Hæstiréttur íslands

Mál nr. 341/2003


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Vinnulaun
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1.apríl 2004.

Nr. 341/2003.

Ásmundur R. Richardsson

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

Tækniháskóla Íslands

(Skúli Bjarnason hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Vinnulaun. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Á taldi laun sín hjá T hafa verið vanreiknuð og krafðist leiðréttingar þess. Að málatilbúnaði Á virtum þótti málið svo vanreifað af hans hendi að óhjákvæmilegt var að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og  Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2003. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.160.553 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. október 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður. 

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi á málið rætur að rekja til þess að áfrýjandi gerði samning 21. ágúst 2000 við stefnda, sem þá hét Tækniskóli Íslands, um tímabundna ráðningu sem kennari til eins árs frá 1. þess mánaðar að telja. Var áfrýjandi ráðinn til að kenna við rekstrardeild skólans tvær greinar, sem nefndar voru upplýsingatækni I og II, á meðan Eðvald Möller, sem mun hafa annast þær um nokkurn tíma, var í ársleyfi frá störfum. Skömmu eftir að áfrýjandi tók við starfinu reis ágreiningur milli aðilanna um útreikning launa hans, en hann telur þau hafa verið vanreiknuð á ráðningartímanum samtals um þær 1.160.553 krónur, sem hann krefst í málinu.

Samkvæmt því, sem segir í héraðsdómsstefnu, er málsókn áfrýjanda reist á því að „hann eigi rétt til að njóta launa til samræmis við reiknireglu þá sem notuð var áður en hann tók að sér starfið þar sem laun hans eigi að vera þau sömu og fyrirrennara hans.“ Reiknireglan, sem áfrýjandi vísar til í þessu sambandi, kom fram í bréfi deildarstjóra rekstrardeildar stefnda 18. nóvember 1998 til Eðvalds Möller. Þar var nánar tiltekið að finna lýsingu á því hvernig umreikna ætti fjölda fyrirlestra og verklegra tíma eftir kennslumati til vinnustunda, sem greitt yrði fyrir, en þó þannig að óumdeilt er í málinu að greiðsla fyrir vinnu, sem fór fram úr 1.031 reiknaðri klukkustund á kennsluönn, skyldi geymd til næstu annar, þar sem vinna næði ekki því marki. Þessu til viðbótar heldur áfrýjandi því fram að með bókun á deildarstjórnarfundi rekstrardeildarinnar 8. maí 2000 hafi verið staðfestar tilteknar breytingar á reiknireglunni vegna álags, sem fylgt hafi því að vægi áðurnefndra greina í námi hafi verið aukið úr 2,5 einingum í 3 einingar. Að auki telur áfrýjandi sig hafa átt rétt á greiðslu vegna prófa á hvorri starfsönn sinni, sem tæki mið af fjölda skráðra nemenda. Þessu andmælir stefndi, sem heldur því að öðru leyti fram að áfrýjandi hafi að fullu fengið greitt fyrir störf sín á haustönn 2000 eftir sömu reglum og giltu veturinn áður vegna starfa Eðvalds. Þá vísar stefndi til þess að kennslumati vegna umræddra námsgreina hafi verið breytt frá upphafi vorannar 2001, sem hann telur sér hafa verið heimilt að gera án tillits til afstöðu áfrýjanda, en samkvæmt nýju mati hafi hann fengið greitt fyrir alla vinnu sína á því tímabili.

Í málinu hefur áfrýjandi sett fram sundurliðaða útreikninga á þeim fjölda vinnustunda, sem hann telur kennslustörf sín á ráðningartímanum hjá stefnda hafa átt að svara til. Byggir hann þar á þeim skilningi, sem hann telur að leggja eigi í  áðurgreind gögn málsins. Þrátt fyrir þann grunn, sem hann leggur samkvæmt áðursögðu að málsókninni, að hann hafi átt að njóta launa, sem reiknuð yrðu eftir sömu reglum og giltu áður um störf Eðvalds Möller, hefur hann ekki fært fram viðhlítandi gögn um að þeim aðferðum við útreikninga, sem hann telur eiga að miða við, hafi í raun verið beitt við ákvörðun launa Eðvalds eða hvernig það hafi nánar verið gert. Þá skortir alveg á að áfrýjandi hafi gert fullnægjandi grein fyrir því hvernig launin, sem hann þáði úr hendi stefnda, voru í reynd reiknuð út, en úr því hefur heldur ekki verið bætt af stefnda. Af þeim sökum er ógerningur að afmarka svo viðhlítandi sé um hvaða nánari atriði ágreiningur stendur varðandi þessa útreikninga. Auk þessa hefur áfrýjandi í útreikningum á kröfu sinni talið sig eiga ógreidd laun fyrir alla vinnu, sem fór fram úr áðurnefndri 1.031 klukkustund á hvorri starfsönn hans, en samkvæmt málflutningi stefnda fyrir Hæstarétti fékk þó áfrýjandi við starfslok greiðslu fyrir þá vinnu, sem hann innti af hendi umfram þessi mörk og stefndi viðurkenndi að hafi réttilega verið reiknuð. Liggur því ekki ljóst fyrir hvort áfrýjandi kunni að hluta að hafa fengið greidda kröfuna, sem hann gerir í málinu. Að öllu þessu virtu er málið svo vanreifað af hendi áfrýjanda að óhjákvæmilegt er að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2003.

Mál þetta sem dómtekið var 10. apríl sl. er höfðað með stefnu þingfestri 19. mars 2002.

Stefnandi er Ásmundur R. Richardsson, Bakkastöðum 75, Reykjavík.

Stefndi er Tækniháskóli Íslands, áður Tækniskóli Íslands, Höfðabakka 9, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.160.553 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 121.624 krónum frá 1. október 2000 til l. nóvember 2000, af 243.248 krónum frá þeim degi til 1. desember 2000, af 364.872 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2000, af 486.496 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2001, af 611.016 krónum frá þeim degi til 1. mars 2001, af 735.536 krónum frá þeim degi til l. apríl 2001, af 860.056 krónum frá þeim degi til l. maí 2001, af 1.010.305 krónum frá þeim degi til 1. júní 2001, af 1.160.553 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og til vara er krafist stórfelldar lækkunar á dómkröfum. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

 

MÁLSATVIK

Stefnandi var ráðinn kennari við Tækniskóla Íslands í ágúst 2000 tímabundið til eins árs. Hann var ráðinn til kennslu í rekstrardeild skólans til kennslu á áföngunum Upplýsingatækni I og II í stað Eðvalds Möller sem fengið hafði ársleyfi frá störfum sínum. Kveður stefnandi aðdragandann að ráðningu sinni þann að Eðvald hafi haft samband við sig og óskað eftir að stefnandi yrði staðgengill Eðvalds meðan hann yrði í leyfi frá störfum. Ráðning stefnanda var staðfest á deildarstjórnarfundi hjá stefnda þann 8. maí 2000. Stefnandi kveðst hafa verið ráðinn á sömu kjörum og fyrirrennari hans í starfi en laun hans hafi verið reiknuð samkvæmt sérstakri reiknireglu sem notuð hefði verið við mat á áfanganum um nokurra ára skeið. Forsendur launareiknings stefnanda komi fram í bréfi deildarstjóra stefnda, Sverris Arngrímssonar til Eðvalds, dags. 18. nóvember 1998, með þeirri breytingu þó að umræddir áfangar höfðu verið stækkaðir úr 2,5 einingum í 3,0 einingar. Sú breyting hefði verið staðfest á deildarstjórnarfundi stefnda þann 8. maí 2000. Á þessum forsendum kveðst stefnandi hafa skrifað undir ráðningarsamning við stefnda, þann 21. ágúst 2000.

Á fundi með þeim Sverri og stefnanda þann 14. september 2000 hafi stefnanda verið tilkynnt að mati á áfanganum hefði verið breytt. Þessi breyting hafi verið rökstudd með úrskurði rektors stefnda dags. 13. september 2000. Þar hafi komið fram nýtt mat sem stefnandi hefði ekki séð áður án þess að breytingin væri rökstudd frekar. Þar sem breytingin hefði haft veruleg áhrif á kjör stefnanda hafi hann mótmælt samdægurs nýju mati með rafpósti til rektors. Rektor hafi svarað mótmælum stefnanda með rafpósti strax næsta dag. Greiðslutilkynning stefnda um vinnumat fyrir áfangann hafi í kjölfarið verið sett í pósthólf stefnanda í skólanum þann 18. september 2000 en stefnandi ítrekað mótmæli sín til deildarstjóra stefnda sama dag. Þar sem kennsla hafi þegar verið hafin er stefnanda voru kunngerðar breyttar forsendur ráðningarinnar hafi ekki verið um annað að ræða í hans huga en að halda áfram kennslu enda hafi hann talið á þeim tíma að um augljós mistök væri að ræða sem ekki ætti að reynast erfitt að fá leiðrétt. Stefnandi hafi dregið þá ályktun enn fremur af ummælum Sverris á deildarstjórafundi þar sem hann hafi aðspurður tjáð stefnanda að um misskilning væri að ræða og málið væri til skoðunar hjá rektor. Rektor hafi staðfest það með rafpósti, þann 25. september 2000, þar sem hann staðhæfði að stefnandi yrði boðaður til fundar um málið innan tíðar.

Stefnandi kveðst hafa leitað atbeina Félags tækniskólakennara og óskaði eftir áliti félagsins um rétt stefnda til að breyta kjörum kennara með þessum hætti. hafi það verið gert með rafpósti dags. 24. september 2000. Félagið sendi stefnda í kjölfarið bréf þar sem það beindi þeim tilmælum til stefnda að hann notaði sömu viðmiðun við útreikning vinnustunda og notuð hafði verið haustið 1999. Í millitíðinni hefði stefnandi fengið launaseðil vegna septembermánaðar, þar sem enn hafi verið notast við breytt vinnumat og hafi því verið mótmælt 1. október 2000. Bæði rektor og deildarstjóri hafi svarað fyrirspurninni næsta dag, sama dag og þeim hafði borist bréf Félags tækniskólakennara, en af svarbréfum þeirra hafi verið ljóst að stefndi ætlaði ekki að fara að tilmælum félagsins. Ennfremur hafi stefnandi verið upplýstur um að til stæði að breyta matsreglum vinnustunda fyrir næstu önn.

Stefnandi kveðst ekki hafa verið boðaður á fund það sem eftir lifði haustannarinnar þrátt fyrir fullyrðingar rektors þar um. Hafi ekkert verið hlutast til um að leysa ágreining þann sem kominn hafi verið upp við stefnanda að öðru leyti en því að tímar fyrir áfangann voru leiðréttir í átt að tilmælum Félags tækniskólakennara, þ. e. sami tímafjöldi var lagður til grundvallar og hafði áður verið. Ekkert hafi hins vegar frekar verið fjallað um breytingu reiknireglunnar að öðru leyti og niðurstaðan því verið sú að kjör stefnanda hafi skerst talsvert með einhliða ákvörðun stefnda.

Vorönn hafi hafist þann 9. janúar 2001 án þess að lausn hefði fengist á ágreiningi aðila. Þann 18. janúar 2001 hafi verið sett greiðslutilkynning í hólf stefnanda. Þar sem hún hafi hvorki verið í samræmi við fyrri reiknireglu sem notast hefði verið við á haustönn, hvað þá umsamin kjör stefnanda, hafi stefnandi sent enn á ný fyrirspurn til Sverris deildarstjóra um ástæðu misræmis þessa auk þess sem stefnandi hafi ítrekað mótmæli sín við greiðslutilhöguninni. Sverrir hafi svarað fyrirspurninni með því að framsenda til stefnanda skeyti rektors til sín ásamt viðhengjum. Viðhengin hafi annars vegar verið útleiðing á nýrri reiknireglu sem hafi verið til skoðunar og er það bréf dags. 7. nóvember 2000 og hins vegar óundirrituð tillaga að vinnuumati dags. 18. desember 2000. Þá fyrst keðst stefnandi hafa fengið upplýsingar um að reiknireglu vinnumats hefði enn aftur verið breytt og það án þess að breytingin væri borin undir stefnanda eða honum gefið tækifæri að koma að athugasemdum.

Í kjölfarið hafi stefnandi enn og aftur leitað til Félags tækniskólakennara með bréfi dagsettu 24, janúar 2001 þar sem óskað var atbeina þess við að ná fram leiðréttingu launa en án árangurs.

Stefnandi eigi rétt til að njóta launa til samræmis við reiknireglu þá sem notuð hafi verið áður en hann tók að sér starfið þar sem laun hans eigi að vera þau sömu og fyrirrennara hans. Til samræmis við það sé rétt að miða launaútreikning hans við reiknireglu sem komi fram í bréfi deildarstjóra stefnda til Eðvalds Möllers, 18. nóvember 1998, þó þannig að tekið sé tillit til breytinga vegna aukins álags sem staðfest hafi verið á deildarfundi 8. maí 2000.

Eins og þar komi fram skyldi miða útreikning við að fyrir hverja kennslustund skyldi greiða fjórar vinnustundir. Við endurtekningu en þá er átt við ef hóparnir eru fleiri en einn skyldi síðari kennslan greiðast að 90 hundraðshlutum. Sérstakt álag skyldi greiðast vegna sífelldra breytinga á áfanga en upprunalega hafði verið miðað við 2,5 einingar. Því hafi hins vegar verið breytt yfir í 3 einingar á deildarstjórafundi 8. maí 2000. Sé það sem nemi 11,03 hundraðshlutum af útreiknuðum vinnustundum. Vegna prófa skyldi greiða tæplega 20 stundir á hvern nemanda, þannig að 20 stundir voru margfaldaðar með 95 hundraðshlutum nemenda. Kennt hafi verið á hvorri önn í 13 vikur. Þá hafi að hámarki verið greiddar 1.031 vinnustund vegna hverrar annar en þær stundir sem umfram voru hafi verið geymdar til næstu annar vegna reglna um hámarksfjölda vinnustunda sem greiða hafi mátt á hverri önn.

 

MÁLSÁSTÆÐUR

Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að stefndi hafi einhliða breytt kjörum stefnanda í tvígang þannig að laun hans hafi orðið mun lægri en um var samið þegar hann réðst til starfa sem kennari hjá stefnda. Kjaraskerðingin hafi þannig verið ólögmæt og beri stefnanda að fá leiðréttingu launa sinna fyrir störf sín. Hann hafi innt af hendi vinnuframlag sitt miðað við þær forsendur sem legið hafi fyrir við undirritun starfssamnings og það hafi ekki breyst þrátt fyrir skertar tekjur.

Stefnanda hafi verið rétt að byggja á þeim launaútreikningi sem stuðst hefði verið við árin áður en hann tók við kennslu áfanganna. Sé sá útreikningur grundvöllur kröfu stefnanda um vangoldin laun. Þá hafi stefnda verið óheimilt að breyta reikniformúlu þeirri sem lá til grundvallar launaútreikningi hans með þeim hætti sem gert var.

Á því sé byggt að stefnandi eigi rétt til launa miðað við sama útreikning og stuðst hafði verið við árin áður en stefnandi tók að sér kennslustörf fyrir stefnda, þó með þeirri breytingu að áfangarnir hafi stækkað úr 2,5 einingum í 3,0 einingar. Sú breyting hafi jafnframt verið kynnt á deildarstjórafundi stefnda þann 8. maí 2000. Þetta hafi verið þau kjör sem stefnandi hafi lagt til grundvallar þegar hann skrifaði undir starfssamning við stefnda. Stefnanda hafi verið rétt að leggja reiknireglu þá sem notast hafði verið við áður en hann tók við starfinu til grundvallar enda hefði stefndi ekki rætt við hann um að hann yrði ráðinn á lakari kjörum en fyrirrennari hans. Hefði það verið tilætlan stefnda að lækka launin hefði honum verið í lófa lagið að taka það fram í ráðningarsamningi stefnanda og hafi honum jafnframt borið skylda til þess lögum samkvæmt. Vinnuveitanda sé skylt að skýra launþegum frá samningsskilmálum og ráðningafyrirkomulagi skv. tilskipun Evrópuráðsins frá 14. október 1991 um þá skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi (91/533/EBE). Þessu til staðfestingar hafi aðilar vinnumarkaðarins ennfremur gert með sér samkomulag dags. 10. apríl 1996 um skipulega ráðningarsamninga eða staðfestingu ráðningar og sé skylda stefnda ótvíræð skv. 2. gr. samningsins. Stefndi hafi ekki uppfyllt þessar skyldur sínar gagnvart stefnanda sem af þeirri ástæðu hafi getað treyst því að kjörin yrðu sambærileg eins og verið hefði undanfarin ár.

Ennfremur er á því byggt að staðið hafi verið að breytingu á mati á áfanganum með ólögmætum hætti. Með einhliða ákvörðun stefnda hafi laun stefnanda fyrst verið lækkuð þann 13. september 2000. Sagan hafi endurtekið sig 18. janúar 2001. Þessi breyting hafi átt sér stað án þess að hliðstætt endurmat færi fram á innihaldi og álagi áfanganna. Hafi breytingarnar þannig falið í sér lækkun launa á meðan vinnuframlagið og álagið hafi verið óbreyrtt. Þá sé við það miðað að breyting á útreikningsstuðli á greiðslu launa stefnanda hafi verið óheimill enda teljist öll atriði sem áhrif hafi á laun starfsmanns hluti af samningi hans samkvæmt almennum reglum vinnuréttarins. Þamig hafi breytingarnar verið háðar samþykki stefnanda. Hygðist stefndi breyta ráðningarkjörum stefnanda hafi honum borið að semja um slíkar breytingar við stefnanda sjálfan.

Stefndi sé háskóli og hafi starfað skv. sérstökum lögum nr. 66/1972 um Tækniskóla Íslands. Skv. 3. gr. laganna hafi rektor skólans farið með yfirstjórn á rekstri hans. Ennfremur hafi verið sett reglugerð nr. 278/1977 sem markaði grundvöll fyrir starfsemi skólans. Samkv. 26. gr. reglugerðarinnar, þá er það hlutverk kennslunefndar að meta vinnu kennara við kennslu. Kennslunefnd sé nánar tiltekið þriggja manna nefnd en í nefndinni eigi sæti, fyrir utan rektor skólans, einn fulltrúi tilnefndur af menntamálaráðuneyti en sá þriðji komi úr röðum deildarstjóra eða kennara stefnda. Sé skemmst frá því að segja að nefndin hafi ekki komið saman og Menntamálaráðuneytið ekki tilnefnt sinn fulltrúa. Af þessum sökum og eins og sjá megi af framferði rektors og deildarstjóra rekstrarsviðs hafi þeir, sökum þessa, hegðað sér eins og þeir séu einráðir um kjör kennara. Þannig hafi stefndi einnig orðið uppvís að ósannindum. En eins og sjá má af svari hans við fyrirspurnum stefnanda þá láti hann að því liggja að Félag tækniskólakennara hafi komið að og hlutast til um samningu nýs vinnumats. Hið rétta sé hins vegar að félagið hafi neitað aðild að gerð nýs vinnumats en tekið þá afstöðu að leggjast ekki gegn breyttu vinnumati. Hafi því ekki verið réttilega staðið að breytingum þessum og séu þær þegar af þeirri ástæðu ógildar.

Stefndi sé opinber stofnun og lúti yfirstjórn menntamálaráðherra. Samkvæmt því beri stefnda að fylgja eftir reglum stjórnsýsluréttar við ákvarðanatöku. Eins og sjá megi af málavaxtalýsingu stefnu þessarar hafi stefnandi aldrei fengið tækifæri til að koma að samningu nýs vinnumats eða koma að athugasemdum áður en ákvarðanir voru teknar. Fáist því ekki séð að stefndi hafi sinnt þeirri skyldu sinni að rannsaka málið til hlítar auk þess sem brotið hafi verið á andmælarétti stefnanda. Ein meginforsenda þess að mál hljóti rétta og sanngjarna afgreiðslu sé að það sé nægilega undirbúið og rannsakað. Hluti af nægjanlegri rannsókn hljóti að vera að afla upplýsinga hjá þeim sem málið varða. Ennfremur verði að gæta andmælaréttar þegar málefni varði svo mikilsverða hagsmuni sem mál þetta snertir, þ.e. afkomu fólks. Með framferði sínu telur stefnandi því að afgreiðsla stefnda á málinu brjóti í bága við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Stefnandi hafi ekki fengið vitneskju um breytingarnar fyrr en kennsla hafi verið hafin. Þegar af þeirri ástæðu gátu breytingarnar ekki haft réttaráhrif eins og stefndi hefur haldið fram. Í þessu sambandi vísar stefnandi til 20. gr. stjórnsýslulaga sem og þau almennu sjónarmið sem eigi við um einhliða kjarabreytingar en þær séu ígildi uppsagnar og hafi réttaráhrif eins og um uppsögn væri að ræða.

Samkvæmt framansögðu sé alveg ljóst að laun stefnanda hafi verið ranglega reiknuð sem leitt hafi til þess að kjör stefnanda voru lakari en um var samið. Beri stefnanda samkvæmt því að fá leiðréttingu launa sinna á því tímabili sem hann starfaði í þágu stefnda.

Krafa stefnanda byggir á rétti hans til endurgjalds vegna vinnu sinnar í þágu stefnda. Um greiðsluskyldu stefndu vísast til meginreglna vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga auk laga nr. 30/1987 um orlof. Um upplýsingaskyldu stefnda vísast til tilskipunar nr. 91/533/EBE sem og samkomulag aðila vinnumarkaðarins dags. 10. apríl 1996 um skipulega ráðningarsamninga eða staðfestingu ráðningar. Þá vísast ennfremur til laga um Tækniskóla Íslands nr. 66/1972 sem og reglugerðar nr. 278/1977 sem sett er með heimild í 13. gr. laganna. Um stjórnarhætti skólans vísast til almennra reglna stjórnsýsluréttar sem og laga nr. 37/1993. Krafa um vexti styðst við vaxtalög nr. 25/1987 sem og gildandi vaxtalög nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

Af hálfu stefnda er á það bent að stefnandi hafi ráðið sig til kennslu í Tækniskóla Íslands um eins árs skeið frá 1. ágúst 2000 til 31. júlí 2001. Um hafi verið að ræða fullt starf,  og hafi tímabundinn ráðningarsamningur þar um verið undirritaður þann 21. ágúst 2000. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur hafi verið 1 mánuður. Enginn ádráttur hafi verið gefinn af hálfu stefnda í undanfara ráðningarinnar um það hvernig stefnandi mundi uppfylla þá vinnuskyldu sem hann hafði tekist á herðar. Enn síður hafi verið um það rætt hvort um aukagreiðslur yrði að ræða eða hvernig væntanlegt vinnuframlag hans yrði yfir höfuð reiknað, enda hvoru tveggja að þá lá það ekki endanlega ljóst fyrir, en ekki síður hitt, að aldrei hafi verið um það spurt. Þegar stefnanda hafi verið kynnt það vinnumat sem fyrir lá varðandi þá áfanga sem hann hafði tekið að sér fljótlega eftir að kennsla hófst, eða þ. 13. september,  hafi hann brugðist illa við, þótt fyrir lægi að efnislega væri matið í samræmi við mat á öðrum áföngum við skólann og þær matsreglur sem liggi til grundvallar, sbr. reglur menntamálaráðuneytisins um mat á kennslu á háskólastigi frá 1975, sbr. og námsmatsreglur frá 13. mars 1979. Stefnandi hafi hins vegar talið sig eiga rétt til greiðslna í einhverju meintu samræmi við það sem fyrirrennari hans í starfi, Eðvald Möller, hefði þegið haustið áður. Þótt stefndi teldi þá kröfu ekki eiga sér neina stoð, féllst hann á, að því er hann taldi, til að forða frekari vandræðum og leiðindum, að greiða sambærilegan tímafjölda og gert hafði verið haustið áður, þótt hann teldi það umfram skyldu og ekki í samræmi við jafnræðissjónarmið. Taldi hann komna um það bærilega sátt milli sín og stefnanda að ljúka málinu með þeim hætti, enda var henni ekki mótmælt. Það fylgdi og sáttinni að mati stefnda að á vormissi tæki þá nýtt mat ágreiningslaust gildi, en í samræmi við það hafi stefnanda margsinnis verið kunngert að það stæði til.

Fljótlega upp úr áramótum 2000-2001 eða þann 19. janúar 2001, hafi sami ágreiningurinn verið uppi að því er vorönnina snerti. Stefnandi hafi samt haldið áfram störfum sínum út samningstímabilið, þótt honum hefði verið í lófa lagið að nýta sér hinn gagnkvæma eins mánaðar uppsagnarfrest.

Misskilnings virðist gæta hjá stefnanda vegna álagsstuðuls sem hann telur sig eiga rétt á vegna hækkunar á mati áfanga. Hið rétta sé að umrædd hækkun taki einungis til svokallaðra "bútamatsáfanga", en ekki annarra eins og þeirra þar sem miðað sé við hefðbundið mat. Áfangar stefnanda, upplýsingatækni, hafi tilheyrt seinna kerfinu.

Þá sé um að ræða reikni- og forsenduvillur sem felist í því að reiknað sé með of mörgum próftökum, fjöldi nemendahópa sé ranglega oftalinn og gildi verklegra tíma sé ofmetið.

Stefnandi haldi því fram að á haustönn 2000 hafi 102 nemendur verið skráðir í áfangann og þeim verið skipt í 14 manna hópa í verklegum tímum. Samkvæmt framlögðum próftökulista hafi 81 nemandi gengist undir próf. Í verklegri kennslu í tölvuverum sé að jafnaði gert ráð fyrir að fullnýta tölvukost viðkomandi vers, að jafnaði á bilinu 16 - 20 vélar. Hafi verið um annað fyrirkomulag að ræða eða smærri og fleiri hópa sé það á ábyrgð stefnanda. Í útreikningi stefnanda sé fyrsti verklegur tími reiknaður fjórgildur en eigi í hæsta lagi að vera þrígildur. Í öðru lagi sé endurtekin yfirferð reiknuð þrígild en eigi í hæsta lagi að vera tvígild. Þetta beri að leiðrétta. Sé hins vegar fallist á reikningsaðferð stefnanda að öðru leiði útreikningur vinnustunda haustannar til þess að stefnandi hafi fengið 64,5 vinnustundum meira greitt en hans eigin útreikningur gefi tilefni til eftir nauðsynlegar staðreyndaleiðréttingar. Geymdar yfirvinnustundir hafi færst yfir á vorönn vegna reglna um hámarks yfirvinnu.

Um vorönn 2001 sé eftirfarandi að segja

Fyrir vorönn hafi vinnumati verið breytt án þess að stefnandi brygðist við. Enn sé útreikningur sá sem settur er fram í kröfugerð stefnanda óljós og ekki í samræmi við neinar reglur sem farið sé eftir eða venjum um vinnumat kennslu. Fjöldi nemenda sé einnig rangt tilgreindur. Skráðir nemendur hafi í upphafi verið 136 en ekki 148 og af þeim hafi 118 tekið próf. Væri fallist á reikniaðferð stefnanda, þó með því að 11,03% álag eigi ekki við í þessu matskerfi, og þegar prófvinna er leiðrétt m. t. t. raunfjöldá nemenda eins og rétt er að gera, yrði vinnustundafjöldi hans á vorönn 2001 eins og sýnt er í töflunni hér að neðan samtals 1.160 og því ofgreiddar stundir 60, 7.

Ef kennsluárið 2000 - 2001 sé þannig gert upp í heild verði niðurstaðan sú að stefnandi hefur fengið samtals 125,2 yfirvinnustundum meira greitt en efni hafi staðið til.

Í meginatriðum sé notað tvenns konar mat á vinnu kennara í rekstrardeild. Annars vegar svokallað bútamat þar sem vinnumagn tiltekins áfanga er reiknað samkvæmt formúlunni:

V = (4,3 + n0,5 ) b + (8,75 + 0,75n)e

Hér er V fjöldi vinnustunda til greiðslu, b er fjöldi kennslubúta, e er einingafjöldi áfangans og n fjöldi nemenda. Kennslubútur er 70 mínútna fyrirlestur og 105 mínútna verkefnavinna með leiðsögn. Þetta kennslufyrirkomulag henti ekki í upplýsingatækni og sé því notast við mat samkvæmt almennum reglum um mat kennslu á háskólastigi.

Það mat sem í reynd hafi verið notað við útreikning vinnustunda fyrir kennslu stefnanda á vorönn 2001 hafi auk þessa byggt á lýsingu kennsluaðferða og nemendaverkefna sem stefnandi hefði sjálfur sett upp í eigin kennsluáætlun. Þar er kennslan tilgreind sem hér segir:

Fyrirlestratímar eru 2 á viku í 13 vikur. Með því að hver tími reiknast fjórgildur gefi þetta 104 vst.

Verkefnatímar séu 2 á viku á hvern hóp í 11 vikur. Þessir tímar hafi verið metnir þrígildir þó svo að ekki hefði verið óeðlilegt að meta þá tvígilda til samræmis við mat annarra verklegra æfinga. Endurtekningar reiknist tvígildar samkvæmt þeirri venju að endurtekin kennslustund er metin til 2/3 af þeirri fyrstu. Þannig sé fyrsta yfirferð metin til 66 vinnustunda og endurtekning til 44 vinnustunda fyrir hvern hóp umfram þann fyrsta. Þetta mat, sem hugsanlega geti verið álitamál, hafi í þessu tilviki verið viðhaft í því skyni að tryggja að hagsmunir stefnda yrðu ekki skertir.

Vinna við samningu og yfirferð prófa sé reiknuð með eftirfarandi aðfellu að matstöflu menntamálaráðuneytisins frá október 1974 um vinnu kennara við skrifleg próf á háskólastigi: Vinnumagn = 20 + 0,95*nemendafjöldi (= fjöldi úrlausna).

Vinna vegna framlagningar og yfirferða verkefna nemenda reiknist þannig að kennara reiknist 1 vinnustund fyrir samningu hvers verkefnis og 0,25 vinnustundir fyrir að yfirfara hverja úrlausn. Matsformúlan sé þannig sett saman úr þessum matsþáttum:

                Vinna vegna fyrirlestra:       104 vst

                Fyrsti dæmatími/verkl. tími  66 vst

                Hver endurtekning verkl.    44 vst

                Framlagning og yfirferð verkefna      (1,0 + 0,25n)d

                Skrifleg próf          20 + 0,95n

Hér er d fjöldi framlagðra verkefna (hjá stefnda = 8), og n er fjöldi nemenda eða úrlausna á skriflegu prófi. Með d = 8 verður vinnumatsformúlan því:

V= 198+44(h- 1)+2,95n

hér er h fjöldi nemendahópa í verklegum tímum.

Með því að nemendur hafi verið 136 samkvæmt skrá nemendaskrár við upphaf kennslu og að reiknað er með 16 nemendum í hverjum verklegum tíma, en það er sá fjöldi sem með góðu móti rúmist í tölvuverum án þess að vélum sé fjölgað, verði hópar í verklegu 9 talsins. Sé gert ráð fyrir að allir 136 nemendur hefðu skilað sér til prófs og leyst öll framlögð verkefni gefur framangreind formúla samtals 951,2 vst. Stefnandi fékk greiddar 949 vst. og megi því fallast á að vangreitt kunni að vera fyrir 2,2 vst. frá vorönn 2001. Á móti komi að aðeins 118 nemendur hafi skilað sér til prófs, og það að reikna með þeim fjölda í prófi lækki fjölda vinnustunda um 18*0,95 = 17,1 vst. Því sé ekki grundvöllur til að fallast á greiðslu umfram þær 949 stundir sem stefnanda hafi verið greiddar á vorönn 2001.

Eins og fram sé komið áður eigi álag á vinnumat einungis við um þá áfanga sem kenndir séu samkvæmt svokölluðu bútakerfi.

Kjarni þessa máls hljóti að vera sá, að mati stefnda, að því er hvergi haldið fram að mat skólans á viðkomandi áföngum hafi verið rangt. Því virðist málssóknin hvíla á því að stefnandi hafi samið með bindandi hætti um eitthvað annað og meira en honum bar. Því er mótmælt.

Stefndi telur að sýkna beri alfarið af kröfum stefnanda þar sem hann geti hvorki byggt kröfu sína á kjarasamningi aðila né á lagaheimildum né heldur á bindandi samningum aðila. Ekkert það sé að finna í kjarasamningi sem tryggi kennara greiðslur umfram föst laun og þær lágmarks aukagreiðslur sem fylgi föstum grunnlaunum eftir samsetningu og magni kennslunnar hverju sinni. Kennslumagnið og nánari samsetning kennslunnar sé fyrst og fremst ákvörðunaratriði skólans á hverjum tíma, enda fallist kennari á þá tilhögun fyrir sitt leyti, þ.e. ef um einhverja vinnu sé að ræða umfram þá vinnuskyldu sem fylgi ráðningarhlutfalli viðkomandi kennara, auk lögskyldrar aukavinnu. Slík regla eigi sér samsvörun á almennum vinnumarkaði þar sem launþegar geti almennt ekki gengið að annarri eða aukinni vinnu en fastri dagvinnu með sama hætti og vinnuveitendur geti almennt ekki krafist aukins vinnuframlags af hálfu launþega til lengri tíma nema innan þröngra marka. Öll frávik frá þessari grunnreglu vinnuréttarins verði að skýra þröngt. Eigi það raunar alveg sérstaklega við um kennslu á framhalds- og háskólastigi, þar sem óvissuþættir hljóti eðli málsins samkvæmt ávallt að vera margir. Þannig sé aldrei vitað fyrr en síðsumars og í sumum tilvikum ekki fyrr en að hausti hvaða fjöldi skrái sig í hvert námskeið, uppbygging námskeiða geti tekið breytingum, kennslumagn á hvern og einn kennara geti m.a. tekið breytingum eftir því hvernig gangi að koma saman stundatöflu, manna stundakennslu o.s.frv. Þá þurfi stöðugt að meta vægi einstakra námskeiða út á við gagnvart nemendum, en ekki síður inn á við gagnvart kennurum til þess m.a. að gæta samræmis. Þar þurfi m.á. að hafa í heiðri jafnræðisregluna. Breytingar á einu námskeiði geti þannig t.a.m. kallað á breytingar á mati á öðru námskeiði o.s.frv. Þannig sé starfsumhverfi kennarans síbreytilegt og hljóti alltaf að verða það. Aldrei hafi verið á vísan að róa með aukagreiðslur, ekki einu sinni í hópi elstu og reyndustu kennara skólans. Þar geti sveifla milli einstakra ára verið talsverð vegna fyrrgreindra þátta.

Stefndi telur þannig að fullkomlega hlutlæg rök hafi verið fyrir því mati sem lá til grundvallar þeim launagreiðslum sem stefnandi þáði úr hans hendi í samræmi við gildandi kjarasamning, en að auki hafi hann haft fulla heimild til þess að framkvæma og staðfesta þau möt sem þar lágu til grundvallar. Það geti því aldrei skapað stefnanda neinn bótarétt þótt eftirtekja hans af störfum í þágu stefnda hafi ekki verið í samræmi við hans persónulegu væntingar. Ef breytingar á mati einstakra námsáfanga gætu einungis orðið til hækkunar, nema af því leiddi bótaskylda gagnvart einstökum kennurum, hlyti það að skapa kyrking í skólastarfinu og hindra alla eðlilega framþróun.

Fallist dómurinn ekki á ofangreind sjónarmið styður stefndi varakröfu sína um stórfellda lækkun krafna þeim rökum að stefnandi geti aldrei átt meiri eða rýmri rétt en sem nemi mismun á meintum umsömdum launum og greiddum launum í einn mánuð, eða sem nemur samningsbundnum uppsagnarfresti. Styður stefndi það þeim rökum að meginreglur vinnuréttar og skaðabótaréttar og eftir atvikum kröfuréttar, mæli fyrir um skyldu til þess að takmarka tjón sitt. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að segja upp eða rifta vinnusamninginn ef hann taldi sig vanhaldinn. Þetta sé a.m.k. alveg ljóst að því er varði seinni önnina, fráleitt sé að halda áfram störfum eftir það sem á undan var gengið ef hann hafi verið þeirrar skoðunar að launakjörin stæðu ekki undir væntingum. Undirstrikað sé að forsenda þess að hægt væri að dæma stefnanda bætur yfir höfuð sé að mati stefnda sú að sannað teldist að stefndi eða lögmætur umboðsmaður hans hefði gert bindandi samning um tiltekin launakjör og óumbreytanleika þeirra í einhvern tíma, en um það hafi stefnandi sönnunarbyrði. Hvað sem öðru líði telur stefndi að stefnandi geti aldrei krafist bóta nema að því er haustmisserið varðar þar sem staðið hafi verið að vormisserinu með allt öðrum hætti eins og þegar sé komið fram.

Stefndi vísar m.a. til meginreglna vinnuréttarins og samningaréttarins, laga nr. 66/1972 um Tækniskóla Íslands, sbr. nú lög nr. 53/2002 um Tækniháskóla Íslands og reglugerðar nr. 278/1977 m.s.b., einkum 21., 23., 25., 26. og 28. gr. reglugerðarinnar. Auk þess vísar stefndi til starfsmannalaga nr. 70/1996, einkum 9., 17., 19., 41., 42. og 49. gr. og til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 1., 1., 26. og 27. gr. Um vexti er vísað til vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. nú lög nr. 38/2001, en um málskostnað er vísað til 130. gr., laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 en stefndi, sem er ekki virðisaukaskattskyldur, þarf auk málflutningslauna að fá dóm fyrir virðisaukaskattinum til þess að sleppa skaðlaus frá- málssókn þessari. Loks er vísað til kjarasamninga aðila, upphaflega frá 1. febrúar 1987, breytt 4. júlí 1997 og loks nýr samningur frá maí 2001, með gildistíma frá 1. apríl 2001.

 

NIÐURSTAÐA

Í 26. gr. reglugerðar um Tækniskóla Íslands sem sett er með heimild í lögum nr. 66/1972 um Tækniskóla Íslands sem var í gildi er atvik máls þessa urðu, eru fyrirmæli um kennslunefnd. Skyldi nefndin meta vinnu kennara við kennslu og önnur störf í þágu skólans til vinustunda. Í nefndinni áttu rektor skólans sæti, einn fulltrúi tilnefndur af menntamálaráðuneyti og einn deildarstjóri eða annar fulltrúi kennara. Skyldi skipta um síðastnefnda fulltrúann eftir þeim umfangsefnum sem um væri fjallað. Menntamálaráðuneytið tilnefndi aldrei fulltrúa í nefnd þessa en allt að einu tók hún til meðferðar endurmat á áfanga þeim sem stefnandi kenndi.

Stefnanda voru greidd laun á vormisseri 2001 í samræmi við mat nefndarinnar.

Enda þótt menntamálaráðherra hefði ekki skipað fulltrúa í nefndina leiðir það af reglugerðarákvæðinu að kennslunefnd hafði þetta verkefni og enda þótt hún væri ekki fullskipuð er ekki gert sennilegt að niðurstaða hennar um matið hefði orðið önnur ef svo hefði verið. Samkvæmt þessu þykja reglur stjórnsýsluréttar ekki leiða til þess að ákvörðun um endurskoðun sé ómerk.

Þá er til þess að taka hvort það að stefnandi var ráðinn tímabundinni ráðningu skiptir máli hér þ.e. að breyting sú er gerð var á matsreglum hafi verið óheimil gagnvart honum. Greiðsla fyrir áfanga þann sem stefnandi var ráðinn til að kenna tekur breytingum eftir ýmsum atriðum svo sem fjölda nemenda o.fl. og verður að játa stefnda nokkurt svigrúm að þessu leiti og ekki fallist á að farið hafi verið út fyrir eðlileg mörk við ákvörðun kennslunefndar eða að henni hafi verið óheimilt að hrófla við mati því sem beitt hafði verið áður.

Ljóst er í gögnum málsins að stefnandi deildi við skólayfirvöld um skilning á ráðningarkjörum og að sátt varð um það að á haustönn skyldu þau óbreytt. Mátti honum enn fremur vera það ljóst að stefndi hugði á breytingar á vorönn 2001, sbr. bréf rektors dagsett 2. október 2000 og er kröfu hans vegna frekari greiðslu launa á vormisseri 2001 en hann hefur þegar fengið hafnað.

Um haustönn 2000 er það að segja að ákvörðun kennslunefndar um breytingu á mati á áfanganum var afturkölluð og samkomulag varð um að miða við uppgjör á árinu 1999. Kemur fram í bréfi stefnanda dagsettu 7. mars 2001 til Bandalagas Háskólamanna að deila sem var með aðilum um greiðslu fyrir kennslu á haustönn 2000 væri leyst þ.e.a.s. að hinni nýju vinnumatsreglu sem kennslunefnd hefði ákveðið yrði ekki beitt þá um haustið. Í bréfi deildarstjóra rekstrardeildar Tækniskóla Íslands til Eðvalds Möller, dagsettu 18. nóvember 1998 er að finna forsendur útreiknings þess sem beitt var haustið 1999. Stefnandi byggir á því að auk þess sem þar greini beri honum greiðslur vegna yfirferðar prófúrlausna en ágreiningslaust er í málinu að stefnandi hafi á þessu tímabili átt að fá viðbótargreiðslu sem næmi 10,77% af metnum tímafjölda til að vega upp á móti því að einingamat áfangans hækkaði úr 2,5 í 3 einingar. Ekki verður fallist á það með stefnanda að samningar aðila hafi falið í sér að greiða bæri sérstaklega fyrir yfirferð prófúrlausna enda slíkt ekki nefnt í fyrrgreindu bréfi frá 18. nóvember 1998. Þykir skorta sönnun um að stefnanda hafi borið sérstök greiðsla fyrir yfirferð prófúrlausna enda kemur fram í gögnum málsins að greiðslumat fyrir áfanga þann sem stefnandi kenndi og greiðslur til hans voru byggðar á var umtalsvert hagfelldara honum en almennt gilti um kennslu hjá stefnda.

Samkvæmt öllu framansögðu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann eigi vangreidd laun hjá stefnda og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda og eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

DÓMSORÐ

                Stefndi, Tækniháskóli Íslands, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Ásmundar R. Richardssonar. Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.