Hæstiréttur íslands
Mál nr. 650/2009
Lykilorð
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Kærumál
|
|
Þriðjudaginn 17. nóvember 2009. |
|
Nr. 650/2009. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Unnar Steinn Bjarndal hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. og d. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli b. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. Þá var einnig staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna breyttri tilhögun gæsluvarðhalds. Hins vegar var talið óheimilt að láta X sæta áframhaldandi einangrun, sbr. 2. mgr. 98. gr. laganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærðir eru tveir úrskurðir Héraðsdóms Reykjaness 11. nóvember 2009, þar sem varnaraðila var annars vegar gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. desember 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur og hins vegar var hafnað kröfu hans um breytta tilhögun gæsluvarðhalds. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að gæsluvarðhaldsúrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi, til vara að vægari úrræðum verði beitt, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að hann verði ekki látinn sæta frekari einangrun á gæsluvarðhaldstíma. Miðað við bókun varnaraðila við uppkvaðningu úrskurðarins um tilhögun gæsluvarðhalds verður litið svo á að hann krefjist þess að þær takmarkanir sem þar greinir verði felldar niður.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hinna kærðu úrskurða.
Af forsendum hins kærða úrskurðar um gæsluvarðhald varnaraðila má ráða að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli b. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Fallist er á forsendur og niðurstöðu úrskurðarins um að skilyrði séu til þess að hann sæti því áfram. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 18. október 2009 og verið í einangrun þann tíma. Í 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 er lagt bann við því að sá sem er í gæsluvarðhaldi sæti einangrun lengur en í fjórar vikur samfleytt, nema sá sem um ræðir sé grunaður um brot sem varðað getur að lögum tíu ára fangelsi. Varnaraðili er grunaður um brot gegn 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur fangelsi allt að átta árum. Er því óheimilt að láta varnaraðila sæta frekari einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Verður kröfu sóknaraðila um þetta hafnað. Að öðru leyti verða hinir kærðu úrskurðir staðfestir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. desember 2009, klukkan 16.
Hinn kærði úrskurður um tilhögun gæsluvarðhalds er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. nóvember 2009.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til b.og d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...],[...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. desember 2009, kl. 16:00. Þess er jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi samkvæmt b.lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að farbanni verði beitt. Til þrautavara krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá er kröfu um einangrun mótmælt.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í
greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að hann hafi í samvinnu við
önnur lögregluembætti, allt frá 10. október sl., haft til rannsóknar ætlað
mansal ásamt fleiri brotum sem lögreglan ætlar að séu hluti af ætlaðri
skipulagðri glæpastarfsemi. Sé kærði grunaður í því máli og hafi hann setið í
gæsluvarðhaldi frá 18. október sl. Varðandi frekari málsatvik vísist til fyrri
krafna um gæsluvarðhald fyrir dómnum svo og til gagna málsins.
Lögregla
telji rökstuddan grun til að ætla að kærði hafi innritað ætlað fórnarlamb
mannsals á hótel Leifs Eiríkssonar þann 15. október sl. og verið í samskiptum
við konuna á meðan hún var ekki í umsjá lögreglu en fyrir liggi að símanúmer kærða
var í tengslum við símanúmer konunnar á þeim tíma auk þess sem myndir séu af
kærða og konunni í eftirlitsmyndavél hótelsins þann sama dag. Þá hafi konan
borið um það að hafa verið í samskiptum við kærða á þeim tíma sem hún var ekki
í umsjá lögreglu. Kærði hafi að mestu neitað að tjá sig um málið og verið
heldur ósamvinnufús við lögreglu. Það sé því ætlun lögreglu að kærði kunni að
tengjast komu og veru hins ætlaða fórnarlambs mansals hingað til lands.
Verulegs ósamræmis og ótrúverðugleika gæti í framburði kærða og annarra aðila sem tengist málinu.
Rannsókn máls þessa sé mjög tímafrek og flókin og sé nú á lokastigi. Málið sé mjög umfangsmikið og teygi anga sína víða og telji lögreglan að rökstuddur grunur sé á að um sé að ræða verulega umfangsmikla skipulagða glæpastarfsemi sem kærði tengist ásamt meðkærðu. Rannsókn málsins hafi verið unnin í nánum samskiptum við erlend lögregluyfirvöld og sérstaklega við Litháen en fyrir liggi fjöldi gagna þaðan sem unnið sé að því að þýða og varði aðdraganda og forsögu að ferð konunnar hingað til lands. Sú háttsemi sem kærða hafi verið gefið að sök telji lögreglustjóri að kunni einkum að varða við ákvæði 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en ætlað brot gegn fyrrgreinda ákvæðinu geti varðað fangelsisrefsingu, allt að 8 árum.
Að mati lögreglu hafi sá grunur styrkst til muna að um verulega skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða sem kærði tengist. Sé hann talinn einn af forsprökkum ásamt þremur öðrum meðákærðum er nú sitji í gæsluvarðhaldi. Telji lögregla rökstuddan grun til að ætla að þessi ætlaða skipulagða glæpastarfsemi tengist litháísku mafíunni og sé kærði einn af þeim aðilum er veiti þeim forystu hér á landi. Vísist nánar um það til hættumarks greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem liggi fyrir í gögnum málsins.
Lögreglustjóri telji að öðru fólki stafi veruleg hætta af kærða en við rannsókn málsins hafi komið í ljós að fólk sé mjög hrætt við hann og sé jafnframt hrætt við að gefa framburð í málinu af ótta við hefndaraðgerðir. Þá sé kærði af erlendu bergi brotinn og verulegar líkur á að hann reyni að yfirgefa Ísland verði hann ekki látinn sitja í gæsluvarðhaldi. Þá vísi lögreglustjóri jafnframt til þess að meint brot varði helgustu réttindi fólks. Með vísan til alls þessa telji lögreglan nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Til stuðnings kröfu sinni um að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu vísi lögreglustjóri til þess að hætta kunni að leika á að kærði nái til vitna í málinu í gegnum aðila er tengist hinni meintu glæpastarfsemi. Ætla megi að kærði fái aðra aðila til að hefna eða hafa áhrif á framburð vitna áður en málið sé til lykta leitt fyrir dómstólum.
Krafa lögreglu er byggð á b. lið 95. gr. laga nr. 88/2008 um að hætta sé á, sæti kærði ekki áframhaldandi gæsluvarðhaldi, að hann muni reyna að komast úr landi og ennfremur er krafan byggð á d. lið sömu greinar, um að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings. Rannsókn málsins hefur beinst að erlendum ríkisborgurum sem lögreglan telur að stundi skipulagða glæpastarfsemi hér á landi m.a. með mansali, vændisstarfsemi og innheimtu svokallaðra verndartolla af samlöndum sínum sem hér eru búsettir. Í málinu hefur verið lagt fram hættumat greiningardeildar ríkislögreglustjóra vegna öryggis þriggja vitna og er niðurstaða matsins að öryggi vitnanna sé ógnað gangi kærði laus. Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á með lögreglustjóra að skilyrði b. og [d.] liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt og verður því krafan tekin til greina eins og hún er fram sett í beiðni og nánar greinir í úrskurðarorði. Fallist verði jafnframt á kröfu lögreglu um að kærði sæti einangrun.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærði,
X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. desember 2009, kl.
16.00.
Kærði
skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. nóvember 2009.
X var úrskurðaður í dag til
að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 2. desember 2009, kl.
16:00. Honum var jafnframt gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi
stendur. Hann krefst þess nú að gæsluvarðhaldinu verði hagað þannig að ekki
verði um takmarkanir að ræða samkvæmt c., d. og f. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr.
88/2008 eins og fulltrúi lögreglustjóra hefur krafist.
Af hálfu lögreglustjórans á Suðurnesjum er kröfu
kærða mótmælt og þess krafist að tilhögun gæsluvarðhalds fari fram samkvæmt
tilvitnuðum ákvæðum.
Það liggur fyrir í máli þessi að kærði sæti
gæsluvarðhaldi á grundvelli b. og d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
vegna gruns um brot gegn 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er
hagsmunum þeim sem liggja til grundvallar lýst í fyrrgreindum úrskurði um
gæsluvarðhald. Með vísan til þess sem þar greinir, og að virtum öllum atvikum
málsins, þykir skilyrðum fullnægt til að kærði sæti takmörkunum samkvæmt c., d.
og f. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð
þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærði, X, sæti takmörkunum í
gæsluvarðhaldi skv. c., d. og f. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.