Hæstiréttur íslands
Mál nr. 147/2016
Lykilorð
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhaldskröfu hafnað
- Kærumál
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. mars 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að honum verði ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2016
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, fæddur [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 2. mars nk. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gær hafi A komið á lögreglustöð og viljað koma á framfæri upplýsingum til lögreglu um aðstæður á heimili systur hennar, B. A hafi sagt að B væri greindarskert og 75% öryrki. Hún hafi sagt að hjá B byggi núna kærði, sem væri hælisleitandi hér á landi, og að kærði væri búinn að vera þrýsta mikið á B að giftast honum. A hafi greint frá því að kærði hefði lykil að íbúðinni og færi yfirleitt út um klukkan 10:00 og kæmi aftur klukkan 22:00. Þá hafi lögregla einnig rætt við C, deildarstjóra félagsþjónustu [...] og D ráðgjafa. C hafi greint frá því að B hafi kynnst kærða í gegnum Facebook. Hann hafi þrýst mjög á B að giftast honum. Þær hafi einnig sagt frá því að það væri mjög auðvelt að fá B til þess að gera ýmsa hluti. Þær hafi talið að kærði hefði ekki haldið B nauðugri í íbúðinni eða væri að reyna að ná af henni fjármunum. Að þeirra sögn hafi B sagst einu sinni hafa látið kærða hafa 10.000 kr. B fái þjónustu daglega varðandi lyf. Það komi manneskja til hennar tvisvar í viku til þess að hjálpa henni við þrif, þvott og innkaup. B sé svipt fjárræði.
Í greinargerðinni kemur fram að lögregla hafi rætt við B á vettvangi og hún sagt að kærði hefði verið heima hjá henni í um hálfan mánuð. Hún hafi greint frá því að kærði hefði farið með pappíra vegna hjúskaparvottorðs til Sýslumannsins í Hafnarfirði. B hafi sagt að hún og kærði hefðu haft samfarir 2-3 sinnum á þessu tímabili en hann hafi ekki beitt hana valdi eða lagt á hana hendur. Hún hafi sagt kærða einu sinni hafa lamið í vegg í lyftu þegar þau voru á leiðinni upp í íbúðina.
Í málinu liggi fyrir samantekt skýrslu sem tekin hafi verið af A vegna málsins í gær en þar hafi hún verið beðin um að lýsa B systur sinni. A hafi sagt B hafa farið í greindarpróf en í því prófi hafi greind B mælst 65 sem að sögn A teljist þroskaheftur/fatlaður einstaklingur. Hún hafi sagt B þó beita lærðri hegðun, til dæmis taka undir það sem fólk segi við hana jafnvel þótt hún áttaði sig ekki á hvað viðkomandi talaði um. Hún hafi sagt það geta verið erfitt fyrir fólk sem ekki þekkti hana að átta sig á greindarskerðingunni en að það færi ekki á milli mála fyrir einstakling sem hefði þekkt B í tvo mánuði að hún væri mjög greindarskert. A hafi sagt útilokað að kærði gerði sér ekki grein fyrir andlegu ástandi og þroskaskerðingu B.
Kærði hafi verið handtekinn í gær og tekin af honum skýrsla vegna málsins. Hann hafi sagst hafa kynnst B á Facebook fyrir um tveimur mánuðum. Kærði hafi sagt B vera kærustu sína og að hann hefði búið heima hjá henni síðastliðinn mánuð eftir að hún hefði boðið honum það. Kærði hafi sagt samband þeirra vera kynferðislegt en hann treysti sér ekki til þess að segja hversu oft þau hafi haft samfarir. Aðspurður um hvort hann hafi gert sér grein fyrir þroskaskerðingu B, sagði kærði: „það getur verið að hún sé með smá skerðingu en mér finnst hún alveg skýr í kollinum og mér finnst hún eðlileg, ég er ekki að neyða hana til að gera eitt né neitt, hún vill þetta“. Kærði hafi sagt B hafa átt hugmyndina að giftingu þeirra, þá bæði vegna þess að sambandið gangi vel og að B hafi haft áhyggjur af því að kærði yrði látinn fara úr landi. Kærði sagðist ekki hafa þvingað eða misnotað B á neinn hátt.
Í gögnum málsins sé einnig að finna upplýsingar um að kærði hafi þrýst mjög á B að fá að flytja inn til hennar, að skrifa undir hjúskaparvottorð og að hann hafi verið með ógnandi tilburði í garð B, t.d. lamið í veggi.
Að mati lögreglu sé fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi brotið kynferðislega gegn B, hafi notfært sér skerðingu hennar og hafi ætlað að stofna til hjúskapar í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis. Séu brotin talin varða við 2. mgr. 194. gr. og 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins sé á frumstigi og telji lögreglustjórinn ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Það liggi fyrir að það eigi eftir að taka skýrslu af B. Þá þurfi einnig að taka skýrslur af öðrum vitnum sem og afla frekari gagna. Mál þetta sé því á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins með einhverjum hætti gangi hann laus.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Eins og að framan greinir kveðst lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu vera að rannsaka ætluð brot kærða, sem er hælisleitandi, á 2. mgr. 194. gr. og 253. gr. laga nr. 19/1940.
Grundvallarskilyrði þess að kærði verði hnepptur í gæsluvarðhald samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins er brotaþoli sögð vera greindarskert og 75% öryrki. Fyrir liggur þó að hún hefur ekki verið svipt sjálfræði þó svo að hún sé fjárræðissvipt. Samkvæmt upplýsingum lögreglu m.a. frá starfsmönnum félagsþjónustunnar hefur kærði hvorki reynt að hafa af brotaþola fjármuni né hefur hann haldið henni nauðugri. Þá kemur fram í skýrslu lögreglu að brotaþoli hafi sagt að kærði hafi hvorki lagt á hana hendur né beitt hana valdi á annan hátt. Hafi hún sagt kærða hafa búið hjá sé í u.þ.b. hálfan mánuð.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið sem og gagna málsins verður því ekki talið að skilyrðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 19/1991, sé fullnægt. Ber því að hafna kröfu lögreglustjórans um að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að X, fæddur [...], sæti gæsluvarðhaldi.