Hæstiréttur íslands
Mál nr. 40/2004
Lykilorð
- Sjómaður
- Uppsögn
- Veikindalaun
- Kjarasamningur
|
|
Fimmtudaginn 27. maí 2004. |
|
Nr. 40/2004. |
Ágúst H. Borgþórsson(Jónas Haraldsson hrl.) gegn Knarrareyri ehf. (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Sjómenn. Uppsögn. Veikindalaun. Kjarasamningur.
Á, vélstjóra á fiskiskipinu A, var sagt upp störfum, en skipið fórst áður en uppsagnarfrestur hans rann út. Útgerðarfélagið K var sýknað af kröfu Á um laun í uppsagnarfresti með vísan til þess að ráðningarsamningnum hafi verið slitið þegar skipið fórst, sbr. ótvírætt orðalag 1. mgr. og 3. mgr. 26. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Varakröfu Á um greiðslu launa í veikindaforföllum samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna var jafnframt hafnað þar sem ekki þótti sannað að skipstjóri eða forsvarsmaður K hafi haft vitneskju um veikindi áfrýjanda. Að gefnu tilefni var þó tekið fram að réttur samkvæmt síðastnefnda ákvæðinu haldist þótt ráðningarsamningi sé slitið samkvæmt 26. gr. laganna við það að skip ferst.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. janúar 2004. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 767.564 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2002 til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 209.373 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi var frá júnímánuði 2001 vélstjóri á fiskiskipinu Aroni ÞH 105, sem stefndi gerði út. Sagði stefndi honum upp störfum með bréfi 31. ágúst 2002 vegna skipulagsbreytinga á rekstri félagsins. Er ágreiningslaust að uppsagnarfrestur var þrír mánuðir. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi átti áfrýjandi við vanheilsu að stríða vegna kviðslits. Kveðst hann ekki hafa farið í veiðiferð skipsins, sem hófst 25. september 2002, þar sem hann hafi þurft að leita læknis. Gekkst hann undir aðgerð vegna kviðslitsins 9. október sama árs. Þann 30. september 2002 sökk fiskiskipið Aron er það var að veiðum fyrir Norðurlandi.
Aðalkrafa áfrýjanda er á því reist að hann eigi rétt til launa til loka uppsagnarfrests og að þau laun skuli miðast við meðallaun síðustu mánaða, sem áfrýjandi gegndi störfum um borð. Stefndi reisir sýknukröfu sína af þessari kröfu á því að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 sé skiprúmssamningi slitið við það að skip ferst og hafi það leitt af þágildandi ákvæði 3. mgr. sömu greinar að skipverji hafi ekki átt rétt til launa væri skiprúmssamningi slitið innanlands af þeim ástæðum er greinir í 1. mgr. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að sýkna beri stefnda af aðalkröfu áfrýjanda.
Varakröfu sína reisir áfrýjandi á því að samkvæmt 1. mgr. 36. gr sjómannalaga eigi hann rétt á launum meðan hann er óvinnufær vegna sjúkdóms í allt að tvo mánuði. Hann hafi verið óvinnufær frá 25. september 2002 og er krafa hans miðuð við að svo hafi verið til 25. nóvember sama árs, en þá hafi hann hafið störf hjá öðrum atvinnurekanda.
Fyrir Hæstarétti reisir stefndi sýknukröfu sína af varakröfu áfrýjanda í fyrsta lagi á því að ósannað sé að áfrýjandi hafi verið óvinnufær vegna kviðslitsins fyrr en hann gekkst undir aðgerðina 9. október 2002. Hann hafi því ekki sannanlega verið óvinnufær vegna veikinda er ráðningarsamningi hans var slitið samkvæmt 1. mgr. 26. gr. sjómannalaga við það að skipið fórst 30. september 2002. Eigi hann þegar af þeirri ástæðu ekki rétt til launa samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sömu laga. Meðal gagna málsins er vottorð Rúnars Reynissonar læknis 17. október 2002 þess efnis að áfrýjandi hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms frá 25. september sama árs. Verður það lagt til grundvallar enda verður ekki fallist á það með stefnda að það rýri sönnunargildi vottorðsins að það sé ritað til Vélstjórafélags Íslands en ekki annars hvors aðila málsins.
Í annan stað reisir stefndi kröfu sína um sýknu af varakröfu áfrýjanda á því að réttur til launa í veikindum samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga falli niður er skip ferst, enda sé skiprúmssamningi við það slitið samkvæmt 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Ákvæði um að skipverji eigi rétt til launa í allt að tvo mánuði verði hann óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla meðan á ráðningartíma stendur, var í lög leitt árið 1963 með breytingu á 18. gr. þágildandi sjómannalaga. Var í athugasemdum með þeirri grein frumvarpsins tekið fram að skylda útgerðarmanns til launagreiðslu samkvæmt ákvæðinu skyldi haldast „jafnt fyrir það, þó að ráðningartími sé fyrr á enda samkvæmt ákvæðum skiprúmssamnings eða vegna uppsagnar hans.“ Er af þessum athugasemdum ljóst að réttur samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga til greiðslu launa í veikindaforföllum er ekki takmarkaður við ráðningartíma skipverja. Verður því að telja að sá réttur haldist einnig þótt ráðningarsamningi sé slitið samkvæmt 26. gr. laganna við það að skip ferst.
Loks reisir stefndi sýknukröfu af varakröfu áfrýjanda á því að forsvarsmenn stefnda hafi enga hugmynd haft um að áfrýjandi hafi leitað læknis í september 2002 og farið í aðgerð í október sama árs. Þá vitneskju hafi þeir ekki fengið fyrr en með bréfi áfrýjanda 4. apríl 2003, en með því gerði áfrýjandi kröfu um greiðslu launa á uppsagnarfresti. Læknisvottorð um veikindi áfrýjanda hafi þeir ekki séð fyrr en eftir þingfestingu málsins. Hafi áfrýjanda borið, yrði hann óvinnufær, að tilkynna skipstjóra eða útgerðarmanni það svo fljótt sem verða mætti samkvæmt grein 1.43. í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands, sem gilt hafi á þessum tíma. Það hafi hann ekki gert og því glatað rétti sínum til að krefjast veikindalaunanna. Þessi málsástæða kom skýrlega fram í greinargerð stefnda í héraði. Teldi áfrýjandi að sú fullyrðing að forsvarsmönnum stefnda hafi verið ókunnugt um veikindin væri röng hafði hann því fullt tilefni til að leitast við að tryggja sér sönnun fyrir hinu gagnstæða. Fyrir héraðsdómi voru aðeins teknar skýrslur af áfrýjanda og framkvæmdastjóra stefnda. Við þá skýrslutöku var áfrýjandi ítrekað spurður hvort hann hafi tilkynnt útgerð eða skipstjóra um að hann væri óvinnufær. Svaraði hann því til að hann hafi „alla vega“ látið yfirvélstjórann vita af því að hann væri að fara í læknisskoðun. Guðmundur A. Hólmgeirsson framkvæmdastjóri stefnda kvaðst í skýrslu sinni fyrst hafa frétt af veikindum áfrýjanda með fyrrnefndu bréfi hans í aprílmánuði 2003. Hann kvaðst einnig hafa innt skipstjórann eftir þessu og hafi hann ekki minnst þess að hafa heyrt talað um læknisvitjun áfrýjanda. Fyrir Hæstarétt hefur áfrýjandi lagt bréf Más Eyfjörð Höskuldssonar afleysingaskipstjóra 1. febrúar 2004 og tölvubréf Harðar A. Harðarsonar vélstjóra 30. janúar 2004. Kemur fram að bréf þess fyrrnefnda er ritað í tilefni af fyrirspurn lögmanns áfrýjanda og að Már hafi verið skipstjóri á Aroni er skipið fórst. Hafi honum verið fullkunnugt um að áfrýjandi væri í fríi til að leita sér lækninga vegna verkja í kviðarholi. Hafi framkvæmdastjóra stefnda einnig átt að vera það fullljóst meðal annars vegna þess að símaskýrsla hafi verið tekin af áfrýjanda við sjópróf vegna skipstapans. Í bréfi þess síðarnefnda kemur fram að það er ritað í tilefni af skeyti lögmanns áfrýjanda og að Hörður hafi verið yfirvélstjóri á Aroni. Hafi áfrýjandi tilkynnt honum að hann þyrfti að leita læknis. Hafi forsvarsmenn útgerðarinnar hlotið að vita af því. Stefndi hefur mótmælt þessum bréfum, sem efnislega röngum. Verður gegn mótmælum hans ekki á þeim byggð sönnun um vitneskju skipstjóra eða forsvarsmanns útgerðar um veikindi áfrýjanda enda voru þessi vottorð gefin í tilefni málsins og bréfritarar komu ekki fyrir dóm, sbr. ákvæði VIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að sýkna beri stefnda af varakröfu áfrýjanda. Samkvæmt því verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 5. janúar sl., var höfðað 15. maí 2003 af Ágústi H. Borgþórssyni, Múlavegi 10, Seyðisfirði, á hendur Knarrareyri ehf., Garðarsbraut 18, Húsavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 767.564 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. október 2002 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi 209.373 króna auk dráttarvaxta eins og í aðalkröfu frá 1. desember 2002 til greiðsludags. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu og að tekið verði tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu. Til vara krefst stefndi þess að honum verði aðeins gert að greiða stefnanda 202.666 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 22. maí 2003 og að málskostnaður verði felldur niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi er vélstjóri og vann á rækju- og togveiðiskipi stefnda, m.s. Aroni ÞH-105, frá 18. júní 2001, ýmist sem vélavörður eða yfirvélstjóri. Af hálfu stefnanda hefur komið fram að hann hafi farið að finna fyrir kviðsliti í mars 2002 sem hafi ágerst er á leið. Í ágúst sama ár hafi hann farið til læknis sem hafi ráðlagt honum að láta laga það með skurðaðgerð. Stefnandi kveðst hafa átt að mæta hjá lækni á Neskaupstað hinn 30. september s.á. og því hafi hann ekki farið í veiðiferð skipsins er hófst 25. september s.á. Stefnandi fór í aðgerðina á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað 9. október s.á. Hann kveðst hafa verið óvinnufær til 20. nóvember s.á. en 25. sama mánaðar hóf hann störf hjá öðrum atvinnurekanda í landi. Stefnandi kveðst síðan hafa þurft að gangast undir aðra aðgerð 15. janúar 2003.
Með bréfi, dagsettu 31. ágúst 2002, sagði stefndi stefnanda upp störfum frá og með sama degi. Ástæða uppsagnarinnar er þar sögð skipulagsbreyting á rekstri stefnda. Hinn 30. september s.á. fórst m.s. Aron hér við land. Stefndi greiddi stefnanda kauptryggingu ásamt orlofi í október s.á., samtals 100.255 krónur, sem stefndi kveðst hafa gert umfram skyldu.
Stefnandi krafði stefnda um meðallaun á uppsagnarfresti með bréfum lögmanns hans, dagsettum 4. apríl og 5. maí 2003, en með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 6. maí sama ár, var kröfunni hafnað. Aðalkrafa stefnanda í málinu er byggð á því að hann eigi rétt á meðallaunum í uppsagnarfresti. Til vara krefst hann veikindalauna í samræmi við ákvæði 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en hann hafi verið óvinnufær vegna veikinda frá 25. september til 25. nóvember 2002. Af hálfu stefnda er aðalkröfu stefnanda mótmælt og er í því sambandi vísað til þess að skipið hafi farist 30. september 2002 og sé því engin greiðsluskylda fyrir hendi frá þeim tíma samkvæmt 26. gr. sömu laga. Varakröfu stefnanda um greiðslu veikindalauna er hafnað af hálfu stefnda með vísan til þess að stefnandi hafi ekki tilkynnt um veikindin eins og honum hafi verið skylt að gera samkvæmt ákvæði í kjarasamningi um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra, vélavarða o.fl. á fiskiskipum milli Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af stefnanda hálfu er kröfugerð og málsástæðum lýst þannig að stefnandi krefjist aðallega greiðslu meðallauna í eftirstöðvum uppsagnarfrests. Nái sú krafa hins vegar ekki fram að ganga byggi stefnandi á því til vara að hann eigi rétt á greiðslu veikindalauna þann tíma sem hann hafi verið óvinnufær vegna skurðaðgerðar sem hann hafi gengist undir.
Stefnandi byggi aðalkröfu sína á því að hann hafi verið ráðinn á skip stefnda sem vélstjóri. Ekki hafi verið gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur, sbr. 6. gr. sjómannalaga, en hann hafi verið ráðinn til óákveðins tíma með þriggja mánaða uppsagnarfresti, sbr. 9. gr. sömu laga, og sé ekki um það deilt.
Með bréfi, dagsettu 31. ágúst 2002, hafi stefndi sagt stefnanda upp störfum. Samkvæmt því hefði ráðningu stefnanda átt að ljúka þremur mánuðum síðar, eða þann l. desember sama ár. Þegar skipið fórst hinn 30. september s.á. hafi tveir mánuðir verið eftir af uppsagnartímanum. Stefnandi telji stefnda bundinn við uppsögnina, en með uppsagnarbréfinu hafi stefndi skuldbundið sig til að greiða stefnanda laun í þrjá mánuði. Uppsögn sé ákvöð, sem bindi þann sem uppsögnina hafi gefið, þ.e. stefnda í þessu tilviki. Þótt heimilt sé að rifta ráðningunni, þrátt fyrir uppsögnina, gildi það eingöngu í þeim tilvikum að gagnaðilinn hafi vanefnt ráðningarsamninginn verulega. Uppsögn verði ekki dregin til baka eða ógilt, nema með samþykki þess aðila, sem hún hafi beinst að, þ.e. stefnanda, en það liggi ekki fyrir. Stefndi sé bundinn af þessari uppsögn og verði hún ekki marklaus, þótt skipið hafi farist, en engu breyti þótt kenna mætti óviðráðanlegum atvikum um það. Áhættuna af því að eitthvað komi fyrir á uppsagnartímanum beri sá aðili sem hafi sagt upp ráðningarsamningunum nema sá sem uppsögnin beindist að ætti sjálfur sök á því að atburðurinn gerðist. Að skip farist á uppsagnartíma skipverja sé rekstraráhætta sem stefndi sem útgerðarmaður skipsins verði að bera en ekki stefnandi.
Stefnandi byggi kröfu sína á því að stefnda beri að greiða honum meðallaun í uppsagnarfresti miðað við eigin aflareynslu síðustu mánaða á skipinu í samræmi við dóma Hæstaréttar. Deilt sé í heildarlaun hans síðustu mánuði með ráðningardögum hans til að finna út meðallaun hvern ráðningardag og síðan margfaldað með 60 dögum, þ.e. eftirstöðvum uppsagnarfrestsins. Stefnandi miði við tekjur sínar á árinu 2002, þ.e. tímabilið frá 4. janúar er skipið hóf togveiðar uns það fórst 30. september, eða u.þ.b. 9 mánaða tímabil. Í dómum Hæstaréttar hafi margoft komið fram að miða skuli við meðallaun í uppsagnarfresti við ráðningarlok en ekki lágmarkslaun.
Nái aðalkrafa stefnanda ekki fram að ganga krefjist stefnandi þess á grundvelli 36. gr. sjómannalaga að stefndi verði dæmdur til að greiða honum veikindalaun meðan hann var óvinnufær. Fyrir liggi í málinu að stefnandi hafi orðið óvinnufær 25. september 2002, enda hafi stefndi greitt honum veikindalaun til að byrja með. Stefnandi eigi samkvæmt 36. gr. sjómannalaga rétt á veikindalaunum í tvo mánuði og breyti engu þótt ráðningu stefnanda hafi lokið fyrr. Það varði heldur ekki missi veikindaréttar þótt tilkynnt hafi verið um veikindin í apríl 2003.
Aðalkrafan sé reiknuð þannig: Samkvæmt launaseðlum hafi laun stefnanda tímabilið 4. janúar til 30. september 2002 verið samtals 3.477.022 krónur. Ráðningardagar stefnanda á þessu tímabili hafi verið 266. Meðaltekjur hvern ráðningardag hafi því verið 13.072 krónur, þ.e. 3.477.022 krónur/266 dagar. Krafan sé því 13.072 krónur x 60 dagar = 784.320 krónur, auk 10.17% orlofs, 79.765 krónur, samtals 864.085 krónur, auk 6% + 2% (séreignahluti) hluta atvinnurekanda í lífeyrissjóð af 864.085 krónum = 69.127 krónur. Samtals sé krafan því 933.212 krónur, 864.085 krónur + 69.127 krónur, en frá þeirri tölu dragist laun frá 25. til 30. september 2002, 392.356 krónur/30 x 5 dagar = 65.393 krónur auk 100.255 krónur, sem stefndi hafi greitt stefnanda í október 2002. Samtals sé frádráttur 165.648 krónur og aðalkrafa stefnanda því 767.564 krónur. Þar sem skipið hafi farist og húftrygging þess hafi verið greidd, sé ekki um að ræða að stefnandi geti gert kröfu um sjóveð í skipi eða vátryggingafé.
Varakrafa stefnanda um veikindalaun byggi á því að stefnandi hafi átt rétt á þeim í tvo mánuði, eða frá 25. september til 25. nóvember 2002. Stefndi hafi greitt staðgengilslaun tímabilið 25. til 30. september 2002, eða 65.393 krónur, og 100.255 krónur í október s.á. Stefnandi eigi rétt á greiðslu kauptryggingar tímabilið 1. október til 25. nóvember 2002 að frádregnum 100.255 krónum. Kauptrygging sé 153.298 krónur á mánuði auk 10.17% orlofs, 15.590 krónur, eða samtals 168.888 krónur/30 dagar x 55 dagar = 309.628 krónur, að frádregnum 100.255 krónum, samtals 209.373 krónur.
Stefnandi byggi kröfur sínar á 6., 9., 25. og 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 en um orlof vísist til orlofslaga nr. 30/1987. Um dráttarvexti sé vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og um málskostnað til l. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt sé vísað til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af stefnda hálfu er málsatvikum lýst þannig að stefnandi hafi starfað sem vélavörður og yfirvélstjóri í afleysingum á skipi stefnda Aroni ÞH-105 frá 18. júní 2001 og fram til þess að skipið fórst 30. september 2002. Stefnanda hafi verið sagt upp störfum 31. ágúst 2002 með uppsagnarbréfi, en óumdeilt sé að uppsagnarfrestur stefnanda hafi verið þrír mánuðir. Gert hafi verið ráð fyrir að stefnandi ynni á skipinu út uppsagnarfrestinn, eða til loka nóvember 2002. Ófyrirsjáanleg breyting hafi orðið á því þar sem skipið hafi farist 30. september 2002 sem hafi leitt til þess að ráðningarsamningi stefnanda og annarra skipverja hafi verið slitið þann dag samkvæmt 26. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Stefndi mótmæli kröfum stefnanda og byggi sýknukröfuna á því að hann hafi efnt skyldur sínar við stefnanda samkvæmt sjómannalögum. Aðalkröfu stefnanda um að hann eigi rétt til launa eftir að skipið fórst sé mótmælt en þar hafi verið um ófyrirsjáanlegar aðstæður að ræða.
Varakröfu stefnanda um rétt til greiðslu veikindalauna sé einnig mótmælt en kynni stefnandi að hafa átt einhvern rétt hafi hann misst hann fyrir aðgerðarleysi. Stefndi hafi ekki greitt stefnanda veikindalaun í lok september eins og stefnandi haldi fram, enda hafi stefndi enga hugmynd haft um það að stefnandi hefði leitað læknis og ætti að fara í aðgerð í október. Stefndi hafi fyrst séð læknisvottorðin, sem lögð hafa verið fram í málinu, eftir þingfestingu málsins og engar kröfur hafi verið gerðar af hálfu stefnanda til greiðslu veikindalauna fyrr en með bréfi í byrjun apríl 2003. Hafi krafan komið stefnda mjög á óvart. Þegar stefnandi hafi haft samband við framkvæmdastjóra stefnda skömmu eftir miðjan október hafi ekki verið minnst á nein veikindi heldur hafi erindi stefnanda verið að þakka honum fyrir að hafa greitt sér kauptryggingu fram í miðjan október sem stefnda hafi ekki verið skylt að greiða. Stefndi hafi haft þann hátt á að greiða skipverjum tvisvar í mánuði, 7. og. 22. hvers mánaðar, upphæð sem svaraði til kauptryggingar. Fyrir 15. dag næsta mánaðar á eftir hafi aflahlutur verið gerður upp og innborganir sem svöruðu til kauptryggingar dregnar frá. Skipverjar hafi samkvæmt því fengið greiðslu tvisvar í mánuði hvort sem þeir hafi verið í fríi eður ei. Greiðslan hafi svo verið dregin frá við útreikning og uppgjör aflahlutar sem hafi verið reiknaður mánaðarlega. Skýring greiðslunnar í október hafi verið sú að stefndi hafi ákveðið að greiða fastráðnum skipverjum kauptryggingu í hálfan mánuð eftir að skipið fórst, eða til 15. október 2002. Hafi stefnandi verið einn þeirra sem hafi fengið þessa greiðslu. Stefnanda hefði borið samkvæmt gr. 1.43. í kjarasamningi, sem hér hafi gilt, að tilkynna strax skipstjóra eða útgerðarmanni um óvinnufærni. Það hafi stefnandi hins vegar ekki gert en fyrsta tilkynning, sem stefnda hafi borist, hafi verið með bréfi lögmanns stefnanda 9 mánuðum eftir að skipið fórst. Stefndi hafi uppfyllt lög- og kjarasamningsbundnar skyldur sínar við stefnanda og kynni stefnandi að hafa átt einhvern rétt hafi hann fyrirgert honum fyrir aðgerðarleysi.
Verði ekki fallist á sýknuástæður stefnda sé gerð krafa til þess að stefnda verði einungis gert að greiða stefnanda 202.666 krónur, sem samsvari kauptryggingu vélavarðar samkvæmt launatöflu í kaupskrá, að viðbættu 10,17% orlofi fyrir tímabilið frá 16. október til 20. nóvember 2002. Samkvæmt læknisvottorði fyrir stefnanda sé hann talinn óvinnufær til 20. nóvember 2002, en hann hafi fengið greidd laun til 15. október 2002 eða samtals 36 almanaksdaga. Kauptrygging sé 153.298 krónur á mánuði auk 10,17% orlofs, 15.590 krónur, eða samtals 168.888 krónur/30 dagar x 36 dagar = 202.666 krónur.
Krafist sé að vextir verði ekki reiknaðir fyrr en frá þingfestingardegi málsins og sé vísað til 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Stefndi styðji kröfur sínar við reglur samninga- og vinnuréttar og vísi jafnframt til kjarasamnings um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra, vélavarða o.fl. á fiskiskipum milli Samtaka atvinnulífsins, vegna aðildarfélaga LÍÚ og Vélstjórafélags Íslands og til 4., 9., 26., 28., 34. og 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Niðurstaða
Uppsögn stefnda hinn 31. ágúst 2002 hafði þau réttaráhrif að ráðningarsamningi stefnanda var slitið við lok uppsagnarfrests sem ágreiningslaust er að hafi verið þrír mánuðir. Af uppsagnarbréfinu verður ekki ráðið að með því hafi stefndi skuldbundið sig til að greiða stefnanda kaup á uppsagnarfresti hvað sem liði réttarreglum um heimildir hans til að slíta ráðningarsamningnum vegna atvika er síðar kynnu að verða. Uppsögnin verður því hvorki vegna lagafyrirmæla né af öðrum ástæðum talin hafa þau áhrif að hún breyti réttarstöðu stefnda gagnvart stefnanda þegar skipið fórst, en samkvæmt ótvíræðu ákvæði 1. mgr. 26. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 var ráðningarsamningnum slitið þegar það gerðist. Aðalkrafa stefnanda um greiðslu launa á þeim tíma sem eftir var af uppsagnarfrestinum þegar skipið fórst hefur þar með ekki lagastoð og ber því að sýkna stefnda af henni.
Ósannað er að stefnandi hafi tilkynnt stefnda um veikindin eða að fyrirsvarsmenn stefnda hafi haft vitneskju um þau fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsettu 4. apríl 2003, enda hafa engin gögn verið lögð fram af hálfu stefnanda um að svo hafi verið. Af stefnanda hálfu hefur komið fram að hann hafi látið yfirvélstjóra á skipinu vita af því að hann ætti að mæta í læknisskoðun og síðar að hann ætti að fara í aðgerð, en engin gögn hafa verið lögð fram af hans hálfu því til staðfestu. Verður að telja mikilvægt að tilkynning um veikindi komi fram án ástæðulausra tafa en stefnandi var frá störfum vegna þeirra og höfðu þau því áhrif á réttarstöðu málsaðila samkvæmt ákvæðum sjómannalaga og kjarasamningsins sem hér gildir og vísað er til að framan. Í 1. mgr. 1.43. gr. kjarasamningsins segir að verði vélstjóri óvinnufær af völdum veikinda eða meiðsla skuli hann tilkynna það svo fljótt sem verða megi skipstjóra eða útgerðarmanni. Ætli skipverji að neyta réttar síns vegna veikindanna samkvæmt 36. gr. sjómannalaga ber honum samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar að afhenda atvinnurekanda læknisvottorð óski hann þess. Samkvæmt gögnum málsins varð stefnandi óvinnufær vegna umræddra veikinda 25. september 2002 en hann fór aftur að vinna 25. nóvember sama ár. Engar aðrar skýringar hafa komið fram á því hvers vegna stefnandi tilkynnti stefnda ekki með sannanlegum hætti um veikindin fyrr en með framangreindu bréfi en þær að honum hafi hvorki verið kunnugt um tilkynningarskylduna né um veikindaréttinn. Stefnandi þykir ekki hafa fært fram haldbær rök fyrir þessum töfum. Verður því að telja að hann hafi af þeim sökum glatað rétti til að krefja stefnda um veikindalaun. Með vísan til þess ber einnig að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefnda, Knarrareyri ehf., er sýknað af kröfum stefnanda, Ágústs H. Borgþórssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.