Hæstiréttur íslands

Mál nr. 151/2015


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Aðfinnslur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 12. nóvember 2015

Nr. 151/2015.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Arnþóri Jökli Þorsteinssyni

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Brot gegn valdstjórninni. Aðfinnslur.

A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað lögreglumanni ofbeldi er hann var við skyldustörf og hafði afskipti af A vegna gruns um umferðarlagabrot. Á hinn bóginn var talið ósannað að A hefði ekið bifreiðinni umrætt sinn án þess að nota öryggisbelti og var hann því sýknaður af þeim sakargiftum. Var refsing A ákveðin skilorðbundið fangelsi í 30 daga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. febrúar 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal hver sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, sæta fangelsi allt að 6 árum. Þá segir í sömu málsgrein, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 25/2007, að ef brot beinist að opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, megi beita fangelsi allt að 8 árum.

Í ákæru er þeirri háttsemi ákærða, sem lýtur að broti gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, lýst svo að hann hafi hótað lögreglumanninum B ofbeldi með því að segja að hann myndi muna eftir andliti B, sem ætti að passa sig því ákærði ætti eftir að hitta hann einan úti á götu, en B hafi verið við skyldustörf og haft afskipti af ákærða starfsins vegna. Með efnislega samhljóða framburði tveggja lögreglumanna, sem rakinn er í héraðsdómi, er sannað að ákærði hafði í frammi þá hótun um ofbeldi sem ákært er fyrir. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Samkvæmt gögnum málsins virðist rannsókn máls þessa hafa lokið 10. apríl 2013, en ákæra var ekki gefin út fyrr en 18. ágúst 2014. Ekki hefur komið fram skýring á þessum óhæfilega drætti á útgáfu ákæru, sem er í andstöðu við fyrirmæli síðari málsliðar 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er þetta aðfinnsluvert.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Arnþór Jökull Þorsteinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 509.290 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2015.

                Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 20. janúar 2015, er höfðað með ákæru, útgefinni 18. ágúst 2014, á hendur Arnþóri Jökli Þorsteinssyni, kt. [...], Fróðengi 11, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot, framin fimmtudaginn 25. október 2012:

  1. Umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni [...], án þess að nota öryggisbelti, vestur Hverfisgötu í Reykjavík og til vinstri suður Vitastíg, þar sem hann stöðvaði bifreiðina.
  2. Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa á Vitastíg, í kjölfar atviksins sem lýst er í 1. ákærulið, hótað lögreglumanninum B ofbeldi með því að segja að hann myndi muna eftir andliti B, sem ætti að passa sig því ákærði ætti eftir að hitta hann einan úti á götu, en B var við skyldustörf og hafði afskipti af ákærða starfsins vegna.

Telst brot samkvæmt 1. ákærulið varða við 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og brot samkvæmt 2. ákærulið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Verjandi krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

                Samkvæmt skýrslu lögreglu voru lögreglumenn við almennt eftirlit á bifhjólum í miðborg Reykjavíkur fimmtudaginn 25. október 2012, þegar þeir mættu ákærða sem ók bifreið, án þess að hafa öryggisbelti spennt, um Hverfisgötu inn á Vitastíg, þar sem akstur bifreiðarinnar var stöðvaður. Kemur fram að ákærði hafi hafnað því að hafa ekki haft öryggisbelti spennt við aksturinn og verið með fúkyrði í garð lögreglumannanna. Þá hefði hann viðhaft þau orð við annan lögreglumannanna sem í 2. ákærulið greinir. Hefði ákærði gengið að bifhjóli lögreglumannsins og ekki sinnt ítrekuðum fyrirmælum um að hverfa frá og lögreglumaðurinn ýtt við honum til að geta haldið för sinni áfram. Hafi ákærði verið ógnandi í framkomu á vettvangi.

                Ákærði neitar sök. Við aðalmeðferð málsins kvaðst hann hafa haft öryggisbelti spennt, en sett það undir handlegg sinn, eins og hann gerði alla jafna. Ákærði kvaðst hafa mætt lögreglumönnunum á bifhjólunum og séð í baksýnisspegli að þeir sneru við og veittu honum eftirför. Hann hefði beygt inn á Vitastíg og lagt þar í stæði, en hann hefði verið á leiðinni að hitta félaga sinn, sem hefði beðið eftir honum ofar í götunni á móts við Laugaveg. Hefðu lögreglumennirnir komið að honum í sömu andrá og hann lagði bifreiðinni. Annar þeirra hefði stigið af hjólinu og fullyrt að hann hefði ekki verið með öryggisbelti spennt, en hann hefði neitað því. Lögreglumaðurinn hefði byrjað að rita skýrslu um meint brot hans. Ákærði kvaðst þá hafa spurt hann hvort hann væri klikkaður og sagt við hann að þetta myndi hafa eftirmála, en hann hefði með því átt við að hann myndi ekki una sektarákvörðun. Lögreglumaðurinn hefði síðan sagt honum að hafa sig á brott, en hann hefði ekki sinnt því þar sem hann hefði verið kominn þangað sem förinni var heitið. Hann neitaði alfarið að hafa viðhaft þau ummæli sem í ákæru greinir. Þá kvaðst hann ekki hafa séð andlit lögreglumannanna, þar sem þeir hefðu verið með hjálma.

B lögreglumaður lýsti atvikum með sama hætti og rakið var í skýrslu lögreglu, sem að framan greinir. Vitnið kvaðst hafa séð að ákærði var ekki með öryggisbelti spennt þegar hann ók bifreiðinni. Hann kvaðst þess fullviss að ákærði hefði ekki haft beltið spennt undir handlegg, enda hefði hann séð í sylgju beltisins. Ákærði hefði tekið afskiptum þeirra illa, verið æstur og viðhaft alls konar fúkyrði. Þá staðfesti vitnið að ákærði hefði viðhaft þau orð sem í ákæru greinir. Kvaðst vitnið hafa spurt ákærða hvort hann væri að hóta sér og ákærði svaraði því til að þeir mættu taka því eins og þeir vildu. Vitnið kvaðst hafa tekið þessum orðum alvarlega, en ákærði hefði verið mjög æstur þegar hann viðhafði þau.

C lögreglumaður, sem var með B í umrætt sinn, kvaðst ekki telja að ákærði hefði haft beltið spennt undir handlegg, enda myndi það þá hafa verið strekkt, en hann hefði séð það lafa niður. Hann lýsti því að ákærði hefði verið mjög æstur þegar hann steig út úr bifreiðinni, en B hefði verið rólegur. Í lokin hefði ákærði gengið að B og hindrað hann í að aka bifhjólinu af stað. Hefði ákærði sagt að hann myndi muna eftir andlitinu á B, ef hann myndi hitta hann einan úti á götu. Þeir hefðu spurt ákærða hvað hann meinti með þessu og hefði hann svarað að þeir gætu túlkað það eins og þeir vildu. Vitnið kvaðst hafa tekið þessum orðum sem hótun gegn B.

Báðir lögreglumennirnir lýstu því að hjálmar þeirra væru þannig búnir að á þeim væri kjálkastykki, sem þeir lyftu upp þegar þeir ræddu við fólk. Hefðu andlit þeirra því sést greinilega þegar þeir ræddu við ákærða.

D, félagi ákærða, kvaðst hafa beðið hans á horni Laugavegar og Vitastígs, en þeir hefðu mælt sér þar mót. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða koma akandi og hefði hann lagt bifreiðinni í stæði við Vitastíg. Því næst hefði ákærði spennt af sér öryggisbeltið og stigið út úr bifreiðinni. Í sömu andrá hefðu lögreglumennirnir tveir komið að á bifhjólum. Hann kvaðst ekki hafa heyrt hvað ákærða og lögreglumönnunum fór á milli. Vitnið kvaðst oft hafa séð ákærða spenna á sig beltið og setja það undir handlegginn, eins og hann hefði lýst. Hann væri vanur að hafa beltið spennt með þessum hætti.

Niðurstaða

                Ákærði neitar sök samkvæmt báðum liðum ákæru. Framburður ákærða um að hann hafi haft beltið spennt undir handlegg sínum fær stoð í vitnisburði D, sem rakið hefur verið. Þykir ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að lögreglumönnunum hafi getað yfirsést það á vettvangi. Samkvæmt því, og með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þykir ósannað að ákærði hafi ekið bifreiðinni án þess að nota öryggisbelti í umrætt sinn. Verður ákærði því sýknaður af 1. ákærulið.

                Ákærði neitar að hafa hótað lögreglumanninum B ofbeldi, eins og honum er gefið að sök í 2. ákærulið. Með samhljóða framburði B og lögreglumannsins C telst sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi viðhaft þau orð sem í ákæru greinir. Í orðum ákærða fólst hótun um að hann myndi beita lögreglumanninn líkamlegu ofbeldi og kom fram hjá lögreglumanninum að hann hefði tekið þá hótun alvarlega. Ákærði lét orðin falla er lögreglumennirnir höfðu afskipti af honum vegna gruns um umferðarlagabrot og voru þeir því að sinna skyldustöfum sínum í umrætt sinn. Verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni, eins og honum er gefið að sök í 2. ákærulið, og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í október 1985. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, sem bundin verði skilorði sem í dómsorði greinir.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Katrínar Oddsdóttur hdl., 277.760 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Tryggvason aðstoðarsaksóknari.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Ákærði, Arnþór Jökull Þorsteinsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

       Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Katrínar Oddsdóttur hdl., 277.760 krónur.