Hæstiréttur íslands

Mál nr. 338/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. júní 2008.

Nr. 338/2008.

F

G og

J

(Ásdís Rafnar hrl.)

gegn

C

D og

E

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

Kærumál. Dánarbússkipti. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Dánarbú hjónanna A og B var með úrskurði héraðsdóms tekið til opinberra skipta. Ágreiningur reis við skiptin og kröfðust sóknaraðilar þess að tilgreint land sem A tók í arf eftir föður sinn skyldi vegna fyrirmæla í erfðaskrá teljast séreigan hans og því gæti landið og þær eignir sem í stað þess hefði komið ekki komið til skipta til varnaraðila. Þá var þess krafist af sömu ástæðu að viðurkennt yrði að A hefði verið óheimilt að gera fasteignina H ásamt tilheyrandi lóð að séreign síðari konu sinnar B. Var kröfugerð þessi í samræmi við þau ágreiningsefni sem afmörkuð voru í bréfi skiptastjóra til héraðsdóms, sbr. 112. gr. og 122. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. Varnaraðilar gerðu fyrir héraðsdómi margs konar kröfur sem ekki voru afmarkaðar í fyrrnefndu bréfi skiptastjóra. Kröfðust sóknaraðilar frávísunar á þeim kröfum. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti sagði, að þar sem þær kröfur varnaraðila sem frávísunarkrafa sóknaraðila lyti að, væru ekki kröfur sem varnaraðila væri heimilt að hafa uppi samkvæmt 4. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991 yrði ekki hjá því komist að taka frávísunarkröfuna til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2008, þar sem vísað var frá dómi nánar tilteknum kröfum sóknaraðila í máli, sem rekið er milli þeirra og varnaraðila til að fá leyst úr ágreiningsefnum í tengslum við opinber skipti á dánarbúi A og B. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið í heild til efnismeðferðar. Þá krefjast þær málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, F, G og J, greiði í sameiningu varnaraðilum, C, D og E, samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2008.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 2. október 2007 var dánar­bú hjónanna A,  kt. [...], sem lést 29. apríl 2007, og  B, kt. [...], sem lést 1. júlí 2007, tekið til opinberra skipta. Með bréfi skiptastjóra mótteknu 27. nóvember 2007 var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið, sem þingfest var 14. desember s.á., var tekið til úrskurðar 7. maí sl. um frávísunarkröfur sóknaraðila. 

Sóknaraðilar eru C, kt. [...], [...], Mosfellsbæ, D, kt. [...], [...], Mosfellsbæ og E, kt. [...], [...], Kópavogi.

            Varnaraðilar eru F, kt. [...],  [...],  Mosfellsbæ, G, kt. [...], [...], Hafnarfirði og J, kt. [...], [...],  Mosfellsbæ.

Dómkröfur sóknaraðila eru að land sem hinn látni, A, tók í arf eftir föður sinn, I, og afmarkast þannig, “að það takmarkast af [...] að vestan, [...] að norðan, [...] að sunnan og að austan af tún­girðingu frá [...] í punkt A til B. Til C, eins og þeir eru markaðir í uppdrætti N. Innan túngirðingar sem markast að norðan af heimreið, að austan ræður línan G-Q að sunnan markaskurður í punkt T úr honum í punkt V þaðan með [...] að vesturhorni túngirðingar, að vestan er túngirðing” skuli vegna fyrir­mæla í erfðaskrá, dags. 7. nóvember 1960 teljast séreign A og því geti landið og þær eignir, sem í stað þess hefur komið, ekki komið til skipta til varnaraðila.

Þá er þess krafist af sömu ástæðu að viðurkennt verði að A hafi verið óheimilt að gera fasteignina H í Mosfellsbæ, ásamt tilheyrandi 5.218 m² lóð, að séreign síðari eiginkonu sinnar B, móður varnaraðila. Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur varnaraðila eru aðallega þær:

1.       Að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

2.       Að viðurkennt verði með úrskurði að eign A í jörðinni H í Mosfellsbæ skv. landskiptagjörð dags. 21. júní 1960, til­heyri móðurarfi A, sem honum tæmdist við einka­skipta­gerð eftir M dags. 20. september 1949 og hafi með því verið hjúskapareign A í hjónabandi hans og B.

3.       Að viðurkennt verði með úrskurði að þeir tveir hektarar (landnúmer [...]), sem eru að hluta séreign B (5.218 fm) og að hluta eign hlutafélagsins A hf. (14.782 fm) tilheyri upp­haflegri eign A skv. landskiptagerð dags. 21. september 1960 sbr. uppdrátt N af H nr. . [...].

4.       Að viðurkennt verði með úrskurði að við skiptingu dánarbúa hjónanna A og B skiptist hlutafélagið A hf., kt. [...] að jöfnu á milli lögerfingja dánarbús A á grundvelli 50% hlutafjáreignar A í félaginu og á milli lögerfingja B á grund­velli 50% hlutafjáreignar B í félaginu.

5.       Að viðurkennt verði með úrskurði að við skiptingu dánarbúa A og B skiptist söluandvirði einka­hluta­fél­agsins A ehf. kt. [...] samkvæmt kaupsamningi dags. 11. júní 2004, að jöfnu á milli lögerfingja dánarbús A á grundvelli 50% hlutafjáreignar A í félaginu og á milli lögerfingja B á grundvelli 50% hlutafjáreignar B í félaginu.

6.       Að viðurkennt verði með úrskurði að B hafi að lögum verið heimil seta í óskiptu búi, sbr. leyfi til setu í óskiptu búi dags. 30. maí 2007.

Til vara er þess krafist:

1.       Að viðurkenndur verði 1/3 lögboðinn erfðaréttur B eftir mann sinn A hafi B ekki verið að lögum heimil seta í óskiptu búi. Að leyfi til setu í óskiptu búi dags. 30. maí 2007 hafi í því tilviki verið ógilt.

2.       Að viðurkennt verði með úrskurði að samtals 69 hektarar af þeirri eign A ehf., kt. [...], sem seld var með kaupsamningi dags. 11. júní 2004 hafi upphaflega tilheyrt eign A skv. landskiptagerð dags. 21. september 1960 sbr. uppdrátt N af H nr. [...] og þannig verið hjúskapareign hans.
Þá er krafist málskostnaðar.

 

Í þinghaldi í málinu 29. febrúar sl. lýstu lögmenn sóknaraðila því yfir að þeir krefðust frávísunar á liðum 2-6 og varakröfum varnaraðila.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að frávísunarkröfu sóknaraðila verði hafnað.

            Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 7. maí sl.

I

Í bréfi skiptastjóra kemur fram að hin látnu hafi gengið í hjúskap 31. desember 1967 og eignast saman tvær dætur, G og J. Fyrir hafi B átt dótturina F og taki hún arf eftir móður sína og stjúpföður eins og arfborið barn hans samkvæmt erfða­skrá, dags. 18. september 1995. A hafi átt tvö börn, C og D, með fyrri eiginkonu sinni, K. A og K hafi skilið lögskilnaði 26. nóvember 1963. Þá hafi A átt fyrir dótturina E.

Á fyrsta skiptafundi í dánarbúinu þann 5. október 2007 hafi Valborg Snævarr hrl. lagt fram erfðaskrá I frá 7. nóvember 1960, þar sem arf­leifandi mæli fyrir um að allt land sem hann ánafni sonum sínum þ. á m. látna A, skuli þeir gera að séreign sinni. Lögmaðurinn hafi upplýst, að meginhluti þeirra eigna sem séu í búinu hafi komið í stað þess lands sem I ánafnaði A.

Á skiptafundi 15. sama mánaðar hafi verið bókað vegna erfðaskrár I:  L lýsir því yfir að umbj. hans telji að erfðaskrá I frá 7. nóvember 1960 beri að túlka þannig að land sem hinn látni, A, tók í arf eftir föður sinn, I, hafi verið séreign hans, sem og þær eignir sem í stað þess hafi komið. Eigi þær eignir því ekki að koma til skipta til erfingja B.  Ásdís Rafnar hrl. mótmælir því fyrir hönd umbjóðenda sinna að umrædd erfðaskrá geti haft réttaráhrif við búskiptin og telur hana þeim óviðkomandi.

            Erfingjar B hafi á fundinum óskað eftir því að fá ráðstöfunarrétt yfir fast­eign­inni H ásamt 5.218 fm lóð sem henni fylgi, þar sem hún hafi verið séreign kon­unnar samkvæmt kaupmála og komi því til skipta á milli þeirra. Jóhannes Ásgeirs­son hrl. hafi sagt það afstöðu umbjóðenda sinna að vegna ágreinings um erfðaskrá I væri eðlilegt að bíða með ráðstöfun fasteignarinnar.

Á skiptafundi 9. nóvember sl. hafi Valborg Snævarr hrl. lýst því yfir f.h. um­bjóðanda síns, E, að hún tæki undir það með erfingjunum, C og D, að það land sem A hafi tekið í arf eftir föður sinn hafi verið séreign hans samkvæmt erfðaskrá I, og ætti því ekki að koma til skipta til erfingja B.

Af hálfu skiptastjóra hafi því verið lýst yfir á fundinum að hann myndi vísa ágrein­ingnum um réttaráhrif erfðaskrár I til úrlausnar héraðsdóms. Þá hafi skipta­stjóri tilkynnt málsaðilum með bréfi dags 21. nóvember 2007 að hann teldi sig ekki geta orðið við tilmælum erfingja B um yfirráð yfir fasteigninni H, á meðan óleystur væri ágreiningur um erfðaskrána.

Vegna ákvörðunar skiptastjóra hafi erfingjar B bent á að það sé ekki óum­deilt að íbúðarhúsið og lóðin sé úr því landi sem I ánafnaði A.

Í hnotskurn snúist ágreiningur málsaðila um erfðaskrána frá 7. nóvember 1960 þar sem I m.a. ánafnaði A hluta úr landi H í [...].

Börn A, E, C og D krefjist viðurkenningar á því að um­rætt land hafi vegna fyrirmæla í erfðaskrá I verið séreign föður þeirra og því geti það og þær eignir sem í stað þess hafa komið ekki komið til skipta til erfingja B. Þá hafi A af sömu ástæðum verið óheimilt að gera fasteignina H í [...], ásamt tilheyrandi 5.218 fm lóð að sér eign B.

Börn B og A, F, G og J, telji að hafna eigi kröfu E, C og D. Fyrir því hafi þau m.a. fært þau rök að kaupmálinn hafi ekki verið gerður um að tilteknar eignir væru séreign A. A hafi átt stóran hluta jarðarinnar H er faðir hans féll frá. Við hjúskaparslit A og K hafi A skipt búshelmingi K samkvæmt fjár­slita­samn­ingi jafnt á milli barna þeirra C og D. Síðar hafi A keypt hluta jarð­ar­innar af C á ný (1972). A og B hafi síðar reist saman nýja hús­eign á H og gert um hana kaupmála og jafnframt lóð í kringum húsið, sem D hafi áritað á sínum tíma. Þá hafi hjónin stofnað saman hlutafélag og einka­hlutafélag í helmingseigu hvors og sé hlutafélagið eigandi að hluta H sem eftir sé og fjármunir dánarbúsins í vörslu Kaupþings séu andvirði sölu einka­hlutafélagsins. Þá bendi erfingjar á að þegar B hafi látist hafi hún setið í óskiptu búið eftir A m.a. á grundvelli ákvæðis í erfðaskrá þeirra hjóna og hafi D, C og E ekki gert athugasemdir við þá skipan mála, en þegið fyrir­fram­greiddan arf úr búi föður síns.

Framangreindu ágreiningsefni erfingja um erfðaskrána frá 1960 sé vísað til Héraðs­dóms Reykjavíkur í samræmi við 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánar­búum o.fl.

II

Í 112. gr. laga nr. 20, 1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. segir m.a. að rísi ágreiningur á milli aðila við opinber skipti samkvæmt XVI. kafla laganna um atriði sem 2. mgr. 103. gr. og 104.-111. gr. taki til, skuli skiptastjóri leitast við að jafna hann. Takist það ekki beini skiptastjóri málefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr.

Í 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20, 1991 segir m.a. að ef ágreiningur rísi um atriði við opinber skipti sem fyrirmæli laganna kveði sérstaklega á um að beint skuli til héraðs­dóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telji þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði sem komi upp við opinber skipti, skuli skiptastjóri beina skrif­legri kröfu um það til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfa. Í 3. tl. 1. mgr. 122. gr. er síðan tekið fram að meðal þess sem fram skuli koma í kröfunni sé um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi. 

Af framanröktum fyrirmælum 112. gr. og 122. gr. laga nr. 20, 1991 þykir ljóst að úrlausnarefni máls þessa ræðst af þeirri skriflegu kröfu sem skiptastjóri beindi til dómsins í samræmi við ákvæði 1. mgr. 122. gr.

Í bréfi skiptastjóra dags. 25. nóvember 2007 þykir koma skýrlega fram að ágrein­ingsefni það sem hann vísar til úrlausnar dómsins varðar réttaráhrif þess ákvæðis erfðaskrár I, frá 7. nóvember 1960, þar sem hann mælir fyrir um að allt land sem hann ánafni sonum sínum, þ. á m. látna A, skuli þeir gera að séreign sinni. Verður því í máli þessu ekki tekin afstaða til annarra ágrein­ingsefna en þar koma fram. Snýr enda kröfugerð sóknaraðila að því að fá dóms­úrskurð fyrir því að land það sem kveðið er á um í erfðaskránni, frá 7. nóvember 1960, að A taki í arf eftir föður sinn, I, skuli vegna fyrirmæla í erfða­skránni teljast séreign hans og því geti landið og þær eignir, sem í stað þess hefur komið, ekki komið til skipta til varnaraðila. Þá er þess krafist af sömu ástæðu að viður­kennt verði að A hafi verið óheimilt að gera fasteignina H í [...] ásamt tilheyrandi 5.218 m² lóð, að séreign síðari eiginkonu sinnar B, móður varnaraðila.

Verður því ekki hjá því komist að taka frávísunarkröfu sóknaraðila til greina enda eru kröfur þær sem frávísunarkrafan lýtur að ekki kröfur sem varnaraðila er heimilt að hafa uppi samkvæmt 4. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991.

Ákvörðun málskostnaðar býður efnisdóms í málinu.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá dómi liðum 2-6 í aðalkröfu varnaraðila og varakröfum varnaraðila.