Hæstiréttur íslands
Mál nr. 137/2011
Lykilorð
- Verksamningur
- Tómlæti
- Dagsektir
- Skuldajöfnuður
- Uppgjör
|
|
Fimmtudaginn 15. desember 2011. |
|
Nr. 137/2011.
|
Spöng ehf. (Guðmundur Ágústsson hrl.) gegn Kársnessókn (Othar Örn Petersen hrl.) og gagnsök |
Verksamningur. Tómlæti. Dagsektir. Skuldajöfnuður. Uppgjör.
S ehf. og K gerðu með sér verksamning um uppsteypu og frágang safnaðarheimilis K. S ehf. krafði K um greiðslu vangoldinna verklauna, m.a. á grundvelli reikninga sem dagsettir voru eftir að tveir mánuðir voru liðnir frá verklokum, en samkvæmt grein 31.6 í ÍST 30, sem var meðal samningsgagna samkvæmt verksamningi, skyldu fullnaðarreikningar vegna verksins sendir innan þess tíma. K mótmælti greiðsluskyldu og taldi sig m.a. eiga gagnkröfu á hendur S ehf. til skuldajafnaðar vegna tafa á verklokum. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að viðurkennd var greiðsluskylda K að hluta. Að því er varðaði reikninga sem dagsettir voru eftir að tveir mánuðir voru liðnir frá verklokum, taldi Hæstiréttur að K væri samkvæmt almennum reglum samningaréttarins bundin af samþykki umsjónar- og eftirlitsmanns verksins á tilteknum kröfum fyrir lok tveggja mánaða frestsins, jafnvel þótt reikningar vegna þeirra hefðu verið dagsettir síðar. Loks taldi Hæstiréttur að K ætti rétt á tafabótum vegna seinkunar á verklokum, enda hafði S ehf. ekki sýnt fram á að félagið hefði fullnægt þeim skyldum sem á því hvíldu samkvæmt ÍST 30 til þess að geta krafist þess að verktími yrði framlengdur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2011. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 47.557.043 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum, svo sem í héraðsdómi greinir, frá 22. janúar 2009 til 4. júní sama ár, en af framangreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum á tilteknum dögum, eins og greint er í héraðsdómi, samtals að fjárhæð 18.650.981 króna. Hann krefst jafnframt staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um málskostnað og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 17. maí 2011. Hann krefst aðallega sýknu, en til vara að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
I
Aðaláfrýjandi höfðaði málið í héraði til heimtu framangreindrar fjárhæðar, sem hann telur vangoldin verklaun til sín vegna verksamnings frá júlí 2007 um byggingu safnaðarheimilis fyrir gagnáfrýjanda að Hábraut 1A, Kópavogi. Gagnáfrýjandi krafðist sýknu í héraði. Færi svo að aðaláfrýjandi teldist eiga einhver verklaun vangoldin, bæri engu að síður að sýkna hann vegna gagnkröfu sem hann hafi uppi til skuldajafnaðar. Sú krafa sé í tveimur liðum. Annars vegar eigi hann kröfu á aðaláfrýjanda, sem hann kveður nú að fjárhæð 735.600 krónur vegna tilgreinds kostnaðar, sem á hann hafi fallið, en aðaláfrýjandi beri ábyrgð á. Hins vegar sé um að ræða tafabætur, sem hann kveður nú nema 6.650.000 krónum.
II
Krafa aðaláfrýjanda er annars vegar reist á reikningum, sem tilgreindir eru í héraðsdómi undir liðum 1 til 22. Samanlögð fjárhæð þessara reikninga er 26.047.272 krónur. Reikningana hefur gagnáfrýjandi samþykkt í sjálfu sér en gerir athugasemdir við fjárhæðir hluta þeirra á þeim grundvelli, sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi. Verður fallist á forsendur héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, fyrir því að hafna mótbárum gagnáfrýjanda við þessum reikningum og staðfest sú niðurstaða dómsins að gagnáfrýjanda beri að greiða fjárhæð reikninganna óskerta. Ekki er ágreiningur um að frá þeirri fjárhæð beri að draga innborganir gagnáfrýjanda samtals 18.650.981 króna á þann hátt sem í héraðsdómi greinir.
Hins vegar er krafa aðaláfrýjanda reist á reikningum í liðum 23 til 45 að fjárhæð 21.509.771 króna, en gagnáfrýjandi andmælir þeim í heild sinni þar sem reikningarnir, sem allir eru dagsettir 4. maí 2009, hafi verið gerðir þegar liðnir voru meira en tveir mánuðir frá þeim degi, er verki var skilað, 12. febrúar 2009. Sé mælt fyrir um það í grein 31.6 í ÍST 30, Almennum útboðs- og samningsskilmálum um verkframkvæmdir, sem samkvæmt verksamningi séu meðal samningsgagna, að verktaki skuli senda verkkaupa fullnaðarreikning innan tveggja mánaða frá því hann skilaði verki í hendur verkkaupa. Í því sambandi skipti engu þótt aðaláfrýjandi hafi innan þessa frests gert fyrirvara um að hann kynni að leggja fram kröfur síðar. Héraðsdómur féllst á þessar röksemdir gagnáfrýjanda og sýknaði hann af kröfum aðaláfrýjanda samkvæmt þessum reikningum.
Í grein 31.6 í ÍST 30 segir svo: ,,Verktaki skal senda verkkaupa fullnaðarreikning vegna verksins innan tveggja mánaða frá því er hann skilaði verkinu í hendur verkkaupa. Á reikningi þessum skal m.a. greina allar kröfur um greiðslur vegna aukaverka og breytinga.“ Í grein 31.8 segir jafnframt að eftir að verktaki hafi lagt fram fullnaðarreikning geti hann ekki haft uppi frekari kröfur. Þótt fallast megi á að aðaláfrýjandi hafi ,,skilað verkinu“ 12. febrúar 2009 í skilningi greinar 31.6 í ÍST 30 og aðaláfrýjanda hafi samkvæmt því borið að leggja fram fullnaðarreikning í síðasta lagi 12. apríl sama ár, verður ekki talið að greinin girði með öllu fyrir að fallast megi á einstaka kröfuliði aðaláfrýjanda. Í máli þessu á það við um tilvik þar sem aðaláfrýjandi kynnti gagnáfrýjanda tilgreindar kröfur innan frestsins og gagnáfrýjandi tók þá afstöðu til þeirra, áður en fresturinn rann út, að þær bæri að samþykkja. Er hann bundinn af því samþykki sínu samkvæmt almennum reglum samningaréttar.
Í 5. grein verksamnings málsaðila er kveðið á um að eftirlitsmaður yfirfari reikninga og samþykki þá. Skuli það gert innan viku frá því að reikningi er framvísað. Í útboðs- og samningsskilmálum kemur fram að umsjón og eftirlit með verkinu af hálfu verkkaupa sé á vegum Teiknistofunnar Óðinstorgi, verkfræðideildar. Er ágreiningslaust í málinu að Vífill Oddson verkfræðingur hafi annast þessi verk mestan hluta verktímans, en samstarfsmaður hans á tímabili sem Vífill var forfallaður. Í grein 17.5.1 í ÍST 30 eru reglur um hlutverk umsjónarmanns verkkaupa. Segir þar að hann sé sérstakur fulltrúi verkkaupa og geti meðal annars samið um öll minni háttar viðbótarverk. Hann komi fram fyrir hönd verkkaupa gagnvart verktaka um allt sem varðar framkvæmd verksins.
Að teknu tilliti til umsagnar Vífils Oddssonar frá janúar 2010 ásamt fylgiskjölum og fleiri gagna í málinu, sem taka meðal annars til umræddra kröfuliða 23 til 45, verður lagt til grundvallar að aðaláfrýjandi hafi kynnt fulltrúa gagnáfrýjanda með rökstuddum hætti hluta af framangreindum kröfuliðum fyrir lok tveggja mánaða frestsins og umsjónar- og eftirlitsmaðurinn samþykkt með skuldbindandi hætti fyrir gagnáfrýjanda kröfuliði, sem ásamt verðbótum og síðari leiðréttingum, nema samtals 5.157.750 krónum. Verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda þessa fjárhæð og ber hún dráttarvexti frá 4. júní 2009, en þá var liðinn mánuður frá því aðaláfrýjandi lagði fram reikninga vegna þessara kröfuliða. Niðurstaða héraðsdóms um aðra kröfuliði, sem hér falla undir, verður staðfest með vísan til forsendna.
III
Gagnáfrýjandi krefst nú, eins og fyrr greinir, annars vegar greiðslu á 735.000 krónum, en kröfu þessa taldi hann í héraði nema 769.189 krónum, vegna þriggja liða, sem þar eru einnig tilgreindir. Er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að þessari kröfu beri að hafna, enda eru einstakir þættir hennar ekki rökstuddir í héraðsgreinargerð gagnáfrýjanda og hafa ekki verið færðar nægar sönnur að þeim undir meðferð málsins.
Hins vegar krefst gagnáfrýjandi tafabóta að fjárhæð 6.650.000 krónur. Hann reisir þessa kröfu á því að aðaláfrýjandi hafi skilað verkinu of seint. Skiladagur samkvæmt verksamningi hafi verið 1. júní 2008, en hann hafi veitt frest á skilum verksins til 1. október sama ár. Eins og áður greinir voru verkskil 12. febrúar 2009. Aðaláfrýjandi hafnar því að sér sé skylt að greiða tafabætur. Hann hafi margsinnis á verktímanum þurft að kalla eftir hönnunargögnum og verkfyrirmælum til þess að geta unnið einstaka verkþætti og hafi gagnáfrýjandi oft ekki sinnt þessum beiðnum hans fyrr en eftir ítrekanir, stundum margar. Auk þess hafi breytingar á verkinu tafið framkvæmdir.
Í grein 24.2 í ÍST 30 er mælt fyrir um skilyrði þess að unnt sé að krefjast framlengingar á verktíma, en þau eru meðal annars að: ,,a) Breytingar hafa orðið á verkinu og þær seinka framkvæmdum. b) Verkkaupi leggur ekki til í tæka tíð teikningar, verklýsingar, efni, vinnu, vinnutæki eða annað sem hann sjálfur eða aðrir hans vegna eiga að láta í té og verki seinkar af þessum sökum eða verki seinkar vegna annarra atriða sem varða verkkaupa.“ Ef verktaki telur sig eiga rétt á framlengingu verkskila eru fyrirmæli í grein 24.3 um hvernig hann eigi að bera sig að við að fá hana. Í þessari grein segir: ,,Ef verktaki telur sig eiga rétt á framlengingu á fresti skal hann tafarlaust senda verkkaupa rökstudda tilkynningu um það. Í tilkynningu skal rökstutt að töfin hafi hlotist af þeim atvikum sem verktaki ber fyrir sig.“ Þá segir meðal annars í grein 24.4: ,,Verktíma skal lengja sem nemur þeirri töf sem af tálmun hlaust, að viðbættum hæfilegum tíma til að hefja framkvæmdir að nýju.“
Aðaláfrýjandi hefur tekið saman yfirlit, sem er meðal skjala málsins, um bókanir á verkfundum þar sem óskir hans um hönnunargögn og fleira auk ýmissa kvartana koma fram. Hluti þessara bókana og umkvartana koma fram á verkfundum, sem haldnir voru eftir upphaflegan skiladag 1. júní 2008 og nokkrar þeirra eftir 1. október sama ár. Þær kvartanir lúta bæði að því að teikningar af lögnum vanti, bæði snjóbræðslulögn og pípulögn og að upphafleg hönnun brunahurða og innihurða væri ekki framkvæmanleg. Á 73. verkfundi, 3. desember 2008, er eftirfarandi bókað: ,,Kristinn Gíslason telur að umrædd breyting brunahurða sé á bundinni leið í verkinu og því telur hann að verktaki eigi rétt á framlengingu á verktíma.“ Þá liggja frammi tölvupóstsendingar aðaláfrýjanda eða fulltrúa hans til umsjónar- og eftirlitsmanns eða annarra fulltrúa gagnáfrýjanda. Hluti þessara tölvupósta eru sendir eftir 1. október 2008. Í tölvupósti sem sendur er 3. nóvember 2008 kvartar aðaláfrýjandi meðal annars yfir því að gagnáfrýjandi sinni ekki ábendingum um að breyta hönnun brunahurða og innihurða. Jafnframt segir svo: ,,Í ljósi þess að ekki hafa enn verið lögð fram verkgögn sem hægt er að vinna eftir, þá hafnar verktaki alfarið skilgreiningu verkkaupa á að verklok hafi verið þ. 1. okt.“ Þá er einnig kvartað vegna dráttar á greiðslum frá gagnáfrýjanda. Þótt aðaláfrýjandi hafi samkvæmt framansögðu haft uppi ýmsar kvartanir og fram hafi komið hjá honum að hann teldi sig eiga rétt á framlengingu verkskila eftir 1. október 2008, hefur hann ekki sannað að hann hafi sent gagnáfrýjanda rökstudda tilkynningu um framlengingu á verkskilum og tilgreint hve langan frest hann eigi að fá á skiladegi verksins. Hann hefur því ekki fullnægt skyldum þeim sem samkvæmt greinum 24.3 og 24.4 í ÍST 30 hvíldu á honum til þess að hann geti krafist þess að verktími verði framlengdur.
Gagnáfrýjandi hafði uppi kröfu um tafabætur með þeirri fjárhæð sem hann miðar við í málinu í bréfi umsjónar- og eftirlitsmanns 30. mars 2009. Í 6. gr. verksamningsins er mælt fyrir um rétt verkkaupa til tafabóta 50.000 krónur fyrir hvern byrjaðan almanaksdag sem verkskil dragast á langinn. Í grein 24.5.1 í ÍST 30 er mælt fyrir um að verkkaupi þurfi ekki að sanna tjón sitt ef ákvæði séu um tafabætur í verksamningi. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu gagnáfrýjanda um tafabætur í 133 daga, samtals 6.650.000 krónur.
IV
Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 31.205.022 krónur (26.047.272 + 5.157.750) með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði að frádregnum 25.300.981 krónu (376.838 + 2.000.000 + 16.274.143 + 6.650.000) miðað við tilgreindar dagsetningar.
Samkvæmt þessum málsúrslitum skuldar gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda nokkur verklaun fyrir þjónustu hins síðarnefnda. Verður gagnáfrýjandi því dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Kársnessókn, greiði aðaláfrýjanda, Spöng ehf., 31.205.022 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.404.080 krónum frá 22. janúar til 2. febrúar 2009, af 5.036.580 krónum frá þeim degi til 13. febrúar sama ár, af 6.395.580 krónum frá þeim degi til 21. febrúar sama ár, af 8.036.172 krónum frá þeim degi til 2. mars sama ár, af 11.513.143 krónum frá þeim degi til 15. mars sama ár, af 21.211.818 krónum frá þeim degi til 18. mars sama ár, af 22.547.429 krónum frá þeim degi til 19. mars sama ár, af 24.902.667 krónum frá þeim degi til 21. mars sama ár, af 25.049.667 krónum frá þeim degi til 28. mars sama ár, af 25.723.974 krónum frá þeim degi til 10. apríl sama ár, af 26.047.667 krónum frá þeim degi til 4. júní sama ár, en af 31.205.022 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 376.838 krónum þann 31. desember 2008, 2.000.000 krónum þann 6. febrúar 2009, 6.650.000 krónum 30. mars 2009 og 16.274.143 krónum 29. júní 2009.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 1.500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. desember 2010.
Mál þetta, sem var tekið til dóms 14. október sl., var höfðað 1. desember 2009.
Stefnandi er Spöng ehf., Bæjarflöt 15, Reykjavík.
Stefnda er Kársnessókn, Kastalagerði 7, Kópavogi.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði gert að greiða stefnanda 47.557.043 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 af 4.404.080 krónum frá 22. janúar 2009 til 2. febrúar 2009, en af 5.036.580 krónum frá þeim degi til 13. febrúar 2009, en af 6.395.580 krónum frá þeim degi til 21. febrúar 2009, en af 8.036.172 krónum frá þeim degi til 2. mars 2009, en af 11.513.143 krónum frá þeim degi til 15. mars 2009, en af 21.211.818 krónum frá þeim degi til 18. mars 2009, en af 22.547.429 krónum frá þeim degi til 19. mars 2009, en af 24.902.667 krónum frá þeim degi til 21. mars 2009, en af 25.049.667 krónum frá þeim degi til 28. mars 2009, en af 25.723.974 krónum frá þeim degi til 10. apríl 2009, en af 26.047.272 krónum frá þeim degi til 4. júní 2009, en af 47.557.043 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda að fjárhæð 376.838 krónur frá 31. desember 2008, 2.000.000 krónur frá 6. febrúar 2009 og 16.274.143 krónur frá 29. júní 2009.
Stefnandi krefst málskostnaðar.
Af hálfu stefndu er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur verði lækkaðar.
Stefnda krefst málskostnaðar.
I.
Stefnandi kveður helstu atvik málsins vera þau að í júlí 2007 hafi verið gerður verksamningur á milli stefndu, sem verkkaupa, og stefnanda, sem verktaka, um uppsteypu og frágang safnaðarheimilis Kársnessóknar að Hábraut 1A í Kópavogi. Verksamningurinn hafi verið gerður að undangengnu útboði og samningsupphæðin hljóðað upp á 196.004.898 krónur. Viðauki hafi verið gerður við samninginn þann 3. september 2007 þar sem aðilar sömdu um að nota hvíta steypu í útveggi í stað venjulegrar steypu. Samkvæmt 5. gr. verksamningsins skyldi stefnandi gera reikninga á hálfs mánaðar fresti. Stefnda skyldi inna samningsupphæð af hendi með þeim hætti að eftirlitsmaður yfirfæri reikninga og samþykkti þá og skyldi þessu lokið innan viku frá því að reikningum væri framvísað. Samþykktir reikningar skyldu greiddir innan þriggja vikna frá því að þeir væru lagðir fram.
Stefnandi hafi hafið vinnu við verkið í júní 2007 og samkvæmt verksamningi skyldi verkinu lokið þann 1. júní 2008. Fyrripart árs 2008 hafi hins vegar komið í ljós að ekki myndi reynast unnt að ljúka verkinu fyrir þann tíma, ekki síst af þeirri ástæðu að stefnda hafi ekki sinnt ítrekuðum áskorunum stefnanda um að klára hönnun byggingarinnar til þess að ljúka mætti byggingu hennar. Þá hafi stefnda ekki orðið við endurteknum áskorunum stefnanda þess efnis að útvega fullnægjandi verkgögn um verkið. Framangreindar áskoranir hafi stefnandi sent stefnda skriflega, fyrst í mars 2008 og síðan þá í orðsendingum, verkfundagerðum og tölvupóstum, sbr. m.a. orðsendingar stefnanda nr. 1-6, samantekt stefnanda úr verkfundagerðum, yfirlit stefnanda yfir tölvupóstsamskipti um hönnun, verkgögn og verklok, sem og yfirlit stefnanda yfir tölvupóstsamskipti um innihurðir. Úr hafi orðið að verktími var framlengdur til 1. október 2008, með þeim fyrirvara stefnanda að ekki myndi standa á teikningum og hönnun verksins, sbr. verkfundagerð 54. Þrátt fyrir þetta hafi sinnuleysi stefndu í þessum efnum haldið áfram sem hafði í för með sér töf á verklokum, en vorið 2009 hafi stefnda ekki enn verið búin að leggja inn teikningar til byggingarfulltrúa til samþykktar, sbr. tölvupóst stefnanda dags. 25. maí 2009 á dskj. nr. 67 bls. 288. Af þessum sökum hafi stefnandi ítrekað mótmælt að verklok miðuðust við umrædda dagsetningu, sbr. m.a. verkfundagerðir 66 og 73, sem og orðsendingar stefnanda nr. 3, 5 og 6.
Greiðsluflæði reikninga framan af verktíma hafi verið ásættanlegt, en í júlí ágúst 2008 hafi greiðslur farið að tefjast og síðustu mánuði verktímans hafi fáir reikningar verið greiddir, sbr. hreyfingarlista stefnanda. Frá því í janúar 2009 og fram til loka júnímánaðar hafi aðeins ein greiðsla borist frá stefndu að fjárhæð krónu 2.000.000, en á sama tíma hafi 45 reikningar verið gefnir út samtals að fjárhæð krónur 45.180.205. Á tímabilinu febrúar-apríl 2009 hafi ítrekað verið reynt að ná samkomulagi um lokauppgjör verksins en án árangurs, sbr. yfirlit stefnanda yfir tölvupóstsamskipti vegna uppgjörsmála. Þann 15. apríl 2009 hafi stefnandi sent innheimtubréf til stefndu vegna útgefinna og samþykktra reikninga á tímabilinu 1. janúar 2009 til 10. mars 2009, en stefnda ekki orðið við áskorun stefnanda um greiðslu. Þann 25. maí 2009 hafi stefnandi sent innheimtubréf til stefndu þar sem sett hafi verið fram heildarkrafa á hendur stefndu vegna ógreiddra eftirstöðva vegna vinnu stefnanda við verkið. Þann 25. júní 2009 hafi stefnanda borist bréf frá lögmanni stefndu þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við framgang verksins, sem að mati stefnanda eiga ekki við rök að styðjast. Í bréfinu hafi stefnda samþykkt reikninga sem falla undir kröfuliði 1-22 sem gerð verði grein fyrir hér á eftir, alls að fjárhæð krónur 23.670.434. Stefnda hafi aftur á móti hafnað greiðslu reikninga sem falla undir kröfuliði nr. 23-45. Í bréfinu hafi einnig komið fram að stefnda teldi sig eiga rétt á tafabótum vegna þess að verkinu hefði ekki verið skilað á umsömdum tíma. Stefnda hafi dregið þessar tafabætur frá fjárhæð reikninga samkvæmt kröfuliðum nr. 1-22 og hafi greiðsla stefndu til stefnanda þann 29. júní 2009 numið krónum 16.274.143. Stefnandi hafi tilkynnt stefndu að hann hafi móttekið umrædda greiðslu sem innborgun inn á heildarkröfu stefnanda, sbr. bréf lögmanns stefnanda til lögmanns stefndu dags. 30. júní 2009. Þar sem stefnda hafi ekki sinnt greiðsluáskorun stefnanda um greiðslu á heildarkröfu stefnanda sé stefnanda nauðsynlegt að höfða mál þetta til heimtu kröfu sinnar.
Stefnda mótmælir framangreindri málavaxtalýsingu stefnanda. Stefnda kveður mál þetta snúast um uppgjör á verksamningi. Það snúist um kröfuliði 1-22 sem stefnda hafi samþykkt efnislega en ekki tölulega. Sú fjárhæð sem samþykkt hafi verið sé 23.328.215 krónur en ekki kr. 26.047.272 eins og fram komi í stefnu. Um þetta atriði verði fjallað síðar í greinargerð stefndu. Þá snúist málið um tvo svokallaða verkstöðureikninga, kröfuliði 23 og 35 og aukaverkareikninga, kröfuliði 24-34 og 36-45. Samtals séu þessir liðir að fjárhæð krónur 21.509.771. Þessum kröfum stefnanda sé öllum hafnað vegna þess að þær séu of seint fram komnar. Hins vegar hafi stefndi lagt mat á þessar kröfur ef komist væri að þeirri niðurstöðu að mótbárur stefnda um tómlæti næðu ekki fram að ganga. Í mati þessu komi fram að stefnda geti aldrei samþykkt meira en krónur 4.974.986 eins og fram komi í yfirliti á dskj. nr.78 sem sé samantekt Vífils Oddssonar, verkfræðings.
Jafnframt snúist málið um kröfu stefndu í uppgjörinu sem séu annars vegar kostnaður vegna óhagræðis og eftirlits með lökkun innveggja með eldvarnarlakki 100.000 krónur, girðingarefni 200.000 krónur og sílanhúðun og þrif steyptra útveggja, liðir 7.1.3 og 7.1.4 í tilboði verktaka krónur 469.189 eða samtals 769.189 krónur og hins vegar tafabætur að fjárhæð krónur 6.750.000 sem verði skýrðar síðar.
Telja verði að aðilar séu sammála um að hverju ágreiningurinn lúti.
Lögmaður stefndu hafi sent stefnanda uppgjör í samræmi við ofangreint yfirlit, sbr. dskj. nr. 65. Misskilnings hafi gætt hjá lögmanni stefndu sem hafi talið að kröfuliðir að fjárhæð kr. 23.670.434 hefðu verið samþykktir en svo hafi ekki verið. Þegar stefnda gerði málið upp hefði það átt að líta þannig út frá sjónarhóli stefndu:
|
Samþykktir kröfuliðir af kröfum 1-22 |
k |
kr. 23.328.215 |
|
Tafabætur |
- |
- 6.750.000) |
|
Frádráttarliðir |
- |
- (769.189) |
|
Dráttarvextir |
- 953.709 |
|
|
|
|
kr.16.762.735 |
Síðan hafi átt að draga innborganir frá þessari upphæð að fjárhæð krónur 2.376.838 og væri því niðurstaðan kr. 14.385.897 sem hafi verið skuld stefndu og hafi stefnda því ofgreitt miðað við afstöðu sína.
Við aðalmeðferð málsins gáfu eftirtaldir munnlegar skýrslur: Aðilaskýrslu Sigurbjörn Kristinn Haraldsson, forstjóri stefnanda. Vitnaskýrslur: Jón Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri stefnanda, Sigríður Ingibjörg Sigurbergsdóttir, fjármálastjóri stefnanda, Þórarinn Guðjónsson, verkstjóri, Sæmundur Gunnarsson, verkstjóri, Kristinn Jósep Gíslason, verkfræðingur og ráðgjafi stefnanda, Vífill Oddson, verkfræðingur, Árni Tómasson, endurskoðandi, formaður byggingarnefndar stefndu, Tryggvi Jakobsson, byggingafræðingur, Guðjón Davíðsson, byggingameistari og Gunnar H. Kristjánsson, brunaverkfræðingur,
II.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefnda hafi ekki staðið við greiðsluskyldu sína samkvæmt verksamningi aðila frá því í júlí 2007 auk viðauka samningsins. Stefnandi hafi unnið að hinu umsamda verki í samræmi við skyldur sínar samkvæmt verksamningi og gefið út reikninga vegna verksins sem ekki hafa fengist greiddir. Stefnandi byggi á meginreglu samningaréttar um skuldbindingagildi samninga. Jafnframt byggi stefnandi á 5. gr. verksamnings aðila sem og á meginreglum verktaka- og kröfuréttar um að verktaki eigi heimtingu á að fá löglega útgefna reikninga greidda á gjalddaga.
Krafa stefnanda sundurliðast með eftirfarandi hætti:
Samþykktir útgefnir reikningar (kröfuliðir 1-22) kr. 26.047.272,-
Framlagðir reikningar (kröfuliðir 23-45) kr. 21.509.771,-
Innborgun stefndu inn á reikning nr. 1785
31. desember 2008 kr. -376.838,-
- Innborgun stefndu inn á reikninga 6. febrúar 2009 kr. -2.000.000,-
- Innborgun stefndu inn á reikninga 29. júní 2009 kr. -16.274.143,-
Samtals kr. 28.906.062,-
Um kröfuliði 1 22
Kröfur samkvæmt kröfuliðum 1-22 eru vegna reikninga sem voru gefnir út af stefnanda og samþykktir af verkumsjónarmanni verkkaupa í samræmi við verksamning aðila og aðrar verksamþykktir. Hér á eftir fer nánari skýring á kröfuliðum 1-22:
Reikn. nr. Gjalddagi Eindagi Fjárhæð
1. 1785 22.12.08 01.01.09 kr. 4.404.080,-
Skýring: Reikningur vegna verkstöðu 31, sbr. verksamning og útboðsgögn.
2. 1796 02.01.09 12.01.09 kr. 632.500,-
Skýring: Reikningur vegna vatnsskála, útboðsverk 2.
3. 1795 13.01.09 23.01.09 kr. 1.359.000,-
Skýring: Reikningur vegna fyllinga, útboðsverk 2.
4. 1813 21.01.09 31.01.09 kr. 1.640.592,-
Skýring: Reikningur vegna verkstöðu 33, sbr. verksamning og útboðsgögn.
5. 1817 30.01.09 09.02.09 kr. 3.476.971,-
Skýring: Reikningur vegna verkstöðu 34, sbr. verksamning og útboðsgögn.
6. 1841 12.02.09 22.02.09 kr. 342.625,-
Skýring: Reikningur vegna vinnu við frágang innanhúss í Tónlistarskóla.
7. 1842 12.02.09 22.02.09 kr. 2.744.034,-
Skýring: Reikningur vegna magnaukningar við mælingu.
8. 1843 12.02.09 22.02.09 kr. 168.887,-
Skýring: Reikningur vegna aukaverks pípara.
9. 1844 12.02.09 22.02.09 kr. 82.852,-
Skýring: Reikningur vegna aukaverks pípara í Tónlistarskóla.
10. 1845 12.02.09 22.02.09 kr. 4.882.695,-
Skýring: Reikningur vegna grágrýtisflísa.
11. 1846 12.02.09 22.02.09 kr. 756.910,-
Skýring: Reikningur vegna aukaverks pípara við snjóbræðslu.
12. 1847 12.02.09 22.02.09 kr. 38.500,-
Skýring: Reikningur vegna vinnu við þakniðurföll, aukaverk.
13. 1848 12.02.09 22.02.09 kr. 682.172,-
Skýring: Reikningur vegna vinnu pípara við tónlistarskóla.
14. 1859 15.02.09 25.02.09 kr. 1.335.611,-
Skýring: Reikningur vegna verkstöðu 35, sbr. verksamning og útboðsgögn.
15. 1855 16.02.09 26.02.09 kr. 621.584,-
Skýring: Reikningur vegna aukaverks rafvirkja.
16. 1856 16.02.09 26.02.09 kr. 484.392,-
Skýring: Reikningur vegna aukaverka sem skráð eru í dagbók (dagar 283-304).
17. 1857 16.02.09 26.02.09 kr. 1.249.262,-
Skýring: Reikningur vegna aukaverka sem skráð eru í dagbók (dagar 372-443).
18. 1853 18.02.09 28.02.09 kr. 147.000,-
Skýring: Reikningur vegna málunar inntaksklefa.
19. 1858 25.02.09 07.03.09 kr. 674.307,-
Skýring: Reikningur vegna grágrýtisflísa.
20. 1864 10.03.09 20.03.09 kr. 109.725,-
Skýring: Reikningur vegna magnaukningar steypu vegna liðs 3.3.1.2 gr. verksamnings.
21. 1865 10.03.09 20.03.09 kr. 27.453,-
Skýring: Reikningur vegna vinnu við stillilokur, aukaverk.
22. 1866 10.03.09 20.03.09 kr. 186.120,-
Skýring: Reikningur vegna vinnu við flísalögn veggja í eldhúsi.
Samtals kr. 26.047.272,-
Um kröfuliði 23-45.
Kröfur samkvæmt kröfuliðum 23-45 eru vegna reikninga sem voru gefnir út af stefnanda þann 4. maí 2009, en var hafnað með bréfi lögmanns stefndu dags. 25. júní 2009. Hér á eftir fer nánari skýring á kröfuliðum 23-45:
Reikn. nr. Gjalddagi Eindagi Fjárhæð
23. 1889 04.05.09 14.05.09 kr. 92.056,-
Skýring: Reikningur vegna 36. verkstöðu sbr. verksamning og útboðsgögn.
24. 1890 04.05.09 14.05.09 kr. 300.208,-
Skýring: Reikningur vegna raflagna í tónlistarrými, viðbótarverk við útboð.
25. 1891 04.05.09 14.05.09 kr. 15.450,-
Skýring: Reikningur vegna aukaverka sem skráð eru í dagbók (dagar nr. 175-215).
26. 1892 04.05.09 14.05.09 kr. 1.422.206,-
Skýring: Reikningur vegna aukaverka sem skráð eru í dagbók (dagar nr. 305-370).
27. 1893 04.05.09 14.05.09 kr. 627.973,-
Skýring: Reikningur vegna aukaverka sem skráð eru í dagbók (dagar nr. 444-461).
28. 1894 04.05.09 14.05.09 kr. 962.380,-
Skýring: Reikningur vegna magnaukningar í kambstáli, samþykktur af stefnda í desember 2007.
29. 1895 04.05.09 14.05.09 kr. 513.567,-
Skýring: Reikningur vegna magnaukningar við 36. verkstöðu, sbr. verksamning og útboðsgögn.
30. 1896 04.05.09 14.05.09 kr. 567.840,-
Skýring: Reikningur vegna lampa í tónlistarrými. Viðbótarverk samþykkt af stefnda í apríl 2008, sbr. fylgigögn reiknings.
31. 1897 04.05.09 14.05.09 kr. 80.550,-
Skýring: Reikningur vegna magnaukningar í grágrýtisflísum á gólf, sbr. verksamning og útboðsgögn.
32. 1898 04.05.09 14.05.09 kr. 178.453,-
Skýring: Reikningur vegna viðbótarverka í raflögnum.
33. 1899 04.05.09 14.05.09 kr. 125.000,-
Skýring: Reikningur vegna aukakostnaðar sem hlaust af breytingum á lyklakerfi hurða.
34. 1900 04.05.09 14.05.09 kr. 235.000,-
Skýring: Reikningur vegna breytinga á verki, breyting innveggja í lakkaða veggi.
35. 1901 04.05.09 14.05.09 kr. 9.310.730,-
Skýring: Reikningur vegna 37. verkstöðu, sbr. verksamning og útboð. Magnaukning vegna lengingar á rekstri vinnusvæðis.
36. 1902 04.05.09 14.05.09 kr. 589.950,-
Skýring: Reikningur vegna breytinga á brunahurðum.
37. 1903 04.05.09 14.05.09 kr. 510.818,-
Skýring: Reikningur vegna viðbótarverka í loftræstingu.
38. 1904 04.05.09 14.05.09 kr. 857.276,-
Skýring: Reikningur vegna vinnu verkfræðings við ráðgjöf og frágang á viðbótar- og aukaverkum.
39. 1905 04.05.09 14.05.09 kr. 1.652.714,-
Skýring: Reikningur vegna filtunar hvítra sjónsteypuinniveggja, viðbótarverk.
40. 1906 04.05.09 14.05.09 kr. 420.357,-
Skýring: Reikningur vegna viðbótarverka í raflögnum.
41. 1907 04.05.09 14.05.09 kr. 619.018,-
Skýring: Reikningur vegna magnaukningar í álkerfi utanhúss.
42. 1908 04.05.09 14.05.09 kr. 51.150,-
Skýring: Reikningur vegna breytinga á slúttjárnum útihurða.
43. 1909 04.05.09 14.05.09 kr. 323.075,-
Skýring: Reikningur vegna breytinga á hurðarhandföngum útihurða.
44. 1910 04.05.09 14.05.09 kr. 1.237.000,-
Skýring: Reikningur vegna vinnu við breytingar á hönnun brunahurða.
45. 1911 04.05.09 14.05.09 kr. 817.000,-
Skýring: Reikningur vegna loftræstingar í tónlistarrými, viðbótarverk.
Samtals: kr. 21.509.771,-
Innborganir stefndu.
Til frádráttar framangreindum reikningum stefnanda komi innborganir stefndu inn á verkið. Í fyrsta lagi sé um að ræða krónur 376.838 frá 31. desember 2008 inn á reikning nr. 1785, í öðru lagi krónur 2.000.000 frá 6. febrúar 2009 og hins vegar krónur 16.274.143 frá 29. júní 2009, sbr. hreyfingalista stefnanda frá 1. janúar 2007 til 24. nóvember 2009 og bréf lögmanns stefnanda dags. 30. júní 2009.
Nánar um kröfuliði 23 45.
Svo sem fram komi í kafla um málsatvik hér að framan hafi stefnda viðurkennt greiðsluskyldu sína á reikningum sem falla undir kröfuliði 1-22, sbr. bréf lögmanns stefndu til lögmanns stefnanda dags. 25. júní 2009. Framangreindir reikningar séu því óumdeildir. Til þess að rökstyðja nánar kröfuliði 23-45 hafi stefnandi hins vegar tekið saman skjal með nákvæmum skýringum á hverjum reikningi fyrir sig ásamt fylgiskjölum og/eða tilvísunum til dómskjala, s.s. verkfundagerða, tölvupósta, orðsendinga, teikninga og ákvæða í verklýsingu, sbr. skýringarblað stefnanda vegna kröfuliða 23-45 ásamt fylgiskjölum.
Í fyrrnefndu bréfi lögmanns stefnda dags. 25. júní 2009 hafi stefnda hafnað greiðsluskyldu á reikningum sem falla undir kröfuliði nr. 23 45. Stefnda rökstyðji þessa afstöðu sína með því að halda því fram að umræddir reikningar, sem gefnir voru út þann 4. maí 2009, hafi komið of seint fram. Jafnframt vísi stefndi til almennra reglna um tómlæti. Stefnandi mótmæli umræddum málatilbúnaði stefndu.
Framan af verktíma hafi greiðsluflæði reikninga verið ásættanlegt, en í júlí ágúst 2008 hafi greiðslur farið að tefjast og síðustu mánuði verktímans hafi fáir reikningar verið greiddir, sbr. hreyfingalista stefnanda og innheimtubréf lögmanns stefnanda dags. 15. apríl og 25. maí 2009. Margoft hafi verið bent á að þetta myndi tefja framvindu verksins þar sem stefnanda bæri ekki að fjármagna verkið fyrir stefndu og tafir á greiðslu væri samningsbrot, sbr. m.a. verkfundagerðir 69, 70 og 71, yfirlit stefnanda yfir tölvupóstsamskipti um uppgjörsmál, m.a. tölvupóstsamskipti aðila dags. 20.-21. október 2009 (dskj. nr. 67.167) og tölvupóst stefnanda dags. 6. febrúar 2009 (dskj. nr. 67.243), auk orðsendingar stefnanda nr. 3 undir liðnum „Efnisaðföng“. Þegar líða tók á árið 2008 hafi verið ljóst að stefnda var komin í veruleg greiðsluvandræði, en ítrekað hafi verið óskað eftir því að hin ýmsu uppgjörsmál yrðu geymd fram yfir verklok, sbr. t.d. tölvupóst Árna Tómasonar dags. 25. september 2008 (dskj. nr. 67.152.), tölvupóstsamskipti aðila dags. 20.-21. október 2008 (dskj. nr. 67.167) og orðsendingu stefnanda nr. 6.
Fljótlega eftir áramótin 2008/2009 hafi verið ljóst að upp var kominn verulegur ágreiningur um lokauppgjör verksins. Stefnandi hafi ítrekað óskað eftir fundum við stefndu um uppgjörsmál og reynt að reka á eftir því að þau kláruðust. Samningaviðræður hafi hins vegar siglt í strand eftir fund sem stefnandi átti með Árna Tómassyni, formanni byggingarnefndar, þann 12. mars 2009. Á þeim fundi hafi Árni farið fram á að stefnandi myndi samþykkja lokagreiðslu að upphæð krónur 20.000.000 í formi gamla safnaðarheimilisins. Stefnandi hafi talið tilboð þetta algjörlega óásættanlegt, sbr. tölvupóst stefnanda dags. 13. mars 2009 (dskj. nr. 67.273). Skýrt hafi komið fram á fundinum að ekki stæði til að greiða hærri fjárhæð þrátt fyrir að á þessum tíma hefði stefnda þegar verið búin að yfirfara og samþykkja verkþætti að fjárhæð kr. 23.670.434 og byrjað hafi verið að ræða næsta hluta uppgjörs að fjárhæð kr. 7.263.544, eða samtals kr. 30.933.977. Fyrir utan þessa verkþætti hafi stefnda verið fullljóst að fleiri verkþætti ætti eftir að gera upp. Í framhaldinu hafi átt sér stað frekari samningaviðræður um lokauppgjör verksins, en aðilar hafi ekki náð saman um viðunandi lausn málsins. Á fundi stefnanda með sóknarnefnd þann 25. mars 2009 hafi verið upplýst að óuppgert væri u.þ.b. 47.586.898. Þetta hafi einnig verið upplýst með tölvupóstum stefnanda dags. 27. og 31. mars 2009 (dskj. nr. 67.281 og 67.284). Þar sem stefnda hafði hafnað frekari greiðsluskyldu hafi stefnandi hins vegar dregið útgáfu reikninga eins lengi og honum var frekast unnt, enda hafi verið ljóst að um leið og reikningarnir yrðu gefnir út skapaðist skilaskylda af hálfu stefnanda á þeim virðisaukaskatti sem tengdist umræddum reikningum.
Stefnandi leggi áherslu á að stefndi hafi ítrekað brotið 5. gr. verksamnings, ákvæði 0.5.5 í útboðs- og samningsskilmálum og ákvæði 31.1 og 31.3 í ÍST 30:2003 um greiðslur reikninga með því að greiða ekki samþykkta reikninga innan tilsetts tíma. Það skjóti því skökku við að stefnda skuli nú bera fyrir sig ákvæði 31.6 í ÍST 30:2003 í þessu sambandi, þegar ljóst sé að stefnda hafi sjálf ekki farið eftir ákvæðum 31. kafla ÍST 30:2003. Þá telji stefnandi að mótmæli stefndu séu of seint fram komin í ljósi þess að hinir umdeildu reikningar séu dags. 4. maí 2009, en þeim hafi fyrst verið mótmælt með bréfi lögmanns stefndu dags. 25. júní 2009, sbr. ákvæði 31.3 í ÍST 30:2003. Í þessu sambandi bendi stefnandi einnig á að stefnda hafi verið rækilega upplýst um það sem óuppgert var vegna verksins í mars 2009, auk þess sem upplýst hafi verið með innheimtubréfi lögmanns stefnanda dags. 15. apríl 2009 að enn ætti eftir að gefa út reikninga vegna samþykktra verkliða, sem og vegna verkliða sem ekki höfðu verið samþykktir. Þá liggi fyrir að stefnda samþykkti á fyrri stigum að greiða fyrir ýmsa verkliði sem verið sé að rukka fyrir með þeim reikningum sem nú hafi verið hafnað, sbr. t.d. reikningar nr. 1889, 1890, og 1896, en auk þess hafi stefnda sjálf í sumum tilvikum óskað eftir breytingum á áður útgefnum reikningum, sbr. reikninga nr. 1894 og 1895. Loks hafni stefnandi málatilbúnaði stefndu þess efnis að reikningar útgefnir 4. maí 2009 séu of seint fram komnir í skilningi gr. 31.6, enda liggi ekki fyrir í málinu nákvæm dagsetning verkloka. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, sé því alfarið hafnað að krafa stefnanda á hendur stefndu samkvæmt reikningum sem falla undir kröfuliði nr. 23-45 hafi komið of seint fram, og að stefnandi hafi með einhverju móti sýnt af sér tómlæti sem leysi stefndu undan greiðsluskyldu umræddra reikninga.
Hvað varði staðhæfingar lögmanns stefndu í bréfinu frá 25. júní 2009 þess efnis að aukaverk eða viðbótarverk hafi ekki verið samþykkt í samræmi við ÍST 30:2003 eða útboðs- og samningsskilmála, bendi stefnandi á að í verki þessu hafi sá háttur ekki verið hafður á, fremur en í sambærilegri vinnu almennt, að öll samskipti aðila væru með formlegum hætti og skjalfest. Hafi háttur þessi verið viðurkenndur af báðum aðilum og virtur í verki af stefndu allt þar til á þessu ári. Þannig hafi stefndi greitt athugasemdalaust útgefna reikninga af stefnanda vegna aukaverka/viðbótarverka, þrátt fyrir að ekki lægju fyrir formleg og skjalfest samskipti aðila og samþykki slíkra auka- og/eða viðbótarverka í samræmi við þann hátt sem stefnda vísar til í bréfi sínu þann 25. júní 2009. Stefnda geti ekki nú á síðari stigum tekið upp á því að gagnálykta frá því þegar ekki liggja fyrir formleg og skjalfest samþykki umræddra verka með þeim hætti að þau hafi alls ekki verið samþykkt. Að því er þetta varðar sé einnig á það bent að í ákvæði 0.5.3. í útboðs- og samningsskilmálum, sem og 16. kafla ÍST 30, komi fram að verktaki megi engin aukaverk eða viðbótarverk vinna nema samkvæmt skýlausum fyrirmælum verkaupa. Þá sé þess getið að allar yfirlýsingar um breytingar skuli vera skriflegar, svo og kröfugerð og samningar. Ljóst sé að mikill misbrestur var á því að eftirlitsmaður færi eftir framangreindum ákvæðum á verktímanum, sbr. tölvupóst stefnanda dags. 12. febrúar 2009 (dskj. nr. 67.249). Stefnandi byggi á því að athugasemdalaust verklag við framkvæmd aukaverka af hálfu stefndu geri það að verkum, að hann geti á engan hátt byggt rétt á ákvæði 0.5.3. í útboðslýsingu og 16. kafla ÍST 30:2003, enda hafi hvorugur aðilanna hagað sér í samræmi við ákvæðin á verktímanum. Þá vísi stefnandi loks til þess að ekki sé uppi ágreiningur um það að umrædd verk sem krafist sé greiðslu fyrir hafa sannarlega verið unnin af hendi stefnanda.
Um tafabótakröfur stefndu
Svo sem rakið hefur verið haldi stefnda því fram að stefnda eigi rétt á tafabótum úr hendi stefnanda vegna dráttar á skilum verks, sbr. bréf stefnda dags. 25. júní 2009. Stefnandi mótmæli því að stefnda eigi rétt á tafabótum þar sem allan drátt á afhendingu verksins megi rekja til atvika sem stefnda beri ábyrgð á, sbr. til hliðsjónar gr. 24.2 í ÍST 30:2003.
Meginástæða þess að stefnanda var ekki unnt að ljúka verkinu á umsömdum tíma samkvæmt verksamningi sé sú að stefnda stóð ekki skil á nauðsynlegri hönnun verksins. Þannig hafi stefnandi ítrekað leitað eftir því við stefndu að stefnda skilaði teikningum og gögnum um hönnun verksins, þannig að stefnandi gæti haldið vinnu sinni áfram. Með sinnuleysi sínu við að útvega stefnanda nauðsynleg verkgögn og hönnun verksins almennt, hafi stefnanda verið gert ómögulegt að sinna verkinu með eðlilegum hætti. Þannig hafi ómældur tími af hálfu stefnanda farið í að reyna að finna lausnir með stefndu á þeim verkþáttum þar sem hönnun var ábótavant. Um leið stöðvaðist vinna við umrædda verkþætti. Jafnframt hafi tafir þessar valdið stefnanda verulegu fjárhagslegu tjóni sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í einingarverðum verksamnings. Að mati stefnanda sé það fráleitt að stefnda geti stuðlað að drætti verksins langt fram yfir áætluð verklok og heimtað síðan tafabætur af stefnanda. Í þessu sambandi vísi stefnda m.a. til verkfundagerða 5-9, 13-15,17-21, 23-52, 54, 55, 57-59, 66, 71-73, 75 og 76, samantektar stefnanda úr verkfundagerðum, orðsendinga stefnanda nr. 1-6, yfirlits stefnanda yfir tölvupóstsamskipti um hönnun, verkgögn og verklok, auk yfirlits stefnanda yfir tölvupóstsamskipti um innihurðir.
Eins og sjá megi af samantekt stefnanda úr verkfundagerðum, sem og öðrum gögnum, þá sé ljóst að afgreiðsla fyrirspurna og/eða athugasemda frá stefnanda hafi verið algerlega óásættanleg. Í fyrrnefndri samantekt sé t.a.m. að finna dæmi merkt 1) 20) þar sem á tímabilinu 21. nóvember 2007 til 28. maí 2008 sé bókað 20 sinnum í verkfundagerðir að lagnateikningar vanti af viðbótarrými. Eins beri að skoða sérstaklega hönnun innihurða og brunahurða, en eins og framangreind skjöl beri með sér hafi ítrekað verið óskað eftir gögnum frá stefndu frá febrúar 2008 til janúar 2009. Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en í september 2008 að stefnda kom að málinu af einhverri alvöru. Auk framangreinds liggi fyrir í gögnum málsins ótal aðrar athugasemdir varðandi ófullnægjandi hönnun, teikningar og svör frá verkkaupa. Þessu ferli hafi engan veginn verið lokið þrátt fyrir að stefndi hafi framlengt verktímann til 1. október 2008. Af þessum sökum hafi stefnandi mótmælt því ítrekað að verklok miðuðust við umræddan dag, þar sem fullnaðarhönnun og teikningar hafi ekki legið fyrir. Í þessu samhengi bendi stefnandi sérstaklega á bókanir í verkfundagerðum 66 og 73, orðsendingar stefnanda 3, 5 og 6, auk tölvupósta sem tilgreindir eru í yfirliti stefnanda yfir tölvupóstsamskipti um hönnun, verkgögn og verklok. Stefnandi byggi á því að það hafi verið ótvíræð skylda stefndu að útvega stefnanda fullnægjandi gögn og þau hafi átt að vera svo úr garði gerð, að vandalaust yrði að vinna verkið út frá þeim. Þetta komi m.a. fram í greinum 14.1 og 14.1.1 í ÍST 30:2003, sem sé hluti verksamnings aðila, sem og langri venju á sviði verktaktaréttar á Íslandi.
Ef skoðuð séu samskipti aðila, t.d. tölvupóstar og bókanir í verkfundagerðum, megi sjá að stefnda er að útvega gögn allt árið 2008 og fram til janúarloka 2009. Lokaúttekt á verkinu hafi verið haldin 12. febrúar 2009 með athugasemdum frá fulltrúa byggingarfulltrúa Kópavogs og hafi verið veittur frestur til 15. maí 2009 til að ljúka þeim athugasemdum. Á lista yfir athugasemdir komi fram að stefnda sé ekki enn búinn að klára þær teikningar sem þurfi til að klára lokaúttekt, sbr. tölvupóstur stefnanda dags. 13. febrúar 2009 (dskj. nr. 67.251).
Stefnandi hafni alfarið fullyrðingum í bréfi lögmanns stefndu dags. 25. júní 2009 þess efnis að stefnandi hafi ekki ráðið við verkið þegar kom að innanhússfrágangi. Stefnandi vísi ofangreindum málatilbúnaði stefndu alfarið á bug. Staðreyndin varðandi innanhússfrágang sé einfaldlega sú að hönnun innihurða og innveggja hafi ekki verið framkvæmanleg. Stefnandi hafi byrjað strax í febrúar 2008 að vekja athygli á ófullnægjandi hönnun innandyra, sbr. tölvupóst stefnanda dags. 28. febrúar 2008 (dskj. nr. 67.23) og verkfundagerð 37. Þegar liðnir voru um það bil sex mánuðir frá því að stefnandi benti stefndu fyrst á umrædda vankanta á hönnun innihurða og innveggja hafi stefndi óskað sérstaklega eftir því að leitað yrði til undirverktakans Sökkuls ehf. til að sjá um umræddan verkþátt. Stefnandi hafi samþykkt að Sökkull tæki að sér þennan verkþátt, þar sem útilokað virtist vera að sannfæra stefnda að hönnun hvað þetta varðar væri ábótavant. Við skoðun á gögnum málsins frá þeim tíma sem Sökkull tók að sér vinnu við þennan verkþátt megi sjá að starfsmenn Sökkuls staðfestu ábendingar stefnanda þess efnis að hönnun innihurða og innveggja væri ekki framkvæmanleg, sbr. m.a. tölvupóstur Haraldar Lárussonar dags. 7.janúar 2009 (dskj. nr. 67.216). Ábendingar stefnanda hvað þetta varðar hafi einnig verið staðfestar af brunahönnuði verksins og fulltrúa stefnda, sbr. tölvupóst Gunnars H. Kristjánssonar dags. 3. nóvember 2008 (dskj. nr. 67.180) og tölvupóst Vífils Oddsonar dags. 13. nóvember 2008 (dskj. nr. 67.192). Um allt framangreint sé ennfremur vísað til yfirlits stefnanda yfir tölvupóstsamskipti um innihurðir, með og án brunahurða.
Eins og áður greini hafi greiðslur farið að tefjast þegar líða tók á árið 2008. Margoft hafi verið bent á að þetta myndi tefja framvindu verksins þar sem verktaka bæri ekki að fjármagna verkið fyrir verkkaupa og tafir á greiðslu væri samningsbrot, sbr. m.a. verkfundagerðir 69 og 71, yfirlit stefnanda yfir tölvupóstsamskipti um uppgjörsmál, orðsendingar stefnanda nr. 3 og 6. Með vísan til ofanritaðs byggi stefnandi á því að hann hafi átt rétt á framlengingu skilafrests m.a. vegna þeirra tafa á framkvæmdum sem rekja megi til óréttmæts greiðsludráttar stefndu.
Stefnandi byggi á því að framangreindar ástæður réttlæti framlengingu verktíma allt til verkloka, og því hafi verið ólögmætt af hálfu stefndu að halda eftir greiðslum vegna dagsekta, samtals að fjárhæð kr. 6.650.000.
Stefnandi byggi auk alls framangreinds á því að ákvæði 0.5.4 í útboðslýsingu stefnda, sem fjalli um dagsektir, sé óskuldbindandi fyrir stefnanda á grundvelli 36. gr. laga um nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefnandi telji ljóst að þegar litið sé til allra atvika sé bersýnilega ósanngjarnt af hálfu stefndu að bera ákvæðið fyrir sig.
Lagarök:
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á verksamningi aðila, meginreglu samningaréttarins um skuldbindingagildi samninga, meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga og reglum verktakaréttar um greiðslu verklauna. Þá vísar stefnandi til ÍST 30:2003 og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Dráttarvaxtakrafa stefnanda er byggð á 1. mgr. 6. gr. og öðrum ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í tengslum við vaxtakröfu skal tekið fram að samkvæmt 5. gr. verksamnings bar stefnda að greiða reikninga innan þriggja vikna frá því að stefnandi hafði lagt þá fram. Til þess að gæta varfærni sé hins vegar krafist dráttarvaxta frá þeim degi er liðnar eru 3 vikur frá eindaga hvers reiknings og til greiðsludags. Með þessu sé stefndu sýnt mun meira svigrúm en hann eigi í raun tilkall til, en með þessu móti geti enginn vafi leikið á upphafsdegi dráttarvaxta.
Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 1. mgr. 129 gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Um málatilbúnað stefnanda bendir stefndi á að stefnandi hafi lagt fram 74 dómskjöl sem sum séu fjöldi blaðsíðna. Gera megi t.d. ráð fyrir því að dómskjal nr. 67 sé um 300-400 blaðsíður. Í dómskjali nr. 67 séu sagðir vera tölvupóstar frá 12. febrúar 2008 til 5. júní 2009. Yfirlit fylgi en ekki skýrt hvernig texti yfirlits markist af undirgögnum. Stefnandi vísi í nokkra af þessum tölvupóstum í stefnu en það sé þó gert í sárafáum tilvikum. Stefnda eigi erfitt með að gera varnarskjal þegar ekki liggi skýrt fyrir hvers vegna hann leggur fram alla póstana eða í hverja hann ætli að vísa á síðari stigum. Það sama eigi við um mörg önnur gögn sem stefnandi leggur fram. Verði að telja að slíkur málatilbúnaður sé andstæður reglum einkamálaréttarfarsins, sbr. e og g liður 1. tl. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki sé gerð frávísunarkrafa á þessum grundvelli, en látið dómara eftir.
Stefnandi reisir sýknukröfu sína á því að hann hafi greitt stefnanda í samræmi við samning aðila á dskj. nr. 5. Í samningnum komi fram að samningsupphæð sé krónur 196.004.898. Verkinu hafi átt að vera lokið 2. júní 2008 og hafi tafabætur verið ákveðnar krónur 50.000 fyrir hvern byrjaðan almanaksdag sem verkskil drægjust fram yfir skiladag.
Verkið hafi farið þokkalega af stað og uppsteypan gengið án verulegra áfalla. Hins vegar hafi margt breyst þegar leið á verktímann m.a. þegar kom að innanhússfrágangi. Hafi þá komið í ljós að stefnandi hafði ekki gert sér grein fyrir því hvernig verkið var hannað að því marki að hann gæti staðið við verksamninginn.
Eins og fram hafi komið hafi stefnandi hafið vinnu við verkið í júní 2007 og hafi hann átt að ljúka því 1. júní 2008. Stefnandi geti þess að hann hafi fyrst sent stefndu áskoranir vegna ófullnægjandi hönnunar í mars 2008. Það sé ekki að sjá af verkfundargerðum að skortur á hönnun hafi valdið stefnanda erfiðleikum fyrr en hann fer að nefna það undir lok verktíma. Það sé ekki skortur á hönnunargögnum þótt verktaki þurfi að ráðfæra sig við hönnuði um einstök útfærsluatriði.
Það verði hvorki séð af verkfundargerðum né öðrum gögnum að stefnandi hafi haft frammi alvarlegar athugasemdir um hönnun lengst af verktíma. Það sé kunnara en frá þurfi að segja að við verkframkvæmdir, eins og þá sem mál þetta fjallar um, komi alltaf upp fjöldi atriða sem þurfi að útfæra nánar en teikningar segi til um. Verkfundir og samskipti þeirra aðila sem koma að verki séu einmitt til þess að útfæra verkið nánar. Auðvitað séu takmörk fyrir því hversu mikið þurfi að útfæra nánar en það sé alltaf talsvert eins og kunnáttumenn þekkja.
Bent sé á að útboðsgögn eru skýr. Hins vegar hafi komið í ljós að stefnandi hafði alls ekki gert sér grein fyrir því fyrr en seint og um síðir um hvað var að ræða, sérstaklega í innanhússhönnun. Allar kröfur um útlit og fyrirkomulag sé skilgreint í verklýsingu. T.d. megi benda á að þar sem ekki var um hefðbundnar flekahurðir að ræða hefði verktaki þurft að sinna þeim verkþætti tímanlega og ráða til sín kunnáttumenn bæði í stjórnun og framkvæmd. Ekki verði annað séð en tæknimenn stefnanda hafi haft, þegar á verkið leið, mestan áhuga á því að finna veilur í útboðsgögnum.
Það er auðvitað rangt sem segir á bls. 10 í stefnu að stefndi hafi óskað eftir því að fyrirtækið Sökkull tæki að sé verkefni við innanhússfrágang. Stefnandi hafi ekki haft burði til þess að vinna verkefnið og hafi þeir Árni Tómasson, formaður byggingarnefndar og Vífill Oddsson verkfræðingur bent á verktakafyrirtækið Sökkul en það fyrirtæki sé þekkt fyrir kunnáttu á þessu sviði. Úr hafi orðið að stefnandi réði þá aðila til verksins.
Stefnandi hafi gert mikið úr vanda sínum við brunahurðir. Helsta vandamálið sé í raun það að stefnandi fór ekki að sinna þessum verkþætti að neinum krafti fyrr en eftir verkfund 22. apríl 2008. Þrátt fyrir að hafa ráðið að lokum til sín reyndan undirverktaka hafi stefnandi ekki ráðið við verkið sem hafi markast af því að hann hafi byrjað of seint og auk þess valið verktaka sem hafði ekki reynslu af verkefni eins og við var að fást. Það hafi ekki verið fyrr en reyndur verktaki var ráðinn til verksins í september 2008 sem einhver skriður kom á þennan þátt verksins en það hafi verið alltof seint og þá liðnir þrír mánuðir fram yfir skiladag. Það hafi vitanlega verið allt of seint. Brunahönnuður verksins, Gunnar H. Kristjánsson, bygginga- og brunaverkfræðingur, haldi því fram að ekki hafi verið hægt að fara eftir hönnun vegna þess að stefnandi hafði ekki tekið tillit til sérstöðu hurðanna þegar hann gerði aðliggjandi veggi. Stefnandi hafi sem sagt ekki samhæft verkþætti eins og nauðsynlegt var. Stefnandi reyni að gera því skóna að greindur Gunnar hafi haldið því fram að ekki hafi verið framkvæmanlegt að vinna verkið eftir hönnun þess. Eins og fram komi í bréfi Gunnars, á dskj. nr. 76, sé skýrt að það var vegna þess að stefnandi hafði ekki tekið tillit til brunahurðanna við framkvæmdina og hún hafi verið það langt á veg komin að ekki hafi verið annað ráð en breyta hönnun í þágu stefnanda því það hefði verið mjög kostnaðarsamt að rífa niður það sem stefnandi hafði þegar framkvæmt og hefði auk þess kostað miklu meira en stefnandi bauð í þennan verkþátt. Það hefði þurft opna veggi og loft og því hafi verið breytt í venjulegar hengslaðar flekahurðir. Þetta hafi verið ódýrari lausn sem stefnandi einn naut góðs af. Að öðru leyti sé vísað í greint dómskjal nr. 76.
Stefnandi haldi því fram að verktími hafi verið framlengdur með framlagningu verkáætlunar á verkfundi 54. Þetta sé rangt því stefnda hafi ekki samþykkt þessa framlengingu. Hins vegar hafi stefnda ákveðið á síðari stigum að innheimta ekki tafabætur frá upphaflegum skiladegi heldur frá 1. október 2008.
Um Kröfuliði.
a Kröfuliðir 1-22
Reikningar að fjárhæð kr. 26.047.272 séu ekki samþykktir að fjárhæðum til en séu samþykktir efnislega. Þessa reikninga nefni stefnandi kröfuliði 1-22. Rétt sé að nefna að í innheimtubréfi stefnanda frá 25. maí 2009 sé samtals höfuðstóll talinn vera 23.670.434 sem stafi af því að stefnandi hafi dregið frá tvær innborganir eins og dómskjal nr. 64 beri með sér. Í stefnu sé frádrátturinn hins vegar gerður í lokin eins og tíðkanlegt sé. Það sé á misskilningi byggt að stefnda hafi samþykkt kröfurnar tölulega en hann hafi hins vegar gert það efnislega. Á dskj. nr. 78 komi fram hvernig eftirlit afgreiddi reikningana og hafi stefnanda verið kunnugt um það. Reikningar eins og stefnandi leggi þá fram á dskj. nr. 18 til 39 hafi því ekki verið samþykktir enda ekki áritun eftirlits á þeim. Vísað sé til þeirra athugasemda sem koma fram á dskj. 77.
b Kröfuliðir 23-45
Öllum þessum kröfuliðum sé mótmælt sem of seint fram komnum. ÍST 30, almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir, sé hluti samningsgagna, sbr. 2. gr. verksamnings. Í grein 31.6 sé tekið fram að verktaki skuli senda verkkaupa fullnaðarreikning innan tveggja mánaða frá því er hann skilaði verki. Jafnframt sé sérstaklega tekið fram að greina skuli allar kröfur um greiðslur vegna aukaverka og breytinga. Verki hafi verið skilað 12. febrúar 2009 og hafi því stefnanda borið að senda stefnda alla reikninga í síðasta lagi 12. apríl 2009.
Eins og kunnugt sé skipta allir frestir og tímasetningar miklu máli í verktakarétti. Margar reglur ÍST 30 séu einmitt miðaðar við að aðilar tilkynni hvor öðrum hvað eina sem geti skipt máli í tíma. Sé það í raun hluti af reglunni um tillit í samningum (loyalitetsprinsip)
Í þessu sambandi skipti engu þótt verktaki hafi gert fyrirvara um að hann kunni að leggja síðar fram kröfur. Það sé gjarnan gert á verktímanum að gera fyrirvara um kröfur vegna einhvers tilviks og sé það almennur skilningur að verktaki geti þá gert tölulega kröfu síðar en það verði alltaf að vera innan marka tveggja mánaða reglunnar í grein 31.6 í ÍST 30.
Í þessu sambandi sé rétt að huga að því til hvers tiltekin niðurstaða leiðir. Ef tekið væri upp á því að túlka reglu 31.6 frjálslega leiði það til þess að verktakar gætu lagt fram kröfur löngu eftir að frestinum lýkur. Hvar eiga mörkin að liggja? Við hvaða aðstæður eig að brjóta regluna?
Stefnandi reyni í stefnu að afsaka að reikningar hafi ekki verið gefnir út. Ekki verði annað ráðið af stefnu á bls. 7 en stefnandi afsaki sig á því að aðilar hafi verið að reyna að ná sáttum fram í lok mars. Gott og vel, en við þau tímamörk hafi tveggja mánaða tímamarkið ekki verið liðið og nægur tími til þess að gefa út reikninga fyrir 12. apríl 2009. Það sé því engin afsökun að þessu leyti. Þá virðist það vera málsástæða hjá stefnanda að stefndi hafi ekki staðið við verksamninginn og þá vegna þess að greiðslur hafi ekki borist í samræmi við verksamning. Ef svo hafi verið þá gæti verktaki átt kröfu á stefnda um dráttarvexti og ekki sé annað vitað en stefnandi hafi gert kröfu á stefnda um slíka vexti. Þá blandi stefnandi skyldu sinni til þess að greiða virðisaukaskatt af reikningum inn í málið sem sé einstakt við rekstur mála sem eru rekin fyrir opnum tjöldum. Sé því sérstaklega mótmælt að frekari reikningagerðir geti skipt máli af þessum sökum. Að endingu reyni stefnandi að gera því skóna að nákvæm verklok liggi ekki fyrir. Í fyrsta lagi sé bent á að grein 31.6 miðar ekki við verklok heldur afhendingu. Og í öðru lagi hafi stefnandi ekki fært rök fyrir því að afhending hafi farið fram á öðrum degi en 12. febrúar 2009, sbr. dskj. nr. 78. Öllum ofangreindum rökum sem og öðrum sem stefnandi hafi haft uppi til þess að afsaka drátt á framlagningu krafna og reikninga sé mótmælt.
Stefnandi reyni, á bls. 8, í stefnu að koma skyldu stefnanda til þess að fá samþykki fyrir aukaverkum á herðar stefndu. Það sé ekki stefndi sem eig að gæta ákvæða 16. kafla ÍST 30. Það sé auðvitað stefnanda. Hafi stefnandi ekki gert kröfur í upphafi megi stefnda vitanlega gera ráð fyrir því að ekki komi fram kröfur. Röksemdarfærslu stefnanda sé mótmælt.
Stefnandi haldi því fram á bls. 8 i.f. í stefnu að ekki sé ágreiningur um að umrædd verk hafi verið unnin. Sum hafa verið unnin, það sé viðurkennt, en greiðsluskyldan sé ekki fyrir hendi. Í mörgum tilvikum séu meint aukaverk innifalin í samningi aðila.
Bent sé á að samþykkt dagbókarskýrslna sé ekki samþykki fyrir aukaverkum nema það sé tekið sérstaklega fram í skýrslunum að verkkaupi samþykki tiltekið verk. Í þessu sambandi sé vísað í kafla 16 í ÍST 30. Þá sé engin verðlagning í dagskýrslum og nánast sé ekkert vitað um það hvað stefnandi hyggst fyrir fyrr en hann leggur fram reikninga löngu eftir að frestur er liðinn.
Fyrirvari sem stefnandi geri, á dskj. nr. 63, sé auðvitað allt of seint fram kominn. Eins og áður segi sé ekki hægt að gera fyrirvara sem lengi lokafrestinn og auk þess sé bréfið á dskj. nr. 63 gert eftir lok frestsins í grein 31.6 í ÍST 30.
Í grein 0.5.3 í útboðs- og samningsskilmálum sé tekið fram að engin aukaverk eða viðbótarverk megi vinna nema samkvæmt skýlausum fyrirmælum verkkaupa og að allar yfirlýsingar um breytingar skuli vera skriflegar svo og kröfugerð og samningar.
Hvað sem öðru líði hafi stefndi farið yfir allar kröfur stefnanda í kröfuliðum 23-45. Vífill Oddsson, verkfræðingur hafi gert yfirlit sem lagt sé fram sem dskj. 77. Sé það hluti af greinargerð þessari. Það hafi tíðkast að leggja fram sérstaklega greinargerðir af þessu tagi í stað þess að taka upp í greinargerð slíkt yfirlit. Samtals séu samþykktir með þessum hætti reikningar að fjárhæð krónur 4.974.986. Ítrekað sé að samþykki þetta sé gert einungis ef ekki verði fallist á að stefnandi hafi lagt kröfurnar of seint fram.
Við yfirferð Vífils hafi hann fellt niður verðbætur frá 1. október 2008 enda séu brostnar forsendur fyrir greiðslu verðbóta frá þeim degi.
Tafabætur.
Eins og fram hafi komið hafi átt að afhenda verkið 1. júní 2008. Þegar leið að þeim tímamörkum hafi komið í ljós að stefnandi var alls ekki í stakk búinn til þess að standa við þessa tímasetningu.
Rétt sé í upphafi að gera sér grein fyrir því að stefnandi hefur ekki gert grein fyrir töfum í verkinu eins og samningur geri ráð fyrir að gert sé. Kafli 24 í ÍST 30 fjalli um fresti og tafabætur. Í grein 24.2 sé kveðið á um við hvaða aðstæður verktaki geti krafist framlengingar á verktíma. Ákvæðið sé tæmandi talning á þeim tilvikum sem verktaki geti hagnýtt sér í þessum efnum. Ekki verði annað ráðið af stefnu, á blaðsíðu 9 efst, en stefnandi haldi því fram að kafli 24 í ÍST 30 skuli einungis hafður til hliðsjónar. Svo sé alls ekki því hann gildi um fresti og séu engin rök til annars.
Grein 24.3 hljóðar svo:
„Ef verktaki telur sig eiga rétt á framlengingu á fresti skal hann tafarlaust senda verkkaupa rökstudda tilkynningu um það. Í tilkynningu skal rökstutt að töfin hafi hlotist af þeim atvikum sem verktaki ber fyrir sig.“
Ákvæði þetta sé skýr grundvallarregla verksamningsins. Hún sé grundvallarregla hvort sem ÍST 30 sé hluti samnings eða ekki. Af sömu ástæðum og lýst er hér að ofan um aukaverk sé nauðsynlegt að verkkaupi geti ávallt fylgst með gangi verksins og kröfum verktaka því hann vilji jafnvel grípa inn í ef kröfur berast.
Stefnandi hafi ekki rökstutt frest í neinu tilviki við verkframkvæmdina. Það sé kunnara en frá þurfi að segja að verktaki verði að gera grein fyrir því strax hvernig tiltekið atvik varð til þess að verk tafðist og þá um hvað langan tíma. Í þessu sambandi mætti nefna brunahurðir sem stefnanda sé tíðrætt um. Hann verði að gera grein fyrir því á hvern hátt stefndi hafi tafið verkið. Jafnvel sé það svo að þótt stefndi kunni að hafa afhent einhvern hlut eða uppdrátt of seint þá þurfi það alls ekki að leiða til þess að verk tefjist. Atvikið þurfi að leiða til þess að verkið tefjist á krítiskri eða bundinni línu eins og sagt sé. Stefnandi hafi enga grein gert fyrir þessu. Þá komi í ljós við athugun á gögnum að stefndi hafi farið alltof seint af stað með athugun á þeim hluta verksins sem snéri að brunahurðum. Hvar í gögnum er þess getið að tiltekið atvik valdi tilteknum töfum eða jafnvel að nokkur atvik saman valdi tilteknum töfum? Hvað hefur valdið töfum og hvað ekki? Að vísu bóki verktaki í verkfundargerð 73 að brunahurðir séu á bundinni leið og að verktaki eigi rétt á framlengingu. Ekkert hafi orðið úr að verktaki gerði nánari grein fyrir þessari fullyrðingu í samræmi við ÍST 30. Þá sé bent á að ýmsum einföldum frágangsatriðum hafi ekki verið lokið fyrr en um hálfu ári eftir 1. júní 2008 t.d. dúkalögn, eldhúsinnréttingu, glerjun o.fl.
Samantektir stefnanda úr verkfundum virðist vera listun á öllum úrlausnum sem upp hafa komið. Eins og áður segi sé flest það sem komi upp á verkfundum úrlausnarmál sem hafa engin áhrif á verktíma eða séu innan eðlilegra marka eins og venja sé. Það komi alltaf upp mál sem þurfi að leysa sem séu innan þessa ramma eða þolviks. Það verði ekkert verk unnið án þess að það þurfi að útfæra einhver atriði sem ekki valda töfum og leiða ekki til framlengingar verktíma. Það sé spurning hvaða atvik af þeim sem stefnandi er að reyna að telja upp í hundruðum skjala eigi að leiða til framlengingarfrests og hver ekki. Stefnandi hafi alls ekki gert því skil. Það sé ekki hægt að gera sér grein fyrir þessu. Það sé grundvallaratriði að stefnandi geri grein fyrir því hvaða atvik töfðu verkið. Það hafi hann ekki gert og hann sé orðinn of seinn til þess að gera það núna og sé því mótmælt að stefnandi geti nú bætt inn þessum kafla í málatilbúnað enda eiga allar málsástæður, atvik og gögn sem skipta máli að vera tilgreind í stefnu sbr. e og g liðir í 1. tl. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Eins og venja sé hjá verktökum sem eru of seinir þá bendi stefnandi á að eitt og annað hafi vantað tengt hönnun og sýni það að ekki sé nema von að verkskil hafi tafist. Það sem stefnandi geti ekki um sé að þau atriði sem kunni að vera minnst á síðustu mánuði verktíma komu ekki upp fyrr vegna þess að stefnandi var ekki lengra kominn. Hann hafi alls ekki verið kominn að þeim verkþætti sem tiltekið atriði lýtur að. Enn sé ítrekað að flest þau atriði sem verkfundargerðir geta um séu úrlausnaratriði eins og tíðkist við verkframkvæmdir.
Stefnda haldi því fram að stefnandi hafi, eftir að hann gerði sér grein fyrir því að hann gæti ekki staðið við samninginn, reynt hvað hann gat að kenna stefnda um allt sem aflaga fór hjá honum sjálfum. Þá fyrst hafi stefnandi hafið sókn en þó ekki gert formlegar kröfur eins og honum var skylt.
Fram komi hér að ofan að stefndi hafi látið við það sitja að verklok væru 1. október 2008 án þess að stefnandi þyrfti að þola tafabætur. Í verkfundargerð nr. 65 sé bókað að verkskil eigi að vera þann sama dag þ.e. 1. október 2008. Með þessari bókun hafi stefnda haldið til haga að hann hefði ekki samþykkt annan skiladag og ætti því rétt á tafabótum. Viðurkenning stefnanda á þessu felist í orðsendingu á dskj. nr. 13. Þar sé því mótmælt af stefnanda að verklok séu þann dag. Af því leiði að stefnandi hafi tekið bókun stefnanda sem kröfu um tafabætur því hvers vegna ætti verktaki að hafa áhyggjur af verktíma ef ekki voru teknar tafabætur. Tæki dómstóll undir kröfur stefnanda um framlengingu verktíma leiddi það til þess að verktakar gætu dundað sér í verkum og kæmu svo með óskilgreindar kröfur í lokin og jafnframt leiddi það til agaleysis sem Íslendingar þurfa ekki á að halda.
Rétt sé að benda á að stefnandi heldur því ekki fram að stefnda hafi sýnt af sér tómlæti við gerð tafabótakröfu og því þurfi ekki að fjalla um það frekar. Slík tómlætiskrafa komist ekki að úr þessu.
Útreikningur tafabóta sé einfaldur. Í gögnum sé kveðið á um það að tafabætur séu kr. 50.000 á hvern almanaksdag. Dagafjöldi frá 1. október 2008 til 12. febrúar sé 135 dagar og því séu tafabætur kr. 6.750.000. Í þessu sambandi verði að benda á að grunnur tafabóta sé lágur. Það sé alkunna að algengt viðmið sé 0.2% af samningsfjárhæð fyrir hvern dag sem verk dregst og hafi slík viðmiðun verið í eldri útgáfu af ÍST 30. Ef miðað væri við 0.2% væru tafabætur á dag um kr.400.000. Krafðar tafabætur séu ekki nema um 3% af samningsfjárhæð þrátt fyrir yfir fjögurra mánaða drátt. Ef miðað væri við 0.2% væru bætur kr.40.000.000 eða um 10% af samningsfjárhæð. Hafa verði þessa staðreynd í huga, einkum ef einhver vafi leiki á því að stefndi hafi orðið fyrir tjóni.
Í grein 24.5.1 í ÍST 30 sé tekið fram að ef ákvæði sé í verksamningi um tafabætur þurfi verkkaupi ekki að sanna tjón sitt. Það sé augljóst að stefndi hafi beðið tjón af drættinum og megi þar nefna að úthald sérfræðinga sé mun lengra og stefnda hafi ekki haft afnot af verkinu þann tíma sem verk dróst og orðið af leigutekjum af hluta húsnæðisins.
Stefnandi grípi í það hálmstrá að bera fyrir sig 36. gr. l. nr. 7/1936, samningalaganna, og telja ósanngjarnt að bera ákvæðið í grein 0.5.4 í útboðslýsingu fyrir sig. Því sé áður lýst að fjárhæðin sé fimm til sex sinnum hagkvæmari stefnanda en venja sé til. Ákvæðið sé sem sagt stefnanda hagfelldara en venja sé. Stefnandi sé fyrirtæki sem eigi að standa við samninga og það sé ekkert, alls ekkert, sem stefnandi geti bent á því til stuðnings að beita skuli 36. gr. samningalaga.
Vaxtakröfu er mótmælt.
Lagarök.
Vísað er til almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar. Sérstaklega sé vísað í reglur verktakaréttar um tilkynningarskyldu. Vísað er í 36. gr. samningalaganna nr. 7/1936.
Um vexti og dráttarvexti er vísað í lög nr. 38/2001.
IV.
Í máli þessu snýst ágreiningur aðila í meginatriðum í fyrsta lagi um réttmæti reikninga stefnanda, í öðru lagi um gagnkröfur stefndu (tafabætur) og í þriðja lagi um þýðingu tiltekinna ákvæða í íslenska staðlinum IST-30.
Eins og að framan getur er kröfugerð stefnanda tvíþætt. Annars vegar byggir hann kröfur sínar á reikningum merktum nr. 1-22 að fjárhæð krónur 26.047.272 og hins vegar á reikningum nr. 23-45 að fjárhæð krónur 21.509.771. Ekki er efnislegur ágreiningur um reikninga nr. 1-22 en á hinn bóginn er tölulegur ágreiningur um reikningana. Af hálfu stefndu er reikningum nr. 23-45 á hinn bóginn alveg hafnað. Þeir reikningar hafa hvorki verið samþykktir efnislega né tölulega af stefnda. Af hálfu stefnanda er kröfu stefndu um tafabætur að fjárhæð krónur 6.750.000 krónur svo og öðrum skuldajafnaðarkröfum stefndu að fjárhæð krónur 769.189 mótmælt.
Af hálfu stefndu er á því byggt að reikningar tilgreindir sem 7, 11, 16 og 17 séu efnislega of háir og að verðbætur í þeim reikningum séu of háar og að í reikningum 4, 5, 10 14, 15, 19 og 20 séu verðbætur of háar. Dómurinn telur stefnanda eiga rétt til verðbóta eins og hann gerir kröfu um í ofangreindum reikningum og er kröfu stefndu um lækkun vegna verðbóta eftir október 2008 því hafnað. Þá krefst stefnda lækkunar á nokkrum reikningum samkvæmt framansögðu vegna efnislegra athugasemda. Á fyrri stigum höfðu ekki verið gerðar athugasemdir um þetta af hálfu stefndu og þykir krafa stefndu nú um lækkun bæði of seint fram komin og ekki studd nægum rökum. Samkvæmt framansögðu er niðurstaða dómsins varðandi kröfuliði 1-22 að taka beri þá að fullu til greina eins og krafist er í stefnu með krónum 26.047.272 krónum.
Samkvæmt reikningum 23-45 er stefndi krafinn um greiðslu á 21.509.771 krónu. Af hálfu stefndu er kröfunni alfarið mótmælt en til vara krafist verulegrar lækkunar. Stefnda byggir sýknukröfu sína vegna þessara kröfuliða á því að þeir séu of seint fram komnir. Byggir stefnda á því að staðallinn ÍST 30, almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir, sé hluti samningsgagna, sbr. 2. gr. verksamnings. Í grein 31.6 sé tekið fram að verktaki skuli senda verkkaupa fullnaðarreikning innan tveggja mánaða frá því er hann skilaði verki. Jafnframt sé sérstaklega tekið fram að greina skuli allar kröfur um greiðslur vegna aukaverka og breytinga. Verki hafi verið skilað 12. febrúar 2009 og hafi því stefnanda borið að senda stefndu alla reikninga í síðasta lagi 12. apríl 2009. Í þessu sambandi skipti engu þótt verktaki hafi gert fyrirvara um að hann kunni að leggja síðar fram kröfur. Það sé gjarnan gert á verktímanum að gera fyrirvara um kröfur vegna einhvers tilviks og sé það almennur skilningur að verktaki geti þá gert tölulega kröfu síðar en það verði alltaf að vera innan marka tveggja mánaða reglunnar í grein 31.6 í ÍST 30.
Dómurinn fellst á þessi sjónarmið stefnda. Reikningar stefnanda samkvæmt kröfuliðum 23-45 að fjárhæð 21.509.771 króna voru allir gefnir út þann 4. maí 2009 og var þá liðinn sá frestur sem stefnandi hafði til að leggja fram fullnaðarreikninga vegna framangreindra kröfuliða í samræmi við ákvæði staðalsins sem var hluti af samningi aðila. Verður því ekki hjá því komist þegar af þessari ástæðu að sýkna stefndu af kröfum stefnanda um greiðslu á krónum 21.509.771 samkvæmt kröfuliðum 23-45.
Samkvæmt framansögðu er niðurstaða dómsins að fallist er á kröfu stefnanda um að stefndu beri að greiða honum 26.047.272 krónur auk vaxta að frádregnum innborgunum sem síðar verður gerð grein fyrir. Á hinn bóginn þarf að taka afstöðu til gagnkrafna stefndu til skuldajafnaðar við kröfur stefnanda. Er þar fyrst til að taka kröfu stefndu um tafabætur að fjárhæð 6.750.000 krónur og hins vegar gagnkröfu stefndu að fjárhæð 769.189 krónur.
Samkvæmt verksamningi aðila skyldi verkinu lokið 1. júní 2008. Það gekk ekki eftir og voru verklok í reynd framlengd til 1. október 2008 án þess að formleg beiðni um slíka framlengingu kæmi frá stefnanda. Má af gögnum ráða að krafa stefndu var að verklok yrðu 1. október 2008. Kemur sú krafa fram í verkfundargerð nr. 65. Það mátti stefnanda vera ljóst og ekkert liggur fyrir um að hann hafi óskað eftir framlengingu eftir þann tíma. Óumdeilt er að lokaúttekt á verkinu fór fram 12. febrúar 2009 og var verkið þá formlega afhent stefndu.
Í 6. gr. verksamnings aðila er kveðið á um að miða skuli við að verki sé lokið 1. júní 2008. Þar segir að verkkaupi eigi rétt á dagsektum, 50.000 krónur fyrir hvern almanaksdag sem verkskil dragist á langinn. Af hálfu stefndu er krafa um tafabætur eins og áður getur miðuð við að verklok hafi átt að vera 1. október 2008. Reiknar stefnda tafabætur fyrir tímabilið 1. október 2008 til 12. febrúar 2009.
Við ákvörðun um það hvort stefndu beri tafabætur úr hendi stefnanda verður að horfa til fleiri sjónarmið en ákvæðisins í samningi aðila um tafabætur. Ber m.a. að horfa til þess hvenær stefnda átti þess kost að nýta hluta hússins og þess hvort dráttur varð á afhendingu hönnunargagna af hálfu stefndu sem var til þess fallinn að seinka framvindu verksins. Af því sem fram hefur komið í málinu þykir dóminum ljóst að stefnda var að afhenda stefnanda hönnunargögn alveg fram að afhendingu verksins í febrúar 2009. Þá var stefndu afhentur hluti neðri hæðar hússins til notkunar þegar í október 2008. Fallist er á að verkfyrirmæli stefnda hafi ekki verið nægilega skýr. Telur dómurinn eðlilegt þegar svona stendur á að verktaki fái eðlilegan tíma til að ljúka verki að fullu eftir að endanleg verkfyrirmæli og hönnunargögn liggja fyrir. Að þessu virtu þykja öll rök, bæði efnisleg rök og sanngirnissjónarmið leiða til þess að hafna beri kröfu stefndu um tafabætur.
Gagnkrafa stefndu um greiðslu á 769.189 krónum vegna kostnaður sakir óhagræðis og eftirlits með lökkun innveggja með eldvarnarlakki 100.000 krónur, girðingarefni 200.000 krónur og sílahúðun og þrif steyptra útveggja að fjárhæð 469.189 krónur er ekki studd nægum rökum og auk þess of seint fram komin miðað við samning aðila. Ber því að hafna kröfunni.
Samkvæmt framansögðu verður stefnda því dæmd til að greiða stefnanda 26.047.272 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir, en allt að frádreginni innborgun stefnanda að fjárhæð 376.838 krónur þann 31. desember 2008, innborgun að fjárhæð 2.000.000 krónur þann 6. febrúar 2009 og innborgun að fjárhæð 16.274.143 krónur þann 29. júní 2009.
Dæma ber stefndu til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur.
Dóm þennan kveða upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Ásmundur Ingvarsson byggingarverkfræðingur og Jón Ágúst Pétursson, byggingartæknifræðingur.
Dómsorð:
Stefnda, Kársnessókn, greiði stefnanda, Spöng ehf., 26.047.272 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.404.080 krónum frá 22. janúar 2009 til 2. febrúar 2009, en af 5.036.580 krónum frá þeim degi til 13. febrúar 2009, en af 6.395.580 krónum frá þeim degi til 21. febrúar 2009, en af 8.036.172 krónum frá þeim degi til 2. mars 2009, en af 11.513.143 krónum frá þeim degi til 15. mars 2009, en af 21.211.818 krónum frá þeim degi til 18. mars 2009, en af 22.547.429 krónum frá þeim degi til 19. mars 2009, en af 24.902.667 krónum frá þeim degi til 21. mars 2009, en af 25.049.667 krónum frá þeim degi til 28. mars 2009, en af 25.723.974 krónum frá þeim degi til 10. apríl 2009 og af 26.047.272 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda að fjárhæð 376.838 krónur þann 31. desember 2008, að fjárhæð 2.000.000 krónur þann 6. febrúar 2009 og að fjárhæð 16.274.143 krónur þann 29. júní 2009.
Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.