Hæstiréttur íslands
Mál nr. 446/1998
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 20. maí 1999. |
|
Nr. 446/1998. |
Ragnar Edvardsson (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Ómerking. Heimvísun.
Máli vísað heim í hérað þar sem dómsuppkvaðning hafði dregist fram yfir þann frest sem kveðið er á um í lögum um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. nóvember 1998. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.500.000 krónur og auk þess aðallega dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 16. apríl 1987 til greiðsludags, en til vara vexti samkvæmt 7. gr. sömu laga til þingfestingardags máls þessa í héraði 15. apríl 1997 og dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og að málskostnaður verði látinn falla niður.
Mál þetta er dæmt án sérstaks málflutnings á grundvelli niðurlagsákvæðis 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málið var tekið til dóms við lok aðalmeðferðar fyrir héraðsdómi 25. júní 1998. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 11. ágúst sama ár, eða sex vikum og fimm dögum eftir dómtöku málsins. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 ber að flytja mál munnlega á ný ef dómur er ekki kveðinn upp í því innan fjögurra vikna frá dómtöku þess nema dómari og aðilar telji þess ekki þörf. Ekkert liggur fyrir í málinu um að aðilar hafi ekki talið þörf á að flytja það á ný áður en dómur yrði felldur á það. Verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera ómerkur, og er málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppsögu dóms að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.