Hæstiréttur íslands
Mál nr. 504/1998
Lykilorð
- Óvígð sambúð
- Fjárskipti
|
|
Fimmtudaginn 20. maí 1999. |
|
Nr. 504/1998. |
Friðjón Óli Vigfússon (Guðmundur Ágústsson hdl.) gegn Siggerði Pétursdóttur (Svala Thorlacius hrl.) |
Óvígð sambúð. Fjárskipti.
F og S slitu samvistir eftir 23 ára sambúð. Voru þau sammála um að skipta eignum til helminga. Ágreiningur reis um mat tiltekinna eigna, einkum hlutabréfa. Þau náðu samkomulagi um að fá tvo endurskoðendur til að meta eignirnar. Taldi S rétt að miða við tiltekinn dag, en þó skyldu eignirnar metnar í ljósi þess sem síðar hefði komið í ljós um raunverulegt verðmæti þeirra. Sætti þetta ekki andmælum af hálfu F.
F sætti sig ekki við mat endurskoðendanna og stefndi S honum til viðurkenningar á hlutdeild sinni í eignum samkvæmt því. Var fallist á kröfu hennar, enda þótti F hafa skuldbundið sig til að hlíta matinu, sem reist var á fyrrgreindum forsendum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 23. desember 1998. Hann krefst þess aðallega að viðurkenndur eignarhluti stefndu í sameiginlegum eignum hans og hennar við sambúðarslit 1. desember 1993 verði talinn nema 1.031.804 krónum. Varakröfur um viðurkenningu á hærri fjárhæðum eru raktar í héraðsdómi. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefnda hafði gjafsókn í héraði og fékk gjafsóknarleyfi fyrir Hæstarétti 19. febrúar 1999.
I.
Aðilar slitu samvistum í lok nóvember 1993 eftir að hafa búið saman í 23 ár. Þau áttu saman einn son barna er var uppkominn þegar upp úr sambúðinni slitnaði. Allar eignir og skuldir þeirra voru á nafni áfrýjanda. Stefnda hélt áfram að búa í einbýlishúsi, sem þau höfðu eignast á Reyðarfirði, en áfrýjandi flutti brott og hafði með sér bifreið og persónulegar eigur sínar. Þá hélt hann eignum sem ekki voru tengdar húsinu. Ágreiningur varð um eignaskipti. Eftir ítrekaðar samningstilraunir varð það loks að samkomulagi 1. október 1995 að þau tilnefndu löggiltan endurskoðanda og annan endurskoðanda til að meta eignastöðuna og legðu sameiginlega niðurstöðu þeirra til grundvallar við eignaskiptin. Verðmæti fasteignarinnar á Reyðarfirði átti þó að ráðast af söluverðmæti. Þar sem búskipti höfðu dregist og óvíst var um niðurstöðu gaf áfrýjandi út tryggingarbréf til handa stefndu að fjárhæð 4.235.570 krónur með veði í húseigninni til tryggingar helmingshlutdeild hennar í eignum búsins. Upphæð þessi var helmingur af hreinni eign áfrýjanda samkvæmt framtali vegna ársins 1993. Samkvæmt gögnum málsins varðaði ágreiningur aðilanna aðallega mat á hlutabréfum áfrýjanda. Í bréfi lögmanns stefnda 24. ágúst 1995 var það viðhorf reifað að miða skyldi mat við 1. desember 1993, en eignirnar þó metnar í ljósi þess sem síðar hafi komið í ljós um raunverulegt verðmæti þeirra. Ágreiningslaust er að í álitinu er verð á hlutabréfum ákveðið á þennan hátt. Fasteignin var síðar seld á uppboði og var eigninni úthlutað stefndu sem ófullnægðum veðhafa. Sætti það andmælum af hálfu Íslandsbanka hf. sem kröfuhafa og bíður úrlausn þeirrar deilu niðurstöðu máls þessa. Aðilar eru hins vegar ásáttir um að miða verðmæti fasteignarinnar við það sem fékkst fyrir hana á uppboðinu.
II.
Stefnda reisir kröfur sínar á samkomulagi aðila frá 1. október 1995 og niðurstöðu álitsgefenda samkvæmt því. Áfrýjandi hreyfði engum andmælum við forsendum þeim sem lýst er í bréfi lögmanns stefndu 24. ágúst sama ár og áður er frá greint. Var þó brýnt, ef áfrýjandi var ekki sammála þeim forsendum, að það kæmi fram við samningsgerðina. Með vísan til þessa og annars til forsendna héraðsdóms verður að viðurkenna skilning stefndu á samkomulaginu og leggja það þannig til grundvallar svo sem gert er í hinum áfrýjaða dómi.
Samkvæmt gögnum málsins hafa aðilar ekki reiknað með húsaleigu í uppgjörstilraunum sínum fyrr en áfrýjandi gerði það eftir að til málsins kom. Samkvæmt vottorði sonar aðila, sem frammi liggur í málinu og ekki hefur sætt mótmælum, hafði áfrýjandi fallist á að stefnda byggi í húsinu leigulaust. Krafa hans um húsaleigu þykir því ekki nægilega rökstudd og verður hún ekki tekin til greina. Þá ber að staðfesta ákvæði héraðsdóms um viðurkenningu veðréttar stefndu í fasteigninni Stekkjarbraut 8 á Reyðarfirði til tryggingar dómkröfu.
Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta hinn áfrýjaða dóm um annað en málskostnað.
Rétt þykir að áfrýjandi greiði stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem greiðist eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Friðjón Óli Vigfússon, greiði stefndu, Siggerði Pétursdóttur, samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti og renna þær í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal þóknun til talsmanns hennar í héraði, 500.000 krónur, og til talsmanns hennar fyrir Hæstarétti, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 1998.
Mál þetta sem dómtekið var 27. ágúst sl. er höfðað með stefnu birtri 5. mars 1998.
Stefnandi er Siggerður Pétursdóttir, kt. 171145-4659, Stekkjarbrekku 8, Reyðarfirði.
Stefndi er Friðjón Óli Vigfússon, kt. 120146-3199, Grænuhlið 9, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði að hreinn helmingshluti stefnanda af sameiginlegum eigum málsaðila skuli teljast vera 4.129.158 krónur. Þá er krafist staðfestingar á rétti stefnanda samkvæmt tryggingarbréfi sem hvílir á 3. veðrétti fasteignarinnar Stekkjarbrekku 8, Reyðarfirði, en þann 3. október 1995 gaf stefndi út tryggingarbréf að fjárhæð 4.235.570 króna fyrir áætluðum helmingshluta stefnanda í búi þeirra. Krafist er greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts eins og málið sé ekki gjafsóknarmál en stefnandi fékk gjafsóknarleyfi með bréfi dómsmálaráðherra dags. 17. febrúar 1997.
Dómkröfur stefnda eru þessar:
Aðalkrafa: Að viðurkenndur eignarhluti stefnanda í sameiginlegum eignum stefnda og stefnanda við sambúðarslit hinn 1. desember 1993 hafi numið kr. 1.631.804.- Til frádráttar þeirri fjárhæð komi vangreidd húsaleiga kr. 600.000.- Sameignarhlutur stefnanda verði því 1.031.804 krónur.
Varakrafa: Að viðurkenndur eignarhluti stefnanda í sameiginlegum eignum stefnda og stefnanda við sambúðarslit hinn 1. desember 1993 hafi numið 1.631.804 krónum
Þrautavarakrafa: Að viðurkenndur eignarhluti stefnanda í sameiginlegum eignum stefnda og stefnanda við sambúðarslit hinn 1. desember 1993 hafi numið 2.395.304 krónum. Til frádráttar þeirri fjárhæð komi vangreidd húsaleiga 600.000 krónur. Sameignarhlutir stefnanda verði því 1.795.304 krónur.
Þrautaþrautavarakrafa: Að viðurkenndur eignarhluti stefnanda í sameiginlegum eignum stefnda og stefnanda við sambúðarslit hinn 1. desember 1993 hafi numið 2.395.304 krónum.
Þrautaþrautaþrautavarakrafa: Að viðurkenndur eignarhluti stefnanda í sameiginlegum eignum stefnda og stefnanda við sambúðarslit hinn l. desember 1993 ákvarðist lægri en fram kemur í kröfugerð stefnanda í stefnu.
Um staðfestingu veðréttar í eigninni Stekkjarbrekku 8, Reyðarfirði er sú krafa gerð að sú staðfesting nái aðeins til þeirrar fjárhæðar sem viðurkennd verði með dómi að nemi hluta stefnanda í sameiginlegum eignum.
Sama hvernig málið fer er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krafðist þess í greinargerð sinni að máli þessu yrði vísað frá dómi en með úrskurði 22. maí 1998 var þeirri kröfu hrundið.
Málsatvik
Í stefnu er málsatvikum lýst svo að málsaðilar hafi kynnst sumarið 1965 og eignast son 10. ágúst 1967. Árið 1970 hafi þau hafið óvígða sambúð hjá foreldrum stefnanda á Reyðarfirði. Þau voru fyrst skráð saman með lögheimili 29. nóvember 1971, en samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands eru þau skráð í óvígða sambúð frá árinu 1972. Þau hafi fljótlega flutt í leiguíbúð á Reyðarfirði, en eignast nokkrum árum síðar eigið hús og búið þar saman óslitið til 30. nóvember 1993. Fyrir sambúðina hafi stefnandi átt innbú og bíl, en stefndi komið eignalaus inn í sambúðina og með einhverjar skuldir. Stefnandi hafi starfað hjá Pósti og síma fram til ársins 1979, en hafi eftir það unnið ýmis störf, en alltaf utan heimilis. Stefndi hafi starfað hjá Kaupfélagi Héraðsbúa á Reyðarfirði auk þess sem hann hafi unnið við og átt hlut í ýmsum fyrirtækjum, bæði á sviði fiskverkunar og ýmissa annarra framkvæmda. Vorið 1993 kvaðst stefnandi hafa haft spurnir að því að stefndi væri kominn í samband við aðra konu. Hún kvað stefnda hafa borið á móti því, en síðla hausts hafi hann lýst því að hann hefði hug á því að slíta sambúðinni. Hafi stefndi þá flutt að heiman um haustið og skráði stefnandi hann brottfluttan 30. nóvember 1993. Stefndi hafi boðið upp á þau búskipti að þau skyldu skipta milli sín að jöfnu íbúðarhúsi þeirra í Stekkjarbrekku 8 og innbúi. Hafi stefndi ekki talið sig þurfa að skipta öðrum eignum með stefnanda. Stefnandi hafi ekki verið sátt við þetta og talið að eftir 23 ára sambúð ætti hún kröfu á helmingaskiptum allra eigna, þar með talið verðbréfa og allra annarra eigna. Í febrúarlok 1994 hafi verið hafist handa við að komast til botns í eigna og skuldastöðu búsins. Við athugun skattframtala áranna 1993 og 1994 hafi komið í ljós að miklar eignabreytingar hefðu átt sér stað. Í árslok 1992 hefði hrein eign búsins verið 15.043.575 krónur, en í árslok 1993 hafi eignirnar verið komnar niður í 8.471.142 krónur. Hrein eign búsins hefði því lækkað um 6.572.433 krónur á einu ári. Telur stefnandi allt útlit fyrir að stefndi hafi eftir að hann fór að vera með annarri konu unnið að því að koma eignum búsins undan.
Þann 21. ágúst 1995 var af hálfu stefnanda lögð fram tillaga þar sem stungið er upp á að eignaskipti miðist við 1. desember 1993 þar sem stefndi hafi farið að heiman þann 30. nóvember 1993. Ennfremur var stungið upp á því að fenginn yrði sérfróður maður um verðbréfaviðskipti til að meta lausafé búsins og skuldir til verðs eins og staðan var á þeim tíma. Báðir aðilar myndu skuldbinda sig til að leggja mat þessa sérfróða manns til grundvallar skiptum. Sama dag barst fyrirspurn frá lögmanni stefnda þar sem nánar er spurt út í fyrirkomulag hugsanlegs mats. Fyrirspurnum lögmannsins var svarað með bréfi dags. 24. ágúst 1995 þar sem fram kemur að skv. upplýsingum endurskoðanda sé að mörgu leyti auðveldara að átta sig á verðmæti eigna eins og hlutabréfa eftirá. Síðan segir orðrétt "Viðmiðunin myndi verða 1. desember en eignirnar og þá á ég aðallega við verðbréfin metin í ljósi þess sem síðar hefur komið í ljós að var raunverulegt verðmæti þeirra. Þannig myndu t.d. hlutabréfin í Íslandsbanka metin með tilliti til þess sem síðar hefur komið í ljós varðandi verðmæti þeirra þ.e. til hækkunar og á sama hátt með verðmæti eignar í Vertökum hf., þ.e. til lækkunar."
Engin mótmæli bárust frá stefnda varðandi tilhögun þessa og var því gengið út frá því að hún væri samþykkt.
Samkomulag varð um að tveir sérfróðir aðilar könnuðu stöðu eigna og skulda og finndu þannig grundvöll eignaskiptanna. Stefnandi tilnefndi fyrir sína hönd Sigurgeir Bóasson löggiltan endurskoðanda en stefndi Vigfús Árnason hjá bókhaldsfyrirtækinu Gátum hf. en hann hafði um árabil haft með höndum og séð um bókhald og framtal stefnda og fyrirtækja hans og gjörþekkti því hans fjármál og stöðu eigna og skulda. Þann 1. október 1995 var undirritað samkomulag af báðum málsaðilum þar sem þau samþykkja að leggja til grundvallar við skiptin stöðu eigna þeirra og skulda eins og hún var þann 1. desember 1993 eins og hún er metin af fyrrgreindum aðilum sem þau tilnefndu til verksins.
Þar sem búskipti höfðu dregist og óvíst var hvenær niðurstöðu væri að vænta var samið um að stefndi gæfi út tryggingarbréf til stefnanda að upphæð kr. 4.235.570 með veði í fasteigninni Stekkjarbrekku 8, Reyðarfirði til tryggingar hennar hlut í eignum búsins. Upphæð þessi er helmingur nettó eigna skv. skattframtali stefnda árið 1994 og var samkomulag um að endanleg greiðsla stefnda til stefnanda myndi lækka eða hækka eftir því sem niðurstaða hins væntanlega mats myndi segja til um. Í framhaldi af samkomulagi þessu gaf stefndi út tryggingarbréf dags. 3. október 1995 og var því þinglýst á fasteignina Stekkjarbrekku 8, Reyðarfirði.
Þann 4. desember 1995 lá matið fyrir og komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að þann 1. desember 1993 hafi nettó eignir fyrir utan fasteignina Stekkjarbrekku 8, numið samtals kr. 4.860.270 eða að helmingseignarhluti hvors aðila auk fasteignarinnar væri kr. 2.430.135. Í matinu voru hlutabréf í Íslandsbanka hf. metin á nafnverði eða genginu 1.0. Hvorugur málsaðila hreyfði mótmælum við mati þessu.
Ekki leystist málið samt með þessum hætti og tók við ágreiningur um markaðsverð hússins, en vilji var fyrir því að stefnandi leysti til sín fasteignina. Þann 15. janúar 1996 gaf stefndi út skuldabréf að fjárhæð kr. 3.000.000 til Verslunarlánasjóðs með veði í Stekkjarbrekku 8 á grundvelli persónulegra ábyrgðar hans vegna fyrirtækisins Verktakar hf.
Þann 21. júní 1996 barst bréf frá lögmanni stefnda þar sem fram kemur að stefndi hafi yfirfarið málið í heild sinni. Hann hafi fengið staðfest frá verðbréfamarkaði Íslandsbanka að kaupgengi hlutabréfa í Íslandsbanka hf. hafi í desember 1993 ekki verið 1.0 eins og matsmenn geri ráð fyrir heldur 0.83. Þannig hafi matsverðhlutabréfanna átt að vera kr. 13.298.615 en ekki 16.022.428 eins og lagt var til grundvallar í matinu. Í útskrift frá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka sem sýnir þróun gengis hlutabréfa Íslandsbanka hf. og lögð er fram sem dómskjal nr. 63 kemur fram að gengi bréfanna hafi þann 1. desember verið 98 eða 0.98. Fram hefur verið lögð staðfesting frá Verðbréfaþingi Íslands í dómskjali nr. 64 kemur fram að opinbert gengi dagsins hafi verið 0.91.
Á meðan á deilum um eignaskipti stóð höfðu vanskil hlaðist upp og þann 16. júlí 1996 fór fram nauðungaruppboð á fasteigninni að Stekkjarbrekku 8. Stefnandi varð hæstbjóðandi og var henni slegin eignin á kr. 8.400.000. Samkvæmt frumvarpi sýslumannsins á Eskifirði dags. 6. ágúst 1996 til úthlutunar á söluverði var stefnanda úthlutað kr. 4.235.570 skv. tryggingarbréfinu á 6. veðrétti en eftirstöðvum söluverðs var ráðstafað upp í kröfu Íslandsbanka fyrir hönd Verslunarlánasjóðs. Íslandsbanki mótmælti úthlutuninni en þeim mótmælum var hafnað af sýslumanni. Íslandsbanki kærði úrlausn sýslumanns til Héraðsdóms Austurlands. Í greinargerð Íslandsbanka hf. til Héraðsdóms Austurlands kemur m.a. fram að stefndi hafi þegar hann gaf út verðskuldabréfið til Verslunarlánasjóðs að fjárhæð kr. 3.000.000 fullvissað bankann um að raunverulega væri engin skuld að baki tryggingarbréfinu. Það skal tekið fram að í símbréfum sem fóru milli lögmanna aðila þann 19. og 20. september 1996 og lögð eru fram í málinu að ekki er ágreiningur um það hvor aðili hafi greitt af lánum og gjöldum varðandi fasteignina Stekkjarbrekku 8 síðan upp úr sambúð slitnaði. Virðist því ágreiningur einungis vera um gengi hlutabréfa í Íslandsbanka hf. Þann 20. september 1996 reiknaði Sigurgeir Bóasson endurskoðandi út endanlega stöðu eigna og skulda búsins og komst að þeirri niðurstöðu að hreinn eignarhluti hvors aðila væri kr. 4.129.158 og er það stefnukrafa máls þessa.
Málsástæður og lagarök
Stefnandi byggir kröfu sína á því að hún og stefndi hafi búið í óvígðri sambúð á þriðja áratug og á þeim tíma hafi allar eignir bús þeirra myndast. Hún eigi því samkvæmt dómhelguðum réttarreglum rétt til helmings hreinnar eignar búsins. Áður hefur komið fram að ekki er ágreiningur um að helmingaskipti skuli fara fram en deilt er um fjárhæð eignarhlutans.
Með samkomulaginu frá 1. október 1995 hafi báðir aðilar skuldbundið sig til að hlíta þeirri niðurstöðu sem sérstaklega skipaðir matsmenn kæmust að um verðmæti eigna þeirra miðað við 1. desember 1993. Í samkomulaginu komi fram að meta skuli raunvirði hlutafjáreignar búsins þann 1. desember 1993. Ekki hafi átt að miða við markaðsgengi á Verðbréfaþingi eða það gengi sem Verðbréfamarkaður Íslandsbanka var reiðubúinn að greiða fyrir bréfin umræddan dag enda hefði ekki þurft tilstuðlan sérstakra matsmanna ef miða ætti við tölur frá verðbréfafyrirtækjum en þeirra sé auðvelt að afla án aðstoðar sérfróðra manna. Í niðurstöðu sinni komust matsmennirnir að því að raunverulegt verðmæti hlutabréfanna í Íslandsbanka hf. hafi þann 1. desember 1993 verið 1.0. Með hliðsjón af þróun á gengi hlutabréfa í Íslandsbanka sé ljóst að alls ekki hafi verið um ofmat að ræða. Lögð sé áhersla á það sem fram kom í bréfi lögmanns stefnanda frá 24. ágúst 1995 að hlutabréfin yrðu metin með tilliti til þess sem síðar hafði komið í ljós um verðmæti þeirra. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að í matinu séu hlutabréf í Verktökum hf. metin algerlega verðlaus en sú staðreynd hafi ekki verið orðin ljós þann 1. desember 1993. Einnig megi benda á að í matinu sé ábyrgðarskuldbinding vegna Verktaka hf. metin 1.266.615 krónur en stefndi hafi síðan gefið út skuldabréf að fjárhæð kr. 3.000.000 vegna ábyrgðarinnar.
Þá beri einnig að horfa til þess að matið hafi legið fyrir í desember 1995 og engum mótmælum verið hreyft við niðurstöðu þess þar til með bréfi lögmanns stefnda dags. 21. ágúst 1996 og verði að telja að stefndi hafi með athafnaleysi sínu í raun falist á niðurstöðu matsins
Stefndi hafi allt frá sambúðarslitunum haft undir höndum allt lausafé búsins og haft tækifæri á að fara með það og ávaxta eftir sínum hentugleikum. Fráleitt megi telja að réttmætt sé að miða við að stefndi hafi selt hlutabréf í Íslandsbanka hf. þegar þau hafi verið í sögulegu lágmarki. Gengi hlutabréfa í Íslandsbanka hafi frá sambúðarslitum verið á nokkuð stöðugri leið upp á við og verði ekki talið eðlilegt að við mat á búshluta sé miðað við dagsgengi í áður nefndu sögulegu lágmarki, ekki síst þegar horft sé til þess að stefndi hefur haft þessi verðmæti undir höndum alla tíð.
Þá verði jafnframt að hafa hliðsjón af því að niðurstaða matsmanna á eignum búsins sé í fullu samræmi við þá fjárhæð sem talin hafi verið til skipta þegar gengið var frá tryggingarbréfinu í október 1995. Eignarhluti hvors um sig hafi þar verð talinn nema 4.235.70 krónum en niðurstaða matsins var 4.129.158 krónur en þar skeiki aðeins 106.412 krónum til lækkunar.
Af hálfu stefnanda er vísað til reglna sifjaréttar um búskipti, einkum dómvenju um helmingaskipti eigna sambúðarfólks. Einnig er vísað til almennra reglna kröfu og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Þá er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um málskostnað og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og því sé henni nauðsynlegt að fá dóm fyrir skattinum.
Af hálfu stefnda er tekið fram að í máli þessu sé ekki deilt um það hvaða skiptingu skuli leggja til grundvallar búskiptum á milli stefnda og stefnanda eftir samvistarslit þeirra. Um það sé full sátt að helmingaskiptareglan skuli gilda. Hins vegar sé deilt um eftirtalið:
1. Um hvað var samið með samningi aðila frá 1. október 1995.
2. Hver var eignastaða búsins við sambúðarslit og hver var hlutur hvors aðila í eignum og skuldum.
3. Niðurstöðu "matsmanna" og gildi þeirra "matsgjörðar".
4. Hvaða tímamark lagt skuli til grundvallar skiptingu eigna og skulda.
Telur stefndi um fyrsta liðinn hér að ofan að samningur hans og stefnanda frá 1. október 1995 kveði skýrt á um að eignir skyldu verðlagðar við slit sambúðar hinn 1. desember 1993. Kveðst hann hvorki í orði eða prenti hafa samþykkt annað tímamark. Kveðst hann hafa staðið í þeirri trú framan af að "matsmenn" hafi í störfum sínum lagt þá dagsetningu til grundvallar en ekki aðra og síðari dagsetningu.
Að uppgjör eigi að miðast við lok sambúðar vísar stefndi til 101. gr. laga nr. 31/1993 og til 104. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum ofl.
Um annan liðinn hverjar eignirnar og skuldirnar voru við sambúðarslit telur stefndi að leggja eigi til grundvallar skráð gengi hlutabréfa við sambúðarslit 1. des. 1993, a.m.k. á þeim hlutabréfum sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands. Telur stefndi að "matsmönnunum" hafi borið að meta hlutabréfin í Íslandsbanka hf. á genginu 0.83 en ekki einhverju öðru gengi sem varð löngu síðar. Þá telur stefndi að "matsmennirnir" hafi gert mikil mistök við verðmat á hlutabréfunum í Sprota ehf. að meta þau á margföldu nafnverði þrátt fyrir að þeim hafi verið það fullljóst að stefnda var ómögulegt að selja bréfin á því verði. Telur stefndi að meta hafi átt þau bréf á nafnverði.
Um stöðu skulda þá telur stefndi ekki vera samræmi í mati "matsmannanna " Þeir telji rétt að meta hlutabréfin miðað við stöðu þeirra á árinu 1994 og 1995. Skuldirnar séu hins vegar miðaðar við 1. desember 1993. Telur stefndi það mjög óeðlilega niðurstöðu ef hann eigi að sitja uppi með skuldirnar, greiða af þeim vexti, afborganir ofl. og fá ekki notið afrakstur af eignunum á móti. Telur stefndi að vaxtagreiðslur og vísitöluhækkanir af skuldunum tímabilið frá 1. des 1993 fram til ágúst 1994 þegar gengi hlutabréfanna var 1.0 hafi vart numið lægri fjárhæð en kr. 1.500.000.
Stefndi telur jafnframt að leggja eigi til grundvallar stöðuna á ábyrgðarskuld við Búnaðarbanka Íslands eins og hún var hinn 1. desember 1993, þá kr. 4.549.000 en ekki kr. 3.000.000 eins og samkomulag var um að stefndi greiddi á árinu 1996.
Um þriðja liðinn hér að ofan telur stefndi álit hinna svokölluðu matsmanna verði ekki lagt til grundvallar búskiptum aðila. Fyrir liggur að þeir hafi ekki starfað í samræmi við samkomulag aðila frá 1. október 1995 að meta eignir og skuldir miðað við 1. desember 1993. Þess í stað hafi þeir miðað verðmæti eigna við annað tímamark án þess að uppfæra skuldir til samræmis.
Með vísan til ofangreinds og þess sem áður hafi verð rakið um "matsgerðina" liggi fyrir að niðurstöðu "matsmannanna" sé í svo veigamiklum atriðum áfátt að hún verði ekki lögð til grundvallar búskiptum aðila.
Stefndi vísar á bug því sem rakið er í stefnu að hinir sérfróðu aðilar hafi verið beðnir að meta hlutabréfin á þeim forsendum sem þeir gerðu. Jafnframt mótmælir stefndi því að hann hafi með því að óska eftir áliti þessara aðila afsalað sér rétti til að hafa uppi mótmæli við niðurstöðu þeirra.
Stefndi telur það eðlilega kröfu að stefnandi greiði húsaleigu fyrir þann tíma sem hún var í húsnæði þeirra að Stekkjarbrekku 8, Reyðarfirði. Á sama tíma og stefnandi hafi verið í húsinu hafi stefndi greitt húsaleigu. Fyrst á Reyðarfirði og síðan í Reykjavík, þegar hann flutti þangað.
Sundurliðun á kröfu stefnda:
|
Aðrar eignir, nettó skv. mati |
kr.4.860.270 |
|
Mismunur á yfirteknum veðskuldum |
kr.(96.929) |
|
Söluverð íbúðarhúss |
kr.8.316.000 |
|
Bygg.sj. ríkisins |
kr.(838.384) |
|
Reyðarfjarðarhreppur, fasteignagj. |
kr.(228.670) |
|
Ýmislegt greitt af Siggerði |
kr.(236.283) |
|
Ýmislegt greitt af Friðjóni |
kr.(517.688) |
|
Verslunarlánasjóður |
kr.(3.734.795) |
|
|
kr.7.523.421 |
|
Leiðrétting v. ofmats bréfa Íslandsbanka hf. |
kr.(2.732.813) |
|
|
kr.4.790.608 |
|
Helmingshlutur kr. 2.395.304 3) |
|
|
Hlutabréf í Sprota hf. lækki úr kr. 1.602.000 í kr. 75.000 eða hlutabréfin verði eign stefnanda |
kr.1.527.000 |
|
|
kr.3.263.608 |
|
Helmingshlutur kr. 1.631.804 2) |
|
|
|
kr.1.631.804 |
|
Lækkun vegna húsaleigu v. húss og innbús í 60 mán. kr. 30/000/2 |
kr.600.000 |
|
|
kr.1.031.804 |
Varakrafa:
1. kr. 1.081.804 sbr. sundurliðun. Að dregin verði frá stefnukröfum, leiðrétting vegna gengi hlutabréfa í Íslandsbanka hf., leiðrétting vegna gengis á hlutabréfum í Sprota ehf. og dregin frá húsaleiga vegna veru stefnanda í húsinu Stekkjabrekka 8, Reyðarfirði, frá sambúðarslitum og þar til eignin var seld nauðungarsölu samtals 60 mán.
2. kr. 1.631.804 sbr. sundurliðun. allt óbreytt frá 1) nema krafan um húsaleigu verði látin falla niður.
3. kr. 1.795.304 sbr. sundurliðun. Sleppt verði hlutabréfunum í Sprota ehf. en leiðréttingin vegna gengi hlutabréfanna í Íslandsbanka hf. og húsaleiguskuldin til staðar.
4. Kr. 2.395.304 sbr. sundurliðun. Lækkun vegna leiðréttingar á gengi hlutabréfa í Íslandsbanka hf.
5. Ef ekki verður fallist á kröfu stefnda um að lækka mat endurskoðendanna á hlutabréfunum í Íslandsbanka í 0.83 verði miðað við annað gengi bréfanna lægra en nafnverð þeirra og tekið inn breytingar á öðrum hlutabréfum til hækkunar/lækkunar.
Niðurstaða
Aðilar gerðu með sér samkomulag 1. október 1995 þar sem segir m.a:
"Við erum sammála um að leggja til grundvallar stöðu eigna okkar og skulda eins og hún var við sambúðarslit 1. des. 1993.
Þar sem óljóst er um raunverulega eignastöðu þá m.a. vegna mats á raunvirði hlutafjáreignar erum við sammála um að tilnefna þá Sigurgeir Bóasson löggiltan endurskoðanda og Vigfús Árnason endurskoðanda til að meta eignastöðuna og leggja sameiginlega niðurstöðu þeirra til grundvallar við eignaskiptin."
Þegar litið er til aðdraganda samkomulags þessa, þ.e. ítrekaðar tilraunir til þess að ná samkomulagi um þetta efni án árangurs, verður ekki annað séð en að ætlun aðila hafi verið sú að leggja það í gerð matsmanna hver eignastaða búsins hefði verið við sambúðarslit þeirra. Verður þess vegna hér á því byggt að aðilar hafi skuldbundið sig til þess að hlíta mati gerðarmanna á því hver verið hafi eignastaða þeirra 1. desember 1993 enda höfðu tilraunir til þess að leysa úr því með öðrum hætti engan árangur borið.
Ekki verður fallist á það með stefnda að gerðarmenn hafi verið bundnir við gengi hlutabréfa í Íslandsbanka hf 1. desember 1993 og hefur mati þeirra á verðmæti bréfanna ekki verið hnekkt né heldur matsniðurstöðu þeirra að öðru leyti og verður á henni byggt við úrlausn ágreinings þessa.
Þá liggur frammi í málinu útreikningur Sigurgeirs Bóassonar, endurskoðanda á því hver eignarhluti hvors aðila hafi verið þegar tillit hefði verið tekið til uppgjörs vegna nauðungarsölu á íbúðarhúsinu að Stekkjarbakka 8, Reyðarfirði en útreikning þennan er að finna í bréfi endurskoðandans dagsettu 20. september 1996. Niðurstaða endurskoðandans er sú að eignarhluti hvors um sig sé 4.129.158 krónur og er þar byggt á fyrrgreindu mati þeirra Vigfúsar Árnasonar, endurskoðanda frá 4. desember 1995, frumvarpi til úthlutunar á söluandvirði íbúðarhússins og þess sem aðilar höfðu greitt vegna sameiginlegra mála.
Gögn þessi veita viðhlítandi stoð undir kröfugerð stefnanda um að viðurkennt verði að hreinn helmingshluti hennar skuli teljast vera 4.129.158 krónur. Þá er viðurkenndur veðréttur í fasteigninni Stekkjarbraut 8, Reyðarfirði, til tryggingar ofangreindri fjárhæð.
Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu. Kostnaður hennar af málarekstri þessum er þóknun til lögmanns hennar, Kristjáns B. Thorlacius, hdl. alls 739.567 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Gjafsóknarkostnaður hennar 739.567 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til þess að greiða 739.567 krónur í ríkisjóð.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Viðurkennd er sú krafa stefnanda, Siggerðar Pétursdóttur, að hreinn helmingshluti hennar af sameiginlegum eigum þeirra stefnda Friðjóns Óla Vigfússonar skuli teljast vera 4.129.158 krónur. Réttur stefnanda samkvæmt tryggingarbréfi sem hvílir á 3. veðrétti fasteignarinnar Stekkjarbrekku 8, Reyðarfirði, er staðfestur fyrir 4.129.158 krónum.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda 739.567 krónur geriðist úr ríkisjóði. Stefndi, greiði 739.567 krónur í málskostnað til ríkisjóðs.