélagsþegnanna eftir málefnalegum sjónarmiðum. Skattkrafa sú sem hér um ræðir er óumdeild og hún er tryggð með lögveði sem lagaheimild er fyrir og ræðst staða annarra veðhafa af því.  Það er almenn regla að lögveð gangi fyrir samningsveði í eign þeirri sem það hvílir á og skiptir ekki máli hvort það veð var tilkomið fyrir eða eftir að til lögveðs stofnaðist. Er því einnig hafnað þeim málsástæðum sóknaraðila að lögveðsheimild 11. gr. vegalaga sé andstæð 72. gr. stjórnarskrárinnar.

             Lögveð nýtur forgangs umfram önnur samnings- og aðfararveð. Af því leiðir að það nýtur forgangs við úthlutun söluverðs eftir nauðungarsölu, sem fer fram eftir rétthæð krafna, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991.  Ekki verður á það fallist með sóknaraðila að 11. gr. vegalaga feli ekki í sér forgangsreglu að þessu leyti.

             Lögveðskrafa felur það í sér að hún stendur bæði til tryggingar á höfuðstól kröfunnar og þeirra aukagreiðslna, sem henni fylgja, svo sem vaxta og kostnaðar.

Samkvæmt framansögðu ber að hafna kröfum sóknaraðila í málinu og fallast á kröfu varnaraðila um staðfestingu ákvörðunar sýslumanns og frumvarps til úthlutunar, sbr. 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sóknaraðili skal greiða varnaraðila, tollstjóranum í Reykjavík, 80.000 kr. í málskostnað.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Staðfest er sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík þann 31. maí 2002 að hafna mótmælum sóknaraðila gegn frumvarpi til úthlutunar söluverðs bifreiðarinnar KJ-013 og frumvarp til úthlutunar söluverðs bifreiðarinnar frá 15. apríl 2002 er staðfest þannig að varnaraðila, tollstjóranum í Reykjavík, skal úthlutað 496.690 kr. af söluverði hennar.

Sóknaraðili, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal greiða varnaraðila, tollstjóranum í Reykjavík, 80.000 kr. í málskostnað.