Hæstiréttur íslands
Mál nr. 715/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Lögheimili
|
|
Miðvikudaginn 11. nóvember 2015. |
|
Nr. 715/2015.
|
M (Oddgeir Einarsson hrl.) gegn K (Þyrí Steingrímsdóttir hrl.) |
Kærumál. Börn. Lögheimili.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu M um að lögheimili dóttur hans og K yrði hjá honum til bráðabirgða á meðan dómsmál væri rekið milli þeirra um lögheimili stúlkunnar til frambúðar. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um umgengnisrétt M við stúlkuna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 2015, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um lögheimili dóttur þeirra til bráðabirgða og umgengni við hana á meðan dómsmál er rekið milli þeirra um lögheimili stúlkunnar til frambúðar. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að þar til endanleg niðurstaða um lögheimili stúlkunnar liggur fyrir verði það hjá sér, kveðið verði á um umgengni varnaraðila við stúlkuna og varnaraðila gert að greiða einfalt meðlag með henni.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Af kærumálsgögnum verður ekki ráðið að sóknaraðili hafi í þessum þætti málsins gert kröfu fyrir héraðsdómi um að kveðið yrði á um skyldu varnaraðila til að greiða meðlag með dóttur þeirra til bráðabirgða. Sú krafa getur því ekki komist að fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en ekki verður kveðið á um gjafsóknarkostnað varnaraðila hér fyrir dómi, enda er gjafsókn hennar bundin við rekstur málsins í héraði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 2015.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar til bráðabirgða 23. september sl., var höfðað 12. maí 2015 af hálfu M, [...], Reykjavík á hendur K, [...], Reykjavík til breytingar á lögheimili barns aðila og til ákvörðunar um umgengni og meðlag.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að lögheimili A, barns hans og varnaraðila, verði skráð hjá honum og að varnaraðila verði gert að greiða honum einfalt meðlag með barninu. Þess er jafnframt krafist að dómurinn kveði á um umgengni barnsins og þess foreldris sem ekki hefur lögheimili barnsins. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi stefndu auk virðisaukaskatts. Varnaraðili gerir þær dómkröfur í málinu að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og krefst málskostnaðar úr hendi hans eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts.
Hér er til úrskurðar krafa sóknaraðila um úrskurð til bráðabirgða um lögheimili barnsins og um fyrirkomulag umgengni barns og foreldra til bráðabirgða. Í þessum þætti málsins gerir sóknaraðili þá kröfu að lögheimili barnsins verði til bráðabirgða flutt til hans meðan málið er til meðferðar fyrir dóminum og umgengni barns og móður verði aðra hverja helgi. Verði lögheimili óbreytt krefst sóknaraðili óbreyttrar umgengni, viku og viku á víxl. Varnaraðili gerir þær kröfur í þessum þætti málsins að kröfum sóknaraðila um breytingu á lögheimili barnsins og umgengni verði hafnað og að umgengni verði áfram viku og viku á víxl. Þá krefst varnaraðili úrskurðar um málskostnað úr hendi sóknaraðila í þessum þætti málsins, en krefst til vara að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.
Yfirlit málsatvika
Málsaðilar eiga saman barnið A, sem fædd er [...]. Aðilar slitu sambúð í febrúar 2014 og fara sameiginlega með forsjá barnsins, sem hefur lögheimili hjá varnaraðila, en sóknaraðili greiðir varnaraðila einfalt meðlag með barninu. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins og skýrslum aðila fyrir dóminum hefur varnaraðili glímt við fíknisjúkdóm og leitaði hún sér meðferðar vegna hans í maí 2014. Þá varð samkomulag um að barnið færi til sóknaraðila og mun barnið hafa dvalið hjá honum og haft stopula umgengni við varnaraðila þar til í nóvember s.á., þegar sóknaraðili óskaði eftir því við varnaraðila að lögheimili barnsins yrði flutt til hans. Krafa sóknaraðila um breytingu á lögheimili barnsins var tekin til meðferðar á embætti Sýslumannsins í Reykjavík og lauk því máli með útgáfu vottorðs um árangurslausa sáttameðferð 9. mars 2015. Sama dag innritaðist varnaraðili að nýju til meðferðar vegna fíknisjúkdóms og lauk meðferð hennar við eftirmeðferðarstofnun 21. apríl 2015. Í kjölfarið mun barnið hafa dvalið hjá foreldrum sínum á víxl, viku og viku í senn. Sóknaraðili býr í leiguhúsnæði í [...] en varnaraðili býr í [...], í íbúð í eigu móður sinnar, sem til skamms tíma bjó þar einnig sjálf. Barnið gengur nú í skóla í skólahverfi varnaraðila. Sóknaraðili lýsti fyrir dóminum áformum um að festa kaup á íbúð í því hverfi og varnaraðili kveðst hafa sótt um íbúð í sama hverfi hjá félagsbústöðum Reykjavíkurborgar. Varnaraðili lýsti vilja og áformum um að vera áfram edrú og sækir m.a. stuðning til AA samtakanna. Aðilar eru bæði í nýjum samböndum og hafa bæði atvinnu af umönnunarstörfum.
Aðilar gáfu skýrslur fyrir dóminum áður en kröfur þeirra í þessum þætti málsins voru teknar til úrskurðar, en dómari hafnaði beiðni sóknaraðila um að skýrsla yrði tekin af barninu á þessu stigi málsins. Stúlkan er sjö ára gömul og í málinu eru m.a. gögn frá barnaverndaryfirvöldum þar sem viðhorf barnsins þykja koma nægilega fram til þess að úrskurðað verði til bráðabirgða um lögheimili þess.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili styður kröfu sína um lögheimili barnsins til bráðabirgða við 35. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Í stefnu studdi sóknaraðili þá kröfu sína því að nauðsynlegt væri að lögheimili yrði breytt til bráðabirgða, enda væri barnið búsett hjá sóknaraðila og þá með afar takmarkaða umgengni við varnaraðila, en barninu hafi aðallega verið sinnt af móðurömmu sinni í umgengni. Þá segir sóknaraðili það hafa sýnt sig að varnaraðili sé til alls vís þegar komi að málefnum barnsins. Í kjölfar þess að lögð var fram beiðni um breytingu á lögheimili hjá sýslumanni hafi hún farið, án samráðs við sóknaraðila, og sótt barnið í skóla og haft í hótunum við hann um að hann fengi aldrei að sjá barnið aftur. Þá hafi hún ítrekað notað þá staðreynd að hún sé lögheimilisforeldri barnsins gegn sóknaraðila, hafi m.a. krafið hann um að greiða ýmislegt fyrir hana meðan barnið bjó hjá honum, annars tæki hún barnið af honum. Ef sóknaraðili hefði haft lögheimili barnsins á þeim tíma og stefnda haft skilgreindan umgengnisrétt þá hefði verið auðveldara að eiga við þau mál í samvinnu við lögreglu og barnaverndaryfirvöld. Sóknaraðili telji nauðsynlegt að komið verði á stöðugleika í lífi barnsins án tafar og því sé nauðsynlegt að taka ákvörðun um lögheimili barnsins strax við upphaf málsmeðferðar. Varnaraðili hafi tekið barnið til sín þegar sóknaraðili lagði fram beiðni um breytingu á lögheimili hjá sýslumanni og þá útilokað sóknaraðila frá barninu og haft í hótunum við hann. Slík háttsemi geti beinlínis verið skaðleg fyrir barnið. Sóknaraðili hafi unnið ötullega að því að koma á stöðugleika í lífi barnsins, m.a. með því að taka upp umbunarkerfi á heimilinu til þess að stjórna hegðun. Eftir dvölina hjá varnaraðila hafi hegðun barnsins aftur verið komin á byrjunarreit, enda takmarkað utanumhald um barnið á heimili hennar.
Krafa sóknaraðila um að lögheimili barnsins skuli flutt til hans til bráðabirgða styðst að öðru leyti við sömu málsástæður og dómkröfur hans, aðallega þá að aðstæður hans séu miklum mun betri en hjá varnaraðila. Sóknaraðili sé ekki í óreglu, hann sé með vinnu og með hentugt húsnæði. Barninu líði vel hjá honum og hafi sýnt verulegar framfarir frá því að það flutti til hans, en afturför hafi orðið vegna háttsemi móður, bæði þegar hún hafi tekið barnið til sín án fyrirvara og verið með það í stuttan tíma en farið strax í kjölfarið úr lífi barnsins í langa fíkniefnameðferð. Barnið hafi að mestu leyti búið hjá sóknaraðila frá maí 2014 og því sé eðlilegt að lögheimilisskráning endurspegli þá staðreynd. Ef barnið ætti að búa til framtíðar hjá varnaraðila telji sóknaraðili að það gæti leitt til verulegs óstöðugleika í lífi barnsins og að veruleg hætta væri til staðar á tilfinningalegu róti hjá barninu. Sóknaraðili telji jafnframt vilja barnsins standa til þess að búa hjá honum og að barnið tengist honum betur en varnaraðila. Sóknaraðili telji sig hafa þá persónulegu eiginleika sem þurfi til að sinna barninu og að högum hans sé þannig fyrir komið að barnið sé öruggt og búi við gott atlæti hjá honum.
Varnaraðili hafi verið í fíkniefnavanda um langt skeið sem hún virðist ekki hafa haft getu til að vinna bug á; farið í að minnsta kosti þrjár fíkniefnameðferðir á árinu 2014 og að minnsta kosti eina það sem af er árinu 2015. Varnaraðili hafi ekki nokkurn möguleika á að veita barninu mannsæmandi heimili eins og staða hennar sé í dag. Sóknaraðili telji þó að varnaraðila þyki vænt um barnið og að hún geti sinnt því ágætlega sé hún ekki í neyslu fíkniefna. Muni hann því ekki standa í vegi fyrir ríflegri og sveigjanlegri umgengni verði krafa hans um lögheimili viðurkennd.
Sóknaraðili telji öll rök benda til þess að hann skuli hafa lögheimili barnsins og telji hann furðu sæta að varnaraðili hafi ekki nú þegar samþykkt flutning lögheimilis þess í tengslum við sáttameðferð aðila hjá sýslumanni. Hann hafi verulegar áhyggjur af því að ástæða þess sé sú að varnaraðili þiggi einfalt meðlag með barninu sem og barnabætur og annan félagslegan stuðning þar sem hún sé skráð sem einstæð móðir. Sóknaraðili telji engin rök standa til þess að ekki verði fallist á kröfu hans um lögheimili barnsins.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili mótmælir málsástæðum sóknaraðila um að það sé barninu fyrir bestu að hafa lögheimili hjá honum, að aðstæður hans séu betri en varnaraðila og að tengsl barnsins við hann séu meiri en tengsl þess við varnaraðila. Staðhæfingar sóknaraðila um áhugaleysi varnaraðila á umgengni við barnið, meintar hótanir í garð sóknaraðila og umgengnistálmanir kveður varnaraðili rangar og ósannaðar og mótmælir dylgjum um að afstaða hennar í málinu ráðist af meintum fjárhagslegum ávinningi.
Kröfur sóknaraðila byggi einungis á framburði og skoðunum hans sjálfs og tilvísunum til meintra skoðana barnsins. Ljóst sé að barnið hafi fyrir tilstuðlan sóknaraðila þurft að taka afstöðu til álitaefna sem ekki sé talið heillavænlegt að borin séu undir börn, en í barnalögum segi að horfa skuli til vilja barns ef aldur þess og þroski leyfi. Barnið sé sjö ára gamalt og hafi þurft að þola mikil áföll á stuttri ævi og virðist nú sæta nánast stanslausum yfirheyrslum af hálfu föður um skoðanir hennar og vilja varðandi búsetu sína sem hún hafi enga burði til að takast á við. Vísist þar til staðhæfingar sóknaraðila um að barnið vilji frekar vera hjá honum en hjá varnaraðila. Sóknaraðili virðist ekki hika við að draga telpuna inn í ágreining málsaðila sem sé henni síst til hagsbóta. Varnaraðili mótmæli beiðni sóknaraðila um að dómari kanni hug telpunnar áður en úrskurðað verður í málinu.
Litið sé til þeirra atriða er greini í 2. mgr. 34. gr. barnalaga um hvað sé barni fyrir bestu þegar gerð er krafa um úrskurð um lögheimili og umgengni til bráðabirgða. Því til viðbótar sé það grundvallarskilyrði að brýna nauðsyn beri til að breyta aðstæðum barns. Engar slíkar ástæður séu fyrir hendi í þessu tilviki. Þegar slíkar ástæður séu ekki fyrir hendi sýni dómafordæmi Hæstaréttar að hafnað sé kröfum um lögheimilisbreytingu og umgengni til bráðabirgða.
Stúlkan hafi alist upp í [...], hún eigi þar vini og þekki umhverfi sitt vel. Hún sé í góðum tengslum við varnaraðila, búi hjá henni og hafi gert það frá því að varnaraðili hafi lokið meðferð í apríl 2015. Þá búi stúlkan jafnframt á heimili ömmu sinnar, en þær séu nánar. Tengslanet stúlkunnar og aðstæður séu til fyrirmyndar og röskun á núverandi lögheimilisskráningu myndi raska verulega stöðu og högum hennar, hún yrði að skipta um skóla sem aftur hefði í för með sér umtalsverða röskun á stöðugleika sem henni sé síst til heilla. Mótmælt sé þeirri staðhæfingu sóknaraðila að búseta hjá varnaraðila til frambúðar geti leitt til verulegs óstöðugleika í lífi stúlkunnar.
Niðurstaða
Dómari hefur samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003, í máli um forsjá barns eða lögheimili, heimild til að úrskurða til bráðabirgða að kröfu aðila, hvernig fara skuli um forsjá þess eða lögheimili, eftir því sem barni er fyrir bestu. Í sama úrskurði getur dómari kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða og getur í slíku máli enn fremur ákveðið að barn skuli búa hjá foreldrum sínum á víxl, enda þyki slíkt fyrirkomulag samræmast hagsmunum barns, sbr. 2. mgr. 35. gr. barnalaga. Það eru kröfur sóknaraðila um úrskurð um lögheimili og umgengni til bráðabirgða sem til úrlausnar eru í máli þessu.
Málsaðilar hafa farið sameiginlega með forsjá barnsins A frá fæðingu hennar og óskar hvorugt þeirra eftir því að breyting verði gerð á þeirri skipan. Barnið hefur átt lögheimili hjá varnaraðila frá sambúðarslitum aðila í febrúar 2014 og gerir sóknaraðili í máli þessu kröfu um þá breytingu að lögheimili barnsins flytjist til hans.
Með lögum nr. 61/2012 var bætt við barnalögin nýrri grein um inntak sameiginlegrar forsjár, 28. gr. a, meðal annars til að freista þess að taka af skarið um hlutverk hvors foreldris um sig þegar þau fara sameiginlega með forsjá barns en búa ekki saman. Í ákvæðinu segir að ef foreldrar búa ekki saman hafi það foreldri sem barn eigi lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um það hvar barnið skuli eiga lögheimili innanlands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fari saman með forsjá barns skuli þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta. Af framangreindum ástæðum m.a. hefur það sérstaka þýðingu hvar lögheimili barns er skráð, einnig þegar barn dvelur hjá foreldrum sem fara saman með forsjá þess að jöfnu. Með ákvörðun málsaðila við sambúðarslit þeirra, um að lögheimili telpunnar skyldi vera hjá varnaraðila, var mörkuð sú réttarstaða að ákvarðanir um málefni telpunnar skyldu að meginstefnu til vera í höndum hennar. Sóknaraðili óskar nú eftir breytingu á þessu fyrirkomulagi.
Fram kom í máli sóknaraðila fyrir dóminum að þótt varnaraðili hefði nú verið edrú í sex mánuði teldi hann hættu á því að hún félli á ný og ef það gerðist vildi hann hafa heimildir til að hafa fulla stjórn á málefnum barnsins. Þá kom fram hjá sóknaraðila að hann teldi það henta barninu betur að búa hjá sér að staðaldri og fara til varnaraðila aðra hverja helgi í umgengni og kveðst sóknaraðili hafa það eftir barninu að hún óski þess sjálf að vera aðeins þrjá daga hjá móður sinni í senn. Sóknaraðili staðfesti þó fyrir dóminum að núverandi umgengni, viku og viku á víxl, gengi vel.
Í máli varnaraðila fyrir dóminum kom fram að hún teldi enga þörf á að breyta skráningu á lögheimili barnsins. Hún bar á sama veg og sóknaraðili um að núverandi umgengnisfyrirkomulag gengi vel og taldi ekkert tilefni til að gera breytingar á því. Lagði varnaraðili á það áherslu að með lögheimili hjá henni væri barninu tryggð, án þess að sækja þyrfti um það sérstaklega, skólavist í þeim skóla sem hún gengi í nú, en um það eru foreldrar sammála að æskilegast sé að barnið gangi áfram í þann skóla. Varnaraðili benti enn fremur á að telpan ætti leikfélaga og vini í námunda við heimili hennar, en sú væri ekki raunin í [...] þar sem sóknaraðili býr.
Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. barnalaga felur forsjá barns í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Sóknaraðili lagði fram í málinu tilkynningu frá skóla barnsins í júní 2015 um grun um ofbeldi vegna frásagnar telpunnar af samskiptum við móðurömmu sína. Nú liggur fyrir að athugun Barnaverndar Reykjavíkur í tilefni af tilkynningunni er lokið og að það var niðurstaða Barnaverndar að ekki væri tilefni til afskipta af hennar hálfu. Upplýst er að móðuramma barnsins sem athugunin varðar býr ekki lengur á heimili varnaraðila og að óvíst sé hvenær hún komi aftur þangað. Þessi tilkynning og niðurstaða athugunar gefur ekki tilefni til að ætla að sérstök hætta sé á að barnið verði fyrir ofbeldi á heimili varnaraðila. Ekkert bendir heldur til þess að hætta sé á að barnið verði fyrir ofbeldi á heimili sóknaraðila.
Frá því að mál þetta var höfðað og krafa gerð um breytingu á lögheimili barnsins til bráðabirgða hafa mál þróast með þeim hætti að varnaraðili hefur staðið við bindindi og ráðið sig í vinnu. Sóknaraðili hefur ekki haldið því fram að varnaraðili hafi að undanförnu vanrækt forsjárskyldur sínar við barnið eða að hún sé ekki fær um að sinna þeim skyldum sem á lögheimilisforeldri hvíla. Þá hefur ekkert fram komið til stuðnings ummælum í greinargerð sóknaraðila um að fjárhagslegur ávinningur af því að lögheimili barnsins verði skráð hjá varnaraðila ráði afstöðu hennar í málinu. Þótt sóknaraðili hafi lýst áhyggjum af því að varnaraðili kynni að falla að nýju á bindindi getur það ekki ráðið niðurstöðu um lögheimili barnsins til bráðabirgða. Komi til þess að ótti sóknaraðila reynist á rökum reistur og varnaraðili hefji neyslu fíkniefna á ný meðan á meðferð málsins stendur, sem engar tilteknar vísbendingar hafa komið fram um að muni gerast, má líta til þess að þegar varnaraðili hefur áður þurft að leita sér hjálpar vegna fíknisjúkdóms síns hefur hún falið sóknaraðila umsjá barns þeirra.
Að öllu framangreindu virtu þykja ekki fram komin rök til þess að hrófla að svo stöddu við því fyrirkomulagi lögheimilisskráningar barnsins sem foreldrar ákváðu í sameiningu við sambúðarslit, þ.e. að það sé hjá varnaraðila. Verður kröfu sóknaraðila um breytingu á skráningu lögheimilis barnsins til bráðabirgða því hafnað.
Í ljósi þeirrar niðurstöðu að ekki verður hróflað við skráningu lögheimilis barnsins með úrskurði þessum eru tillögur beggja foreldra í raun samhljóða um að ekki skuli gera neinar breytingar á umgengni. Samkvæmt 46. gr. barnalaga á barn rétt á því að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess, en ákvörðun um umgengni skal ávallt tekin eftir því sem barni er fyrir bestu, samkvæmt 1. mgr. 47. gr. barnalaga. Það fyrirkomulag að barnið búi hjá foreldrum sínum á víxl, viku og viku, hafa foreldrar báðir staðfest fyrir dóminum að hafi reynst vel að undanförnu og verður því ákveðið, með vísun til 2. mgr. 35. gr. barnalaga, að umgengni sóknaraðila og telpunnar verði með sama hætti og nú er meðan lögheimilismálið er til meðferðar, þannig að telpan dvelur hjá foreldrum sínum á víxl, viku og viku í senn, enda þykir slíkt fyrirkomulag samræmast hagsmunum hennar að svo stöddu.
Við meðferð málsins um lögheimili barnsins gefst aðilum kostur á að afla og leggja fram frekari sönnunargögn, eftir atvikum matsgerð, í því skyni að leiða í ljós hvar barninu sé fyrir bestu að eiga lögheimili til frambúðar og hvaða fyrirkomulag umgengni henti hagsmunum þess þá best.
Ákvörðun um málskostnað í þessum þætti málsins bíður dóms í lögheimilismálinu.
Úrskurð þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð
Kröfu sóknaraðila, um að lögheimili barnsins A flytjist frá varnaraðila til sóknaraðila þar til dómur gengur í máli um lögheimili barnsins, er hafnað.
Umgengni barnsins og sóknaraðila verður óbreytt, þannig að barnið dvelur hjá foreldrum sínum á víxl, viku og viku í senn, meðan lögheimilismálið er til meðferðar fyrir dóminum.
Ákvörðun um málskostnað bíður dóms í máli aðila um lögheimili barnsins.