Hæstiréttur íslands

Mál nr. 368/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 17

 

Miðvikudaginn 17. ágúst 2005.

Nr. 368/2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri)

gegn

X

(Friðbjörn Garðarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. ágúst 2005. Kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. ágúst 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. september 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. ágúst 2005.

Ár 2005, föstudaginn, er á dómþingi sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Arnfríði Einarsdóttur, settum héraðsdómara, kveðinn upp svo­felldur úrskurður.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, litháenskur ríkisborgari, fd. [...] 1950, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 9. september 2005, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að hjá lögreglu sé til rannsóknar ætlað brot ofangreinds X, gegn almennum hegninarlögum er varði innflutning fíkniefna til landsins.  Kærði hafi verið  handtekinn ásamt Y, fd. [...] 1978, sem einnig sé litháenskur ríkisborgari, á Seyðisfirði þann 30. júní s.l., er þeir hafi komið hingað til lands með farþegaferjunni Norrænu.  Við leit í bifreið þeirri sem kærði hafi verið á ásamt samferðamanni sínum, hafi komið í ljós mikið magn fíkniefna er greinst hafi sem 3.968,80 g. af metafmetamíni.  

Kærða hafi með dómi Hæstaréttar nr. 303/2004, frá 7. júlí sl. verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 12. ágúst 2005, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991. 

Kærði hafi neitað vitneskju um tilvist efnanna í bifreiðinni.  Skýringar kærða á ferðum sínum hafi allt frá upphafi verið ótrúverðugar. Kærði hafi greint frá því við upphaf rannsóknar að hann hefði verið fenginn af kunningja sínum til að flytja VW Golf frá Íslandi til Litháen og að ferðalagið hafi verið skipulagt af þessum kunningja hans.  Hann hafi við síðari skýrslutökur ekki getað greint frá ættarnafni þessa kunningja, hver ætti bílinn né hvar eða hvenær hann hefði átt að taka við honum.  Fram hafi komið að þessar upplýsingar hefðu átt að berast síðar. Framburður kærða á síðari stigum sé þó í nokkrum atriðum í mótsögn við fyrri framburð.  Jafnframt komi fram í framburði kærða að hann hafi fengið sterka tilfinningu á leiðinni að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera í kjölfar þess að fíkniefnaleitarhundar í Færeyjum hafi sýnt bifreið þeirra mikinn áhuga auk þess sem kærði hafi talið aðila þá sem hafi verið í sambandi við kærða og samferðamann hans hafa haft miklar áhyggjur af því að þeir kæmust ekki í gegnum tollinn.  Auk þessa megi skilja af framburði kærða að hann hafi grunað samferðamann sinn um að hafa staðið í einhverju misjöfnu s.s. smygli.

Samkvæmt framburði kærða hafi hann lagt í ferðalag til Íslands á bifreið sem fíkniefnum hefði verið komið fyrir í, með manni sem hann kveðist ekkert þekkja og ekki vita hvað var að fara að gera, að beiðni manns sem hann hafi lítið þekkt.  Kærði hafi lagt af stað án þess að vita hvenær hann kæmi heim eða hvernig, ekki vitað nákvæmlega hvað hann hafi verið að sækja, né hvar eða hvenær hann fengi það afhent eða hvernig hann kæmi því heim.  Auk þess hafi peningar til að standa straum af uppihaldi kærða skv. framburði hans, verið í höndum þessa samferðamanns sem hann kveðist ekkert þekkja.  Telja verði alla þessa frásögn mjög ótrúverðuga.

Kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað geti fangelsi allt að 12 árum, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga.  Sé brot kærða mjög alvarlegt þar sem um mikið magn hættulegra fíkniefna sé að ræða sem ætla megi að hefðu stofnað heilsu ótiltekins fjölda fólks í hættu hefðu þau komist í umferð.  Hagsmunir almennings krefjist þess að aðili sem eigi þátt í jafn stóru og alvarlegu broti sem þessu, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gangi í málinu.  Sé þetta byggt á því magni sem hér um ræði auk þess sem það myndi vekja athygli og andúð almennings ef hann endurheimti frelsi sitt á þessari stundu. Sé mat þetta á almannahagsmunum staðfest í fjölda dóma Hæstaréttar sem fallið hafi undanfarin misseri.  Telja verði að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé fullnægt í því máli sem hér um ræði.  Verði þannig að telja áframhaldandi gæsluvarðhald nauðsynlegt vegna almannahagsmuna.

Enn fremur liggi fyrir að kærði sé erlendur ríkisborgari án búsetu hér á landi og ekki með nokkur tengsl við Ísland og megi gera ráð fyrir að fengi kærði fullt frelsi þá myndi hann reyna að koma sér undan frekari rannsókn, saksókn og refsingu.  Sé því gæsluvarðhald nauðsynlegt jafnframt af þessum ástæðum sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.

Meint sakarefni sé talið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Kærði er grunaður um brot skv. 173. gr. a  alm. hegningarlaga nr. 19/1940 sem getur varðað allt að 12 ára fangelsisrefsingu. 

Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 1. júlí sl.

Kærði hefur neitað aðild að framangreindum fíkniefnainnflutningi en framburður hans hefur ekki að öllu leyti verið stöðugur. 

Þegar litið er til gagna málsins er það niðurstaða dómsins að fram sé kominn sterkur og rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot sem að lögum geti varðað allt að 12 ára fangelsi.   Þá verður talið að aðild hans að málinu sé slík að skilyrði séu fyrir gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og sé ekki ástæða til að marka því skemmri tími en krafist er.  Er því fallist á fram komna kröfu um áfram­haldandi gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arnfríður Einarsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

X, litháenskur ríkisborgari, fd. [...] 1950, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 9. september 2005, kl. 16:00.