Hæstiréttur íslands
Mál nr. 468/1998
Lykilorð
- Endurgreiðsla
- Opinber gjöld
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 10. júní 1999. |
|
Nr. 468/1998. |
Daníel Ólafsson ehf. (Ólafur Garðarsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Endurgreiðsla. Opinber gjöld. Fyrning.
Félagið D krafði íslenska ríkið um endurgreiðslu jöfnunargjalds sem það hafði greitt á árunum 1988 til 1992 vegna innflutnings á frystum forsteiktum kartöflum, en félagið taldi að skort hefði lagastoð fyrir álagninguni og að hún væri ólögmæt. Talið var að álagning jöfnunargjaldsins hefði verið ólögmæt. Í dómi Hæstaréttar frá 10. desember 1998 var fyrningarfrestur slíkra krafna talinn fjögur ár og upphaf hans miðað við hverja greiðslu. Því var krafa D talin fallin niður fyrir fyrningu og íslenska ríkið sýknað af kröfum félagsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. desember 1998 og krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 19.183.164 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilteknum fjárhæðum frá 31. maí 1988 til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
Svo sem greint er í héraðsdómi krefur áfrýjandi stefnda um endurgreiðslu jöfnunargjalds, sem hann greiddi á tímabilinu 6. maí 1988 til 25. júní 1992 vegna innflutnings á frystum forsteiktum kartöflum. Ekki er deilt um fjárhæð gjaldsins.
Í dómi Hæstaréttar 10. desember 1998 í máli nr. 146/1998 var því slegið föstu, að fyrningarfrestur kröfu sem þessarar væri fjögur ár, sbr. 5. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, og að hann hæfist við hverja greiðslu. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Daníel Ólafsson ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 1998.
1. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 3. september 1997 og dómtekið 5. þ.m. Stefnandi er Daníel Ólafsson ehf., kt. 500169-1689, Skútuvogi 3, Reykjavík. Stefndi er íslenska ríkið og er fjármálaráðherra stefnt fyrir hönd þess.
Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 19.183.164 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 samkvæmt neðangreindri töflu; vaxtanna er krafist frá síðasta degi hvers mánaðar af þeirri fjárhæð, sem greind er aftan við mánuðinn og til greiðsludags:
|
Maí 1988 |
kr. 589.247,00 |
Sept. 1990 |
kr. 6.140.897,00 |
|
Júlí 1988 |
kr. 890.610,00 |
Nóv. 1990 |
kr. 6.419.447,00 |
|
Ágúst 1988 |
kr. 1.193.689,00 |
Jan. 1991 |
kr. 6.702.010,00 |
|
Sept. 1988 |
kr. 1.450.071,00 |
Feb. 1991 |
kr. 6.976.072,00 |
|
Okt. 1988 |
kr. 1.765.074,00 |
Mars 1991 |
kr. 7.244.123,00 |
|
Des. 1988 |
kr. 2.095.625,00 |
Maí 1991 |
kr. 7.492.029,00 |
|
Jan. 1989 |
kr. 2.424.139,00 |
Júní 1991 |
kr. 7.756.432,00 |
|
Mars 1989 |
kr. 2.749.676,00 |
Júlí 1991 |
kr. 8.053.221,00 |
|
Apríl 1989 |
kr. 3.416.449,00 |
Ágúst 1991 |
kr. 8.325.506,00 |
|
Júní 1989 |
kr. 3.765.078,00 |
Okt. 1991 |
kr. 8.600.086,00 |
|
Júlí 1989 |
kr. 3.988.795,00 |
Des. 1991 |
kr. 8.892.838,00 |
|
Ágúst 1989 |
kr. 4.220.927,00 |
Jan. 1992 |
kr. 9.480.692,00 |
|
Okt. 1989 |
kr. 4.473.924,00 |
Mars 1992 |
kr. 13.653.883,00 |
|
Des 1989 |
kr. 4.732.862,00 |
Apríl 1992 |
kr. 14.212.962,00 |
|
Feb. 1990 |
kr. 5.007.121,00 |
Maí 1992 |
kr. 17.318.050,00 |
|
Apríl 1990 |
kr. 5.273.946,00 |
Júní 1992 |
kr. 19.183.164,00 |
|
Júní 1990 |
kr. 5.563.046,00 |
|
|
|
Ágúst 1990 |
kr. 5.847.033,00 |
|
|
Til vara er krafist vaxta af greindum fjárhæðum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga fyrir þann tíma, sem dráttarvextir yrðu ekki dæmdir. Jafnframt er þess krafist, að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir dæmdan upphafsdag vaxta, í samræmi við 12. gr. vaxtalaga.
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda.
Af hálfu stefnda er þess krafist aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að sér verði tildæmdur málskostnaður. Til vara er þess krafist, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
2. Stefnandi, sem hefur lengi stundað innflutning og dreifingu á ýmsum mat- og nýlenduvörum, krefur í máli þessu endurgreiðslu jöfnunargjalds, sem hann telur sig hafa ofgreitt, af frystum og forsteiktum „frönskum” kartöflum.
Umrædd vara féll undir tollskrárnúmer 2004.1000 og var sérstakt jöfnunargjald lagt á hana samkvæmt 2. tl. e- liðar 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. 1. gr. laga nr. 25/1986. Varan var einnig háð verðtolli samkvæmt tollskrá, sem nam 30% af tollverði til 1. janúar 1990, en lækkaði þá í 20% og í 10% við næstu áramót, en féll niður 1. janúar 1992.
Jöfnunargjald af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim var fyrst lagt á í júní 1986 með reglugerð nr. 289/1986 og var þá ákveðið 50% af nýjum eða kældum kartöflum en 40% af unnum vörum. Með reglugerð nr. 223/1987, sem öðlaðist gildi 1. júní 1987, var gjaldið ákvarðað 40% af öllum upptöldum vörum. Með reglugerð nr. 109/1988, sem öðlaðist gildi 29. febrúar 1998, voru gerðar breytingar á 1. gr. reglugerðar nr. 223/1987 og m.a. var jöfnunargjald í tollflokki 2004.1000 ákvarðað 190%. Hélst gjaldið óbreytt til 10. júlí 1989, er reglugerð nr. 335/1989 öðlaðist gildi, en samkvæmt henni var gjald af vöru í tollflokki 2004.1000 lækkað í 120% og hélst þannig til gildistöku nýrrar heildarreglugerðar, nr. 468/1993 frá 22. nóvember 1993, er það var ákveðið 90%.
3. Í stefnu greinir frá því, að í kjölfar hækkunar jöfnunargjalds úr 40% hafi franskar kartöflur, sem stefnandi flutti inn, nær alveg hætt að seljast. Stefnandi (les: forsvarsmenn stefnanda) hafi, eins og aðrir innflytjendur varnings þessa, reynt að berjast gegn „þessari ægilegu gjaldtöku stefnda”. Baráttan hafi einkum farið fram gegnum fagfélög innflytjenda, s.s. Félag íslenskra stórkaupmanna og Verslunarráð Íslands, en allt hafi komið fyrir ekki, þrátt fyrir að blasað hafi við leikum jafnt sem lærðum, að verið var að hygla innlendri framleiðslu franskra kartaflna. Fljótlega hafi stefnandi tekið eftir því, að samkeppnisaðilar hans buðu upp á mun betra verð en honum var unnt. Við eftirgrennslan hafi honum virst sem menn leituðu leiða við að „fara fram hjá” hækkuninni, enda hafi hún gert vöruna nær óseljanlega. Sumir muni hafa flutt í einum gámi franskar kartöflur og einhverja aðra vöru, sem féll ekki undir hið gífurlega háa jöfnunargjald. Magni og/eða verði muni síðan hafa verið hagrætt. Aðrir fengu tvo reikninga frá erlendum birgjum, greiddu báða, en framvísuðu einungis öðrum í tolli. Menn, sem aldrei höfðu komist í kast við lögin, hafi brugðist á þennan hátt við gerræðislegri og ómálaefnalegri gjaldtöku til þess að glata ekki lífsviðurværi sínu og starfsmanna sinna. Til þess að vernda hagsmuni sína gerði stefnandi slíkt hið sama.
Krafa stefnanda byggist á 33 vörusendingum, sem hann leysti út úr tolli á tímabilinu frá 6. maí 1988 til 21. janúar 1992 og námu greiðslur jöfnunargjalds samtals 9.480.692 krónum. Stefnandi lagði ný gögn vegna innflutningsins fyrir tollyfirvöld hinn 24. mars 1992 og greiddi í kjölfarið 13.407.633 krónur í viðbótaraðflutningsgjöld og 8.953.107 krónur í dráttarvexti eða samtals 22.360.107 krónur. Af þeirri fjárhæð nam jöfnunargjald 9.702.472 krónum og er þannig fenginn höfuðstóll dómkröfu stefnanda. Viðbótargreiðslur þessar voru inntar af hendi á tímabilinu 24. mars 1992 til 25. júní sama ár. Í stefnu er gefin sú skýring, að í febrúar 1992 hafi forsvarsmaður stefnanda, Einar F. Kristinsson, komið að máli við lögmann hans og sagst hafa um rúmlega þriggja ára skeið staðið að innflutningi franskra kartaflna á þann hátt, sem að framan var lýst. Hann hefði leiðst út í þetta til þess að ekki þyrfti að koma til uppsagna starfsfólks, en hann gæti þetta ekki lengur samvisku sinnar vegna. Saman hafi þeir síðan farið til tollyfirvalda hinn 24. mars 1992, þar sem Einar hafi viðurkennt verknað sinn og lagt fram réttar aðflutningsskýrslur vegna allra þeirra sendinga, 33 að tölu, þar sem tveir reikningar voru til staðar, eins og fyrr greinir.
Undir rekstri málsins voru af hálfu stefnda eftirtaldar spurningar lagðar fyrir stefnanda:
„1. Hvort og að hve miklu leyti var greitt jöfnunargjald lagt á verð þeirrar vöru, sem flutt var inn?
2. Hvernig var þetta fært í bókhaldi félagsins?”
Svör við spurningum þessum eru svohljóðandi:
„1. Jöfnunargjaldið, sem greitt var frá því í apríl/maí 1988 til og með janúar 1992, var eðlilega inni í heildsöluverðinu á þeim tíma. Jöfnunargjaldið, sem greitt var í mars - júní 1992, var hins vegar ekki hægt að reikna inn í vöruverðið, enda varan öll seld.
2. Greitt jöfnunargjald var fært undir lykil, sem nefnist vörukaup í bókhaldi félagsins.”
Við skýrslugjöf fyrir dóminum bar Einar Friðrik Kristinsson, framkvæmdastjóri stefnanda og stjórnarmaður, að fyrirtækið hefði hafið innflutning frystra, forsteiktra kartaflna 1963 - 1964. Á því árabili, sem um ræðir í málinu, 1988 - 1992, hafi hlutdeild þessarar vörutegundar í heildarveltu stefnanda verið um 5% og markaðshlutdeild fyrirtækisins hafi numið álíka hundraðshluta, eða 5-6%. Hann kvað alla vöruna hafa verið selda. Hver sending hafi verið tekin út, öll aðflutningsgjöld greidd og varan seld, áður en næsta sending hafi verið tekin út.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 3. mars 1997, til ríkistollstjóra var, með vísun til dóms Hæstaréttar 19. desember 1996 í máli nr. 427/1995, gerð krafa um endurgreiðslu ofgreidds jöfnunargjalds, ásamt dráttarvöxtum af þeim vörusendingum, sem um ræðir í málinu, samtals 74.198.001 króna. Leiðrétt kröfugerð var sett fram 13. mars 1997, að fjárhæð 54.335.455 krónur auk dráttarvaxta frá 11. febrúar 1997 og kostnaðar. Inn í framangreinda höfuðstólsfjárhæð voru reiknaðir dráttarvextir frá greiðsludögum til 11. febrúar 1997, eins og gert var við framsetningu stefnufjárhæðar málsins, 54.350.225 krónur.
4. Stefnandi reisir kröfu sína á því, að álagning bæði 190% og síðar 120% jöfnunargjalds, samkvæmt rg. nr. 109/1988 og nr. 335/1989, hafi skort lagastoð og því verið ólögmæt og brotið gegn 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Landbúnaðarráðherra hafi við ákvörðun jöfnunargjaldsins brotið gegn ákvæðum laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem þá giltu. Það hafi hann gert með því að fara út fyrir þær heimildir og takmarkanir, sem þar séu settar, einkum í e-lið 30. greinar.
Stefnandi byggir enn fremur á dómi Hæstaréttar frá 19. desember 1996 í máli nr. 427/1995: Þrotabú S. Óskarssonar & Co hf. gegn íslenska ríkinu.
Endurgreiðslukrafa stefnanda tekur til 33 vörusendinga, sem eru allar innan þeirra tímamarka, sem framangreindur dómur Hæstaréttar tekur til. Krafan er studd við almennar reglur kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár og þá almennu reglu íslensks réttar, að endurgreiða beri gjaldendum ólögmæt gjöld, sem stefndi hafi innheimt.
Stefnandi telur kröfu sína ekki vera fyrnda. Gjaldendur opinberra gjalda treysti almennt lögmæti gjalda og greiði því án fyrirvara. Ekki sé unnt að ætla gjaldendum almennt að hefja málsókn til endurgreiðslu þegar greiddra gjalda, til þess að rjúfa fyrningu. Það hafi ekki verið fyrr en 19. desember 1996, við tilvitnaðan hæstaréttardóm, að unnt hafi verið að ætlast til þess, að greiðendur jöfnunargjalds þrýstu á um endurgreiðslu. Af því leiði, að fyrningarfrestur hafi í fyrsta lagi hafist þá.
5. Stefndi reisir sýknukröfu sína á eftirtöldum málsástæðum:
Í fyrsta lagi telur stefndi, að með framlögðum gögnum hafi sér tekist að sanna og skýra, að álagning jöfnunargjalds hafi verið innan þeirra marka, sem löggjafinn setti landbúnaðarráðherra, og því verið lögmæt. Gjaldið hafi verið ákvarðað í fullu samræmi við þann málefnalega grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu, sem gæta varð, enda hafi það horft eins við öllum innflytjendum, og án tillits til þess frá hvaða landi þeir fluttu vöruna.
Í öðru lagi er á því byggt, að með vísan til 5. töluliðs 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 1. og 11. gr. sömu laga, sé krafa stefnanda til endurgreiðslu á jöfnunargjaldi að öllu leyti fallin niður fyrir fyrningu. Þá séu ekki skilyrði til greiðslu dráttarvaxta af þeim kröfum, sem fallnar séu niður fyrir fyrningu, auk þess sem kröfur til greiðslu vaxta lúti sama fyrningarfresti, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905.
Í þriðja lagi er sýknukrafan studd þeim rökum, að af hálfu stefnanda hafi hið umþrætta jöfnunargjald ekki verið greitt með fyrirvara um síðari endurheimtu þess, en það leiði sjálfstætt til þess að sýkna beri stefnda. Vísað er til þess, að lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda taki einungis til greiðslna eftir 1. janúar 1996. Greiðslurnar, sem um ræðir í máli þessu, hafi hins vegar verið inntar af hendi á þeim tíma, er sú regla hafi verið talin vafalaus, að greiðsla án athugasemda eða fyrirvara fyrirgerði rétti til endurgreiðslu.
Í fjórða lagi er sýknukrafan studd við það, að stefndi hafi ekki hagnast á kostnað stefnanda og séu löglíkur fyrir því, að jöfnunargjaldið hafi verið hluti af verði vörunnar á innanlandsmarkaði. Við svo búið séu ekki uppfyllt skilyrði kröfuréttar til endurgreiðslu ofgreidds fjár. Af þessum sökum sé einnig byggt á því, að stefnandi eigi ekki aðild að kröfu um endurgreiðslu jöfnunargjaldsins og beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Varakrafa stefnda er í meginatriðum rökstudd á eftirfarandi hátt:
Með vísun til dóms Hæstaréttar í máli nr. 427/1995, sem stefnandi styður kröfu sína öðru fremur við, eru ekki efni til að hrófla við jöfnunargjaldinu, er það var ákveðið 40%, samkvæmt reglugerðum nr. 289/1986 og nr. 223/1987. Sá hluti endurgreiðslukröfu stefnanda, sem væri raunhæfur yrði ekki fallist á sýknukröfu, næmi 13..707.957 krónum. Er þá við það miðað, að jöfnunargjald lækkaði úr 190% í 120% þ. 10. júlí 1989. Stefndi krefst einnig lækkunar miðað við, að álagning 120% jöfnunargjalds sé að fullu rökstudd og eigi stefnandi því aðeins rétt á endurgreiðslu 190% gjaldsins eða 7.484.329 krónum. Framar gangi þó krafa um, að einungis verði endurgreitt það, sem umfram var 40% á því tímabili, er álagning gjaldsins nam 190%, eða 5.908.681 króna.
Kröfu stefnanda um dráttarvexti er mótmælt sérstaklega. Endurgreiðslukrafa hans styðjist hvorki við umsamdan né lögákveðinn gjalddaga. Af því leiði, að hafna beri dráttarvaxtakröfunni. Að auki sé réttur til vaxta eða dráttarvaxta fallinn niður vegna tómlætis stefnanda um endurheimtuna. Engin haldbær rök séu fyrir upphafstímanum 11. febrúar 1997. Verði að einhverju leyti fallist á endurgreiðslukröfu stefnanda, telur stefndi, að ekki séu skilyrði til greiðslu dráttarvaxta fyrr en frá dómsuppkvaðningardegi, frá þingfestingardegi eða í fyrsta lagi að mánuði liðnum frá bréfi stefnanda til ríkistollstjóra 13. mars 1997.
6. Þær fjárhæðir, sem krafa stefnanda er reist á, sæta ekki ágreiningi af hálfu stefnda. Af þeim höfuðstólsfjárhæðum, sem raktar eru við lýsingu vaxtakröfu stefnanda, kemur fram, hvaða fjárhæðir hér var um að ræða, greint eftir greiðslumánuðum.
Í dómi Hæstaréttar frá 19. desember 1996 í máli nr. 427/1995: Þrotabú S. Óskarssonar & Co hf. gegn íslenska ríkinu, segir, að álagning umrædds gjalds á þær vörusendingar, sem úrskurðir ríkistollstjóra og ríkistollanefndar náðu til, hafi verið ólögmæt. Sá skilningur verður lagður í forsendur dómsins, að það tímamark, sem þar er miðað við, sé gildistökudagur reglugerðar nr. 109/1988, 29. febrúar 1988, „þegar gjald á hina umdeildu vöru var nær fimmfaldað í einum áfanga”. Allar greiðslur stefnanda, sem um ræðir í málinu, voru inntar af hendi síðar.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, telst fyrningarfrestur frá þeim degi, er krafa varð gjaldkræf. Hver einstök greiðsla stefnanda á tímabilinu frá 6. maí 1988 til 25. júní 1992 markar jafnframt upphaf fjögurra ára fyrningarfrests endurgreiðslukröfu vegna þeirra, samkvæmt 5. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905. Lög standa eigi til þess, að fallist verði á rök stefnanda fyrir því að miða beri upphaf fyrningarfrests við uppkvaðningu framangreinds hæstaréttardóms.
Krafa stefnanda var samkvæmt framansögðu fallin niður fyrir fyrningu, er stefnda var birt stefnda í máli þessu hinn 3. september 1997, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Ákveðið er, að hvor aðili málsins skuli bera kostnað sinn af rekstri þess.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Daníels Ólafssonar ehf.
Málskostnaður fellur niður.