Mál nr. 416/2013
- Fjármagnstekjuskattur
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Frávísunarkröfu hafnað
- Ómerkingu héraðsdóms hafnað
- Sekt
- Vararefsing
X var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur að fjárhæð 120.026.444 krónur sem voru tekjur X af uppgjöri tveggja framvirkra skiptasamninga. Kröfu X um frávísun málsins var hafnað. Vísað var til þess að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefði ekki verið talið að það færi í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð þótt stjórnvöld hefðu áður gert manni að greiða skatt af álagi á skattstofn og sama manni væri síðan í öðru máli gerð viðurlög vegna sömu málsatvika. Þá varðaði það ekki frávísun málsins þótt skattrannsóknarstjóri eða sérstakur saksóknari hefði tjáð sig með almennum hætti um fyrirhugaða lagasetningu á sviði skattaréttar, enda væri slík umfjöllun saksókninni óviðkomandi. Ekki var heldur fallist á að tilteknir annmarkar á samningu héraðsdóms yllu því að ómerkja bæri dóminn. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að þótt lögum hefði síðar verið breytt um skattlagningu fjármagnstekna breytti það engu um refsinæmi þess að skýra rangt eða villandi frá því sem máli skipti við álagningu tekjuskatts. Var málið því dæmt eftir gildandi skattalögum á þeim tíma er ákærði aflaði teknanna. Talið var að hagnaður X af gerð umræddra framvirkra skiptasamninga hefði falið í sér skattskyldar fjármagnstekjur og að ekki hefði staðið heimild til að draga frá þeim tap af öðrum sams konar samningum eða beinan kostnað við öflun teknanna. Ekki var fallist með X að um hefði verið að ræða tekjur í sjálfstæðri atvinnustarfsemi. Þá leysti það X ekki undan refsiábyrgð þótt samningsaðili hans hefði vanrækt skyldu sína til að standa skil á skattinum eftir lögum nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. X var fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Var hann dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá var honum gert að greiða 21.000.000 krónur í sekt og skyldi átta mánaða fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Að þessu frágengnu krefst hann sýknu en verði ekki á það fallist að refsing verði milduð.
I
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins 21. október 2010 var ákærða tilkynnt að að hafin væri rannsókn á skattskilum hans og tók hún meðal annars til ársins 2006. Það ár hafði ákærði gert 18 framvirka samninga, sem nefndir voru skiptasamningar, við MP Fjárfestingarbanka hf. en skilmálar samninganna voru samhljóða. Samningarnir lutu að hlutabréfaviðskiptum en í þeim kom fram að þeir væru um „kaup fjármálagerninga og samsvarandi skuldbindingu“. Samningstími miðaðist við tilgreindan upphafsdag og lokadag samnings en hann var gjalddagi skuldbindingar. Því næst var eign viðskiptamanns tilgreind sem viðmiðunarbréf að tilteknu nafnvirði og kom fram upphafsgengi hlutabréfa, gjaldmiðlagengi samningsins og upphafsvirði eignar í íslenskum krónum. Þá sagði í samningunum að á móti eign viðskiptamanns lýsti hann því yfir að tekin væri að láni tilgreind fjárhæð með nánari skilmálum.
Af samningunum voru 17 gerðir upp á árinu 2006 en einn var gerður upp á árinu 2007. Samningar þessir munu hafa komið út í tapi fyrir ákærða að þeim tveimur frátöldum sem ákæra málsins tekur til. Er annars vegar um að ræða samning sem gerður var upp 3. febrúar 2006 með hagnaði að fjárhæð 115.716.453 krónur og hins vegar samning sem gerður var upp 3. október sama ár með hagnaði að fjárhæð 4.309.992 krónur. Samtals nam því hagnaður af þessum samningum 120.026.445 krónur en til frádráttar því kom þóknun MP Fjárfestingarbanka hf. samtals að fjárhæð 1.579.679 krónur. Vegna þessara samninga voru samtals 118.021.960 krónur lagðar inn á vörslureikning MP Fjárfestingarbanka hf. hjá Kaupþing banka hf. en sá reikningur mun hafa verið stofnaður vegna viðskipta ákærða með skiptasamninga. Tap af þeim 15 samningum sem gerðir voru upp á árinu 2006 mun samanlagt hafa numið hærri fjárhæð en svarar til hagnaðar af þessum tveimur samningum.
Ákærði fór þess á leit með tölvupósti 11. maí 2007 að MP Fjárfestingarbanki hf. sendi yfirlit um viðskipti hans á árinu 2006 við bankann til nafngreinds viðskiptafræðings sem hafði með höndum að telja fram til skatts fyrir ákærða. Við þessu var orðið með tölvupósti 14. sama mánaðar til viðskiptafræðingsins og ákærða. Því erindi fylgdi yfirlit um önnur viðskipti ákærða en þá skiptasamninga sem hann hafði gert við bankann. Viðskiptafræðingurinn skilaði síðan skattframtali ákærða vegna ársins 2006 og þar voru ekki taldar fram tekjur vegna skiptasamninganna. Á uppgjörsyfirliti vegna þeirra skiptasamninga sem ákæra tekur til er ekki frádráttur sem svarar til staðgreiðslu á fjármagnstekjuskatti. Með bréfi 16. desember 2010 óskaði skattrannsóknarstjóri ríkisins eftir upplýsingum frá bankanum um hvort staðið hefði verið skil á staðgreiðslu vegna fjármagnstekjuskatts á árunum 2006 til 2008. Því erindi svaraði löggiltur endurskoðandi með bréfi 7. janúar 2011 þar sem fram kom að bankinn hefði ekki haldið eftir staðgreiðslu á þessu tímabili. Það sama kom fram í vætti þeirra fyrirsvarsmanna bankans sem komu fyrir héraðsdóm eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins 14. janúar 2011 var ákærða tilkynnt um lok rannsóknar á skattskilum hans vegna ársins 2006 og að málið hefði verið sent ríkisskattstjóra til ákvörðunar um hugsanlega endurálagningu. Jafnframt var ákærða kynnt það mat skattrannsóknarstjóra að hann kynni að hafa bakað sér refsiábyrgð og að fyrirhugað væri að taka ákvörðun um refsimeðferð málsins að liðnum fresti sem ákærða var veittur til að tjá sig um þann þátt þess.
Eftir að ákærða hafði verið gefinn kostur að koma á framfæri athugasemdum við ríkisskattstjóra úrskurðaði hann […] 2011 að stofn fjármagnstekjuskatts ákærða vegna ársins hækkaði um 120.026.445 krónur og að við hann bættist 25% álag að fjárhæð 30.006.611 krónur. Við stofninn bættist því samtals 150.033.056 krónur og hækkaði fjármagnstekjuskattur ákærða um 15.003.306 krónur. Ákærði skaut úrskurðinum ekki til yfirskattanefndar og mun hafa greitt skattinn af endurákveðnum stofni með álagi.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríksins 28. mars 2012 var málinu vísað til rannsóknar lögreglu og var ákærða tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi sama dag. Ákæra var síðan gefin út 10. október sama ár.
II
Ákærði reisir kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi fyrst í stað á því að honum hafi þegar verið gerð refsing fyrir það brot sem honum er gefið að sök með 25% álagi á skattstofn samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra […] 2011. Af þeirri ástæðu fari saksóknin í bága við 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem fram komi að enginn skuli sæta lögsókn eða refsingu að nýju fyrir sama brot. Í annan stað reisir ákærði frávísunarkröfu sína á því að skattrannsóknarstjóri og sérstakur saksóknari hafi, á þeim tíma sem málið var rekið í héraði, brotið gegn hlutlægnisskyldu sinni samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með að mæla gegn því á opinberum vettvangi og í umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að gerðar yrðu lagabreytingar sem haft hefðu áhrif á refsinæmi þess verknaðar sem ákærða er gefin að sök. Telur ákærði jafnframt að með þessu hafi verið brotið gegn rétti hans til að njóta réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur ekki verið talið að það fari í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð þótt stjórnvöld hafi áður gert manni að greiða skatt af álagi á skattstofn og sama manni sé síðan í öðru máli gerð viðurlög vegna sömu málsatvika, sbr. dóma Hæstaréttar 22. september 2010 í máli nr. 371/2010, 23. janúar 2014 í máli nr. 323/2013 og 15. maí 2014 í máli nr. 465/2013. Málinu verður því ekki vísað frá dómi á þessum grundvelli. Þá getur ekki varðað frávísun málsins þótt skattrannsóknarstjóri eða sérstakur saksóknari hafi tjáð sig með almennum hætti um fyrirhugaða lagasetningu á þessu sviði skattaréttar, enda var slík umfjöllun saksókninni óviðkomandi. Samkvæmt þessu verður kröfu ákærða um frávísun málsins hafnað.
III
Ákærði byggir kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms á því að samningu dómsins sé verulega ábótavant. Þannig sé ekki að finna viðhlítandi lýsingu á málsatvikum auk þess sem ekki sé getið um þau atriði sem ákærði tefldi fram til frávísunar og sýknu. Því síður hafi verið leyst úr þeim vörnum og dómurinn þannig ekki komist að rökstuddri niðurstöðu um sakfellingu ákærða. Telur ákærði þetta fara í bága við d., f. og g. liði 1. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.
Þótt fallast megi á það með ákærða lýsing á málavöxtum í hinum áfrýjaða dómi sé knöpp og að ekki hafi verið vikið nægjanlega að öllum atriðum sem efni voru til að fjalla um við úrlausn málsins geta þessir annmarkar, eins og mál þetta er vaxið, ekki valdið því að dómurinn verði ómerktur. Verður þeirri kröfu ákærða því hafnað.
IV
Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt skal skattskyldur maður sæta refsingu ef hann skýrir af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn. Er ákærða gefið að sök meiriháttar brot gegn lögunum sem fólst í því að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2007 vegna tekjuársins 2006 með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram tilgreindar fjármagnstekjur.
Með 4. gr. laga nr. 142/2013, um breytingu á lögum nr. 90/2003, var bætt við 1. mgr. 12. gr. laganna ákvæði sem fól það í sér að tekjur af afleiðusamningum yrðu skattlagðar sem söluhagnaður í stað vaxtatekna. Af því leiðir að draga má frá heildarhagnaði það tap sem kann að hafa orðið vegna sams konar eigna á sama ári áður en skattskyldur hagnaður af sölu eigna er ákveðinn, sbr. síðari málslið 1. mgr. 24. gr. laganna. Þótt þessi lagasetning hafi áhrif á skattlagningu fjármagnstekna breytti hún engu um refsinæmi þess að skýra rangt eða villandi frá því sem máli skipti við álagningu tekjuskatts. Lagasetningin fól því ekki í sér breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar og verður málið dæmt eftir gildandi skattalögum á þeim tíma er ákærði aflaði teknanna og bar að telja þær fram, sbr. lokamálslið 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þeir samningar sem ákæra málsins tekur til voru með yfirskriftina skiptasamningar og lutu þeir að hlutabréfaviðskiptum. Var um að ræða framvirka samninga, sem bundnir voru viðmiðunarbréfum að tilteknu nafnvirði í ákveðnum hlutafélögum, en á tilgreindum lokadegi fór fram uppgjör sem tók mið af gengi bréfanna á þeim degi að frádregnu upphaflegu virði þeirra auk vaxta og kostnaðar. Það réðst því af verðmæti viðmiðunarbréfanna á lokadegi hvort samningurinn kom út í hagnaði eða tapi fyrir ákærða. Samkvæmt þessu var um að ræða afleiðusamninga sem ekki fólu í sér kaup á tilteknum hlutabréfum, enda fékk ákærði hvorki né lét af hendi hlutabréf við uppgjör samninganna. Umræddir samningar, sem gerðir voru upp með hagnaði fyrir ákærða, fólu því í sér tekjur af peningalegum eignum sem voru skattskyldar samkvæmt 3. tölulið C. liðar 7. gr., sbr. síðari málslið upphafsmálsgreinar 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Af því leiðir að heimild stóð ekki til að draga frá skattskyldum fjármagnstekjum tap af öðrum sams konar samningum samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna um frádrátt taps af eignasölu við skattlagningu söluhagnaðar. Jafnframt var ekki heimilt að draga frá fjármagnstekjum beinan kostnað við öflun teknanna, sbr. 3. mgr. 2. töluliðar B liðar 1. mgr. 30. gr. laganna. Þá verður ekki fallist á það með ákærða að um hafi verið að ræða tekjur í sjálfstæðri atvinnustarfsemi, enda liggur ekkert fyrir í málinu til stuðnings þeirri staðhæfingu hans um viðskiptin sem hann gerði í eigin nafni. Að lokum leysir það ekki ákærða undan refsiábyrgð vegna framtals á tekjum þótt MP Fjárfestingarbanki hf. hafi vanrækt skyldu sína til að standa skil á skattinum eftir lögum nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
Samkvæmt framansögðu skýrði ákærði rangt frá fjármagnstekjum sínum árið 2007 vegna tekjuársins 2006 svo máli skipti um skattlagningu hans. Er fallist á með héraðsdómi að virða beri þetta honum til stórkostlegs hirðuleysis og að um meiri háttar brot hafi verið að ræða í ljósi þess að það laut að verulegum fjárhæðum. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003.
Fangelsisrefsing sú sem ákærða var gerð með héraðsdómi verður staðfest sem og ákvæði hans um skilorðsbindingu. Ekki eru efni til að gera ákærða hærri fésekt en sem nemur tvöfaldri undandreginni skattfjárhæð, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt því ákvæði ber að draga skatt af því álagi við skattstofn sem ákveðinn var með úrskurði ríkisskattstjóra […] 2011. Verður ákærða því gert að greiða 21.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs að viðlagðri vararefsingu sem greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærði, X, greiði 21.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi átta mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.286.614 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Heiðars Ásbergs Atlasonar hæstaréttarlögmanns, 1.255.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2013.
Málið er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, dagsettri 10. október 2012, á hendur:
,,X, kt. [...]
[....]
fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, með því að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2007 vegna tekjuársins 2006 með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur samtals að fjárhæð kr. 120.026.444 sem voru tekjur ákærða af uppgjöri tveggja framvirkra skiptasamninga við MP Fjárfestingarbanka hf. (nú MP banka hf.), sem skattskyldar eru samkvæmt 3. tl. C-liðar 7. gr., sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, og hafa með því komið sér undan greiðslu fjármagnstekjuskatts samtals að fjárhæð kr. 12.002.644, sem sundurliðast sem hér greinir:
Gjaldárið 2007:
Fjármagnstekjur:
Uppgjör framvirks skiptasamnings nr. 2006-166-001-0 dags. 3.2.2006 kr. 115.716.453
Uppgjör framvirks skiptasamnings nr. 2006-166-005-2 dags. 3.10.2006 kr. 4.309.991
Samtals vanframtaldar fjármagnstekjur: kr. 120.026.444
Samtals vangreiddur fjármagnstekjuskattur, 10%: kr. 12.002.644
Framangreint brot ákærða telst varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til embætti sérstaks saksóknara, dagsettu 28. mars 2012, var máli ákærða vísað til lögreglu til þóknunarlegrar meðferðar eins og segir í bréfinu. Þar er því lýst að rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi leitt í ljós að ákærði hafi staðið skil á efnislega röngu skattframtali til skattyfirvalda gjaldaárið 2007, vegna tekjuársins 2006 og hafi hann þá vanrækt að gera grein fyrir tekjum sem upprunnar voru í framvirkum skiptasamningum, samtals að fjárhæð 120.026.445 krónur.
Með úrskurði ríkisskattstjóra […] 2011 var tekjuskattur ákærða endurákvarðaður vegna tekjuársins 2006. Úrskurður ríkisskattstjóra var ekki kærður til yfirskattanefndar.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 14. september 2012. Ekki er ástæða til þess að rekja þá skýrslu eins og á stendur.
Nú verður rakinn framburður ákærða fyrir dómi og vitnisburður.
Ákærði neitar sök. Hann kvað efnislýsingu ákæru og fjárhæð rétta, en neitar sök af ástæðum sem raktar verða. Ákærði kvaðst hafa unnið með A endurskoðanda frá árinu 1999 við gerð skattframtals. Sami háttur hafi verið hafður á við gerð framtalsins. Framkvæmdin sé þannig að endurskoðandinn hringi í ákærða og biðji um upplýsingar fyrir gerð skattframtals. Ákærði hringdi þá í banka auk þess að fá þær upplýsingar sem þurfi frá vinnuveitanda. Allar upplýsingar og gögn sendi hann endurskoðanda sínum. Við gerð skattframtalsins sem hér um ræðir hafi hann einnig haft samband við verðbréfafyrirtæki sem hann vann með, en það hafi verið MP fjárfestingarbanki sem annaðist verðbréfaviðskipti ákærða. Bankinn sendi öll gögn til endurskoðandans að beiðni ákærða. A hafi fengið umbeðin gögn og útbúið skattframtal sem sent var rafrænt og þannig skilað. Þessi háttur hafi ávallt gengið hnökralaust. Síðar kom í ljós að bankinn hafði sent endurskoðandanum upplýsingar um verðbréfaviðskipti ákærða, en ekki hafi verið sendar upplýsingar um skiptasamningana sem í ákæru greini. Ákærði greindi frá því að hann hefði stundað afleiðuviðskipti sem í ákæru greinir í hagnaðarskyni og hagnast á þeim. Hann kvaðst hafa gert sjö samninga og hagnast á þeim tveim sem lýst er í ákærunni, en tap á fimm slíkum samningum. Ágóði hans vegna þessara viðskipta á árinu 2006 hafi verið um 12.000.000 króna. Hann lýsti því hvernig afleiðuviðskiptin sem um ræðir komust á, en ákærði kvaðst hafa þekkt starfsmenn MP fjárfestingarbanka. Hann kvað erfitt að fylgjast með því hvort hann væri í hagnaði eða tapi á hverjum tíma vegna þessara viðskipta og skýrði hann það. Fjármunir hafi verið lagðir inn á tryggingareikning í MP fjárfestingarbanka í nafni bankans sem hafi annast viðskiptin. Hagnaðurinn sem í ákæru greinir hafi síðan verið notaður til frekari viðskipta sem ákærði hafi gefið fyrirmæli um eftir að hafa fengið upplýsingar hjá miðlara í bankanum um hvaða fjármunir voru inni á tryggingareikningnum. Ákærði kvaðst ekki vita hvort hann hefði getað tekið peningana út af reikningnum, en það hafi verið ákvörðun sín að nýta þá til frekari viðskipta hverju sinni. Ákærði kvaðst ekki hafa kynnt sér reglur um skattlagningu viðskipta sem þessara. Ákærði kvað það sem rakið hefur verið skýra hvers vegna þessa sé ekki getið í skattframtalinu sem í ákæru greinir. Ástæðan hafi verið sú að bankanum hafi láðst að senda upplýsingarnar sem ákærði bað um að sendar yrðu endurskoðandanum.
Fyrir liggur að ákærði sendi tölvupóst til starfsmanns MP banka hinn 11. maí 2007, þar sem hann bað bankann um að senda A yfirlit yfir viðskipti sín hjá MP banka árið áður. Fyrir liggja gögn um að bankinn sendi A gögnin með tölvupósti 14. maí 2007, og ákærði fékk afrit af þeim pósti. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa opnað póstinn þar sem hann hafi séð að A hefði fengið póstinn. Ákærði kvaðst hafa treyst A til þessa verks eins og áður auk þess sem hann treysti því að bankinn myndi senda allar upplýsingar sem þeim bar varðandi gerð skattframtalsins. Tölvupósturinn sýni að ákærði ætlaðist til þess að bankinn sendi A öll gögn um viðskiptin og ljóst hafi verið að þessi sending tengdist gerð skattframtals ákærða og því hafi bankanum borið að senda öll gögn þar að lútandi og ákærði hafi treyst því að svo hafi verið gert. Ekkert átti þar að undanskilja að sögn ákærða. Ákærði kvað A hafa sent framtalið rafrænt og geymt gögn vegna þessa. Ákærði kvaðst ekki hafa yfirfarið skattframtalið áður en A skilaði því. Í ljós kom síðar að upplýsingarnar um skiptasamningana voru ekki með í yfirlitinu sem bankinn sendi A og hafi mistökin þá komið í ljós. Ákærði kvaðst hafa áttað sig á þessu eftir að hafa fengið bréf frá skattrannsóknarstjóra. Í framhaldinu hafi verið endurákvarðaður skattur og honum gert að greiða 12.000.000 króna auk 25% álags sem hann greiddi. Ákærði kvaðst þannig hafa treyst því að allar upplýsingar hefðu verið sendar A sem ekki varð. Hann hafi þannig talið að skattframtalið sem A sendi hefði verið rétt. Engar skýringar hafi fengist á þessu. Það hljóti að hafa verið fyrir mannleg mistök, að sögn ákærða, að ekki voru öll gögn send, eins og óskað hafði verið eftir.
Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að MP fjárfestingarbanki dró ekki af og skilaði staðgreiðslu vegna afleiðusamninganna sem hér um ræðir. Ákærði kveðst ekki vita hvort staðgreiðsla var dregin af vegna viðskiptanna.
Vitnið A endurskoðandi kvaðst hafa rekið bókhalds- og framtalsþjónustu í 25 ár og hafa talið fram fyrir ákærða frá árinu 1999. Hann lýsti vinnu við gerð skattframtala fyrir ákærða. Hann kvað þann háttinn hafa verið hafðan á við gerð þeirra að ákærði hafi beðið þá aðila sem hann hafi átt í viðskiptum við að senda sér í tölvupósti upplýsingar sem þurfti til gerð skattframtals. Hann kvað þessa framkvæmd hafa gengið án hnökra ef frá er talið tilvikið sem hér um ræðir og engin vandamál komið upp. Það sem hér gerðist var að MP fjárfestingarbanki sendi vitninu upplýsingar um viðskipti ákærða árið sem hér um ræðir. Hann kvaðst ekki hafa haft neina ástæðu til að hafa samband við ákærða vegna framtalsins eftir að hann hafði fengið gögnin frá viðskiptabanka hans. Hann hafi ekki séð að nokkrar upplýsingar vantaði og hann minntist þess ekki að bankar hefðu ekki sent umbeðin gögn eins og í þessu tilviki. Vitnið kvað það hafa nægt að einhverjar upplýsingar hefðu borist frá bankanum um viðskiptin sem hér um ræðir, þá hefði málið verið kannað nánar og úr því verið bætt áður en framtalinu var skilað.
Vitnið B var starfsmaður MP fjárfestingarbanka á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hún var spurð um tölvupóst frá ákærða til bankans þar sem ákærði bað um að A yrði sent yfirlit um viðskipti ákærða hjá bankanum á árinu 2006. A sendi póstinn. Hún mundi ekki eftir þessu og taldi sig hafa verið beðna um að senda viðskiptayfirlit. Hún mundi ekki hver bað hana um að senda það. Hún hafi ekki fengið fyrirmæli um að halda neinum gögnum eftir. Hún viti ekki hvers vegna ekki fylgdu upplýsingar um viðskiptin sem um ræðir í ákæru.
Vitnið C var framkvæmdastjóri MP fjárfestingarbanka á þessum tíma. Hann kvaðst engin samskipti hafa átt við ákærða sem hann muni eftir. C var spurður um skýringar þess að bankinn sendi endurskoðanda ákærða ekki öll gögn, þ.e. ekki upplýsingar um afleiðuviðskiptin sem um ræðir í ákærunni, eins og ákærði bað um. C kunni ekki skýringar á þessu nema að þetta hafi verið mistök bankans. Ekkert hafi verið í samskiptum bankans við ákærða eða í reglum innan bankans sem gerði það að verkum að upplýsingarnar sem ákærði bað um að væru sendar voru ekki sendar. Það hafi verið mistök bankans að senda ekki upplýsingar um afleiðuviðskiptin eða afleiðusamningana eins og samningarnir heita.
C kvað bankann ekki hafa dregið fjármagnstekjuskatt af afleiðusamningum á þessum tíma. Hann mundi ekki hvort viðskiptavinir hefðu verið upplýstir um þetta. Ekkert í samningum eða samskiptum ákærða við bankann hafi gert það að verkum að ákærði hafi vitað að bankinn sendi allar upplýsingar til endurskoðandans nema upplýsingar um afleiðuviðskiptin.
Vitnið D var stjórnarformaður MP fjárfestingarbanka á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann vissi ekki hvers vegna bankinn sendi ekki endurskoðanda ákærða öll gögn um viðskipti ákærða við bankann á árinu 2006 eins og ákærði bað um í tölvupósti. Hann kunnu ekki skýringar á því hvers vegna upplýsingarnar um skiptasamningana bárust ekki til endurskoðandans. Hann taldi að starfsmönnum hefði láðst að láta upplýsingarnar fylgja og trúlega skýringin væri sú að viðskipti sem þessi hafi ekki verið mjög algeng að sögn hans. Hann viti ekki um neitt í viðskiptum ákærða við bankann sem hafi leitt til þess að upplýsingarnar voru ekki sendar. Hann taldi trúlegustu skýringuna þá að upplýsingar um afleiðuviðskiptin hefðu verið ,,utan kerfa“ í bankanum og því ekki fylgt með. Það að gögnin voru ekki send hafi verið mistök bankans.
D kvað hafa verið rætt við endurskoðendur bankans um það hvort halda ætti eftir bráðabirgðastaðgreiðslu vegna hagnaðar af afleiðuviðskiptum. D kvað þetta hafa verið gert vegna mismunandi framkvæmdar hjá öðrum bönkum og lýsti hann því nánar. Niðurstaðan var sú að halda ekki eftir staðgreiðslu vegna hagnaðar viðskiptavina af þessum viðskiptum. Hann mundi ekki hvort viðskiptavinir hefðu verið upplýstir um þetta.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök og vísar meðal annars til þess að MP fjárfestingarbanki hafi ekki sent endurskoðanda sínum umbeðin gögn eins og rakið var. Þetta hafi verið mistök bankans og afleiðingarnar þær að fjármagnstekjur vegna þeirra tveggja skiptasamninga sem í ákæru greinir voru ekki taldar fram.
Ákærði faldi öðrum gerð skattframtals síns vegna tekjuársins 2006, eins og rakið hefur verið. Það leysir ákærða ekki undan ábyrgð á skattskilum sínum enda hvílir framtalsskyldan á ákærða sjálfum, sbr. 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ákærði bað MP fjárfestingarbanka um að senda yfirlit um viðskipti sín hjá bankanum vegna ársins 2006, eins og rakið var að framan. Með vísan til vitnisburðar B, C og D, sem öll tengdust bankanum á þessum tíma, verður að telja að það hafi verið mistök að senda ekki gögnin um viðskiptin sem í ákæru greinir. Hins vegar fékk ákærði sama tölvupóst og endurskoðandi hans, en ákærði opnaði ekki póstinn, heldur treysti því að hann væri réttur. Ef tekið er mið af frásögn ákærða um menntun sína og starfsreynslu má vænta þess að hann hafi nokkra þekkingu á því sviði sem hér um ræðir. Með úrskurði ríkisskattstjóra, dagsettum […] 2011, var ákærða gert að greiða viðbótaskatt á grundvelli lagákvæðanna sem í ákæru greinir. Ákærði kvaðst ekki hafa kært úrskurðinn og greitt skattinn. Hinar vanframtöldu fjármagnstekjur eru skattskyldar skv. 3. tl. c-liðar 7. gr., sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt eins og lýst er í ákærunni. Tekjurnar sem um ræðir námu háum fjárhæðum og var óvarlegt af ákærða að lesa hvorki skattframtalið yfir fyrir skilin, né að opna tölvupóstinn sem gerð skattframtalsins byggðist á og honum var kunnugt um. Þá vissi ákærði, vegna samskipta sinna við MP fjárfestingarbanka, hver staða viðskiptanna sem hér um ræðir var, enda fékk hann upplýsingar um stöðuna er hann ákvað viðskipti hvert sinn, eins og hann bar um fyrir dóminum. Saknæmisskilyrði skv. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt eru ásetningur eða stórfellt hirðuleysi. Sambærileg saknæmiskilyrði eru skv. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga ásetningur eða stórfellt gáleysi. Þegar allt ofanritað er virt í heild og sérstaklega fjárhæðirnar sem um ræðir, það að ákærði opnaði ekki tölvupóstinn sem innihélt gögnin sem skattframtalið byggðist á, auk þess sem hann las ekki skattframtalið yfir fyrir skil, verður að virða ákærða þetta sem stórfellt hirðuleysi og stórfellt gáleysi í skilningi lagaákvæðanna sem að ofan greinir. Það er því mat dómsins og er litið er til brotaandlagsins að ákærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot þau sem í ákæru greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.
Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Brot ákærða er ekki ásetningsbrot og er tekið mið af því við refsiákvörðun. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið eins og í dómsorði greinir.
Auk refsivistar ber að dæma ákærða til greiðslu sektar eins og mælt er fyrir um í lagaákvæðunum sem í ákæru greinir. Ekki eru fyrir hendi nein þau atvik sem leiða til þess að að dæma lægri sektargreiðslu en tvöfalt brotaandlag svo sem mælt er fyrir um í lögum sem vísað er til í ákærunni. Er ákærða samkvæmt þessu gert að greiða 24.006.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 4 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja. Við ákvörðun vararefsingar er litið til þess hver viðurlög ákærða kynnu að hafa verið gerð ef ekki væri mælt fyrir umlágmark þeirra í lögum.
Ákærði greiði 878.500 króna málsvarnarlaun Jóns Elvars Guðmundssonar héraðsdómslögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hulda Hákonardóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 24.006.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 4 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði 878.500 króna málsvarnarlaun Jóns Elvars Guðmundssonar héraðsdómslögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.