Hæstiréttur íslands
Mál nr. 276/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Föstudaginn 17. apríl 2015. |
|
Nr. 276/2015.
|
A (Kolbrún Garðarsdóttir hdl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 2. sama mánaðar um að sóknaraðili skyldi vistast á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún þóknunar til handa skipuðum talsmanni sínum fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði samþykkti innanríkisráðuneytið 2. apríl 2015 að sóknaraðili yrði nauðungarvistuð á sjúkrahúsi á grundvelli 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Beiðni um þá vistun var reist á læknisvottorði 1. sama mánaðar þar sem meðal annars kom fram að sóknaraðili uppfyllti greiningarskilmerki fyrir aðsóknargeðklofa. Jafnframt taldi læknirinn vafalaust að sóknaraðili væri haldin alvarlegri geðröskun og að hún hefði ekki innsæi í sjúkdóm sinn. Ef sóknaraðili útskrifaðist stefndi hún heilsu sinni í voða og ekki væri hægt að útiloka að hún gæti verið sjálfri sér og öðrum hættuleg. Við meðferð málsins í héraði gaf skýrslu annar læknir, sem stundað hefur sóknaraðila, en vætti hans er rakið í hinum kærða úrskurði.
Að virtum læknisfræðilegum gögnum málsins verður fallist á það með héraðsdómi að brýna nauðsyn beri til að vista sóknaraðila á sjúkrahúsi vegna alvarlegs geðsjúkdóms. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Kolbrúnar Garðarsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2015.
Með beiðni, dagsettri 2. þ.m. hefur A, kt. [...], farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 2. þ. m., um það að hún skuli vistast á sjúkrahúsi. Af hálfu varnaraðila í málinu, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, er kröfu sóknaraðila mótmælt.
Fyrir liggur að sóknaraðili lagðist sjálfviljug inn á geðdeild 32A [...]. janúar sl. Ákveðið var vegna ástands hennar tveim vikum síðar að vista hana á deild 32c þar sem hún var talin óútreiknanleg og hættuleg sjálfri sér og öðrum og vildi fara af spítalanum. Var hún þar vistuð nauðug með samþykki innanríkisráðuneytisins þar sem það var talið óhjákvæmilegt til þess að veita mætti henni nauðsynlega læknismeðferð.
Í málinu liggur fyrir vætti B geðlæknis, sem stundað hefur sóknaraðila á geðdeildinni frá því janúar sl. Kveður hann A vera haldna aðsóknargeðklofa og einungis mjög skert sjúkdómsinnsæi. Sé hún ofbeldishneigð og verið haldin ofskynjunum af ýmsu tagi og sé enn haldin ranghugmyndum. Vilji hún fara af sjúkrahúsinu. Hún sé nú hins vegar farin að svara að einhverju leyti öflugri lyfjameðferð, sem hún hafi sætt á sjúkrahúsinu.
Dómarinn telur ljóst af því sem rakið er að brýn nauðsyn sé á því að sóknaraðili vistist á sjúkrahúsi um sinn til þess að fá þar meðferð við alvarlegum geðsjúkdómi. Ber því að synja kröfu hans og ákveða að fyrrgreind ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 100.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, ber að greiða úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], um það að felld verði úr gildi sú ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 2. apríl 2015, að hún skuli vistast á sjúkrahúsi.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.