Hæstiréttur íslands

Mál nr. 275/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skilorð
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 18. desember 2014.

Nr. 275/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Rúnari Eiríkssyni

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

(Páll Arnór Pálsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skilorð. Skaðabætur.

R var sakfelldur fyrir brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa strokið hendi yfir vinstra brjóst A utan klæða. Var refsing R ákveðin skilorðsbundið fangelsi í einn mánuð og honum gert að greiða A skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 848.370 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

 Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 11. janúar 2013 í varðstofu í húsakynnum fangelsisins að [...] strokið með hendi yfir vinstra brjóst A utan klæða, en á þeim tíma starfaði hún þar sem fangavörður og ákærði sem varðstjóri. Fyrir héraðsdómi viðurkenndi ákærði að hafa lagt hönd á öxl A og strokið síðan niður yfir brjóst hennar. Ekki er fram komið að þetta atferli ákærða hafi verið í öðrum tilgangi en kynferðislegum. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis. Refsing hans er hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.

Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Rúnar Eiríksson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 660.793 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 28. mars 2014

Mál þetta, sem dómtekið var þann 4. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara á hendur Rúnari Eiríkssyni, kennitala [...], til heimilis að [...], [...], „fyrir kynferðislega áreitni, með því að hafa föstudaginn 11. janúar 2013, á varðstofu í húsi 3 í fangelsinu [...] á [...], strokið yfir vinstra brjóst A utan klæða með hægri hendi, en ákærði var varðstjóri í fangelsinu og A fangavörður.

Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í ákæru er tekin upp einkaréttarkrafa A, en krafan er svohljóðandi:

                „Af hálfu A, kt. [...], er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 848.370 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. janúar 2013 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

 Ákærði neitaði sök við þingfestingu málsins og hafnaði framkominni einkaréttarkröfu. Málinu var frestað til 13. febrúar sl., en þann dag skilaði verjandi ákærða greinargerð.   

Ákæruvaldið gerir þær kröfur sem í ákæru greinir.

Af hálfu bótakrefjanda eru gerðar sömu kröfur og í bótakröfu greinir.

                Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákvörðun refsingar verði frestað. Til þrautavara kefst ákærði þess að hann verði eingöngu dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Ákærði krefst þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

                Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna. 

Málavextir

                Mánudaginn 11. mars 2013 kom A, brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöðina á Selfossi og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðislega áreitni sem hún taldi sig hafa orðið fyrir af hans völdum um hádegisbil föstudaginn 11. janúar 2013 í varðstofu á sameiginlegum vinnustað þeirra í fangelsinu á [...]. Lögregluskýrsla var tekin af brotaþola framangreindan mánudag. 

                Fyrir liggur að á umræddum tíma unnu ákærði og brotaþoli á sömu vakt, ákærði sem varðstjóri og brotaþoli sem fangavörður. Óumdeilt er að þegar umræddur atburður átti sér stað voru staddir í varðstofunni, auk ákærða og brotaþola, fangaverðirnir B og C. Einnig liggur fyrir að í umrætt sinn var brotaþoli klædd nýjum einkennisfatnaði fangavarða, þ.e. svokallaðri flíspeysu. Þá liggur fyrir að þegar ákærði kom að voru brotaþoli og vitnið B að ræða um hinn nýja einkennisfatnað. 

Í málinu liggur frammi vottorð D, læknis við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, dags. 26. apríl 2013, um brotaþola. Þar kemur meðal annars fram að brotaþoli hafi leitað til lækna stofnunarinnar dagana 11., 14., 15. og 20. janúar, 14. og 19. febrúar, 15. mars og 2. apríl 2013. Kemur fram í vottorðinu að þann 11. janúar 2013 hafi brotaþoli fundið fyrir miklum kvíða og streitu. Einnig er í vottorðinu gerð grein fyrir slæmri andlegri líðan brotaþola í öðrum heimsóknum á heilsugæsluna. Í vottorði E, sálfræðings Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 30. apríl 2013, kemur fram að hann hafi hitt brotaþola tvisvar, 25. janúar og 5. febrúar.  Þá staðfestir F, sálfræðingur,  í vottorði dagsettu 27. febrúar sl., meðferð brotaþola vegna áfallastreituröskunar. Fram kemur að sterk kvíðaeinkenni hafi verið mjög hamlandi fyrir brotaþola í athöfnum dagslegs lífs. 

                Í málinu liggur einnig frammi vottorð G, sálfræðings, þar sem fram kemur að ákærði hafi leitað aðstoðar vegna atburðar þess sem mál þetta varðar og hafi ákærði sótt sex sálfræðiviðtöl frá því í desembermánuði 2013. Meðferðin hafi miðað að því að draga úr kvíða og áhyggjum ákærða vegna málsins, ásamt því að hann yrði starfhæfur á ný, en atburðurinn hafi valdið ákærða áhyggjum og vanlíðan.

Þá liggja frammi ljósmyndir teknar í varðstofu í húsi nr. 3 í fangelsinu [...].

Skýrslutökur fyrir dómi

                Ákærði kvaðst hafa unnið sem varðstjóri í fangelsinu með brotaþola, líklega í 8-9 ár. Brotaþoli hafi verið góður starfsmaður og aðstoðað ákærða með ýmis verkefni. Aðspurður um samskipti þeirra fram til þess atburðar sem mál þetta fjallar um sagði ákærði að þau hafi verið mjög góð, ekkert hafi komið upp á í þeirra samskiptum og ítrekaði ákærði að mjög gott hafi verið að vinna með brotaþola.

Umræddan dag kvaðst ákærði hafa verið nýkominn inn á varðstofu í húsi nr. 3 til vitnisins C þegar brotaþoli og vitnið B hafi komið þar inn í nýjum flíspeysum. Þær hafi rætt um að peysurnar væru flottar og kvaðst ákærði hafa tekið undir það. Þá hafi brotaþoli einnig sagt að peysan væri svo mjúk. Þá kvaðst ákærði í hvatvísi hafa lagt höndina á öxl brotaþola og strokið niður yfir brjóst brotaþola, líklega það vinstra, og sagt já er hún svona mjúk. Eftir þetta kvaðst ákærði hafa beðið brotaþola um að aðstoða sig við tiltekið verkefni og brotaþoli skrifað niður atriði sér til minnis. Síðan kvaðst ákærði hafa gengið út af varðstofunni. Hann hafi síðan, líklega í hádeginu, komið aftur inn  á varðstofuna og þá spurt vitnið C hvar brotaþoli væri. C hafi sagt sér að brotaþoli hafi farið heim veik og kvaðst ákærði ekki hafa tengt það áðurnefndum atburði. Það hafi ekki verið fyrr en um klukkan 15.30 sem honum hafi verið tilkynnt að brotaþoli hafi orðið fyrir áfalli vegna atburðarins. Nánar aðspurður um ástæðu þess að hann strauk yfir brjóst brotaþola sagðist ákærði hafa gert það í tilefni umræðu um að áðurnefnd peysa væri mjúk. Þetta hafi hann gert í einhverjum fíflagangi, alls ekki í kynferðislegum tilgangi. Aðspurður hvort það hafi verið ætlun hans að strjúka yfir brjóst brotaþola sagði ákærði að svo hafi ekki verið en svona hafi það einhvern veginn orðið. Brotaþoli hafi engin viðbrögð sýnt, aðeins samþykkt að hjálpa ákærða með áðurnefnt verkefni. Ákærða minnti að vitnið B hafi hlegið og sagt „hvað ertu að gera“ eða eitthvað þess háttar, en ákærði kvaðst ekki hafa svarað henni. Ákærði kvaðst ekki minnast viðbragða af hálfu vitnisins C.

                Ákærði hafnaði alfarið þeim framburði brotaþola hjá lögreglu að ákærði hafi klipið í brjóst brotaþola. Ákærði kvaðst engin samskipti hafa átt við brotaþola eftir atburðinn, aðeins einu sinni hitt hana þegar hún var við störf í fangelsinu eftir atburðinn. Þá kom fram hjá ákærða að til hafi staðið að ná sátt í þessu máli en þegar á reyndi hafi brotaþoli ekki verið tilbúinn til þess. Ákærði kvaðst hafa verið áminntur í kjölfar þessa máls og jafnframt færður milli vakta. Ákærði lýsti slæmum afleiðingum  atburðarins fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans.

                Vitnið og brotaþolinn, A, kvaðst á umræddum tíma hafa unnið sem fangavörður en ákærði hafi verið varðstjóri hennar öll árin sem hún vann í fangelsinu. Samskipti þeirra hafi verið góð og eðlileg. Brotaþoli kvaðst umræddan dag hafa staðið ásamt vitninu B við hringstiga í varðstofunni. Þennan dag hafi þær fengið nýjan einkennisklæðnað og verið að ræða um hve ánægðar þær væru með hann. Í því hafi ákærði komið niður hringstigann og sagt „já þetta er æðisleg peysa“ og í framhaldi af því gripið fyrst um framhandlegg brotaþola, síðan um upphandlegg og loks hafi ákærði gripið um vinstra brjóst hennar. Þá hafi vitnið C, sem þarna var staddur sagt „djöfull ertu grófur“. Vitnið B hafi ekki áttað sig á alvarleika málsins og farið að hlæja. Brotaþoli kvaðst hins vegar hafa brotnað niður, sest í hægindastól sem þar var í varðstofunni og hugsað með sjálfri sér, hvað er ákærði að gera mér eftir öll þessi ár, en brotaþoli kvaðst hafa borið traust til ákærða. Nánar aðspurð lýsti brotaþoli viðbrögðum sínum strax eftir atvikið þannig að hún hafi titrað og skolfið en ekkert sagt við ákærða. Strax á eftir hafi ákærði falið henni tiltekið verkefni og síðan farið út. Brotaþoli lýsti því að þegar hún hafi séð nafngreindan starfsmann fara út að reykja hafi hún fylgt honum eftir og greint frá atburðinum. Við það hafi hún brotnað endanlega og mikið grátið. Í framhaldinu hafi aðstoðarvarðstjóri rætt við sig ásamt áðurnefndum starfsmanni. Síðar hafi hún hitt vitnin H, fangavörð, og I, staðgengil forstöðumanns,  og greint þeim frá málavöxtum. Í framhaldi af því hafi þeir gefið henni frí á vaktinni sem og komandi helgarvakt sem hún hafi átt að sinna.

Brotaþoli kvaðst samdægurs hafa leitað á heilsugæsluna sem og vikuna á eftir.  Brotaþoli kvaðst hafa verið óvinnufær í einhvern tíma eftir atburðinn, en hætt störfum í fangelsinu vegna andlegrar vanlíðunar eftir að hafa unnið nokkrar vaktir eftir atburðinn. Brotaþoli kvað atburðinn hafa haft gífurlega slæmar afleiðingar fyrir sig meðal annars hafi hún misst starfið sitt. Hún sé nú í sálfræðimeðferð og einnig hafi hún sótt aðstoð hjá Stígamótum. Brotaþoli kvaðst engin samskipti hafa átt við ákærða eftir atburðinn.

                Vitnið B, fangavörður, kvaðst í umrætt sinn hafa verið stödd í húsi 3 ásamt brotaþola og C. Þar hafi vitnið og brotaþoli verið að ræða um nýja einkennispeysu sem brotaþoli hafi verið í og hvað peysan væri mjúk, fín og góð. Í því hafi ákærði komið niður stigann, eitthvað farið að gantast og gripið líklega um framhandlegg brotaþola og síðan einu sinni snert brjóst brotaþola. Nánar aðspurð sagði vitnið að ákærði hafi klipið snöggt í brjóst brotaþola, líklega það vinstra. Vitnið minnti að ákærði hafi strax farið út úr herberginu. Aðspurð kvaðst vitnið ekki muna hvernig hún brást við og ekki geta lýst upplifun sinni af atvikinu. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir viðbrögðum C. Brotaþoli hafi strax sest niður og sagst vera reið og spurt vitnið og C hvort þau hafi tekið eftir atvikinu. Vitnið kvaðst hafa sagt brotaþola að ræða við ákærða, hann myndi án efa biðja hana afsökunar. 

                Vitnið C, fangavörður, lýsti aðdraganda atburðarins með sama hætti og vitnið B. Ákærði hafi komið þar að og snert vinstri framhandlegg brotaþola og síðan farið í vinstra brjóst brotaþola. Nánar aðspurður sagði vitnið að um hafi verið ræða létt grip um brjóstið. Vitnið kvaðst hafa sagt brotaþola skoðun sína á atvikinu, þ.e. að vitninu hafi þótt þessi háttsemi ákærða óviðeigandi. Vitnið kvaðst ekki muna hver hafi verið viðbrögð B og ákærði hafi farið beint út eftir þetta. Vitnið kvaðst um nokkurt skeið hafa verið á vakt með brotaþola og ákærða og hafi samskiptin verið hnökralaus. Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið ekki minnast þess að hafa á vettvangi látið einhver orð falla um atburðinn. Brotaþoli hafi verið undrandi og brugðið eftir atburðinn.

                Vitnið G, sálfræðingur, staðfesti framlagt vottorð sitt um ákærða.

                Vitnið I, sem á umræddum tíma var staðgengill forstöðumanns fangelsisins kvaðst hafa rætt við brotaþola ásamt H eftir umræddan atburð. Aðspurður hvernig brotaþoli hafi lýst atvikum sagðist vitnið ekki þora að segja til um það en hann minnti að brotaþoli hafi sagt að ákærði hafi klipið í brjóst sitt. Vitnið kvaðst, ásamt áðurnefndum H, hafa ritað minnisblað um afskipti sín af málinu. Vitnið staðfesti umrætt minnisblað sem  er meðal rannsóknargagna málsins. Vitnið sagði brotaþola hafa liðið illa og verið brugðið. Þeir H hafi einnig rætt við ákærða, sem hafi lýst atvikum þannig að hann hafi lagt höndina á öxl brotaþola og rennt henni síðan niður að framanverðu, og að þetta hafi hann gert í algjöru hugsunar- og kæruleysi í tengslum við könnun á efni í nýjum einkennisfötum. Þá hafi þeir H einnig rætt við vitnin B og C og fleiri sem að þessu máli komu. Vitnið minnti að B og C hafi greint frá því að ákærði hafi strokið brjóst brotaþola. Ákveðið hafi verið að brotaþoli fengi leyfi fram á mánudag og hafi hún ætlað að mæta þann dag og ljúka málinu með því að ákærði bæði hana formlega afsökunar. Hins vegar hafi þetta ekki gengið eftir þegar brotaþoli mætti illa fyrirkölluð og ólík sjálfri sér á mánudeginum.

                Vitnið H, fangavörður, lýsti aðdraganda afskipta sinna af málinu með sama hætti og vitnið Jón. Brotaþoli, sem hafi verið brugðið, hafi viljað fullar sættir og ákveðið hafi verið að gengið yrði frá því á mánudeginum. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir. Aðspurður um það hvernig brotaþoli hafi lýst atvikum kvaðst vitnið minna að um hafi verið að ræða stroku yfir öxl og brjóst brotaþola. Vitnið minnti að vitnið B og ákærði hafi lýst atvikum með sama hætti og brotaþoli. Eftir að hafa kynnt sér framangreint minnisblað, sem vitnið staðfesti, kvaðst vitnið ekki muna nákvæmlega hvernig brotaþoli og vitnið B lýstu atvikinu.

                Vitnið F, sálfræðingur, staðfesti framlagt vottorð um brotaþola. Brotaþoli hafi verið í meðferð síðan í október sl. vegna mikils hamlandi kvíða við allar athafnir daglegs lífs í kjölfar áfalls, þ.e. atburðar þess sem mál þetta fjallar um, sem og vegna depurðar. Vitnið kvaðst ekki hafa lagt próf fyrir brotaþola, aðeins hafi verið um að ræða meðferðarviðtöl. Fram kom að vitnið tengdi líðan brotaþola við umræddan atburð þar sem ekkert hafi komið fram í sögu brotaþola sem benti til þess að brotaþoli hafi áður glímt við hamlandi kvíða. Þá sé ekki um að ræða fyrri áföll samkvæmt frásögn brotaþola. Greiningu um áfallastreituröskun hjá brotaþola kvaðst vitnið byggja á faglegri þekkingu sinni á einkennum áfallastreituröskunar. Sérstaklega aðspurð kvaðst vitnið hafa sinnt þó nokkrum sem orðið hafi fyrir kynferðisbrotum og taldi vitnið, byggt á sinni reynslu, að afleiðingar ætlaðs brots á líðan brotaþola séu hefðbundnar.

                Vitnið J, heimilislæknir, upplýsti að D væri heimilislæknir brotaþola. Brotaþoli hafi hins vegar leitað til vitnisins þann 2. apríl 2013 fyrst og fremst til að endurnýja veikindavottorð og líklega hafi vitnið hitt brotaþola einu sinni til tvisvar eftir þetta í sama tilgangi sem og til að endurnýja lyf. Á þessum tíma hafi brotaþoli átt erfitt með svefn og verið kvíðin og fengið lyf af því tilefni. Fram kom hjá vitninu að á þessum tíma hafi brotaþoli einnig hitt tvo aðra lækna á heilsugæslunni. Í viðtölum hjá vitninu hafi brotaþoli lýst kvíða og andlegri vanlíðan sem brotaþoli hafi rakið til þess atburðar sem mál þetta fjallar um. Brotaþoli hafi verið í starfsendurhæfingu hjá [...] og gengið til sálfræðings á þeirra vegum til að vinna úr þessu áfalli og afleiðingum þess. Aðspurð um mat á stöðu og líðan brotaþola sagðist vitnið hafa metið frásögn brotaþola trúverðuga. Vitnið upplýsti að brotaþoli eigi ekki fyrri þunglyndissögu að undanskildu tilviki fyrir 10-15 árum.

Niðurstaða

Fyrir munnlegan málflutning og í samræmi við 1. mgr. 159. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, var sakarflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um hvort vísa bæri ákæru í máli þessu frá dómi án kröfu vegna ætlaðs ósamræmis milli rannsóknargagna og efnis ákæru um hvers eðlis snerting sú sem ákærða er gefið að sök að hafa viðhaft gagnvart brotaþola hafi verið. Ákæruvaldið taldi ekki skilyrði fyrir hendi til að vísa málinu frá dómi og vísaði til þess að ákæra væri reist á rannsóknargögnum, þ.m.t. framburði ákærða hjá lögreglu. Verjandi ákærða krafðist efnisdóms í málinu.       

Vegna flutnings um frávísun málsins frá dómi án kröfu ber nauðsyn til að rekja framburð brotaþola og vitnanna B og C hjá lögreglu um atvik í varðstofu í húsi 3 umræddan dag, en dómarar málsins hafa kynnt sér hljóðupptökur af skýrslutökunum sem liggja frammi í málinu. Brotaþoli kvað ákærða í greint sinn fyrst hafa tekið í framhandlegg sinn, síðan í upphandlegg og loks í brjóst. Lýsir brotaþoli því í skýrslu sinni að ákærði hafi gripið um brjóst hennar og þegar hún var beðin að lýsa því hversu fast hann hafi gripið á mælikvarðanum 1-10 þar sem 1 er mjög laust og 10 mjög fast, þá nefnir brotaþoli töluna 6-7. Á myndbandsupptöku af skýrslu brotaþola hjá lögreglu má sjá að brotaþoli lýsir því mjög greinilega að ákærði hafi gripið og haldið þétt um brjóst hennar. Brotaþoli lýsir því ekki að ákærði hafi strokið yfir brjóst hennar. Vitnið B lýsti því að ákærði hafi gripið einu sinni snöggt og stutt um brjóst brotaþola, eftir að hafa gripið fyrst um handlegg brotaþola. Kemur ekki fram hjá vitninu í skýrslunni að ákærði hafi strokið yfir brjóst brotaþola. Í skýrslu vitnisins C hjá lögreglu kom fram að ákærði hafi tekið í vinstri handlegg brotaþola og svo í vinstra brjóst hennar. Kemur ekki fram í skýrslunni að ákærði hafi strokið yfir brjóst brotaþola. Hjá lögreglu neitaði ákærði því staðfastlega að hafa gripið í brjóst brotaþola, heldur kvaðst hann hafa lagt hönd á öxl hennar og svo strokið niður eftir og yfir vinstra brjóst hennar.

Samkvæmt 53. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er markmið rannsóknar lögreglu að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi. Við rannsókn máls skal vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Samkvæmt 145. gr. sömu laga skal ákærandi, þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur, ganga úr skugga um að rannsókn sé lokið. Að þeirri athugun lokinni ber honum annað hvort að láta rannsaka málið betur, telji hann þess þörf, eða taka eftir atvikum ákvörðun um hvort sækja skuli mann til sakar samkvæmt 152. gr. laganna. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 skal í ákæru greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Tilgangur ákvæðisins er sá að ákærði geti ráðið af ákæru einni og verknaðarlýsingu hennar hvaða háttsemi honum er gefin að sök og hvernig sú háttsemi megi teljast refsiverð, enda er slíkt forsenda þess að ákærði geti varist sakargiftum. Þá skal ákæra einnig vera svo skýr að dómari geti gert sér glögga grein fyrir sakargiftum og lagt dóm á sakarefni, enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Í máli þessu er það mat ákæranda að nægar upplýsingar um sakarefnið hafi legið fyrir þegar tekin var ákvörðun um saksókn á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt dómum Hæstaréttar í málunum nr. 140/2011 og 578/2011, er ákvörðun um saksókn meðferð valdheimilda ákæruvalds sem ekki getur sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn máls.

Verknaðarlýsing í ákæru er skýr og ljós.  Þó svo að venja sé að lýsa broti í ákæru á þann veg sem sönnunargögn málsins benda til að brot hafi átt sér stað, þykir áðurnefnt ósamræmi milli rannsóknargagna og ákæru, þ.e. framburðar brotaþola, B og C hjá lögreglu annars vegar og framburðar ákærða hins vegar, ekki standa í vegi fyrir því að mál þetta verði tekið til efnismeðferðar, enda verður ekki talið að ætlað ósamræmi hafi haft áhrif á möguleika ákærða til að gera sér grein fyrir þeim sakargiftum sem á hann eru bornar og halda uppi vörnum, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 546/2006. Að öllu framangreindu virtu, og með vísan til þess að samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008, er það aðalregla að dómi verður reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, er það mat dómsins að ekki séu skilyrði til að vísa ákæru í máli þessu frá dómi.

Um þessa niðurstöðu er ágreiningur meðal dómenda. Sigurður G. Gíslason héraðsdómari vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 verði að gera ráð fyrir því að ákæra sé reist á því sem fram kemur við rannsókn lögreglu á máli. Hann telur að svo hafi ekki verið í máli þessu. Háttsemislýsing í ákæru sé aðeins byggð á því sem fram hafi komið í skýrslu ákærða hjá lögreglu, en framburður ákærða sé að þessu leyti í ósamræmi við samhljóða framburð brotaþola og þeirra tveggja vitna sem voru að atburðinum. Telur hann samkvæmt þessu að miklu frekar hafi það verið upplýst við rannsókn málsins hjá lögreglu að ákærði hafi gripið og haldið í brjóst brotaþola en strokið yfir það, en á þessu tvennu talsverður munur þó hvort tveggja feli í sér snertingu á brjósti utan klæða. Samkvæmt framansögðu telur áðurnefndur dómari að ákæra í málinu sé ekki byggð á því sem upplýstist við lögreglurannsókn málsins, og sé þannig í ósamræmi við það sem fram hafi komið við lögreglurannsóknina og því sé hún ekki viðhlítandi grundvöllur að úrlausn um það í sakamáli hvort ákærði hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi umrætt sinn, enda ljóst að samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 verði ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir. Telur dómarinn því að vísa beri ákærunni frá dómi sbr. 1. mgr. 180 laga nr. 88/2008, sbr. að þessu leyti einnig dóm Hæstaréttar í málinu nr. 142/2004. Að áliti dómarans geti engu breytt að háttsemi þeirri sem ákærða er gefin að sök, sé svo glögglega lýst að það fullnægi ákvæðum 1. mgr. 152. gr. nefndra laga, ef sú lýsing sé í ósamræmi við það sem upplýsist við lögreglurannsókn máls.

Ákærða er gefin að sök kynferðisleg áreitni með því að hafa umrætt sinn strokið yfir vinstra brjóst brotaþola utan klæða með hægri hendi. Ákærði hefur fyrir dómi viðurkennt að hafa strokið niður yfir brjóst brotaþola, líklega það vinstra, en reisir sýknukröfu sína á því að ekki sé uppfyllt saknæmisskilyrði 18. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um ásetning. 

Eins og að ofan greinir hefur ákærði viðurkennt að hafa snert brjóst brotaþola utan klæða eins og lýst er í ákæru. Nokkuð ber á milli framburðar ákærða fyrir dómi annars vegar og framburðar brotaþola og vitna hins vegar um hvers eðlis umrædd snerting hafi verið. Brotaþoli kvað ákærða hafi gripið um vinstra brjóst sitt. Vitnið B kvað ákærða hafi klipið snöggt í brjóst brotaþola, líklega það vinstra og vitnið C að ákærði hafi farið í vinstra brjóst brotaþola og að um hafi verið að ræða létt grip. 

Samkvæmt 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og ákvæðinu var breytt með 8. gr. laga nr. 61/2007, felst í kynferðislegri áreitni m.a. að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns, innan klæða sem utan, og enn fremur  táknræn hegðun eða orðbragð sem er mjög meiðandi, ítrekuð eða til þess fallin að valda ótta. Í athugasemdum með 8. gr. frumvarps, sem síðar varð að breytingarlögum nr. 61/2007, kemur fram að kynferðisleg áreitni sé háttsemi, kynferðislegs eðlis, sem teljist hvorki samræði né önnur kynferðismök. Felist hún í hvers konar snertingu á líkama annarrar manneskju sem sé andstæð góðum siðum og samskiptaháttum. Ákærði hefur bæði hjá lögreglu og fyrir dómi viðurkennt að hafa viðhaft þá háttsemi sem lýst er í ákæru gagnvart brotaþola, þ.e. að hafa strokið yfir vinstra brjóst brotaþola utan klæða. Þó svo lýsing ákærða á umræddri snertingu sé með nokkuð öðrum blæ en lýsing brotaþola og áðurnefndra vitna, verður lagt til grundvallar að ákærði hafi viðhaft þá snertingu á brjósti brotaþola sem ákæruvaldið byggir háttsemislýsingu í ákæru á.

Neitun ákærða á sakargiftum í máli þessu snýr eingöngu að því að ekki hafi verið uppfyllt saknæmisskilyrði 18. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og því eigi að sýkna ákærða í máli þessu. Framburður ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi er samhljóða um aðdraganda og ástæðu þess að hann snerti brjóst brotaþola í umrætt sinn. Brotaþoli hafi verið klædd nýrri peysu og verið að ræða við vitnið B um hvað peysan væri flott og mjúk. Fyrir dómi kvaðst ákærði, í framhaldi af framangreindum orðaskiptum, hafa í hvatvísi lagt höndina á öxl brotaþola og strokið niður yfir brjóst hennar og sagt, já er hún svona mjúk. Nánar aðspurður kvaðst ákærði hafa gert þetta í einhverjum fíflagangi, alls ekki í kynferðislegum tilgangi.

Samkvæmt 18. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er verknaður, sem refsing er lögð við í lögum, ekki saknæmur, nema hann sé unninn af ásetningi eða gáleysi. Þá segir að fyrir gáleysisbrot skuli því aðeins refsa, að sérstök heimild sé til þess í lögunum. Engin slík heimild er í 199. gr. laga nr. 19/1940. Í umfjöllun um saknæmisskilyrði 194.-199. gr. laganna í 7. tölulið III. kafla greinargerðar með frumvarpi sem síðar varð að breytingarlögum nr. 61/2007, segir að brot gegn framangreindum ákvæðum séu því ekki refsiverð nema þau séu framin af ásetningi og að öll stig ásetnings komi til greina. 

Eins og áður greinir lýsti ákærði því fyrir dómi að snerting hans á brjósti brotaþola hafi ekki verið í kynferðislegum tilgangi. Í inngangskafla greinargerðar með frumvarpi sem síðar varð að breytingarlögum nr. 61/2007, kemur fram að hinu nýja ákvæði um kynferðislega áreitni sé skipað í kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, þ.e. með nauðgun og öðrum brotum gegn kynfrelsi fólks (194.-199. gr.). Jafnframt kemur fram að þótt brotum sé skipað í flokka í frumvarpinu í samræmi við hefðbundin sjónarmið um þá hagsmuni sem þeim er ætlað að vernda, sé það meginmarkið allra ákvæðanna að vernda kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og frelsi og friðhelgi einstaklingsins á sviði kynlífs. Samkvæmt 199. gr. almennra hegningarlaga telst einnig önnur háttsemi en að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annarrar manneskju, hvort heldur utan sem innan klæða, til kynferðislegrar áreitni í skilningi ákvæðisins. Kynfæri og brjóst eru hins vegar líkamshlutar sem mjög eru tengdir hugtökum eins og kynlífi, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétti og frelsi og friðhelgi einstaklings á sviði kynlífs. Þá eru í samfélaginu rótgrónar reglur, siðir og venjur um samskiptahætti manna í milli þegar í hlut eiga framangreindir líkamshlutar.

Fyrir liggur að ákærði og brotaþoli hafa unnið saman á vöktum í fangelsinu í nokkur ár, ákærði sem varðstjóri og brotaþoli sem fangavörður. Bæði lýstu þau samskiptum sínum fram að þeim atburði sem mál þetta fjallar um sem góðum og áfallalausum. Ákærði vísar til þess að sérstakar aðstæður hafi verið fyrir hendi í umrætt sinn, þ.e. að brotaþoli og samstarfsmaður hennar hafi verið að ræða um efni og útlit peysu sem var hluti af einkennisfatnaði fangavarðar, og m.a. hafi brotaþoli viðhaft þau orð að peysa sem hún klæddist væri mjúk. Þá gaf ákærði þá skýringu á háttsemi sinni að hún hafi verið gerð af hvatvísi og í fíflagangi. Brotaþoli bar fyrir dómi að hafa í kjölfar atviksins titrað og skolfið og hugsað með sér, hvað er ákærði að gera mér eftir öll þessi ár, en brotaþoli kvaðst hafa borið traust til ákærða. Vitnið B kvað brotaþola hafa orðið reiða, en vitnið C bar að brotaþoli hafi verið undrandi og brugðið. Vitnin I og H, sem ræddu við brotaþola, stuttu eftir atvikið lýstu því að brotaþola hafi verið brugðið.

Af framansögðu virtu er það mat dómsins, að ákærða hafi ekki getað dulist þær afleiðingar sem það hefði í för með sér að hann snerti brjóst brotaþola, en að hann hafi látið sér þær í léttu rúmi liggja og ekki látið það aftra gerðum sínum gagnvart brotaþola. Með vísan til þess sem að framan er rakið, þeirra hagsmuna sem 199. gr. almennra hegningarlaga er ætlað að vernda og orðalags 199. gr. almennra hegningarlaga, þykir hafið yfir allan skynsamlegan vafa að með því að strjúka yfir vinstra  brjóst brotaþola hafi ákærði gerst sekur um kynferðislega áreitni og þannig brotið gegn 199. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 51/2007.

Um þessa niðurstöðu er ágreiningur meðal dómenda. Sigurður G. Gíslason héraðsdómari vísar til næsta samhljóða framburða brotaþola og vitnanna B og C hjá lögreglu og fyrir dómi, um að ákærði hafi klipið í brjóst brotaþola. Telur fyrrnefndur dómari ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að háttsemi ákærða umrætt sinn hafi verið sú sem lýst er í ákærunni og breyti í því efni engu að ákærði hafi játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Telur dómarinn því ósannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærunni. Samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir. Verður ákærði samkvæmt þessu ekki dæmdur í málinu fyrir að hafa gripið í og haldið um brjóst brotaþola, en hann er einungis ákærður fyrir að hafa strokið yfir brjóst hennar, en á þessu tvennu er að áliti dómarans verulegur munur eins og áður greinir. Dómarinn telur því óhjákvæmilegt að sýkna beri ákærða af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Ákvörðun refsingar

Ákærði, sem fæddur er árið 1950, hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað svo kunnugt sé. Með hliðsjón af broti ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð. Í ljósi þess sem áður er rakið þykir rétt að fresta fullnustu refsingar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum, frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Einkaréttarkrafa

Brotaþoli, A, gerir kröfu í málinu um bætur fyrir miska, sjúkrakostnað og þjáningabætur auk vaxta. Þá er gerð krafa um þóknun réttargæslumanns samkvæmt 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1.mgr. 217. gr.      

Samkvæmt greinargerð brotaþola sundurliðast bótakrafan þannig:

1.       Miski skv. 26. gr. skaðabótalaga                                      Kr.  600.000

2.       Sjúkrakostnaður skv. 1. gr. skaðabótalaga                    Kr.    23.470

Um sé að ræða kostnað samkvæmt framlögðum gögnum úr sjúkraskrárkerfi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, þ.e. komugjald á heilsugæslu að fjárhæð 18.700 krónur og læknisvottorð að fjárhæð 4.770 krónur, samtals 23.470 krónur.

3.       Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga                        Kr. 224.900

Vísað er til þess að brotaþoli hafi orðið fyrir mikilli vanlíðan, áfallastreituröskun, þunglyndi og kvíða í kjölfar kynferðislegrar áreitni ákærða og hafi því verið óvinnufær síðan 11. janúar 2013. Í samræmi við 3. gr. skaðabótalaga sé gerð krafa um greiðslu þjáningabóta í a.m.k. 130 daga frá og með áðurgreindum degi, samtals 224.900 krónur. 

Krafa um vexti af allri upphæðinni er gerð frá tjónsdegi, skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, til þess dags er mánuður er liðinn frá því ákærða er kynnt bótakrafan og dráttarvextir skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

Verjandi ákærða krefst þess að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að krafan verði lækkuð. 

Brotaþoli krefst miskabóta úr hendi ákærða og vísar til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til stuðnings kröfunni. Í broti kærða hafi falist ólögmæt meingerð gegn brotaþola í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þá vísar brotaþoli til dómvenju þess efnis að brot sem þessi séu til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum sem leiða eigi til greiðslu miskabóta, og að við mat á bótum eigi að líta til alvarleika brotsins sem og til þeirra afdrifaríku afleiðinga sem það hefur haft á hagi tjónþola. Brotaþoli hafi þurft að leita læknisaðstoðar vegna vanlíðunar og annarra afleiðinga af háttsemi ákærða. Með vísan til atvika þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. 

Brotaþoli krefst bóta vegna útlagðs sjúkrakostnaðar samkvæmt reikningum, samtals að fjárhæð 23.470 krónur. Með vísan til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993 verður þessi kröfuliður tekinn til greina.

Brotaþoli heldur því fram að hann hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og gerir kröfur um þjáningarbætur án rúmlegu í 130 daga. Í máli þessu nýtur ekki við læknisfræðilegra gagna um hve lengi brotaþoli hafi verið óvinnufær og verður því að vísa þessum kröfulið frá dómi.

Vextir af kröfunni skulu reiknast samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 11. janúar 2013 til 30. júní 2013, en þann dag var  mánuður liðinn frá birtingu bótakröfunnar. Frá þeim tíma til greiðsludags ber fjárhæðin dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.  

Sakarkostnaður

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., sem ákvarðast 502.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærða ber einnig að greiða útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti sækjanda, þóknun verjanda á rannsóknarstigi, 50.200 krónur, og kostnað vegna læknisvottorðs, 19.000 krónur, samtals 69.200 krónur. Þóknun réttar­gæslumanns, Jónínu Guðmundsdóttur héraðsdómslögmanns, að teknu tilliti til vinnu á rannsóknarstigi, þykir hæfilega ákveðin 445.525 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Hefur þá verið tekið tillit til vinnuframlags Gríms Hergeirssonar hdl. og Jóns Páls Hilmarssonar hdl., sem komu m.a. að gerð bótakröfu í fæðingarorlofi réttargæslumanns. Um þóknun réttargæslumanns vísast til 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  

Af hálfu ákæruvaldsins flutti Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir, aðstoðarsaksóknari, málið.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari og dómsformaður, Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri og Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kváðu upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Rúnar Eiríksson, sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í tvö ár frá birtingu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A 173.470 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 11. janúar 2013 til 30. júní 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá 30. júní 2013 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 502.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, útlagðan sakarkostnað, 69.200 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 445.525 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.